Að gefa út ljóðabók og bíða eftir viðbragði er einsog að sleppa grjóti ofan í brunn og bíða eftir skvampi, bergmáli, myrkrinu sjálfu. Óratorrek fékk á sínum tíma ekki umfjöllun fyrren það var búið að þýða hana á sænsku.
Annars á ég líka smásögu í nýjasta TMM. Það er enn lengra síðan ég hef gefið út smásögu en síðan ég gaf út ljóðabók. Talið í áratugum, ekki árum.
Kannski segir það eitthvað um ástandið á mér. Ég sagði upp áskriftinni minni að Snöru og veit því ekki hvernig maður segir regression á móðurmálinu. Ég geng í barndóm. Slít fullorðinsskónum. Stíg aftur í gömul fljót. Klappandi með annarri.
Annars er ég alltíeinu að vinna að þremur verkefnum eftir að hafa verið villuráfandi um skeið.
Í bænum er að bresta á með Fossavatnsgöngu. Mjög mikið af skrítnum íþróttatýpum á ferli. Ég held að svona gönguskíðafólk sé miklu furðulegra en listamenn. Að minnsta kosti álengdar. Í gær birtust öldruð hjón í líkamsræktarstöðinni og gengu milli tækja horfandi á allt og alla. Hann var með bláa lambhúshettu – inni. Lét hökuna standa út. Og í morgun sá ég mann um sextugt sem hoppaði til skiptis á hvorum fæti – fimm hopp á einum, fimm hopp á hinum – niður alla götuna. Sjálfsagt verið að hita sig upp. En gangan er ekki fyrren á laugardag. Þá verður hann orðinn sjóðheitur.
Sjálfur fór ég út að hlaupa og meiddi mig í hásininni. Ekki mikið en nóg til þess að taka því allavega rólega fram yfir helgi.
Púslið. Þarna hægra megin má sjá Stephen horfa út á hafið á Sandymount Strand og fyrir ofan hann er Bloom að horfa upp pilsið hennar Gerty McDowell, þar fyrir ofan er flugeldasýningin og svo þessir elskendur undir vitanum sem ég er ekki alveg viss hvað sé – Blazes Boylan er reyndar með svona hatt – en mér finnst ég eigi að vita þetta og það rifjast ábyggilega upp.
Þótt kaflarnir í Ulysses eigi sér samsvaranir í köflum Ódysseifskviðu þá birtast þeir ekki í sömu röð. Hins vegar byrja sögurnar og enda á svipuðum stað. Segja má að atburðarásin sé í réttri (eða réttari) röð hjá Joyce af því stór hluti Ódysseifskviðu er Ódysseifur að rekja raunir sínar fyrir Alkinóa í endurliti. Því má svo halda til haga að Joyce skrifaði ekki nein kaflaheiti inn í bókina, þeir eru bara kallaðir þetta (Próteus, Kalypsó, Lótusæturnar o.s.frv.), út frá skema sem Joyce sannarlega gerði – og þetta eru lausar vísanir en ekki harðar, Ulysses er ekkert paint-by-numbers og það er ekki víst að allir lyklar í Hómer opni neitt hjá Joyce.
Hvað sem því líður er fimmti þáttur Ulysses Lótusæturnar.
Í kviðu sinni segir H´ómer frá því er Ódysseifur kom að eyju „Lótófaga“. Þar tók hann land og sendi menn sína að athuga með heimamenn, sem reyndust meinlausir en gáfu mönnunum lótus að éta. Lótusinn gerði þá svo værukæra að þá langaði ekki lengur að sigla heim. Ódysseifur dró þá aftur út í skip („svo nauðugt, að þeir grétu“) með hörðu og hreinlega batt þá við árarnar.
Joyce notar þessa sögu sem stökkpall að því að skrifa um vímu og það sem kalla mætti sjálflækningar – ópíum fólksins í víðustu skilgreiningu: lótusinn sem slævandi meðal við óförum hins mennska ævintýris. Og sendir sinn Ódysseif – Leopold Bloom – edrú af stað:
By lorries along sir John Rogerson’s quay Mr Bloom walked soberly, past Windmill lane, Leask’s the linseed crusher, the postal telegraph office.
Þýðing SAM – sem er að mestu leyti frábær, fyrir utan að vera þrekvirki – hefur þetta „rölti ráðsettur“ sem mér finnst alls ekki nógu gott. Það er kannski ekki auðvelt að þýða „soberly“ en það þyrfti samt að hafa vísun í að vera allsgáður – og rölti er allavega of kæruleysislegt. En þetta er auðvitað hálfóþýðanleg bók og þótt ég hnýti hér af og til í lausnir SAM þá er það úr óþægilega þægilegri stöðu manns sem þurfti ekki að gera þetta sjálfur, hefði aldrei getað það og aldrei einu sinni þorað.
Það fyrsta sem Bloom sér er reykjandi smástrákur með fötu af görnum (það er óljóst hvort hann er kyrr, t.d. að hreinsa garnirnar, eða hvort hann er að flytja þær eða hvað – en margir lesa í þetta eitthvað, af einhverjum orsökum, og fullyrða í allar áttir hvað hann hafi verið að gera). Bloom íhugar að segja honum að ef hann hætti ekki að reykja hætti hann að vaxa en ákveður að láta það vera – l´ífið sé víst nógu erfitt án þess að fullorðnir karlar séu nöldrandi yfir smámunum (les: leyf fólkinu að njóta sinna lótusblóma). Svo gengur hann áfram og fer framhjá The Belfast and Oriental Tea Company – sem hefur augljósar tengingar við lótusinn. Þá dagdreymir hann um te og ilmolíur og um ljúfa lífið í austrinu þar sem allt sé betra en heima í eymdinni.
Í kaflanum á undan fengum við að vita að Bloom væri með eitthvað í hattinum. Nú kemur hann á pósthús, tekur fram hlutinn – nafnspjald – réttir afgreiðslumanninum. Nafnið á nafnspjaldinu reynist vera dulnefni Blooms – Henry Flower. Henry fær greinilega ekki sín bréf heim einsog Leopold heldur á pósthúsið. Áður en Bloom er afhent bréfið óttast hann að hann hafi kannski gengið of langt í síðasta bréfi og það verði ekkert svar. En það reynast sem sagt óþarfa áhyggjur.
Hann stingur bréfinu á sig og áður en hann fer skoðar hann auglýsingaskilti frá hernum á veggnum. Bloom, sem selur auglýsingar, er alltaf að skoða auglýsingar og lesa texta (þetta er eitt af því sem ég tengi mest við – ég er meira að segja gjarn á að lesa upphátt á skilti þegar ég er á gangi, samferðamönnum mínum til undantekningalausrar ánægju og upplýsingar). Þar lýsir hann hermönnunum meðal annars svona: „Half-baked they look: hypnotised-like.“ Altso, þeir hafa greinilega komist í lótusinn.
