Stundum eru þessar færslur mínar hérna alveg frámunalega leiðinlegar. Ekki veit ég hvað veldur. Það er ekkert samhengi milli þess að það sem ég hafi verið að skrifa um daginn hafi verið leiðinlegt – það er einsog þetta gangi á einhverjum allt öðrum mótor. Af og til hvarflar að mér að hætta að blogga og fara frekar að skrifa vandaðri pistla – eitthvað með byrjun, miðju og endi, eitthvað með samfelldri röksemdafærslu – og stundum meira að segja heiti ég sjálfum mér að byrja á því. Í sjálfu sér snýst það ekki um vettvanginn – þessir pistlar gætu allt eins birst hér – en það skiptir engu máli af því ég fell alltaf frá þessum áformum hvort eð er.
Það sem er leiðinlegt er ekki endilega leiðinlegt fyrir mig samt. Náttúrulögmálin hafa fengið mjög lofsamlega umfjöllun í Svíþjóð og voru „boktips“ frá Mariu Maunsbach í Babel – sænsku kiljunni – á helginni. Það er gaman fyrir mig. En mjög takmarkað gaman fyrir aðra, sérstaklega ef þeir eru ekki einu sinni Svíar og vita ekki hvað Babel er, hafa aldrei heyrt minnst á Mariu Maunsbach. Svo hljóp ég líka 30 km í gær, með Nödju, sem var ekki gaman fyrir mig og enn minna gaman fyrir ykkur. En samt gaman fyrir mig. Samt ekki gaman fyrir ykkur.
Á laugardaginn verða Tom Waits heiðurstónleikarnir endurteknir. Það er gaman fyrir mig og verður gaman fyrir ykkur – ef þið mætið – en er áreiðanlega ekkert gaman að heyra mig tala svona mikið um. Plögg er leiðinlegt. Samt er eiginlega allur samtíminn plögg, það af honum sem er ekki grobb (30km! Babel!).
***
Ég las pistil Sifjar Sigmarsdóttur um bækur sem vörur á markaði – Sérvitringar, afætur og „sellát“ – og varð hugsi um margt. Það er þarna ákveðin mótsögn í afstöðu minni til þessara spurninga. Jafnvel margar mótsagnir.
Bækur eru vara en bókmenntir eru það ekki, sögur eru það ekki, hugsanir eru ekki vara. Að minnsta kosti ekki vara einsog hver önnur vara. Ekki einsog smjörlíki. Og línan sem skilur bókina frá bókmenntunum er augljóslega ekki skýr.
Það er samt absúrd að ríkið geti ákveðið einhliða hvað það greiðir fyrir afnot af bókum – útlán á bókasöfnum. Sem ríkið sem sagt gerir. Á hverju ári kemur ný tala – þetta er það sem fæst fyrir útlán. Svona virka ekki heldur aðrir menningarstyrkir – ekki t.d. endurgreiðsla kvikmyndaiðnaðarins. Eðlilegast væri að samið væri við RSÍ um tiltekna tölu og hún svo bundin einhverri vísitölu.
Sellát-ásakanir minna mig alltaf á níunda áratuginn. Þá var mikið ákall um hreinleika, og stigveldi – Offspring voru selláts og póserar, Green Day ekki, Green Day voru selláts og póserar, Nirvana ekki, Nirvana voru selláts og póserar, Pavement ekki, Pavement voru selláts og póserar nema þarna einn meðlimurinn (ekki Malkmus, hann er ofmetinn) og kannski eitt lag, sem var live og bara til á bootleg, og þú hefur ekki heyrt, bara ég, það er mjög vanmetið. Og svo framvegis.
En ég sakna þess líka að listamenn hafi ákveðin heilindi. Sé eftir öllu samneyti Nýhils við Landsbankann, það var glatað og illa launað. Og það voru líka allar hinar bankaauglýsingarnar með listamönnum á fyrirhrunsárunum. Og allt #samstarfið á instagram í dag. Og öll skemmtilegu lögin í bílaauglýsingunum. Af því það er líka eitthvað heilagt við þær tilfinningar sem maður bindur listaverkum (og by association listamönnum) sem vanhelgast þegar tilfinningatengingin er víruð föst í eitthvað drasl. Eitthvað smjörlíki. Einhvern bílstuðara sem rýkur með mann af stað. Ég lagði ekki ást mína á lagið til þess að láta það lokka mig til að eyða pening í dót sem mig langaði ekki í.
Og samt er sennilega betra að selja lag í auglýsingu en að eiga ekki fyrir leigunni. Að ég tali ekki um að eiga ekki fyrir mat. Og þótt það væri bara eitthvað af þeim minniháttar lúxus sem við köllum að geta notið þess að vera til – skór sem halda vatni, námskeið fyrir börnin, útaðborða á brúðkaupsafmælinu. Það er ekkert rómantískt við að vera fátækur, ekkert gaman.
Og endurtökum það samt. Bókmenntir eru ekki vara. Listamenn eiga að heiðra heilindi sín – en þau mega vera þeirra heilindi, maður skilgreinir það sjálfur, og aðdáendur þeirra mega verða fyrir vonbrigðum með hetjurnar sínar, listamennirnir mega verða fyrir vonbrigðum með sjálfa sig og hetjurnar sínar.
Það eru í mér jólabókaflóðsónot og þó er ég ekki með í jólabókaflóðinu. Ég gaf út bók í vor og þótt það sé „í ár“ þá á ég ekki von á því að vera dreginn neitt inn í jólabókastemninguna og það er ekki hennar vegna heldur. Það er ekki heldur vegna útgáfu Heimsku – Głupota – í Póllandi. Ég les ekki pólsku og hef ekki hugmynd um hvers konar viðbrögðum ég á von á – fá bækur marga dóma? Nýjar bækur eftir erlenda höfunda sem enginn hefur heyrt minnst á? Ég hef heilmikið lesið upp í Póllandi í gegnum tíðina en alltaf ljóð og aldrei komið út á bókarformi fyrren nú. Hins vegar er Náttúrulögmálin að koma út í Svíþjóð og Svíþjóð er það næsta sem ég kemst því að eiga mér vara-fósturjörð – konan mín er sænsk, börnin mín hálfsænsk, ég hef gefið út sjö bækur í Svíþjóð og tekið þátt í óteljandi viðburðum þar í landi, þekki álíka marga sænska höfunda og ég þekki íslenska (það eru kannski ýkjur, en ekki miklar), og ég veit hvaða heimasíðum ég á að endurhlaða viðstöðulaust í bið eftir umfjöllun. Já og ég er fluglæs á málið. Og ég mun fara heilmikið til Svíþjóðar í haust í tengslum við útgáfu bókarinnar – sem er alls ekki alltaf raunin, það er alveg upp og ofan, stundum gefur maður út bók í útlöndum og heyrir aldrei nokkurn skapaðan hlut af henni. Ég fer reyndar líka til Póllands og les upp bæði í Gdansk og Varsjá.
