Heilaþokan

Það er laugardagur, sól og blíða, ég fór á fætur með börnunum og leyfði Nödju að sofa. Klukkan er núna hálftíu og ég er búinn að skrifa meira í nýju bókina – við eldhúsborðið, gefandi börnunum morgunmat og sinnandi leikjum þeirra og þörfum – en ég gerði síðustu þrjá fullu vinnudaga. Ég veit ekki hvort maður kallar það innblástur, ég upplifi það meira einsog heilaþokunni hafi létt. Hvað veldur veit ég ekki heldur – ekki svaf ég vel og ég er ekkert sérstaklega vel fyrirkallaður að neinu leyti. Greiðslumatið er líklega í höfn, kannski er það bara það. Svo er auðvitað alls óvíst hvort nokkuð er varið í þessar síður (ég er vel að merkja ekki að tala um Heimsku – hún er frágengin, ég er löngu hættur að bæta síðum í hana) – ég kasta núorðið meiri texta en ég skrifa. Það kemur allt í ljós. Afköst eru afstæð.

Það er annars komin gróf útgáfa af kápunni á Heimsku – einn af mínum eftirlætis myndlistarmönnum, Jóhann Ludwig Torfason, tók verkið að sér og hún verður æði.

Ég finn ekkert ljóð sem passar með færslunni í dag. Ljóðabækurnar mínar eru líka næstum allar á Íslandi. Við skulum gefa okkur að hér komi eitthvað mjög djúpt um innblástur og heilaþokur.

Að þekkja framan í einhvern

Ég er að ryðjast enn einu sinni í gegnum yfirlestur á Heimsku og laga alls konar smotterí. Það er þekkt að maður verður hálf bit á eigin texta eftir sirka tíunda yfirlestur – allt virðist grunsamlegt og skrítið. Mér finnst oft einsog ég geti engu treyst. Þegar maður er kominn upp í tuttugu lestra verður maður rangeygur af rugli.

Það hjálpar ekki til að ég lifi í dálítilli tungumálasúpu – ég les mest á ensku, konan mín talar sænsku við mig og ég svara henni á íslensku, og Aram (sem talar íslensku við mig en sænsku við mömmu sína) blandar eðlilega mikið saman. Það er ansi langt síðan ég talaði reglulega íslensku við fullorðinn Íslending sem svaraði mér á íslensku – ég skæpa við foreldra mína nokkrum sinnum í mánuði en það er allt og sumt. Við þetta má svo bæta að ég er mér að nokkru leyti meðvitaður um að:

1) ýmislegt í máli mínu ber keim af þeirri litlu vestfirsku, sem ekki hefur verið upprætt – ég stend fast á rétti mínum til að skrifa „á helginni“ frekar en „um helgina“;
2) við höfum tilhneigingu til að ógilda alla sérvisku í máli – sérstaklega ef það finnast ekki fordæmi í virðulegu ritmáli (hvernig ný fordæmi eiga að verða til er svo auðvitað spurning);
3) ég hef sjálfur lagt stund á alls kyns tungumálahryðjuverk, klámþýðingar, bókstafsþýðingar, útúrsnúninga, kópípeist, vélskriftir, tilraunamálfræði og aðra eins vitleysu, sem hefur skemmt tilfinningu mína fyrir „réttu máli“;
4) margt af því sem potað er í við yfirlestur er ekki villa heldur val – t.d. hvort maður skrifar „náttúrulega“ eða „náttúrlega“. 

Rithöfundur þarf að geta eignað sér tungumálið – þarf hreinlega að leyfa sér stundum að beita því af valdsmannlegri hörku, hroka þess sem leyfir sér (þótt hann sé á hina höndina líka þjónn þessa verkfæris). Og það er að mörgu leyti óþolandi staða fyrir hvern sem er að vera þröngvað út úr málinu, vera sagt: „svona talar enginn“ eða „þetta er ekki [góð] íslenska“ – þegar maður hefur ekki gert annað en að tala/skrifa einsog manni er tamt og eðlilegt. En á sama tíma verður maður að hafa einhverja auðmýkt gagnvart því að maður gerir mistök og stundum orðar maður hlutina klaufalega – hafi maður ekki þá auðmýkt lærir maður aldrei neitt. Maður vill vera frjáls innan tungumálsins, maður vill ekki að það breytist í bönker.

