Bönnum Hana

Síðustu áratugir 20. aldarinnar voru mikið umbrotaskeið í menningu vesturlanda. Fyrir þann tíma var allt svolítið hólfaskiptara – allt átti sitt rými og þeim rýmum var gert mjög mishátt undir höfði. Krefjandi verk og ögrandi, jafnvel óþægileg – áttu alls enga leið að því sem kalla mætti opinber rými. Þau gátu verið til en bara í sínum eigin lokuðu afkimum. Ef þau voru sýnd í almennum bíóhúsum, bækurnar seldar í bókabúðum eða listaverkin hengd upp þar sem „venjulegt fólk“ – að ekki sé minnst á börn – gat notið þeirra varð uppi fótur og fit. Niðurstaðan varð svo oftar en ekki málsókn og „bönn“.

Bönnin voru samt ekki alltaf eiginleg bönn – réttarhöldin yfir Howl eftir Ginsberg, sem er eitt frægasta tíma dæmið um listaverkabann, snerist ekki um að það ætti að banna ljóðið. Það átti ekki einu sinni að banna prentun þess eða dreifingu. Enda hefðu málfrelsislög hamlað slíku. En vegna þess að bókin var prentuð í Englandi og flutt inn til Bandaríkjanna var hún stoppuð í tollinum og gerð upptæk á þeirri forsendu að hún innihéldi klám. Spoiler – og trigger – warning: ljóðið inniheldur klám. Þar er meira að segja fullyrt að fólk geti haft ánægju af því að láta margríða sér í rassgatið. Og það er enginn parental advisory miði á kápunni og til stóð að dreifa henni í til þess að gera venjulegar bókabúðir.

Lagernum var þannig haldið í gíslingu mánuðum saman. En vegna þess að málsmetandi fólk kom hinu óþekkta ljóðskáldi og útgefanda hans til varnar skapaðist þrýstingur og umtal – útgefandinn sá að áhuginn var nægur til þess að hann gæti endurprentað bókina innan Bandaríkjanna og gerði það. Þegar lagernum var svo loks sleppt úr tollhúsinu var bókin orðin margföld metsölubók. Það er auðvitað fagnaðarefni – en það er líka mikilvægt pólitískt að yfirvöld (mórölsk, pólitísk eða efnahagsleg) átti sig á því að þau græða ekki á því að reyna að þagga listaverk heldur þvert á móti. Þetta má aldrei verða taktík sem virkar.

En Howl var ekki bannað. Ekki frekar en alræðisstjórnir austantjalds lögðu í vana sinn að banna rithöfundum að skrifa. Þær bara komu í veg fyrir útgáfu efnis sem þótti skaðlegt fyrir heill ríkisins og sálarlíf alþýðunnar. Það er ekki það sama og að banna neitt. Listaverkin mega vera til – þau mega bara ekki sjást, það má ekki heyrast í þeim og umfram allt annað: þau mega ekki hreyfa við fólki (eða triggera tilfinningar).

Gjarnan er líka reynt að takmarka einfaldlega útbreiðslu listaverka – stærstur hluti bókabannsumræðunnar í Bandaríkjunum snýr að skólabókasöfnum. Listar sem stundum birtast á Facebook um bækur sem eru „bannaðar“ í bandarískum skólum eru aldrei bannaðar í öllum bandarískum skólum heldur í einhverjum þeirra.

Listin er í eðli sínu truflandi. Hún hrærir við okkur. Ekki alltaf á sama hátt – stundum hlæjum við, stundum grátum við samúðartárum og stundum fyllumst við hofmóði. En stundum ögrar hún líka gildum okkar – skoðar þær forsendur sem okkur þykja sjálfgefnar og leyfir sér að spyrja hvort þetta standist. Stundum er þessi ögrun út í hött – alveg brjálæðisleg – og hún er merkilegt nokk ekki alltaf vitleysislegri fyrir það. Stundum ýtir hún þá við hugsunum og tilfinningum sem við vissum ekki einu sinni að gætu verið til.

Í vikunni var birt opið bréf með löngum undirskriftalista þess efnis að bíómyndin Elle eftir Paul Verhoeven ætti ekkert erindi á dagskrá RÚV enda væri hún „löðrungur í andlit þolenda“. Svona lýsti gagnrýnandi ríkisútvarpsins myndinni á sínum tíma:

[Elle] snýst um aðalpersónuna Michèle, vel stæða konu á miðjum aldri, sem verður fyrir árás strax í upphafsatriði myndarinnar þegar grímuklæddur maður brýst inn til hennar um miðjan dag og nauðgar henni. Myndin hefst með óhljóðunum yfir myrkum ramma og í nokkur augnablik er óljóst hvort um sé að ræða ofbeldi eða samræði, þótt allur vafi virðist hverfa þegar myndavélin sýnir okkur verknaðinn í miðjum klíðum innan um glerbrot á gólfinu. Þessi tvíræðu augnablik setja þó tóninn fyrir það sem koma skal, því sem áhorfendur vitum við aldrei nákvæmlega hvað við eigum að halda, hvar aðalpersónan stendur, eða nákvæmlega hvert myndin sjálf stefnir, enda gerir hún í því að ögra frásagnarhefðum svipaðra kvikmynda og virðist bæði meðvituð um væntingar áhorfenda sinna og reiðubúin að snúa upp á þær. Þannig verða eftirmálar nauðgunarinnar undarlega hversdagslegir; Michèle lætur nánast eins og ekkert hafi gerst og þegar hún loks segir nánustu vinum frá gerir hún afskaplega lítið úr atburðinum.

En í gagnrýni þeirra sem skrifuðu RÚV verður þetta að:

Myndin er því verkfæri til að viðhalda úreltum og skaðlegum mýtum nauðgunarmenningar og misréttis kynja og sýning hennar á ríkismiðlinum er fullkomin vanvirðing við tugþúsundir kvenna sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi hér á landi.

Helstu rökin fyrir þessu virðast vera þau að á einhverju stigi málsins í annars margbrotinni mynd sé daðrað við það að aðalsöguhetja myndarinnar hafi fengið kikk út úr því að vera nauðgað. Nú ætla ég ekki að fara að debatera hver séu eðlileg viðbrögð við nauðgun en mér hafði einmitt heyrst úr svipaðri átt og skrifaði þetta tiltekna bréf að það væru ekki til nein „eðlileg viðbrögð við nauðgun“ heldur væru þau alltaf persónuleg og oft á tíðum jafnvel mjög órökræn. Það er auk þess í samræmi við það sem ég þykist vita sjálfur – af fyrstu hendi og annarri og jafnvel þriðju líka. Við það má svo bæta að það er jafnvel enn galnara að ætlast til þess að sögupersónur séu rökrænar en annað fólk – enda eru sögupersónur bæði óáreiðanlegar og stundum ekki annað en myndhverfingar, hlutar af sagnalyklum.

Í umræðum á Facebook hefur því verið hent fram að fyrir undirskriftafólkinu hafi fyrst og fremst vakið að krefjast einhvers konar triggerviðvörunar á myndina og ræða sýningartíma hennar. Um það má segja tvennt:

1) Það er ekki inntak bréfsins sem sent var RÚV og hvergi í því er talað um sýningartíma eða viðvaranir

2) Myndin er sýnd klukkan 22 á sunnudagskvöldi og er tveir tímar. Seinna má það ekki vera. Sýningu lýkur þá á miðnætti. Auk þess er myndinni lýst í dagskrárlýsingu og ætti engum að dyljast umfjöllunarefni hennar. Æski maður frekari upplýsinga er búið að skrifa þúsundir blaðsíðna um efni hennar á netið. Hún er þess utan bönnuð innan 16 ára.

Þótt myndin stuði er óhemja af listrænt þenkjandi fólki – gagnrýnendum úr öllum stéttum, af báðum kynjum – sem ekki bara ver hana heldur fagnar henni. Þótt einn kalli hana „vegsömun nauðgunarmenningar“ þá er annar (eða önnur, réttara sagt – og umtalsvert fleiri) sem segir að aldrei hafi verið gerð kraftmeiri mynd um valdeflingu þolanda. Þótt einhverjum ofbjóði er bróðurpartur gagnrýnenda vægast sagt ánægður. Það er heldur ekki – hvað sem móralistarnir segja – ekkert samhengi milli þess að vera femínisti og að vera mótfallinn myndinni. Myndin er ekki sérstakt afsprengi feðraveldisins – nema að sama marki og allt annað.

En einsog ég segi er list ekki bönnuð með því að setja í lög að „listaverk a sé bannað“. Heldur er hún jöðruð. Hún er gerð óútgáfuhæf. Rýmið sem hún birtist í er leyst upp eða því lokað. Þeim sem gerir hana sýnilega er refsað. Þú sérð hana ekki lengur í bíóinu og ef hún er sýnd í bíóinu er plakatið ekki uppi við götuna. Kannski sérðu hana bara hjá vini þínum sem reddaði sér eintaki. Í samizdat stemningu. Af því eintökin eru ekki á hverju strái. Það er að sönnu erfiðara að „stöðva“ útgáfu á tímum internetsins en það er líka auðveldara að grafa hana – það þarf sterkara signal til að skera í gegnum síbyljuna.

Og sennilega hafa stóru rýmin sem leyfa sér að fara út fyrir almenna og saklausa afþreyingu þess vegna aldrei verið mikilvægari – hvort sem það er Bíó Paradís við Hverfisgötu eða sýningartímar á RÚV eða eitthvað annað. Íslensk heimildarmynd sem kemst á dagskrá hjá RÚV er til – um hana er rætt á twitter, á kaffistofum, til hennar taka ráðamenn afstöðu – en íslensk heimildarmynd sem fæst ekki sýnd á RÚV (einsog t.d. Ge9n eftir Hauk Má Helgason, sem fjallaði af miklu listfengi, dýpt og óþægilegri róttækni um níumenningamálið) er ekki til. Hún hefur verið grafin.

Að þessum rýmum er alltaf sótt og tilvist þeirra er ekki sjálfsögð. Stundum er sótt að þeim af móralistum sem telja sig þess umkomna að fjarlægja alla óþægilega list úr almannarýminu svo hún skaði engan. Stundum af kapítalistum sem telja sig geta grætt meiri pening á að sýna eitthvað annað – eða selja eitthvað annað. Stundum af einhverjum öðrum. Ég hugsa að listabíó á RÚV eigi ekki marga dygga áhorfendur, gæti vel trúað að það „beri sig ekki“ og finnst ekkert sennilegra en að innan stofnunarinnar séu margir sem vildu helst bara kasta öllu slíku artífartí-drasli út í hafsauga – ekki síst þegar m.a.s. menntaða vinstraliðið er farið að biðjast undan „viðbjóðnum“. (Og ætla samt ekki að gera lítið úr því að innan RÚV starfar líka óhemja af menningarlæsu fólki – það er bara ekki endilega alltaf sama fólk og ræður mestu). Þá er ábyggilega einhver tilbúinn með niðurskurðarhnífinn – það má eiginlega bara bóka það.

