Ég gaf mömmu eintakið mitt af Hans Blævi og hef ekkert hugsað um hána alla vikuna. Nú þarf ég bara að losna við bókafjöldann af skrifborðinu mínu og koma honum í einhvers konar hillu. En hvar á ég að hafa þessa hillu? Fyrir framan hinar hillurnar mínar?

***

Í næstu viku fer ég svo til Súðavíkur að taka upp hljóðbókina. Í millitíðinni skýst ég sem kennaramaki í kennaraferð til Lundúna. Þar ætla ég að sinna vistsporinu mínu og hafa áhyggjur af loftslagsmálum og sjá guadalúpísku blússveitina Delgrés spila. Ég ætla líka að kaupa mér heimskautahvítan Fender Telecaster smíðaðan í Mexíkó. Notaðan, sem ég fékk fyrir slikk, nokkurn veginn sama og ég fékk fyrir Epiphone SG-inn. Þá á ég tvo rafmagnsgítara – Gálknið, sem er biksvartur Gibson SG og þennan nýja, sem ég á eftir að nefna. Það má koma með tillögur í athugasemdum.

***

En þetta er ekki gítarblogg. Þetta er Hans Blævar- og samfélagsblogg. Kannski  ég breyti þessu samt í gítarblogg síðar. Það gæti verið gaman.

***

Heitir hann ekki Kristinn Sigurjónsson, kennarinn í HR sem var rekinn fyrir að segjast ekki vilja vinna með konum? Og það væri í raun ekki hægt að vinna með þeim – ef ég man rétt – þær væru óalandi og óferjandi. Mér finnst eina spurningin í því máli vera hvort maður eigi að hafa þolinmæði fyrir fíflum eða ekki. Og góð og gild rök fyrir báðu, finnst mér.

***

Framfylgi maður ekki ákveðnum stöðlum um lágmarkskurteisi er hætt við að maður endi í hálfgerðu barbarí. Þeir sem taka mjög djúpt í árinni – tala af ósanngirni, ljúga jafnvel, býsnast og andskotast – pólarísera umræðuna, ýta fólki út í horn og eitra þannig út frá sér. Ég er raunar alls ekkert viss um að þeir geri það með því afla skoðunum sínum vinsælda – þótt það verði alltaf smá stemning í kringum þá í fyrstu, þegar þeir lokka verstu rugludallana fram úr dagsljósinu – heldur með því að færa umræðuna yfir á hysterískt plan. Þetta endar einsog eitthvað smábarnarifrildi. „Það er ekki hægt að vinna með konum“ fær bara svarið „djöfull geta karlar verið ómerkilegir“ og svo framvegis. Ósannanlegar tilgátur um heiminn sem byggja ekki á öðru en gremju og beiskju gera ekki heiminn stærri, þær gera heiminn minni og fólkið sem verður fyrir þeim heimskara. Og skiptir engu máli hvaða „málstað“ þær tilgátur eiga að verja eða flytja.

***

Hins vegar held ég að manni sé bráðnauðsynlegt að eiga einhvers konar samneyti við fólk af öllu mögulegu sauðahúsi. Það er einhver stærsti hængur samtímans hversu erfitt við eigum með samlífi við fólk sem er á einhvern hátt öðruvísi en við eigum von á eða eigum að venjast. Vegna þess hreinlega að við höfum viðbjóð hvert á öðru – af öllum mögulegum ástæðum. Mér finnst ég reka mig á það æ ofan í æ. Kristinn Sigurjónsson, heiti þessi aumingjans maður þá það (ótrúlegt hvað maður getur látið eftir sér að fletta ekki hlutunum upp), er furðufugl, feyskinn karlpungur í útrýmingarhættu. Skoðanir hans á heiminum byggja ekki á samkennd, samstöðu eða kærleika – þær virðast aðallega byggjast á gremju og það vita það allir sem hafa þurft að fást við gremju, finna fyrir henni, að gremja sprettur af vanmáttarkennd og almennri vanlíðan.

***

Ég held við þurfum að horfast í augu við að þannig fólk – fólk sem ráfar um hugmyndaheim samtímans einsog smábörn í frekjukasti – er stór hluti af samfélaginu. Við tökum að vísu ekki jafn vel eftir því þegar það er nær okkur í skoðunum – og er það þó að mörgu leyti ekkert skárra, og sennilega kemur að því að tíðarandinn snýst gegn þeim líka þegar móralski pendúllinn sveiflast aftur til baka. Og þótt það sé alls ekki gott að fólki af þessu sé ekki mætt þá held ég það borgi sig hvorki að þrátta við það á þeirra eigin máli – með gremjuna að vopni – né heldur að gera það brottrækt. Þeim er miklu betur mætt með festu og kærleika – því, svo ég snúi upp á nýlegt húðflúr, þá eru karlar einmitt alls ekki rusl, heldur heilagir, einsog annað fólk.

Tilvitnun vikunnar

Over the past decade a new, and very revealing, locution has drifted from our universities into the media mainstream: Speaking as an X … This is not an anodyne phrase. It tells the listener that I am speaking from a privileged position on this matter. (One never says, Speaking as a gay Asian, I feel incompetent to judge this matter.) It sets up a wall against questions, which by definition come from a non-X perspective. And it turns the encounter into a power relation: the winner of the argument will be whoever invoked the morally superior identity and expressed the most outrage at being questioned.  […]

What replaces argument, then, is taboo. At times our more privileged campuses can seem stuck in the world of archaic religion. Only those with an aproved identity status are, like shamans, allowed to speak on certain matters.

