Gítarblogg – færsla 8

Við skildum við gítarinn í síðustu viku á cliffhanger sem myndi sæma hvaða spennusögu sem er – teipaðan og límdan úti í horni. Bindingin fékk að þorna yfir nótt og á þriðjudeginum tók ég teipið af og pússaði niður kantana. Mér fannst það alls ekki nógu fínt þegar ég byrjaði og bara mjög fínt þegar ég var búinn.

Ég var svolítið hræddur um að bindingin yrði of mött við að vera pússuð svona en það reyndust óþarfa áhyggjur. Hún er mattari en alls ekki óþolandi mött.

Á miðvikudeginum dútlaði ég mér bara við spilerí fram á kvöld, enda ekkert að gera nema bíða. Það vantaði sendingarkostnað inn á kvittunina fyrir hálsinum sem ég sendi tollinum og hann barst því ekki fyrren á fimmtudagsmorgun. Í ljósi þess að ég var á leiðinni í vinnuferðalag yfir helgi leyfði ég mér að taka frí á fimmtudeginum til að smíða. Og sá dagur var heldur betur massaður – þótt eftir á að hyggja hefði ég sennilega átt að taka því aðeins rólegar. Ég var orðinn mjög æstur á síðustu metrunum.

Ég sótti hálsinn strax og ég hafði komið Aino á leikskólann. Hann er mjög fagur.

 

Einsog áður segir er hálsinn úr við sem nefnist wenge en fingraborðið úr pau ferro – í stað rósaviðar, sem er á válista. Rjómalituð bindingin passar vel við bindinguna á búknum, sem er ekki alveg sjálfsagt enda „rjómalitur“ ekki einn litur. Þetta er ekki alveg nákvæmlega sami litur en maður þarf að rýna vel í hann til að sjá muninn.

Ég mældi þúsund sinnum fyrir hálsinum, gerði skapalón til að hækka upp skapalónið frá StewMac og fræsti svo 16 mm vasa. Mér fannst það strax alltof grunnt að sjá – fór inn í hús og mældi hæðina á fingraborðinu á Gálkninu (SG) og Djásninu (Tele), sem var þá um hálfur sentimetri á meðan þessi var rúman sentimetra yfir búknum. Ég leyfði mér þá að dýpka vasann um 3 mm. Það tókst ekki alveg jafn vel. Ég þurfti að festa skapalónið aftur á og auðvitað skeikaði smá á staðsetningunni, nóg til að hálsinn var ekki lengur alveg þétt í. Þetta leysti ég með smá teipi á báðum hliðum, sem er auðvitað ekki optimalt, en það er ekki svo auðvelt að minnka svona vasa.

Næst þurfti ég að bora fyrir götunum í hálsvasanum. Til að finna út staðsetninguna klippti ég út miða í sömu stærð og vasinn – stakk svo tannstönglum í holurnar á hálsinum og gerði göt á miðann.

Ég notaði svo líka hálsplötuna til að staðsetja holurnar betur. Aftur klúðraði ég pínu – ein skrúfan er dálítið skökk, en ekki svo að ég ætti ekki að geta lagað það.

Nú var ég orðinn svolítið mikið æstur. Mig langaði að ná að setja einn streng í gítarinn áður en ég færi í flug seinnipartinn. Ef það væri gæðastjóri í gítarfyrirtækinu Heyr á endemi hefði hann sennilega sent mig beint í pásu þegar hér var komið sögu. Maður smíðar nefnilega ekkert æstur, að minnsta kosti ekki vel.

Fyrst þurfti að bora fyrir brúarstoðunum. Ég margmældi – hér má alls engu skeika – og fór svo að finna réttan bor. Sem ég átti auðvitað ekki. Mér sýndist í fyrstu að þetta ætti að vera 11 mm bor en ég átti bara 10 og 12. Í búðunum á Ísafirði var hvergi til 11 mm trébor svo ég endaði á að kaupa 11 mm steinbor – sem er ekki optimalt, þeir hlaupa til, en ég hafði séð fyrir mér að ég gæti forborað með minni borum. Nema 11 mm borinn var heldur ekki nóg – þótt það standi reyndar í leiðbeiningunum. Stoðin hefði aldrei farið niður. Svo ég fór og keypti 11,5 mm steinbor líka og helvítið gekk niður með herkjum (þetta situr svo fast að ég næ honum aldrei úr, vel að merkja, og á að gera það – ég teipa yfir hann þegar ég mála).

Brúin er svo með tveimur holum og situr ofan á þessum tveimur stoðum. Hún á að vera frekar laus en þessa tilteknu er hægt að festa með sexkanti. Brúin á Gibsoninum, klassísk tune-o-matic, er alveg laus og dettur af þegar maður tekur strengina af. Nema hvað – stoðirnar mínar eru í réttri fjarlægð frá hálsvasanum, svo intóneringin á að vera í lagi (hálsinn ætti að vera innbyrðis réttur) en þær eru oggu pínu ponsu of langt hvor frá annarri sem þýðir að ég kem brúnni ekki á stoðirnar nema með talsverðu afli. Þetta er svo lítið að ég vona að ég geti bara sorfið aðeins innan úr holunni á brúnni með þjöl og þá sitji hún föst. Annars er þetta alveg nothæft – en það verður algert mörder að stilla strengjahæðina rétta, af því ég get ekki snúið stilliskrúfunum á stoðunum ef brúin er svona spennt.

Ég var alltof æstur til að taka myndir.

Næst boraði ég fyrir Bigsbyinu og festi það og skrúfaði stilliskrúfurnar í – setti einn a-streng í skepnuna og voilá!

Afsakið óhreina tauið. Ég tók ekki einu sinni eftir því þegar ég tók myndina. Svo hljóp ég upp á loft, henti einhverju drasli í tösku, og rauk af stað til Münster.

Á meðan ég var úti í Münster lauk gullsmiðurinn við að merkja hálsplötuna fyrir mig og ég fékk senda mynd á rithöfundakampusinn:

Addi prentaði líka á klórplötuna fyrir mig og sendi mér myndir og myndband.

Ég var svo í Reykjavík í dag og fór í kaffi til Möggu frænku (konu Adda sem sagt) í dag og fékk plötuna. Ég tók með mér kippu af bjór sem ég ætlaði að gefa Adda fyrir hjálpina en haldiði ekki bara að hann sé hættur að drekka? Fyrir fjórtán árum! Ég hef það sosum fyrir pólisíu að telja ekki drykkina ofan í annað fólk (eða sjálfan mig) en stundum er fattleysið í mér alveg botnlausara en svo að ég sjái niður. Ég verð bara að finna einhverja aðra leið til að gleðja Adda.

