Sinfó á Ísó, Hvítur, hvítur dagur og Casa de Papel – fyrsti hluti

Ég er alltaf að reyna að hafa þetta stutt. Það hefur gengið fremur illa. Það hljóta að vera til einhver lyf við þessari munnræpu. Það er aðallega vegna þess að ég skammast mín gagnvart ykkur samt – hver er ég að láta einsog off-the-cuff vangaveltur mínar um eitt eða neitt komi einhverjum við nema sjálfum mér? Af hverju er þetta ekki bara lokuð dagbók? Nú eða svolítið hamin dagbók til lesturs fyrir aðra?

Ég er ekki einu sinni byrjaður. Samt eru komnar margar setningar. Hvaðan komu þessar setningar? Ég er í Münster. Þessar setningar voru ekki hérna þegar ég kom.

***

Ég sá sinfóníuna spila. Tvisvar. Meðal annars hluta úr Pétri Gauti og 5. sinfóníu Sibelíusar – en líka söngverk og alls konar. Þau mættu og spiluðu tvo ókeypis tónleika í íþróttahúsinu á Ísafirði, einsog þau hafa gert af og til – síðast fyrir 2-3 árum. Hugmyndin er held ég að fyrst við höfum annars ekki aðgengi að henni getum við fengið að sjá hana frítt þá sjaldan það aðgengi batnar. Annars veit ég ekki hver pælingin er en það gleður mig mjög mikið, hver sem hún er, ekki bara vegna þess að þá fæ ég frítt heldur getur alls konar fólk sem annars hefur ekki efni á miklu farið á fína tónleika.

Einleikarar voru þrír – þar af tveir frá Ísafirði, Mikolaj Ólafur, ungur píanóleikari sem er að gera það gott, og Dísa Jónasar, óperudívan okkar. Bæði eru þau tónlistarkennarabörn – Dísa reyndar dóttir tónlistarskólastjórans að auki, og tónskálds. Þriðji einleikarinn lék á horn. Þau voru öll rosaleg en Dísa kannski rosalegust, með ofsalegt kontról ekki bara á tónlistinni heldur líka sviðsframkomu og hreinlega útgeislun. Þó samanburðurinn endi þar er ekki úr vegi að líkja henni við Mugison þannig – maður einhvern veginn fellur ofan í eitthvað tónlistarhol með þeim og finnst nánast einsog það sé enginn annar í heiminum rétt á meðan.

Sinfónían er heldur engu lík og Daníel Bjarnason stjórnar henni vel (segi ég, einsog ég hafi eitthvað vit á því – en ég gat sem sagt ekki betur séð). Ef ég ætti að koma með eina aðfinnslu þá væri hún að sveitin – sem var ábyggilega klöppuð upp í fjórgang – myndi fá sér nýtt uppklappslag (það var Á Sprengisandi, einsog síðast).

Daginn eftir voru svo aftur tónleikar um morguninn og einleikarar voru aftur tveir heimamenn. Þórunn Arna og Pétur Ernir, léku og sungu ýmis lög sem tengjast verkum Astridar Lindgren. Aftur var stappfullt upp í rjáfur og aftur ókeypis inn – það var starfsdagur í skólunum en það var reyndar alls ekki þannig að allir áheyrendur væru börn. Þetta var ekki minna skemmtilegt. Ég þurfti að vísu að pína litla rokkarann minn með – á þeirri forsendu að þetta væri mikilvægur hluti tónlistaruppeldisins – en hann hafði gaman af þessu þegar hann var kominn og nánast skammaðist sín fyrir hvað áhuginn var mikill. Aino Magnea hins vegar raulaði með öllum lögunum á sænsku, einsog hún gerir annars aðallega þegar hún er ein með sony-spilarann sinn.

Allir fá fimm stjörnur og Dísa fær fimm stjörnur plús.

***

Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins fór á Hvítan, hvítan dag. Ég er enn að melta hana. Hún er mjög, mjög góð – eitthvað í söguþræðinum var kannski full melódramatískt, hún var alltaf á grensunni. Jón Kalman (og Gyrðir) fá þakkir í henni og það leynir sér ekkert að leikstjórinn er Kalmansmaður – tilfinningarnar eru stórar og óhamdar. Hins vegar örlar ekki á þeirri exótíseringu sem plagar margar bíómyndir sem gerast á landsbyggðinni. Þótt Hlynur, leikstjórinn, sé dreifari þá eru þeir nú oft bara í sjálfs-exótíseringu. Vald Hlyns á myndmiðlinum er eiginlega alveg absúrd gott – hann t.d. klárar bara Íslandsfetisjismann á fyrstu tveimur mínútunum, dregur hann niður á jörðina, og þar með út úr hinni narratífsku þróun – landslagið er ekki látið bera stígandina í myndinni heldur fær sagan að vaxa sjálf, án þess að það þurfi að færa myndina inn í hús. Bara svona smáatriði einsog að malbikið í vegasenunni í upphafi sé allt stagbætt – þá fattaði ég alltíeinu að svona líta íslenskir vegir út, sennilega hafa leikstjórar jafnan valið stílhreinna malbik til að filma. Og þótt myndin sé melódramatísk þá gælir hún líka við módernismann og jafnvel tilraunamyndir.

***

Ég hef ekkert lesið nema stök ljóð á stangli. Að vísu heilan helling af þeim en enga bók klárað. Svona er skrifstofulífið á mér oft. Ljóð eru frábær – þau fá öll fimm stjörnur.

***

Casa de Papel fyrsta sería. Ég held að þetta sé ekki gott. Ég held að leikararnir séu flestir frekar lélegir og söguþráðurinn einsog hann sé skrifaður jafn óðum af sex ára barni (og svo … og svo … svo bara var prófessorinn búinn að sjá þetta fyrir og það er sko risastór BROWNING … og þau SKJÓTA ALLT Í KLESSU). En þetta er á spænsku, svo hver veit, þetta virkar alltaf svolítið líka einsog Almódovar, mjög kúltúrelt og svona. Stephen King fílar þetta í botn og ég fíla Stephen King – eða er allavega með stóran soft spot fyrir honum – og Twitter logar af meðmælum og Facebook logar af meðmælum og Nadja mælti með þessu. Að vísu er þetta allt mjög spennandi. Ég horfði rólega á fyrstu seríu, hámaði í mig síðustu þættina og er langt kominn með aðra seríu núna. Svo kannski verður endurmat að viku.

***

Ég seldi bassaleikaranum í Hjaltalín, Guðmundi Óskari, telecasterinn minn á Reykjavíkurflugvelli og keypti mér svo stratocaster þegar ég kom til Münster – eða í næsta bæ, Ibbenbüren, þar sem er afar vegleg hljóðfæraverslun. Af því tilefni er meistari stratocastersins gítarleikari vikunnar – frá tónleikum í varaheimalandi mínu, Svíþjóð.

Dave Chappelle – Sticks & Stones; Who Framed Roger Rabbit; Gaukshreiðrið í Edinborgarhúsinu; Delta Blues eftir Ted Gioia; Wicker Man; Rummungur ræningi, 100 ljóð Geirlaugs Magnússon og gítarleikari vikunnar

Allt líður svo hratt já. Meira að segja það sem lendir í deiglunni – nær athygli í þessu athyglissjúka samfélagi – líður hjá á örskotsstundu. Og skiptir eiginlega engu hvort um ræðir verk sem var mörg ár í smíðum eða status sem er hent fram í bríaríi. Allt er frægt í korter og svo ne’ermore. Fyrir nokkrum dögum voru allir að tala um nýja uppistandið hans Dave Chappelle – Sticks & Stones. Og sitt sýndist nú hverjum!
Dave Chappelle er grínisti af Richard Pryor skólanum – stundar kaþarsis í krafti miskunnarleysis og potar bara í viðkvæmu blettina, vitlausu beinin. Hann er mjög fyndinn, svona oftast nær, en líka oft hreinlega óþægilegur.

 

Kenningar sem ganga út frá því að húmor hafi alltaf með vald að gera – sem eru ekki alveg út á túni – eiga það til að smætta það þannig niður að við hlæjum bara að óförum þeirra sem okkur er illa við. Nasistar hlæja að óförum gyðinga og gyðingar hlæja að óförum nasista. En þetta er ekki alveg satt. Gyðingar í helförinni hlógu að eigin aðstæðum – gerðu skrítlur – og nasistar gerðu skrítlur um sínar aðstæður (margir þeirra voru auðvitað fremur valdlitlir um eigin aðstæður, herkvaddir unglingar á stríðstímum). Fólk sem tekst á – nú læt ég nasistana og gyðingana til hliðar, er meira að hugsa um kannski saklausari átök barna og fullorðinna, eða bara fólks sem er ósammála, íhaldsmanna og frjálslyndra – léttir líka á spennunni milli sín með því að gera gys hvert að öðru og að sjálfu sér. Slíkt ástand léttúðar gengur ekki upp ef það grínið fer ekki í báðar áttir – þá afhleður það ekki spennuna heldur skapar undantekningarástand, svipað því þegar trúðurinn fær að gera grín að kónginum sem hneigir sig bara og kímir, því hann veit að hann getur afhausað trúðinn hvenær sem honum sýnist. Grín af þessari tegund getur alveg verið nastí – getur verið yfirgangur (og ég held það verði allir sekir um það af og til að hreyta út úr sér einhverri fyndni í andrúmslofti sem fylgir alls engin léttúð heldur bara beiskja) en tilgangur þess er afhleðslan.

 

Í samfélaginu einsog það lítur út í dag – vestrænu samfélagi, þar sem eiginlegri ritskoðun er mætt af hörku og alls kyns lög og sáttmálar verja málfrelsið – er kóngurinn bara við. Trúðurinn fer upp á svið til að gera grín að okkur – samfélaginu, strúktúrnum, jöðrunum og fyrst og fremst þeim breytingum sem eiga sér stað á samfélagsgerðinni „um þessar mundir“. Tvær mögulegar afhausanir eru í boði. Annars vegar getum við hætt að hafa gaman af grínistanum, misst þolinmæðina og einfaldlega beint athyglinni annað. Hins vegar getum við „afboðað“ grínistann – vafið þræði fordæmingar inn í samfélagsmiðlavefnaðinn þar til manneskjan verður persona non grata, glatar trúverðugleika sínum og trausti. Dæmið sem Chappelle tekur í uppistandi sínu er Kevin Hart – sem átti að fara að vera kynnir á Óskarsverðlaununum þegar einhver gróf upp gömul tíst af Twitter þar sem hann gerði mjög gróteskt grín um viðbrögð sín við því ef börnin hans reyndust samkynhneigð. Dæmin eru mýmörg – flest þeirra hafa reyndar ekki með orð að gera heldur meintar gjörðir. En grínistar einsog Chappelle sjálfur, Ricky Gervais og fleiri hafa mátt þola að nærveru þeirra fylgi alltaf þetta aukabragð hinna mórölsku tíma: Má ég hlæja að þessu?

 

Eitt af því sem mér finnst óþægilegt og áhugavert og skemmtilegt og glatað og frábært við grín er að stundum hlær maður að hlutum sem manni finnst eiginlega ekki fyndnir. Eða, þið vitið, maður hlær að einhverju sem manni finnst ógeðslegt. Maður hlær jafnvel að gríni sem er gert á manns eigin kostnað og snýst um eitthvað sem maður er mjög viðkvæmur fyrir. Ég hef hlegið að brandara um snjóflóðin í Súðavík – 10 sekúndum áður en ég húðskammaði viðkomandi fyrir að segja hann og svo barðist það í mér árum saman hvort ég hefði átt að skamma hann. Nú man ég ekki einu sinni lengur brandarann eða hver sagði hann en ég man bara viðbrögðin mín – man hláturinn, sem var óþægilegur en samt þægilegur (því hlátur er alltaf líka góður, þess vegna er hann svona hræðilegur í hræðilegum aðstæðum, út af kontrastinum og út af kaþarsisinu – sem manni finnst maður ekki alltaf eiga skilið eða mega njóta þegar maður á að þjást).

 

Chappelle er svolítið fastur í því að kommenta á þetta. Ég held að grínistar vinni margir út frá árátturöskun og ef maður er grínisti í samfélagi dagsins í dag – sérstaklega grínisti sem náði fótfestu á tíunda áratugnum eða jafnvel bara þeim fyrsta – þá hljóti þetta að vera manni ofarlega í huga alltaf þegar maður stingur niður penna til að skrifa eitthvað. Má ég þetta? Hvað gerist ef ég segi þetta? Sumir geta bara farið að hugsa um eitthvað annað en margir hljóta að vilja takast á við þetta á beinskeyttari hátt. Mér finnst Chappelle takast það vel – betur en bæði Aziz Ansari, sem felur sig á bakvið auðmýktina, eða Ricky Gervais sem röflar einfaldlega of mikið.

 

***

 

Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á klassíkerinn Who Framed Roger Rabbit frá árinu 1988. Við Nadja vorum jafngömul og Aram þegar þessi mynd kom út – 10 ára. Maður sér vel á henni hvað margt hefur breyst – nú mætti alveg segja að hún taki afstöðu gegn dónaköllum og þeirri hugmynd að konur eigi að meta útfrá útliti sínu („I’m not bad“, segir Jessica Rabbit „I’m just drawn that way“.) en hún málar þá mynd af samfélaginu einsog það er/var. Baby Herman kemst einfaldlega upp með að slá konur á bossann og vera skíthæll. Hann er hinn erkitýpíski Harvey Weinstein og mótmælin sem myndu spretta upp í dag myndu sennilega snúa að normalíseringareffektinum – hvort við sjóumst þá bara og finnist þetta alltílagi. 

 

Annars held ég almennt að börn hafi gott af því að kíkja inn í horfna heima og gamlan móral, gamlar breytingar, gamla stemningu. Það er einfaldlega þroskandi.

 

Myndin er hins vegar alveg jafn skemmtileg þrátt fyrir allar aðfinnslur. Ég hef ekki haft jafn gaman af teiknimyndaslappstikk í áraraðir – píanódúett Daffy Duck og Donald Duck mun gleðja mig um ókomna tíð. Söguþráðurinn er spennandi, persónur ýktar og skemmtilegar og furðulegt að ekki hafi verið gerðar fleiri sögur í þessum heimi – þar sem klassískar teiknimyndasöguhetjur og fólk af holdi og blóði býr hlið við hlið.

 

***

 

Djasssveitin Gaukshreiðrið lék fyrir gesti í Edinborgarhúsinu síðasta fimmtudag. Hljómsveitina skipa þau Sölvi Kolbeinsson á saxófón, Mikael Máni Ásmundsson á gítar,  Anna Gréta Sigurðardóttir á píanó, Birgir Steinn Theódórsson á kontrabassa og Magnús Trygvason Elíassen á trommur. Þau léku mestmegnis frumsömin lög – sennilega tvö eftir Önnu, þrjú eftir Mikael Mána og eitt eftir Sölva. Nema það hafi verið tvö eftir Sölva og eitt eftir Önnu. Í lokin tóku þau svo afskaplega fína útsetningu af Hættu að gráta Hringaná – mig minnir að útsetjarinn hafi heitið Andrés.

 

Tónlist Önnu og Mikaels fannst mér heyra saman. Djass leitar oft í hljómskrattana en Anna og Mikael fannst mér harmónískari í lagasmíðum sínum – sumir myndu segja poppaðri en það er hvorki nákvæmt né nógu jákvætt, því þau gera þetta mjög vel. Tónsmíð Sölva var meira bípopp – skapandi flækjur í kringum stef – og helgast sennilega ekki síst af því að hann er saxófónleikari sem eltir staka tóna á meðan Anna og Mikael leika á hljóðfæri sem alla jafna senda frá sér fleiri tóna í einu. Eitt og annað þarna minnti mig á eitthvað sem er alls ekki úr djassheiminum – múm kom oft upp í hugann. Bandið er allt brjálæðislega vel spilandi og æðislega skemmtileg.