***
Ég er búinn með Circe. Kláraði kaflann einhvern tíma í síðustu viku og hlustaði svo á megnið af honum í bílnum líka – ég var að lesa upp á Stokkseyri í fyrradag, fór í road trip. Ég veit ekki hvaða tökum er best að taka hann. Hann er ekki erfiður í sama skilningi og Proteus eða Oxen of the sun. Hann er bara langur og fullur af smáatriðum sem hægt er að staldra við. Hversdagslegasta útlegging á honum gæti hæglega orðið lengri en bókin öll. Og svo tefur mig líka letin.
***
Annað sem ég hlustaði á í bílferðinni minni var How to be alone eftir Jonathan Franzen – ritgerðasafn, dálítið köflótt, sumt mjög gott og annað síðra, líður fyrir viðbúinn samanburð við David Foster Wallace, sem var betri í þessum sömu þemum, sömu þankabönum (þeir voru miklir vinir). Í henni talar hann á einum stað um „Bloomsday“ og á við dag sem er fullkomlega dokumenteraður niður í minnstu smáatriði. Það er ekki nýtt fyrir mér að fólk tali þannig um Ulysses, að hún sé þessi dagur – 16. júní, 1904 – dokumenteraður í drep. Og Joyce sagði sjálfur að Dublin mætti endurbyggja frá grunni út frá síðum Ulysses. Til að gera langa sögu stutta þá er brandarinn fyndinn en bæði auðvitað þvæla. Það er af og frá að við vitum allt sem gerist í lífum (eða hugum) Leopolds Bloom og Stephen Dedalus þennan dag – við vitum ekki einu sinni allt sem á daga þeirra drífur. Bæði eru eyður – kaflarnir byrja ekki allir þar sem síðasta lauk, og tímasetningin er stundum svolítið á reiki – og svo er gjarnan bara fylgst með öðrum þeirra. Við vitum kannski hvar hinn er á meðan en ekki endilega hvað hann er að gera eða segja. Aukinheldur eru kaflar þar sem skilningarvit þeirra eru brengluð og aðrir þar sem lýsingarnar á því sem þeir eru að gera eru með slíkum stíllegum heljarstökkum að sá sem segist hundrað prósent viss um hvað hafi átt sér stað – í jarðbundnasta skilningi dokumentasjónar – er að ljúga.
Joyce sækir á djúpið – hann er ekki að kortleggja einn dag eða einn mann eða eina borg. Hann er að kortleggja hræringarnar í innra lífi tveggja manna – og meira að segja sú kortlagning er gloppótt þótt hún sé impónerandi í umfangi sínu.
***
11 dagar í Tom Waits endurtekt. 12 dagar í fyrsta Svíþjóðartúr – með bókamessunni í Gautaborg. Einn mánuður og þrír dagar í maraþon. Eftir það fer ég í tveggja vikna útlegð til þess að einbeita mér að næstu bók. Og svo aftur á flakk. Einhvern tíma verður svo allt rólegt.
Einsog það er nú rómantískt að vera sveltandi listamaður þá er satt best að segja óþolandi að vera blankur. Og óþolandi að horfa á tekjustofna sína þorna upp og óþolandi að þurfa að nota ömurleg orð einsog „tekjustofnar“ til þess að tjá gremju sína. Óþolandi að hugsa um tekjustofna.
Ég fæ greitt fyrir bóksölu – sem er hverfandi, einsog allir vita, það les andskotans enginn neitt lengur. Og til þess að einhverju muni um tekjur af bóksölu þarf eiginlega að gefa út metsölubók á hverju einasta ári. Á 25 árum hef ég gefið út tvær slíkar og kannski gef ég aldrei út aðra.
Ég fæ greitt fyrir lán af bókasöfnum – bókasafnssjóður (og þar með tekjur mínar af þessum útlánum) hefur dregist saman um 45% frá 2021. Nú næ ég ekki 100 kalli fyrir hvert útlán – sem þýðir að „díllinn“ er næstum verri en Storytel-díllinn. En díllinn við bókasafnssjóð er enginn díll – fjármálaráðherra ákveður bara með pennastriki hvað hann nennir að borga okkur á hverju ári.
Ég fæ (stundum) greitt fyrir upplestur. En oftast ekki og oftast þegar ég fæ greitt er það langt undir taxta. Og ég fæ gjarnan líka að borga ferðalög og gistingu úr eigin vasa – a.m.k. ef það er innanlands og 100% ef það er til höfuðborgarinnar sem ég þarf að fara.
Greiðslur fyrir greinarskrif eru svo til ALLTAF langt, langt, langt, langt, langt undir taxta – sama gildir um greiðslur fyrir smásögur eða ljóð.
Ég fæ listamannalaun – sem voru víst einhvern tíma miðuð við lektorslaun en eru nú, eftir kostnað, lægri en lágmarksnámslán. (Já, lágmarks-námslán). Og restin – sem á að bólstra þetta upp í bærilegar tekjur fyrir mann sem langar að láta einsog hann tilheyri millistéttinni – er eiginlega ekki að verða að neinu. Listamannalaun eru svo ákveðin einu sinni á ári – og ef maður fær þau ekki er þetta ekki gerlegt nema maður eigi hátekjumaka eða einhvern annan að sem getur gert mann út. Sem ég á ekki.
Nú hljómar þetta kannski einsog mér gangi illa. En það er nú það sem er svo undarlegt við þetta allt saman. Í samanburði við langflesta kollega mína gengur mér nefnilega VEL.
***
Ég bið alla nema valdið velvirðingar á þessu ranti. Það er kalt og ég er þreyttur og gramur.
Ætli það sé ekki aldurstengt hversu oft hugsanir mínar þessa vikuna hafa hvarflað til móður Jeppes og Patricks Pedersena. Annar skoraði sögulega fallegt mark og varð bikarmeistari með Vestra á meðan hinn sleit hásin með Vali. Og mamma þeirra hefur þurft að hringja í þá báða eftir leikinn. Ekki veit ég hvað það segir um innlærða kynjatvíhyggjuna að ég hafi ekki sömu áhyggjur af pabba þeirra. Eða hinni mömmu þeirra?! Pöbbum þeirra? Fósturstjúpum þeirra og framkvæmdastjórum danskra munaðarleysingjahæla? Ekki veit ég neitt um fjölskylduaðstæður þeirra annað en bróðernið – ég dreg mínar ályktanir af einhverjum tölfræðilegum líkindum. En þetta hlýtur að vera sárt og sætt. Og sárt og sætt. Og svo aftur sárt og svo aftur sætt.