Í gær spurði ég Facebook um orðasambandið „að þekkja framan í einhvern“, í merkingunni að þekkja einhvern í sjón – sem er í bókinni og ritstjóri strikaði undir. Nokkrir deildu því og á einum og öðrum þræði sköpuðust umræður sem var áhugavert að fylgjast með. Mörgum þótti þetta kunnuglegt þótt þeir gætu ekki bent á hvar þeir hefðu séð eða heyrt það – það finnast enn engin dæmi í ritmáli og það gúglast ekki – öðrum þótti þetta skrítið og ekki góð íslenska. Merkilegt nokk þá var það fyrst og fremst yngra fólki sem fannst þetta kunnuglegt, en fannst það á sama tíma fornfálegt, eða sjóara- og/eða bændaslangur – einn hélt sig kannski hafa séð það hjá Laxness – en eldra fólkið sem fussaði og þótti þetta ekki fínt.

Það þarf auðvitað ekkert að vera skrítið. Samræming í máli var minni áður fyrr; það sem hljómar auðskiljanlegt en hálfkunnuglegt er fyrir yngri manneskju hálfgerð vísun til þess tíma er fólk talaði ólíka íslensku eftir landshlutum, sérviskum og öðru. Og fullorðið fólk – hugsanlega jafnvel sú kynslóð sem stóð að þessari samræmingu, að minnsta kosti að hluta – er íhaldssamara. Það hefur eytt síðustu áratugum í að fussa yfir þágufallssýkinni og nýju þolmyndinni – eyddi barnæskunni í að passa sig á dönskuslettum, sokkabandsárunum í að passa sig á enskuslettum – og finnst komið gott af skrítilegheitum. Það vilja allir búa í heiminum sem þeir ólust upp í, og eftir því sem við verðum eldri þeim mun meira gengur heimurinn á þolinmæði okkar gagnvart sífelldum breytingum. Það er jafn eðlilegt og breytingarnar sjálfar.

En aftur að „villunni“ sem slíkri. Mér finnst þetta flott orðalag – að þekkja framan í einhvern – og mér er það tamt, þetta er ekki einhver tilraunamennska í mér. Ég nota það sjálfsagt oftast til að lýsa ákveðinni smábæjarstemningu – t.d. því að á Ísafirði þekkir maður kannski ekki alla 2.500 íbúana, en maður þekkir „framan í“ þá flesta (og tekur þannig eftir því þegar einhver nýr birtist). Og þannig er það notað í Heimsku (sem gerist á Ísafirði í framtíðinni).

Hvaðan það kemur veit ég ekki – mér finnst ósennilegt að ég hafi fundið upp á því hjá sjálfum mér en það er svo sem ekki óhugsandi. Þetta er alveg áreiðanlega ekki úr neinni útlensku – ég veit ekki einu sinni hvernig maður segir „framan í“ á neinu máli. Maður segir bara „face“, „ansikte“, „Gesicht“ o.s.frv. Ég gæti ekki skrifað þessa setningu svo vel væri á neinu öðru máli en íslensku.

Það er hugsanlegt að þetta sé talmál sem engum hafi þótt nógu fínt til að setja á blað – það er þó ósennilegt að fyrir því sé mikil hefð. Það er auðvitað ekki hægt að leita að þessu í bókum – en þetta finnst ekki í ritmálssafni, orðstöðulyklum eða á Google.

Mér finnst þetta mjög skiljanlegt – og gat ekki séð að merkingin hefði vafist mikið fyrir fólki. Ein kona sagðist þó ekki „einu sinni“ skilja þetta – sem var undarlegt í ljósi þess að „þýðingin“ fylgdi með (ég spurði hvort fólk þekkti orðasambandið, í merkingunni „að þekkja einhvern í sjón“). Til þess þarf einbeittan brotavilja. En íhaldssemin lætur víst ekki slíkt stoppa sig. Einhver skildi þetta meira þannig að maður þekkti svipinn á einhverjum (t.d. ættarsvip); annar skildi þetta þannig að manni þætti eitthvað kunnuglegt í fari einhvers (s.s. „þarna þekki ég kallinn“ = „þarna þekki ég framan í þig“). Mér finnst báðar þær merkingar líka ganga upp – og hver eigi við fara eftir samhengi.

