Slátrun ársins

Í Svíþjóð eru veitt verðlaun fyrir slátrun ársins. Årets sågning. Sá bókmenntagagnrýnandi sem þykir hafa gengið hreinlegast til verks, svo að segja, fær verðlaun. Gyllta sög, skilst mér. Í Svíþjóð slátra gagnrýnendur ekki heldur saga.

Að þessum verðlaunum stendur hlaðvarpið Gästabudet – þær Mikaela Blomquist og Lyra Ekström – en með þeim í dómnefnd situr rithöfundurinn Agri Ismaïl. Verðlaunin voru fyrst veitt í fyrra. Þá fékk Anders Mortensen verðlaunin fyrir sögun sína á ævisögu Jespers Högström um skáldið Gunnar Ekelöf. Vel að merkja mun Mortensen þessi sjálfur vera með bók í smíðum um Ekelöf. Í ár var það svo Gunilla Kindstrand sem fékk verðlaunin fyrir sína sögun á sjálfsævisögulegri skáldsögu/ritgerð Daniels Sjölin, Fältskärsv. Sú fjallar meðal annars um misnotkun sem höfundur/sögumaður/báðir verður fyrir sem barn – af hendi annars barns (sem bæði eru á forskólaaldri, ef mér skjátlast ekki). Ég hef ekki lesið þá gagnrýni – hún er handan gjaldmúrs – og ekki heldur bókina svo sennilega ætti ég ekki að hafa mörg orð um hana. Auk þess kannast ég lítillega við Sjölin sem ég kann vel við og það sem ég hef lesið eftir hann finnst mér gott.

Til verðlaunanna var stofnað til þess að auka á umræðuna og Daniel tók því boði og hefur meðal annars gagnrýnt að svo virðist sem aðstandendur Gästabudet hlaðvarpsins lesi ekki bækurnar sem eru til umfjöllunar, heldur bara gagnrýnina – og þetta vill hann meina (í grein í Expressen) að sé almennt mein í sænskri bókmenntaumræðu og vísar sérstaklega til greinar sem Blomquist birti í október þar sem hún biður um „värdelös litteratur“ – altso bókmenntir sem hafa ekkert gildi, eru ekki baráttutól eða sálfræðileg útrás, í stað bóka einsog Fältskärsv og fleiri. Þá spyr hún sig hvers vegna engin setji spurningamerki við það hvort 4-5 ára gamalt barn sé einu sinni fært um kynferðisofbeldi.

En já. Almennt mein, segir Sjölin. Hann segir álitsgjafa eftir álitsgjafa mæta fullyrðingaglaðan á vígvöllinn til að segja skáldsögur/ fagbækur/ ljóðabækur vera rusl, meira og minna, en ráði svo ekki við að benda á eitt einasta dæmi (annað en Guðrún Helgadóttir í pistlinum sem vitnað var til í síðustu færslu).

Það vill til að sænsk bókmenntafjölmiðlun verðlaunar upphrópanir – og oft verður úr því heilmikið og skemmtilegt húllumhæ svo menningarumfjöllunin endar á forsíðum. Ég man t.d. eftir umfjöllun um nýjar Danteþýðingar sem voru margsinnis á forsíðu annað hvort Expressen eða Aftonbladet. Ef maður vill vera fullyrðingaglaður er leiðin inn í kastljós menningarsíðnanna greið.

Mikaela Blomquist svaraði auðvitað Sjölin og sagði það alls ekki satt að hún læsi ekki bækurnar sem hún fjallaði um – hún hefði bara alls ekki verið að fjalla um bókina hans heldur það tilfinningaþrungna tungutak sem var notað til að lýsa henni. Ég held að þar séu þau Daniel ekki ósammála um neina eiginlega staðreynd – Daniel finnst bók sín vera til umfjöllunar þegar gagnrýni um hana er til umfjöllunar, en Mikaelu finnst það ekki.

Ég veit ekki hvort „årets sågning“ á sér fyrirmynd í breskum verðlaunum sem kölluðust „hatchet job of the year“ – á ensku er hvorki sagað né slátrað, heldur unnið með öxi. Að þessum verðlaunum stóð síðan Omnivore. Hvað sem fyrirmyndum líður tala þær stöllur í Gästabudet meira um mikilvægi þess að upphefja vitræna bókmenntaumræðu en að þær fagni eigin þórðargleði – alæturnar með axirnar voru agressífari og vildu „hvassa, fyndna og heiftúðuga texta“ (sú tegund af kvikindislegri gagnrýni er auðvitað þjóðarsport í Bretlandi, mörgum til ama en öðrum til gamans). Bresku verðlaunin voru skammlíf, einungis afhent þrisvar sinnum á árunum 2012 – 2014, og eitthvað segir mér að þetta verði ekki mikið langlífara prójekt í Svíþjóð.

Mér finnst sjálfum áhugavert að á sama tíma og Gästabudet verðlaunar neikvæða gagnrýni gera þær sér far um að hæðast að óþarflega (að þeirra mati) jákvæðri gagnrýni. Kannski vegna þess að sjálfum finnst mér volga gagnrýnin leiðinlegust – sú ástríðulausa sem felur fagurfræði sína jafnvel á bakvið uppgerðarhlutleysi og ver sig þannig fyrir öllum fagurfræðilegum debatt: þetta er ekki fagurfræðilegt mat, þetta er hámenntuð úttekt á faktískum eiginleikum. Ég vil miklu heldur öfgarnar – og endilega að fólk svari gagnrýni hástöfum (ef ekki aðrir gagnrýnendur eða almennir lesendur, þá bara höfundarnir sjálfir).

En þegar ég hugsa út í það gef ég sjálfur næstum öllum bókum 3-4 stjörnur á Goodreads – og nánast aldrei svara ég gagnrýnendum mínum – svo ég er kannski ekki sjálfum mér samkvæmur. En líklega er ég líka lunkinn við að sjá fyrir hvað mér finnist gaman að lesa – og niðurstaðan væri áreiðanlega önnur ef ég fengi eitthvert slembival í hendurnar.

Pervert

Í gær sló ég orðinu hér að ofan upp á Tímarit.is (einhverjir myndu segja að erindi mitt hafi verið viðskiptalegs eðlis) og rakst á grein eftir Guðrúnu Helgadóttur í Þjóðviljanum, 2. desember 1964, sem heitir „Nokkur orð um góða bók og vondar bækur“. Einsog vænta mátti af Guðrúnu var þetta tæpitungulaus grein. Hefst hún á því að hún segist hafa nýlesið bók Hannesar Péturssonar um Steingrím Thorsteinsson, sem hún hafi hrifist mjög af. Svo heldur hún áfram:

Eftir að ég las þessa bók, hefur sú hugsun orðið æ áleitnari við mig, hvort það væri ekki mikil blessun menningu okkar […] ef færri bækur kæmu út á Íslandi en nú gerist. Væri það ekki stórkostlegur menningarauki, ef bókaútgáfa Íslendinga drægist saman um helming, en þær bækur sem út væri gefnar, hefðu eitthvert menningarlegt gildi? Það er ekki vafi á því, að bókaflóð það, sem nú æðir yfir þjóðina, er að eyðileggja allan lestur í landinu. […] Við hrósum okkur af mörgu, og m.a. af því að við séum heimsins mesta bókaþjóð. Það getur satt verið, þó að ég viti það ekki með vissu, að meira sé gefið út af bókum á Íslandi miðað við höfðatölu en í öðrum löndum, en hitt er jafnvíst, að það er meira gefið út af ómerkilegu rusli á Íslandi en annars staðar. Og því miður er raunin sú, að góðar bækur týnast og gleymast í öllu ruslinu. Getur hver maður gert sér það ómak að líta yfir „jóla“-bókalistann í ár. Er nú svo komið, að svo virðist sem hver sá, sem lætur flæða úr penna sínum, komi því á almennan markað. Er ekki kominn tími til að stöðva þessi ósköp? Svo langt hefur ósvífni þessara höfunda gengið, að húsmæður bæjarins setjast niður, rissa upp hundruð blaðsíðna af ómerkilegu og heimskulegu þvaðri og lýsa því síðan yfir í viðtölum við blaðamenn, að þær hafi vantað peninga fyrir eldhúsinnréttingu. Og þetta vill bókaþjóðin lesa. Til þess að enginn þurfi hér að geta í eyðurnar, á ég hér við bækur Ingibjargar Jónsdóttur, og þetta mega einnig taka til sín Magnea frá Kleifum, Guðrún A. Jónsdóttir og fleiri slíkir höfundar. Þá mætti og minnast á ævisagnaskrifin um menn, sem fátt eitt hafa gert sér til ágætis annað en að sanka að sér fé, já, jafnvel sýna atorku við að drekka brennivín (Jón Kristófer) og jafnvel selja það. Verst er, að höfundar, sem áður höfðu skrifað eitthvað einhvers virði, hafa lagt sig niður við að semja slík verk, annaðhvort af andlegu gjaldþroti eða peningaskorti.

Greinin er lengri. Og orðið „pervert“ kemur ekki fyrir strax – það birtist ekki fyrren Guðrún fer að biðja um betur skrifað klám.

Verandi áhugamaður um hispursleysi fannst mér þetta skemmtilegt aflestrar – þótt ég þekki ekki höfundana sem Guðrúnu er svo uppsigað við. Stutt innlit á skáld.is segir mér að Magnea hafi þarna bara skrifað tvær bækur og að Ingibjörg Jónsdóttir hafi verið með fyrstu höfundum til að skrifa vísindaskáldskap – en báðar virðast þær fyrst og fremst hafa fengist við ástarsögur fram til þessa. Ingibjörg segist í viðtali í Fálkanum sama ár alls ekki vera rithöfundur.

