
Eftir að Odysseifur sleppur frá Lestrygónum, mannætunum sem kostuðu hann öll sín meðreiðarskip, ellefu talsins, kemur hann að eyju þar sem gyðjan Kirka á heima. Þar skýtur Odysseifur hjört á ströndinni og heldur mikla veislu. Síðan vill hann fara að kanna eyjuna og ákveður að skipta sínum „fagurbrynhosuðu förunautum“ í tvær sveitir. Fer hann fyrir annarri en Evrýlokkus fyrir hinni. Skemmst er frá því að segja að Evrýlokkus og menn hans hitta fyrir Kirku sem lokkar þá til sín með söng og fara allir til hennar nema Evrýlokkus. Kirka gefur þeim hræring úr osti, byggmjöli, bleiku hunangi og pramnísku víni og bætir í hann göldrum svo þeir gleymi með öllu föðurlandi sínu. Þegar þeir hafa drukkið og gleymt bætir hún um betur og breytir þeim öllum í svín („en héldu þeir þó óskertu viti sínu jafnt sem áður hafði verið“). Evrýlokkus sér þetta og hleypur til baka til Odysseifs sem ákveður að fara einn að bjarga hinum. Á leiðinni þangað rekst hann á Hermes Gullinsprota sem veit hvað klukkan slær og gefur Odysseifi náttúrugras – „rót þess var svört en blómið hvítt sem mjólk, kalla guðirnir það Mólý“ – sem ver hann gegn „allri ógæfu“.
Odysseifur kemur til Kirku sem reynir að galdra hann en gengur ekkert. Hann dregur fram sverðið og ógnar henni. Hún skilur ekki neitt í neinu, kemst í mikið uppnám en áttar sig svo á því hvernig hljóti að vera í pottinn búið, hann sé Odysseifur, upplyfjaður af mólý, og stingur upp á málamiðlun. „Nú vil ég biðja að þú slíðrir verði þitt, og stígum við bæði á beð minn, að við njótum þar samlags og yndis, og bindum trúnað hvort við annað.“ Odysseifur samþykkir þetta ef hún lofi að gera sér aldrei mein. Svo eru bornar fyrir hann alls kyns lystisemdir en hann gleðst ekki og þegar Kirka spyr hverju það sæti segist hann ekki geta etið og drukkið nema menn hans verði aftur að mönnum, en ekki svínum. Það verður úr – og rúmlega það, því þeir verða allir „unglegri en áður, og miklu fríðar og stærri á velli“. Svo er sent eftir mönnum hans á ströndinni. Næsta árið lifa þeir í vellystingum og Odysseifur liggur með Kirku hverja nótt. Þá loks man einhver Íþöku, föðurlandið, og minnir Odysseif á það. Odysseifur tekur þetta upp eftir beðmál um kvöldið og Kirka lofar honum að fara en segir að áður en hann komist aftur heim muni hann þurfa að fara til Hadesar og Persefónu til að leita frétta hjá Tíresíusi.
Við skildum við Bloom og Stephen og félaga þar sem þeir voru að yfirgefa fæðingarheimilið í lok Oxen of the Sun. Þegar við hittum þá aftur í Kirku hafa leiðir skilist. Buck Mulligan og Haines tóku síðustu lestina aftur til Sandycove, þar sem þeir búa í Martelloturni með Stephen – sem vel að merkja er ekki farinn neitt. Við vitum ekki hvað gerðist, hugsanlega fóru Buck og Stephen að rífast – Stephen er augljóslega kominn með feykinóg af Buck og því að búa í turninum (og sennilega hugnast honum ekki Haines heldur). Stephen er í fylgd með Lynch og þeir eru á leiðinni á hóruhús í rauða hverfi bæjarins – Nighttown – þar sem Stephen ætlar að finna vændiskonu sem hann hefur sofið hjá áður. Bloom hefur af óútskýrðum ástæðum dregist aftur úr og er að drífa sig til að ná þeim. Klukkan er í kringum miðnætti.
