Great Apes og Le Fantôme de la liberté

Ég kláraði Great Apes eftir Will Self í gær. Bókin, sem er frá 1997, fjallar um myndlistarmanninn Simon Dykes, sem vaknar dag einn eftir mikið og kunnuglegt eiturlyfjarús við þá skelfingu að kærastan hans er ekki lengur manneskja heldur simpansi. Og ekki bara hún reyndar, heldur hann líka, og allir sem hann þekkir – veröldin einsog hún leggur sig, í stíl við Planet of the Apes. Í stað þess að menn hafi þróast og orðið ráðandi tegund jarðarinnar voru það simpansar – órangútanar og górillur heyra hins vegar til dýraríkinu, líkt og menn. Simon lendir síðan í meðferð hjá hinum „mikilsvirta náttúruspekingi“ (einsog hann kallar sig ítrekað sjálfur), Zack Busner, sem fylgir honum í gegnum veröld simpansana, heimilislíf þeirra beggja og loks til Afríku í leit að týndum syni Simons, sem sennilega er enn maður og býr þar á verndarsvæði.

Ég hef aldrei lesið bók þar sem er jafn hressilega mikið riðið og slegist. Simpansarnir hafa ekki verið antrópómorfíseraðir svo mikið að þeir glati þeim eiginleikum sem þeir hafa í náttúrunni – þvert á móti finnst þeim mjög sætt eða sjúkt eftir atvikum hvað mannskepnan er spéhrædd og kynlaus og það hversu langan tíma það tekur hana að fá fullnægingu er talið til marks um lífsleiða. Simpansarnir hins vegar raða sér upp eftir hírarkískum tiktúrum í röð við næsta bólgna kvenskaut og fá það á fáeinum sekúndum. Konurnar hleypa bara körlunum að þegar þær eru á lóðaríi en karlarnir serða allt – líka náskylda ættingja sína og það þykir gróf misnotkun að sinna ekki serðingu dætra sinna.

Ofbeldi er þá daglegt brauð. Fari einhver fram úr sér við sér hátt settari apa – sjúklingur við lækni, t.d., einsog gerist af og til milli Simons og Busner – tekur sá háttsettari sig til og snuprar smælingjann með því að berja hann hressilega og ítrekað í nefið, hendurnir einsog þyrluspaðar.

Annað er eins – „sumt breytist aldrei“, er sagt nokkrum sinnum í gegnum bókina – og konur eru undirsettar körlum og bónóbóar (af afrískum uppruna) undirsettir simpönsum.

Ég gleymdi bókinni heima (ég er á skrifstofunni) og það er ótrúlega lítið hægt að gúgla því en mig langaði að birta hérna tilvitnun til að sýna ykkur stílinn – sem er vægast sagt frábær. Vísindalegur, ljóðrænn, hilaríus – ég á auðvitað ekki ensku að móðurmáli og get ekki verið fullkomlega dómbær en mér finnst enginn komast í hálfkvisti við Will Self þegar kemur að unaðslega meðvituðuðum og orðríkum texta nema kannski Nabokov. Að minnsta kosti ekki fyndnu höfundarnir – Joyce kemur upp í hugann en hann skýtur bara of langt yfir markið.

Góður maður gæti gleymt sér dögum saman við að greina hvað er rangt við þessa bók. Viðlíkingar af þessu tagi og karnivalískir viðsnúningar geta aldrei þolað mikla snertingu við vitlausa bein hinna vel meinandi – hugtakið mutually assured destruction kemur upp í hugann. Karikatúrar eru eðli málsins samkvæmt særandi og vilji maður ekki algerlega skera burt alla viðkvæma þjóðfélagshópa – alla nema hinn dómínerandi gagnkynhneigða hvíta sís-karlmann – þá karíkatúrar maður þá líka, gollívoggar þá, og stillir upp viðstöðulaust dauðafærum fyrir félagsbókmenntafræðinga.

Það er skrítið og kannski er það ekkert skrítið hvað það situr djúpt í manni nútildags að byrja á slíku nittpikking og horfa meira og minna framhjá því um hvað verkin snúast og hvað þau eru að segja. Það er nánast ósjálfrátt viðbragð, einsog bergmál úr Twitterspherinu. („Svona var þetta ekki þegar ég var ungur, ég skal sko segja ykkur, á Ircinu var …“)

Great Apes fjallar um margt og verður ekki auðveldlega smættuð – en helsti og mikilvægasti þráðurinn, sá sem ég myndi toga í ef ég væri að skrifa bókmenntarýni, snýr að sambandi manns við eðli sitt og mörkin milli manns og náttúru hvort sem maður sér þau sem „eðlileg“ eða „tilbúin“. Hvað það þýði að álíta sig aðskilin frá skítnum, eitthvað „annað“ en náttúruna – hvort heldur maður gerir það einsog hippinn sem telur sig skilja hana, vill vernda hana, úr hásæti sínu og af óþolandi hroka, eða einsog borgarbúinn sem vill helst ekki sjá hana og heldur að hún sé ekki hluti af sér, heldur eitthvað utanaðkomandi.

Og þegar ég segi náttúra meina ég bæði grösin og gredduna – bæði náttúruna í fjallinu og náttúruna í manninum.

***

Í gær horfði ég líka á Vofu frelsisins – Le Fantôme de la liberté – eftir Luis Buñuel. Einsog gefur að skilja er þetta súrrealískt verk og þar eru nokkrir viðsnúningar sem eru blóðskyldir apaleikjum Self. Söguþráðurinn er bútasaumur – við fylgjum einni persónu að þeirri næstu og skiljum stundum við sögupersónur í miðri sögu, finnum þær stundum aftur síðar og stundum ekki. Þetta hljómar auðvitað hámódernískt og mjög leiðinlegt ef maður þekkir ekki Buñuel, sem er svívirðilega fyndinn höfundur.

Í þessari mynd er hin fræga matarboðssena. Þar gyrðir fólk niðrum sig og situr til borðs á klósettum og kúkar saman meðan það spjallar en bregður sér síðan afsíðis til að borða – confit de canard, sýndist mér það vera, og rauðvín með.

Myndin er frá árinu 1974 og færi sennilega sem því nemur enn verr út úr hinum viðkvæma samtímalestri en Great Apes. Það finnst angan af því kynferðislega frjálsræði sem hafði rutt sér rúms en hún birtist fyrst og fremst í nöktu kvenfólki – tveimur stykkjum – en þeim tíma og þeim móral virðist minna fagnað í dag, fyrir það siðferðislega drullufangelsi sem hann muldi, og meira bölvað fyrir (augljósan) ófullkomleika sinn. Í annarri af þessum kvennektarsenum, þar sem ungur maður reynir með talsverðri frekju að koma til við sig aldraðri ástkonu, birtist okkur líkami þeirrar gömlu sem ungur – þegar hann loks birtist. Sem er auðvitað í anda súrrealismans en einhverjum gæti þótt pólitískt eða móralskt óþægilegt – eða í það minnsta nóg til að við það væri staldrað.

Reyndar birtist þarna líka einn karlmannsrass, sem ég hafði gleymt, og er flengdur af konu í leðurbúning, í senu sem er mjög kómísk á kostnað hinna BDSM-ísku exhibisjónista. Sú sena er líka á einhvers konar hápunkti myndarinnar – að mínu mati – sem gerist á gistiheimili þar sem gestir flakka á milli herbergja og heilsa hver upp á annan í alls konar undarlegum kringumstæðum. Þetta er svona hurðafarsi fyrir súrrealista.

Senurnar eiga það flestar sameiginlegt að snúa upp á félagslega siði – sumar bara lítið, einsog hjá lögregluskólakennaranum þar sem fólk er stanslaust að koma og fara, aðrar meira einsog hjá bróðurnum sem hangir yfir naktri systur sinni þar sem hún spilar rapsódíu Brahms, og aðrar enn meira einsog þegar lögreglan ber ekki kennsl á sýslumann, handtekur hann, en þegar hann hittir þann sem þá er sýslumaður (fyrst hann var ekki sjálfur sýslumaður er einhver annar sýslumaður) verða þeir báðir sýslumenn. Hvert skref er í sjálfu sér rökrétt en algerlega án tengsla við þau rök sem réðu skrefinu á undan – siðirnir og hegðunin er rétt ef þau eru skoðuð einangruð.

