Lestrardagbók: Öræfi

Einu sinni hélt ég einfaldlega lestrardagbók og birti á bloggi. Lestrardagbók er frábrugðin öðrum skrifum um bækur að því leytinu til að hún er eiginlega birt án ábyrgðar – enda oft verið að skrifa um bækur áður en maður hefur einu sinni lokið við þær. Þá hafði ég sem útgangspunkt að skoða hvernig tilteknar bækur kæmu út úr „pólitískum“ lestri – hver virkni þeirra væri í heiminum og hvort pólitíkin stæðist hin andlegu próf eða hvort listaverkið félli um sjálft sig. Niðurstaðan var sirkabát sú að fæst listaverk lifi af pólitíska fimleika höfundarins – en það sé samt hægt, hafi höfundurinn tamið sér að setja ekki skoðanir sínar í fyrsta sæti og leyfa þeim að stýra skipinu.

Mig langar að byrja aftur að halda lestrardagbók en nú er markmiðið miklu loðnara. Mig langar auðvitað enn að átta mig á því hvað skáldverk séu og hver virkni þeirra sé – hvers ef þá nokkurs ég æski af þeim annars en að þau stytti mér stundir og hleypi andanum á tímabundið flug. Ég er satt að segja ekki enn alveg viss hver spurningin er sem mig langar að spyrja mig og þessar bækur (ég er ekkert nema efinn þessa dagana, um allt) en það er kannski einmitt þess vegna sem mig langar að lesa og spyrja, til þess að finna eitthvað handfast eða í það minnsta eitthvað til að fleyta sér á stutta stund. Ég er nýbyrjaður að skrifa bók, svo að segja – hún er í það minnsta nógu kaotísk ennþá í höfðinu á mér til að hún geti orðið nokkurn veginn hvað sem er – og mig langar að finna fyrir möguleikunum, hvert ég geti farið með hana.

Fyrsta bókin er Öræfi Ófeigs Sigurðssonar. Í lestrardagbókum er hugsanlega óþarfi að tíunda of mikið um söguþráðinn (enda er þetta ekki skrifað fyrir áhorfendur þótt það sé gert fyrir opnum tjöldum; þetta er blogg af gamla skólanum sem gæti allt eins farið í dagbók, ef ég væri ekki svona lengi að skrifa með penna).

Offi er gamall vinur minn þótt það sé orðið langt síðan ég sá hann síðast – ég gaf út fyrstu skáldsöguna hans, við höfum skipst á íbúðum, tekist á, skálað og glaðst og reiðst. Og einhvern veginn finnst mér alltaf þegar ég horfi á bókina út undan mér að hún heiti ekki ÖRÆFI heldur einfaldlega OFFI.

Hún er góð. Þá er það frá. Hún er meira að segja frábær, innblásin og fögur og sprenghlægileg.

Mér hefur alltaf þótt erfiðast að segja nokkuð um það sem mér líkar best. Það er erfiðast að setja fingur á það sem uppljómar mann en auðveldast að halda langar ræður um alls kyns meingallað drasl og bókmenntalíki. Það er helst að það kristallist fyrir manni hvað manni finnst gott við eitthvað þegar einhver annar ræðst að því – þegar maður þarf að fara að verja verkið. Ég hef enn ekki heyrt neinn eyða neinu púðri í að dissa Öræfi – en ég hef samt heyrt af mörgum sem gáfust upp á henni. Líklega má til sanns vegar færa að þetta sé ekki bók fyrir alla – en bækur sem njóta óvænt mikillar athygli rata oft inn á alls kyns heimili og eru ekki alltaf aufúsugestir (þetta þekki ég af eigin raun). Og þær bækur sem eru virkilega góðar eru aldrei allra – þær eru ekki lægsti samnefnari heldur hæsti. Og þá verður hver að eiga sér sína uppáhalds og vera ósammála öðrum um sínar. Flestar þær bækur sem fara í þúsundum eintaka í bókabúðum og öllum finnst ágætar eru yfirleitt alls ekki merkileg bókmenntaverk og oft ekki einu sinni hugsuð sem slík, þótt þær séu stundum haganlega gerðar, skemmtilegar og jafnvel passlega uppljómandi á köflum.

En Öræfi er bókmenntaverk. En hvað er þá í því fólgið (í ljósi ofangreindra yfirlýsinga um að ég skilji varla til hvers bækur séu)? Í fyrsta lagi tekur allt form þeirra mark af innihaldinu – bókmenntaverk hafa aldrei nema takmörkuð líkindi við önnur bókmenntaverk (stærstur hluti vinsælla fagurbókmennta eru vel skrifaðar formúlur um áhugaverð topik en móta form sitt og byggingu og texta eftir reglum um settlegheit og normalítet). Í öðru lagi þá liggur við að þær móti einhvers konar lífræna heild – maður verður aldrei var við að höfundur hafi tekið neinar ákvarðanir (þótt auðvitað bæði hafi hann og hafi ekki gert einmitt það). Sagan bara ryðst áfram á baki textans og svo til hvað sem er gæti gerst (a.m.k. í þessari bók) án þess að maður myndi glata hið minnsta trú á sögunni sem slíkri. Í þriðja lagi hangir bókmenntaverk ekki saman á neinum einum þræði – hvorki kjarnasaga, aukasögur, tungutak, bygging eða persónusköpun – og ekki á fáeinum þeirra heldur öllum.

Eitthvað þannig.

Ég á 100 síður eftir af Öræfum og ég hef engar áhyggjur af að hún fari út um þúfur úr þessu – það er nú þegar alltof mikil fart á henni, þótt sögupersónurnar sætu grafkyrrar og gerðu varla neitt fram að endalokum (sem er ekki ósennilegt, það hafa sumar þeirra gert hingað til) þá myndi skriðþunginn bera hana í mark.

Framhald á morgun!