Ég veit ekki hvernig maður skilgreinir málvillu. Eða hvernig maður skilur í sundur villu og frávik. Heimska gerist í framtíðinni og það væri í sjálfu sér í fínu lagi þótt hún væri öll á einhverju undarlegu máli – en einstaka smá frávik gerir ekki málið á henni fútúrískt.

Ég held samt að ég haldi framaníinu (á meðan ritstjórinn strækar ekki á það fullkomlega) og vona að það gleðji fleiri en það hryggir. Og vel að merkja þá gúglast það hérmeð loksins og hefur birst í ritmáli virðulegs höfundar. Verði ykkur bara að góðu.

Heilaharðlífi

Það gengur bölvanlega í vinnunni. Nú var ég næstum búinn að kenna því um að í gær var ég dæmdur fjárhagslegur krypplingur – fór í greiðslumat og ætti samkvæmt því að vanta tæpar 200 þúsund krónur bara til að geta með góðu móti hokrað í þessu auma jarðlífi, á bekk í blómagarði, því ég þyrfti síðan nokkuð meira til að hafa efni á þaki yfir höfuðið. Þetta er vel að merkja ekki vegna þess að ég skuldi neitt af viti – full listamannalaun plús allar aukatekjur reiknast bara ekki hærri en þetta. Og ekki er það vegna þess að fasteignaverð á Vestfjörðum sé svo hátt. Ekki vegna þess að ég reki bíl eða beri annan álíka aukakostnað af tilveru minni.

En hvað um það. Andleysið stafar af einhverju öðru. Ég var ekki dæmdur í fjárbaugsgarð fyrren seinnipartinn í gær og ég var líka svona í gærmorgun. Í andleysinu fæ ég illt í skrollfingurna. Blái liturinn á Facebook dofnar undan krefjandi augnaráði mínu. Sit hérna og bíð eftir því að það komi hádegismatur svo ég geti étið spanakopituna sem ég gerði í kvöldmat í gær (ég á náttúrulega ekki að vera að borða svona dýran mat, sárfátækur maðurinn – bara spínatið í þetta kostaði næstum tvöþúsundkall!). Það er sól og blíða í Svíþjóð. Ég áfrýjaði greiðslumatinu. Þarf að skrifa tveggja tíma fyrirlestur um „skipulag hlutanna“ – á sænsku („sakernas ordning“). En ég er með heilaharðlífi og það gengur ekkert.

Við ljúkum þessu á ljóði. Emily Dickinson – númer 801.

I play at Riches—to appease
The Clamoring for Gold—
It kept me from a Thief, I think,
For often, overbold 

With Want, and Opportunity—
I could have done a Sin
And been Myself that easy Thing
An independent Man— 

But often as my lot displays
Too hungry to be borne
I deem Myself what I would be—
And novel Comforting 

My Poverty and I derive—
We question if the Man—
Who own—Esteem the Opulence—
As We—Who never Can— 

Should ever these exploring Hands
Chance Sovereign on a Mine—
Or in the long—uneven term
To win, become their turn— 

How fitter they will be—for Want—
Enlightening so well—
I know not which, Desire, or Grant—
Be wholly beautiful— 

Svefngríman

Ég veit ekki hvar ég fékk þá rellu í höfuðið að það væru bara prinsessur sem svæfu með grímu fyrir augunum. Úr Meatballs?