 

Ég horfði auðvitað sérstaklega á gítarinn. Ef mér skjátlast ekki lék Mikael Máni á Gibson L-4 CES í gegnum Fender Blues Junior IV. Engir pedalar og snúran var svo stutt að hann gat varla hreyft sig neitt. Þetta er mjög klassískt djass-settöpp, held ég. Ég gæti best trúað að strengirnir í gítarnum hafi verið óvenju þykkir – enda var hann ekkert að teygja þá og notaði víbrató mjög sparlega. Þessi magnari er mjög hreinn og einfaldur og gítarinn – sem kostar einsog fimm venjulegir gítarar og fjörutíu pedalar – naut sín virkilega vel. Það er líka áhugavert finnst mér að hugsa til þess hversu margir gítarleikarar finna bara sándið sitt og fara aldrei úr því. Ég, sem er auðvitað ekki beinlínis gítarleikari nema til gamans, er sífellt að breyta til – ég er með tíu pedala á gólfinu sem ég fikta í af og til en fyrst og fremst kveiki ég eða slekk á þeim, skipti milli pikköppa, sný tone-hnappinum, hækka og lækka, spila með fingrum eða nögl. Svo á ég þrjá rafmagnsgítara sem ég spila á til skiptis og þeir hafa allir sérstakan karakter. Þegar ég spila á kassagítarinn nota ég gjarna slide og skipti reglulega á milli (ég á sennilega tíu af ólíkum gerðum, þykktum, lengd og af ólíku efni) – spila í fjórum ólíkum stillingum til skiptis og svo framvegis. Mikael Máni snerti ekki neitt á meðan tónleikunum stóð, ekki það ég gat séð eða heyrt – hélt sig bara á hálspikköppnum í hreina klassíska djasssándinu. Reyndar minnir mig að hann hafi svolítið krosspikkað með nögl og fingrum en það var sennilega allt.

 

Það var líka áhugavert að velta fyrir sér muninum á því að vera gítarleikari og píanóleikari í svona sveit. Hlutverk þeirra eru að mörgu leyti svipuð – þau liggja milli rytmasveitar og sólóista – og ómögulegt að segja út frá tónlistinni hvor er hressari. Hins vegar dúaði Anna Gréta á stólnum, stóð jafnvel aðeins á fætur, dillaði sér og skók, á meðan Mikael Máni var kyrr, einbeittur og fagmannlegur (með því geri ég ekki lítið úr ástríðunni í tónlistinni, sem var mikil hjá báðum). Og þetta væri í sjálfu sér ekkert spes nema ég held þetta sé alltaf svona í djassi. Píanóleikarar dúa á stólnum og gítarleikarar standa grafkyrrir.

 

***

 

Ég las bókina Delta Blues eftir Ted Gioa. Tveir af kannski fimm helstu sérfræðingum heimsins í sögu deltablússins eru nátengdir ljóðlistarheiminum. Ted þessi er bróðir ljóðskáldsins Dana Gioa – en svo er líka Samuel Charters sem er giftur konu að nafni Ann Charters sem er helsti sérfræðingur heimsins í Jack Kerouac og bítskáldunum og eftir hana á ég margar bækur frá því ég sökkti mér í þann heim fyrir langalöngu.

 

Deltablúsinn verður til, einsog við þekkjum hann, með upptökutækninni. Í raun er engin leið að segja neitt um hvenær hann verður til annars og það er einkenni allra upprunasagna blússins að þær byggja á getgátum sem byggja á frásögnum í texta. Það eru til lýsingar af tónlistarmönnum sem hljóma einsog deltablúsarar frá því fyrir aldamótin 1900 en það er í raun ekki fyrren rétt eftir þau að tilvist hans er staðfest – þegar hann er fyrst tekinn upp.

 

Ted Gioia segir svo sögu hans fram til þess að hann ferðast til Chicago og verður smám saman Chicago blús – og raunar aðeins lengra því það sem gerist með deltablúsinn er að hann hverfur og gleymist. Sérstaklega lentu þeir sem gáfu út blúsplötur upp úr kreppunni illa í því. Plötusala skreppur saman um 94% – nokkuð meira en hlutabréfamarkaðurinn féll – og plötusala í kynþáttageiranum („race records“ – plötur svartra tónlistarmanna) féll enn meira. Blústónlistarmenn sem gátu búist við að selja 20 þúsund plötur árið 1928 gáfu kannski út 200 árið 1930 og seldu helminginn. Margir féllu þá í gleymskunnar dá – þar á meðal Robert Johnson, Son House, Skip James og fleiri. Fyrir átak blúsnörda upp úr 1960 og svo frægra gítarnörda, mestmegnis enskra – Clapton, Keith Richards o.sfrv. – komast þeir svo í sviðsljósið, sumir í annað sinn en aðrir í allra fyrsta sinn, sumir í eigin persónu en aðrir bara á upptöku – einsog Robert Johnson. Lokakaflinn í bókinni er því nánast einsog upprifjun á fyrsta kaflanum – það eru sömu menn sem hefja leikinn og sem ljúka honum. Deltablúsinn endar aftur í rótunum.

 

Auðvitað lauk blússögunni ekki þar. Chicagoblúsinn tekur við og Detroit blús og Texas blús og svo rokkið – Clapton og Hendrix og svo Stevie Ray og Robert Cray og svo Joe Bonamassa og Eric Gales og alls konar og alls konar.

 

Þetta er mögnuð saga og frábær bók. Kannski er það bara vegna þess að tónlistarsagnfræðingar eru svo oft lélegir – eða tónlistarsagan flókin og fólk gjarnt á að einfalda – en bókin er frábærlega byggð og stútfull af upplýsingum án þess að verða nokkurn tíma leiðinleg. Það er alls konar sem situr í manni. Lýsingar á því hvernig kona John Lee Hookers misþyrmdi honum – skar hann meðal annars í fingurinn svo hann gat ekki spilað með honum, kallaði gítarinn hans alltaf „the starving box“ af því henni fannst hann aldrei þéna nóg. Samt var hann sennilega fyrsti blúsarinn til að þéna eitthvað af viti. Í mörgu kristallast líka samband hvítra og svartra í Bandaríkjunum – til góðs og ills. Hvítir plötuútgefendur hýrudraga svarta blúsara alveg miskunnarlaust – jafnvel þeir sem hampa þeim mest – en svo eru aðrir, svo sem áðurnefnd blúsnörd í endurreisninni, sem eru í hálfgerðri yfirbótastarfsemi stundum. Faðir deltablússins – Charley Patton – er líka að hluta bæði hvítur og innfæddur ameríkani, það hafði ég ekki hugmynd um. Verandi svartur er hann auðvitað samt alveg svartur – það er/var reglan, og sama gildir um tónlistina (það er snertur af írskri þjóðlagatónlist í deltablúsnum – en hann er samt svartur).

 

Það var líka gaman að Ted Gioia skildi ekki gera lítið úr trúnni – bæði guðstrúnni og mýtólógíunni. Margir blúsarar létu af öllum gítarleik vegna þess að hann væri af hinu illa, aðrir spiluðu hann gegn betri vitund, einsog Son House. Robert Johnson er auðvitað sagður hafa selt sálu sína og maður er orðinn vanur því að lesa langar lýsingar á að það hafi hann nú auðvitað ekki gert, heldur hafi sennilega verið eitrað fyrir honum, og Gioia fer í gegnum það allt saman án þess að gera lítið úr því að þetta með kölska var líka raunveruleiki – það er mikill spiritúalismi í þessari músík og þegar menn töluðu um kölska voru þeir ekki að meina það í neinni yfirfærðri merkingu.

 

Loks er gaman að sjá hvernig sumir blúsararnir voru listrænt óstýrilátir – John Lee Hooker, sem einn þeirra allra síðustu – leikur aldrei sama lagið tvisvar og það tók hann áratugi bókstaflega að læra að spila með öðrum (og þegar hann er byrjaður gat hann ekki hætt því – varð alger samstarfskóngur). Hann fann sér bara grúv, settist í það og söng svo eitthvað sem passaði. En aðrir léku mjög meðvitað og æft, einsog Robert Johnson, og ollu næstum seinnitíma aðdáendum sínum vonbrigðum með að vera ekki náttúrulegri impróvíserarar.

 

***

 

Þetta er að verða ofsalega löng færsla. Snæbjörn á Kaktusnum verður ábyggilega alveg brjálaður. Nema hann sé löngu sofnaður. Ég held hann sé eini maðurinn sem einu sinni reynir að lesa þetta, og svo kvartar hann bara einsog það sé mér að kenna. Allavega. Það er kominn hádegismatur hjá mér og ég hef fá orð um restina. Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á hryllingsmyndina Wicker Man eftir Robin Hardy. Hún var frábær – besta hryllingsmynd sem ég hef séð. Ótrúlega spes stemning. Samtímis ótrúlega realísk og einsog einhver teiknimynd. Rosalega gröð mynd líka. Kölski býr í kynlífinu, sérstaklega greddu og tálmætti kvenna. Fyrst og fremst er hún svakalega visúal – falleg er ekki rétta orðið, en visúalt áhugaverð, augað er dregið hingað og þangað og alltaf eitthvað að kalla á mann.

 

***

 

Við lásum Rummung ræningja eftir Otfried Preußler. Hún var mjög skemmtileg – ævintýrasaga tveggja vina sem takast á við óprúttinn ræningja og ægilegan galdrakarl. Það sló mig að hún væri bæði vel þýdd og illa. Orðaforðinn og orðfærið er mestmegnis mjög gott en það er svolítill fljótfærnisbragur á þessu. Ég var auðvitað ekki með orginalinn til að bera saman og þýskan mín er nú ekkert frábær – en svona smásvör einsog „jæjajá“ og þannig voru ekki alltaf í samræmi við mína máltilfinningu. Svo er svona smotterí einsog þegar amma spyr „Vitið þið hvað mér finnst?“ og Kasper og Jobbi svara „Hvernig þá?“ – frekar en „hvað?“. Ég ímynda mér að þannig samskipti hafi verið stílhreinni á þýskunni. Þá er líka svolítið um að frágangi sé ábótavant – gæsalappir opnast ekki eða lokast ekki og þvíumlíkt. Þetta er þeim mun leiðinlegra sem bókin er annars falleg og þýðingin – sem Aðalsteinn Ásberg gerði – góð. Auðvitað ber þetta fyrst og fremst stressinu í bókabransanum merki.

 

***

 

Loks er ég búinn að lesa 100 ljóð Geirlaugs Magnússonar. Hún er frábær – Geirlaugur var mjög skemmtilegt skáld og löngu kominn tími til að gefa hann svona út. Sosum ekkert um það að segja annað – þetta er safnrit og ljóðin héðan og þaðan á ferlinum og ég engan veginn nógu vel lesinn í honum til að gagnrýna úrvalið mikið. Bókin er passlega löng og ljóðin í henni eru af ólíkum meiði – mörg fín, sum frábær. Ég myndi einfaldlega vitna í eitt ljóðanna en bókin er uppi á skrifstofu og ég heima í borðstofu.

 

***

 

Gítarleikari vikunnar er John Lee Hooker.

Tímakistan, Girl, Óli Pétur – Undir áhrifum, Héraðið, Fugl/Blupl og matur í Flatey

Bókaklúbbur barnanna kláraði Tímakistuna fyrir helgi. Ég valdi og var alveg ógurlega ánægður með hana. Ég var einhvern veginn búinn að heyra misjafnar sögur um hana og bjóst því aldrei við því að hún væri jafn góð og hún er – kannski að hún hafi ekki haldið dampi allan tímann, kannski það hafi komið í henni smá febrúar í síðasta fjórðungi, en hún lifði það alveg af á þrususkriðþunga eftir frábæran fyrrihluta. Börnin voru líka kát en ekki kannski jafn kát og ég.

Grunnpunkturinn í sögunni er kistan í titlinum. Ef maður fer í kistuna stoppar tíminn. Þannig getur maður sleppt öllum rigningardögum lífsins. Sagan gerist fyrst og fremst í fortíðinni þegar enginn er í kistunni annar en ein prinsessa, sem er metin svo hátt að lífi hennar megi engan veginn sóa, og hún missir þannig af lífinu, ástvinum sínum og öllu hinu. En hún gerist líka í framtíðinni eftir að kisturnar verða almenningseign og allir hafa lagst í hýði til að bíða af sér kreppuástand – sem lýkur auðvitað aldrei af því enginn nennir að leggja á sig erfiðið sem fylgir því að vinna sig upp úr kreppu, allir ætla bara að bíða hana af sér einsog hvern annan rigningardag.

Það vildi til að daginn sem ég byrjaði á bókinni rakst ég á tilvitnun í Andra Snæ á vegg hjá dönskum vini mínum – úr danskri þýðingu á einhverju, man ekki hverju – þar sem Andri vitnar í einhvern rithöfund (man ekki hvern, man ekki neitt!) sem sagði að maður þyrfti að lifa þremur lífum. Einu til að lesa, einu til að skrifa og einu til að bara lifa. Andri bætir svo því fjórða við: Einu lífi til að skutla börnunum í ballett og fótbolta.

Allt kristallar þetta auðvitað upplifunarþrána sem einkennir samtímann – og sjálfsuppfyllingarþrána kannski líka. Ég ræddi það við Nödju um daginn að það væri svo sjaldan sem við gerðum ekki neitt. Þegar ég var lítill fór maður oft á rúntinn með foreldrum sínum – eða ég gerði það allavega – og var ekki á leiðinni neitt. Hér fyrir vestan þvældist maður milli fjarða, fór og keypti ís í Brúarnesti, í Reykjavík enduðum við oft á lulli um bílasölur. Ef við fjölskyldan í Tangagötunni förum upp í bíl eða bara upp á hjól eða reimum á okkur skóna erum við alltaf á leiðinni eitthvað. Meira að segja þegar við förum bara í göngutúr þá er markmiðið heilsan. Það er alltaf markmið, alltaf tilgangur – og maður er eftir því þreyttur og lúinn og burnoutaður og kvíðinn. Þetta er Tímakistan okkar – við breytum rigningardögunum í sólskinsdaga, breytum febrúar í eitthvað ævintýri, af því það þarf alltaf að vera ævintýri, má aldrei vera friður. Afleiðingarnar eru kannski ekki jafn slæmar og í Tímakistunni en ég held samt þetta sé ekki gott.

***

Héraðið eftir Grím Hákonarson, Óli Pétur – Undir áhrifum eftir Baldur Smára Ólafsson og Fjölni Baldursson og Girl eftir Lukas Dhont eru að mörgu leyti mjög ólík verk. Þau eru samt öll realísk lífsreynsluverk – raunveruleg, byggð á raunverulegum atburðum, eða trúverðug samtímaheimild – og hefðu öll getað komið aðalatriðum sínum til skila í mannlífsviðtali eða Facebookstatus. Mikilvægi þeirra getur legið í boðskapnum eða innsýninni en listfengi þeirra liggur í öðru.

***

Það var kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins sem horfði á Girl. Myndin fjallar um sextán ára transstúlku og ballerínu í Belgíu. Nadja valdi. Ég man ekki hvort ég hef lesið eitthvað um að hún hafi verið umdeild, þessi mynd, en mér finnst það sennilegt. Þótt ekki væri nema bara vegna þess að leikstjóri og stjarna myndarinnar eru bæði sís-karlmenn (eða strákur og karl). Þegar við bætist að myndin er mjög brútal og nærgöngul á líkama Löru finnst mér einsog hún hljóti að hafa ýft fjaðrir. Ég nefni það ekki vegna þess að mér finnist það aðalatriði, til hnjóðs eða lofs, en það kannski segir eitthvað um hana.

Lara byrjar á hormónum í upphafi myndar og stefnir á aðgerð í framhaldinu. Hún misþyrmir hins vegar líkama sínum – borðar ekki, sefur ekki, teipar niður kynfærin á sér og fær sýkingar, tekur of stóra skammta af hormónunum sínum gegn læknisráði og þar fram eftir götunum. Þess utan gengur hún afar nærri sjálfri sér í ballettinum – er ævinlega alblóðug og marin eftir strangar æfingar. Afleiðingin er sú að læknirinn tjáir henni að hún sé ekki í neinu ástandi til að undirgangast erfiðar skurðaðgerðir. Það aftur veldur henni meiri harmi sem veldur því að hún gengur enn harðar að sjálfri sér, borðar minna, meiðir sig meira og svo framvegis.