Ég kom síðan heim seinnipartinn og þegar ég var búinn að lesa fyrir krakkana og Nadja var upptekin við að klára Lólítu fyrir bókaklúbbinn í kvöld, fór ég að fikta í strengjahæðinni – fór með sporjárn í vasann og reyndi að slétta aðeins til og laga. Hann er enn dálítið hár, finnst mér. Þótt ég sé með brúna alveg niðri er strengjahæðin full mikil. Ég get sennilega lagað það með því að fikta í hálsstönginni – truss rod – annars verð ég bara að dýpka hann enn meira eða gera meiri halla.

Ég tók líka þjölina á brúna svo hún er nokkuð lausari en áður, ekki þó laflaus. Svo setti ég í hann gamla draslstrengi – er með tvo e-strengi neðst og b-streng fyrir g-streng en það er hægt að glamra á þetta og það er gaman. Hann er ekki nærri tilbúinn en þetta er strax orðinn góður gítar.

***

Gítarleikari vikunnar er fyrsti „alvöru“ rafmagnsgítarleikarinn, Charlie Christian, sem vann sér það meðal annars til frægðar að spila með hljómsveit Bennys Goodman. Hann gerbreytti hugmyndum manna um gítarleik og nánast fann upp gítarsólóið sem listgrein auk þess að vera einn þeirra sem lagði grunninn að því sem síðar varð bebop tónlist og cool jazz, þótt hann væri þekktastur fyrir swing – og dó svo langt fyrir aldur fram, 26 ára gamall, úr berklum árið 1942. Sannkallaður snillingur.

Gítarblogg – færsla 7

Ég hef alltof lítið náð að spila síðustu vikuna. Ég var eitthvað að möndla við að æfa tóneyrað – aðallega með því að pikka upp hljóma í lögum sem ég hlusta á og spila melódíur sem ég man án þess að hafa neitt til hliðsjónar. En svo var Nadja lasin fyrstu daga síðustu viku og ég svo strax í kjölfarið og gítarsmíðin tók yfir allan lausan tíma frá fimmtudegi (ásamt því reyndar sem ég smíðaði Zelda-sverð fyrir Aram, til notkunar á maskadaginn). Nú er ég að fara til Münster á miðvikudag og kem ekki aftur fyrren á mánudag svo það verður líklega lítið úr spileríi og smíðum. En ég ætti samt að reyna að læra a.m.k. eitt nýtt lag í kvöld eða á morgun. Var að spá í Jesus Left Chicago með ZZ Top. Það er mjög einfalt en ég kannski læri þá textann líka. Það er hægt að gera það gítarlaus í Münster.

***

Hlynurinn kom með póstinum á miðvikudag. Ég reif mig upp úr flensunni til að líma hann saman svo ég kæmist með hann til Dodda í Fab Lab á fimmtudeginum – því það er bara opið á fimmtudögum og þriðjudögum. Alla jafna.

Það var óþægilega mikil sveigja í spýtunni og við Doddi tókum hana yfir í trésmíðadeild til Þrastar til að spyrja ráða og hann mælti með því að við myndum pressa hana yfir nótt í til þess gerðri pressu. Doddi kom mér þá til bjargar með að hleypa mér inn á föstudeginum þótt það væri alls ekki opið.

Við byrjuðum á að fræsa spýtuna niður í 6,5 mm þykkt og fræstum svo fyrir útlínunum.


Ég fór beint með spýtuna heim og sagaði í hana f-gatið og límdi hana fasta á búkinn. Ég vildi gera þetta hratt og örugglega áður en hún myndi sveigjast aftur til baka. Ég gerði líka einhverjar tilraunir með að festa bindingu í f-gatið en þær voru ekki sérlega uppörvandi og kannski sleppi ég bara bindingu þar. Þetta eru mjög skarpar beygjur og erfitt að fá plastið til að setjast almennilega að kantinum.

Þegar ég fór að mæla fyrir staðsetningu á hljóðdósum og hálsvasa kom í ljós að sennilega hef ég gert dálitla skyssu. Hálsinn er í Gibson hlutföllum – 628 mm skali – en ég hafði verið að reikna fjarlægð vasans að brú útfrá Fender hlutföllum, sem er með 650 mm skala. Sem þýðir að í staðinn fyrir að brúin komi til með að vera 181 mm frá vasanum verður hún 170 mm frá vasanum – sirka – og færist því fram um heilan sentimetra. Ef ég er ekki eitthvað að rugla. Þetta gæti þýtt að ég þurfi að færa hljóðdósirnar nær hver annarri og skera aðeins í klórplötuna (þessi á myndinni er aukaplata – sú alvöru er í Reykjavík í prentun, það er líka verið að grafa í hálsplötuna). Svo það sé bærilegt pláss fyrir allt. Ég ætla samt ekki að fræsa fyrir hljóðdósum eða hálsi fyrren ég er kominn með hálsinn í hendurnar og get reiknað þetta allt nákvæmlega út. Ég var vel að merkja að fylla út tollskýrsluna fyrir hann og fæ hann vonandi á morgun.

Ég fræsti samt fyrir hnappaholinu og tengdi það við innputholið. Það var bölvað moj. Ég var ekki með nógu langan bor og þurfti að koma báðum megin að þessu og bora nokkrum sinnum til að finna leiðina. Svo gerði ég smá trékítti úr gömlu sagi til að fylla í götin. En það er nú ekki sérlega fallegt – skiptir kannski litlu svona innan í, en ég hugsa að ég reyni nú samt aðeins að fixa það.

Ég prófaði mig líka áfram með bæsið, bæði á hlyn og mahóní. Ég byrjaði á að bæsa svart á hlyninn og pússa það næstum alveg upp. Svo smá rauðsvarta blöndu sem ég pússaði líka upp, svo nokkur lög af rauðblárri búrgúndarblöndu. Ég setti smá af sömu blöndu á mahóníið til samanburðar, þótt ég sé ekki búinn að grain-fylla það. Þetta er vel að merkja allt afgangsefni (ég nota kannski þennan hlyn einhvern tíma en sný honum þá hinsegin).

Mahóníið er ósnert þarna neðri hlutinn. Svarta bæsið dregur svona fram æðarnar í hlyninum – ofan á þetta fer svo tung-olía og bílabón.

Næst fræsti ég rásina fyrir bindinguna með dremli og til þess gerðum bita og græju frá Stew Mac. Það var rosalegt moj að ná því sæmilegu án þess að skemma gítarinn. Þessi mynd er tekin áður en ég pússaði rásina með 60 gritta sandpappír. Það skánaði nú umtalsvert við það.

Næst notaði ég tonnatak til þess að líma bindinguna fasta. Og hárþurrkuna sem ég gaf Nödju einu sinni til þess að hita og beygja bindinguna. Það var líka mikið þolinmæðisverk og ég er ekki alls kostar ánægður með hvernig til tókst – aðallega vegna þess að rásin var skemmd á a.m.k. einum stað. Þar er dálítið gap milli bindingar og búks sem ég þarf annað hvort að fylla með bindingu uppleystri í acetoni eða tréfylli.

