Lykt af brenndum fjöðrum, Skrímsli í París og Samablóð

Þetta var fremur róleg vika í menningarneyslunni. Ég veit ekki hvað veldur – ekki einsog maður hafi ekki nægan tíma. Sennilega skrifaði ég síðast á þriðjudegi og þá er hún degi styttri. Reyndar eru alls konar hlutir mjög tímafrekir hérna. Laugardagurinn fór sem dæmi nánast allur í að versla (án þess að við værum að kaupa nein ósköp – í matinn og nokkra smáhluti sem vantaði). Mest kemur mér á óvart hvað ég las lítið – í bók að minnsta kosti. Eina skepnu – svo er ég reyndar langt kominn með aðra bók en hún býður næstu viku (og gengur furðu hægt).  Ég hef talsvert lagt mig eftir greinum um ástandið hérna í Hondúras og fundið lítið en það sem ég hef fundið er ítarlegt og gott – einsog þeir sem skrifi um stöðuna leggi meira í það vegna þess að það þarf alltaf að útskýra allan bakgrunn og kannski skiptir bara meira máli að það sé vel gert þegar það eru ekki allir að skrifa um þetta.

Nema hvað. Eina stutta bók – Lykt af brenndum fjöðrum eftir Daníil Kharms. Bókin kom út sem Sérrit Bjarts og frú Emilíu fyrir sléttum 100 árum. Nei, djók, fyrir kannski sirka 20 árum, gæti ég trúað. Þetta eru stuttir textar, ein lengri smásaga, brot/athugasemdir og nokkur ljóð í restina. Stíllinn er heillandi afslappaður og húmorinn það sem ég held að kallist „sérlundaður“ – svona Tvíhöfði síns tíma, eða Andy Kaufman ef maður vill fara lengra aftur. Maður veit ekki alltaf hvað á að vera fyndið við þetta en þetta er samt óneitanlega frekar spaugilegt. Ég hugsaði mikið til Friðriks Sólnes meðan ég las – eitthvað til Borgesar (þótt það sé kannski langsótt), Þorsteins Guðmundssonar og Barkakýlis úr tré og jafnvel einhvers einsog Aesópar.

Einfaldast er að taka bara dæmi:

***

Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á bíómyndina Skrímsli í París. Aino valdi. Við höfðum séð þessa mynd áður – ég virðist reyndar hafa misst af byrjuninni í fyrra skiptið, man ekki hvers vegna – en horfðum á hana aftur vegna þess að það ku hollt að horfa á hluti aftur (og lesa hluti aftur) og vegna þess að við áttum góðan eftirmiðdag í París um daginn og ræddum þá talsvert um hvar við hefðum séð Eiffelturninn og allt hitt áður. Ladybug – þættir sem Aino horfir talsvert á og við stundum með henni – gerast til dæmis í París.

Skrímsli í París fjallar um tvo menn sem fara óvarlega á tilraunastofu vísindamanns (sem er fjarri góðu gamni) með þeim afleiðingum að lítil fló verður risastór og fer að skelfa Parísarbúa alls staðar þar sem hún fer. Flóin kynnist svo kabarettsöngkonu (vinkonu mannanna tveggja) sem uppgötvar að hún getur sungið einsog engill – dulbýr flóna og syngur með henni í kabarettsýningunni við miklar vinsældir. Á meðan þessu stendur er lögreglustjóri bæjarins – og vonbiðill kabarettsöngkonunnar, við lítinn fögnuð hennar – að reyna að klófesta flóna, aðallega sjálfum sér og sínum ferli til dýrðar. Allt endar þetta með ósköpum, einsog vera ber, en fer svo vel á síðustu stundu.

Þetta er skemmtileg saga og þótt ég hafi oft vel því fyrir mér hvað hún væri að reyna að segja mér – hver sögn myndarinnar væri, einsog maður segir – þá velti ég því samtímis talsvert fyrir mér hvort hún þyrfti að hafa einhverja sögn. Listaverk hljóta að mega vera „bara sögur“ – rétt einsog þau mega hafa sögn eða boðskap án þess að þeim beri skylda til þess. Maður er sennilega sérstaklega vakandi fyrir þessum víddum í barnaefni af því maður óttast alltaf að bækur og myndir muni breyta börnunum manns í Vigdísi Hauks ef maður fylgist ekki með. Það er ábyggilega misskilningur.

Það sló mig reyndar að ólíkt mörgum bíómyndum, sem hafa jafnan svipaðan strúktúr og plottuð smásaga eða nóvella (kynning, plottdrífandi breyting sem veldur ójafnvægi í heimi sögunnar, uppgjör) þá væri margt þarna líkara skáldsagnauppbyggingu á háu tempói. Margir karakterar, mörg hliðarplott (þótt við sæjum mörg þeirra bara stuttlega) og svo framvegis. Ég spekúleraði ekkert í þessu frekar – man bara að ég hugsaði þetta á meðan myndinni stóð og kannski var þetta bara einhver dilla sem ekki stenst.

***

Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á sænsku bíómyndina Samablóð.

[HÖSKULDARVIÐVARANIR]

Í upphafi myndar hittum við fyrir fjörgamla kellingu, Elle-Marju (sem kallar sig síðar Christinu) og son hennar sem dregur hana norður til Samalands í jarðarför systur sinnar. Kellingin er full af fordómum í garð sama – þeir stela, ljúga, jojkið er bara eitthvað garg og svo framvegis – og vill alls ekki fara og líður illa í bæði jarðarför og erfidrykkju, neitar að gista hjá ættingjum sínum og nælir sér í hótelherbergi. Eftir að sonur hennar og barnabarn skilja hana eftir (hún vill ekki fara / bregst of seint við) og fara með þyrlu upp á fjall til að taka þátt í hreindýramerkingum fer hún á diskótek á hótelinu og dettur inn í fortíðina.

Þá er hún ung kona í Samalandi á fjórða áratugnum. Hún og systir hennar eru sendar í skóla þar sem eru bara samar og allir alltaf klæddir í samabúning. Hún verður fyrir margs konar fordómum – kennarinn, ung, fögur og afar sænsk kona, álítur þau of heimsk fyrir frekara nám og segir að heilarnir í þeim dugi ekki til að lifa af í borginni, samar deyi út ef þeir haldi sig ekki norðurfrá með hreindýrunum. Strákar í nágrenninu tala illa um samana og þegar hún konfronterar þá skera þeir í eyrað á henni (einsog hún merkir sjálf hreindýr nokkru fyrr). Allir horfa á þau og hafa fordóma. Höfuðlagsfræðingar koma og mæla börnin – taka myndir af þeim allsberum og grátandi á meðan nágrennisstrákarnir liggja á rúðunum.

Kvöld eitt stelur hún kjól af kennslukonunni og fer á ball – þar kynnist hún ungum manni sem heillar hana og þau eru komin afsíðis til að kela og kannski ríflega það þegar fólkið úr heimavistarskólanum mætir og dregur hana burt, en ekki áður en hún fær heimilisfang stráksins. Nokkrum dögum síðar stingur hún af til Uppsala þar sem hún bankar upp á hjá mjög svo borgaralegum foreldrum stráksins – sem er á balli þegar hún kemur – og segir að sér hafi verið boðin gisting. Þau eru fremur hvumsa og ókurteis og geta varla talað við hana af furðu og viðbjóði. Strákurinn kemur heim um nóttina – þau talast við, skemmta sér, sofa hjá – og daginn eftir láta foreldrar hans hann senda hana sinn veg (enda höfðu þau heyrt þau stunda kynlíf, vissu einhvern veginn að hún væri sami og þar með óverðug og höfðu áhyggjur af að hún yrði eða væri þegar ólétt).

Elle-Marja skráir sig í skóla undir nafninu Christina – segist vera frá Smálöndum. Vantar pening fyrir skólagjöldum – spyr ríka strákinn sem spyr hvers vegna hún spyrji ekki foreldra sína. Þá fer hún aftur norðureftir, spyr mömmu sína, sem neitar fyrst en gefur henni að endingu silfurbelti pabba síns (sem er dáinn).

Þá erum við aftur á diskótekinu. Kellingin starir út um gluggann – og einhvern veginn augljóslega breytt, augljóslega ekki full af sjálfshatri og skömm. Daginn eftir fer hún gangandi á fjöll og finnur samabúðirnar. Myndin endar.

Þetta er kraftmikil mynd og hún er betri þegar maður horfir á hana en svona í endursögn. Hún er vel leikin, vel leikstýrt, falleg og sagan er trámatísk og erfið. Við Nadja vorum sammála um það þegar hún kláraðist að myndin væri góð. Og hún er góð þrátt fyrir vankanta sína – sem ég tel vera eftirfarandi:

   1. Einsog furðu margar sænskar myndir og bækur er veruleiki hennar að mörgu leyti svarthvítur – ég sakna þess að það séu núansar. Svíarnir voru allir ofsalega sænskir og samarnir ofsalega samískir og sjálfshatandi saminn ofsalega sjálfshatandi sami og rasisminn ofsalega rasískur. Línurnar eru svo skarpar. Þetta er eitthvað sem á rætur a.m.k. allt aftur í sænska sósíal-realismann og ég held að þetta sé heiðarleg tilraun til þess að líta ekki undan  og gefa ekki afslátt gagnvart hroða heimsins. Svíar eru sem (menningar)þjóð gjarnir á að vera með samviskubit, afar kröfuharðir um sitt réttlæti og einsog þeim finnist rangt að horfa á björtu hliðarnar. Auðvitað á þetta ekki við um alla Svía – kannski bara menningararminn – Svíar eru líka sjálfumglaðir einsog allir aðrir (og margir þeirra eru hreinlega Svíþjóðardemókratar og þeir kunna ekkert að skammast sín).
   2. Manni finnst einsog sagan sé rétt að byrja þegar hún er skyndilega búin. Ekkert að því að hoppa frá einu aldursskeiði til annars – en það vantaði bara að klára söguna með strákinn í Uppsala (var hann pabbi sonarins? þeir voru líkir) og skólann. Þetta er ekki stór galli og ég get vel fyrirgefið hann.
   3. Fjörgömul kelling gengur ekki á fjöll þangað sem frískt fólk á besta aldri fer á þyrlu. Ekki einu sinni þótt um æðar hennar renni 400 oktana samablóð.
   4. Það var ekki sannfærandi að hún hristi bara af sér allt sjálfshatrið með því að standa á diskóteki í nokkrar mínútur og rifja upp æsku sína meðan hún horfði út um gluggann. Við sáum þar ævi hennar í fyrsta sinn og eðlilega hrærðumst við af því – en þetta var ekkert nýtt fyrir henni. Sjálfshatur – afleiðing áratugalangs rasisma sem er alls ekki horfinn þótt hann hafi skánað (og í myndinni virkar hann a.m.k. fremur slæmur enn) – er of inngróið til þess að maður geti bara svona úpsadeisí eitthvað losað sig við það með réttum trigger. Það er búið að kynna okkur fyrir trámatíseraðri stúlku sem elst upp í mjög fjandsamlegu umhverfi og gamalli kerlingu sem getur ekki heyrt jojk í útvarpinu án þess að byrja að ragna – hún fyllist ekkert alltíeinu nostalgískri andakt yfir samalífinu. Ég bara kaupi það ekki.

  ***

  Gítarleikari vikunnar er Robert Johnson. Lagið er Dead Shrimp Blues – Nárækjublús. Á Twitter í vikunni sá ég eitthvað fólk eiga í hinni klassísku samræðu um að gítarinn væri dauður og gítarsóló væru sjálfsfróun fyrir framan annað fólk (einsog það sé ennþá sixtís til eitís og við öll að drukkna í gítarsólóum í meinstrím tónlist). Auðvitað má það til sanns vegar færa samt með gítarleikinn – allur góður gítarleikur er „peacocking“ – einsog margt annað reyndar, t.d. hjólabrettaiðkun, frístæl-rapp og alls kyns aðrar kúnstir. En það er önnur Ella sem ég ætlaði ekki að ræða – Nárækjublúsinn er sérstök tegund af sjálfsfróun fyrir framan annað fólk af því hann fjallar um getuleysi.

Upp, Handbók fyrir ofurhetjur IV: Vargarnir koma, Mosquito Coast eftir Paul Theroux, Ankhon Dekhi og White eftir Bret Easton Ellis

Teiknimyndin Upp er fyrsta bíómyndin í fullri lengd sem Aram Nói horfði á. Við vorum tveir saman í Helsinki að þvælast – hann hefur verið á bilinu einsog hálfs til næstum tveggja. Planið var að fara í dýragarðinn en þegar við komum loks þangað eftir mikið strætóvesen reyndist hann loka fremur snemma. Þegar við komum á staðinn var enn opið en Aram þurfti að komast á klósettið og þegar við vorum búnir að sinna þeim erindum var ekki lengur sleppt inn. Aram varð eðlilega fremur leiður yfir þessu og skildi ekki alveg hvers vegna við máttum ekki fara inn fyrst við vorum komnir og enn fólk í garðinum. Og ég skildi það ekkert mikið betur sjálfur. Til þess að bæta honum þetta upp ákvað ég að við færum í bíó. Við strætóuðum okkur aftur niður í bæ til þess eins að finna enga barnamynd í sýningum á ásættanlegum tíma. Þá fórum við aftur í íbúðina sem við vorum með í láni, drógum fyrir gluggatjöldin svo íbúðin var alveg myrkvuð, poppuðum og horfðum á ólöglega niðurhalað eintak af Upp með ensku tali. Ég átti frekar von á að hann myndi bresta þolinmæði en hann sat grafkyrr allan tímann, einsog dáleiddur.

Meðal annars af þessum orsökum er myndin í uppáhaldi hjá mér. Og þetta var s.s. myndin sem kvikmyndaklúbbur fjölskyldunnar horfði á síðastliðin föstudag. Ég valdi. En þótt hún sé í uppáhaldi finnst mér hún ekki jafngóð í gegn. Fyrstu fimm-tíu mínúturnar – þegar farið er í gegnum æviskeið herra og frú Fredricksen – eru svakalegar. Ég lýg því ekki að ég græt alltaf þegar ég sé byrjun myndarinnar – og ekki endilega vegna þess að draumar þeirra rætist ekki, ekki af þannig sorg, heldur einfaldlega af því það er eitthvað ótrúlega fallegt við líf fullt af kærleika og vonbrigðum og sigrum og þetta er mjög stór skammtur og vel fram borinn. Ferðalagið með húsinu til S-Ameríku er líka skemmtilegt og samband þeirra Russells er gott. Ég næ hins vegar lítilli tengingu við ævintýrið í S-Ameríku – með talandi hundum og risafuglum og kaldlynda ævintýramanninum Charles Muntz. Myndin flýtur samt alveg út á enda á tilfinningum mínum í garð gamla mannsins og drengsins .

***

Með börnunum las ég Handbók fyrir ofurhetjur IV: Vargarnir koma. Aino valdi. Við erum búin að lesa þennan bókaflokk frá því upphafi og bíðum alltaf eftir nýrri bók. Aino finnst þessi best af þeim sem komnar eru, þarnæst koma þrjú og eitt saman í öðru sæti og loks önnur. Það er mest aksjón í þessari – slagsmál og læti – og með henni er þessum hluta ævintýrisins lokið, Vargarnir og Wolfgang eru sigraðir (a.m.k. í bili). Það er mjög augljós feminísk slagsíða í bókinni og gert í því að láta aðalsöguhetjuna – Lísu – vera dómínerandi og sterka þrátt fyrir ákveðinn sjálfsefa, á meðan strákarnir eru flestir lúðalegri og/eða breyskari. Ég er ekki viss um að maður taki neitt eftir því ef maður er ekki vanur því að lesa „gamaldags“ ofurhetjubækur (ekki frekar en Aino setur neitt spurningamerki við að 80% af öllum prinsessubókunum hennar fjalli um einhvers konar pönk/uppreisnar prinsessur; það er engin andstæða við prinsessu í hennar huga eða uppgjör við neitt, hún þekkir ekki annað en það sé eðlilegt).

Mér finnst fyrsta bókin best. Þegar Lísa finnur handbókina og fer að æfa ofurhetjutaktana. Þar er kynjavinkillinn ekki jafn kreistur og það er skemmtilegt touch að láta ofurhetjukrafta vera eitthvað sem hver sem er getur æft upp (ef viðkomandi kann æfingarnar og hefur trú á sér). Fjórða bókin er klassískasta ofurhetjubókin og líður svolítið fyrir að höfundarnir eru betri í dramatískri framvindu en hasartempói – það leysist alltof hratt og auðveldlega úr áhlaupi ofurhetjanna. Bókin er bara alltíeinu búin – „og svo unnu góðu og vondu töpuðu“, eða þannig.

***

Ég kláraði tvær bækur í vikunni. Sú fyrri heitir Mosquito Coast og er eftir Paul Theroux – pabba heimildamyndagerðarmannsins viðkunnanlega Louis Theroux. Myndin fjallar um ameríska fjölskyldu. Elsti sonurinn, Charlie, er sögumaður en aðalsöguhetjan er í raun pabbi hans, Allie. Allir er eins konar survivalisti, uppfinningamaður og beiskur snillingur, sem hefur fengið nóg af bandarískri neyslumenningu og almennri heimsku samtímans. Hann tekur fjölskylduna með sér til Hondúras og flytur út í frumskóginn. Þar stofna þau nýlendu og hann býr til risastóra ísgerðarvél (sem býr sko til klaka, ekki rjómaís). Lífið er erfitt – ekki bara vegna þess að frumskógurinn er auðvitað svakalegur heldur ekki síst vegna þess að Allie er svo mikið dikk, sérsinna þráhyggjufullur drullusokkur sem engum hlífir (og alls ekki sjálfum sér).

Dag einn rekast þau á nokkra hvíta menn með hópi af indíánum sem þau telja að stundi hvítt þrælahald. Þau koma þeim skilaboðum til mannanna að ef þeir komist yfir fjallið í nýlenduna þeirra bíði þeirra betra líf. Einhverju síðar birtast mennirnir og kemur fljótt í ljós að þeir voru alls ekki fangar indíánanna heldur lifðu á þeim sníkjulífi og hyggjast nú lifa sams konar sníkjulífi á nýlendubúunum. Allie reynir að koma þeim út með góðu en þegar það gengur ekki bíður hann þeim svefnstað í ísgerðarvélinni – sem lítur út einsog hvert annað hús – og kveikir svo á henni og læsir þá inni. Þeir reyna að skjóta sér leið út sem verður til þess að vélin springur í loft upp og áin og allt umhverfið mengast. Við þetta verður Allie ennþá geðveikari og fjölskyldan fer á hálfgerðan vergang í frumskóginum, lifir á drullu og ógeði á meðan einæði karlsins verður verra og verra. Ég læt vera að segja frá endanum.

Frábær bók. Ef ég hefði lesið Sjálfstætt fólk myndi ég líkja Allie við Bjart en ég læt duga að líkja honum við Ahab. Ég hafði séð fyrir mér að ég myndi kannski læra eitthvað um Hondúras af lestri bókarinnar – þar sem ég er búsettur næstu mánuði – en svo var ekki. Í raun hefði bókin getað gerst í nánast hvaða frumskógi sem er (segi ég sem sérstakur spesíalisti í generískum frumskógum). Það var líka gaman að lesa hana og geta alltaf litið út um gluggann og upp í fjall og ímyndað sér að þarna væru þau, inn á milli trjánna – þetta er umhverfið.

