Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri engan hallmæla neinum bókum og heyri bara almennt enga velta því fyrir sér hvort það sé eitthvað sem maður verði að lesa og hvort það sé eitthvað sem maður ætti að forðast og ég heyri engan spyrja annan hvað hann eða hún eða hán hafi lesið eða fyrir hverju hann eða hún eða hán sé spennt. Og ég fór að velta því fyrir mér hvort það væri vegna þess að það birtast svo fáir dómar og hvernig maður eiginlega viðhaldi spenningi. Ég held það sé ekkert að bókunum sem eru að koma út – sannarlega margir fyrirtaks höfundar.

Ég var að lesa How Music Works eftir David Byrne – hún er mjög góð, sérstaklega fyrri helmingurinn – og hann eyðir góðum skerfi í að velta fyrir sér þessu hvernig maður byggi tónlistarsenu, hvers sé þörf. Aðalatriðið er að eiga sér einhvers konar senu – steinsteypu – félagsmiðstöð. Stað þar sem hægt sé að hanga, hvert maður getur farið og búist við að hitta kunningja sína og sjá eitthvað áhugavert. Fyrir hann og hans kynslóð var þetta CBGB. Það var ekki nóg með að þar væri auðsótt að fá að spila heldur gat maður skrapað saman smápeningum fyrir spilamennskuna – hljómsveitin fékk aðgangseyrinn, sem var að sönnu ekki hár, og hljómsveitir sem höfðust við á CBGB fengu frítt inn hver hjá annarri (það var húsregla) sem þýddi að það var alltaf talsvert af fólki. Og staðurinn reyndar mjög lítill líka. Efnahagslegar forsendur voru síðan þannig að allt þurfti að vera ódýrt – hljómsveitir bjuggu saman á Bowery, þar sem leigan var lág og lifðu á litlu, og fóru ekki endilega mikið út fyrir hverfið (og þá helst út úr borginni til að spila annars staðar).

Tónlistarmennirnir á CBGB voru svo, að sögn Byrne, afar ólíkir innbyrðis en áttu það þó sameiginlegt að skilgreina sig sem „eitthvað annað“ en það sem þótti gjaldgengt og fínt víðast hvar. Þeir voru óvinsælir, prinsippfastir, sérsinna og erfiðir og fyrst og fremst voru þeir EKKI það sem var í útvarpinu.

Ég veit ekki hvernig maður yfirfærir þetta á bókmenntirnar nema til að nefna að eigi þær – eða bókmenningin, réttara sagt – að blómstra þarf að vera samfélag og helst fleira en eitt samfélag og eitthvað af aukasamfélögunum þarf að skilgreina sig í andstöðu. Sú litla andstaða eða núningur sem verið hefur í íslenskum bókmenntum síðustu misserin snýst um einhvern tittlingaskít milli ungskálda – strætóskálda og spíttskálda. Miðjan er alltaf eins – það eru enn sömu höfundar í brennidepli og þegar ég var ungskáld (með kannski stöku undantekningu(m)).

En verst er samt alltaf rýnin. Þegar Starafugl var settur á fót fyrir tæpum fimm árum síðan var tekin sú ákvörðun að leggja enga sérstaka áherslu á nýjar íslenskar skáldsögur – vegna þess að vistkerfi þeirra þótti bærilega hresst. Við lögðum og leggjum áherslu á þýddar skáldsögur, gamlar skáldsögur o.s.frv. (þótt að vísu sér erfiðara að koma þeim út). En svo er einsog þetta hafi snarversnað. Nú birtist bara frekar lítið af rýni í dagblöðunum; Víðsjá rýnir bara í eina og eina bók, Bók vikunnar er venjulega gömul bók – það er helst að bókmenntavefur Borgarbókasafnsins sinni þessu af einhverju viti. Fyrir utan auðvitað Kiljuna með sínum augljósu tímatakmörkunum og spjallformatti.

Þetta smitar síðan út frá sér. Ég ætla ekki að halda því fram að það sé engin stemning á svæðinu í kringum Laugaveg 18 – það hlýtur eiginlega að vera, endalaus útgáfuhóf og hittingar – en við sem ekki þrömmum þar á milli finnum lítið fyrir því.

Það er sosum ágætt að gera ráð fyrir líka að maður sé bara í einhverri bólu og verði ekki jafn var við heiminn og maður ætti að verða. Eða þetta sé bara allt orðið svo kunnuglegt að maður taki ekki eftir neinu. Maður sé lífsleiður af miðöldrun.