Næst rekst Bloom á kunningja sinn, M’Coy að nafni. Sá kom meðal annars fyrir í smásögunni Grace í Dubliners þar sem hann fékk það hlutverk að reyna að fá Tom Kernan nokkurn til að hætta að drekka. Bloom virðist ekki mikið um hann gefið og það er sterklega gefið í skyn að hann sé þjófóttur (og steli skjalatöskum, hvað sem það á að þýða). M’Coy segist hafa rekist á tvo aðra menn sem við þekkjum líka úr Dubliners – Bob Doran, sem þar sængaði hjá konu og lét svo móður hennar neyða sig til að giftast henni og hefur síðan hrunið mjög hressilega í það einu sinni á ári og drekkt þannig sorgum sínum; og Bantam Lyons, sem birtist þar mest í framhjáhlaupi. Þetta er í sögunni The Boarding House. M’Coy færir Bloom þær fréttir að Bob Doran sé á rassgatinu. Hann blaðrar og blaðrar og á meðan er Bloom að reyna að girnast með glyrnunum óþekkta konu handan götunnar.
High brown boots with laces dangling. Well turned foot. […] He moved a little to the side of M’Coy’s talking head. Getting up in a minute.
„Getting up in a minute“ á auðvitað líka við Bloom og hans … ástríður, skulum við segja … en það á aðallega við að konan er að stíga upp í hestvagn (og þá missir hann sjónar á henni).
Svo spyr M’Coy hvað sé að frétta af Molly og þá fer Bloom (enn eina ferðina) að hugsa um auglýsingu – í þetta sinn slagorð:
What is home without Plumtree’s Potted Meat? Incomplete. With it an abode of bliss.
Það þarf vonandi ekki mikið ímyndunarafl til þess að skilja hvað þetta dósakjöt á að fyrirstilla. Og einsog við vitum verður Molly innan skamms alsæl. Alsæluð. Og við vitum að það er ekki Bloom sem alsælar hana og er sennilega ekki einu sinni fær um það.
SAM þýðir slagorðið þannig að það sé „dugleg húsfreyja“ sem sé „stygg og stúrin“ án dósakjötsins – og sú þýðingaskekkja verður kannski til þess að vekja athygli mína á því sem þarna stendur aðeins nákvæmlegar: Það er ekki bara húsfreyjan heldur heimilið sem er ekki fullkomnað án „dósakjötsins“. Og á þessu heimili á Leopold líka heima og raunar Milly einnig – það er heimilisfriðurinn sem er í húfi, ekki bara nautn húsfreyjunnar. Og sennilega er það þess vegna sem Bloom gerir ekkert í því þótt hann viti að Molly eigi von á Blazes Boylan.
Bloom svarar M’Coy og segir að hún sé að fara í söngferðalag og M’Coy – sem greinilega veit allt, Dublin Joyce er slúðurtunna – spyr: „Who’s getting it up?“ Aftur er hér standpínulíking – og þetta „up“ er gegnumgangandi í bókinni uppfrá þessu, shorthand fyrir standpínu, a.m.k. í minni sóðalegu túlkun (Joyce er oft með góðar fjarvistarsannanir fyrir sínum dónaskap, þótt það sé alls ekki alltaf þannig) – en í bókstaflegri merkingu er M’Coy auðvitað bara að spyrja um skipuleggjandann. Sem vill til að er sami maður og væntanlegi elskhuginn, flagarabeinið hann Blazes Boylan.
M’Coy nefnir að konan hans sé líka söngkona og það er augljóst á hugsunum Blooms (eftir að M’Coy er farinn) að honum þykir sá samanburður ekki alveg eðlilegur – enda séu þær fullkomlega ósambærilegar konur og enn ósambærilegri söngkonur (Bloom-hjónunum í hag – Leopold metur sína konu mjög hátt og elskar hana heitt).
Loks ræða þeir jarðarför Dignams og M’Coy biður Bloom að láta skrá sig „á samúðarlistann“ („put down my name at the funeral“ er það í orginalnum – blaðamaðurinn Hynes tekur niður nöfn fyrir grein í blaðinu, þar sem þuldir eru upp viðstaddir). M’Coy segist ætla að reyna að koma en það er greinilegt að hann ætlar alls ekki að reyna.
Bloom gengur áfram. Sér auglýsingu (!) fyrir leikhús. Frú Bandman Palmer leikur Leu í kvöld en lék Hamlet í gærkvöldi.
Male impersonator? Perhaps he was a woman. Why Ophelia committed suicide?
Það er dálítið um kynskipti síðar í bókinni – en þetta er áhugaverðast fyrir þær sakir að seinna mun Stephen líka eiga í löngum samræðum um eðli Hamlets (sú kenning var að vísu viðruð stuttlega minnir mig í upphafsköflunum í Martello-turni). Sú kenning snýst eiginlega um að Hamlet sé afi sinn – og á meta-levelinu um það hver sé staðgengill Joyce í Ulysses. Og ef Hamlet getur verið kona þá geta aðrir í feðgatvennum Joyce líka verið það – Dedalus/Íkarus, Bloom/Rudy, Bloom/Stephen, Hamlet/kóngurinn, Ódysseifur/Telemakkos, Stephen/Simon og svo framvegis.
Upp úr þessu verður Bloom hugsað til pabba síns og það er ljóst að pabbi hans er dáinn og það hefur bæði verið voðalegt og „kannski var það honum fyrir bestu“.
Tvisvar á göngutúrnum fer Bloom að raula lögin sem hann veit að Molly er að fara að syngja – flagarasönginn úr Don Giovanni og Love’s Old Sweet Song. Þannig – og á fleiri vegu – sjáum við að ástarfundur hennar með Blazes Boylan er honum alltaf ofarlega í huga án þess að hann hafi beint orð á honum.
Bloom stoppar afsíðis við lestarstöðina og dregur upp bréfið til Henry Flower. Það reynist frá konu sem kallast Martha Gifford (sem er kannski ekki áreiðanlegra nafn en Henry Flower – hún svaraði víst upprunalega kalli eftir ritara í smáauglýsingu). Martha segist mjög reið og sér þyki leitt að honum hafi ekki líkað síðasta bréf frá henni. Svo talar hún um að refsa honum, kallar hann „naughty boy“, spyr hvenær þau geti hist, biður um lengra bréf (og endurtekur að hún muni refsa honum ef hann hlýði ekki). Í ps.inu biður hún hann að segja sér hvers konar ilmvatn konan hans noti.
Sennilega er þetta eini staðurinn í kaflanum þar sem segja má að Bloom ölvist. Martha er hans lótus – eða kannski perversjónin sem slík, að gera það sem er bannað. Við sjáum það auðvitað ekki utanfrá, af því við erum í hausnum á Bloom, en það má gera sér það í hugarlund útfrá textanum (það var blóm fast við bréfið, hann heitir Bloom, kallar sig Flower, svo er l´ótusinn auðvitað blóm):
Angry tulips with you darling manflower punish your cactus if you don’t please poor forgetmenow how I long violets to dear roses when we soon anemone meet all naughty nightstalk wife Martha’s perfume.
Hins vegar íhugar hann hvort hann eigi að hitta hana og ákveður að gera það ekki. „Thank you: not having any.“ Heilindi Blooms eru lykilatriði í persónuleika hans – hann vill gjarnan stíga á ´línuna en aldrei yfir hana.
Í kjölfarið rifjar hann upp dónavísu um tvær drósir sem týndu títuprjóni úr nærbuxunum sínum og gátu ekki haldið þeim uppi („keep it up“). Aftur, þetta up, en nú líka tengt vergirni kvenna.