Sama gildir um stúlkuna sem leitað er að um alla París svo vikum skiptir vegna þess (hafi ég skilið það rétt) að henni varð á að svara ekki nafnakalli í skólanum. Það skiptir ekki máli þótt hún svari síðar og aðstoði yfirvöld við að leita að sér – hafi hún ekki svarað nafnakalli er hún ekki til staðar og sé hún ekki staðar verður að leita hennar þar til hún finnst. Sem hún gerir á endanum, án þess að á því sé gefin nein sérstök skýring. Stundum finnast týnd börn og stundum ekki.

***

Gítarleikari vikunnar er Paul Kossoff í Free. Ekki sá teknískasti eða sá frumlegasti – en þvílíkur tónn, þvílíkt víbrató! Fyrir bassaleikarana er svo líka bassasóló.

Aino er búin að vera lasin síðustu daga. Það var pínu púsluspil fyrir foreldra hennar að láta það ganga upp, því við höfum mikið að gera, einsog gengur. Nadja lenti í tölvuvandræðum og þurfti að vinna upp alls konar vegna skjala sem hurfu og ég er að keppast út á endann í fyrsta handriti að nýrri skáldsögu til að geta séð hvort ég á séns að klára það fyrir haustið. Reyndar kitlar mig líka að gefa út næsta vor. Jólabókaflóðið hefur almennt vond áhrif á líðan mína og síðasta jólabókaflóð var óvenju slæmt.

Þegar Aino er lasin skiptist hún á að vera mjög, mjög þreytt og liggja fyrir framan sjónvarp og að vera mjög, mjög skrafhreifin. Í gær töluðum við saman viðstöðulaust í þrjá tíma um allt milli himins og jarðar. Svo lá hún bara flöt í þrjá tíma. Annars erum við meira týpurnar til að þegja saman – lesa bækur saman, kúra og teygja okkur.

Og talandi um vorbækur þá er Ó – um þegnrétt tegundanna í íslenskri náttúru, ný skáldsaga míns kæra Hauks Más, loksins komin út. Ég las hana í handriti fyrir rúmu ári síðan og hafði þá á orði hér einhvers staðar að íslenskar bókmenntir ættu von á góðu – þetta er einfaldlega ein allra áhugaverðasta skáldsaga sem skrifuð hefur verið á íslensku í langan tíma og ég er ógurlega stoltur af að geta kallað Hauk vin minn. Það gleður mig líka að sjá að fólk er spennt fyrir henni og þau sem hafa og eru að lesa hana virðast gríðarkát – það er ekki sjálfsagt að bækur rati í mark.

***

Ég sit á kaffihúsinu Heimabyggð. Hér sit ég oft núorðið. Ég hef verið að reyna að skipta vinnutíma mínum aðeins betur á milli ólíkra staða. Skrifstofa verður svo auðveldlega að einhverjum sjúkum bönker – þar sem maður ræktar ekkert nema sínar mest intróvert og paranojuðu tilfinningar. Úr því geta orðið ágætis bókmenntir, í sjálfu sér – ég skrifaði Hans Blævi mestmegnis á kontórnum í Aðalstræti, fyrir utan þann hluta hennar sem var skrifaður í residensíunni í Krems, handan götunnar frá öryggisfangelsi Josef Fritzl og ekki voru það aðstæður sem drógu úr noju eða sjúkleika. En ég er að reyna að skrifa eitthvað aðeins bjartara núna og þá þarf ég líka að geta loftað út úr heilanum á mér.

Mest skrifa ég þá heima, á skrifstofunni og hérna. En á þriðjudaginn fór ég og sat á bókasafninu í nokkra klukkutíma og geri það sennilega líka eftir hádegi í dag. Á leiðinni heim kom ég við hérna og fékk mér einn kaffibolla – ókostur bókasafnsins umfram hina staðina er að þar fæ ég ekkert kaffi. Það var lítið að gera. Eyjó – Sesar A – sat í einu horninu og vann að sínu einsog hann gerir oft. Og þá lenti ég í svolitlu merkilegu. Inn kom maður með heddfóna sem hann var augljóslega að tala í – frekar hátt. Þetta voru svona þráðlausir hljóðeyðandi heddfónar, alveg einsog ég á sjálfur, og þegar hann hafði lokið sér af með símtalið pantaði hann sér kaffibolla og settist niður við gluggann. Þar skók hann sér mikinn svo það ískraði og brakaði í stólnum í takt við tónlistina sem hann var að hlusta á – hann tók ekkert eftir þessu sjálfur, verandi með hljóðeyðandi heyrnartól, en það fór nokkuð fyrir þessu á annars hljóðlátu kaffihúsinu. Nema hvað, þetta truflaði mig engin ósköp, ég las í gegnum kaflann sem ég hafði ætlað að skoða, kláraði kaffibollann minn, fór í búðina og heim að elda kvöldmat fyrir gengið – eða sennilega fór ég út að hlaupa fyrst, skiptir ekki öllu.

Ég byrjaði aftur á Twitter um daginn, meðal annars til þess að geta fylgst með því hvenær birtast dómar um bækurnar mínar í útlöndum. Ég hef orðið var við að bókatímaritin í Suður-Evrópu – Frakklandi og Spáni, þar sem mér gengur ágætlega – nota Twitter meira en Facebook. Og þess vegna vakta ég nafnið mitt (þótt ég sé annars ekkert yfir það hafinn heldur að gúgla mig – ég er óttalegur lúði). Og þá sé ég að þessi náungi, þessi með heyrnartólin, er einhver fígúra á Twitter (ef maður gúglar nafninu kemur í ljós að hann er fastagestur í svona „fyndnustu tíst vikunnar“ pistlum) og hann hefur verið að tísta.

Ég er mjög óvanur þessu og finnst þetta svona fremur í dónalegri kantinum. Ég veit að maður er ekki heima hjá sér á kaffihúsi. Einhvern veginn er stærsti kostur góðs kaffihúss sá að manni finnist maður vera heima hjá sér – og mér líður svolítið einsog einhver hafi tekið mynd af mér innum gluggann heima á náttfötunum. Þú veist, ég skil alveg að það sé fyndið – mér meira að segja finnst það fyndið – en mér finnst það líka pínu dick move.

Ekki þar fyrir að það er mjög mikilvægt líka að standa vörð um rétt fólks til að vera fífl. Það má. En mig langaði sem sagt að koma þessu að, að mér þætti þetta fávitaleg hegðun.

Annars er Twitter líka mjög skrítið rými. Undarleg blanda af svona smánandi háði og PC vitundarvakningu og tilfinningasemi. Ég hef ekki orðið var við jafn mikinn in-crowd-isma síðan ég var í menntaskóla. Sem er reyndar líka fyndið í ljósi þess að síðustu daga hefur fólk á twitter mikið verið að bera íslenska menntaskóla saman við hitt og þetta (MR er Hufflepuff, MS er Ravenclaw eða MH er Glasgow Rangers, Versló er Liverpool o.s.frv.).

***

Ég gleymdi gítarleikara vikunnar í síðustu viku. Lommi hefur verið að biðja mig um að hafa John 5 og það er alveg sjálfsagt.

***

Mér finnst sífellt stærri hluti listrýni fara fram á siðferðislegum forsendum. Ég var áreiðanlega búinn að nefna það einhvers staðar hérna. Listaverkum er talið það til lasts að þau séu óþægileg, jafnvel þótt þau eigi augljóslega að fjalla um eitthvað sem er óþægilegt og kanna óþægilega núansa. Annar hver dómur er annað hvort móralskt heilbrigðisvottorð eða fordæming. Þetta er mjög hversdagsleg sýn á listina og verði hún ofan á held ég hreinlega að listin, sem slík, sé dauð og tilgangslaus sem annað en skemmtun. Og þá verður nú gaman að vera til.

***

Jæja. Þetta varð alltof langt. Ég á eftir að skrifa mjög mikið í dag og þarf að koma mér að verki.

Í gær var ég kynnir í Norræna húsinu, þar sem Ásta Fanney, Lommi, Haukur I og Fríða Ísberg komu fram. Ég gisti svo hjá Hauki og eyddi deginum í að leita að Pokemonum í Reykjavík. Í þrjá tíma þrammaði ég um í rigningunni einn með frekar þráhyggjukenndum hugsunum mínum án þess að finna Pokemonana sem ég var að leita að. Svo skæpaði ég við son minn sem útskýrði fyrir mér hvaða Pokemon hann vildi þá fá í staðinn fyrst hinir voru ekki til. Hann verður sjálfsagt ekki síður glaður að vita að einn af þeim sem afgreiddu mig í Nexus var Jón Geir Jóhannsson, ísfirðingur og trymbill Skálmaldar, þótt mér verði kannski ekki fyrirgefið að hafa ekki fengið hjá honum eiginhandaráritun.

