Ég man ekki hvenær ég var síðast svona hressilega lasinn. Ég fann fyrir þessu koma yfir mig alla síðustu viku – hamaðist í ræktinni til þess að koma henni í gang (ég veit ekkert leiðinlegra en að vera hálflasinn í þrjár vikur, betra að ljúka þessu bara af) en gekk ekkert fyrren ég datt frekar kyrfilega í það með Steinari á föstudaginn. Laugardagur fór í að sjá rennsli á Hans Blævi og lifa af. Nú er ég rúmliggjandi annan daginn í röð.

***

Það útskýrir sem sagt heilaþokuna.

***

Eðli málsins samkvæmt – eða í samræmi við ráðandi móral augnabliksins, in situ 2018 – hefur komið upp spurningin um hver megi segja hvað, hver megi skrifa um hvern, hvaða „hóp“ og hvernig og svo framvegis. Nánar tiltekið má sísheterókarlmaður (að svo miklu leyti sem fullkomið slíkt eintak er einu sinni til) skrifa um intersex-transa á borð við Hans Blævi – og enn fremur, má skrifa um slíkan einstakling út frá einhverju öðru en kyngervi hánar einvörðungu? Það er að segja: að hversu miklu leyti má Hans Blær vera eitthvað fleira en kynseginmanneskja og að hversu miklu leyti má saga um hána (verandi obsessífur einstaklingshyggjumaður beygir hán nafn sitt og persónufornafn eftir eigin duttlungum) snúast um annað eða fleira en útkomu- eða tilurðarsögu. Hér er auðvitað ekki síst spurt um vald en líka um staðalmyndir og svo leyfi skáldskaparins – eða jafnvel leyfisleysi, og þá nauðsyn. Nauðsyn skáldskaparins má skilja tvíþætt – annars vegar þá þá verður skáldskapurinn að fást við það sem hann verður að fást við (enda list unnin instinktíft, maður bara eltir á sér halann). Þar er engin afsökun fyrir því að skrifa ekki það sem maður vill/þarf að skrifa – engin afsökun fyrir því að hætta að elta á sér halann. Hins vegar má skilja nauðsyn skáldskaparins sem hálfgerðan tilvistarvanda. Þá gæti maður sagt: Það skiptir kannski engu þótt ég skrifi þetta ekki – en bara að svo miklu leyti sem það skiptir engu máli að við eigum heiðarlegan literatúr. Eða literatúr yfir höfuð. Ég held vel að merkja að list einkennist einmitt oft af tilgangsleysi – fallegu, ögrandi, ljótu, ómerkilegu tilgangsleysi, einhvers konar poti í myrkrinu.

***

Það eru til ótal dæmi um bókmenntir og listaverk sem brjóta á siðferðishugmyndum samfélagsins. Klassískust og þau sem flestir eru einfaldlega sammála um að séu „yfir strikið“ eru verk þar sem einhver meiðist líkamlega – Guillermo Vargas svelti hund í galleríi, Teemu Mäki drap kött og fróaði sér yfir skrokkinn. Aðeins nær strikinu eru verk þar sem einhvers konar „val“ á sér stað – einsog þegar Santiago Serra borgar vændiskonum fyrir að mega tattúvera þær. Í þessum tilvikum nær listaverkið inn fyrir hold einhvers annars og flestum ofbýður.

***

En listaverk geta auðvitað meitt án þess að rista í holdið og er oft talið það til tekna – ef bók grætir gagnrýnanda er því skellt á bókarkápuna sem hæstu mögulegu meðmælum. Aðrar bækur stefna t.d. að hreinsun fyrir sakir ógeðs – de Sade er eitt, Saga augans eftir Bataille (eftirlætis bók Hans Blævar) er annað. Bókum og listaverkum af því tagi er ætlað að koma manninum í samband við skepnuna sem býr innra með honum, ekki til þess að hún taki yfir vel að merkja – eða í það minnsta ekki endilega, það má jafnvel sjá það sem aflausn eða útrás, leið til að losna við skepnuna úr sínu daglega lífi – en fyrst og fremst til að afhjúpa þann sannleika að við séum fyrst og fremst skepnur og ekki yfir það hafin. Og bækur geta ætlað sér kaþarsis fyrir sakir fegurðar, samstöðu með hinu valdlausu, gáfnaþunga o.s.frv. o.s.frv.

***

Mögulegar transgressjónir í frásögnum geta líka snúið að raunverulegum persónum. Þar er satíran samþykktust – þótt hún geti oft verið grimmileg, skemmst er að minnast skrifa Steinars Braga um Jón Kalman í Kötu, þar sem höfundareinkenni JK eru höfð að athlægi og ein sögupersónan endar á að klæða sig í eins konar húðklæði úr líkama Jóns Kalmans. Vægari dæmi er að finna í hverju einasta áramótaskaupi. En transgressjónir inn á „raunverulega persónu“ einhvers annars þurfa ekki að vera settar fram í neinu gríni – Hallgrímur Helgason hefur oft gengið freklega, að mörgum þykir, á líf raunverulegra manneskja, bæði undir eigin nafni og nafni endurskírðra skáldsagnapersóna. Laxness þótti oft ganga hart að sínum fyrirmyndum. Í hvað-ef bókum á borð við Örninn og fálkann eftir Val Gunnarsson er delerað heil lifandis býsn um hvað raunverulegt fólk hefði gert við aðstæður sem aldrei komu upp – og þar hlýtur það fólk ekki alltaf fallegan dóm, eðli málsins samkvæmt.

***

Oft er viðmiðið hérna að það megi skrifa satíru um „opinbera persónu“ – en annað viðmið væri að það mætti skrifa um opinbera persónu sem nyti valds. Þannig mætti t.d. segja að fórnarlömb glæpa væru opinberar persónu, hafi mál þeirra verið í fjölmiðlum, en það mætti samt ekki nota þau í satírur – og að einhverju leyti gildi sama um glæpamenn, sem séu oft sjúklingar (ótal dæmi um brot af þessu tagi má finna á fyrstu plötu Rottweiler hundana). Aðrir myndu telja með fólk í mannréttindabaráttu – í raun væri hægt að halda áfram ansi lengi. Segja að grínið verði að vera góðlegt, og því góðlegra sem manneskjan er valdaminni (þarf t.d. grín um Trump að vera góðlegt?) Og hvað gerum við þá við Múhameð – sem er auðvitað valdmikill, og á meðan sumir fylgjenda hans eru augljóslega meðal valdamesta fólks heimsins þá eru aðrir meðal þeirra allra valdaminnstu. Valdagreining er aldrei neitt sérstaklega einföld.