Í sjálfu sér kemur það mér ekkert á óvart að í heiminum séu harðir móralistar og umvöndunarfólk. Prestafrekjan er víða. En ég varð sannast sagna alveg miður mín þegar ég fór að forvitnast á Facebook og áttaði mig á því hversu mikinn stuðning þessi krafa hafði á bakvið sig – líka úr listakreðsum – og hversu lítið kikkbakkið við þessari fáránlega repúblíkönsku kröfu er. Ég á bara ekkert annað orð sem lýsir því en hræðilegt. Það er í alvöru hræðilegt ástand.

Flensuskýrsla

Ég skrifa lítið, les lítið og geri mest lítið. Í dag hef ég verið veikur í 14 daga samfleytt. 18 daga reyndar ef ég tel með fjögurra daga heyrnarleysi sem ég varð fyrir áður en ég veiktist. Á öðru eyra reyndar bara – það leystist með skolun á heilsugæslunni og ég gekk hress út til þess eins að hrynja niður í 39 stiga hita daginn eftir. Ég sem fer venjulega aldrei upp yfir 36,3 – ekki einu sinni þegar ég er veikur. Ég verð reyndar æ oftar veikur í seinni tíð, finnst mér, án þess ég hafi tekið það sérstaklega saman. Í þetta sinnið var það óvenju óverðuskuldað því ég tók allan janúarmánuð í hollustu og aðhald – borðaði ekkert nema heilsufæði, hreyfði mig daglega, snerti ekki áfengi eða tóbak, svaf vel og svo framvegis. Og þetta voru launin.

Fyrst lagðist ég bara flatur. Þá kom að því að nærveru minnar var óskað í Jönköping – en þar er einmitt ground zero fyrir kórónaveiruna í Svíþjóð, ekki að það hafi verið þess vegna sem kallað var eftir mér, heldur til þess að sinna bókmenntunum. Ég ætlaði að blása þetta allt af og var búinn að skrifa skipuleggjandanum og segja henni að það væru nær engar líkur á að ég kæmi – bæði væri ég með flensu og svo væri spáin þannig að líklega yrði ekki flogið innanlands svo ég yrði þá að keyra suðureftir með háan hita. Sem væri af og frá, þetta myndi ég ekki leggja á mig, mér þætti það mjög leitt. Svo leit ég fyrir rælni á samninginn minn og sá að launin voru miklu hærri en gengur og gerist svo ég dró í land með allt saman – skítblankur og skuldugur – keyrði suður og flaug út eldsnemma morguninn eftir, tók síðan lestina til Jönköping og lá fárveikur í hótelrúminu mínu á milli gigga.

Á heimleiðinni dópaði ég mig til þess að komast í Kiljuviðtal – heimkominn dópaði ég mig til að komast á þorrablót með konunni minni, sem hefur farið ein á þetta þorrablót síðustu árin vegna þess að ég er alltaf á einhverjum bókmenntahátíðum á þessum árstíma. Ég get varla sagt að ég hafi farið á alvöru þorrablót um ævina – fór í tíundabekk á svona æfingablót, einu sinni með íslendingafélaginu í Helsinki og svo á fusionblót með hrútspungapizzum og súkkulaðihúðuðu slátri og fleira hnossgæti sem endaði nú mest bara í ruslinu held ég. Maturinn í Hnífsdal á laugardaginn var nú samt bara góður – bæði klassíski þorramaturinn og svindlmaturinn (grafin gæs, hangikjöt og fleira nammi). Ekki skil ég hvað fólki finnst þetta „vont“ – spes, jújú, en þetta er einfaldlega ekki vont, það er bara einhver búraminnimáttarkennd. Ég var hins vegar búinn að éta rétt nógu mikið af verkjalyfjum – ofan í bjór, romm, brennivín, plómuvín og tekíla – til að vera bara svolítið einsog illa gerður hlutur megnið af ballinu. Ég dansaði örlítið, en ég er klaufi á dansgólfinu á góðum degi, og það var misgaman – í hlutfalli við það hversu miklu máli það skipti dansfélagann að þetta væri allt rétt gert.

Svo lagðist ég aftur þunnur og lasinn á sunnudag – og fékk mikið af einhverjum svona „glætan þú sért lasinn“ kommentum sem mér fannst glötuð, búinn að harka þetta af mér í tíu daga. Lá aftur í gær. Í morgun fór svo ég á fætur – eða, þið vitið, klukkan 11 held ég. Át haug af verkjalyfjum, fór í sturtu, drakk Gatorade, fór í hrein föt, göngutúr. Ég er ennþá lasinn. Sennilega er ég bara að drepast. En ég nenni ekki að liggja lengur í rúminu. Þetta fer hrikalega með sjálfsvirðinguna. Ekki það að ég hafi gert neitt af viti – las ekkert, skrifaði ekkert (nema þetta). Jú, ég gekk frá skattamálum, skrifaði einn reikning og nokkra praktíska tölvupósta. Það er sennilega ágætt bara. Ef ég er ekki örendur á morgun get ég þá kannski byrjað aftur að þýða ljóð og jafnvel haldið áfram að smíða nýja gítarinn.

Nú verða sagðar fréttir

Jæja. Hvað er að frétta?!

  1. Ég er byrjaður að smíða nýjan gítar. Telecaster 72 Custom týpu. Sennilega fer það allt úrskeiðis!
  2. Ég fór suður og sótti Aram. Hann hefur verið í Ameríku í tvær vikur og tvo daga.
  3. Brúin yfir Tangagötuna ætti að koma með skipinu (brú með skipi?) nú um mánaðamótin. Eitthvað smávegis hefur verið rætt að taka upp hljóðbók fljótlega.
  4. En ég er upptekinn við ljóðaþýðingar flesta daga.
  5. Það er föstudagur. Það þýðir að það verður sennilega pizza í matinn.
  6. En ég er í aðhaldi. Reyni að éta ekkert óhollt, hreyfa mig daglega og snerti ekki brennivín eða tóbak.
  7. Aðfararnótt mánudags er ég boðinn í Superbowl sunday veislu. Þar mun bjórinn flæða og majonesið og allt milli himins og jarðar verða djúpsteikt. Sjá: 6. liður.
  8. Ég er með svo mikinn eyrnamerg í öðru eyranu að ég heyri ekkert frá vinstri. Ég hef prófað eyrnapinna og heitt vatn en það gerir lítið gagn.
  9. Ég er ekki stressaður yfir bókinni en ég er svolítið áhyggjufullur yfir ýmsu öðru í lífinu. Væntanlegum flutningum til Svíþjóðar ekki síst. Þar verðum við í ár frá september. Ég er orðinn svo hrikalega heimakær að ég ræð varla við tilhugsunina.
  10. Það eru almenn blankheit í lífinu líka. Bíllinn tók upp á að þurfa nýja kúplingu. Það setti mig svolítið á hliðina.
  11. Annars er voða fallegt veður. Sennilega verður gott að skíða næstu daga. Ég er reyndar ekki búinn að skoða spána. Kannski er þetta allt á leiðinni til andskotans.
  12. Hugsanlega eru áhyggjur minnar af „öðru“ bara tilfærsla á áhyggjum mínum vegna bókarinnar. Það hvarflar að mér. En það fer þó ekki á milli mála að mér hentar betur andlega að gefa út utan jólabókaflóðsins. Fjárhagslega er það sennilega óráð – hún verður ódýr kilja og seld á afslætti (undir þrjú þúsund, skilst mér) sem þýðir að ég fæ minna per selt eintak. Og svo seljast miklu færri bækur utan jólabókaflóðsins. En ég er samt vel að merkja hæstánægður með verðlagninguna – ég vil alls ekki að bækur séu munaðarvara.
  13. Í næstu viku fer ég til Svíþjóðar á bókmenntahátíð.

Að tárast í ókyrrðinni

Ég ætlaði að blogga eitthvað í gær. Sennilega er ég hættur menningardagbókinni í bili – lítið búinn að lesa reyndar en hef séð alls konar sjónvarp og bíó. Harry Potter, Grevinnan och betjenten, Ívar Hlújárn, Fright Night, Dolemite is My Name, Jo Jo Rabbitt, Marriage Story, skaup og krakkaskaup og Zombieland. Lesið Dimmumót Steinunnar og Deep Blues eftir Robert Palmer. En ég ætlaði að blogga eitthvað hversdagslegt. Eitthvað um morgunmatinn. Svo féllu þessi snjóflóð á Flateyri og í Súgandafirði og það er auðvitað allt annað en hversdagslegt. Og ég einn heima. Blessunarlega virðast snjóflóðavarnirnar hafa gert sitt gagn og enginn vera alvarlega meiddur þótt augljóslega séu margir hvekktir – og sumir áreiðanlega mjög hvekktir. Þetta var tráma fyrir allt svæðið 1995 og þau sár ýfast af minna tilefni en þessu.

Í Brúnni yfir Tangagötu er einsog ég hef nefnt snjóþungt á einum kafla og þá berast snjóflóðin eðlilega í tal. Ef það snjóar mikið hérna berast snjóflóðin í tal – það er bara þannig, aldarfjórðungi síðar. Á morgun eru beinlínis 25 ár frá flóðinu í Súðavík. Upp á daginn.

Ég held að hvort sem manni líkar betur eða verr þá séu snjóflóðin 1995 kjarnandi fyrir lífið á Vestfjörðum – í þeim skilningi að þau eru alltaf þarna, maður veit alltaf af þeim, þau eru grundvallarþáttur í lífinu. Ég segi ekki að maður sé í einhverjum viðstöðulausum kvíða alltaf þegar tekur að blása eða einu sinni þegar hengjur byrja að safnast fyrir í fjöllum. Því fer raunar fjarri. Þau bara eru þarna í kollinum á manni. Möguleikinn um hvað getur gerst. Og þessi möguleiki er öðruvísi fyrir en eftir, þegar maður man.

Við vitum öll að það gæti orðið stór suðurlandsskjálfti eða mikið Heklugos – gosið í Heimaey varpar áreiðanlega svipuðum skugga í Vestmannaeyjum – og víðast hvar í heiminum er einhver sambærileg ógn. Stundum er hún félagsleg, stundum beinlínis hernaðarleg eða annars eðlis – hverju valda loftslagsbreytingar á endanum, hvað gerist ef efnahagurinn hrynur gersamlega og svo framvegis. Flóð, skógareldar, hungursneyð. Lífið er hættulegt og Vestfirðir eru ekki einstakt hamfarasvæði. En það er annað að vita þessa hluti í hausnum á sér en að finna fyrir þeim í taugaendunum – þessum væga seyðingi sem af og til blossar upp af því líkaminn kannast við þetta. Ég er ekki viss um að það sé verra – alls ekki. Dauðabeygnum fylgir nefnilega líka kærleikur – og lífsþrá, að vilja ekki fyrir neina muni sóa þessum mínútum sem maður lifir.