Allavega. Einhvern tíma fyrir langalöngu var mér boðin slík gríma, prófaði en þótti hún óþægileg – svona einsog mér hefur aldrei gengið heldur að sofan með eyrnatappa. Fyrir fáeinum mánuðum flaug ég síðan frá Moskvu til Hanoi og var aftur boðin svona gríma – til gjafar í þetta sinn (Aeroflot mokaði alls kyns fíneríi í fjölskylduna í ferðinni). Ég man ekki hvort ég setti hana á mig en ég man að ég svaf ekkert í fluginu. Kvöld eitt í Hoi An prófaði ég hana síðan aftur og áttaði mig á því daginn eftir að ég hafði alls ekkert rumskað alla nóttina. Sem er ekki bara óvenjulegt, það er liggur við einstakt. Ég vandi mig í kjölfarið á að nota hana þar til bandið slitnaði – og hirti svo tvær grímur í fluginu til baka nú í apríl.

Nú sef ég dýpra en ég er annars vanur, kannski ekki alltaf, en oft samt. Og af þeim sökum hefur það gerst nokkrum sinnum að handleggirnir á mér dofna upp – ég ligg á þeim svo blóðstreymið stíflast og vakna lamaður frá öxl niður í kjúkur. Það tekur svona mínútu að öðlast fullt afl aftur, sem er mjög langur tími þegar maður er nývaknaður.

Á dögunum rumskaði ég um miðja nótt við það að dóttir mín, nýorðin tveggja ára, var grátandi í rúminu hja okkur. Í það skiptið hafði mér einhvern veginn tekist að lama á mér báða handleggina í einu og gat ekki einu sinni tekið af mér svefngrímuna, hvað þá sinnt Aino Magneu, lá bara þarna handalaus og blindur, rembdist við að reisa mig við, og endaði á að vekja Nödju með nefinu og einhverjum ámátlegum skrækjum.

Við ljúkum þessu á ljóði. Cripple eftir Carl Sandburg. (Trigger Warning: ableism (held ég, fer svolítið eftir því hvernig maður túlkar þetta!)).

Once when I saw a cripple
Gasping slowly his last days with the white plague,
Looking from hollow eyes, calling for air,
Desperately gesturing with wasted hands
In the dark and dust of a house down in a slum,
I said to myself
I would rather have been a tall sunflower
Living in a country garden
Lifting a golden-brown face to the summer,
Rain-washed and dew-misted,
Mixed with the poppies and ranking hollyhocks,
And wonderingly watching night after night
The clear silent processionals of stars.

Pundarinn Pound og Íslandsstofubókmenntafræðin

Einu sinni fór ég út í smók með Michael Hardt, sem er með doktorspróf í Ezra Pound, og ég spurði hvort það væri í lagi að fíla Ezra Pound þótt Pound væri fasisti og Hardt sagði „já, ljóðin hans“. En bætti svo við að hann væri vondur hagfræðingur.

Í gær kláraði ég ritgerð um framtíð bókmennta sem lauk á orðunum: „This makes me feel stuck in a hellish cycle of banality“. Þetta er auðvitað orðum aukið. Því fer fjarri að bókmenntir hreyfi ekki við mér eða mér finnist þær ekki skipta máli – að þær skipti a.m.k. mig ekki máli. En stór hluti af þeirri háfleygu orðræðu sem við viðhöfum um bókmenntir – hvort sem það er Íslandsstofa eða marxískir leshringir sem hafa orðið – krefst alls konar sjálfsblekkingarfimleika. Bókmenntirnar eru skorðaðar fastar á milli íhaldssamrar auglýsingavæðingar og alræðis akedemískra orðaleppa – og verða sjálfar stöðugt nostalgískari, sem heillar mig lítið.

Ekkert af þessu þýðir svo að bókmenntirnar séu ekki færar um að skapa og tortíma veröldinni, jafnvel bæði í einu, og geri það ekki hvað eftir annað.

Við ljúkum þessu á ljóði sem skapar og tortímir veröldum. Canto CXV eftir fasistann Pound.

The scientists are in terror
            and the European mind stops
Wyndham Lewis chose blindness
            rather than have his mind stop.
Night under wind mid garofani,
            the petals are almost still
Mozart, Linnaeus, Sulmona,
When one’s friends hate each other
            how can there be peace in the world?
Their asperities diverted me in my green time.
A blown husk that is finished
            but the light sings eternal
a pale flare over marshes
                where the salt hay whispers to tide’s change
Time, space,
          neither life nor death is the answer.
And of man seeking good,
            doing evil.
In meiner Heimat
                   where the dead walked
                              and the living were made of cardboard.