***

Hermann Stefánsson notaði Ólaf Jóhann í einni af sínum bókum – og bað að sögn einfaldlega um leyfi og fékk það. En þá var heldur ekkert sérstaklega særandi í gangi þar – og stundum geta bókmenntir þurft að fara á særandi slóðir. Bókmenntir eru ekki bara til fróunar og huggunar, ekki bara skemmtiatriði. Hvað hefði Hermann gert ef bókin hefði leitt hann þangað – og ef Ólafur hefði orðið hvekktur? Hætt við að gefa út bókina? Skrifað plástur á bágtið? Ólafur er náttúrulega rosalega ríkur maður. Getur bara keypt sér sína eigins plástra.

***

Önnur transgressjón bókmennta snýr einfaldlega að sanngildi. Þar getur verið um að ræða verk á borð við helfararminningar Mishu DeFonseca, sem sagðist hafa flúið úr Auschwitz og lifað með úlfum, eða dópistasöguna A Million Little Pieces eftir James Frey – sem gabbaði m.a.s. Opruh og var orðinn solítt bókmenntastjarna þegar í ljós kom að þetta var allt lygi. Eða, það er að segja, þetta var allt skáldskapur. Önnur tegund sanngildis er svo nær mörkunum – einsog í skáldsögum JT Leroy, sem voru skilgreindar nær skáldsögunni, en samt gefið í skyn að höfundur byggði á eigin reynslu (af því að vera HIV-smitaður samkynhneigður dópisti í New York) – sem var svo einfaldlega af og frá. Höfundur var amerísk úthverfakona úr efri millistétt sem hafði í besta falli fengið sér advil og hvítvín af og til.

***

Sanngildistransgressjóninni lýkur samt ekki þarna. Það er hægt að fara ansi langt. Þannig náði rithöfundurinn Forrest Carter talsverðum tökum á hippakynslóðinni með bók sinni Uppvöxtur Litla Trés – sem til er í þýðingu Gyrðis Elíassonar. Bókin fjallar um dreng sem er að fjórðungi, minnir mig, Cherokee og elst upp hjá afa sínum sem kennir honum um mikilvægi arfleiðarinnar, að bera virðingu fyrir náttúrunni og svo framvegis. Aftur var því haldið fram að hún byggði á reynslu höfundar. Nokkru eftir að bókin kom út kom hins vegar í ljós að höfundurinn, Forrest, átti sér enga greinanlega barnæsku – það voru engar heimildir. Kom upp úr kafinu að hann hafði skipt um nafn og áður heitið Asa Carter, verið útvarpsmaður og ræðuskrifari, háttsettur í Ku Klux Klan og meðal annars skrifað hina fleygu og frægu ræðu George Wallace, þar sem hann lofar því að aðskilnaðarstefnan verði aldrei afnumin:

***

Við þetta má svo bæta að það hefur aldrei almennilega fengist úr því skorið hvort að Forrest var að hluta Cherokee eða ekki – en það er ekki endilega neitt í heimspeki bókarinnar sem er í andstöðu við heimspeki KKK. Hann hélt því fram að hann væri Cherokee en Forrest neitaði því einfaldlega alla tíð að hann væri eða hefði verið Asa – en það eru hins vegar til heimildir um að Asa hafi sagst vera Cherokee og það var alls ekkert óalgengt í klaninu að menn teldu sig hafa rætur til innfæddra (rætur á landinu – það gerist auðvitað ekki betra). En gamall vinur Asa úr KKK sagðist hafa komið að hitta hann einu sinni eftir að hann var orðinn frægur og dottið í það með honum og Forrest hefði þá játað því að hafa skrifað bókina til að afhjúpa hvað hipparnir væru grunnhyggnir og vitlausir. Þeir gleypa við hverju sem er, sagði hann.

***

Enn eitt dæmi eru ljóðasvindl á borð við Ern Malley – þar sem tveir náungar tóku sig til, bjuggu til módernískt ljóðskáld og ortu bók í hans stað, á einni kvöldstund, til þess að sýna fram á að módernísk ljóðlist væri bara rugl og kræfist hvorki kunnáttu, vinnu né þekkingar.

***

Spurningin sem sprettur oftast upp er þá eitthvað á þessa leið: Væri þetta verk annað verk ef höfundurinn væri önnur manneskja? Ef að Crosby, Stills og/eða Nash hefðu skrifað Uppvöxt Litla Trés, væri það þá önnur bók? Ef að ljóð Erns Malleys hefðu verið ort af einlægni og natni – en væru samt alveg eins – væru þau þá „betri“ (gagnrýnendum þótti bókin alltílagi – og ljóðin eru satt að segja fín)? Ef að Forrest væri Asa en væri líka Cherokee – hvað þá?

***

Nú vill til að flest listaverk sem gerð eru um transfólk sögupersónur eru ekki skrifaðar, leiknar, framleiddar, leikstýrt o.s.frv. af transfólki og þær sögur sem hafa verið sagðar um transfólk eru eins misjafnar og þær eru margar, bæði að gæðum og innihaldi. Auk þess vill til að flestar sögur sem sagðar eru fjalla um fjöldann allan af fólki sem allt á sér sinn eigin bakgrunn, sína eigin sögu, tilheyrir sinni eigin demógrafíu, hefur sín eigin völd, dílar við sitt eigið valdleysi, er fast í sínum eigin mótsögnum – enda eru bækur, líka karakterstúdíur á borð við Hans Blævi, ekki síst um heil samfélög.

***

Það er mjög mikið af mér í flestum mínum sögupersónum, sérstaklega þeim sem eru í forgrunni, en samt eru þessar persónur yfirleitt alls ekki ég – og kannski síst af öllu ísfirsku rithöfundarnir í Heimsku og miklu frekar hin litháíska Agnes í Illsku, tranströllið Hans Blær eða Lotta mamma hans, nú eða nasíski sagnfræðineminn Arnór.