Rithöfundar skrifa góðar bækur, sem þeir ganga með tímunum saman, en það geri ég ekki. Ég skrifa heldur ekki góðar bækur. Ég skrifa bækur sem fólkið styttir sér stundir við að lesa, og það kaupir þær. Hvers vegna veit ég ekki, en það er ekki vegna þess að þær séu vel skrifaðar.

Ekki veit ég hvað Jón Kristófer skrifaði – um hann skrifaði Steinn Steinarr frægt ljóð – en það er erfitt að grafast fyrir um hitt af því hann hét ekki Jón Kristófer (og ekki Kadett heldur) heldur Jón Sigurðsson og Leitir kannast ekki við neinar bækur eftir Jón Sigurðsson fæddan 1912. Og á skáld.is er einungis haldin skrá yfir konur sem hafa skrifað.

Það vill til að í þessum sama Þjóðvilja er greinarstúfur um bóksölu í borginni og blaðamaður hringir í nokkrar bókaverslanir til þess að spyrja hvað sé söluhæst og kemst að þeirri niðurstöðu að það sé „tvístirnið“ Guðrún frá Lundi, með bókina Hvikul er konuást, og Thorolf Smith, sem hafði þá gefið út bók um John F. Kennedy. Þá mun líka vinsæl bók sem er skrifuð upp úr sjónvarpsþáttunum The Untouchables – en þeir eru að gera allt vitlaust í kanasjónvarpinu. Þessar bækur nefnir Guðrún vel að merkja ekki.

Það er áhugaverð hugmynd sem ég heyri alltaf af og til að íslenskum bókmenntum færi betur að ´út kæmu færri bækur. Mér finnst nota bene líklegt að árið 1964 hafi komið út miklu færri bækur en árið 2024. Og mér finnst líklegt að fólk hafi lesið meira. Í dag er samt miklu algengara viðhorf að fleiri titlar myndu auka lestur – sérstaklega þegar litið er til barnabóka. Bækur eiga að höfða til ólíkra einstaklinga og á öld einstaklingshyggjunnar erum við öll svo ólík að það þyrfti kannski einn titil ´a mann. Eða fimmtíu á mann á ári svo maður verði aldrei uppiskroppa. Þetta gæti gervigreindin áreiðanlega gert. Klæðskerasniðnar bækur.

Þegar fólk biður um færri bækur er það gjarnan ákall til útgefenda og í einhverjum skilningi ákall um að ritstjórum sé hlíft við því að ritstýra 40 bókum á ári (eða hvað það er sem þeir er ætlað að afkasta). Að hver bók verði alvöru prójekt og öllu kostað til að hún verði eins fullkomin og frekast er unnt – frekar en að hún sé bara jafn fullkomin og við höfum tíma og fjárráð til að þessu sinni.

Svo er auðvitað augljóst af strúktúrnum í kringum listamannalaunin að höfundar eru verðlaunaðir fyrir að halda áfram að framleiða. Markaðurinn – bæði metsölumarkaðurinn og sá sem greiðir fyrst og fremst út í menningarauðmagni – gleymir höfundum á augnabliki, jarðsetur bækurnar hverja á fætur annarri allt jólabókaflóðið og urðar svo restina í kyrrþey í janúar. Gleymdur höfundur fær ekki listamannalaun og getur fátt annað gert til að minna á sig en að pósta einhverju deilanlegu (frekar en umdeilanlegu) á Facebook.

En auðvitað er ekkert sem segir að bækur batni alltaf við meiri vinnslutíma – þær geta allt eins versnað, orðið kreistnar eða tilgerðarlegar og bólgnað út eða verið skornar óhóflega niður. Eða að höfundar sem gefi út eina bók á áratug skili betra verki en þeir sem rusla út einni  – eða tveimur! – á ári. Þetta er bara alls konar.

Hins vegar bergmála gjarnan í mér hugmyndir Wills Self um að skáldsagan hafi dáið þegar fólk hætti að snobba fyrir henni – þegar hún hætti að vera heilög og varð einsog hver önnur neysluvara, hvert annað smjörlíki. Að mikilvægi hennar hafi líka verið performatíft – hún hafi skipt máli vegna þess að við leyfðum henni að skipta máli. Og að hún hafi einungis „dáið“ útávið – og orðið að sérhæfu hobbíi frekar en einhverju sem átti almennt erindi. Hann átti sumsé ekki við að skáldsögur 21. aldarinnar væru verri bækur, bara að þær hefðu lítið erindi – og á 21. öldinni læsi enginn eldri bækur heldur. Self orðaði það einhvern veginn þannig að þegar fólk sem vildi telja sig yfir meðalgreind væri hætt að ljúga því til að það hefði lesið klassíkina og það sem var helst á döfinni – eða að lágmarki að það stæði til – og farið að yppta bara öxlum og segja „ég les nú alltof lítið“ – hafi slagurinn verið tapaður. Kannski ljúgum við öðru í dag af því okkur finnst aðrir hlutir skipta máli.

Og það sem pistill Guðrúnar segir mér – alveg burtséð frá gæðum eða gæðaleysi þeirra bóka sem hún úthúðar – er að bækur skiptu máli. Ekki bara hana sjálfa heldur samfélagið. Henni finnst samfélagið vonlaust ef góðar bækur njóta ekki sannmælis og finna lesendur, og henni finnst það enn vonlausara ef vondar bækur verða ráðandi á náttborðum landsmanna. Sjálfsagt hefur rignt yfir hana athugasemdum um óþarfa grimmd og kvenfyrirlitningu (à la „konur eru konum verstar“) og fordóma gagnvart ástarsögugrein bókmenntanna – í athugasemdakerfi Þjóðviljans, ef ekki á götum úti, ég reikna með því að fólk hafi verið jafn viðkvæmt árið 1964 – en hún hefur látið sig hafa það af því henni þótti þetta skipta máli. Og það, umfram allt annað, er eftirbreytni vert.

Afstæðiskenningar

Ég var að enda við að senda frá mér fyrstu smásöguna sem ég skrifa í nærri því aldarfjórðung. Árið 2001 var ég í ritlistaráfanga í HÍ – sem var reyndar í svokölluðu „creative non-fiction“, kennarinn, Njörður P. Njarðvík, átti íslenskt nafn fyrir það en því hefur verið stolið úr mér – og þá skrifaði ég nokkrar sögur sem voru með einhvern snert af raunveruleika í sér en stímdu í burtu, út í skáldskapinn. Þær voru ágætar en miklu meira í ætt við þreifingar, æfingar, en fullburða sögur. Og jú raunar skrifaði ég eina hálfmisheppnaða sögu fyrir börn/unglinga einhvern tíma fljótlega eftir hrun en ég tel hana ekki einu sinni með. Ég var eiginlega búinn að sætta mig við að ég kynni þetta ekki, ætti ekki tólin, og þegar ég var nú beðinn um að skrifa smásögu (af manneskju sem virtist vita að ég geri það eiginlega ekki) þá ætlaði ég að svara nei. En svo dró ég það og allt í einu blasti hún við, hugmynd sem átti að verða allt annað og allt öðruvísi og hefur legið á skrifborðinu mínu í að verða ár, án þess að verða eitt eða neitt.

***

Ég leit inn á Facebook til þess að vara fólk við að fara ekki inn á Starafuglsvefinn – á honum er nú bara klám – en starafuglsefnið er allt komið á starafugl.norddahl.org. Og sá þá að kunningi minn, ljóðskáldið Gísli Þór Ólafsson, lést úr krabbameini fyrir viku síðan. Ég hitti Gísla síðast fyrir rúmu ári þegar ég fór í túrinn góða – hann kom á upplesturinn á Sauðárkróki. Og það var raunar líka þar sem ég hitti hann fyrst, þegar hann var einn tveggja gesta í ljóðapartíi Nýhils – hinn var Geirlaugur Magnússon. Gísli var sérstakt ljóðskáld, engum líkur nema sjálfum sér, og ég þurfti að venjast honum áður en ég áttaði mig á gildi þess sem hann skrifaði – það er einfeldningslegur tónn í bókum hans, naivískur, sem ég ruglaði lengi saman við einfeldni.

Ég samhryggist ástvinum Gísla og sendi þeim mínar samúðarkveðjur.

***

Í fyrrakvöld horfði ég á Möltufálkann en í gær á Svefninn langa. Í þeirri fyrri leikur Humphrey Bogart Sam Spade en í þeirri seinni leikur Humphrey Bogart Philip Marlowe. Sam Spade er aðalspæjari Dashiell Hammetts á meðan Marlowe tilheyrir Raymond Chandler. Bækurnar eru ólíkari en myndirnar en í b´aðum tilvikum eru myndirnar þó mildaðar útgáfur af bókunum – þær eru fórnarlömb hins svokallaða Hays-kóða sem bannaði alla mögulega siðspillingu í bíómyndum, sem var sérlega dýrkeypt fyrir harðsoðnu reyfarana. Kannski er ég bara ekki nógu læs á stíl kvikmynda en mér fannst nánast einsog þær gætu hafa verið verk sama mannsins á meðan texti Hammetts og Chandlers er mjög ólíkur. Kannski er það bara vegna þess að Bogart er alltaf Bogart – frábær leikari en fyrirferðarmikil persóna sjálfur frekar en maður með margar ólíkar stillingar.