Ég sá stutt brot með Snorra Mássyni á einhverjum samfélagsmiðlana á dögunum þar sem hann sagðist vera eðlishyggjumaður en dró svo í land með það – sagði eitthvað í þá veru að orðið væri í sjálfu sér fáránlegt, eðlishyggja, af því það fæli í sér efa á tilvist eðlisins. Og einsog við vitum öll er eðlið sjálfsagður sannleikur. Þetta hlægði mig svolítið. Ekki af því það sé enginn hluti tilvistar okkar bundinn við eðli – það er eðli okkar að þurfa öryggi og hamingju til dæmis. Og svo höfum við persónubundið eðli sem við látum stundum einsog sé almennt. Einsog að það sé eðli okkar að leita ástar og elska. Það á við um okkur langflest en ekki öll – það er eðli en það er ekki sammannlegt eðli. En það sem Snorri var að tala um, hafi ég ekki misskilið – þessi síbyljandi áróður internetsins er aldrei skýr og yfirleitt horfinn um leið og hann birtist – var kynhegðun. Að karlar séu stórir og sterkir vöðvaverndarar og konur séu hlýjir og kærleiksríkir umönnunarverndarar. Karlar kýla illmenni, konur setja plástra á börn. Því jafnvel þótt maður samþykki að tilhneigingar hópanna séu í þá átt og hafi verið á liðnum öldum þá er hlægilega vitlaust að halda að það í sjálfu sér sýni að það sé ekki lært. Alveg svona ég-féll-þrisvar-í-félagsfræði-103-vitlaust. Og þótt sanna mætti að fræið að tiltekinni hegðun – við erum að tala um hluti einsog að varalita sig og finnast gaman í byssó – væri „eðli“ (í merkingunni eitthvað sem allir fæðast með) og það væri ekki lært frá grunni þá gæti það verið lærdómur sem ýtir undir og nærir vissar tilhneigingar svo þær vaxi umfram það sem þær myndu gera annars – og það er ekkert sem segir að allt sem er í eðli okkar sé eitthvað sem við viljum næra. Við erum skepnur – hugsandi og elskandi – en við erum samt skepnur. Það sem hefur okkur yfir aðrar skepnur, á góðum degi, er hæfileikinn til þess að beisla það versta í eðli okkar – ekki hæfileikinn til þess að láta það stýra okkur.
Auk þess ætti að vera augljóst að að því marki sem við fæðumst með eðli þá er það ívið fjölbreyttara en að karlar vilji fara í byssó og konur varalita sig. Þegar ég var lítill voru áreiðanlega margir sem ályktuðu sem svo að það væri ekki í „eðli“ kvenna að spila knattspyrnu – þær hefðu einfaldlega ekki áhuga á því. Þær stelpur sem það gerðu voru kallaðar strákastelpur og töldust áreiðanlega vera að stríða gegn eðli sínu. Sem er fáránlegt konsept. Því það sem strákastelpurnar voru að gera var að fylgja eðli sínu – fótboltinn kallaði á þær og þær hlýddu kallinu – rétt einsog strákarnir sem varalita sig heyrðu snyrtidótið hvísla. Og hvorugt segir neitt um að það sé meðfætt eða lært eða að hluta meðfætt og að hluta lært – það er bara alls konar og skiptir engu andskotans máli. Maður fær það frá ömmu sinni heitinni og maður fær það frá vinum sínum og maður fær það úr útvarpinu og með móðurmjólkinni og á síðkvöldum úti í skúr með afa. Byltingin sem hefur orðið á síðustu árum – og er enn að verða – er að mörgu leyti mjög sjálfhverf og einstaklingsmiðuð, sem hefur kosti og galla sem við getum alveg rætt, en hún snýst um að hver manneskja fái að fylgja sínu eigin eðli frekar en að neyðast til að troða sér í eðlis-boxin sem menn einsog Snorri Másson vilja sníða þeim (og jájá, ég heyrði líka „mér er alveg sama þótt fólk sé trans heima hjá sér rökin“ – þau eru ekki sannfærandi).
Einu sinni fannst mér hv´ítt pasta betra en heilhveitipasta. Svo fannst mér heilhveitipasta betra. En nú finnst mér hvítt pasta aftur betra en heilhveitipasta. Ekki veit ég hvað veldur. Annars er heilhveitibransinn hálfgert svindl. Það er oft ekki nema 10% heilhveiti í heilhveitivörum – restin er bara hvítt hveiti.
Ég ætla að gera salsiccia-pasta í kvöldmat. Bara inni samt. Ég er einn heima – stelpurnar eru að fara í sumarbústað. Svo ætla ég að horfa á úrslitaleik Mjólkurbikarsins á risaskjá á Silfurtorgi. Vestri-Valur. Og þaðan hleyp ég beint á djasstónleika í Edinborg – Osgood/Blak/Poulsen tríó. Á morgun í sama húsi verður svo black metal með Chögma og rokk með ísfirsku sveitinni Paranoid. Svissneska djasssveitin Quiet Tree verður á miðvikudag. Og á laugardag verður Pavement fögnuður – bíómynd um þessa frægu indísveit (sem ég sá á Hróarskeldu fyrir 15 árum) sýnd í Ísafjarðarbíó með Q&A við Bob Nastanovich úr sveitinni og svo tónleikar með Reykjavík! (og vinum) um kvöldið sem lýkur með dj-setti frá Nastanovich. Svo fer nú áreiðanlega að róast um eftir frekar rosalegt tónlistarsumar.
Heimska kom út í Póllandi í vikunni og Náttúrulögmálin er komin úr prentun í Svíþjóð – en kemur ekki út formlega fyrren 1. september. Mér gengur aldrei þessu vant ágætlega að skrifa – er bæði að skrifa nýja(r) skáldsögu(r) og reyna að búa til leikrit úr Náttúrulögmálunum. Það er sólskin dag eftir dag – ég elda mat á pallinum við borðið sem ég smíðaði í sumar. Spila á kontrabassann minn og hef það bara mjög gott, takk fyrir.
Þessir frjósemisuxar áttu sér einskis ills von. Brot úr mynd eftir Palazzo Poggi (1556).
Mark me now. In woman’s womb word is made flesh but in the spirit of the maker all flesh that passes becomes the word that shall not pass away. This is the postcreation.
