Allar góðar bloggfærslur ættu að hefjast á afsökunarbeiðni, það sé orðið svo langt frá því síðast var bloggað. Ég er tæknilega bara degi of seinn og sá dagur – hinn hefðbundni mánudagur – var annar í hvítasunnu og ég var lúinn eftir langa helgi með ritlistarnemum úr HÍ, hverjum ég kenndi og hékk með og las meira að segja upp með. Þessi þriðjudagur er því eiginlega mánudagur og þið getið bara tekið þessa afsökunarbeiðni ykkar og troðið henni.

***

Í hinni annars ágætu Transgender History eftir Susan Stryker skrifar hún stuttan pistil um „celebrity trans culture“ og nefnir meðal annars nokkra sjónvarpsþætti. Flesta hafði ég séð, en ekki Sense8 eftir Wachovski systur sem hún kallar „one of the most narratively complex, visually arresting and aesthetically challenging works in contemporary mainstream media.“

Og verandi áhugamaður um allt sem er narratively complex, visually arresting og aesthetically challenging ákvað ég að kíkja nú á þetta.

Þættirnir fjalla um átta einstaklinga sem allir eru fæddir á sama augnablikinu. Á fullorðinsaldri verða vitundir þeirra allar samtengdar – þannig að þau geta bæði heimsótt hvert annað í huganum og tekið yfir líkami hvers annars. Þau deila líka (að einhverju leyti a.m.k.) vitneskju og kunnáttu hvers annars. Ein sögupersónan er Íslendingur og eitthvað af þáttunum eru teknir upp á Íslandi.

Íslendingurinn heitir Riley Blue (fædd Gönnursdottor) og er hlédrægur DJ og flippað náttúrubarn með Bjarkaráru. Allir sem hún þekkir á Íslandi eru í lopapeysu. Einu sinni kemur kærastinn hennar að sækja hana í skólann á hesti. Inn í skólann. Hún er geðveikt sæt.

Í Nairobi hittum við rútubílstjóra sem er kallaður Van Damn (helvítis rútan). Hann er 21. aldar teik á the noble savage – fullkomlega hjartahreinn blökkumaður í iðrum hins spillta stórborgarfrumskógar. Hann er geðveikt sætur.

Lito Rodriguez er mexíkóskur hjartaknúsari og kvikmyndaleikari sem er í skápnum, gangandi ástríða – alltaf ýmist að springa úr hamingju eða farast úr harmi, blóðheitur einsog hann á kyn til. Geðveikt sætur.

Berlínarbúinn Wolfgang er grjótharður glæpamaður sem eyðir lífinu á knæpum og á reifum. Sljór af lífsins mikla áreiti, sínískur, hafandi of oft þurft að gera fleira en gott þykir í lífinu. Hann sést merkilegt nokk aldrei með kebab eða currywurst og hann er guði sé lof ekki grafískur hönnuður. Wolfgang er ógeðslega sætur.

Will Gorski er heiðarlega löggan – örlagamaður í eilífri leit að réttvísinni, allt sem er fagurt og saklaust við the american way of life. Geðveikt sætur.

Kala Dandekar er indversk og þar af leiðandi auðvitað vísindamaður, en þótt hún sé vísindamaður er hún líka indversk, og þar af leiðandi er hún eiginlega fyrst og fremst eiginkona, eða verðandi eiginkona, sem virðist ekki hafa mikið yfir örlögum sínum að segja almennt. Af því að hún er sko indversk. Kala er geðveikt sæt.

Sun er kóresk og í  S-Kóreu er mikið af stórfyrirtækjum og fólki sem kann kung fu og hugsar mikið um heiður. Sun er réttmætur erfingi stórfyrirtækis og mjög góð í kung fu. Bróðir hennar hefur engan heiður og hefur haft af henni stórfyrirtækið og gert hana að útlaga. Sun er fáránlega sæt.

Nomi er frá San Francisco og þess vegna er hún lesbía. En hún er líka frá San Francisco og fólk í San Francisco kann fleira en að vera samkynhneigt og þess vegna er hún líka hakkari. Allir sem hún þekkir í San Francisco eru líka samkynhneigðir og/eða hakkarar. Hún er líka trans kona, þú veist, af því að San Francisco. Ógeðslega sæt, var ég búinn að nefna það?

Í sem stystu máli sagt eru þessir fjölbreyttu einstaklingar allir mjög yfirgengilegar þjóðernissteríótýpur. Þetta er í sjálfu sér ekki óalgengt í genre-verkum en verður óþægilegt í verki sem á beinlínis að tækla steríótýpur og brjóta niður veggi ímyndunarafls og ídentítets – en endar á að undirstrika þær miklu fremur. Ég veit ekki hvort það hefði bjargað persónusköpuninni ef Nomi hefði verið í lopapeysu og Kala verið trans og Sun verið hjartaknúsari og Lito rútubílstjóri – en það hefði sennilega verið skref í rétta átt.

