Staða pundsins; Grugg í Skúrinni; Stalker; Rannsóknin á leyndardómum eyðihússins; Korter í Tertíer tvö; Wall-E; Doctor Sleep; I stand alone by the devils and other poems on films; Týnda rásin; e-ð fjall og gítarleikari vikunnar

Ég var að leggja Braga frá mér. Stöðu pundsins. Það brakar alveg í skynfærunum. Einhvern veginn tekst Braga alltaf að vera gersamlega óþolandi og ógeðslega skemmtilegur bæði í senn. Ég man eftir að hafa lýst því yfir í menntaskóla að þegar ég yrði stór myndi ég skrifa bók sem væri skrifuð án bila, greinarmerkja, greinarskila – ég man ekki hvort það áttu líka að vera engar persónur og enginn söguþráður – en bókin átti að vera svo góð og svo skemmtileg, þrátt fyrir þetta, að það gæti enginn látið hana frá sér og fólk myndi neyðast til að dröslast í gegnum helvítið og hata mig á eftir, fyrir að vera svona skemmtilegur en svona óþolandi. Ég segi ekki að Bragi sé alveg þarna – enda útópísk sýn – en hann er á þessari vegferð og hefur verið a.m.k. í síðustu 4-5 bókum, frá því hann hristi af sér póstmódernismann (og talsvert marga lesendur, grunar mig, hann átti stóran flokk af blóðheitum fylgjendum, sem ég er hættur að verða var við að sama marki – og gömlu bækurnar voru „skemmtilegri“ en nýju bækurnar eru „svakalegri“) og skipti honum út fyrir einhvers konar tilfyndinn normkor hámódernisma (ég segi oft normkor og meina það neikvætt en á svona mikilli keyrslu verður það að einhverju miklu áhugaverðara) . Þetta er ekki fyrir alla og stundum finnst mér þetta bara vera fyrir mig og stundum alls ekki fyrir mig – ég skipti oft um lið í miðri bók – ég gleymi því gjarnan hver er að segja hvað og hvað var að gerast og það eru alveg kaflar þar sem mig langar bara að gefast upp. En þegar á mann er ráðist á maður að taka þátt í árásinni, segir ein sögupersóna í bókinni, og það er kannski lýsandi. Fimm stjörnu bók; ég er alveg gersamlega miður mín.

***

Ég fór á grunge-tónleika fyrir nærri tveimur vikum. Gleymdi bara að skrifa um þá síðast. Jón Jósep – kenndur við svört föt – og Stefán Freyr Baldursson, þekktastur fyrir gítarleik með gruggsveitinni Urmli héldu tónleika í Skúrinni. Á dagskrá voru nokkrir af helstu slögurum gruggtímabilsins. Stefán, sem er unaðslegur gítarleikari, framúrskarandi, er Ísfirðingur og býr hér en Jón Jósep er reglulegur gestur í Húsinu (sem er við hliðina á Skúrinni og í eigu sama fólks) þar sem hann trúbadorast. Ég er ekki mikið gefinn fyrir trúbadora, svona heilt yfir, en mér hefur alltaf þótt Jón mjög heillandi – orkan er að vísu alltaf á yfirsnúningi en hann hefur líka svo augljóslega gaman af því að spila, það er bráðsmitandi. Flestir trúbadorar eru hins vegar held ég að þessu til að refsa bæði sjálfum sér og gestum – eða í besta falli í einhvers konar fiskflökunarakkorði. Enda eru þetta langar vaktir og sömu lögin síendurtekin – lái þeim hver sem vill.

Í sem stystu máli eru Stefán og Jón báðir miklir fagmenn og gerðu flest sitt vel. Það var hins vegar augljóst að þeir höfðu ekki haft mikinn tíma til að æfa saman – og höfðu orð á því að æfingar hefðu meira og minna átt sér stað „í gegnum ircið“. Sum lögin smullu vel og önnur ekki jafn vel. Ég velti því svolítið fyrir mér hvort það væri betra eða verra að þeir hefðu kannski mikið spilað lögin í sitthvoru lagi  í gegnum tíðina – Stefán með Urmli og heima í stofu og Jón í trúbadorabransanum – og hvort persónuleikar þeirra hefðu mikið að segja um útkomuna. Jón er orkubolti með kassagítar sem kallar á einfaldari útsetningar – ein afleiðing þess að spila án hljómsveitar er að sum mistök, styttingar og einfaldanir á takti eða millispilum, dót sem kæmi strax í ljós þegar heil hljómsveit fylgist að, æfast kannski bara upp og maður hættir að taka eftir þeim. Það verða til litlar varíasjónir. Ég, sem spila aðallega með sjálfum mér, þekki það ágætlega að læra eitthvað lag – spila það ítrekað einn með sjálfum mér – taka það svo einu sinni að gamni með upptökunni og átta mig alltíeinu á því að ég hef ómeðvitað breytt einu og öðru smálegu. Stefán er hins vegar afar nákvæmur og teknískur og ég ímynda mér að hann hafi mest gaman af að læra og þjálfa upp díteilana – sem er alveg öfugt við virkni trúbadorsins (sem þarf auðvitað að læra miklu, miklu fleiri lög). Mér fannst allavega einsog af og til stefndu þeir hvor í sína áttina – en kannski var það frekar í lögum sem þeir höfðu minna spilað, ég veit ekkert um það, þetta var bara hugdetta.

Tónleikarnir voru hins vegar skemmtilegir, með öllum sínum agnúum og brilljans.

***

Stalker eftir Tarkovskí er nærri þriggja tíma langur rússneskur sci-fi klassíker. Það var kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins sem stóð fyrir sýningunni – og þurfti svolítið að peppa meðlimi upp í svona þunga mynd eftir lýjandi mánudag í kjarnafjölskyldunni.

Hún gerist í heimi þar sem menn geta sótt inn á „svæðið“ og farið þar í ákveðið „herbergi“ og fengið sínar heitustu langanir uppfylltar. „Stalkerar“ – enska heitið er notað í rússneskunni – sjá um að smygla mönnum inn á svæðið og að herberginu. Hér fylgjum við einum vísindamanni, hvers heitasta löngun er að rannsaka herbergið og fá fyrir það nóbelsverðlaun, og skáldi sem hefur glatað innblæstri sínum og vill finna hann aftur. Svæðið er einsog yfirgefnar stríðsrústir – bæði náttúra full af skrani og sundursprengd hús.

Myndin er löng og ljóðræn hugleiðing – ofsalega, ofsalega falleg, hráslagaleg og sérstök útlits – og mikill heimspekilegur texti. Mig langar alltaf að segja pseudo-heimspekilegur þegar það eru ekki heimspekingar sem skrifa en sennilega er það fölsk aðgreining. Persónurnar þrjár, stalkerinn, skáldið og vísindamaðurinn slógu mig sem ólíkar hliðar sömu persónu – svæðið sem tilvistin og herbergið sem hjartað, hinn innsti kjarni tilvistarinnar sem við reynum stöðugt að nálgast en óttumst líka að muni afhjúpa eitthvað um okkur sem við viljum alls ekki vita (t.d. að við séum eigingjörn). Eitthvað þannig. Það er ekki beinlínis einföldun – upplegg myndarinnar er of einfalt til að það þýði nokkuð að einfalda það, en myndin sjálf, úrvinnslan, textinn, frásagnarstíllinn flóknari. Og auðvitað er x alltaf bara x en ekki y. En ég sem sagt skildi þá ekki endilega í sundur, sá ekki einn sem aðal – þann sem ég vildi vera – heldur vildi ég vera þeir allir og var þeir allir. Og auðvitað vill enginn vera þessir menn, ráðvilltir og ringlaðir, ég lýg því, en maður samsamar sig, samsamast.

***

Rannsóknin á leyndardómum eyðihússins (ég er alltaf að rugla með þennan titil – kalla hana alltaf ráðgátuna um leynihúsið eða eitthvað álíka) er fyrsta bók Snæbjarnar Arngrímssonar, sem áður er þekktur fyrir bloggið Kaktusinn og forlögin Bjart og Ferdinand. Þetta er barnabók og ég las hana með börnunum – ég valdi í þetta sinn (við skiptumst á). Hún hlaut íslensku barnabókaverðlaunin. Bókin er ljómandi skemmtilegt ævintýri – kaflarnir eru oft mjög stuttir, sérstaklega í fyrri hluta bókarinnar, og það skapar svolítið brokkgengan upplestur en virkar ábyggilega betur ef lesið er í hljóði. Í seinni hluta bókarinnar er spennan keyrð í botn og þá er mjög gaman (þetta er eiginlega meira lævís hasarbók en beinlínis ráðgátubók). Einstaka tiktúrur – einsog að segja ekki frá því hvort börnin hefðu nýtt sér vitneskju um lottótölur – voru til trafala og sennilega meira til að uppfylla stríðnisþörf höfundar en skemmta lesendum.

Sennilega er Rannsóknin frekar fyrir yngri börn en eldri – Aino, sem er sex ára, beinlínis skríkti af spennu og kátínu þegar allt var í gangi, en Aram, tíu ára, var umtalsvert rólegri (enda kominn langleiðina í gegnum Harry Potter og les alls kyns fantasíur á sænsku í löngum bunum, þar sem ógnin er bæði langdregnari og ofsafengnari). En lifði sig samt inn í allt.

***

Korter í Tertíer tvö er myndlistarsýning eftir Unu Gunnarsdóttur og sýnd í Sundhöll Ísafjarðar. Þetta eru málverk sem hanga á veggjum – eitt yfir heita pottinum, annað yfir kalda pottinum og svo framvegis – og svo eru blómapottar. Kannski var ég að missa af einhverju fleiru (ég var aðallega þarna í sundi með börnunum – hef ekki farið í sund í ár og daga, sýningin hefur hangið þarna síðan við komum heim frá Hondúras). Sýningin á að vera einhvers konar hugleiðing um hlýnun jarðar og framtíðina. „Í þessum framtíðarmálverkum er árið x og flamingóinn, sem barst til landsins, er eitt af fyrstu merkjum þess að nú sé enn eitt hitaskeiðið að byrja og skrautleg fiðrildi berast yfir hafið og hafast við í kirkjugörðunum, fíflarnir verða að sólblómum, gósentíð, pálmatré og vínviður. Síðan eitt sumarið hverfur allur snjór af Snæfjallaströndinni. Æðibunugangur mannskepnunnar hefur fært plánetuna nær sólu og á snjóflóðagörðum er nú hægt að rækta hrísgrjón.“ – segir í sýningarskrá (sem hangir á veggnum). Stemningin er samt ekki apókalyptísk – það er ekki endilega mikið mannlíf en jörðin blómstrar einhvern veginn, þetta er litríkt og gleðilegt og undirfurðulegt. Og mjög gaman að hafa myndlistarsýningu í Sundhöllinni – hún harmóníserar vel við byggingu Guðjóns Samúelssonar.

***

Við horfðum á Wall-E. Kvikmyndaklúbbur unga fólksins, sem sagt. Ég hélt ég hefði séð hana en svo reyndist ég nú a.m.k. ekki hafa séð hana alla. Segja má að hún rími sæmilega við Korter í Tertíer, nema með kaldranalegri formerkjum. Mannkyn hefur skilið jörðina eftir sem gróðurlausa eyðimörk og allir búa í stórri geimstöð, svífa um spikfeitir í flugstólum með tölvur í andlitinu öllum stundum. Ég veit ekki með flugstólana en ég stari umtalsvert meira í tölvu sjálfur en árið 2008 – og var þó orðið ansi mikið þá. Á jörðinni býr ruslavélmennið Wall-E og dag einn finnur hann litla plöntu – þá síðustu á jörðinni, en það veit hann ekki, hann bara safnar áhugaverðum hlutum. Svo kemur leitarvélmennið Eva, mun fullkomnari og meira nýmóðins, til að finna plöntuna. Með þeim takast ástir, svo finnur Eva plöntuna hjá Wall-E, alls kyns prótókollar taka völdin í stýrikerfinu og hún flytur plöntuna upp í geimsstöð þar sem mannfólkið telur að nú eigi að hefja endurlandnám á jörðinni – eftir 700 ára útlegð – enda sé hún nú aftur fær um að fóstra líf.

Það er hérna sem plottið fer út og suður. Skipstölvan gerir af óútskýrðum ástæðum allt sem í sínu valdi stendur til að stöðva þessa prótókolla og koma plöntunni fyrir kattarnef. Sem meikar ekkert sens. Það var hún sem sendi leitarvélmenni, einsog Evu, um víða veröld til að finna plöntuna – það hefði verið hægur leikur fyrir tölvuna að hætta bara leitinni – og jörðin er augljóslega ekki í neinu ásigkomulagi til að taka við af skipstölvunni (og eflaust hefði enginn áhuga á því heldur). Sömuleiðis ætti litlu að skipta hvort þessi eina tiltekna planta kemst af, ef jörðin er í raun að fóstra líf að nýju þá ættu aðrar að finnast (ekki hefur þessi eina lifað af 700 ár … eða hvað? líf hlýtur að hafa kviknað að nýju .) Og tók enginn með sér svo mikið sem einn burkna út á geimstöðina? Hvaða rugl er þetta eiginlega.

Ástarsaga vélmennanna er langáhugaverðasti hluti sögunnar – en auðvitað furðu heterónormatíf, sérstaklega í ljósi þess að hvorugt vélmennið er í raun af neinu kyni (eða, það er allavega heimspekileg spurning). Svo sló mig reyndar líka að gamla ruslavélmennið og nýmóðins leitarvélmennið – hinn úreldi og æskan, Fríða og dýrið, ellibelgurinn og career-konan, ruslakarlinn og gellan – væri svona álíka líklegt og ef Lalli Johns myndi byrja með Örnu Ýr. Það væri sannarlega ástarsaga til næsta bæjar.

Internetið hefur auðvitað farið mikinn yfir því mynstri nýlega að kærustur Leonardo DiCaprios nái aldrei 26 ára aldri áður en hann hættir með þeim. Og fagnað því að Keanu Reeves sé með konu á „eigin aldri“ (hún er samt tíu árum yngri en hann – en líka ellilegri en hann, sem er einsog Leo hollywoodstjarna í eins konar formalíni, eilífðarglans þótt aldurinn sjáist eitthvað). En Wall-E er ekki Leo – ekki ríkur, ekki frægur, hann er bara noboddí, skrapatól, einbúi og ruslakarl. Algert krúttrassgat – en kærusturnar hans Leos eru ekki bara að leita að einhverjum eldri manni sem er krútt. Það er mjög ákveðin tegund af eldri karli sem höstlar ungar konur – valdamikill, settlaður, í góðu formi – og Wall-E er alger andstaða alls þess.

Áhugaverð mynd. Ég veit samt ekki hvað mér finnst um hana.

***

Við hjónin skutumst líka úr húsi til að sjá Doctor Sleep í Ísafjarðarbíói. Við höfðum hvorugt lesið bókina en bæði lesið Shining og séð myndina – ég held meira að segja að ég hafi séð a.m.k. hluta af Shining myndinni sem Stephen King stóð fyrir sjálfur og ef ég man rétt var hún alls ekki góð og sennilega ekki heldur mjög eftirminnileg. Einhver sagði á Twitter að Doctor Sleep væri æfing í því hvernig maður tæki eitt íkonískasta kvikmyndasett sögunnar og léti það líta út einsog ódýra sjónvarpsmynd. Það má til sanns vegar færa. Allra verstu hlutar Doctor Sleep eru þegar sést í Shining Stanley Kubricks – það er bara vont. Að því sögðu er þetta fín hryllingsmynd – flott laugardagskvöld í bíó, góð með poppi og kúlúsúkk (konan mín var að uppgötva kúlúsúkk og skilur ekki að ég – sem borða aldrei nammi – hafi leynt hana þessu allt okkar hjónaband, hún ætlar að taka með sér marga poka til Svíþjóðar næst þegar við förum, en finnst annars íslenskt nammi vera frekar lítið impónerandi).

Doctor Sleep er sem sagt ekki góð í samanburði við Shining en hún er bara alltílagi í samanburði við til dæmis Us.

***

I stand alone by the devils and other poems on films eftir hinn mikilvirka SJ Fowler er ljóðabók með ljóðum (ha?) sem eru innblásin af hinum og þessum kvikmyndaverkum. Einsog hughrif. Ljóðin heita eftir kvikmyndunum og við enda þeirra er tiltekinn frumsýningardagur og leikstjóri. Þarna er t.d. eitt um Stalker – „A trickle from the Stalker’s ears brings attention to the plug / that blocks out the sounds you’re making / until you’re living the first day of your life offline / in the zone.“

Þetta er að mörgu leyti torf en auðvitað ekki þess lags torf sem maður á að skilja eða „greina“ – það er leiðindatendens að skipta ljóðum út fyrir „merkingu sína“, og misskilningur á virkni þeirra. Kannski kominn til af því að margir heimspekingar fóru á tímabili að skrifa einsog einhver langpo-skáld – texta sem átti ekki að skiljast (eða a.m.k. ekki „bara að skiljast“). Og þá eru ljóðin ekki lengur torf en þau krefjast samt athyglisgáfu manns á annan hátt en prósi – eða einu sinni megnið af (meinstrím) ljóðum, sem eru beinskeyttari.

Sumar línurnar í bókinni vísa einhvern veginn beint í bíómyndirnar – stundum án þess að maður sé viss um að nákvæmlega þetta hafi verið í myndunum (ég er auðvitað minnislaus, þess vegna held ég svona langar dagbækur, heilinn geymir þetta ekki) – „Eight girls / without / underwear / barking like Labradors“ (Salo)  og „A film about skinning and eating and new love“ ( Silence of the lambs) – en aðrar er erfitt að tengja við myndirnar. Ljóðin við myndirnar sem maður hefur séð eru samt alltaf best – þau eru flest mjög góð, ég fíla Steven, sem ég hef lesið í meira en áratug og gefur út ábyggilega tvær bækur á ári, alltaf betur og betur, en þau njóta sín best í „náttúrulegu samhengi sínu“ með minninguna um bíómyndina í bakgrunni.