Stephen Dedalus í Oxen of the Sun
Oxen of the Sun er sá kafli Ulysses sem almennt er álitinn erfiðastur aflestrar. Hann gerist á ellefta tímanum þennan sögufræga dag – 16. júní, 1904 – á fæðingarheimilinu við Holles stræti. Í Hómerskviðu koma Ódysseifur og menn hans að eyju sólguðsins Helíosar, Þrínaksey, sem mér er sagt að sé sama og Sikiley. Kirka og Tíresius hafa þá bæði varað Ódysseif við því að eiga nokkuð við búpeninginn á eyjunni, sama hversu mikil svengd sæki að þeim, og alls ekki uxana, sem séu helg frjósemistákn. Best sé raunar að forðast eyjuna með öllu. Þeir enda nú þar samt og Ódysseifur tekur orð af sínum mönnum að þeir láti skepnurnar í friði áður en hann fer sjálfur í leiðangur lengra upp á land og sofnar þar. Ef það er einhver regla í svona mýtólógískum skáldskap ófrávíkjanlegri en allar hinar ófrávíkjanlegu reglurnar þá er það reglan um að sé búið að vara við einhverju verði það augljóslega að eiga sér stað. Mennirnir éta uxana – saurga frjósemistáknin. Ódysseifur vaknar, kemur aftur, trompast, þeir reyna að flýja en Seifur skellir í svo hressilega brælu, þrumur og eldingar, að Ódysseifur kemst einn lífs af, líkt og Kirka hefur spáð fyrir um. En hún sagði líka, sem rætist, að verði nautin ekki látin í friði verði heimför hans erfið og tímafrek. Hómer rekur næst á land hjá Kalypsó sem heldur honum föngnum í sjö ár.
Af og til í gegnum söguna hingað til höfum við fengið fréttir af Minu Purefoy sem er á fæðingarheimilinu að eiga sitt tólfta barn og hefur verið ´i hríðum í þrjá sólarhringa. Hún er fjölskylduvinur Bloom hjónanna og þangað hefur Leopold Bloom ákveðið að halda til þess að líta til með henni – þótt það sé hvergi sagt berum orðum má samt geta sér þess til að hann sé nú aðallega að fara þangað af því hann kvíðir því að fara heim (þar sem Molly hefur nýlega legið með Blazes Boylan). Þegar þangað kemur hittir hann fyrst hjúkrunarkonu, fyrrum nágranna sinn, sem heitir Callan. Hún segir honum að fæðing frú Purefoy sé að reynast sú allra erfiðasta sem hún hefur orðið vitni að. Þá kemur líka fram að kunningi þeirra, læknir einn, hafi látist úr magakrabba (bókstaflega „bellycrab“), að síðast þegar þau Bloom hafi hist hafi Bloom láðst að heilsa og að á biðstofunni sé talsvert af mönnum við skál. Þar reynast vera komnir þeir Stephen Dedalus og Lenehan auk hóps læknanema, Dixon, Madden, Lynch, Crotthers og Punch Costello. Buck Mulligan mun vera á leiðinni.
Nú spyr maður sig hvers vegna menn séu á fylleríi á fæðingarheimili. Svarið er auðvitað: af því það er bannað. Af því það er jafn bannað og að borða helga uxa. Stephen, Lenehan og læknanemarnir eru þarna til þess að saurga helgi frjóseminnar. Og tekst það ágætlega – þeir eru orðnir vel við skál og hafa enda drukkið lengi, þegar hér er komið sögu, og eru þess utan síns tíma Írar, yfirlýsingaglaðir og hrokafullir og erfiðir og oft mjög skemmtilegir líka. Bloom hins vegar, einsog sá vitri Odysseifur sem hann er, laumar alltaf bjórnum sem honum er skenkt yfir í næsta glas.
Megnið af kaflanum er síðan lýsing á samræðum þessara manna, þar sem margt ber á góma en ekki síst frjósemismál – getnaðarvarnir og siðferðisspurningar tengdar barnsfæðingum, einsog hvort eigi að bjarga móður eða barni ef ekki er hægt að bjarga báðum (reglan í kaþólsku Írlandi er að bjarga barninu en piltarnir eru sammála um að það sé rangt og heldur ætti að bjarga móður), um vanhelgun lífsins með sóun sæðis (sjálfsfróun, kippingum eða öðru), hvernig megi uppfylla jörðina (Buck býðst til þess að setja á fót sérstaka stofnun sem hafi þann eina tilgang að styðja hann í að sæða konur). Og svo framvegis.
Ekkert af þessu gerir kaflann sérstaklega erfiðan. Það er annað. Honum er skipt upp í þrjátíuogtvo paródíska þætti – í níu skeiðum – sem hver hefur sinn eigin stíl – og er ferðast í gegnum tímann úr rómverskum bænaköllum í gegnum enska bókmenntasögu fram til Ulysses og leysist svo upp í kaotískt fylleríssröfl. Þessir þættir eru miserfiðir aflestrar en allir snúnir. Sá fyrsti er bara stutt kall: Deshil Holles Eamus – í þrígang. Fyrsta orðið er úr gelísku, annað úr ensku og þriðja latínu – höldum nú réttleiðis á Holles (fæðingarheimilið). Þá kemur aftur þríkall – ákall til fæðingarlæknisins (sem heitir Horne): Send us bright one, light one, Horhorne, quickening and wombfruit. Og loks þriðja þríkallið – svo kallað „gender reveal“ eða kynjaveisla: Hoopsa, boyaboy, hoopsa.
Þar á eftir taka við tveir kaflar sem mér skilst á mér fróðari mönnum að beri þess merki að hafa verið samdir á latínu og svo hráþýddir á ensku án tillits til beyginga – svona lékum við okkur stundum með þegar fyrstu þýðingarvélarnar voru að birtast upp úr aldamótum, að afmynda texta með því að færa hann vélrænt frá einu tungumáli yfir á annað. Það er ekki hlaupið að því að fá merkingu í þessar tvær löngu málsgreinar en innihaldið er eitthvað á þá leið að vísindin séu stórfengleg og ekki síst gelísk vísindi og þau auðgi þjóðlífið og fæðingar séu frábærar og vísindin hafi gert þær auðveldari og standi vörð um lífið. Áfram Írland, áfram vísindi, áfram barneignir.
Á þriðju síðu birtist okkur svo skiljanlegri texti en svolítið ofstuðlaður – „Before born babe bliss had“ og fljótlega sjálfur Bloom:
Some man that wayfaring was stood by housedoor at night’s oncoming. Of Israel’s folk was that man that on earth wandering far had fared. Stark ruth of man his errand that him lone led till that house.
Þetta mun vera í anda enska rithöfundarins Elfríks frá 11. öld. Þessi stíll fylgir okkur í gegnum fundinn við Callan hjúkrunarkonu sem er nefndur hér að ofan. Þá er skipt yfir í miðensku (middle english) og svo ferðasögustíl miðalda, artúrskan ævintýrastíl, sagnakrónikustíl Elísabetartímans, miltónsku, Bunyan, 17. aldar dagbókarstíl, Defoe og Swift og svo gamlan dagblaðastíl – og svo framvegis, de Quincy og Dickens, Edmund Burke, Charles Lamb og fleiri koma við sögu sem stílfyrirmyndir. Hverjum nýjum stíl fylgja ekki bara ný orð, orðaröð og myndmál heldur sveiflast raunveruleikinn líka til að einhverju leyti. Í miðenskunni verður spítalinn til dæmis kastali og læknanemarnir „learning knights“ (sem er hugtak sem SAM þýðir einfaldlega sem „knapi“ – Erik Anderson í nýlegri sænskri þýðingu hefur það „lärosven“) – og þegar Bloom og Dixon hittast rifjar Bloom upp þegar hann þurfti nýlega að leita sér aðstoðar við illvígri býflugnastungu, sem hefur komið fram áður. En af því þetta er þá í ferðasögustíl miðalda verður býflugnastungan að holundarsári eftir ægilegan dreka. Og þessi riddari lærdómsins, Dixon, reddaði honum sem sagt góðu smyrsli við drekastungum.