Myndin byrjar í raun sem einföld reynslusaga en verður smám saman að einhverju meira, nær öðrum skriðþunga og öðlast táknrænni víddir. (Þetta er ekki diss á reynslusagnaformið heldur bara lýsing á því hvernig ég sá myndina). Ég ætla ekki að dæma um hvort þær víddir séu lýsandi fyrir transferlið eða kynama en ég held ég treysti mér alveg til að segja að þær séu lýsandi fyrir ákveðnar hliðar hins mannlega ástands – sársaukann sem getur falist í því að eiga líkama. Líf Löru, sem annars er útlits einsog eitthvað kvenlegt ídeal úr Jane Austen sögu – grönn, ljóshærð, glaðleg, yfirveguð (á yfirborðinu) – leysist upp í stríð við líkama sinn, sem hún getur augljóslega ekki beinlínis unnið. Hvert högg á andstæðinginn er högg á hana sjálfa. Úr verður mikil og blóðug píslarsaga.

Endirinn er bara alltílagi. Hugsanlega hefði ég frekar kosið að myndin yfirgæfi bara Löru á einhverjum hversdagslegri tímapunkti. En hún er víst byggð á sannsögulegum atburðum og þá er verið að fylgja einhverjum raunveruleika, reikna ég með. Niðurstaðan er að vísu hvorki sigur né tap – en það er eitthvað við þessa „lokabardaga“, kannski sérstaklega í svona myndum, sem virkar ótrúverðugt.

***

Ég sá Héraðið í Ísafjarðarbíó. Grímur Hákonar er gamall vinur minn – ég skrifaði í Testamentið, sem hann ritstýrði, ég var aukapersóna í Varði Goes Europe, ferðaðist með þeim til Þrándheims, Grímur var stofnmeðlimur í Nýhil og hékk svolítið í Berlín þegar ég bjó þar (og hann í Prag) og hann var einn af nokkrum kommum sem ég umgekkst mikið þegar ég fór suður. Meðal hinna var Erpur Eyvindarson – og ég hló upphátt þegar ég sá að kaupfélagið í Héraðinu hét Kaupfélag Erpsfirðinga. Þótt nafngiftin komi sennilega af búinu þar sem myndin er tekin upp frekar en að þetta sé uppgjör milli Erps og Gríms, sem ég held að hafi verið bekkjarfélagar í gamladaga.

Það eru fallegar stemningar í Héraðinu og góður húmor. Einhvern veginn vinna samt húmorinn og ljóðrænan aldrei nógu vel saman, frekar að þau dragi hvert úr öðru. Sagan um samskipti konunnar við kaupfélagið er að mestu leyti trúverðug (og reyndar sönn, skilst manni) og hefði neglt mann, hugsa ég, ef sjálfsmorð karlsins hefði verið betur undirbyggt. Myndin gerir því skóna að hann hafi drepið sig vegna þess að hann meikaði ekki lengur að vera samsekur kaupfélaginu – en við fáum aldrei að sjá hversu kúgaður hann er eða slíkar afleiðingar af klögum hans að það réttlæti sjálfsmorð. Allur skaði er ekonómískur og fjarri miðju sögunnar – við missum af harminum. Nú veit ég vel að fólk drepur sig oft alveg meira og minna að ástæðulausu, en í þessari tilteknu mynd er þetta samt nöfin sem restin á að hreyfa sig um – kannski hefði verið áhugavert að fara bara meira út í það hvort hann hafi ekki bara drepið sig af því hann var þunglyndur og í burnouti. En hitt er einhvern veginn skilið eftir hjá manni sem skýringin. 

Í myndinni er gert pláss fyrir boðskap Kaupfélagsins, einsog Grímur nefndi í einhverju viðtali, en hann er samt bara fluttur sem vondukallaboðskapur. Það er alveg sama hvaða rök Svarthöfði ber á borð – tilfinninga- eða ísköld – þau lifa ekki af þá staðreynd að hann er Svarthöfði og vill ekkert nema illt. Siggi Sigurjóns – sem er ekkert minna en stórkostlegur sem kaupfélagsstjórinn – fær að flytja sín rök en myndin sjálf tekur skýra afstöðu gegn þeim. Svar Ingu við mögulegu hruni innviða í sveitinni ef kaupfélagið ber sig ekki er bara að allt sé ódýrara annars staðar og börnin vilji ekki búa í sveitinni og panti sitt dót af Amazon. Nú held ég það sé alveg rétt að svona kaupfélög séu óttalegar mafíur og svífist oft einskis – en það á líka við um stórmarkaðina fyrir sunnan sem grafa undan kaupfélaginu og það á sannarlega við um Amazon. Þetta er einkenni á kapítalismanum frekar en bara kaupfélaginu – og lausnin er ekki endilega að það vanti samkeppni (þótt einokunarkapítalismi sé sannarlega eitt ljótasta form kapítalismans). Þessi veruleiki er flókin en einhvern veginn birtist hann manni í Héraðinu einsog hann sé einfaldur – einsog veruleikinn í sveitinni hafi frosið árið 1950.

Að því sögðu fannst mér myndin að mörgu leyti mjög góð. Það er eitthvað í stóra boganum sem klikkar og myndir treystir ekki áhorfandanum til að taka afstöðu með Ingu og undirstrikar því um of réttlátan málstað hennar – en sögupersónur eru vel skrifaðar og vel leiknar, allar senurnar í myndinni eru góðar og hún er stappfull af fegurð, ljóðrænu og húmor.

***

Óli Pétur – Undir áhrifum er stutt heimildarmynd eftir Baldur Smára Ólafsson og Fjölni Baldursson. Sá fyrrnefndi er líka æskuvinur minn en hefur ekki nema að litlu leyti lagt fyrir sig kvikmyndagerð. Myndin er gerð að ósk söguefnisins, Óla Péturs Jakobssonar, sem ég kannaðist við líka. Óli var eins illa haldinn af alkóhólisma og nokkur maður getur orðið, og alkóhólisminn dró hann til dauða áður en búið var að klippa myndina.

Myndin samanstendur fyrst og fremst af viðtölum við tvo æskuvini Óla og svo myndböndum af Óla á götunni í Reykjavík með vinum sínum þar, sem eru allir rónar einsog hann. Hún segir manni sosum ekkert nýtt hvorki um sjúkdóminn eða götulífið í Reykjavík eða reiðina sem býr í því fólki, vonbrigðin og kærleikann og samstöðuna sem einkennir líf þeirra. Hún sýnir manni Óla einsog hann var á lokametrunum og eins einkennilega og það nú kannski hljómar þá sér maður hvað hann átti mikla fegurð til í sér, mikla mýkt og gæsku, meira að segja þegar hann var á botninum. Baldri og Fjölni tekst í þessari mynd að ná af honum snappsjotti – birta mannlýsingu, portrett – og á sama tíma fær maður líka brot úr samfélögum, annars vegar litlu horni Ísafjarðar á níunda áratugnum og hins vegar litlu horni Reykjavíkur samtímans. Mér fannst myndin mjög falleg, þótt það spili kannski rullu að þetta sé fólk sem maður þekkir.

Myndin er öll á YouTube.

***

Ljóðabókin Fugl/Blupl eftir Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur er önnur ljóðabók hennar. Sú fyrri hét Uss. Sæmundur gefur báðar út. Ég mundi ekki nema óljóst eftir Uss og fór og náði í hana upp í skáp þegar ég var búinn að lesa Fugl/Blupl. Hún var góð en átakalausari en Fugl/Blupl, þar sem flakkið milli einhvers sem er einsog naíft normkor – rosalega tilþrifalaus en indæll texti:

Á þessu hjóli er ég eins og
drottning í hásæti mínu

og þess sem er ákafari listræna:

Sniglaslefið tindrar í dagsbirtunni.
Töfraskjaldbakan er ekki farin.

er miklu meira. Það er einsog Steinunn sé að þreifa sér leið í átt að einhverjum svona William Carlos Williams fílingum. Annars vegar í hjólböru- og ísskápastemningum og hins vegar í meiri Paterson. Ég fíla þetta mjög vel og ekki síst að það sé ósamræmi og spenna, rödd bókarinnar sé stundum einsog hana dreymi og stundum einsog hún sé glaðvakandi.

***

Ég skrifa nú ekki alltaf um matinn sem ég ét á veitingastöðum. En við fórum í Flatey á síðustu helgi og átum þar sælkeramatseðil. Ég fékk matseðil 2 minnir mig – krækling í forrétt, tacos með reyktum silungi (minnir mig) í sörpræs, lamb í aðalrétt og súkkulaðiköku á eftir. Þetta var ein allra besta máltíð lífs míns og sérstaklega var kræklingurinn engu lagi líkur. Nadja var sammála mér og við eyddum máltíðinni mest megnis í að ræða bestu máltíðir sem við hefðum fengið áður (margar þeirra voru í Víetnam – mín besta var mexíkósk paella í New York og eftirlætis Nödju á einhverjum svínslega dýrum veitingastað í Frakklandi áður en við kynntumst).

Ég kann annars lítið að rýna í mat. Hann var góður. Kræklingurinn var mjög stór og bráðnaði bókstaflega í munni – og auðvitað úr firðinum. Það var svolítið kikk í soðinu/sósunni.

***

Gítarleikari vikunnar er Geeshie Wiley. Það er til slatti af gömlum blússöngkonum – og fyrstu vinsælu blústónlistarmennirnir voru konur með stórar hljómsveitir á bakvið sig, Ma Rainey, Bessie Smith og þær allar. Deltablúsgítarleikararnir, sem eru kannski samt aðeins eldri og upprunalegri, slógu ekki í gegn fyrren seinna. Í þeim hópi eru afar fáar konur og þær sem eru þar eru flestar annað hvort bara söngkonur eða píanóleikarar og söngkonur, einsog til dæmis Louise Johnson. En Geeshie Wiley er sem sagt undantekning hérna – líkt og Memphis Minne og Elvie Thomas, vinkona Geeshiar og ferðafélagi. Geeshie tók upp sex lög fyrir Paramount og Elvie tók upp tvo – og svo hurfu þær bara, eða þannig. Það veit enginn hvað þær hétu í raun eða hvar þær fæddust eða dóu, þótt það séu alls konar kenningar, og það eru engar myndir til af þeim heldur. Mér finnst Geeshie algerlega geggjuð og þetta er besta lagið hennar, eða allavega það frægasta.

De kommer att drunkna i sina mödrars tårar; Orange is the New Black; The Good Place, s. 3; Us; Continuum með John Mayer; Antman; Captain Marvel, Sideways; Once Upon a time in Hollywood; Ife og Óskar; viðtal við Vanessu Place; Hvernig á að passa afa; Tígrisdýr í garðinum; og þegar ég hitti Ko Un