Einsog sjá má var drukkið í vinnunni í gær. Þetta er Biska – króatískur snaps úr mistilteini. Mjög gott.

Ég keypti á sínum tíma líka þykkari bindingu ef ég skildi klúðra – auðveldara að stækka rásina en minnka hana. Og nýtti mér það í gær þótt það væri reyndar ekki vegna neins klúðurs. Ég ákvað bara að fela alveg skilin á hlyninum og mahóníinu með bindingunni – meðal annars vegna þess óhjákvæmilega litamismunar sem verður eftir bæsingu.

Svo veit ég auðvitað ekkert hvernig þetta lítur út undir öllu þessu teipi. Ég kem til með að þurfa að pússa þetta helling til. Ég gerði tilraunir með lím áður en ég valdi eitthvað „industrial grade“ tonnatak og þetta ætti nú að halda. En það er ómögulegt að segja hvort það séu mörg álíka göp undir teipinu fyrren ég er búinn að fjarlægja það og pússa svolítið. Það gerist í kvöld og á morgun kemur vonandi hálsinn og þá fræsi ég fyrir honum.

***

Gítarleikari vikunnar er St. Vincent / Annie Clark. Ég átti rosa erfitt með að velja gott myndband – en fann svo þetta best off þar sem hún fer fullkomlega á kostum, og stundum hamförum. Það sakar heldur ekki að signatúr-gítarinn hennar frá Ernie Ball er ógeðslega fallegur – en hann er reyndar ekki í neinni af þessum klippum, hann er ekki nema svona 2-3 ára gamall, svo ég henti bara með einni mynd af honum í bónus.

Jack White spilar líka stundum á svona.

Gítarblogg – færsla 6

Engar myndir í dag. Ég er fátt búinn að gera annað en að pússa þessa vikuna. Í sjálfu sér var það að meira að segja dálítill óþarfi því ég á eftir að þurfa að pússa sumt af þessu aftur – enda verða einhver átök við skrokkinn áður en yfir lýkur. Ég er að bíða eftir hlyni frá Króatíu og hálsi frá Bandaríkjunum og fékk sendingu með fínum sandpappír og púðum, skapalóni fyrir hálsvasann, dremilstönn og tólhaldi (jig) til að fræsa fyrir bindingunni. Sem ég kalla stundum líningu. Það er margt sem ég veit í raun ekki hvað heitir í þessu öllu saman – sérstaklega á íslensku.

Eitthvað get ég samt gert áður en hlynurinn kemur. Ég get borað fyrir ólhnöppunum. Ég þarf að dýpka aðeins rásirnar fyrir snúrurnar. Tala við gullsmiðinn um að grafa í hálsplötuna. Hanna merkingu á hausinn. Prófa að bæsa afgangsspýtur til að sjá hvernig það lúkkar.

Ég boraði reyndar fyrir plasthlífinni aftaná. Það gekk bærilega og skrúfurnar sem ég fékk eru allt í lagi aftan á gítarinn en ég þarf að finna einhverjar fallegri til að setja í klórplötuna – sem ég sendi suður til Adda í síðustu viku. Ég boraði líka fyrir innputtinu og þar er allt í fína.

***

Ég spilaði líka fyrir framan fólk á föstudaginn. Í fyrsta skipti í þrjú eða fjögur ár, held ég, og við svipaðar aðstæður og þá. Sem sagt í óæfðri partíhljómsveit af stórtilefni – þá var það 10 ára brúðkaupsafmæli vina minna en nú fertugsafmæli annars vinar. Það var mjög gaman þótt ég kynni ekki lögin og væri aðallega að elta hljómsveitarstjórann, Gumma Hjalta. Ég var gríðarlega stressaður og bókstaflega skalf einsog hrísla fyrstu 20 mínúturnar og sneri baki í áhorfendur eins mikið og ég komst upp með. Og hefði ábyggilega ekki farið upp á svið ef ég hefði ekki pínt mig til að taka með mér gítarinn, af því ég var búinn að nefna það við Nödju og afmælisbarnið (sem spilaði á cajon trommukassa) og hefði skammast mín fyrir hugleysið ef ég hefði sleppt því, og  Gummi svo nánast komið og sótt mig þegar þau voru búin að spila 2-3 lög.

Stressið fer líka alveg með mann. Maður er talsvert betri gítarleikari heima í stofu að djamma með sjálfum sér. Sennilega skánar maður mjög hratt af því að venjast þessu en það munar ábyggilega alltaf a.m.k. tíund. Ég átti í mestu erfiðleikum með að muna einföldustu hljómaskiptingar og þurfti því að stara á fingurna á Gumma allan tímann – og eyrað, sem er kannski ekkert frábært, var alveg úr sambandi. Ég tók nokkur sóló og hékk bara í fyrstu stöðu pentatóníska blússkalans og var ekkert að flækja spilamennskuna með dýnamík, tvíhljómum eða lærðum likkum, og var alltof frosinn til þess að velta því fyrir mér á hvaða nótum ég væri að lenda í hljómaskiptingum. Hugsaði bara um að lifa af. Í einu laginu, ég man ekki hverju, gekk ómögulega að spila pentatónískan blús og þá lenti ég bara á einhverjum villigötum. En mér tókst svo sem að feika mig í gegnum megnið af þessu. Og það var mjög gaman. Ég væri til í að spila meira – alls konar tónlist í sjálfu sér, en mest blús og blússkotið. Næst væri ég líka til í að vera minna stressaður og með minn eigin magnara og pedalana mína (ekki að fenderinn hans Gumma hafi ekki verið frábær – en það er þægilegra að þekkja sjálfan sig í hátalaranum).

***

Gítarleikari vikunnar er Eddie Hazel í Funkadelic og lagið er viðstöðulaust tíu mínútna fönksóló fyrir lengra komna – spunnið frekar en samið. Hljómsveitarstjórinn, George Clinton, ku hafa beðið Eddie Hazel að ímynda sér fyrst að hann hefði fengið fréttir af dauða móður sinnar – en svo að hún væri á lífi og þetta var hin harm- og gleðiþrungna útkoma.