Í veröld sem á að fagna fjölbreytileikanum og brjóta niður múra er betra að forðast klisjur – og líklega hefði verið ágætt ef eitthvert þeirra hefði bara verið svolítið meira óaðlaðandi. Ekkert ljótt – þau gætu öll verið miklu ljótari en þau eru og samt miklu sætari en við hérna á jörðinni, homo sapiens – en kannski bara ekki alveg einsog þau hafi ekki borðað kolvetni frá því fyrir aldamót og sofið hverja nóttu á kafi í ilmum og kremum.

Þá er hugmyndin um svona gengi – þar sem allir hafa sinn hæfileika (Wolfgang er lásasmiður, Kala vísindamaður, Sun getur slegist, Nomi hakkari o.s.frv.) ekki frumlegri hérna en í Oceans 11.

Það er líka merkilega mikill súpremasismi í seríunni – beinlínis tegundahyggja. Ekki er nóg með að sense8 hópurinn sé bókstaflega presenteraður sem ný tegund mannkyns – homo sensorium – heldur er grundvallarforsenda seríunnar sú að homo sensorium sé æðri en homo sapiens, af því að þau eru svo samtengd og full meðlíðunar, samhygðar og hjartahlýju, og homo sapiens eru morðóð og hrædd og fordómafull (þetta er grundvallarforsendan í öllum alvöru rasisma).

Sem aftur breytir engu um að homo sensorium eru líka grimmilegar morðvélar þegar þau þurfa að vera það – alveg einsog homo sapiens – áttmenningarnir leysa engin vandamál með knúsum eða rökræðum heldur skjóta þau, sparka í þau, kúga þau og sprengja þau í tætlur. En þau mega eiga það að þau tala mikið um yfirburði sína, innsæi sitt og meðlíðan, og hversu vondir allir aðrir séu.  Verandi svona vitur og samtengd, hálfgerðar glóbal vitundir, þá eru þau samt merkilega sanslaus og skortir perspektíf á sig sjálf, gjörðir sínar eða orð. Svolítið kannski einsog þúsaldarkynslóðin sem þau eiga að representera.

Illa skrifuð samtöl, hallærislegar tökur og þvælingslegt plott gerir svo lítið til að bæta úr. Ég horfði á alla þættina og það var erfitt allan tímann. Að vísu var þáttur hér og þar sem var áhugaverður, stöku klisja var áhugaverð – en grundvallarplottið var óáhugavert og alltof miklum tíma eytt í einhverjar illa undirbyggðar rómansfléttur.

En því er eins farið með Sense8 og með Atlas Shrugged að fullt af vel gefnu fólki er hrifið af þessu. Það er einsog ef pólitíkin – í þessu tilfelli þessar yfirborðskenndu hugmyndir um samhygð og kærleika, á leveli sem fær Hárið til að hljóma einsog American Psycho, í hristingi með þjóðernis- og ídentítetsklisjum – samsvari skoðunum manns nógu vel þá missi maður hreinlega af því að listrænt er þetta álíka merkilegt og hver önnur síðdegissápa.

Ég hef lengi verið upptekinn af því hvað valdi því að samúð manns með tilteknu verki verður svo yfirdrifin að manni finnst það átomatískt gott. Þegar lesturinn verður svo sympatískur að maður finnur hvergi að gæðunum. Og hvar maður sé blindur á þetta sjálfur. 1984 fannst mér alltaf góð en ég kaupi líka alveg rök Kundera fyrir því að hún sé léleg (en það er líka mjög ómóðins að taka mark á Kundera). Ég skildi aldrei hvernig fólki gat fundist Hreinsun eftir Oksanen góð bók – og raunar var margt í pólitíkinni þar líka alveg kengsturlað. Fyrst og fremst var bókin samt þunnt melódrama. Slamljóðlistin er síðan príma dæmi – það er til óhemja af vondum, hæpuðum ljóðskáldum sem gera varla annað en að telja upp skoðanirnar sínar og skipta þeim upp í línur.

En ég held það sé líka staðreynd að verk sem ögra manni ekki heldur kitla – og kannski kitla ögrunarlega, eða staðsetja sig þannig að maður telur að þau hljóti að ögra öðrum (þeim sem eru ekki woke, ekki sense8 einsog við, heldur sapiens-plebbar) – njóta talsverðrar sjálfvirkrar velvildar. Knee-jerk. Og sennilega er maður blindur á þennan stað í eigin fari – maður bara nýtur kikksins þegar maður fær það. (En þýðir það þá að ég sé pólitískt mótfallinn samhygð og kærleika og ef það er satt er það ekki svolítið fucked up?)

En svo er líka hitt – að maður gerir mismunandi væntingar. Ef ég hefði haft núll væntingar til Sense8 hefði ég kannski bara horft á þetta, verið meðvitaður um að þetta væri drasl, en ekki látið það trufla mig. Einsog ég hef horft á svo ótalmargar draslseríur. En þetta truflaði mig.