Mér finnst frekar erfitt að fara að telja upp allt sem kemur við sögu í kaflanum – ekki beinlínis vegna torlæsisins, ég er líka með handbækur sem þylja þetta allt upp, heldur vegna þess að ég veit ekki alveg hvaða tilgangi það myndi þjóna og það yrði fljótt jafn langt og kaflinn sjálfur. Oxen of the Sun er allur skrifaður af feykimikilli íþrótt – það er svona sem rithöfundar flexa í speglum, og ekkert flex hef ég lesið sem stenst samanburð við þetta – og hann er ekki leiðinlegur aflestrar þótt hann sé erfiður, eiginlega þveröfugt, ég er ekki viss um að hann væri mjög skemmtilegur ef hann væri ekki svona erfiður. Maður á í allt öðruvísi sambandi við erfiðan texta – eitt af því sem gerir hann erfiðan eru reyndar stílskiptin sjálf, maður týnir alltaf þræðinum strax og tónninn breytist (og oft án þess að átta sig á því að það er það sem hefur gerst). Það er einsog maður sé að reyna að túlka textann með verkfærum sem úreltust fyrir fimm setningum síðan. Svo setur maður sig í nýjar stellingar og byrjar aftur þar sem þráðurinn slitnaði.
En hvað er það sem verður að taka fram? Feðrunarþemað er ítrekað en verður líka mæðrunarþema þegar frelsarinn kemur til tals – því þótt María hafi augljóslega vitað að hún fæddi Jesú þá er mikilvægt að spyrja (segir Stephen) hvort hún hafi vitað að hann væri Kristur, af því ef hann er Kristur er hann líka hluti þríeins Guðs og þar með einnig skapari himins og jarðar og þar með hefur María afrekað að skapa það sem skapaði hana (Stephan sagði eitthvað svipað um Shakespeare, að hann væri „father of all his race“).
Talsverðu púðri er eytt í frjósemisumræður, uppáferðasögur og þvíumlíkt og misjafnt eftir stílnum hvar áherslan liggur því með stílunum birtist líka ákveðin dýnamík í siðferði. Sumum stílum fylgir grófur húmor en öðrum siðferðisleg viðkvæmni og harka – eða jafnvel svona helg viðkvæmni, að það megi ekki spilla sæði og svo framvegis. Þannig fylgir stílskiptunum rof sem hentar illa svona línulegri frásögn af kvöldsumbli – sögupersónur skipta um ham – en lýsa kannski díalektískum breytingum í hinni sögunni sem er verið að segja, sem er saga enskrar tungu fram á daga Joyce (og þar með saga þess sem skrifað er, sem hlýtur að markerast af því siðferði sem maður vill framfylgja).
En ég tek þetta líka a.m.k. hálfvegis til baka – kannski hentar þessi stílóróleiki líka ágætlega línulegu frásögninni – hún lýsir þá algerum og ístöðulausum rugludöllum vel við skál. Sem þeir eru.
Í hinu hómerska samhengi má halda því til haga að þótt Stephen og félögum sé hér uppstillt sem hinum bersyndugu og vanhelgandi meðreiðarsveinum Odysseifs og Bloom sem hinum vitra og heiðvirða manni, þá er okkar góði Bloom auðvitað nýbúinn að rúnka sér í buxurnar fyrir framan stálpaðan ungling (sjá síðasta kafla – Gerty er 18 ára, Bloom 38). En hann hagar sér vel á fæðingarheimilinu.
Þegar Buck Mulligan birtist hefur hann með með sér mann sem heitir Bannon. Sá fer strax að segja sögur af Milly (dóttur Bloom-hjónanna) og inn í þær blandast ráðleggingar um hvernig sé best að útvega sér verjur og það má ímynda sér af þeim að Bannon ætli sér eitthvað með Milly (hann veit – sennilega – ekki að Bloom er pabbi hennar eða að Milly er, einsog við vitum, að gera sér dælt við annan mann). Rudy, sonur þeirra hjóna, kemur líka við sögu þegar Bloom hugsar um jarðarför hans og sorg Mollyar. Ég held ég fari með rétt mál þegar ég segi að það sé lítið eða hreinlega ekkert um Blazes Boylan og Molly í þessum kafla. Sem er ekki einsdæmi en sjaldgæft í þeim köflum þar sem á annað borð er dvalið við hugsanir Blooms (í þessum kafla er samt ekkert vitundarflæði, þótt kaflinn sé kaotískur, og því kannski ekki sama aðgengi að dýpstu hugsunum Blooms eða annarra).
Fljótlega eftir að Callan hjúkrunarkona kemur og sækir Dixon og þeir fá að vita að frú Purefoy sé búin að eiga verður Bloom skyndilega mjög dómharður – sérstaklega í garð Punch Costello, en þær lýsingar gætu allt eins átt við hina, ekki síst Stephen (og kannski rímar þetta við áhyggjur Simons Dedalusar, eiginlegs föðurs Stephens, af félagsskapnum við Buck, sem sé að spilla Stephen). Svo kemur kafli þar sem Buck gerir stólpagrín að Haines (enska írlandsfetisjistanum sem býr hjá þeim í Martello-turni).
Listin kemur af og til upp – hér sjáum við skýrast aftur þann Stephen sem við þekkjum úr The Portrait of the Artist as a Young Man, ofsafengna hugsjónamanninn. Listin er öllu æðri – líkamleg frjósemi mannsins er bara til þess að viðhalda andlegri frjósemi hans. Hér verður manni hugsað til þess óþols sem sumir (sumar?) hafa fyrir því að listamenn eða rithöfundar noti fæðingar- og meðgöngulíkingar yfir sköpunarferli sitt – Stephen myndi kannski taka undir úr hinni áttinni, fæðingar og meðgöngur séu hreinlega ekki nógu merkilegar til samanburðar við það að skapa raunverulegt listaverk.
Stephen og Bloom byrja hér að draga sig saman og munu fylgjast að í næstu köflum, föðurlaus sonur og sonarlaus faðir verða andlegir feðgar, að minnsta kosti það sem eftir lifir nætur. Bloom rifjar upp að hafa séð Stephen í veislu þegar hann var 4-5 ára gamall og speglar hann í Rudy.