***

Að því sögðu hef ég heldur aldrei skrifað sögupersónu sem er jafn mikill einstaklingur og einstaklingshyggjumaður og Hans Blævi – öll hánar tilvist snýst beinlínis um það að tilheyra ekki neinum hópi. Hán er mótþróaröskunin holdi klætt. Og þar með engu líkt.

***

Leikverkið verður frumsýnt á miðvikudag. Mér finnst það auðvitað óttalega lítið miðað við bókina – fjögur hundruð blaðsíðna bók soðin niður í 40 síðna leikrit. Textinn er skorinn við nögl. En svo bætir leiklistin auðvitað heilmiklu við (þau ætla ekki bara að leiklesa þessar 40 síður – og hafa raunar líka kokkað þær mikið sjálf, blandað saman senum o.s.frv.). Það var að mörgu leyti auðveldara að stytta Illsku vegna þess að hún innihélt svo margar sögur sem mátti hoppa yfir eða sleppa. Hans Blær er meiri karakterstúdía og núansarnir mikilvægari – einmitt kannski vegna þess að hún er á brúninni. Ég er mjög spenntur að sjá hvernig til tekst á miðvikudag.

***

Það vill til að ég er að klára bókina á alveg sama tíma. Ef ég kemst úr rúminu á morgun ætti ég að geta náð að klára leiðréttingar og fix annað kvöld – tek þá með mér útprentið suður og út og færi inn krotið á hótelinu.

***

Á fimmtudag flýg ég sem sagt til Umeå í Svíþjóð, þar sem ég átti að vera lesa upp með nóbelsverðlaunakandídatinum Ko Un – sem er einmitt aftur dæmi sem mætti taka í umræðunni um hvort höfundurinn skipti máli. Ég skrifaði helling um Ko Un fyrir Starafugl í vetur í tilefni af þýðingum Gyrðis. Í sem skemmstu máli er hann gamall andófsmaður sem sat lengi í fangelsi og var pyntaður vegna mótmæla gegn suður kóresku ríkisstjórninni og hefur ort mikið af fallegustu ljóðum síðustu aldar. Hann er fjörgamall og var metooaður á dögunum – kemur í ljós að sennilega hefur hann verið dónakall, að því er ég kemst næst svona sirkabát af Dustin Hoffman alvarleika (þ.e.a.s. berar sig, klæmist, káfar og vill hluti, frekar en að hann nauðgi og berji og kúgi) – og suður kóreska ríkið gerði sér lítið fyrir og fjarlægði hann bara úr kennslubókum. Enda, sagði talsmaður ríkisins, hefðu ljóð hans aðra siðferðislega merkingu nú þegar í ljós er komið að hann var ekki góð manneskja heldur vond (einsog ríkið hélt náttúrulega fram, árum saman, með réttu). Og þá er best að ljóðin hans séu ekki til lengur. Hann aflýsti öllum evróputúrnum sínum af heilsufarsástæðum (hann hefur líka verið í uppskurði, að sögn). En ég verð nú samt sem betur fer ekki einn í Svíþjóð.

***

Maður verður svolítið óðamála af að liggja svona í rúminu með sótthita. Svona hlýtur Raskolnikov að hafa liðið.

Ein af bókunum sem ég las í síðustu viku, og tengist þessum bókaskrifum – sem og leikritinu (sem er – plöggviðvörun – frumsýnt á laugardag í Tjarnarbíó) – heitir Free Speech on Campus og er rituð af tveimur amerískum lögfræðingum. Einsog titillinn gefur til kynna fjallar bókin um málfrelsi og mörk þess í háskólasamfélaginu. Grundvallarkenning bókarinnar er sú að málfrelsi verði að vera rýmra í háskólum en annars staðar því því annars geti þeir ekki sinnt hlutverki sínu (sem er meðal annars að takast á við ögrandi hugmyndir, en líka að fella vitlausar hugmyndir úr gildi – til þess þarf að vera hægt að ræða þær, á eigin forsendum en líka að skoða þær forsendur.

Þá flytja höfundar ýmis rök gegn því að málfrelsi séu settar hömlur – eða réttara sagt, þá benda þeir á hvernig margar aðferðir (svo sem safe space-sköpun í kennslustofum eða skyldubundnar triggerviðvaranir) geti annars vegar haft neikvæð áhrif – t.d. þannig að hamlanirnar valdi nemendum sem heild alls kyns kvíðavandamálum, enda vaki þar nemendur hver yfir öðrum og refsi og skammi hver annan, samfélagið verður púrítanískt – og hins vegar sé ekki hægt að banna A (sem er skaðlegt) án þess að banna líka B (sem er nauðsynlegt frjálsri samræðu). Afleiðingar hertra reglna um tjáningu séu einfaldlega of neikvæðar, þótt hvatinn til þess að herða reglurnar sé skiljanlegur.

Ekki er þar með sagt að allt mál sé einfaldlega varið og öll tjáning lögmæt. Þeir gera t.d. greinarmun á tjáningu sem er beinlínis hótandi í garð tiltekins fólks. Þannig væri innan marka að brenna kross en ekki innan mark að brenna hann á lóð svartrar fjölskyldu; innan marka að segja konur heimskari en karlmenn (enda standist það enga skoðun og falli strax dautt í samfélagi sem leyfir sér að vera krítískt) en ekki innan marka að hóta að nauðga konu (enda sé það ekki „hugmynd“ sem hægt er að takast á um heldur einfaldlega hótun).

Þegar ég segi „innan marka“ á ég líka fyrst og fremst við „löglegt“ – og „ætti ekki að banna“, þótt það sé vissulega glatað. Ekki að manni eigi að finnast það frábært.

Lögfræðingarnir, sem hafa kennt málfrelsislög, eru báðir á því að triggerviðvaranir geti þjónað alls konar tilgangi og hafa báðir notað þær frá því löngu áður en hugtakið var til. Þannig hafi þeir oft fjallað um mónólóg Georges Carlin Seven Dirty Words og alltaf varað nemendur sína við að þeim gæti þótt þetta ljótt. Það þýðir vel að merkja ekki endilega að það sé afleiðingalaust að ganga út – en það gefur manni tækifæri til að búa sig undir það. Ég stóð mig að því sjálfur á laugardagskvöldið, þegar vinkona mín spurði mig hvort ég væri „viðkvæmur fyrir myndum“ að svara „ekki ef þú varar mig við“ – sem er einmitt málið. Það er ágætt að láta vara sig við. (Það er svo viðeigandi að nefna í þessu vinnudagbókarbloggi að vinkonan, sem er trans, sýndi mér svo mynd af transpíku – ekki sinni, vel að merkja, heldur bara af netinu – og ég trámatíseraðist sama og ekki neitt).