Næst hugsar hann aðeins um kapítalismann og ekki síst gróðann af ölgerð. Þá sér hann auglýsta messu hjá séra John Conmee og ráfar þar inn. Séra Conmee var raunverulegur maður og birtist undir sínu eigin nafni bæði hér og í A Portrait of the Artist as a Young Man – Stephen leitar til hans eftir að séra Dolan hýðir hann (og fer frá honum sáttur við að séra Dolan verði áminntur). Nema hvað. Bloom hlýðir á messuna, veltir fyrir sér guðdómnum – sem reynist vera enn einn lótusinn (nema hvað). Ekki bara messuvínið (sem hann segir „aristókratískara“ en hefðbundnari drykkir, svo sem Guinnes) heldur líka skriftirnar og allt hitt:
Confession. Everyone wants to. Then I will tell you all. Penance. Punish me, please. Great weapon in their hand.
Eftir messuna þarf hann að drífa sig. Hann hefur lofað að láta útbúa smyrsli fyrir Molly og fer í apótek – þar er allt fullt af lótus, auðvitað, lyfjum og jurtum og allra handa smyrslum. Bloom reynist ekki muna uppskriftina að smyrslinu en reynir að rifja hana upp og kemur einhverju upp úr sér. Hann er ekki með flösku undir smyrslið en ætlar að koma aftur síðar – hann gleymir því þegar þar að kemur – tekur með sér sápu líka og lyfsalinn segir best að hann borgi bara bæði þegar hann komi til að sækja smyrslið. Lótusinn veldur vel að merkja gleymsku hjá Hómer – smyrslið (sem tengist kannski ilmvatninu sem Martha spurði út í – er allavega vellyktandi) hverfur ofan í óminnishegrann.
Fyrir utan rekst hann á Bantam Lyons. Sá fær lánað dagblað sem Bloom er búinn að vera með í höndunum frá því hann fór að heiman. Bantam vill skoða veðhlaupasíðuna og athuga með eitthvað franskt hross. Bloom svarar að hann hafi ætlað að henda blaðinu – „throw it away“ – Bantam hváir hressilega – og Bloom endurtekur að hann hafi ætlað að henda því. „Ég tek áhættuna“segir Bantam og rýkur í burtu. (Síðar kemur í ljós að það er hross sem heitir Throwaway í keppninni – og Bantam heldur að Bloom hafi verið að gefa honum heitt tipp um hver vinni veðhlaupin – sem eru enn annar lótusinn – og koma ítrekað upp í bókinni).
Bloom dregur engan með sér aftur út á sjó, bindur engan við árarnar og enginn fer að gráta. Allir halda bara áfram að taka sinn lótus og slævast. Hann ákveður hins vegar að fara í tyrkneska baðhúsið og þrífa sig fyrir jarðarförina og kaflinn endar á þessum sjálfsástarorðum, þar sem hann sér sjálfan sig fyrir sér í baðinu (sem er kannski einhvers konar brottsiglingarlíking):
He saw his trunk and limbs riprippled over and sustained, buoyed lightly upward, lemon-yellow: his navel, bud of flesh: and saw the dark tangled curls of his bush floating, floating hair of the stream around the limp father of thousands, a languid floating flower.
* * *
Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar.
Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.
Ég hef nefnt að Kalypsó væri eftirlætiskaflinn minn í Ulysses. Frásagnaraðferðin er passlega brjáluð og talsverður léttir eftir erfiðan Proteus, þar sem intellekt hins unga Stephens fær að skríða í yfirgír. Og það sem meira er, í Kalypsó kynnumst við líka fyrst aðalsöguhetju bókarinnar, auglýsingasölumanninum Leopold Bloom, sem og eiginkonu hans, söngkonunni Molly – sem er einhvers konar nöf í bókinni, eða hjarta hreinlega, viðfang lengst af en fær svo að vera innilegasta og kannski byltingarkenndasta persónan fyrir rest. En það er þessi rólegi, hlýi, snjalli og passlega pervertíski hugur hans Leopold Blooms sem birtist hér – og það er af honum sem ég hrífst. Frásagnaraðferð Joyce – að skjóta inn hugsunum hér og þar, oft án þess að útskýra við hvað þær eigi, og taka þær svo aftur upp aftur af og til í skeytastíl – gerir tvennt. Annars vegar birtist heildarmyndin af sögunni hægt sem veldur því líka að þegar hún er kominn á skrið er skriðþunginn mikill. Hins vegar þá performerar hún miklu eðlilegri upplifun af heiminum en gerist í hefðbundnum skáldsögum og því fylgir alveg furðulega mikil nánd – þegar maður er kominn inn. Manni finnst ekki bara að maður þekki Leopold Bloom þegar maður er búinn með Ulysses, eða að maður hafi leikið hann – manni finnst pínulítið einsog maður hafi verið hann. Það eru töfrar.
Leopold og Molly búa á Eccles stræti nr. 7. Leopold er nývaknaður, stendur í eldhúsinu, hugsar til morgunverðar og sinnir kettinum – og fílósóferar um ketti einsog hann fílósóferar um allt, hversdagslega og mótsagnakennt og vinalega en án þess að ritskoða sig. Fyrst segir hann ótrúlegt að fólk telji ketti vitlausa, hún sem skynjar allt, hugsar hann, en í næstu setningu segir hann köttinn alveg hræðilega vitlausan. Og sér enga ástæðu til þess að hafa orð um mótsagnakenndar hugsanir sínar.
Molly liggur í rúminu – og sést raunar lítið annars staðar alla bókina. Leopold spyr hvort hún vilji eitthvað í morgunmat og hún svarar með einhverju muldri „mn“ og raunar má halda því til haga að kötturinn svarar honum með álíka mjálmi svo enginn talar við Leopold með orðum fyrstu síðurnar, þótt hann tali og aðrir svari með sínum hætti. Og þótt Molly og kötturinn muldri bara og mjálmi þá skilur Leopold alltaf hvað þau eru að reyna að segja. Hans helsta karaktereinkenni – ofan í lágværa skömm og greddu – er samlíðan, þolinmæði og skilningur gagnvart verum heimsins og þeirra mjálmi.
Muldur Mollyar þýðir nei, hún vill ekkert (mjálm kattarins var já, ég er svangur). En Leopold, sem hefur kaflann á að lýsa dálæti sínu á innyflamat, ákveður að fara til slátrarans til að kaupa sér svínsnýra sem hann hyggst steikja með smjöri og pipar. Slátrarinn er, vel að merkja sennilega gyðingur – og selur samt svínsnýru – og Leopold er sjálfur af gyðingaættum í föðurætt og á það eftir að skipta máli í sögunni.
Hjá slátraranum kynnumst við fyrst holdlegum fýsnum Leopolds sem horfir á konuna fyrir framan sig í röðinni með sinni sérstöku tegund af greddu, sem er einhvern veginn alltaf í senn kurteisleg og ruddaleg (Woods er nafnið á vinnuveitanda stúlkunnar, sem hann virðist kannast við – en það er líka standpína, hér og síðar).
His eyes rested on her vigorous hips. Woods his name is. Wonder what he does. Wife is oldfish. New blood. No followers allowed. Strong pair of arms. Whacking a carpet on the clothesline. She does whack it, by George. The way her crooked skirt swings at each whack.
The ferreteyed porkbutcher folded the sausages he had snipped off with blotchy fingers, sausagepink. Sound meat there like a stallfed heifer.