Skekkjan

Ég hef alltaf færri og færri skoðanir. Eða – ég hef í það minnsta á þessum skoðunum færri og færri orð. Deili ýmsu sem mér þykir vel skrifað en hugsa mig vel um áður en ég skrifa neitt (nýtt) sjálfur – eða tek einu sinni almennilega undir. Eyði jafnvel meiri tíma í sniðugheit en góðu hófi gegnir. Samt er internetið eiginlega komið að þolmörkum hvað sniðugheit varðar. Okkur er löngu orðið ljóst að við erum öll mjög sniðug.

Við erum stöðugt að viðra okkur. Margt af því sem við segjum er afar mikilvægt. Margt af því sem er mikilvægt endurtökum við – lífið er einhvers konar fuglabjarg á meðan það varir. Það eru 63 einstaklingar á þingi og 320 þúsund manns í pontu á hverjum gefnum tíma. Að sinna sínum hagsmunum, sínum hugsjónum og sinni sjálfsmynd. Ég er í flóttamanna- og makrílkvótanefnd. Þú ert í kvenréttinda- og fallvatnaráði. Við stimplum okkur inn, látum af okkur vita, því annars hverfum við. Staðfestum þátttöku okkar í lýðræðissamfélaginu og eftir því sem við upplifum okkur máttlausari, eftir því sem heimurinn ryður sér þá leið sem hann kýs sjálfur að fara, án þess að spyrja okkur, því hraðar tölum við, því hærra, því meira. Og allt er það mjög mikilvægt.

Það er einhver skekkja hérna en ég veit bara ekki hvað ég á að gera við hana.

Brecht, upprisan og tómið

Einu sinni bloggaði ég. Og þegar ég segi einu sinni meina ég „í 8 ár“ – þetta myndi fylla margar bækur (og minnst af því prenthæft). Fyrst á blog.central, svo á blogger.com og loks á norddahl.org. Ég bloggaði meira að segja á Smugunni um hríð. Það er allt meira og minna horfið. Ég hélt ég ætti afrit einhvers staðar – þegar ég tortímdi öllu á léninu mínu til að hreinsa út vírus – en svo var víst ekki. Stór hluti þess sem ég skrifaði er inni á Wayback Machine – alls ekki allt – og það er meira vesen að finna eitthvað tiltekið en svo að ég nenni því.

Þetta er kannski ekki einsog að glata handriti – ég tók það talsvert nær mér þegar ég hellti á sínum tíma stórum latté yfir fartölvuna mína með rétt ókláruðu handriti að Hugsjónadruslunni (einmitt um svipað leyti og ég byrjaði að blogga); það reddaðist – en þetta er samt dálítið leiðinlegt. Í tæpt ár las ég til dæmis pólitískar skáldsögur og bloggaði um þær daglega; í nokkra mánuði bloggaði ég einhverju smáræði á finnsku á hverjum degi; ég hélt hversdagsdagbók í líklega 18 mánuði. Á Smugunni (sem er líka horfin) skrifaði ég reglulega um vinnuna við Illsku. Þarna birti ég líka afrit af svo til öllu sem ég skrifaði í aðra miðla.

Fyrstu tvö árin var bloggið öðruvísi en það varð síðar – maður bjóst ekki við því að hver sem er læsi það og því leyfði maður sér að vaða meira á súðum. Einu sinni livebloggaði ég eigin sambandsslitum úr stofunni hjá stelpunni sem dömpaði mér. Ég skrifaði ýmislegt miður geðslegt um fullt af fólki, sem ég hefði áreiðanlega betur látið ógert. Andrúmsloftið var allt annað. Það var ekki búið að finna upp tillitssemina. Í öllu falli var ekki búið að kenna mér að beita henni.

