Hveitibrauðsdagar heita „smekmånad“ á sænsku. Gælumánuður. Apríl var þannig mánuður – ég lét bókina að mestu liggja, tók glósur og las og bloggaði. Svo kom maí og þá fór ég aftur í handritið með glósurnar undir hendinni, auk lesturs frá ritstjóra, og við tók kunnuglegur tilfinningastrúktúr þar sem ég ýmist blæs út einsog reigður páfugl á kókaíni eða skrepp saman og þurrkast upp einsog ofelduð akurhæna.

Nú er byrjuð önnur vinnuvika maímánaðar og hugsanlega er ég eitthvað rórri í sálinni. Ég ímynda mér það að minnsta kosti í bili. Í síðustu viku náði ég að fara í gegnum lestur Sigþrúðar (ritstjórans) og lagfæra litlu atriðin – nittpikkið – en lét stærri atriðin vera í bili. Ég færði glósurnar allar á spjöld og skipti spjöldunum í tvennt.

Í öðrum bunkanum eru atriði sem ég vil laga og skrifa áður en ég fer aftur í gegnum handritið – vegna þess að þegar ég er kominn í handritið er ég eftirlátsamari við sjálfan mig, leyfi mér að ímynda mér að það þurfi ekki að framkvæma hugmyndirnar, þetta sé allt saman bara einsog best verður á kosið. Ég er ólíklegri til að leyfa mér það ef ég er með kaflana endurskrifaða í höndunum.

Í hinum bunkanum eru atriði sem ég ætla að setja inn með handritið í höndunum – mestmegnis smávægileg atriði en þó mikilvæg. Smámikilvægileg.

Næst ætla ég að teikna upp strúktúrinn og hengja aftur á vegginn – hann hefur breyst mikið frá því ég gerði það síðast. Sennilega þarf ég líka að leita að fleiri glósum í bókunum mínum – ég skrifa svolítið í spássíur og undirstrika þegar ég er að lesa.

Svo ætla ég að lesa skáldsöguna vel og vandlega. Þetta ætti allt að hafast fyrir 1. júlí – ég verð í residensíu í Austurríki bróðurpartinn af júnímánuði, Starafugl verður í sumarfríi, og ég get einbeitt mér Hans Blævi einvörðungu – og þá verð ég fertugur.

En vegna þess að gælumánuðurinn er búinn blogga ég aftur bara á mánudögum.