Ég hef lítið lesið síðustu daga – eða lesið hægt, bók um sögu blússins sem ég er hvergi nærri búinn með – en mikið horft og ekkert dokumenterað. Það eru margir póstar sem þarf að segja frá og ég ætti að gæta mín á að segja ekki of mikið um hvern og einn. Svo er reyndar líka merkilegt hvað þetta er fljótt að hverfa úr minninu.
***
De kommer att drunkna i sina mödrars tårar eftir Johannes Anyuru. Hún fjallar um konu úr hliðarveruleika sem rankar við sér í miðri hryðjuverkaaðgerð. Í veruleikanum sem hún á heima í átti þessi aðgerð sér líka stað, þótt hún tæki ekki þátt í henni, og varð til þess að fasistar tóku völdin og múslimar urðu kúgaður og pyntaður minnihlutahópur með svipuðum aðferðum og í helförinni og/eða abu ghraib. Konan lifir aðgerðina af og endar á hæli og rithöfundur – Johannes Anyuru sjálfur? – fer reglulega og ræðir við hana um hennar sýn á lífið.
Þetta er í senn sci-fi og harðkjarna raunsæi – sósíal-realísk bók sem samt einblínir á sálarlífið. Mjög góð og meðmælist innilega. Eini gallinn, fyrir mig, var einhver asnalegur kjánahrollur yfir vissum elementum í hliðarveruleikanum. Hann var því betri sem hann var realískari en eitthvað hallærislegur þegar farið var að tala um „sensogram“ (sem er Facebook með bara texta) og annað álíka dót í hliðarveruleikanum. Fullkominn óþarfi – passar ágætlega í annars konar bækur en reif mann alltaf upp úr þessari, svona einsog maður væri annað veifið staddur í einhverju Andrésblaði.
***
Kláraði lokaseríuna í Orange is the new black kvöldið áður en við áttum að fara frá Hondúras (við lentum í afar dýrum vandræðum og lögðum ekki af stað heim fyrren degi seinna en við ætluðum). Eftirminnilegasta senan fyrir mig verður alltaf sú þegar Blanca ákveður að elta manninn sinn, sem hefur verið vísað úr landi, og flýgur til San Pedro Sula: Hvað ertu að gera hér, í morðhöfuðborg heimsins, þegar þú gætir verið hvar sem er annars staðar? spyr Diablo. Fyrir ástina, svarar Blanca.
Ég átti hins vegar völ á því að taka ástina með mér frá San Pedro Sula og er mjög þakklátur fyrir það.
Lokaserían var langdregin og það gerðist ekkert nýtt eða áhugavert í henni. Það var talsvert verið að strjúka súper-aðdáendunum og væmnast yfir því að þetta væri búið – sem var ábyggilega gott fyrir þá sem voru djúpt sokknir en minna fyrir okkur hin sem vorum farin að missa áhugann. Mér finnst líka bara almennt fleiri og fleiri svona seríur lenda í vandræðum með söguþráðinn – þetta er allt byggt í kringum einhverra narratífuhúkka og þegar þeim sleppir áttar maður sig á því að persónurnar eru, í allri sinni djúpu baksögu, voðalega keimlíkar – eða a.m.k. einsog þær hafi allar orðið til í sama think-tankinu sem mannað var fólki með mjög keimlíkan og þröngan bakgrunn (kannski ólíkan húðlit og kynhneigð en útskrifað úr sömu skólunum, með sömu gráðurnar) hafandi lesið sömu bækurnar).
Áhugaverðast í lokaseríunni var útúrdúrinn – fangabúðir hælisleitenda og flóttamanna – en virkaði eiginlega bara fyrir þá karaktera sem við vorum búin að kynnast. Egypska kynfæralimlesta lesbían sem þaut inn í líf okkar og hvarf svo aftur markaði lítil spor í tilfinningalíf mitt – eða svona, bara einsog lítil frétt í blaði hefði gert. Mjög sorglegt en ég náði ekki að kynnast henni að ráði og kannski sérstaklega ekki vegna þess að höfundar reyndu að tvíhenda henni ofan í kokið á mér.
Annars fínt. Ég er að kvarta meira en þetta átti skilið.
***
Good Place – 3. sería. Eftirlífskómedía sem er skemmtileg meðan ég horfi á hana – kannski bara af því allir eru svo myndarlegir – en ég man ekki alveg um hvað þetta var. Fallegt fólk held ég, sem er dautt. Ted Danson alltaf flottur.
***
Kvikmyndin US virkaði ágætlega. Fín hrollvekja. Svolítið einsog það væri búið fullmikið búið að túlka merkingu hennar ofan í áhorfendur – táknsagan aðeins of augljós, ég hefði viljað vinna meira af vinnunni sjálfur og að merkingin væri svolítið óljósari. Merking myndlíkingarinnar er annars sirka: Byltingin er að koma og ríkt forréttindafólk verður skorið milli eyrnanna og heimurinn ferst og sennilega er byltingarfólkið skítugt og ljótt og vont og hættulegt (einsog raunar líka í Tímakistunni, sem við börnin erum að lesa – bæði verk sem virðast hálfvegis með byltingunni í liði en sjá hana líka sem stjórnlaust eyðileggingarafl). Þetta birtist okkur sem zombísaga með því tvisti að zombíarnir eru doppelgangerar.
Ég hélt hún væri meira artí. Var í þannig stellingum. Annað hvort meira Guillermo del Toro eða Romero – en þetta var meira bara svona Single White Female. Gæti algerlega orðið einhvers konar klassík en pródúksjónin er samt mjög meinstrím og hefði mátt vera vogaðri.
***
Gítarnörd elska John Mayer. Þetta hefur mér skilist á poddköstum og youtubemyndböndum. Hann er með besta sándið, tæknilega flottastur, spilar og syngur af ofsalegri tilfinningu. Svo er hann líka mjög sætur. Ég hef nokkrum sinnum reynt að gefa þessu séns en aldrei fattað neitt. Þegar Josh Scott (pedalahönnuður; JHS) nefndi svo á youtubinu sínu að Continuum með John Mayer, frá 2006, hefði breytt gítarheiminum ákvað ég að gefa þessu séns.
Þetta er í sjálfu sér fínasta popp. En sennilega ekkert fyrir mig. Það virðist ekki mega gefa út tónlist nema ofpródúsera hana svolítið hressilega. Og þótt gítarleikurinn sé að sönnu góður fer bara frekar lítið fyrir honum – nema kannski í Bold as Love koverinu.
Það sem mér finnst skemmtilegt í gítarleik – það sem kveikir í mér – er stjórnleysið og hávaðinn. Þegar skepnunni er hleypt á skeið og reiðmaðurinn gerir sitt besta til að halda aftur af henni – missa ekki sjónar á bítinu og reyna svona sirkabát, en ekki alveg, að halda sig innan hins melódíska slóða. Þetta gera Charley Patton og Son House, þetta gera Hendrix og Stevie Ray, þetta gera Django og Wes – meira að segja Steve Vai og Eddie Van Halen gera þetta. John Mayer reynir aldrei á þolmörk þessa nornakústar, hvorki í lagasmíðum né spilamennsku, heldur er hann svolítið einsog … hérna … sko. Þegar ég var barn og unglingur lék ég oft tölvuleiki. Einhvern tíma uppgötvaði ég síðan svokölluð cheat. Ef maður hélt niðri fimm ólíkum tökkum í 10 sekúndur og ýtti svo á tvo aðra fékk maður endalaus líf og varð ódrepandi og gat vaðið í gegnum öll borðin. John Mayer er svolítið svoleiðis. Rífur í sig tölvuleikinn einsog alger meistari – án þess að vera meistari, án þess að taka nokkra áhættu. Þetta er einsog leiðinlegustu hliðar Claptons, nema leiðinlegra. Wonderful Tonight á fínna kókaíni.
***
Ég horfði á Antman. Hún var held ég fín. Mest til að drepa tímann í flugvél. Minnir að mér hafi þótt hún ágæt.
***
Ég horfði líka á Captain Marvel. Ég man að mér fannst hún betri en Antman. En um hvað var hún aftur? Einmitt já, hún hélt hún væri geimvera en var mannvera (spoiler alert, sorrí). Ætli mér hafi ekki þótt leikkonan góð líka, ég held það. Söguþræðirnir í þessum myndum renna svolítið saman fyrir mér. En ég fíla þær samt. Það þarf ekki allt að vera eftirminnilegt og það er ekki eini mælikvarðinn á gæði.
***
Sideways. Gamall klassíker. Líka í flugvél. Ekki nógu woke, held ég, sennilega myndi því fólki finnast hún fullmikið normalísera eitthvað toxískt. Hún fjallar um tvo misheppnaða náunga. Annar á bágt með að leyfa fólki að elska sig af því hann hatar sig sjálfur svo mikið og hinn á bágt með að elska aðra, sennilega af því hann er of sjálfselskur. Þeir fara í ferðalag um vínekrur Kaliforníu til að velja vín í brúðkaup þess sjálfselska – sem hefur einnig hugsað sér að ríða mjög mikið á þessum lokametrum fyrir hnappheldu, og koma hinum vonlausa vini sínum upp á kvenmann. Bæði tekst í sjálfu sér en hefur alls konar neikvæðar afleiðingar.
Þegar myndin var gerð hafði enginn vit á víni. Að hafa vit á víni – eða bjór eða ólífum eða súrdeigsbrauði eða öllu hinu – var eitthvað sem oflátungar höfðu. Það þótti mjög fyndið að heyra þessi merkikerti rífast um merlot. Þetta hefur breyst mjög mikið. Nú hafa allir skoðun á merlot – eða, flestir eru komnir í náttúruvín, held ég. Eru þau líka merlot? Ég er svo mikill oflátungar að ég er yfir þetta hafin – grobba mig beinlínis af því að kaupa bara vínflöskur út frá verðinu (ég er svona 2.500-3.000 króna flösku maður í ríkinu – fer hærra í fríhöfninni og geymi þær flöskur fyrir sérstök tilefni). Í alvöru er þetta samt bara af því ég hef ekki tíma til að vita allt og það eru of mörg vín í ríkinu.
***
Once upon a time in Hollywood. Nú er hætt við að ég verði ofsalega margorður en ég ætla að standast það. Þetta er besta mynd Quentins Tarantino frá Pulp Fiction – eða í það minnsta Kill Bill – og hugsanlega sú sem höfðaði mest til mín. Ég er orðinn rosalega þreyttur á sögum sem draga mig áfram á plottpunktum og vendingum – þessu netflix-heilkenni, keppninni um athygli okkar, þetta horfðu á mig horfðu á mig horfðu á mig – og var eiginlega bara mjög þakklátur fyrir að fá svona sögu þar eru engir eiginlegir plottpunktar fyrren í lokin. Fyrstu tveir og hálfi tíminn eru bara einsog ljóð úr kvikmyndaminnum og fegurðarblæti – svo kemur ofsalegt þriggja mínútna kaþarsis. Knús og kómedí í lokin.
Ég lenti í stuttri rimmu um myndina á Facebook – við Gunnar Smára. Hann tók woke-afstöðuna og las í þetta kvenhatur, barnaskap og hægrimennsku – kvað meira að segja upp Reagan og sagði myndina andsnúna hippum. Gekk meira að segja svo langt að segjast ekki vita „hvers kyns fólk Manson og hans lið var“ – það væri kannski bara búið að demónísera þau svona.
Smári er yfirleitt mjög læs á stórsöguna, þótt hann eigi til að missa sjónar á díteilum og mikilvægum undantekningum, en eitthvað held ég hann hafi misst úr nokkra kafla í menningarsögunni þegar hann er farinn að lesa Reaganisma út úr höfundarverki Quentin Tarantino og einfalda hippa úr Manson og kompaní. Nema bara veröldin sé öll komin á hvolf.
Annars er það vel að merkja alveg satt að það er ýmislegt misfagurt í myndinni og sjónarhornið og karakterarnir eru ekki endilega neitt æðislega réttlát – þetta er mynd um misheppnað en fallegt fólk og sjónarhornið er á tíma sem voru misheppnaðir en fallegir. Einsog allt fólk og allir tímar eru misheppnuð og falleg strax og maður stígur upp úr eigin skinhelgi og sér það í perspektífi. Þetta lærði ég af hippanum Allen Ginsberg (raunar mætti segja að Howl/Ýlfur Ginsbergs sé svipað byggt og af álíka fetisjisma fyrir eigin sögu – Ýlfur fjallar líka um gallað og ljótt fólk sem er fallegt og heilagt).
Það má reyndar lesa eitthvað í söguna um samtímann – ég segi það alls ekki – og það er ekki allt einhver dýrðarsöngur um (móralska) vinstrimenn. Ég held það sé ekki tilviljun að woke-drottningin Lena Dunham er látin tilheyra Mansongenginu. Og það er ekki tilviljun að þau halda ræður um skemmtanabransann – sem hafi gert þau að morðingjum, spillt þeim. Móralska krafan sem hangir yfir Hollywood – sem er ásamt tölvuleikjahönnuðum og tónlistarmönnum kennt um að búa til siðleysingja, morðingja, sjálfsmorðingja, aumingja, úrhrök og svo framvegis – er þrúgandi og Tarantino hefur ábyggilega fengið kaþarsis út úr því að slátra henni bara svona metaforískt. Og það má alveg halda því til haga að þangað til á allra síðustu árum kom þessi siðsemiskrafa ekki síst frá hægri – og a.m.k. ekki vestræna vinstrinu – og náði þá hápunkti sínum hjá áðurnefndum Reagan og hans ágætu frú, Nancy.  Jú og Tipper Gore líka – ef við viljum kalla hana „vinstri“ þá er vinstrið ekki alveg saklaust af þessu heldur.
***
Continuum gengur hér í bakgrunninum. Þetta er nú soldið næs þótt þetta sé gelt. Svo það sé sagt. Ég er náttúrulega á rétta aldrinum fyrir adult contemporary (sem ég hafði annars dellu fyrir þegar ég rétt skriðinn yfir tvítugt). Hann mætti nú samt syngja af aðeins minni tilfinningu stundum, hann John. Það er ekki hægt að ná neinum toppum ef maður byrjar alltaf í botni. En hann getur líklega ekkert gert að því að vera svona rosalega tilfinningasamur maðurinn.
***
Ég fór á Bossa Nova tónleika í Edinborg. Það var líka eins gott – missti af Salóme Katrínu á Tjöruhúsinu og mun missa af austurrísku sveitinni Fräulein Hona á Húsinu á laugardag (erum að fara í Flatey með gjafakort til að fagna 12 ára brúðkaupsafmæli). Ef ég hefði misst af öllum þremur hefði ég orðið mjög leiður.
Ife Tolentino og Óskar Guðjónsson léku aðallega lög eftir – eða í útsetningu – Joao Gilberto. Þetta var bæði skemmtilegt og fróðlegt. Bossa Nova er í grunninn samba-taktar spilaðir á klassískan gítar – endurframleiðsla á nístandi toppum ásláttarhljóðfæra á hljóðfæri sem hefur enga toppa, er náttúrulega kompressað, ljúft og tamið. Hitinn og þunginn hvíldi á Ife á gítarnum allan tímann – hann söng líka, í þessum sérstaka söngstíl sem á uppruna sinn í einhverju héraði í Brasilíu sem ég man ekki hvað heitir, og var tekinn upp í Bossa Nova (sem þýðir bara „nýbylgja“, vel að merkja). Óskar leikur sér að þessu – að vísu var hann stundum aðeins of mikið á sjálfstýringu, en það er helvíti mikið á spunasólóista lagt að halda 100% einbeitingu allan tímann. Meira að segja Hendrix datt öðru hverju úr zóninu. Ég tala nú ekki um þegar menn eru hangandi í bíl allan daginn milli gigga og spila á hverju kvöldi. Hann átti líka geggjaða spretti og var auðvitað Óskar Guðjónsson alla tónleikana, og það leika ekki margir eftir, og ég er ekki að segja að þetta hafi ekki verið frábært!
***
Ég hlustaði á podcast-viðtal við Vanessu Place, ljóðskáld sem skrifaði bók sem er í grunninn ekkert annað en sægur af nauðgunarbröndurum aðallega frá sjónarhóli gerenda. Einsog þið getið kannski ímyndað ykkur tók samtíminn bókinni ekki alveg fagnandi og hún var auðvitað afboðuð og fær sjaldan boð um upplestra eða annað í bókmenntakreðsunum í Bandaríkjunum. Hún var að vísu alltaf umdeild og var a.m.k. búið að hálfafboða hana fyrir að tísta allri Gone with the Wind, orðrétt, á twitter. Það þótti mjög ljót endurvinnsla á rasískri bók en vakti aðallega athygli og úlfúð sem hálfgerð framhaldsathygli og framhaldsúlfúð í óveðrinu þegar Kenneth Goldsmith – postuli „uncreative writing“ og fundinna texta – las upp krufningarskýrslu Michael Browns á uppákomu í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum. Þá var Vanessa afboðuð eiginlega bara af því fólkið var hvort eð er með kvíslarnar á lofti og hún þvældist fyrir þeim á leiðinni heim. Rape Jokes hefur verið í Amazonkörfunni minni um nokkra hríð en ég hef ekki keypt hana enn – en hef heyrt Vanessu lesa næstum alla bókina á netinu. Þetta er fyndið og alls ekki fyndið og hrikalegt og allt í senn. Merkingarlítið sem stakir brandarar en nær einhverjum skriðþunga svona hver á fætur öðrum í deadpan flutningi innanum fólk sem veit ekkert hvernig það á að bregðast við.
Annars er hún líka umdeild fyrir fræðistörf sín. Hún er lögfræðingur og raunar lögmaður – ver verstu skítseyðin, fólk sem er sakað um nær ólýsanlega ljóta glæpi – og hefur skrifað bók þeim og sér til varnar. Þá bók hef ég lesið og man kannski helst eftir því sem hún skrifaði um DNA-rannsóknir í glæpamálum og oftrú okkar á þá annars ágætu tækni. Jú og almennt um takmarkanir laganna og hvað við eigum erfitt með að sætta okkur við að lögin skuli ekki leysa öll vandamál, að réttlætið sé hreinlega ekki alltaf í boði.
Mér var reyndar bent á hvað þetta viðtal væri hræðilega pródúserað. Þetta er símaviðtal á einhverju heimapoddkasti og gaurinn sem tekur það er með meira agenda en Vanessa, sem er kúl. Annars er svo mikið af ljóðapoddköstunum sem ég hef hlustað á svo brjálæðislega lo-fi – bara eitthvað fólk með iphone á milli sín í klukkutíma – að ég tek ekki eftir svona lengur.
***
Við Aino lásum Hvernig á að passa afa eftir Jean Reagan. Hún fjallar um strák sem passar afa sinn meðan foreldrar hans fara út. Er eins konar leiðarvísir. Textinn er skrítinn, ég átta mig ekki á því hvort bókin er illa þýdd eða bara illa skrifuð, en þetta er ruglingslegt. Aino finnst hún samt skemmtileg. Verksmiðjulegar teikningar.
Við lásum líka Það er tígrisdýr í garðinum eftir Lizzy Stewart. Hún er nú ekki illa þýdd! Enda amma Ainoar Magneu og hálfnafna, Herdís Magnea, sem þýddi og hún kastar sko ekki til hendinni. Bókin fjallar um stelpu sem leiðist heima hjá ömmu sinni (sem er held ég undarlegur og ókunnur veruleiki fyrir Aino og ömmu hennar) og er send út í garð á þeirri forsendu að þar sé tígrisdýr, ísbjörn og ýmislegt fleira ævintýralegt. Stelpan er vantrúuð á þetta en fer samt og auðvitað stendur þetta allt heima. Mjög skemmtileg bók og fallegar teikningar.
***
Það er kannski ekki beinlínis menningarviðburður en ég gekk í fangið á einu uppáhalds ljóðskáldinu mínu á dögunum, hinum suður-kóreska Ko Un. Það var eiginlega alveg fáránlegt. Ko Un var einn allra líklegasti kandídatinn til þess að fá nóbelsverðlaun þar til hann lenti í einhverjum áreitniskandal sem ég kann ekki mikið um – en held hafi verið mínímal – og svo þegar akademían lenti sjálf í epískum áreitnisskandal – fremur maxímal – þá dó sú von held ég alveg. Ko Un er samt alltaf og verður eitt allra besta skáld samtímans – ég held að enginn tali jafn sterkt til mín. Og svo bara birtist hann hérna – einsog hver annar Alexander Skarsgård (sem Andri Snær dró mig einu sinni út í bjór með á Tjöruhúsinu).
Ég var lasinn heima og fékk skilaboð frá kunningja mínum á Flateyri, Eyþóri Jóvinssyni, sem sagði Ko Un hafa rambað inn í bókabúðina sína. Í svona fimm mínútur sat ég bara og velti því fyrir mér hvort ég ætti að gera eitthvað. Hvort ég væri of gamall til að láta einsog ég væri fimmtán ára, árið væri 1965 og Ko Un væri John Lennon. Átti ég að fara á áritunarveiðar? Var ég of kúl fyrir það? Var kannski ekkert lúðalegra en að vera of kúl fyrir áritunarveiðar þegar maður veit af átrúnaðargoði á næstu slóðum?
Á endanum ákvað ég að ég gæti ekki minna gert en farið úr húsi og náð í bækurnar mínar ef ég skyldi fá tækifæri til að biðja um áritun. Ég hjólaði niður á kontór, náði í þær upp í hillu og þegar ég kom út aftur var Ko Un og fjölskylda hans fyrsta fólkið sem ég sá. Hann tók mér vel og áritaði bækurnar og þau sögðu mér aðeins af ferðum sínum og að þau væru að vonast til að það yrði einhver viðburður í Reykjavík þann 23. ágúst en strandaði á einhverju, sem ég áttaði mig ekki á hvað ætti að vera. Svo þakkaði ég bara fyrir mig af öllum innileik og lét mig hverfa. Ég er ekki viss um að maður græði neitt á því að kynnast átrúnaðargoðum sínum – það er kannski bara til að gera út af við galdurinn. Hluti af mér er svo auðvitað á því að ég hefði bara átt að elta hann út á enda veraldar, sitja við fótskör hans og nema eilífðarvísindin. En það verður ekki sleppt og haldið og sennilega hefði fjölskyldunni hans bara þótt það vandræðalegt.
***
Gítarleikari vikunnar er John Mayer. Ég reyndi að finna eitthvað live og svolítið hrátt en hann verður bara ekkert hrárri en þetta. Samt mjög góður – og auðvitað frábært lag.