Þemun – úrkynjun vestræns lifnaðar og hin ógnvekjandi náttúra manns og skógar – eiga hins vegar ágætlega við hérna. Ég er meira í úrkynjuninni, auðvitað, og gætt allan sólarhringinn af byssumönnum, en hitt er allt hérna – Cerro Jilinco fjallatindurinn og frumskógurinn öðru megin við húsið en San Pedro Sula hinumegin, sem fram til 2016 var sú borg í heiminum þar sem flest morð voru framin miðað við höfðatölu (186 af 100.000).

***

Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á Bollywood-myndina Ankhon Dekhi. Hún fjallar um annars konar fjölskylduföður en Mosquito Coast, en kannski að mörgu leyti líka dómínerandi og sérsinna. Sá heitir Bauji og þegar myndin hefst er fjölskyldan í uppnámi vegna þess að dóttir hans hefur verið að hitta mann sem bróðir hans og fleiri segja að sé flagari og svikahrappur. Karlarnir í fjölskyldunni fara saman til að hrekja hann á flótta – og berja hann svolítið – en Bauji nær einhverri tengingu við hann og fullyrðir að hann sé ekki flagari heldur lamb og góðmenni. Upp úr þessu ákveður Bauji að hætta að leggja trúnað á neitt sem hann hefur ekki upplifað sjálfur – að gera eigin reynslu að eina mælikvarðanum á heiminn. Upp úr þessu segir hann upp starfi sínu á ferðaskrifstofu (af því hann getur ekkert sagt um staðina sem farið er á; hann hefur ekki komið þangað) og alls konar erfiðleikar hljótast af þessu – en hann endar líka með hóp af lærisveinum. Alls konar fjölskylduvinjettur eru sagðar – bræðrunum sinnast, einn sonurinn er að falla í stærðfræði, annar kemur sér í spilaskuldir, Bauji sver þagnareið og svo framvegis. Myndin endar svo á brúðkaupi dótturinnar og hins ætlaða flagara. Eða – það er smá meira í endann en ég læt líka vera að segja frá því, þótt ég ætli raunar alls ekkert að mæla með myndinni. Mér fannst hana skorta bæði þyngd og léttleika – einsog hún vissi ekki hvort hún vildi vera og tækist ekki að vera bæði í senn. Í stað þyngdar og léttleika komu þyngsli og losaraleiki. Frumspekipælingarnar um sannleikann og flugið og það allt saman voru líka bara á einhverju barnaskólaleveli.

***

Loks las ég White eftir Bret Easton Ellis. Ég veit ekki hvort á að kalla þetta eina ritgerð eða ritgerðarsafn. Maður þarf svolítið að hafa fyrir því að minnsta kosti að tengja þetta allt saman í eitt – nema maður leyfi þemanu bara vera „hlutir sem BEE var að spökulera“. Bókin hefur farið mjög misvel ofan í marga og skildi engan undra enda er hún árás eldri manns á þá kynslóð sem ræður diskúrsinum í menningarkreðsum samtímans. Hún hefði fyrst misheppnast ef henni hefði verið vel tekið. Og raunar leggur BEE upp með að „sérálitið“ sé eina álitið sem máli skipti – og samtíminn, sem er mjög konsensusmiðaður og vill helst ekki líða mikla misklíð í samræðunni (sá sem segir ranga hluti er rangur), vilji bara geta dæmt rétt/rangt fremur en að ræða gráu svæðin (enda sé sú umræða ævinlega særandi).

Reyndar má líka nefna það – og það er mikilvægur hluti af mismuninum milli gullaldar BEE og samtímans – að BEE varð frægur fyrir að skrifa bækur sem voru ofsalega brútal árásir á hans eigin kynslóð, á siðleysið og brjálæðið og sinnuleysið á níunda áratugnum. Um þetta fjalla Less Than Zero og American Psycho. Að hann haldi áfram að láta ungt fólk fara í taugarnar á sér – og sjái það sem fyrsta skrefið að nýrri og ónýtri veröld – er það sem hann hefur unnið við frá því hann var innan við tvítugt (hann er 21 þegar sú fyrri kemur út – byrjaði á henni 16 ára – og 27 ára þegar sú seinni kemur út). Hann er heldur ekki óvanur mótlæti og neikvæðri krítík – bækur hans hafa allar verið mjög umdeildar og Simon & Schuster hætti við að gefa út American Psycho á síðustu stundu, dömpaði henni bara, og bókmenntaheimurinn hafnaði henni á þeirri forsendu að hún væri full af kvenfyrirlitningu og viðbjóði (sem hún er; en hún mælir nú ekki beinlínis fyrir því samt).

Það er gaman að hugsa með BEE og hann er augljóslega leiftrandi í White. Mér fannst líka lengst af mjög skrítið til þess að hugsa að fólk hefði reiðst bókinni – eða hrist höfuðið yfir henni vandlætandi eitthvað um að djísus hvað þetta væri glatað, next – af því stærstur hluti hennar er bara hálfgerðar æviminningar listamanns sem var mjög lengi í hringiðunni (og er kannski að mörgu leyti enn) og fremur vönduð menningarumfjöllun. Og hún er – einsog æviminningar hálfsextugs manns eru oft – að mörgu leyti bara nostalgísk. Hann rifjar upp horfna tíma og telur þeim margt til tekna – ver þá gagnvart sumum breytingum samtímans. Nú gæti maður sagt sem svo að þetta sé rangt, samtíminn sé augljóslega betri en níundi áratugurinn, en það væri að falla í gildruna um gott og vont. Heimurinn er fyrst og fremst breyttur – hafi meðlíðan og tillitssemi aukist er ekkert skrítið að viðkvæmni og taugaveiklun aukist líka. Breytingar eru fyrst og fremst bara breytingar og þeim fylgja ævinlega kostir og gallar – lífið er ekki saumlaus framgangur þar sem allt bara batnar. Svo er líka bara ágætt að einhver verji siðlausari tíma á siðavöndum tímum – hvort sem mann langar að slaka á siðavönduninni eða ekki.

Ég tel henni til tekna að vera ekki of formföst, of aristótetelísk og ljóðræn – að hún sé svolítið sundurlaus, svolítið pönk, svolítið hingað og þangað. Bandarískar bókmenntir – sérstaklega ritgerðirnar en líka skáldsögurnar – eru oft alltof lokaðar og kláraðar einingar, svona MFA-gullinsnið eitthvað. Mér finnst það alveg hryllilega leiðinlegt og ófrjótt, svona einsog að hlusta á ofpródúseraða músík (sem ríður reyndar líka röftum).

Ég er ekki viss um að Bret Easton Ellis hafi nokkurn tíma talið sig sérstaklega þaggaðan eða kúgaðan – það er a.m.k. ekki að sjá á bókinni, þótt honum verði tíðrætt um andrúmsloft þöggunar. Þar á hann við stemningu sem ég held að margir þekki – að það hafi aldrei verið mikilvægara að gæta þess að segja ekki einhverja vitleysu því það geti kostað mann mjög mikið (og það jafnt þótt maður biðjist afsökunar eða hafi þegar beðist afsökunar fyrir löngu), og þar rekur hann ótal dæmi og flest þeirra af valdamiklu fólki (einsog leikstjóra Guardians of the Galaxy).

Í restina af bókinni er samt einsog hann sé búinn að pólarísera sig út í horn og sjálfur farinn að sjá allt í svart-hvítu. Óþol hans fyrir PC-fólkinu nær algerlega yfirhöndinni – þegar hann fer að skammast í hverjum hollywoodleikaranum á fætur öðrum fyrir að skammast yfir Trump (einsog það sé rangt eða glatað að skammast yfir forsetum og pólitík) og nær einhvers konar hámarki þegar hann hnýtir í klámmyndaleikkonuna Stormy Daniels fyrir að hafa selt söguna af því þegar hún reið Trump. Þá finnst manni hann vera farinn að væla jafn mikið og fólkið sem hann gagnrýnir – bara röfla og væla, ekki trolla, ekki vekja upp umræðu, bara svona mje-mje-mje. Það breytir svo litlu um að lýsingar hans á níunda og tíunda áratugnum eru áhugaverðar og stór hluti af gagnrýni hans á samtímann virkar bara frekar trúverðug. Og þrátt fyrir alla sína galla – og kannski meira að segja aðallega vegna þeirra – er þetta bók sem ástæða er til að setjast niður og lesa og leyfa sér að hugsa með (og gegn).

***

Gítarleikari vikunnar er Bonnie Raitt.

Uppskeruhátíð Fab Lab, Ferfættur kastali Haurus, Thor: Ragnarök og Kompa Sigrúnar Pálsdóttur

Það er skrítið að ætla að skrifa um bækur sem ég kláraði í Svíþjóð, myndir sem ég sá þar eða eitthvað sem ég gerði á Ísafirði í síðustu viku – úr þessum víggirta kristalskastala hérna í San Pedro Sula, paradísargarðinum Panorama. Sá heimur er horfinn. Það er ekki mánudagur heldur, ég missti af mánudeginum í einhverjum ferðalagsstormi. Við lögðum af stað frá Västerås snemma morguns á mánudegi, vörðum deginum í París og flugum svo til Mexíkó um nóttina. Lentum þar skömmu fyrir fjögur að staðartíma og flugum áfram til San Pedro Sula klukkan níu. Vorum komin í hús upp úr hádegi og eyddum deginum í gær úti við sundlaug, mókandi ringluð af flugþreytu.

Þess utan hef ég lítið lesið. Ég er ekki týpan til að koma miklu í verk í flugvélum eða á flugvöllum – ekki einu sinni þegar ég er einn á ferð, hvað þá með börnin í för. Líkaminn fer allur á hold (líkami= hold – lol!) og ég bara bíð þess að vera lentur. Það hefur alveg komið fyrir að ég lesi mikið eða jafnvel skrifi mikið í flugvélum en það er mjög sjaldgæft.

En skýrslu skrifar maður samt.

Það fyrsta á listanum yfir menningarupplifanir er uppskeruhátíð Fab Lab á Heimabyggð þriðjudaginn fyrir viku. Ég mætti þangað með Endemi, tók lítið spunalag með Dodda (á píanó) og sýndi fólki gripinn. Þar var fólk með alls konar sem það hafði gert að hluta eða öllu leyti í Fab Lab. Dan vinur minn, Iowamaður, mætti með cornhole-brautina sína, Denni – trúbadúr og bóksali – með heimasmíðuðu fiðluna sína, þarna var strákur frá 3X-stál með spíral sem á að koma í staðinn fyrir færiband í laxvinnslu (og hefur það fram yfir færibandið að laxinn er í vatni allan tímann og betra að stýra ástandi hans í vinnslunni), hressir tölvunördar með heimasmíðaða gamaldags spilakassa (með pac man og tetris og fleiru) og svo framvegis og svo framvegis. Þetta var mjög gaman – hefði kannski mátt vera formlegri uppsetning, að allir segðu frá sínu fyrir allan hópinn og ættu tíu mínútur á mann, eða svo, frekar en að maður þvældist bara á milli. Cornhole-brautin hans Dan, sem er frábær, féll t.d. aðeins milli skips og bryggju af því hún var úti á gangstétt (og við öll inni að drekka bjór). En Fab Lab er snilld og ég er með á dagskrá að fara aftur í haust og smíða annan gítar.

***

Við slógum saman kvikmyndaklúbbi barnanna og kvikmyndaklúbbi fullorðna fólksins og horfðum á listræna óameríska barnamynd – Ferfættan kastala Haurus eftir japanska leikstjórann Hayayo Miyazaki. Myndin fjallar um unga konu, Soffíu, sem rekst á konu sem gengur undir heitinu Eyðinornin – sú breytir þeirri ungu í gamla kellingu. Soffía flýr út í sveit í leit að lækningu og þar rekst hún á ferfættan lifandi kastala og íbúa hans – Kalsífer (sem er eldurinn sem gefur húsinu kraft og stýrir því), Mike (sem er drengur) og galdrakarlinn Hauru – og fær vinnu við þrif, enda kastalinn mjög skítugur.

Á þessum tíma geisar mikið stríð í þessum heimi – tilgangslaust og grimmilegt, háð fyrir ómerkilegan pólitískan ávinning og á sér augljósa samsvörun í Íraksstríðinu, sem leikstjórinn var mjög mótfallinn. Hauru er lykilmaður í að stöðva þetta stríð – hann breytir sér í fugl á hverju kvöldi og fer og truflar báða aðila stríðsins, en þessi hamskipti eru að ríða honum að fullu.

Allt fer þetta auðvitað vel á endanum.

Sagan er skemmtilega flókin og margbreytileg af barnamynd að vera. Það er ekki að boðskapurinn sé flókinn – þetta er óður gegn stríði, fyrir lífi, gegn aldursfordómum, fyrir krafti kvenna, krafti fórna, fyrir galdri og gegn tækni – en hún leyfir sér margar persónur og marga söguþræði sem þvælast hver fyrir öðrum. Teikningarnar eru allt frá því að vera fremur hversdagslegar yfir í að vera sturlaðar – allar senur með hinum ferfætta kastala eru stórfenglegar, minna á Terry Gilliam og Dali. Hún mæltist líka mjög vel fyrir hjá öllum sem á horfðu.

***

Á föstudagskvöldið horfðum við Aram og frændur hans, Simon og Jocke, á Thor: Ragnarök. Hún var fín. Meiri húmor en í mörgum af Marvelmyndunum; aulalegur en vinalegur. Ég er ekki viss um að ég nenni að rifja upp söguþráðinn eða að ég muni hann nógu vel til þess. Hel – sem í myndinni er dóttir Óðins, ekki Loka – ætlar að sigra heiminn en bræður hennar, Þór og Loki, sigra hana með því að setja af stað Ragnarök (sem eyða bara Ásgarði – og hann endurfæðist ekki, a.m.k. ekki í sömu mynd og ekki í þessari (bíó) mynd). Einmitt já, HÖSKULDARVIÐVÖRUN! Er það of seint?

Sjónvarpið hans mágs míns, Jocke, er með ægilega háskerpu sem gerir allt einhvern veginn of raunverulegt til að virðast raunverulegt. Þetta truflaði mig mikið. Ég mun aldrei skilja þá stefnu í kvikmynda- og viðtækjagerð að meiri skerpa sé alltaf betri. Þetta er einsog að mixa tónlist og framleiða hljómflutningstæki út frá þeirri forsendu að meira treble sé alltaf betra. Maður endar bara með illt í eyrunum.

***

Ég las Kompu eftir Sigrúnu Pálsdóttur eftir að hafa séð Stefán Pálsson rifja hana upp á Facebook. HÉR VERÐA HÖSKULDAR/SPOILERAR. Það var mikið talað um það á sínum tíma að þetta væri fyrsta skáldsaga Sigrúnar og þar með ótrúlega góð. Sem var bæði fyndið og svolítið patróníserandi. Sigrún hafði – 2016 – gefið út að minnsta kosti tvær stórar bækur. Önnur (það best ég veit) er púra sagnfræði og hin eitthvert millibilsstig. Og þar með einhvern veginn fáránlegt að tala um hana einsog byrjanda, jafnt þótt það sé með jákvæðum formerkjum. Svona einsog ef Bubbi Morthens hefði fengið nýræktarstyrk til að gefa út fyrstu ljóðabókina sína. Eða næstum því.

Hvað um það – Kompa er frábær bók og hefði verið það hvort sem Sigrún hefði verið tvítugur nýgræðingur eða sjötugur reynslubolti. Hún fjallar um konu sem hefur eytt mörgum árum í að skrifa 600 blaðsíðna ritgerð þegar hún kemst að því að forsendur ritgerðarinnar (að tiltekinn myndlistarmaður fyrr á öldum hafi verið kona) standast ekki nánari skoðun. Við tekur hálfgert hrun veruleikans – stór hluti bókarinnar er einsog hálfgert fyllerí, maður nær tökum á glefsum, missir sjónar á því sem er að gerast, nær því aftur, flettir fram og til baka, ringlast, nær stjórninni og svo framvegis. Konan veit ekki hvað hún á að gera, hvað henni á að finnast, hvernig henni á að líða og svo framvegis, og lesandinn er svolítið í svipuðum sporum.

Þetta gæti reyndar haft svolítið með að gera það hvernig lesandi ég er og hvernig bók þetta er (nei, er það?!) Það er lengst af mjög óljóst í hverju misskilningur konunnar er fólgin og þegar maður – ég – veit ekki eitthvað svo miðlægt í bók þá fer maður að lesa mjög hratt. Þá kviknar á glæpasagnalesandanum sem vill bara finna vísbendingarnar sínar. Textinn í bókinni er hins vegar Proustískari en svo að maður græði mikið á því – hana hefði sennilega mátt stytta um þriðjung bara með því að fjarlægja fatalýsingar (sem ég er ekki að mæla með). Þannig rekast á í henni tvö mótsagnakennd eðli – hægi ljóðræni lesturinn og hraði akkorðslesturinn. Ég var alltaf að ryðjast áfram, hægja á mér, bakka, ryðjast svo aftur áfram bara til að hægja á mér aftur. Og þannig fram á enda.

Ég er síðan með kenningu um endann sem ég veit ekkert hvort að er alveg út í hött – hún gæti verið það.

Þessum ósköpum lýkur á því að konan sálgar sér. Mamma hennar finnur síðuna sem konan reif úr handritinu – síðuna sem inniheldur upplýsingarnar um að listamaðurinn hafi verið karl, þær sem setja konuna svo algerlega af sporinu að hún endar í gröfinni. Þar kemur fram að listamaðurinn hafi verið kallaður í herinn – og það sé disgraise (skrifað svo). Hún fær sams konar áfall og dóttirin og hendir síðunni í ruslið. Síðar sækir hún hana aftur, skoðar hana nánar – síðan er eitthvað skemmd (nú man ég ekki hvort það var eftir ruslafötuna eða eitthvað annað – ég skildi bókina eftir í Svíþjóð og er á hálum ís). Í öllu falli eru sumir stafirnir máðir og alveg hægt að skilja disgraise sem disguise og setninguna þar með svo að hún myndi þurfa að dulbúa sig til að fara í herinn. Og þar með er hún kona.

Ef ég hef skilið það sem ég las um bókina rétt er almennt gengið út frá því að hér eigi sér stað fölsun. En það kemur, það best ég veit, aldrei almennilega fram hvað sé satt þarna – hvort hafi raunverulega staðið disguise eða disgraise  – við sjáum aldrei setninguna fyrren stafirnir eru orðnir máðir – og þar með algerlega opið fyrir það að konan hafi sjálf mislesið síðuna og sálgað sér fyrir misskilning. Hana plaga efasemdir – og niðurrifsmaður – alla bókina. Ég held ekki að misskilningur eða mistök hafi drepið þessa konu heldur yfirgengilegur sjálfsefinn.