***

Ný plata Grísalappalísu, Týnda rásin, er sennilega bara besta platan þeirra. Og hljómsveitin bara hætt! Mig langar að segja að á henni „kenni margra grasa“ – af því það er eiginlega ómögulegt að segja nákvæmlega hvers vegna hún hangir saman, poppslagarar einsog Þrjúhundruðsextíuogfimmdagablús (sjáðu hjónin) og fuzzpönk einsog Meðaljón eða ljóða- og píanógjörningar einsog Taugaáfall í bónus. Í sjálfu sér reyna hljómsveitir oft fullmikið að hafa samræmi í lagasmíðum og útsetningum – það er erfiðara en það virðist að hætta að hljóma „einsog maður sjálfur“ og „listræn sýn“ líkist alltaf sjálfri sér. Köntrílag með Elton John verður alltaf meiri Elton John en það verður köntrí – af því köntrí er bara form, Elton er hjarta og sál. Og það er hellingur af hjarta og sál í Grísalappalísu, hellingur af ofsa og gleði – hellingur af gáfnafari, getur maður sagt það? Þetta er allavega gáfumannamúsík held ég – svona sem genre, maður getur ábyggilega líka fílað þetta þótt maður sé mjög heimskur, maður þarf ekkert að hugsa á meðan. En hugtakið – gáfumannamúsík – er náttúrulega bara afsprengi þess að stór hluti tónlistar virðist stefna í hina áttina, stefna að einfaldleika, einsatkvæðarími, einföldum textum, einföldum útsetningum o.s.frv. Það er ekki slæmt – ég er nú einu sinni AC/DC haus og einfaldleikinn á stóran stað í hjarta mér – en það er annað en þetta. Og flóknar útsetningar eru ekki endilega betri en einfaldar – það er ekki meiri músík í þeim og ekki endilega meiri gáfur (þótt t.d. gáfurnar sem þurfi til þess að spila mjög flókinn disharmónískan djass séu miklar – þá eru það stærðfræðigáfur – í samhengi Grísalappalísu er ég meira að hugsa um ljóðagáfur, liggur beint við að tala um Megasargáfur, enda er hann hér stór „áhrifavaldur“ (ónýtt orð!).

Reyndar held ég að eitt af því sem haldi plötunni saman í einni heild sé líka textaheimurinn – sem ég hef ekki greint af viti (enda á maður aldrei plötur lengur með textablöðum, bara eitthvað Spotifydæmi og gleymir svo eftir tvær vikur að þessi plata sé til og man það svo aftur eftir tvö ár, rennir henni einu sinni í gegn og hugsar: þetta er svo mikil snilld, hendir í status á facebook um að maður hafi verið að enduruppgötva eitthvað sem maður gleymir svo aftur – plötur þurfa að verða fýsískir hlutir að nýju). En mér sýnist textaheimurinn vera svolítið af Spilverksskólanum – einhver svona ljóðræn samþætting á smáborgaralífinu og bóhemlífinu.

***

Leifur Ýmir Eyjólfsson er með sýninguna e-ð fjall í Gallerí Úthverfu. Þetta eru þrjú stór verk sem standa hvert á sínum vegg – auðir panelar sem á stendur „e-ð fjall“ „e-ð annað fjall“ („annað“ er innskotið á milli e-ð og fjall) og „e-ð enn annað fjall“. Þau fyrstu tvö standa gegn hvert öðru og eru bæði á hvítum bakgrunni, svartur handskrifaður texti, en það þriðja fyrir botni herbergisins er einsog rist í brúnleitt tré.

Ég hef oft haft á orði – líka í listrýni á Starafugli – að það sé mjög algengt að listamenn sem koma hingað og vinna verk inn í rými, kannski sérstaklega þetta rými, Úthverfu – gamla Slúnkaríki – bregðist einhvern veginn við fjöllunum. Ég man eftir nokkrum myndlistarmönnum, bara síðasta árið eða svo, sem hafa málað fjöll á veggina. Það er skrítið fyrir heimamann. Þessi fjöll hafa tekið mikið rými í hugsunum mínum síðasta árið – ég er að yrkja um þau, skrifa skáldsögu um þau og reglulega pistla á Úr Vör um þau. Lengst af hef ég lifað í mótþróa gagnvart þeim – þau séu ekki spes, ekki dásamleg, ekki orkustöðvar, ekki allar klisjurnar (sem koma flestar að utan – kannski frá myndlistarmönnum sem teikna fjöll á veggi „á landsbyggðinni“). Sennilega er augljóst að þau séu það fyrsta sem orkar á mann þegar maður kemur og það sem orkar á mann sterkast, en þetta er líka svolítið einsog að fara til Finnlands og gera listaverk um hvað allir séu þunglyndar fyllibyttur.

Að því sögðu er verk Leifs Ýmis auðvitað tilraun til þess að streitast á móti þessu fjallamálverki. Hann hefur ekki málað nein fjöll á þessa veggi – en vakið þau upp engu að síður. Magritte málaði pípu og sagði að hún væri ekki pípa og Leifur málar engin fjöll en segir að þau séu fjöll. Salurinn, með sinn stóra glugga út að götunni, er auðvitað í laginu einsog fjörður – þótt Ísafjörður sé með fjögur fjöll umhverfis sig (tvö í botni fjarðarins) og Snæfjallaströndin blasi líka við handan djúpsins (sem væri þá málarablokkin, ef Úthverfa er Skutulsfjörður). Og maður raðar þeim ósjálfrátt upp – e-ð enn annað fjall er Kubbinn (frekar en Hnífar), e-ð fjall er Ernir og e-ð annað fjall er Eyrarfjall. Inni á gólfi standa svo Ísfirðingar og sötra vín.

Ég sveiflast á milli þess að finnast þetta alltof ódýrt og mjög snjallt. Kannski eru það ekki einu sinni mótsagnir. Svona einföld textaverk eru auðvitað ekki ný af nálinni – en staðsetningin, sagan, vinnur með merkingunni.

***

Gítarleikari vikunnar er poppdjassundrið Melanie Faye.

Vetrargulrætur; Okfruman; Agnes Joy; Between Mountains; Hótel Transylvanía; Sermon; Motherless Brooklyn; Kokkáll og gítarleikari vikunnar

Ég hef verið duglegur að viða að mér bókum upp á síðkastið. Keypti nokkrar fyrir mánaðamót, þegar ég kom að utan, og er einhvern veginn bara búinn á því núna. Fjárhagslega, meina ég. Þetta eru einar sjö bækur sem ég hef keypt og það er bara nóg til að buga mann. Meðalverðið er kannski 5.500 – dýrasta 7.000 og ódýrasta um 4.000. Ég hef líka farið á bókasafnið núna og fengið tvær gefins frá forlagi (enda áhrifavaldur!) en ég þarf annað hvort að bíða með að kaupa fleiri eða reyna að gera einhverja skiptidíla með gömlu bækurnar mínar. Mig langar að lesa eins mikið úr flóðinu og ég kemst yfir en það stýrist sennilega héðan af mikið af því hvað er inni á bókasafninu.

Nema hvað.

***

Ef ég ætti að mæla með einni bók fyrir jólin, af þeim sem ég hef lesið, myndi það vera Vetrargulrætur eftir Rögnu Sigurðardóttur. Þetta er smásagnasafn – með sögum í lengra laginu held ég, um 50 síður hver. Þrjár þeirra fjalla um myndlistarkonur (og myndlistarsamfélagið, fagurfræði) á 20. öld, ein um leikskólastarfsmann í samtímanum og ein um blindan sveitarómaga á 18. öld. Þetta er kannski ekki frumlegasti eða mest brútal textinn – þeir sem hafa bara lesið Borg eftir Rögnu myndu sennilega verða hissa, en það er svo sem langt síðan hún skipti um stíl (einsog konan í smásögunni sem yfirgefur abstraktlistina fyrir hið figuratífa) – en hann er einhvern veginn gegnumlýsandi í viðkvæmni sinni, kraftmikill í tipli sínu. Ég er ekki viss um að það sé höfundur á Íslandi í dag sem „leynir jafn mikið á sér“ og Ragna – maður veit einhvern veginn varla hvar það gerist að sögurnar ná taki á manni, þetta er svo látlaust og í raun gerist svo fátt fréttnæmt, en svo alltíeinu er maður allur kominn í hnút. Kona sem vinnur á leikskóla missir sjónar á einu leikskólabarni og alltíeinu er það orðið að hálfgerðum gotneskum hryllingi – sveitarómagi fær perutré á heilann og einhvern veginn kjarnar það alla fátækt og utangarðsmennsku.

***

Þetta var góð bókavika. Okfruman er fyrsta ljóðabók Brynju Hjálmsdóttur, gefin út af Unu Útgáfuhúsi sem hóf feril sinn bara í fyrra, held ég, með endurútgáfu á endurminningum byltingarmannsins Hallgríms Hallgrímssonar. Kannski var það meira að segja bara í vor?

Allavega. Brynja er nú samt ekki ljóðelskum ókunnug. Hún hefur birt hér og þar í tímaritum, lesið upp úti um hvippinn og hvappinn og stýrt, ásamt Fríðu Ísberg, vinsælu ljóðapoddkasti.

Okfruman er óstýrilát bók – hefði hugsanlega mátt vera óstýrilátari en mér finnst það nú reyndar næstum alltaf, þegar ég á annað borð er kominn á bragðið. Ég er almennt á því að stærsti löstur ljóðskálda sé að pússa alla matta fleti og agnúa af ljóðum sínum svo stemningin verður meira einsog á marmaragólfinu í nýskúruðum banka en á vinalegri stöðum, þetta er krafan, hugmyndin um ljóðið sem þessa glansandi fullkomnun frekar en hina lífrænni og (aðmérfinnst) eðlilegri heild. Okfruman er blessunarlega laus við þetta – hún heldur utan um kaosið sitt, nostrar við það, beislar subbuskapinn án þess að ýkja hann. Æðisleg bók, æðisleg ljóð, æðislega uppsett (ég veit það er erfitt fyrir suma að lesa smátt letur, en mikið er það fallegt), æðislegar myndir og myndljóð.

***

Mér fannst Agnes Joy ekki jafn rosalega stórkostleg og öllum hinum sem voru með mér í bíó – en það er nú samt rými þar til þess að hafa fundist hún ansi góð enda áttu sumir hreinlega erfitt með andardrátt af hrifningu. Ég er reyndar farinn að venjast því að það komi varla út ný íslensk bíómynd án þess að helmingurinn af fólkinu í kringum mig – yfirleitt sama fólkið, aftur og aftur – lýsi því yfir að NÚNA sé íslensk kvikmyndagerð búin að slíta barnsskónum og NÚNA hafi verið búin til bíómynd sem slái öll met í fagurfræðilegum gæðum. Að því sögðu er Agnes Joy skemmtileg mynd og stemningin í henni skemmtilega öðruvísi – þótt ekki væri nema bara fyrir sögusviðið, Akranes, sem er alveg ofan í borginni án þess að vera í borginni. Að vísu er enn þarna klisjan um sollinn í borginni versus hreinlífið í sveitinni, sem íslensk kvikmyndagerð (og raunar útlensk líka) virðist seint ætla að hrista af sér. Söguþráðurinn er dásamlega mikið kaos (altso, hún fjallar um kaos, sagan er frekar línulega sögð og án mikilla hiksta) og leikur og tónlist eru góð. Mér fannst kvikmyndatakan kannski ekki endilega neitt frábær en kannski hef ég heldur ekkert vit á því og kannski geldur hún fyrir að síðasta íslenska mynd sem ég sá – Hvítur, hvítur dagur – er svo brjálæðislega vel tekin, það er hennar stærsti styrkur. Agnes og mamma hennar eru rosalega vel skrifaðir karakterar og Katla Margrét og Donna Cruz eiga frábæran leik. Þorsteinn Bachmann sem pabbinn var líka frábær – kannski ekki jafn frábær heilt yfir en svo gersamlega rústaði hann nokkrum senum (ég meina rústa jákvætt), til dæmis þegar hann er hress á fylleríi. Björn Hlynur var sannfærandi án þess að fara mikið umfram það og Króli skilaði sínu vel og hafði sína þægilegu nærveru og sjarma.

Eitt truflaði mig við söguþráðinn. Það er svolítið mikið reynt að pakka þessu saman í lokin og af og til eru útúrdúrar sem virka einsog pólitísk köll frekar en eitthvað sem eigi heima þarna. Það er ekki endilega alltaf galli – mér fannst til dæmis alltílagi að mamman lýsti sig andvíga því að fá til leiks starfsmannaleigur á vinnustað sínum. En það var fullmikið af því góða þegar hún hafði í endann búið svo um hnútana að það yrðu aldrei notaðar starfsmannaleigur – ég átta mig ekki einu sinni á því hvernig hægt er að búa svo um hnútana í kapitalísku þjóðfélagi og svo var augljóst á öllum senum af þessum vinnustað og fundum að mamman réði ekki neinu þarna. Svo bara alltíeinu réð hún öllu þegar hún var að hætta.

Eitt nittpikk: í byrjun myndarinnar er keyrt framhjá frystihúsi. Þar stendur lítill hópur kvenna í vinnslugöllum. Maður sér fyrir sér að þær eigi að vera úti í smók eða eitthvað álíka – kannski bara að fá sér frískt loft. En ég held það séu áreiðanlega 20 ár frá því það var tekið fyrir það að starfsfólk í matvælavinnslu færi út í göllum, með svuntur og hárnet og allesammen.

***

Önnur Katla. Between Mountains var að gefa út sína fyrstu breiðskífu – samnefnda sveitinni, sem ég held reyndar að sé bara Katla Vigdís, núorðið, Vernharðsdóttir, milli næstu fjalla í Súgandafirði. Eitthvað held ég reyndar að hún sé með af fólki sér til halds og trausts og þarf ekki alltaf að sækja það langt – bræður hennar eru báðir tónlistarmenn og pabbi hennar er bassa- og gítarleikari til hundrað ára úr hundrað hljómsveitum, hljóðmaður, eigandi Stuð ehf. og ég veit ekki hvað og hvað. Mér finnst einsog ég hafi séð það einhvers staðar á samfélagsmiðlum að þeir hafi eitthvað sessjónspilað á plötunni.

Lögin eru flest drifin áfram af annað hvort lyklum eða gítar – útsetningarnar eru ísmeygilegar, marglaga og stundum óvæntar án þess að hljóðfærin þvælist neitt hvert fyrir öðru. Mér er meinilla við að segja að þær séu „smekklegar“ af því „smekklegt“ er svo æðislega mikil klisja í tónlist (og ég er líka hrifinn af því sem er svolítið ósmekklegt) en sennilega eru þær einmitt smekklegar. Frábærir textar, frábærar melódíur. Það er líka klisja að nefna það en það er auðvitað algert rugl að Katla sé – ég held hún sé sautján ára. Og löngu búin að vinna Músíktilraunir, auðvitað.

Uppáhaldslögin mín eru fyrsta og síðasta – Open Grounds og What Breaks Me.

***

Kvikmyndaklúbbur unga fólksins horfði á Hótel Transylvaníu. Aino valdi og Aram var fjarverandi í hrekkjavökuveislu. Við höfum séð hana áður einhvern tíma. Í grunninn fjallar sagan um hinn ofverndandi föður – mann sem byggir mikinn kastala til að vernda dóttur sína fyrir hinu ókunna. Sem er auðvitað útlendur maður – afmeyjarinn, ástin eina. Pabbinn lærir svo að það er ekkert að óttast þótt litla stelpan hans verði fullorðin og vingast við útlenda manninn, tekur hann inn í fjölskylduna. Missir ekki dóttur heldur eignast son. Nema með vampírum og frankensteinum og þannig. Fínir sprettir en söguþráðurinn kannski doldið mikil klisja.

***

Une Misère sendu frá sér nýja plötu – Sermon. Sú á undan, 010717, hét 39 ára afmælisdeginum mínum. Sennilega er það útgáfudagurinn.

Ég sá sveitina spila á Aldrei fyrir nokkrum árum – þetta er eitthvert rosalegasta live-band sem ég hef séð. Krafturinn – sem er auðvitað undirstaðan í öllum metal – er engu líkur. Hann skilar sér að miklu, en ekki öllu leyti, á þessari plötu. Sennilega gæti maður komist nálægt því með því að stilla svo hátt að veggir fari að hristast en það er kannski ekki forsvaranlegt þegar maður á nágranna og svona. Ég er ekki viss um að Gylfi og Tinna tækju því neitt æðislega vel.

En þetta er klassametall af hörðustu tegund. Eftir því sem harkan í metal eykst verður samt alltaf erfiðara að halda hinu melódíska og/eða athygli hlustandans sem sækist eftir fleiru en bara orkunni (á tónleikum heddbangar maður og lendir í trans – heima hjá sér er maður yfirleitt að sinna öðru samtímis, einsog að blogga). Une Misère er ekki mjög melódísk sveit en þeim mun rytmískari – það er í taktinum, taktskiptum, keyrslu og slökun, sem maður fær kikkið sitt svona heima með heddfónana. Ég sá á samfélagsmiðlum að margir féllu fyrir henni alveg strax í fyrstu hlustun en ég var ekki almennilega kátur fyrren í annarri og þriðju hlustun – kannski vegna þess að ég hafði eiginlega ekkert hlustað á fyrri plötuna og hafði miklar væntingar eftir þessa tónleika um árið.

Sermon og Between Mountains komu út sama dag – 1. nóvember. Og þann sama dag kom líka ný plata frá Grísalappalísu, sem ég er bara rétt byrjaður að hlusta á en virkar ekki minna frábær (sennilega meira um það í næstu viku). Rosalegur dagur fyrir íslenska tónlist.

Besta lagið á Sermon – hingað til – finnst mér vera Burdened-Suffering.

***

Ég fór í bíó á Motherless Brooklyn. Ísafjarðarbíó bauð mér og Nödju frítt og gaf okkur meira að segja popp og kók með því. Ekki vegna þess að ég sé áhrifavaldur, sem ég er samt, heldur vegna þess að ég þýddi bókina sem myndin er byggð á. Það var að eigin frumkvæði og hún átti upphaflega að koma út hjá forlaginu Traktor, sem Snæbjörn Arngrímsson hafði ráðið mig til að sjá um – sennilega í leit að einhverjum Nýhilljóma (þetta var 2005, Nýhil var sjóðheitt). En samskiptin á milli okkar Snæbjörns voru alls ekki góð, allt fór í rugl og bókin kom aldrei út hjá Traktor – sem gaf bara út eina bók, Áferð, fyrstu skáldsögu Ófeigs Sigurðssonar, ekki síður frábæra bók, sem seldist ábyggilega í 60-70 eintökum. Salan hjá Ófeigi hefur svo bara aukist, held ég. En þó salan hafi verið svona góð dugði það ekki til – kostnaðurinn við þýðinguna á Motherless Brooklyn var of mikill og það jafnt þótt ég hafi hlunnfarið sjálfan mig til þess að geta komið þessu í verk og borgað mér langt undir taxta. Og þar sem bókin kom ekki út var auðvitað engin innkoma af henni. Peningarnir voru búnir og Traktornum var lagt.

Bókin kom svo út tveimur árum seinna, 2007, þegar við Snæbjörn vorum báðir fluttir til Skandinavíu og Agla, sem nú er með Angústúru, og Guðrún, sem nú er með Benedikt forlag, höfðu tekið við Bjarti. Long story short þá var henni svona bærilega tekið af kaupendum – fór held ég út í einhvern bókaklúbb – og var svo til uppseld þegar ég fékk Íslensku þýðingarverðlaunin fyrir hana 2008. Hún var ekki endurprentuð þeirra vegna, enda held ég að þau verðlaun skipti litlu fyrir sölu, og ekki heldur núna í tilefni myndarinnar (sem fær ekki nema hlandvolga dóma) og ég hef ekki séð hana nema örfáum sinnum í Góða hirðinum – þar sem ég „hirði“ (ho ho) alltaf eintak ef ég sé. Og gef einhverjum.