Sense8 átti að verða fimm seríur en var stoppað eftir tvær. Wachovskisystur fengu hins vegar að gera einn tveggjatíma lokaþátt sem verður sýndur núna í byrjun júní. Ég get ekki beðið.

Ég veit ekki hvort þessi póstur fjallar um Hans Blævi – í einhverjum skilningi auðvitað en öðrum alls ekki – og það er ekki mánudagur og þetta snertir mjög harkalega við annarri þráhyggju minni, og jafnvel tveimur. Annars vegar að verja vondan málstað og hins vegar Guns N’ Roses. Axl Rose er auðvitað, einsog fram hefur komið, ein af fyrirmyndum Hans Blævar.

Á RÚV í dag er fjallað um nýja útgáfu hljómsveitarinnar á eldra efni – þar á meðal endurhljóðblandaða útgáfu af Appetite for Destruction – og ákvörðun hljómsveitarinnar að sleppa hinu umdeilda (og raunar afar slaka) lagi One in a Million. Þar eru nokkrar rangfærslur.

Lagið „One In a Million“ hefur verið fjarlægt af endurútgáfu plötu hljómsveitarinnar Guns N’ Roses, Appetite for Destruction.

One in a Million kom ekki út á Appetite heldur á Lies – samhliða endurútgáfu Appetite er verið að gefa út alls kyns b-upptökur og endurhljóðblandanir, þar með talið af öllum lögunum af Lies nema One in a Million. En það er ekki verið að endurútgefa Lies sem slíka. Guns hafa stigið mörg feilspor í gegnum tíðina en ekkert þeirra var stigið á Appetite – sem er einfaldlega rock solid og gallalaus í gegn. Punktur.

Lagið fjallar á niðrandi og hatursfullan hátt um samkynhneigða, þeldökka og innflytjendur.

Rétt. Það er hægt að bera í bætifláka fyrir þetta fáránlega rant hans Axls og hann hefur svo sannarlega reynt í gegnum tíðina – helstu hetjur hans (Elton og Freddie) eru t.d. samkynhneigðar. Mestmegnis hefur hann samt bara bullað í hringi um þetta, einsog hann gerir í sjálfu laginu.

Ég held það sé samt alveg ástæða til að trúa honum að hann hafi ekki „meint“ þetta þannig – að hann hafi ekki ætlað að móðga allt svart eða samkynhneigt fólk. Hann ætlaði bara, í einhverjum skilningi – og sennilega er það ekkert „bara“ með það, en það er gamalt pönk sensíbílítet – að hrækja út í áhorfendaskarann og sjá hvort lýðurinn myndi ekki bara elska sig heitar fyrir vikið. Í öllu falli má alveg lengja listann – Axl telur t.d. líka upp róttæklinga, rasista og lögreglumenn og lagið er ekki minna niðrandi í þeirra garð.

Mín kenning, sem er kannski ekki merkileg, er að þetta lag þjóni svipuðum tilgangi og ólætin í Kanye upp á síðkastið (og jafnvel alltaf) og tjái fyrst og fremst djúpstæða þrá eftir því að segja og gera það sem ekki má (s.s. pissa bakvið hurð, segja Trump frábæran, grípa fram í fyrir verðlaunahafa til að segja annan hafa átt verðlaunin skilið, segja ráddi og nota skrúfjárn fyrir sleikjó o.s.frv.) þegar manni líður einsog maður megi stöðu sinnar, stéttar og sjálfsmyndar vegna, bara vera á einhvern einn tiltekinn hátt, annars verði maður skammaður – eða sjeimaður.

Það breytir svo engu um hvað lagið getur þýtt fyrir öðrum – t.d. hörundsdökkum aðdáendum sveitarinnar eða rasískum þungarokkurum (Skrewdriver hefur koverað það). Og ákvörðunin um að hætta að spila það og sleppa því á endurútgáfunni er hárrétt – og því hefði best verið sleppt af Lies líka.

Lagið var fordæmt þegar þegar það kom út, en Slash gítarleikari sveitarinnar sagðist ekki sjá eftir því að hafa samið það. „Eina eftirsjáin er það sem við höfum gengið í gegnum vegna þess og hvernig fólk hefur túlkað okkar eigin tilfinningar,“ bætti hann við.

Slash samdi alls ekki lagið og allir hljómsveitarmeðlimirnir reyndu að fá Axl til að hætta við það – Slash (sem er jafn svartur og Obama) neitaði að fordæma Axl fyrir það (enda rosalega meðvirkur með geðveikinni í Axl). Mamma hans Slash var hins vegar mjög reið!

Að síðustu er áhugavert að velta því fyrir sér hversu mikla athygli lagið fær nú þegar þeir ákveða að sleppa því – að endurhljóðblanda það ekki eða leita uppi nýjar útgáfur (þeir hafa ekki spilað það live frá því snemma á tíunda áratug síðustu aldar). Nú er textinn – sem Axl vill augljóslega ekki lengur standa fyrir – skyndilega endurbirtur í öllum helstu fjölmiðlum heims og sóðalegustu bútarnir meira að segja þýddir af fréttamanni RÚV. Við erum alveg áreiðanlega litlu bætt með þessari stöðugu básunun alls þess heimskulegasta sem sagt hefur verið í gegnum tíðina. En það fær víst klikkz.