Ég var næstum búinn að lesa bókina strax aftur til að staðfesta kenninguna (einsog það væri hægt), af því las hana líka í næstum jafn mikilli móðu og konan er í sjálf, en svo langaði mig að skilja hana eftir – við erum að drukkna í farangri – og lét það eftir mér.

***

Mér finnst einsog ég sé að gleyma einhverju. En sennilega er það ekki neitt. Ég hef horft svolítið á sjónvarp, sem ég sleppi hérna (af því það er svo mikið talað um sjónvarp hvort eð er og þetta er víst nógu langt).

Já, ég ætlaði að segja eitthvað um ferðalagið. Landarýni. Nei, ég nenni því ekki að svo stöddu.

***

Gítarleikari vikunnar er Corey Harris. Mig langar svolítið í svona gítar einsog hann er með. Þetta er Alvarez Artist parlor gítar. En mér sýnist borin von að ég geti fengið hann hérna, einsog ég var að ímynda mér. Hljóðfærabúðirnar hérna eru eitthvað fátæklegri en ég hafði ímyndað mér og erfiðara að panta hingað hljóðfæri og sennilega verð ég að sætta mig bara við hvaða parlor-gítar sem ég get fundið. En Corey Harris er mjög skemmtilegur. Ég hef svolítið verið að velta því fyrir mér hvort gítarinn sé ekki orðinn períóðuhljóðfæri – svona einsog lútan – verkfæri sem er fyrst og fremst ætlað að vekja fram tónlist ákveðins tímabils. Í tilfelli stálstrengjagítarsins, rafmagns- eða kassa-, er það auðvitað 20. öldin. Corey er að spila á öðrum enda hennar tónlist sem var samin á hinum endanum. Kannski var blues-revival hreyfingin í kringum Stones í byrjun sjöunda áratugarins – sem var lykilatriði í þróun rokktónlistar – fyrsta skipti sem gítarinn varð þetta períóðuverkfæri. Ég er vel að merkja ekki að meina að þetta sé allt eitthvað ómerkilegt. Mér finnst Corey Harris frábær og gítarinn elska ég umfram önnur hljóðfæri.

Life eftir Keith, Tímaþjófur Steinunnar, Perubókin, Blue is the Warmest Color og Frozen

Ég er þreyttur og gamall í kvöld. Illt í bakinu og lúinn í liðunum og verkjar í lungun og vorkenni sjálfum mér mjög mikið. Nadja og Aram eru í Finnlandi og við Aino hittum þau í Svíþjóð á fimmtudag. Ég er að þrífa og skúra og taka til, sem væri sennilega ekkert mál ef ég væri ekki svona lúinn. Sennilega er ég bara með nokkrar kommur.

***

Ég hlustaði á Life eftir Keith Richards og einhvern leynihöfund. Aðallega þegar ég var að mála í síðustu viku en líka aðeins með skúringunum. Þetta var mikið líf hjá honum, og er enn og verður sennilega um ófyrirsjáanlega framtíð. Ég hugsaði ýmislegt á meðan ég hlustaði á þessi herlegheit en megnið af því er fyrir bí – hefur bara gleymst. Bókin er 25 tímar í lestri. Mesta furða að hann muni svona mikið. Það eru þrír upplesarar sem skipta með sér bókinni – Joe nokkur Hurley les megnið, en Johnny Depp les fyrstu tímana og góðan slurk í seinnihluta bókar. Keith les svo sjálfur sirka síðasta klukkutímann.

Hann er auðvitað með svolítið mikilmennskubrjálæði. Og gefur að skilja. Það hlýtur að vera erfitt að miklast ekki af því að vera Keith Richards. Hann gerir reyndar mjög mikið úr því hvað Mick Jagger hafi orðið merkilegur með sig í gegnum tíðina. Sem er fyndið, því það er ekki beinlínis einsog Keith sé eitthvað að drepast úr hógværð sjálfur.

Hann gerir mjög mikið úr opnu stillingunni sem hann spilar í. Að stilla í „Keef“ er að spila opinn G og losa sig við efsta strenginn. Fimm strengir – G D G B D. Hann talar um þetta einsog þetta hafi í senn verið ægileg uppgötvun og enginn hafi vitað þetta – hann hafi verið að sýna frægum blúsurum þessa stillingu baksviðs og þeir bara gapað. En á sama tíma viðurkennir hann að þessi stilling var ekki bara mikið notuð í blús nokkurn veginn frá sköpun blússins heldur er þetta auk þess standard stilling t.d. á fimm strengja banjóum. Opnar stillingar eru gríðarlega algengar í allri alþýðutónlist. Þannig nær hann að búa þetta sem bæði fullkomna nýjung og algerlega upprunalegt – sem er auðvitað það sem er kallað að vera „orginal“. Bæði nýtt og gamalt í senn.

Kannski er flest í bókinni þessu merkt – reykur og speglar, galdrabrögð til að láta hið nýja virðast gamalt og hið gamla nýtt í senn. Og ætli það sé ekki bara ágætis lýsing á tónlist Rolling Stones líka?

***

Ég las Tímaþjófinn eftir Steinunni Sigurðardóttur. Ég á að vísu eftirmálann eftir. Það er mikið snilldarbragð að vera ekkert að drífa sig að lesa bækur sem eiga að heita skyldulesning. Ég er allavega mjög sáttur við að eiga góðan slatta af slíkum eftir. Einn daginn mun ég jafnvel lesa Sjálfstætt fólk!

Tímaþjófurinn er stórkostleg bók – meistaraverk – og ég er stærri fyrir að hafa loksins lesið hana en mér lá ekkert á að stækka; lífið er langt. Alda er auðvitað fullkomlega óþolandi – það eru fá orð um hana hafandi, sé maður heiðarlegur, sem myndu ekki hljóma einsog stækasta kvenhatur. Herramaður lætur ekki slíkan munnsöfnuð eftir sér. En á sama tíma er hún auðvitað líka dásamleg og maður tengist henni djúpum böndum, elskar hana og vorkennir henni. Bókin er síðan drifin áfram af þessum feiknalega persónuleika sem birtist manni í því ágenga, skemmtilega og ljóðræna tungumáli sem Steinunn ljáir henni – það er listin.

Það gladdi mig líka hvað hugmynd bókarinnar er í senn einföld og hvað er kafað djúpt í hana. Það eru engin sniðugheit í þessari hugmynd og ekkert plott, ekkert sem kemur á óvart þar – en hugsanir Öldu og þráhyggjur hennar og rómantík og sjálfselska hennar og sárin hennar riða þennan heim saman og rífa hann í sundur; sem og sýn hennar á heiminn í kringum sig, sem er stundum kosmópólítan víðsýni og stundum alger borgaraleg þröngsýni og bæði drifið áfram af sömu vélinni. Forréttindablindu og frekju – sem er líka frelsi hennar og styrkur og staðfesta.

Bæði hugmyndaveruleiki bókarinnar og stíllinn – sem veður hingað og þangað í dagbókarbrotum, frásögnum, þönkum, ljóðum – er eins langt frá þessu ameríska MFA-módeli hinnar aristótelísku formfestu og sniðugheita einsog hugsast getur. Tímaþjófurinn er lífrænt listaverk sem vex af eigin veruleika, vex af sjálfu sér, evrópsk bók – einsog Steinunn er auðvitað evrópskur höfundur.

***

Aram er í Finnlandi og því lesum við Aino ein. Við bíðum með fjórðu ofurhetjubókina þar til við hittum Aram aftur en höfum verið að lesa styttri myndasögur alla vikuna. Þar bar hæst Ótrúlega sögu um risastóra peru eftir Jakob Martin Strid. Ég hef haldið mikið upp á Strid frá því ég las teiknimyndasögurnar hans fyrir fullorðna sem unglingur – ætli það hafi verið í Politiken? Ég las ekki margar þeirra en nóg til að nafnið festist í höfðinu á mér. Þær voru mjög dónalegar – mig rámar í eina af manni sem pissaði bara á fasista þegar hann var ósammála þeim. Það fannst mér mjög fyndið. Svo kynntist ég honum aftur sem barnabókahöfundi fljótlega eftir að Aram fæddist.

Það eru engar kvenkyns persónur í Perubókinni. Í bíómyndinni – sem er annars að öllu leyti verri en bókin – er Mitsó kvenkyns og frá því við sáum hana hef ég bara leyft mér að hafa hana kvenkyns. Mitsó er þess utan langhressasti karakterinn í bókinni.

Plottið er klassísk barnabókaendaleysa – bara skemmtilegri en þær flestar – sem ég veit ekki hvort ég nenni að rekja á bloggi sem er eiginlega hvort eð er mest fyrir sjálfan mig. Stóra breytingin milli myndar og bókar er að í bókinni eru öll vandamál leyst með góðsemi og greiðum. Mitsó og Bastían gefa sjóræningjunum vatnsmelónur í skiptum fyrir íslensku rafhlöðurnar sem þau þurfa í humáttavitann; og fá einfaldlega steininn af dularfullu eyjunni í gjöf frá Ódysseifi Karlssyni, að best má skilja í skiptum fyrir góðan félagsskap. Í myndinni er þetta allt leyst með átökum og undirferli – hlutum er stolið og allt gerist í einhverju aksjón – allir eru andstæðingar og enginn gerir neitt fyrir neinn. Og merkilegt nokk er sagan leiðinlegri þannig.

***

Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á Frozen. Aino valdi þessa vikuna. Við feðgin keyptum okkur stóra pizzu með skinku og ananas og átum yfir hinu mikla meistaraverki Disney-fyrirtækisins. Aino var mjög glöð að geta valið hana nú þegar Aram er ekki á svæðinu. Reglur kvikmyndaklúbbsins eru þannig að það má beita neitunarvaldi ef maður vill ekki sjá einhverjar myndir. Aram hefur séð Frozen um það bil þúsund sinnum, hélt mikið upp á hana þegar hann var yngri og honum er alveg vorkunn að vilja ekki sjá hana núna. Aino sér hana þess utan alltaf annað veifið hjá vinum sínum.

Það er margt fallegt við Frozen. Við höfum lesið nokkrar sögur í stórri Disneybók frá því mæðginin héldu út og þær eru nú margar fremur hallærislegar (verst er samt Froskaprinsinn, held ég, að nokkur skuli vilja eiga þann skúnk mun ég aldrei skilja) – og þar kemur Frozen vel út í samanburði. Það er til dæmis gott tvist á mátt hinnar nýfundnu rómantísku ástar að láta hana a) reynast villuljós af því prinsinn er drullusokkur og b) hina sönnu ást vera systraástina.

Hér mætti spegla Frozen í Tímaþjófi Steinunnar – þar finnst manni einmitt ást systranna Öldu og Ölmu vera miklu raunverulegri en þrá yngri systurinnar eftir einhverjum vitleysiskalli sem ekkert vill nema eigin framgang.  Í Frozen áttar Anna sig reyndar í tæka tíð og kýlir sinn drullusokk fram af brú. Anna er líka miklu „heilsteyptari“ manneskja en aumingjans Alda. (Sem maður ætti samt ekki að vorkenna, hún er óttalegur drullusokkur líka – en svona er þetta, maður ræður ekkert hvar samúð manns lendir).

Auðvitað er Frozen óttaleg sykurleðja samt. Tónlistin og útlitið og meira að segja húmorinn. Sagan víkur rétt nóg af „beinu“ brautinni til að gleðja mann – og hefði sennilega aldrei notið þeirra vinsælda sem hún gerir ef hún hefði farið lengra af brautinni. Verst finnst mér samt hvað Anna fellur í skuggann af systur sinni – þessi saga fjallar eiginlega ekki neitt um Elsu en samt fær hún að vera aðal. En hún neglir börn í hjartastað – a.m.k. bæði mín, á ákveðnum aldri, og til þess er víst leikurinn gerður.

***

Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins – sem þessa vikuna var skipaður mér einum – horfði á Blue is the Warmest Color/ La Vie d’Adèle – Chapitres 1 & 2 eftir Abdellatif Kechiche. Þetta er frönsk mynd um unga stúlku sem verður ástfangin af annarri aðeins eldri stúlku, þær byrja saman, elska hver aðra mjög mikið og búa saman í nokkur ár, sú yngri heldur að sú eldri sé að halda framhjá sér, fer sjálf að halda við strák, það kemst upp, þær hætta saman og sú eldri byrjar með þessari sem sú yngri hélt að hún væri að halda framhjá með en hin verður mjög, mjög, mjög óhamingjusöm í mjög, mjög langan tíma. Ekki jafn langan og Alda í Tímaþjófinum – en allavega mörg ár og sér raunar ekkert fyrir endann á eftirsjá hennar og þunglyndi þegar myndinni lýkur.

En auðvitað fjallar myndin ekkert um það. Eða þannig.

Ég man að einn ónefndur vinur minn var alveg ónýtur eftir að hafa séð hana – eða allavega mikið eftir sig, þetta væri bara gegndarlaust lesbíuklám. Í vikunni sá ég líka einhverjar lýsingar á nýjustu mynd Kechiche, sem var frumsýnd á Cannes. Leikararnir gengu víst út af henni, einsog allir aðrir, og það voru bara viðstöðulausar myndir af rössum og tuttugu mínútna munnmakasena inni á klósetti. Hún er sögð versta mynd í sögu Cannes (en þess sem ég sá vann Gullpálmann). Aðrar myndir hans eru víst svolítið í sama dúr. Maður sér vel í La Vie d’Adèle að slíkur höfundur er til staðar en hún er miklu minna gróf en ég átti von á og hlutgervingar kannski að mörgu leyti óhóflegar en það er bara alls ekki óviðeigandi (og þar með eru þær auðvitað hóflegar).

Persónur ræða kvenlíkamann í listum, hina kvenlegu þrá; þær setja það í samhengi við Sartre, Egon Schiele, Gustav Klimt – Emma (sú eldri, Adèle er sú yngri) er málari sem málar konur og líkama. Þær heimsækja safn með klassískum styttum sem myndavélin hlutgerir einsog aðra líkama – sem var áhugavert, augun á mér festust alveg við spékoppana. Þetta var einn maður með tvo rassspékoppa þétt saman beint ofan við rasskinnarnar og svo kona með tvo spékoppa aðeins hærra en talvert lengra í sundur.

En einsog manneskjan er bæði líkami og sál án þess að í því séu fólgnar nokkrar óleysanlegar (eða óviðlifanlegar) mótsagnir þá dregur hlutgerving myndavélaraugans á þeim ástkonum alls ekkert úr samlíðan okkar með þeim. Hún bara er, einsog þær eru, og eitt undirbyggir hitt – fólk elskar og elskast og þráir og missir og klúðrar og eyðileggur fyrir sjálfu sér og grefur sér þráhyggjugrafir, og það gerist allt meðal annars vegna þess að við erum (ofan í allt annað) líkamar, erum hlutir. Það getur vel verið að þetta sé klámmynd – og það má áreiðanlega analýsera hana í ræmur eftir pólitískum vanköntum – en hún er ekki minna listaverk fyrir það.

***

Það sagði nú eiginlega sjálft hver yrði gítarleikari vikunnar.

Danssýning, Tónleikar LRÓ, Hatari, Dyr opnast, Stormfuglar, Toc toc og Flóttinn mikli

Þessi vika hefur verið svo löng að ég man varla hvar hún byrjaði. En jújú, sennilega byrjaði hún á danssýningunni í Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar (LRÓ). Aram og vinir hans áttu stóran þátt í að semja sýninguna og plottið var fremur kynjað hjá þeim. Hópur drengja kemur að litlu systrum sínum í tölvunni hans Arams, heima hjá okkur, svo finna þeir gamla tösku sem „pabbi hans Arams“ á og ferðast í gegnum hana inn í aðra vídd – tölvuleikjavíddina. Þar væflast þeir um en finna loks „skrítinn karl“ (sem Matta í Edinborgarhúsinu lék, ein fullorðinna á sviði) sem reddaði þeim til baka með einhverjum skrítnum aðferðum. Hvort hann sendi þá ekki eftir einhverjum töfragrip og þeir töfruðust til baka. Inn á milli voru svo dansatriðin – aðallega í tölvuleikjavíddinni. Þetta var allt saman mjög skemmtilegt þótt við kynjameðvitaða fólkið hefðum látið hlutverk „pirrandi litlu systra“ gera okkur gramt í geði. Aram og félagar fengu líka mikið hól. Í tölvuleikjavíddinni var Aram klæddur einsog Link í Zelda.

 

View this post on Instagram

 

Aram Link eftir danssýningu.

A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on


Aino átti að vera í sýningunni líka en hún veiktist og gat ekki farið. Hún tók það merkilega lítið nærri sér miðað við hvað hún var búin að vera spennt fyrir þessu. Sennilega er hún bara svona stóísk. Ekki veit ég hvaðan hún fær það en það kemur sér ábyggilega vel í lífinu. Þær höfðu frjálst búningaval – af því þær voru ekki í tölvuleikjavíddinni heldur okkar megin – og Aino ætlaði að fara í körfuboltagallanum. Var meira að segja komin í hann áður en hún fékk skyndilega verk í eyrað og lagðist flöt með hita.

***

Næst voru tónleikar í þeim sama LRÓ. Daginn eftir sennilega. Aino var búin að jafna sig og lék Maja átti lítið lamb og Óðinn til gleðinnar á píanó. Þetta er fyrsta árið hennar á píanó og það hefur svolítið rokkað hvað henni finnst þetta skemmtilegt en hún endar árið áhugasöm.

***

Ég las Dyr opnast eftir Hermann Stefánsson og Stormfugla eftir Einar Kárason. Ég hafði reyndar lesið þá fyrrnefndu í handriti og fékk hana alveg fríkeypis. Ég man ekki eftir nema einni einustu athugasemd og það gladdi mig að Hermann hafði ekki farið eftir henni heldur fundið aðra lausn sem var ennþá skemmtilegri. Ég ætla ekkert að segja ykkur hvað það var enda trúnaðarmál. En bókin er mikið fyrirtak – líka hin hneykslanlega saga um Vitaverðina sem woke-liðið ranghvolfdi augunum yfir.

Stormfuglar er líka merkileg bók. Það hefur verið furðu lítið um alvöru fagurbókmenntir um sjómenn og þeirra ævintýri – sérstaklega ævintýri þeirra á hafi úti. Ég ræddi þetta við Smára vin minn í hádeginu og við breinstormuðum eitthvað um ástæðurnar fyrir þessu. Smári hélt að kannski væri þetta bara of nálægt okkur ennþá – of mikið af sjómönnum frá hetjuárum íslenskrar sjómennsku. Þegar þeir fara að deyja verður kannski hægt að segja sögurnar ótruflaður. Svo eru auðvitað (nánast) engar konur um borð og þá er a.m.k. heterónormatífa rómantík úr sögunni. En það er líka bara að áhöfn skips er eitt lið í átökum við hafið og þá vantar eitthvað í spennuna – vantar „fólkið á næsta bæ“ eða einhvern kontrast. Í Moby Dick er þetta leyst með því að hafa skipstjórann snargalinn, en meira að segja þar er söguþráðurinn nokkurn veginn bein lína. Það er eitt markmið og það þarf að nást og það gerist ekkert mikið annað en bara það. Stormfuglar er ólíkt styttri – og kannski líkari Gamla manninum og hafinu en Moby Dick en þær eiga það allar sameiginlegt að vera svona einn þráður. Það er einsog hafið bjóði ekki upp á flókna söguþráði með neinum vendingum. Þar er bara farið fram og til baka – einsog í síðustu Mad Max mynd, þeirri frábæru ræmu. Í Stormfuglum er markmiðið bara að lifa af. Eða deyja ekki, þrátt fyrir að vera alltaf á barmi þess.