Það slær mann þó í báðum – eða öllum fjórum – verkum að þetta eru sögur um stemningu miklu frekar en vel plottaðir krimmar. Það eru hreinlega alltof mörg lög, alltof margar persónur og of margir óprúttnir viljar að takast á til þess að maður hafi nokkurn tíma góða yfirsýn yfir alla þræði. Mest verður maður bara lúinn af að fylgja plottinu. Það er þó skömminni skárra í Möltufálkanum þar sem eltingaleikurinn við fálkastyttuna sjálfa bindur allt hitt saman. En stemningin í Svefninum langa er líka svakalegri. Það skemmir bíómyndina svolítið að framleiðendum fannst greinilega ekki annað hægt en að láta Bogart og Bacall verða ástfangin – sem þau voru í raunveruleikanum áður en tökur hófust, Bogart var í skilnaðarferli – og þar með er heilindum Marlowes kastað á glæ og hann (í samstarfi við handritshöfunda sem draga mjög úr grimmd hennar) látinn varpa hlífiskildi yfir Vivian Sternwood ástar þeirra vegna, frekar en vegna þess að hann lendir í mórölsku öngstræti einsog raunin er í bókinni (og varpar engum hl´ífiskildi, hann bara fer). Heilindi hins gallaða spæjara Chandler – sem á augljóslega að vera riddaralíking – eru akkerið í sögunum. Marlowe er – einsog Chandler orðaði það – maður sem reynir að sýna heilindi í heimi þar sem það er óðum að detta úr tísku. Án þessara heilinda er ekkert eftir nema grautur. Og kemistrían milli Bacall og Bogarts, sem er auðvitað heilmikil.

Ég endurlas líka þýðingu Guðbergs á Svefninum langa. Ég skrifaði um hana einhvern tíma og mundi hana sem mjög sérvitra – mjög grindvíska í orðavali – en var búinn að gleyma hvað hún er einfaldlega léleg. Og hvað útgáfan er mikið drasl. Síðu eftir síðu vantar nokkrar línur neðst á blaðsíðu og stundum birtust sömu setningarnar neðst á einni síðu og aftur efst á næstu síðu og þar fram eftir götunum. Ég man varla til að hafa lesið þýðingu þar sem allir aðilar hafa kastað jafn mikið til höndum.

Bækurnar og myndirnar eru líka gallaðar en þær eru kannski einmitt ágætis dæmi um verk sem gætu engu að síður ekki verið öðruvísi – þar sem gallarnir eru (flestir) óaðskiljanlegir frá kostunum. Þannig hefði stemningin í Svefninum langa t.d. alls ekki verið jafn svakaleg ef það hefðu ekki verið svona mörg lög af plotti. Það er engum treystandi, ekki einu sinni pínulítið, nema Marlowe og meira að segja honum tekst aldrei að vera fullkominn.

Fullkomlega óþekkur

Ég fór á Dylanmyndina í gær. Ég hef engan heyrt kalla þessa mynd sínu rétta nafni og ég ætla ekkert að taka það upp. Dylanmyndin er fínt heiti. Svona ævisagnamyndir eru náttúrulega alltaf í aðra röndina mjög þvingað drasl. Og það verður því verra sem maður veit meira sjálfur um söguefnið. Ég er ekki mjög verseraður í Dylan sjálfum en ágætlega verseraður í atburðunum á Newport 1965 og eftirlætis tónlistarsagnfræðingurinn minn, Elijah Wald, skrifaði bókina sem Dylanmyndin er „byggð á“. Sem þýðir ekki að hún sé ekki full af rangfærslum sem er alls ekki að finna í bókinni. Það þýðir kannski í mesta lagi að þessar rangfærslur eru allar viljandi. Ég ætla ekki að fara að þylja þær hérna upp nema til að segja að skipuleggjendur voru hvorki mótfallnir rafmagnaðri tónlist, rokktónlist né frumsaminni tónlist. Dylan leit ekki svo á sjálfur að hann væri að spila folk-tónlist nema á fyrstu plötunni – sem var miklu meiri blúsplata en frumsamda efnið á kassagítarsplötunum, þetta sing-a-long dót sem hann fékk sjálfur fljótt viðbjóð á – af því Dylan áleit ekki frumsamin lög vera folk-tónlist. Hann var nefnilega líka púristi. „How many times must I say I am not a folk-singer before the people stop saying he’s not a folk singer“ sagði Dylan – nokkru áður en hann gerðist elektrískur.

Pete Seeger var almennt miður sín yfir dvínandi vinsældum folk-tónlistar meðal annars vegna þess að hann sá hana sem sameinandi afl en sá rokktónlist sem sundrandi afl – folk-tónlist væri tónlist samkenndar og rokktónlist tónlist einstaklingshyggju. Og hafði á réttu að standa, hvað sem manni svo finnst um rokk og folk. Að því sögðu hélt hann líka upp á ýmsa rokktónlist. En hann sá í Dylan – einsog er greinilegt í myndinni – mann sem gæti komið folk-tónlist á hæsta stall, og hafði kannski gert það í nokkur misseri. Hann var fjarska sár yfir þessu. Wald hefur bent á að í raun hafi enginn skipt um skoðun á Bob Dylan eftir Newport 1965 en hins vegar hafi ímynd Seegers umturnast. Fyrir Newport var var hann byltingarsinnaður hipster-afi (hann var jafngamall mér 1965) sem hafði ögrað McCarthy nefndinni, látið svartlista sig úr öllum helstu miðlum, og sameinað ótrúlegan fjölda fólks að baki réttindabaráttunni í suðurríkjunum með tónlist sinni og hugsjónum. Hann var mjúkur og ljúfur og staðfastur prinsippmaður sem naut virðingar og aðdáunar jafnt ungra sem aldinna. Eftir Newport var hann ótrúlega hallærislegur og íhaldssamur lúða-afi, kynþokkalaus hálfsköllóttur söngapi sem átti að hafa viljað höggva á kaplana í Newport með öxi (sú saga er sennilega komin til af tvöföldum misskilningi – þegar Dylan kom af sviðinu eftir elektríska settið gekk hann í burtu á sama tíma og Dylan, einhver spurði: hvert er hann að fara? og einhver svaraði: he went to get his axe. He verandi Dylan og axe verandi slangur fyrir gítar – Dylan var að sækja kassagítarinn til að klára settið, Seeger rölti bara í burtu vegna þess að hann var ósáttur og vildi ekki tala við Dylan).

Alan Lomax var – einsog er nefnt í framhjáhlaupi í myndinni – fyrst og fremst ósáttur við að The Paul Butterfield Blues Band fengi að spila á hátíðinni. Ekki vegna þess að hann væri folk-púristi heldur vegna þess að PBBB voru hvítir. Lomax var á kafi í Chicago Blues – sem hávær og rafmagnaður – og bæði Muddy Waters og Howlin’ Wolf höfðu spilað á hátíðinni áður. Hávær og rafmögnuð sett (Muddy reyndar líka mætt með kassagítarinn einu sinni, en það var til að heiðra Son House, nýlátinn). Honum fannst þetta vera menningarnám af verstu gerð. Hann vildi fá Buddy Guy.

Þess skal samt geta að The Paul Butterfield Blues Band voru eins áþentískir og hvítt blúsband gat verið á þessum árum – þeir höfðu lifað á svörtu klúbbunum í Chicago árum saman og nutu þar virðingar. Þeir voru ekki Stones. Gítarleikarinn í PBBB var Mike Bloomfield– og einsog kom fram í myndinni er það til Mike Bloomfield sem Dylan sækir þegar hann vill fá alvöru gítarleikara.

PBBB spiluðu kvöldið á undan Dylan og Lomax gaf þeim víst fremur dónalega kynningu – það hefur því miður ekki varðveist hvað hann sagði nákvæmlega en það var nóg til þess að umboðsmaður þeirra, Albert Grossmann, sem var líka umboðsmaður Dylans, hjólaði í hann og þeir slógust. Í myndinni gerist þetta á tónleikum Dylans. Það er svo út af þessu sem Dylan ákveður að spila elektrískt sett sjálfur – hann stígur inn í annarra manna rifrildi til þess að sýna PBBB stuðning (og til þess að taka þátt í havaríinu). Það var ekki einsog í myndinni að skipuleggjendurna hefði grunað þetta og þaðan af síður að Pete Seeger hafi vakið hann þunnan klukkan sjö að morgni til að biðja hann að gera þetta ekki. Dylan var búinn að taka upp rafmagnað efni og ætlaði að túra það síðar um sumarið. En hann kom til Newport án hljómsveitar. Það vildi til að nokkrir meðlimir Paul Butterfield Blues Band höfðu leikið með honum inn á plötu og hann hóaði í þá óforvarendis – æfði á staðnum með litlum fyrirvara og mætti með fremur illa æft rokkband á sviðið. Og lét skrúfa allt í botn (sem var það sem gerði Pete Seeger óðan – eða allavega óðari).

Lagið sem hann spilaði var auðvitað Maggie’s Farm – sem er endurunnið gamalt blúslag (og þar með folk) og sósíalískur óður (þótt það fjalli auðvitað líka um þrældóm rokkstjörnunnar Dylans, væntingarnar sem hann vildi ekki standa undir). Með þessu steig hann inn í ofsaveðrið og tók afstöðu með Stones og Animals og PBBB og Bítlunum gegn Newport fólkinu, sem fannst það þá þegar vera að drukkna – og kannski líka gegn Buddy Guy og svörtu Chicago-blúsurunum sem Lomax taldi sig vera í forsvari fyrir. En Dylan tók ekki afstöðu gegn folk-tónlist (a.m.k. ekki blústónlist) og ekki gegn mótmælatónlist heldur.