Kirkukaflinn er langlengsti kafli bókarinnar – nærri því 40 þúsund orð, jafn langur og fyrstu sex kaflarnir. Hann er hins vegar frekar fljótlesinn – a.m.k. miðað við lengd og miðað við kafla einsog Oxen eða Proteus – og skrifaður einsog leikrit. Textinn er heldur ekkert sérstaklega flókinn. Það sem gerir hann þungan aflestrar er annars vegar hvað gerist margt í honum og hins vegar hvað hann flakkar um milli raunverulegra atburða og einhvers konar ofsjóna, línan þar á milli verður óskýr vegna þess að stundum eru lýsingarnar ansi vel kryddaðar, og stundum eru þær það ekki en manni finnst samt einsog það sem er að gerast sé ósennilegt. Annað er augljóslega súrreal – t.d. þegar hlutir og jafnvel hugmyndir byrja að tala. Kaflinn er einhvers konar portrett af undirmeðvitund manns – sérstaklega Blooms – og það sem sprettur upp eru „lágkúrulegu“ kenndirnar, skömm, gredda, hégómi, ótti, sjálfselska og svo framvegis. Í kaflanum birtast líka allar persónur sem hafa birst í bókinni hingað til, annað hvort í holdinu eða sem ímyndanir.
Mér er sagt að í gamalli útgáfu af Britannicu hafi Nighttown í Dyflinni verið útnefnt versta slömm gervallrar Evrópu. Dyflinni var allavega hræðilegur staður alla nítjándu öldina og vel fram á þá 20. – það er ekki nóg með að Írland hafi verið fátækt land heldur var ástandið verst í Dyflinni og t.d. barnadauði margfaldur á við annars staðar í landinu. Nighttown var versti hluti Dyflinnar og það er ekkert rómantískt við lýsingar Joyce – þetta er illþefjandi martröð sem erótíkin kannski trompar, en það er alveg með naumindum stundum, og erótíkin er öll hlaðin skömm og eftirsjá.
Ég ætla að byrja á að lýsa fyrsta hlutanum – en fara svo mjög gróflega yfir restina. Það er ágætt að fá smá yfirlit yfir það sem gerist og hvernig textinn virkar – en það væri brjálæði að fara að endursegja þetta allt.
Í upphafi kaflans rekast Stephen og Lynch á Cissy Caffrey (sem er ein af stúlkunum á ströndinni í Násiku) sem er þarna að dandalast með tveimur breskum dátum, Carr og Compton. Þeir gera gys að Stephen og kalla hann „parson“ (prest) út af barðastóra hattinum sem hann gengur með. Svo sjá þeir Edy Boardman (líka úr Násiku) og fljótlega eftir það tvíburana óstýrilátu – það er í sjálfu sér langsótt að virðulegar stúlkur einsog Cissy og Edy séu að hanga í Nighttown seint um kvöld og enn langsóttara að tvíburarnir séu þarna í raun – að klifra upp ljósastaur.
Stephen og Lynch halda áleiðis og nú birtist Bloom andstuttur. Hann fer fyrst inn til slátrara og kaupir sér grísalappir, en er líka það hræddur um að hann sé að missa af félögum sínum að í ofboðinu við að ná þeim verður hann nærri því fyrir bíl. Hann rekst síðan á tvíburana og óttast af einhverjum orsökum að þeir séu vasaþjófar (á la Dickens?) og aðgætir eigur sínar á eftir. Þá birtist alltíeinu faðir hans, Rudolph, og tekur að skamma hann fyrir að vera að þvælast þetta í óvirðulegum hverfum um miðjar nætur og fyrir að hafa yfirgefið gyðingdóminn – en það var Rudolph sem lét skírast til mótmælendatrúar í írsku þjóðkirkjuna, Bloom er fæddur í hana – svo kemur mamma hans líka og skammar hann fyrir siðspillingu.