Þetta er mjög holdlegt allt án þess að Leopold sé mikið að tala um hana beint. Viðurinn. Nýtt blóð. Flengingarnar. Pylsur og pylsulitir fingur. „Beinlaust hold þarna, einsog á stríðaldri kvígu“ (einsog það er´ í þýðingu SAM). Örlitlu síðar beinir hann orðum sínum beint að henni – þegar hann langar að drífa sig og elta hana út til að geta horft á eftir henni – „behind her moving hams. Pleasant thing to see first thing in the morning.“
Leopold er dálítið með kynlíf á heilanum. Það skýrist að hluta af því að þau Molly hafa ekki átt holdlegt samneyti frá því þau misstu nýfæddan son sinn, Rudy, ellefu árum fyrr, og sorgin sem því fylgir veldur því að Leopold óttast að eignast annað barn. Það er gefið í skyn að hið sama gildi um Molly en hún virðist ekki láta óttann stoppa sig (og raunar er ekki ólíklegt að Leopold finni ekki til sama ótta gagnvart öðrum konum – en hann er engu að síður uppteknari af að horfa og að eiga í fjarsamböndum).
Það er einhvers konar masókisti líka í Leopold – ekki bara í mottuflengingarfantasíunum. Þegar stúlkan hjá slátraranum er horfin án þess að gefa honum auga til baka hugsar hann: „The sting of disregard glowed to weak pleasure within his breast.“ Og í upphafi kaflans þegar hann er að tala um hvað hann elski innyflamat endar hann málsgreinina á orðunum: „Most of all he liked mutton kidneys which gave to his palate a fine tang of faintly scented urine.“ Þráin og nautnin í Leopold eru alltaf blönduð einhverju létt pervertísku – einhverju blæti – og það er alltaf dálítil bæling með líka. Á leiðinni heim þráir hann líka að komast aftur í návígi við hold Mollyar – sem hann mun samt ekki snerta. Hann langar að langa og langar að neita sér um úrlausn sinna fýsna.
Þegar Leopold kemur aftur heim bíða tvö bréf og eitt póstkort í anddyrinu. Annað bréfið og póstkortið eru frá Milly, dóttur Leopolds og Molly – bréfið til pabba en póstkortið til mömmu. Hitt bréfið er frá Blazes Boylan sem er kaupsýslumaður og umboðsmaður og verðandi elskhugi Mollyar. Það er margoft gefið í skyn að Leopold geri sér grein fyrir að þau séu að draga sig saman og hann er af einhverjum orsökum ekki beinlínis mótfallinn því, þótt hann sé kannski ekki heldur hrifinn af því. Hugsanlega er það vegna væntumþykju fyrir Molly, hugsanlega vegna þess að hann hafi haldið framhjá sjálfur og sé með samviskubit, hugsanlega vegna þess að þetta framhjáhald sé bara allt orðið normalíserað, hugsanlega bara af því hann er masókisti. Í bréfinu kemur fram að Blazes sé væntanlegur klukkan 16 (þessi kafli gerist sirka milli 8 og 9 að morgni).
Molly er vel að merkja minniháttar stjarna. Hún er söngkona á leiðinni á túr með Blazes. Það virðast allir í bókinni þekkja til hennar og margir dást að henni og hugsanlega þrá hana og einhverjir telja sig kannski vita að Leopold sé kokkáll – það er reglulega gefið í skyn. Hún þykir enn afar fögur – hún er 33 ára (en Leopold 38).
Leopold spyr hvað hún eigi að syngja og hún nefnir La Ci Darem – sem er tælingarsöngur úr Don Giovanni – og Love’s Old Sweet Song sem er lag um að jafnvel hin þreyttu og öldnu þurfi að elska.
Molly er búin að lesa bók sem heitir Ruby, Pride of the Ring – sem er ekki raunveruleg en mun eiga sér fyrirmynd í sögu um stúlku sem er misnotuð í sirkus – og biður Leopold að útskýra fyrir sér orð sem hún rakst á í bókinni – metempsychosis – sálflutning þann sem á sér stað við endurholdgun. Leopold útskýrir það en man ekki orðið „reincarnation“ fyrren seinna. Svo biður hún hann að útvega sér nýja bók eftir sama höfund.
Molly biður svo Leopold að útvega sér „aðra bók“ eftir mann sem heitir Paul de Kock („nice name“ segir hún, sem er talsvert óbældari en maður hennar). Sá var franskur metsöluhöfundur sem skrifaði bókmenntir sem þóttu heldur ómerkilegar – þunnildisleg afþreying – en vakti sennilega öfund meðal kollega sinna því bæði Dostójevskí og Thackeray sáu sér ástæðu til þess að hreyta í hann ónotum (ein af söguhetjum Dostó í Fátæku fólki segir meira að segja að bækur Paul de Kocks séu ekki „við hæfi kvenna“ – sem gerir hann auðvitað að viðeigandi höfundi fyrir Molly).
Bæði Ruby og de Kock eiga eftir að skjóta upp kollinum í hugsunum Leopolds yfir daginn.
Nýrað er farið að brenna á pönnunni þegar Leopold stekkur aftur niður í eldhús. Þar tekur hann til morgunverðinn og les bréfið frá dóttur sinni. Milly, 15 ára, er í Mulligar á ljósmyndanámskeiði. Hún hefur það gott á námskeiðinu, hefur kynnst dreng og Leopold veltir því fyrir sér hvort hún sé byrjuð að gera dodo með strákum.
Í lok kaflans tekur Leopold með sér tímarit á kamarinn. Þar kúkar hann „í hægðum sínum“, fremur grafískt, og les smásögu í blaðinu. Hann öfundar höfundinn af höfundalaununum og lætur sig dreyma um að skrifa sjálfur í blaðið – jafnvel með Molly. Þannig á hann, einsog Stephen, sína eigin skáldadrauma.
Quietly he read, restraining himself, the first column and, yielding but resisting, he began the second. Midway, his last resistance yielding, he allowed his bowels to ease themselves quietly as he read, reading still patiently that slight constipation of yesterday quote gone. Hope it’s not too big bring on piles again.
Þeir draumar botna þó í því að Leopold rífur söguna úr blaðinu og skeinir sér með henni. Ef það er ekki táknrænt fyrir eitthvað þá er ekkert táknrænt fyrir neitt.
Kaflinn endar á orðunum „Poor Dignam“ – sá hefur verið nefndur tvisvar á hlaupum – klukkan 11 ætlar Leopold að fara í jarðarför þessa kunningja síns. Af þeim sökum endar Leopold lyklalaus – lyklarnir eru í hversdagsbuxunum – einsog Stephen (sem lætur Buck Mulligan fá sinn lykil).