Svo mætti spyrja sig, einsog Wald hefur gert, hvort hann hefði valdið jafn miklu fjaðrafoki ef hann hefði byrjað á akústíska settinu og svo kynnt nýja stöffið sér – með dálítilli auðmýkt, hér er soldið öðruvísi stöff, nýtt og nýmóðins, vonandi fílið þið það. Eða hvernig hefði farið ef hann hefði ákveðið þetta með einhverjum fyrirvara og mætt með sæmilega þétt band. En hann gerði það ekki og hann gerði það viljandi. Kannski vildi hann bara vekja tilfinningar – það er sagt að í menntaskóla hafi fólk oft púað á hann þegar hann söng og hann nánast nærst á því – og kannski vildi hann svipta fólk forræði yfir því hvað hann væri, hvað hann ætti að vera. Og kannski bæði í senn og margt fleira.

Annars var myndin ágæt sem slík. Sérstaklega var leikurinn góður. En það er alltaf samt svolítið einsog að reyna að troða búrhval í pollagalla að segja svona ævisögu. Það er of mikið af efni, of mikið sem þarf að sníða, of mikið sem þarf að sleppa og einfalda. Og þegar vinnan er öll unnin lítur afurðin bara út einsog blöbber í pollagalla, sami blöbber og síðast, sama sagan um generískan snilling sem þjáist fyrir list sína (þr´átt fyrir að hafa notið dæmalausrar velgengni), sýnir af sér eigingirni og á erfitt með tengsl. Það var kannski áhugaverðast – og gegn klisjunni – að kvikmyndagerðarmennirnir skuli hafa köttað svona snyrtilega framhjá eiturlyfjaneyslu og óreglu, sem birtist manni aðallega sem fullir öskubakkar og tómar flöskur.

Samt fín mynd sko.

Endurfæðing

Mig langaði að skrifa endurfæðsla. Einsog færsla. Födsel. Ég veit ekki hvers vegna en fæðing hljómar alltaf einsog eitthvað sem gerist af sjálfu sér en födsel eitthvað sem fólk framkvæmir. Konur. Og börn. Og endurfæðsla er þá eitthvað sem maður framkvæmir frekar en bara gerist.

Ég eyddi gömlu síðunni minni og færði allt hér inn. Starafugl er líka að hverfa af sínu gamla léni og verður framvegis á www.starafugl.norddahl.org – til þess að ég komist hjá því að borga 45 þúsund krónur á ári.

En einsog þið takið eftir eru gömlu færslurnar ekki í réttri röð. Það er mjög lítið af greinarskilum sem komu með í flutningunum. Þetta er eins konar skrá um blogg sem var en ekki sjálft bloggið. Ég nenni ekki að hafa áhyggjur af því. En ræð ykkur frá því að eiga nokkurn tíma í viðskiptum við Wix. Mér hafði verið ráðið frá því áður en ég hóf þau viðskipti en ég hlustaði ekki. Þið skulið hlusta. Varist Wix. Og Google Workspace. Nú er ég með allt inni á 1984 og ég held það sé þjóðráð.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég hef flutt heldur – bloggið hefur átt áreiðanlega tíu ólík heimili og á þeim tíma hafa margar færslur glatast. Ég lofa samt að ég er ekki að eyða neinu svo þið kanslið mig ekki fyrir eitthvað sem ég sagði 2004 (það var bæði æskilegt og leyfilegt að stíga á línur 2004 – veröldin er í ferli) og ef þið leitið finnið þið áreiðanlega eitthvað hérna sem er hægt að kansla mig fyrir hvort eð er. Eða bara í bókunum mínum – sérstaklega Nihil Obstat, Illsku og Hans Blæ (svona svo þið þurfið ekki að lesa allan katalóginn).

Allavega. Forsíðan er líka gamla síðan mín frá 2018 líklega – ég þarf að uppdatera hana. Og hliðarreiturinn í þessu bloggi frá 2020. Brúin yfir Tangagötu ný. Ég breyti því í ljóðabókina hvað á hverju.

