Árshátíð GÍ, Hressó, Fira Literal, Hatari, Anatomia de Instante, Impostor, Le Bonheur og (næstum ekki neitt um) Father of the Bride

Menningarvikan byrjaði sennilega með árshátíð grunnskólans. Við fórum þrjú að sjá Aram og aðra krakka í 1. til 4. bekk. Þetta er merkilegt menningarfyrirbæri – að hrúga saman öllum krökkunum og láta þau skapa, í samstarfi við kennara, heilu sýningarnar – og gleðin og aðdáunin úti í sal auðvitað meira og minna fullkomin.

Fjórði bekkur setti á svið ævintýrið um Aladín og fórst það vel úr hendi. Aram var einn af sögumönnum – og það er nú fátt sem hann gerir áreynslulausar en að lesa upp. Hann sagði okkur að vísu að á einhverri sýningunni hefði hann farið í síðuvillt og ekki fundið réttan texta fyrren eftir dúk og disk. Það var líka alveg eftir honum. Og það er líka allt í takt við framkvæmdina almennt – þetta væri ekki nærri jafn skemmtilegt ef þau væru öll einsog þrautþjálfaðir hermenn. Ég hef orðið vitni að æfingum fyrir slíkt grunnskólasjó – í Víetnam – og það er ekki mjög sjarmerandi, eiginlega bara skelfilegt. Þetta er gaman vegna þess að þetta á fyrst og fremst að vera gaman. Það mættu margir listamenn læra af því.

***

Á miðvikudag flaug ég suður og hitti Hauk Má. Við fengum okkur hamborgara á einhverri búllu við Hverfisgötu („þarna götunni þar sem barirnir eru“, sagði afgreiðslustúlkan á American Style, þar sem við stoppuðum fyrst, en gat ekki afgreitt okkur vegna bilunar í posakerfinu) og héldum síðan yfir á Hressó í bjór, kaffi og sígó. Við ræddum ýmislegt og meðal annars hvers vegna Hressó hefði aldrei verið gentrifíeraður – hann er alltaf skemmtilega subbulegur, alþýðlegur, þannig staðir eru ekki á hverju strái í miðbænum. Það þykir líka mjög ófínt að vera þar. Ég fer þangað oft til að vinna þegar ég er í bænum og þarf alltaf að koma með alls konar afsakanir fyrir því gagnvart hváandi vinum mínum og kunningjum.

Það sló okkur líka að hugsanlega væri það „sirkusliðið“ – það er að segja okkar kynslóð – sem bæri ábyrgð á gentrifíeringu miðbæjarins. Og væri spes – svona í ljósi þeirrar subbufagurfræði sem var við lýði á sirkusárunum og allri nostalgíunni fyrir þeim árum – að svo væru bara nánast engir staðir eftir þar sem manni liði ekki asnalega á í vinnufötunum. Nema Hressó einmitt – sérstaklega úti á palli. En staðurinn er víst til sölu.

***

Það snjóaði á mig í garðinum heima daginn sem ég fór á árshátíðina. Það var mjög leiðinlegt. En Barcelona tók á móti mér með sól og blíðu og var ekki við öðru að búast. Ég kom hingað (þessi orð eru skrifuð á flugvellinum á leiðinni heim) til þess að taka þátt í róttæku bókamessunni Fira Literal. Ég fékk ansi veglegan sess í dagskránni – var aðalatriðið á laugardeginum, en aðalatriðið á sunnudeginum var ítalski femínistinn Silvia Federici. Það mættu að vísu nokkuð fleiri á hana en mig – og skal engan undra – en mér þykir mér mikill heiður sýndur að deila keynote-helgi með annarri eins stjörnu.  Bókin – Illska – gengur líka mjög vel og er að detta í þriðju prentun (á spænsku, ekki katalónsku – útgefandinn, Hoja de Lata, er staðsettur í Asturias).

Nadja skrifaði mér líka að heiman og sagði að Aram Nói hefði séð Hatara í sjónvarpinu nefna mig sem áhrifavald – ásamt Peaches, Björk, Rage Against the Machine og fleirum – og hefði samstundis vaxið um heila sex sentimetra. Hvorutveggja, hrósið frá Hatara og grobbið í Aram, urðu svo til þess að ég óx um annað eins.

Þetta hafa sem sagt verið góðir dagar fyrir egóið, en það er samvaxið hégómann og þótt egóinu líði vel þarf að halda hégómanum í skefjum og því mun ég sennilega næstu daga einbeita mér að því að hlusta á Stormy Daniels lagið þar sem ég er settur í flokk með Sveini Andra og ljóðabók Eyrúnar Jónsdóttur þar sem ljóðmælandi leggur á ráðin um að taka mig af lífi af því ég er svo mikill drullusokkur. (Ég á talsvert auðveldara með að gangast við því síðarnefnda en því fyrrnefnda, þótt það sé skylt – en ég er að gera mitt besta til að vera heiðarlegur og almennilegur, lofa).

Ekki þar fyrir að kannski finnst egóinu líka gaman að hata sig. Að minnsta kosti á góðum dögum.

***

Ég gekk um stræti og torg Barcelona-borgar – frá Sant Andreu til Gracía og út um allt í miðbænum – með The Anatomy of a Moment / Anatomía de instante eftir Javier Cercas í eyrunum. Ég hef auðvitað líka verið að lesa Impostor eftir sama höfund, einsog hefur verið nefnt hér. Bókin er sannsöguleg og fjallar um valdaránstilraunina á Spáni þann 23. febrúar, 1981. Þarna er lýðræðið á Spáni mjög ungt og árin á undan höfðu einkennst af efnahagslegu og pólitísku kaosi. Umræðan um nauðsyn þess að velta forsætisráðherra, Adolfo Suarez, úr sessi hafði farið fram fyrir opnum tjöldum árum saman – og mælt með bæði mjúkum og hörðum lausnum í því efni. Honum þótti hafa farist vel úr hendi að skipta út hinu fasíska kerfi Francos fyrir evrópskt lýðræði en stjórn hans að loknu þessu breytingarferli þótti fremur léleg.

