Það þyrfti eiginlega að gera sér Wikipediu fyrir allt fræga og semí-fræga fólkið sem hefur verið sakað um kynferðisbrot. Og einhvers konar FIFA styrkleikalista. Þetta er löngu hætt að rúmast í heilanum á mér. Ég vil vita hvar Orri í Sigur Rós stendur í samanburði við Louis CK og Asiu Argento. Hver er verri – Cosby eða Weinstein?  Og stigunum fylgdu þá samræmdar refsingar. X mörg stig og þá máttu ekki koma fram opinberlega lengur. Og svo geturðu kannski unnið af þér  með yfirbótum – lækkað á listanum og fengið að tromma aftur, svo fremi það sé ekki í frægri hljómsveit. Aldrei tromma fyrir fleiri en 150 manns í einu. Aldrei segja brandara við fleiri en 40. Bara á sérstökum skemmtistöðum með þartilgert leyfi þar sem er skýrt og skilmerkilega auglýst að maður geti átt von á því að triggerast, þar gangi pervertarnir lausir í myrkrinu.

***

En svona í alvöru. Þetta er kannski svolítið moggabloggslegt teik á alvarlegum hlut. Ég biðst forláts, ég er búinn að drekka of mikið kaffi/ekki búinn að sofa nóg/það er í mér einhver galsi/ aðrar viðhlítandi afsakanir. En eftir stendur að það vantar einhvers konar kerfi sem ákvarðar sekt, sakleysi, refsingu og tímaramma refsingar. Tímalaus útskúfun er nefnilega bæði óvenjuleg og grimmileg refsing. Svona félagslegt waterboarding. Ég nenni ekki að taka þátt í samfélagi sem ætlar bara aldrei að fyrirgefa neitt.

Og svo þarf að vera rými fyrir að einhverjum finnist einhver kall ógeðslegur – vegna fortíðar hans – án þess að hann sé samfélagslega óæskileg mannvera. Samfélagsleg fyrirgefning er ekki það sama og að allir hafi ákveðið að einhver sé núna (aftur) frábær. Einhvers staðar ákveður samfélagið að þetta sé komið gott – Louis CK megi koma fram, vilji einhver hleypa honum upp á svið, án þess að New York Times þurfi að fara á hliðina í hvert sinn. Og samt sé fullt af fólki úti í bæ sem segi bara oj, nei, ég ætla ekki að mæta. Er það ekki bara alltílagi?

Tilvitnun vikunnar

Drömmen om den fullständiga befrielsen, inte i buddhistisk förintande mening utan tvärtom som en i högsta grad förnimbar närvaro av bild och syn, av realiserad verklighet i drömmens rike. Det var den han ville: den fullständiga befrielsen – konstverket. En självvaldhet och självfallenhet utanför diskutantklubbars resonörvärld, allt detta som förstör modern konst och dikt. Det gällde att underminera sitt medvetande och spränga det fritt från dagsaktualiteters mördande konkurrens, allt som färdiggjort för dagen erbjuds av dagen för att man skall nöja sig för dagen. Nå bortom all ställningsdiskussion som begagnar poesin för sina syften utan att leva med den, rycker loss den ur dess naturliga miljö, när så behövs, och låter den stranda som bortkastat papper efter tillfällets bruk och glömska.

– Rabbé Enckell – Essay om livets framfart

Þetta er forseti lýðveldisins að horfa á mig lesa upp úr Hans Blævi á Flateyri nú á laugardag. Þetta var epískt rugl. Ef ég hefði ekki verið að gera þetta launalaust (sem er í sjálfu sér skandall) þá hefði ég gefið öllum endurgreiðslu og sennilega forsetanum tvöfalda.

Svona var þetta.

Bókabúðin Bræðurnir Eyjólfsson. Bókmenntadagskrá í tilefni af stofnun Lýðháskólans. Húslestur í sparistofunni sem var full af fyrirmennum – meðalaldur sennilega um sextugt. Guðmundur Andri og Auður Jóns höfðu verið auglýst – en forfölluðust bæði og í staðinn kom Annska vinkona mín og las afskaplega fallega sögu úr fortíðinni, vel stílaða og fulla af ljúfsárri nostalgíu. Svo var komið að mér.