***

Kannski er ég hættur að gítarblogga. Ég gæti samt viljað gera einhvern pedalasamanburð hérna bráðum. Ég er svolítið farinn að spila meira aftur á hina gítarana mína. Það er mjög undarlegt hvernig einn gítar getur inspírerað mann mjög mikið einn daginn og verið í algeru uppáhaldi til þess eins að deyja í höndunum á manni þann næsta. Nú er ég mikið að taka í Telecasterinn – djásnið. Ég spila ábyggilega hátt í klukkutíma á dag – að meðaltali – og nýt þess mikið. Oftast er það bara glamur – ég að elta einhverja hljóma og æfa spuna, það er mjög hugleiðandi, róandi.

***

Gærkvöldið leystist upp í annars vegar einlægni vs. kaldhæðni ruglið og hins vegar stelpur vs. strákar ruglið. Hvorutveggja er lúið.

Ég meina samtalið á sviðinu í Norræna húsinu. Ég var eitthvað að reyna að spyrja þau hvernig þau teldu straumana í íslenskri ljóðlist hafa breyst síðustu 15 árin og vakti upp gamlan draug. Niðurstaðan er líka alltaf sú sama – kaldhæðni og einlægni eru alls engar mótsagnir og við erum að smætta sjálf okkur skáldskap hvers annars með því að láta einsog þau séu það.

Hins vegar virðist fólk lítið flækja fyrir sér kynjapælingarnar. Fólk talar alveg hindrunarlaust um „bækur eftir konur“ eða „bækur eftir karla“ einsog það séu skýr hugtök með skýra fagurfræði á bakvið sig og reynsla kvenna og karla tilheyri ólíkum heimum. Það finnst mér í besta falli mikið overstatement – en það er líka mjög algengt overstatement og sennilega þægilegur staður til að taka afstöðu út frá. Ég veit samt ekki hvort það er einhver slagur sem mig langar að taka.

Upplestrarnir voru frábærir.

***

Í vikunni var ég eitthvað að hugsa um muninn á bókmenningu á Íslandi og í Frakklandi – þar sem ég þekki ekki mikið til en samt pínu. Upplifun mín á bókafólki í Frakklandi er að það sé stöðugt að ýta að manni einhverjum obskúr bókum sem maður hefur aldrei heyrt minnst á – það sé beinlínis kúltúrkapítal í því að vera alltaf með eitthvað óþekkt á vörunum. Á meðan að íslenskt bókafólk spyr alltaf hvort maður sé búinn að lesa bókina sem allir eru búnir að lesa. Þannig verður til sameiginlegt samtal um nokkrar (vinsælar) bækur á Íslandi en í Frakklandi verður samræðan alltaf um eitthvað nýtt og óþekkt. Hvorutveggja hefur sína kosti.

***

Það slær mig annars að ein ástæða þess að við lendum svo oft í að ræða þessi óskýru box – nýhil og partus og einlægni og kaldhæðni og strákar og stelpur o.s.frv. – sé sú að það er ekkert skrifað um íslenska ljóðlist. Það eru bókstaflega engar ritgerðir til um Nýhil eða Partus eða fagurfræði í ljóðlist síðustu 20-30 árin – sem margir virðast engu að síður álíta mjög frjóan tíma í íslenskri ljóðagerð. Það er lítið skrifað af krítík – lítil afstaða, sérstaklega allra síðustu árin – en það er líka bara mjög lítið skrifað uppi í háskóla um nokkra einustu ljóðlist og alls ekki þessa. Það er svo lítið búið að flækja og greina málin – og allt endar í einföldun. Nýhil verður kaldhæðin andfeminísk pulsuveisla þrátt fyrir skáldskap Kristínar Eiríksdóttur eða Þórdísar Björnsdóttur og Meðgönguljóð verður feminín einlægniverksmiðja þrátt fyrir skáldskap Ástu Fanneyjar – nú eða Bergs Ebba.

Mér fannst samræðurnar samt skemmtilegar. Mér finnst samræður eiginlega alltaf skemmtilegar – og held að vandamál þeirra sé frekar að þær séu of sjaldséðar (og við öll of óvön því að setja okkur í þessar stellingar, svara fyrir okkur, skilgreina okkur inn og út úr hvert öðru, átakafeimin) frekar en að það sé of mikið af þeim. Og fjórmenningarnir þarna – og fólkið úti í sal, sem tók virkan þátt í þessu – eru ekki beinlínis neinir vitleysingar, þvert á móti. En ég kann ekkert að stýra umræðum – hef aldrei gert þetta áður og lætur það ekki vel.

***

Ég fékk uppgjör fyrir Hans Blævi. Hún seldist bókstaflega ekki rassgat. Helmingi minna en minnst selda skáldsagan mín til þessa. Ég skulda forlaginu pening, en ekki öfugt. Ég veit ekki alveg hvers vegna ég er að þessu.

***

Hluta af mér langar að skrifa tvær bækur á ári – fara í einhvern Cesar Aira pakka og bara skrifa og skrifa og skrifa – og annar hluti vill bara fara og læra bókfærslu eða eitthvað gagnlegt sem maður fær tryggar tekjur fyrir, lesa ljóð eftir vinnu og láta annars skeika að sköpuðu. Ég er langt kominn með nýja skáldsögu og gæti alveg skrifað tvær í ár ef ég bara sleppti því að líta upp. Og ég gæti bara hætt að skrifa á morgun.

***

Annars er ég líka bara ógeðslega þreyttur. Ég svaf mjög lítið í fyrrinótt – áður en ég kom suður – og ráfaði einhvern veginn bara um í dag, einsog draugur í borginni. Hausinn á mér er gatasigti. Þegar ég kem heim ætla ég í bað og ég ætla ekki upp úr því fyrren í fyrsta lagi á sunnudag.

***

Nú styttist í flugið.

Gítarblogg – færsla 12

Af öllu því sem mér finnst leiðinlegt – sem er auðvitað mismikið eftir því hvernig ég er stemmdur, helst vil ég finnast sem allra fæst leiðinlegt – þá þykja mér „smekklegir gítarleikarar“ einna leiðinlegastir. Smekklegur gítarleikur er bara ekki skemmtilegur. Gítarleikur er páfuglasport fyrir alvöru metnaðarfulla montrassa sem vilja hafa hátt. Ef mann langar að vera smekklegur getur maður bara lært að spila á lútu, franskt horn eða eitthvað. Það eru til hljóðfæri sem henta smekklegu fólki mjög vel. Rafmagnsgítar er ekki eitt þessara hljóðfæra.

Þetta verður stutt gítarblogg í dag. Ég er alltíeinu á kafi í nýrri bók og get varla hugsað um annað. Ég er í alvöru svo viðutan að ég gleymi að setja vatn í kaffikönnuna – tekst ekki að strengja saman fleiri en tvær hugsanir í samfellu utan bókarinnar.

En ég lofaði að sýna ykkur Endemi með dálitlu overdrive-i. Ég fór og heimsótti pedalasmiðinn Ásgeir Helga Þrastarson á dögunum og fékk hjá honum alls kyns góðgæti til að prófa. Þar á meðal eru tveir grænir bjögunarfetlar – annar er tubescreamer en ég veit ekkert hvað hinn er. Hann er málaður einsog turtleskarl og er algert yndi. Það er á honum líka boost en ég er minna hrifinn af því þótt það gæti ábyggilega gert eitthvað gagn í hljómsveit. Ég er með báða grænu pedalana í gangi og EP boostið mitt og eitthvað allt of flókið reverb sem Ásgeir lánaði mér líka – en smíðaði ekki – og EQ pedal sem hann smíðaði og er nokkuð lúmskur. Lagið er bara eitthvað sullumbull – ég man ekki á hverju var kveikt í undirspilinu. Sennilega bara eq-inu og kannski reverbinu.

A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on

 

Af Endemi er það annars að frétta að ég þurfti að gefa honum annað settöpp – laga truss rodið og lækka aksjónið og intónera hann upp á nýtt. Ég held að það sé eðlilegt með svona nýsamsettan gítar. Strengirnir hoppa sumir aðeins upp úr söðlunum ef ég djöflast á þeim og ég hlakka til að fá nýju stöngina í Bigsby-ið sem ætti að laga þetta.