Hins vegar geti verið alls konar ástæður fyrir því að kennarar vilji og þurfi að sýna nemendum sínum efni án þess að vara þá fyrst við – það sé einfaldlega ákvörðun sem kennarinn verði að taka sjálfur, miðað við efni og aðstæður, en ekki eitthvað sem eigi að gerast á skrifstofu skólastjóra og miðast við öll efni og allar aðstæður.

Þá sé líka í fínu lagi að búa til safe spaces – en það megi ekki nota hugtakið sem skjöld gegn öllum óþægindum. Kennslustofan geti verið staður til þess að ögra og það sé einfaldlega margt sem ómögulegt sé að læra án þess að verða fyrir óþægindum. Maður verður ekki læknir án þess að þola að sjá blóð. En það þýðir kannski ekki að það megi sturta yfir mann blóði óforvarendis inni á klósetti bara af því maður er í læknanámi.

Þeir skilgreina síðan stórt svæði utan kennslustofunnar – sjálfan kampusinn – sem málfrelsissvæði. Þar eigi að gilda rúmari reglur um tjáningu en annars staðar í samfélaginu og raunar líka rúmari reglur um truflun – en truflunartjáningu er eðli málsins samkvæmt sniðinn þröngur stakkur í kennslustofu, þar sem fólk á að bera virðingu fyrir hugmyndunum sem verið er að ræða. Sé maður ósammála fyrirlesara er ekki nóg að segja honum bara að fokka sér – þótt það sé nóg á kampusnum annars – í kennslustofunni ber manni skylda til þess að kljást við hugmyndir fyrirlesarans. Ég hef séð alveg fáránleg myndbönd af fólki að garga niður fyrirlesara – t.d. karlréttindasinna – bæði inni í kennslustofu og svo í stórum hópum fyrir utan þær, með þeim afleiðingum að ekki heyrðist orð innandyra. Höfundar eru alveg klárir á að það sé utan marka.

Þeir leggja líka áherslu á það lögfræðingarnir að skólarnir geti gert ýmislegt til þess að vinna gegn hatri í skólanum án þess að grípa til þess að banna illyrmislegar hugmyndir.

En þeir eru líka alveg harðir á því að tilvikum þar sem kennurum og nemendum sé refsað að ósekju – eða réttara sagt fyrir tittlingaskít eða „réttmætan hugmyndaflutning“ eða hvað maður vill kalla það – fari mjög fjölgandi og það sé full ástæða til þess að hafa áhyggjur, bæði af andrúmsloftinu í kennslustofunni en líka í kringum háskólann – einn kennari var sem dæmi rekinn fyrir að fara með blackface málningu á grímuball, ótengt háskólanum, þótt sannað þætti að hún hefði fyrst og fremst ætlað að „ögra til umræðu“. Þótt manni finnist slík hegðun ósæmileg sé hún engan veginn réttlætanleg brottrekstrarsök.

***

Hans Blær – verandi tröll – starfar við hið transgressífa, að ganga yfir þessa línu, helst þannig að hán komist upp með það. Þar er ekki endilega spurt hvort hán brjóti lögin, sem hán gerir stundum lítillega (og stundum meira), heldur hvort og hvernig hán brýtur á siðferðislögmálum. Hán þarf að brjóta nóg á þeim til þess að þjóðfélagið taki andköf en ekki svo mikið að fólk hætti að horfa eða hlusta – þetta er línudans þess sem vill hámarka athyglina. Og verandi fjölmiðlastjarna lýtur hán augljóslega öðrum reglum en t.d. háskólaprófessorar.

Í kampussamhenginu er hér hægast að vísa enn eina ferðina til Milo Yiannapoulus sem túraði milli kampusa í Bandaríkjunum í fyrra og baðaði sig í athyglinni, bæði jákvæðri og neikvæðri. Sums staðar fór hann á svið og gerði óskunda og sums staðar – t.d. í Berkeley, en þar eru báðir höfundar Free Speech on Campus starfandi – var honum ekki hleypt á svið af reiðum múg og gerði þannig enn meiri óskunda og vakti enn meiri athygli.

Það eru til þrjú stig af þessari transgressjón. Í fyrsta lagi transgressjón sem gengur ekki nógu langt – sjokkerar engan (eða sjokkerar nógu lítið að fólk eigi auðvelt með að hafna því að það hafi sjokkerast). Síðan transgressjón sem fúnkerar – þar sem hinir þórðarglöðu hlæja og hinir viðkvæmu reiðast. Tröllið – ekki ósvipað og transgressífi listamaðurinn – þrífst á átökum þessara tveggja hópa, þetta er kraftaverkaaugnablikið. Loks er það transgressjón sem einfaldlega gengur of langt – þegar það slær þögn á hópinn og þetta „er ekki fyndið lengur“. Það getur verið tímabundið – einsog gerðist fyrir Milo þegar hann gerði lítið úr samböndum unglingsbarna (13-14 ára) við fullorðna karlmenn – eða stærra, verra og ófyrirgefanlegra.

Í síðara tilvikinu nær þá transgressjónin yfirleitt út fyrir heim orðanna – þá eru það gjörðir. Hitler – svo ég taki nærtækt dæmi! – var húsum hæfur þrátt fyrir Mein Kampf. Það þurfti helförina til þess að Morgunblaðið hætti að verja hann.

Jæja. Mánudagur. Það er úr mér mestur hrollur. Þetta er allt að smella saman, held ég. Ég er allavega að skrifa eitthvað og mér líst yfirleitt best á þetta þegar ég er að skrifa. Frekar en þegar ég er bara að lesa og vorkenna mér fyrir að vera heilalaust fífl.

***

Nú er að vísu mikill lestur framundan. Ég komst út á enda í bókinni í Færeyjum (sem þýðir ekki að ég sé búinn, vel að merkja, hvergi nærri) og er búinn að lesa mig einu sinni í gegn, prenta handritið út og nú liggur það á púltinu sem Valur bróðir smíðaði handa mér – og ég er búinn að stilla bókastandinum sem Haukur Már gaf mér upp fyrir ofan, þar sem ég get raðað lesnum síðum jafn óðum.