Ég var ekki á landinu og ekki í Skandinavíu þegar verðlaunin voru afhent, heldur í Bandaríkjunum á ljóðahátíð. Mamma fór til forsetans til að taka við skjalinu en ég mælti mér mót við höfund bókarinnar, Jonathan Lethem, á kaffihúsi í Brooklyn. Ég man aðallega að ég var mjög vandræðalegur og afar þunnur eftir mikið gill kvöldið áður – eftirpartí eftir múm-tónleika þar sem ég sá FM Belfast spila í fyrsta sinn og við Valur Brynjar enduðum á trúnó með einhverjum desert storm hermanni. En Lethem var hress og skemmtilegur, sem og konan hans og ungabarn þeirra, og sagði mér að nú færi að styttast í boðaða kvikmynd Edwards Norton, þetta væri bara allt að gerast. Svo leið og beið og leið og beið og ég gúglaði þessu alltaf annað veifið en var steinhættur því þegar treilerinn bara birtist á kvikmyndatjaldinu einhvern tíma í vor.

Myndin einsog bókin fjallar um munaðarlausa einkaspæjarann Lionel Essrog, sem þjáist af tourettes. Lærifaðir hans, Frank Minna, er skotinn í upphafi myndarinnar og deyr og Lionel fer á stúfana til að komast að því hvað hafi gerst – einsog við er að búast kemur ýmislegt upp úr krafsinu. Ég man ekki til þess að bókin sé nákvæmlega tímasett en sennilega gerist hún í nýlegri fortíð – og kemur út 1999 – nokkurn veginn í samtímanum. Hins vegar er frásögnin í harðsoðna reyfarastílnum – noir – ofan í tourettíska kæki Essrogs sem setja mark sitt á bæði stíl, uppbyggingu, framþróun sögunnar og auðvitað persónuleika Essrogs. Norton færir söguna aftur til sjötta áratugarins, sem er þá rétt períóða fyrir noirið, en missir þar með þessa skemmtilegu spennu sem er á milli sagnamátans og sögutímans. Þá blandar Norton líka mikið inn alls kyns non-fiction um verktakaspillingu í New York. Í stað þess að hvíla á tourettinu sem myndlíkingu fyrir mannshugann og samfélagið – þessu hvernig rafstraumarnir sem þeytast um hausinn á okkur hjálpa okkur bæði að skipuleggja okkur og sjá skýrt og þvælast fyrir okkur og trufla okkur í senn – lætur Norton söguna hvíla á frekar beisik pólitískri allegoríu. Maður sér það vel ef maður kíkir á dóma um myndina annars vegar – sem rekja samsærisglæpaplottin skilmerkilega – og um bókina hins vegar, sem nefna þau ekki einu orði og tala bara um persónu Lionels.

Það er margt vel gert þarna. Norton fer sjálfur mjög varlega í túlkun sinni á Lionel – sem er í senn smekklegt og skemmtilegt og sennilega betra í woke-samfélagi sem horfir ströngum augum á ófatlaðan mann í fötluðu hlutverki, og bókstaflega rangt (ef maður gengur út frá bókinni). Lionel bókarinnar líður miklu, miklu meira af sínum sjúkdómi en Lionel myndarinnar. Lionel myndarinnar hefur auðvitað ekki sama aðgengi að innri mónólóg og Lionel bókarinnar og þarf þess vegna stöðugt að vera að útskýra hugsanir sínar, sem er eitthvað sem Lionel bókarinnar ræður nánast ekki við – allt sem hann gerir út á við markast af sjúkdómnum, en við sem sjáum inn í höfuðið á honum vitum að þar virkar sjúkdómurinn allt öðruvísi, þar ræður Lionel sjálfur ríkjum og hugsanir hans þjóna honum, þar gerir sjúkdómurinn hann að ofurhetju, ofurgreinanda. Í myndinni er tourettið miklu veikara en að sama skapi kannski eðlilegra – ég veit það ekki (tourette birtist á ólíkan hátt, hjá mörgum verður maður varla var við það nema maður viti af því).

En þetta er vel leikið. Tónlistin er skemmtileg. Myndatakan truflaði mig oft – oft fannst mér hún of nálægt leikurunum. Og ég hafði auðvitað æðislega gaman að fá að rifja upp Lionel Essrog, sem ég eyddi eitt sinn svo miklum tíma með – þótt mér hafi þótt bókin miklu betri.

***

Kokkáll eftir Halldór Erfð… nei djók, Dóra DNA, er frábær bók. Það vantar reyndar titilinn framan á hana, hefur ábyggilega bara gleymst. Sagan hnitar fimlega í kringum væntingar samfélagsins til karlmanna og væntingar margra karlmanna til sín sjálfra – hún afhjúpar marga hluta þessa brandarasamfélags sem við lifum í, innihaldsleysið og ruglið, minnir á einhverja svona Fight Club eða American Psycho stemningu, neysluhyggjan og greddan, þunglyndið yfir því að eiga allt og hafa aldrei neinar helvítis áhyggjur af neinu nema ruglinu sem maður býr til sjálfur. Já og svo er hún bullandi rasísk. Forsendan í henni – hugmyndin sem rammar hana inn og pönslænið sem hún endar á – er einsog í einhverjum cringe-brandara frá því anno 1993. Svona negri gengur inn á bar dæmi. Ég er rosa hissa að Dóri sé ekki hið minnsta canceled – ekki séð svo mikið sem píp einu sinni frá æstasta fólkinu á Twitter (og vel að merkja mótfallinn öllu svona canceli sjálfur, listaverk eru flóknari en þetta, þau eru staður til að hugsa á og hugsa um – en það er líka áhugavert þetta með frípassana).

Í miðri bók fór ég í mat hjá vinum mínum, bandaríkjamönnum, og ég fór eitthvað að tala um klisjuna að vestfirðingum þætti svo gaman að stuða og vinur minn hélt yfir mér langa ræðu um hvernig allir voru alltaf að segja n***ah við hann, hvað þetta væri með íslendinga og þurfa alltaf að segja n***ah í tíma og ótíma, og ég rifjaði upp álíka sögur frá Birni Kozempel, þýskum vini mínum, sem sagði að Íslendingum sem væru búnir að drekka meira en tvo bjóra þætti alltaf æðislega sniðugt að ögra honum með hitlerskveðjum, fingraskeggjum og helfararbröndurum. En allavega. Það rennur alveg nokkrum sinnum á ljóðmælanda Dóra svona n***ah æði.

Svo ég útskýri það aðeins þá er nöfin sem bókin snýst um kynferðislegar fantasíur um svartan mann – bæði hugsanir og gerðir – og hugmyndir aðalsöguhetjunnar um þennan mann (sem er mjög mikið stand-in fyrir „svarta manninn“ sem slíkan – hann fær einhverja persónulega eiginleika en stígur aldrei út úr fantasíuvíddinni) markerast af ópróblematíseraðri upphafningu, öfund, blæti, hatri o.s.frv. Að því sögðu er ekki beinlínis sanngjarnt að gera afstöðu aðalsöguhetjunnar að afstöðu bókarinnar (hvað þá afstöðu Dóra sjálfs) – en það er heldur ekki hægt skauta bara framhjá þessu grundvallaratriði í bókinni sem sniðugu plot-device, og ekki hægt að próblematísera eða skoða þetta án þess að nefna það. Og án þess að nefna það réttum nöfnum. Viðtökur einsog „ljómandi skemmtilegt að lesa þessa bók“ (Egill í Kiljunni) ná því einfaldlega ekki.

En að því sögðu er bókin samt frábær, einhvern veginn. Hún er miklu betur skrifuð, beittari, en mikið af þessum samfélagskrítísku djammsögum sem maður les – og það er samtímis í henni meiri mýkt og lífrænni bygging. Aðalsöguhetjur bókarinnar eru bæði ljóslifandi og í sjálfu sér ótýpískar, þótt staða þeirra í samfélaginu sé kunnugleg – séu þær klisjur þá sigrast Dóri á klisjueiginleikum þeirra, þær verða einstakar. Eins ósennilegur og söguþráðurinn er – ekki í einstökum atvikum, heldur að þetta raðist allt svona saman, tårta på tårta segir maður á sænsku – þá er hann samt aldrei þvingaður. Það er rosa gott múv í lokin þegar tvívíðasta persóna bókarinnar – Hrafnhildur – reynist loks alls ekki tvívíð, grunn eða nærri jafn mikið fífl og maður heldur fram að því, heldur er aðalsöguhetjan bara alltof upptekin af sjálfri sér til að fatta hvað er að gerast í sjálfskaparvítinu sínu. Snúningurinn á sannleikanum um Tyrone var ekki jafn góður – en sennilega merkingarbær upp á allt hitt og óþarfi að líta framhjá honum.

***

Gítarleikari vikunnar er Reverend Peyton úr Reverend Peyton’s Big Damn Band.

Birdman; Bangin með Nikki Glaser; Við erum ekki morðingjar; Live with Yourself s. 1; Joker; Korngult hár, grá augu; Aðferðir til að lifa af; Gráskinna; Preacher s.4 og Mommy

Það eru tvær vikur síðan ég skrifaði í menningardagbókina og maður gæti haldið að þetta hafi smám saman verið að mjatlast inn en í sannleika sagt er ég frekar latur að lesa eða hlusta eða horfa á ferðalögum. Megnið af þessu er frá allra síðustu dögum, frá því að ég kom heim eða var a.m.k. á heimleið.

***

Ég horfði á Birdman í vélinni heim frá París. Það var ekki síst viðeigandi í ljósi nýlegra deilna um gæði Marvel-mynda versus gæði listabíós. Myndin fjallar um leikara sem er frægastur fyrir að hafa leikið ofurhetjuna Birdman – leikarinn er leikinn af Michael Keaton og Birdman minnir óneitanlega svolítið á Batman. Leikarinn vill hins vegar láta taka sig alvarlega(r) og er þess vegna að setja upp eigin aðlögun á smásögu Raymonds Carver What We Talk About When We Talk About Love. Í eigin leikstjórn með sjálfan sig í aðalhlutverki. Hann er afar tæpur og fær til sín annan leikara, Edward Norton, sem er jafnvel enn tæpari en þykir mjög hæfileikaríkur og hann ýtir Keaton lengra af sporinu. En svo má segja að sögnin í myndinni sé að listin verði til á þessum tæpa stað – í hinni hráu tilfinningu, brjálæðislegu nautn, ótta, dauðaþrá, greddu jafnvel. Þessu var lengi vel held ég tekið sem gefnu – en eftir leikhús-metoo finnst mér einsog það verði varla lengur. Í stað þess að leikhúsið sé staður þessa brjálæðis á það að vera vinnustaður þar sem maður getur talið sig óhultan – faglegur vinnustaður þar sem vinnur faglegt fólk. 

Hvað sem því líður er Birdman frábær mynd – a.m.k. snappsjott af ástandi ef maður tekur henni ekki sem fagurfræðilegu manifestói.

***

Ég horfði á uppistandið Bangin’ með Nikki Glaser. Það var ekki spes. Ég var búinn að sjá treilerinn og bestu brandararnir voru þar. Sennilega væri þetta skemmtilegra ef maður væri átján ára. Kannski ekki samt – ekki mjög woke. Best kannski ef maður er fertugur en átján ára í anda.

***

Fyrsta jólabókaflóðsbókin sem ég las var Við erum ekki morðingjar eftir Dag Hjartarson. Bókin fjallar um unga konu sem gaf út bók sem setti líf hennar úr skorðum – maður veit ekki mikið meira en það kemur smám saman í ljós þessa einu nótt sem bókin annars spannar, meðan hún segir manni sem hún býr með (þau leigja sitthvort herbergið) alla sólarsöguna.

Það er eitthvað gott að gerast í fyrrihlutanum, einhver stemning – faglegheit, for lack of a better word, en líka eitthvað næmi, stíll, innsýn. Það truflaði mig stundum hvað bókin vísar oft í samtíma-Reykjavík og hvað kærasti konunnar – Benni – á sér augljósa fyrirmynd (það er ekki síst lúðalegt í ljósi þess hvert sagan svo leitar). Á einum stað segir stúlkan við sambýlismanninn að hluta vandræða hennar megi rekja til þess að á Íslandi lesi allir skáldsögur með símaskrána til hliðsjónar (eða eitthvað álíka, ég man þetta ekki orðrétt). Kannski er það eitthvað svona meta-komment á Við erum ekki morðingjar sem er einmitt full af símanúmerum sem maður getur auðveldlega tengt við raunverulegt fólk – án þess þó að vera lykilróman eða mikil tíðarfarslýsing, bókin dvelur fyrst og fremst í sársauka aðalsöguhetjunnar og þessir lyklar segja manni ekkert annað en hvar höfundurinn sótti fyrirmyndir sínar. Ekki heldur um fólkið sem er fyrirmyndir. Þetta er svolítið einsog að sjá bíómynd þar sem maður þekkir mikið af statistunum í bakgrunni – og einn af aðalleikurunum hefur verið rækilega tæpkastaður.

En jæja. Ég var nú samt að fíla þetta alveg fram í blálokin. Plottpunkturinn – þegar maður kemst loksins að því hvað það var sem olli öllum þessum harmi – er síðan ekki góður. Ég held ég hafi hreinlega æpt upphátt „nei!“ þegar hann loks birtist og liðið svona einsog þegar maður er að spila jenga og er alveg að vinna en rekur sig svo klaufalega utan í og allt hrynur. Að því sögðu var heilmikið að gerast fram að hruni og þetta leit að mörgu leyti vel út – var sprúðlandi sálfræðiþriller nokkuð fram yfir hlé.

***

Serían Live With Yourself er með Paul Rudd í aðalhlutverki. Uppleggið er mjög fínt. Þunglyndur fjölskyldufaðir uppgötvar kóreskt spa sem lofar honum – fyrir 50 þúsund dollara – algerlega endurnýjuðum lífskrafti og lífsviðhorfi og hann hefur ástæðu til að trúa því að þetta virki (vinnufélagi hans hefur gert þetta og farið í gegnum ferlið). Hann slær til – það fer eitthvað úrskeiðis þegar er verið að svæfa hann og hann vaknar lifandi grafinn úti í skógi nokkrum klukkustundum síðar. Skakklappast heim til sín en finnur þar fyrir sjálfan sig – hamingjusamari útgáfu – sem veit ekki heldur hvaðan á sig stendur veðrið. Í ljós kemur að hann hefur verið klónaður án galla sinna og átti að deyja – einsog aðrar frummyndir klóna til þessa. Þeir þurfa svo að finna einhverja leið til þess að vera báðir til í heiminum.

Fyrstu 3-4 þættirnir eru fínir. Svo verða skrifin alltaf væmnari og væmnari og maður fær engu meiri innsýn í persónurnar – þær hætta að þróast og mikið af upprunalega vandamálinu (þunglyndinu) er bara látið óhrært, einsog það hafi aldrei verið til. Eiginkona Rudds er ekki nema sjónarmun verr skrifuð en hann sjálfir (já, sjálfir) en það munar samt einhverju – allt of þunnt. Þetta endar svo á ótrúlega heimskulegu glotti. Já og Paul Rudd er góður í að leika svona næs en ringlaða sæta náunga – en það er hrikalegt að láta hann leika í mjög dramatískum senum, alveg út í hött, hann bara getur þetta ekki.

***

Ég ætlaði fyrst að sjá Joker á fríkvöldinu mínu í París en þegar ég kom í bíóið var biðröð út á næsta horn og ég sá ekki betur en allir í röðinni væru þegar með miða. Ég fór leiður heim á hótel en fattaði svo að ég ætti annað fríkvöld í Keflavík daginn eftir og þar var auðvitað líka verið að sýna Joker – í hálftómum sal, bara ég og nokkrir Pólverjar (sennilega höfðar myndin betur til meginlandsbúa).

Ég er búinn að sjá svo marga skrifa að þeir ætli nú að bera í bakkafullan lækinn um þessa mynd að ég veit ekki hvar ég á að byrja. Ég fílaði hana. Að því sögðu er Joker auðvitað ekki góðmenni – eða neins konar Che Guevara fígúra heldur. Ekki Greta Thunberg. Engin fyrirmynd vestrænna sósíalista. Hann er fórnarlamb kerfis sem stendur á sama um smælingja – geðsjúkur maður sem fær ekki hjálp. Í myndinni krystallast þetta ástand og reiðin í þjóðfélaginu vellur og vellur. En Joker sem útleið er auðvitað ekki bara hinn fátæki og reiði, heldur líka trúðurinn, vitleysingurinn, Trump og Boris og Vigdís Hauks og Sigmundur í ósamstæðum skóm að éta hakk á ritzkexi á Snapchat.

***

Næst á jólabókaflóðslistanum var Korngult hár, grá augu eftir Sjón. Sjón er einfaldlega einn allra besti rithöfundur sem Íslendingar hafa átt og sá þeirra sem höfðar einna mest til mín – hann hefur sína eigin auðþekkjanlegu fagurfræði, sem er kannski sprottinn af súrrealismanum en er löngu orðin að einhverju öðru í hans meðförum, og ég les bækurnar hans ölvaður af aðdáun einsog veiklað fanboi. Að því sögðu er ég ekki alveg sannfærður um þessa tilteknu bók – hún er allavega ekki jafn augljóst meistaraverk og síðustu tvær (Codexinn og Mánasteinn). Það er margt í henni sem nær til mín en að sama skapi gríp ég sums staðar í tómt – kannski þarf ég bara að lesa hana aftur og kannski er ég bara löngu orðinn saddur af nasisma og kannski er ég að leita eftir einhverju sem ég átti von á en er ekki til staðar og þá þarf ég sennilega fyrst að komast yfir það.

Miðkaflinn í bókinni fannst mér bestur – bréfin og skjölin. Þar finnst mér Gunnar Kampen og heimurinn sem hann lifir í birtast skýrast. Sennilega er leiðin að hjarta þessarar bókar í gegnum persónuna fyrst og síðan að restinni – þaðan stækki hún.

En meira að segja bara rétt svo í meðallagi góð Sjónsbók er samt Sjónsbók – samt frábær – hún hefur vaxið frá því ég lét hana frá mér og ég yrði ekkert hissa þótt hún ætti eftir að halda því áfram um dálítið skeið.

***

Þriðja jólabókaflóðsbókin var Aðferðir til að lifa af eftir Guðrúnu Evu.

Ástin Texas – kom hún út bara í fyrra? Hún var allavega frábær og Aðferðir til að lifa af er það líka. Aðferðirnar er ekki smásagnasafn en samt smásagnasafn – og jafnvel örsagnasafn. Sagan vindur sér á milli sögumanna og sjónarhorna sem ryðja mjög gætilega yfir mann heilum mannsævum af tráma og ást og sérkennilegheitum. Einhvern veginn bæði þægilega óþægilegt og óþægilega þægilegt aflestrar – minnir mig á bækur sænskrar vinkonu minnar, Idu Linde, a.m.k. að þessu leyti, og líka þannig að þær undirstrika svo rækilega hvað er alltílagi að vera svolítið fokkt opp, að vera ringlaður og í rugli, hornskakkur í tilverunni. Mér finnst alltaf aðeins auðveldara að standa á fætur þegar ég hef lesið – allavega þessar síðustu tvær Guðrúnar Evu.