En það sem er kannski skrítnast – sérstaklega á degi einsog í dag, nótt einsog í fyrrinótt – er hvað þessi kvíði er einmitt hversdagslegur alla jafna. Kvíði er meira að segja ofmælt – þetta er meira einsog maður veit að maður gæti dáið undir stýri og er alltaf meðvitaður um það en byrjar ekki að ofanda fyrren bíllinn skautar svolítið. Maður stígur pollrólegur upp í flugvélar en tárast svo í ókyrrðinni – eða bítur á jaxlinn en það kemur í sama stað niður. Á svona degi eru allir svolítið að kljást við kökkinn í hálsinum, ónotin í maganum. Ekki bara vegna þess sem gerist heldur vegna þess að maður man – og þetta gæti verið svo miklu verra.

Mér sýnist ókyrrðin að mestu liðin hjá þótt við séum ekki lent. Það hefur loksins birt aðeins til – ég get ekki lýst því hvað var dimmt hérna áðan. Og ég sé glytta í bæði Erni og Eyrarfjall. Ég heyri í veðrinu en það brakar ekki lengur í húsinu. Í sjálfu sér getur verið allt annað veður í Önundar- Álfta- og Súgandafjörðum en vonandi gefur þetta tóninn fyrir næstu klukkustundir.

Ég er þakklátur fyrir snjóflóðavarnirnar – einsog bílbeltin. Svo mega þessar lægðir aðeins fara að róa sig. Ég væri til í að fá Nödju og Aino heim – Aram kemur víst ekki alveg strax – og svo er orðið mjög tómlegt um að litast í Nettó og það væri gaman að geta farið á skíði í öllum þessum snjó.

Vort daglega brauð

Vantar mig ekki meira kaffi áður en ég fer að skrifa eitthvað? Augnablik.

***

Komið.

Ég er ennþá svona hægur. Veðrið er ennþá einsog það er. Aram er að fara til Bandaríkjanna á mánudag og Nadja og Aino ætla að fara með hann suður – sú yngri á þrjá miða á Matthildi en sú eldri gjafakort í lúxusnudd, hvorutveggja jólagjafir. En veðrið er einsog það er og ég er næstum farinn að halda að það fari enginn neitt. Það snjóar og snjóar og snjóar. Svona er þetta líka í bókinni minni – maður á aldrei að skrifa neitt sem maður vill ekki að gerist.

Ég nefndi þetta við Nödju og mömmu í morgun – mamma kemur alltaf við og fylgir krökkunum þessa tvo metra sem eru í skólann – þær hafa báðar lesið bókina. Þá sneri Aino sér að mér og bað mig að skrifa sól og blíðu – og hún sagði það einsog þetta væri vísindalega sannað, að það sem ég skrifaði yrði satt, en ekki kæruleysisleg þvæla hálfvaknaðs mikilmennskubrjálæðings.

 

Venjuleg bloggfærsla af gamla skólanum

Í janúar í fyrra settist ég niður til að skrifa bók. Ég ákvað að skrifa bók án þess að velta  mikið fyrir mér hvert hún ætti að fara eða um hvað hún ætti að vera. Í stað þess að leggjast í ítarlega heimildarvinnu – einsog t.d. þegar ég skrifaði Hans Blæ eða Illsku – byrjaði ég bara að skrifa nánast í þeim sporum sem ég var. Karlmaður á mínum aldri – en ekki ég – sat við morgunverðarborðið á heimili mínu. Hann borðaði ekki morgunmatinn minn (ég fæ mér alltaf seríos) og það var ekki janúar. Hann var eirðarlaus og hafði lítið að gera og var dálítið skringilega þenkjandi, uppburðarlítill en með hugmyndir um veruleikann sem voru svolítið á reiki. Smám saman áttaði ég mig á því að ég hafði hitt þennan mann áður, skrifað hann áður, einu sinni var hann í bók sem heitir Eitur fyrir byrjendur. Svo fór ég í vinnuna dag eftir dag einsog maður gerir og sennilega kláraði ég fyrsta uppkast í mars. Annað uppkast í Hondúras í sumar. Sendi frá mér lokagerð einhvern tíma í lok nóvember. Í desember valdi ég kápu. Á föstudag las ég lokapróförk – lét breyta einu „í-i“ í „á“, það voru allar breytingarnar – og nú geri ég ekkert fyrren bókin kemur til landsins með skipi. Sennilega um miðjan febrúar. Líklega held ég ekki einu sinni útgáfuhóf fyrren um miðjan mars og ég er að hugsa um að halda jafnvel bara matarboð heima hjá mér í staðinn fyrir að standa í einhverju kokteilveseni. Á einhverjum tímapunkti hvarflaði reyndar að mér að stofna bara blúsband og halda tónleika í staðinn fyrir útgáfuhóf en það er að verða fullseint.

Planið var síðan að byrja strax á næstu skáldsögu núna í janúar. Ég á fyrstu síðurnar að vísu tilbúnar. Ég skulda líka grein í Skírni. Er búinn með þriðjung úr strætóljóðabók. Á teikniborðinu er sömuleiðis safn ljóðaþýðinga – aðalvinnan þar væri að fara í gegnum lagerinn og velja – og þýðingar á völdum ljóðum eftir Gertrude Stein og Alfabet eftir Inger Christensen. Sem er meiri vinna – sérstaklega Inger, enda danskan mín bara rétt svo alltílagi (en ég er með alls konar þýðingar á önnur mál til samanburðar og hjálpar).

Svo sit ég bara við tölvuna og gúgla gítarpikköppum, nestisboxum fyrir börnin og einhverju hollu til að hafa í kvöldmatinn. Ég hef áhyggjur af stríðinu í Írak og Íran. Kvótakerfinu. Yfirvofandi búferlaflutningum til Svíþjóðar næsta haust (tímabundið, í ár). Byggðamálum. Stari út í loftið. Ég hef lesið lítið og hægt síðustu vikur. Kláraði síðast bók um blúsinn. Byrjaði á þremur skáldsögum og leist og líst mjög vel á þær allar – en einni þurfti ég að skila á bókasafnið áður en ég komst langt í henni, annarri týndi ég innanhús um hríð og þriðju hef ég bara ekki haft eirð í mér til að lesa – af því söguheimurinn er svo sterkur. Ég bara sit hérna í mínum heimi, ídeósynkratískum heilanum á mér, og þoli illa að vera annars staðar, ekki beinlínis leiður en mjög, mjög hægur.

Tottenham-Burnley; lokatónleikar Skálmaldar; Willow Creek; Star Wars: Rise of Skywalker; Space Balls; Watchmen s.1; You Me Her s.1; Parasite; The Beautiful Poetry of Donald Trump; Slæmi pabbi; Escaping the Delta: Robert Johnson and the Invention of the Blues; Beanoplatan; Silicon Valley s. 6 og gítarleikari vikunnar

Hér sit ég á náttslopp í kósíbuxum og sýg upp í nefið og hnerra og get ekki annað, hef ekkert um þetta að segja. Ég er búinn að éta svo mikið af verkjalyfjum að það liggur við að ég sjái ekki á skjáinn. Get ekki legið í rúminu meira. Ég á litla jólaöl í ísskápnum sem ég er að treina mér.

***

Hvar á ég að byrja? Ég geri þetta sjaldnast í réttri röð. Ég fór með pabba mínum, litla bróður og syni hans á Tottenham-Burnley. Það er orðið svolítið síðan – ætli leikurinn hafi ekki verið 7. des? Þetta var allavega mjög góður leikur og við (Hotspurs) unnum 5-0. Son skoraði alveg ótrúlegt mark – fékk boltann alveg við eigin vítateig, sólaði sig upp völlinn og dúndraði boltanum í mark. Við fórum svo í skoðunarferð um nýja völlinn daginn eftir – það var líka geggjað.

***

Við Aram Nói fórum svo á Skálmaldartónleika í Reykjavík. Lokatónleika þeirrar sveitar – a.m.k. „í bili“. Blóðmör og Finntroll hituðu upp. Það var fremur fátt í húsinu þegar Blóðmör spiluðu en þeir eru hörkuband og skiluðu sínu mjög vel – minntu mig skyndilega svolítið á Bootlegs. Aram Nói sagðist hafa verið of feiminn til að headbanga en var kominn í stuð þegar við sáum Finntroll – eftir kvöldverð á víetnömskum veitingastað í pásunni á milli. Og hefur lýst því yfir að Finntroll sé komin hátt á lista yfir eftirlætishljómsveitir. Ég var ekki alveg jafn hrifinn. Gimmikkið er skemmtilegt og þetta er alltílagi músík – en ekkert meira – og mér finnst þeir blikna við hliðina á Skálmöld, sem eru melódískari og þéttari. Einfaldlega sjúklega þétt – eiginlega engu lagi líkt. Ég held ég hafi heldur aldrei tekið eftir því áður hvað sándið hjá Þráni, sem spilar megnið af sólógítarnum, er ótrúlega flott. Það eru ekki margir þungarokkarar sem spila á single coil gítara – þótt það séu nokkrir – og flestir eru með meira smooth sound en það er gritt í þessu hjá Þráni.

Mér fannst svolítið fyndið í lokin þegar þeir voru að kveðja – og voru púaðir fyrir að ætla í pásu – að Björgvin maldaði í móinn og sagði að þeir þyrftu að fá að knúsa konurnar sínar, leika við börnin og mæta í vinnuna og svona. Sem er beisiklí allt sem rokkdraumurinn gengur – hefðinni samkvæmt – út á að forðast. Allt smáborgaralífið – launaþrældómurinn, white-picket fangelsið o.s.frv. Ekki þar fyrir að sennilega er minna um svona Mötley-rokklíferni núorðið.

Það er jafnan sagt að konur haldi uppi menningarstarfsemi á norðurhveli jarðar – kulturtanten, menningarfrænkan, sem mætir á tónleika og upplestra og kaupir bækur, er sögð halda uppi heilu menningarstofnunum. En bæði Tottenhamleikurinn og Skálmaldartónleikarnir voru karlaviðburðir – þótt það væru konur á báðum voru karlar í miklum meirihluta. En auðvitað er þetta ekki það sem margir hugsa um þegar þeir hugsa um „menningu“.

