Mikilvæg tilkynning: Hans Blær Viggósbur er ekki bara kynsegin trans intersex manneskja sem var alin upp sem stúlka, Hans Blær er líka (hvítur) sís heteró karlmaður úr efri millistétt.

KARL

Hans Blær er (að öllum líkindum) með XY-litninga, hán er með penis, pissar standandi og penetrerar fólk og hán tekur (stundum) testósterón og þá vex hán skegg. Hán segist oft sjálft vera karlmaður, en hán segist reyndar vera margt og hán er ekki alltaf treystandi til þess að finnast það sem hán segist finnast, til þess eru of margar mótsagnir í máli hánar. En fólk hefur sjálfdæmi um kyngervi sitt.

GAGNKYNHNEIGÐUR

Hans Blær er að eigin sögn alltaf heteró.

Hvað átti fólk að segja þegar hán sagðist ríða öllum sínum körlum sem kona og öllum sínum konum sem karl, því samkynhneigð væri viðurstyggð? Var hán að grínast?

úr fimmta kafla skáldsögunnar

SÍS

Hida Viloria bendir á það í ævisögu sinni að þeir sem fæðist intersex og upplifi sig sem intersex séu sennilega ekki trans heldur sís (hún er reyndar líka mótfallin hugtakinu – enda ýti það undir binary hugsunarhátt að skipta fólki í sís og trans). Það er svo spurning hvort og hvenær Hans Blær hættir að vera intersex – hán tekur (stundum) hormóna og presenterar sig og talar um sig í öllum mögulegum kynjum; eini fastinn er að hán segist vera á rófinu.

EFRI MILLISTÉTT

Hans Blær er þá skipstjórabur – faðir hánar er aflakóngur á frystitogara sem gerir út frá Akranesi. Hann er lítið heima en hann skaffar gríðarlega vel. Hans Blær var síðan sjálft fljótt að koma sér þannig fyrir í fjölmiðlaheiminum að hán hefði vel ríflegar meðaltekjur.