***

Fjórða jólabókaflóðsbókin var Gráskinna eftir Arngrím Vídalín. Það er eitthvað lífrænt við þessa bók og það er eitthvað mjög ólífrænt við hana. Ég er ekki viss um að mér finnist hún alveg ganga upp. Fyrstu 120 síðurnar eru nánast einsog formáli að endalokunum, síðustu 20 síðunum – og hugsanlega hefði hún bara verið betri sem óplottuð mannlýsing/ævisaga. Að því sögðu er plottið mjög flott, sem og snúningurinn á því, og endirinn góður og aðalsöguhetjan – eina persónan sem maður tengist nokkuð af viti – vel sköpuð. Ég hefði viljað dvelja meira í mónómaníu Jóhannesar og minna í einhverjum sögum af ættmennum hans – sem þess utan virka stundum mjög anakrónískar, manni finnst stundum nánast einsog Jóhannes sé að alast upp á stríðsárunum, þessi borgaralegi Grönvold-heimur á miklu meira skylt við sagnaheim gullaldar Kiljans en síðustu 30 árin. Og þá meina ég ekki að borgarastéttin sé ekki til, hún sé ekki íhaldssöm og hómófóbísk – það bara lítur ekki svona út lengur, held ég, er öðruvísi í laginu.

Stíllinn er mjög lillgammal líka – gamall fyrir aldur fram og þarf svo sem ekki að koma neinum á óvart sem hefur lesið Vídalín fram til þessa. En fínn, sem sagt, mestmegnis rembingslaus og samræmi út í gegn.

***

Preacher – lokasería. Við Nadja höfum verið að dunda okkur í gegnum Preacher síðustu misserin. Þetta er sería byggð á teiknimyndasögublöðum um predikara – Jesse Custer – kærustuna hans, Tulip, og besta vin þeirra sem er vampíra (og ástfanginn af Tulip). Jesse hefur hlotið mátt sem nefnist Genesis og gerir honum kleyft að skipa fólki fyrir verkum. Þrímenningarnir eru að leita Guðs, sem er bókstaflega horfinn úr himnaríki, og í lokaseríunni stefnir allt í heimsslit, sem orkestreruð af Guði í samstarfi við sértrúarsöfnuð og messías, sem er ekki Kristur heldur þroskaheftur sonur Krists, Humperdink, eftirlæti afa síns, Drottins almáttugs.

Þetta er ógeðslega blóðugt og ógeðslega skemmtilegt. Mikið rugl, mikið gaman, mikið kaos, mikill töffaraskapur og húmor.

***

Kanadíska bíómyndin Mommy var sýnd á RÚV á dögunum en við Nadja horfðum á hana í gærkvöldi. Hún fjallar um einstæða móður, son hennar sem er brjálæðislega – glæpsamlega – ofvirkur og vinkonu þeirra, stamandi nágranna. Móðirin og sonurinn eru svokallað hvítt hyski, inn að beini, og allt þeirra fas ber merki stjórnlausrar hysteríu frammi fyrir óleysanlegum vandamálum í heimi sem er aldrei með þeim í liði. Gleðin birtist þegar vandamálin eru hunsuð – þegar það er hægt að hunsa þau – og hverfur einsog dögg fyrir sólu þegar ekki er lengur hægt að hunsa þau. Þau eyða gríðarmiklum tíma í að ræða vandamál sín, þekkja þau, fantasera um leiðir út úr þeim en aldrei þannig að maður – sem áhorfandi – trúi því að þetta muni hafast. Maður sér ekki einu sinni leiðir út úr þessu sjálfur. Strákurinn er stórhættulegur, ofbeldishneigður rasisti, og á sama tíma (einsog Gunnar Kampen – en samt ekki) viðkvæmt blóm. Þeir sem gefast upp á honum – eða ógna honum, reyna að konfrontera hann – eru ekki sýndir í mjög sympatísku ljósi en samt sér maður ekki sjálfur hvernig maður gæti hanterað hann í eigin lífi, jafnt þótt manni hafi lærst að þykja vænt um hann og mömmu hans á þessum tveimur tímum sem myndin starði mann niður.

***

Ég fór í plötubúð í París í síðustu viku og var næstum búinn að kaupa Jeff Beck plötuna Jeff Beck Group fyrir 8 evrur en hætti við vegna þess að ég náði aldrei almennilega sambandi við Blow by Blow sem ég keypti í fyrra. Svo setti ég hana á á Spotify þegar ég var að fljúga af stað úr bænum – áður en ég byrjaði að horfa á Birdman – og fannst ég einsog algert fífl, af því Jeff Beck Group er frábær. Miklu lífrænni tónn en á Blow by Blow, meira svona fyrir mig. Allavega – ég keypti reyndar Graceland með Paul Simon og fyrstu plötu Stray Cats (og Seventh Son of the Seventh Son fyrir Aram) en ég sé eftir að hafa ekki keypt þessa líka. Og þess vegna er Jeff Beck gítarleikari vikunnar, af því að ég er fífl. Lagið er að vísu af Wired, en það er sama.

Hin óskeikula nóbelsnefnd

Ég er alltaf að setja mér einhverjar reglur um það hvað ég eigi að blogga um og hvernig. Sem er auðvitað mjög undarlegt því hér gæti ég lifað án nokkurra reglna – og það var sannarlega sjarminn við bloggið þegar það var ennþá sjarmi yfir því að blogga. Fyrir svona 15 árum síðan. En svo eru reglurnar líka til að minna mig á að sinna þessu rými í heilanum á mér – þessum stað þar sem ég skrifa nánast án þess að hugsa, eða hugsa og skrifa jafn óðum (frekar en að hugsa mikið fyrirfram, skrifa svo, endurskrifa, biðja einhvern að lesa það yfir og så videre). Ginsberg sagði að ljóðlistin snerist um þetta reyndar, að grípa sjálfan sig við að hugsa.

Eitt af vandamálum mínum er hvað hugsanir mínar eru oft spíttmanískar núorðið. Ég veit aldrei hvort ég á að vera að hugsa um það sem er að gerast í fréttunum eða á twitter eða á facebook eða í bókinni minni eða bókinni sem ég er að lesa eða fjölskyldunni og alltaf þegar ég set mig í stellingar til að fara hugsa um eitthvað tiltekið er ég nánast samstundis byrjaður að hugsa um eitthvað annað. Ég settist t.d. niður – á fallegu kaffihúsi í York sem er furðulega tómt samt – með það fyrir augum að skrifa eitthvað um Handkenóbelinn. Meðal annars auðvitað að við ættum ekki að skrifa svona mikið um Handkenóbelinn af því þá gleymum við því að Tokarczuk fékk líka nóbelinn og það er ljótt gagnvart henni.

Kenning mín um nóbelinn fyrirfram rættist annars að mestu. Ég hélt því fram að nefndin myndi gefa verðlaunin prógressífri konu og umdeildum karli. Grínið var þá Margaret Atwood og Horace Engdahl (besti vinur Jean-Kladd sem nóbelsskandallinn snerist um). Eða Judith Butler og Ko Un. Það bjuggust flestir við því að nefndin myndi útnefna einhvern sem væri „góða fólkinu“ mjög að skapi – einhvern úr kúguðum minnihlutahópi utan Evrópu. En nóbelsnefndin hefur alltaf meðal annars starfað að því að undirstrika eigin guðdómleika og sjálfstæði – það er fagurfræði sjálfra verðlaunanna og hún er ekki ómerkilegri en hver fær þau svo. Hún gæti allt eins farið að vilja og væntingum fólksins og hún gæti breytt þessu í símakosningu.

Hugmyndin er sú að allir rithöfundar ættu að geta fengið nóbelinn – svona sirka – af því kríterían sé ekkert nema fagurfræðin ein (sama hvað svo segir í verðlaunatextum nefndarinnar sem rökstyður oft val sitt hingað og þangað – þetta er fastinn og kjarninn og án hans eru nóbelsverðlaunin bara hver annar booker). Þetta er svo auðvitað mególómanían í nefndinni – eitthvað sem margir minna sænsku vina kalla „borgerlighet“ og tengja jafnvel við maskínur kapítalismans en er miklu eldra og hangir saman við lénsskipulag og óskeikulleika kirkjuvaldsins. Sú hugsun eða pólitík eða fagurfræði (eða hvað maður vill kalla það) á undir högg að sækja í dag og þess vegna þarf val nóbelsnefndarinnar alltaf að undirbyggja og viðhalda óskeikulleika sínum. Nefndin má aldrei virðast beygja sig fyrir þrýstingi – þá er hún farin að nálgast um of Idolið. Og hún fer alltaf í báðar áttir til skiptis – lítt þekktur höfundur á litlu máli fær verðlaunin og svo fær Bob Dylan þau. Eitt árið Hemingway og svo Laxness; eitt árið Jelinek og annað Ishiguro. Framúrstefnuhöfundur og svo meginstraums.

Afstaða mín til alls þessa er tvíbent. Annars vegar hef ég hálfgerðan viðbjóð á feudalísku mikilmennskubrjálæðinu sem viðheldur sjálfu sér í einhvers konar menningarlegu formalíni og hins vegar er þeim farið að fækka ískyggilega rýmunum í samtímanum þar sem bókmenntir eru teknar alvarlega – sérstaklega „sem slíkar“. Þær eru fyrst og fremst skemmtiefni og rithöfundurinn sem tekur sig alvarlega einhvers konar cosplay. (Eins þoli ég illa bókmenntir sem telja sig yfir það hafnar að skemmta – jafn illa og bókmenntir sem sinna ekki einhverju háleitara). Ég þoli ekki snobbið en geri mér samt betur og betur grein fyrir því að snobbið er það eina sem stoppar okkur frá því að breyta þessu öllu í einn risastóran bókmenntaskyndibita (við hættum sennilega aldrei leiknum samt – að kalla bækur „meistaraverk“ og „guðdómlega ljóðrænu“ og það allt saman en bækurnar þynnast, verða ómerkilegri og krítíkin verður bara klapp á bakið til að viðhalda tálsýninni um að það sé enn verið að skrifa bókmenntir).

Handke hef ég lítið sem ekkert lesið. Hann er augljóslega „svolítið spes“ (til að segja ekki snældusnar) og með einhvers konar mótþróaröskun á háu stigi – sem er einmitt nátengd fagurfræði óskeikuleikans og hins háleita. Maður þegir ekki og íhugar eða gefur á sér höggstað með því að íhuga mótrök – heldur veður maður áfram gegn stormi vanahugsunar pöpulsins, einn og yfirgefinn ef þess gerist þörf. Þetta er alls ekki óalgengur eiginleiki í fari góðra rithöfunda – Celine kemur fyrstur upp í hugann af fasistum sem hafa skrifað stórfenglegar bækur – þeir leita gegn straumnum, velta upp óþægilegum spurningum, skoða afkimana og gangast við hinu ljóta jafnt sem hinu fagra – og nóbelsverðlaunin eiga umfram allt annað ekki að vera verðlaun fyrir skoðanir höfundar. Það eru friðarverðlaunin – og þau hafa sannarlega verið veitt verri mönnum en Handke (sem afsakar þjóðarmorð með stuðningi sínum við Milosevic – og spurningin er þá hvort að maður afsaki þjóðarmorð með því að afsaka einhvern sem afsakar þjóðarmorð og ef maður afsakar nefndina er maður þá að afsaka einhvern sem afsakar einhvern sem afsakar þjóðarmorð? – sektin færist til).

En svo verður ekkert horft framhjá því heldur að þegar maður verðlaunar höfundarverk höfundar verðlaunar maður höfundinn og færir honum virðingu, peninga og fast sæti í kanónunni. Maður legitimíserar hann fyrir fullt og allt – eða það er allavega pælingin. Og við lifum á íslamófóbískum tímum þar sem hvítir þjóðernissinnar vaða uppi og verðlaunin spila inn í þann veruleika. Þetta er gott fyrir nasistana.

Það verður samt ekki horft framhjá því að Handke var snjallt val – út frá fagurfræði nefndarinnar og baráttu fyrir sjálfstæði og tilvist nóbelsverðlaunanna. Í fyrsta lagi eru allir hættir að velta fyrir sér kynferðisofbeldi Jean-Kladds. Í öðru lagi völdu þau ekki – einsog ég hafði haldið – einhvern sem er umdeildur fyrir eitthvað sem er í kastljósinu, ekki kvenhatara eða loftslagshlýnunarafneitara. Sérstaklega hið fyrra – eða bara einhver diet dónakall – hefði fært fókusinn aftur á skandala nefndarinnar (sem hanga auðvitað saman við einhvern skeikulleika – hún klikkaði, lak, var mannleg en ekki guðleg, bara hver önnur stofnun).

En jæja, já. Það er sennilega áhugaverðara að velta fyrir sér þessu Handkemáli – en ég hugsa að ég fari nú samt bara og lesi Tokarczuk, svona okkar á milli.

***

Já, svo fór ég víst bara að ræða nóbelsverðlaunin einsog ég ætlaði. Og afvegaleiddist ekki mjög mikið.

Í kvöld fer ég til London og á morgun les ég upp í Surbiton. Svo er það Trollhättan (þar sem ég les einmitt með einum nóbelsnefndarmeðlimi, sem er reyndar eins langt frá þeirri lýsingu sem hér birtist og hugsast getur, enda nýjust í nefndinni), París og heim. Ég er að fara í fína veislu hjá forlaginu mínu í París og var að fatta að ég er ekki með nein spariföt með mér. Þarf eiginlega að finna mér Oxfam hérna einhvers staðar og dressa mig upp. Nú þarf ég að hætta að röfla af því batteríið í tölvunni minni er svo lélegt og hleðslutækið er í töskunni uppi á hóteli.

Versopolis at Poetas; Griots es Poets; Casa de Papel s.3; Brooklyn 99 s. 5; Roma; Ég heiti Blíðfinnur en þú mátt kalla mig Bóbó og Ace Ventura: Pet Detective

Ég er að gleyma einhverju. Ég hef ekkert lesið – varla litið í bók – svo það er ekki það. En ég er að gleyma einhverju.

***

Ég las upp sjálfur í Madrid á föstudag – með Önnu Axfors, Adam Horovitz og Gaiu Ginevri Giorgi. Ég held talsvert upp á Önnu, sem er sænsk og ég hef þýtt, en þekkti ekki Adam og Gaiu fyrir. Hann er breti, frá Stroud, og hóf ferilinn á því að lesa upp – átta ára gamall – með Allen Ginsberg. Pabbi hans var stórbokki í ensku performanssenunni í gamla daga og þetta æxlaðist bara einhvern veginn. Hann var að hluta til með músík undir, sem gerði lítið fyrir mig, en ljóðin voru góð. Gaia, sem er ítölsk, var líka með músík og looper – tók upp og talaði ofan í sjálfa sig. Ég skildi ekki ljóðin og það var engin þýðing (ekki heldur á spænsku) en heyrðist þau vera í rómantískari kantinum (það sem ég skildi). Þetta var hluti af Versopolis-dagskrá – sem er evrópskt ljóðaprójekt og samstarf milli hátíða – og einsog hefði býður voru gefin út hefti með ljóðunum okkar á frummáli, ensku og markmáli hátíðarinnar. Heftin hjá Poetas hátíðinni voru mjög falleg og þegar þeim var raðað saman á borðinu mynduðu forsíðurnar borðspil – og við fengum kalla og teninga með til að spila.

***

Seinna kvöld Poetas hátíðarinnar var Griotskvöld. Griot er vestur-afrískt hugtak yfir ljóðskáld og sögumenn og höfundarnir áttu það allir sameiginlegt að vera af afrískum uppruna – en á ólíkan hátt. Sumir voru frá Ghana, aðrir svartir katalónar og enn aðrir frá Jamaica. Ég kom inn þegar Mutombo da Poet var að flytja sögur og leist eiginlega ekkert á blikuna. Hann var mjög upptekinn af internetinu og á köflum var þetta eiginlega meira einsog að hlusta á einhvern röfla um samfélagsmiðla – hvað þeir væru frábærir og hvað þeir væru samt hættulegir – og ég sá ekki alveg hvað þarna var sagnamennska eða skáldskapur.

Á eftir honum kom Koleka Putuma frá S-Afríku. Hún byrjaði ofsalega sterkt – kannski spilaði inn hvað skáldið á undan var leiðinlegt, kannski spilaði inn hvað hún er ung (tuttuguogeitthvaðlítið) – en mér leið nánast einsog ég væri að horfa á eitthvað sögulegt. Hún hélt svo ekki alveg dampi og seinni helmingur upplestrarins var ekki jafn svakalegur, textinn ekki jafn sterkur – en alltaf góður. Ég ætla að kaupa bókina hennar, Collective Amnesia, og langar að þýða a.m.k. 1-2 ljóð úr henni.

D’Bi Young Anitafrika var næst. Frá Jamaica. Hún las blaðlaust einsog Mutombo en var jafn grípandi og hann var það ekki – kallaði þetta dub-ljóðlist, las, talaði, söng, æpti, hvíslaði. Ég veit ekki hvort það var nokkuð varið í textann – sem ljóðlist – hún var einfaldlega of töfrandi og fær, of mikill ofsi í henni til að maður gæti lagt nokkuð yfirvegað mat á það. En svo skiptir það kannski ekki neinu máli – maður á ekki að gefa blaðsíðunni þetta æðislega vægi. Á sviðinu birtust bókmenntirnar sem flutningur og hún negldi salinn með sögum. Ég þoli yfirleitt ekki neitt sem minnir of mikið á slamm – og þetta gerði það sannarlega – en þetta var epískt.

***

Casa de Papel – þriðja þáttaröð. Þetta er nú ljóta sorpið! Fyrsta serían byrjaði skemmtilega en þynntist hratt út. Önnur serían hraðspólaði út í melódrama og ódýrar lausnir – en þriðja er alveg gersamlega út úr kú. Prófessorinn er alltaf búinn að hugsa fyrir öllu en lausnirnar eru gersamlega sértækar. Plottholurnar eru á stærð við budgetið, tónlistin er generískt stemningsrokk (ég fíla alveg Black Keys, en ég meina kommon). Leikararnir eru alltaf með tárin í augunum. Af hverju er ég að horfa á þetta! Af hverju er ekki búið að cancela þessu!

***

Brooklyn 99 – fimmta þáttaröð. Jafn mikil dásemd og Casa de Papel. Rosalega næs, fyrirsjáanlegt en fyndið. Jafn gott og meinstrím-skemmtisjónvarp getur orðið. Og eitthvað svo heilnæmt – PC og millennial en heilnæmt. Ef Bill Cosby hefði ekki reynst vera Bill Cosby væri Cosby-show líkingin við hæfi hérna. Sögupersónurnar eru mjög mótaðar og fyrirsjáanlegar og kunnuglegar og þetta er stundum einsog að vera á færibandi – en bara of vel gert til að maður geti haft neitt á móti því.