***

Ég horfði á bíómyndina Willow Creek – en hún var skrifuð og henni leikstýrt af Bobcat Goldthwaite, sem er frægastur fyrir að hafa leikið í Police Academy myndunum. Dan, vinur minn, sem er kvikmyndakall, mælti með að ég horfði líka á hana fyrst ég var að horfa á Blair Witch Project. Willow Creek er einmitt einsog Bobcat hafi horft á Blair Witch Project og ákveðið að laga bara misfellurnar í henni – hún er ótrúlega lík, uppbyggingin er sú sama (nema þetta er par, ekki þrímenningar, og þau eru að leita að Stórfóti en ekki Blair-norninni). En hún er líka betri. Það er betra að hafa par í þessu – beiskjan og ástin milli þeirra verður áþreifanlegri. Þá hendir hann inn einu atriði alveg í byrjuninni þar sem þau eru að fara inn í skóginn og rekast á mann – hann er sennilega starfsmaður leynilegs maríjúanaakurs í skóginum – sem rekur þau til baka með miklum þjósti og ógn. Hann kemur ekkert aftur fyrir en bara þetta litla atriði setur alla ógnina í skóginum í annað ljós – það er alltaf séns að maríjúanabændurnir séu að hræða þau. Endirinn – sem ég ætla ekki að hafa eftir – er síðan miklu betri. Endirinn á Blair var beinlínis lélegur en þessi er æði.

***

Við Aram Nói fórum líka á Star Wars: Rise of Skywalker (ég geri alls konar með dóttur minni líka, ég lofa, en akkúrat þegar við vorum á Star Wars var hún á jólatónleikum með móður sinni). Hún tikkar í öll box og er auðvitað „léleg“ – en það eru líka allar Star Wars myndirnar „lélegar“, alveg einsog Rocky Horror Picture Show er „léleg“ og ýmislegt fleira sem manni finnst svo samt frábært. Söguþráðurinn er þvæla, sem fyrr, og samtölin stirðbusaleg – leikurinn í besta falli la-la. En það eru geislasverð og sprengingar og allur sjarminn er til staðar – Lando er með, Hans Óli og Lilja eru með, Logi er með, keisarinn er með, vélmennin eru með (og eitt nýtt m.a.s.) og Rey og Kylo Ren og allir hinir nýju. Stórkostleg mynd. Fimm stjörnu sápuópera sem tekur sig ekki of alvarlega (enda væri Star Wars fyrst ónýtt þegar samræðurnar væru orðnar vel skrifaðar og söguþráðurinn kæmi manni á óvart). Barnshjartað í mér sprakk næstum.

***

Kvikmyndaklúbbur unga fólksins horfði á Space Balls. Vel að merkja áður en við fórum á Star Wars. Hún endist mjög vel og við veltumst um af hlátri. Söguþráðurinn í Space Balls er auðvitað líka þvæla en samtölin eru vel skrifuð. Þessi sena er t.d. óendanlega góð.

Börnin skildu samt ekki alveg þetta vídjóspóludæmi.

***

Við kláruðum Watchmenseríuna. Hún var frábær. Hvað situr eftir – ég veit ekki hvort mér þótti pólitíska greiningin eitthvað ægilega merkileg. Það eru margir að tala um hana sem pólitískt meistaraverk en sem greining er hún frekar fyrirsjáanleg. Hún var í sjálfu sér alveg rétt, held ég – svona sem lýsing á þráðum sem liggja og hafa legið um bandarískt samfélag – bara ekkert æðislega groundbreaking. Aðalleikkonan, Regina King, sem ég hef ekki séð áður er ótrúlega góð. Jeremy Irons er dásamlegur. Jean Smart líka. Lúkkið og stemningin eru geðveik.

***

Ég horfði á eina og hálfa seríu af You Me Her. Þegar ég er á ferðalagi, sem ég er alltof mikið, þá horfi ég á vondar sjónvarpsseríur. Því ef ég horfi á eitthvað gott stöff er einsog ég sé að ræna því af Nödju. Við þurfum að horfa á svoleiðis saman. You Me Her fjallar um par á fertugsaldri sem er komið með leið hvort á öðru og finna spennuna aftur með því að bjóða ungri háskólastúdínu að ganga í sambandið með sér. Þetta er svona pólídæmi. Fyrstu þættirnir, þegar þau eru að opna sambandið, eru alveg svolítið áhugaverðir en þetta verður fljótt að algerum leiðindum, sem maður á samt erfitt með að slökkva á. Nadja var að lýsa fyrir mér Fortnite spilinu nokkrum dögum eftir að ég kom heim – að það væri ekkert í því, það væri svona sálarlaust gímald sem ýtti bara á alla réttu hnappana í börnum, einsog pavlovskum hundum, svo þeir gætu ekki hætt. You Me Her er svolítið svipað.

Þetta er ævintýri fyrir lífsleitt fólk sem fær kikk út úr fantasíunni um að ríða út fyrir hjónabandið – en líka fantasíunni um að brjóta upp formið, fastalífið, að vera „villt“ og „frjáls“ (einsog þau ímynda sér að þau hafi verið þegar þau voru ung en voru í fæstum tilvikum þannig í raun og veru). Pólídæmið er síðan ekki nema lítill hluti þessa ævintýris – sem snýst ekki síst um frekar viðstöðulaust djamm (sem virðist ekki hafa neinar afleiðingar, annað en pólídæmið sem er alltaf alveg að fara að kosta þau eitthvað – þá geta þau verið hauslaus af drykkju og mollýnotkun kvöld eftir kvöld án þess að nokkur í kringum þau hvái eða þau verði þunn í meira en korter). Útkoman er fíknivekjandi en alveg epísk leiðindi og ég gat ekki gert upp við mig hvort ég þoldi persónurnar verr en handritshöfundana eða leikarana. Tónlistin í þáttunum er líka alveg óhuggulega leiðinleg. Ég ætla aldrei að horfa á meira af þessu rusli.

***

Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á suður-kóresku kvikmyndina 기생충 eða Meindýr/Parasite. Ég vissi ekkert um hana annað en að hún þykir líkleg til að hirða erlenda óskarinn í ár. Þetta er kolsvört kómedía um fátækt fólk og ríkt fólk, um blekkingar, ofbeldi, snobb, forréttindi, lífsbaráttuna – og einhver besta bíómynd sem ég hef séð lengi. Þarna er stéttagreiningin til dæmis mjög brútal og höfundur skirrist ekki undan því í eina einustu sekúndu að horfast í augu við afleiðingar stéttaskiptingar – þar sem ein fjölskyldan lifir í fullkomnum vellystingum en hin nánast í holræsunum. En hún er samt ekki þannig að maður haldi með neinum – hún er bara brútal. Og fyndin. Og brútal. Og hrikaleg. Maður grætur, hlær og gargar. Nadja segir að ég megi ekki segja of mikið af söguþræðinum og það er ábyggilega rétt. En horfið á þessa mynd.

***

The Beautiful Poetry of Donald Trump er ljóðabók sem sett er saman af Robert Sears, sem er grínhöfundur af McSweeneys-kyni. Bókin sver sig í ætt frægrar bókar eftir Hart Seely, sem tók saman búta úr ræðum og viðtölum við Donald Rumsfeld, og birti sem ljóð. Sú ljóðabók var mjög góð – Rumsfeld talaði svolítið samhengislaust stundum, lét hugann reika, og átti það til að vilja raunverulega fílósófera, einsog í frægri ræðu um „the known knowns“ og „the known unknowns“ og „the unknown unknowns“. Mér finnst þetta ekki virka á Trump – þótt stöku ljóð sé skemmtilegt. Í fyrsta lagi eru textarnir miklu meira unnir en hjá Hart Seely. Hver einasta lína hjá Sears kemur úr ólíkri ræðu eða tweeti Trumps en Seely línuskipti bara fallegum hugsunum Rumsfelds. Þá setur Sears neðanmálsgreinar – 1 og 2 og 3 – á eftir hverri línu sem einfaldlega skemmir lúkkið, skemmir „the suspended disbelief“ svo maður getur aldrei notið þess að lesa textann sem ljóð, hann verður alltaf mjög augljóslega og áberandi brandari. Í öðru lagi er Trump bara ekki dreyminn hugsuður, einsog Rumsfeld, Trump beitir tungumálinu einsog sleggju og það er ekki heiglum hent að ætla að raða saman ofsanum í honum í áhugaverðan texta – Trump er áhugaverður í sínu eigin samhengi en hann þýðist ekki yfir á hið ljóðræna svið.

***

Slæmi pabbi eftir David Walliams. Aram Nói valdi og við lásum saman þrjú. Við erum búin að lesa svona 5-6 bækur eftir Walliams og þær eru allar skemmtilegar – og áhugavert að hann er mikið til skiptis í einhvers konar woke-þjónkun (siðferðislegu barnauppeldi í gegnum bókmenntir) og að brjóta á einhverjum PC-lögmálum. Þannig er t.d. mjög mikið af óþolandi kvenpersónum í bókum hans en í þessari giftast tvær þeirra í lokin (og báðar teknar í sátt áður en yfir lýkur).

Bókin fjallar um Frikka sem á einstæðan pabba sem var einu sinni kappakstursbílstjóri en missti svo fótinn í slysi og hefur ekki getað keyrt – þeir feðgar sökkva í mikla fátækt (en það er undantekningalítið fátækt fólk í forgrunni í bókum Walliams). Það endar með því að pabbinn tekur þátt í bankaráni og fer í fangelsi. Og svo þarf að leysa það einhvern veginn.

Þetta er fyndin bók, svolítið langdregin kannski, og veitir innsýn í líf fólks sem á ekki nóg til hnífs og skeiðar. Öðruvísi innsýn en t.d. Sitji Guðs englar en mikilvæga engu að síður. Ég held að börnin mín – og ég sjálfur stundum – fatti ekki alltaf hvað það þýðir að fá ekki alltaf allt sem maður vill og kannski ekki einu sinni það sem maður þarf.

***

Escaping the Delta: Robert Johnson and the Invention of the Blues eftir Elijah Wald. Ég er búinn að vera að lesa alls konar bækur um blús síðustu misseri og þær eru margar mjög góðar. Ég er eiginlega farinn að hallast að því að fáar bækur sem ég hef lesið hafi kennt mér meira um margbreytileika sjálfsmyndar og menningarsögu en þessar.

