Samkvæmt frétt sem ég las á Vísi á dögunum hafa indversk yfirvöld ákveðið að taka upp dauðarefsingu við nauðgunum á stúlkum yngri en tólf ára. Í sömu frétt kemur fram að 19 þúsund (19 þúsund!) slík tilfelli hafi verið tilkynnt árið 2016. Ef við gæfum okkur að sakfellt væri í um 10% tilfella myndi það gera 1.900 aftökur á ári. Sem eru jafn margar aftökur og eru framdar í öllum heiminum árlega. Og samt ganga þá 17.100 barnanauðgarar – að því gefnu að allir séu sekir – lausir.

Þetta setur hausinn á mér – að ónefndu hjartanu – af sporinu á að minnsta kosti tólf ólíka vegu. Eða tuttuguogfimm. Tvöhundruðogfjörutíu. Fleirienéggettalið.

Þið afsakið að ég skuli spyrja svona óheflaðrar spurningar, en hvað verður eiginlega um okkur?