Rango, Kvika, Aftur & aftur, Eitur fyrir byrjendur og Monument Valley II

Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á Rango. Vestra um samnefnt gælukameljón sem villist í villta vestrinu og lendir í smábæ sem er undir hælnum á illmennum. Einsog gefur að skilja er Rango reyndar nafnlaus einsog allar alvöru vestrahetjur – hann velur sér nafnið Rango af skilti. Rango er hugleysingi en góður leikari og tekst að sannfæra alla um að hann sé mikill byssufantur – klaufast svo til þess að drepa hauk sem ofsækir bæjarbúa og er gerður að skerfara. En bæjarstjórinn hefur sölsað undir sig allt vatn bæjarins og bæjarbúar eru bókstaflega að drepast úr þorsta. Nú þarf Rango að taka á honum stóra sínum – en auðvitað ekki fyrren hann verður fyrst vonlaus um eigin getu, rekst á „anda vestursins“ og fær sjálfstraustið aftur og klaufast enn á ný til þess að bjarga öllu.

Það er áhugavert hvernig það er aldrei sá hæfasti í barnabókum sem bjargar málunum, heldur sá hugprúði, klaufalegi, indæli sem sveiflast milli góðlegs mikilmennskubrjálæðis og eyðileggjandi minnimáttarkenndar. Og hann bjargar yfirleitt ekki málunum með hæfni sinni – sem er ekki til staðar – heldur hugrekki sínu. Að láta bara vaða, reyna, gera sitt besta. Og aldrei aðstoðarlaust, vel að merkja, heldur með því að blása hinum í brjóst sams konar fífldirfsku.

Í myndinni er líka einhvers konar umhverfisádeila og kapítalísk ádeila. Hvorugt er óalgengt í barnaefni – og stórmerkilegt raunar hversu mikil kapítalísk ádeila kemur úr Hollywood almennt. Ég man varla til þess að hafa séð kaupsýslumann í bíómynd sem var ekki fyrst og fremst einhvers konar illmenni. Ekki ætla ég að verja kaupsýslumenn eða kapítalismann en það segir manni eitthvað að kapítalisminn skuli framleiða áróður gegn sjálfum sér – og maður verður alveg svolítið nojaður af því.

***

Ég las Kviku eftir Þóru Hjörleifsdóttur. Þetta er mjög stutt bók og skrifuð í stuttum einföldum mónólógum. Hún fjallar um stelpu sem byrjar með strák. Strákurinn er manipúlerandi kúgari og stelpan svona týpa sem vill að öllum líki vel við sig og setur því engum mörk í samskiptum. Eða í það minnsta ekki honum. Hann notar þetta til að ganga sífellt lengra og lengra – heldur framhjá og kennir henni um það, pissar á hana, tekur hana óviljuga í rassinn og svo framvegis og svo framvegis.

Söguröddin er rosalega ung – eða naív. Það skapar ákveðinn ugg. Manni finnst einsog stelpan muni aldrei segja stopp. Ég man ekki hvort það kemur fram hvað þau eiga að vera gömul í bókinni en mér finnst oft einsog þau séu 15 ára – þótt þau séu líklegri til að vera 25. Ég man eftir svona tilfinningum sem unglingur – bæði þessari ofsalegu löngun til að þóknast og þessari fórngjörnu ást en líka þessari rosalegu löngun til þess að stýra og láta elska sig (ég held að svona skíthælahegðun sé oft það – fólk að láta reyna á ást hins, láta hinn aðilann sanna ást sína með að þola viðbjóðinn).

Bókin er svolítið „ritlistarleg“ – einsog margar bækur síðustu árin. Ég kann ekki að greina það betur, eða hef ekki lagt mig í það, en það er einhver svona tónn – og tilfinning fyrir því að hlutirnir hafi verið „hugsaðir til enda“. Að jafnaði er það talið gott en ég er alls ekki sérstaklega hrifinn af því. Það vantar tilraunina og óvissuna. Ég er nánast að kalla eftir því að bækur séu verr skrifaðar, eins undarlega og það nú hljómar, það sé meiri tensjón í sjálfri hugsuninni.

Ég hugsaði svolítið um feminískt raunsæi vs. sósíal raunsæi. Það er hættulegt að greina þannig eigin tíma í bókmenntum en mér finnst einsog við lifum á tímum feminísks raunsæis. Efnistök og boðskapur femínismans eru mikilvæg og stíllinn á ekki að vera fullyrðandi eða debaterandi heldur presenterandi – reynslan er í forgrunni, reynsluheimar. Eitthvað sem hefur raunverulega gerst eða gæti raunverulega gerst eða er raunverulega að gerast – og presentasjón af tilteknum pólitískum veruleika þar sem X er undirokaður og Y undirokar. Ekki beinlínis greining á valdi – og raunar alls ekki – heldur sýning á valdi.

Þannig er Aftur & aftur eftir Halldór Armand, sem er önnur bók sem ég las í vikunni, alveg úti á túni. Hún er af Bret Easton Ellis / Douglas Coupland / David Foster Wallace skólanum. Mikil samtímagreining, miklar tíðarandaveiðar, langlokur um tækni og framtíð. Samt er hún reyndar ekkert úti á túni og rekst raunar alls ekkert á Kvikuheiminn – það er meira einsog þessar strákabókmenntir eigi sér stað á annarri tímalínu. Bergur Ebbi er þarna líka. Dagur Hjartar og Jónas Reynir eiga snertipunkta þarna inn en ekki jafn afgerandi.

Aftur og aftur fjallar um ungan strák sem lendir í því að verða forstjóri startöppfyrirtækis, nánast bara af því eigandanum finnst hann eitthvað svo töff. Og hún fjallar líka um eigandann – fyrrum trommuleikara í sveitaballabandi sem svo fer að smygla dópi en verður loks farsæll kaupsýslumaður. Báðir eru forréttindamenn – sá ungi er ráðherrasonur og sá eldri sonur útrásarvíkings sem lendir í fangelsi.

Ég las Kviku í striklotu á ströndinni í Útila meðan krakkarnir voru að snorkla og byrjaði svo á Aftur & aftur strax og ég kom heim og ég man að mér fannst fyrst einsog ég væri núna kominn inn í hausinn á stráknum í Kviku. Strákahaus sem er fyrst og fremst nógu upptekinn af sjálfum sér og því nýjasta sem ber fyrir augu til þess að eiga gríðarstóra blinda bletti (ég er að tala um söguhetjuna, vel að merkja, ekki höfundinn). Einsog hann hafi raunverulega engan áhuga á líðan einstaklinganna í kringum sig (en þeim mun meiri á stóru sögunni, samfélagslíðaninni). Enda lendir söguhetjan í því í tvígang að vera sagt upp af kærustum sem hann virkar annars frekar áhugalaus um – og það kemur honum gersamlega í opna skjöldu og hann verður mjög leiður. Þessi hugdetta entist ekki mjög langt inn í bókina – til þess eru þeir of ólíkir karakterar – en samt eitthvað. Reyndar eru karakterarnir tveir í Aftur & aftur nógu líkir í hugsun til að vera næstum sami maðurinn á ólíkum lífsskeiðum. Það vantaði talsvert upp á að aðskilja raddir þeirra – ef það var á annað borð ætlunin.

Báðar þessar bækur eru reyndar brjálæðislega áhugaverðar, vel skrifaðar og vel hugsaðar. Ég veit ekki hvort það var bara einhver gremja í mér, þreyta eða annað, en þær náðu mér samt ekki og ég var sífellt að þræta eitthvað við þær og höfunda þeirra í huganum á meðan á lestrinum stóð. „Nei, kommon!“ sagði ég kannski við sjálfan mig inn á milli. Eitthvað þannig. Ég náttúrulega henti frá mér A Tale of Two Cities í pirringi í síðustu viku svo ég er kannski bara ekki í fíling þessa dagana.

En svo er það kannski líka einkenni á bókum sem eitthvað er varið í að maður hugsar talsvert um þær eftirá. Ég er enn að melta þessar báðar. Við sjáum bara hvað setur.

***

Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins gleymdi sér í gær. Aðra vikuna í röð. Horfum kannski á eitthvað á morgun (erum að gera annað í kvöld).

***

Þriðja bókin sem ég las þessa vikuna var Eitur fyrir byrjendur. Sem ég skrifaði sem sagt sjálfur og kom út fyrir 13 árum. Bókin sem ég var að klára og guð veit hvenær kemur út er (mjög sjálfstætt) framhald af henni og ég hafði ekki lesið hana síðan árið 2010. Þá kom hún út á sænsku og ég las hana í rútu á leiðinni á Littfest í Umeå svo ég væri fær um að svara spurningum upp úr henni. Þetta er eina bókin mín sem ég hef lesið í heild sinni eftir að hún hefur komið út og nú hef ég lesið hana tvisvar.

Reynslan af að lesa hana í rútunni 2010 var mjög spes. Mér fannst þetta mjög langur tími – fjögur ár – og hún rifjaði upp alls konar. Það eru senur í henni sem áttu sér stað í raunveruleikanum – áreksturinn fyrir utan Bókabúð Máls og menningar til dæmis, og strákurinn sem rífst dauðadrukkinn við hjásvæfu sína á Lækjartorgi var ég sjálfur og svo framvegis. En það var ýmislegt fleira smálegt sem var skrítið að lesa. Díteilar. Omeletta me tiri – til dæmis – einföld fetaostomeletta sem ég var vanur að gera en hafði gleymt. Siggi Gunnars vinur minn, sagnfræðingur og ljósmyndari frá Ísafirði, sagði mér einu sinni að hann hefði haldið dagbók sem barn og í hana hefði hann skráð mjög hversdagslega hluti. Til dæmis að hann hefði borðað seríos í morgunmat og farið í skólann og svo ekkert meira. En hann sagði að það væri ótrúlegt hvað þessir hversdagslegu hlutir gætu framkallað miklar og sérstakar minningar – það var einsog dagarnir lifnuðu við og skyndilega mundi hann þá einsog þeir hefðu gerst í gær. Það var svipað að lesa Eitrið þarna 2010 – omeletturnar og árekstrarnir tendruðu öll ljós í minninginum mínum frá sirka 2003-2006, sem eru sirka skemmtilegustu í nýhilfélagsskapnum, óreglu og ást og kaosi og kærleika.

Það var minna af svoleiðis núna og miklu minni nautn í lestrinum. Ég er búinn að vera á leiðinni að byrja á henni lengi en hef verið viðkvæmur fyrir textanum – vandræðalegur yfir honum og vildi að hún væri öll einhvern veginn öðruvísi. Það rann af mér á meðan ég las hana en kaflarnir eru sannarlega misgóðir og ég hafði augljóslega ekki nægan tíma til að skrifa hana – þetta er allt skrifað á kvöldin eftir vinnu á Bæjarins besta eða þegar ég var næturvörður á Hótel Ísafirði. Hins vegar kveikti ég á alls konar hlutum sem ég gerði ekki 2010. Til dæmis því að það eru allir með heimasíma og það er enginn með snjallsíma – fólk er að sms-a hvert annað til að láta vita hvar megi finna Noah Wyle og söngvarann í Darkness. Þá er alls staðar reykt inni – t.d. á Mokka. Fólki er fundið til foráttu að nenna aldrei að mynda sér skoðanir á neinu (ha ha ha!), það þykir skrítið að strákur sé að læra kynjafræði og svo framvegis. Alltíeinu er bókin orðin bók um fortíðina.

Og þá kannski ekki seinna vænna að gera framhald.

***

Við Aino lékum Monument Valley II á iPhoninum mínum. Fyrir fjórum árum lékum við Aram einmitt fyrri leikinn þegar við bjuggum í Víetnam. Ég er ekki mikill tölvuleikjakall lengur – þótt ég hafi mikið leikið alls konar leiki á unglingsárunum. Monument Valley er völundarhúsaleikur sem reynir á rýmisskynjunina og er afskaplega fallegur. Það er varla hægt að segja að það sé mikill munur á I og II. En þeir eru skemmtilegir og gaman að leika þá saman og síðast en ekki síst eru þeir voða fallegir.

***

Gítarleikarar vikunnar eru tveir. Keb Mo’ og Taj Mahal. Þetta lag er líka alveg frábært.

Lion King, Fargo, The Green Mile, A Tale of Two Cities, Aziz Ansari: Right Now; Ævintýri úr Þúsund og einni nótt

Kvikmyndaklúbbur barnanna gerði sér lítið fyrir að þessu sinni og fór í bíó í Cinemark í City Mall. VIP-sæti – s.k. letipiltsstólar. Það var mjög vel loftkælt og við illa klædd. Myndin sem við sáum var endurgerð hinnar sögufrægu Lion King. Ég sá hana sennilega oft með frændsystkinum þegar ég var lítill en líklega aðeins of gamall til að hafa áhuga á henni sjálfur sem barn. Við höfum líka séð hana uppsetta sem söngleik í M.Í. Ekki er brugðið neitt út af sögunni svo ég hafi tekið eftir og sumar senurnar eru ramma fyrir ramma nákvæmlega einsog í teiknimyndinni.

Þetta er óttalegt rúnk og rúnkað í allar áttir. Ef kjósendur Obama og kjósendur Trumps geta mæst einhvers staðar þá er það á þessari mynd – og sennilega allir gengið glaðir eða reiðir út eftir því hvernig þeir voru stemmdir þegar þeir komu inn. Þetta er bæði algert PC Gone Mad dæmi og hálfgerður prótófasískur áróður. Repúblikanarnir geta fagnað testósterónboðskapnum (ef þú drepur kónginn ertu kóngur) og því hvernig útlenda hyskinu (hýenunum) er haldið úti. Demókratar geta fagnað áróðri fyrir skordýraáti og vináttu meðal spendýra og ákveðnum svona fjölbreytileikaboðskap. Þá eru auðvitað woke-hetjur á borð við Beyoncé og Donald Glover í aðalhlutverkum. Rojalistar fá eðli málsins samkvæmt líka talsvert fyrir sinn snúð.

Glover er lélegur í sínu hlutverki. Ég hugsaði ítrekað hvers vegna þau hefðu ekki bara fengið Kanye. Hann er mjög sannfærandi í mikilmennskubrjálæði sínu. Donald Glover er frábær gamanleikari og óhuggulega snjall handritshöfundur en hann hefur ekkert í svona dramatískt hlutverk að gera (hann leikur Simba). Virkar aldrei sannfærandi. Mér fannst Svarthöfði heldur ekki góður sem Múfasa – hann var líka í fyrri myndinni og ég man bara ekki hvernig hann var þar. Restin stóð sig ágætlega. Endurgerðir laga voru alltílagi – enginn Elton samt. 🙁

Það er líka eitthvað sjúklega mikið kits við að færa svona teiknimynd yfir í „raunverulegri“ mynd. Og antropómorfíseringin kominn á eitthvað annað level. Og er viðeigandi því Lion King er myndin sem hóf þessar Aesópsku trakteringar í annað veldi á sínum tíma (og börnin sem ólust upp við að horfa á hana eru öll veganar).

***

Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins missti úr síðasta sunnudag. Við komum dauðþreytt heim frá Copán seint að kvöldi og ætluðum að taka þetta bara daginn eftir en svo langaði okkur að klára þriðju seríu af Fargo. Við þurfum að ná okkur aftur á strik í kvöld (veit ekki hvernig það gengur; Nadja er á köfunarnámskeiði í allan dag og verður sennilega mjög þreytt).

Ég hef ákveðið að segja eitthvað um sjónvarpsseríur þegar ég klára þær. Dokumentera áhorfið (ég veit að hér eru fáir lesendur en þetta er ekki beinlínis skrifað fyrir neinn nema sjálfan mig; ég bið þá sem ráða ekki við sig að lesa líka það sem þeim finnst leiðinlegt velvirðingar og ef það er ekki nóg fer ég bara aftur að blogga líkamshita mínum og innbyrtum kalóríum og hananú).