***

En ég hef verið að skrifa aðeins í leikritið, sem sagt. Sem er auðvitað löngu, löngu, löngu tilbúið (ég komst út á enda á því í október).

***

Leikritið Hans Blær verður frumsýnt 10. mars. Ég leit við í Tjarnarbíó á mánudaginn fyrir viku og sýnist þetta allt vera á bærilegri leið. Handritið hefur tekið talsverðum breytingum – textinn er enn næstum allur minn en það er búið að afbyggja hann hér og þar, búa til ramma sem henta sýningunni, salnum, leikarahópnum, sviðsmyndinni og svo framvegis. Ég er enn að skrifa styttri texta til að stoppa í göt og lesa í gegnum breytingartillögur. Ég kann auðvitað ekkert að skrifa leikrit, einsog ég hef margoft sagt – sennilega oftast við Vigga, leikstjórann. Ég fer aldrei í leikhús. Hef ekkert vit á þessu. Besta senan sem ég skrifaði í leikritið hefði sennilega tekið 40 mínútur í flutningi – ef leikararnir hefðu drifið sig – og hún hefði verið frábær þannig. En það hefði eiginlega ekki verið pláss fyrir neitt annað. Nú er hún – tja, fimm mínútur, giska ég. Það er passlegt. En þið trúið ekki hvað ég var sniðugur í 40 mínútna útgáfunni. Leikhúsið hreinlega hrundi um sjálft sig í eilífum snúningum. Var næstum jafn gott og bók. Ég verð eiginlega að láta að setja bara upp þessa senu einhvern tíma.

***

Ég reikna ekki með því að það fari nema svona þriðjungur af þeim texta sem ég skrifaði á svið. Án þess að ég hafi góða yfirsjón yfir það.

***

Í leikhúsi er líka alltaf verið að einfalda hlutina. Ef maður missir þráðinn í bók les maður bara setninguna/síðuna/kaflann aftur. Ef maður missir þráðinn í leikhúsi er maður bara búinn að vera restina af sýningunni. Skilur ekki neitt. Þetta hentar mér mjög illa því bókmenntir mínar ganga allar meira og minna út á að flækja hlutina og rugla í hinu smávægilega (sem vekur talsvert minni eftirtekt á leiksviði). Ég sker að vísu grimmt niður texta sem ég skrifa en hvergi nærri eins grimmt og í leikhúsinu. Stundum er textinn í leikverki líka ekkert nema beinagrind – aukmerkingalaus – sem sýningin er svo byggð utan á. Sérstaklega þar sem leikhópurinn hefur fengið að fitla við verkið (einsog er sannarlega raunin með Óskabörn ógæfunnar, sem eru fiktsjúk). Þar með verður öll aukmerking á forræði leikhópsins sem setur verkið upp. Í stað þess að setningarnar bíti sig í rassinn og snúist í hringi bíta augngoturnar bendingarnar í rassinn og rassarnir snúast í hringi um sviðsmyndina. Í sjálfu sér meikar það sens. Þetta er leikhús.

***

Samband bókmennta og leikhúss er annars mjög infekterað, held ég. Mjög óheilbrigt á báða bóga. Best væri ef leikverk væru bara lesinn upphátt og leikarar færu bara allir að mæma.

***

En svo finnst mér líka bara gaman að ranta. Rantið er vanmetið listform.

***

Ég er að lesa frekar skemmtilega bók. Næstum búinn. Cock and Bull eftir Will Self. Tvær nóvellur. Önnur um konu sem fær skyndilega lim og hin um mann sem fær skyndilega kuntu. Í hnésbótina! (Konan fær liminn bara á kuntuna). Ég hef kannski einhver orð um hana hérna í næstu viku. Eða einhverja aðra úr Hans Blævar hillunni. Ég er líka búinn að gera mér ansi drjúgan lista af kvik- og heimildamyndum til þess að horfa á á næstu vikum og mánuðum. Og margt eftir í hillunni líka og eitthvað enn hreinlega í körfunni á Amazon.

I am Myra Breckinridge, whom no man will ever possess. The new woman whose astonishing history started with a surgeon’s scalpel, and will end… who-knows-where. Just as Eve was born from Adam’s rib, so Myron died to give birth to Myra.

Á dögunum horfði ég á bíómyndina Myra Breckinridge, með Raquel Welch, John Huston og fjörgamalli Mae West (og fleirum auðvitað). Myndin er gerð árið 1970 eftir rómaðri og samnefndri skáldsögu Gore Vidals – sem ég pantaði fyrir nokkru og er að bíða eftir. Eða hugsanlega er hún að bíða eftir mér, á pósthúsinu á Ísafirði (ég er á heimleið frá vikudvöl við kennslu og skriftir í Færeyjum). Bókin fékk frábærar krítískar viðtökur en var umdeild, vegna innihalds – hún var kölluð siðlaust klám og viðbjóður – en Harold Bloom hafði hana með í frægri „kanónu“ sinni.

Kvikmyndin fjallar einsog bókin um samnefndan transa, Myru/Myron Breckinridge, sem fer í aðgerð meðal annars til þess að koma til leiðar „the destruction of the American male in all its particulars“. Aðeins minna abstrakt fjallar hún um tilraun Myru til þess að fá í hendurnar arf, sem tilheyrir Myron, frá ríkum frænda sínum. Myra læst vera eiginkona Myrons, sem sé látin, en frændinn vill ekki heyra á þetta minnst, setur allt í lögfræðing, en leyfir henni að starfa sem kennari í leiklistarskóla sínum – til hálfgerðrar málamyndunar. Þar kynnist hún ungu pari sem hún reynir að forfæra og gengur bróðurpartur myndarinnar út á þann plottpunkt.

American women are eager for men to rape them. And vice versa.