***

Ég horfði loksins á Roma. Mér fannst hún frábær þegar ég slökkti á sjónvarpinu. En svo situr eiginlega fátt eftir. Sagan – um þjónustustúlku ríka fólksins sem verður ólétt eftir einhvern dólg – er bæði falleg og átakanleg og realísk. Tökurnar eru ótrúlega vel gerðar – upphafssenan þar sem vélin starir lengi ofan í poll af skúringavatni sem skolast til og frá og svo birtist flugvél sem speglast af himninum – er einsog svona konfektmolalistaverk. Eitt af því sem truflaði mig á meðan ég var að horfa á hana – sennilega það eina – var einmitt hvað hún var falleg. Það skyggði nánast á sjálfa söguna, á harminn – setti hana í eitthvað instagram-filterbox af óraunveruleika. Kannski er það bara vandamál í samtímanum að allt er orðið listgert – allt er stílíserað – og þar með verður jafnvel mjög góð stílísering hálfgert kits.

Samt frábær mynd, einhvern veginn. Svolítið óþægilega miklir stétt-með-stétt straumar fyrir sósíalistann í mér – en samt frábær mynd. Segjum það bara.

***

Ég heiti Blíðfinnur en þú mátt kalla mig Bóbó eftir Þorvald Þorsteinsson er sennilega bara ein af bestu barnabókum í heimi. Hún er ofsalega falleg, sorgleg, djúp og dásamleg – og á þannig máli að ég skil varla að börnin mín, sérstaklega það yngra, hafi enst í að hlusta á mig lesa hana alla án þess að kvarta yfir ljóðrænu orðfærinu. Það var áreiðanlega fullt af orðum og orðasamböndum sem þú skildu ekki. En bókin er einhvern veginn alveg fullkomlega dáleiðandi og við vorum öll sprengfull af höfgi þegar lestri lauk.

***

Ace Ventura. Það var Ace Ventura sem ég var að gleyma. Úff. Frábær mynd. En úff. Meistaraverk í slappstikk – Jim Carrey er magnaður. En jesús almáttugur hvað hún er hómófóbísk. Fyrir þá sem ekki muna – eða hafa ekki séð hana – gengur plottið (spoiler alert!) allt út á að höfrungaþjófurinn er geðsjúkur f.v. fótboltakappi sem hefur breytt sér í konu – þegar það uppgötvast eru allir spýtandi í sífellu af viðbjóði.

Ég velti aðeins vöngum yfir nokkru. Sameiginlegt einkenni minnar kynslóðar og sambands okkar við barnamenningu foreldra okkar er að við tengdum lítið – hvort sem það var Roy Rogers eða Ármann Kr. Einarsson – og ástæðan var áreiðanlega eitthvað sakleysi. Samband mitt og minnar barnamenningar við börnin mín er svo öðruvísi – yfirleitt finnst þeim þetta allt mjög skemmtilegt (og Aram var í skýjunum með Ace Ventura). Við foreldrarnir erum hins vegar stundum einsog kleinur yfir þessu. Á aðra höndina er mikið af mjög góðu stöffi þarna og ég er 100% talsmaður þess að maður hafi innsýn inn í aðra tíma en sína eigin – önnur viðmið. Á hina höndina fylgja auðvitað allir fordómarnir með.

Annað sem ég velti síðan vöngum yfir var hvort það væri síðan í grunninn nokkuð að því að gagnkynhneigðum karlmanni þætti ógeðslegt að kyssa (óvitandi) annan karlmann. Mér finnst það ekki sjálfum en ég held ég skilji alveg tendensinn (og hugsa að ég væri ekki sáttur við blekkingarnar). Tendensinn er svo náttúrulega líka til staðar með breyttum gerendum – lesbía sem léti karlmann plata upp á sig keleríi á fölskum forsendum væri sennilega ekkert í skýjunum með það. En það er aðallega ekki sambærilegt vegna pólitískra aðstæðna (sem börn eru sem áhorfendur að einhverju leyti stikkfrí frá – þau hafa nægan tíma til að öðlast sögulega vitund seinna og hluti af því er að þekkja heiminn einsog hann hefur verið).

Þriðja var síðan bara hvað þetta var landlægt í gríni á tíunda áratugnum og hvað maður spáði lítið í því. Þetta var samt ekki einhlítt – þetta er líka áratugur Priscillu og Rocky Horror gekk endalaust í leikhúsum – og ef maður færir fókusinn yfir í dramað erum við með allt frá Philadelphia til Fresa y Chocalate til Fucking Åmål og svo framvegis og svo framvegis. Ég held það hafi margt opnast og kannski var ekki alveg tilviljun að grínið hafi líka verið meira riskí – kannski fór það bara ágætlega saman að Andrew Dice Clay hafi verið á fullu á sama tíma (og ég er ekki viss um að þetta hafi verið pólitískir kontrastar beinlínis, heldur einhvers konar undarlegir samferðarmenn – maður átti að vera á jaðrinum og Dice og My Own Private Idaho uppfylltu þau skilyrði.

***

Gítarleikari vikunnar er The Surrealist. Lagið heitir Enigma.

GLOW, s. 3; María veimiltíta; Stílæfingar; Ingi Bjarni í Edinborgarhúsinu; Blues Masters vol. II; Feelin’ Low Down; Boðun Guðmundar og Blackkklansman

Ég kláraði þriðju þáttaröð af Glow. Gorgeous Ladies of Wrestling. Ég er ekki frá því að mér hafi fundist hún allt í lagi. En kannski horfi ég alls ekki á sjónvarp til þess að hugsa mikið um það. Það voru narratífar flækjur þarna sem voru látnar vera – fá að grassera áfram – og það var vel þegið. Ég er alveg kominn með ógeð á þessum endalausu endahnýtingum (?!).

***

María veimiltíta eftir Ulf Stark. Aram valdi. Hann hefur lesið svolítið af bókum eftir Ulf Stark á sænsku held ég. Ég man ekki hvaðan þessi kemur. Kannski frá mömmu – hugsanlega er þetta eitthvað sem ég átti þegar ég var lítill. Hún er gefin út 1987 á íslensku.

Bókin fjallar um Maríu sem er óttalegt ólátabarn og barnapíuna hennar, hana Gerðu, sem er eldri kona sem María heldur að sé norn, og vin Maríu, Ebba – sem heitir í alvöru Giuseppe Amadeus. María hefur talsverðar áhyggjur af því að nornin Gerða ætli sér eitthvað illt og leggur mikið á sig til að koma í veg fyrir það – grefur til dæmis öll verðmæti fjölskyldunnar svo hún geti ekki stolið þeim (og gleymir auðvitað hvar) og ákveður að fórna sér og fara með norninni í híbýli hennar til þess að hún taki þá ekki litla bróður.

Ég hef alveg lesið skemmtilegri barnabækur. Ekki það hún var fín – fyndin og sniðug og vel skrifuð. Þetta eru svona klassísk skandinavísk sniðugheit af Ole Lund skólanum. En hún er sennilega ekki ein af þeim sem sitja í minninu ævilangt.

***

Stílæfingar Raymonds Queneau. Ég las hana á ensku fyrir kannski 15 árum síðan. Og þótti frábær – umturnandi. Aðferðafræðin í ljóðabókinni minni, Þjónn, það er Fönix í öskubakkanum, er meðal annars innblásin af Stílæfingunum – og sennilega Plokkfiskbókin líka. Í Stílæfingunum segir Queneau sömu söguna aftur og aftur og aftur og aftur og aftur og aftur með tilbrigðum. Sagan er mjög einföld og snýst eiginlega ekki um neitt – mann í strætó og sama mann nokkru síðar með kunningja sínum – og frásagnartilbrigðin og uppáfinndingarsemin fá þannig að njóta sín. Það er reynt á „þanþol tungumálsins“, einsog það er kallað, með miklum fimleikum.

Rut Ingólfsdóttir þýðir bókina af mikilli íþrótt og andagift. Sumt af textanum er reyndar illlæsilegt og knosað en það er líka þannig á enskunni – ég veit ekki með frönskuna en ég reikna heldur með því. Stíllinn sem liggur að baki – handan allra fimleikanna – er furðu þunglamalegur einhvern veginn. En það skiptir ekki neinu máli og kemur málinu ekki við, eiginlega, flugeldasýning bókarinnar liggur annars staðar.

***

Ingi Bjarni Skúlason mætti með hljómsveit í Edinborgarhúsið og lék lög af plötu sinni Tenging. Í hljómsveitinni voru Merje Kägu frá Eistlandi á gítar, Jakob Eri Myhre frá Noregi á trompet, Daniel Anderson frá Svíþjóð á kontrabassa og Tore Ljøkelsøy frá Noregi á trommur.

Lagasmíðarnar voru fínar. Ég veit ekki hvort að spilamennskan var eitthvað losaralegri í byrjun en í fyrstu lögunum varð tónlistin stundum svolítið súpuleg – en það getur líka legið í lagasmíðunum. Djass er auðvitað oft óttaleg súpa og augljóst að hluti af lagasmíðunum var í óljósum bendingum (banki í hljóðfæri og slíku). En seinni hlutinn var þéttari og í betra grúvi og heillaði mig meira. Melódískt og seiðandi. Þau enduðu svo á því að flytja nýtt lag sem er ekki á plötunni og það þrælrann þótt þau hafi haft einhverjar áhyggjur af því.

Ég starði auðvitað svolítið á gítargræjurnar. Merje var að spila á það sem ég held að hafi verið Ibanez af105-nt (þau kunna sannarlega að skíra gítarana sína hjá Ibanez) í gegnum Mesa Boogie Lonestar. Hún var með þrjá pedala á gólfinu – sennilega delay, tuner og einhvers konar boost/overdrive (reif ekkert í – hækkaði bara í sólóunum og hjálpaði flaututónunum að hljóma). Frekar standard djass-settöpp held ég – ábyggilega hnausþykkir strengir í gítarnum (sem er auðvitað hollowbody) og ekkert teygt og sparlega farið með víbrató. Flott sánd en manni finnst nú samt að þessir djassgítarleikarar gætu prófað eitthvað annað af og til.

***

Ég keypti tvær blúsplötur í Berlín á dögunum meðan ég var að bíða eftir því að The Dead Don’t Die sýningin hæfist. Blues Masters vol. II með Bukka White og Feelin’ Low Down með Big Bill Broonzy. Þegar ég keypti þær tilkynnti kaupmaðurinn – sem hafði staðið fyrir utan og reykt og drukkið bjór með vinum sínum þar til ég var búinn að velja mér plötur – að hann hefði séð Bukka White spila. Ég spurði ekkert frekar út í það en sló því upp og Bukka spilaði í Berlín 15. október 1967, svo það gæti allt staðist – kallinn hefur verið á aldur við pabba og því um tvítugt þá. Mér finnst það samt mjög tilkomumikið. Bukka er af gamla skólanum, byrjaði að taka upp 1930 – en hvarf í gleymskunnar dá einsog svo margir sem gáfu út þarna upp úr kreppunni og skaut ekki upp kollinum aftur fyrren Dylan byrjaði að kovera hann (Fixin’ to die blues er eftir Bukka).

Platan er frá þessum tíma, eftir kombakk – 1972 kemur hún út. Þetta er vandræðagripur að sumu leyti. Það er verið að troða upp á hann rokkhljómsveit í sumum lögunum – það var oft reynt við deltablúsarana. Ýmist held ég að pælingin hafi verið að beisla kaosið í þeim eða reyna að uppfæra sándið fyrir nýja tíma. Vandinn er bara að deltablúsararnir spila fæstir „í takt“ – 12 takta blúsinn er stundum bara 9 taktar, stundum 11 og hálfur, og þeir hafa engan áhuga á samstæðum taktmælatakti heldur hægja og hraða á sér til skiptir, færa til áherslur og leika alls kyns hundakúnstir. Og svo spila þeir lögin ekki alltaf eins tvisvar í röð – lögin eru kannski ekki nema rammi sem þeir fylla með hinu og þessu (þess vegna ganga svona margar línur – bæði laglínur og textalínur – aftur í hinum ýmsu lögum með hinum ýmsu músiköntum). Það olli reyndar mörgum blúsáhugamanninum talsverðu hugarvíli að hinn andsetni Robert Johnson, sem hefði átt að vera náttúrulegastur í óreiðunni, var sá þrautþjálfaðasti og einmitt fullfær um að spila sama lagið nákvæmlega eins, nótu fyrir nótu, tvisvar í röð. John Lee Hooker var víst einna verstur – það var nánast bara kveikt á honum og hvað sem er gat komið út. En hann tók líka upp einsog óður maður með öllum sem hann gat og undir milljón nöfnum og varð á endanum alger samstarfskóngur – straumlínulagaður að taktmæli og 12 töktum.

Bestu lögin á Blues Masters vol. II eru þau þar sem Bukka spilar einn. Aberdeen Blues, eftirlætis lagið mitt með honum, er hins vegar með sveit og alveg handónýtt.

Ég er enn að spekúlera í Broonzy. Hann er meiri „lagasmiður“ – svona singalong – en margir deltablúsararnir. Ég hef ekki nennt að hlusta á plötuna nema tvisvar vegna þess að hún er full af endurtekningum – sama lagið tvisvar röð í tveimur (keimlíkum) útgáfum. Ég tók ekkert eftir þessu þegar ég keypti hana.

***

Boðun Guðmundar eftir Eirík Stephensen. Ég hafði heyrt mikið vel af henni látið síðan hún kom út í vor einhvern tíma og lofið er allt verðskuldað. Þetta er hressilega skrifað – einmitt þegar maður hélt að bókmenntagreinin „umkomulausan karlmann skortir tilgang“ væri alveg þurrausin. Textinn er í sjálfu sér tilkomulítill en á besta hátt – maður rekur sig ekki í neitt en tekur ekki sérstaklega eftir honum heldur. Sagan af hinum drykkfellda og ólétta Guðmundi, sem ber sjálfan frelsarann undir belti, er alger dásemd. Hliðarsagan af englinum Gabríel, sem lærir hégóma af mönnunum, nær kannski ekki sömu tökum á manni en hefði alveg getað verið sín eigin skáldsaga. Ef hún hefði verið dýpkuð hefði hún orðið of plássfrek – svo það er kannski ekki það sem maður vill. Kannski hefði bara mátt draga örlítið úr henni svo maður kæmist ekki á bragðið – færi ekki að æskja einhvers sérstaklega af henni. Eða blása allt saman upp um 100 blaðsíður í viðbót. Eða bara hafa þetta einsog það er – ég er bara að reyna að finna að einhverju (guð veit hvers vegna, það er engin ástæða til þess).

***

Blackkklansman eftir Spike Lee er „sönn saga“ – en þó talsvert færð í stílinn að mér skilst. Annað en með Boðun Guðmundar heyrði ég ekkert nema hallmæli um þessa mynd áður en ég sá hana. Hún er sannarlega ekki eitt af meistaraverkum Lees en að sama skapi er henni alls ekki alls varnað. Hún segir söguna af svörtum lögreglumanni sem skráði sig í klanið í síma og átti svo í símasamskiptum við meðlimi – en sendi, eðli málsins samkvæmt, félaga sinn til að vera andlit sitt út á við á samkomum. Í myndinni verður hann góðvinur Davids Duke en í raunveruleikanum náði hann honum víst bara einu sinni í síma og spjallaði stutt.

Eitt af því sem ég ímynda mér að fari í taugarnar á mörgum er hvernig Spike Lee speglar Klanið í Black Power hreyfingum áttunda áratugarins. Orðræðan bergmálar þarna á milli – án þess að hann segi neitt frekar um það (og lokasenan tekur af öll tvímæli um afstöðu leikstjórans). En þetta eru auðvitað einhvers konar helgispjöll. Að benda á að hinn réttláti rembingur og hinn óréttláti eru í sömu tóntegund.

Blackkklansman er einhvern veginn samtímis léttúðug gamanmynd og alvarleg sósíal-satíra – mér finnst afstaðan í henni áhugaverðari og margbrotnari en í t.d. Sorry to bother you en hún er ekki nærri því jafn vel heppnuð sem listaverk. Sorry to bother you var einhvern veginn einsog lensa – ruddist áfram og vissi alltaf hvert hún væri að fara – en Blackkklansman er tilraun til einhvers annars, til þess að hræra í fleiri lögum merkingar. En kemst ekki á leiðarenda, eiginlega. Og samt er hún mjög fín, vel að merkja – algerlega sinna tveggja tíma virði.

***

Gítarleikari vikunnar er sjálfur Bukka White auðvitað og eftirlætislagið. Orð fá ekki lýst hvað mér finnst þetta geðveikt.

Between Two Ferns: The Movie; En finir Eddy Bellegueule; The Dead Don’t Die; Arundhati Roy á spjalli; Garten der irdischen Freuden í Gropiusbau og Mark Forsyth á spjalli

Það væri ofsögum sagt að Between Two Ferns: The Movie sé góð og það væri lygi að segja að hún væri slæm. Kannski er hún fyrst og fremst – einsog þættirnir sem hún er byggð á – sérvitur. Zach Galifianakis leikur samnefndar karakter sem er með „public access“ sjónvarpsþátt í Bandaríkjunum þar sem hann tekur viðtöl við frægt fólk (sem kemur til hans af því Will Ferrell, sem birtir viðtölin á Funny or Die og græðir á því peninga, skipar þeim að gera það). Hann er ekki beinlínis heimskur en honum er frekar illa við viðmælendur sína og leyfir fyrirlitningu sinni að skína í gegnum yfirbragð sem annars verður varla öðruvísi lýst en sem algert áhugaleysi. Hann langar að gera þetta – hann segir það oft, þetta er draumurinn hans – en hann langar það samt ekki svona. Honum finnst leikarar heimskir og hégómlegir og oft á tíðum jafnvel hæfileikalausir sem leikarar.

Í formattinu afhjúpast samtímis miklir fordómar – bæði gagnvart einhverjum svona útnáratýpum einsog Zach en líka gagnvart Hollywoodleikurum – og það afhjúpast einhverjir sannleikar um hégóma þeirra og lífsviðhorf og kerfislægar aðstæður og valdið milli hinna frægu og hinna ófrægu.

Plottið í myndinni gerir ekki mikið annað en að víkka hugmyndina úr þáttunum aðeins út – gera aðstæðurnar aðeins skiljanlegri (ég held að karakterinn hafi aldrei annars sést nema í viðtölunum sjálfum). Það gengur út á að hann þarf að taka 10 nýja þætti á tveimur vikum og koma þeim til Wills Ferrell og þá fái hann alvöru sjónvarpsþátt á alvöru sjónvarpsstöð.

Að einhverju leyti minnir myndin á aðra mynd sem fjallaði líka um skrítinn mann á public access sjónvarpsstöð sem þurfti að berjast fyrir tilvist sinni – Weird Al Yankovic myndina UHF.

Between Two Ferns er alltaf á jaðri þess að fara að verða listaverk – negla mann einhvers staðar annars staðar en bara í hláturvöðvana, stíga út úr meinstríminu á vit módernískrar sögu um tilgang lífsins, eitthvað svona Hal Hartley hittir On the Road hittir Freddy Got Fingered – en gerir það á endanum ekki (hvort sem það er með vilja eður ei).