Fargo var mjög fín. Hugsanlega besti árgangurinn hingað til. Einsog fyrri seríur og bíómyndin er þetta bærilega plottað farartæki fyrir góða leikara til að láta ljós sitt skína. Ewan McGregor, í hlutverki tvíbura, er smástund að venjast en nær sér á flug áður en yfir lýkur – Carrie Coon (úr Leftovers) er frábær í aðalhlutverkinu og Mary Elizabeth Swango líka. David Thewlis er hins vegar ekkert minna er stórkostlegur; ég man varla eftir öðrum eins performans úr sjónvarpsseríu, ekki frá því Omar Little var skotinn.

***

Ég las The Green Mile eftir Stephen King. Þetta er mikil plebbavika (eða næstum tvær frá síðustu skrifum) og ef Jóhann Helgi les þetta kjöldregur hann mig sennilega. Ég var nefnilega byrjaður á A Tale of Two Cities og nennti svo ekki að lesa hana. Aram er svo mikið með kindilinn minn (kominn í Hungurleikana ofan í sænsku fantasíurnar) að ég neyðist til að sætta mig við hið takmarkaða úrval bóka sem hér er hægt að fá keyptar. Grænu míluna sá ég auðvitað í bíó fyrir þarna 20 árum eða hvenær það var og þótti sosum ekkert merkileg og bókin er áreiðanlega ekki heldur ein af betri bókum Kings. Það er í henni svipuð stemning og í Shawshank (sem ég man samt sem nokkuð betri bók). En það er einbeitingarskortur í mér þessa dagana – stundum held ég að ég sé með árstíðabundin athyglisbrest – og þægilegt að lesa eitthvað þar sem ég þekkti söguna og gerði ekki miklar kröfur á mig.

Sagan, einsog oft hjá King en ekki alltaf, er fyrst og fremst bara saga. Það er ekki í henni nein sérstök „sögn“ – hún er ekki að leitast við að kryfja hið mannlega eðli eða gera neinar byltingar í félags- eða fagurfræði. Það mætti ábyggilega lesa eitthvað mjög rasískt í hana og hefur sjálfsagt verið gert af fólki með fleiri háskólagráður en ég, en hún er eiginlega of meinlaus til að það taki því – eða, orðið er kannski ekki meinlaust heldur „decent“. Stephen King, og mikið af aðalsöguhetjum hans, virka á mann sem svo almennilegt fólk að jafnt þótt það beri með sér alls konar fordóma tekur maður þá ekki alvarlega.

***

Hér er sennilega rétt að taka fyrir uppistand Aziz Ansaris. Sem við Nadja horfðum á í vikunni. Right Now, heitir það. Það er mjög skemmtilegt og Aziz virkilega naskur í átökum sínum við woke-stemninguna. Hann er bljúgur gagnvart sjálfum sér og fortíðinni og fer í gegnum gömul listaverk – á borð við Hangover-myndina – og hvernig þau myndu ekki þykja ásættanleg í dag, áratug síðar, en líka hvers vegna við ættum ekki að leggja woke-mælikvarða 2019 á alla hluti. Græna mílan er 20 ára gömul og maður tekur strax eftir því sem væri „viðkvæmt“ í dag – fyrst og fremst noble savage frumskógarfábjáninn með lækningamáttinn sem stendur í miðri mynd.

Við börnin lásum líka Ævintýri úr þúsund og einni nótt – og ekki veit ég hvað maður gerir við hana ef Hangover er yfir strikið. Ég fékk allt heila klabbið í jólagjöf frá ömmu minni þegar ég var 9, 10 og 11 ára – þrjú hnausþykk og falleg bindi sem ég gúffaði í mig fyrir áramót á hverju ári og á enn í dag. Ég kíkti á þetta fyrir nokkrum árum og þetta er sannarlega ekki mikið barnaefni – ekkert nema sifjaspell, klám og ofbeldi ofan í vafasaman boðskap. Þessi bók sem við lásum er bara nokkur ævintýri og alls ekki þau verstu – en t.d. bara þá koma konur varla fyrir nema sem gjaldmiðill. Ævintýri af þessu tagi eru börn síns tíma og bla bla bla en þetta eru líka sögur sem börn í dag spegla sig í og það er pínu óþægilegt. Af því, einsog Aziz bendir á, nú er 2019 og á þeirri spýtu hangir eitt og annað. Ég myndi heldur ekki lesa Hans Blævi fyrir 9 ára transbarn.

Ég held reyndar vel að merkja ekki að börn séu svo viðkvæm að þau bara molni niður og verði aumingjar eða rasistar eða kvenhatarar af því að lesa „rangar“ bækur – eða svona. Almennt held ég að við vanmetum börn og ofmetum fullorðna. Þúsund og ein nótt fer ekki nærri jafn illa með barnsheilann og Græna mílan fer með fullorðinsheilann. Eða eitthvað. Ég er hálft í hvoru að grínast og veit aldrei alveg hvað mér finnst um þessa hluti. En þeir brjótast um í manni.

Í lok uppistands síns fer Ansari að tala um hversu glaður hann sé að fá að standa þarna og tala við fólk – hversu þakklátur hann sé fyrir forréttindastöðu sína og svo framvegis. Hann var auðvitað metoo-aður – það var frekar mikið diet-dæmi, hann var fyrst og fremst sakaður um að vera svolítið ónærgætinn á stefnumóti – en átti að vera afboðaður eftir mikla grein í einhverju stóru blaði en fékk svo aftur að vera með. A.m.k. ef eitthvað er að marka vinsældir uppistandsins. Þetta er að mörgu leyti mjög óþægileg sena, þótt hún hafi átt að vera hugljúf. Ansari er að þakka heiminum fyrir að hafa ekki tekið sig af lífi (fyrir hálfgerðan tittlingaskít). Þá er líka áhugavert að þótt hann ræði talsvert afboðunarkúltúrinn í uppistandinu þá lætur hann vera öll þau mál sem hugsanlega væri hægt að verja. Hann tekur bara grófustu málin – Jackson kemur fyrir, R. Kelly, Cosby – en ekki t.d. kollegar Ansaris, Louis C.K. eða Woody Allen. Það er eitthvað maóískt við alla þessa auðmýkt og þakklæti.

***

Ég byrjaði svo aftur A Tale of Two Cities. Las hálfan en hugsa að ég láti bara gott heita í bili. Engar aðfinnslur sem gætu ekki átt við hvaða Dickensbók sem er – hann er orðmargur (look who’s talking) og þetta er auðvitað á köflum mikið melódrama. En mig langar bara ekki að lesa hana núna – hugurinn hafnar henni í sífellu – og við það situr. Sorrí, Jói, segi ég af innilegri og maóískri auðmýkt. EKKI HATA MIG.

***

Gítarleikari vikunnar er Eddie Van Halen.

Á puttanum með pabba, Labyrinth, 8 1/2, Fíasól í fínum málum og Palimpsest eftir Gore Vidal

Á puttanum með pabba eftir Kolbrúnu Önnu Björnsdóttur og Völu Þórsdóttur fjallar um systkinin Sonju og Frikka. Þau eiga ítalskan pabba sem býr á Sikiley og eru vön að eyða sumrinu með honum. Sá er atvinnulaus leikari og býr hjá mömmu sinni og pabba. Þau eru varla komin til Sikileyjar þegar allt byrjar að fara úr böndunum. Fyrst leggst Bruno frændi þeirra á banasængina svo amma og afi þurfa að fara til hans. Þá fær pabbi þeirra skyndilega hlutverk í bíómynd sem á að taka upp á Spáni – og þarf að losna við gemlingana. Það næst ekki í mömmu og stjúpa en þau kaupa samt miða – þegar ekkert hefur heyrst frá þeim og krakkarnir þurfa að tékka inn í flugið neyðist leikarapabbinn til að fara með börnunum til Íslands að leita að mömmunni. Eina vísbendingin er að hún verður í Hallormsstaðaskógi eftir X langan tíma – en sennilega er hún á ferðalagi um landið. Já og veski pabbans er stolið á flugvellinum í Róm svo þau eru meira og minna peningalaus, á puttanum, upp á náð og miskunn íslenskra og útlenskra túrista komin.

Aram valdi. Þetta var mjög skemmtileg bók – svona road movie klassíker þar sem hver vandræðin reka önnur. Við höfðum kannski sérstaklega gaman af þessu því við sjáum sjálf okkur í mörgu þarna – ferðumst mikið og erum stundum dálítið ringluð og kaotísk (og við Aram höfum ferðast saman á puttanum – þegar hann var sennilega þriggja ára) og svo erum við auðvitað með fætur í ólíkum löndum og ólíkum tungumálum.

***

Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á Labyrinth eftir þá Jim Henson og George Lucas, með David Bowie og Jennifer Connelly í aðalhlutverki. Ég hafði ekki séð hana í þrjátíu ár. En þess má geta að á þeim tíma hefur Jennifer Connelly ekki elst – og áður en hann dó eltist David Bowie ekki heldur (ég hefði átt að nefna það í síðustu færslu, þegar Mr. Bean var til umfjöllunar, að skrítnasta dæmið um mann sem eldist ekki er auðvitað Rowan Atkinson). Þau hafa sennilega dottið í æskubrunn við gerð myndarinnar.

Myndin fjallar um unga stúlku sem er látin passa litla bróður sinn. Hún þolir það ekki og óskar þess upphátt að tröllin (eða svartálfarnir) taki hann. Sem þau svo gera. Stúlkan hefur 13 klukkustundir til að komast í gegnum völundarhús tröllanna, að tröllakastalanum þar sem tröllakóngurinn David Bowie ræður ríkjum, annars verður bróðir hennar tröllabarn um ævi og aldur. Í völundarhúsinu mæta henni margar hindranir en þar eignast hún líka vini – Hoggle (sem mótsvarar fuglahræðunni í Galdrakarlinum í Oz),  Lúdó (ljónið) og Sir Didimus (tinmaðurinn). Sennilega má nú rífast um það hver er hver – en fjórmenningarnir saman minna sannarlega á sams konar klíku í Oz.

Myndin er talsvert kynferðisleg – og yrði alveg áreiðanlega ekki gerð eins í dag. Til dæmis er sena þar sem ýjað er að því að Bowie og Connelly hefji ástarsamband (eftir að hann lyfjar hana ansi hressilega) – en þótt bæði séu í sjálfu sér ungleg þá er Bowie augljóslega fullorðinn, á mínum aldri þegar myndin er gerð, en Jennifer er sextán ára.

Svo má velta fyrir sér boðskapnum. Það er alltaf gaman, sérstaklega í barnaefni. Ung kona hafnar barnauppeldi og er refsað fyrir það – barnið steypist í glötun vegna eigingirni hennar og sjálfselsku. Hún sigrast á vonda karlinum (sem mætti segja að standi fyrir rísandi heterókynhvöt hennar – hann er mjög fallískur, í níðþröngum galla sem leynir engu, og sífellt að leika sér með kúlurnar sínar og sprotann sinn) með því að æpa á hann að hann ráði ekki yfir sér. Þá hverfur svartálfaheimurinn og hún kemst aftur heim með litla bróður sinn í tæka tíð áður en foreldrar hennar birtast á ný (hér mætti jafnvel íhuga sagnaminni úr bandarískum unglingamyndum þar sem unglingsstúlkur bjóða til sín strákum heim í kelerí þegar þær eru að passa – og strákurinn þarf að hverfa áður en foreldrarnir koma heim). Smáborgaralífinu og skírlífi stúlkunnar er borgið.

Myndin er auðvitað stórfengleg og klassíker. Dúkkurnar frábærar og eldast vel, hvað sem líður tækniframförum. Bowie og Connelly eru góð í sínum hlutverkum. Það er reyndar – merkilegt nokk – kannski helst að tónlistin sé frekar slöpp. Bowie gerir hana alla og er bara alls ekki í neinu þrumustuði.

***

Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á 8 1/2 eftir Fellini. Ég valdi og hafði aldrei séð hana áður og vil sjá hana fljótt aftur. Hún gæti vel orðið ein af mínum uppáhalds. Skók mig, í allri sinni tilgerð. Samt veit ég eiginlega ekki hvað ég á að segja um hana. Hún fjallar um leikstjóra sem er að reyna að gera bíómynd – hann kljáist við sköpunargáfu sína, finnst hann sjálfur vera tilgerðarlegur og er tilgerðarlegur og bíómyndin sem við horfum á og fjallar um hann er tilgerðarleg. En samt snilld. Hann er líka að kljást við kvensemi sína og löngun í ungar konur, frillur, og gerir stólpagrín að þessum þrám án þess að það dragi úr raunveruleika þeirra eða tilvistarangistinni sem er fólgin í þeim. Þá eru líka í henni átök við kaþólska trú. Allt hangir þetta einhvern veginn saman. Marcello Mastroianni leikur leikstjórann og manni má alveg skiljast að hlutverkið sé sjálfsævisögulegt (Fellini hafði gert sex bíómyndir í fullri lengd, tvær stuttar og eina í samstarfi við annan – 8 1/2 er áttundaoghálfa bíómynd Fellinis).

Fellini reynir að vera heiðarlegur og mistekst en honum mistekst heiðarlega. Hann níðir sig og hæðir sig en gerir það aldrei án þess að taka sig líka alvarlega. Átökin eru sviðsett en þau eru líka raunveruleg. Ég ímynda mér að það hafi verið tilfinningalega brútalt að gera þessa mynd.

***

Fíasól í fínum málum er, einsog titillinn gefur til kynna, hluti af ritröðinni um Fíusól eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur. Aino valdi. Hún þekkir Fíusól vel af leikskólanum en við höfum ekki lesið hana saman áður. Bókin samanstendur af nokkrum – sjö eða átta – vinjettum um sjö ára stúlkuna Fíusól (sem ég held að hafi staðið einhvers staðar að heiti Soffía Sóley fullu nafni). Hún á tvær eldri systur, Pippu og Biddu, og alls óskilda foreldra. Fíasól er „ákveðin ung kona“ þegar vel lætur og frekjudós þegar illa lætur. Niðurstaða flestra vinjettanna er að Fíasól sé í vondum málum – hún stelur t.d. úr sjoppu og flytur að heiman í skúr sem vinur hennar byggði o.s.frv.  En endar nú samt á því að hún sé í fínum málum.

Almennt mætti segja að Fíasól lifi í afar vernduðu umhverfi (klassísku íslensku millistéttarheimili) þar sem hið smáa verður oft mjög stórt og alvarlegt. Stemningin minnir að einhverju leyti á bækur Guðrúnar Helgadóttur – nema að þar eru persónur auðvitað ekki í jafn vernduðu umhverfi (og oft mjög berskjaldaðar). Aram hafði á orði að Fíasól notaði skrítin orð af sjö ára stelpu að vera – hún er svolítið forn í máli og kannski þess vegna sem hún minnir mann á Lóu-Lóu. Ég mótmælti reyndar – því þótt það sé satt þá hef ég bæði hitt börn sem eru undarlega forn í máli og svo er ekkert að því þótt sögupersónur séu ekki alveg einsog fólk er flest.

Aino var mjög hrifin af bókinni, einsog hinum í flokknum. Við áttuðum okkur samt ekki alveg á því hvað hún væri stutt. Hún dugði okkur bara í tvö kvöld.

***

Palimpsest er nafnið á æviminningum Gore Vidal. Palimpsest er skv. Snöru „uppskafningur (handrit þar sem texti hefur verið skafinn burt og annar ritaður í staðinn)“ og verður Gore að myndlíkingu fyrir virkni minnisins. Hvernig við skrifum nýjar minningar yfir þær gömlu í hvert sinn sem við rifjum þær upp.

Gore segir sögu sína ekki línulega heldur ryðst fram og aftur frá fyrstu 40 árum ævinnar að nútímanum (útgáfutíma bókarinnar: 1995). Og vantar þar með í hana til dæmis allt um það þegar hann skrifaði og gaf út Myru Breckinridge, sem olli mér vonbrigðum, sem og starfi hans í Víetnam hreyfingunni og afstöðu til hippismans og femínismans og róttækninnar.

Auk þess að flakka um í tíma fjallar hún mestmegnis um annað fólk en Gore sjálfan – það er mikið af slúðri og alls konar sögum og uppgjörum og Gore er auðvitað skemmtilega kvikindislegur, einsog hans var von og vísa. Það líða ábyggilega aldrei meira en þrjár síður milli þess sem hann hendir inn einhverju um hvað Truman Capote hafi verið mikið fífl.