Í Kalypsó hluta Ódysseifskviðu lendir Ódysseifur – sem er að reyna að komast heim til Íþöku – hjá dísinni Kalypsó sem heldur honum föstum og býður honum eilíft líf í skiptum fyrir að vera hjá sér. Hún heldur honum föngnum í heil sjö ár og neyðir hann til að sofa hjá sér. Það er ýmislegt sem rímar í þessum frásögum þótt allt krefjist það dálítilla túlkunarfimleika. Maður upplifir Leopold ekki beinlínis fastan í hjónabandi sínu – nema að svo miklu leyti sem allir eru fastir í hjónabandi kaþólskunnar á þessum tíma – og ekki neyðir Molly hann til samræðis. Auk þess er Eccles stræti augljóslega ekki bara eyja Kalypsó heldur líka Íþaka – þangað stefnir hann aftur. Ódysseifur er að koma heim úr Trójustríðinu en Leopold hefur ferðalag sitt á sama stað og það endar. En kannski sér Joyce hjónabandið sem kalypsóskt ástand og Leopold sem mann sem er meðvirkur með örlögum sínum – ófær um að sjá kvöl sína öðruvísi en sem nautn. Í Ódysseifskviðu grípa guðirnir inn í og láta Kalypsó sleppa Ódysseifi en í Ulysses fer Leopold einfaldlega af stað til að sinna erindum dagsins – ekki síst þessari jarðarför hans Dignams. Kannski er það dauðinn að frelsa hann. Dauðinn sem vili guðanna.
Ég byrjaði aftur á Ulysses í vikunni. Í þriðja sinn. Og þriðju útgáfu. Fyrst – fyrir rúmu ári – las ég Cambridge Centenary útgáfuna með löngum ritgerðum um hvern kafla og alls konar glósum. Það er stærsta bók sem ég á. Hún er hálfgert húsgagn. Svo las ég þýðingu SAM – eða eiginlega samtímis, meðfram. Nú er ég að lesa Wordsworth Classics útgáfuna sem er ívið þægilegri ferðafélagi en Cambridge-mublan og sem ég keypti í svona setti – af því mig vantaði Finnegans Wake og Dubliners og það var ódýrara að kaupa settið með Ulysses og Portrait en þessar tvær stakar. Ég er búinn með formálann eftir Cedric Watts – sem var ágætis upprifjun en kannski engin uppljómun – og fyrstu þrjá þættina, Telemakkus, Nestor og Proteus. Sirka 50 síður – tveir fyrstu þættirnir eru til þess að gera venjulegur texti en sá þriðji er fyrsta vitundarflæði bókarinnar.
Hvað gerist í þessum þáttum? Eiginlega eru fræ að öllum helstu þemum og tæpt á því sem skiptir Stephen Dedalus mestu máli. Móðir hans er dáinn og það kemur fram að hann neitaði að biðja með henni á dánarbeðinu – af því hann hefur látið af trúnni. Þeir sambýlingarnir Buck Mulligan ræða þetta í Martello-turni og Buck álasar Stephen fyrir. Stephen virðist líka með samviskubit og í öllu falli neitar hann að klæðast öðru en svörtu – sem Buck finnst fyndið í ljósi hins.
Hjá Buck og Stephen gistir englendingurinn Haines. Sá er í Dyflinni til að nema gelísk mál og menningu og Buck og Stephen (eða kannski bara Buck?) siga honum á mjólkupóstinn, fullorðna konu, af því hún sé sérdeilis gott eintak af þvottekta Íra. Hún reynist auðvitað ekkert vita og ekki heldur kunna neina írsku. Í þessu kristallast eitthvað um samband hins imperíalíska við nýlenduna – heimsveldið hefur þurrkað út tungu heimamanna og svo snúið aftur til þess að hafa á henni lærðan áhuga, jafnvel ákveðið blæti, en þá er svo komið að heimamaðurinn er orðinn eitthvað annað, eitthvað sem vekur ekki sama áhuga lengur. Um þessa kúgun hefur Haines líka hin fleygu orð: „It seems history is to blame“ (sem ríma við orð Stephens síðar í kaflanum, þegar hann segir við hr. Deasy, yfirmann sinn í barnaskólanum: „History is a nightmare from which I’m trying to awake“). Skömmu áður hefur Stephen líka sagt við Buck að írsk list sé einsog brotinn spegill – „the cracked lookingglass of a servant“. Og það er í þann spegil kannski sem Haines horfir.
Annað við Haines er að hann þolir ekki gyðinga – þetta stef kemur aftur og aftur upp í bókinni. Allt versta fólkið í henni reynist vera gyðingahatarar. Og Leopold Bloom – sem er aðalhetjan í flestum köflunum – er auðvitað af gyðingaættum þótt hann praktíseri ekki.
Annar þátturinn gerist í skólanum þar sem Stephen kennir. Hann lætur skóladrengina fara með ljóð og leggur síðan fyrir þá gátu:
The cock crew The sky was blue: The bells in heaven Were striking eleven. Tis time for this poor soulto go to heaven.
Svarið, einsog þið hafið sjálfsagt getið ykkur til, er „the fox burying his grandmother under a holly bush“. Djók. Þetta er óleysanlegt rugl – og kannski fyrsta óleysanlega ruglið í bókinni (það verður nóg af því seinna). Fyrsta hreina ljóðræna upplausnin, skulum við segja, það er kurteislegra en „rugl“.
Svo fer hann að hitta skólastjórann til að fá laun og láta messa yfir sér um sparnað. Hr. Deasy er líka gyðingahatari sem endar sína innkomu í bókina á því að spyrja Stephen hvers vegna Írar hafi aldrei ofsótt gyðinga, og svarar gátunni sjálfur: Af því þeir hleyptu þeim aldrei inn til að byrja með. Í Ódysseifsskemanu er hr. Deasy Nestor – vitringurinn sem sonur Ódysseifs heimsækir og vonast til að geti sagt sér hvar faðir hans sé staddur. Hr. Deasy er skólastjóri í skólanum þar sem Stephen kennir og ætti að geta verið hinum unga Dedalusi einhvers konar mentor – en líkt og Nestor stendur hann á gati, veitir engin svör, bara meira tóm.
Þriðji þáttur fyrsta kafla segir frá gönguferð Stephens um Sandymount strand. Hér blandast saman það sem hann sér, það sem hann upplifir, það sem hann heyrir og svo framvegis. Hugsanir hans birtast manni einsog hugsanir gera – samhengislaust, vaða úr einu í annað, hugsa um fortíðina og skömmina og framtíðina og væntingarnar og allt sem fyrir augu ber jafn óðum og í einni bendu. Meðal annars hugsar Stephen um skáldsögur sem hann langar að skrifa og eiga allar að heita eftir bókstöfum – X og Q og svo framvegis – en Stephen er auðvitað staðgengill höfundar (og staðgengill Hamlets og Jesú Krists og fleiri). Hann sér dauðan hund, fólk sem er að tína skelfisk, konu sem hefur fest upp um sig pilsið og virðist vekja með honum einhverjar tilfinningar (þetta rímar við uppljómunina sem Stephen verður fyrir þegar hann sér konu við svipaðar aðstæður í lokin á A Portrait of the Artist as a Young Man og líka við glápið í Leopold Bloom síðar í Nausicaa kaflanum – og allt gerist á þessari sömu Sandymount Strand). Hann hugsar talsvert um drukknun og eðli drukknunar – hvað hún geri við líkama og sál – og að lokum borar hann í nefið og klínir horinu á stein. Og einhvern tíma um svipað leyti tekur hann ákvörðun um að snúa ekki aftur í Martello-turn um kvöldið – hann þolir hvorki Buck né Haines.