Gítarblogg – færsla 5

Ég fylgist með alls konar gítarnördum á YouTube – Justin Sandercoe, Andertons-genginu, Samurai Guitarist, Mary Spender, Eric Haugen, Crimson Guitars og stundum líka Paul Davids og Marty Schwartz. Nú er eiginlega allt þetta gengi á sama blettinum í Anaheim í Bandaríkjunum – NAMM, National Association of Music Merchants tónlistarmessan er í fullum gangi og YouTube hetjurnar allar að plögga sig og skoða nýtt dót. Mér sýnist helstu tíðindin vera frá Fender – Accoustasonic gítarinn, sem er rafmagns- og kassagítar, hrikalega ljótur og óspennandi eitthvað en hefur vakið mikla athygli – og Gibson, sem eru að hætta með alls konar framtíðardrasl á gítörunum sínum og einhenda sér í að gera klassíska Gibson-gítara í staðinn. Engar sjálfvirkar stilliskrúfur eða aðrar brellur (ég þekki reyndar bara einn sem á svoleiðis, Mugison, og hann er mjög ánægður með það). Man ekki hvort High Performance línan er alveg farin í ruslið. Fyrirtækið fór í einhvers konar gjaldþrot í fyrra og það var öllu stokkað upp.

Og heyrir í sjálfu sér held ég til tíðinda, núorðið, að helstu tíðindin séu af Gibson og Fender.

***

Af mínum gítar er eitt og annað að frétta. Ég hafði ekkert að gera á mánudeginum og tók mér því klukkutíma í að skipta um strengi og þrífa Djásnið og Gálknið. Setti líka nýjar stilliskrúfur í Djásnið.

Á þriðjudaginn fór ég í Fab Lab og skar út klórplötuna með aðstoð Dodda, sem þar vinnur. Það er ótrúlega mikill lúxus að geta komist í þetta Fab Lab og ég gæti gert miklu meira þar en ég ætla að gera – einfaldlega vegna þess að mig langar að gera mikið af þessu í höndum. Auk klórplötunnar skárum við út hring sem verður notaður sem lok aftan á þar sem hljóðdósarofinn er.

Sennilega tók ég því bara rólega á miðvikudeginum. Á fimmtudeginum kom ég svo aftur og skar út búkinn.

Heyr á endemi. #fablabisa

A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on

Þegar heim var komið pússaði ég þetta svolítið og lagaði til með sporjárni – fræsarinn skilur eftir harða kanta sem maður þarf að laga sjálfur. Þetta er svo efnið fari ekki á flug í vélinni. Síðan teiknaði ég allt upp á búkinn, hvar allt á að vera staðsett. Svo handfræsti ég fyrir hljómbotninum (með skapalóni sem ég gerði fyrst) og gerði rásir fyrir snúrur og holu fyrir hljóðdósarofann, með kanti fyrir lokið. Ég gerði líka skapalón fyrir hljóðdósirnar. Og pússaði svolítið meira.

Heyr á endemi.

A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on

Hlyntoppurinn fagri kom í pósti en það fór heldur illa með hann. Hann var 7 mm og mátti alls ekki vera meira en 6 mm, af því bindingin verður að fela hann á köntunum, og við Smári fórum með hann út í vík og mötuðum hefilinn á honum – svoleiðis að hann skemmdist allur og eitt hornið fór meira að segja af. Ég þurfti á öllum styrk mínum að halda til að fara ekki að grenja á öxlinni á Smára. (Það er alltílagi að grenja en maður á kannski ekki að grenja yfir veraldlegu drasli samt – það er líka alltílagi að hemja sig).

Ég pantaði mér tvær nýjar frá Króatíu strax og ég kom heim og þær ættu að koma innan tveggja vikna. Síðast tók það níu daga. Ég hélt hins vegar áfram með hinn toppinn og ætla að nota hann til að æfa mig. Ég pússaði niður mestu misfellurnar og límdi hann saman í gær. Á eftir sé ég svo hvernig til tókst.

Næst á dagskrá er að láta Adda frænda – eða mann Möggu frænku – bassaleikarann í Ég (í Mér? Í Sér?) og fleiri góðum sveitum – prenta á klórplötuna fyrir mig. Ég er að íhuga að fá gullsmiðinn hérna í bænum til að rista nafnið mitt í hálsplötuna – datt það bara í hug í morgun. Svo þarf ég að halda áfram að pússa bakið og hliðarnar. Ég ætla að fjárfesta í búrgundarlitu bæsi og gera tilraunir með að mála aðeins. Ég þarf að skrúfa eitthvað af götum – sennilega skrúfa ég ekki á klórplötuna samt fyrren ég er búinn að láta prenta á hana, af því götin eiga að flútta við prentið. Svo þarf á að skoða hvernig sé best að prenta á hausinn – kannski eitthvað svona decal-dæmi? Og ég ætla með skemmda hlyninn til Dodda í Fab Lab og skera hann út og leika mér eitthvað með hann.

***

Nýr liður. Gítarleikari vikunnar. Í sjálfu sér fáið þið hérna þrjá fyrir einn – en sá sem ég hef mestan áhuga á í þessu er Kingfish Ingram, risavaxni svarti maðurinn með Gibson gítarinn vinstra megin við Samönthu Fish, en auk hennar spilar Ty Curtis á gítar. Kingfish er nýorðinn 20 ára gamall, (17 þegar myndbandið er tekið), fæddur 19. janúar 1999 og hefur meðal annars flutt lag í þáttunum um Luke Cage, spilað fyrir Michelle Obama og tekið upp tónlist með Eric Gales. Ég kann mjög vel að meta svona gítarleikara sem spila svolítið einsog þeir meini það.  Gítarinn er ógnarlítill í hrömmunum á honum en skýtur eldingum. Hann byrjar tryllinginn á mín 4.12.

Gítarblogg – færsla 4

Það var verið að ræða dundursnautnir á Facebook. Ég hef talsverða þörf fyrir dundursnautn en kann illa við hana í bókmenntum – sérstaklega þeim sem ég skrifa sjálfur en líka þeim sem ég les. Þess vegna fæ ég útrás fyrir hana annars staðar. Til dæmis í þessari gítarsmíð – en líka í matseld og alls konar föndri sem hefur það eina markmið að virka, þjóna fegurðinni einni, nautninni, og leyfir enga vanlíðan.

Nú er ég að reyna að rifja upp hvað ég gerði í síðustu viku. Ég var búinn að gera búkinn. Við Smári fórum út í Bolungarvík á trésmíðaverkstæði og skárum dálítinn furubút í tvennt og hefluðum svo báða niður í sex millimetra.

Bútinn límdi ég síðan saman svo úr varð þunn spýta í topp. Hana sagaði ég fyrst út í rétta lögun, fræsti svo fyrir hljóðdósaholinu og gerði f-gatið fyrir hljómbotninn. Það gerði ég með því að bora holu fyrir kringlótta hlutann og saga svo útlínurnar með laufsög.Síðan límdi ég þetta saman.

Og þá hef ég í raun og veru lokið mér af með þennan æfingabúk. Ég kastaði hryllilega til höndunum þegar ég byrjaði og staðsetti hljóðdósirnar algerlega tilviljunarkennt – og þótt ég hafi verið að daðra við að klára þetta sem heilan gítar (byrjaði meira að segja að saga út háls að gamni) held ég að það verði aldrei. Sú aftari er of aftarlega, það er ekki pláss fyrir brúna, og sú fremri svo framarlega að hálsinn kemst ekki með góðu móti fyrir.