createdTimestamp““:““2024-05-16T16:49:40.157Z““

Fyrsta bók vikunnar var Keisaramörgæsir eftir Þórdísi Helgadóttur. Frábær bók – aðeins köflótt einsog flest smásagnasöfn en heilt í gegn príma dæmi. Ég las hana í tveimur lotum og ég man að ég hugsaði í fyrri lotunni að stystu sögurnar væru bestar – að Þórdís nyti sín best í hinu … mig langar að segja gisna en það er ekki alveg rétt lýsing, eða hún hljómar allavega ekki nógu vel. Ég er að meina svona hemingwayískar eyður – samtöl þar sem maður er ekki alveg viss hvað er í gangi af því maður sér aldrei nema brot af heiminum. Skáldskapur sem hleranir í ókunnar veraldir. En í seinni lotunni snerist þetta við og lengsta sagan í bókinni – Leg – er besta sagan. Hún fjallar um sérstakan og sturlaðan matarklúbb, nú langar mig að líkja stemningunni við eitthvað hjá Brett Easton-Ellis, en kannski er það bara vegna þess að ég var að hugsa til hans áðan út af öðru – en það er einhver svona gegndarlaus firring í bland við kátínuþrungna heimsendastemningu. Seinni bók vikunnar var ljóðabókin/endurminningabókin Garments Against Women eftir Anne Boyer. Anne var einu sinni í flarf-hópnum en er komin langt þaðan í dag. Ég hef þýtt lítillega eftir hana úr bókinni Romance of the Happy Workers og verið í aðdáendaklúbbnum í sennilega 15-16 ár. Ég náði því miður ekki að hitta hana á flarf-hátíðinni í New York, sem ég fór á sumarið 2008 – hún þurfti að afbóka á síðustu stundu minnir mig – en við skrifuðumst örlítið á fyrir löngu. Garments Against Women er grafalvarleg og brútal bók en það er samt einhver húmor þarna – eitthvað sem ég kann ekki alveg að skilgreina. Bókin fjallar um margt og fer víða – kapítalisminn og líkami manneskjunnar í kapítalismanum, í fötunum, í kvenfatnaðinum, og líkami manneskjunnar í sjúkdómum er í forgrunni. Anne Boyer hefur þennan hæfileika að geta starað heiminn niður án þess að blikna – og samt er hún líka að skrifa mikið um hvað hún bliknar, án þess að blikna. Skrifa um að vera uppgefin án þess að gefast upp. Fullorðinskvikmyndaklúbbur Sjökvist horfir ekki á klámmyndir, einsog einhver gæti kannski ályktað af nafninu, heldur á fullorðinsbíómyndir með áherslu á allt utan Hollywood (hér í húsinu Sjökvist eru reknir tveir aðrir kvikmyndaklúbbar sem sérhæfa sig í barnamyndum). Fjórði fundur var haldinn í gær – fyrstu þrjár myndirnar voru Vagabond eftir Agnesi Varda, Unmarried Woman eftir Paul Mazursky, Le Fantôme de la liberté eftir Luis Buñuel og í gærkvöldi horfðum við á Hymyileva Mies eftir Juho Kuosmanen með vini okkar Jarkko Lahti í aðalhlutverki. Jarkko á hús á Flateyri – eða ég held hann hafi ekki selt það enn – ásamt fyrrverandi konu sinni. Hann var hér á síðustu páskum en við rákumst á hana á Aldrei á helginni. Myndin fjallar um boxarann Olli Mäki og tækifæri hans til að verða heimsmeistari í boxi á sama tíma og hann verður ástfanginn. Þetta er sannsöguleg og afskaplega falleg og mikil feel-good mynd. Ég veit ekki hvort það er miklu meira um hana að segja samt. Hún lýsir tíma sínum, 1962 minnir mig að hún gerist, og fjallar kannski ekki síst um óþolið fyrir athyglinni, fyrir sirkusnum – og er fyndið auðvitað í ljósi þess sirkus sem við lifum við í dag. Olli Mäki kemur frá Kokkola til Helsinki og lendir beint í heimspressunni og stöðugum myndatökum og veseni – á sama tíma og hann er einmitt hvínandi ástfanginn og getur vart um annað hugsað. Aldrei fór ég suður var haldin um helgina. Hápunkturinn hjá mér var þegar Salóme Katrín flutti Wuthering Heights – það var ofsalegt. Hápunkturinn hjá Aram var að sjá Bagdad Brothers – hann fór heim og náði í trommukjuðana sína og leitaði uppi trommuleikarann og fékk hjá honum eiginhandaráritun. Annars sá ég talsvert minna en ég hefði viljað – missti t.d. af Hórmónum, sem var mjög leiðinlegt, og Ayia með Ástu vinkonu minni. Ég var með matarboð á föstudeginum og við sein af stað og svo var ég á barnavaktinni og fór heim með krakkana upp úr tíu. Þá sáum við eiginlega bara Þormóð systurson minn – hann er eiginlega sigurvegari hátíðarinnar, það hefur hreinlega aldrei verið jafn fullt í húsinu og þegar hann var á sviðinu. Var ekki nokkur séns að komast inn – nema fyrir börnin sem gátu smogið sér milli lappa fólks. Á laugardeginum var ég svo að vinna á aldreibarnum og þar heyrði maður lítið sem ekkert. Þegar ég var búinn að lesa fyrir krakkana á föstudaginn (Elías, fyrstu bókina) horfði ég á nýjasta þáttinn af Star Trek og síðan svona hálftíma á Zizek-Jordan Peterson debattinum. Ég er eiginlega ósammála öllum um það tiltæki og finnst hreinlega til fyrirmyndar að debatt sé gerð umgjörð sem hentar sjónvarpstækjum um veröld alla. UFC fyrir heilann. Svo eru hugmyndir vondar eða góðar en öll umræða um hugmyndir er góð. Peterson er eins langt frá mér í pólitík og heimspeki og nokkur maður getur orðið, og ekki finnst mér hann sérlega gáfaður, en mér finnst ekki fullkomlega gagnslaust að hlusta á hann. Kannski bara vegna þess að ég er kominn með svo mikla leið á því að hlusta á langar keðjur af stuttum hugsunum – að fá heiminn í tístum og statusum, sem hverfa jafn óðum – og ég sakna þess hreinlega að fá þannig umræðu, lifandi umræðu frekar en bókfasta, í lengri og ítarlegri skömmtum. Þegar maður er svangur er allur matur góður. Ég hef aldrei skilið hvers vegna Zizek féll af stalli og fór að þykja hallærislegur – eiginlega finnst mér að fyrst vinsældir hans og svo óvinsældir hjá cool kids liðinu séu bæði til marks um sauðshátt samfélagsins, hvað við erum gjörn á að stökkva á eftir einhverjum bendingum um hvað sé hot og hvað sé not og finnast svo það sama og síðasta manni. Í sjálfu sér er Zizek þekktari stærð í dag en fyrir 10 árum og kannski er það bara þess vegna. En hugsun hans er aldrei óáhugaverð – ekki einu sinni þegar hann er að endurtaka gamlar lummur frá sjálfum sér, sem hann gerði mikið í þessum debatt (eða því sem ég sá af honum). Kannski var hann í þessum best off gír vegna þess að hann taldi sig hafa mikið af nýjum áheyrendum – og það gæti verið rétt. Það sló mig reyndar líka að líberal-fólkið – GíslaMarteinarnir, sem dómínera svolítið á samfélagsmiðlum – geti ekki ímyndað sér neitt verra en að samfélagsumræðan eigi sér stað á ásinum milli svartsýnnar íhaldssemi og svartsýnnar byltingarstefnu. Líberalisminn hvílir á hamslausri bjartsýni og framfaratrú – sem felur reyndar í sér að allir sem eru ósammála þeim séu smám saman að deyja út (fun fact: nei), sem er auðvitað dálítið sínískt. Helstu viðbrögðin sem ég sá við þessum debatt voru eins konar and-debatt – hvað gæti maður kallað það, frávísun? Twitter fylltist af fólki sem stakk puttunum í eyrun og sagði BLABLABLABLABLA LÚSERAR. Það gerði mig furðu leiðan, jafnt þótt ég gæti tekið undir að annar þeirra sé svolítill lúser – af því mér finnst þetta vera orðið viðbragðið við óttalega mörgu. Svona grobbin idíókrasía – einsog fólkið sem montar sig nánast af því að lesa ekki bækur. Maður á að lesa bækur og maður á að takast á við þær hugmyndir sem eru sentral í menningu manns á hverjum gefnum tíma. Brett Easton-Ellis var annars að skrifa einhverja bók um hvað þúsaldarkynslóðin sé miklir aumingjar. Einhver skemmtilegasti útvarpsþáttur sem ég hef hlustað á var þegar BEE bauð til sín Ezra Koenig, gítarleikaranum í Vampire Weekend, til að debatera einmitt þetta. BEE kann að þrátta og gera það skemmtilega og – líkt og t.d. Zizek – þá segir hann frekar eitthvað heimskulegt en eitthvað óáhugavert, sem mér finnst alltaf kostur (vegna þess að hið heimskulega anímerar mann en hið óáhugaverða svæfir mann). Svo fór hann í viðtal við Sunday Times og sagði að þúsaldarkynslóðin læsi ekki bækur og þetta tók Twitter nærri sér – bara af því þau læsu hann ekki þá þýddi það ekki að þau læsu ekki bækur. Will Self var einhvern veginn dreginn inn í þetta líka – sem er í talsvert meiru uppáhaldi hjá mér en BEE. Það sló mig að þegar þeir Self og BEE voru um tvítugt, í byrjun níunda áratugarins, var ábyggilega miklu, miklu, miklu meira lesið en í dag. Og kannski miklu, miklu, miklu, miklu meira. Í öllu falli er alveg ljóst að bókamarkaðurinn hefur hrunið á síðustu 20 árum – ekki bara kaupir fólk færri bækur og les færri bækur heldur les það færri og færri titla, lesturinn dreifist minna. Heilt yfir er það ungt fólk sem les minna – þótt t.d. í Bandaríkjunum skiljist mér að fólk lesi fleiri ljóðabækur en áður (og þær eru vel að merkja styttri og metsöluljóðlist síðustu tíu ára er umtalsvert auðveldari aflestrar en ljóðlistin tíu árin þar á undan). Ég ræddi nýlega við menntaskólakennara sem vildi meina að margir unglingar væru beinlínis stoltir af því að lesa ekki neitt – á meðan að unglingar af okkar kynslóð hefðu verið líklegri til þess að ljúga því að þeir hefðu lesið eitthvað sem þeir lásu ekki, þá lægi við að sumir unglingar í dag ýktu stöðuna í hina áttina og segðust ekki hafa lesið bækur sem þeir hefðu þó lesið. En svo er þetta líka einhver viðhorfsbreyting. Svartsýnin á undir högg að sækja. Self og BEE finnst kannski æskan glötuð í dag en þeim fannst æskan líka glötuð árið 1985, þegar þeir tilheyrðu henni. Þeir koma báðir upp úr pönkinu, inn í kókaínbrjálæði tíunda áratugarins, í restina af einhverju tímabili sem ég sé alltaf fyrir mér sem gullöld intelektúalismans – frá svona 1970 til 1985. Það er auðvitað vel hugsanlegt að þetta sé kolrangt hjá mér. Ég var sjö ára árið 1985. Þeir líta á hlutverk sitt í heiminum – einsog margir intelektúalar hafa gert í gegnum tíðina – sem það að segja fólki til syndanna, bókstaflega, frekar en að fagna því hvað allir séu frábærir. Ég er að spá í að lesa þessa bók hans BEE – hún er áreiðanlega ekki hálft eins leiðinleg og fólkið sem henni er stefnt gegn heldur fram. *** Gítarleikarar vikunnar eru tveir – Adrian Smith og Dave Murray.