Mér finnst einsog þessi lestur hafi verið meiri glíma í fyrra. Mér var hins vegar talsverð nautn að stíga aftur inn í þennan heim og þetta rann allt mjög vel – meira að segja Proteus. Og ég hlakka mikið til að byrja á næsta kafla, Calypso, sem var minn eftirlætis í fyrra – sérstaklega upphafið. Þá birtist líka Leopold Bloom og með honum ný og æsileg þemu – skömm og hömluleysi. Bloom er heldur ekki jafn mikill intellektúal og hinn ungi Dedalus – hann er í sjálfu sér alveg jafn fastur í hausnum á sér, fastur í hugsunum sínum, en hann er ekki stanslaust að reyna að skilja þær eða setja þær í samhengi við heimsbókmenntirnar. Ætli maður að skilja innri mónólóg Dedalusar að einhverju marki þarf maður helst að vera með fimm doktorspróf í klassískum bókmenntum og tungumálum. Ekki þar fyrir að það er ýmislegt óskiljanlegt sem gerist í kollinum á Bloom líka – það er bara annars eðlis.
og heimkynnin sem þú yfirgefur eru aldrei heimkynnin sem þú vitjar á ný
Söngur breytinganna – Sjón
Það hanga gjarnan uppi plaköt á Ísafirði með orðunum „Sjón er að koma“. „Sérstök tilboð fyrir íbúa.“ Plakötin eru tekin niður á um það bil þriggja mánaða fresti og mánuði síðar birtast þau á ný. Þá kemur Sjón í bæinn og selur fólki gleraugu og svo fer Sjón aftur og plakötin hanga uppi þar til einhver tekur þau niður. Á þessu hefur gengið árum saman. Sjón kemur og Sjón fer. Nú er Sjón t.d. nýfarinn. En/og Sjón kom ekki í dag.
Í dag átti Sjón að koma til Ísafjarðar. Næturverkaskáldið. Oscar nominee Sjón. Það er bókmenntahátíð á Flateyri og ég hafði tekið að mér að sækja minn kæra kollega á flugvellinn í rauðabýtið en einsog þeir vita sem horfðu á Kiljuna í síðustu viku eru eilíf vandræði á flugsamgöngum. Fyrst var seinkað til 11.15, svo 12.15 og þannig koll af kolli þar til það var seinkað til 16.25 og sú er staðan ennþá, ef marka má heimasíðu Flugfélagsins. Sem er ekkert að marka – órannsakanlegir vegir þeirrar stofnunar liggja allir bara eitthvað út í loftið. Það er engin flugvél. Það er ekkert flug og það fer í loftið fyrir klukkustund síðan. Þetta eru óhrekjanlegar staðreyndir málsins.
En það kemur annar dagur og það verða fleiri flug – allavega eitt ár í viðbót (en svo verður allt flug víst lagt niður, í kjölfarið verða símalínur rifnar úr jörðu og samskiptamöstrin felld, það verða engin myndsímtöl, engin sms, engar samgöngur eða samtöl, bensínið er að klárast einsog jöklarnir, ástundun vísinda verður hætt, háskólum lokað und so weiter und so weiter).
Samtali okkar Sjóns sem fara átti fram í dag hefur samt bara verið frestað til morguns. Það er gálgafresturinn. Heimurinn ferst einhvern annan dag.
Tveir aðrir viðburðir verða í kvöld – Maó Alheimsdóttir, Elías Knörr og Gerður Kristný eru í panel klukkan hálfátta og Angela Snæfellsjökuls Rawlings og Elee Kralji Gardiner spjalla þegar klukkuna vantar 20 mínútur í níu. Þar ætla ég að vera.
Ég skrifaði heila færslu um barnamálaráðherramálið í síðustu viku sem ég svo eyddi. Það er gaman að velta sér upp úr þessu, með og á móti – gaman að hneykslast auðvitað og gaman að verja og ekki síst gaman að relatívisera. Hvað ef bæði hefðu verið ári eða tveimur yngri eða eldri? Hvað ef kynjahlutverkunum væri svissað? Hvað ef þetta hefði gerst í fyrra? Gaman að velta sér upp úr því hvað sé trúnaðarbrestur, hvað sé tálmun, hvað sé fullorðinn einstaklingur – hvar allar þessar línur liggja. Því það er bara langt í frá eitthvað augljóst. Þetta eru æsandi umræðuefni. En kannski einmitt þess vegna eiga þau betur heima á kaffistofum en bloggsíðum og samfélagsmiðlum. Við þurfum áreiðanlega að geta speglað okkur í þessu – borið þetta saman við önnur siðferðismál, sett okkur í spor hinna ólíku þátttakenda, fundið til með fólki, jafnvel hlegið svolítið, hneykslast smá – þannig skiljum við okkur sjálf. Hvað hefðum við sjálf gert 15 ára? Hvernig vorum við sjálf 22 ára? En það er eitthvað hræðilega klámfengið við opinbera birtingarmynd þessa á samfélagsmiðlum. Hvernig fólk stekkur til og túlkar alla fréttapunkta linnulaust – með fingurinn á lofti, fýlusvip í framan og augun upp á gátt – á meðan myndin er enn að skýrast – til að óa sig og æja í þessu sífellt háværara fuglabjargi þar sem þeir sem augljóslega vita og hugsa minnst garga undantekningalítið af mestum ákafa.
Ég sem sagt stóð mig að því að hafa raðað mér í gargröðina og undirbúið ræðuna en mér bar gæfa til að eyða henni. Sjálfur hef ég ákveðið að hafa enga skoðun á þessu aðra en þá að það sé ágætt að fólk víki úr mikilvægum embættum hafi það ekki almennt trúnaðartraust til þess að sinna sínum störfum – og það getur líka gerst án þess maður hafi gert eitthvað sem er raunverulega siðferðislega ámælisvert, það getur alveg gerst að ósekju. Traust snýst líka um ímynd – ef ímyndin er löskuð er líklegt að það hamli manni í starfi. Maður þarf kannski ekki að vera flekklaus – það væri ekki gott – en maður getur ekki verið með mikinn farangur heldur. Af því maður þarf líka að mæta fólki sem hefur ekki samúð með manni.
Og svo getur það auðvitað gerst af því maður hagaði sér einsog alger djöfuls drulluháleistur – t.d. af því maður varð uppvís að því að reka skúffufyrirtæki á aflandseyjum til að skjóta fé undan skatti. Það þýðir kannski ekki að maður eigi einhverja allsherjar slaufun skilið – en maður ætti helst ekki að sitja á þingi. Slíkt snýst hins vegar yfirleitt og því miður um sómakennd hvers einstaklings – og því getur kannski ekki verið öðruvísi farið – og einsog við vitum hefur fólk mjög mismikla sómakennd. Og því fer sem fer. Fólk með sómakennd segir af sér, fólk án sómakenndar situr sem fastast.
***
Er þetta færsla um barnamálaráðherramálið? Er þetta einhvers konar metagagnrýni á „umræðuna“ – er gagnlegt að stunda slíka gagnrýni? Ég veit það ekki.
