Sennilega er Hvalárvirkjun ekki merkileg byggðaaðgerð, þótt ég hafi annars lítið vit á því. Það er hins vegar áhugavert að skoða umræðu eða orðræðu þeirra sem setja sig upp á móti henni. Efri millistéttin í Reykjavík talar um landið einsog sitt prívat gallerí; talar um heimkynni annars fólks einsog höggmyndasafn sem það eigi að eiga ókeypis aðgang að á meðan enn skín sól á jörðu. Það spyr: Hvers virði erum 15 megawött (eða hvað það er) gagnvart eilífð fegurðarinnar?

***

Þetta er alls ekki spurningin. Spurningin er: Hvers virði eru heimkynni fólks. Hvers virði er mannabyggðin. Hvers virði er lífið í Árneshreppi. Mannlífið og menningin.

***

Efri millistéttinni í Reykjavík þykir vænna um Hornstrandir. Þykir vænt um draugahús og forna, horfna byggð. Þar nær hún tengslum við ræturnar. Hún nær engum tengslum við fólkið í Árneshreppi sem berst fyrir tilveru sinni. Ekki fyrren það er flutt á mölina og börnin þeirra eru farin að skrifa sagnfræðilegar doktorsritgerðir um hnignun mannlífs í jaðarbyggðum – milli þess sem þau „hlaða batteríin“ í yfirgefnu húsi foreldra sinna vestur í rassgati.

***

Vesturlandarbúar fórna alltaf hagsmunum þess veikasta fyrst. Þess sem á minnst undir sér. Þannig virkar kapítalisminn. Flugvallarmálið er annað eins mál – og aftur er ég alls ekki viss um að flugvöllurinn þurfi að vera í Vatnsmýri, það er önnur saga, en hann fara, á jafnvel að fara, þrátt fyrir að kannski komi ekkert í staðinn fyrir hann og það finnist engin lausn á samgöngumálum. Hagsmunir þeirra landsmanna sem berjast fyrir tilverurétti sínum mega sín einskis gagnvart vaxtarverkjum þeirra sem mega sín mest. Þá skiptir ekki einu sinni máli að stór meirihluti höfuðborgarbúa kæri sig alls ekki um að flugvöllurinn verði fyrirvaralaust látinn flakka. Hagsmunir hins sterka tala sínu máli.

***

Í Reykjavík og víðar heitir þetta jafnaðarmennska. Sennilega hefur orðið jöfnuður alveg gersamlega misst merkingu sína. Íslenskir sósíaldemókratar eru amerískir demókratar. Það eru sænskir sósíaldemókratar núorðið líka. Og franskir. Kanadískir. Og svo framvegis.

 

5 svör við “”

  1. Ég veit ekki hvaða virkjun er byggðaaðgerð yfir höfuð. Það er hins vegar staðreynd að við viljum ekki vera án rafmagns sama hvar við búum. Rökin sem ég hef heyrt með og á móti Hvalárvirkjun eru þannig að mér er ekki ljóst hvort þau eru góð fyrir íbúa Árneshrepps. Blönduvirkjun er í mínu sveitarfélagi. Þrátt fyrir að hún er þar hefur fólksfækkun orðið í sveitarfélaginu. Ég veit ekki hvort fækkunin væri orðin enn minni ef virkjunin hefði ekki orðið að veruleika. Vissulega var heimafólk í mörgum störfum á virkjunartímanum m.a. undirritaður og enn er það þannig að LV ásamt Húnavatnshreppi rekur sumarvinnu fyrir ungmenni í sveitarfélaginu og víðar. Það hefur hinsvegar engin atvinnustarfsemi orðið til í sveitarfélögunum (þau eru fjögur í A-Hún) sem tengja má beint við virkjunina. Hinsvegar tryggði Blönduvirkjun það að öryggi afhendingar rafmagns jókst. Nú stöndum við hinsvegar frammi fyrir að sum framleiðsla virkjunarinnar nýtist ekki m.a. vegna þess að byggðalínan er fulllestuð nú þegar. Það er því afar mikilvægt að nýtingin af rafmagni batni til muna með því að koma upp rekstri í nágrenni virkjunar (A-Hún eða Skagafjörður) eða auka flutningsgetu byggðalínu í austur- og suðurátt. Ég hef meiri áhuga á að nýta orkuna heima fyrir en það er ekki mitt að ráða því.

  2. Skánar líf íbúa í Árneshreppi við Hvalárvirkjun? Sumra, efalaust. Og efalaust skánar líf einhverra íbúa suðvesturhornsins þegar orka fæst loksins til að knýja dauð stóriðjuver á Reykjanesi. Og líf Mr. Beatty skánar án alls vafa…

  3. Þessi pistill Eiríks er hin argasta þvæla og sniðgengur alveg kjarna málsins sem er sá að Ross Beaty mun aldei skaffa Strandamönnum ódýrt þriggja fasa rafmagn né leggja nýja heilsársvegi um svæðið. Virkjun á þessu svæði mun ekki skapa eitt einasta starf nema í rétt um tvö ár meðan á byggingu hennar stendur en það verða þá störf fyrir starfsmenn erlends verktakafyrirtækis. Rekstri virkjana er fjarstýrt frá Reykjavík og því verða heldur engin störf þar. Gleymum ekki að það var Ross Beaty sem stöðvaði álverið í Helguvík þar sem hann taldi sig ekki fá viðunandi verð fyrir rafmagnið þrátt fyrir undirtaðan samning þar um. Þetta hefur ekkert með sósíalisma að gera heldur íslendinga sem liggja kylliflatir fyrir loddurum með perlur. Einu heilsársstörfin á virkjanasvæði Þjórsár með allar sínar fimm risavirkjanir eru pólsk hjón sem starfa við kaffisölu að Hrauneyjum.

  4. Hvalárvirkjun mun engin áhrif hafa á mannlíf í Árneshreppi til hins betra. Það eina sem hún mun gera að verkum þar um slóðir að það sú aukning af ferðamönnum sem kemur til vegna ótrúlegrar náttúrunnar í hreppnum mun stöðvast. Það verða engin störf til í Árneshreppi vegna þessarar virkjunar. Það verður einungis Sela Pétur sem mun græða, enginn annar. Mannlíf í Árneshreppi mun því aðeins blómstra að þar verði blómlegt atvinnulíf sem byggt er með lífrænum hætti á starfi fólksins í hreppnum og byggir á og vinnur með náttúrunni sjálfri. Að tortíma þar náttúrunni fyrir tveggja ára skammtímabólu mun gera út af við mannlíf á ströndum.

  5. Heimkynni fólks eins og nágranna Reykjavíkurflugvallar? Það er áreiðanlega margfaldur sá fjöldi sem gæti hugsanlega haft not af téðum flugvelli, einmitt allt þéttbýlasta svæði landsins í heild sinni ásamt elstu kennileitum og helstu stjórnarstofnunum.

Lokað er fyrir athugasemdir.