Ætli tillitssemin – og kurteisin – hafi ekki hafið innreið sína á internetið um svipað leyti og moggabloggið? Þegar verstu fávitarnir þar riðu fram á ritvöllinn var auðveldasta leiðin til að skilja sig frá þeim að hætta að blóta og djöflast – þeir eignuðust þar með transgressífari hluta internetsins og eiga hann að mestu enn.

Fyrir nokkrum vikum opnaði ég svo þetta blogg. Ég ætlaði að nota það á svipaðan hátt og Illskubloggið – til að dokumentera eitthvað ferli, í þessu tilfelli meira biðina en sjálfa vinnuna. Ég kláraði sem sagt Heimsku og nú bíð ég. Ég er byrjaður á annarri skáldsögu og bíð*, er langt kominn með nýja ljóðabók og bíð og er alltaf að lofa sjálfum mér að ég muni einn daginn klára matreiðslubókina sem ég byrjaði á veturinn 2012-2013 – ég skrifa auk þess eitt og annað, á grein um Víetnam í næsta TMM og þarf að skrifa að minnsta kosti tvo fyrirlestra fyrir ráðstefnur í sumar  – annan með yfirskriftinni „skipulag/röð hlutanna“ – á sænsku – og hinn á ensku með yfirskriftinni „changing the world through writing“ – ég finn ekki upp á þessu sjálfur. En ég bíð.

Ég mun sjálfsagt halda áfram að minnast á Heimsku af og til en ég hef annars komist að þeirri niðurstöðu að það borgi sig ekkert að segja of mikið um þessa bók. Hún verður eiginlega bara að fá að útskýra sig sjálf. Hún er ekki einsog Illska – hún tekur einfaldlega ekki endalaust við.

Ég ætla sem sagt samt að blogga hérna. Vonandi daglega. Í dag ljúkum við þessu á ljóði – fyrir bloggið, fyrir Heimsku og fyrir alla mína þýskumælandi lesendur.

Bertolt Brecht, dömur mínar og herrar.

Den Nachgeborenen

Ich gestehe es:
Ich habe keine Hoffnung.
Die Blinden reden von einem Ausweg.
Ich sehe.
Wenn die Irrtümer verbraucht sind
Sitzt als letzter Gesellschafter
Uns das Nichts gegenüber.

Ef lesendur eiga íslenska þýðingu af þessu má endilega birta hana í kommentakerfinu.

* Skáldsagan gengur undir þremur vinnutitlum: Níska, Handtaska og Sjálfstæðisbaráttabaska. (Djók!) 

Að útskúfa til að verða ekki útskúfað

We all need to mark the enemies of security in order to avoid being counted among them … We need to accuse in order to be absolved; to exclude in order to avoid exclusion. We need to trust in the efficacy of surveillance devices to give us the comfort of believing that we, decent creatures that we are, will escape unscathed from the ambushes such devices set – and will thereby be reinstated and reconfirmed in our decency and in the propriety of our ways. 

 Zygmunt Bauman – Liquid Surveillance

Viðskiptabann: Mánuður 1

Ég veit ekki alveg hvers vegna, það var ekkert úthugsað og ég hugsa að ég leyfi því bara að vera óúthugsuðu, a.m.k. í bili, en ég ákvað fyrir mánuði síðan að næsta hálfa árið myndi ég bara lesa bækur eftir konur – kannski að hluta til vegna þess að þegar ég fór að hugsa málið þá voru flestir skallarnir þar (go figure) og listinn yfir það sem ég vildi lesa varð strax svo langur að það er borin von ég komist yfir nema brot af honum á hálfu ári. Og kannski að hluta til vegna þess að femínískar áherslur eru í móð og hver vill vera púkó. En þetta er sem sagt skýrsla 1/6 (ég les yfirleitt minna en þetta á einum mánuði, ég les frekar hægt).