Þótt bókin fjalli ekki um Gore þá er persónuleiki hans í frásögninni – þessa bók hefði enginn annar en hann getað skrifað og enginn skrifað hana einsog hann skrifar hana. Gore er algert kúltúr- og valdabarn frá fæðingu – hann og Jackie Kennedy Onassis áttu sama stjúppabba og hann er umkringdur heimsfrægu fólki frá barnæsku. Einn kaflinn hefst á orðunum „Það er alltaf dálítið vandræðalegt þegar náinn æskuvinur eða kunningi verður Bandaríkjaforseti“. Ekki bara stundum, vel að merkja – ekki í annað hvert skipti eða svo. Það er alltaf vandræðalegt.

Talsverðu púðri eyðir hann í að ræða kynlíf sitt og hefur þó á orði að það sé eiginlega ekki í frásögur færandi. Hann stundar nær einvörðungu einnar nætur kynni og nær einvörðungu með karlmönnum, alls ekki vinum eða vinkonum – en finnst samt of heftandi að tala um sig sem samkynhneigðan – og hefur alls konar kenningar um þetta líf sitt. Á Wikipediu er hann kenndur við Anaïs Nin en hann kannast sjálfur ekki við það. Þá segist hann á tímabili sofa hjá manni á dag og vera komin vel yfir sitt fyrsta þúsund 25 ára og vel keppnishæfur við kvennamenn á borð við Jack og Bobby Kennedy (sem ku álíka graðir). Hann hefur ímugust á allri skinhelgi í kringum kynlíf og myndi sennilega eipsjitta á metoo-hreyfinguna ef hann væri enn á lífi (ég er reyndar ekki viss um að hann gæti eipsjittað – en hann myndi segja eitthvað mjög snappí). Þegar bókin er gefin út er mikið rætt um kynlíf Clintons í fjölmiðlum og honum finnst nú ekki mikið til þess koma að „mellum sé stillt upp í sjónvarpinu á besta áhorfstíma til að ræða lim forsetans“ og mikla afturför frá því þegar rifist var um stefnumál.

Það sló mig einhvern tíma við lesturinn að þegar skilin milli bóhemíu og borgaralegs lífs voru skarpari – áður en hipparnir komu til sögunnar og vildu brjóta niður múrinn – þá hafi lífið í bóhemíunni verið talsvert villtara en það varð nokkurn tíma í hippakommúnunum (og hvað þá síðar). Ef þú nenntir að standa í því að fá sýfilis og lekanda og lenda í ólöglegum fóstureyðingum og/eða barneignum – og stóð á sama um fnæsið í borgarastéttinni – þá bara reiðstu eins mikið og víða og þér sýndist. Gore fullyrðir líka að kasúal samkynhneigð hafi verið miklu algengari meðal karla – t.d. að nær allir hafi sogið einhvern í herskyldunni og það hafi verið mjög lítið tabú (nema bara svona af því að lauslæti væri rangt). Þetta heyrir saman við lýsingar sem ég þekki úr ævisögum bítskáldanna – sem Gore umgekkst nokkuð (en las lítið; helst hann hafi verið hrifinn af skáldsögum Burroughs, og svo fagnar hann On the Road síðar, en fílaði ekki þegar hún kom út).

Allavega virkar samtíminn mjög móralskur og leiðinlegur í lýsingum Vidals á fortíðinni. En þannig er það kannski alltaf.

***

Gítarleikari vikunnar er Lightnin’ Hopkins.

Mr. Bean fer í fríið; Spiderman: Far From Home; Karókísjó í Tela; Paris, Texas

Það er allt heldur rólegt á menningarfrontinum. Ég er að lesa Palimpsest, sjálfsævisögu Gore Vidal, og hvorki gengur né rekur. Rétt búinn með fjórðung, held ég. Hún er að vísu í lengri kantinum en það er sama. Þetta er engin frammistaða.

***

Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á Mr. Bean fer í fríið. Ég er ekki alveg viss hver valdi – annað hvort barnið, sennilega Aino. Hún og Vala vinkona hennar horfa víst mikið á Mr. Bean heima hjá Völu. Í þessari mynd vinnur Mr. Bean ferð til Frakklands. Ferðin fer auðvitað ansi spaugilega, honum reynist það ansi örðugt að komast á áfangastað en hann eignast líka góða vini á leiðinni og allt fer vel að lokum. Húmorinn er barnalegur og á að vera það – líka fyrir fullorðna. Mikið af geiflum og slapstick. Hluti myndarinnar er uppgjör við alvarlega kvikmyndalist – Willem DaFoe leikur tilgerðarlegan og sjálfsupptekinn leikstjóra sem gerir myndir með sjálfum sér, eftir sjálfan sig, og reynir að hafa sjálfan sig sem mest í rammanum meðan hans eigið voice-over fílósóferar ljóðrænt um erfiðleika tilverunnar. Þar má ímynda sér að Rowan Atkinson sé að reyna að koma einhverjum boðskap (eða beiskju) áleiðis.

Grínistar eru auðvitað ekki alltaf teknir alvarlega enda vinna þeir beinlínis við að láta ekki taka sig alvarlega heldur létt – sérstaklega geiflugrínistar einsog Rowan Atkinson. Þetta hlýtur að vera erfitt. Svo er hitt auðvitað alveg satt að alvarleg list er ekki endilega merkilegri en óalvarleg og hún getur alveg jafn auðveldlega misheppnast – en það er ekki alltaf jafn augljóst. Maður veit að grínmynd er ekki fyndin vegna þess að maður hlær ekki – hlátur er tafarlaust viðbragð. Alvarlegri myndir sækja oftar í heilabúið á manni, eiga að vekja upp hugsanir, og maður veit oft ekki hvort er nokkuð varið í þær fyrren löngu seinna – þegar maður er búinn að ræða þær við fólk og spá og spekúlera svolítið, þegar maður veit hvort þær ofsækja mann eða hvort þær gleymast.

***

Við Aram fórum á Spiderman: Far From Home í Cinemark bíóinu í City Mall. Borguðum extra fyrir hristisæti. Það gerði svo sem lítið fyrir upplifunina en var gaman að prófa. Myndin er undir meðallagi Marvelmynd. Plottið er þunnt og persónudramað er of mikil unglingamynd fyrir 9 ára strák og 41 árs karl. Og sennilega bara ekki einu sinni góð unglingamynd. Misterio er leiðinlegur vondi karl. Spiderman er of mikil gelgja og ekki nógu kjaftfor.

Það er samt alltaf gaman að fara í bíó með Aram og við skemmtum okkur vel á meðan myndinni stóð (og honum finnst hún ábyggilega ennþá skemmtileg en hann er heldur ekki jafn mikill konnósör á þessa hluti ég snobbhænsnið pabbi hans).

***

Við fórum á karókísjó í Tela. Það var dálítið spes. Þetta var utandyra og allir sátu við svið og horfðu beint fram einsog í leikhúsi. En það var enginn á sviðinu – þar var bara tjald með texta. Einhvers staðar í áhorfendahópnum var svo míkrafónn og manneskja að syngja og maður þurfti oft að litast um lengi áður en maður fann söngvarann. Lögin voru öll á spænsku og sennilega mörg hondúrsk. Ég þekkti ekki eitt einasta (enginn söng spænsku útgáfuna af Informer með Snow, sem virðist vera mjög vinsæl hérna þessa dagana).

Söngvararnir voru ýmist frábærir eða hræðilegir, einsog gengur. Ég hef samúð með því – ég hef verið að æfa mig að syngja í sumar, ég kann ekkert að syngja en hef látið internetið sannfæra mig um að það geti allir lært þetta og mig langar að kunna að syngja. Ég hef einu sinni sungið í karókí – í partíi hjá Höllu Miu á Ísafirði af því Gunnar Jóns píndi mig til þess – og mér finnst það ekki auðvelt, ekki einu sinni blindfullur í fíflalátum. Ég syng nánast aldrei fyrir framan fólk en ég hef tekið upp nokkur myndbönd þar sem ég syng og spila og póstað á YouTube og það er einhvern veginn auðveldara.

***

Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á Paris, Texas eftir Wim Wenders við handrit eftir Kit Carson og Sam Shephard og tónlist eftir Ry Cooder. Harry Dean Stanton leikur Travis, mann sem hefur verið á eins konar „walk-about“ ferðalagi í fjögur ár þegar líður yfir hann í sjoppu í Texas og bróðir hans, Walt, leikinn af Dean Stockwell (Al í Quantum Leap) fær símtal um að hann sé fundinn. Walt og kona hans Anne (Aurore Clément) hafa alið upp son Walts og Jane (Nastassja Kinski), Hunter (Hunter Carson – sonur Kits) síðan þau hurfu bæði bæði.

Myndin segir síðan söguna af endurkomu Walts í líf sonar síns – og lífið almennt, hann man lítið af því sem hefur gerst síðustu árin – og smám saman komumst við að því hvað varð þess valdandi að líf þeirra leystust upp til að byrja með. Þar koma miklar tilfinningar við sögu – vonleysi ungrar konu sem vill ekki verða móðir og eldri manns sem er að drepast úr afbrýðissemi og skömm yfir afbrýðissemi og því hvernig allar þessar tilfinningar bera þau ofurliði. Þetta ástfangna og lífsglaða fólk er skyndilega orðið reitt og hrætt og farið að meiða hvert annað – hann sennilega meira hana en hún hann. Á endanum springur allt í loft upp – nánast bókstaflega – og hún skilur drenginn eftir hjá mági sínum, stingur af og Travis fer á sitt walk-about.

Þetta er ofsalega kraftmikil mynd. Harry Dean Stanton er dásamlegur í henni og í mjög gefandi hlutverki – hlutverk Nastössju Kinski er erfiðara viðfangs og hún fær miklu minni tíma á skjánum en hún gernýtir hverja sekúndu. Stockwell og Clemént eru líka fyrsta flokks. Ég verð lengi eftir mig af henni og hún ofsækir mig alla daga.

Ég hugsaði mikið um það hlutverk listarinnar að auka manni meðlíðan. Þetta er oft sagt á tyllidögum og jafnvel vísað í rannsóknir – aðallega um að bóklestur auki manni meðlíðan, að fólk sem lesi eigi betra með að setja sig í spor annarra, sé síður dómhart og eigi betra með að finna til samúðar. Sögur – líka bíómyndir – veita okkur oft innsýn í veruleika sem við þekkjum ekki vel annars, gefa okkur færi á að finna til með fólki í öðrum sporum en okkar eigin. Þar mætti t.d. nefna alls konar minnihlutahópa – og alveg klárt mál að listin hefur spilað stóra rullu í að leysa upp margs konar fordóma og kúgun í þeirra garð (og á sitthvað eftir inni þar enn). En það er bara hluti jöfnunnar því sögur gera okkur líka ljóst hvað við eigum sameiginlegt með þeim sem lenda á refilstigum – auka samúð okkar með illmennum og gera okkur ljóst að þeir sem gera illt eru yfirleitt ekki illir í gegn. Það er mjög erfitt að finna sársauka illmennis – að finna skömmina – en ég held það sé líka mjög hollt. En það sló mig líka að kannski væri Paris, Texas að þessu leyti mjög ómóðins saga 2019 – þetta væri ekki æskileg innsýn á tímum þar sem fyrirgefningin og uppreistin og endurkoman þykja hálfgerð uppgjöf fyrir illskunni.

***

Gítarleikari vikunnar er Molly Tuttle – hún er sturlaður pikkari. Ef þið ætlið að tékka á henni mæli ég frekar með live myndböndum af YouTube – allt „útgefna“ dótið er leiðinlega mikið pródúserað og hún er langbest „hrá“.

Kysstu stjörnurnar, Dark Places, Persuasion, Paranorman og Persona

Stundum velti ég því fyrir mér hvort ég ætti ekki að reyna að hafa færri orð um hlutina. Orð eru dýr og það allt saman og svo eru þau líka tímafrek. En þegar ég er byrjaður að tjá mig er oft stutt í að röflmótorinn fari á fullt. Það væri enn tímafrekara að byrja að editera þetta allt saman í leit að einhverjum aðalatriðum. Oft er ég líka svo nýbúinn að lesa/horfa að ég veit ekki almennilega hver kjarni þess sem mér finnst er – þetta er meira ferðalagið en áfangastaðurinn.

***

Við börnin kláruðum Kysstu stjörnurnar eftir danska höfundinn Bjarne Reuter. Ég veit ekki hvort það er tilviljun en mér finnst svo mikið af dönskum barnabókmenntum enda í einhverri svolítið heimóttarlegri fantasíu um miðausturlönd. Í búðinni hans Mústafa er eitt dæmi, Hodja og töfrateppið annað og í Kysstu stjörnurnar eru börnin í grunnskólanum að setja upp ævintýri úr Þúsundogeinni nótt – svartmáluð í framan, að sjálfsögðu. Bókin er frá 1984 – ég kom fram í blackface sjálfur ekki mikið seinna þegar árgangurinn gerði sérsýningu um Tansaníu á árshátíðinni. Ég myndi ekki segja að þetta geri bækurnar slæmar – þetta eru allt góðar bækur, það er að vísu langt síðan að ég las Hodja en ég hélt mikið upp á hana sem barn. Heimur barna er líka heimur furðu og fordóma – börn eru kannski ekki með fyrirframgefnar hugmyndir um það sem er framandi, því svo margt er þeim framandi, en þau eru rosalega fljótt að draga alls kyns ályktanir og fella hrikalega sleggjudóma. Þess vegna hafa fullorðnir svona miklar áhyggjur af því hvað þau lesa og horfa á.

Sýnin á konur er líka mjög „dönsk“ í Kysstu stjörnurnar – svo ég viðri svolitla fordóma um danska menningu. Þær eru annað hvort skyldar manni eða rómantísk viðföng – og alveg sama hvort þær eru grunnskólastelpur, guðdómlega stelpan á kassanum í búðinni, eða skuggalega bardaman sem segist vera kærastan manns og gefur manni svona kveikjara með mynd af konu á sundbol sem afklæðist þegar maður snýr honum á hvolf. Allt er þetta í sjálfu sér líka mjög í takt við sögutíma bókarinnar.

Buster – aðalsöguhetja bókarinnar – er mjög skemmtilegur annars. Uppátækjasamur og með ríkt ímyndunarafl og skemmtilegustu senurnar eru þegar hann er bara að delera eitthvað.

***

Dark Places er skáldsaga eftir Gillian Flynn, sem er frægust fyrir Gone Girl. Ég held ég hafi lesið Gone Girl en ég er ekki alveg viss og þegar ég lagði Dark Places frá mér – og meðan ég var að lesa hana – fannst mér hún ofsalega spennandi og skemmtileg. Ég gæti samt best trúað að ef þið spyrðuð mig eftir nokkra mánuði hvort ég hefði lesið hana væri ég ekki alveg viss. Hún fjallar um white trash konu sem varð fyrir því sem barn að fjölskyldan hennar var öll myrt. Hún hefur alltaf haldið að bróðir hennar hafi gert það og hann er í fangelsi fyrir það – en svo kemur í ljós að því trúir eiginlega enginn lengur og hún fer eitthvað að grafast fyrir um þetta allt saman. Þú trúir því aldrei hvað gerist næst.

***

Persuasion eftir Jane Austen. Fyrir nokkrum árum las ég Sense and sensibility og lýsti því þannig að það væri einsog að detta í slúðurtunnu – og bætti við að þetta hefði verið mikill yndislestur. Ég get því miður ekki sagt það sama um Persuasion. Ég hafði stundum húmor fyrir henni en yfirleitt ekki og ég var næstum búinn að leggja hana frá mér ókláraða – ef þetta væri ekki Jane Austen og þar með einhvers konar skyldulestur þá hefði ég hugsanlega hent henni fram af svölunum í verstu gremjuköstunum. Þetta fólk gerir ekkert nema hafa áhyggjur af því hver getur gifst hverjum og hver sé dyggðugur. Það er líka einsog það sé enginn til í heiminum nema þetta aðalsfólk, enginn annar harmur en að giftast kannski ekki nógu vel.