Wald gengur út frá nokkrum staðreyndum. Í fyrsta lagi að blúsinn sem svart fólk hlustaði á á sínum tíma – á gullöld delta-blússins – hafi verið allt önnur músík en síðar varð vinsæl sem deltablús. Þetta er í sjálfu sér ekki umdeilt – Leroy Carr og Josh White voru aðalkarlarnir 1928 en 1958 voru það Robert Johnson og Son House, sem voru nánast óþekktir. Carr og White eru meira slikk – nútímalegri flytjendur, poppaðri, meiri skemmtikraftar. Son House og Johnson eru meiri listamenn, hrárri, „upprunalegri“ (með gæsalöppum) o.s.frv. Og það voru fyrst og fremst hvítir karlkyns hlustendur sem upphófu þá – en helstu hlustendur og plötukaupendur Carrs og Whites voru svartar konur (mikið af fyrstu blúsurunum voru líka konur – Mamie Smith, Bessie Smith, Ida Cox, Ma Rainey o.s.frv.). Þessi blústónlist – sem er ýmist kölluð köntríblús eða deltablús – var mikið til gleymd og grafin upp úr 1958, nema hjá fáeinum áhugamönnum. Rafmagnaður blús hafði að einhverju leyti komið í staðinn – hinir ólíku stílar Muddy Waters, John Lee Hooker og BB King – og svo auðvitað bara sálartónlist, R&B og eitt og annað fleira. Og þar kemur að annarri hugmynd Walds, sem er að deltablúsmenn hafi alls ekki gert neinn æðislegan greinarmun á því hvaða tónlistarstefnu þeir voru að spila. Það sem var tekið upp – af hljómplötufyrirtækjum en líka mikið af þjóðfræðingum – hafi verið köntríblúsefnið en líklega hafi flestir þessara köntríblúsara verið að leika allt milli himins og jarðar á sínum böllum (og þeir voru allir ball-listamenn – það er ekki fyrren í Carnegie hall, mörgum áratugum seinna, sem fólk sest niður til að hlusta á þessa tónlist í góðu tómi, deltablúsinn var dansmúsík).

Sú sýn sem við höfum á þessa tónlist í dag er sýn þeirra sem kallaðir eru „blues revivalists“ – ungir hvítir karlar í Bandaríkjunum á sjöunda áratugnum. Og sú sýn hefði aldrei náð flugi ef þetta litla blúsæði hefði ekki smitast til Englands þar sem Eric Clapton, John Mayall, Bítlarnir og Rolling Stones fengu bóluna og tóku hana aftur með sér yfir hafið. Rolling Stones drógu Howling Wolf með sér í Ed Sullivan Show þegar allir voru búnir að gleyma honum. Paul McCartney hellti sér yfir fólk í Chicago fyrir að þekkja ekki Muddy Waters – sínar eigin stórstjörnur – og þá voru þeir búnir að liggja yfir þeim í Englandi árum saman. Rolling Stones sögðust bókstaflega bara vera í hljómsveit til að benda öðru fólki á þessa tónlist – mestmegnis rafmagnsblús en rafmagnsblús sem átti uppruna sinn í deltablúsnum. Og svo tóku flestir þessara tónlistarmanna upp lög eftir deltablúsarana (Wald bendir á að í fyrstu hafi þeir allir spilað lögin einsog þeir spiluðu sín eigin lög – með greddu og rafmagni og vælandi gítörum; en þegar á leið hafi þeir farið að skilja meira á milli, taka þau meira í orginalútsetningum).

Og þessi hugmynd þeirra gengur auðvitað mikið til út frá þeirra eigin fagurfræði. Þeir sóttust í hið villta og brjálaða – sóttust frekar í brjálaða spámenn einsog Son House og andsetna menn einsog Skip James en prófessjónal og fjölhæfa, menntaða og færa blúsmenn einsog Leroy Carr eða Josh White. Margir þeirra blúsmanna sem náðu nýrri – eða sinni fyrstu – fótfestu á blues revival árunum höfðu ekki leikið þessa tónlist árum og áratugum saman. Sumir höfðu bara hætt – en sumir höfðu bara verið að leika aðra, meira slikk, músík árum saman. Og yfir það var þá bara dregin hula – það passaði ekki inn í söguna.

Annar punktur sem Wald kemur með er að það hafi verið miklu meiri hvítur blús á sínum tíma og það sé bara rugl að skilja fólk einsog Gene Autry eða Jimmie Rodgers utan við blússöguna – og bendir líka á að bæði léku svartir tónlistarmenn oft með hvítum og í hvítum hljómsveitum, og öfugt, og svo spiluðu þessi bönd líka músík þvert á allar kynþáttalínur. Hins vegar voru það plötufyrirtækin sem röðuðu öllu niður á bása og tóku helst ekki upp nema heil svört bönd og heil hvít bönd og lög sem voru samin af réttum kynþætti. Þetta er auðvitað mjög tötsí umræðuefni – Amiri Baraka myndi taka tryllinginn ef hann hefði lesið þetta – en Wald fer vel í það og það er mjög erfitt að taka ekki mark á málflutningi hans. Enda einmitt menningarsagan og sjálfsmyndin miklu flóknari heldur en við göngum almennt út frá núorðið – á þessum sjálfsmyndaruppteknu tímum.

***

Blues Breakers with Eric Clapton er sennilega frægasta „hvíta blúsplata“ allra tíma og síðasta platan sem Eric Clapton lék á áður en hann stofnaði Cream með Jack Bruce og Ginger Baker. Hún er oft kölluð „Beanoplatan“ af því að Clapton situr með teiknimyndasögublaðið Beano á kápumyndinni. Lögin eru flest blússtandardar og öll eru þau einhvern veginn útsett til þess að leggja áherslu á hæfileika Claptons. Gítarsándið var eitthvað sem gítarleikarar sjöunda áratugarins sátu víst yfir og grufluðu í einsog þeir frekast gátu – þetta er „breska blússándið“ – og leyndardómurinn er fyrst og fremst Les Paul gítar (þessi tiltekni, Beanogítarinn, hvarf af yfirborði jarðar fyrir löngu síðan – og er líklega einn dýrmætasti gítar á jarðríki) inn í fyrsta Marshall kombómagnarann, sem hefur æ síðan ekki verið kallaður annað en Marshall Bluesbreaker, og allt stillt í botn. Síðan er búið að gera milljón pedala til að ná þessu sándi – Bluesbreaker pedalar eru álíka íkonískir og Tubescreamer pedalar og Blues Driverar (sem er ekki það sama og Blues Breaker, vel að merkja) eða í seinni tíð Klon-pedalar.

***

Við hjónin kláruðum líka Silicon Valley í gær. Mikið er það nú fín sería. Skemmtilegar persónur – óþolandi án þess að vera óþolandi, breyskar án þess að bresta. Og endaði vel. Það er víst alls ekki sjálfsagt.

***

Gítarleikari vikunnar er þá auðvitað Eric Clapton. Lagið er All Your Love eftir Willie Dixon af Beanoplötunni. Þarna sjáiði líka Clapton með blaðið, mjög krúttlegur.

Magnús Pálsson í Hafnarhúsinu; Maómyndir Errós; Þvottadagur; Stand By Me; Yahya Hassan 2; Er það hafið eða fjöllin; Þetta er ekki bílastæði; Blair Witch Project; Nordisk Karisma Salon; Ljóðhúsasmiðir; umræðufundur um Svona fólk og gítarleikari vikunnar

Ég fór á yfirlitssýningu á verkum Magnúsar Pálssonar í þarna … ég er ekki viss hvort það er listasafn Reykjavíkur eða Íslands. Hafnarhúsið. Kostaði 1.800 krónur inn fyrir utanbæjarmann – sennilega heitir það túristaprís í borginni. Menning er ansi dýr ef maður ætlar ekki bara að hafa hana spari. Í sjálfu sér er þetta ekki mikið meira en í bíó en eftirspurnin er auðvitað ekki sú sama – og aðgangur að söfnum ætti bara að vera ókeypis. End of socialist rant.

Ég hef lengi haft mætur á Magnúsi án þess að sjá mikið af verkum hans. Ég á draumabókina hans, The Skinned Rabbit, og geymi í ljóðahillunni minni þótt hún eigi kannski heima annars staðar. Og svo hef ég rekið augun í eitt og annað á netinu eða í sjónvarpi – einhvers staðar hef ég séð hljóðljóðakórinn flytja verk, ekki live, bara af skjá. Það er einhver dásamleg blanda af leik og alvöru í þessum verkum – hvort sem hann er að snúa upp á rýmisskynjun manns eða hugmyndir um þjóðsagnaarfinn.

***

Í næsta sal sá ég Erró. Þar var sýning um heimsreisu Maós. Hann er alltaf jafn fínn og alltaf kemur hann jafn lítið á óvart, einhvern veginn. Sem er kannski engin nauðsyn heldur. Ég bara svona rétt ráfaði inn til að drepa tímann fram að kaffideiti sem ég átti úti í bæ.

***

Ég las Þvottadag eftir Jónas Reyni Gunnarsson. Það er einhver tónn í skrifum Jónasar sem er ómögulegt annað en að láta sér líka við. Mjög afslappaður og það eru litlar sprengingar og lítið tráma – og samt er þetta ekki „spennuþrungið“ eða óþægilegt, beinlínis. Ljóðið um Michael Jordan og þrána eftir þránni hitti mig annað hvort fyrir á svipuðum tilfinningaslóðum eða verpti þeim í mig (takk, eða hittó). Óþægindin eða spennan hérna eru eitthvað annað – ekki óhugnanleg og ekki einsog hvíli neitt undir yfirborðinu, eitthvað sem maður sjái ekki, manía eða þunglyndi, heldur virkar þetta allt slétt og fellt og ljóðin koma til dyranna einsog ljóðmælandinn er klæddur. Held ég. Og samt er eitthvað þarna – eitthvað sem nuddar mann og vekur upp í manni tilvistarkrísur og hugarangur. Þetta eru auðvitað sjálfur af sjálfinu – þær er algerlega ráðandi í nær öllu útgefnu efni þessi misserin – og ekki alveg mín fagurfræði. Ég man ekki um hvern það var sagt – einhvern algeran bastarð í listum, pólarandstæðu hins indæla (ljóðmælanda) Jónasar – að hann þyrfti þá bara að vera nógu góður til að fólk gæti ekki hafnað honum. En Jónas vinnur mig yfir þrátt fyrir fagurfræði sína, frekar en hitt, að fróa fagurfræðinni sem ég hef fyrir – og það er auðvitað mjög gott.

Sidenote: Ég las bókina í flugvél og bandaríkjamaðurinn við hliðina á mér benti á bókina og sagðist hafa hitt Jónas á kaffihúsi í Reykjavík. Jónas hefði mælt með því að hann læsi Kafka, það gæti ekki klikkað. Jónas hefur síðar staðfest sögu Bandaríkjamannsins. Sem hét Jeff.

***

Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á Stand By Me. Ég átti að velja og ég valdi að fjölskyldan færi saman á Frozen 2. Sem hefði þýtt að við hefðum horft á hana á ensku og það voru allir búnir að samþykkja það en beiluðu síðan á síðustu stundu – Aram þóttist of mikill töffari til að fara á hana og Aino sagði að vinkonur sínar ætluðu allar á hana saman á hana á íslensku daginn eftir (það reyndist svo bara fjölskylduferð einnar vinkonu, sem hún sneikaði sér inn í). Ég gaf frá mér valið – stungin í bakið af mínum eigin börnum, sár og vælandi – og Nadja valdi Stand By Me.