Þegar Bloom birtist í upphafi kaflans er þrumuveður í aðsigi. Þegar það svo brestur á – með miklum miðaldabravúr í textanum – verður Stephen dauðskelfdur og Bloom reynir að hughreysta hann, án árangurs. Það er vel að merkja vitað að Joyce óttaðist fátt einsog þrumuveður. Og þrumuveður er líka það sem grandaði mönnum Odysseifs.
Við lok kaflans hrópar Stephen að þeir skuli drífa sig á Burke’s – sem er pöbb (nema hvað). Þangað koma þeir (með Bloom með sér) tíu mínútum fyrir lokun, panta tvo umganga og er svo sparkað út. Það kemur ekki fram hvort þeir hafi náð að klára drykkina, tekið þá með sér eða hvort áfengið á fæðingarheimilinu hafi klárast en það gæti líka verið að þeir hafi farið á pöbbinn í makaleit – ungt fólk drekkur (eða drakk) gjarnan í „heimahúsi“ eins lengi og það kemst upp með, af því það er dýrt í samanburði að drekka á börum, og stímir svo á síðustu stundu beint í korter-í-þrjú stemninguna til þess að eiga í það minnsta örlítinn séns. Eitt sem styður þá kenningu mína að áfengið hafi runnið í klofið á ungviðinu er að það fyrsta sem þeir gera þegar búið er að henda þeim út á götu er að ákveða að halda í rauða hverfið. Nighttown. Þar gerist næsti kafli – Kirka – sem er laaaaaanglengsti kafli bókarinnar og ekki endilega auðlesinn heldur (en ef minnið bregst mér ekki er þetta eitthvað viðráðanlegra eftir það).
Ég man mjög vel þegar Leevi Lehto heitinn, vinur minn, var að þýða Oxen of the Sun á finnsku og reyna að útskýra fyrir mér hvað það væri hellað að ætla að þýða eitthvað á finnsku í stíl sem ætti að eiga sér samsvörun í t.d. 11. aldar ensku – og hvernig Leevi væri þess í stað að gera það eina sem honum fannst meika sens og láta söguna á bakvið söguna í finnsku þýðingunni snúast um sögu finnskrar tungu en ekki enskrar, og þýða þá „aðferðina“ sem slíka og leita dæma í gamalli finnsku, til þess að hafa til hliðsjónar í stað ensku dæmanna. Ég man ekki hvaða dæmi hann tók, þótt hann hafi sagt mér það, og gæti ekki flett því upp því ég kann ekki finnsku – en sá stóri munur er á ensku og finnsku að finnskt ritmál á sér enga eiginlega sögu fyrir 16. öld.
Til gamans er hér að lokum smá samanburður á frumtexta, þýðingu SAM og þýðingu Eriks Andersonar. Þetta er lýsing á sardínum í dós (sem eru þarna á borðinu hjá piltunum sem partínasl).
And there was a vat of silver that was moved by craft to open in the which lay strange fishes withouten heads though misbelieving men nie that this be possible thing without they see it natheless they are so. And these fishes lie in an oily water brought there from Portugal land because of the fatness that therein is like to the juices of the olivepress.
JJ
Og þar var skrín af silfri sem með töfrum opnað varð og í lágu fágætir fiskar hauslausir þósvo efunargjarnir menn neiti að trúa að orðið geti fyrren þeir eigin augum sjá að svo er því farið. Og fiskar þessir liggja í olíubornum legi sem fluttur var þangað úr landi Portúgala og er svo feitur að honum má jafna til smjörsins sem úr ólífupressum kemur.
SAM
Och ett silverne kar fanns som blott kunde öppnas med förslagenhet i vilket där lågo märkeliga fiskar utan huvuden så att tvivlande män förneka att detta är möjligt om de ej få se det men icke desto mindre är det så. Och dessa fiskar ligga i ett oljigt vatten hitfört från Portugallien för den fettnad som finns däri liksom olivpressens safter.
EA
* * *
Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar.
Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.
Það er endurtekið efni að fólk játi á sig að finnast eitthvað ekki skemmtilegt sem öðrum finnst skemmtilegt, sérstaklega í tónlist. Ég hef nú aldrei þolað Bítlana/Bob Dylan er sjálfsagt algengasta formið af þessari íþrótt. Ég rakst á tvær svona sennur í vikunni, annars vegar sagðist rithöfundurinn (bankamaðurinn?) Sverrir Norland ekki fíla Tom Waits og einhverja fleiri tónlistarmenn – ég er svo sjúkur Tom Waits aðdáandi að mér sortnaði bara fyrir augum og missti alveg af því hverja aðra hann fílar ekki. Hitt var grínistinn Bill Burr ásamt einhverjum vini sínum á YouTube að tala um vinsæl en óþolandi lög – þar sárnaði mér líka eitt og annað, Blister in the Sun er kannski ekki besta lag Violent Femmes og áreiðanlega ofspilað, en það eru nú margir sem verðskulda svona spark meira en þeir (þær?).
Jú og svo sat ég í gömlum vinahóp fyrir nokkrum vikum þar sem fór mikið púður í að ræða hvað hitt og þetta væri leiðinlegt og ofmetið – bíómyndir og tónlistarmenn aðallega.
Hvað um það. Ég er ekki illa haldinn af neinu svona óþoli sem er ekki nánast úniversal – getur einhver hlustað a Lemon Tree lengur? Mmm mmm mmm? Don’t Speak? Kannski er það persónubundnara en ég hef talið hingað til – ég veit það ekki. En svo hljóta svona „ofspiluð“ lög líka að hverfa með annarri útvarpshlustun. Hvað er yngsta raunverulega „ofspilaða“ lagið? Shake it off? Eurovision lögin? Raunar segir það talsverða sögu að fari maður á ball með til þess gerðu ballbandi eru litlar líkur á því að bandið spili lag sem er yngra en 10-15 ára. Kannski eitt (Shake it off? Það er 11 ára). Á gullöld ballbandanna – segjum 1987 til 1997 – voru áreiðanlega sjaldan spiluð lög sem voru eldri en 15 ára. Og sveitaballaböndin spiluðu bara líka Rage Against the Machine ef þeir skriðu upp vinsældalistana (sem er ástæðan fyrir því að Eyþór Arnalds getur sungið það á valdeflingarsamkomum Sjálfstæðisflokksins, einsog það væri Piano Man með Billy Joel (sem er frábært lag!)).
Altso – við eigum enga sameiginlega poppupplifun lengur og þar með hverfa bæði súperhittararnir sem lifa af og þeir sem hverfa í mók vandræðaleikans og heiftarský óþolsins. Eftir sitja einhverjar svona opnar spurningar – hefur þú heyrt í Viagra Boys? Wet Leg? Hvað er þetta Benson Boone?