Næst birtist Molly og krefst þess að hann kalli sig frú Marion – Molly er gælunafn fyrir Marion, en þegar Blazes skrifaði henni merkti hann bréfið „frú Marion“ (en ekki frú Bloom). Hún er klædd í tyrkneskan búning, með kameldýr í eftirdragi sem týnir fyrir hana mangó. Hún virðist gefa í skyn að hún sé ólétt og Bloom segist hafa gleymt að sækja áburðinn í Swenys – og þá stekkur sápan sem hann keypti þar fram og kveður.
We’re a capital couple are Bloom and I
He brightens the earth, I polish the sky
Síðan birtist andlit sölumannsins Swenys í sápunni og biður um greiðsluna sem hann á enn eftir að fá.
Molly raular lag úr Don Giovanni og hverfur á braut – á meðan Bloom spyr hvort hún sé að bera orðin rétt fram („voglio“ – ég vil). Kvenkyns melludólgur birtist og bíður honum fimmtán ára hreina mey sem enginn hefur snert nema faðir hennar.
Næst birtist Gerty McDowell – sem hann fróaði sér yfir í Násiku – og lýsir til skiptis yfir viðbjóði og dálæti á Bloom. Frú Breen kemur líka – fyrrverandi kærasta Blooms, gift herra Breen sem er að reyna að komast að því hver svívirti hann með því að senda honum U.P:UP miðann – og skilur ekkert hvað Bloom sé að gera í svona hræðilegu hverfi. Bloom biður hana að hafa ekki hátt – Breen segist munu segja Molly – Bloom segir að hún myndi gjarna vilja koma líka, þau vilji prófa að slömma. „The exotic, you see. Negro servants too in livery if she had money.“
Tveir negrar, Tom og Sam, með banjó birtast og setja upp minstrel-sjó. Breen skammast svolítið meira og svo rifja þau upp gamla góða daga þegar Bloom var kvennaljómi. Þau daðra og Denis, maðurinn hennar, kemur gangandi framhjá muldrandi reiðilega við sjálfan sig – og Alf Bergan, af barnum í Kýklópakaflanum, hlær sig máttlausan og segir „U.P.:UP“ (sem gefur kannski í skyn að hann hafi sent miðann). Bloom rifjar upp þegar þau fóru á hestreiðarnar fyrir fjórtán árum með Molly – það virðist eitthvað hafa gerst á milli þeirra þá – hún endar á að segja „já“ sjö sinnum („já“ er líka lokaorð bókarinnar – þrítekið með litlu millibili – úr huga Mollyar) og hverfur. Eða dofnar, réttara sagt.
Kannski erum við aftur í raunveruleikanum núna. Bloom sér konu í bogagöngum sem stendur gleið og mígur á götuna. Landeyður og vændiskonur ráfa um í myrkrinu, þarna eru líka dátarnir aftur. Bloom óttast að þetta sé til einskis, hann finni aldrei Stephen. Tveir vaktarar grípa í Bloom og saka hann um að spilla friðnum – en Bloom segist á góðgerða vegum. Signor Maffei birtist, Bob Doran birtist, og verðirnir segjast ætla að taka hann til að koma í veg fyrir dýraníð. Krefja hann nafns – hann segist fyrst hafa gleymt því en man svo eftir tannlækninum nafna sínum og segist vera hann, og bætir við að hann sé af ægilega ríku fólki kominn. Þeir biðja um sannanir og þá dettur nafnspjaldið innan úr hatti Blooms á jörðina – það sem hann notar til að sækja póstinn frá Mörthu og þar sem stendur að hann heiti Henry Flower. Martha birtist og biður hann örvæntingarfull um að hreinsa nafn sitt. Vaktararnir biðja Henry Flower að koma á stöðina. Martha segist heita Peggy Griffin og Bloom segir að hún sé full og vaktararnir segja honum að skammast sín.