***

Á laugardaginn lék hin víðfræga sveit Hatari á Ísafirði ásamt palestínska tónlistarmanninum Bashar Murad. Þeir buðu mér að hita upp fyrir tónleikana með upplestri og Högni Egilsson lék á flygil meðan gestir tíndust út – svo var DJ en ég missti af honum. Þeir voru mjög þreyttir að sjá þegar við Aram fórum og hittum þá í hljóðprufunni en ekkert nema orka og einbeiting á sviðinu. Þetta vel smurð vél, vél smurð vel. Við Hálfdán Bjarki fórum með Aram, Hálfdán Ingólf og Christakis, son Dóra Eró og Sigurlaugar. Þeir fóru vægast sagt sáttir heim. Annars var mjög breitt krád í salnum – fólk á öllum aldri og héðan og þaðan. Þetta voru, það best ég veit, einu tónleikarnir á túrnum þar sem ekki var aldurstakmark. Það var engin óhemja af börnum, enda tónleikarnir seint, en samt slatti.

Úti í smók rakst ég á náunga – Patreksfirðing – sem kynnti sig með því að segjast vera 58% síonisti og 42% hitt. Tók það svo til baka og sagðist vera 56% síonisti og 44% hitt. Svo talaði hann um ofsóknir gegn gyðingum og sagði svo sem ekkert svívirðilegt – það var meira að niðurstaðan væri skrítin. Að vera síonisti.

Ég las Ljóð um forgangsröðun úr Óratorreki. Það er tíu mínútur í flutningi og tekur svolítið á – það er ljótt í því og það er endurtekningasamt (einsog öll ljóðin i bókinni). Einar trommugimp (sem er núna þriðji eftirlætis trommari Arams á eftir Nicko McBrain og Alex Van Halen) trommaði mig inn á sviðið, svo las ég og hann kom aftur inn í endann. Ég fékk svo það hlutverk að kveikja á tónlistinni þegar ég gekk út af sviðinu. Þessu var almennt vel tekið – mikið klappað og mikið hrópað og mikið talað við mig á eftir. En það voru ekki alveg allir jafn rosalega ánægðir með mig. Alveg ofan í mér á sviðinu var að minnsta kosti einn aðili – kona, sem ég sá aldrei en skilst að sé Ísfirðingur, nokkuð við skál. Og allan tímann sem ég las heyrði ég hana segja stundarhátt hluti einsog „Nei, heyrðu nú vinurinn, ert þú ekki eitthvað að villast?“ og „Hálfdán Bjarki, viltu stoppa manninn!“ Og svo framvegis. Þetta var hilaríus en af því að annars var þögn í salnum átti ég allt eins von á að öllum hefði bara þótt þetta glatað. Enginn er spámaður í eigin föðurlandi og svona – ég les sjaldan upp hérna og aldrei fyrir tónleikakrád.

Þegar við komum heim var Aram mjög forvitinn um þessa konu. Ég er ekkert viss um að hann hafi vitað neitt hvað honum átti sjálfum að þykja um upplesturinn – þetta er mjög langt og ruglandi fyrir börn, en honum fannst mjög spennandi að Hatari skyldi biðja mig að gera þetta. Hann vildi vita hvort ég væri ekki reiður eða sár. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að sennilega hefði ég farið í kerfi ef þetta hefði gerst fyrir 10-15 árum en núorðið væri mér alltaf meira og meira sama um svona. Sá sem höfðar til allra höfðar ekki mjög mikið til neins og ég reyni ekki að miða á fjöldann. Svo er líka fullt fólk bara oft einsog algerir bavíanar. Og ég fór síðan á útskriftarball í menntaskólanum að hitta Nödju (sem er frönskukennarinn) og fékk að segja söguna af fullu röflandi kellingunni nokkrum sinnum og það var bara gaman.

***

Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á spænsku bíómyndina Toc toc. Nadja valdi – en hún var ekki síst valin fyrir að a) vera á spænsku b) á netflix og c) ekki mjög löng. Myndin fjallar um hóp fólks sem hittist á skrifstofu frægs sálfræðings. Þau eiga fyrir mistök öll bókaðan tíma samtímis og í ofanálag er sálfræðingurinn, sem ekkert þeirra hefur enn hitt, seinn fyrir. Öll þjást þau af áráttu- og þráhyggjuröskun (sem er skammstöfuð TOC á spænsku). Einn þarf að reikna út allt sem fyrir nef hans rekur, önnur endurtekur allt sem hún segir, þriðji er með tourettes (sem furðulegt nokk hinir virðast bara aldrei hafa heyrt um), fjórði er með hreinlætisæði o.s.frv. o.s.frv. Myndin er byggð á leikriti og ber þess merki – sennilega verið vinsæll farsi einhvers staðar. Ég gat ekki séð að myndin fjallaði um neitt sérstakt eða hefði neinn annan tilgang en að reyna að stytta manni stundir – sem tókst ekki nema rétt svo bærilega.

***

Við Aram og Aino kláruðum Flóttann mikla eftir Indriða Úlfsson. Aram valdi og Aino velur næstu bók. Flóttinn mikli fjallar um ungan dreng, Loga, sem er munaðarleysingi og elst upp hjá stjúpa sínum, illmenninu Þorláki frá Gili (sem Aram hefur stundum kallað Þorstein frá Hamri – hann las ljóð eftir Þorstein á framsagnarprófi í morgun) eða Svarta-Láka, sem lemur stjúpson sinn og kemur almennt mjög illa fram við hann. Svarti-Láki á vin sem heitir Bjössi Blátönn og saman skipuleggja þeir innbrot í skartgripaverslun. Þegar Logi heyrir óvart ráðabrugg þeirra ákveða þeir að gera hann samsekan með því að taka hann með. Í miðju innbroti flýr Logi svo undan þeim og gengur út í sveit. Þeir elta og hann húkkar sér far og kemur sér fyrir á bóndabæ, þeir finna hann og hann flýr aftur, fer á annan bóndabæ, hittir laxveiðandi leynilögreglumann sem heitir Hansi, þeir finna hann aftur, Hansi bjargar málunum og stingur Bjössa og Láka í steininn og Logi er tekinn í fóstur á seinni bóndabænum.

Sagan er mjög spennandi í upphafi en missir svolítið dampinn. Bókin er gamaldags – hún kom út 1974 og ber þess ekki mikil merki að hafa komið út á þeim annars upplýstu tímum. Það er mikil sveitarómantík í henni – óhamingjan er í sollinum (þeir stjúpfeðgar búa á Vesturgötu, sem virðist hálfgert slömm) en hamingjan meðal bænda. Karlar eru ýmist góðmenni eða illmenni en konur eru allar góðmenni – ekki síst látin móðir Loga sem virðist hafa verið einhvers konar dýrðlingur og hafa viljað bjarga Svarta-Láka frá sjálfum sér. Áður en hún svo dó.

Ég man eftir að hafa sjálfur lesið bækur Indriða Úlfssonar þegar ég var lítill. Hélt mikið upp á Kalla kalda. Man ekkert eftir henni samt. Ég get ekki sagt að upp hafi sprottið miklar og nostalgískar tilfinningar við lestur Flóttans mikla heldur – þótt ég hafi áreiðanlega lesið hana (hún er í láni frá mömmu og pabba og það er óhugsandi að í því húsi séu barnabækur sem ég hef ekki lesið).

Aram fannst Flóttinn mikli skemmtileg og Aino líka – þótt hún hafi ekki náð öllum söguþræðinum. Mér finnst alltaf gaman að fá svona innlit í annan tíma – ekki bara sjálfan sögutímann heldur líka hugarfar höfundar. 1974 er bæði svo nýlega og fyrir svo langa löngu – það er kyrfilega í nútímanum í mörgum skilningi en samt ekki. Og ég held að það veki líka athygli þeirra – síðustu bækur sem við höfum lesið, Elías og Sitji guðs englar trílógían eru allt svona innlits bækur (þótt hinar hafi verið nútímalegar í öðrum skilningi – Auður betri höfundur en Indriði svo mjög miklu munar og Guðrún Helgadóttir … er bara ekki í sömu deild og aðrir barnabókahöfundar, og trílógían ómetanlegt listaverk).

***

Gítarleikari vikunnar er Slash.

Útskriftartónleikar TÍ, Father of the Bride, Hyldýpi, Princess Bride, jarðarför Kolbeins, Hatari/Eurovision og Tokyo Story

Menningarvikan byrjaði á útskriftartónleikum Tónlistarskóla Ísafjarðar. Þar er Aram að læra á trommur. Aino er í Listaskóla Rögnvaldar að læra á píanó – þeir tónleikar eru held ég á miðvikudaginn.

En allavega. Aram spilaði Hey Joe og stóð sig mjög vel – var farinn að bíta sig í vörina af fílingi um mitt lag. Það kom mér svo talsvert á óvart þegar í ljós kom, aðeins eftir að við komum heim, að hann var alveg ónýtur yfir þessu – fannst hann hafa klúðrað öllu og þetta væri bara allt ómögulegt. Ekkert var fjær sanni. Við þurftum að eiga langt samtal um hvernig það skipti máli að geta haldið áfram þrátt fyrir smávægilegar skissur – frekar en að frjósa t.d. – og hvernig það væri alltaf tilfinningin sem væri aðalatriði, að negla bítið og meina það, sem hann hefði gert alveg upp á tíu, og hann mætti vera stoltur af sjálfum sér að hafa náð þetta langt á tæpu ári – og ég væri alveg lifandis skelfingar stoltur af honum. Sem ég er. Hann fór beint upp í herbergi að tromma þegar við höfðum sagt allt sem við vildum segja og ég held það sé góðs viti um framhaldið.

Nú á helginni fóru þeir vinirnir – hann og Hálfdán Ingólfur og Þórður mennski Skúlason – út í bæ með gítara og potta og pönnur og gamla hatta frá mér til að böska og þénuðu nóg til að kaupa sér pizzasneiðar í hádegismat og setja afganginn (þrjú þúsund kall) í hljómsveitarsjóð.

Hann spilaði reyndar líka í tónsmiðju á tónleikunum – á Ukulele, You are my sunshine og Súrmjólk í hádeginu.

***

Ég hef eitthvað aðeins haldið áfram að hlusta á Father of the Bride og meðal annars komist að því að hún er betri í hátölurum en heddfónum. Útsetningarnar eru of pældar til að maður nenni að heyra alla díteilana – verður bara of mikið show off – og svo er röddin í Ezra Koenig ekki jafn óþolandi í hátölurum. Hann er með svona Crash-Test-Dummies, Counting-Crows rödd – það er alltaf einhver áferð þarna sem ég á mjög erfitt með að komast yfir. Ég er svolítið viðkvæmur með svona, viðurkenni það alveg – hef t.d. aldrei alveg getað tekið Chris Cornell í sátt, og er hann þó æskuídol.

Fín plata samt – góð í uppvaskið, matreiðsluna, en síðri til að ryksuga við (af því þá vill maður vera með heddfóna).

***

Ég hlustaði á útvarpsþættina Hyldýpi sem skrifstofunautur minn Halla Mia Ólafsdóttir og Birgir Olgeirsson, söngvari og blaðamaður frá Bolungarvík, gerðu fyrir RÚV. Þættirnir fjalla um óveðrið 4.-5. febrúar 1968 þegar á þriðja tug togara leituðu vars í Ísafjarðardjúpi. Þetta er eitt versta veður í manna minnum og tvö skip fórust en eitt strandaði. Lýsingarnar eru hrottalegar.

Þetta er einhvern veginn bæði svo kunnuglegur heimur og framandi í senn.  Ég ólst upp með pabba á sjó rúmum áratug eftir þetta og þótt ástandið hafi strax þá verið orðið nokkuð skárra – öryggismál í betri farveg og veðurspár nákvæmari – þá er tilfinningin eitthvað svo kunnugleg. Áhyggjur bæjarfélags af sjómönnunum sínum.

Þættirnir eru afar vel gerðir – Birgir og Halla nálgast söguna af virðingu og hlýju. Og þetta er líka mikilvægt starf – ég veit ekki hvort það er rétt að segja að maður streitist gegn minnisleysinu. Javier Cercas talar talsvert um muninn á minninu og sögunni í Impostor.

Memory is threatening to replace history in an era saturated with memory. This is bad news. Memory and history are notionally opposites: memory is individual, partial and subjective; history is collective and aspires to be comprehensive and objective. Memory and history are also complementary: history gives sense to memory; memory is a tool, an ingredient, a part of history. But memory is not history.

Og kannski er það einmitt það sem gerist í svona þáttum – sagan tekur við af minninu. Minnið er lagt fram og verður dokúment og dokúmentið verður mannkynssagan. Þetta er ómetanlegt starf.

***

Kvikmyndaklúbbur fjölskyldunnar horfði á Princess Bride. Ég var að sjá hana í fyrsta sinn og það var ég sem valdi (við skiptumst á). Hún var að mörgu leyti mjög skemmtileg – mikið af þekktum línum og mikið af skemmtilegri … kerskni, er það ekki orðið sem ég er að leita að? Sennilega hefði hún samt verið miklu betri ef nostalgían hefði verið með í för.

Mér finnst líka mjög leiðinlegt, og ég mjög leiðinlegur, að festast í hlutum einsog kynjahlutverkunum. Þau eru svolítið eitís, ef ekki hreinlega seventís. Mig langar að hefja mig yfir þetta – vera meðvitaður um það, en láta það ekki eyðileggja fyrir mér skemmtunina, söguna eða listina – en það sem sagt klúðrast stundum. Ég kenni góða fólkinu um. Og einhverri svona karlaskömm. Einsog ég sé persónulega að manspreada mig yfir kvikmyndasöguna.

***

Ég fór í jarðarför Kolbeins Einarssonar á laugardag. Þar var mikið grátið – söknuðurinn mikill, enda ógurlegur missir af Kolbeini. Ólýsanlegur. Tónlistaratriði voru til fyrirmyndar – kórinn var dásamlegur. Forspil og eftirspil voru Runaway eftir Kanye West, ofsalega fallegt. Högni Egilsson og Philip Barkhudarov sungu einsöng. Svo í lokin þegar átti að bera kistuna út – rétt fyrir eftirspil – kom eitthvað þekkt svona mariachi-lag (held ég) [uppfært: þetta var Derrick-lagið] á trompet, spilað af svölunum af Madis Mäekelle, og það var svo fullkomlega kolbeinskt, svo kjánalegt og óvænt og yndislegt, að maður fór einhvern veginn að flissa og gráta í senn.

Svo gekk maður út úr kirkjunni, beint í fangið á ærslabelgnum á sjúkrahústúninu, og lífið tók við af dauðanum. Ég stóð lengi nálægt kirkjunni, við sjómannastyttuna þar sem var búið að leggja kransa, og vissi ekkert hvern ég ætti að knúsa og langaði að knúsa alla en knúsaði á endanum ábyggilega mjög fáa og svolítið random bara. Mér finnst alltaf aðdáunarvert þegar fólk getur verið gjafmilt á hlýju sína – einsog mjög margir eru – ég festist alltaf í einhverjum þráhyggjuhugsunum um að vera ekki að þvælast fyrir.

***

Það er sennilega að bera í bakkafullan lækinn að segja eitthvað fleira um Hatara og Eurovision. En það var auðvitað stór menningarviðburður þessa vikuna – og kenndi margra grasa og margt var ágætt og annað óþolandi og sirkusinn alltaf skemmtilegur. Ég hef lengi verið málsvari Eurovision sem sameinandi afls í álfu sem lengst af gerði ekki annað en há stríð – sem endaði með helför, blitzkrieg, ógurlegum mannfórnum og svo stofnun Ísraelsríkis (í okkar boði).

Ég skrifaði strax um Eurovision í fyrra þegar Netta vann og var aldrei á því að sniðganga væri sérlega góð hugmynd, heldur væru mótmæli á staðnum mikilvægari. Eftirá að hyggja held ég að bæði hafi verið best – mótmæli innanhúss og utan. Samstaða þarf ekki að vera fólgin í því að allir geri sama hlutinn eins. En það eru nokkrir þættir í þessu sem hafa ekki verið ræddir, það ég hef séð.

Klemens Hannigan sagði í viðtali að fánarnir hefðu ekki verið bomban, heldur atriðið sjálft – „listin er alltaf bomban“. Þetta finnst mér kjarna eitthvað um það hvernig ég upplifi hljómsveitina. Að þau taka hlutverk sitt sem listamenn alvarlega – þau eru ekki lobbíistar sem hafa búið málstað sínum listrænan búning, heldur listamenn sem gera sér grein fyrir því að veröldin er pólitísk. Lagið er ekki gagnrýni á Ísrael í sjálfu sér – þótt vel megi heimfæra það á Ísrael eða málstað ísraelska ríkisins gagnvart Palestínu. Lagið fjallar um Evrópu – það er hún sem hrynur ef hatrið sigrar. Án samhengisins Eurovision í Tel Aviv finnst mér augljósi lesturinn (sem er ekki endilega sá eini eða sá eini rétti) vera uppgangur fasismans í álfunni – frá Ungverjalandi til Austurríkis, frá Miðflokknum til AFD.

Tengsl Ísraels við Palestínu er hins vegar dálítið einsog extrem útgáfan af pólitískum tengslum Evrópu við þriðja heiminn. Við lokum þriðja heiminn úti, búum þeim óþolandi aðstæður, lítum á þau sem aðeins minna en mennsk – ef við finndum indónesíska fataverksmiðju í úthverfi Parísar yrði allt vitlaust, en af því hún er bara í Indónesíu þá er það alltílagi (jafnt þótt fötin séu öll seld í París). Við svífumst líka einskis til að halda þeim úti, leggjum jafnvel stein í götu þeirra sem reyna að bjarga þeim frá drukknun í miðjarðarhafinu – við sendum þangað flugskeyti, aftökudróna, hermenn o.s.frv. án þess að hugsa mikið út í það –  og af og til heimsækja þau okkur með sprengjubelti. Og svo skreytum við okkur með dyggðum okkar – lýðræði, kærleika o.s.frv. – án þess að sjá í fullyrðingum okkar um eigin siðferðislegu yfirburði neinar mótsagnir.

Þessi tengsl eru ýktari í Ísrael af því þar er þessi þriðji heimur beinlínis á dyraþrepinu og það þarf sem því nemur meira ofbeldi til að halda honum úti. Þar hafa þeir ýtt þriðja heiminum – Palestínu – út í jaðrana einsog hverju öðru rusli, reist veggi og sett kúgunina á næsta level. En öll vestræn lönd stunda þetta í mismiklum mæli – meira og minna vélrænt og án umhugsunar, án meðlíðunar. Svallið hömlulaust, þynnkan endalaus – hatrið mun sigra.