Myra lætur svo heldur betur til sín taka í nauðgunardeildinni í einhverri epískustu pegging senu vestrænnar kvikmyndasögu. Það er rosalegt til þess að hugsa að Raquel hafi leikið í henni – og gert það stórkostlega – því á þessum tíma var alveg áreiðanlega ekki mjög fínt fyrir kynbombu að leika transa. Mae West sagði víst, strax og hún hitti Raquel, að „svona hlutverk“ léki engin „alvöru kona“ og neitaði að birtast í ramma með henni (þær eru saman í senum, en aldrei báðar á skjánum samtímis). Raquel tók þessum ummælum ekki vel og tökur einkenndust af miklum erjum þeirra á millum – og gríðarlegri marijúananotkun annarra leikara og starfsmanna.

Skemmst er frá því að segja að Myra er einn af nánustu ættingjum Hans Blævar sem ég hef fundið hingað til, og bíómyndin er frábær, snargeðveik snilld – og floppaði svo fullkomlega og algerlega að flestir sem að henni komu eyddu ævinni í að sverja fyrir hana. Meira að segja Gore Vidal reyndi að fá nafn sitt fjarlægt af henni („næstversta mynd sem ég hef séð“). Handritið var umskrifað þúsund sinnum og þegar leikararnir hváðu sagði leikstjórinn bara að myndin yrði „very visual“ (sem hún er). Já og Janis Joplin dissaði hana í Dick Cavett Show, þar sem hún var í viðtali MEÐ Raquel við hliðina á sér („It’s so choppy, I just didn’t understand it, it kept changing“ sagði Janis, „Well, it’s about change“ svaraði Raquel snúðug).

4,3 í einkunn á IMDB (The Room er með 3,6). Leikstjórinn fékk aldrei neitt meira að gera (fyrren hann söðlaði um og gerðist leikari).

Ég er viss um að ég verð ekki síður ánægður með skáldsöguna.

Þriðjudagur: Vikan byrjaði ekki vel. Stundum er álagið bara svo mikið. Ekki bara bókin – og ég er í fríi frá leikritinu á meðan Óskabörnin kalla ekki – en hún er plássfrekust. Mig langaði að brjóta allt sem ég komst í snertingu við og fannst einsog hver einasta mínúta – hvort heldur var við eða frá vinnu – væri glötuð mínúta. Þetta er ekki gott. Það er undarlegt hvað maður getur kastast á milli þess að finnast maður vera snillingur, fáviti, stjarna og þræll.

***

Næst ætla ég að skrifa bók sem fjallar um vonina. Og hvað vonin sé góð. Og um ástina og hvað sé gott að elska. Það verður frábært.

***

Miðvikudagur: Það stóð ekki til að fyrsta dagbókarvikan yrði einhver þunglyndisefi. Þetta átti að vera einn viðstöðulaus sigur út í gegn. Ég ætlaði að fara svolítið í gegnum bækurnar sem ég hef verið að lesa og tengjast efninu. En nei. Svo lendi ég bara í einhverri tilvistarkrísu. Einmitt þegar ég hélt ég væri seif.

***

Eitt sinn fannst mér auðvelt að skrifa skáldsögu, tilhugsunin hlægileg (nei djók), en svo finnst mér það ekki lengur. Ég fékk mjög fínan lestur frá traustum yfirlesara sem var mjög hrifinn en benti líka á misbresti sem urðu til þess að nú liggur helvítis skepnan úrbeinuð og í milljón bitum úti um allt og ég veit ekkert – EKKERT – hvernig ég á að púsla henni saman þannig að allt gangi upp.

***

Fimmtudagur: Efi leystur. Ég er séní. Byrjaður að raða saman þessum bútum og þetta gengur áreiðanlega upp.

***

Föstudagur: Keyrði suður. Átti fund með ritstjóra og bókmenntasinnuðum maka hennar á Kaffi Laugalæk. Við erum á sömu blaðsíðu með hvað þarf að gera og hvort það sé eitthvað varið í þetta.

***

Laugardagur. Júróvisjón og fyllerí með leikstjóra. Við erum líka á sömu blaðsíðu. Það eru allir á sömu blaðsíðu. Feillinn blasir við. En þetta er allt að koma. Vantar bara að blása lífi í gólemið. Starta vélinni, hreinsa og skrúbba, fara á rúntinn.

***

Sunnudagur. Held áfram að raða í mig bókum í þemanu. Var bent á Sigurvegarann – sem verk um narsissisma. Það er auðvitað eitt af vandamálum þessara bókar – sem verður próblematísk jafnvel þó, og kannski einna helst, ef allt gengur upp – að bækur sem eru í grunninn rant úr sjálfhverfum skíthælum eru alltaf … já rant úr sjálfhverfum skíthælum. Og hver nennir að lesa slíkt? Nógu eru þeir leiðinlegir bara svona á kránni (þeir blómstra svolítið á kránni). Ég ætla að reyna að taka einn mánudag á mánuði í einhverja af þessum bókum – sem eru fæstar skáldsögur, vel að merkja.

***

Mánudagur: Farinn til Færeyja. Hlustaði á viðtal við Öldu Villiljós á leiðinni til Keflavíkur – það var mjög fínt.

Næstu fjóra sólarhringa get ég einbeitt mér að engu nema Hans Blævi. Ég er, einsog ég nefndi, byrjaður að raða bútunum aftur saman, en í sjálfu sér er ég ekki búinn að raða miklu saman – bara rétt blábyrjuninni (eða kafla sem verður a.m.k. frekar framarlega). Ef vel gengur ætti ég að geta púslað hálfri bókinni saman fyrir fimmtudagskvöld – svo kenni ég á námskeiði yfir helgina (en hef kvöldin fyrir mig).

Næstu 30-40 mánudaga ætla ég að helga vinnudagbók Hans Blævar. Bókin er auðvitað næstum búin og það sama gildir um leikritið, en það er líka fífldirfska að ræða bækur (eða leikrit) mikið áður en þau eru fokheld. Því maður veit ekkert hvert þær ætla (og veit það raunar aldrei).

***

Í september 2014 dvaldist ég mánaðarlangt einn á litlum herragarði skammt utan við þorpið Jonsered, sem sjálft er skammt utan við Gautaborg. Ég hafði hlotið Villa Martinson styrkinn og bjó í samnefndu húsi, á æskuslóðum nóbelsskáldsins Harry Martinson. Þar skokkaði ég um holt og hæðir, gerði jóga í dagrenningu á tíu metra háu stökkbretti við stöðuvatnið og fylgdist með kuldanum læsa fingrum sínum í villuna, eftir því sem leið á mánuðinn, heita vatninu bresta, húsinu kólna, netinu deyja og músunum naga sér leið gegnum bitana í innveggjunum. Síðustu dögunum eyddi ég á hóteli inni í Gautaborg enda orðið ólíft í húsinu, og nýlega var mér tjáð að ég hefði verið síðasti styrkþeginn þarna – því húsið hefði ekki þótt duga. Það var samt fínt að vera þarna þar til fór að kólna. Friður og ró.