***

Ég er mikið að spá í pedölum þessa dagana. Sem er ekki alveg nógu gott því ég er eins hvínandi blankur og maður verður. Ég seldi bæði reverbin mín og vantar nýtt – er með þetta flókna í láni frá Ásgeiri – og það er réttlætanlegt af því ég fékk auðvitað pening fyrir þau sem ég seldi. Sennilega kaupi ég Digitech Polara ef kreditkortið mitt þolir það. Annars langar mig líka í góðan klon pedal – kannski JHS Soul Food eða Mad Professor Sweet Honey. Mig langar í turtlespedalinn frá Ásgeiri og mig langar í Tubescreamer en ég er ekki alveg viss um að ég vilji þann sem Ásgeir gerði – hann er fantagóður en hann byrjar eiginlega á of mikilli bjögun fyrir mig. Þarf einhvern sem nær meiri low-gain blústónum. Ég á samt eftir að gera einhverjar tilraunir með hann, kannski er þetta í boði. Þá vantar mig líka einfaldan eq-pedal. Ásgeirs er frábær og ef ég ætti meiri pening myndi ég kaupa hann líka – en ég held að venjulegur Boss myndi gera mér meira gagn. Hreina rásin á Orange-magnaranum mínum er alveg eq-laus. Í bili er samt ósennilegt að ég hafi efni á öðru en reverbinu og kannski turtlespedalnum (ég hef ekki hugmynd um hvað hann kostar).

***

Dick Dale dó í fyrradag og er augljóslega gítarleikari vikunnar. Hann veit ekkert hvað það þýðir að vera smekklegur.

***

En vegna þess að ég gleymdi gítarleikara vikunnar í síðustu viku þá er tvöfaldur skammtur núna. Hún veit ekki heldur neitt um smekklegheit og er greinilega mjög grobbin (og má vera það, á að vera það).

Þetta varð nú lengra en ég hélt það yrði.

Gítarblogg – færsla 11

Guitar from start to finish.

A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on

 

Hér að ofan eru nokkrar myndir af Endemi – úr ferlinu Það gleður mig að tilkynna að eftir viku spilun er undan fáu að kvarta. Hann helst betur í stillingu en hann gerði í upphafi (og var aldrei nein skelfing) og þarf lítið að fikta í honum jafnvel þó maður noti stöngina til að hífa stakar nótur upp um heiltón – ég hef ekki tekið margar dýfur og engar bombur og sennilega myndi það setja hann af sporinu en bigsby-ið er heldur ekki gert fyrir eitthvert Van Halen spilerí. En hann dugar vel í hömlulítið rockabilly.

Spekkarnir eru þessir:

Búkur: Mahoní með hlyntopp
Háls: Warmoth – wenge með pau ferro fingraborði
Pikköppar: Seth Lover humbökkerar.
Túnerar: Grover með lásum.
Þyngd: 5,1 kg.
Sveif: Bigsby B50 (ég er að bíða eftir s.k. stabiliser, sem hækkar stöngina – nú eru allir strengirnir þræddir yfir hana nema e-strengurinn)
Brú: Hjólabrú (roller bridge)
Skali: 628 mm
Strengir: 10-48 Ernie Ball

Þegar ég tek hann í slipp næst, sem verður ábyggilega fljótlega, þá ætla ég að gera eitt og annað smálegt. Snúran undir outputinu er of löng, hana þarf að stytta og ég þarf að þrengja jack-tengið svo gítarsnúran sitji betur í.

Brúarpikköppinn situr dálítið vitlaust. Ég þarf að taka hann úr og fara með meitil neðan við hann og færa hann 2 mm nær klórplötunni.

Setja nýjar torx skrúfur í pikköppana – stjörnuskrúfurnar eyðileggjast strax. Óskiljanlegt að nokkur velji stjörnuskrúfur yfir torx-skrúfur (nema fyrir lúkkið, en þessar eru svo litlar).

Setja stabiliserinn í svo ég geti haft allan strengina undir bigsby-bilstönginni. Ef þeir fara undir núna helst hann ekki jafn vel í stillingu og ef þeir eru yfir, einsog þeir eru, geta þeir hrokkið upp úr söðlunum ef ég djöflast á honum (eiginlega samt bara ef ég er að snapp-toga í þá).

Hér er svo, einsog lofað hafði verið, tóndæmi. Ég biðst velvirðingar á söngnum, einsog venjulega. Sem betur fer heyrist illa í honum. Og ykkur að segja fannst mér erfiðast að muna textann (ég er með eitthvað Ragga Bjarna heilkenni). Ég dútlaði þetta alveg upp í 11 mínútur en klippti halann niður svo þetta endaði í rúmum 5.

Spilað er í Orange Rocker 15 Combo – hreinu rásina. Kveikt á TC Electronics Hall of Fame Reverb Mini (með spring reverb toneprinti) og EP Booster. Stillt á báða pikköppa – nema þarna þegar ég er að dútla þá skipti ég eitthvað fram og til baka. Tekið upp á iPhone – sennilega er sándið betra í raunveruleikanum!

Hugsanlega tek ég svo upp eitthvað skítugra næst.

Gítarblogg – færsla 10

Þá er gítarinn formlega tilbúinn. Ef ég væri að gera hann fyrir einhvern annan væri þetta augnablikið sem ég myndi afhenda hann. Tíu vikur virðist þetta hafa tekið – auk bollalegginga frá hausti og smá tilrauna, t.d. Mola (sem ég kannski segi aðeins frá hérna síðar þótt einhverjir hafi séð hann á Facebook).

Hann heitir Endemi. Áletraður „heyr á endemi“ að framan og aftan. Heyr og Endemi var eða er dúett sem við Haukur Már stofnuðum fyrir Menntstock árið … 1999. Tuttugu ára gamall dúett. Við komum fram í þetta eina skiptið, stóðum okkur fremur illa á tónleikum miðað við hvað við vorum æðisgengnir á æfingum og lögðumst í dvala. Þetta var einhvers konar leiðslupopp, held ég, impróvíserað. Við höfum aðeins sent á milli okkar lagabúta í vetur og það var gaman – en annars höfum við hvílt okkur sleitulaust frá því þarna á Menntstock (þar sem ég kom líka fram með Binna blús og búgíbandinu – íklæddur humarbúning, enda að dimmitera þetta kvöld – Binni blús, oftar þekktur sem Binni bassi, er bassaleikarinn í Beebee and the bluebirds, þið afsakið ofstuðlunina í þessum sviga).

Einhvern tíma var því logið að mér að endemi þýddi bara andskotinn.  Heyr á endemi = hlustaðu á andskotann. En það er ekki víst að það sé satt. Endemi er kannski bara útgáfa af einsdæmi. Ég held mig við að báðar útgáfurnar séu réttar.

En að smíðinni. Það voru ansi mörg skref tekin í vikunni og raunar fleiri en ég hefði átt að taka. Einsog venjulega bar óþolinmæðin mig ofurliði. Hann var ekki nógu vel þornaður þegar ég byrjaði að bera á hann tung olíuna – svo ég hætti og byrjaði aftur daginn aftur en það var sama sagan. Ég bar svolítið meira á hann samt, leyfði honum að þorna, pússaði niður og alltaf þegar ég setti meiri olíu kom bæs í klútinn (ég gerði þetta allt með klútum, ekki penslum). Þetta finnst hálfsænsku börnunum mínum mjög sniðugt af því að bæs þýðir auðvitað kúkur á sænsku.

Loksins kláraðist þetta nú samt og þá keypti ég bílabón og bónaði hann. Ég gætti mín að kaupa sem einfaldast bón – ekki eitthvað sem djúphreinsar og rústver og guð veit hvað annað. Þegar það var búið skrúfaði ég hann allan saman og fór að leika mér á hann – laga intóneringuna og skoða hvernig hann virkaði. Aksjónið var allt í lagi en mér tókst að ná því enn neðar með því að setja hallann á hálsinum alveg í 1,5 gráður (frekar en eina) og hækka brúna á móti.

Næst var rafmagnið. Og þá skrúfaði ég hann allan í sundur aftur. Mig vantaði 0.047 míkrórafata lágspennuþétti á tónpottinn – tékkaði á honum í Pólnum en það var eitthvað tæpt, „kannski“ í draslhaug einhvers staðar en hægt að panta. Háli sagði að Geiri ætti kannski og ég hafði samband við Geira sem reddaði þessu. Og svo fór ég bara að lóða.