Það eru svo sem til gamlar vinsælar hljómsveitir sem ég hef ekki náð sambandi við. Oasis til dæmis. En það er alls ekki þannig að mér standi ekki á sama þótt öðrum finnist hún skemmtileg – og ekki heldur þannig að ég skipti um rás ef hún kemur í útvarpinu. Fínt band. Svo er alls konar dót sem ég hef reynt að hlusta á í gegnum börnin mín. Það var þarna Imagine Dragons tímabil sem var dálítið erfitt. Og tónlist sem er samin fyrir börn – það er furðu mikið af því metnaðarlaus leiðindi. Alls ekki allt auðvitað – en það er hægt að ná athygli barna með því að keyra froðuna bara í botn. En það er svo blessunarlega músík sem þau gleyma hratt sjálf (einsog við gleymum megninu af öllum poppkúltúr – þess vegna finnst okkur horfnir áratugir svona glimrandi fínir, við munum bara gullin en ekki innanhola síbyljuna).
Annars er ég líka viðkvæmur fyrir þessu. Þegar fólk segist ekki fatta mína eftirlætis tónlist – hvort sem það eru Guns eða Waits eða Son House eða Art Blakey. Ég þarf meira að segja að verja – sjúgandi upp í nefið – tónlist sem er augljóslega búið að útjaska. Mér finnst nú Piano Man bara fínt lag. Ég fór á Green Day og Weezer tónleika í sumar með Aram og hef hálfskammast mín fyrir hvað mér fannst það gaman. Líka á Green Day segi ég þegar vinir mínir fitja upp á nefið. Sumum þeirra finnst svo alveg jafn ómögulegt af mér að finnast gaman á einhverjum tilraunadjassi. Ég er engin alæta á músík, ég laðast að því sem ég laðast að og held hinu frá mér, en ég hef frekar breiðan smekk og ég hef áhuga á tónlistarsögu og því að mennta sjálfan mig, skilja hvað það er sem ég fíla og hvernig tónlistarheimur minn getur stækkað – hvernig fagurfræðin hangir saman (þess vegna finnst mér allt með Tom Waits skemmtilegt – af því það hangir saman, hvert einasta lag segir eitthvað um hin – ég hef ekki þannig áhuga á öllum tónlistarmönnum en ég held að það ættu allir að eiga a.m.k. einn þannig eftirlætis listamann).
Á hinn bóginn hef ég getað verið mjög esóterískur og dómharður í málum ljóðsins – og finnst margt af því sem er haft í miklum metum vera mjög ómerkilegt. Þar er mikið leitað í lága samnefnara – að fella ódýrar keilur og predika fyrir kóra. Ég er hins vegar nær alveg hættur að tjá mig um það og kannski hreinlega hættur að spá í því. Á löngu tímabili las ég alveg óhemju af ljóðum – öllu sem ég komst í – einsog maður sem spænir sig í gegnum mykjuhaug í leit að gylltum tannstöngli. Og lét mykjuna fara í taugarnar á mér. Nú leita ég miklu minna – pirra mig minna en það er líka færra sem kemur mér á óvart. Les bara það sem ég veit að gleður mig.
Ég er enn í hægagangi. Hugsanlega var ég bara lasinn í dag. Aram Nói fór í morgun – hann ætlar að vera eitt ár í Svíþjóð, fyrsta árið í menntaskóla. Ég er ekki frá því maður verði lasinn af því að missa son sinn að heiman. Ég þurfti allavega að fá mér langan lúr eftir hádegið. Einsog tappinn hefði verið tekinn úr mér. Þetta heitir víst að verða fyrir geðvefrænum áhrifum. Ég segi síkósómatískt áfall en það er talmál og þetta er ritmiðill og því heitir það geðvefræn áhrif.
Helgin var á hlaupum. Act Alone á Suðureyri en ég þurfti að spila – með ánægju, þetta „þurfti“ er ekki alveg heiðarlegt, þetta var ekki herskylda – í djassbandi í fertugsafmæli Lísbetar vinkonu minnar. Ég náði fimmtudeginum á Actinu – þar sem Bernd Ogrodnik kom m.a. fram og var hreint ótrúlegur – æfði með djassbandinu allt föstudagskvöldið og renndi svo yfir í skáldastund með Óskari Árna á laugardeginum en þurfti að fara snemma til að verða ekki seinn á giggið sem stóð með hléum frá 18 til 23.
Ég get með góðri samvisku sagt að ég hafi kunnað annað hvert lag. Þriðja hvert mátti svo svinga en fjórða hvert fór út í skurð – en þá voru færari menn en ég í þessu bandi sem héldu lögunum á floti. Og svo var þetta afmæli og fólk að syngja mest fyrir gamanið – eiginlega var það bakgrunnsmúsíkin sem var mest æfð og sem rann ljúfast. Visa från Utanmyra, Blue Bossa, Fly me to the moon, Norðurljósablús og fleira þesslegt. Ég þarf að bæta svolítið lagalistann hjá mér, læra fleiri lög og æfa mig í að lesa s.k. lead sheet – ég spjara mig alltaf nokkra takta en villist svo gjarnan, stundum af því ég kann ekki fingrum mínum forráð og vil spila flóknari hluti en ég ræð við.
Úr fertugsafmælinu fórum við hjónin á tónleika hjá Aram Nóa og Axel vini hans – sem kalla sig Ulla. Það var í Tjöruhúsinu, hart rokk – trommur og bassi, þeir skiptust á að syngja en fengu líka gestasöngvara. Og ferfalt uppklapp. Enduðu á hópsöng í Gúanóstelpunni, sem var viðeigandi af því Mugison og Rúna – sem sömdu lagið með Ragnari Kjartanssyni, og áttu heima í næsta húsi þar til fyrir skemmstu, voru að gifta sig þetta sama kvöld.
Á sunnudeginum var kveðjukvöldverður fyrir Aram. Í gær var slakað á en í kvöld fórum við Aino á nýjan farsa sem Ísleikhúsið setti upp í Edinborgarhúsinu – „Til hamingju, þú varst að eignast Ísfirðing“. Það var stórskemmtilegt. Á morgun ætlum við að horfa á fyrstu Hungurleikamyndina – Aino er að klára að lesa þriðju bókina og hefur beðið í ofvæni eftir að fá að horfa á myndirnar. Á fimmtudag ætla ég á ADHD – en Ásta vinkona mín er líka með spilunarpartí, einhvers konar hjólaferð um bæinn sem endar með diskói bakvið slökkvistöðina, og svo er uppistand í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal. En ég ætla að skrópa á því báðu og fara á ADHD af því maður getur ekki gert allt og verður að velja. Á föstudag fer ég að hjálpa vini mínum að tyrfa eftir vinnu og fram á kvöld, vænti ég. Veit ekki með laugardag – allavega kvöldið, ég ætla í 26 km langhlaup yfir daginn – en á sunnudag ætla ég á Ástin sem eftir er, nýju myndina hans Hlyns Pálmasonar.
Annars þarf ég að finna einhvern tíma fljótlega til að kjarna mig, einsog þeir segja í sjálfshjálparbókunum. Áður en ég leysist upp.