Station Eleven – Emily St. John Mandel, kanadísk – kláruð 28. mars

Fín dystópía – ótrúlega „vel skrifuð“ í þeirri merkingu að mér fannst ég þurfa að ryðja mér í gegnum hana, æsispennandi. En ég er ekki viss um að mér finnist nú, mánuði síðar, að hún hafi skilið mikið eftir sig. Einhvers konar ebóla hefur þurrkað út bróðurpartinn af lífi í heiminum; leikflokkur ferðast um í norður-ameríku og sýnir Shakespeare, fólk gerir sér sveitarfélag á flugvelli, drengur elst úr grasi og verður illyrmislegur heimsslitapredikari, einu sinni var frægur leikari í kanada og allt tengist þetta með hætti sem útskýrist smám saman (en virðist svona eftirá hafa verið bara hálfpartinn út í loftið; í það minnsta segja tengingarnar mér ekki neitt, nema að þær séu til staðar).

We are all completely beside ourselves – Karen Joy Fowler, bandarísk – kláruð 10. apríl

Ég var alltof lengi að lesa þessa. Sögumaðurinn er óðamála – það er beinlínis karaktereinkenni, hún getur ekki haldið kjafti – og það smitast auðvitað út í stílinn sem verður dálítið bla bla bla og maður missir fókus. Og hún leysist nokkrum sinnum upp í frekar miklar predikanir (feminískar annars vegar og dýraverndunar hins vegar). En sagan, sem fjallar um konu sem ólst upp með sjimpansa (þær voru aldar upp einsog systur) fyrstu fimm ár ævinnar sækir á mann og er, þegar allt kemur til alls, miklu kraftmeiri en Station Eleven, þótt hún sé ekki jafn „vel skrifuð“, ekki jafn hnökralaus.

Paradise of the blind- Duong Thu Huong, víetnömsk – kláruð 15. apríl

Mig minnir að ég hafi skrifað aðeins um The Zenith á Starafugl – en hún fjallaði um síðustu daga Ho Chi Minh (og fleira). Þessi fjallar um tvær fátækar mæðgur í úthverfi Hanoi og er í aðra röndina klassísk örlaga/kynslóða/fjölskyldusaga – mamman er götusali sem vill að dóttir sín verði eitthvað meira, en ýmislegt stendur í veginum, ekki síst hún sjálf, en líka hefðirnar, þrjóskan, hinar sósíalísku hugsjónir, skyldur við aðra fjölskyldumeðlimi, hégóminn og jafnvel eitthvað „vestrænt“ andrúmsloft – allt rekst á. Dapurleg bók en falleg.

Rilke Shake- Angelica Freitas, brasilísk – kláruð 16. apríl.

Rilke Shake er ljóðabók – þýdd af Hilary Kaplan, sem verður eiginlega að koma fram því stór hluti verksins byggir á alls kyns orðaleikjum, orðahljóðum og fíflalátum (ég skil ekki portúgölsku en útgáfan er tvímála svo maður getur borið saman). Bókin fjallar um ídentítet og kynferði, tungumál og fegurð, og svo bókmenntahefðina – sem hún fer með einsog þá hlægilegu dásemd sem hún getur verið.

Bright-sided: how the relentless promotion of positive thinking has undermined America – Barbara Ehrenreich, bandarísk – kláruð 18. apríl

Þessi bók gengur ekki síst út á að gera lítið úr sjálfshjálpariðnaðinum og gerir það bæði með góðum og slæmum rökum – þessi bransi virðist svo sannarlega hálf sturlaður eftir lesturinn (og maður hugsar oft til þess offlæðis af jákvæðum „skilaboðum“ sem Facebookvinir manns flytja manni; já og hugmyndarinnar um „safe space“ – jákvæðnirúmið – sem kemur þó hvorugt til tals). Gallarnir eru helst í því fólgnir að hún endurtekur mikið af þeim skyssum sem sjálfshjálpargúrúarnir gera sjálfir, ekki síst því að rugla saman jákvæðri hugsun, velgengni, hamingju og ótal öðrum hugtökum einsog það sé allt sami grauturinn (en það er hugsanlega ekki hægt að takast á við þessi illskilgreindu konsept öðruvísi en að nota þau einsog þau koma af kúnni – annað myndi bara enda úti á túni).

Delta of Venus – Anaïs Nin, kúbönsk-amerísk-frönsk – kláruð að 3/4 hlutum líklega 20. apríl (ég sé að ég hef gleymt að nótera það hjá mér).

