Tilvitnun vikunnar

Hans Blær reif síðustu þrjár arkirnar af klósettrúllunni, skeindi sig, sparkaði af sér nærbuxunum og stóð á fætur. Í augnablik stóð hán svo bara og dáðist að sér nöktu í speglinum – þessum líka líkama, blessun að vera þetta undur, hán blakaði nasavængjunum, þandi brjóstkassann svo fast að hán óttaðist að það kæmi sprunga í hann, lyfti upp brjóstunum með lófunum, stóð gleitt og gerði heiðarlega tilraun til þess að stara sína eigin spegilmynd í duftið – flýtti sér síðan í gallabuxurnar og hettupeysuna sem hán hafði kippt með sér að heiman. Hán var ekki í neinum nærbol, skildi skítugar naríurnar eftir á gólfinu ásamt náttsloppnum, og hán var berfætt í Birkenstock-klossunum þegar hán þrammaði út af bensínstöðinni. Klukkan var rétt að verða hálfátta að morgni 26. október, síðasta dags haustsins, og það spáði stórhríð með kvöldinu. Hán hóaði í leigubíl.

Hans Blær – Eiríkur Örn Norðdahl