Myndin er auðvitað byggð á sögu Stephens King, The Body, sem ég hefði getað svarið að væri Richard Bachmann bók (það var dulefni Kings um hríð). En stutt gúggl kannast allavega ekkert við það. Alger klassíker og kemur inn á alls konar kunnugleg vandræði unglingsstráka – einelti, viðkvæmni vs hörku, fátækt, dauðaþrána og kynhvötina. Söguþráðurinn er bara svona: Hópur drengja fer í gönguferð út í skóg, eftir járnbrautarteinunum, í leit að líki sem þeir hafa frétt að liggi þar. Hópur eldri stráka ætlar líka að finna líkið. Allir ætla þeir að fá dýrðarljómann sem fylgir því að birtast í blaðinu.

Ég man ekki hvenær ég sá þessa mynd síðast. Milli tvítugs og þrítugs sennilega. Og fyrst sem unglingur. Mér finnst gaman að velta því fyrir mér hvernig listaverk litu út ef þau væru gerð í dag – hvað væri óásættanlegt á Twitter – og þótt Stand By Me sé augljóslega svona fremur þroskað verk – miðað við t.d. Ace Ventura – þá myndu strákarnir sennilega ekki segja jafn marga mamma-þín-er-hóra brandara. Það eru nærri tvær vikur frá því við horfðum á myndina og ég man ekki hvort þeir sögðu einhverja hommabrandara – sem hefði sannarlega verið í samræmi við bæði sögutíma myndarinnar og tökutíma og karakter drengjanna. Sem eru indælir og viðkvæmir og brjálaðir og bara ofsalega miklir strákar af gamla skólanum. Aggressífir.

Side note: Á fyrirlestri í gær sá ég glæru með kynningarmynd fyrir heimildamyndina The Brandon Teena Story þar sem tagglínan var: „All he wanted was to be one of the guys. But he was a girl.“ Og það sló mig að þetta hefði heldur aldrei gengið í dag.

***

Yahya Hassan gaf út öllum að óvörum sína aðra bók fyrir nokkrum vikum. Einn daginn var hún ekki til og enginn vissi af henni og þann næsta var hún í öllum bókabúðum. Hún heitir Yahya Hassan 2 og lítur alveg eins út og fyrri bókin. Svört kápa, öll ljóðin skrifuð í hástöfum. Fagurfræðilega er heldur ekki neinn stórkostlegur munur á 1 og 2 – nýja bókin (sem er sjálfa af sjálfinu) fjallar hins vegar um eftirköstin af fyrri bókinni. Yahya er orðinn heimsfrægur og trylltur af maníu og rugli – þetta er svona einsog Kanye West, ef Kanye kynni sig ekki.  Það er ennþá of mikið gettó-trash í Yahya – hann er með sand af seðlum, ofsækir konur sem hann þráir og leysir vandamál sín með ofbeldi – og hann er alltaf fastur í að vera „perker“ (ég man ekki hvernig Bjarki Karlsson þýddi það í fyrri bókinni – en tyrkjaskratti, negri, þetta þýðir eitthvað í þá áttina). Hann er bara orðinn mjög markaðssettur perker, mjög ríkur perker, og öflin sem toga í hann og stýra honum eru önnur en þau voru áður.

Bókin fær frábæra dóma alls staðar, og var svo sem ekki við öðru að búast. Það er ósennilegt að Yahya slái sín eigin sölumet en að mörgu leyti er þetta kunnuglegri frásögn en í fyrri bókinni – þetta maníu-meltdown súperstjörnunnar og ofsalega hart. Þótt hið rasíska fyrirkomulag sem lýst er í fyrri bókinni (og á annan hátt í seinni bókinni) sé víða þá var fyrri bókin líklega „danskari“ – vísaði beinna inn í danskt samfélag sem slíkt og sérdönsk element hins rasíska fyrirkomulags. Og þessi heimur kunnuglegri (þótt við höfum fæst aðgengi að honum).

***

Sæbjörg Freyja Gísladóttir gaf á dögunum út bókina Er það hafið eða fjöllin? – um Flateyri og fólkið þar. Bókin byggir á mastersverkefni hennar í þjóðfræði og segir þá sömuleiðis sögu Sæbjargar, sem kom til Flateyrar sem rannsakandi gestur, en féll fyrir rannsóknarefninu og hefur varla farið aftur. Nú er leitun að fólki sem er „meiri Flateyringar“. Spurningin sem Sæbjörg leggur upp með að svara er hvers vegna nokkur búi á Flateyri – og sprettur sennilega af hugmyndum fólks um hversu erfitt það hljóti að vera, í ljósi rekstrarerfiðleika hjá útgerðinni og erfiðra veðurskilyrða og bærinn auðvitað á jaðri veraldar. Hún tekur viðtöl við Flateyringa með alls konar bakgrunn – verkafólk og bankafólk, sumarhúsafólk og fasta ábúendur, fólk sem getur rakið ættir sínar á staðnum margar kynslóðir aftur og fólk sem á bakgrunn og/eða er fætt erlendis, bæði í Evrópu og Asíu.

Bókin er fróðleg og merkileg innsýn – og ekki minna fyrir Ísfirðing heldur en einhvern frá meira framandi slóðum – og svolítið ágengur persónuleiki höfundar skín vel í gegn (sem er gott). Sjónarhornið er einhvern veginn í senn frá utanaðkomandi gesti sem spyr sig og viðmælendur krítískra spurninga og þess Flateyrings sem Sæbjörg er orðin og vill koma byggðinni til varnar; í senn sjónarhorn þess sem exótíserar byggðina og sjónarhorn þess sem vex saman við hversdag hennar. Þetta fléttast saman við sjónarhorn viðmælendanna sem eru ýmist komnir til að leita að „tóminu“ – fólk sem á sitt aktífa líf annars staðar og sækir í sumarhúsin til að fá hvíld – eða til að vinna fyrir sér, eignast pening, færast upp um þrep í lífsstritinu, eða til að fjárfesta tíma sínum og kærleika í framtíð byggðar, taka þátt í þessari fjölskyldu sem Flateyri er.

Ég man ekki hvort það kemur fram hjá einhverjum í bókinni hvað getur verið erfitt að ná kontakt við Flateyringa – ég veit um fólk sem hefur reynt að búa þar og mistekist að komast inn í samfélagið. Ég er ekki viss um að Flateyringar (eða íslenskir míkrókosmósar almennt) séu nærri jafn opnir og þeir halda stundum. Þar sem er mikil samsemd myndast líka harðar línur – þú ert annað hvort með eða ekki. Og Flateyri er klan – núorðið kannski fleiri en eitt klan, reyndar.

Sumt kom mér mjög framandlega fyrir sjónir. Oft virkaði það einsog Flateyri væri einhvern veginn miklu nær því að vera klisjan um dreifaraplássið. Sjóarar eitthvað með skæting um „menntamenn“ – og ítrekað talað um að fólk að sunnan (nánar tiltekið ónefnd hljómsveit frá RVK, sem spilar á Vagninum) þyki svo undarlega klætt. Ég veit ekki betur en Önni eða Maggi Dallas hafi lengst af bara klætt sig einsog hver annar MH-ingur. Og svo stendur reyndar líka annars staðar að á Flateyri séu „bara allir í fötum og sjá ekki klæðnaðinn á hinum nema þau séu óvenju fín eða óvenju drusluleg“. En þau tóku eftir undarlegum fötum Reykvíkinganna.

En sjónarhornið er heiðarlegt og bókin er vönduð og það er það sem mestu skiptir – í því er gildi bókar sem þessar fólgið (frekar en t.d. hvort að ég deili þeirri sýn í einu og öllu). Og í landi þar sem byggðapólitík þykir almennt bara einhver hallærisleg bitlingaþvæla sem sé rædd á fundum framsóknarmanna, milli þess sem þeir þukla hrúta og grípa í píkur, er þetta óvenju töff innlegg.

***

„Tunglið er ekki eins og nögl / tunglið er eins og þanið segl“ skrifar Brynjólfur Þorsteinsson í ljóðabókina Þetta er ekki bílastæði. Og ég hugsa fyrst hvað þetta sé fín lína – og hún bergmálar með mér – og svo hugsa ég hvað þetta sé nú samt rangt. Tunglið er ekki einsog þanið segl, tunglið er miklu meira einsog nögl. Skömmu síðar skjóta svo fingurnir upp kollinum – fyrstur allra í fingravikunni er mánufingur (svo þriðjufingur, miðhandarfingur, fimmtufingur og föstufingur) og þá veit ég að ég hef rétt fyrir mér. Tunglið er nögl á mánufingri.

Bókin er léttur og lýrískur súrrealismi. Þetta flýtur vel og er átakalítið en vandað og fallegt og áhugaverðar myndir víða. Ég held ég þurfi samt að lesa hana aftur til að ná betri tökum á henni. Kannski er ég of upptekinn af að leita að heildarmynd í verki sem er meira singlar í svipuðum rómi. Og kannski er ég bara ekki búinn að finna þræðina. Reyndar hef ég mjög gaman af singlum – það eru bara allir alltaf eitthvað að skrifa heildarmyndir og maður skilyrðist sem lesandi. Líka þegar maður skrifar svona um einhverjar heildir – tekur fyrir bækur sem eitt lokað fyrirbæri og hefur ekki tíma eða rými til að rýna í þær einsog 30 ólík verk (þess vegna sagði ég líka svona fátt um sýningu Magnúsar Pálssonar hér að ofan – hvar á maður eiginlega að byrja???).

***

Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á The Blair Witch Project. Aðallega af því ég hafði aldrei séð hana og hvað sem gæðum hennar líður þá er þetta stór póstur í kvikmyndasögu síðustu áratuga. Fyrsta „found footage“ myndin og eitt af fyrstu „viral“ listaverkunum. Sú saga komst fljótt á skrið að margir hefðu talið að þetta væri í alvöru fundnar upptökur og þetta hefði allt gerst. Mig grunar reyndar að það hafi verið meira á hinn veginn – sá orðrómur að margir hefðu talið að þetta væru alvöru fundnar upptökur barst mér að minnsta kosti áður en myndin kom í bíó á sínum tíma. Ég man reyndar til þess að hafa farið á Grizzly Man eftir Herzog á sínum tíma og gengið út af henni handviss um að þessu væri öllu leikstýrt – en svo reyndist hún auðvitað vera alvöru „found footage“. Ekki að í samsetningunni og ýmsum öðrum þáttum felist ekki líka leikstjórn.