Annars er þetta vonlaust orð. Hljóðdós. Mikið vildi ég að hljóðnemi væri ekki frátekið fyrir annað.

En sem sagt. Þá er ekkert eftir nema að byrja á hinum raunverulega gítar. Mér barst í vikunni mahóníspýta sem ég pantaði úr efnissölunni. Hana skar ég í tvennt – fékk svo Smára til að hefla beinan kant á hana og límdi hana saman. Í dag opnar svo Fab Lab eftir fæðingarorlof starfsmanns og mér því óhætt að líta við.

Fleira kom með póstinum. Efni í klórplötu, bindingar, skífur undir hálsinn og járnplata og skrúfur líka til að halda honum föstum líka, Bigsby tremolo-ið ásamt „rolling“ brú og grover stilliskrúfur með læsingu. Ég mun þurfa að panta mér a.m.k. eina sendingu í viðbót – til að fá sérstaka fræsitönn fyrir bindinguna – og svo bíð ég eftir hálsinum, sem gæti tekið allt að 4-5 vikur til viðbótar. Hugsanlega panta ég mér líka skapalón fyrir hálsvasann með fræsitönninni.

Ég gerði lista yfir þau mistök sem ég veit að ég gerði.

  1. Ég gleymdi að gera miðlínur og vissi því aldrei hvar miðjan á gítarnum var og gætti ekkert að því og hugsaði lítið út í það.
  2. Slumpaði á hljóðdósastaðsetningu og klúðraði illa.
  3. Slumpaði á stærð, lögun og staðsetningu pottahols og það var ekki gott (gera frekar rás að innputholi og hafa pottahol jafn stórt í botni og toppi).
  4. Passa rofahol – að staðsetning rofa og gatið á bakinu flútti saman.
  5. Þarf að eignast fleiri þvingur áður en ég lími alvöru toppinn á.
  6. Gera skapalón fyrir lögun hljóðdósa.

Vonandi geri ég svo engin katastrófal mistök við smíði alvöru gítarsins.

Ég leysti vandamálið með toppinn – sem við Smári snikkuðum sjálfir úr furunni í æfingaspýtuna – og keypti mér fallegan munstraðan hlyn frá Króatíu. Ég þarf þá ekkert að gera við hann nema að hefla hann úr 7 mm í 6 mm og saga hann í rétta lögun (sennilega í Fab Lab).

Annað er ekki að frétta í bili. En svona lítur s.s. mahóníbúturinn út. Þetta er mjög falleg spýta.

 

Gítarblogg – færsla 3

Mér miðar hægt áfram en það var svo sem alltaf meiningin að drífa sig ekki. Ég er enn ekki kominn með spýturnar sem ég ætla að nota í hinn eiginlega gítar en hef verið að prófa mig áfram með eitt og annað í bílskúrnum.

Í fyrsta lagi límdi ég saman tvo bjálka til að prófa styrkleika trélímsins. Þegar límið var þornað barði ég spýtuna með sleggju þar til hún fór í sundur og viti menn – spýtan sjálf gaf sig á undan líminu.

Svo notaði ég sniðmátið sem ég prentaði út til þess að gera sniðmát úr spónaplötu.

  

Síðan fór ég í Húsasmiðjuna og náði mér í þriggja metra langan furuplanka. Ég sagaði af honum tvo búta sem mig minnir að hafi verið 45 cm langir og límdi þá saman.

Þegar það var þurrt notaði ég sniðmátið til þess að saga út botn á gítarinn sem fer undir topp – ef ég geri þá gítar líka úr þessu, sem er auðvitað bara tilraun og allt úr ódýru drasli og má mistakast – en ég er farinn að gæla við að gera kannski einn svona „lélegan“ alveg frá grunni, háls og pikköpp og allt, ef ekkert fer alveg gersamlega í klessu við þetta – sjáum til.

Búkinn sagaði ég með stingsög, af því ég á ekki bandsög. Ég gæti kannski fengið slíka lánaða einhvers staðar en finnst sennilegra að ég sagi einfaldlega út spýturnar í kroppinn í laserskera uppi í Fab Lab eða hverju sem maður notar til að skera út í Fab Lab – það er lokað vegna fæðingarorlofs en ég ætla að kíkja þangað í næstu viku og kynna mér málið. Vandamálið við stingsögina er að blaðið fer ekki lóðrétt í gegn heldur sveigist svo útlínurnar eru ekki alveg eins báðum megin. Þetta tókst merkilega vel en mig grunar líka að það sé auðveldara að eiga við furu en mahóní sapele.

    

Síðan pússaði ég þetta svolítið og fræsti ég fyrir hljómbotni öðrum megin, pottum (stillihnöppum), hljóðdósum (pikköppum), hljóðdósaskipti (3-way switch), jack-innstungu og snúruleiðum.

 

Svo mátaði ég hljóðdósirnar og pottana í þetta. Ég sá fyrir mér að snúran fyrir hljóðdósaskiptin – sem er í pokanum ofan í hljómbotninum – gæti gengið undir hljóðdósirnar. En nú var ég að skoða hvernig þetta er gert í Les Paul gíturum, þar sem takkinn er á sama stað og hérna, og þá er skábraut beint frá takkanum og niður í pottaholið. Sennilega vill maður ekki að snúran sé að rekast utan í neitt. Og nú man ég að mig vantar líka holu úr pottaholinu yfir að brúnni – hvar sem hún nú verður – til þess að festa jarðtenginguna.

Tvennu öðru klúðraði ég svolítið. Hálshljóðdósin er of framarlega. Það er full langt á milli hljóðdósanna og það er full lítið pláss til þess að festa boltaháls af staðlaðri stærð. Það skeikar mjög litlu og sennilega gæti ég alveg látið hann halda sér á og ég er búinn að auglýsa eftir einhverjum geymslugarmi sem ég gæti fengið að prófa. En ef ég geri hálsinn líka sjálfur í þetta leikeintak get ég sniðið hann að eigin þörfum. Þá er bara spurning hvort ég smíða líka styrktarteininn í hálsinn eða kaupi. Ég á engin tæki í málmsmíði og enga peninga til að kaupa mér tæki.

Hitt er að hljóðdósaholurnar eru of djúpar. Ég gleymdi að hugsa út í að ég á eftir að setja topp á þetta og þá bætast sirka 7 millimetrar ofan á. En það er minnsta málið að sníða spýtu til að líma í botninn svo ég hef ekki óþarflega miklar áhyggjur af því.

Næsta skref er að laga þetta aðeins til, pússa og svona. Gera svo toppinn og skoða málin með hálssmíðina.