***

Skáldsagan The End of Eddy (En finir Eddy Bellegueule) eftir Édouard Louis (né  Belleguele) kom út á ensku í fyrra eftir að hafa skekið evrópskt bókmenntalíf árið 2014. Það er mjög skrítið að hún hafi ekki komið á íslensku – sérstaklega af því hún er stutt og því frekar ódýrt að gefa hana út (svona miðað við eitthvað einsog Min Kamp a.m.k.). Bókin er skáldævisaga samkynhneigðs höfundar sem elst upp í fátækt í frönsku smáþorpi.

Lýsingar Édouards á ævi sinni eru svakalegar og minna mann frekar á lýsingar þeirra sem ólustu upp á sjöunda og áttunda áratugnum en manns sem er fæddur 1992 – ekki endilega vegna fátækarinnar, sem er svo sannarlega viðvarandi vandamál alls staðar enn í dag, heldur vegna íhaldsseminnar og ofbeldisins og drykkjumenningarinnar í kringum hann. Það eru allir alltaf að slást, blindfullir og æpa eitthvað um ógeðslega homma. Édouard er sjálfur engin undantekning þar og gerir sér far um að leggja yngri strák í einelti fyrir hommaskap – til að losna undan slíkum stimpli sjálfur.

Ég veit ekki alveg hverju ég átti von á. Mér fannst einsog hann væri meira á efnahagslegu línunni og bókin myndi afhjúpa eitthvað meira þar – segja mér eitthvað um stéttir. Ég átti kannski bara von á sósíalískara verki. Þetta er götustrákabók og hún segir manni talsvert um frönsku sveitina – smábæina, a.m.k. ef maður tekur hana á orðinu, og sú lýsing er langt í frá fögur. Sem bókmenntaverk er hún nú kannski engin stórtíðindi – hún er ekki fagurfræðilega frábrugðin öðrum álíka bókum og sögur af svona fólki eru í nærri öllum sjálfs- og skáldævisögum. Það þýðir ekki að sagan sé ekki áhrifarík. Og það sem hún hefur þá fram að færa sem tíðindi er að heimurinn sé sums staðar og stundum alltaf eins.

***

The Dead Don’t Die er nýjasta mynd Jims Jarmusch. Einsog margar mynda hans er hún skreytt miklum stjörnufansi – Bill Murray, Tilda Swinton, Tom Waits, Adam Driver, Steve Buscemi og Chloe Sevigny eru í burðarhlutverkunum og aukaleikararnir eru ekkert minna sjarmerandi fólk. Hún ber þess merki að vera verk höfundar sem þarf ekki lengur að sanna eitt eða neitt. Framvindan er mjög kæruleysisleg – það er ekkert verið að eyða tíma í útskýringar eða endahnýtingar. Verkinu bara vindur fram, fólkið í henni verður fyrir sögumennskunni, og allt er þetta mjög óeðlilegt og klunnalegt og meikar ekkert sens. Sem svo aftur er allur sjarminn – myndin er bókstaflega frábær fyrir þetta. Snyrtilegri zombímynd (þetta er zombímynd) hefði áreiðanlega ekki staðist neinn samanburð við þetta undarlega verk; heldur verið fyrirsjáanlegt rusl. Samtöl og senur eru öll dásamleg og svo má ekki vanmeta þennan leikarahóp – það eru aldrei minna en tvö hundruð kíló af hreinum sjarma í mynd í einu og stundum miklu meira.

***

Ég fór á samtal við rithöfundinn Arundhati Roy á bókamessunni í Lviv á föstudag. Þetta var tveggja tíma viðtal og það var farið um víðan völl. Hún byrjaði spjallið á að hafna öllum skilgreiningum á sér sem bókmenntastjörnu, hún væri bara venjuleg kona sem hefði gaman af að lifa í bókum. Mig langaði svolítið að standa upp og spyrja hvort hún hefði þá líka þurft að sækja um styrk fyrir fluginu sínu (einsog við gestir bókamessunnar á b-farrými þurftum að gera – ég var svolítið pirraður yfir þessu, af því ég hafði fengið að vita það svo seint, löngu búinn að þiggja boðið, og veit enn ekki hvort ég fái styrkinn en augljóslega búinn að leggja út fyrir fluginu, allt mjög bagalegt og hafði ekkert með Arundhati Roy að gera, vel að merkja).

Mest talaði hún um indverskt samfélag og sagði meðal annars, sem mér þótti áhugavert, að sennilega tignuðu indverjar hina friðsamlegu baráttu – non-violence – einmitt vegna þess að líf þeirra væru öll mörkuð ástríðu fyrir ofbeldi, ofbeldi væri lausn indverja á öllu. Þá talaði hún líka talsvert um að Indland væri enn koloníserað en nú af hindúum – að vísu með þeim fyrirvara yfirleitt að „margir álitu“ þetta, frekar en að hún væri óhikað að segja þetta sjálf.

Hún eyddi líka talsverðum tíma í að ræða hugmyndir um róttæka endursköpun skáldsögunnar sem listforms – og að það væri tilraunin sem væri fólgin í nýju bókinni hennar, The Ministry of Utmost Happiness. Sem mig fór þá að langa að lesa aftur. Ég einhvern veginn náði henni ekki nógu vel á sínum tíma.

***

Við Haukur Már skelltum okkur á sýninguna Garten der irdischen Freuden í Gropiusbau í Berlín. Á sunnudag, hefur það verið. Sýningin er með útgangspunkt í verki Hieronymusar Bosch, Í garði hinnar jarðnesku sælu, og hangir miðmyndin í triptýkinni í einum salnum. Í þessum garði „kenndi margra grasa“ einsog maður segir og verkin voru afar misáhugaverð. Ég var því miður of latur að nótera hjá mér nöfn höfunda og kenni flugþreytu (og þynnku) um.

 

Frammi í stóra salnum var margra hæða stofumubla með pottaplöntum og gömlum litlum sjónvörpum og stöku bók á stangli – þær áttu það allar sameiginlegt að vera um kynþáttamál og fyrst og fremst bandarískra blökkumanna. Í sjónvörpunum var verið að ræða svipaða hluti.

Við sátum lengi fyrir framan Bosch og töldum fiska, skoðuðum skuggaverur, og reyndum að koma auga á nýja og nýja hluti. Það er auðvitað mjög mikið í þessu. Þetta er hin orgíulausa orgía – erótík án hins skaðlega hungurs, án ástríðu.

Í einum salnum var mold á gólfinu og stórir sjónvarpsskjáir á undarlegum fótum sem sýndu grænku og hljóðverk úr hátölurum sem var búið að búa um einsog fuglakofa (setja tréþak á þá og fót). Þessi stemning var góð – ég fílaði þetta – en ég man ekki hvað hljóðverkið var einu sinni.

Besta verkið var myndbandsverk sem maður skoðaði með því að leggjast á gólfið og horfa á það í loftinu. Ramminn var egglaga og í honum gerðist ýmislegt – það var svo nátengd Bosch-verkinu að það hlýtur eiginlega að vera byggt á því (verkin voru samt áreiðanlega ekki gerð fyrir þetta sjó). Aftur voru líkamar, nekt, gróður og aftur einhvern veginn alveg berir og í mikilli nærmynd en samt ekki agressífir, ekki gredduvekjandi eða gredda í þeim. Ég man eftir konum í leðjuslag og nærmynd af putta að pota í pung. Oft voru nærmyndirnar samt einmitt þannig að maður var ekkert alveg viss hvað maður væri að horfa á.

Yayoi Kusama var með doppuverk. Herbergi fullt af doppum og túlípanar, minnir mig. Mjög doppótt.

Eitt verkið var bara brotnar kókflöskur á stórum palli. Merkilega fínt – einhvern veginn aðlaðandi og ljúft. Mann langaði að leggjast í þetta. Og á sama tíma auðvitað alls ekki.

***

Í Lviv fór ég líka á samtal við rithöfundinn Mark Forsyth sem gaf út bókina A Short History of Drunkenness. Hann sagði ýmislegt áhugavert – t.d. að upplifun fólks af áfengisvímu væri mjög mismunandi milli menningarheima. Ef maður byggist við því að verða yfirvegaður og fullur af höfgi af áfengi þá yrði maður yfirvegaður og fullur af höfgi, ef maður byggist við því að verða ofbeldisfullur yrði maður það, ef maður byggist við því að dofna dofnaði maður, ef maður byggist við því að æsast upp og fara að dansa og syngja þá gerði maður það. Í menningarheimum þar sem fólk sér ofsjónir í áfengisvímu sér fólk ofsjónir þegar það drekkur; þeir sem fara á vit Guðs í gegnum flöskuna sjá Guð. Að vísu var höfundurinn að staupa sig á sviðinu svo ég veit ekki hvað var að marka hann.

Hann nefndi líka að áfengisbannið í Bandaríkjunum hefði verið feminískt prójekt á sínum tíma og sett á til þess að hlífa konum við því að karlarnir færu út á bar með öll launin og kæmu svo fullir heim og berðu þær. Á þeim tíma voru konur víst svo gott sem bannaðar á knæpum (ég reikna með, þótt hann hafi ekki tekið það fram, að vændiskonur hafi verið undanskildar) og þar var mikið slegist. Ég man eftir að hafa lesið í bók um kokteilamenninguna í San Francisco að þegar menn voru að lauma einhverju í glasið hjá fólki á börum á nítjándu öldinni hafi það verið til að ræna karlmenn frekar en nauðga konum. Nema hvað. Drykkju lauk auðvitað ekki með áfengisbanninu heldur færðist inn á hinar svonefndu speakeasys og sagði Forsyth að það hefði í raun verið fyrst þar sem konur fóru að drekka af einhverju viti og sú drykkjumenning sem við þekkjum í dag hafi orðið til. Forsyth, sem er óhætt að segja að sé mikill talsmaður drykkju, var þannig nokkuð óvænt bara mjög ánægður með áfengisbannið og vildi meina að það hafi þjónað tilgangi sínum mjög vel – þegar því lauk hafi drykkjumenningin stórskánað.

Ég er sjálfur mikill áhugamaður um knæpur – ekki bara að sitja þar sjálfur að sumbli, þótt það komi fyrir, heldur um fyrirbærið sem rými í veruleikanum þar sem að jafnaði hafa gilt aðrar og frjálslegri reglur en úti á götu. Svona saturday night fever reglur á sumum börum en subbulegri á öðrum – knæpur voru lengi afdrep jaðarfólks (t.d. Stonewall – en líka bara Keisarinn). Þar situr fólk í reykfylltu myrkri með deyfð skynfæri, oft í háværu skvaldri eða tónlist, og segir hluti sem það myndi aldrei segja … ja, t.d. í ræðustól Alþingis … fær útrás (án þess ég ætli að hætta mér neitt út á þá braut að verja klaustursdólgana vel að merkja). Þar ríkir samtímis meira álag og meira umburðarlyndi og einn af grunnkostum knæpunnar sem rýmis er að það er hægt að stíga út úr henni og aftur út í upplýstan veruleikann. Maður velur að vera þar inni – fara þar inn – en auðvitað er maður ekki alltaf alveg viss um hvað maður er að samþykkja með því að fara þar inn eða hverjar félagslegar reglur staðarins eru (og á síðustu 100 árum hafa þær smám saman orðið áþekkari reglunum í hvaða kringlu eða kirkju sem er).

Ég veit aldrei alveg hvað mér finnst um tilraunir til þess að hreinsa til á knæpunni – breyta henni í upplýst rými. Aðferðirnar eru margar – í fyrsta lagi er náttúrulega reykingabannið, í öðru lagi breyttar siðvenjur (t.d. held ég að tolerans fyrir klípingum og dónalegum athugasemdum sé alveg fyrir bí), í þriðja lagi öryggismyndavélar, í fjórða lagi símamyndavélar og twitter (við höfum mjög kraftmikið eftirlit hvert með öðru), í fimmta lagi alls kyns dresskóðar og svo framvegis og svo framvegis. Sennilega er (í alvöru) bara tímaspursmál hvenær það verður tabú að vera fullur á knæpu – og jafnvel bara bannað.

***

Ég er enn að díla við nýja Stratocasterinn minn – sem er dásemd. Af því tilefni er gítarleikari vikunnar „hinn“ meistari Stratocastersins – Stevie Ray Vaughan.

Casa de Papel (2.s.), Eva Tind og Johannes Heldén, Phill Niblock, Global Glitch Gardens, Monika Rinck í Burg Hülshoff, Form Follows Energy, Paper Tiger, Rán+Senthuran Varatharajah, Trick Mirror eftir Jiu Tolentino og Synonymes

Ég horfði á aðra seríu af Casa de Papel. Hún var kannski snöggtum betri en sú fyrsta en ekki er þetta enn „gott“ í neinum eiginlegum skilningi. Harry Met Sally endirinn á karabíska barnum varð næstum því til þess að ég henti mér út um gluggann. Þáttaröðin keyrir á engu nema orðspori og cliffhanger-spennu. Maður byrjar að horfa vegna þess að aðrir eru að horfa og eru húkkt – gefur þessu séns í nógu marga þætti til þess að maður vilji sjálfur vita hvað gerist næst. En svo er ekkert þarna nema tómið. Jú og spænskan, ég fer ekki ofan af því að hún gefur þessu í alvöru smá aukastig. Að vísu er hægt að horfa á þetta döbbað – ég er ekki frá því að það gæti verið spennandi líka. Döbb er kúl.

***

Ég fór á tvo ljóðaupplestra í Münster. Eða hálfan. Þetta var fjögurra tíma dagskrá og ég sá tvö skáld af fjórum. Hin tvö voru bara á þýsku og án þýðinga og ég gafst upp á því. Skáldin sem ég sá voru Johannes Heldén frá Svíþjóð og Eva Tind frá Danmörku. Þau höfðu bæði um 45 mínútur til að lesa og sátu svo á spjalli í korter á eftir. Eva sýndi ljóðmynd bróðurpartinn af sínum tíma. Þar var hún meðal annars að krota í snjóbreiður – fyrst „istid“ og svo bæta við r-i svo úr varð „ristid“; fyrst „iskoger“ og svo bæta við r-i svo úr varð „riskoger“ og svo framvegis.

Johannes las úr sci-fi ljóðum og lét meira að segja í veðri vaka að hann hefði ekki skrifað þau sjálfur heldur algóritmi sem hann smíðaði. Hann hefur áður gert það og gengist við því en sagði fyrir einhverju að hann væri hættur að skrifa og neitaði – góðlátlega – að svara því hvort hann hefði skrifað nýju ljóðin sjálfur. Eitt af því sem var svolítið rætt var tilhneiging algóritmans – sem byggði á orðaforða úr fyrri skrifum Johannesar – til þess að tala um Toyota Landcruiser, sem Johannes mundi ekki til þess að hafa skrifað um. Algóritminn fékk þráhyggju fyrir þessum Landcruiser sem endaði með því að Johannes (og forritarinn hans) þurftu að skrifa reglu um að hann yrði að hætta að nefna þennan helvítis Landcruiser. Þetta mætti töluverðri andstöðu í sal og Johannes viðurkenndi að þetta hefði verið óþarfa inngrip, algóritminn yrði að fá að skrifa það sem hán sýndist.

Eva – sem er fædd í Pusan í S-Kóreu en ættleidd til Danmerkur (einsog önnur dönsk skáldkona og vinkona mín Maja Lee Langvad) – las líka ljóð af spegilsíðum, þar sem ljóðin voru eins hægra megin og vinstra megin nema að öðrum megin fengu allir hlutar líkama ljóðmælanda einkunnina „danskur“ en hinumegin „kóreskur“. „Danskir armar mínir umvefja þig“ gæti þá staðið öðrum megin en „Kóreskir armar mínir umvefja þig hinumegin“. Þetta er vandmeðfarið en Eva gerði það mjög vel.

***

Ég fór á dróntónleika hjá hinum mikla og fræga og mínimalíska drónlistamanni Phill Niblock. Hvernig lýsir maður dróntónleikum? Ég heyrði þrjú lög – hvert þeirra var kannski korter og samanstóð af einni nótu. Þessi nóta birtist í djúpum drungalegum drónum og háum ískrum og alls konar litbrigðum þar á milli og verkin voru merkileg ólík. Tveir skjáir sýndu vídjóverk – mikið til tré og vatn á hreyfingu en líka fólk á stangli sem beygði sig niður og snerti jörðina og í lokin var fólkið orðið nakið. Phill sat sjálfur aftast og stýrði öllu en á sviðinu – eða á miðju gólfinu í hlöðunni þar sem verkið var flutt – var einleikari. Í fyrsta laginu var það sellóleikari sem lék eina nótu, í næsta var það þverflautuleikari sem gekk á milli fólks og blés í flautuna alveg ofan í andlitinu á manni, lágt og varlega, en í því síðasta var það lítið eitt íturvaxin ung kona í adidasgalla sem dansaði varlega.

Það er rosa klikkað fyrir hausinn að sitja í svona hávaða svona lengi. Mér skilst að á meðan það var löglegt hafi Phill alltaf spilað miklu hærra – þetta verður sónn í hausnum á manni og hann fylgir manni langt fram eftir kvöldi. Sennilega hefði maður verið með hann í marga daga ef maður hefði farið fyrir 20-30 árum.

***

Ég fór á myndlistarsýningu þar sem hópur listamanna sem kallar sig Global Glitch Gardens safnaði saman rusli á listahátíðinni Natur am Bau (þar sem ég var s.s. staddur á dögunum) og gerði úr því listaverk. Hér er t.d. mynd af gröfu.

Svo fóru þau líka í kappsiglingu á hallarsíkinni við Burg Hülshoff. Á svona sólarstrandabátum. En ég rétt missti af því.

***

Í safninu í Burg Hülshoff var ljóðskáldið Monika Rinck – ásamt fleirum, en hún stýrði held ég – búin að fikta í og gera alls konar sniðugt. Safnið er í raun bara kastalinn þar sem ljóðskáldið og náttúruvísindamaðurinn Annette von Droste-Hülshoff bjó og alla jafna er hægt að rölta um það með heddfóna á hausnum og fá upplýsingar um málverk og dót. Stór hluti sýningar Rinck og félaga gekk út á að manipúlera þennan audio-túr og bæta í hann – en auk þess var búið að gera alls konar furðulegt, meðal annars líma dauðar flugur í alls kyns mynstur út um allt (en nógu lævíslega til að maður gæti í fyrstu haldið að flugurnar hefðu bara dáið í þessu mynstri). Þá var búið að skipta út einni hillu í hinum virðulega innglerjaða bókaskáp leðurbundinna bóka fyrir ágætis safn af Andrésar-syrpum.

***

Ég horfði á mynd sem Tobias Yves-Zintel hafði gert upp úr textum frá mér, Ann Cotten, Hamed Aboud, Maríu Ceciliu Barbetta og Yoko Tawada. Við sátum saman konferans um loftslagsmál – með gleiðlinsu, það var fjallað um allt frá örverum yfir í Bauhaus yfir í gróðurþök í stórborgum – í febrúar og fengum síðan það verkefni að skrifa texta sem átti lauslega að vera út frá bókinni The Shape of Things to Come eftir HG Wells og bíómyndinni Things to Come, sem gerð er upp úr skáldsögunni. Við fórum – og máttum fara – mjög lauslega í kringum þetta allt saman en enduðum öll með texta um tré. Ég kannski mest vegna þess að ég var þegar byrjaður að vinna í texta um tiltekna ösp – sem er síðan skáldsagan Brúin yfir Tangagötuna (sem kemur ekki út um jólin og ég veit ekki hvenær). Annars hefði ég ábyggilega valið að sleppa trjám.