createdTimestamp““:““2024-05-13T05:35:38.433Z““

Ég er þreyttur og gamall í kvöld. Illt í bakinu og lúinn í liðunum og verkjar í lungun og vorkenni sjálfum mér mjög mikið. Nadja og Aram eru í Finnlandi og við Aino hittum þau í Svíþjóð á fimmtudag. Ég er að þrífa og skúra og taka til, sem væri sennilega ekkert mál ef ég væri ekki svona lúinn. Sennilega er ég bara með nokkrar kommur. *** Ég hlustaði á Life eftir Keith Richards og einhvern leynihöfund. Aðallega þegar ég var að mála í síðustu viku en líka aðeins með skúringunum. Þetta var mikið líf hjá honum, og er enn og verður sennilega um ófyrirsjáanlega framtíð. Ég hugsaði ýmislegt á meðan ég hlustaði á þessi herlegheit en megnið af því er fyrir bí – hefur bara gleymst. Bókin er 25 tímar í lestri. Mesta furða að hann muni svona mikið. Það eru þrír upplesarar sem skipta með sér bókinni – Joe nokkur Hurley les megnið, en Johnny Depp les fyrstu tímana og góðan slurk í seinnihluta bókar. Keith les svo sjálfur sirka síðasta klukkutímann. Hann er auðvitað með svolítið mikilmennskubrjálæði. Og gefur að skilja. Það hlýtur að vera erfitt að miklast ekki af því að vera Keith Richards. Hann gerir reyndar mjög mikið úr því hvað Mick Jagger hafi orðið merkilegur með sig í gegnum tíðina. Sem er fyndið, því það er ekki beinlínis einsog Keith sé eitthvað að drepast úr hógværð sjálfur. Hann gerir mjög mikið úr opnu stillingunni sem hann spilar í. Að stilla í „Keef“ er að spila opinn G og losa sig við efsta strenginn. Fimm strengir – G D G B D. Hann talar um þetta einsog þetta hafi í senn verið ægileg uppgötvun og enginn hafi vitað þetta – hann hafi verið að sýna frægum blúsurum þessa stillingu baksviðs og þeir bara gapað. En á sama tíma viðurkennir hann að þessi stilling var ekki bara mikið notuð í blús nokkurn veginn frá sköpun blússins heldur er þetta auk þess standard stilling t.d. á fimm strengja banjóum. Opnar stillingar eru gríðarlega algengar í allri alþýðutónlist. Þannig nær hann að búa þetta sem bæði fullkomna nýjung og algerlega upprunalegt – sem er auðvitað það sem er kallað að vera „orginal“. Bæði nýtt og gamalt í senn. Kannski er flest í bókinni þessu merkt – reykur og speglar, galdrabrögð til að láta hið nýja virðast gamalt og hið gamla nýtt í senn. Og ætli það sé ekki bara ágætis lýsing á tónlist Rolling Stones líka? *** Ég las Tímaþjófinn eftir Steinunni Sigurðardóttur. Ég á að vísu eftirmálann eftir. Það er mikið snilldarbragð að vera ekkert að drífa sig að lesa bækur sem eiga að heita skyldulesning. Ég er allavega mjög sáttur við að eiga góðan slatta af slíkum eftir. Einn daginn mun ég jafnvel lesa Sjálfstætt fólk! Tímaþjófurinn er stórkostleg bók – meistaraverk – og ég er stærri fyrir að hafa loksins lesið hana en mér lá ekkert á að stækka; lífið er langt. Alda er auðvitað fullkomlega óþolandi – það eru fá orð um hana hafandi, sé maður heiðarlegur, sem myndu ekki hljóma einsog stækasta kvenhatur. Herramaður lætur ekki slíkan munnsöfnuð eftir sér. En á sama tíma er hún auðvitað líka dásamleg og maður tengist henni djúpum böndum, elskar hana og vorkennir henni. Bókin er síðan drifin áfram af þessum feiknalega persónuleika sem birtist manni í því ágenga, skemmtilega og ljóðræna tungumáli sem Steinunn ljáir henni – það er listin. Það gladdi mig líka hvað hugmynd bókarinnar er í senn einföld og hvað er kafað djúpt í hana. Það eru engin sniðugheit í þessari hugmynd og ekkert plott, ekkert sem kemur á óvart þar – en hugsanir Öldu og þráhyggjur hennar og rómantík og sjálfselska hennar og sárin hennar riða þennan heim saman og rífa hann í sundur; sem og sýn hennar á heiminn í kringum sig, sem er stundum kosmópólítan víðsýni og stundum alger borgaraleg þröngsýni og bæði drifið áfram af sömu vélinni. Forréttindablindu og frekju – sem er líka frelsi hennar og styrkur og staðfesta. Bæði hugmyndaveruleiki bókarinnar og stíllinn – sem veður hingað og þangað í dagbókarbrotum, frásögnum, þönkum, ljóðum – er eins langt frá þessu ameríska MFA-módeli hinnar aristótelísku formfestu og sniðugheita einsog hugsast getur. Tímaþjófurinn er lífrænt listaverk sem vex af eigin veruleika, vex af sjálfu sér, evrópsk bók – einsog Steinunn er auðvitað evrópskur höfundur. *** Aram er í Finnlandi og því lesum við Aino ein. Við bíðum með fjórðu ofurhetjubókina þar til við hittum Aram aftur en höfum verið að lesa styttri myndasögur alla vikuna. Þar bar hæst Ótrúlega sögu um risastóra peru eftir Jakob Martin Strid. Ég hef haldið mikið upp á Strid frá því ég las teiknimyndasögurnar hans fyrir fullorðna sem unglingur – ætli það hafi verið í Politiken? Ég las ekki margar þeirra en nóg til að nafnið festist í höfðinu á mér. Þær voru mjög dónalegar – mig rámar í eina af manni sem pissaði bara á fasista þegar hann var ósammála þeim. Það fannst mér mjög fyndið. Svo kynntist ég honum aftur sem barnabókahöfundi fljótlega eftir að Aram fæddist. Það eru engar kvenkyns persónur í Perubókinni. Í bíómyndinni – sem er annars að öllu leyti verri en bókin – er Mitsó kvenkyns og frá því við sáum hana hef ég bara leyft mér að hafa hana kvenkyns. Mitsó er þess utan langhressasti karakterinn í bókinni. Plottið er klassísk barnabókaendaleysa – bara skemmtilegri en þær flestar – sem ég veit ekki hvort ég nenni að rekja á bloggi sem er eiginlega hvort eð er mest fyrir sjálfan mig. Stóra breytingin milli myndar og bókar er að í bókinni eru öll vandamál leyst með góðsemi og greiðum. Mitsó og Bastían gefa sjóræningjunum vatnsmelónur í skiptum fyrir íslensku rafhlöðurnar sem þau þurfa í humáttavitann; og fá einfaldlega steininn af dularfullu eyjunni í gjöf frá Ódysseifi Karlssyni, að best má skilja í skiptum fyrir góðan félagsskap. Í myndinni er þetta allt leyst með átökum og undirferli – hlutum er stolið og allt gerist í einhverju aksjón – allir eru andstæðingar og enginn gerir neitt fyrir neinn. Og merkilegt nokk er sagan leiðinlegri þannig. *** Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á Frozen. Aino valdi þessa vikuna. Við feðgin keyptum okkur stóra pizzu með skinku og ananas og átum yfir hinu mikla meistaraverki Disney-fyrirtækisins. Aino var mjög glöð að geta valið hana nú þegar Aram er ekki á svæðinu. Reglur kvikmyndaklúbbsins eru þannig að það má beita neitunarvaldi ef maður vill ekki sjá einhverjar myndir. Aram hefur séð Frozen um það bil þúsund sinnum, hélt mikið upp á hana þegar hann var yngri og honum er alveg vorkunn að vilja ekki sjá hana núna. Aino sér hana þess utan alltaf annað veifið hjá vinum sínum. Það er margt fallegt við Frozen. Við höfum lesið nokkrar sögur í stórri Disneybók frá því mæðginin héldu út og þær eru nú margar fremur hallærislegar (verst er samt Froskaprinsinn, held ég, að nokkur skuli vilja eiga þann skúnk mun ég aldrei skilja) – og þar kemur Frozen vel út í samanburði. Það er til dæmis gott tvist á mátt hinnar nýfundnu rómantísku ástar að láta hana a) reynast villuljós af því prinsinn er drullusokkur og b) hina sönnu ást vera systraástina. Hér mætti spegla Frozen í Tímaþjófi Steinunnar – þar finnst manni einmitt ást systranna Öldu og Ölmu vera miklu raunverulegri en þrá yngri systurinnar eftir einhverjum vitleysiskalli sem ekkert vill nema eigin framgang.  Í Frozen áttar Anna sig reyndar í tæka tíð og kýlir sinn drullusokk fram af brú. Anna er líka miklu „heilsteyptari“ manneskja en aumingjans Alda. (Sem maður ætti samt ekki að vorkenna, hún er óttalegur drullusokkur líka – en svona er þetta, maður ræður ekkert hvar samúð manns lendir). Auðvitað er Frozen óttaleg sykurleðja samt. Tónlistin og útlitið og meira að segja húmorinn. Sagan víkur rétt nóg af „beinu“ brautinni til að gleðja mann – og hefði sennilega aldrei notið þeirra vinsælda sem hún gerir ef hún hefði farið lengra af brautinni. Verst finnst mér samt hvað Anna fellur í skuggann af systur sinni – þessi saga fjallar eiginlega ekki neitt um Elsu en samt fær hún að vera aðal. En hún neglir börn í hjartastað – a.m.k. bæði mín, á ákveðnum aldri, og til þess er víst leikurinn gerður. *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins – sem þessa vikuna var skipaður mér einum – horfði á Blue is the Warmest Color/ La Vie d’Adèle – Chapitres 1 & 2 eftir Abdellatif Kechiche. Þetta er frönsk mynd um unga stúlku sem verður ástfangin af annarri aðeins eldri stúlku, þær byrja saman, elska hver aðra mjög mikið og búa saman í nokkur ár, sú yngri heldur að sú eldri sé að halda framhjá sér, fer sjálf að halda við strák, það kemst upp, þær hætta saman og sú eldri byrjar með þessari sem sú yngri hélt að hún væri að halda framhjá með en hin verður mjög, mjög, mjög óhamingjusöm í mjög, mjög langan tíma. Ekki jafn langan og Alda í Tímaþjófinum – en allavega mörg ár og sér raunar ekkert fyrir endann á eftirsjá hennar og þunglyndi þegar myndinni lýkur. En auðvitað fjallar myndin ekkert um það. Eða þannig. Ég man að einn ónefndur vinur minn var alveg ónýtur eftir að hafa séð hana – eða allavega mikið eftir sig, þetta væri bara gegndarlaust lesbíuklám. Í vikunni sá ég líka einhverjar lýsingar á nýjustu mynd Kechiche , sem var frumsýnd á Cannes. Leikararnir gengu víst út af henni, einsog allir aðrir, og það voru bara viðstöðulausar myndir af rössum og tuttugu mínútna munnmakasena inni á klósetti. Hún er sögð versta mynd í sögu Cannes (en þess sem ég sá vann Gullpálmann). Aðrar myndir hans eru víst svolítið í sama dúr. Maður sér vel í La Vie d’Adèle að slíkur höfundur er til staðar en hún er miklu minna gróf en ég átti von á og hlutgervingar kannski að mörgu leyti óhóflegar en það er bara alls ekki óviðeigandi (og þar með eru þær auðvitað hóflegar). Persónur ræða kvenlíkamann í listum, hina kvenlegu þrá; þær setja það í samhengi við Sartre, Egon Schiele, Gustav Klimt – Emma (sú eldri, Adèle er sú yngri) er málari sem málar konur og líkama. Þær heimsækja safn með klassískum styttum sem myndavélin hlutgerir einsog aðra líkama – sem var áhugavert, augun á mér festust alveg við spékoppana. Þetta var einn maður með tvo rassspékoppa þétt saman beint ofan við rasskinnarnar og svo kona með tvo spékoppa aðeins hærra en talvert lengra í sundur. En einsog manneskjan er bæði líkami og sál án þess að í því séu fólgnar nokkrar óleysanlegar (eða óviðlifanlegar) mótsagnir þá dregur hlutgerving myndavélaraugans á þeim ástkonum alls ekkert úr samlíðan okkar með þeim. Hún bara er, einsog þær eru, og eitt undirbyggir hitt – fólk elskar og elskast og þráir og missir og klúðrar og eyðileggur fyrir sjálfu sér og grefur sér þráhyggjugrafir, og það gerist allt meðal annars vegna þess að við erum (ofan í allt annað) líkamar, erum hlutir. Það getur vel verið að þetta sé klámmynd – og það má áreiðanlega analýsera hana í ræmur eftir pólitískum vanköntum – en hún er ekki minna listaverk fyrir það. *** Það sagði nú eiginlega sjálft hver yrði gítarleikari vikunnar.