Hveitibrauðsdagar heita „smekmånad“ á sænsku. Gælumánuður. Apríl var þannig mánuður – ég lét bókina að mestu liggja, tók glósur og las og bloggaði. Svo kom maí og þá fór ég aftur í handritið með glósurnar undir hendinni, auk lesturs frá ritstjóra, og við tók kunnuglegur tilfinningastrúktúr þar sem ég ýmist blæs út einsog reigður páfugl á kókaíni eða skrepp saman og þurrkast upp einsog ofelduð akurhæna.

Nú er byrjuð önnur vinnuvika maímánaðar og hugsanlega er ég eitthvað rórri í sálinni. Ég ímynda mér það að minnsta kosti í bili. Í síðustu viku náði ég að fara í gegnum lestur Sigþrúðar (ritstjórans) og lagfæra litlu atriðin – nittpikkið – en lét stærri atriðin vera í bili. Ég færði glósurnar allar á spjöld og skipti spjöldunum í tvennt.

Í öðrum bunkanum eru atriði sem ég vil laga og skrifa áður en ég fer aftur í gegnum handritið – vegna þess að þegar ég er kominn í handritið er ég eftirlátsamari við sjálfan mig, leyfi mér að ímynda mér að það þurfi ekki að framkvæma hugmyndirnar, þetta sé allt saman bara einsog best verður á kosið. Ég er ólíklegri til að leyfa mér það ef ég er með kaflana endurskrifaða í höndunum.

Í hinum bunkanum eru atriði sem ég ætla að setja inn með handritið í höndunum – mestmegnis smávægileg atriði en þó mikilvæg. Smámikilvægileg.

Næst ætla ég að teikna upp strúktúrinn og hengja aftur á vegginn – hann hefur breyst mikið frá því ég gerði það síðast. Sennilega þarf ég líka að leita að fleiri glósum í bókunum mínum – ég skrifa svolítið í spássíur og undirstrika þegar ég er að lesa.

Svo ætla ég að lesa skáldsöguna vel og vandlega. Þetta ætti allt að hafast fyrir 1. júlí – ég verð í residensíu í Austurríki bróðurpartinn af júnímánuði, Starafugl verður í sumarfríi, og ég get einbeitt mér Hans Blævi einvörðungu – og þá verð ég fertugur.

En vegna þess að gælumánuðurinn er búinn blogga ég aftur bara á mánudögum.

Í gær var Bill Cosby sakfelldur fyrir nauðgun. Ég veit ekki hvað hann var sakfelldur fyrir margar en hann var a.m.k. sakaður um fleiri tugi – ferill hans virðist með því allra viðbjóðslegasta í heimi hinna ríku, frægu og sturluðu, svona ef frá er talinn Jimmy Savile.

Af þessu tilefni rifjaði ég áðan upp Bill-Cosby mónólóg Eddies Murphys úr RAW, þar sem hann segir frá því þegar Cosby hringir í sig til að kvarta undan sóðakjaftinum á sér, og er mikið niðri fyrir.

Það er eitthvað sem manni finnst ganga upp við að mestu móralistarnir séu oft á tíðum líka mestu skepnurnar – eðli mannsins er hræsnisfullt og hann er gjarn á fela bresti sína frekar en flíka þeim, og góðmennskuyfirvarpið og kurteisin eru góðar fjarvistarsannanir fyrir þá sem vilja stunda myrkraverk. Þess utan er maðurinn líka gjarn á að reiðast öðrum fyrir það sem hann skammast sín mest fyrir í eigin fari (og ég geri alveg grjóthart ráð fyrir að verstu skrímslin meðal okkar viti af ógeðinu í eigin fari og það meiði þá).

Ég veit ekki hvort Eddie Murphy er góðmenni – eini alvöru skandallinn í lífi hans kom upp þegar hann var gripinn með trans vændiskonu fyrir um 20 árum. Í kjölfarið gaf Candace Watkins, trans vændiskona, mentor trans vændiskvenna og rithöfundur, út rafbók – In the Closet with Eddie Murphy – þar sem teknar voru saman sögur af viðskiptum Eddies og trans vændiskvenna. Bókin var aldrei prentuð en dreift í gegnum heimasíðu – nú virðist hún horfin af netinu, ég finn a.m.k. hvorki af henni tangur né tetur. Eddie sagðist bara hafa verið að skutla konunni, sem dó ári síðar – af slysförum eftir að hún læsti sig úti sagði lögregla en einhverjir gerðu því víst líka skóna að henni hefði verið hrint út um gluggann (sem lögreglan sagði að hún hefði verið að reyna að komast inn um).

Jimmy Savile var þekktur mannvinur og einsog Cosby þekktur fyrir einn fjölskylduvænan sjónvarpsþátt – forsenda Jim’ll fix it var að börn skrifuðu Jimmy óskir sínar og hann lét þær rætast.