Nú vendir Bloom kvæði sínu í kross – „gentlemen of the jury, let me explain“ – og segist misskilinn maður, blóraböggull, hann sé tengdasonur virðulegs herforingja, Brian Tweedy – eða eiginlega segir hann „my wife, I am the daughter of …“ sem er einhvers konar fyrirboði um frekar kynskipti Blooms síðar í kaflanum. Svo segir hann að pabbi hans sé dómari og hann sé breskari en allt sem breskt er sjálfur. Þegar þeir spyrja hvað hann starfi við segist hann vera bókmenntamaður, rithöfundur – Myles Crawford úr Eólusi og Philip Beaufoy (sá sem skrifaði smásöguna sem hann skeindi sér með) birtast sem vitni og gefa lítið fyrir það. „A soapy sneak masquerading as a literateur“, segir Beaufoy.
Hér held ég að ég láti staðar numið í þessu blow-by-blow (og vel að merkja hoppaði ég yfir helling hér að ofan – þetta eru fyrstu 20 síðurnar af um 120). Ef ég ætlaði að ráðleggja einhverjum að fara styttri leið að því að kynna sér (eða rifja upp) efni annarra kafla Ulysses myndi ég sennilega alltaf vísa á The Guide to James Joyce’s Ulysses eftir Patrick Hastings eða The New Bloomsday Book eftir Harry Blamires – en í tilfelli Circe myndi ég bara ráðleggja fólki að lesa kaflann sjálfan. Það er eiginlega minnst ruglandi að plægja sig bara í gegnum hann – í þessum samantektum (þessari líka) verður tempóið of kaotískt.
En það verður að klára þetta, þótt á enn meira hundavaði verði.
Í grófum dráttum gerist þetta. Eftir að Martha sakar Bloom um ósiðlegt daður breytist umgjörðin í réttarhöld. J.J. O’Molloy er verjandi og fyrir réttinn koma ótal vitni sem flest bera Bloom illa söguna. Ásakanirnar snúast mest um alls konar dónaskap – gláp og káf og ósiðleg tilboð og þess háttar (þetta minnir mjög á internetið í kjölfar metoo-bylgjunnar og kemur mest frá konum sem hann hefur umgengist. O’Molloy segir Bloom vera einfeldning og hann reynir að koma fyrir sem slíkur.
Á endanum snúum við aftur til raunveruleikans – vaktararnir halda að grísalappirnar séu sprengja og hann segist hafa verið í jarðarför, sem verður til þess að líkið af Paddy Dignam birtist til að staðfesta það. Svo heyrir Bloom píanómúsík og grunar að hann hafi fundið Stephen – sem reynist rétt. Hann er kominn á hóruhúsið og þar hittir hann fyrst vændiskonuna Zoe Higgins. Hún káfar á honum, finnur gömlu kartöfluna sem hann gengur með í vasanum – sem er einhvers konar minjagripur um mömmu hans – fær að hirða hana (Bloom mótmælir ekki), biður hann um sígarettu og Bloom segir að munninn megi betur nota.
The mouth can be better engaged than with a cylinder of rank weed
Zoe spyr hvort hann vilji ekki halda um þetta ræðu („stump speech“ – ég er ekki með SAM við höndina) og Bloom lætur vaða og skammast yfir tóbaksreykingum og almennri ósiðsemi. Sá kafli leysist næst upp í lýsingu á stórkostlegum stjórnmálaferli Blooms, sem verður borgarstjóri og loks „Leopold fyrsti“. Allir elska hann og dá. Einhver kemur með stytturnar af safninu svo hann geti skoðað þær almennilega – en hann hafði mikinn áhuga á að vita hvort þær væru „anatómískt réttar“, einsog við munum öll. Smám saman fara svo efasemdarraddir um mannkosti Blooms að heyrast og upphefst loks mikið rifrildi þar sem margar sögupersónur láta í sér heyra og „sýnist sitt hverjum“. Nú er textinn aftur einsog réttarhöld og Buck Mulligan kemur og segir að Bloom sé „bisexually abnormal“. Bloom reynist vera óléttur og fæðir áttbura sem allir verða virðulegir og myndarlegir borgarar. Fólkið krefst þess að hann fremji kraftaverk, sem hann gerir – ellefu talsins (það síðasta er að láta sólina hverfa á bakvið fingur sér – en það gerði hann fyrr í bókinni, einfaldlega með því að bregða fingri á loft við auga sér). Hann er hylltur sem Messías en svo hafnað sem fölskum Messíasi og loks er kveikt í honum.