Ég hafði aldrei lóðað neitt á ævinni áður en var með teikningu. Það voru tvö vandamál – annars vegar eru Seth Lover pikköpparnir með vintage-vírum, sem þýðir að í stað þess að vera með fjóra víra eru þeir með einn og skermurinn utan um þennan eina er jörð. Ég fann teikningar sem gerðu ráð fyrir svona vírum en engar sem voru með einum hljóðstyrkspotti og einum tónpotti – þær voru allar með tveimur hljóðstyrkspottum. Internetið fullyrti samt að hitt ætti að vera í lagi, ég gæti elt aðra teikningu með smá breytingum.

Hitt vandamálið var að pikköppaskiptirinn var fyrir misgáning í innkaupum „solderless“ EMG skiptir sem passar við EMG kerfi sem gerir ráð fyrir að maður geti bara stungið hlutunum í samband hverjum við annan. Í stað þess að á skiptinum væru fjórir eðlilegir pólar í samræmi við allar teikningar var eitt tengi og út úr því kom ein snúra og inn í henni voru fjórar snúrur sem samsvöruðu þessum pólum. Ég klippti tengið af öðrum endanum og sleppti vírunum út.

Mér tókst að tengja þetta einsog á teikningunni og þegar ég setti í samband í fyrsta sinn kom hljóð úr öðrum pikköppnum en ekkert úr hinum og ekkert þegar ég stillti á báða. Ég fór að laga það og það varð bara til þess að hljóðið úr hálspikköppnum, sem hafði virkað, hvarf. Ég hafði samband við Hála og hann mætti til mín í gær með tinsugu og fjölmæli og við reyndum að laga þetta en fundum ekkert út úr neinu. Það hjálpaði kannski ekki til að dóttir hans Laufey vildi ómögulega leyfa pabba sínum að sitja einum og þýddi ekki að bjóða henni teiknimyndir, leikföng eða góðgæti.

Þá var kallað í Geira, sem er menntaður í þessum fræðum, og hann kom og sat með mér í ábyggilega tvo tíma að reyna að finna út úr þessu. Á endanum tókum við allt í sundur og settum það saman upp á nýtt – ekki alveg einsog á teikningunni, en samt þannig að sama lógík gengi upp (það hefði ég aldrei getað séð, enda skil ég þetta ekki alveg). Og þá kom hljóð úr honum!

Pikköpparnir voru lausir og eitt og annað í rugli eftir að ég tók hann í sundur en það var kominn kvöldmatur (Aram og Aino elduðu núðlusúpu upp úr heimilisfræðibókinni hans Arams). Eftir matinn gekk ég frá í fljótheitum og fór svo að sinna Endemi aftur – rétt náði að skrúfa allt saman og spila nokkra tóna áður en Gylfi í næsta húsi kom að sækja okkur Nödju til að fara í bíó (Vice, fín).

Eftir bíó fór ég svo strax að leika mér aftur en byrjaði auðvitað á því að slíta streng. Í morgun keypti ég nýja strengi, setti blý í hnetuna svo strengirnir renni betur og hann verði síður falskur þegar ég tek í bigsby-tremoloið. Þá ákvað ég að prófa eitt ráð – til þess að minnka núning ákvað ég að rekja strengina yfir bigsby stöngina fremur en yfir. Þá fara þeir beinna yfir búkinn aftan við brúna og mér er sagt að það hjálpi til. Þetta gekk samt ekki með granna e-strenginn – sem stökk þá alltaf upp úr brúarslottinu, svo hann er strengdur á hefðbundinn máta.

Skýringarmynd! :

Með þessu fæst næg spenna á e-strenginn en hinir eru ólíklegri til að verða falskir. Ég gæti líka þurft að víkka slottin á hnetunni.

Ég vigtaði líka gítarinn og hann er 5,1 kg með öllum búnaði og ól. Miðað við SG-inn sem er 3,2 kg. Mér skilst að gömlu þungu Les Paularnir séu yfirleitt ríflega fjögur kíló. Ég finn engan sem er meira en 4,5. Svo þetta er níðþung skepna og þykkt boddí – þótt hann sé hálfur holur.

Aksjónið er 0.7 á háa e-strengnum og 0.95 á lága e-strengnum – sem er það sama og á SG-inum (Gálkninu) og lægra en á Telecasternum (Djásninu). Ég hef ekki reynt að lækka það meira en yrði ekkert hissa þótt það væri ekkert mál. En þetta er enginn shreddaragítar og tónninn skiptir meira máli en hraðinn.

Hér eru svo nokkrar nærmyndir fyrir þá sem vilja rýna í gallana.

Maður þarf tvennt til að geta gert eitthvað svona og það er þolinmæði, sem ég á lítið af, og góða að – maður gerir ekki rassgat einn. Sem betur fer er ég umkringdur góðu fólki. Geiri og Háli redduðu mér með rafmagnið, Óli Stef gullsmiður gróf í krómplötuna fyrir hálsinn, Valur bróðir lánaði mér verkfæri og veitti ómetanleg ráð, Haukur Már hjálpaði mér að ganga frá teikningum að bæði búknum og klórplötunni, Smári fór með mér margar ferðir að fræsa og hefla, Doddi í Fab Lab var afar rausnarlegur á tíma sinn þegar við vorum að fræsa útlínurnar á búknum og hlyntoppnum, Þröstur í trésmiðjunni leyfði mér að nota pressuna sína, Aram hjálpaði mér að nefna gripinn og Aino veitti aðstoð við litablöndun. Þá eru ótaldir allir þeir sem kommentuðu á Facebook eða sendu mér skilaboð og veittu stuðning og ráð (eða spurðu ráða og juku mér þannig sjálfstraust) og Nadja sem knúsaði mig þegar ég eyðilagði eitthvað og var miður mín.

Tengdur. Wired.

A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on

 

En einsog ég segi – ef ég ætlaði að afhenda þennan gítar myndi ég afhenda hann í dag. En vegna þess að ég er ekki að afhenda neinum hann er ævintýrinu auðvitað ekki alveg lokið. Ég henti inn fyrstu tónunum sem ég spilaði á hann á instagram en nú í vikunni ætla ég að leika mér aðeins að því að sjá hvað ég get kreist út úr honum og í næstu viku verða tóndæmi.

***

Gítarleikari vikunnar er meistari bigsbysins – Brian Setzer úr Stray Cats.

 

Gítarblogg – færsla 9

Þetta mjatlar áfram. Skúli frændi (mennski) leit við í gær og ég ætlaði að monta mig af gítarnum en hann sagði að hann vildi nú ekki vera leiðinlegur, en að hann liti miklu betur út á myndum. Sem er auðvitað alveg satt. Það er eitt og annað sem sést illa á myndum. Til dæmis er sveigjan á búknum niðri við innputið ekki alveg rúnnuð. Svo eru smotterís skemmdir hér og þar – í kringum brúarstoðirnar og hér og þar við bindinguna. Sumt dylst nú þegar ég er farinn að bæsa en annað verður eiginlega meira áberandi. Bæsið sest illa þar sem hefur sullast mikið af lími, til dæmis. Allt sem ég geri í höndum er pínu off – ég er auðvitað gersamlega hæfileikalaus smiður, annálaður klaufi og hef ekkert að vinna með nema þolinmæðina.

Gunnar vinur minn, sem er myndlistarmenntaður, segir hins vegar að þetta sé allt mjög impónerandi og ég eigi ekkert að vera að láta Skúla skyggja á grobbið í mér. Ég hef auðvitað enn mestar áhyggjur af því að hann eigi ekki eftir að sánda – hitt er aukaatriði. Ég er hins vegar, eftir 17 ár í bókaútgáfu, orðinn alveg ófær um að leggja mat á eigin verk. Ég tek bara mark á öllum öðrum – í þeirri röð sem þeir koma.

En hvað gerði ég svo í vikunni? Ég fræsti fyrir pikköppunum.

 

Svo æðafyllti ég mahóníið og pússaði það niður.

Mér tókst að skemma bindinguna með því að pússa mig í gegnum hana á einum stað – versta stað eiginlega, ofaná búknum vinstra megin, þar sem það blasir við að eilífu. Ég fjarlægði það sem var eftir af henni og festi svo nýja – bræddi hana saman við gömlu með asetóni en það mun alltaf sjást svolítið. Önnur samskeytin hurfu næstum alveg en lituðust svo upp þegar ég bæsaði hann. Og það birtist óvænt líka lína hinumegin.