***

Óáhugaverðasta samræðan sem hægt er að eiga um Eurovision er sennilega sú sem snýr að því hvort aktívismi Hatara hafi verið réttur eða í samræmi við vilja palestínska fólksins. Palestínumenn eru ekki – frekar en Ísraelar, reyndar – skilgreindur massi af samræmanlegum skoðunum heldur fólk með afstöðu hingað og þangað.

Mér finnst margt í reiða twitter bojkottliðinu minna mig á það sem ég þekki úr lestri mínum – sem ungur sósíalisti fyrir hartnær 20 árum – um sósíalismann 20 árum fyrr, í KSML og KSML (b) og EIK og MAÍ (ég safnaði kommatímaritum og -bókum og -stefnuskrám, á þetta í haugum einhvers staðar). Hugmyndin um verkamanninn var hinum raunverulegu verkamönnum yfirsterkari – sennilega var það mat sósíalistana að kenninguna þyrfti að verja, jafnvel þegar hún var í mótsögn við raunveruleikann. Ef „verkamaðurinn“ hlýddi ekki kenningunni var hann annað hvort rangur verkamaður – eða ekki nógu upplýstur um eigin stöðu í hinum díalektísku fræðum, vissi ekki hvað honum var fyrir bestu. Þannig virðist það trufla fólk að „palestínumaðurinn“ eða einu sinni „palestínski aktívistinn“ hafi ekki hreina afstöðu til menningarlegrar sniðgöngu – sé hreinlega ekki nógu kantískur. Viðstöðulaus smáborgaraskapur, eiginlega – og allir alltaf einsog einhver hafi skitið í þeirra prívat og persónulega deig, allir í keppni um það hver sé hreinastur í kenningunni, besti byltingarsinninn. Svona einsog þetta væri tölvuleikur.

Og Hataramálið reyndar minnir mig á greinaflokk sem birtist í Rödd Byltingarinnar, sem var sennilega tímarit MAÍ – í öllu falli var Albaníu-Valdi ritstjóri. Sá flokkur fjallaði um pönkið sem ópíum unga fólksins – hvernig pönksveitirnar beisluðu réttláta reiði ungra verkamanna en beindu henni svo í gagnslausan farveg og hindruðu þar með framgang byltingarinnar. Fullkomlega hilaríus í sjálfu sér – en fyndnast var þó að helsta dæmi greinarhöfundar og myndskreytis var hin alræmda pönksveit Kiss.

***

Þriðja atriðið sem mætti ræða – þegar við erum búin að ræða samsekt okkar í hatrinu sem fylgir almennri afstöðu vesturlanda til þriðja heimsins, með áherslu á okkar eigið þjóðríki – er andsemítisminn sem grasserar í allri umræðu strax og Palestínumálstaðurinn er tekinn upp. Fólk virðist meðvitað um að maður getur ekki gert samasemmerki milli þess að vera gyðingur og að vera Ísraelsmaður en svo hefur það heimfært allar gyðingaklisjurnar upp á ALLA Ísraelsmenn, einsog þeir séu eitt stórt og ljótt samsæri, allir ein hægrisinnuð hernaðarmaskína, útsmognir, illir og gráðugir. Allir fara undir sama hatt. Þannig verður jafnvel Dana International að pólitískum áróðursarmi Benjamins Netanyahu þegar hún syngur um kærleikann – á máta sem Taylor Swift yrði aldrei málsvari Trumps í okkar huga, eða Svala málsvari hrunverjanna, jafnt þótt þær kæmu fram á viðburðum á vegum sinna þjóðríkja (sem Eurovision er ekki beinlínis – það er fyrst og fremst evrópskur viðburður).

Nú á ég ekki við að það sé ekki hluti af pólitísku prójekti hverrar þjóðar að slá um sig með dyggðum, breiða rósrauða ástarhulu fegurðarinnar yfir skíthauginn, heldur bara að þarna sé ekki 1:1 samband og það sé ekki hægt að draga Ísraelsmenn eina út fyrir ramma og leggjast á þá af fullum prinsippþunga þegar aðrir eru meira og minna stikkfrí. Rasismi – og fyrirlitning almennt – birtist nefnilega oft sem svona prinsippþungi, þegar við gerum undanþágur fyrir alla nema einhvern einn tiltekinn hóp.

Mér þætti við alveg mega taka þessa samræðu svolítið og hvar við drögum línuna. Ég er til dæmis ekki viss um að maður geti verið „á móti Ísrael“ – s.s. tilvist Ísraelsríkis – án þess að vera sekur um andsemítisma.

***

Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á myndina 東京物語, / Tōkyō Monogatari / Tókíósagan eftir Yasujiro Ozu. Ég vissi ekkert um hana, sá hana bara á einhverjum lista yfir bestu myndir allra tíma. Hún er japönsk (augljóslega) og frá árinu 1953. Fjallar um gömul hjón sem búa í litlu bæjarfélagi og ferðast um langa leið til að heimsækja börnin sín og tengdabörn í Tókíó. Tempóið er mjög hægt og plottið er nánast ekkert – bara beinagrind – og samræðurnar nánast einsog þær hafi verið skrifaðar upp úr spjalli hvaða fjölskyldu sem er. Mjög natúralískar. Leikurinn er hins vegar frekar ýktur og blandan er eitthvað sem minnir mig á Hal Hartley – hvers myndir ég hef reyndar ekki séð síðan Haukur Magg sýndi þær á Kaffi Sól þegar við vorum í menntaskóla, svo það er kannski misminni.

Í þessu hæga tempói afhjúpast samt einhver þemu og verður til einhver skriðþungi. Sennilega er þetta saga um það hvernig kynslóðir gleymast, hverfa og deyja, hvernig tíminn valtar yfir alla – lagið Cat’s in the Cradle kemur líka upp í hugann, foreldrar sem hafa ekki tíma fyrir börnin sín sem verða síðan afar og ömmur hverra börn hafa ekki tíma fyrir þau. Það er líka eitthvað þarna um falsið í nostalgíunni – hugmyndinni um að hlutirnir hafi verið betri áður. Ég veit ekki hvort mórallinn er þá bara að lífið sé viðstöðulaus harmur – en það er þá fallegur harmur.

Myndin er mjög falleg. Við Nadja vorum hins vegar mjög þreytt og myndin er vel á þriðja tíma löng. Ég sofnaði aldrei, allan tímann, en ég get ekki sagt að ég hafi ekki verið nálægt því nokkrum sinnum. Merkilegt nokk mest fyrsta hálftímann – það rann svo af mér og ég var hressari síðustu tvo tímana.

Árshátíð GÍ, Hressó, Fira Literal, Hatari, Anatomia de Instante, Impostor, Le Bonheur og (næstum ekki neitt um) Father of the Bride

Menningarvikan byrjaði sennilega með árshátíð grunnskólans. Við fórum þrjú að sjá Aram og aðra krakka í 1. til 4. bekk. Þetta er merkilegt menningarfyrirbæri – að hrúga saman öllum krökkunum og láta þau skapa, í samstarfi við kennara, heilu sýningarnar – og gleðin og aðdáunin úti í sal auðvitað meira og minna fullkomin.

Fjórði bekkur setti á svið ævintýrið um Aladín og fórst það vel úr hendi. Aram var einn af sögumönnum – og það er nú fátt sem hann gerir áreynslulausar en að lesa upp. Hann sagði okkur að vísu að á einhverri sýningunni hefði hann farið í síðuvillt og ekki fundið réttan texta fyrren eftir dúk og disk. Það var líka alveg eftir honum. Og það er líka allt í takt við framkvæmdina almennt – þetta væri ekki nærri jafn skemmtilegt ef þau væru öll einsog þrautþjálfaðir hermenn. Ég hef orðið vitni að æfingum fyrir slíkt grunnskólasjó – í Víetnam – og það er ekki mjög sjarmerandi, eiginlega bara skelfilegt. Þetta er gaman vegna þess að þetta á fyrst og fremst að vera gaman. Það mættu margir listamenn læra af því.

***

Á miðvikudag flaug ég suður og hitti Hauk Má. Við fengum okkur hamborgara á einhverri búllu við Hverfisgötu („þarna götunni þar sem barirnir eru“, sagði afgreiðslustúlkan á American Style, þar sem við stoppuðum fyrst, en gat ekki afgreitt okkur vegna bilunar í posakerfinu) og héldum síðan yfir á Hressó í bjór, kaffi og sígó. Við ræddum ýmislegt og meðal annars hvers vegna Hressó hefði aldrei verið gentrifíeraður – hann er alltaf skemmtilega subbulegur, alþýðlegur, þannig staðir eru ekki á hverju strái í miðbænum. Það þykir líka mjög ófínt að vera þar. Ég fer þangað oft til að vinna þegar ég er í bænum og þarf alltaf að koma með alls konar afsakanir fyrir því gagnvart hváandi vinum mínum og kunningjum.

Það sló okkur líka að hugsanlega væri það „sirkusliðið“ – það er að segja okkar kynslóð – sem bæri ábyrgð á gentrifíeringu miðbæjarins. Og væri spes – svona í ljósi þeirrar subbufagurfræði sem var við lýði á sirkusárunum og allri nostalgíunni fyrir þeim árum – að svo væru bara nánast engir staðir eftir þar sem manni liði ekki asnalega á í vinnufötunum. Nema Hressó einmitt – sérstaklega úti á palli. En staðurinn er víst til sölu.

***

Það snjóaði á mig í garðinum heima daginn sem ég fór á árshátíðina. Það var mjög leiðinlegt. En Barcelona tók á móti mér með sól og blíðu og var ekki við öðru að búast. Ég kom hingað (þessi orð eru skrifuð á flugvellinum á leiðinni heim) til þess að taka þátt í róttæku bókamessunni Fira Literal. Ég fékk ansi veglegan sess í dagskránni – var aðalatriðið á laugardeginum, en aðalatriðið á sunnudeginum var ítalski femínistinn Silvia Federici. Það mættu að vísu nokkuð fleiri á hana en mig – og skal engan undra – en mér þykir mér mikill heiður sýndur að deila keynote-helgi með annarri eins stjörnu.  Bókin – Illska – gengur líka mjög vel og er að detta í þriðju prentun (á spænsku, ekki katalónsku – útgefandinn, Hoja de Lata, er staðsettur í Asturias).

Nadja skrifaði mér líka að heiman og sagði að Aram Nói hefði séð Hatara í sjónvarpinu nefna mig sem áhrifavald – ásamt Peaches, Björk, Rage Against the Machine og fleirum – og hefði samstundis vaxið um heila sex sentimetra. Hvorutveggja, hrósið frá Hatara og grobbið í Aram, urðu svo til þess að ég óx um annað eins.

Þetta hafa sem sagt verið góðir dagar fyrir egóið, en það er samvaxið hégómann og þótt egóinu líði vel þarf að halda hégómanum í skefjum og því mun ég sennilega næstu daga einbeita mér að því að hlusta á Stormy Daniels lagið þar sem ég er settur í flokk með Sveini Andra og ljóðabók Eyrúnar Jónsdóttur þar sem ljóðmælandi leggur á ráðin um að taka mig af lífi af því ég er svo mikill drullusokkur. (Ég á talsvert auðveldara með að gangast við því síðarnefnda en því fyrrnefnda, þótt það sé skylt – en ég er að gera mitt besta til að vera heiðarlegur og almennilegur, lofa).

Ekki þar fyrir að kannski finnst egóinu líka gaman að hata sig. Að minnsta kosti á góðum dögum.

***

Ég gekk um stræti og torg Barcelona-borgar – frá Sant Andreu til Gracía og út um allt í miðbænum – með The Anatomy of a Moment / Anatomía de instante eftir Javier Cercas í eyrunum. Ég hef auðvitað líka verið að lesa Impostor eftir sama höfund, einsog hefur verið nefnt hér. Bókin er sannsöguleg og fjallar um valdaránstilraunina á Spáni þann 23. febrúar, 1981. Þarna er lýðræðið á Spáni mjög ungt og árin á undan höfðu einkennst af efnahagslegu og pólitísku kaosi. Umræðan um nauðsyn þess að velta forsætisráðherra, Adolfo Suarez, úr sessi hafði farið fram fyrir opnum tjöldum árum saman – og mælt með bæði mjúkum og hörðum lausnum í því efni. Honum þótti hafa farist vel úr hendi að skipta út hinu fasíska kerfi Francos fyrir evrópskt lýðræði en stjórn hans að loknu þessu breytingarferli þótti fremur léleg.

Áætlanir valdaránsmanna gerðu ráð fyrir „mjúku valdaráni“ þar sem ekki yrði hleypt af, en fóru út um þúfur strax og ráðist var inn í þinghúsið. Þá var orðið úr vöndu að ráða enda ljóst að margir þeirra sem stóðu að baki valdaráninu – eða væru líklegir til að gera það nú þegar það var hafið – myndu snúa við þeim bakinu. Það gerðist fljótlega og munaði mestu um að kóngurinn – sem hafði skipað Suarez en studdi hann tæplega lengur og hafði gælt við alls konar pælingar um að losna við hann – lýsti yfir andstöðu sinni við ráðagerðina. Stór hluti valdaránsmanna voru konungssinnar – annar hluti var falangistar, og svo voru þarna alls kyns metnaðarfullir framagosar sem vildu bara sölsa til sín völd. Í raun virðist það ekki síst vera það sem veldur því að þetta fer út um þúfur – valdaránsmennirnir höfðu mjög ólíkar hugmyndir um hvernig þetta ætti allt að fara og voru búnir að vera að blekkja hver annan til þess að fá stuðning við eigin plön. Svo þegar hljóp snurða á þráðinn vissu menn ekki lengur hver ætti að ráða eða hvað ætti að gerast.

Bókin fjallar um meira en þetta – fer vítt og breitt um sögu lýðveldisins og fasismans á Spáni. Megnið af henni er lýsingar á alls konar vélráðum og metnaði til valda – maður kemur ekki út úr henni neitt æðislega bjartsýnn fyrir hönd lýðræðisins, en þó með þá vissu að vélráðin og sérhlífnin og græðgin og undirferlið og innihaldsleysi hugsjónanna sé í öllu falli ekki skárri í fasísku kreðsunum. Samt eru þarna nokkur falleg augnablik – það er eitthvað dásamlegt við að einu mennirnir sem hafi neitað að fara úr sætum sínum þegar herinn ruddist inn í þingsalinn hafi verið Adolfo Suarez, fyrrverandi falangisti, fyrirlitinn forsætisráðherra, Mellado, æðsti yfirmaður hersins og aðstoðarforsætisráðherra og og Carillo, formaður kommúnistaflokksins þar sem hann rakst illa og var í eilífum illdeilum við félagsmenn. Kommúnistaflokkurinn á Spáni hafði þá verið „lýðræðislegur“ – fallið frá hugmyndum um alræði öreiganna – í sirkabát korter áður en þetta gerðist. Það voru þannig í einhverjum skilningi andlýðræðislegustu öflin sem neituðu að láta lýðræðið af hendi – fulltrúar falangista, kommúnista og svo hersins (sem var að reyna valdarán).

Maður týnist mikið í þessum plottum samt. Þetta er ofsalega mikil og flókin saga og einsog það sé ekki nógu þá eru flestir þátttakendur í henni margsaga um hvað gerðist. Cercas hefur svo sitt sjónarhorn og sína túlkun og maður er mjög meðvitaður um að þegar svona ofsalega einæðisleg bók er fyrstu kynni manns af atburðum sem maður vissi fjarska lítið um fyrir þá þurfi maður að taka öllu með smá saltklípu. Það er reyndar fyndið að þegar ég nefndi það við fólk hérna að ég væri að lesa Cercas þá varð það skrítið í framan og spurði: „En er hann ekki hægrimaður?“ Ég varð sosum ekkert var við það – hann ver Suarez að mörgu leyti, kannski bara vegna þess að hann er áhugaverðasta persónan í þessu öllu saman, mótsagnakenndastur og fyrir miðju narratífunnar. En Cercas talar líka um að hann hafi sjálfur verið hallur undir málstað ETA og um svik krata við sósíalismann og fleira sem ætti að gefa til kynna að hann væri vinstrimaður. Fyrst og fremst er hann sennilega samt rithöfundur – og þeim er jafnvel enn verr treystandi en vinstrimönnum.

***

Impostor er alveg eins og allt öðruvísi. Hún segir sögu Enrics Marco sem var bifvélavirki, verkalýðsleiðtogi fyrir anarkista, baráttumaður fyrir skólaumbótum og formaður minningarsamtaka um helförina – hann var sjálfur eftirlifandi úr Flossenbürg búðunum og fyrrverandi andófsmaður gegn Franco og anarkisti sem hafði lifað ótrúlegu lífi, hálfgerðu Forrest Gump lífi, þegar í ljós kom á gamals aldri að megnið af þessu var bölvað kjaftæði og hann hafði ýkt mjög og skreytt það sem hann skáldaði ekki beinlínis frá grunni.

Hann hafði aldrei verið í Flossenbürg – en farið sem verkamaður til Þýskalands á vegum fasista, til að komast hjá því að fara í stríð, þar sem hann var loks handtekinn fyrir liðhlaup og sat í fangelsi nasista um hríð. Hann átti svo einhverja lauslega snertipunkta við anarkistahreyfinguna og andófið gegn Franco en sennilega ekkert meiri en næstum því hvaða Spánverji sem er – og stjórnmálaskoðanir hans voru út um allt, hingað og þangað. Þegar Enric var afhjúpaður var hann orðinn frægur – mjög frægur í Katalóníu og lítið frægur um allan Spán.  

Þetta er ekki beinlínis saga lygasjúklings – til þess lýgur hann eiginlega ekki nóg. Lygasjúklingar, það best ég þekki til og hef upplifað, hækka tempóið og kraftinn í lygunum svo hratt að það kemst yfirleitt upp um þá fyrir hádegi á fyrsta degi – þeir ráða bókstaflega ekkert við sig. Marco virðist ráða við sig og stjórna þessu nokkuð vel en þjást af óstjórnlegri þörf fyrir að vera miðpunktur athyglinnar – það er margoft undirstrikað í þessari bók að fortíðin, einsog Faulkner sagði, er alls ekki dauð, eða einu sinni liðin, heldur er hún vídd í samtímanum, og Marco þarf ekki bara að vera miðpunktur hvers samtíma, hvers samkvæmis (sem hann gerir leikandi, verandi sjarmerandi sögumaður) heldur þarf hann að vera miðpunktur fortíðarinnar líka – og með því dómínerar hann yfir samtíma sínum, dómínerar yfir samkvæminu, og sögurnar verða allar magnaðri og ungu stúlkurnar allar æstari í hann (hann nefnir þetta nokkrum sinnum með ungu stúlkurnar – þetta virðist byrja upp úr einhvers konar miðaldurskrísu).