[…]

Left identitarians who think of themselves as radical creatures, contesting this and transgressing that, have become like buttoned-up Protestant schoolmarms when it comes to the English language, parsing every conversation for immodest locutions and rapping the knuckles of those who inadvertently use them.

– The Once and Future Liberal – Mark Lilla

Bókin kom til landsins á fimmtudag í síðustu viku. Hún fór í flug og ég var að vona að ég fengi eintak í hendurnar á föstudag. Var mættur á pósthúsið strax við opnun – fékk að vita að jú, ég ætti þarna pakka samkvæmt tölvunni, svo kom einhver svipur á afgreiðslukonuna sem gekk í nokkra hringi og tilkynnti mér að þessi pakki, frá Hljóðfærahúsinu frá miðjum september, væri áreiðanlega kominn til skila. Ég kannaðist við það, fékk að kvitta fyrir honum, og gekk svo út bókarlaus.

Svo kom helgin. Ég las upp úr bókinni á bókmenntaráðstefnu á vegum Háskólasetursins í Edinborgarhúsinu – eða, ég las auðvitað bara úr einhverju útprenti – og gekk bara vel, „gerður var góður rómur að“ og það allt saman, og virtist engan trufla nema mig að þetta væri bara ómerkilegt útprent.

Hans Blær

Í morgun mætti ég svo aftur á pósthúsið við opnun og þar beið hún mín. Ég hélt ég yrði kannski minna viðþolslaus af að fá hana í hendurnar en svo er ekki, þetta er eiginlega bara verra, nú liggur hún þarna, þetta eina eintak (restin er enn í skipinu á leið frá Þýskalandi), og við störum hvert á annað, ég á hana og hún á mig. Það var ekki einu sinni vinnandi svo ég fór bara að taka til, raða bókunum í ljóðabókahillunni minni og taka utan af ólesnum TLS tölublöðum. Furðu erfiður dagur – í mér eru allar tilfinningarnar í einu og kannski er ég mest bara einhvern veginn lúinn.

Já og svo vann ég – eða Óratorrek, réttara sagt – Menningarverðlaun DV á föstudag. Mér skilst að ég fái sent viðurkenningarskjal og þarf þá að gera pláss á grobbveggnum mínum.

Það þyrfti eiginlega að gera sér Wikipediu fyrir allt fræga og semí-fræga fólkið sem hefur verið sakað um kynferðisbrot. Og einhvers konar FIFA styrkleikalista. Þetta er löngu hætt að rúmast í heilanum á mér. Ég vil vita hvar Orri í Sigur Rós stendur í samanburði við Louis CK og Asiu Argento. Hver er verri – Cosby eða Weinstein?  Og stigunum fylgdu þá samræmdar refsingar. X mörg stig og þá máttu ekki koma fram opinberlega lengur. Og svo geturðu kannski unnið af þér  með yfirbótum – lækkað á listanum og fengið að tromma aftur, svo fremi það sé ekki í frægri hljómsveit. Aldrei tromma fyrir fleiri en 150 manns í einu. Aldrei segja brandara við fleiri en 40. Bara á sérstökum skemmtistöðum með þartilgert leyfi þar sem er skýrt og skilmerkilega auglýst að maður geti átt von á því að triggerast, þar gangi pervertarnir lausir í myrkrinu.

***

En svona í alvöru. Þetta er kannski svolítið moggabloggslegt teik á alvarlegum hlut. Ég biðst forláts, ég er búinn að drekka of mikið kaffi/ekki búinn að sofa nóg/það er í mér einhver galsi/ aðrar viðhlítandi afsakanir. En eftir stendur að það vantar einhvers konar kerfi sem ákvarðar sekt, sakleysi, refsingu og tímaramma refsingar. Tímalaus útskúfun er nefnilega bæði óvenjuleg og grimmileg refsing. Svona félagslegt waterboarding. Ég nenni ekki að taka þátt í samfélagi sem ætlar bara aldrei að fyrirgefa neitt.

Og svo þarf að vera rými fyrir að einhverjum finnist einhver kall ógeðslegur – vegna fortíðar hans – án þess að hann sé samfélagslega óæskileg mannvera. Samfélagsleg fyrirgefning er ekki það sama og að allir hafi ákveðið að einhver sé núna (aftur) frábær. Einhvers staðar ákveður samfélagið að þetta sé komið gott – Louis CK megi koma fram, vilji einhver hleypa honum upp á svið, án þess að New York Times þurfi að fara á hliðina í hvert sinn. Og samt sé fullt af fólki úti í bæ sem segi bara oj, nei, ég ætla ekki að mæta. Er það ekki bara alltílagi?

Tilvitnun vikunnar

Drömmen om den fullständiga befrielsen, inte i buddhistisk förintande mening utan tvärtom som en i högsta grad förnimbar närvaro av bild och syn, av realiserad verklighet i drömmens rike. Det var den han ville: den fullständiga befrielsen – konstverket. En självvaldhet och självfallenhet utanför diskutantklubbars resonörvärld, allt detta som förstör modern konst och dikt. Det gällde att underminera sitt medvetande och spränga det fritt från dagsaktualiteters mördande konkurrens, allt som färdiggjort för dagen erbjuds av dagen för att man skall nöja sig för dagen. Nå bortom all ställningsdiskussion som begagnar poesin för sina syften utan att leva med den, rycker loss den ur dess naturliga miljö, när så behövs, och låter den stranda som bortkastat papper efter tillfällets bruk och glömska.

– Rabbé Enckell – Essay om livets framfart