Ég sem sagt kláraði hana ekki. Hún var mjög áhugaverð framan af en svo bara bleee. Þetta er smásagnasafn, erótískt, að sögn skrifað eftir pöntun óþekkts auðkýfings, og því fylgir formáli höfundar sem ég var ósammála þar til ég var búinn að lesa þessa 3/4 bókarinnar. Hún altso heldur því fram þar að auðkýfingurinn hafi hálfpartinn rænt þau gleðinni af erótíkinni með því að strípa hana niður í kynlífslýsingar, með því að svipta sögupersónurnar öllu öðru en þessum löngunum sínum, því erótíkin sé bara gleðileg í samhengi sínu. Eitthvað þannig. Nú eru það kannski ýkjur, en 400 blaðsíður eru í það minnsta of stór skammtur af þessu – mér fannst mjög gaman og áhugavert að lesa fyrstu 100 síðurnar, en eftir 300 síður var þetta bara einsog að plægja sig í gegnum símaskrána og ég gafst upp. Það er reyndar áhugavert að næstum allt þarna, sem Nin skilgreinir sem erótík, yrði aldrei kallað annað en svæsnasta klám í dag – og oft á tíðum ofbeldisklám, nauðgunar/þvingunar fantasíur, sifjaspell og alls kyns pína (sem var oft líka fólgin í því að fólk fékk ekki að uppfylla þrár sínar fyrren seint og um síðir, ef þá nokkurn tíma). Miklu verra en nokkuð sem má finna í 50 skuggum, eða Fantasíubókinni.

Sense and sensibility – Jane Austen, ensk – kláruð 24. apríl

Þetta var einsog að detta í slúðurtunnu. Og minnti mig oft á Íslendingasögurnar, eiginlega – fólk fast í einhverjum hefðum að reyna að stýra sér leið í gegnum afskaplega flókna pólitík án þess að glata fjölskylduheiðrinum (og helst græða peninga). Samræðurnar voru dásamlegar og ég flissaði mikið, en ég missti líka þráðinn stundum og fannst oft einsog allt héti þetta fólk sama eftirnafninu („þessir karlar heita allir Þorgeir!“ var algengasta umkvörtunin þegar ég las íslendingasögur í skóla). Mikill „yndislestur“ einsog heitir. Það sló mig að þrátt fyrir að enginn ynni svo mikið sem eitt einasta handtak alla bókina (en allir hefðu miklar áhyggjur af tekjum sínum, sem guð einn veit hvar þeir fengu) þá var enginn frjáls, enginn gat farið og gert það sem hann vildi. Konurnar sátu mest kyrrar og karlarnir þeyttust um til að uppfylla „skyldur sínar“. Og ég fór að hugsa upp úr því hversu algengt það er að fólk vinni ekki neitt í bókum.

i will never be beautiful enough to make us beautiful together – Mira Gonzalez, bandarísk – kláruð 24. apríl

Önnur ljóðabók. Nei ég meina fyrsta ljóðabók. Fyrsta ljóðabók hennar, önnur ljóðabókin sem ég les í mánuðinum. Mira Gonzalez er nýjasta stjarnan í bandarískum ljóðaheimi og ég hef verið lengi á leiðinni að lesa þessa bók. Hún er fædd 1992 (!!!) og er stjúpdóttir bassaleikarans í Black Flag. Bókin er alveg skelfilega dapurleg – eða bara þunglyndisleg, alveg ógeðslega þunglyndisleg, en á sama tíma kímin og jafnvel glöð, og það án þess að verða nokkurn tíma skjálfandi hysterísk, einsog oft verður raunin þegar depurðin og fíflalætin mætast. Ég kláraði hana bara áðan og á eftir að lesa hana nokkrum sinnum – líkt og reyndar Rilke Shake, ljóðabækur eru yfirleitt í „umferð“ hjá mér í einhverjar vikur, liggja á borðum og við klósett og hér og þar, áður en þær fara upp í hillu (og fara svo iðulega aftur í umferð annað veifið).