Bókin er svo glíma Cercasar við að skrifa hana ekki – stór hluti hennar eru yfirlýsingar um að hann ætli aldrei og geti ekki skrifað þessa bók – og svo glíma hans við sögu Enrics og loks Enric sjálfan. Hún er ekki alveg jafn einæðisleg í staðreynda- og kenningaflutningi og Anatomy of a Moment en næstum því – kaflarnir þar sem hann er að rekja helstu lygarnar á óljósustu æviskeiðunum eru í leiðinlegra lagi en án þeirra hefði maður sennilega ekki komist. Hún er ljóðrænni og meiri „bókmenntir“ að mínu mati – Anatómían fellur nær blaðamennsku, þótt báðar séu á grensunni. Þótt það sé ofsalega mikil frásögn í anatómíunni þá er miklu meiri skáldskapur í Impostor – þótt ekki væri nema bara vegna þess að Enric er svo mikill skáldskapur sjálfur.

Mér fannst hann oft minna mig á Rachel Dolezal – sem ég skrifaði um hérna. Rachel gerðist svört – african american – og telur sig það best ég veit enn vera blökkumann þótt hún gangist við því að hún sé ekki komin af neinum blökkumönnum, foreldrar hennar hafi verið snjóhvítir. Einsog Dolezal skapar Enric Marco sögu um sjálfan sig sem verður á endanum miklu stærri og meiri en hann sjálfur – svo stór að hann getur varla tekið hana til baka nema í hænuskrefum, tilneyddur, með sönnunargögnin á borðinu fyrir framan sig. Í öllum lygavefnaðinum verður kjarninn – karakterinn, eða hið skapaða ídentítet – það eina sem viðkomandi upplifir sem fullkomlega satt. Og engu að síður er það lygin sem liggur til grundvallar öllu hinu.

***

Ég missti af föstudagskvikmyndaklúbbinum með krökkunum (og veit ekki hvað þau horfðu á) og við frestuðum kvikmyndaklúbbi fullorðna fólksins en ég horfði samt á Hamingjuna, Le Bonheur, eftir Agnesi Varda í hótelherbergiskytrunni minni við Hlemm í gærkvöldi. Henni tekst einhvern veginn að gera myndavélarlinsuna svo látlausa að manni finnst næstum að myndin hafi ekkert perspektíf – að hún sé ekki að „meina neitt“. Á sama tíma og söguþráðurinn er ótrúlega merkingarþrunginn.

Sagan er svona (höskuldarviðvörun). Ung hjón eiga tvö börn og eru mjög hamingjusöm og elska hvort annað mikið. Karlinn kynnist konu sem vinnur hjá Pósti & síma og þau hefja ástarsamband og eru mjög hamingjusöm og elska hvert annað mjög mikið. Karlinn er opinn með að hann elski konu sína og ætli ekki að fara frá henni en þau geti samt haldið áfram að hittast af og til og hann elski hana líka og það sé engin ástæða til þess að þau geti ekki bara öll verið hamingjusöm. Seinna, í lautartúr með fjölskyldunni – eftir að börnin eru lögst til síðdegishvílu – segir karlinn konu sinni frá ástkonunni, og hvort þau geti ekki bara öll verið hamingjusöm, hann elski þær báðar, en auðvitað muni hann hætta að hitta ástkonuna ef eiginkonan vill það. Stemningin er látlaus, ekki trámatísk – engin grátur, engin öskur, engin læti. Eiginkonan er efins en virðist svo taka þetta í sátt, fyllist hamingju og þau elskast og sofna. Þegar karlinn vaknar við að börnin eru vöknuð er konan horfin. Þau leita hennar lengi í skóginum og finna hana loks drukknaða í stöðuvatni. Allir verða mjög leiðir í svolítinn tíma en svo kemur ástkonan og gengur börnunum í móðurstað og allir eru mjög hamingjusamir.

Þetta býður upp á alls konar lestur. Mín fyrsta tilfinning var að Varda væri að gagnrýna kjarnafjölskylduna og smáborgaralega hamingjuna með póliamorískum hugmyndum – eða hugmyndum um frjálsar ástir. Í upphafi myndarinnar rak ég augu í þennan ramma – þetta birtist bara örsnöggt í sjónvarpi fjölskyldunnar, ég veit ekkert hvaðan það kemur annars:

Uppruni hins skipulagða lífs – það er spurningin!

En svo hefst ekkert af póliamorískum hugmyndum karlsins annað en harmur og dauði. Póliamoríska fólkið myndi segja að hann hafi farið að þessu mjög illa – en í þessu samhengi er það samt sennilega óþarfa aðfinnsla, hann veður myrkrið og gerir sitt besta til að sætta langanir sínar við samfélagsramma kjarnafjölskyldunnar, eða réttara sagt láta bæði ganga upp.

En þá langar mig líka að lesa í þetta sögu um tillitsleysi þeirra sem festast í eigin hamingjuleit – hvernig harmur annarra verður þeim nánast ósýnilegur, af því þeir finna svo sárt til þess sem skortir í eigin lífi. Það er auðvitað svo fráleitur punktur á þessari öld egósins – þar sem allt sem hindrar okkur hið minnsta í að ná 110% sjálfsuppfyllingu er stækasti fasismi – og sérstaklega virkar undarlega á mann að „listamaður“, að ég tali nú ekki um kona eða franskur listamaður eða hugsandi listamaður, búi til verk sem þá sé vörn fyrir kjarnafjölskylduna.

Það er líka þarna bara saga um einhvern franskan bastarð sem er að ríða kellingunni á pósthúsinu, þótt hann eigi góða konu og falleg börn heima. Eitthvað svona „týpískt fyrir karl“ dæmi. Sagan styður það – ef þetta væri norrænt sósíal-drama myndi það steinliggja. En stemningin er bara ekki þar. Fagurfræðin er að segja eitthvað annað.

Og kannski þarf manni ekki að finnast neitt. Myndin er meistaraverk – alger gullmoli – og hún ýtir við ýmsu innra með manni. Hún þarf ekki að predika neitt.

***

Síðast en ekki síst er ég búinn að vera að hlusta á nýjustu plötu Vampire Weekend, Father of the Bride. Ég er bara búinn að renna henni einu og hálfu sinni í gegn og ætti kannski að geyma að segja neitt sérstakt um hana í bili. Allt sem mér dettur í hug enn sem komið er – preppy, vandað, ljóðrænt, mikið pródúserað, mikið útsett menntamannapopp – mætti líka segja um allar hinar plötur sveitarinnar. Og hefur verið sagt. Já, frestum þessu fram í næstu viku, nema ég hafi bara engu við þetta að bæta. Ég ætla líka að lesa dóminn hans Davíðs Roach á RÚV-vefnum. En sjáum til – ef hún lifir vikuna af, ef ég held áfram að hlusta, þá reyni ég að stýra hugsunum mínum í gegnum hana og ef ekki þá ekki.

***

Gítarleikari vikunnar er Mary Ford, eiginkona hins fræga (og lipra) gítarleikara og gítarsmiðs Les Paul. Mary mátti svolítið standa í skugga manns síns en var engu síðri gítarleikari nema síður væri, einsog sjá má á þessu myndbandi hér fyrir neðan. Það sem er skemmtilegt við gítarinn sem hljóðfæri er að hann er svo gott performansverkfæri – léttur og meðfærilegur og fallegur og býður upp á svo margs konar sniðugheit. Þetta nýta þau Les og Mary sér í botn.

NOR-tríó, Húsið á sléttunni og Hable con ella

Menningarneyslan var í lágmarki í síðustu viku. Það helgaðist af ýmsu. Lestur var fyrst og fremst endurlestur – annars vegar blaðaði ég meira í Meira eftir Günday og hins vegar blaðaði ég í Eitur fyrir byrjendur og nýju bókinni minni (þær eru skyldar). Ég byrjaði að vísu líka á Impostor eftir Javier Cercas en er ekki kominn nema þriðjung í gegnum hana.

Þá var Fossavatnsgangan á helginni og börnin fóru í pössun svo það varð ekkert úr föstudagsbíóklúbbnum. Við Nadja horfðum á eitthvað slangur af sjónvarpsþáttum – Bardagann um Winterfell, Billions og svo reyndum við að finna nýja seríu, gáfumst upp í miðjum þætti af Lucifer en horfðum á heilan Dead to Me, sem mér finnst nú samt viðbúið að sé að fara að klúðrast.

Ég las eitthvað af ljóðum en bara stök og enga bók. Ég hef verið að birta „ljóð dagsins“ á samfélagsmiðlum, ekki síst einmitt til að „þvinga“ mig til þess að róta í ljóðabókaskápnum daglega (virka daga – hann er á skrifstofunni).

***

Á miðvikudaginn fór ég á djasstónleika. Richard Anderson NOR lék fyrir laumudillandi bjórþambi í Rögnvaldarsal Edinborgarhússins. Auk Richards, á bassa, eru í sveitinni þeir Matthías Hemstock, trymbill, og Óskar Guðjónsson á saxafón. Lögin voru flest af síðustu plötu sveitarinnar, The Six of Us. Platan er þannig lögð upp að hvert lag er tileinkað einhverjum úr fjölskyldu Richards – In it for the long haul var fyrir móður og eiginkonu, Miss Weightless fyrir dóttur, Mr. Contra fyrir íslenska afann o.s.frv. Inn á milli var svo hent í standarda, sem var dálítið vandræðalegt því við Gylfi nágranni röltum niðreftir með Villa Valla og Gylfi fullvissaði Villa um að það yrðu nú engir standardar á þessum tónleikum – bara einhver tilraunamennska. Sem er nú í sjálfu sér ósanngjörn lýsing á tónlist NOR, líklega er þetta nú bara frekar íhaldssöm djasstónlist núorðið – ég meina það ekki sveitinni til hnjóðs – „bara bípopp“. Ekki að ég hafi mikið vit á því, reyndar, ég er enginn sérstakur djasshaus. Ég á nokkrar plötur sem fara á fóninn í matarboðum og set stundum á Charlie Parker eða Wes Montgomery á Spotify þegar ég er að skrifa – en þar fyrir utan er „nýjasta“ djassplatan mín Far með hinum sama Óskari Guðjónssyni (og hún er í kassa með þúsund öðrum geisladiskum úti í bílskúr).

En það er eiginlega aldrei leiðinlegt á djasstónleikum. Tónlistarmennirnir í NOR eru líka af þannig kaliberi að ég yrði sennilega agndofa bara af því að sjá þá reima skóna eða fá sér pulsu. Músíkin á The Six of Us er líka falleg og þessir tilteknu djasstónleikar hreinn unaður.

***

Annar tónlistarviðburður vikunnar var Fossavatnsballið. Húsið á sléttunni lék fyrir dansi – Valdi og Biggi Olgeirs, Kristinn Gauti og gítarleikari sem ég þekki ekki. Þetta er frekar solid ballsveit. Biggi er þekktur fyrir að vita ekki hvað feilnótur eru – Valdi er bara einn af betri bassaleikurum á landinu, og Kristinn Gauti og gítarleikarinn gáfu þeim bræðrum ekkert eftir. Valdi nefndi það við mig eftir ballið að þeir væru frekar illa æfðir en fyrir svona týpum er það eitthvað allt annað en fyrir dauðlegum hljóðfæraleikurum – ég varð einu sinni var við það, milli danskasta, að Kristinn Gauti var eitthvað að flissa yfir trommusettið og blikka hljómsveitarfélaga sína með látbragði sem gaf til kynna að nú hefði nú eitthvað farið verulega úrskeiðis, en það fór alveg framhjá mér hvað það var. Prógramið var „klassískt ball“ með áherslu á diskó og eitístónlist.

***

Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á Hable con ella eftir Almodóvar frá 2002. Nadja valdi. [Ath. Hér að neðan eru höskuldar]. Við vorum ekki alveg viss hvort við hefðum séð hana og í ljós kom að Nadja hafði séð hana en ég ekki. Og kemur eiginlega ekki á óvart, eftir á að hyggja. Á þessum árum vann Nadja svo mikið í bíói – meðal annars fyrir kvikmyndahátíðina Rakautta ja Anarkiaa í Helsinki – að hún hefur áreiðanlega séð alla helstu kvikmyndahátíðartitla 2001-2006.

Myndin fjallar um tvo menn, Benigno og Marco, sem vaka yfir tveimur konum í dái, Aliciu og Lydiu. Benigno vakir yfir Aliciu, dansara sem hann fékk á heilann og var byrjaður að stalka létt áður en hún varð fyrir bíl. Hann er sjúkraþjálfi og hefur séð um hana árum saman og þarf enginn að efast um að tilfinningar hans í hennar garð eru allt annað en eðlilegar. Marco kynnist kvenkyns nautabana, Lydiu, og hefur við hana einhvers konar samband skömmu áður en hún slasast í ati. Hann veit ekki að hún ætlaði að hætta með honum og fara aftur til síns fyrrverandi.

Afstaða Marcos til nautabanans er þveröfug við afstöðu Benignos til dansarans – hann álítur hana í raun og veru látna, hugsunarlaust kjötflykki, vill ekki tala við hana, getur ekki snert hana og svo framvegis. Benigno vill aldrei yfirgefa Aliciu, tekur aukavaktir um nætur, talar við hana einsog þau séu gömul hjón og sinnir líkama hennar einsog – kannski einsog brjálaður bílaáhugamaður sinnir eldgömlum kadilják. Hann er alltaf að dytta að henni og meðvitaður um minnstu breytingar. Benigno er mjög hneykslaður á Marco og reynir að hjálpa honum, sem gengur lítið, en þeir þróa samt með sér nána vináttu. Allt fer svo í loft upp þegar í ljós kemur að Benigno hefur barnað Aliciu.

Samúð verksins – sjónarhornið – er mestöll hjá Benigno og þar á eftir Marco. Alicia birtist manni ekki að neinu marki fyrren í lokin þegar hún vaknar úr dáinu og Lydia gerir það eiginlega alls ekki – nema að svo miklu leyti sem hún virkar lokuð, hörð, við komumst ekki inn fyrir þann múr frekar en neinn annar. Þetta er saga Benignos og narratífan fylgir honum – hans sorgir verða okkar sorgir. Javier Carama leikur hann ótrúlega afslappað og óþvingað. Maður gleymir því ítrekað að hann er fyrst og fremst mikið veikur á geði ef ekki hreinlega illmenni og er stöðugt dreginn inn í ást hans – Benigno er mjúkur maður, í tengslum við tilfinningar sínar, hann er ljúfur og hugulsamur fram í fingurgóma, fullur af ást, en hann býr líka í sinni eigin búbblu og áttar sig sennilega ekki nema að mjög litlu leyti á sjónarhorni eða afstöðum annarra. Og þess vegna sér hann ekki að það sem hann gerir er rangt, að hann er ofbeldismaður. Hann er bara að elska – og ástin getur ekki verið röng.

Almodóvar passar sig líka á að láta okkur aldrei sjá Benigno brjóta á Aliciu – hann er oft á mörkunum, nuddar á henni innra lærið, en alltaf þannig að það virkar lögmætt, innan marka sjúkraþjálfunar.

Hvað er meginþemað í bíómyndum Almodóvars? Er það yfirráðin yfir líkamanum? Alicia er kjötflykki bróðurpartinn af þessari mynd – og þótt við sjáum hana aðeins áður en hún lendir í dáinu kynnumst við henni ekki fyrren eftir að hún vaknar. Þau kynni verða sárari fyrir meðlíðan okkar með Benigno.

Marco og hans saga – ég náði minni kontakt við hana og kannski var það aldrei ætlunin að maður færi að kynnast honum, þannig. Kannski er hann bara ekki nógu áhugaverður. Hann er linsan sem maður sér Benigno í gegnum. Í upphafi myndar, áður en Benigno og Marco kynnast, lenda þeir hlið við hlið á danssýningu hjá Pinu Bausch – Marco grætur á sýningunni og Benigno tekur eftir því, finnst það mjög áhugavert. Kannski var það þar sem maður átti að byrja að skilja að Benigno væri sósíópati, að gráta ekki frammi fyrir Pinu Bausch – kannski er það samt of einfalt, of banalt.

En það er líka áhugavert að skoða hvernig þeir vinna ólíkt með tilfinningar sínar, þessir karlmenn – Marco sem grætur á danssýningum en getur ekki snert ástkonu sína þegar hún lendir í dái, eða einu sinni talað við hana; og Benigno sem grætur aldrei, er alltaf afslappaður, meira að segja frammi fyrir dauðanum, en fórnar sér og sjálfu velsæminu fyrir stjórnlausa ást (hér verða sjálfsagt margir til að segja að þetta sé alls ekki ást – en jú, sennilega er sjúk ást einhvers konar ást líka). Ég er ekki hrifinn af hugtökum einsog „toxískri karlmennsku“ og ég er alls ekki viss um að þeir séu að reyna að vera nein karlmenni – þótt ídeológían að baki ást þeirra sé sannarlega í takt við hin klassísku ástarsagnagildi, fórn og rómantík og uns-dauðinn-aðskilur og bitið-á-jaxlinn – en viðbrögð þeirra og gjörðir, eins ólíkar og þær eru, eru samt karllægar, held ég.

Meira, HKL/McEwan, The Square, Bensínið er búið, Endgame, Cornhole, Elías, Rise of the Guardians og Kona fer í stríð

Bók vikunnar var Meira eftir Hakan Gunday. Ég ætla að skrifa um hana fyrir Starafugl svo ég segi ekkert um hana sérstaklega hér, annað en að hún meðmælist hart. Hún hafði af mér hin stóru Prix Medici verðlaun í Frakklandi – ég var tilnefndur fyrir Illsku – og ég get bara eiginlega ekkert verið beiskur yfir því, þetta var bara mjög verðskuldað hjá Gunday. „Mikilvæg bók“, einsog maður segir. Allir ættu að lesa hana.

***

Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness voru veitt í fyrsta sinn í síðustu viku. Reyndar voru önnur verðlaun sem hétu þessu sama nafni fyrir svona 15-20 árum. Þau voru veitt kannski tíu sinnum fyrir nafnlaus innsend handrit og ráku sig í strand. Bæði voru þau veitt höfundum sem voru ekki í in-crowdinu, sem var vandræðalegt – Eyvindur P. Eiríksson fékk þau eitt árið en fékk svo ekki einu sinni listamannalaun til að klára framhaldið – og svo spurðist út að einhver handrit sem unnu hefðu alls ekki verið send inn í keppnina heldur verið dregin upp úr skúffum útgefenda og höfundunum bara boðin verðlaunin. Af því innsendu handritin voru ekki nógu góð. Svo sögðu sumir að bækurnar væru bara alls ekki nógu góðar – eða að gæði þeirra væru almennt ekki nógu góð, þótt það væru góðar þarna á milli. Þau enduðu einhvern veginn alveg án nokkurs trúverðugleika.

En þessi nýju HKL-verðlaun eru alþjóðleg og fyrsti verðlaunahafinn er Ian McEwan. Ég hef verið mishrifinn af bókum hans – ég var hrifinn af Saturday og Hnotskurn en minna af öðrum. Margir hafa orðið til að segja að það sé hálftilgangslaust að veita svona frægum höfundi enn ein verðlaunin. Þá hefur verið fundið að því að hann sé hvítur karl (classic aðfinnsla), að hann skrifi á ensku og hafi ekkert við peningana að gera. Aðrir hafa sagt að það sé taktískt að veita McEwan verðlaunin fyrstum svo þau hafi ákveðna þyngd, svo megi taka vogaðri ákvarðanir síðar.