Þetta er áður en ég bæsaði. Ég gleymdi að taka mynd af hinu og hann er úti í bílskúr að þorna (ég var að olíubera hann). En þið sjáið staðinn þar sem ég er búinn að bera brædda bindingu í sárið. Það er brún lína þarna undir sem kom aftur og betur í ljós þegar ég pússaði þetta niður. Ég veit ekki hvernig er best að díla við þetta. Nadja stakk upp á að ég myndi bara lita hana en ég veit ekkert hvaða lit er best að nota – hvað festist á svona – og er eiginlega bara pínu lost.

Svo pússaði ég hann og gerði hann fínan.

Ég gerði spýtu með vírlykkju á endanum sem ég gat fest í hálsvasann. Svo teipaði ég bindinguna og vasana, stakk plastpoka í f-gatið og eldhúspappír í holurnar fyrir brúarstoðirnar.

Fyrst bæsaði ég hann svartan, leyfði því að þorna og pússaði það niður.

Þetta er til þess að æðarnar komi betur í ljós. Þarna sést líka hvar hefur sullast lím – t.d. á milli pikköppvasanna, við brúarstólpana, norðan af pottavösunum og einn blettur þarna neðst vinstra megin. Eitthvað af þessu minnkaði svo þegar ég fór að nudda bæsinu betur í.

Gunna fannst þetta eitthvað rorschachlegt svo ég pússaði aðeins niður og bæsaði bara létt yfir það. Liturinn er eitthvað í áttina að búrgundí – rauður með smá, smá bláu.

Næst á dagskrá var að skrapa bæsið af bindingunni. Það var auðvitað kolómögulegt að hylja þunna kantinn svo hann var allur orðinn rauður. Þetta var talsvert þolinmæðisverk – en Nadja var í strandagöngunni og krakkarnir hjá vinum sínum svo ég sat bara og skrapaði með rakvélarblaði meiripart sunnudags.

Svo raðaði ég öllu saman til að sjá hvernig þetta myndi lúkka. Mig vantar enn skrúfurnar í klórplötuna og krómaða ramma utan um pikköppana (er ég alveg hættur að segja hljóðdósir?). Ég ákvað líka að nota rhythm/treble hringinn af Gibsoninum mínum – sem hefur aldrei verið á honum, vel að merkja, fylgdi bara með.

Þetta skítlúkkar allavega á mynd. Það liggur við að mig langi að bæsa blátt inn í f-gatið.

Í morgun kom svo tung-olían frá Byko. Ég er búinn að bera á hann eitt lag og mun skjótast út í bílskúr annað veifið yfir daginn til að setja fleiri. Svo þarf ég bara að pússa hann og bóna hann og festa allt við hann. Næsta áskorun er að tengja vírana alla rétt. Ég kann víst enn minna um rafmagn en ég kann í smíðum.

***

Ég ætlaði að útnefna Nitu Strauss og Angel Vivaldi sem gítarleikara vikunnar. Þau eru ofsalegar gítarhetjur af shreddaraskólanum – hún hefur spilað með The Iron Maidens og Alice Cooper, og er gestur í einu lagi hjá honum. Hann er ekki skyldur Vivaldi, hinum eina og sanna, en hún er hins vegar skyld öllum frægu Straussunum og mér skilst að allir aðrir í fjölskyldunni séu klassískir tónlistarmenn. Lagið hans Vivaldis er bara svo æðislega leiðinlegt að ég hætti við.

Í staðinn er það Angus Young – sem er einn af mínum allra uppáhalds. Í síðustu viku las ég Blues People eftir ljóðskáldið LeRoi Jones – síðar Amiri Baraka – þar sem hann ítrekar að afskipti hvíta mannsins af blústónlistinni hafi alltaf snúist um að beisla hana, siða hana til, laga hana að evrópskum tónstigum, og það eigi við alveg frá því farið var að taka upp blúsinn, eigi ekki bara við um hvíta blúsleikara heldur allan bransann – og ekki síst manninn á upptökutækjunum.

Nú snýst blúsinn auðvitað um alls konar míkróteygðar þríundir og sjöundir – auk blúsnótunnar frægu, lækkuðu fimmundinni – og er betri eftir því sem hljóðfærið er færara um að svíkja evrópska tónstiga. Blús á píanó er sjaldan góður – nema hann sé verulega djassaður og þá er hann að verða eitthvað annað, jú og auðvitað þegar hann er sunginn af einhverjum sem getur unnið gegn hinum hreinu tónum, einsog Ninu Simone. Blús á slædgítar – sem ber ekki virðingu fyrir neinu, helst frekar illa stilltur bara og jafnvel „lélegur“, surgandi – er yfirleitt frábær.

Ég verð að viðurkenna að Angus kom oft upp í hugann sem möguleg undantekning frá reglunni um hinn siðaða hvíta mann – meira að segja góðu hvítu blúsararnir, Clapton, Stevie Ray, Page, eru allir frekar evrópskir, frekar klassískir og kontróleraðir. En spilamennska Angusar liggur í einhverju öðru – og hún snýst ekki heldur um réttu riffin eða sófistikeruð múv, einsog mikið af Chicago-blúsnum, heldur einhverja snertingu, einhverja tilfinningu, einhverja leit út úr því sem hljóðfærið á að vera fært um. Og á sér kannski enga hliðstæðu á uppteknum tímum nema hjá Jimi Hendrix.

Gítarblogg – færsla 8

Við skildum við gítarinn í síðustu viku á cliffhanger sem myndi sæma hvaða spennusögu sem er – teipaðan og límdan úti í horni. Bindingin fékk að þorna yfir nótt og á þriðjudeginum tók ég teipið af og pússaði niður kantana. Mér fannst það alls ekki nógu fínt þegar ég byrjaði og bara mjög fínt þegar ég var búinn.

Ég var svolítið hræddur um að bindingin yrði of mött við að vera pússuð svona en það reyndust óþarfa áhyggjur. Hún er mattari en alls ekki óþolandi mött.

Á miðvikudeginum dútlaði ég mér bara við spilerí fram á kvöld, enda ekkert að gera nema bíða. Það vantaði sendingarkostnað inn á kvittunina fyrir hálsinum sem ég sendi tollinum og hann barst því ekki fyrren á fimmtudagsmorgun. Í ljósi þess að ég var á leiðinni í vinnuferðalag yfir helgi leyfði ég mér að taka frí á fimmtudeginum til að smíða. Og sá dagur var heldur betur massaður – þótt eftir á að hyggja hefði ég sennilega átt að taka því aðeins rólegar. Ég var orðinn mjög æstur á síðustu metrunum.

Ég sótti hálsinn strax og ég hafði komið Aino á leikskólann. Hann er mjög fagur.

 

Einsog áður segir er hálsinn úr við sem nefnist wenge en fingraborðið úr pau ferro – í stað rósaviðar, sem er á válista. Rjómalituð bindingin passar vel við bindinguna á búknum, sem er ekki alveg sjálfsagt enda „rjómalitur“ ekki einn litur. Þetta er ekki alveg nákvæmlega sami litur en maður þarf að rýna vel í hann til að sjá muninn.

Ég mældi þúsund sinnum fyrir hálsinum, gerði skapalón til að hækka upp skapalónið frá StewMac og fræsti svo 16 mm vasa. Mér fannst það strax alltof grunnt að sjá – fór inn í hús og mældi hæðina á fingraborðinu á Gálkninu (SG) og Djásninu (Tele), sem var þá um hálfur sentimetri á meðan þessi var rúman sentimetra yfir búknum. Ég leyfði mér þá að dýpka vasann um 3 mm. Það tókst ekki alveg jafn vel. Ég þurfti að festa skapalónið aftur á og auðvitað skeikaði smá á staðsetningunni, nóg til að hálsinn var ekki lengur alveg þétt í. Þetta leysti ég með smá teipi á báðum hliðum, sem er auðvitað ekki optimalt, en það er ekki svo auðvelt að minnka svona vasa.

Næst þurfti ég að bora fyrir götunum í hálsvasanum. Til að finna út staðsetninguna klippti ég út miða í sömu stærð og vasinn – stakk svo tannstönglum í holurnar á hálsinum og gerði göt á miðann.