Ég fór til Patreksfjarðar á föstudag og las upp á Prentverkstæðinu hjá Birtu Ósmann og Grími manni hennar. Þau eru miklir höfðingjar heim að sækja. Buðu upp á humarsúpu og heimagerðan harðfisk. Ég fékk að gista hjá þeim um nóttina og keyrði svo heim daginn eftir. Þetta er samt ótrúlega stutt þegar leiðin er opin yfir Dynjandisheiði. Rétt rúmir tveir tímar á lölli – ég keyri mjög hægt. Á móti kemur að heiðin er ekkert mokuð á helgum og ef það hefði eitthvað snjóað aðfararnótt laugardags hefði ég þurft að fara lengri leiðina – í gegnum Reykhóla og yfir Þröskulda og upp Ísafjarðardjúp. Það tekur sjö tíma að keyra þá leið. Samt á þetta að heita sama svæði út frá margri stjórnsýslu – þetta er t.d. sama lögregluumdæmi.
Á fimmtudag hefst síðan B´ókmenntahátíðin á Flateyri. Þar verður mikið að gerast. Fyrir utan lókal höfunda – mig, Helen Cova (sem á veg og vanda að hátíðinni), finnska metsöluhöfundinn Satu Rämö, leikarann og leikhúsgrúskarann Elfar Loga, pólska þrillersmiðinn Jarek Czechowicz, og litháíska skáldsagnahöfundinn og ritlistarkennarann Gretu Lietuvninkaite – koma hingað höfundar einsog Sjón, Gerður Kristný, Angela Rawlings, Elee Kraljii Gardiner, Elías Rúni, Bergrún Íris, Sindri Sparkle, Tessa Rivarola, María Rut Kristinsdóttir, Maó Alheimsdóttir, Elías Knörr og fleiri.
***
Ég hef verið að sinna samfélagsmiðlum síðustu vikurnar og það er alveg ótrúlegt hvað þetta hefur neikvæð áhrif á allan minn lestur. Strax og ég opna fyrir þessa vítisgjá missi ég alla einbeitingu – og jafnvel lestrarnautnina líka. Ég er þarna einsog venjulega til að prómótera og kannski er það tilgangslaust en mér finnst samt alltaf einsog ég eigi að gera það – að ég skuldi bókinni það. Þegar hurðin er á annað borð opin skrolla ég samt bara einsog heilalaus draugur. Og þegar ég tek upp b´ók fylgir lestrarmynstrið mér – augun skima bækurnar og taka ekki inn nema hluta af því fyrir þau ber.
En eftir Bókmenntahátíðina á Flateyri eru engar skipulagðar uppákomur fyrirliggjandi (nei, ég verð ekki á bókmenntahátíð í RVK frekar en fyrri daginn – a.m.k. ekki sem þátttakandi í neinu bókmenntaprógrammi, það er ekki 100% óhugsandi að ég fari sem gestur) og þá slekk ég aftur á vítisvélinni. Þið verðið bara að lofa mér að vera dugleg að fylgjast með Mogganum og Kiljunni og Bókmenntavefnum og Lestrarklefanum og Heimildinni ef það skildi berast einhver krítík – það er ósennilegt að ég dreifi henni.
Einhvern tíma á Nýhilárunum þegar ég var orðinn þreyttur á ljóðapartíum – þreyttur á endurtekningunni – bloggaði ég um einmitt það. Að þetta væri alltaf eins. Fyrirsjáanlegt. Við værum að breytast í allt sem við þoldum ekki. Paint-by-numbers flón að látast vera ljóðskáld frekar en að vera það. Þetta vakti skiljanlega litla lukku hjá vinum mínum sem höfðu skipulagt ljóðakvöldið þar á undan – kvöldið þar sem ég varð fullsaddur. En á þessum tíma var samt einhvern veginn eðlilegra að vera ósammála um hluti. Og eðlilegra að skipta um skoðun. Eðlilegra að takast á. Það var ekki uppi nein krafa um harmoníu. Við bara þrættum og ég útskýrði hvað ég ætti við og baðst afsökunar á að hafa sært þá sem ég særði. Sennilega baðst ég meira að segja efsökunar og það þótti bara alls ekki glæpur.
Um svipað leyti – sennilega bara beint í kjölfar þessa kommentakerfisstríðs við vini mína – gekk ég með þá hugmynd í maganum að snúa ljóðapartíinu alveg á hvolf. Að hanna ljóðaviðburð þar sem ljóðlistin væri einsog dinnertónlist. Hún væri viðstöðulaust í bakgrunni. Lágt en ekki þannig að maður heyrði hana ekki. En gestir væru í raun að fást við eitthvað annað. Sósíalísera. Borða mat af hlaðborði. Þessari hugmynd var álíka vel tekið og þegar ég stakk upp á því að við myndum halda ljóðakvöld á strippklúbbnum Vegas. Sem sagt bara alls ekki vel. Og því varð aldrei neitt úr neinu heldur.
Um daginn tók ég upp eitt ljóð úr Fimm ljóðum. Ég var að fara að lesa upp einhvers staðar og var að æfa mig og ákvað að taka það upp til að hlusta. Svo fiktaði ég aðeins í hljóðinu af því mér finnst þanniglagað gaman og úr varð þessi upptaka sem hefur legið á harða drifinu mínu í nokkrar vikur. Og hún sem sagt minnir mig á þessa hugmynd mína um dinnerljóðakvöld.
Þriðjudagur. Ég var í Víðsjá í dag. Viðtalið hefst þegar það er svona hálftími liðinn af þættinum. Ég hlusta mjög sjaldan á viðtöl við sjálfan mig en ég hlustaði á þetta og þetta var alltílagi þótt ég hefði mátt segja sjaldnar „hérna“ og „sko“ og „sem sagt“ og kannski tala aðeins hægar.
Annars hef ég tekið eftir því að fólki finnst það ekkert tala hratt þegar það talar hratt. Því finnst það bara tala eðlilega.
Í morgun fékk ég þau skilaboð að kontrabassinn minn væri kominn til Reykjavíkur og færi af stað vestur ´a morgun eftir uppsetningu. Ég er rosalega peppaður.
„Fullnægingarlýsingarnar þóttu mér vægast sagt framandlegar“. Þetta var fyrirsögn á bókadómi í Dagens Nyheter í morgun. „Jag känner mig djupt främmande inför beskrivningarna av orgasmer.“ Um daginn var önnur fyrirsögn í sama blaði: „Skilnaðarskáldsaga Helle Helle er jafn mikil nautn og smørrebrød.“ Sennilega væri þjálla að segja „Að lesa skilnaðarskáldsögu Helle Helle er jafn mikil nautn og að borða smørrebrød“ en ég er bara ekki viss hvert gagnrýnandi var að fara með þessu og þori ekki neinum túlkunarþýðingum. Mér finnst það samt skemmtilegt enda er ég sérstakur áhugamaður um það hvernig maður tjáir sig um nautnina að lesa – mér finnst ekki endilega að gagnrýni eigi alltaf að vera analýtísk fyrst og fremst, heldur megi hún líka bara lýsa lestrarupplifun tiltekins einstaklings. Og þessi smurbrauðslýsing segir eitthvað. Einsog þetta með fullnægingarlýsingarnar. Þetta er allavega skemmtilegra en konfektviðlíkingarnar og allt það.