Bíómyndin Clueless var byggð á Emmu og þótti mörgum vel til fundið að færa hana í bandarískan menntaskóla hinna ofurríku því dramað væri eiginlega ekki fullorðinsdrama í dag. Mér liggur við að segja að þetta fólk hafi ekki nægan tilfinningaþroska til að vera í menntaskóla. Ég man eftir svona stemningu þegar ég var tíu ára og allir voru að hvísla hver í annan hverjir væri skotnir og svo framvegis. Þegar veröldin snerist í nokkur misseri ekki um annað en að finna sanna ást.

Auðvitað er bókin vel skrifuð og það besta við hana eru setningarnar og sum samtölin – hún er góð bút fyrir bút en sem heild er þetta bara eitthvað efri-millistéttarvæl.

***

Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á Paranorman. Hún fjallar um strák sem heitir Norman og sér drauga og öllum finnst hann skrítinn. Yfir bænum hans hefur hvílt bölvun í mörg hundruð ár eða allt frá því bæjarbúar brenndu þar norn. Nornin hvílir á meðan einhver les fyrir hana kvöldsögu einu sinni á ári en annars vaknar hún og reynir að hefna sín. Auðvitað deyr kvöldsögulesarinn og eftirlætur Norman að taka þetta að sér en það klúðrast út af nokkrum eineltisseggjum. Á endanum kemur svo í ljós að nornin var bara góð lítil stelpa sem sá drauga einsog Norman og var brennd af því fólk skilur aldrei það sem rýfur ramma hugmynda þeirra um veruleikann.

Fín. Ekkert meira eða minna. Stop-motionið er oft skemmtilegt og fallegt – aðeins öðruvísi lúkk á henni en mörgum af þessum barnamyndum.

***

Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á Persona eftir Ingmar Bergman. Að hluta til fannst mér hún frábær og að hluta til fannst mér hún vera samansuða af ódýru existensíalísku bulli og kynferðisfantasíum.

Hún fjallar um leikkonu sem verður fyrir áfalli og hættir að tala. Hún fær hjúkrunarkonu til að hugsa um sig. Sú er að jafnaði feimin og inn í sig en opnar sig við leikkonuna og talar viðstöðulítið um lífið og tilveruna. Fyrir rest er farið að gefa sterklega í skyn – mjög sterklega, án þess að það sé fullyrt – að konurnar séu ein og sú sama og kannski sé hjúkrunarkonan bara innri mónólógur hinnar eða hún klofin persónuleiki.

Myndmálið, kvikmyndatakan, klippingarnar, leikurinn, lýsingin, senógrafían – allt er þetta í einu orði sagt geggjað. Ógeðslega flott. Handritið er aldrei leiðinlegt, aldrei óáhugavert, en ég er heldur ekki viss um að það sé neitt æðislega mikið vit í því. Heimspekin virkaði stundum dálítið svona Coelho-ísk á mig – existensíalismi sem maður gæti sett á ísskápasegla.

Mér fannst samband kvennanna best þegar það fer að minna á svona kulturman-samband sem maður getur ímyndað sér að Bergman hafi sjálfur átt í við alls konar konur – og ég þykist hafa lesið eitthvað um, án þess að ég muni það svo glöggt. Þannig verður hjúkrunarkonan æðislega sár leikkonunni þegar hún uppgötvar að leikkonan hefur skrifað lækninum sínum um hana og orgíu sem hún hafði farið í á strönd með ókunnugum mönnum og vinkonu sinni – meðan unnustinn beið grunlaus heima – sem og fóstureyðinguna sem hún fór í í kjölfarið. Þegar hjúkrunarkonan les leikkonunni pistilinn segir hún að hún hafi alltaf haldið að listin væri sprottin af einhverju fallegu og að listamenn væru göfugar verur, gæddar meiri meðlíðan en annað fólk, en að leikkonan hafi nú sýnt henni að svo sé ekki – listamenn séu grimmir og ljótir og beri enga virðingu fyrir mörkum annarra. Þetta má auðvitað heimfæra á höfundinn sem notar ástkonu sína (eða ástmann) sem efnivið í listaverk. Listamaðurinn hefur ekki bara meðlíðan honum ber líka skylda til að miðla mennskunni sem hann upplifir. Og í því felst brot hans – hann er ekki heill gagnvart heiminum nema hann svíki heiminn.

Hvað sem göllunum líður eru bíómyndir af þessu tagi vogaðar og sem slíkar miklu skemmtilegri og áhugaverðari en næstum allt annað sem maður sér.

***

Gítarleikari vikunnar spilar á banjó. Hann spilar reyndar líka á gítar en hér spilar hann á banjó.

Lykt af brenndum fjöðrum, Skrímsli í París og Samablóð

Þetta var fremur róleg vika í menningarneyslunni. Ég veit ekki hvað veldur – ekki einsog maður hafi ekki nægan tíma. Sennilega skrifaði ég síðast á þriðjudegi og þá er hún degi styttri. Reyndar eru alls konar hlutir mjög tímafrekir hérna. Laugardagurinn fór sem dæmi nánast allur í að versla (án þess að við værum að kaupa nein ósköp – í matinn og nokkra smáhluti sem vantaði). Mest kemur mér á óvart hvað ég las lítið – í bók að minnsta kosti. Eina skepnu – svo er ég reyndar langt kominn með aðra bók en hún býður næstu viku (og gengur furðu hægt).  Ég hef talsvert lagt mig eftir greinum um ástandið hérna í Hondúras og fundið lítið en það sem ég hef fundið er ítarlegt og gott – einsog þeir sem skrifi um stöðuna leggi meira í það vegna þess að það þarf alltaf að útskýra allan bakgrunn og kannski skiptir bara meira máli að það sé vel gert þegar það eru ekki allir að skrifa um þetta.

Nema hvað. Eina stutta bók – Lykt af brenndum fjöðrum eftir Daníil Kharms. Bókin kom út sem Sérrit Bjarts og frú Emilíu fyrir sléttum 100 árum. Nei, djók, fyrir kannski sirka 20 árum, gæti ég trúað. Þetta eru stuttir textar, ein lengri smásaga, brot/athugasemdir og nokkur ljóð í restina. Stíllinn er heillandi afslappaður og húmorinn það sem ég held að kallist „sérlundaður“ – svona Tvíhöfði síns tíma, eða Andy Kaufman ef maður vill fara lengra aftur. Maður veit ekki alltaf hvað á að vera fyndið við þetta en þetta er samt óneitanlega frekar spaugilegt. Ég hugsaði mikið til Friðriks Sólnes meðan ég las – eitthvað til Borgesar (þótt það sé kannski langsótt), Þorsteins Guðmundssonar og Barkakýlis úr tré og jafnvel einhvers einsog Aesópar.

Einfaldast er að taka bara dæmi:

***

Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á bíómyndina Skrímsli í París. Aino valdi. Við höfðum séð þessa mynd áður – ég virðist reyndar hafa misst af byrjuninni í fyrra skiptið, man ekki hvers vegna – en horfðum á hana aftur vegna þess að það ku hollt að horfa á hluti aftur (og lesa hluti aftur) og vegna þess að við áttum góðan eftirmiðdag í París um daginn og ræddum þá talsvert um hvar við hefðum séð Eiffelturninn og allt hitt áður. Ladybug – þættir sem Aino horfir talsvert á og við stundum með henni – gerast til dæmis í París.

Skrímsli í París fjallar um tvo menn sem fara óvarlega á tilraunastofu vísindamanns (sem er fjarri góðu gamni) með þeim afleiðingum að lítil fló verður risastór og fer að skelfa Parísarbúa alls staðar þar sem hún fer. Flóin kynnist svo kabarettsöngkonu (vinkonu mannanna tveggja) sem uppgötvar að hún getur sungið einsog engill – dulbýr flóna og syngur með henni í kabarettsýningunni við miklar vinsældir. Á meðan þessu stendur er lögreglustjóri bæjarins – og vonbiðill kabarettsöngkonunnar, við lítinn fögnuð hennar – að reyna að klófesta flóna, aðallega sjálfum sér og sínum ferli til dýrðar. Allt endar þetta með ósköpum, einsog vera ber, en fer svo vel á síðustu stundu.

Þetta er skemmtileg saga og þótt ég hafi oft vel því fyrir mér hvað hún væri að reyna að segja mér – hver sögn myndarinnar væri, einsog maður segir – þá velti ég því samtímis talsvert fyrir mér hvort hún þyrfti að hafa einhverja sögn. Listaverk hljóta að mega vera „bara sögur“ – rétt einsog þau mega hafa sögn eða boðskap án þess að þeim beri skylda til þess. Maður er sennilega sérstaklega vakandi fyrir þessum víddum í barnaefni af því maður óttast alltaf að bækur og myndir muni breyta börnunum manns í Vigdísi Hauks ef maður fylgist ekki með. Það er ábyggilega misskilningur.

Það sló mig reyndar að ólíkt mörgum bíómyndum, sem hafa jafnan svipaðan strúktúr og plottuð smásaga eða nóvella (kynning, plottdrífandi breyting sem veldur ójafnvægi í heimi sögunnar, uppgjör) þá væri margt þarna líkara skáldsagnauppbyggingu á háu tempói. Margir karakterar, mörg hliðarplott (þótt við sæjum mörg þeirra bara stuttlega) og svo framvegis. Ég spekúleraði ekkert í þessu frekar – man bara að ég hugsaði þetta á meðan myndinni stóð og kannski var þetta bara einhver dilla sem ekki stenst.

***

Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á sænsku bíómyndina Samablóð.

[HÖSKULDARVIÐVARANIR]

Í upphafi myndar hittum við fyrir fjörgamla kellingu, Elle-Marju (sem kallar sig síðar Christinu) og son hennar sem dregur hana norður til Samalands í jarðarför systur sinnar. Kellingin er full af fordómum í garð sama – þeir stela, ljúga, jojkið er bara eitthvað garg og svo framvegis – og vill alls ekki fara og líður illa í bæði jarðarför og erfidrykkju, neitar að gista hjá ættingjum sínum og nælir sér í hótelherbergi. Eftir að sonur hennar og barnabarn skilja hana eftir (hún vill ekki fara / bregst of seint við) og fara með þyrlu upp á fjall til að taka þátt í hreindýramerkingum fer hún á diskótek á hótelinu og dettur inn í fortíðina.

Þá er hún ung kona í Samalandi á fjórða áratugnum. Hún og systir hennar eru sendar í skóla þar sem eru bara samar og allir alltaf klæddir í samabúning. Hún verður fyrir margs konar fordómum – kennarinn, ung, fögur og afar sænsk kona, álítur þau of heimsk fyrir frekara nám og segir að heilarnir í þeim dugi ekki til að lifa af í borginni, samar deyi út ef þeir haldi sig ekki norðurfrá með hreindýrunum. Strákar í nágrenninu tala illa um samana og þegar hún konfronterar þá skera þeir í eyrað á henni (einsog hún merkir sjálf hreindýr nokkru fyrr). Allir horfa á þau og hafa fordóma. Höfuðlagsfræðingar koma og mæla börnin – taka myndir af þeim allsberum og grátandi á meðan nágrennisstrákarnir liggja á rúðunum.

Kvöld eitt stelur hún kjól af kennslukonunni og fer á ball – þar kynnist hún ungum manni sem heillar hana og þau eru komin afsíðis til að kela og kannski ríflega það þegar fólkið úr heimavistarskólanum mætir og dregur hana burt, en ekki áður en hún fær heimilisfang stráksins. Nokkrum dögum síðar stingur hún af til Uppsala þar sem hún bankar upp á hjá mjög svo borgaralegum foreldrum stráksins – sem er á balli þegar hún kemur – og segir að sér hafi verið boðin gisting. Þau eru fremur hvumsa og ókurteis og geta varla talað við hana af furðu og viðbjóði. Strákurinn kemur heim um nóttina – þau talast við, skemmta sér, sofa hjá – og daginn eftir láta foreldrar hans hann senda hana sinn veg (enda höfðu þau heyrt þau stunda kynlíf, vissu einhvern veginn að hún væri sami og þar með óverðug og höfðu áhyggjur af að hún yrði eða væri þegar ólétt).

Elle-Marja skráir sig í skóla undir nafninu Christina – segist vera frá Smálöndum. Vantar pening fyrir skólagjöldum – spyr ríka strákinn sem spyr hvers vegna hún spyrji ekki foreldra sína. Þá fer hún aftur norðureftir, spyr mömmu sína, sem neitar fyrst en gefur henni að endingu silfurbelti pabba síns (sem er dáinn).

Þá erum við aftur á diskótekinu. Kellingin starir út um gluggann – og einhvern veginn augljóslega breytt, augljóslega ekki full af sjálfshatri og skömm. Daginn eftir fer hún gangandi á fjöll og finnur samabúðirnar. Myndin endar.

Þetta er kraftmikil mynd og hún er betri þegar maður horfir á hana en svona í endursögn. Hún er vel leikin, vel leikstýrt, falleg og sagan er trámatísk og erfið. Við Nadja vorum sammála um það þegar hún kláraðist að myndin væri góð. Og hún er góð þrátt fyrir vankanta sína – sem ég tel vera eftirfarandi:

   1. Einsog furðu margar sænskar myndir og bækur er veruleiki hennar að mörgu leyti svarthvítur – ég sakna þess að það séu núansar. Svíarnir voru allir ofsalega sænskir og samarnir ofsalega samískir og sjálfshatandi saminn ofsalega sjálfshatandi sami og rasisminn ofsalega rasískur. Línurnar eru svo skarpar. Þetta er eitthvað sem á rætur a.m.k. allt aftur í sænska sósíal-realismann og ég held að þetta sé heiðarleg tilraun til þess að líta ekki undan  og gefa ekki afslátt gagnvart hroða heimsins. Svíar eru sem (menningar)þjóð gjarnir á að vera með samviskubit, afar kröfuharðir um sitt réttlæti og einsog þeim finnist rangt að horfa á björtu hliðarnar. Auðvitað á þetta ekki við um alla Svía – kannski bara menningararminn – Svíar eru líka sjálfumglaðir einsog allir aðrir (og margir þeirra eru hreinlega Svíþjóðardemókratar og þeir kunna ekkert að skammast sín).
   2. Manni finnst einsog sagan sé rétt að byrja þegar hún er skyndilega búin. Ekkert að því að hoppa frá einu aldursskeiði til annars – en það vantaði bara að klára söguna með strákinn í Uppsala (var hann pabbi sonarins? þeir voru líkir) og skólann. Þetta er ekki stór galli og ég get vel fyrirgefið hann.
   3. Fjörgömul kelling gengur ekki á fjöll þangað sem frískt fólk á besta aldri fer á þyrlu. Ekki einu sinni þótt um æðar hennar renni 400 oktana samablóð.
   4. Það var ekki sannfærandi að hún hristi bara af sér allt sjálfshatrið með því að standa á diskóteki í nokkrar mínútur og rifja upp æsku sína meðan hún horfði út um gluggann. Við sáum þar ævi hennar í fyrsta sinn og eðlilega hrærðumst við af því – en þetta var ekkert nýtt fyrir henni. Sjálfshatur – afleiðing áratugalangs rasisma sem er alls ekki horfinn þótt hann hafi skánað (og í myndinni virkar hann a.m.k. fremur slæmur enn) – er of inngróið til þess að maður geti bara svona úpsadeisí eitthvað losað sig við það með réttum trigger. Það er búið að kynna okkur fyrir trámatíseraðri stúlku sem elst upp í mjög fjandsamlegu umhverfi og gamalli kerlingu sem getur ekki heyrt jojk í útvarpinu án þess að byrja að ragna – hún fyllist ekkert alltíeinu nostalgískri andakt yfir samalífinu. Ég bara kaupi það ekki.

  ***

  Gítarleikari vikunnar er Robert Johnson. Lagið er Dead Shrimp Blues – Nárækjublús. Á Twitter í vikunni sá ég eitthvað fólk eiga í hinni klassísku samræðu um að gítarinn væri dauður og gítarsóló væru sjálfsfróun fyrir framan annað fólk (einsog það sé ennþá sixtís til eitís og við öll að drukkna í gítarsólóum í meinstrím tónlist). Auðvitað má það til sanns vegar færa samt með gítarleikinn – allur góður gítarleikur er „peacocking“ – einsog margt annað reyndar, t.d. hjólabrettaiðkun, frístæl-rapp og alls kyns aðrar kúnstir. En það er önnur Ella sem ég ætlaði ekki að ræða – Nárækjublúsinn er sérstök tegund af sjálfsfróun fyrir framan annað fólk af því hann fjallar um getuleysi.