En þetta fer auðvitað allt eftir því hvaða tilgang verðlaunin eiga að hafa. Hvaða  prófíl maður vill handa þeim. Ég held það fari illa að veita McEwan verðlaunin ef maður ætlar ekki bara að hafa þetta einhvers konar heimsmeistarakeppni í sagnamennsku – að veita þau bara McEwan týpunum. Það þýðir ekki að verðlaunahafar þurfi allt að vera hvítir karlar frá Vesturlöndum en það þýðir að maður svíkur ekki ákveðna meinstrím fagurbókmenntir sem njóta metsölu, hafa fengist samþykktar af markaðnum – Margaret Atwood getur fengið þau, Chimamanda Ngozi Adichie, Hanif Kureishi, Junot Diaz eða Hilary Mantel kæmu öll til greina. En það myndi gerast sjaldan ef nokkurn tíma að höfundurinn væri manni óþekktur eða viðkomandi væri lítið sem ekkert þýddur eða að bókmenntirnar væru fagurfræðilega erfiðari – Jelinek-týpurnar gætu ekki fengið þetta.

Verðlaun geta verið einföld meistarakeppni – þá er ekkert skrítið að sama fólkið vinni aftur og aftur. Öll slík hugsun er afleiðing elítisma og þá eru í alvöru ekki nema svona 10 verðugir höfundar í heiminum á hverjum gefnum tíma – ekki að það séu bara 10 höfundar sem skrifa frábærar bækur heldur eru bara 10 sem sameina að skrifa frábærar bækur og vera miðlægir í kastljósinu.

Verðlaun geta líka verið hugsuð til þess að ýta fólki/verkum inn í þetta kastljós – það er oft hugsunin á bakvið nóbelsverðlaunin og þess vegna er svo mikil fýla þegar einhver einsog Bob Dylan fær þau, ekki vegna þess að hann sé ekki frábær heldur vegna þess að virkni verðlaunanna er þá ekki sú sem fólk býst við af þeim. Halldór Laxness fékk þetta bömp og með því fylgdi sæti í eilífðinni.

Svo geta verðlaun verið menningarpólitísk í þeim skilningi að þau hampi ákveðinni fagurfræði umfram aðra. Þau gætu t.d. hampað einfaldri sagnalist eða margbrotinni, hampað ljóðrænum sögum eða raunsæjum stíl, hampað vísindaskáldskap, skáldskap kvenna, skáldskap minnihlutahópa, pólitískum skáldsögum eða framúrstefnuljóðum. Bókmenntaverðlaun HKL eiga að veitast höfundi sem stuðlar að endurnýjun sagnalistarinnar – en fyrir það fékk HKL nóbelinn á sínum tíma.

Að velja Ian McEwan er að ryðja sér rúms á Bookersvæðinu. Metsölubókasvæðinu. Svo getur vel verið að það verði rokkað á milli popúlískari ákvarðana og vogaðri og þá er maður meira á Nóbelsverðlaunasvæðinu – en þótt þau séu löskuð er ansi mikið af plássinu á því svæði þegar tekið. Verðlaunaupphæðin – 2 milljónir – gefur nú líka til kynna að það eigi að taka þessu mátulega alvarlega. Sennilega er þetta vikukaup fyrir mann einsog McEwan. Dugar ekki til að kaupa sér nýjan bíl.

Aðallega finnst mér þessi bestsellerismi leiðinlegur. Færri og færri titlar rata út úr bókabúðum – ekki bara færri og færri bækur, heldur taka metsölubækurnar yfir stærri og stærri hluta markaðarins, og þær gera það í krafti áherslu bókmenntaheimsins á að búa til hype í kringum sömu hlutina aftur og aftur. Hér er ekki bara við forlögin að sakast – þótt þau hafi meira vald til að spyrna á móti en flestir – heldur er þetta meinsemd sem nær miklu víðar. Verðlaun sem varpa ljósi á eitthvað nýtt frekar en að fagna því sama þúsundasta skiptið í röð væru viðnám við þessari þróun.

***

Ég tók mig til og horfði á Square eftir Ruben Östlund í vikunni. Hún var mögnuð þótt hún hafi ekki verið jafn óþægileg og Play eða Turist (Force Majeure). Kannski var of miklu hrúgað í hana til þess – Play og Turist voru ísmeygilegri, hentu fram einni forsendu og létu mann svo dvelja í henni og kveljast lengi án þess að það gerðist neitt mikið meira. Square er meira tårta på tårta, einsog Svíarnir mínir segja, ofhlaðin – ástandið getur alltaf orðið aðeins skrítnara, aðeins óþægilegra. Mér finnst það ekki endilega verra en það skapar allt annað andrúmsloft og maður tekur hana öðruvísi inn þótt stíllinn og tónninn séu kunnugleg úr fyrri myndum Östlunds.

Áhugaverðasti búturinn – eða einn af þeim áhugaverðari – sem hefði getað borið heila mynd í raun, er hlutinn með auglýsinguna sem listasafnið gerir.

Listasafnið fær auglýsingastofu til að gera fyrir sig auglýsingu til að vekja athygli á myndlistarverki sem heitir The Square. The Square er einfaldlega ferningur á gólfi sem maður getur stigið inn í og þar eiga allir að njóta sömu réttinda og hafa sömu skyldur gagnvart hvert öðru. Auglýsingastofugosunum finnst þetta augljóslega frekar glötuð og tilgerðarleg hugmynd og segja erfitt að gera fólk spennt fyrir henni. Þeir búa svo til auglýsingu þar sem ung hvít ljóshærð stúlka, betlari, er sprengd í loft upp í miðjum reitnum. Stjórninni finnst þetta svolítið pólitískt vandræðalegt og „mycket problematiskt“ – en svo kemur stjórinn inn, aðalsöguhetja myndarinnar, og hann hefur eiginlega of mikið að gera og nennir ekki að láta stressa sig með þessu, lítur í fimm sekúndur á tillöguna og segir svo bara „jájá, frábært, einmitt það sem við vorum að spá“ og gengur á dyr. Svo auglýsingin er framleidd með samþykki stjórans, sem enginn þorir að andmæla.

Einhverjum tíma síðar verður auglýsingin svo viral og stjórinn þarf að svara fyrir þessi ósköp. Á blaðamannafundi stendur upp brún kona með hreim og spyr hvort hann hafi enga samlíðan með betlurum, hvort hann sé bara samviskulaus, og hann umlar eitthvað, biðst afsökunar, þetta sé auðvitað ekki gott, hann ætli að segja af sér. Næst stendur upp blaðamaður – hvítur karl – og spyr hvort hann ætli bara að segja af sér, hvað hafi orðið um tjáningarfrelsið, skyldu safna til að standa með hinu erfiða þegar eitthvað svona smotterí getur orðið til þess að setja fólk alveg af sporinu. Og hann bara umlar og segir ekki neitt.

Það sem slær mann er sannferðugleikinn á bakvið þennan skort á núönsum. Að maður geti ekki gengist við að eitthvað hafi verið mistök, maður hafi slegið feiltón, án þess að feiltónninn sé ófyrirgefanleg katastrófa. Öll svör verði vandræðalegt uml. Það er ekkert í stöðunni nema að segja af sér og hverfa inn í skuggana eða rísa á fætur með hnefa á lofti til að berja á … betlurum … og góða fólkinu í nafni málfrelsisins. Eða einmitt bara umla og deyja.

Ég festist kannski líka í þessari senu vegna þess að ég var nýbúinn að rekast á nokkurra vikna gamalt mál femínistans Camille Paglia. Paglia – sem hefur á stundum talað um sig sem trans – var í viðtali neikvæð á það sem hún kallar trans-bylgju samtímans:

I am highly skeptical about the current transgender wave, which I think has been produced by far more complicated psychological and sociological factors than current gender discourse allows.

Þá hefur hún líka „talað niður“ metoo hreyfinguna og fleira. Afleiðing þessa var ákall um að hún yrði rekin úr stöðu sinni sem háskólaprófessor sem fleiri þúsund manns skrifuðu undir.

Nú er ég ekki endilega sammála Paglia og raunar ekki alltaf alveg viss hvað hún er að fara. Hún er broddfluga í vestrænni menningu – hefur verið talin meðal stærstu menntamanna samtímans – og hefur gert sér far um að hafa óþægilegar, ögrandi skoðanir. Mörgum finnst það sennilega bara vera eitthvað edgelord-dæmi sem gangi út á að fá athygli – það er yfirleitt svarið – en ég held að samfélag sem á ekki fólk einsog Paglia, sem setur spurningarmerki jafnvel á viðkvæmustu stöðum, óttast ekki alltaf að hafa (sögulega?) á röngu að standa og skirrist ekki við að nefna nöfn eða gagnrýna þá sem standa henni annars nærri í fræðunum (það er erfitt að finna frægan femínista sem hún hefur ekki einhvern tíma gagnrýnt), ég held að þannig samfélag úrkynjist og verði einfeldningslegt og sannast sagna bara dálítið fasískt. Krafan um að fá að svara þessum spurningamerkjum – að fá að takast á við þau, fá plattform til þess að takast á við þau o.s.frv. er mjög eðlileg. Samfélag þar sem allir eru einsog Paglia er ekki heldur samfélag neinna hugmyndafræðilegra átaka heldur samfélag sams konar átomatona og þar sem enginn spyr neins. Það verður að vera díalógur og hann þarf að geta átt sér stað án þess að það sé krafa um að allir séu sammála.

Þetta er það sem krakkarnir á twitter kalla cancel culture – sem er hugtak sem maður sér næstum jafn oft í neitunarstaðhæfingum („það er ekki til neitt cancel culture“) og maður sér góða fólkið („there’s no such thing as PC and if there is it’s only correctly applied to nazis“).  Og sem betur fer tekst þetta ekki alltaf – þótt krafan um brottrekstur sé ekki gáfulegri fyrir vikið – Paglia hélt vinnunni, en það munaði litlu.

***

Ég keypti mér stuttskífuna Bensínið er búið með Langa Sela og Skuggunum á vínyl. Þetta er auðvitað klassa rokkabillí og búgí og ekkert verið að finna upp hjólið – en þetta hittir mig alveg í hjartastað. Hingað til hef ég verið ákafastur yfir síðasta laginu, Salt & Pipar. „Ég nota salt og pipar  / (salt og pipar) / því þú ert bara alltof sæt“.

Myndmálið í þessu er áhugavert. Hann notar salt og pipar því hún er alltof sæt. Þetta er auðvitað heterónormatíft – rokkabillí er það eiginlega alltaf,  ekki síst þegar það er drag einsog hjá John Waters. Ég hef einhvern tíma látið hafa eftir mér að ef ég er með ofurkraft sé það að geta getið mér til um hvar fólk staðsetur sig á kynjarófinu út frá því hvað það setur á diskinn sinn á morgunverðarhlaðborði. Þar koma salt og sæta einmitt mjög sterk til leiks – það er (alla jafna) maskúlín að taka beikon og pulsur, feminín að taka jógúrt, ávexti og sætabrauð. En líkt og í kynjakerfinu eru áhugaverðar undantekningar – það er t.d. maskúlín að hrúga á diskinn sinn bökuðum baunum í dísætri tómatsósu og það er feminín að taka þykkar sneiðar af söltum camembert. (Óþarfi er að taka fram að maskúlín/feminín eiginleikar dreifast svo ójafnt á fólk og eru ekki endilega í samræmi við önnur kyneinkenni, kyngervi eða kynvitund – og engir tveir bera sig eins að við hótelmorgunverðarhlaðborð).

Karlmaður í leðurjakka með gel í hárinu notar salt og pipar og lokkaprúður kvenmaður í sixtískjól er augljóslega alltof sæt. Myndmálið er líka áhugavert út frá því að bæði sætan og seltan eru bragðbætir – að baki þeim er annar kjarni, hvort sem það er kjöt eða fiskur eða brauð eða annað. Manneskjan að baki er ekki endilega skrautið sem hún stráir yfir sig – en án þessa skrauts væri hún kannski bragðdauf.

***

Kvöldið fyrir sumardaginn fyrsta fórum við Aram Nói á Avengers: End Game. Það var stappfullt út úr dyrum í Ísafjarðarbíó, sem gerist nú ekki alveg nógu oft núorðið, og stemningin var æðisleg. Aram og besti vinur hans, Hálfdán, höfðu eytt deginum í að tússa hver á annan – hann var með „Marvel“ á bringunni, minnir að það hafi staðið „Power Stone“ á bakinu á honum, „Thor“ á annarri kinn og „Thanos“ á hinni og „VS.“ á enninu. Og svo fór hann bara ber að ofan í bíó. Ég píndi hann að vísu til að fara í jakka á leiðinni, sem kom sér vel því þótt það sé stutt ganga fyrir okkur þurftum við að standa úti í biðröð í svolítinn tíma. Inni í salnum lagði hann svo jakkann á hnén á sér og þá leit eiginlega út einsog hann væri bara alls ber með jakkann yfir því allra heilagasta.

Myndin var sirka einsog við mátti búast. Ég hef sennilega séð megnið af þessum Marvelmyndum og þar af auðvitað undanfara þessarar, Infinity War. Þetta er svona öllu-tjaldað-til-dæmi og formúlan nánast svo grjóthörð og skriðþunginn í hinum myndunum nógu mikill til að þetta hefði aldrei getað klúðrast illa – eða verið neitt öðruvísi en nákvæmlega einsog það var. Hún var þrír tímar að lengd og það voru sprengingar og rómantík og þunglyndi og síendurtekinn sigur við ólíklegar aðstæður, kryddað með örlitlum vonbrigðum og svona hálftíma löngum ljúfsárum en hamingjusömum endalokum. Við feðgar fórum mjög glaðir heim.

***

Sumardagurinn fyrsti var svo eins konar menningarreisa. Við fórum fjölskyldan inn í Holtahverfi í svimandi rjómablíðu til að spila cornhole og borða corn dogs hjá amerískri vinafjölskyldu okkar – ásamt fleiri vinum. Það var líka boðið upp á kryddaða kjúklingavængi, doglausar corn dogs með súrum gúrkum í staðinn, hummus og grænmeti og búrbon-límonaði og bjór. Þetta var eins konar æfingar-„tailgate“ fyrir aðra vinafjölskyldu sem er að fara að flytja til Bandaríkjanna í maí.

***

Við börnin kláruðum að lesa Elías eftir Auði Haralds og Valdísi Óskarsdóttur. Hún fjallar um samnefndan dreng sem er að fara að flytja með fjölskyldu sinni til Kanada í tvö ár, svo pabbi hans geti smíðað brýr. Fjölskyldan sem ég nefndi hér að ofan, sem er að flytja til Arlington í Bandaríkjunum, er einmitt fjölskylda besta vinar Arams – Hálfdáns Ingólfs, sem tússaði sig með honum fyrir bíóið – og hún er að flytja í tvö ár svo mamma hans Hálfdáns geti búið til sárabindi úr fiskroði fyrir bandaríska hermenn. Og alla sem gætu þurft á slíku sárabindi að halda. Svo þetta var viðeigandi lestur fyrir okkur.

Það er mjög gaman að lesa svona fjölskyldusögur með krökkunum. Bæði til að sjá það sem hefur breyst og það sem hefur alls ekki breyst. Fólkið í Sitji-guðs-þríleik Guðrúnar Helgadóttur er okkur mjög fjarri í tíma og aðbúnaði, með barnaskarann og peningaleysið og fjarverandi pabbann og sambúð með ömmu og afa, og fyllibyttum á öðru hverju heimili. En fólkið í Elías er allt í einhverju nútímastressi sem er kunnuglegt. Foreldrarnir gera alls konar plön og eiga í flóknum samskiptum við aðra – aðallega Möggu móðursystur í þessu tilviki, sem vill öllu ráða en er líka mjög hjálpleg – og Elías finnst bæði gaman að vera hluti af veröld fullorðna fólksins og að sleppa úr henni. Ég spurði Aram og Aino hvað væri mest ólíkt samtímanum í Elíasi og Aino sagði að foreldrarnir væru svo ruglaðir – sem mér fannst hughreystandi – og Aram bætti við að Elías þyrfti að passa foreldra sína svo mikið. Við Nadja hljótum að vera svona ofsalega stabíl eða góð í að fela hvað við erum klikkuð.

Fyrst og fremst er Elías auðvitað sprenghlægileg bók, bæði fyrir börn og fullorðna.

Lestrarfyrirkomulagið með börnunum á heimilinu er þannig að ég og Nadja lesum fyrir þau til skiptis og við lesum ólíkar bækur – Nadja á sænsku og ég á íslensku. Nadja les alltaf sitthvora bókina fyrir þau en hjá mér skiptumst við á að velja bækur og lesum eina í einu. Ég valdi Elías og ætla að halda áfram að velja Elías þegar kemur aftur að mér – það eru a.m.k. tvær bækur til viðbótar í flokknum. Aram valdi Flóttann mikla eftir Indriða Úlfsson, sem við fundum hjá ömmu og afa, og erum nýbyrjuð á. Aino, sem á að velja næst ætlar að taka myndskreyttar sögur úr Þúsund og einni nótt, sem hún fékk í afmælisgjöf. Þar sem við lesum ekki nema annað hvert kvöld – og tæplega það, það fellur alltaf eitthvað úr, stundum er annað þeirra að gista hjá vini og þá lesum við eitthvað annað en kaflabókina, og stundum er ég ekki heima o.s.frv. – þá tekur stundum sinn tíma að komast heilan hring.

***

Föstudagsfjölskyldumyndin var Rise of the Guardians. Aino valdi að þessu sinni. Myndin fjallar um Jack Frost sem er eirðar- og tilgangslaus ofurvera í heimi þar sem börn trúa bara á Jólasveininn, Páskahérann, Herra Sandmann og Tannálfinn. Jack færir fólki vetur og stuð. Ljótikallinn sækir að þessum barnaguðum og ætlar að kreista gleðina úr hjörtum þeirra og eina von þeirra er hjá Jack Frost, sem kallinn í tunglinu útnefnir „varðmann“ ásamt áðurnefndum ofurverum (þótt enginn trúi á hann).

Hún fór svolítið mikið innum eitt augað og útum hitt. Kannski var það vegna þess að ég var að byrja að verða lasinn – þá rennur allt saman fyrir mér. Ég get t.d. ekkert lesið þegar ég er með hita. Það var áhugavert að þótt ljótikallinn yrði aumkunarverður í endann þá var samt lífið murkað gersamlega úr honum – það var engin siðbót, engin fyrirgefning. Meira að segja Thanos fékk smá samúð – var tragískur. Ljótikallinn var bara vondur. Og ætti kannski ekki að koma á óvart.

***

Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði í gær á Kona fer í stríð. Það var mitt val að þessu sinni og við vorum hvorugt búin að sjá hana. Kona fer í stríð var góð þegar hún var góð, sem var oft, en vandræðaleg þegar hún var það ekki og heilt yfir var myndmálið svolítið hingað og þangað fyrir mig. Annað en Square fannst mér hún ekki bera ofhleðslu – einsog hún vildi segja manni allegoríu en væri svo alltaf að berjast út úr henni líka. Svona einsog ef það væri hliðarsaga í Animal Farm að Snækollur væri líka að reyna að ættleiða.