Annars tók ég eftir því að orðið „sprúðlandi“ var notað í auglýsingu fyrir Fimm ljóð á dögunum. Reyndar var það notað til þess að lýsa Náttúrulögmálunum. „Frá höfundi hinnar sprúðlandi skáldsögu“ stóð, minnir mig. Ég held að þetta orð sé eiginlega bara notað til þess að lýsa skáldsögum. Arngrímur Vídalín skrifaði aðeins um orðið fyrir nærri 20 árum síðan (þegar hann var sennilega 13 ára) og ég fann líka Facebook-umræðu um það en allir stóðu svolítið á gati. Hins vegar þykir mér alveg ljóst að hér sé komin sænska sögnin „sprudla“ – sem þýðir að búbbla eða tindra eða iða af lífi. Mér skilst að Þórbergur hafi notað þetta í ljóði en ég hef Pál Baldvin grunaðan um að hafa komið þessu í umferð í bókadómum. En ég finn líka eldri dæmi frá Soffíu Auði, sem hefur haldið upp á þetta á tímabili – og elsta dæmið úr bókadómi er frá Dagnýju Kristjáns 1980, sem fjallar um Hvunndagshetju Auðar Haralds.
Framan af virðist þetta líka hafa verið mikið notað um leikhús en tekið stökk í notkun upp úr miðjum fyrsta áratug þessarar aldar og þá aðallega um bókmenntir. Og kannski bara skáldsögur. Er ljóðabókum lýst sem sprúðlandi? Eru plötur nokkurn tíma sprúðlandi? Sjónvarpsþættir?
***
Á RÚV er viðtal við framkvæmdastjóra kvikmynda´hátíðarinnar Stockfish sem segir fjölda kvikmyndahátíða á Íslandi „umhugsunarefni“.
Þessar hátíðir fylgja ekki beint framboði og eftirspurn. Þetta veltur meira á því hverjum dettur í hug að vera með kvikmyndahátíð og framkvæmir það. Það er hollt að taka stöðuna og spyrja okkur hvað þurfum við margar kvikmyndahátíðir og hverju eru þær að þjóna?
Ég verð að viðurkenna að ég skil ekkert. Eiga kvikmyndahátíðir að fylgja framboði og eftirspurn? Eru það ekki Marvel-st´údíóin sem eiga að gera það? Ef manni dettur í hug að halda kvikmyndahátíð og kemur henni í framkvæmd – er maður þá að valda einhverjum skaða? Hefði maður betur sleppt því? Hver á að „taka stöðuna“ og ákveða hversu margar kvikmyndahátíðir eru nógu margar kvikmyndahátíðir og hversu margar of margar? Hver eru þessi „við“ sem eiga að spyrja að þessu?
Á Ísafirði er eitt bíó og þar eru tvær kvikmyndahátíðir á ári. Ég myndi alveg lifa það af þótt þær væru fjórar. Hugsanlega myndi ég meira að segja ráða við fimm.
„Það hefur aldrei verið auðveldara að vera sósíalisti.“ Þetta var fyrirsögn í Dagens Nyheter í morgun. Á grein eftir Ninu Björk. Kannski er það satt, svona í kenningunni – það er allavega augljós þörf fyrir sósíalíska hugsjón. En á sama tíma hafa samtök sósíalista ekki mikið aðdráttarafl – og flokksbundnu sósíalistarnir virðast allir löðrandi í vanlíðan.
„Samtímalaxinn er stressaður einstaklingur.“ Segir einhver norðmaður á ensku í YouTube-auglýsingu. Ég veit þetta „hljómar betur“ á ensku („the modern salmon is a stressed individual“) en er það er ekki bara vegna þess að enskan er enn undirlagðari af sálfræðijargoni en íslenskan?
En hvort ætli sé erfiðara að vera sósíalisti eða samtímalax?
Ég stend mig að því að vera stöðugt fullur furðu þessa dagana. Mér finnst allir tala svo undarlega. Hugsa svo undarlega. Þetta er ekki endilega neikvætt – hvorki að fólk tali og hugsi undarlega né að ég fyllist furðu yfir því – en það hefur einhver áhrif á raunveruleikaskynið. Mér finnst svolítið einsog ég eigi að vera að lesa í þennan súbtexta. Hvað er laxamaðurinn að meina? Er þetta ekki einhver myndlíking? Er nokkuð til nema einstaklingar lengur – sagði ekki Thatcher eitthvað í þá veruna? Og eru ekki allir stressaðir?
Ég ýti vel að merkja alltaf á skip á YouTube-auglýsingum – ég þoli þær svo illa að ég hleyp jafnvel þvert yfir herbergið til þess að ýta á skip strax og á því er gefinn kostur. Svo ég veit ekki hvar þetta með stressaða laxinn endar. Í einhverri kví, grunar mig, með mikið af laxalús. Ekki vel semsé.
Dag Solstad er annars dáinn. Mér finnst vandræðalegt að hafa ekkert lesið eftir hann. Ég ætti að bæta úr því. Ég ætla samt ekki að fara að stressa mig á því – ætla ekki að hætta á að verða stressaður einstaklingur.
Við eigum orðið svo mikið af orðum yfir allt sem hægt er að gera á okkar hlut að við getum varla rætt annað. Orðalistinn tekur engan enda. Og við vitum að sá okkar sem tekst að sannfæra fundarmenn – því lífið er líka viðstöðulaus fundur nema þegar það er beinlínis réttarhöld – um að hann sé fórnarlamb ofbeldis er sá eini sem verður ekki á endanum fundinn sekur um að hafa beitt ofbeldi.
Já, ég var víst að lesa nokkra þræði af innanflokksdeilum sósíalista. Herregud.
***
Tvö útgáfuhóf að baki og eitt ljóðaboð að auki. Allt hefur gengið bara einsog í sögu held ég. Ég las Þríhjól í Svíþjóð hjá Ljóðum & vinum – ég ætlaði ekki að gera það en svo langaði mig það og ég gerði það og ég held ég geri það aldrei aftur. Það er ekki ljóð sem á að lesa upphátt. Eða ekki ljóð sem´ ég á að lesa upphátt.
Næsta föstudag verð ég á Patreksfirði hjá Skriðu útgáfu og Birtu Ósmann. Það verður áreiðanlega mjög gaman. Og eftir tæpar tvær vikur verð ég á bókmenntahátíðinni á Flateyri. Ég er búinn að fara í Kiljuviðtal og í Víðsjá og það birtist einhvern tíma á næstu 10-12 dögum, reikna ég með.
Nadja er farin til Frakklands í endurmenntun eða símenntun eða allavega einhverja menntun. Aino er að fara til Ungverjalands á sundmót. Aram er að fara að spila með hljómsveitinni sinni – Villimönnum – á setningu skíðavikunnar.
Kontrabassinn sem ég er að reyna að kaupa ætti að koma til landsins næstu daga, svo þarf væntanlega að láta fiðlusmið líta á hann og senda mér hann vestur. Og svo vantar mig statíf og poka og helst hljóðnema líka. Fyrir liggja æfingar með Gosa sem er að fara að spila á Aldrei fór ég suður. Sem er sennilega það fullorðinslegasta sem ég hef gert í þessu hljóðfærabrölti mínu. Svo ætla ég að læra að djassa svolítið þegar ég er kominn með kontrabassann. Frönskunám gengur heldur hægar en ég vildi en maður hefur ekki tíma til alls.
Af öðrum áhugamálum – sem eru aðallega skokk og matreiðsla – er allt gott að frétta. Hljóp 10 kílómetra í gær og eldaði egg Benedikts í hádeginu og kóreska blómkálsvængi fyrir okkur Aram í gær. Sem minnir mig á að ég þarf eiginlega að fara að gera kvöldmatinn.