Þetta var í annað skiptið sem ég les úr Hans Blævi. Það fyrra var í Gallerí Úthverfu á maraþonlestri Lomma og Brynjars Jóhannessonar. Þá las ég í fjörutíu mínútur fyrir hóp sem auk Lomma, Brynjars og Ólafs Guðsteins íslenskukennara samanstóð af 10-15 íslenskunemum sem voru mjög góðir í málinu miðað við að hafa byrjað að læra það nokkrum dögum fyrr.  Ég hugsa að þeir hafi ekki hugsað mér jafn þegjandi þörfina og spariliðið á stofnun Lýðháskólans á Flateyri. Enda skildu þeir blessunarlega mest lítið af viðbjóðinum sem ég lét út úr mér.

Ég las sama kafla á Flateyri og í Úthverfu – kafla sem lýsir því hvernig Hans Blær er orðið þreytt á að trolla daginn inn og út og vill fara að gera eitthvað gagn í lífinu. Þetta verður til þess að hán stofnar Samastað – nietzscheískt heimili fyrir nauðgunarfórnarlömb – og kaflinn endar á kokteilveislu við opnun þessa heimilis, innanum alls kyns pólitísk fínimenni. Ég skar talsvert innan úr kaflanum á Flateyri enda las ég helmingi skemur en í Úthverfu – en það voru engu að síður eftir alls konar lýsingar á mótorhjólaköppum að lesta hver annan í endaþarminn og Hans Blævi að skrá Bryndísi Schram á Tinder í leit að „sígröðum satýrikon“, ofan í annað álíka troll, strákapör og subbulegan húmor. Forsetinn hló að vísu aðeins á einum stað, eða ég held það hafi verið hann, en annars heyrðist ekki múkk í fólki. Mér leið einsog ég stæði nakinn á sviðinu að maka mig í skít – án þess að hafa áttað mig á því fyrren í miðju kafi að þetta væri alls ekki viðeigandi.

Ég átti vinalegt spjall við forsetann fyrir þetta – ég þekki dóttur hans, hef kennt henni ritlist á tveimur ólíkum vettvöngum – og stakk sosum ekki af strax og þetta var búið, heldur vandræðaðist eitthvað fram og til baka um rýmið, fallegu bókabúðina hans Eyþórs á Flateyri sem einsog undirstrikaði hvað þetta væri mikið rugl í mér, vitlaus texti á vitlausum stað úr vitlausum manni fyrir vitlaust fólk, ég hugsaði ekki um neitt nema að horfa aldrei í augun á neinum. Og svo hrökklaðist ég bara út. Það vantaði bara að ég bæði alla að fyrirgefa mér.

Ég man eftir því að hafa lent í svipuðum aðstæðum fyrir um 14 árum síðan. Þá vorum við Steinar Bragi og Hildur Lilliendahl að þvælast um á norðanverðum Vestfjörðum og lesa ljóð fyrir fólk. Á fyrsta upplestri, í félagsheimilinu í Súðavík, áttuðum við okkur á því að ljóðin okkar voru öll meira og minna ósæmileg í orðavali og umfjöllunarefni (þetta var á öld „vessapóesíunnar“). Ég var með Nihil Obstat sem var einhvers konar æfing í transgressjón, reiði og klámi, Hildur með óútgefið efni og Steinar sennilega með Gosa (þar sem forsetanum er einmitt „riðið í skítgatið“ – en það var annar forseti).

Við gerðum með okkur samkomulag um að bara eitt okkar mætti hvert kvöld ganga fram af áheyrendum – það væri of mikið að við gerðum það öll – og skárum úr um hver það yrði með því að keppa í Skrafli, sem Hildur svo vann alltaf. Það var hægara sagt en gert að sneiða hjá dónaskapnum í Nihil Obstat en það hafðist samt meira og minna. Og ef það var hægt þá er hægt að finna kafla í Hans Blævi sem er viðeigandi í virðulegum félagsskap.

***

PS. Það er kominn formlegur útgáfudagur. Eða tveir mögulegir. Annað hvort kemur bókin í búðir 25. október eða 30 október. Allavega á meðan það klikkar ekki að hún komi með skipinu frá Þýskalandi þann 22.

Tilvitnun vikunnar

While trolls are inhuman, they are essentially not absolutely separate or separable from humanity. Uncanny otherness is perhaps the most potent of human threats, an attack on all notions of humanity and on order itself. Being both human and inhuman, the troll is chaos incarnate.

The Troll Inside You – Ármann Jakobsson

Dagur fimmtán þúsund (eða þarumbil) í viðstöðulausri bið.

***

Í dag fer ég til tannlæknis. Ég og börnin ætlum í hádeginu. Það verður sennilega það mest spennandi sem gerist í dag fyrir utan hið almenna eirðarleysi.

***

Ég uppfærði kápumyndina hérna í hliðarreitnum. Bakgrunnslitnum var aðeins breytt. Nú held ég bókin sé bara í Þýskalandi að prentast.

***

Ég er eitthvað að glugga í nokkur ljóðasöfn með ljóðum trans- og kynseginfólks. Mikið af fínu stöffi en sosum líka mikið af dóti sem er meira aktivismi og minna ljóð. Ég var að ræða það við einhvern á dögunum hvað ákveðin tegund af pólitískri ljóðlist – eða bókmenntum, eða bara list – væri óþolandi. Og hvað ákveðinn lestur á þannig bókmenntum væri þrengjandi og kæfandi. Þegar verkum er gefið pólitískt heilbrigðisvottorð. Það er afar algengt. Og þá sagði viðkomandi:

„Fyrst heimtuðum við pólitíska list – og svo þegar við fengum hana þá bara OMG gætuði bara gert list!“

Sem er auðvitað alveg rétt. Maður er óþolandi. En ég hef reyndar aldrei skilið hvernig list getur verið ópólitísk. Ég skil hins vegar ágætlega hvenær hún hættir að vera list og verður bara predikun eða skammir eða hæ-fæv á félagann – og kannski ætti maður að hafa minna óþol fyrir því, það er kannski kitsch en það þjónar þó einhverjum tilgangi og sennilega vildi maður ekki heldur vera alveg án þess frekar en annarrar pólitíkur og aktivisma. Óþolið sprettur sennilega bara af því að mörkin skortir – það er ekki gerður greinarmunur.

***

Krafan um pólitíska list – eða list sem reynir ekki að hunsa pólitíkina, búa til heim án hennar, einsog list reynir oft að búa til heim án tækniframfara, hliðarveröld sem er nostalgísk og snertingarlaus við raunveruleikann – felur auðvitað heldur ekki í sér að hún eigi ekki að vera list. Hún þarf samt að vera list. Og merking listar er aldrei einhlít, aldrei einföld.

***

Var það póstmódernisminn sem kenndi að maður ætti ekki að gera greinarmun heldur leggja hluti að jöfnu? Mér er sagt að svo sé en mér er líka sagt að það sé bæði einföldun og misskilningur. En þetta er kannski skylt þeirri hugmynd að maður leggi Tinnabækurnar og Shakespeare að jöfnu? Ég er ekki yfir það hafinn að vilja spekúlera í fleiru en fínni list – t.d. Guns og AC/DC – en ég held það sé samt mikilvægt að gera greinarmun á Guns og … segjum Ursulu Le Guin … segjum … JM Coetzee … og það er alveg hægt að gera það án þess að láta einsog Guns sé þar með ómerkilegri en Le Guin.

***

Það er líka merkilegt hvernig slamskáldin – þau sem skrifa augljóslega fyrir svið – eru meira á predikunarlínunni en hin. Það er einsog sviðið beinlínis krefjist þess að maður sendi einfaldari skilaboð. Og kannski krefst það þess líka að það sé hægt að klappa mann niður – maður geti farið út í sal og setið og fengið sér bjór og spjallað án þess að ljóðið hangi í loftinu allt kvöldið, nema sem eitthvað stuð.

***

En jæja, ég þarf að drífa mig til tannsa.

Tilvitnun vikunnar

And still his own tightrope stretched endlessly before him. Socially accepted, he was. One slip and the story would race like a brush fire through the school, incinerating him. He wanted to howl with protest into the night, but it lay bottled and curdling inside him.

What if they knew? God, what if they knew? It would be Bankow the freak, the queer. Nobody would pause to think that Bankow the freak was also Bankow the singer, Bankow the friend, Bankow the junior classman, Bankow the English major. All these categories would be forgotten for the category that would give them a cheap thrill and destroy him utterly.