Gítarblogg – færsla 2

Við komum heim frá Svíþjóð á laugardaginn. Eða – við komum til landsins á föstudag en gistum eina nótt á Dalakoti í Búðardal. Ég notaði gærdaginn til að taka til í bílskúrnum og gera örlitlar tilraunir. Annars vegar æfði ég mig aðeins á stingsögina og hins vegar límdi ég saman nokkra bjálka til að sjá hversu vel trélímið heldur. Það dugði á hausinn á Mola – slædgítarnum – og þau segja mér krakkarnir handan við google-algóritmana að venjulegt trélím eigi að duga til að festa saman spýturnar. En um þetta hafa einhverjir vina minna efasemdir.

Ég er búinn að ræða við Smára vin minn um að hjálpa mér að hefla spýturnar í rétta þykkt (hann á s.s. hefil) og hugsanlega fæ ég hann líka til að þverskera hlyntoppinn með mér með borðsöginni. Ég á ekkert nema stingsög og juðara – og er með fræsara í láni. Og þetta er fjári þunn spýta – 6,35 millimetrar.

Þá prentaði ég út þetta sniðmát fyrir sniðmátið. Ég klippi þetta sem sagt almennilega út – eða sker eftir útlínunum – og nota síðan til að saga spónaplötu í rétt sniðmát. Mér getur þá mistekist nokkrum sinnum án þess að það sé stórslys.

Sennilega byrja ég að vesenast með þetta á eftir. Hugsanlega fer þetta allt í hass og þá verð ég bara að byrja að hugsa þetta upp á nýtt. Ég er aðeins að velta því fyrir mér líka hvort mig langi að stækka boddíið aðeins.

Ég ætla líka að prófa að fræsa aðeins pikköppagöt í einhverja afgangsspýtu – og máta Seth Lover pikköpana sem komu með póstinum í dag, ásamt ýmsu öðru smálegu.

Gítarblogg: Færsla 1

Áramótaheitið mitt er að smíða rafmagnsgítar. Það verður ekki sérlega erfitt að halda það, ég iða í skinninu að byrja og mun sennilega njóta þess mjög, en það verður erfitt að gera það vel. Upphaf þessa má rekja til þess að ég sá auglýst námskeið hjá Gunnari Erni gítarsmiði í Iðnskólanum og var farinn að gæla við að skella mér á eitt slíkt – þegar ég áttaði mig á því að ég þyrfti nánast að flytja til Reykjavíkur um hálfan vetur til að það gengi upp. Í staðinn fór ég að kanna hvort ég gæti með nokkru móti lært þetta af bókum, greinum og youtube-myndböndum. Það virðist ekki alveg vonlaust.

Ég ætla að kaupa hálsinn – sem er sennilega erfiðasta stigið – en restin er alveg nógu erfið, sérstaklega þegar haft er í huga að ég hef ótrúlega lítið smíðað áður. Eiginlega bara slædgítarinn, sem ég gerði í haust og er frekar hrár og grófur – þótt hann reyndar sándi vel. .

Ég er búinn að planleggja ýmislegt og kaupa flesta íhlutina. Eitt af því sem ég brenndi mig á við slædgítarinn var að saga t.d. út fyrir pikköppinum eftir máli af netinu frekar en að bíða bara eftir að hann bærist mér með póstinum. Það borgar sig að hafa þetta allt við hendina.

Hálsinn pantaði ég af Warmoth. Bakið er úr Wenge-við sem er oft fallega munstraður en fingraborðið úr Pau Ferro. Upphaflega ætlaði ég að hafa rósavið en það eru alls konar takmarkanir á innflutningi og þótt Warmoth sé með vottun þá er það samt vesen. Fleiri og fleiri gítarsmiðir eru líka farnir að nota Pau Ferro – sem er samt ekki alveg nýr, hann var t.d. notaður í Stratocasterinn hans Stevie Ray Vaughan. Ef það dugði Stevie er það sennilega innan marka fyrir mínar þarfir. Skalalengdin verður Gibson – 24 3/4 þumlungar, fremur breiður (59 roundback með 10/16 þumlunga radíus). Stór bönd og graphtech-hneta.

Útlitið tekur mið af Italia Maranello ’61 – þetta þykir mér alveg fáránlega fallegur gítar. Minn gítar verður sennilega ekki jafn fallegur – en ég ætla samt að reyna að vanda mig og gera hann eins fallegan og mínum klaufalegu höndum er unnt.

Búkurinn verður úr tveimur spýtum og hálfkassi – eða eiginlega kvart-kassi, bara opið inn að ofan. Skrokkurinn sjálfur úr mahónívið en svo ofan á því þunnur hlyntoppur. Hálsinn er með rjómalitri líningu og það verður líka rjómalituð líning á búknum – ég vona bara að ég fái líningu í alveg sama lit.

Það verður 3-way switch – staðsettur svipað og á Les Paul, ekki einsog á Maranello ’61 – og einn hnappur fyrir tón og annar fyrir hljóðstyrk, báðir silfurlitaðir. Ég gældi við að hafa gulllitaðan búnað en verðið hækkar svolítið óþarflega mikið við það – og krómið er flott. Pottarnir (sem stýra hljóði og tón) eru CTS 500K og pikköpparnir eru Seth Lover humbökkerar frá Seymour Duncan. Læsanlegar Grover stilliskrúfur.

Og já, það verður Bigsby-sveif á honum og þá tune-o-matic brú, sem þýðir væntanlega að ég þurfi að sveigja hálsinn aðeins aftur. Eða réttara sagt gera vasann fyrir hálsinn aflíðandi (Maranello er reyndar með „set-neck“ sem gengur inn í búkinn – en ég er með minn boltaðan á). Sennilega fræsi ég samt vasann flatann og set síðan svokallað skífu á milli háls og búks til að ná réttum halla. Þá get ég líka verið með nokkrar ólíkar skífur og miðað við hvað ég þarf – ef ég fræsi vitlaust sit ég uppi með vondan halla.

Ég á eftir að leysa fáein hönnunaratriði. Til dæmis veit ég ekki hvernig ég hanna eða kaupi góða plötu framan á hann – scratchplate. Ég veit heldur ekki alveg hvað ég vil hafa hann þykkan. Ég ætla að byrja á því að gera prufu úr einhverjum draslvið og kannski ákveð ég það bara þegar hún er tilbúin.