Raunveruleikinn snýr aftur og Bloom fer inn á vændishúsið. Þar sitja Lynch og Stephen að sumbli, meðan Stephen leikur á píanóið. Þeir rífast og fíflast.
Í næstu fantasíu birtist Lipoti Virag, afi Blooms, og fer að leggja mat á vændiskonurnar – sem passa ekki fyrir Bloom, ýmist ófagrar eða ekki rétt til fara (ein er t.d. ekki ´í nærfötum, en Bloom er með blæti fyrir nærfötum). Virag hvetur Bloom samt til þess að fá sér snúning og skammar hann fyrir almennt auðnuleysi í lífinu. Kaflinn s´ónar aðeins inn og út úr fantasíum – Stephen og Lynch og vændiskonurnar tala saman, daðrandi og ögrandi og stríðandi, og öll áreiðanlega (mis) full.
Þá birtist hórumamman, Bella Cohen.
The door opens. Bella Cohen, a massive whoremistress, enters. She is dressed in a threequarter ivory gown, fringed round the hem with tasselled selvedge, and cools herself flirting a black horn fan like Minnie Hauck in Carmen. On her left hand are wedding and keeper rings. Her eyes are deeply carboned. She has a sprouting moustache. Her olive face is heavy, slightly sweated and fullnosed with orangetainted nostrils. She has large pendant beryl eardrops.
Nú taka alls konar hlutir einsog viftur og hófar að mæla – og Bella verður fljótt Bello og Bloom skiptir um fornafn, verður hún, og upphefst mikil sadómasókísk fantasía milli þeirra. Bello situr á henni og reykir vindil og pínir á alla mögulega vegu, andlega og líkamlega. Svo fer Bloom að játa á sig syndir – að hafa klætt sig í nærföt Mollyar og fróað sér úti í náttúrunni þegar hann/hún var unglingur eftir að hafa gægst á konu á baðherbergi. Og svo framvegis. Hann/hún rifjar líka upp daginn sem hann/h´ún bað Mollyar í Howth.
Þegar fantasíunni lýkur er Bloom allur áræðnari og biður Zoe um að skila sér gömlu kartöflunni. Bella er aftur Bella og fer að rukka fyrir viðskipti kumpánanna – Stephen er blindfullur og borgar henni fyrst of lítið og síðan of mikið og áttar sig ekki á því, heldur að hann hafi undirborgað og borgar henni ennþá meira og er þá búinn að láta hana fá eiginlega öll mánaðarlaunin sín frá því um morguninn. Bloom kemur og réttir þetta allt saman af og stingur upp á því við Stephen að hann passi upp á peningana fyrir hann. Þeir hangsa eitthvað og tala saman.
Næsta fantasía snýst um Blazes Boylan – manninn sem svaf hjá Molly fyrr um daginn. Hann birtist ásamt Lenehan og þeir fara mikinn við Bloom, niðurlægja hann og svo ætlar Blazes að serða Molly að nýju (hún er orðin ein af vændiskonunum) og býður Bloom að fylgjast með í gegnum skráargatið og fróa sér á meðan. Sem Bloom þiggur auðvitað með þökkum. Þeirri fantasíu lýkur á því að Stephen og Bloom horfa í spegil og í speglinum birtist William Shakespeare, sem ávarpar samkomuna.
Stephen er fullur og ruglaður – pabbi hans birtist, fljúgandi á vængjum – Carr og Compton birtast syngjandi fyrir utan gluggann með Cissy Caffrey; Zoe setur lag á sjálfspilandi píanóið og þau dansa og Stephen tekur m.a.s. danssóló. Svo sér hann móður sína heitna sem biður hann að iðrast synda sinna – Stephen verður fyrst fölur og svo reiður og rekur á endanum stafinn sinn upp í loft og mölvar ljósakrónuna. Í kjölfar þess hleypur hann út. Bella heimtar háa greiðslu fyrir ljósakrónuna en Bloom – sem komst að því frá Zoe að sonur Bellu er við nám í Oxford – hótar að láta alla þar vita að mamma hans sé hórumamma og nær greiðslunni þannig niður. Á leiðinni út rekst hann á nokkra menn sem eru á innleið – hugsanlega er einn þeirra hinn raunverulegi Blazes Boylan – og þar sem hann hleypur á eftir Stephen ímyndar hann sér að á eftir honum komi alls kyns fólk úr fortíð hans, sem vill honum illt.