Í gúglinu hérna áðan rakst ég líka á viðtal sem Ricky Gervais tók við Savile, sem hann kynnir með orðunum: „My next guest is basically the A-team rolled into one. He has the cigar of Hannibal. He’s a ladiesman like Face. He’s got the jewelry of Mr. T and he’s mad like Murdoch. And not in a good way.“

Svo fara þeir að ræða góðgerðarstarf Jimmys, sem er afar hógvær (fyrir þá sem af einhverjum ósennilegum ástæðum þekkja ekki söguna af Jimmy, sem var sennilega eins nálægt því að vera djöfull í mannsmynd og nokkur kemst, er hægt að lesa um glæpina hér).

Ég bloggaði aðeins um kvikmyndina Myra Breckinridge, eftir skáldsögu Gore Vidal, í febrúar síðastliðnum. Þá pantaði ég mér líka skáldsöguna – hún týndist síðan í pósti, ég fékk hana endurgreidda og pantaði mér nýja (eða aðra notaða, réttara sagt, bókin fæst ekki lengur nýprentuð) sem svo kom fyrir einhverjum vikum og ég las. Ég man ekki hvort ég var byrjaður þegar ég rak augun í þennan texta fremst í bókinni.

Bókin sem kom var s.s. ritskoðuð bresk útgáfa með háðsglósu frá höfundi. Ég las hana nú samt og hafði gaman af – Vidal er einstakur höfundur sem ég hef alls ekki lesið nóg af. En mér fannst samt eitthvað skorta, fann tilfinnanlega fyrir því að ákveðin orka sem var í myndinni (sem er tótal flopp, en mér fannst frábær) væri ekki til staðar. Ég tengdi það merkilegt nokk ekkert við ritskoðunina/ritstýringuna – það blasir samt við þegar það loks hvarflar að manni.

Í gær var ég svo heima með Aino, sem var lasin, og þá barst mér óvæntur pakki – bókin sem ég pantaði í febrúar var komin í leitirnar. Það er amerísk „first edition“ útgáfa og ég fletti auðvitað beint upp á hinni frægu nauðgunarsenu, sem var litlaus í bresku útgáfunni en brjálæðisleg í kvikmyndinni – Raquel Welch á stórleik. Það var augljóslega allt annar texti. Ég bar þá svo saman núna í morgun í vinnunni.

Lýsing sem hefst og lýkur á orðunum „I was now afforded my favorite view of the male“ (Myra er búin að tjóðra Rusty fastan við bekk) í bresku útgáfunni heldur svona áfram í þeirri bandarísku: „the heavy rosy scrotum dangling from the groin above which the tiny sphincter shyly twinkled in the light. Carefully I applied lubricant to the mystery that Mary-Ann has never seen, much less violated.“ Á næstu síðu er svo búið að klippa út nærri því heila blaðsíðu – þar sem Myra segir „Now you will find out what it is the girl feels when you play the man with her.“ Og bandaríska útgáfan heldur svo áfram (feitletruðu bútarnir eru líka í bresku):

„Jesus, you’ll split me.“ The voice was treble with fear. As approached him, dildo in front of me like the god Priapus personified, he tried to wrench free of his bonds, but failed. The he did the next best thing, and brought his knees together in an attempt to deny me entrance. But it was no use. I spread him wide and put my battering ram to the gate.

For a moment I wondered if he might not be right about the splitting: the opening was the size of a dime while the dildo was over two inches wide at the head and nearly a foot long. But then I recalled how Myron used to have no trouble in accommodating objects this size or larger, and what the fragile Myron could do so could the inexperienced but sturdy Rusty.

I pushed. The pink lips opened. The tip of the head entered and stopped.

„I can’t,“ Rusty moaned. „Honestly I can’t. It’s too big.“

„Just relax, and you’ll stretch. Don’t worry.

He made whatever effort was necessary and the pursed lips became a grin allowing the head to enter, but not without a gasp of pain and shock.

Once inside, I savored my triumph. I had avenged Myron. A lifetime of being penetrated had brought him only misery. Now, in the person of Rusty, I was able, as Woman Triumphant, to destroy the adored destroyer. 

Holding tight to Rusty’s slippery hips, I plunged deeper. He cried out with pain.

But I was inexorable. I pushed even farther into him, triggering the prostate gland, for when I felt between his legs, I discovered that the erection he had not been able to present me with had now, inadvertently, occurred. The size was most respectable, and hard as metal.

But when I plunged deeper, the penis went soft with pain, and he cried out again, begged me to stop, but now I was like a woman possessed, riding, riding, riding my sweating stallion into forbidden country, shouting with joy as I experienced my own sort of orgasm, oblivious to his staccato shrieks as I delved and spanned that innocent flesh. Oh, it was a holy moment! I was one with the Bacchae, with all the priestesses of the dark bloody cults, with the great goddess herself for whom Attis unmanned himself. I was the eternal feminine made flesh, the source of life and its destroyer, dealing with man as incidental toy, whose blood as well as semen is needed to make me whole!