Ég hef ekki lesið texta hinna – ég fékk þá á þýsku bara í fyrradag – en við Hamed ræddum svolítið okkar texta svo ég vissi hvaða textabrot hann átti. Við virðumst samt öll hafa skrifað einhvers konar sögu en Tobias fór þá gáfulegu leið að taka ýmist bara brot úr sögunum eða stytta þær mikið og gera úr þessu heild sem meikar meira ljóðrænt sens en narratíft. Mín saga kom öll en án aðalprótagonistans, þess sem horfir á herlegheitin, og verður einsog anekdóta í ljóði. Myndin var mjög ljóðræn og svolítið Roy Anderson-leg. Við höfundarnir vorum ánægð og ég gat ekki betur séð en það væru áhorfendur líka.

***

Ég horfði á Paper Tiger uppistandið með Bill Burr. Hann er kannski engin lifandis ósköp að velta sér upp úr því hvað hann megi og megi ekki segja – það er woke-strengur í mönnum einsog Chappelle og ég tala nú ekki um Louis CK, hvað sem líður afboðunum (vinsælasti búturinn úr uppistandi Louis snýst um að konum standi gríðarleg ógn af körlum) – en Bill Burr er meira næntís en svo. Hann gerir sér meira far um að vaða áfram (kannski einsog Ricky Gervais) og bíða svo eftir viðbrögðunum (eða skamma fólk fyrir þau).

Ég veit síðan ekki hvort það er rétt að kalla það eðlishyggju, þegar menn segja „konur eru svona“ og „karlar eru svona“ – einsog hann eyddi í sjálfu sér talsverðum tíma í (en gagnrýndi þess á milli sams konar brandara um svarta vs. hvíta). Að einhverju leyti er hann sennilega bara að lýsa veröldinni einsog hún blasir við honum og það væri erfitt að fara að halda því fram að hann færi með fleipur, beinlínis, þótt hann geri nákvæmlega ekkert í því að útskýra hvers vegna hlutirnir eru einsog þeir eru eða gefa í skyn að hann sé í sjálfu sér eitthvað ósáttur við þetta.

Ég hugsaði líka eitthvað um tilganginn með ákveðinni kven- eða karlfyrirlitningu – a.m.k. fyrir heterónormatíft fólk. Þetta að geta gargað „konur! djísus!“ eða „karlar! dæmigert!“ Ótrúlega stór hluti lífs hinnar heterónormatífu manneskju fer í að spegla sig í þessu fólki sem maður ýmist þráir eða er ætlast til að maður þrái eða er alls ekki ætlast til að maður þrái. Þegar maður er einn skapar það ákveðna tensjón og þegar maður er í sambandi skapar það aðra tensjón – maður er mjög viðkvæmur fyrir þrám sínum og löngunum, viðkvæmur fyrir þeim sem maður elskar mest o.s.frv. Í raun gildir þetta líka yfir foreldra og börn – sem koma líka oft fyrir í uppistandi og sjálfsævisögum sem problematískar verur. Og auðvitað maka almennt, sama hver kynin er, þótt það sé erfiðara að formúlera þá maka sem „þjóðfélagshóp“ ef maður deilir með þeim kyni. Þetta eru erfið sambönd og kynin verða að statistum fyrir eitthvað sem kveikir samtímis þrá og gremju. Að einhverju leyti kemur upphrópunin og handafórnin líka í staðinn fyrir að maður beini gremju sinni að einstaklingum – oh, mamma! oh, Sigurjón! – eða að kynjakerfinu sem slíku og hlutverkunum sem okkur og öðrum er gert að gegna þar innan. Ég veit ekki hvort það er gott eða slæmt – en það er, hvað sem öðru líður, um það er ég sannfærður.

Að því sögðu held ég að ég hefði ekki viljað horfa á þetta með neinni konu sem mér þykir vænt um, eða bara neinni konu, og að því sögðu þá var hann samt mjög fyndinn og alls ekki alltaf úti að aka (þótt hann hafi líka stundum verið úti að aka og þá keyrt hressilega á af og til – en það er líka partur af fjörinu, grínistar eiga ekki að vera nákvæmir greinendur heldur tilraunatrúðar).

***

Ég las Trick Mirror eftir Jiu Tolentino eftir að ríkisútvarpið hafði mælt með henni. Hún er að mestu leyti alveg frábær. Þetta er ritgerðarsafn og eðli málsins samkvæmt er maður misánægður með ritgerðirnar. Sú sem fjallaði um þátttöku Jiu í raunveruleikasjónvarpsþætti fannst mér full átakalítil og hún eyðilagði eiginlega líka svolítið fyrir mér alla aðra sjálfsævisögulega þætti bókarinnar. Maður verður svo meðvitaður um hvað hún er meðvituð um eigin ímynd – og auðvitað eru intelektúalar ekkert yfir það hafnir að þurfa, vilja og hanna sjálfa sig sem brand. Ég er ekki frá því að hún hafi eitthvað tekist á við einmitt það en það hefði hreinlega þurft meiri átök í það – meira púður.

Sömuleiðis var brúðkaupsgreinin of mikið einsog eitthvað úr Opruhþætti og í einni grein þvældist hún á milli sæborga og kvenna og kvenna sem sæborga og klykkti svo út með að konur þyrftu að læra meira af sæborgum og tortíma heiminum bara – eða, þú veist, vera miskunnarlausari, og þótt ég sé í sjálfu sér ekki ósammála punktinum náði ég bara aldrei að fylgja eftir lógíkinni, hoppin voru of stór.

Að þessum aðfinnslum frátöldum er þetta hins vegar alveg svakalegt ritgerðarsafn – ég hefði skallað hvern sem hefði sagt eitthvað þvíumlíkt um sjálfan mig þrítugan (og alls ekki átt það skilið raunar) af því að auðvitað er maður fullorðinn þrítugur en það er fáránlegt að rétt þrítug manneskja sé svona mikil gáfnanegla. Hún er ekki bara mikið lesin – vísar austur og vestur í menningarsöguna, ekki síst í kvennakanónuna – heldur vel lesin, hefur lesið það sem hún hefur lesið mjög ítarlega og maður fær það aldrei á tilfinninguna (einsog maður gerir annars iðulega í svona bókum) að hún sé að nefna bækur bara til að sýna að hún hafi lesið þær (sem er reyndar líka mikilvægt, ég þreytist ekki á því að þakka fólki fyrir að neimdroppa höfundum og verkum, þannig smitast áhugi og athygli, en það er önnur saga). Fyrst og fremst er hún hins vegar ofsalega glögg og hugrökk – og þótt auðvitað örli á því að hún sé að þóknast einhverjum eða fylgja vanahugsun, það er nú einu sinni hið mannlega ástand, þá ryðst hún oftar út úr henni og storkar væntanlegum lesendum sínum á máta sem maður á varla að venjast frá millenníulum (sem eiga að heita aldir upp í bergmálsklefum, aldir upp á eigin bergmáli). Ég reifst fullt við hana í huganum þótt ég væri í grunninn alltaf með henni í liði og er strax farinn að hlakka til að hún gefi út fleiri bækur. Þetta er svona verk sem er líka skilgreinandi fyrir ritgerðina sem slíka – eða blaðamennskuna – einsog Hunter S. Thompson eða Joan Didion eða Tom Wolfe eða Susan Sontag voru einhvern tíma. Unaður að lesa.

***

Ég fór á rokktónleika sem voru líka einmannsleikrit. Ljóðskáldið Senthuran Varatharajah flutti mónólóg yfir rokktónlist frá hljómsveitinni Rán. Þemun í leikritinu eða ljóðinu voru mörg og mikið vísað í heimspeki og mikið um óljósar vísanir sem flestar vísuðu samt í „heimili“ og „landamæri“ og „tungumál“ og textinn var feykisterkur og upplesturinn – frekar flatur megnið af tímanum en maður fann þá sterkar fyrir því þegar hann lækkaði eða hækkaði raustina. Sveitin spilar iðnaðarrokk á þrjá gítara og þau voru öll klædd í rauða samfestinga.

***

Loks fór ég í bíóið Wolf – sem er líka bar – og sá bíómyndina Synonymes. Þetta er ísraelsk mynd sem gerist í París. Ungur maður flytur til Frakklands eftir herþjónustuna og er kominn með viðbjóð á heimalandi sínu – líkt og afi hans sem flutti frá Lettlandi til Ísrael af svipuðum ástæðum, og líkt og afinn þá hafnar hann meira að segja móðurmálinu og neitar að tala það. Maðurinn kynnist ungu pari, strákurinn í því pari er jafn ríkur og ísraelinn er fátækur. Fyrst býst maður eiginlega við því að þeir byrji saman en það fer nú nær því á endanum að ísraelinn og kærastan byrji saman.

Umfjöllunarefnin eru militarisminn/karlmennskan, þjóðernið og stoltið og kyn … ja, kynhvað? Kynverund? Aðalsöguhetjan er regulega allsber og það allra fyrsta sem er sagt um hann í myndinni er að hann sé umskorinn. Eftir dásamlega senu þar sem hann vaknar nýkominn til Frakklands, hoppar yfir íbúðina þvera og endilanga í svefnpokanum sínum, smeygir sér svo úr honum nakinn (manni verður óhjákvæmilega hugsað til bæði endurfæðingar og umskurðs), fer í sturtu, fróar sér, uppgötvar að það er búið að ræna öllu sem hann á og hleypur um allt hús í leit að hjálp áður en hann frýs svo nærri því í hel í sturtunni sinni (parið finnur hann, þannig kynnast þau).

Myndin er rosalega hlaðin. Sennilega væri hægt að fylla heila bók einsog símaskrá bara af táknunum í henni – hvernig tónlistin er valin, myndirnar á veggjunum, symbólisminn í öllum gjörðum og orðum og svo framvegis. Mér finnst það gaman þótt það sé auðvitað engin leið að fylgja þessu eftir eða púsla því saman – það verður fljótt einsog með saltkornin sem tvöfaldast á öllum reitum taflborðsins, 1, 2, 4, 8, 16 o.s.frv. (á endanum eru þau á þyngd við jörðina minnir mig).

Og hún hangir líka saman á stökum senum frekar en söguboganum. Hún er ekki mikið plottuð, næstum ekkert, en senurnar hver um sig meika sens í heildinni og sumar þeirra (senurnar þar sem hann annars vegar syngur Marselasinn í frönskutíma og hins vegar þar sem hann er að putta sig í rassinn fyrir einhvern klámmyndaframleiðanda sem vill svo að hann fari að tala á hebresku koma upp í hugann) eru ooooooooofsalegar.

Hún snertir ekki nema örlítið á málefnum Palestínumanna og sambúðinni þarna niðurfrá en samt fjallar hún auðvitað eiginlega varla heldur um annað. Það – og saga Gyðinga í Evrópu – er toxíkin að baki öllu, ofsinn, harkan.

***

Gítarleikari vikunnar er Son House.

Sinfó á Ísó, Hvítur, hvítur dagur og Casa de Papel – fyrsti hluti

Ég er alltaf að reyna að hafa þetta stutt. Það hefur gengið fremur illa. Það hljóta að vera til einhver lyf við þessari munnræpu. Það er aðallega vegna þess að ég skammast mín gagnvart ykkur samt – hver er ég að láta einsog off-the-cuff vangaveltur mínar um eitt eða neitt komi einhverjum við nema sjálfum mér? Af hverju er þetta ekki bara lokuð dagbók? Nú eða svolítið hamin dagbók til lesturs fyrir aðra?

Ég er ekki einu sinni byrjaður. Samt eru komnar margar setningar. Hvaðan komu þessar setningar? Ég er í Münster. Þessar setningar voru ekki hérna þegar ég kom.

***

Ég sá sinfóníuna spila. Tvisvar. Meðal annars hluta úr Pétri Gauti og 5. sinfóníu Sibelíusar – en líka söngverk og alls konar. Þau mættu og spiluðu tvo ókeypis tónleika í íþróttahúsinu á Ísafirði, einsog þau hafa gert af og til – síðast fyrir 2-3 árum. Hugmyndin er held ég að fyrst við höfum annars ekki aðgengi að henni getum við fengið að sjá hana frítt þá sjaldan það aðgengi batnar. Annars veit ég ekki hver pælingin er en það gleður mig mjög mikið, hver sem hún er, ekki bara vegna þess að þá fæ ég frítt heldur getur alls konar fólk sem annars hefur ekki efni á miklu farið á fína tónleika.

Einleikarar voru þrír – þar af tveir frá Ísafirði, Mikolaj Ólafur, ungur píanóleikari sem er að gera það gott, og Dísa Jónasar, óperudívan okkar. Bæði eru þau tónlistarkennarabörn – Dísa reyndar dóttir tónlistarskólastjórans að auki, og tónskálds. Þriðji einleikarinn lék á horn. Þau voru öll rosaleg en Dísa kannski rosalegust, með ofsalegt kontról ekki bara á tónlistinni heldur líka sviðsframkomu og hreinlega útgeislun. Þó samanburðurinn endi þar er ekki úr vegi að líkja henni við Mugison þannig – maður einhvern veginn fellur ofan í eitthvað tónlistarhol með þeim og finnst nánast einsog það sé enginn annar í heiminum rétt á meðan.

Sinfónían er heldur engu lík og Daníel Bjarnason stjórnar henni vel (segi ég, einsog ég hafi eitthvað vit á því – en ég gat sem sagt ekki betur séð). Ef ég ætti að koma með eina aðfinnslu þá væri hún að sveitin – sem var ábyggilega klöppuð upp í fjórgang – myndi fá sér nýtt uppklappslag (það var Á Sprengisandi, einsog síðast).

Daginn eftir voru svo aftur tónleikar um morguninn og einleikarar voru aftur tveir heimamenn. Þórunn Arna og Pétur Ernir, léku og sungu ýmis lög sem tengjast verkum Astridar Lindgren. Aftur var stappfullt upp í rjáfur og aftur ókeypis inn – það var starfsdagur í skólunum en það var reyndar alls ekki þannig að allir áheyrendur væru börn. Þetta var ekki minna skemmtilegt. Ég þurfti að vísu að pína litla rokkarann minn með – á þeirri forsendu að þetta væri mikilvægur hluti tónlistaruppeldisins – en hann hafði gaman af þessu þegar hann var kominn og nánast skammaðist sín fyrir hvað áhuginn var mikill. Aino Magnea hins vegar raulaði með öllum lögunum á sænsku, einsog hún gerir annars aðallega þegar hún er ein með sony-spilarann sinn.

Allir fá fimm stjörnur og Dísa fær fimm stjörnur plús.

***

Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins fór á Hvítan, hvítan dag. Ég er enn að melta hana. Hún er mjög, mjög góð – eitthvað í söguþræðinum var kannski full melódramatískt, hún var alltaf á grensunni. Jón Kalman (og Gyrðir) fá þakkir í henni og það leynir sér ekkert að leikstjórinn er Kalmansmaður – tilfinningarnar eru stórar og óhamdar. Hins vegar örlar ekki á þeirri exótíseringu sem plagar margar bíómyndir sem gerast á landsbyggðinni. Þótt Hlynur, leikstjórinn, sé dreifari þá eru þeir nú oft bara í sjálfs-exótíseringu. Vald Hlyns á myndmiðlinum er eiginlega alveg absúrd gott – hann t.d. klárar bara Íslandsfetisjismann á fyrstu tveimur mínútunum, dregur hann niður á jörðina, og þar með út úr hinni narratífsku þróun – landslagið er ekki látið bera stígandina í myndinni heldur fær sagan að vaxa sjálf, án þess að það þurfi að færa myndina inn í hús. Bara svona smáatriði einsog að malbikið í vegasenunni í upphafi sé allt stagbætt – þá fattaði ég alltíeinu að svona líta íslenskir vegir út, sennilega hafa leikstjórar jafnan valið stílhreinna malbik til að filma. Og þótt myndin sé melódramatísk þá gælir hún líka við módernismann og jafnvel tilraunamyndir.

***

Ég hef ekkert lesið nema stök ljóð á stangli. Að vísu heilan helling af þeim en enga bók klárað. Svona er skrifstofulífið á mér oft. Ljóð eru frábær – þau fá öll fimm stjörnur.

***

Casa de Papel fyrsta sería. Ég held að þetta sé ekki gott. Ég held að leikararnir séu flestir frekar lélegir og söguþráðurinn einsog hann sé skrifaður jafn óðum af sex ára barni (og svo … og svo … svo bara var prófessorinn búinn að sjá þetta fyrir og það er sko risastór BROWNING … og þau SKJÓTA ALLT Í KLESSU). En þetta er á spænsku, svo hver veit, þetta virkar alltaf svolítið líka einsog Almódovar, mjög kúltúrelt og svona. Stephen King fílar þetta í botn og ég fíla Stephen King – eða er allavega með stóran soft spot fyrir honum – og Twitter logar af meðmælum og Facebook logar af meðmælum og Nadja mælti með þessu. Að vísu er þetta allt mjög spennandi. Ég horfði rólega á fyrstu seríu, hámaði í mig síðustu þættina og er langt kominn með aðra seríu núna. Svo kannski verður endurmat að viku.

***

Ég seldi bassaleikaranum í Hjaltalín, Guðmundi Óskari, telecasterinn minn á Reykjavíkurflugvelli og keypti mér svo stratocaster þegar ég kom til Münster – eða í næsta bæ, Ibbenbüren, þar sem er afar vegleg hljóðfæraverslun. Af því tilefni er meistari stratocastersins gítarleikari vikunnar – frá tónleikum í varaheimalandi mínu, Svíþjóð.

Dave Chappelle – Sticks & Stones; Who Framed Roger Rabbit; Gaukshreiðrið í Edinborgarhúsinu; Delta Blues eftir Ted Gioia; Wicker Man; Rummungur ræningi, 100 ljóð Geirlaugs Magnússon og gítarleikari vikunnar

Allt líður svo hratt já. Meira að segja það sem lendir í deiglunni – nær athygli í þessu athyglissjúka samfélagi – líður hjá á örskotsstundu. Og skiptir eiginlega engu hvort um ræðir verk sem var mörg ár í smíðum eða status sem er hent fram í bríaríi. Allt er frægt í korter og svo ne’ermore. Fyrir nokkrum dögum voru allir að tala um nýja uppistandið hans Dave Chappelle – Sticks & Stones. Og sitt sýndist nú hverjum!
Dave Chappelle er grínisti af Richard Pryor skólanum – stundar kaþarsis í krafti miskunnarleysis og potar bara í viðkvæmu blettina, vitlausu beinin. Hann er mjög fyndinn, svona oftast nær, en líka oft hreinlega óþægilegur.