***

En ég ætlaði reyndar ekki að fara að röfla þetta. Sennilega ræður maður ekkert við sig. Óþolið og óþolinmæðin að drepa mann. Það er nærri því mánuður frá því Hans Blær kom út og ég hef ekki heyrt píp. Viðbrögðin eru nær bókstaflega engin. Það sem ég ætlaði að gera var að nefna hvað ég hef lesið og fyrir hverju ég er spenntur og reyna að peppa mig svolítið upp. Ég er búinn að lesa ljóðabók Hauks Ingvarssonar, Vistarverur, og skáldsögu Þórdísar Gísladóttur, Horfið ekki í ljósið. Þær eru báðar mjög góðar og meðmælast hart. Ég er spenntur fyrir Fríðu Ísberg, Friðgeiri Einarssyni og Jónasi Reyni og báðum dætrum Einars Kárasonar, Júlíu Margréti og Kamillu, og raunar Einari líka sem ég sleppti þegar hún kom út í vor. Eða missti af. Eða hvað maður segir um bækur sem maður les ekki. Já og Offa og Auði og Þórdísi Helga og Halldóru og Rúnari Helga, sem er að skrifa um Ísafjörð.

Einu sinni gerði ég mér alltaf far um að lesa slatta – alla helstu póstana og meira – í jólabókaflóðinu til að vera viðræðuhæfur. Svo man ég eftir að finnast það bara íþyngjandi, eitthvert árið, að þurfa að lesa þetta allt og þar með taldar alls konar bækur sem mér fannst í raun ekkert skemmtilegar, bara af því allir aðrir voru að lesa þær og vilji maður vera með þarf maður að lesa það sem hinir eru að lesa (og hinir eru svo kannski bara að lesa bækurnar vegna þess að maður er sjálfur að lesa þær). Í nokkur ár hef ég meira og minna alveg skrópað í jólabókaflóðinu – meira að segja bækur vina minna hef ég ekki lesið fyrren kannski „ári of seint“ (þetta jólabókaflóðsskróp mitt var kannski líka hljóðlát mótmæli við þeim lífsins gangi að bækur séu marklausar og horfnar frá og með nýársdegi).

En nú ætla ég sem sagt að taka mig taki og fara að lesa jólabókaflóðið – en reyna að takmarka mig við þær bækur sem ég hef raunverulegan áhuga á, þótt það kannski þýði ekki að ég verði viðræðuhæfur. Ég verð þá bara að vera óviðræðuhæfur. En ég verð allavega rosa vel stemmdur og í góðum fíling.

Tilvitnun vikunnar

By this stage of reflection, it seems that, for Aristotle, the value of our reflection on the best life is that it induces a kind of being-unto-death. It creates a fantasy of a release from the ordinary pressures of ethical life, a fantasy of sharing with the gods the greatest, stressless pleasure. This is a fantasy that carries within it an experience of lack, an experience of being at a distance from this wonderful goal. It is a fantasy of release which helps us organize and direct our ordinary practical lives. Those who know most about human life know that what is best is to organize life so as to escape its ordinary conditions – even the conditions of excellence within it. What is best about being human is the opportunity to break out of being human. Or: to be most human is to break out of the ordinary conditions of human life.

Jonathan Lear – Happiness, Death, and the Remainder of Life. 

Það er ekki mánudagur, einsog þið hafið tekið eftir, en ég var vant við látinn á mánudaginn og gat ekki skrifað neitt – Starafugl gekk fyrir þær fáu fríu mínútur sem ég átti.

***

Nefndi ég það ekki einhvern tíma hérna að einn flokkurinn á gömlu heimasíðu Nýhils hét „Mánudagur“ og þar var bara allt sem átti ekki heima annars staðar, aðallega greinar minnir mig. Þeir mánudagar birtust bara hvenær sem er.

***

Frá því síðast hefur heldur ekkert gerst. Ekki nokkur skapaður hlutur. Að minnsta kosti ekki sem viðkemur Hans Blævi.

***

Ojæja, það eru ýkjur. Ég las upp á Bókakonfekti Forlagsins – á leiðinni til Tromsø – og fékk eitt aðdáendabréf. Og hef þurft að útskýra fyrir ótrúlega mörgum ólíkum formönnum félagasamtaka að ég búi ekki á höfuðborgarsvæðinu og geti ekki komið og lesið upp (oftast fyrir engan pening) nema sé annað hvort fyrir tilviljun í nágrenninu eða einhver geti lagt út fyrir ferðalögum og gistingu. Það kom meira að segja Ísfirðingafélaginu í Reykjavík á óvart að ég byggi á Ísafirði. Hver býr eiginlega á Ísafirði?

***

Ég er pirraður og vansæll. Helvítis jólabókaflóð. Helvítis haust. Helvítis myrkur og kuldi. Ég þarf að fá mér aðra vinnu einhvers staðar í heitu löndunum.

***

Ég verð samt á Opinni bók í Edinborgarhúsinu á laugardag, í góðum félagsskap. Og kem við á suðurfjörðunum á leiðinni heim frá Króatíu í byrjun næsta mánaðar. Annað er ekki í spilunum.

***

Sennilega er ég líka bara ferðalúinn. Tromsø er nú bara í Noregi en ég þurfti auðvitað að keyra suður fyrst, sofa eina nótt í Keflavík, millilenda síðan í Osló á leiðinni þangað – og í Bodø, Þrándheimi og Kaupmannahöfn á heimleiðinni – gista aftur í Keflavík, keyra svo til Akureyrar í viðtal (ótengt bókinni) og heim. Nærri því 13 klst í loftinu og 1600 km í bíl. Svo gekk ég líka upp á fjall í Tromsø í einhverjum óskiljanlegum fíflagangi.

***

Ég er byrjaður að smíða hillu undir Hans Blævar bækurnar. Hugsanlega verður hún nógu stór fyrir Illskubækurnar líka. Þá losna ég við þetta af skrifborðinu og rými aðeins til í hinni hillunni.

Tilvitnun vikunnar

My father never attended a service at the lone synagogue in Yorktown heights. He did, though, pay a call on its offices one day in 1976 – to see if the young rabbi could stop my mother from seeking divorce. „And you know what he said?“ my father asked me as we were sitting in front of her computer. We had been looking at photographs of Hungarian cathedrals. „Waaall, Mr. Faludi“ – my father delivered the rabbi’s remarks in a high-pitched register – „in modern Judaism divorce is something that has to be considered.“ Whenever my father got on the subject of Jewish male authorities she’d encountered – whether American Reform rabbis or Orthodox caftan wearers or wartime Judenrat representatives – her impersonations turned mincing.

One summer afternoon when we had taken our coffee to the deck, my father went into yet another of her mocking imitations of the Budapest Jewish community elders who wouldn’t help her reclaim the family property after her return to Hungary. „Oh, we can’t do anything, Mr. Faludi,“ she said, channeling Minnie Mouse. „We have to make nice with the authorities.“ My father was wearing a rosebud-print housecoat and bedroom slippers – „my hausfrau outfit“, she called it – which only heightened the contradictions. Here was a Jewish man-turned-woman making fun of Jewish men for not being manly enough.

In the Darkroom – Susan Faludi

Útgáfuhófið var á laugardaginn. Ég ætlaði ekki að halda neitt útgáfuhóf og ég ætlaði ekki að taka upp neina hljóðbók – vegna þess að mér fannst þetta allt eitthvað viðkvæmt og ég var allur í einhverjum hnút, kannski ástæðulausum – en lét Ödda tala mig inn á að taka upp hljóðbók og Gunnar Jóns tala mig inn á að halda útgáfuhóf. Í stað þess að vera með útfærð skemmtiatriði frá öllum eftirlætis listamönnunum mínum og kviss og söng og 400 kíló af plokkfiski, einsog ég hef verið með í síðustu 3-4 partíum, þá ákvað ég bara að gera bara lágmarkið – skaffa áfengi, lesa og spjalla. Að vísu bættist í sjarmann og skemmtilegheitin sú staðreynd að hófið var haldið á nýopnuðu kaffihúsi Gunnars og Lísbetar, Heimabyggð, sem er dásamlegur staður, og að áfengið var bruggað af litla bróður mínum, bruggmeistara Dokkunnar. Það var auðvitað októberbjór, því þótt hófið væri haldið í nóvember gerist bókin í október.