Ég notaði svo líka hálsplötuna til að staðsetja holurnar betur. Aftur klúðraði ég pínu – ein skrúfan er dálítið skökk, en ekki svo að ég ætti ekki að geta lagað það.

Nú var ég orðinn svolítið mikið æstur. Mig langaði að ná að setja einn streng í gítarinn áður en ég færi í flug seinnipartinn. Ef það væri gæðastjóri í gítarfyrirtækinu Heyr á endemi hefði hann sennilega sent mig beint í pásu þegar hér var komið sögu. Maður smíðar nefnilega ekkert æstur, að minnsta kosti ekki vel.

Fyrst þurfti að bora fyrir brúarstoðunum. Ég margmældi – hér má alls engu skeika – og fór svo að finna réttan bor. Sem ég átti auðvitað ekki. Mér sýndist í fyrstu að þetta ætti að vera 11 mm bor en ég átti bara 10 og 12. Í búðunum á Ísafirði var hvergi til 11 mm trébor svo ég endaði á að kaupa 11 mm steinbor – sem er ekki optimalt, þeir hlaupa til, en ég hafði séð fyrir mér að ég gæti forborað með minni borum. Nema 11 mm borinn var heldur ekki nóg – þótt það standi reyndar í leiðbeiningunum. Stoðin hefði aldrei farið niður. Svo ég fór og keypti 11,5 mm steinbor líka og helvítið gekk niður með herkjum (þetta situr svo fast að ég næ honum aldrei úr, vel að merkja, og á að gera það – ég teipa yfir hann þegar ég mála).

Brúin er svo með tveimur holum og situr ofan á þessum tveimur stoðum. Hún á að vera frekar laus en þessa tilteknu er hægt að festa með sexkanti. Brúin á Gibsoninum, klassísk tune-o-matic, er alveg laus og dettur af þegar maður tekur strengina af. Nema hvað – stoðirnar mínar eru í réttri fjarlægð frá hálsvasanum, svo intóneringin á að vera í lagi (hálsinn ætti að vera innbyrðis réttur) en þær eru oggu pínu ponsu of langt hvor frá annarri sem þýðir að ég kem brúnni ekki á stoðirnar nema með talsverðu afli. Þetta er svo lítið að ég vona að ég geti bara sorfið aðeins innan úr holunni á brúnni með þjöl og þá sitji hún föst. Annars er þetta alveg nothæft – en það verður algert mörder að stilla strengjahæðina rétta, af því ég get ekki snúið stilliskrúfunum á stoðunum ef brúin er svona spennt.

Ég var alltof æstur til að taka myndir.

Næst boraði ég fyrir Bigsbyinu og festi það og skrúfaði stilliskrúfurnar í – setti einn a-streng í skepnuna og voilá!

Afsakið óhreina tauið. Ég tók ekki einu sinni eftir því þegar ég tók myndina. Svo hljóp ég upp á loft, henti einhverju drasli í tösku, og rauk af stað til Münster.

Á meðan ég var úti í Münster lauk gullsmiðurinn við að merkja hálsplötuna fyrir mig og ég fékk senda mynd á rithöfundakampusinn:

Addi prentaði líka á klórplötuna fyrir mig og sendi mér myndir og myndband.

Ég var svo í Reykjavík í dag og fór í kaffi til Möggu frænku (konu Adda sem sagt) í dag og fékk plötuna. Ég tók með mér kippu af bjór sem ég ætlaði að gefa Adda fyrir hjálpina en haldiði ekki bara að hann sé hættur að drekka? Fyrir fjórtán árum! Ég hef það sosum fyrir pólisíu að telja ekki drykkina ofan í annað fólk (eða sjálfan mig) en stundum er fattleysið í mér alveg botnlausara en svo að ég sjái niður. Ég verð bara að finna einhverja aðra leið til að gleðja Adda.

Ég kom síðan heim seinnipartinn og þegar ég var búinn að lesa fyrir krakkana og Nadja var upptekin við að klára Lólítu fyrir bókaklúbbinn í kvöld, fór ég að fikta í strengjahæðinni – fór með sporjárn í vasann og reyndi að slétta aðeins til og laga. Hann er enn dálítið hár, finnst mér. Þótt ég sé með brúna alveg niðri er strengjahæðin full mikil. Ég get sennilega lagað það með því að fikta í hálsstönginni – truss rod – annars verð ég bara að dýpka hann enn meira eða gera meiri halla.

Ég tók líka þjölina á brúna svo hún er nokkuð lausari en áður, ekki þó laflaus. Svo setti ég í hann gamla draslstrengi – er með tvo e-strengi neðst og b-streng fyrir g-streng en það er hægt að glamra á þetta og það er gaman. Hann er ekki nærri tilbúinn en þetta er strax orðinn góður gítar.

***

Gítarleikari vikunnar er fyrsti „alvöru“ rafmagnsgítarleikarinn, Charlie Christian, sem vann sér það meðal annars til frægðar að spila með hljómsveit Bennys Goodman. Hann gerbreytti hugmyndum manna um gítarleik og nánast fann upp gítarsólóið sem listgrein auk þess að vera einn þeirra sem lagði grunninn að því sem síðar varð bebop tónlist og cool jazz, þótt hann væri þekktastur fyrir swing – og dó svo langt fyrir aldur fram, 26 ára gamall, úr berklum árið 1942. Sannkallaður snillingur.

Gítarblogg – færsla 7

Ég hef alltof lítið náð að spila síðustu vikuna. Ég var eitthvað að möndla við að æfa tóneyrað – aðallega með því að pikka upp hljóma í lögum sem ég hlusta á og spila melódíur sem ég man án þess að hafa neitt til hliðsjónar. En svo var Nadja lasin fyrstu daga síðustu viku og ég svo strax í kjölfarið og gítarsmíðin tók yfir allan lausan tíma frá fimmtudegi (ásamt því reyndar sem ég smíðaði Zelda-sverð fyrir Aram, til notkunar á maskadaginn). Nú er ég að fara til Münster á miðvikudag og kem ekki aftur fyrren á mánudag svo það verður líklega lítið úr spileríi og smíðum. En ég ætti samt að reyna að læra a.m.k. eitt nýtt lag í kvöld eða á morgun. Var að spá í Jesus Left Chicago með ZZ Top. Það er mjög einfalt en ég kannski læri þá textann líka. Það er hægt að gera það gítarlaus í Münster.

***

Hlynurinn kom með póstinum á miðvikudag. Ég reif mig upp úr flensunni til að líma hann saman svo ég kæmist með hann til Dodda í Fab Lab á fimmtudeginum – því það er bara opið á fimmtudögum og þriðjudögum. Alla jafna.

Það var óþægilega mikil sveigja í spýtunni og við Doddi tókum hana yfir í trésmíðadeild til Þrastar til að spyrja ráða og hann mælti með því að við myndum pressa hana yfir nótt í til þess gerðri pressu. Doddi kom mér þá til bjargar með að hleypa mér inn á föstudeginum þótt það væri alls ekki opið.

Við byrjuðum á að fræsa spýtuna niður í 6,5 mm þykkt og fræstum svo fyrir útlínunum.


Ég fór beint með spýtuna heim og sagaði í hana f-gatið og límdi hana fasta á búkinn. Ég vildi gera þetta hratt og örugglega áður en hún myndi sveigjast aftur til baka. Ég gerði líka einhverjar tilraunir með að festa bindingu í f-gatið en þær voru ekki sérlega uppörvandi og kannski sleppi ég bara bindingu þar. Þetta eru mjög skarpar beygjur og erfitt að fá plastið til að setjast almennilega að kantinum.

Þegar ég fór að mæla fyrir staðsetningu á hljóðdósum og hálsvasa kom í ljós að sennilega hef ég gert dálitla skyssu. Hálsinn er í Gibson hlutföllum – 628 mm skali – en ég hafði verið að reikna fjarlægð vasans að brú útfrá Fender hlutföllum, sem er með 650 mm skala. Sem þýðir að í staðinn fyrir að brúin komi til með að vera 181 mm frá vasanum verður hún 170 mm frá vasanum – sirka – og færist því fram um heilan sentimetra. Ef ég er ekki eitthvað að rugla. Þetta gæti þýtt að ég þurfi að færa hljóðdósirnar nær hver annarri og skera aðeins í klórplötuna (þessi á myndinni er aukaplata – sú alvöru er í Reykjavík í prentun, það er líka verið að grafa í hálsplötuna). Svo það sé bærilegt pláss fyrir allt. Ég ætla samt ekki að fræsa fyrir hljóðdósum eða hálsi fyrren ég er kominn með hálsinn í hendurnar og get reiknað þetta allt nákvæmlega út. Ég var vel að merkja að fylla út tollskýrsluna fyrir hann og fæ hann vonandi á morgun.