***

Lengst af þótti mér sem ég hefði engu komið í verk þarna. Að vísu skrifaði ég heila bók – 150-200 síður, sennilega – en bókin reyndist, þegar á hólminn var komið, alls ekki mönnum bjóðandi. Þannig er því yfirleitt farið um það sem er fljótskrifað. Þetta var reyfari, stefnulaus (viljandi) og alveg án nokkurrar fullnægju – morðið sem bókin hófst á var öllu óviðkomandi. Og raunar var það helsti galli bókarinnar að hún var eiginlega ekki um neitt annað heldur. Og hennar helsti kostur, svona þegar ég hugsa út í það.

***

Ég veit aldrei hvað mér finnst um að skrifa fyrir ruslafötuna. Það þarf augljóslega líka. En það er þungt að þurfa að henda heilu og hálfu bókunum.

***

Morðið var klassískt. Það var framið á herragarði (ekki Villa Martinson) í miðju matarboði. Enginn var viðstaddur og þegar viðkomandi lést sátu allir aðrir gestir í borðstofunni. Einn af gestunum hét Hans Blær og var transkynja strætóbílstjóri. Aðalsöguhetjan í þessari ómögulegu skáldsögu var hins vegar leynilögreglumaður og samskipti hans við Hans Blævi eru fram úr hófi asnaleg og hann kemst eiginlega aldrei að kjarna málsins (frekar en bókin sjálf), getur ekki yfirheyrt Hans Blævi fyrir vandræðagangi.

***

Hans Blær var ljóshærð(ur) með hálfsítt hár hægra megin, rétt niður fyrir eyra, en sléttrakað vinstra megin. Hán var hávaxin(n), líklega rétt undir 190 cm, klædd(ur) í litríka og snyrtilega (dýra) mussu sem náði rétt niður fyrir rass, hvítar terlínbuxur og brúna leðursandala. Hán var með gleraugu með svörtum, þykkum, kassalaga ramma, stutta og tilklippta barta – góða skeggrót – og barmmerki sem á stóð „Yoga kills“.

[…]

„Ég vil byrja á því að forvitnast – þú fyrirgefur, þér mun sjálfsagt finnast þessar spurningar heimskulegar …“

„Það eru engar heimskulegar spurningar, einungis heimskuleg svör“ sagði Hans Blær og krosslagði fæturna í sófanum. Hippi hugsaði ég en meinti krútt eða póstkrútt, knúskrútt, og fann hvernig fordómarnir blossuðu upp. Hann hugsar um Coelho til að fá það, hugsaði ég.

„Í fyrsta lagi: hvernig viltu að ég ávarpi þig?“

„Meinarðu í hvaða kyni?“

„Já.“

„Ef þú vilt virða mig heldurðu þig við hvorugkyn. Annars er þetta víst frjálst land.“

„Og nafnið? Hvernig beygi ég það?“

„Hans í karlkyni – Hans um Hans frá Hans til Hans – og Blær í kvenkyni. Blær um Blæ frá Blævi til Blævar.“

Mig langaði að segja eitthvað um blæbrigði en náði að stoppa mig á síðustu stundu. „Hvaðan ertu?“

„Frá stelpu í strák.“

„Ha?“

„Var það ekki það sem þú varst að spyrja?“

„Ég átti við, hvaðan á landinu.“

„Bíldudal, upprunalega.“

„Upprunalega?“

„Ég flutti þegar ég var tvítugt.“

„Hvað ertu … gamalt … núna?“

„Tuttuguogþriggja.“

„Og þú keyrir strætó?“

„Frá því í febrúar. Ég vann í þörungaverksmiðjunni fyrir vestan og þau borguðu fyrir mig meiraprófið. Betur borgað en að vera á sambýli. Þessar aðgerðir eru ekki ókeypis.“

„Heitirðu Hans Blær í þjóðskrá?“

„Nei.“

„Hvað heitirðu í þjóðskrá?“

„Skiptir það máli?“

„Já.“

„Er ekki nóg að þú fáir kennitöluna mína? Þú getur svo flett þessari lygi upp sjálfur.“

„Nei, þú verður líka að segja mér hvað þú heitir. Þetta styður allt hvert annað. Ég ber saman nafn og kennitölu til að vita við hvern ég hef verið að tala. Ef nafnið passar ekki við kennitöluna eða öfugt hef ég augljóslega tekið annað hvort ranglega niður.“

***

Og svo framvegis og svo framvegis. Ég kláraði bókina og Hans Blær kom í sjálfu sér ekkert mikið meira við sögu – ég ákvað að skrifa hana ekki heldur henda henni í ruslið og snúa mér aftur að Heimsku sem ég hafði verið að vandræðast með misserin á undan (og þessi bók var í raun hugsuð sem einhvers konar útgáfa af Heimsku, en það er pínu langsótt samt).

***

Ég kláraði Heimsku hálfu ári síðar og byrjaði fljótlega upp úr því að vinna í Hans Blævi. Síðan þá hefur mikið blóð runnið til sjávar. Sviti, tár og aðrir líkamsvessar. Hans Blær er ekki lengur strætóbílstjóri heldur fjölmiðlastjarna. Hán er eldra (f. 1984) og hán er ekki PC-vinstrimanneskja – raunar því síður, hán er tröll, ekki minna transgressíft en transgender. Ég veit ekki hvort hægrisinnað er hugtak sem á við – það er hálfgerður anakrónismi þegar hán er annars vegar, enda er hán bæði eitthvað miklu eldra og eitthvað alveg nýtt. En að því sögðu er hán allavega ekki vinstrisinnað. Þá er kyngervi hánar ansi miklu flóknara núorðið en að hán sé bara „frá stelpu í strák“.

 

***

En það er víst best að ég verði ekki of langorður. Þótt það sé margt að segja. Meira síðar.