Það var mjög gaman og stappfullt út úr dyrum, þurfti að taka fram alla stóla og ná í fleiri yfir í næsta hús. Við Gunnar tókum stutt, illa undirbúið og frekar nervust spjall sem mæltist merkilega vel fyrir, miðað við hvað við vorum eitthvað ómarkvissir og óeinbeittir. Ég held þetta sé heldur ekki bók sem er neitt vit í að ræða með 3-4 bjóra í blóðinu (Gunnar var vel að merkja bláedru – ég er að meina mig) – við festumst í einhverju trans- og trölladæmi sem var svo bara einhver hola og ég dró upp úr mér einhverjar klisjur í bland við undanbrögð og sagði sennilega eitt og annað sem ég meina bara alls ekki, svona eftir á að hyggja (meðal annars að ef það sé boðskapur í bókinni sé hann þveröfugur við það sem mér þyki – það er bara ekki alveg satt, og það er heldur ekki alveg satt að það sé enginn boðskapur í bókinni þótt það sé í henni ákveðin þvermóðska og mótþróaröskun). En gestir virtust nú samt alveg ánægðir með okkur og ég áritaði helling af bókum og naut samvista við allt skemmtilegasta fólkið í bæjarfélaginu.

Restin af jólabókaflóðinu fer svo bara í að bíða eftir að það sé búið og maður fái aftur eirð í hjartað til að skrifa eitthvað. Ég ætlaði að vera að þýða á fullu núna – Inger Christensen – en það gengur hægt. Í vinnunni kem ég litlu í verk en eftir vinnu hef ég verið að læðast út í bílskúr til að smíða einfaldan slide-gítar, sem ég sýni hér strax og ég er búinn að breyta þessu í gítarblogg.

***

Ég tók ljótu myndirnar en Nadja þær fallegu, fyrir utan þessa fyrstu sem ég stal af instagramminu hennar Júlíu.

Tilvitnun vikunnar

I put myself so thoroughly into the role of a man that honestly I believe that now I have both the man’s and the woman’s outlook on life; on the great question of sex, having lived so long as a man with men I know their point of view thoroughly, and as a woman I know the other – and honestly I am disgusted with both.

– úr blaðaviðtali við Victor Barker,
vitnað eftir Colonel Barker’s
Monstrous Regiment eftir Rose Collis

Þetta var furðu viðburðarík vika miðað við hvað ég er eitthvað rólegur. Á miðvikudag hófum við Örn Elías Mugison upptökur á hljóðbókinni Hans Blær, þar sem ég syng og geri eftirhermur, á fimmtudag kom Hans Blær í búðir, á föstudag var sjálfur Hans Blævar dagurinn – dagurinn sem bókin gerist – og á laugardag birtist langt drottningarviðtal við mig á Vísi þar sem kvenréttindaskelfirinn Jakob Bjarnar jós mig svoleiðis lofi að mér verður sennilega aldrei aftur boðið í nein femínistapartí meðan ég lifi. Viðtalið var annars held ég ágætt. Og með því fylgir fyrsti kafli Hans Blævar á hljóðbók.

***

Þessi vika fer í að undirbúa útgáfuhófið sem verður á laugardaginn næsta í nýopnuðu kaffi- og öldurhúsi vina minna Lísbetar og Gunnars. Það heitir Heimabyggð og er þar sem Langi Mangi og Bræðraborg voru áður. Og opnar raunar ekki sjálft fyrr en á fimmtudag. Þar verður boðið upp á ísfirskan Dokkubjór sem vill til að bróðir minn bruggar – þetta er dúndurglundur sem hefur hlotið mikið lof. Bókin verður á tilboði og ég ætla að árita bækur og spjalla um bókina og lesa upp úr henni. En aðallega ætla ég bara að reyna að skemmta mér og vera ekki taugaveiklað hrak.

Farið hingað og merkið ykkur komandi – og segið vinum ykkar frá þessu. Eða í það minnsta vinum mínum.

***

Annað sem gerðist í síðustu viku. Óratorrek kom út í Danmörku – Oratormonologer – og fór í prentun í Svíþjóð, þar sem hún heitir Oralorium. Nanna Kalkar og John Swedenmark þýða. Illska kom úr prentun á Spáni, Enrique Bernandez þýðir, og ætti að detta inn í búðir síðar í mánuðinum, einsog Króatíska útgáfan – sem ég veit hreinlega ekki hver þýðir. Svo fékk ég líka í hendurnar loksins DV Menningaverðlaunin mín, sem eru komin á grobbvegginn, það er nú ekkert eðlilegt hvað ég er mikill verðlaunagrís.