Að tilheyra og tilheyra ekki. Að fá ekki að tilheyra og vilja þess vegna ekki tilheyra, að vilja ekki tilheyra og fá þess vegna ekki að tilheyra. Vilja ekki vera sís og vera þess vegna trans, fá ekki að vera trans og vera þess vegna sís, vera einmana tröll á fjalli. Að vera trans og fá þess vegna í fangið heila sjálfsmynd, heila óskoraða túlkun á veruleika sínum með tónlistarsmekk og pólitískum skoðunum og öllu. Að vera trans og fá þess vegna í fangið fordóma annarra – ótta þeirra, fyrirlitningu – hafna fordómum þeirra og fagna þeim, vilja þá og vilja þá ekki.

Sjálfsmyndarandróður eða róttæk einstaklingshyggja sem tæki til þess að segja sig frá meginstraumssamfélaginu – til þess að vera ekki með lengur, vera ekki samsekt í gróðasamfélaginu, stríðssamfélaginu, ofbeldissamfélaginu. Að vera úrhrak – utangarðs- eða undirheimalýður og þarmeð frjálst.

Og andróðurinn og einstaklingshyggjan sem það sem varnar manni inngöngu í meginsstraumssamfélagið; varnar manni inngöngu í stofnanir þess, hjúskap, barneignir, jafnvel vinnu, húsnæði, kærleika og vernd.

Að vilja tilheyra en vilja ekki tilheyra. Að vilja fá frið, öryggi og sjálfstæði. Að vilja vera einstaklingur en vilja líka vera samfélag, vera nærsamfélagið sitt og þjóðfélagið allt. En hafna því öllu vegna þess að það gerir allt á mann kröfur, vegna þess að öll tegund samfélaga er þunguð af fordómum sínum og allir sjá mann sem eitthvað sem maður er ekki. Sjá mann í ljósi hópanna sem maður tilheyrir, stimplanna sem maður ber, brennimerkinganna, því allir sem eiga sameiginlega eiginleika eru eins, allir sem deila veruleika og upplifun eru eins – við öpum upp hvert annað og svo drögum við samasemmerki milli annarra. Að hafna hópunum, hafna stimplunum, vera frjálst.