There was blood at the end. And once my passion had spent itself, I was saddened and repelled. I had not meant actually to tear the tender flesh but apparently I had, and the withdrawing of my weapon brought with it bright blood. He did not stir as I washed him clean (like a loving mother), applying medicine to the small cut, inserting gauze (how often had I done this for Myron).

Það er ekki mikið sem lifir af æðiskast yfirstrikunarpennans. Vidal er ekkert að grínast með móral breta. Merkilegt nokk enda sumir kafla bókarinnar í lausu lofti – á hálfum setningum – og ég hélt að kannski væri það vegna þess að búið væri að skera eitthvað út. En svo eru þeir kaflar líka þannig í orginalnum – skáldsagan er eins konar dagbók Myru og hún klárar ekki allar færslurnar sínar.

Nú er ég búinn að panta mér framhaldið – Myron – vonandi kemur hún áður en ég hverf til Skandinavíu og Austurríkis sumarlangt.

Í gær horfði ég á Rocky Horror Picture Show kvikmyndina frá 2016, með Laverne Cox í aðalhlutverki. Það eru sennilega ekki nema 2-3 vikur frá því ég horfði aftur á orginal kvikmyndina með Tim Curry. Mér fannst hún mjög góð – einhvern veginn hressilega ómórölsk. En nýja myndin er satt að segja ömurleg. Hún er svo vond að mann langar að meiða sig. Ég veit ekki alveg hvað veldur – handritið er svo til óbreytt, þetta er bara sviðsett með nýjum leikurum – en hugsanlega hefur það einfaldlega eitthvað með samtímann að gera. Hún flúttir ekki.

Það fyrsta sem truflar mann er hvað hinn íhaldssami mórall – hreinlyndu sálirnar Brad og Janet og heimurinn sem þau tilheyra – er úreltur. Hann var það auðvitað líka árið 1975 en ég ímynda mér að hann hafi samt verið til, á annan máta, verið konsekvent afl í heiminum. Íhaldssemi samtímans er miklu líkari Söruh Palin og Donald Trump – og móralisminn hefur hreiðrað um sig víðar, og einfaldlega breyst, lítur öðruvísi út, virkar öðruvísi. Að millistéttarplebbar óttist dragdrottningastemningu og búningadrama – meðan þau raða í sig bókum Tracy Cox (óskyld Laverne) og 50 gráum skuggum og frásögnum Ragnheiðar Eiríksdóttur úr Swingpartíum eða mökunarlýsingum Köru Kristelar – á sér einfaldlega enga stoð í raunveruleikanum. Millistéttarplebbar þyrpast auk þess á Rocky Horror sýningar um veröld alla. (Það munaði minnstu að upprunalega myndin floppaði – vinsældir hennar komu loks, öllum að óvörum).

Næst truflar fegurð leikaranna. Í upprunalegu útgáfunni er eitthvað fríkað við leikarana. Meira að segja Brad og Janet eru pínu off – eins falleg og þau eru – og þótt Frank sé sannarlega hott er hann ekki fullkominn. Leikararnir í nýju sýningunni líta allir út einsog þeir hafi fengið einkaþjálfara í skírnargjöf.

Við sköllótta fólkið veltum því líka fyrir okkur hvers vegna allir eru alltaf svona vel hærðir í Hollywood. Nýi Riff Raff reynir síðan bókstaflega að herma eftir gamla Riff Raff. Og gerir það vel. En það er svolítið einsog að fá Örn Árnason til að leika Davíð Oddsson – það er skopstæling.

Fagurfræði sýningarinnar er í samræmi við þetta slétt og felld – mixið er ofmixað, allt er flatt og agnúalaust, ef frá er talinn performans Tims Curry sem afbrotafræðingurinn. Curry fékk heilablóðfall fyrir nokkrum árum og leikur hann af fremsta megni, hikandi og af erfiðleikum – einsog Johnny Cash að syngja Personal Jesus, maður á sínum síðustu andardráttum – og einmitt vegna þess að hann er ekki fullkominn er hann langsamlega bestur.

Það er líka eitthvað saklaust við nekt fullkomins fólks – eitthvað sem er ekki afhjúpandi, þegar líkaminn hefur verið undir það búinn frá fæðingu að birtast nakinn. Eða – þið vitið – hálfnakinn. Þegar Susan Sarandon stóð á náttkjólnum var hún allsber – nýja Janet (ég nenni ekki að gúgla nafn leikkonunnar) er ekki naktari en fótósjoppuð Kim Kardashian á forsíðu Paper.