Ég ætla svo að reyna að dokumentera ferlið hérna. Það skal tekið fram að ekkert af því sem ég geri er ekki endilega til eftirbreytni – þetta er ekki kennslublogg og ég geri ráð fyrir því að gera ótrúlega mörg skelfileg mistök og jafnvel þurfa að byrja oftar en einu sinni eða tvisvar alveg upp á nýtt. Ég ætla að gefa mér árið í þetta en vonandi næ ég að gera fúnksjónal – ómálað og frágengið – eintak áður en við förum til Hondúras í sumar, þar sem við verðum í alveg tvo mánuði og þá verður eðli málsins samkvæmt hlé á vinnunni. Ég hef auðvitað bara 1-2 tíma í þetta á góðum degi, og svo eitthvað aðeins meira á helgum. Já og svo er ég með nýja skáldsögu í hausnum – maður veit aldrei með svoleiðis, þær eiga það til að éta upp ansi mikið meira en bara 9-5 skrifstofutíma. En ég ætla líka að reyna að skrifa svolítið rólegar í ár.

Ábendingar og ráðleggingar (um gítarinn, ekki skáldsöguna) eru gríðarlega vel þegnar. Ég veð þetta voða mikið í myrkri, kann ekkert og veit ekkert.

Lommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja athygli á bókinni“. En það þýðir ekki að ég megi vanrækja lesandann minn.

Ég er í Malmö. Les upp á Inkonst í kvöld, úr Óratorrek/Oralorium, og svo er útgáfuhóf á morgun. Ég gisti hjá vinum mínum Alex og Josef og við Alex drukkum kannski aðeins meira viskí í gær en góðu hófi gegnir og ég hef verið dálítið einsog draugur á ráfi um borgina í dag. Hugmyndin var að ná að leysa síðustu jólagjafagáturnar en þær eru enn óleystar og ég þarf að fara að gíra mig upp í kvöldið.

Ég segi ekki að ég sé alveg skilinn við jólabókaflóðið, það eru nokkrir dagar eftir, en ég er allavega ekki að fara að lesa neitt meira upp. Ég er búinn að fá ágætis dóma í Fréttablaðinu, Víðsjá og Mogganum – á miðvikudag er síðasti séns til að fá umsögn í Kiljunni fyrir jól. Annað er sennilega ekki í boði – DV birtir að vísu einstaka dóm – og jú svo er eitt og annað sem gerist á samfélagsmiðlum. Skáld.is birtir bara dóma um bækur kvenna, Starafugl birtir sennilega ekki neina dóma um mínar bækur (en það er að vísu alveg úr mínum höndum – ég kem hvergi nálægt skáldsagnadómum), Stundin er ekki með neitt bókablað einsog hefur stundum verið, Kvennablaðið hefur engan dóm birt – jú, það gæti reyndar birst dómur á Bókmenntavefnum, þar hefur verið gott tempó síðustu vikurnar. Þar birtist líka langáhugaverðasti dómurinn um Illsku á sínum tíma og bara einn besti dómur sem sú bók hefur fengið – á löngu ferðalagi til margra landa. En almennt hallar undan fæti í gagnrýni og hefur gert lengi – það eru ekki nema örfáir sem sinna henni einsog fagi og með því hverfur hin krítíska vídd úr bókmenntunum og eftir situr metsölulista-idolið sem helsti mælikvarðinn á virði bóka.

Í dag er reyndar „recensionsdag“ fyrir Óratorrek í Svíþjóð en það er sennilega liðin tíð að maður fái fullt af dómum þann dag. Sérstaklega fyrir ljóðabók. En ég fékk einn mjög fínan dóm í tímariti Bókasafnsfræðinga í síðustu viku og áttaði mig þá á að sennilega fékk ég bara aldrei neinn eiginlegan dóm um Óratorrek á Íslandi. Hún var valin meðal bóka ársins á Rás 2 og fékk svo Menningarverðlaun DV – svo það eru til stuttar umsagnir/lýsingar í tengslum við það, en ég held ég muni það rétt að hún hafi bara ekki verið ritdæmd. Það er rosa skrítið – og stór breyting frá því ég gaf út Heimsendapestir, alls óþekktur 24 ára lúði frá Ísafirði, og fékk 5-6 umsagnir í öllum helstu blöðum og í útvarpi.

Það var líka skrítið að bíða eftir að fá einhvern dóm fyrir Hans Blævi. Ég held það hafi tekið sjö vikur – svo duttu þeir inn þrír í röð. Það var hreinlega mjög óþægilegt, fannst mér. Ég lýsti því einhvern veginn þannig við Nödju að fyrst hefði mér liðið einsog vonbiðli sem fær ekki svar – óskabrúðurin hefði brugðið sér á klósettið og ég stæði fyrir utan vikum saman og  væri farið að gruna að hún hefði bara flúið út um gluggann. Undir restina var þetta svo farið að vera meira einsog að vakna eftir epískt blakkát, fjölskyldan öll fjarverandi, og undarleg þögn alls staðar – enginn svarar í síma – og maður bíður þess bara að fá fregnir af því hvað maður hafi gert af sér kvöldið áður.

Dómarnir eiga það allir sameiginlegt annars að vera bærilega jákvæðir en bera þess merki að gagnrýnendur hafa þurft að slást svolítið við bókina og þær spurningar sem hún vekur. Ég get ekki kvartað undan því – ég held það sé bara alveg sanngjarnt mat og sennilega þarf hún, einsog Gauti Kristmanns bendir á í Víðsjárdómnum, svolítinn tíma til að setjast – meira rými en gefst í einu svona sölukapphlaupi einsog jólabókaflóðinu.

Þegar við Öddi tókum upp hljóðbókina sagði ég við hann að ég væri nógu ánægður með verkið til þess að það skipti mig eiginlega engu hverjar viðtökurnar væru. Það er auðvitað ekki alveg satt – mér fannst erfitt að fá litlar sem engar viðtökur þarna fyrst og þykir mjög vænt um að hún sé farin af stað. Og einhver hluti af mér tekur alltaf mark á því hver almennur dómur sé og jafnvel skilningssljóustu gagnrýni – bókmenntir eru samskiptaform og það skiptir ekki bara máli hvað maður segir, það þarf líka að komast til skila og skiljast. En ég er líka aftur lentur á þessum sama stað og þegar bókin var að koma út – að vera bara rosa ánægður með sjálfan mig og verkið og sannfærður um að það muni njóta sannmælis þegar það er skoðað almennilega.

En þetta er þá síðasta færslan sem er merkt Hans Blævi, held ég – a.m.k. í bili. Ég var eitthvað að hóta því að breyta þessu í gítarblogg á nýju ári – jafnvel bara milli jóla og nýárs ef ég verð eitthvað eirðarlaus.

Við eyðum jólunum í smábænum Rejmyre hjá systur Nödju og verðum svo í Helsinki um áramót. Minnir að flugið heim sé svo 4. janúar og við komumst vonandi fljótt vestur.

Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt persónulega með einni einustu nýrri bók við mig og ég heyri engan hallmæla neinum bókum og heyri bara almennt enga velta því fyrir sér hvort það sé eitthvað sem maður verði að lesa og hvort það sé eitthvað sem maður ætti að forðast og ég heyri engan spyrja annan hvað hann eða hún eða hán hafi lesið eða fyrir hverju hann eða hún eða hán sé spennt. Og ég fór að velta því fyrir mér hvort það væri vegna þess að það birtast svo fáir dómar og hvernig maður eiginlega viðhaldi spenningi. Ég held það sé ekkert að bókunum sem eru að koma út – sannarlega margir fyrirtaks höfundar.

Ég var að lesa How Music Works eftir David Byrne – hún er mjög góð, sérstaklega fyrri helmingurinn – og hann eyðir góðum skerfi í að velta fyrir sér þessu hvernig maður byggi tónlistarsenu, hvers sé þörf. Aðalatriðið er að eiga sér einhvers konar senu – steinsteypu – félagsmiðstöð. Stað þar sem hægt sé að hanga, hvert maður getur farið og búist við að hitta kunningja sína og sjá eitthvað áhugavert. Fyrir hann og hans kynslóð var þetta CBGB. Það var ekki nóg með að þar væri auðsótt að fá að spila heldur gat maður skrapað saman smápeningum fyrir spilamennskuna – hljómsveitin fékk aðgangseyrinn, sem var að sönnu ekki hár, og hljómsveitir sem höfðust við á CBGB fengu frítt inn hver hjá annarri (það var húsregla) sem þýddi að það var alltaf talsvert af fólki. Og staðurinn reyndar mjög lítill líka. Efnahagslegar forsendur voru síðan þannig að allt þurfti að vera ódýrt – hljómsveitir bjuggu saman á Bowery, þar sem leigan var lág og lifðu á litlu, og fóru ekki endilega mikið út fyrir hverfið (og þá helst út úr borginni til að spila annars staðar).

Tónlistarmennirnir á CBGB voru svo, að sögn Byrne, afar ólíkir innbyrðis en áttu það þó sameiginlegt að skilgreina sig sem „eitthvað annað“ en það sem þótti gjaldgengt og fínt víðast hvar. Þeir voru óvinsælir, prinsippfastir, sérsinna og erfiðir og fyrst og fremst voru þeir EKKI það sem var í útvarpinu.

Ég veit ekki hvernig maður yfirfærir þetta á bókmenntirnar nema til að nefna að eigi þær – eða bókmenningin, réttara sagt – að blómstra þarf að vera samfélag og helst fleira en eitt samfélag og eitthvað af aukasamfélögunum þarf að skilgreina sig í andstöðu. Sú litla andstaða eða núningur sem verið hefur í íslenskum bókmenntum síðustu misserin snýst um einhvern tittlingaskít milli ungskálda – strætóskálda og spíttskálda. Miðjan er alltaf eins – það eru enn sömu höfundar í brennidepli og þegar ég var ungskáld (með kannski stöku undantekningu(m)).

En verst er samt alltaf rýnin. Þegar Starafugl var settur á fót fyrir tæpum fimm árum síðan var tekin sú ákvörðun að leggja enga sérstaka áherslu á nýjar íslenskar skáldsögur – vegna þess að vistkerfi þeirra þótti bærilega hresst. Við lögðum og leggjum áherslu á þýddar skáldsögur, gamlar skáldsögur o.s.frv. (þótt að vísu sér erfiðara að koma þeim út). En svo er einsog þetta hafi snarversnað. Nú birtist bara frekar lítið af rýni í dagblöðunum; Víðsjá rýnir bara í eina og eina bók, Bók vikunnar er venjulega gömul bók – það er helst að bókmenntavefur Borgarbókasafnsins sinni þessu af einhverju viti. Fyrir utan auðvitað Kiljuna með sínum augljósu tímatakmörkunum og spjallformatti.

Þetta smitar síðan út frá sér. Ég ætla ekki að halda því fram að það sé engin stemning á svæðinu í kringum Laugaveg 18 – það hlýtur eiginlega að vera, endalaus útgáfuhóf og hittingar – en við sem ekki þrömmum þar á milli finnum lítið fyrir því.

Það er sosum ágætt að gera ráð fyrir líka að maður sé bara í einhverri bólu og verði ekki jafn var við heiminn og maður ætti að verða. Eða þetta sé bara allt orðið svo kunnuglegt að maður taki ekki eftir neinu. Maður sé lífsleiður af miðöldrun.

***

En ég ætlaði reyndar ekki að fara að röfla þetta. Sennilega ræður maður ekkert við sig. Óþolið og óþolinmæðin að drepa mann. Það er nærri því mánuður frá því Hans Blær kom út og ég hef ekki heyrt píp. Viðbrögðin eru nær bókstaflega engin. Það sem ég ætlaði að gera var að nefna hvað ég hef lesið og fyrir hverju ég er spenntur og reyna að peppa mig svolítið upp. Ég er búinn að lesa ljóðabók Hauks Ingvarssonar, Vistarverur, og skáldsögu Þórdísar Gísladóttur, Horfið ekki í ljósið. Þær eru báðar mjög góðar og meðmælast hart. Ég er spenntur fyrir Fríðu Ísberg, Friðgeiri Einarssyni og Jónasi Reyni og báðum dætrum Einars Kárasonar, Júlíu Margréti og Kamillu, og raunar Einari líka sem ég sleppti þegar hún kom út í vor. Eða missti af. Eða hvað maður segir um bækur sem maður les ekki. Já og Offa og Auði og Þórdísi Helga og Halldóru og Rúnari Helga, sem er að skrifa um Ísafjörð.

Einu sinni gerði ég mér alltaf far um að lesa slatta – alla helstu póstana og meira – í jólabókaflóðinu til að vera viðræðuhæfur. Svo man ég eftir að finnast það bara íþyngjandi, eitthvert árið, að þurfa að lesa þetta allt og þar með taldar alls konar bækur sem mér fannst í raun ekkert skemmtilegar, bara af því allir aðrir voru að lesa þær og vilji maður vera með þarf maður að lesa það sem hinir eru að lesa (og hinir eru svo kannski bara að lesa bækurnar vegna þess að maður er sjálfur að lesa þær). Í nokkur ár hef ég meira og minna alveg skrópað í jólabókaflóðinu – meira að segja bækur vina minna hef ég ekki lesið fyrren kannski „ári of seint“ (þetta jólabókaflóðsskróp mitt var kannski líka hljóðlát mótmæli við þeim lífsins gangi að bækur séu marklausar og horfnar frá og með nýársdegi).

En nú ætla ég sem sagt að taka mig taki og fara að lesa jólabókaflóðið – en reyna að takmarka mig við þær bækur sem ég hef raunverulegan áhuga á, þótt það kannski þýði ekki að ég verði viðræðuhæfur. Ég verð þá bara að vera óviðræðuhæfur. En ég verð allavega rosa vel stemmdur og í góðum fíling.