createdTimestamp““:““2024-06-06T09:02:48.601Z““

Þetta mjatlar áfram. Skúli frændi (mennski) leit við í gær og ég ætlaði að monta mig af gítarnum en hann sagði að hann vildi nú ekki vera leiðinlegur, en að hann liti miklu betur út á myndum. Sem er auðvitað alveg satt. Það er eitt og annað sem sést illa á myndum. Til dæmis er sveigjan á búknum niðri við innputið ekki alveg rúnnuð. Svo eru smotterís skemmdir hér og þar – í kringum brúarstoðirnar og hér og þar við bindinguna. Sumt dylst nú þegar ég er farinn að bæsa en annað verður eiginlega meira áberandi. Bæsið sest illa þar sem hefur sullast mikið af lími, til dæmis. Allt sem ég geri í höndum er pínu off – ég er auðvitað gersamlega hæfileikalaus smiður, annálaður klaufi og hef ekkert að vinna með nema þolinmæðina. Gunnar vinur minn, sem er myndlistarmenntaður, segir hins vegar að þetta sé allt mjög impónerandi og ég eigi ekkert að vera að láta Skúla skyggja á grobbið í mér. Ég hef auðvitað enn mestar áhyggjur af því að hann eigi ekki eftir að sánda – hitt er aukaatriði. Ég er hins vegar, eftir 17 ár í bókaútgáfu, orðinn alveg ófær um að leggja mat á eigin verk. Ég tek bara mark á öllum öðrum – í þeirri röð sem þeir koma. En hvað gerði ég svo í vikunni? Ég fræsti fyrir pikköppunum. Svo æðafyllti ég mahóníið og pússaði það niður. Mér tókst að skemma bindinguna með því að pússa mig í gegnum hana á einum stað – versta stað eiginlega, ofaná búknum vinstra megin, þar sem það blasir við að eilífu. Ég fjarlægði það sem var eftir af henni og festi svo nýja – bræddi hana saman við gömlu með asetóni en það mun alltaf sjást svolítið. Önnur samskeytin hurfu næstum alveg en lituðust svo upp þegar ég bæsaði hann. Og það birtist óvænt líka lína hinumegin. Þetta er áður en ég bæsaði. Ég gleymdi að taka mynd af hinu og hann er úti í bílskúr að þorna (ég var að olíubera hann). En þið sjáið staðinn þar sem ég er búinn að bera brædda bindingu í sárið. Það er brún lína þarna undir sem kom aftur og betur í ljós þegar ég pússaði þetta niður. Ég veit ekki hvernig er best að díla við þetta. Nadja stakk upp á að ég myndi bara lita hana en ég veit ekkert hvaða lit er best að nota – hvað festist á svona – og er eiginlega bara pínu lost. Svo pússaði ég hann og gerði hann fínan. Ég gerði spýtu með vírlykkju á endanum sem ég gat fest í hálsvasann. Svo teipaði ég bindinguna og vasana, stakk plastpoka í f-gatið og eldhúspappír í holurnar fyrir brúarstoðirnar. Fyrst bæsaði ég hann svartan, leyfði því að þorna og pússaði það niður. Þetta er til þess að æðarnar komi betur í ljós. Þarna sést líka hvar hefur sullast lím – t.d. á milli pikköppvasanna, við brúarstólpana, norðan af pottavösunum og einn blettur þarna neðst vinstra megin. Eitthvað af þessu minnkaði svo þegar ég fór að nudda bæsinu betur í. Gunna fannst þetta eitthvað rorschachlegt svo ég pússaði aðeins niður og bæsaði bara létt yfir það. Liturinn er eitthvað í áttina að búrgundí – rauður með smá, smá bláu. Næst á dagskrá var að skrapa bæsið af bindingunni. Það var auðvitað kolómögulegt að hylja þunna kantinn svo hann var allur orðinn rauður. Þetta var talsvert þolinmæðisverk – en Nadja var í strandagöngunni og krakkarnir hjá vinum sínum svo ég sat bara og skrapaði með rakvélarblaði meiripart sunnudags. Svo raðaði ég öllu saman til að sjá hvernig þetta myndi lúkka. Mig vantar enn skrúfurnar í klórplötuna og krómaða ramma utan um pikköppana (er ég alveg hættur að segja hljóðdósir?). Ég ákvað líka að nota rhythm/treble hringinn af Gibsoninum mínum – sem hefur aldrei verið á honum, vel að merkja, fylgdi bara með. Þetta skítlúkkar allavega á mynd. Það liggur við að mig langi að bæsa blátt inn í f-gatið. Í morgun kom svo tung-olían frá Byko. Ég er búinn að bera á hann eitt lag og mun skjótast út í bílskúr annað veifið yfir daginn til að setja fleiri. Svo þarf ég bara að pússa hann og bóna hann og festa allt við hann. Næsta áskorun er að tengja vírana alla rétt. Ég kann víst enn minna um rafmagn en ég kann í smíðum. *** Ég ætlaði að útnefna Nitu Strauss og Angel Vivaldi sem gítarleikara vikunnar. Þau eru ofsalegar gítarhetjur af shreddaraskólanum – hún hefur spilað með The Iron Maidens og Alice Cooper, og er gestur í einu lagi hjá honum. Hann er ekki skyldur Vivaldi, hinum eina og sanna, en hún er hins vegar skyld öllum frægu Straussunum og mér skilst að allir aðrir í fjölskyldunni séu klassískir tónlistarmenn. Lagið hans Vivaldis er bara svo æðislega leiðinlegt að ég hætti við. Í staðinn er það Angus Young – sem er einn af mínum allra uppáhalds. Í síðustu viku las ég Blues People eftir ljóðskáldið LeRoi Jones – síðar Amiri Baraka – þar sem hann ítrekar að afskipti hvíta mannsins af blústónlistinni hafi alltaf snúist um að beisla hana, siða hana til, laga hana að evrópskum tónstigum, og það eigi við alveg frá því farið var að taka upp blúsinn, eigi ekki bara við um hvíta blúsleikara heldur allan bransann – og ekki síst manninn á upptökutækjunum. Nú snýst blúsinn auðvitað um alls konar míkróteygðar þríundir og sjöundir – auk blúsnótunnar frægu, lækkuðu fimmundinni – og er betri eftir því sem hljóðfærið er færara um að svíkja evrópska tónstiga. Blús á píanó er sjaldan góður – nema hann sé verulega djassaður og þá er hann að verða eitthvað annað, jú og auðvitað þegar hann er sunginn af einhverjum sem getur unnið gegn hinum hreinu tónum, einsog Ninu Simone. Blús á slædgítar – sem ber ekki virðingu fyrir neinu, helst frekar illa stilltur bara og jafnvel „lélegur“, surgandi – er yfirleitt frábær. Ég verð að viðurkenna að Angus kom oft upp í hugann sem möguleg undantekning frá reglunni um hinn siðaða hvíta mann – meira að segja góðu hvítu blúsararnir, Clapton, Stevie Ray, Page, eru allir frekar evrópskir, frekar klassískir og kontróleraðir. En spilamennska Angusar liggur í einhverju öðru – og hún snýst ekki heldur um réttu riffin eða sófistikeruð múv, einsog mikið af Chicago-blúsnum, heldur einhverja snertingu, einhverja tilfinningu, einhverja leit út úr því sem hljóðfærið á að vera fært um. Og á sér kannski enga hliðstæðu á uppteknum tímum nema hjá Jimi Hendrix.