Nadja hafði séð BWP áður og var ánægð að sjá hana aftur, fannst hún jafn góð og í denn. Mér fannst hún áhugaverð og jafnvel listrænt góð – og eitthvað frábært við að svona mynd slái í gegn – en ég varð sjálfur aldrei hræddur. Sem hlýtur að þýða falleinkunn fyrir hryllingsmynd.

***

Ég fór á nokkra „viðburði“ í vikunni. Ég veit ekki hvað ég vil hafa um þá mörg orð. Ég kom sjálfur fram á Nordisk Karisma Salon í Kaupmannahöfn ásamt Jessie Kleeman, Ciu Rinne, Amine Mesnaoui, Pär Thörn og Lars Skinnebach. Flestir voru í gjörningagírnum – Jessie saumaði áhorfendur saman, Lars lagðist í gólfið og gargaði, Pär kyrjaði (á arabísku, held ég) og spilaði noise þess á milli, Cia söng ljóðin sín á meðan Amine spilaði á píanó. Þau voru öll frábær. Ég las bara – eins slétt og fellt og það verður á mínum bæ – upp úr Óratorrek, Ljóð um hold og frjósemi þess. Mjög fínt kvöld; en ég hef verið betri.

Svo fór ég á upplestur ótal skálda á Stofunni í Reykjavík. Sennilega hátt í þrjátíu manns að lesa upp. Hver las bara eitt ljóð og með fáum undantekningum voru flestir nýgræðingar – a.m.k. á sviði (það þurfti stöðugt að ýta þeim að míkrafóninum). Sumir voru góðir og aðrir voru minna góðir, einsog gengur. Þetta var lokahóf fyrir kúrs sem Steinunn Sigurðardóttir kenndi – og hún las líka. Ég þekkti bara örfáa sem lásu upp fyrir – mjög gaman að geta bara farið og fengið smakkprufu af þrjátíu óþekktum skáldum. Það sló mig að sérstaklega í fyrri hlutanum væri mikið af ljóðum sem gengu út á pör – ég og hann, hún og hann, þú og ég, þú og hún, o.s.frv. Mér datt í hug að kannski hefði það verið verkefni úr einhverjum tíma en kannski er þetta líka bara algengt og kannski tók ég svona mikið eftir þessu af því ég er sjálfur að vinna í texta sem gerir þetta.

Loks fór ég á umræðufund hjá Félagi íslenskra fræða um sjónvarpsþættina Svona fólk. Ég er einstaklega illa til þess fallinn að kommenta mikið á þá umræðu af því að ég sá ekki þættina (þótt ég hafi séð nokkuð af debattinum í kringum síðasta þáttinn). Í panel voru Björn Þór Vilhjálmsson, Jónína Leósdóttir og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir. Björn tók fyrir heimildarmyndina sem fyrirbæri – hvað hún væri og hvernig hún virkaði – og tæpti svo á því hvernig Svona fólk passaði inn í módelið. Hafdís Erla var fulltrúi „ungu kynslóðarinnar“ og „menntafólksins“ – úr kynja- og kvennafræði – og byrjaði á að þakka fyrir það þrekvirki sem myndin væri og fara í gegnum hvers vegna hún væri mikilvæg, áður en hún svo hjólaði í hinar umdeildu lokamínútur (sem snúast um inngöngu BDSM-félagsins í Samtökin 78). Rök hennar voru sannfærandi og sennilega myndi ég alltaf enda hennar megin í þessari rökræðu (um Samtökin og BDSM – um lokamínútur myndarinnar get ég ekkert sagt) en hún var augljóslega komin í svolítið knosaðar stellingar – ekki agressíf en búin undir að láta ráðast á sig – og tvinnaði fullmikið saman buzzorðum úr fræðunum. Jónína var alveg á hinum pólnum, frá bæði Birni og Hafdísi – persónuleg og sjarmerandi og leiftrandi klár án þess að brynja sig gáfunum. Hún leyfði sér, einsog Björn, að hafa enga sérstaka skoðun á umdeilda hlutanum. Mér hafði heyrst á fólki að það væri hætta á því að fundurinn færi úr böndunum í umræðum en eiginlega gerðist fátt eftir að framsögum lauk. Hrafnhildur Gunnarsdóttir, leikstjóri, var í salnum – breiddi úr sér óhrædd og skæsleg á öðrum bekk, líkt og Hafdís ekki agressíf en við öllu búin. Hún tók aðeins til máls aðspurð í lokin en blandaði sér annars ekki í neitt.

***

Gítarleikari vikunnar er enginn annar en Muddy Waters.

Kærastinn er rjóður; Nói og hvalrekinn: Stelpan sem týndi bróður sínum í ruslinu; Andrés Þór og Paradox; Ólyfjan; Eilífðarnón og gítarleikari vikunnar

„Þetta er alveg hræðileg bókakápa en svo þegar maður fer að lesa ljóðin áttar maður sig á því að þetta er auðvitað hinn rjóði kærasti,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir.

Auðvitað missa gagnrýnendur oft út úr sér alls konar vitleysu í sjónvarpi – Kiljan er nánast í beinni, tekin upp í beit og lítið klippt – en þetta er samt svolítið fyndið. Mín tvö sent hljóma svona: Ef manni finnst bókarkápan á Kærastinn er rjóður ekki frábær þá á maður ekki að vinna við að leggja fagurfræðilegt mat á neitt og ef það er ekki fyrren maður opnar bókina og les ljóðin sem maður áttar sig á að ljósmyndin á forsíðunni (á bók sem heitir Kærastinn er rjóður – ljósmynd af rjóðum manni) á sennilega að vera af hinum rjóða kærasta þá er maður kannski ekki í sínu besta bókmenntagreiningardagsformi.

Sjálfum finnst mér bókin frábær. Ég á svolítið erfitt með að tjá mig um ljóðabækur svona ósjálfrátt – einsog ég skrifa hérna – og beint í kjölfar þess að ég les þær. Ég veit ekki hvað það er. Kannski geri ég öðruvísi kröfur til mín um að það sem ég segi meiki einhvern sens en t.d. þegar ég skrifa um einhverja plötu eða bíómynd, sem ég hef ekkert sérstakt vit á og á ekki að hafa.

Kristín er á svipuðum slóðum og hún hefur alltaf verið í ljóðunum, þematískt og táknrænt, en það er eitthvað að leka inn úr annað hvort leikhúsinu eða prósanum í stílnum – sem er látlausari (en ekki merkingarlausari fyrir það). Hún er að fjalla um sambönd – kannski fyrst og fremst heterónormatíf sambönd í patríarkískum heimi, en ekki endilega bara það og sennilega má lesa táknin í víðara samhengi – en maður vill ekki heldur fljóta alveg út í geim bara þótt maður geti það. Hún er að fjalla um einmanaleika – þrána eftir öðrum – og beiskjuna sem vex á milli fólks. Er látlausari stíll fullorðnari – þroskaðri? Manni hættir til að finnast það en ég er ekki viss. Fyrst og fremst er hann lævísari – loftfimleikar tungumálsins eru ekki jafn augljósir og í fyrri bókum hennar, en þeir eru engu minni þótt hreyfingarnar séu fínlegri.

Textinn er líka ágengur – passíf-agressífur frekar en agressífur, einsog Kristín hefur verið áður í bókum sínum. Kaldur og óþægilegur – það fer ekki jafn mikið fyrir blóðhitanum hérna, nema að litlu leyti, ástríðunni sem hefur fært manni ákveðna samúð með vonlausum elskendum fyrri bókanna. Þetta er samanbitnara fólk – tilfinningarnar kannski að mörgu leyti erfiðari – og þetta er auðvitað minna „rómantískt“.

Kristín hefur fundið að því að fólk sé að leita að tilteknum kærustum í bókinni. Ég hef svolítið ofnæmi fyrir því að fólk biðjist undan ævisöguaðferðinni í lestri – maður þarf að vera frjáls um sinn lestur og sína túlkun (m.a.s. gagnrýnendur í útvarpi og sjónvarpi) og höfundar verða bara að sætta sig við að vera berskjaldaðir fyrir slíku. Að því sögðu er ég búinn að þekkja Stínu lengi (kynntumst á ircinu – bókstaflega – fyrir aldarfjórðungi!) og þekki nokkra af fyrrverandi kærustum hennar mjög vel, hef lesið allar bækurnar hennar (og megnið af bókunum fv. kærastanna líka) og ég gæti ekki fyrir mitt litla líf leyst úr neinu svona hver-á-að-vera-hver hérna. Einsog í öllum bókmenntum byggir Kristín áreiðanlega á eigin reynslu – bækur eru fullar af díteilum úr lífi höfunda – en hvorki grófu og fínu drættirnir hérna eiga sér neina augljósa samsvörun í „raunverulega“ heiminum, það ég get séð.

***

Aino Magnea má þola það að lesa sjaldan myndabækur á íslensku. Þegar Aram var lítill lásum við yfirleitt myndabækur fyrir svefninn en um það leyti sem hann var 7-8 ára skiptum við alfarið yfir í kaflabækur. Þær miðast þá alla jafna við að hún hafi gaman af þeim líka – en mamma hennar, sem les annað hvert kvöld, les sitthvora bókina fyrir þau (og getur þá t.d. leyft sér Harry Potter og þannig lagað, fyrir Aram).

Við eigum samt óhemju af myndabókum og margar höfum við aldrei lesið – og enn fleiri hefur Aino aldrei lesið. En nú fóru Nadja og Aram suður á síðustu helgi (Aram var að tromma með tónlistarskólanum í Hörpu og Nadja í vinnuferð – af sömu ástæðu var hvorugur kvikmyndaklúbbur heimilisins starfræktur á helginni) og þá lásum við Aino tvær myndabækur sem hún valdi úr hillunni. Sú fyrri heitir Nói og hvalrekinn, eftir Benji Davies, og fjallar um ungan dreng sem finnur hval á ströndinni, fer með hann heim í baðker og felur hann fyrir pabba sínum (þeir virðast búa bara tveir saman). Svo finnur pabbinn auðvitað hvalinn og áttar sig á því að hann hefur ekki verið að sinna syni sínum sem skyldi – verið önnum kafinn við brauðstritið, sjómennskuna – en reiðist alls ekki. Samt fara þeir nú og skila hvalnum aftur út í sjó. Falleg saga – látlaus og ljóðræn, frumleg hugmynd og fallegar teikningar. Það eru víst til fleiri bækur um Nóa og þennan hval.