 

Kenningar sem ganga út frá því að húmor hafi alltaf með vald að gera – sem eru ekki alveg út á túni – eiga það til að smætta það þannig niður að við hlæjum bara að óförum þeirra sem okkur er illa við. Nasistar hlæja að óförum gyðinga og gyðingar hlæja að óförum nasista. En þetta er ekki alveg satt. Gyðingar í helförinni hlógu að eigin aðstæðum – gerðu skrítlur – og nasistar gerðu skrítlur um sínar aðstæður (margir þeirra voru auðvitað fremur valdlitlir um eigin aðstæður, herkvaddir unglingar á stríðstímum). Fólk sem tekst á – nú læt ég nasistana og gyðingana til hliðar, er meira að hugsa um kannski saklausari átök barna og fullorðinna, eða bara fólks sem er ósammála, íhaldsmanna og frjálslyndra – léttir líka á spennunni milli sín með því að gera gys hvert að öðru og að sjálfu sér. Slíkt ástand léttúðar gengur ekki upp ef það grínið fer ekki í báðar áttir – þá afhleður það ekki spennuna heldur skapar undantekningarástand, svipað því þegar trúðurinn fær að gera grín að kónginum sem hneigir sig bara og kímir, því hann veit að hann getur afhausað trúðinn hvenær sem honum sýnist. Grín af þessari tegund getur alveg verið nastí – getur verið yfirgangur (og ég held það verði allir sekir um það af og til að hreyta út úr sér einhverri fyndni í andrúmslofti sem fylgir alls engin léttúð heldur bara beiskja) en tilgangur þess er afhleðslan.

 

Í samfélaginu einsog það lítur út í dag – vestrænu samfélagi, þar sem eiginlegri ritskoðun er mætt af hörku og alls kyns lög og sáttmálar verja málfrelsið – er kóngurinn bara við. Trúðurinn fer upp á svið til að gera grín að okkur – samfélaginu, strúktúrnum, jöðrunum og fyrst og fremst þeim breytingum sem eiga sér stað á samfélagsgerðinni „um þessar mundir“. Tvær mögulegar afhausanir eru í boði. Annars vegar getum við hætt að hafa gaman af grínistanum, misst þolinmæðina og einfaldlega beint athyglinni annað. Hins vegar getum við „afboðað“ grínistann – vafið þræði fordæmingar inn í samfélagsmiðlavefnaðinn þar til manneskjan verður persona non grata, glatar trúverðugleika sínum og trausti. Dæmið sem Chappelle tekur í uppistandi sínu er Kevin Hart – sem átti að fara að vera kynnir á Óskarsverðlaununum þegar einhver gróf upp gömul tíst af Twitter þar sem hann gerði mjög gróteskt grín um viðbrögð sín við því ef börnin hans reyndust samkynhneigð. Dæmin eru mýmörg – flest þeirra hafa reyndar ekki með orð að gera heldur meintar gjörðir. En grínistar einsog Chappelle sjálfur, Ricky Gervais og fleiri hafa mátt þola að nærveru þeirra fylgi alltaf þetta aukabragð hinna mórölsku tíma: Má ég hlæja að þessu?

 

Eitt af því sem mér finnst óþægilegt og áhugavert og skemmtilegt og glatað og frábært við grín er að stundum hlær maður að hlutum sem manni finnst eiginlega ekki fyndnir. Eða, þið vitið, maður hlær að einhverju sem manni finnst ógeðslegt. Maður hlær jafnvel að gríni sem er gert á manns eigin kostnað og snýst um eitthvað sem maður er mjög viðkvæmur fyrir. Ég hef hlegið að brandara um snjóflóðin í Súðavík – 10 sekúndum áður en ég húðskammaði viðkomandi fyrir að segja hann og svo barðist það í mér árum saman hvort ég hefði átt að skamma hann. Nú man ég ekki einu sinni lengur brandarann eða hver sagði hann en ég man bara viðbrögðin mín – man hláturinn, sem var óþægilegur en samt þægilegur (því hlátur er alltaf líka góður, þess vegna er hann svona hræðilegur í hræðilegum aðstæðum, út af kontrastinum og út af kaþarsisinu – sem manni finnst maður ekki alltaf eiga skilið eða mega njóta þegar maður á að þjást).

 

Chappelle er svolítið fastur í því að kommenta á þetta. Ég held að grínistar vinni margir út frá árátturöskun og ef maður er grínisti í samfélagi dagsins í dag – sérstaklega grínisti sem náði fótfestu á tíunda áratugnum eða jafnvel bara þeim fyrsta – þá hljóti þetta að vera manni ofarlega í huga alltaf þegar maður stingur niður penna til að skrifa eitthvað. Má ég þetta? Hvað gerist ef ég segi þetta? Sumir geta bara farið að hugsa um eitthvað annað en margir hljóta að vilja takast á við þetta á beinskeyttari hátt. Mér finnst Chappelle takast það vel – betur en bæði Aziz Ansari, sem felur sig á bakvið auðmýktina, eða Ricky Gervais sem röflar einfaldlega of mikið.

 

***

 

Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á klassíkerinn Who Framed Roger Rabbit frá árinu 1988. Við Nadja vorum jafngömul og Aram þegar þessi mynd kom út – 10 ára. Maður sér vel á henni hvað margt hefur breyst – nú mætti alveg segja að hún taki afstöðu gegn dónaköllum og þeirri hugmynd að konur eigi að meta útfrá útliti sínu („I’m not bad“, segir Jessica Rabbit „I’m just drawn that way“.) en hún málar þá mynd af samfélaginu einsog það er/var. Baby Herman kemst einfaldlega upp með að slá konur á bossann og vera skíthæll. Hann er hinn erkitýpíski Harvey Weinstein og mótmælin sem myndu spretta upp í dag myndu sennilega snúa að normalíseringareffektinum – hvort við sjóumst þá bara og finnist þetta alltílagi. 

 

Annars held ég almennt að börn hafi gott af því að kíkja inn í horfna heima og gamlan móral, gamlar breytingar, gamla stemningu. Það er einfaldlega þroskandi.

 

Myndin er hins vegar alveg jafn skemmtileg þrátt fyrir allar aðfinnslur. Ég hef ekki haft jafn gaman af teiknimyndaslappstikk í áraraðir – píanódúett Daffy Duck og Donald Duck mun gleðja mig um ókomna tíð. Söguþráðurinn er spennandi, persónur ýktar og skemmtilegar og furðulegt að ekki hafi verið gerðar fleiri sögur í þessum heimi – þar sem klassískar teiknimyndasöguhetjur og fólk af holdi og blóði býr hlið við hlið.

 

***

 

Djasssveitin Gaukshreiðrið lék fyrir gesti í Edinborgarhúsinu síðasta fimmtudag. Hljómsveitina skipa þau Sölvi Kolbeinsson á saxófón, Mikael Máni Ásmundsson á gítar,  Anna Gréta Sigurðardóttir á píanó, Birgir Steinn Theódórsson á kontrabassa og Magnús Trygvason Elíassen á trommur. Þau léku mestmegnis frumsömin lög – sennilega tvö eftir Önnu, þrjú eftir Mikael Mána og eitt eftir Sölva. Nema það hafi verið tvö eftir Sölva og eitt eftir Önnu. Í lokin tóku þau svo afskaplega fína útsetningu af Hættu að gráta Hringaná – mig minnir að útsetjarinn hafi heitið Andrés.

 

Tónlist Önnu og Mikaels fannst mér heyra saman. Djass leitar oft í hljómskrattana en Anna og Mikael fannst mér harmónískari í lagasmíðum sínum – sumir myndu segja poppaðri en það er hvorki nákvæmt né nógu jákvætt, því þau gera þetta mjög vel. Tónsmíð Sölva var meira bípopp – skapandi flækjur í kringum stef – og helgast sennilega ekki síst af því að hann er saxófónleikari sem eltir staka tóna á meðan Anna og Mikael leika á hljóðfæri sem alla jafna senda frá sér fleiri tóna í einu. Eitt og annað þarna minnti mig á eitthvað sem er alls ekki úr djassheiminum – múm kom oft upp í hugann. Bandið er allt brjálæðislega vel spilandi og æðislega skemmtileg.

 

Ég horfði auðvitað sérstaklega á gítarinn. Ef mér skjátlast ekki lék Mikael Máni á Gibson L-4 CES í gegnum Fender Blues Junior IV. Engir pedalar og snúran var svo stutt að hann gat varla hreyft sig neitt. Þetta er mjög klassískt djass-settöpp, held ég. Ég gæti best trúað að strengirnir í gítarnum hafi verið óvenju þykkir – enda var hann ekkert að teygja þá og notaði víbrató mjög sparlega. Þessi magnari er mjög hreinn og einfaldur og gítarinn – sem kostar einsog fimm venjulegir gítarar og fjörutíu pedalar – naut sín virkilega vel. Það er líka áhugavert finnst mér að hugsa til þess hversu margir gítarleikarar finna bara sándið sitt og fara aldrei úr því. Ég, sem er auðvitað ekki beinlínis gítarleikari nema til gamans, er sífellt að breyta til – ég er með tíu pedala á gólfinu sem ég fikta í af og til en fyrst og fremst kveiki ég eða slekk á þeim, skipti milli pikköppa, sný tone-hnappinum, hækka og lækka, spila með fingrum eða nögl. Svo á ég þrjá rafmagnsgítara sem ég spila á til skiptis og þeir hafa allir sérstakan karakter. Þegar ég spila á kassagítarinn nota ég gjarna slide og skipti reglulega á milli (ég á sennilega tíu af ólíkum gerðum, þykktum, lengd og af ólíku efni) – spila í fjórum ólíkum stillingum til skiptis og svo framvegis. Mikael Máni snerti ekki neitt á meðan tónleikunum stóð, ekki það ég gat séð eða heyrt – hélt sig bara á hálspikköppnum í hreina klassíska djasssándinu. Reyndar minnir mig að hann hafi svolítið krosspikkað með nögl og fingrum en það var sennilega allt.

 

Það var líka áhugavert að velta fyrir sér muninum á því að vera gítarleikari og píanóleikari í svona sveit. Hlutverk þeirra eru að mörgu leyti svipuð – þau liggja milli rytmasveitar og sólóista – og ómögulegt að segja út frá tónlistinni hvor er hressari. Hins vegar dúaði Anna Gréta á stólnum, stóð jafnvel aðeins á fætur, dillaði sér og skók, á meðan Mikael Máni var kyrr, einbeittur og fagmannlegur (með því geri ég ekki lítið úr ástríðunni í tónlistinni, sem var mikil hjá báðum). Og þetta væri í sjálfu sér ekkert spes nema ég held þetta sé alltaf svona í djassi. Píanóleikarar dúa á stólnum og gítarleikarar standa grafkyrrir.

 

***

 

Ég las bókina Delta Blues eftir Ted Gioa. Tveir af kannski fimm helstu sérfræðingum heimsins í sögu deltablússins eru nátengdir ljóðlistarheiminum. Ted þessi er bróðir ljóðskáldsins Dana Gioa – en svo er líka Samuel Charters sem er giftur konu að nafni Ann Charters sem er helsti sérfræðingur heimsins í Jack Kerouac og bítskáldunum og eftir hana á ég margar bækur frá því ég sökkti mér í þann heim fyrir langalöngu.

 

Deltablúsinn verður til, einsog við þekkjum hann, með upptökutækninni. Í raun er engin leið að segja neitt um hvenær hann verður til annars og það er einkenni allra upprunasagna blússins að þær byggja á getgátum sem byggja á frásögnum í texta. Það eru til lýsingar af tónlistarmönnum sem hljóma einsog deltablúsarar frá því fyrir aldamótin 1900 en það er í raun ekki fyrren rétt eftir þau að tilvist hans er staðfest – þegar hann er fyrst tekinn upp.

 

Ted Gioia segir svo sögu hans fram til þess að hann ferðast til Chicago og verður smám saman Chicago blús – og raunar aðeins lengra því það sem gerist með deltablúsinn er að hann hverfur og gleymist. Sérstaklega lentu þeir sem gáfu út blúsplötur upp úr kreppunni illa í því. Plötusala skreppur saman um 94% – nokkuð meira en hlutabréfamarkaðurinn féll – og plötusala í kynþáttageiranum („race records“ – plötur svartra tónlistarmanna) féll enn meira. Blústónlistarmenn sem gátu búist við að selja 20 þúsund plötur árið 1928 gáfu kannski út 200 árið 1930 og seldu helminginn. Margir féllu þá í gleymskunnar dá – þar á meðal Robert Johnson, Son House, Skip James og fleiri. Fyrir átak blúsnörda upp úr 1960 og svo frægra gítarnörda, mestmegnis enskra – Clapton, Keith Richards o.sfrv. – komast þeir svo í sviðsljósið, sumir í annað sinn en aðrir í allra fyrsta sinn, sumir í eigin persónu en aðrir bara á upptöku – einsog Robert Johnson. Lokakaflinn í bókinni er því nánast einsog upprifjun á fyrsta kaflanum – það eru sömu menn sem hefja leikinn og sem ljúka honum. Deltablúsinn endar aftur í rótunum.

 

Auðvitað lauk blússögunni ekki þar. Chicagoblúsinn tekur við og Detroit blús og Texas blús og svo rokkið – Clapton og Hendrix og svo Stevie Ray og Robert Cray og svo Joe Bonamassa og Eric Gales og alls konar og alls konar.

 

Þetta er mögnuð saga og frábær bók. Kannski er það bara vegna þess að tónlistarsagnfræðingar eru svo oft lélegir – eða tónlistarsagan flókin og fólk gjarnt á að einfalda – en bókin er frábærlega byggð og stútfull af upplýsingum án þess að verða nokkurn tíma leiðinleg. Það er alls konar sem situr í manni. Lýsingar á því hvernig kona John Lee Hookers misþyrmdi honum – skar hann meðal annars í fingurinn svo hann gat ekki spilað með honum, kallaði gítarinn hans alltaf „the starving box“ af því henni fannst hann aldrei þéna nóg. Samt var hann sennilega fyrsti blúsarinn til að þéna eitthvað af viti. Í mörgu kristallast líka samband hvítra og svartra í Bandaríkjunum – til góðs og ills. Hvítir plötuútgefendur hýrudraga svarta blúsara alveg miskunnarlaust – jafnvel þeir sem hampa þeim mest – en svo eru aðrir, svo sem áðurnefnd blúsnörd í endurreisninni, sem eru í hálfgerðri yfirbótastarfsemi stundum. Faðir deltablússins – Charley Patton – er líka að hluta bæði hvítur og innfæddur ameríkani, það hafði ég ekki hugmynd um. Verandi svartur er hann auðvitað samt alveg svartur – það er/var reglan, og sama gildir um tónlistina (það er snertur af írskri þjóðlagatónlist í deltablúsnum – en hann er samt svartur).

 

Það var líka gaman að Ted Gioia skildi ekki gera lítið úr trúnni – bæði guðstrúnni og mýtólógíunni. Margir blúsarar létu af öllum gítarleik vegna þess að hann væri af hinu illa, aðrir spiluðu hann gegn betri vitund, einsog Son House. Robert Johnson er auðvitað sagður hafa selt sálu sína og maður er orðinn vanur því að lesa langar lýsingar á að það hafi hann nú auðvitað ekki gert, heldur hafi sennilega verið eitrað fyrir honum, og Gioia fer í gegnum það allt saman án þess að gera lítið úr því að þetta með kölska var líka raunveruleiki – það er mikill spiritúalismi í þessari músík og þegar menn töluðu um kölska voru þeir ekki að meina það í neinni yfirfærðri merkingu.

 

Loks er gaman að sjá hvernig sumir blúsararnir voru listrænt óstýrilátir – John Lee Hooker, sem einn þeirra allra síðustu – leikur aldrei sama lagið tvisvar og það tók hann áratugi bókstaflega að læra að spila með öðrum (og þegar hann er byrjaður gat hann ekki hætt því – varð alger samstarfskóngur). Hann fann sér bara grúv, settist í það og söng svo eitthvað sem passaði. En aðrir léku mjög meðvitað og æft, einsog Robert Johnson, og ollu næstum seinnitíma aðdáendum sínum vonbrigðum með að vera ekki náttúrulegri impróvíserarar.

 

***

 

Þetta er að verða ofsalega löng færsla. Snæbjörn á Kaktusnum verður ábyggilega alveg brjálaður. Nema hann sé löngu sofnaður. Ég held hann sé eini maðurinn sem einu sinni reynir að lesa þetta, og svo kvartar hann bara einsog það sé mér að kenna. Allavega. Það er kominn hádegismatur hjá mér og ég hef fá orð um restina. Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á hryllingsmyndina Wicker Man eftir Robin Hardy. Hún var frábær – besta hryllingsmynd sem ég hef séð. Ótrúlega spes stemning. Samtímis ótrúlega realísk og einsog einhver teiknimynd. Rosalega gröð mynd líka. Kölski býr í kynlífinu, sérstaklega greddu og tálmætti kvenna. Fyrst og fremst er hún svakalega visúal – falleg er ekki rétta orðið, en visúalt áhugaverð, augað er dregið hingað og þangað og alltaf eitthvað að kalla á mann.

 

***

 

Við lásum Rummung ræningja eftir Otfried Preußler. Hún var mjög skemmtileg – ævintýrasaga tveggja vina sem takast á við óprúttinn ræningja og ægilegan galdrakarl. Það sló mig að hún væri bæði vel þýdd og illa. Orðaforðinn og orðfærið er mestmegnis mjög gott en það er svolítill fljótfærnisbragur á þessu. Ég var auðvitað ekki með orginalinn til að bera saman og þýskan mín er nú ekkert frábær – en svona smásvör einsog „jæjajá“ og þannig voru ekki alltaf í samræmi við mína máltilfinningu. Svo er svona smotterí einsog þegar amma spyr „Vitið þið hvað mér finnst?“ og Kasper og Jobbi svara „Hvernig þá?“ – frekar en „hvað?“. Ég ímynda mér að þannig samskipti hafi verið stílhreinni á þýskunni. Þá er líka svolítið um að frágangi sé ábótavant – gæsalappir opnast ekki eða lokast ekki og þvíumlíkt. Þetta er þeim mun leiðinlegra sem bókin er annars falleg og þýðingin – sem Aðalsteinn Ásberg gerði – góð. Auðvitað ber þetta fyrst og fremst stressinu í bókabransanum merki.

 

***

 

Loks er ég búinn að lesa 100 ljóð Geirlaugs Magnússonar. Hún er frábær – Geirlaugur var mjög skemmtilegt skáld og löngu kominn tími til að gefa hann svona út. Sosum ekkert um það að segja annað – þetta er safnrit og ljóðin héðan og þaðan á ferlinum og ég engan veginn nógu vel lesinn í honum til að gagnrýna úrvalið mikið. Bókin er passlega löng og ljóðin í henni eru af ólíkum meiði – mörg fín, sum frábær. Ég myndi einfaldlega vitna í eitt ljóðanna en bókin er uppi á skrifstofu og ég heima í borðstofu.

 

***

 

Gítarleikari vikunnar er John Lee Hooker.