Ég fræsti samt fyrir hnappaholinu og tengdi það við innputholið. Það var bölvað moj. Ég var ekki með nógu langan bor og þurfti að koma báðum megin að þessu og bora nokkrum sinnum til að finna leiðina. Svo gerði ég smá trékítti úr gömlu sagi til að fylla í götin. En það er nú ekki sérlega fallegt – skiptir kannski litlu svona innan í, en ég hugsa að ég reyni nú samt aðeins að fixa það.

Ég prófaði mig líka áfram með bæsið, bæði á hlyn og mahóní. Ég byrjaði á að bæsa svart á hlyninn og pússa það næstum alveg upp. Svo smá rauðsvarta blöndu sem ég pússaði líka upp, svo nokkur lög af rauðblárri búrgúndarblöndu. Ég setti smá af sömu blöndu á mahóníið til samanburðar, þótt ég sé ekki búinn að grain-fylla það. Þetta er vel að merkja allt afgangsefni (ég nota kannski þennan hlyn einhvern tíma en sný honum þá hinsegin).

Mahóníið er ósnert þarna neðri hlutinn. Svarta bæsið dregur svona fram æðarnar í hlyninum – ofan á þetta fer svo tung-olía og bílabón.

Næst fræsti ég rásina fyrir bindinguna með dremli og til þess gerðum bita og græju frá Stew Mac. Það var rosalegt moj að ná því sæmilegu án þess að skemma gítarinn. Þessi mynd er tekin áður en ég pússaði rásina með 60 gritta sandpappír. Það skánaði nú umtalsvert við það.

Næst notaði ég tonnatak til þess að líma bindinguna fasta. Og hárþurrkuna sem ég gaf Nödju einu sinni til þess að hita og beygja bindinguna. Það var líka mikið þolinmæðisverk og ég er ekki alls kostar ánægður með hvernig til tókst – aðallega vegna þess að rásin var skemmd á a.m.k. einum stað. Þar er dálítið gap milli bindingar og búks sem ég þarf annað hvort að fylla með bindingu uppleystri í acetoni eða tréfylli.

Einsog sjá má var drukkið í vinnunni í gær. Þetta er Biska – króatískur snaps úr mistilteini. Mjög gott.

Ég keypti á sínum tíma líka þykkari bindingu ef ég skildi klúðra – auðveldara að stækka rásina en minnka hana. Og nýtti mér það í gær þótt það væri reyndar ekki vegna neins klúðurs. Ég ákvað bara að fela alveg skilin á hlyninum og mahóníinu með bindingunni – meðal annars vegna þess óhjákvæmilega litamismunar sem verður eftir bæsingu.

Svo veit ég auðvitað ekkert hvernig þetta lítur út undir öllu þessu teipi. Ég kem til með að þurfa að pússa þetta helling til. Ég gerði tilraunir með lím áður en ég valdi eitthvað „industrial grade“ tonnatak og þetta ætti nú að halda. En það er ómögulegt að segja hvort það séu mörg álíka göp undir teipinu fyrren ég er búinn að fjarlægja það og pússa svolítið. Það gerist í kvöld og á morgun kemur vonandi hálsinn og þá fræsi ég fyrir honum.

***

Gítarleikari vikunnar er St. Vincent / Annie Clark. Ég átti rosa erfitt með að velja gott myndband – en fann svo þetta best off þar sem hún fer fullkomlega á kostum, og stundum hamförum. Það sakar heldur ekki að signatúr-gítarinn hennar frá Ernie Ball er ógeðslega fallegur – en hann er reyndar ekki í neinni af þessum klippum, hann er ekki nema svona 2-3 ára gamall, svo ég henti bara með einni mynd af honum í bónus.

Jack White spilar líka stundum á svona.

Gítarblogg – færsla 6

Engar myndir í dag. Ég er fátt búinn að gera annað en að pússa þessa vikuna. Í sjálfu sér var það að meira að segja dálítill óþarfi því ég á eftir að þurfa að pússa sumt af þessu aftur – enda verða einhver átök við skrokkinn áður en yfir lýkur. Ég er að bíða eftir hlyni frá Króatíu og hálsi frá Bandaríkjunum og fékk sendingu með fínum sandpappír og púðum, skapalóni fyrir hálsvasann, dremilstönn og tólhaldi (jig) til að fræsa fyrir bindingunni. Sem ég kalla stundum líningu. Það er margt sem ég veit í raun ekki hvað heitir í þessu öllu saman – sérstaklega á íslensku.

Eitthvað get ég samt gert áður en hlynurinn kemur. Ég get borað fyrir ólhnöppunum. Ég þarf að dýpka aðeins rásirnar fyrir snúrurnar. Tala við gullsmiðinn um að grafa í hálsplötuna. Hanna merkingu á hausinn. Prófa að bæsa afgangsspýtur til að sjá hvernig það lúkkar.

Ég boraði reyndar fyrir plasthlífinni aftaná. Það gekk bærilega og skrúfurnar sem ég fékk eru allt í lagi aftan á gítarinn en ég þarf að finna einhverjar fallegri til að setja í klórplötuna – sem ég sendi suður til Adda í síðustu viku. Ég boraði líka fyrir innputtinu og þar er allt í fína.

***

Ég spilaði líka fyrir framan fólk á föstudaginn. Í fyrsta skipti í þrjú eða fjögur ár, held ég, og við svipaðar aðstæður og þá. Sem sagt í óæfðri partíhljómsveit af stórtilefni – þá var það 10 ára brúðkaupsafmæli vina minna en nú fertugsafmæli annars vinar. Það var mjög gaman þótt ég kynni ekki lögin og væri aðallega að elta hljómsveitarstjórann, Gumma Hjalta. Ég var gríðarlega stressaður og bókstaflega skalf einsog hrísla fyrstu 20 mínúturnar og sneri baki í áhorfendur eins mikið og ég komst upp með. Og hefði ábyggilega ekki farið upp á svið ef ég hefði ekki pínt mig til að taka með mér gítarinn, af því ég var búinn að nefna það við Nödju og afmælisbarnið (sem spilaði á cajon trommukassa) og hefði skammast mín fyrir hugleysið ef ég hefði sleppt því, og  Gummi svo nánast komið og sótt mig þegar þau voru búin að spila 2-3 lög.

Stressið fer líka alveg með mann. Maður er talsvert betri gítarleikari heima í stofu að djamma með sjálfum sér. Sennilega skánar maður mjög hratt af því að venjast þessu en það munar ábyggilega alltaf a.m.k. tíund. Ég átti í mestu erfiðleikum með að muna einföldustu hljómaskiptingar og þurfti því að stara á fingurna á Gumma allan tímann – og eyrað, sem er kannski ekkert frábært, var alveg úr sambandi. Ég tók nokkur sóló og hékk bara í fyrstu stöðu pentatóníska blússkalans og var ekkert að flækja spilamennskuna með dýnamík, tvíhljómum eða lærðum likkum, og var alltof frosinn til þess að velta því fyrir mér á hvaða nótum ég væri að lenda í hljómaskiptingum. Hugsaði bara um að lifa af. Í einu laginu, ég man ekki hverju, gekk ómögulega að spila pentatónískan blús og þá lenti ég bara á einhverjum villigötum. En mér tókst svo sem að feika mig í gegnum megnið af þessu. Og það var mjög gaman. Ég væri til í að spila meira – alls konar tónlist í sjálfu sér, en mest blús og blússkotið. Næst væri ég líka til í að vera minna stressaður og með minn eigin magnara og pedalana mína (ekki að fenderinn hans Gumma hafi ekki verið frábær – en það er þægilegra að þekkja sjálfan sig í hátalaranum).

***

Gítarleikari vikunnar er Eddie Hazel í Funkadelic og lagið er viðstöðulaust tíu mínútna fönksóló fyrir lengra komna – spunnið frekar en samið. Hljómsveitarstjórinn, George Clinton, ku hafa beðið Eddie Hazel að ímynda sér fyrst að hann hefði fengið fréttir af dauða móður sinnar – en svo að hún væri á lífi og þetta var hin harm- og gleðiþrungna útkoma.