Þegar Bloom finnur Stephen er hann lentur í rifrildi við Carr og Compton sem halda því fram að Stephen hafi verið dónalegur við Cissy á meðan þeir brugðu sér frá til að pissa. Rifrildinu fylgja ýmsar ofsjónir og læti og æsingurinn verður meiri og meiri – og á endanum slær Carr Stephen í rot. Þá birtast vaktararnir aftur. Þeir ætla að fara að handtaka Stephen og Carr þegar Corny Kelleher birtist. Kelleher er einsog áður sagði uppljóstrari fyrir bresku lögguna. Hann róar þá niður og sendir þá áleiðis. Kelleher er líka með vagn og er ´a heimleið og býðst til að skutla Stephen þar til hann uppgötvar að hann á heima í Sandycove – sem er of langt í burtu.
Þegar Kelleher er farinn reynir Bloom að vekja Stephen sem muldrar brot úr ljóðum. Þá birtist síðasta fantasían – ungur drengur í Etongalla sem Bloom þekkir strax sem Rudy, soninn sem dó 11 daga gamall.
Og þá er það búið.
Einsog þetta er nú allt ruglingslegt þá er það sennilega Kirkukaflinn sem kallar fram þá hugmynd, sem ég hef oft heyrt yrta en veit ekki hver yrti fyrstur, að þegar maður hafi lesið Ulysses skilji maður Bloom betur en jafnvel sjálfan sig. Í sjálfu sér er það ekki vegna þess að hér sjái maður stærri hluta af Bloom en í öðrum köflum, en maður sér aðra og meira óflatterandi hluti – hluti sem Bloom gengst ekki endilega við í sjálfum sér nema á þessu hysteríska fantasíuleveli (og hluti sem við og hann vitum ekki endilega alveg hvort eða að hversu miklu leyti eru sannir). Og hvort sem við getum dregið þá upp eða ekki held ég að við upplifum flest – eða allavega mörg – einhver svona djúp innra með okkur, einhverja skömm sem við kunnum ekki að fást við. Maður fær það samt á tilfinninguna að þetta geri Bloom gott og að hann sitji eftir sem maður með minni skömm, dálítið hreinsaður – og lokakaflinn með Rudy er sár en fallegur.
Ef við berum þetta saman við kviðu Hómers þá eru Stephen og Lynch menn Evrýlokkusar en Bloom er sem fyrr Odysseifur. Mólýið sem Odysseifur fær frá Hermesi er upplýsingarnar um Oxfordsoninn sem Bloom fær frá Zoe. Vændið (eða bara lostinn eða lostinn plús áfengi) er galdurinn sem breytir mönnunum í svín. Beðmálin með Kirku eru … kannski bara þessi skammarprósess Blooms, frá réttarhöldunum yfir að mikilmennskuórunum yfir að sadómasóinu með Bello yfir að kokkkálun Boylans. Það er veruleikinn sem Bloom þreyir alveg þar til Stephen brýtur ljósakrónuna og þeir sleppa út.
Kirka var í öllu falli kafli ofgnóttarinnar.
* * *
Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar.
Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.
* * *
Yfirferðin 2025:
Ulysses: Lestrardagbók, 1. hluti (Telemakkos, Nestor og Próteus á hundavaði).
Skylla og Karybdís: Je est une autre
Sírenur, væl og reykur: Dyflinni syngur
Auga sjáandans: Þjóðremba og heift
Nekt og fró: Násika á ströndinni
* * *
Eldri bloggfærslur um Ulysses: