Ferkantað land fyrir kantlausan slúbbert

Það er ekki auðvelt fyrir vísitöludreifarann að búa í landi einsog Svíþjóð. Þegar maður er vanur því að allt reddist af því að allir þekkjast og reglur séu sveigðar austur og vestur til þess að skapa ekki „óþarfa vesen“ er erfitt að læra að sætta sig við þvera og ferkantaða lífssýn vísitölu-svensons. Þessa eilífu þrá eftir því að gera hlutina „rétt“. Íslendingar eru sannarlega ekki umburðarlyndir á alla vísu og einsog dæmin sanna er auðvelt fyrir utanaðkomandi að flækja sig svo í kerfinu að lífið verði hálfgerð martröð – egypska fjölskyldan sem var rétt í þessu að fá úrlausn sinna mála, fyrir kraft samstöðu gegn hinni kerfislægu frekju, er gott dæmi um slíkt – en það er samt talið til dyggða að láta hlutina reddast. Og mál einsog egypsku fjölskyldunnar eru vel að merkja mýmörg í Svíþjóð líka – hér er alltaf talsvert um hælisleitendur sem fara huldu höfði.

Það hefur líka oft hvarflað að mér þar sem ég missi góða skapið eftir samskipti mín við ferkantaða bjúrókrasíu út af einhverjum smámunum hvað maður eigi samt gott að afleiðingarnar skuli vera svona minniháttar. Þannig man ég að þegar Aram fæddist hér fyrir 11 árum hafði ég samband við sendiráðið upp á réttu leiðina til að fá ð-ið skráð í eftirnafnið hans og var sagt að það væri ekkert mál – það væru margundirritaðir norrænir sáttmálar um þetta allt saman, en vandamálið væri að starfsfólkið í kerfinu hefði ekki hugmynd um þessa sáttmála og myndi því ekki hjálpa mér. Það sem ég þyrfti að gera væri að skrá barnið, kæra svo skráninguna og fá nafnið rétt skráð fyrir dómstólum. Ég man ekki hvað það átti að kosta en það voru einhverjir hundraðþúsund kallar, give or take.

Um svipað leyti lenti ég líka milli skips og bryggju gagnvart þjóðskrá. Ég var alltaf skráður til heimilis á Íslandi, af því ég vinn og skatta þar, hvar svo sem rassgatið á mér er statt hverju sinni. Þegar við fórum til Íslands yfir jól og ætluðum að skrá Aram í kerfið kom í ljós að við hjónin vorum ekki skráð gift – af því að þeim pappírum þarf maður víst að skila inn sjálfur (við giftum okkur í Finnlandi og reiknuðum bara með að þessi kerfi töluðu saman). Þegar við skráðum okkur gift, til þess að skrá Aram í þjóðskrá, kom í ljós að við máttum alls ekki hafa sitthvort lögheimilið. Ég bölvaði þessu í sand og ösku, meðal annars því við ætluðum til Finnlands aftur um sumarið, og vegna þess að ég var enn skráður á Íslandi myndi ég þurfa að skatta í þremur löndum. Janúar á Íslandi, febrúar-júní í Svíþjóð og svo rest í Finnlandi. Og það er nú ekki það skemmtilegasta sem ég geri að fylla út í skattskýrslur. En þegar ég fór á þjóðskrá hér og fyllti út í pappírinn um lögheimilisflutninga, þar sem fram kom að ég ætlaði að fara til Finnlands um sumarið, var mér tjáð að þetta gæti ég ekki – því það mætti ekki flytja lögheimili sitt til skemmri tíma en sex mánaða og þetta væru bara fimm. Ég mátti því hvorki hafa lögheimilið áfram á Íslandi, né flytja það til Svíþjóðar þar sem ég bjó.

Og nú er ég sem sagt kominn aftur út og byrjaður að reka mig á aftur.

Það eru til tvö öpp til að panta heim mat. Við getum hvorugt notað af því við erum ekki með sænskt símanúmer – reiturinn fyrir símanúmerin er einu stafabili of þröngur til að ég komi íslensku númeri fyrir. Ég hef áður lent í því að geta ekki pantað mat af því ég var ekki með Swish – sem er svona Aur eða Kass app, sem allir hér nota, en Swish fær maður ekki nema maður sé með sænskan bankareikning. Nú er Nadja reyndar með Swish svo ég get beðið hana að redda þessu. Maður gæti haldið að það væri ástæða til þess að tengja Swish við kreditkortaþjónustu – en svo hef ég svo sem rekið mig á það líka að geta ekki notað íslenskt kreditkort á sænskri síðu. Samt er þetta ekkert íslenskt – bara mastercard.

Í dag ætlaði ég að ná í póst. Ég hef áður lent í vandræðum með það. Ein sending var af einhverjum orsökum tollskyld (í henni var úreldur snjallsími, sem hefur mest verið notaður sem svona þykjustusími). Það var rúmur þúsundkall. En verst var að við vorum aldrei látin vita af því. Fengum enga tilkynningu – hann bara sat þarna á pósthúsinu þangað til við fórum að spyrjast fyrir og borguðum tollgjaldið. Svo fékk ég hann ekki afhendan af því hann var merktur Aram og ég var ekki með passann hans. Í dag taldi ég að pósturinn væri merktur mér, en það reyndist misskilningur, svo ég þurfti að fara heim að sækja passa beggja barnanna – af því pakkinn var merktur báðum (og skiptir engu að ég sé forráðamaður þeirra). Þegar við Aram komum svo með passana ætlaði konan að gera okkur afturreka aftur á þeirri forsendu að passinn hennar Ainoar væri útrunninn (ég tók vitlausan). Þegar ég maldaði í móinn var náð í annan starfsmann sem ákvað að það dygði í þetta sinn að við værum með passa þess sem er fyrr tiltekinn á bréfinu – sem var Aram – öfugt hefði ekki gengið.

Um daginn vantaði mig líka svona lítinn þráðlausan gaur til að tengja við plötuspilarann svo ég geti notað hann með heddfónum. Ég fann hann á netinu hjá Clas Ohlsson, festi mér hann og greiddi – en af því að ég var nýbúinn að eiga í svipuðum viðskiptum þar sem ég strandaði á að vera ekki með sænska kennitölu, skráði ég Nödju sem kaupanda (ef ske kynni að kennitöluvesenið kæmi upp). En svo fékk ég hann auðvitað ekki afhentan þótt ég væri augljóslega greiðandi (sjálfum þætti mér eðlilegra að það væri öfugt – það myndi a.m.k. vera betra til að lágmarka svindl).

Síðasta umkvörtun dagsins – nei, næstsíðasta (ef mér dettur ekkert fleira í hug) – er að maður kemst ekki inn í fjölbýlishúsið okkar nema með sérstöku blippi, svona tölvulykli. Og það er engin dyrabjalla. Hér er sem sagt ekki hægt að banka uppá – hvorki sölumenn, trúboðar, börn á hrekkjavöku eða vinir og kunningjar.

Síðasta umkvörtunin – last dagsins – fær síðan nágranninn á ská fyrir ofan okkur. Þegar við fluttum inn fór Nadja og spurði fólkið fyrir ofan okkur hvort það væri í lagi að Aram væri að tromma á rafmagnstrommusettið sitt. Þau sögðust ekki geta sagt um það, þau yrðu að heyra það fyrst – en þá hafði hann einmitt verið að tromma og enginn heyrt neitt. Fólkið á ská fyrir ofan – sem ætti að heyra verr, enda hinumegin við stigaganginn – kom hins vegar í fyrrakvöld og sagði að nú væri öllum trommuleik í þessu húsi lokið. Ég er svo mikill trékall – og vanur því að fólk bregðist frekar illa við mér, ég veit ekki hvort það er hæðin eða skeggið eða röddin eða bara fasið, en Nödju gengur allavega miklu betur en mér að lempa svona fólk og hún var ekki heima – að ég jánkaði bara eitthvað og baðst velvirðingar. En svo sýður auðvitað á mér. Ég er með kategórískt ofnæmi fyrir því sem á ensku er kallað „entitlement“ – að finnast maður stöðugt geta krafist þess að veröldin trufli ekki viðkvæma tilvist manns. Auðvitað eru takmörk fyrir öllu – en ef maður má ekki heyra í nágrönnum sínum, finna lykt þegar þeir laga mat o.s.frv. þá þarf maður bara að búa einhvers staðar þar sem eru ekki nágrannar. Því fólki fylgir visst ónæði. Svo finnst mér líka að það eigi að vera tónlist á heimilum.

Nú er á planinu að kaupa betri mottu undir settið og færa það í annað herbergi og tala svo við fólkið og fá uppgefinn einhvern tíma sem hentar betur en annar – þetta var eitthvað rúmlega sjö.

Eitt af því sem er áhugavert í þessu öllu saman, a.m.k. nú í dag frekar en þarna um árið, er að megnið af vandræðunum eru ekki á vegum hins opinbera (enn sem komið er) heldur einkafyrirtækja. Það er pósturinn, öppin, pizzeriurnar, fyrirtekið sem rekur húsið, Clas Ohlson o.s.frv. sem eru með mesta vesenið.

 

Paella á grillinu

Ég er að verða meiri og meiri uppskriftadólgur í ellinni og fer ekki nema að hálfu leyti eftir einni uppskrift og hálfu leyti að annarri og geri svo einhver ósköp frá eigin brjósti og allt verður þetta erfitt að muna þegar maður ætlar að endurtaka snilldina. Þá er ágætt að glósa hjá sér þegar vel tekst til.

500 ml arboriohrísgrjón
1500 ml grænmetissoð
1/2 bolli hvítvín
einhver grömm af saffrani
3/4 bolli grænar ertur
200 grömm rækjur
15-20 kræklingar
6-10 stk stór skelfiskur
1 msk reykt paprika
2 hnífsoddar af cayennepipar
2 laukar
2 sætar paprikur (svona langar)
1 knippi af steinselju
2 stórir kínahvítlaukar
1 msk af tómatpúrru
1 sítróna

Ég geri paellu á grilli í 45 cm breiðri paellupönnu sem ég keypti af Steina í Muurikku í gær (þegar verið er að rýma iðnaðarsvæði vegna snjóflóðahættu á Ísafirði er það alltaf Steini sem þarf að fara heim). Þess vegna kveiki ég fyrst undir grillinu, sker svo allt og mæli og fer síðan út. Með bjór í hönd.

 

  1. Fyrst gerir maður sofrito. Sker niður lauk, papriku og 4/5 hluta af steinseljunni. Saxar hvítlaukinn. Sýður grænmetissoðið. Mælir allt annað og fer með út í garð.
  2. Saffranið er mulið ofan í hvítvínið þar sem það fær að liggja í bili.
  3. Paprika, laukur og 3/4 af steinseljunni steikt á heitri pönnu með nóg af ólífuolíu þar til orðið mjúkt og vellyktandi. Í restina setur maður hvítlaukinn og kannski helminginn af reyktu paprikunni (sem var blönduð við cayenne hjá mér, en ég sneiddi hjá því svona með puttunum bara).
  4. Þá fara hrísgrjónin út í og tómatpúrran og það fær svona aðeins að blandast og ristast og karamelíserast og guð veit hvað annað þetta er að gera þarna í pönnunni.
  5. Eftir smástund helli ég fyrst hvítvínssaffranblöndinu út í, svo soðinu og loks restinni af kryddinu og nú gildir að hreyfa ekki pönnuna heldur láta hana bara í friði. Botninn á að ristast – þar á að myndast svokallað socarrat.
  6. Eftir 20 mínútur sem eru kannski korter raðar maður fiskmetinu fallega á diskinn og setur lokið á grillið. Mitt fiskmeti var enn pínu frosið og ég er ekkert viss um að það hafi komið að sök – hugsanlega hjálpaði vökvinn eitthvað til. Svo bíður maður í 5-10 mínútur, eftir því hvað maður er þolinmóður.
  7. Næst tekur maður pönnuna af grillinu og fer með inn í húsið. Stráir restinni af steinseljunni yfir, raðar sítrónubátum með jöfnu millibili allan hringinn og ber fram. Þetta átti að vera með góðu brauði en ég gleymdi að setja það í ofninn. En við höfðum Tinto de verano (barna og fullorðinsútgáfu) og grilluðum svo sykurpúða á eftirhitanum og nutum síðustu sólargeislanna.

Þetta var ofsa gott.

Megas, Steinar, músagangur og Sonatorrek

Ég er að hlusta á Arnar Jónsson flytja Sonatorrek. Blús allra blúsa. Þetta  er voðalegt.

Í gær urðum við vör við músagang þegar við vorum að fara að sofa. Eða eitthvað krafs – við fundum aldrei músina og ekki heldur músafelluna sem við fórum á stúfana eftir. Þetta er ekki beinlínis músasíson svo ég veit ekki hvort maður á að trúa því að þetta hafi verið mús. Þær koma venjulega inn á haustin þegar kólnar. Og komu engar í haust. Eitt árið hérna voru þær svolítil plága en annars höfum við bara aðeins orðið vör við þær eða alls ekkert.

Eða, þú veist. Plága. Þær voru fyrir. En héldu sig reyndar mest í kjallaranum.

Megas er 75 ára í dag. Hann fær ábyggilega fáa gesti í ljósi ástandsins. Þegar hann varð sextugur fylgdi hann mér og fleiri íslenskum skáldum í frægðarför til Kaupmannahafnar. Ef ég man rétt þá átti hann ekkert erindi – var ekki að spila – heldur vildi bara ekki vera í sextugsafmælinu sínu. Þetta var einmitt beint í kjölfar fyrstu Aldrei fór ég suður hátíðarinnar. Páskafylleríinu fylgdi þá bókmenntahátíðafyllerí með millilendingu í hitta-vini-sína-í-Reykjavík-og-fara-á-Sirkus-fyllerí. Og gott ef þetta var ekki einmitt fyrsta þannig ferðin mín. Og sennilega eina skiptið á ævi minni sem ég hef tekið almennilegan „túr“ – þetta voru sennilega alveg heilar tvær vikur – og var svo draugþunnur á eftir að ég vissi varla hvað ég hét. Í Kaupmannahöfn ráfaði ég um með Steinari Braga og át pulsur og drakk bjór á gangi – borgin var alsett sporum sem áttu að markera för HC Andersen um borgina en hann átti eitthvað stórafmæli, en á sama tíma gekk laus morðingi sem hafði skilið eftir líkamshluti fólks í ruslafötum og auðvitað minntu sporin meira bara á hann. Eða hana. Ég man ekki hvort viðkomandi náðist nokkru sinni. Um nætur svaf ég til fóta hjá Steinari og Öglu, þáverandi kærustu hans, sem var ekki með okkur Steinari á þessu vægðarlitla fylleríi. Samt var búið um mig heima hjá Auði Jóns og Tóta Leifs – það var bara eitthvað langt í burtu og óþarfi að skilja við Steinar ef við ætluðum hvort eð er að byrja aftur að drekka þegar við vöknuðum. Einn af síðustu dögunum í borginni lásum við svo loksins upp og hittum þá dönsku skáldin sem áttu að lesa með okkur og ég held okkur hafi aldrei litist jafn illa á neinn hóp af fólki – þetta var svo hreint og strokið og kurteist að okkur hreinlega ofbauð. Síðar hef ég séð til nokkurra þessara dönsku höfunda og orðið var við að á meðan íslenskir höfundar eru svolítið í ógæfunni þarna milli tvítugs og þrítugs þá blómstra danskir höfundar síðar og hefja sína óreglu nær fertugu, þegar íslenskir höfundar eru orðnir settlegt barnafólk í úthverfunum. Svona fólk sem hefði gengið í samstæðum jogginggöllum þegar ég var lítill. En dönsku höfundarnir eru allir drykkfelldir, illa lyktandi besefar.

En ekkert af þessu var Megasi að kenna – það var varla að ég sæi hann í þessari ferð. En hann átti sem sagt líka afmæli þá, hann var bara yngri.

Hin órómantíska angist

Þetta eru erfiðir dagar. Það er bara þannig. Maður ber sig vel og stundum líður manni vel en svo hellist þetta allt yfir mann inn á milli og þá getur maður ekki annað en viðurkennt að þetta er samt allt erfitt. Það er ýmislegt þarna sem er fallegt og gott – meiri tími með börnunum, minni radíus í lífinu þýðir meiri jarðtenging. Það er furðuleg sálarró í einum hugarkima á meðan það logar allt í öðrum.

Meiri tími í símanum fer illa með sálarlífið. Meiri tími á covid-síðunum. Við erum kannski öll almannavarnir en við erum ekki einn aðili og fáum ekki ein meðmæli og það er ómögulegt að vita hvort það sé rétt að vera með appið eða vera með grímu eða vera í algerri einangrun – eða applaus, grímulaus og hanga á kaffihúsum (en „fara varlega“) einsog í Svíþjóð. Það er ekki bara þannig að allar ákvarðanir hins opinbera orki tvímælis – og hin opinberu (bæði rannsóknastofnanir og ríkisvald) séu með alls konar skoðanir og niðurstöður sem allar stangast á – heldur orka allar manns persónulegu ákvarðanir tvímælis. Ég get keypt brauð í Heimabyggð og séð til þess að staðurinn verði ekki orðinn að lundabúð (eða bara lokaður) þegar þessu lýkur eða ég get sleppt því að fara þangað svo það deyi enginn. Lokað mig niðri í kjallara svo það deyi enginn. Bakað mitt eigið helvítis brauð.

Og einhvern veginn finnst mér samt einsog þetta myndi virka best ef við hefðum bara einn mauraheila. Um stundar sakir. Einn sovét-skipulagðan heila – einn fyrir alla og allir fyrir einn-heila. Það getur vel verið að ekkert sé hættulegra – þetta orkar tvímælis einsog allt annað. Og kannski drepur okkur bara tvímælið.

Helst vildi ég bara að það væri app sem segði mér hvort það sé góð hugmynd að fara niður á skrifstofu að ná í ljóðabækur og prenta út eitt skjal sem ég þarf. Eða hvort það deyi þá einhver. Hvort það sé betra að fara á morgun. Eða í nótt.

Og stundum líður manni samt vel. Alveg í svolítinn tíma jafnvel – en einhvern veginn skellur maður alltaf aftur á vegg. Svo líður manni vel. Svo ekki. Og þannig hring eftir hring þar til maður verður geðbilaður.

Líf kontóristans

Á skrifstofunni minni eru einstaka sinnum fleiri en sex. Oftast erum við fjögur og stöku sinnum fimm. En starfsmenn á svæðinu geta orðið átta, held ég, ef setið er við allar vinnustöðvar. Mér fannst einfaldast – í ljósi samkomubanns á Vestfjörðum sem nú bannar fleirum en fimm að hittast – að vera þá bara heima.

Hér erum við líka fjögur – það er enginn skóli – og ekki von á neinum. Aino gæti fengið undanþágu og farið, menntaskólakennarar eru á listanum yfir þá sem sótt geta um undanþágu, en til hvers? Í gær hittum við vini á Zoom og drukkum áfenga drykki. Ég get ekki sagt að þetta ýti mikið undir minn persónulega alkóhólisma. Ég hefði drukkið miklu meira ef þau hefðu verið hér í eigin persónu (fékk mér tvo frekar veika kokteila). Eiginlega finnst mér það næstum sorglegt. Það var allavega áreiðanlega sorgin sem veldur því að ég fékk mér ekki þriðja og fjórða.

Nadja er búin að setja upp menntaskólastofu bakvið læstar dyr í svefnherberginu. Börnin ganga laus um allt hús og raða böngsum í glugga. Þau eiga mjög marga bangsa. Ljóðaþýðingaverkstæðið er í borðstofunni, þar sit ég og hlusta á Son House á vínyl einsog hipsterinn sem ég er og sinni fyrirspurnum þeirra – milli 14 og 16 fæ ég svo meiri vinnufrið. Klukkan 11 verður tónlistartími – Aino á bassa og Aram á trommur. Þau eru að læra Babe, I’m Gonna Leave You og Zombie. Algerir snillingar. Og ekki leiðinlegt fyrir mig að vera loksins kominn í hljómsveit.

Grímulaus kórónaveiki – Svíþjóð og Ísland og allir hinir

Frá því á sunnudag fyrir viku hef ég gengið með grímu utandyra. Ég geng ekki með hana innanhúss á skrifstofunni og þegar ég fer út að hlaupa læt ég duga að hífa buffið upp fyrir vitin þegar ég mæti einhverjum. Ég fer heldur ekki víða. Ég skýst yfir á Heimabyggð eftir kaffi, í Hamraborg eða Thai Tewee eftir mat og fer í Nettó á leiðinni heim. Bara einsog venjulega. En það eru engin matarboð og engar heimsóknir og verið þannig lengur fyrir mig en flesta – af því ég lá í flensu allan febrúar ofan í hitt.

Grímuna keypt ég í Víetnam fyrir fimm árum, sennilega bara rétt eftir að við komum og þá í Hanoi frekar en Hoi An. Þar eru grímur af þessu tagi staðalbúnaður – ekki vegna sjúkdóma og flensu heldur vegna mengunar. Í Da Nang, Hanoi og Saigon og öðrum stórborgum var mjög þægilegt að hafa grímu í umferðinni – á vespum eða reiðhjólum. En í Hoi An var það hálfgerður óþarfi og við notuðum þær aldrei mikið. En þær hafa legið í búningakörfu krakkanna síðan við komum hingað.

Sunnudaginn sem ég setti hana upp í fyrsta sinn á kórónatímum var ég á leiðinni að hitta mann. Engan annan hef ég hitt nema í augnablik og augnablik síðustu vikur og við ákváðum að hittast úti og fara í göngutúr. Svo ég gróf upp þessa grímu og setti hana upp og hef notað hana síðan. Í göngutúrnum keyrði framhjá okkur bíll með tveimur farþegum sem voru báðir með grímu og sennilega sá ég sama fólkið í Nettó nokkrum dögum seinna en annars hef ég ekki orðið var við grímur nema á afgreiðslufólki – sumir í Nettó og svo kallinn sem rekur Thai Tewee. Ég átti von á því að þeim myndi fjölga en sú hefur ekki verið raunin. A.m.k. ekki á Ísafirði.

– Hvað heldurðu að fólk hugsi, spurði Nadja mig í gær þegar við vorum í göngutúr. Hún grímulaus, vel að merkja. Þegar það sér grímuna, bætti hún við.

– Alls konar, sagði ég.

– Heldurðu að fólk haldi að þú sért veikur?

– Að ég sé í sóttkví? Já, ábyggilega. Maður á ekki að fara í búðir þegar maður er í sóttkví en það gera það víst margir. En sumum finnst þetta bara fyndið, held ég. Að ganga með grímu. Margir bókstaflega þrá að taka þetta ekki alvarlega, að þetta sé ekki neitt neitt – fólk vill bara slappa af. Og þá hlær það annað hvort eða setur upp skelfingarsvip. Þetta er líka áminning um dauðann. Margir hugsa líka hvort þeir ættu sjálfir að vera með grímu. Margir hugsa ábyggilega líka að ég hljóti að vera mjög hræddur við að veikjast.

– Ertu hræddur við að veikjast?

– Nei. En ég er mjög hræddur við að bera smit. Ég held það væri ekki gaman að uppgötva seinna að maður hafi verið smitaður og maður hafi ekki farið eins varlega og manni var unnt. Þannig lagað. Auðvitað gæti ég líka bara sleppt því að fara í búðina eða kaupa kaffi á Heimabyggð og fara í göngutúra. En mér finnst ágætt að finnast ég vera að gera eitthvað. Og mér finnst ágætt að ástandið sjáist – á mér – það eru áhöld um hversu mikið gagn grímurnar geri, þótt þær geri áreiðanlega eitthvað, en það er ábyggilega gagn í því að vera sýnileg áminning.

Og svona töluðum við áfram. Það var að vísu erfitt að heyra hvað við vorum að segja af því það var svo mikið rok og dálítil umferð og ég auðvitað með grímu fyrir andlitinu.

***

Einn vinur minn á Facebook er með það á heilanum að Svíar séu svo miklu krítískari í sinni Covid-umræðu en Íslendingar. (Þegar ég segi „með það á heilanum“ á ég við að hann hefur ábyggilega nefnt það tvisvar – eða allavega ekki sjaldnar en einu sinni. En ég sé fyrir mér að hann hugsi um þetta viðstöðulaust. Þannig virkar bara internetið.) Ég hef ekki orðið var við þessa hörðu krítík í fjölmiðlum nema að litlu leyti – og ekkert hjá sænskum vinum mínum. Lengst af voru efnahagsfréttir alltaf efstar og enn eru sænsku miðlarnir þeir einu sem ég dett inn á – af íslenskum, amerískum, breskum, dönskum og finnskum – sem eru ekki alltaf með Covid sem efstu frétt. Og mér finnst Svíar bara mjög uppteknir af því að verja afstöðu sína – eða afstöðu Tegnells, sóttvarnalæknis. Enda sosum kannski ekki skrítið. Það langar engan að trúa því að samfélagið sem á að vernda hann – yfirvald eða fólk – sé brostið og allt sé á leiðinni til andskotans.

Og blöðin – fréttir, ekki bara pistlar – full af einhverjum svona bendingum um að á meðan aðrir séu að taka „pólitískar“ ákvarðanir séu Svíar að taka „vísindalegar“ ákvarðanir. Einsog það séu ekki sóttvarnalæknar sem taki þessar ákvarðanir í öðrum löndum eða það hafi ekki tvö þúsund (!) sænskir vísindamenn skrifað undir opið bréf um að Tegnell ætti kannski að hugsa sinn gang – og a.m.k. annað eins af sérfræðingum víðs vegar að. Þá eru Svíar líka einir um að malda í móinn og segja að það sé nú óþarfi að fara að stilla upp svona þjóð gegn þjóð í þessu, það séu allir að reyna sitt besta. Milli þess sem þeir lýsa viðbrögðum Dana og Norðmanna sem fullkomnum fasisma, þar sem herinn ráði lögum og lofum, en Svíar ætli einir að standa vörð um hið borgaralega frelsi. Sem er mjög áhugavert og til marks um að líberalisminn hafi náð miklu meiri tökum á Svíum en ég hafði áttað mig á – þeir einblína mjög hart á að þeir treysti fólkinu til að fara eftir ráðleggingum og ætli ekki að setja neinar „óþarfa“ reglur. Hvað sem manni finnst um það per se er það augljóslega ekki í anda sósíaldemókratíunnar þar sem ákvarðanir eru teknar miðstýrt með hagsmuni heildarinnar fyrir augum – alveg ískalt og í trássi við vilja einhverra „einstaklinga“ – í sósíaldemókratíunni er það ekki upp á samvisku hvers og eins hvort hann pissar laugina heldur er það einfaldlega bannað. Af því við búum öll í sömu folkhemmets-lauginni.

Þetta með borgaralega frelsið er líka yfirleitt afstaðan sem Danir taka – grunnstilling þeirra – en Svíar verja hitt. Í norðurlandarígnum. Það eru Svíar sem yfirleitt segja að það sé gott og gilt að úthýsa Svíþjóðardemókrötum þannig að þeir geti ekki leigt sér sal undir ársfund (að vísu er það meira en tíu ára gamalt dæmi – times have changed) en Danir sem segja að maður verði að debatera þá í blöðunum og láta þá viðra af sér skítinn. Niðurstaðan hefur að vísu alltaf verið sú sama – og ef horft er á tölurnar gildir sama um kórónavírusinn. Danir gera einsog Norðmenn en uppskera einsog Svíar.

Svíþjóð er líka eina landið hvaðan ég fæ enn fb-boð á viðburði. Útgáfuhóf og svona. Nú er búið að þrengja samkomubannið hjá þeim úr 500 manns í 50 en 50 er ennþá hellingur – allir minni viðburðir ganga enn upp. Eitthvað heyrist mér að viðbrögð í skólum séu misjöfn – skólakerfið í Svíþjóð er miklu líberalíseraðra heldur en hið íslenska og skólarnir ólíkari og frjálsari um að sinna sínu (og rosalega misgóðir – foreldrar í endalausum eltingaleik við að koma börnunum í betri skóla). En það virðast allavega ekki vera neinar miðstýrðar reglur – ég veit um skóla þar sem kennarar eru enn að hitta fleiri hundruð nemendur sem allir éta upp úr sama salatbarnum. Og ég veit um kennara sem vilja ekki vera að kenna við þessar aðstæður en fá bara ekki að sleppa því.

Og ég sé líka Svía sem finnst þetta mjög erfitt og sem eru mikið heima. Auðvitað er þetta ekki þannig eðlisólíkt – hin persónulega afstaða er áreiðanlega svipuð milli landanna. Fólk sprittar sig, gætir að fjarlægðum, heldur fjarfundi og vinnur heima ef það getur.

Margir Stokkhólmsbúar hafa víst flúið borgina, þar sem veiran geisar, og kvarta undan því að verða fyrir fordómum þar sem þeir koma – það sé komið fram við þá einsog smitbera. Sem þeir gætu auðvitað verið. Íslendingar halda stundum að hér sé rígur milli borgar og landsbyggðar en það er ekkert í samanburði við Svíþjóð. Lattélepjandi Söderbúi trompar lattélepjandi miðborgarrottu án þess að blása úr nös. Við skulum nú ekki einu sinni nefna fólkið sem býr í Gamla Stan eða Östermalm! Og þegar þessi lattélepjandi efri-millistéttartrefill er líka hugsanlega að dreifa smiti um landið sem annars væri lókalíserað er hætt við að fjúki í einhvern.

Svíar segja líka að það sé ekki hægt að testa svona stóra þjóð – Kári var í viðtali í DN og hundskammaði þá fyrir að testa ekki. Enda veit ég ekki betur en að Þjóðverjar leggi líka áherslu á að testa og þeir eru eitthvað aðeins fleiri en Svíar. En Tegnell segir þetta samt einsog það sé bara staðreynd.

Hvað varðar Tegnell sem slíkan finnst mér alveg ástæða til að hugsa um þetta einsog önnur mál sem ég hef ekki nægt vit á sjálfur (og hafa í huga að þetta er margra ára nám og sérhæfing) t.d. loftslagsvandann. Ef næstum allir sérfræðingarnir segja A (þetta er grafalvarlegt og við þurfum að bregðast við með mikilli festu) en einn og einn segir B (rólegan æsing, við viljum ekki setja efnahaginn á hliðina eða blása þetta upp meira en þörf krefur – örfáar gráður hafa aldrei drepið neinn, mestu skiptir að við sínum persónulega ábyrgð hvert í sínu lífi) þá hallast ég að því að útvista kunnskapnum og trúa bara meirihlutanum. Það þýðir ekki að meirihlutinn hafi rétt fyrir sér – þetta er bara tölfræðiveðmál hjá mér. Og ætti þá auðvitað frekar að halla mér að þýska sóttvarnalækninum en Víði. En svo er kannski líka rúm fyrir að aðstæður séu ólíkar milli landa.

Á Ísafirði er skóli til 12 – krakkarnir koma á 40 mínútna bili í kringum átta svo það verði ekki troðningur, fara allir í sínar stofur, taka með sér hádegismat og borða í stofunum og rekast ekki neitt á yfir skóladaginn. Fara ekki einir á klósettið o.s.frv. og eiga ekki að leika saman þvert á bekki eftir skóla (Aino skæpar við vinkonu sína sem býr skotspöl frá okkur; Aram leikur við vini sína í tölvunni á netinu). Fara einu sinni út yfir daginn í bekknum sínum að leika ef veður leyfir – og þá mikið til út af skólalóðinni, sýnist mér. Og ég veit um kennara sem hafa bara farið í sjálfskipaða sóttkví og það best ég veit er því sýndur skilningur. Sennilega er þetta mismunandi eftir skólum líka. Ég varð var við mikla gremju hjá reykvískum foreldrum fyrstu dagana en það hefur nú eitthvað lempast. Ég hélt þetta myndi ekki ganga en sennilega var rétt, sem mér var bent á, að þetta þyrfti bara að venjast.

Mér finnst þetta hughreystandi. Kannski er það fölsk hughreysting en samt. Þetta ástand getur varað lengi og sennilega skiptir miklu máli að reyna að setja ekki þjóðfélagið þannig af sporinu að það verði ekki hægt að halda aðgerðunum áfram meðan þess gerist þörf. Kannski er ástæða til enn harðari aðgerða – kannski er allur varinn góður – en maður þarf ábyggilega að eiga einhvern fúnkerandi infrastrúktur (og pening) þegar og ef bóluefni finnst. Kreppan sem tekur við af þessu bitnar líka alveg áreiðanlega mest á þeim sem mega síst við því – það er verkefni sem við verðum að taka mjög alvarlega þegar þessu lýkur. Við gætum annars hæglega setið uppi með mikið ójafnaðarsamfélag. Og að sama skapi þarf að gæta þess gríðarleg vel að undið verði vel ofan af öllu undanþáguástandi – öllu sem líkja má við herlög eða hjáleiðir í bjúrókrasíu. Það þurfa allir að eyða appinu úr símanum sínum þegar þessu lýkur því ríkinu er almennt ekki treystandi – og það breytist ekki þótt maður neyðist til að treysta því tímabundið. Hluti af því er auðvitað að fylgjast með og skjalfesta allt sem gerist núna og horfa gagnrýnum augum á framvinduna. En svona praktískt er sennilega best að maður fari bara varlega og hlýði næstu vikurnar – og kannski skiptir þá engu hvort maður er Svíi, Dani eða Íslendingur. Bara að maður muni líka að gera hlýðnina ekki að ávana.

***

Ég hef annars notað frítíma minn í það sem róar mig. Að smíða og mála gítarinn og taka upp músík þegar gítarinn er að þorna og svona. Bæði er pínu klúðurslegt og svona en mér fer samt fram. Og það er róandi. Ég er bara mjög bærilegur hvað sem líður langlokum og grímum. Hér eru tvö lög – Wang Dang Doodle eftir Willie Dixon (ég er mjög ánægður með sólóið reyndar – stutt og gott) og Chocolate Jesus eftir Tom Waits.

Menningardagbók, rituð að morgni föstudags en birt sólarhring síðar. Af því ég er að fara að tala um þessa hluti í Lestarklefanum á eftir og það væri asnalegt að vera búinn að birta allt sem ég ætla að segja á blogginu mínu. Ég þarf líka að geta tekið út allt sem ég segi hér sem stemmir ekki við það sem ég segi síðan í útvarpinu, því ég skipti áreiðanlega um skoðun.

Skattsvik Development Group er sýning sem ég sá á tölvuskjá en er ætluð sem leiksýning. Hugmyndin – hópur listamanna leitar allra leiða til að koma tekjum sínum af sýningunni í skattaskjól – er frábær og það er alveg einhver innsýn þarna í áhugaverða mekanisma. Mig langaði hálfvegis að horfa á þetta með Björgólfi Thor og sjá hvað hann kannaðist við, hvað væri bara vitleysa, hvað væri klaufaskapur eða misskilningur. Þeim mistekst auðvitað að skjóta peningunum undan – kannski væri sýningin betri ef þeim hefði þó tekist að koma peningunum í var. Það vantar allavega eitthvað í hana fyrir mig. Kannski hefðu þeir einfaldlega þurft meiri tíma – og hærri laun – til að kafa dýpra. Sýna manni eitthvað sem maður vissi ekki fyrir. Þeir eru svolítið mikið að gaufa á yfirborðinu – og gaufið er í sjálfu sér skemmtilegt en það er líka einsog það taki athyglina frá því sem maður ímyndar sér að eigi að vera fókus sýningarinnar – einhver svona átök litla mannsins við fjármálaheiminn. Og auðvitað er sögnin – þessi sýsífosarleikur – góð en tíminn eiginlega rennur frá manni áður en þetta er orðið nógu fáránlegt. Ris fáránleikans er rétt að hefjast þegar þeir þurfa að fara að henda þessu á svið.

En að því sögðu er líka ofsalega mikill brilljans í þessu og bút fyrir bút er þetta mjög gott – risið er flott, flækjan er góð, lævís húmorinn jafnt sem fíflagangurinn. Hugsanlega hefði þetta bara átt að vera fyrsti þáttur af tólf.

Skemmtilegasta atriði sýningarinnar er þegar þeir eru að reyna að koma bréfi í póst til Írlands. Þar verður þessi vonleysisins súrrealismi bæði fyndnastur og táknrænastur – að maður geti ekki einu sinni komið bréfi í póst.

Ég skildi ekkert í þessum dansatriðum. Finnst algengara og algengara að fólk hendi í dansatriði bara til að hafa dansatriði. Dansinn dansins vegna.

***

Bombshell. Væntingar mínar voru algerlega í lágmarki. Ég sá bara að þetta væri mynd um hvað karlar sem stjórna Fox væru vondir – sem er vægast sagt málstaður sem ég held að margir hafi samúð með – og að hún næði samt ekki sjöu á IMDB. Í sjálfu sér gleymdi ég að reikna með því að einhverjir foxarar myndu gefa henni hauskúpur. En hvað um það. Sem klassískt hollívúddréttlætisdrama er hún bara bærilega heppnuð. Og þarf kannski ekki annað en sæmilega pródúksjón, góðan málstað og frábæran leik. Og hún hefur það allt. Charlize Theron er frábær. John Lithgow er frábær. Restin skilar sínu frá vel til mjög vel. Maður situr yfir henni og finnur til með öllum þessum konum sem hafa mátt þola Roger Ailes og Bill O’Reilly og alla hina. Eitthvað hvarflar að manni gömul (eða ekki) kynjaskipting þar sem karlar ná sínu fram með gravitas og/eða frekju en konur ná sínu fram með kynþokka og/eða siðavendni. Og hér er þá sögð sagan af því þegar konurnar hafna því að nota kynþokka sinn til að komast áfram og hafna þar með líka frekju karlanna – bylta kerfinu.

Það sem truflaði mig var kannski mest bara að það væri verið að fá mig til að empatísera með fólki sem ég held að sé upp til hópa sósíópatar. Þetta er svona repúblikanskur stórfyrirtækjafemínismi. Við fengum að sjá aðeins glytta í að Megyn Kelly hafi „óþægilegar skoðanir“ (einsog að Jesús Kristur hafi verið „hvítur“) en annars birtist hún og kynsystur hennar hjá Fox okkur meira sem einhvers konar líberal faksjón innan fyrirtækisins. Ég efast ekki um það í eina sekúndu að þetta séu útkalkúleraðar framakonur – ég veit ekki hvort þær svífast alveg jafn lítils og Bill O’Reilly en ég held ekki heldur að þær séu nein Erin Brockovich eða Greta Thunberg. Það hefði verið áhugavert að sjá líkin sem þær dröslast með í sínum eigin í farangri – en það hefði truflað bæði hetjusöguna í myndinni sjálfri og stórsöguna sem við erum að segja pólitískt í samfélaginu þessi misserin.

***

Eilífðarnón Ástu Fanneyjar. Ég hef nefnt hana hérna áður og kallað instant-klassíker og er auðvitað sjálfskipaður formaður í aðdáendaklúbbi Ástu. Ég veit samt ekkert hvaða orð ég á beinlínis að hafa um þessa ljóðlist. Ljóð Ástu eru óáþreifanleg, þannig lagað, man ekki hvort útgefandinn talar um ferð milli draums og vöku – fyrst og fremst eru þetta ferðir um tungumálið og þar vélar Ásta einfaldlega betur en aðrir, við hin erum í einhverri annarri deild. Ásta er Jónas Hallgrímsson en við erum bara einhverjir random Fjölnismenn. Það væri hægt að setjast niður og greina þetta allt saman en sennilega er besta leiðin bara að lesa þetta upphátt – leyfa sér að heyra þetta mál, hvernig það þræðist sundur og saman, leysist upp og glitrar. „við rætur / augnháranna / er rök mold / og mánanunnur“. og „ég kom ekki hingað til að tannbursta úlfa“. Og svo framvegis. Ég leik allur á iði þegar ég les þetta, einsog þegar ég les Gertrude eða Elsu von. Dúa í stólnum af gleði. Og samt er þetta ekki bara gleðibók – hún er líka sorgleg. Þessi tónn þarna er gamansamur en með þungum aukatónum. Gamansamur í moll.

Dottið í það

Maður hefur ekki annað að gera en að missa vitið. Þetta getur farið á alla mögulega vegu. Kannski verður þetta búið á morgun. Það er ósennilegt en kannski – og kannski segi ég það bara vegna þess að það virðist eina spáin sem maður hefur ekki séð í fjölmiðlum. Lyf finnst og reynist nú þegar finnast í öllum helstu eldhúsum eða baðherbergisskápum. Desilítri af flúortannkremi klárar kófið. Lyftiduft og sojasósa í jöfnum hlutföllum. Svo fá sér allir smakk og á laugardag verður partí, Eurovision verður aftur sett á dagskrá – 21. mars verður svona international independence day (var það ekki eitthvað í samnefndri mynd?)

Og kannski klárast þetta aldrei. Ég hef séð nokkrar þannig greinar. Enga sem spáir brjálæðislegu mannfalli samt – enga sem spáir því að 95% mannkyns þurrkist út. Það gæti líka gerst. Lífkerfið myndi hugsanlega fagna – og ekófasistarnir enn þá hærra. Þegar ég segi ekófasistar er ég vel að merkja ekki að meina Andra Snæ heldur Pentti Linkola og Unabomber-týpurnar. Þeir gætu báðir lifað að sjá drauminn rætast. Linkola er fæddur 1932 og Ted 1942.

Ekki veit ég hvað gerist í raun þegar borgirnar og verksmiðjurnar fara að brotna niður – það er ekki endilega fallegt til lengri tíma, hvað sem líður höfrungum í feneyjarsíkjum. Það er ekki bara að við mengum við höldum líka ýmsri mengun í skefjum. Annars hef ég ekki heldur alveg áttað mig á því hvað gerðist þarna í Feneyjum. Hvaða mengun er það sem venjulega fer í síkin? Þarna býr enn fólk þótt það sé inni í húsunum frekar en úti á götunum. Voru það túristarnir sem pissuðu í síkin?

Þegar þetta var að hefjast dreymdi mig draum þar sem geisaði svona farsótt nema í stað þess að fólk dæi urðu bara allir lasnir alltaf – það var hið nýja normal ástand. Allir alltaf með kvef og 38 stiga hita. Mjög ódramatískt einhvern veginn en líka fáránlega dramatískt.

Myndskreyting. DV gerir sitt til að bæta í víruskvíðann.

Yfirvöld segja að hápunkturinn á Íslandi verði á föstudaginn langa. Þau sögðu í sjálfu sér fyrir nokkrum vikum að það myndu ekki nema svona 300 veikjast.* Sennilega er ekki svo auðvelt að spá um þetta og samt nauðsynlegt að segja eitthvað – það er áreiðanlega pólitík frekar en vísindi.

Upprunalega endaði nýja bókin mín á fullkominni og algerri einangrun söguhetjanna. Heiminn einfaldlega snjóaði í kaf. Í ragnarakastíl. Það virkaði ósennilega þegar ég setti það á blað við sundlaugina í Hondúras í sumar. Raunar var mikil félagsleg einangrun að vera í San Pedro Sula, lokaður inni í fílabeinsturni, það var innblásturinn – eða hið tilfinningalega fingrafar. En nú hættir ekki að snjóa í alvöru. Ég segi ekki að húsið sé komið á kaf en það hefur eiginlega alveg snjóað fyrir gluggann í bílskúrnum – sem er vesen af því ég er að spreyja gítar þarna inni og þarf loftræstinguna.

Og svo breytti ég endanum. Enda slapp ég úr fílabeinsturninum. Ég hef eiginlega breytt endanum á öllum bókunum mínum. Nema Hans Blævi – ég man ekki eftir öðrum enda á hana. Ekki sem stendur.

Ég spái því nú samt að okkur muni ekki snjóa í kaf og að þetta ástand taki enda. Hvað sagði Trump – að flensan myndi, líkt og fyrir kraftaverk, gufa upp í apríl? Eða sagði hann kannski mars? Í öllu falli með vorinu. Daði fær ekki að fara í Eurovision, Trump vinnur kosningarnar í nóvember og það verða jól. En fyrst – þegar þetta klárast, eða þegar fer að slakna, flensan að lempast og aftur mælt með því að fólk hittist – ætla ég að detta í það með vinum mínum. Þetta er spá dagsins.

***

Mér skilst að þessu hafi ekki verið haldið fram – heldur hafi þau sagt að 300 manns myndu veikjast nógu alvarlega til að leggjast inn. Sem er auðvitað nokkuð annað. Hitt er svo satt að margir, víða hafa vanmetið afleiðingar vírussins (og áreiðanlega hafa margir ofmetið þær líka – en það á eftir að koma í ljós).

Röfl dagsins

Bíddu nú við. Þrjú ljóð? Þýddi ég þrjú ljóð í viðbót í dag? Nei, tvö – svona er ég í alvöru minnislaus. Ég skrifaði líka einu skáldinu og hóf póstinn á að segjast ekki viss hvort við hefðum nokkru sinni hist. Mér fannst það kurteisi þegar ég skrifaði það, finnst einsog við höfum verið í sama rými nokkrum sinnum en kannski aldrei heilsast, en nú er ég farinn að ímynda mér að sennilega höfum við setið hlið við hlið í langri flugferð og síðan kannski hrunið í það saman og lent á trúnó, étið saman morgunverð á sjö ólíkum hótelum í jafn mörgum löndum, allir vinir mínir séu líka vinir hennar og svo framvegis. Og þegar ég segist ekki muna hvort við höfum sést þá sjái hún bara að ég er skíthæll sem man ekki fólk (mér er sagt að maður muni ekki svona vegna þess að manni standi á sama um fólk og ég er of samtvinnaður sjálfsefa mínum til að debatera við slíkar kenningar).

Hér er annars allt við það sama. Ég sé ekki betur en bókinni minni heilsist vel – hef að vísu ekki fengið sendan neinn metsölulista í dag, var í þriðja sæti í síðustu viku – en fæ talsverð viðbrögð svona annars, héðan og þaðan. Fólk brýtur jafnvel tveggja metra regluna til að þakka fyrir sig.

Mig klæjar orðið mikið í hendurnar af öllum þessum handþvotti – í því hef ég ekki lent áður og kannski er það til marks um óhreinlæti mitt í gegnum tíðina. En þá kemur sprittið sér vel – til að sótthreinsa þurrksárin.

Bono er búinn að semja lag um kórónaveiruna. Ég er mest hissa að hafa ekki séð meira af þessu. Þessi vagn fer alltaf af stað þegar stórviðburðir eiga sér stað – ég orti sjálfur heila ljóðabók í hruninu miðju. Hjá sumum má ekki verða röskun á sjónvarpsdagskrá án þess að það verði að baráttuljóði. Aðrir nota hvert tækifæri til þess að snúa athyglinni að eigin málstað. Það er auðvitað góð og gild pólitík en verra í listum. Eða segjum að það sé gott og gilt í sumri pólitík – stundum fer nú fólk líka alveg út í skurð. Vinkona mín fór í útvarpsviðtal í gær um veiruna og veitingastaðarekstur og vinur okkar skoraði á hana að koma byggðakvótanum einhvern veginn að. Sem hún auðvitað gerði. En það má líka hengja þetta á feðraveldið, raforkubúskap þjóðarinnar og fleira og fleira. Loftslagsmálin hafa mikið komið upp – svona afleitt, að fyrst við getum brugðist við kófinu getum við brugðist við loftslagsvánni (sem er sennilega satt en á meðan tímarammi kófsins er sem stendur í mesta lagi hálft ár talar loftslagsfólk í áratugum og árhundruðum – og það er skiljanlega erfiðara að fá pólitískt samþykki fyrir t.d. loftferðabanni það sem eftir lifir lífstíð okkar en bara „núna í sumar“ – neyðarástönd eru ekki endilega alltaf fullkomlega sambærileg).

Ég hlustaði ekki á lagið hans Bono. Í einhverju amerísku blaði var grein um allar kórónaskáldsögurnar sem eru núna í gerjun. Og auðvitað hefur sennilega hver ein og einasta skapandi sál á jörðinni velt þessu fyrir sér – kórónalistaverkinu. Þau verða mörg – og verða margs konar. Sum verða tækifærismennska – sölupunktur. Önnur verða tilraunir til þess að setja heiminn í samhengi – misgóðar einsog gengur en stærstur hluti ærlegra lista er þetta, mettun og pot og tilgátur um raunveruleikann. Og svo verða bækurnar sem lifa – og þær falla líka í tvo hópa. Annars vegar meinstrím metsölubækur sem grípa einhvern tíðaranda – eldast kannski ekki endilega vel, eru að einhverju leytinu kits, væmnar, en sennilega ærlegar samt og vel gerðar, með heilum tón í gegn. Og svo verk sem eru meira krefjandi en eitthvað minna lesin (ansi mikið samt). Í sjálfu sér ræður tilviljun (og menningarpólitík) miklu um hvað lendir í hvaða flokki.

Fyrir utan svo auðvitað bækurnar sem munu fjalla um eitthvað allt annað. Báðar tvær.

Ljóð og þjóð og þjóðaljóð og ljóðaþjóð

Þýddi þrjú ljóð í dag. Þetta eru grófþýðingar, vel að merkja og ég hef ekki verið í neinu öðru. Ekki jafn tilraunakennt stöff og í gær en það er ekki endilega auðveldara að þýða það fyrir því – oftast er erfiðast að þýða það sem er í hversdagslegasta tóninum. Af því að orðin þurfa samt að halda sér, hugtökin og leiðirnar í gegnum þau, og textinn þarf að virka jafn eðlilega á frummálinu og markmálinu – tilraunaljóðin hljóma undarlega á frummálinu og eru knosuð, snúa upp á málið, afmynda það. En svona grófþýðingar eru ekki lengi að verða til – ég geri þetta aldrei eðlilega í fyrstu atrennu. Ég sé ekki klaufalegt orðfæri í dag, meðan orginallinn er enn dómínerandi í hausnum á mér, en það blasir við í næstu viku.

Krakkarnir fóru ekki í skólann. Aram var með smá kvef, örfáar kommur (í gær, ekki í morgun) og spáði þannig að skólinn hafði þegar gefið út að það væri ekki bráðnauðsynlegt að senda alla af stað. Svo Aino fékk einfaldlega að ráða því hvort hún færi nokkuð.

Ég held við séum að klára okkur ágætlega á þessu enn sem komið er. Kófinu. En þetta er ekki búið enn!

Þjóðleikhúsið ætlar að lesa ljóð fyrir fólk. Fólk velur sér ljóð og svo les einhver leikari fyrir viðkomandi – sem situr þá einn í salnum að mér skilst. En ljóðin verða send í streymi. Úrvalið er á RÚV.is og svo er hægt að bæta við. Hingað sýnist mér þetta nánast einvörðungu vera einhver ægileg klassík – dauðir eru í miklum meirihluta, karlar líka og allir, hver einn og einasti, eru Íslendingar. Það er einsog það hafi aldrei verið ort ljóð utan landsteinanna. Sem er auðvitað sorglegt og ekki veit ég beinlínis hvað veldur – en þetta er bara lýðræðið.

Hjá okkur í Tangagötunni er kvöldlestur á ljóðum á hverju kvöldi. Eitt í eftirrétt – en verða stundum nokkur þegar upplesarinn er í stuði. Aram Nói fær þá að lesa fyrir okkur hin úr bókunum Kärlek och uppror eða Berör och förstör. Sú fyrri er frægt ljóðasafn sem kom út árið 1989 og ætluð grunnskólanemum. Sú síðari er nýrri en tekin saman fyrir sama þjóðfélagshóp. Ég veit ekki hvort það hefur komið út nokkur svona bók á Íslandi frá því Gegnum ljóðmúrinn kom út árið 1987. Á næsta ári, þegar við verðum í Svíþjóð, er planið að kvöldlesturinn fari fram á íslensku og ég veit ekki alveg hvernig það verður. Ég á Gegnum ljóðmúrinn og eitthvað af eldri söfnum – nokkur ljóðaþýðingasöfn – en ekkert sem stenst samanburð við þessar ágætu bækur. Báðar hafa ágæta breidd – kannski ekki síst sú fyrri – og þar kennir ýmissa skrítilegra grasa og ólíkra stemninga. Það er ekki bara höfgin eða væmnin sem ræður öllu, einsog vill verða þegar Íslendingar fara að taka saman ljóð, þótt bæði sé til staðar – og Aram fer vel að merkja með ljóðin eftir eigin nefi og gerir stundum raddir og fíflast og hefur meira að segja performerað eitt hljóðaljóð – og það algerlega án þess að við séum eitthvað að skóla hann til. Ljóðin bara kalla á þetta og við sitjum ekki og hlustum einsog við séum að hlýða á guðsorðið.

Gegnum ljóðmúrinn er að vísu mjög fín bók. Og ég tek hana ábyggilega með. Og kannski eitthvað gott ljóðaþýðingasafn líka. Ég nenni samt ekki að taka með mér heilu kassana af ljóðabókum þótt það væri auðvitað best. En það er stór ljóður á ljóðmúrnum að ungskáldin í henni eru sextug og eldri í dag. Unga ferska efnið í henni er orðið að bókmenntasögu.