Meinlætúar, dagur 31

Aldur: 39 (39)
Hæð: 198 cm (198 cm)
Þyngd: 86,1 kg (85 kg)
Hitastig: 35,8 °C (?)
Máltíðir: 2,5 (2,5)
Millimálseiningar: 1 (1)
Hlaup: 0 km (5 km)
Jóga: 0 mín (15 mín)
Íhugun: 0 mín (5 mín)
Innbyrtar hitaeininingar:  1.137 kcal (1800 kcal)
Salt: 2.781 mg (2000 mg)
Kolvetni: 125 g (200 g)
Fita: 34 g (50 g)
Prótein: 77 g (150 g)
Sykur: 22 g (0 g)
Hitaeiningum brennt með umframhreyfingu: 696 kcal (650 kcal)
Hitaeiningum brennt í hvíld: 1.914 kcal (2.200 kcal)
Skref: 4.019 (10.000)
Meðalhjartsláttur í hvíld 47 (60):
Hraðasti púls: 169
Hægasti púls: 46
Áfengiseiningar: 0 (0)
Tóbakseiningar: 0 (0)
Mittismál: 94,5 cm (90 cm)
Vaknað í morgun kl: 07.32 (07.30)
Sofnað í gær kl: 00.28 (00.00)
Skrifuð orð: 1.006 (500)
Eyddar krónur: kr 2.564 (2.000 kr).
Lesnar fagurbókmenntablaðsíður: 42 (30)
Lesnar annars konar blaðsíður: 41 (30)
Mínútur við sjónvarpsgláp: 71 mín (< 60 mín)
Kaffibollar: 3

Meinlætúar, dagur 30

Aldur: 39 (39)
Hæð: 198 cm (198 cm)
Þyngd: 86,3 kg (85 kg)
Hitastig: 35,8 °C (?)
Máltíðir: 2,5 (2,5)
Millimálseiningar: 1 (1)
Hlaup: 5 km (5 km)
Jóga: 0 mín (15 mín)
Íhugun: 0 mín (5 mín)
Innbyrtar hitaeininingar:  912 kcal (1800 kcal)
Salt: 2.133 mg (2000 mg)
Kolvetni: 80 g (200 g)
Fita: 36 g (50 g)
Prótein: 60 g (150 g)
Sykur: 17 g (0 g)
Hitaeiningum brennt með umframhreyfingu: 818 kcal (650 kcal)
Hitaeiningum brennt í hvíld: 1.945 kcal (2.200 kcal)
Skref: 10.622 (10.000)
Meðalhjartsláttur í hvíld 46 (60):
Hraðasti púls: 210
Hægasti púls: 45
Áfengiseiningar: 0 (0)
Tóbakseiningar: 0 (0)
Mittismál: 94,5 cm (90 cm)
Vaknað í morgun kl: 07.05 (07.30)
Sofnað í gær kl: 23.52 (00.00)
Skrifuð orð: 1.702 (500)
Eyddar krónur: kr 5.210 (2.000 kr).
Lesnar fagurbókmenntablaðsíður: 0 (30)
Lesnar annars konar blaðsíður: 52 (30)
Mínútur við sjónvarpsgláp: 70 mín (< 60 mín)
Kaffibollar: 7

Meinlætúar, dagur 29

Aldur: 39 (39)
Hæð: 198 cm (198 cm)
Þyngd: 86,7 kg (85 kg)
Hitastig: 36,5 °C (?)
Máltíðir: 2,5 (2,5)
Millimálseiningar: 0 (1)
Hlaup: 5 km (5 km)
Jóga: 0 mín (15 mín)
Íhugun: 0 mín (5 mín)
Innbyrtar hitaeininingar: 1.293 kcal (1800 kcal)
Salt: 1.910 mg (2000 mg)
Kolvetni: 146 g (200 g)
Fita: 54 g (50 g)
Prótein: 71 g (150 g)
Sykur: 21 g (0 g)
Hitaeiningum brennt með umframhreyfingu: 732 kcal (650 kcal)
Hitaeiningum brennt í hvíld: 1.925 kcal (2.200 kcal)
Skref: 8.123 (10.000)
Meðalhjartsláttur í hvíld 46 (60):
Hraðasti púls: 167
Hægasti púls: 42
Áfengiseiningar: 0 (0)
Tóbakseiningar: 0 (0)
Mittismál: 94,5 cm (90 cm)
Vaknað í morgun kl: 06.56 (07.30)
Sofnað í gær kl: 00.45 (00.00)
Skrifuð orð: 930 (500)
Eyddar krónur: kr 589 (2.000 kr).
Lesnar fagurbókmenntablaðsíður: 40 (30)
Lesnar annars konar blaðsíður: 55 (30)
Mínútur við sjónvarpsgláp: 82 mín (< 60 mín)
Kaffibollar: 5

Meinlætúar, dagur 28

Aldur: 39 (39)
Hæð: 198 cm (198 cm)
Þyngd: 87,2 kg (85 kg)
Hitastig: 36,3 °C (?)
Máltíðir: 1 (2,5)
Millimálseiningar: 2 (1)
Hlaup: 5 km (5 km)
Jóga: 0 mín (15 mín)
Íhugun: 0 mín (5 mín)
Innbyrtar hitaeininingar: 1.187 kcal (1800 kcal)
Salt: 1.841 mg (2000 mg)
Kolvetni: 117 g (200 g)
Fita: 66 g (50 g)
Prótein: 66 g (150 g)
Sykur: 12 g (0 g)
Hitaeiningum brennt með umframhreyfingu: 699 kcal (650 kcal)
Hitaeiningum brennt í hvíld: 1.890 kcal (2.200 kcal)
Skref: 9.698 (10.000)
Meðalhjartsláttur í hvíld 46 (60):
Hraðasti púls: 167
Hægasti púls: 44
Áfengiseiningar: 0 (0)
Tóbakseiningar: 0 (0)
Mittismál: 95,0 cm (90 cm)
Vaknað í morgun kl: 10.56 (07.30)
Sofnað í gær kl: 00.48 (00.00)
Skrifuð orð: 6 (500)
Eyddar krónur: kr 3.290 (2.000 kr).
Lesnar fagurbókmenntablaðsíður: 0 (30)
Lesnar annars konar blaðsíður: 0 (30)
Mínútur við sjónvarpsgláp: 0 mín (< 60 mín)
Kaffibollar: 8