Í þriðja lagi – ég veit ekki hvort transgressjónin er minni í nýju myndinni, hvort það er beinlínis gengið skemmra (senan þar sem Frank nauðgar/tælir Brad og Janet er umtalsvert sakleysislegri – það er einsog leikstjórinn hafi ekki getað ákveðið sig hvort Frank ætti að penetrera eða penetrerast og þau Brad enda á að liggja saman og slá hvort annað á fullklæddan rassinn). En tilfinningin fyrir hættunni er engin – tilfinningin fyrir leiknum er engin. Kannski er Rocky Horror í samtímanum alltaf bara eitthvað kits – fólk að LARP-a ógn, klætt einsog krossfarar, einhvers konar períóðustykki, fólk að spila á lútur og rifja upp nostalgíu sem það á ekkert í (bróðurpartur áhorfenda var ekki fæddur 1975). Kannski er þetta bara ekki hægt, alveg sama hvað lögin eru góð, jafnvel þótt leikararnir væru betri og handritið eitthvað uppfært – það hjálpar í það minnsta ekki hvað þessi uppfærsla var skelfilega geld (no pun intended) og ógnarlaus.

En það er hægt að horfa á orginalinn – það er meira að segja fínt og sannfærandi. Og Tim er guðdómlegur.

***

Annars veit ég ekki hvort Frank er trans – hann er náttúrulega geimvera og alveg óvíst hvort hann sé þar með kynjaður yfir höfuð. En í upprunalega textanum segist hann vera „transvestite“ – þ.e.a.s. klæðskiptingur – og hvernig það fer saman við að vera trans veit ég ekki. Ef maður skiptir um eða leiðréttir kyn líkama síns svo það samræmist hinni ytri kyntjáningu er maður sennilega ekki klæðskiptingur lengur – en maður getur auðvitað stundað klæðskipti í hina áttina. Vandamálið við Frank er að hann klæðir sig ekki í samræmi við neina standard kyntjáningu karla eða kvenna. Hann ögrar skilgreiningunum. Það er mikilvægt líka að hafa í huga að þegar Frank segist vera frá „Transsexual, Transylvania“, er hann að tala um plánetuna Transsexual í vetrarbrautinni Transylvania – það er komma þarna, hann er hvorki frá kynfráukynsegin Transylvaníu, einsog það hefur verið þýtt. Hvort nafngift plánetunnar sé meira lýsandi fyrir íbúana en Grænhöfðaeyingur eða Hvít-Rússi veit ég ekki heldur og það best ég hef getað tekið eftir, kemur það aldrei fram.

Guns N’ Roses hafa tilkynnt um komu sína til Íslands í sumar. Önnur eins tíðindi hafa ekki heyrst frá því Berlínarmúrinn féll. Ég verð að vísu „fjarri góðu gamni“ einsog „sagt er“ – sá þá síðasta sumar í Hämeenlinna og ef ég sé þá nokkuð í sumar verður það í Gautaborg með Vigni, leikstjóra Hans Blævar, þremur dögum fyrir Íslandsgiggið. En það er viðeigandi að nefna þessi tíðindi hérna vegna þess að Axl er á listanum yfir fyrirmyndir Hans Blævar – ekki bara fyrir Hans Blævi sjálfa, heldur ekki síður höfund hánar (við sköpun Hans Blævar, s.s., frekar en sem fyrirmynd í persónulegi tilliti). Þegar ég var að byrja skrifin settist ég niður og skrifaði lista yfir hátt í 20 manns sem saman mynduðu sálina í Hans Blævi og á þeim lista var s.s. Axl Rose. Hans Blær er fyrir löngu orðin sjálfstæð vera óháð fyrirmyndum sínum, en líkindin við sumar fyrirmyndirnar eru auðvitað engu að síður til staðar.

***

Axl er auðvitað narsissisti, einsog rokkstjörnur eru gjarnan, og sennilega aðeins ríflega. Hann er auk þess erkitýpa hins særða dýrs – maður sem ólst upp við mikið ofbeldi og upplausn, varð vandræðaunglingur og ofsóttur af lögreglunni – handtekinn ríflega 20 sinnum – sem endaði með því að hún beinlínis hrakti hann úr bænum. Lögreglustjórinn hótaði að kæra hann fyrir að vera „atvinnukrimmi“ (habitual criminal) sem hefði haft í för með sér lengri fangelsisdóm – hann sat lengst inni í þrjá mánuði fram að þessu – ef hann færi ekki. Í sem stystu máli húkkaði Axl sér far til L.A. og restin er mannkynssaga.

Við tekur ferill sem ber með sér óseðjandi löngun til þess að skandalísera og hrista upp í fólki ef ekki hreinlega meiða það – ekki bara á sviði eða í viðtölum (það sem Axl lét hafa eftir sér um konur, blökkumenn, gyðinga, homma o.s.frv. á þessu tímabili er ekki prenthæft – og svívirðingar hans í garð nafngreindra óvina sinna í viðtölum og lagatextum fullkomlega yfirdrifnar) heldur líka prívat og persónulega. Samfarastunurnar í lok Rocket Queen á Appetite eru t.d. Axl að ríða kærustu trommarans, Stevens Adler, í stúdíóinu. Það mátti aldrei segja neitt til að styggja Axl og í raun gat enginn átt í neinum samskiptum við hann nema Slash, sem vill til að er sennilega meðvirkasta mannvera á jörðinni (Slash er sama um allt á meðan hann fær að spila á gítar).