Half – Jordan Parker

Hans Blær kemur úr prentsmiðjunni 22. október. Það er ekki víst hún fari strax í búðir – bækur eru prentaðar í útlöndum (Þýskalandi að þessu sinni) og það koma margir titlar í einu og svo detta þeir einn af öðrum inn í lundabúðirnar. Svo lesendum finnist ekki einsog þeir séu skyldugir til að lesa allar bækurnar í einu. Maður hefur heilar 6-7 vikur til þess að rumpa í sig jólabókaflóðinu og ástæðulaust að drífa sig neitt.

***

Þetta er alveg vonlaus tími annars. Þessi biðtími. Óþolsnjálgurinn er að gera mig vitlausan. Og hefur kannski aldrei verið verri. Ég kem engu í verk. Les mér til um doríska og frygíska skala, horfi á fetlarýni á YouTube og klóra mér í pungnum. Drekk meira kaffi. Ég veit ekki til hvers ég ætlast af sjálfum mér, veit ekki til hvers aðrir ætlast af mér. Hef áhyggjur af að verkið hafi lent á slæmri braut þegar Ugla Stefanía hjólaði í leikritshluta þess óséðan í vor – það fái aldrei að njóta sannmælis vegna þess að fólk sé of skelkað við að sýnast fordómafullt. Ég veit um fólk sem var beinlínis skammað fyrir að fara á og fíla leikritið – að það væri með mætingu sinni og fílun bókstaflega að taka afstöðu gegn transfólki. Hysterían á vissum stöðum í samfélaginu er alltof raunveruleg.

***

Og ég hef áhyggjur af því að einhver debatt um tilvistarrétt verksins taki yfir verkið sjálft.

***

Og ég hef áhyggjur af því að fólk þegi spurningar verksins af sér vegna þess að þær eru óþægilegar og allar vangaveltur um þær gætu orðið til þess að maður segði eitthvað sem maður ætlaði ekki að segja (og ætti kannski ekki að segja).

***

Ég hef áhyggjur af því að vonda fólkið fagni Hans Blævi einsog það fagnar Milo eða Blaire White eða Piu eða Jimmie eða Marine. Mig langar ekki í heiðursaðild í vonda fólkinu, frekar en góða fólkinu eða frímúrunum.

***

Ég hef áhyggjur af því að góða fólkið reiðist, það reiðist voða mikið, voða oft – en alveg svolítið random hvað triggerar það – og þar sem koma saman mörg snjókorn er bylur.

***

Ég hef áhyggjur af að góða fólkið og vonda fólkið sjái ekki manneskjuna Hans Blævi fyrir látunum í hánum. Ólátunum. Látalátunum. Ég veit að hán er ekki manneskja af holdi og blóði heldur sögupersóna og ég veit að hán er ekki alltaf mjög sympatískt en ég hef samt lifað með hána í höfðinu í þrjú ár og mér þykir í raun ákaflega vænt um hána.

***

Ég hef áhyggjur af stafsetningarvillunum sem ég finn þegar búið er að prenta bókina.

***

Ég hef áhyggjur af staðreyndavillunum sem ég finn þegar búið er að prenta bókina.

***

Ég hef áhyggjur af því að það hafi orðið eftir einhverjar tímavillur.

***

Ég hef áhyggjur af því að skipið með upplaginu sökkvi á leiðinni frá Þýskalandi.

***

Ég hef áhyggjur af því að ég muni eyða svo miklu púðri í að svara fyrir þessa bók að ég finni ekkert andrými til þess að skrifa nýja.

***

Ég hef áhyggjur af því að enginn spyrji neins því enginn lesi bókina.

***

Ég hef áhyggjur af því að ég verði of mikið á ferðinni í haust og endi úttaugaður.

***

Og ég hef auðvitað áhyggjur af því að ég eigi eftir að gera út af við sjálfan mig með öllum þessum áhyggjum. Ég veit vel að ég ætti bara að hætta að hugsa um þetta – þetta er úr mínum höndum hvort eð er. Ég er kominn með glósur að næstu skáldsögu og ég hef nóg að gera í ljóðaþýðingum og Starafugli – bókabunkinn á náttborðinu er orðinn óhóflega stór og ég gæti alveg unað mér vel við að glamra á gítarinn fram að jólum án þess að svo mikið sem leiða hugann að neinu að þessu. Það er bara hægara sagt en gert.