Ég hef aldrei áttað mig alveg á kallinu eftir því að innflytjendur eða hælisleitendur eða flóttamenn sem brjóti af sér missi dvalarleyfið – hvað þá að fólk sem hefur hlotið ríkisborgararétt missi hann við tiltekin brot. Ég átta mig bara ekki á því hvernig þetta tvennt hangir saman. Og finnst svona almennt að eitt eigi yfir alla að ganga – og sömu reglur að gilda. Að ef ég, sem íslenskur gangster, lendi í ofbeldisfullum útistöðum við erlendan gangster – þá meiki lítið sens að hann verði „sendur heim til sín“ en ég fái bara að halda áfram að terrórísera nágranna mína í Tangagötunni. Og reyndar skil ég ekki hvers fólkið, sem býr „heima hjá“ þessum erlenda gangster – eða hvert hann er sendur – á að gjalda að fá einhvern fávita aftur í hausinn, sem vill ekki einu sinni vera þar. Hvað hefur það til saka unnið? Hvers vegna er betra að einhver nauðgari búi á götunni í Aþenu eða í flóttamannabúðum í Sýrlandi en að hann búi í Kópavogi? Eða bara á Hrauninu.
Ríkisborgararéttur er líka undarlegt fyrirbæri. Erich afi minn fæddist í Þýskalandi sonur ´ísfirskrar konu og súdeta-Þjóðverja – sem var sem sagt tékkóslóvakískur ríkisborgari, af því þegar langafi fæddist voru súdetahéruð í Austurríki-Ungverjalandi, og þótt hann væri fluttur til Þýskalands varð hann tékkóslóvakískur ríkisborgari 1918. Á árunum eftir stríð gilti að ríkisborgararéttur fylgdi fæðingarlandi – af því það voru allir út um allt og allt komið í rugl – svo afi var þýskur. Þegar mamma fæddist á Íslandi 29 árum síðar voru lögin á Íslandi þannig að ríkisborgararéttur fylgdi föður. Svo mamma var þýsk. Þegar Dóra systir fæddist 19 árum eftir það var búið að breyta lögunum þannig að ríkisborgararéttur fylgdi móður. Svo Dóra systir var líka þýsk. Þær fengu ríkisborgararétt í maí 1978 með samþykkt frá alþingi – nokkrum mánuðum áður en ég fæddist, sem hefði annars líka verið þýskur ríkisborgari. Af því að langafi minn var fæddur í Austurríki-Ungverjalandi á nítjándu öldinni. Var kannski bóhem, einsog ég, án þess ég viti það.
Þegar við fjölskyldan vorum í Hondúras heyrðum við mikið af fólki sem var verið að vísa frá Bandaríkjunum – mágur minn vann við flóttamannaaðstoð – og mikið af því fólki hafði aldrei til Hondúras komið frá því það fæddist, átti þar enga fjölskyldu eða tengsl, talaði jafnvel ekki einu sinni spænsku. Neyðin sem hefur skapast víðs vegar í veröldinni vegna þess að það er verið að vísa fólki í burtu af öllum mögulegum tylliástæðum – af því „innflytjendamálin“ eru í svo miklum „ólestri“ og það má ekki taka þau „neinum vettlingatökum“ – er afar raunveruleg og ekki til þess að vel meinandi fólk fari að bæta á hana. En það segir eitthvað um súra – eða réttara sagt brúna – stemninguna í vestrænum þjóðfélögum að þegar ráðherra stígur fram með þessar hugmyndir sínar um að „fækka innflytjendum“ (eða „velja betur“ – fá bara menntaða efri millistétt en halda láglaunafólkinu úti) þá réttir fyrst formaður Sjálfstæðisflokksins upp hönd til þess segjast nú eiginlega eiga höfundarrétt á þessum hugmyndum, og svo lýsir formaður stærsta verkalýðsfélagsins, sem jafnan er álitin róttækur sósíalisti, því yfir að gagnrýni á þessa stefnu – sem er ekki bara útlendingafjandsamleg, heldur fyrst og fremst stéttfjandsamleg – sé eitthvað „woke gone mad“.
Trump er altso víða. Og allir vildu Lilju kveðið hafa.
Það er ágætt að halda því til haga að fjölgun innflytjenda á Íslandi er alls ekki vegna dvalarleyfa frá fólki utan EES svæðisins, hvorki innflytjenda, flóttamanna eða hælisleitenda – enda er algert hell fyrir það fólk að flytja hingað, einsog allir sem þekkja einhvern sem það hefur reynt geta borið vitni um – heldur vegna frjálsrar farar verkafólks innan EES. Og það er enginn að tala um að ganga úr EES – það er ekki hluti af neinum tillögum. Opnu samfélagi fylgja augljóslega alls konar áskoranir. En maður þarf að vera minnislaus fáviti – eða illa innrættur – til þess að vilja hækka aftur múranna milli Evrópulanda eða flækja þessi kerfi og gera þau dýrari.
Heimska er gefin út af Marpress í Póllandi og þýdd af Jacek Godek.
Það varð kaldara í gær. Sjötti ágúst er fullsnemmt fyrir haustið til þess að ganga í garð – en það er farið að minna á sig. Ég veit ekki hvort ég er undir það búinn. Ég er hættur að vera í sumarfríi – hættur að frílysta mig og hættur að sinna húsinu – og farinn að hanga á skrifstofunni, einsog virðulegum rithöfundi sæmir. En mig langar í fleiri sumardaga. Langar að grilla á pallinum. Það gæti reyndar sloppið í dag. Svo er Act Alone að byrja. Ég kemst sennilega lítið á morgun og hinn og ætla því að reyna að ná öllu í kvöld.
Maður er líka farinn að íhuga haustið. Plönin. Ég verð svolítið á ferð og flugi frá miðjum september og fram undir lok nóvember. Heimska kemur út í Póllandi 21. ágúst og Náttúrulögmálin í Svíþjóð 1. september. Það eru fjögur ár frá því það kom síðast út bók eftir mig á öðru tungumáli en íslensku – þegar Hans Blær kom á frönsku og spænsku og Brúin á sænsku – og því gleður þetta mig mjög. Það var líka von á Óratorrek á finnsku í ár en forlagið þar virðist hafa lent í einhverjum ógöngum. Sem er auðvitað verra, en þetta er þannig bransi. Bókin er þýdd – það gerði Tapio Koivukari – og kannski finnur hún sér heimili einhvers staðar fyrir rest.
Ég finn það samt að heilinn á mér er ekki alveg kominn í stellingar. Sköpunargleðin er í felum. Ég er með tvö verkefni á borðinu, annað liggur beinna við en hitt – það er að segja það kallar meira á útfærslur en nýjar hugmyndir og ég potaði aðeins í það í gær. Hitt bíður þess að allar vélar verði komnar á fullt.