id““:““9o5du““

Aftur að því sem máli skiptir. Breiðskífan Highway to Hell kom út þann 27. júlí árið 1979. Í millitíðinni höfðu drengirnir sent frá sér live-plötuna  If you want blood you’ve got it . *** Einsog ég hef nefnt eru nokkrir mælikvarðar til þess að mæla AC/DC lög. Gæði er einn, og gildur flokkur, en eitt af því sem kveikir í mér – og er oft í samfloti við gæði, en alls ekki alltaf – er einfaldlega  hversu mikið AC/DC er þetta AC/DC lag?  Þú veist, á skalanum frá 1-10. Þetta er sérstaklega relevant spurning vegna þess að tónlist AC/DC snýst um einhvers konar kjörnun, frekar en framþróun eða feril – þótt slíkt sé auðvitað óhjákvæmilegt líka. En þetta eru ekki Bítlarnir. Það er ekki verið að finna upp hjólið – það er verið að fullkomna það. *** *** Highway to Hell, titillagið og fyrsta lag plötunnar, er fyrsta lagið á ferli sveitarinnar til að ná 10 á AC/DC skalanum – AC/DC-aðasta lagið á ferlinum til þess og nógu AC/DC-að til að það verður ekki toppað, þetta er í besta falli hægt að jafna (og á eftir að gerast oft). Hrein tía – ekki besta tían (sennilega er það Hells Bells), ég er ekki einu sinni viss um að þetta sé besta lagið á plötunni – en ótrúleg kjörnun. Engu lagi líkt. Það vissi enginn að þetta væri einu sinni hægt. *** Besta lagið á plötunni er samt Touch too Much. En það er ekki nema nía á AC/DC skalanum. Það er sennilega hátt í tíuprósent ABBA í þessu – sjáið þetta bara fyrir ykkur, heyrið það fyrir ykkur, í þröngum latexgöllum, Björn á bassa, Benny á keytar og Agnetha og Anni-Frid á háu c-unum. *** *** Á Highway to Hell finna þeir líka sándið sitt – eða fínpússa það eða hvernig maður vill orða það. Þeir halda því ekki hreinu í gegn en það er þarna. Og kemur að vísu ekki til af góðu. Þeim hafði ekki lánast að slá í gegn í Bandaríkjunum – eða fá þar útgefna plötu – og voru þvingaðir til að skipta um pródusent. Það var ekki síst sársaukafullt vegna þess að annar í dúettnum sem hafði pródúserað þá fram til þessa var stóri bróðirinn – George Young – og hinn, Harry Vanda, var auðvitað orðinn náinn þeim líka, nánast einsog hver annar bróðir. *** Við tökkunum tók Eddie nokkur Kramer sem ætlaði að fá þá til að gefa út einhvers konar koverlagaplötu – eða í það minnsta láta singlana vera koverlög. Honum þótti alls ekkert til lagasmíða bræðranna koma. Og var í kjölfarið hrakinn á flótta með munnsöfnuði sem verður ekki endurtekinn hér. Næstur kom Robert „Mutt“ Lange til sögunnar – og hvað sem manni finnst um árin á undan og árin á eftir – þá eru næstu þrjú árin undir hans stjórn algerlega fúndamental í sögu hljómsveitarinnar. Þar er borað að innsta kjarna rokkgrýtisins og allur krafturinn virkjaður. *** Ég ætla ekki að hafa þetta of langt í dag. En það væri fáránlegt að setja ekki inn Night Prowler. Fjöldamorðinginn Richard Ramirez hélt mikið upp á þetta lag og var einlægur aðdáandi sveitarinnar. Hann kallaði sig sjálfur Night Stalker. Það vakti auðvitað mikið umtal á sínum tíma – verstu pótintátarnir kenndu AC/DC bara um allt saman. It’s the devil’s music o.s.frv. Og það orðspor átti eftir að elta þá næstu árin. Lagið fjallar samt bara um eitthvað næturhangs – og að heimsækja kærustuna sína í foreldrahúsum að næturlagi. *** #ACDC

id““:““6jctc““

Highway to Hell, Back in Black og For Those About to Rock eru allt mjög grand plötur með stóru sándi og miklu flugeldum. Eða réttara sagt miklum fallbyssuskotum og þungbærum bjölluhljómi. Þetta eru þær þrjár plötur sem Mutt Lange pródúseraði og eftir þær þrjár voru AC/DC komnir með nóg. Þá langaði ekki að dútla sér í stúdíói mánuðum saman. Þá langaði að gera eitthvað beisik. Og pródúseruðu Flick of the Switch því sjálfir. Þegar ég var í menntaskóla keypti Teddi vinur minn sér Camaro Trans Am (leiðrétt). Ísfirskir unglingar áttu (margir, ekki allir) alltaf fáránlega mikla peninga – það var næg vinna, við bjuggum hjá foreldrum okkar, og Teddi var alltof reglusamur til að drekka þá alla einsog við hinir (ég átti bara Mitsubishi Colt). CamaroTransAminn drakk samt dálítið mikið af peningunum hans. Nema hvað – þegar maður fór á rúntinn með Tedda þurfti maður alltaf að sitja kyrr í bílnum í svona tíu mínútur eftir að hann startaði honum og áður en maður keyrði af stað. Annars drap hann bara á sér. Þetta var rosalegt tryllitæki og það var alveg svolítið kikk að sitja bara í honum, finna allan þennan kraft streyma í gegnum sig og keyra svo varlega af stað þegar bíllinn var tilbúinn. Þetta lag er svolítið einsog að fara á rúntinn með Tedda sumarið 1997. No bullshit, en samt einhvern veginn svo mikið bullshit. Og ég meina það mjög vel. Sumarið 1995 fór ég á Mitsubishi Coltinum mínum upp á Breiðadalsheiði (þessa sem er yfir Vestfjarðagöngunum). Þar var malarvegur og frekar skuggalegur á köflum en efst á þessum hæsta fjallvegi landsins var líka langur beinn spotti. Þar keyrðum við Skarpi vinur minn einu sinni – eða ég keyrði, ég get ekki kennt neinum um nema sjálfum mér – og ég kreisti dolluna upp í 140 kílómetra hraða áður en ég missti stjórn á bílnum á mölinni, svo hann flaut bara stjórnlaust áfram út í eilífðina. Ég vissi betur en að nauðhemla og bað bara bænirnar upp á að við færum ekki út af. Sem við gerðum ekki (ég átti eftir að fara út af á þessari heiði síðar sama sumar, en það var bara á 40). Landslide er doldið einsog að fara á rúntinn yfir Breiðadalsheiðina með Skarpa. Veturinn 2004 gaf ég út fyrstu skáldsöguna mína og keypti mér bíl fyrir fyrirframgreiðsluna. Vegna þess að ég er ekki Camilla Läckberg var fyrirframgreiðslan mín bara rétt svo temmileg og dugði fyrir 1989 módeli af Nissan Pulsar, sem gerði mér þann greiða reglulega að bila, aðallega þegar ég keyrði í gegnum Hólmavík – sem ég gerði ansi oft. Ég endaði sennilega á að gefa öllum bifvélavirkjum í Hólmavík eintak af Hugsjónadruslunni fyrir aðstoðina – sem var alla jafna mjög lipur og ódýr. En einu sinni komst ég í gegnum Hólmavík og upp á Steingrímsfjarðarheiðina – sem gegnir hlutverki erkióvinar í lífi mínu í dag, en ég hafði enn ekki lent neitt sérstaklega illa í henni þá. Ég slapp líka yfir hana þrautalaust í þetta sinn, þótt það væri snjóþungt. Í Ísafjarðardjúpi var hins vegar flughált – það var hnausþykkt skautasvell yfir öllu og svo snögghlýnaði og fór að rigna. Ég keyrði allt djúpið í fyrsta gír – fór sennilega aldrei hraðar en 20 km á klukkustund. Á einum tímapunkti ætlaði ég að fara út að pissa en áttaði mig á því að ég gat ekki stöðvað bílinn – ef ég stöðvaði hann þá rann hann bara í burtu, hvort sem var á jafnsléttu eða annars staðar. Og þá ekkert að gera nema bara að halda honum á yfirvegaðri siglingu og vona að maður kæmist þetta á þolinmæðinni. Það skall svo á vetrarnótt – þetta var í desember og ég var að koma úr því að túra landið sem upphitunaratriði fyrir Ödda Mugison – og tunglið lýsti upp djúpið og það var enga aðra bíla að sjá. Deep in the Hole er svolítið svona, einsog að rúnta einn um djúpið á 20 km hraða undir tunglinu og nóttinni. Einu sinni húkkaði ég mér far á þýskri bensínstöð. Eða – ég húkkaði mér alls ekkert far. Ég steig út úr bílfari – það var mjög fínn Benz og bílstjórinn var að koma frá Amsterdam, útúrkókaður og hafði æpt á mig yfir brjálæðislega hátt stillta Lenny Kravitz rokkið sitt að það væri alveg frábært dóp í Amsterdam aftur og aftur í tvo-þrjá tíma. Þegar hann setti mig úr á þessari bensínstöð, sem ég man ekkert hvar var – nálægt Hamborg allavega – stoppaði mig Marokkómaður sem sat á gangstéttinni með kaffibolla og sagðist ánægður með gítarinn minn, kassagítarinn Héðinn, eða nánar tiltekið límmiða á honum sem á stóð „Alle Menschen sind Ausländer – fast überall“ (allt fólk er útlendingar, næstum alls staðar) og spurði hvort ég (og kærastan mín) værum að leita að fari. Ég jánkaði því og hann sagðist mjög þreyttur – hefði keyrt í meira en sólarhring – og spurði hvort við værum nokkuð með bílpróf. Sem við vorum með (kærastan meira að segja með meirapróf). Hann sagðist ætla að keyra aðeins lengra en svo væri gott ef við gætum tekið við stýrinu. Hann var ekkert að grínast með að hann væri þreyttur – hann dottaði við stýrið á Mazdadruslunni sinni á fimm mínútna fresti, hrökk við á 150 km hraða og sló sig utan undir, teygði sig í kaffibollann, og alltaf spurðum við hvort við ættum ekki að taka við, þetta væri ekki nógu gott, hann gæti hvílt sig. Hann sagði jájá, jájá, skiptum á næstu bensínstöð – og brunaði svo framhjá henni (kannski sofandi). Eftir nokkrar klukkustundir af þessu ákvað hann einfaldlega að stoppa og sofa í bílnum, enda komið kvöld, og við kærastan fórum inn í eitthvað rjóður til að sofa sjálf. Badlands er svolítið einsog að keyra eftir Autobahn með syfjuðum Marokkómanni – furðu spennandi – og Brainshake er einsog að keyra eftir Autobahn með útúrkókuðum Þjóðverja. #ACDC