Axl gerði sem sagt alltaf sitt allra besta til þess að eitra samskipti sín við umheiminn. Það er ástæðan fyrir að hann mætti aldrei á svið fyrren 2-3 tímum eftir auglýstan tíma, til þess að fara í taugarnar á bandinu, starfsfólkinu, aðdáendunum, til þess að fullvissa sig um að þau elskuðu hann nógu helvíti mikið til að fyrirgefa honum. Steven hefur lýst honum sem mesta skíthæl sem hann hafi kynnst, en líka sannasta vininum, manneskju sem er í senn hreinn kærleikur og hrein fyrirlitning og alltaf ófyrirsjáanlegt kaos. Axl var líka (eini) maðurinn sem sat við sjúkrabeð Stevens dögum saman þegar hann tók of stóran skammt. Enginn „lenti í Axl“ einsog Steven en ekki einu sinni Steven hefur viljað afskrifa hann.

Það vita það allir sem hafa tilfinningar (feis!) að viðbrögðin við samfélagslegri fyrirlitningu, sérstaklega ef persónuleg trámu koma til, geta mjög auðveldlega orðið blanda af bræði og ofsafenginni sókn eftir ást og viðurkenningu. Þetta, og eitt og annað fleira, eiga Axl og Hans Blær sameiginlegt.

Það er auðvitað mikið gleðiefni að tilkynna, þeim sem ekki vissu, að Axl er talsvert betri manneskja í dag – raunar er hann (að mörgu en ekki öllu leyti) fullkomið ljúfmenni. Eftir að GNR leystist upp tók við eins konar púpuskeið – Axl fékk sér cornrows og hegðun hans varð verri og verri, tónlistin verri og verri. Hann var ekki lengur leðurklædda skordýrið af Appetite og ekki orðinn fiðrildið á … Not in This Lifetime, hann var í fullkomnum stasis. Þeir sem sáu „Guns N’ Roses“ (þetta eru kaldhæðnisgæsalappir) spila á þessum tíma, live eða í sjónvarpi, vita hvað ég á við og hafa borið þess vitni.

En í dag er Axl fiðrildi. Hann er jafnvel svalari sem þessi sáttur-í-eigin-skinni drumbastrumpur sem hann er orðinn, en óargardýrið sem hann eitt sinn var (ég mun samt aldrei afneita óargardýrinu), og maðurinn sem eitt sinn mætti aldrei á svið á réttum tíma og þurfti alltaf að vera með skæting var á tímabili, rétt eftir endurkomu GNR, á þeysireið um heiminn með tveimur hljómsveitum (líka AC/DC – ég hef Young bræður grunaða um að kenna Axl að höndla auðmýktina), á sitt hvorum heimstúrnum og var aldrei seinn, ekki einu sinni þegar hann var fótbrotinn, og talar aldrei öðruvísi um neinn en af stakri virðingu (eða í það minnsta tongue-in-cheek ástúðlegri kaldhæðni).

***

Það er annars sýning á Hans Blævi annað kvöld, fyrir þá sem hafa áhuga.

Já, ég hef samúð með ykkur, því þið hafið aldrei þjáðst. Ykkur hefur skort hið göfuga, mikla hjarta, hina örlátu sál, sem er forsenda þjáningarinnar. En senn rennur upp tími friðþægingarinnar, hafi hann ekki gert það nú þegar. Og þá munuð þið gripnir angist yfir skelfilegu innihaldsleysi gervallrar tilvistar ykkar. 

Ólánsömu menn! Þið munið ekkert finna sem fyllir það. Þið nálgist þröskuld eilífrar iðrunar – eftir hverju? Lífinu. Frammi fyrir ódauðleikanum munuð þið iðrast ryksins, tómsins. 

Úr bókinni Herculine Barbin – sem eru nýuppgötvaðar endurminningar nítjándu aldar hermafródítu. 

Þýðing gerð úr enskri þýðingu Richards McDougall. 

Samkvæmt frétt sem ég las á Vísi á dögunum hafa indversk yfirvöld ákveðið að taka upp dauðarefsingu við nauðgunum á stúlkum yngri en tólf ára. Í sömu frétt kemur fram að 19 þúsund (19 þúsund!) slík tilfelli hafi verið tilkynnt árið 2016. Ef við gæfum okkur að sakfellt væri í um 10% tilfella myndi það gera 1.900 aftökur á ári. Sem eru jafn margar aftökur og eru framdar í öllum heiminum árlega. Og samt ganga þá 17.100 barnanauðgarar – að því gefnu að allir séu sekir – lausir.

Þetta setur hausinn á mér – að ónefndu hjartanu – af sporinu á að minnsta kosti tólf ólíka vegu. Eða tuttuguogfimm. Tvöhundruðogfjörutíu. Fleirienéggettalið.

Þið afsakið að ég skuli spyrja svona óheflaðrar spurningar, en hvað verður eiginlega um okkur?