Það er einsog hún vilji vera of margar aðrar myndir í einu og nái ekki að sætta áhrifavalda sína. Eina stundina er það Kusturica en þá næstu er maður að horfa á Amelie og svo er maður að horfa á skandinavískt persónudrama um barnlausa konu sem vantar lífsfyllingu (barn!) og síðan pólitíska allegóríu. Einhvern veginn fannst mér vanta að hún blómstraði almennilega í eina áttina – sennilega hefði það bara getað verið í Kusturica áttina, það er eina formið sem getur borið hitt líka, að hún yrði sannanlega absúrdísk en daðraði ekki bara við það.

Stundum var líka einsog það væri verið að löðrunga mann með myndmáli sem ég náði einhvern veginn aldrei að púsla saman. Halla (nafnið!) er á flótta undan lögreglunni, eftir að hafa fellt rafmagnsstaur (sem ég held reyndar að geri ekkert gagn) að álveri og felur sig fyrst undir álteppi fyrir hitamyndavélum og svo undir íslensku sauðskinni fyrir drónamyndavél. Þegar hún er á leiðinni til að gefa sig fram stoppar hún leigubílinn og fer út í hraun og gubbar á íslenska náttúru (skömmu áður blæðir henni líka í íslenska náttúru – einum dropa). Þar á eftir tekur hún myndina af stelpunni sem hún ætlar að ættleiða, rífur upp mosa (!!!) og treður ljósmyndinni – sem er kemískt sorp, vel að merkja, og brotnar ekki auðveldlega niður í náttúrunni – inn í mosann. Svo kallar hún sig „Fjallkonuna“ – og ég bara get ekki neitt sem heitir fjallkona. Í bandarísku endurgerðinni yrði hún þá skallaörninn. Það er bara ekki hægt. Forsætisráðherrann heitir Jón Hreggviðsson, hundurinn heitir Kona – og það er bara svo margt svona, verður algerlega ómeltanlegt í pólitískri allegoríu, en hefði verið áhugavert í Roy Anderson mynd eða hjá Buñuel, þar sem ekki er krafist sams konar stöðugrar rökmiðju. Í allegoríunni gerir maður ráð fyrir að púslið eigi að ganga upp – hér eru symbolísku púsluspilin meira einsog þau hafi orðið til á thinktank-fundi á auglýsingastofu eftir aðeins of marga kaffibolla.

Mér fannst samt mjög gott touch að láta alla sem leika löggur í myndinni vera grínista – Ari Eldjárn, Helga Braga, Þorsteinn Guðmundsson og Dóri DNA leika löggurnar í myndinni. Svo er Jón Gnarr forsetinn og ég var ekki viss hvort það ætti að vera tenging við hina grínistana og hans hlutverk er öðruvísi en þeirra – það er meira grín í því.

Kjarnapersónur myndarinnar – sérstaklega Halla og meintur frændi hennar, Halldóra Geirharðs og Jóhann Sigurðarson – voru annars mjög trúverðugar persónur, þótt þau væru problematísk, og afar vel leikin, einsog við er að búast. Grunnsagan er góð og breyskleikar aðalsöguhetjunnar eru áhugaverðir – að hún rjúki út í reiðikasti til að taka eitt tilgangslaust lokaáhlaup á stóriðjuna, og rammi það nánast einsog hún sé þá að fórna lífsfyllingu sinni (ættleiðingardótturinni sem býr í Úkraínu) án þess að taka nokkuð tillit til örlaga þeirrar væntanlegu dóttur eða systur sinnar eða annarra meðreiðarsveina. Hún er rosa merkileg hugsjónakona á sama tíma og hún virkar algerlega vafin upp í eigið egó – allt við þessa ættleiðingu rammast inn af hennar eigin þörfum.

Stemningin í myndinni er á köflum mögnuð, það er flott tempó og hin tekníska leikstjórn er upp á tíu. Einsog venjulega á íslensk náttúra stórleik. Tónlistin er frábær – ég er enn að gera upp við mig hvort ég sé sammála Nödju um að hljómsveitin, sem birtist í mörgum senunum, hafi verið ofnotuð. Ég hefði sennilega ekki hugsað út í það ef hún hefði ekki nefnt það. En mér finnst líka mjög gaman að horfa á fólk spila á hljóðfæri.

Ég spurði mig svolítið út í þessi úkraínsku þjóðlög – ég geri ráð fyrir að þetta séu úkraínsk þjóðlög. Einhvern tíma skrifaði ég eitthvað um útlendinga frá stórþjóðum sem koma til Íslands til þess að fá útrás fyrir þjóðrembu sem þeir geta ekki leyft sér heima fyrir. Vinstrisinnaður Bandaríkjamaður sem getur ekki heilsað fánanum kemur til Íslands til þess að falla í stafi frammi fyrir fjalli og fyllast Wagnerískum ofsa; sama gildir um Þjóðverja og Kanadamenn og fleiri. Þetta er svona nationalism by proxy. Mér fannst úkraínsku þjóðlögin – sungin af þremur „fjallkonum“ – vera svolítið þannig, einsog stand-in fyrir íslensk þjóðlög sem hefði verið tabú að hafa þarna.

Aukapersónur myndarinnar – forsætisráðherra, konan á ættleiðingarskrifstofunni, spunameistarar í sjónvarpinu, leigubílstjóri í Keflavík og aðrir fulltrúar „samfélagsins“ voru hins vegar ótrúverðugar klisjur. Þegar leigubílstjórinn fór að tala um lattelepjandi listaspírur frussaði ég af kjánahrolli. Þegar forsætisráðherra er spurður um loftslagsáætlun ríkisstjórnarinnar og snýr sér út úr spurningunni með því að tala um alvarleika ofbeldis var ég mest hissa – það eru allir forsætisráðherrar með staðlað svar um „metnaðarfulla loftslagsáætlun sína“ og „mikilvægi þess að standa vörð um jörðina“, alveg burtséð frá því hversu mikil alvara er á bakvið slík svör. Forsætisráðherrar eru ekki svona lélegir í augljósasta spuna. Ræða forseta á Þingvöllum sló mig líka undarlega – var hann að bera saman aftökur á Þingvöllum forðum daga og aftökur kínverska ríkisins? Slíkt hefði verið diplomatískt stórslys – leikurinn snýst um að láta, einsog Vigdís gerði og var frægt, sem mannréttindi séu afstæð og kínverska stjórnin í raun mannúðleg. Að konfronta kínversk stjórnvöld svona, þótt það sé gert í rænuleysi, er miklu líkara þeim mótmælum sem Jón Gnarr – sem leikur hér forseta – gerði í raun og veru sem borgarstjóri, og í alls engu rænuleysi.

Ég „lendi“ oft í því þegar ég hugsa og skrifa um íslenskar myndir að hljóma einsog mér hafi þótt þær verri en mér þótti þær. Þegar kreditlistinn rúllaði í gær og Nadja spurði mig hvað mér hefði þótt sagði ég „já, þetta var bara nokkuð gott“. Og þrátt fyrir allar þessar aðfinnslur þá var þetta bara nokkuð gott – setti heilasellurnar af stað og fékk mann til að hugsa.

***

Gítarleikari vikunnar er enginn annar en Langi Seli sjálfur.

Keisaramörgæsir, Klæði gegn konum, Brosandi maður, Aldrei, Zizek og Peterson, Self og BBE

Fyrsta bók vikunnar var Keisaramörgæsir eftir Þórdísi Helgadóttur. Frábær bók – aðeins köflótt einsog flest smásagnasöfn en heilt í gegn príma dæmi. Ég las hana í tveimur lotum og ég man að ég hugsaði í fyrri lotunni að stystu sögurnar væru bestar – að Þórdís nyti sín best í hinu … mig langar að segja gisna en það er ekki alveg rétt lýsing, eða hún hljómar allavega ekki nógu vel. Ég er að meina svona hemingwayískar eyður – samtöl þar sem maður er ekki alveg viss hvað er í gangi af því maður sér aldrei nema brot af heiminum. Skáldskapur sem hleranir í ókunnar veraldir. En í seinni lotunni snerist þetta við og lengsta sagan í bókinni – Leg – er besta sagan. Hún fjallar um sérstakan og sturlaðan matarklúbb, nú langar mig að líkja stemningunni við eitthvað hjá Brett Easton-Ellis, en kannski er það bara vegna þess að ég var að hugsa til hans áðan út af öðru – en það er einhver svona gegndarlaus firring í bland við kátínuþrungna heimsendastemningu.

Seinni bók vikunnar var ljóðabókin/endurminningabókin Garments Against Women eftir Anne Boyer. Anne var einu sinni í flarf-hópnum en er komin langt þaðan í dag. Ég hef þýtt lítillega eftir hana úr bókinni Romance of the Happy Workers og verið í aðdáendaklúbbnum í sennilega 15-16 ár. Ég náði því miður ekki að hitta hana á flarf-hátíðinni í New York, sem ég fór á sumarið 2008 – hún þurfti að afbóka á síðustu stundu minnir mig – en við skrifuðumst örlítið á fyrir löngu. Garments Against Women er grafalvarleg og brútal bók en það er samt einhver húmor þarna – eitthvað sem ég kann ekki alveg að skilgreina. Bókin fjallar um margt og fer víða – kapítalisminn og líkami manneskjunnar í kapítalismanum, í fötunum, í kvenfatnaðinum, og líkami manneskjunnar í sjúkdómum er í forgrunni. Anne Boyer hefur þennan hæfileika að geta starað heiminn niður án þess að blikna – og samt er hún líka að skrifa mikið um hvað hún bliknar, án þess að blikna. Skrifa um að vera uppgefin án þess að gefast upp.

Fullorðinskvikmyndaklúbbur Sjökvist horfir ekki á klámmyndir, einsog einhver gæti kannski ályktað af nafninu, heldur á fullorðinsbíómyndir með áherslu á allt utan Hollywood (hér í húsinu Sjökvist eru reknir tveir aðrir kvikmyndaklúbbar sem sérhæfa sig í barnamyndum). Fjórði fundur var haldinn í gær – fyrstu þrjár myndirnar voru Vagabond eftir Agnesi Varda, Unmarried Woman eftir Paul Mazursky, Le Fantôme de la liberté eftir Luis Buñuel og í gærkvöldi horfðum við á Hymyileva Mies eftir Juho Kuosmanen með vini okkar Jarkko Lahti í aðalhlutverki. Jarkko á hús á Flateyri – eða ég held hann hafi ekki selt það enn – ásamt fyrrverandi konu sinni. Hann var hér á síðustu páskum en við rákumst á hana á Aldrei á helginni. Myndin fjallar um boxarann Olli Mäki og tækifæri hans til að verða heimsmeistari í boxi á sama tíma og hann verður ástfanginn. Þetta er sannsöguleg og afskaplega falleg og mikil feel-good mynd. Ég veit ekki hvort það er miklu meira um hana að segja samt. Hún lýsir tíma sínum, 1962 minnir mig að hún gerist, og fjallar kannski ekki síst um óþolið fyrir athyglinni, fyrir sirkusnum – og er fyndið auðvitað í ljósi þess sirkus sem við lifum við í dag. Olli Mäki kemur frá Kokkola til Helsinki og lendir beint í heimspressunni og stöðugum myndatökum og veseni – á sama tíma og hann er einmitt hvínandi ástfanginn og getur vart um annað hugsað.

Aldrei fór ég suður var haldin um helgina. Hápunkturinn hjá mér var þegar Salóme Katrín flutti Wuthering Heights – það var ofsalegt. Hápunkturinn hjá Aram var að sjá Bagdad Brothers – hann fór heim og náði í trommukjuðana sína og leitaði uppi trommuleikarann og fékk hjá honum eiginhandaráritun. Annars sá ég talsvert minna en ég hefði viljað – missti t.d. af Hórmónum, sem var mjög leiðinlegt, og Ayia með Ástu vinkonu minni. Ég var með matarboð á föstudeginum og við sein af stað og svo var ég á barnavaktinni og fór heim með krakkana upp úr tíu. Þá sáum við eiginlega bara Þormóð systurson minn – hann er eiginlega sigurvegari hátíðarinnar, það hefur hreinlega aldrei verið jafn fullt í húsinu og þegar hann var á sviðinu. Var ekki nokkur séns að komast inn – nema fyrir börnin sem gátu smogið sér milli lappa fólks. Á laugardeginum var ég svo að vinna á aldreibarnum og þar heyrði maður lítið sem ekkert.

Þegar ég var búinn að lesa fyrir krakkana á föstudaginn (Elías, fyrstu bókina) horfði ég á nýjasta þáttinn af Star Trek og síðan svona hálftíma á Zizek-Jordan Peterson debattinum. Ég er eiginlega ósammála öllum um það tiltæki og finnst hreinlega til fyrirmyndar að debatt sé gerð umgjörð sem hentar sjónvarpstækjum um veröld alla. UFC fyrir heilann. Svo eru hugmyndir vondar eða góðar en öll umræða um hugmyndir er góð. Peterson er eins langt frá mér í pólitík og heimspeki og nokkur maður getur orðið, og ekki finnst mér hann sérlega gáfaður, en mér finnst ekki fullkomlega gagnslaust að hlusta á hann. Kannski bara vegna þess að ég er kominn með svo mikla leið á því að hlusta á langar keðjur af stuttum hugsunum – að fá heiminn í tístum og statusum, sem hverfa jafn óðum – og ég sakna þess hreinlega að fá þannig umræðu, lifandi umræðu frekar en bókfasta, í lengri og ítarlegri skömmtum. Þegar maður er svangur er allur matur góður.

Ég hef aldrei skilið hvers vegna Zizek féll af stalli og fór að þykja hallærislegur – eiginlega finnst mér að fyrst vinsældir hans og svo óvinsældir hjá cool kids liðinu séu bæði til marks um sauðshátt samfélagsins, hvað við erum gjörn á að stökkva á eftir einhverjum bendingum um hvað sé hot og hvað sé not og finnast svo það sama og síðasta manni. Í sjálfu sér er Zizek þekktari stærð í dag en fyrir 10 árum og kannski er það bara þess vegna. En hugsun hans er aldrei óáhugaverð – ekki einu sinni þegar hann er að endurtaka gamlar lummur frá sjálfum sér, sem hann gerði mikið í þessum debatt (eða því sem ég sá af honum). Kannski var hann í þessum best off gír vegna þess að hann taldi sig hafa mikið af nýjum áheyrendum – og það gæti verið rétt.

Það sló mig reyndar líka að líberal-fólkið – GíslaMarteinarnir, sem dómínera svolítið á samfélagsmiðlum – geti ekki ímyndað sér neitt verra en að samfélagsumræðan eigi sér stað á ásinum milli svartsýnnar íhaldssemi og svartsýnnar byltingarstefnu. Líberalisminn hvílir á hamslausri bjartsýni og framfaratrú – sem felur reyndar í sér að allir sem eru ósammála þeim séu smám saman að deyja út (fun fact: nei), sem er auðvitað dálítið sínískt.

Helstu viðbrögðin sem ég sá við þessum debatt voru eins konar and-debatt – hvað gæti maður kallað það, frávísun? Twitter fylltist af fólki sem stakk puttunum í eyrun og sagði BLABLABLABLABLA LÚSERAR. Það gerði mig furðu leiðan, jafnt þótt ég gæti tekið undir að annar þeirra sé svolítill lúser – af því mér finnst þetta vera orðið viðbragðið við óttalega mörgu. Svona grobbin idíókrasía – einsog fólkið sem montar sig nánast af því að lesa ekki bækur. Maður á að lesa bækur og maður á að takast á við þær hugmyndir sem eru sentral í menningu manns á hverjum gefnum tíma.

Brett Easton-Ellis var annars að skrifa einhverja bók um hvað þúsaldarkynslóðin sé miklir aumingjar. Einhver skemmtilegasti útvarpsþáttur sem ég hef hlustað á var þegar BEE bauð til sín Ezra Koenig, gítarleikaranum í Vampire Weekend, til að debatera einmitt þetta. BEE kann að þrátta og gera það skemmtilega og – líkt og t.d. Zizek – þá segir hann frekar eitthvað heimskulegt en eitthvað óáhugavert, sem mér finnst alltaf kostur (vegna þess að hið heimskulega anímerar mann en hið óáhugaverða svæfir mann). Svo fór hann í viðtal við Sunday Times og sagði að þúsaldarkynslóðin læsi ekki bækur og þetta tók Twitter nærri sér – bara af því þau læsu hann ekki þá þýddi það ekki að þau læsu ekki bækur. Will Self var einhvern veginn dreginn inn í þetta líka – sem er í talsvert meiru uppáhaldi hjá mér en BEE.

Það sló mig að þegar þeir Self og BEE voru um tvítugt, í byrjun níunda áratugarins, var ábyggilega miklu, miklu, miklu meira lesið en í dag. Og kannski miklu, miklu, miklu, miklu meira. Í öllu falli er alveg ljóst að bókamarkaðurinn hefur hrunið á síðustu 20 árum – ekki bara kaupir fólk færri bækur og les færri bækur heldur les það færri og færri titla, lesturinn dreifist minna. Heilt yfir er það ungt fólk sem les minna – þótt t.d. í Bandaríkjunum skiljist mér að fólk lesi fleiri ljóðabækur en áður (og þær eru vel að merkja styttri og metsöluljóðlist síðustu tíu ára er umtalsvert auðveldari aflestrar en ljóðlistin tíu árin þar á undan). Ég ræddi nýlega við menntaskólakennara sem vildi meina að margir unglingar væru beinlínis stoltir af því að lesa ekki neitt – á meðan að unglingar af okkar kynslóð hefðu verið líklegri til þess að ljúga því að þeir hefðu lesið eitthvað sem þeir lásu ekki, þá lægi við að sumir unglingar í dag ýktu stöðuna í hina áttina og segðust ekki hafa lesið bækur sem þeir hefðu þó lesið.

En svo er þetta líka einhver viðhorfsbreyting. Svartsýnin á undir högg að sækja. Self og BEE finnst kannski æskan glötuð í dag en þeim fannst æskan líka glötuð árið 1985, þegar þeir tilheyrðu henni. Þeir koma báðir upp úr pönkinu, inn í kókaínbrjálæði tíunda áratugarins, í restina af einhverju tímabili sem ég sé alltaf fyrir mér sem gullöld intelektúalismans – frá svona 1970 til 1985. Það er auðvitað vel hugsanlegt að þetta sé kolrangt hjá mér. Ég var sjö ára árið 1985. Þeir líta á hlutverk sitt í heiminum – einsog margir intelektúalar hafa gert í gegnum tíðina – sem það að segja fólki til syndanna, bókstaflega, frekar en að fagna því hvað allir séu frábærir.

Ég er að spá í að lesa þessa bók hans BEE – hún er áreiðanlega ekki hálft eins leiðinleg og fólkið sem henni er stefnt gegn heldur fram.

***

Gítarleikarar vikunnar eru tveir – Adrian Smith og Dave Murray.