Sú seinni heitir Stelpan sem týndi bróður sínum í ruslinu og er eftir Guðna Líndal með myndum eftir Ryoko Tamura. Þessa tengdi Aino sérstaklega við og við höfum talsvert talað um hana síðustu daga. Hún fjallar um stelpu sem missir gersamlega stjórn á ruslinu í kringum sig – húsið beinlínis drukknar í drasli og einhvers staðar í draslinu týnist s.s. litli bróðir hennar. Eina leiðin til að sigra „ruslahvelið“ er að taka til. Í sjálfu sér er kannski skrítið að stelpan virðist bera ábyrgð á öllu heimilinu – þannig þarf hún t.d. að vaska upp og gera ýmislegt sem er yfirleitt ekki á ábyrgð barna. En hún hefur sosum verið að rusla þetta til líka – gera sér samlokur og eitthvað.

Þetta er líka falleg saga – meira af „brjálaða“ skólanum en þeim ljóðræna. Það er eitthvað mjög norrænt við þessar bækur um mjúka, ljóðræna stráka á aðra höndina og trylltar drulluprinsessur á hina – eitthvað viðnám, sem er kannski að verða fyrirsjáanlegt, en virkar ágætlega enn.

Fyrir einhverjum vikum síðan ákváðum við að hætta að atast stöðugt í Aino með tiltekt og bíða þess einfaldlega að hún yrði þreytt á draslinu sjálf og sá dagur er eiginlega upp runninn, svona um þessar mundir (það stefnir í allsherjar Marie-Kondo-dag á heimilinu á morgun). Þess vegna tengir hún svona hart – maður kemst varla inn til hennar fyrir drasli.

***

Djassgítarleikarinn Andrés Þór mætti með Paradox-kvartett og lék samnefnda plötu á vegum Tónlistarfélags Ísafjarðar í Hömrum. Þeir hentu líka í einn standard í uppklappi en nú er stolið úr mér hvaða lag það var. Ég hafði aldrei heyrt Andrés spila áður og hafði ekki nema óljósa hugmynd um hver hann væri. En ég reyni að mæta á djasstónleika hérna, sem eru nokkuð tíðir, og sérstaklega ef það er gítarleikari. Og þvílíkur gítarleikari! Ótrúlega naskur á melódíur og synkóperingu – bæði í lagasmíðum og spuna. Ég hef hlustað nokkrum sinnum á plötuna á þessari viku sem er liðin síðan tónleikarnir voru – eftirlætis lögin mín hingað til eru þau sem voru á miðju prógrami tónleikanna, Avi, Schrödinger’s Cat og Tvísaga.

Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég kom inn var annars pedalaborðið – verandi með svolitla gítargræjudellu. Djassgítarleikarar eru voða oft bara með snúru beint í magnarann eða í mesta lagi 1-2 fetla á gólfinu en Andrés er með fullskipað pedalaborð. Ég kunni sosum ekki við að rýna í það en tók strax eftir því að hann var með Strymon Flint – reverb og tremolo effekt sem ég er einmitt að safna mér fyrir (les: selja aðra fetla svo ég geti réttlætt kaupin). Sem var skemmtileg tilviljun. Næsta skemmtilega tilviljun var svo þegar hann gengur inn með forláta Eastman T386 gítar í fanginu – en kvöldið áður hafði ég legið andvaka í rúminu og verið að gúgla alternatífum við Gibson ES-335 og rekist á þessa og lesið heilmikið um þá. Þriðja og síðasta og sennilega skrítnasta tilviljunin var svo þegar Andrés kynnir lagið J.L. – sem heitir ekki eftir húsinu heldur dönskum gítarleikara, vini Andrésar og „youtube-stjörnu“ sem heitir Jens Larsen. Ég horfi talsvert á gítarmyndbönd á YouTube og þótt ég spili lítinn sem engan djass hafði ég einmitt tekið upp hjá sjálfum mér að læra Blue Bossa og hafði daginn áður legið yfir myndbandi með Jens Larsen, þar sem hann kennir manni hvernig sé best að spila arpeggios yfir hljómaganginn. Og hafði aldrei rekist á þann mann áður.

Sándið í gítarnum gat orðið svolítið hvellt af og til. Ekki að hann væri beinlínis of hátt stilltur en þessi salur hentar djassmúsík ekkert æðislega vel – ég gæti líka trúað að Marshall-magnarinn sem Andrés spilaði í gegnum sé heldur stór fyrir svona akustískan sal. Svo er líka meira gaman að fara á djasstónleika þegar maður situr ekki bara einsog á skólatónleikum, heldur við borð og jafnvel með bjór í hendi – þar vinnur Edinborgarhúsið hands down. En sándið var líka fjölbreyttara en gengur og gerist – þökk sé fetlaborðinu, meðal annars.

Sennilega hef ég bara tvisvar farið á betri djasstónleika – þegar ég sá Lenni-Kalle Taipele spila … sennilega var það á Gauknum fyrir ábyggilega 20 árum. Og um svipað leyti þegar ég sá Sunnu Gunnlaugs spila fyrir mig og mömmu og kannski einn annan í þessum sama sal, Hömrum. Af lífi og sál. Það vill til að sami trommari, Scott McLemore, lék með Sunnu þá og lék með Andrési núna – en hann er held ég giftur Sunnu.

Aðrir í bandinu hjá Andrési voru Agnar Már Magnússon á píanó og Þorgrímur Jónsson á kontrabassa. Og alveg jafn lygilega færir og Andrés Þór – eða allavega svo gott sem.

***

Ólyfjan er fyrsta skáldsaga Díönu Sjafnar Jóhannesdóttur. [Hér á eftir er hugsanlega spoiler, þið lesið á eigin ábyrgð]. Einsog allir sanngjarnir og réttlátir áhrifavaldar gera þarf ég að taka fram að bókina fékk ég ókeypis, einsog hvert annað meiköpp-kitt eða fæðubótarefni.

Bókin er í nóvellulengd og gerist á nokkrum dögum. Ungur sjómaður með alla vasa fulla af peningum fer á fyllerí og lætur varla renna af sér á meðan sögunni stendur. Þetta er í sjálfu sér þekkt form – ekki síst á fyrstu bók – djammið sem „píkareska“, alveg frá On the Road til Millilendingar og Við erum ekki morðingjar. Mætti jafnvel setja Kokkál þarna inn líka. Og sannarlega mína fyrstu – Hugsjónadrusluna. Ólyfjan hins vegar sker sig þannig úr að fylleríið er eiginlega öll bókin – þetta er bara misdrukkinn maður að þvælast í gegnum skemmtanalífið á meðan „alls konar“ gerist (frekar en að djammið marki söguna eða bergmáli í gegnum hana). Maðurinn hefur enga sérstaka skoðun á því sem hann sér og er sjálfur erkitýpa – einsog „höfundurinn“, sem kemur fyrir í bókinni, nefnir sjálfur. Einsog aðrir karlmenn í bókinni hefur hann fátt annað til brunns að bera en að vera algert fífl – einsog skrifaður upp úr einhverju why-are-men-assholes twitter-ranti.

Ólyfjan virkar meira á mig sem ritlistaræfing efnilegs höfundar en kláruð bók. Að miklum hluta til skrifast það á forlagið – ef það er eitthvað sem manni er ljóst frá fyrstu síðu þá er það að bókinni hefur nákvæmlega ekkert verið ritstýrt (eða þá mjög, mjög illa). Málfarið er mjög klaufalegt á fyrstu síðunum en skánar svo eftir því sem líður á bókina – nánast einsog höfundur sé að læra að skrifa samhliða því sem hann skrifar bókina. Píkareskur þurfa ekki að vera á leiðinni neitt sérstakt – ágætis dæmi um frábæra píkaresku sem er á leiðinni beint út í ruglið er Austur Braga Páls – en stefnuleysið hérna er bara of mikið einsog að vera sjálfur á mjög hversdagslegu fylleríi (með einhverjum steingeldum fávita). Og samt er hellingur þarna – það er ofsalegur kraftur þegar Díana gefur í og vandar sig og sagan er einhvern veginn alltaf alveg í þann veginn að fara að blómstra. Og hún hefur augljóslega miklu betri tök á skrifunum í lok bókar en í upphafi – þótt metafiksjónal tvistið hafi verið jafn erindislaust og fylleríið. Hún þarf að beisla þessa orku og beita henni fyrir eitthvað sem henni brennur fyrir brjósti – og kannski er þá ágætt að hún sé þá búin að hreinsa allar helstu djammsögurnar af borðinu. Ólyfjan er ekki góð bók – þótt það sé ýmislegt gott í henni – og ég spái því óhikað að næsta bók Díönu verði miklu betri.

***

Ásta Fanney Sigurðardóttir gaf á dögunum út það sem maður gæti kallað sína fyrstu bók „í fullri lengd“. Ljóðabókina Eilífðarnón – og fylgir þar eftir singulnum Herra Hjúkket og samstarfsbókinni Vísnabók með CD. Á bókamerkinu sem fylgir með bókinni stendur að Ásta hafi einhvern tíma verið kölluð „spaðaásinn í geri íslenskra ljóðskálda“. Það vill einmitt til að það var ég sem kallaði hana spaðaásinn og ég stend við það. Ljóðlist Ástu síðustu svona átta árin (og sennilega lengur, þetta eru átta ár sem ég hef vitað af henni, og jújú, ég man reyndar að hún vann einhverja keppni ásamt vinkonu sinni löngu fyrr) hefur ekki síst birst í gjörningum og upplestrum og eru fá skáld sem ferðast jafn víða og hún eða sýna jafn mikinn metnað í ljóðaperformansi. Lengi vel – kannski enn – endurtók hún sig heldur aldrei á sviði, sem er rosalega intensíft þegar maður kemur mikið fram.

Ásta er hins vegar alveg jafn fær og jafn tilraunakennd eða flippuð, full af leik og ljóðrænu, flissandi launfyndni, á síðunni og hún er á sviðinu og Eilífðarnón er instant-klassíker í íslenskri framúrstefnu, sem er ósennilegt að einu sinni Ásta sjálf toppi neitt í bráð. Eða það er allavega mitt fyrsta viðbragð. Mér finnst mikið af ljóðlist síðustu ára vera góð – en hún er líka svolítið sjálfri sér lík, svolítið svipaðar raddir (kannski vegna þess hve margir fóru í gegnum sama ritlistarnámið) og í því geri, þessu geri íslenskra ljóðskálda, er Ásta alger spaðaás – beint út úr erminni, skák og mát – og það hvernig hún beitir tungumálinu, tökin sem hún hefur á því og þessi furðu lífræna tengingin sem hún hefur við það, hljóð þess og merkingu, ljóðmyndir og málfræðilega slóða, er einfaldlega engu lík, algerlega einstök. Hafi maður minnsta áhuga á íslenskri ljóðlist verður maður að eignast þessa bók, punktur og basta, yfir og út.

***

Í annað skiptið í sögu „gítarleikara vikunnar“ er gítarleikarinn íslenskur (hinn var Langi Seli). Andrés Þór.