Áætlanir valdaránsmanna gerðu ráð fyrir „mjúku valdaráni“ þar sem ekki yrði hleypt af, en fóru út um þúfur strax og ráðist var inn í þinghúsið. Þá var orðið úr vöndu að ráða enda ljóst að margir þeirra sem stóðu að baki valdaráninu – eða væru líklegir til að gera það nú þegar það var hafið – myndu snúa við þeim bakinu. Það gerðist fljótlega og munaði mestu um að kóngurinn – sem hafði skipað Suarez en studdi hann tæplega lengur og hafði gælt við alls konar pælingar um að losna við hann – lýsti yfir andstöðu sinni við ráðagerðina. Stór hluti valdaránsmanna voru konungssinnar – annar hluti var falangistar, og svo voru þarna alls kyns metnaðarfullir framagosar sem vildu bara sölsa til sín völd. Í raun virðist það ekki síst vera það sem veldur því að þetta fer út um þúfur – valdaránsmennirnir höfðu mjög ólíkar hugmyndir um hvernig þetta ætti allt að fara og voru búnir að vera að blekkja hver annan til þess að fá stuðning við eigin plön. Svo þegar hljóp snurða á þráðinn vissu menn ekki lengur hver ætti að ráða eða hvað ætti að gerast.

Bókin fjallar um meira en þetta – fer vítt og breitt um sögu lýðveldisins og fasismans á Spáni. Megnið af henni er lýsingar á alls konar vélráðum og metnaði til valda – maður kemur ekki út úr henni neitt æðislega bjartsýnn fyrir hönd lýðræðisins, en þó með þá vissu að vélráðin og sérhlífnin og græðgin og undirferlið og innihaldsleysi hugsjónanna sé í öllu falli ekki skárri í fasísku kreðsunum. Samt eru þarna nokkur falleg augnablik – það er eitthvað dásamlegt við að einu mennirnir sem hafi neitað að fara úr sætum sínum þegar herinn ruddist inn í þingsalinn hafi verið Adolfo Suarez, fyrrverandi falangisti, fyrirlitinn forsætisráðherra, Mellado, æðsti yfirmaður hersins og aðstoðarforsætisráðherra og og Carillo, formaður kommúnistaflokksins þar sem hann rakst illa og var í eilífum illdeilum við félagsmenn. Kommúnistaflokkurinn á Spáni hafði þá verið „lýðræðislegur“ – fallið frá hugmyndum um alræði öreiganna – í sirkabát korter áður en þetta gerðist. Það voru þannig í einhverjum skilningi andlýðræðislegustu öflin sem neituðu að láta lýðræðið af hendi – fulltrúar falangista, kommúnista og svo hersins (sem var að reyna valdarán).

Maður týnist mikið í þessum plottum samt. Þetta er ofsalega mikil og flókin saga og einsog það sé ekki nógu þá eru flestir þátttakendur í henni margsaga um hvað gerðist. Cercas hefur svo sitt sjónarhorn og sína túlkun og maður er mjög meðvitaður um að þegar svona ofsalega einæðisleg bók er fyrstu kynni manns af atburðum sem maður vissi fjarska lítið um fyrir þá þurfi maður að taka öllu með smá saltklípu. Það er reyndar fyndið að þegar ég nefndi það við fólk hérna að ég væri að lesa Cercas þá varð það skrítið í framan og spurði: „En er hann ekki hægrimaður?“ Ég varð sosum ekkert var við það – hann ver Suarez að mörgu leyti, kannski bara vegna þess að hann er áhugaverðasta persónan í þessu öllu saman, mótsagnakenndastur og fyrir miðju narratífunnar. En Cercas talar líka um að hann hafi sjálfur verið hallur undir málstað ETA og um svik krata við sósíalismann og fleira sem ætti að gefa til kynna að hann væri vinstrimaður. Fyrst og fremst er hann sennilega samt rithöfundur – og þeim er jafnvel enn verr treystandi en vinstrimönnum.

***

Impostor er alveg eins og allt öðruvísi. Hún segir sögu Enrics Marco sem var bifvélavirki, verkalýðsleiðtogi fyrir anarkista, baráttumaður fyrir skólaumbótum og formaður minningarsamtaka um helförina – hann var sjálfur eftirlifandi úr Flossenbürg búðunum og fyrrverandi andófsmaður gegn Franco og anarkisti sem hafði lifað ótrúlegu lífi, hálfgerðu Forrest Gump lífi, þegar í ljós kom á gamals aldri að megnið af þessu var bölvað kjaftæði og hann hafði ýkt mjög og skreytt það sem hann skáldaði ekki beinlínis frá grunni.

Hann hafði aldrei verið í Flossenbürg – en farið sem verkamaður til Þýskalands á vegum fasista, til að komast hjá því að fara í stríð, þar sem hann var loks handtekinn fyrir liðhlaup og sat í fangelsi nasista um hríð. Hann átti svo einhverja lauslega snertipunkta við anarkistahreyfinguna og andófið gegn Franco en sennilega ekkert meiri en næstum því hvaða Spánverji sem er – og stjórnmálaskoðanir hans voru út um allt, hingað og þangað. Þegar Enric var afhjúpaður var hann orðinn frægur – mjög frægur í Katalóníu og lítið frægur um allan Spán.  

Þetta er ekki beinlínis saga lygasjúklings – til þess lýgur hann eiginlega ekki nóg. Lygasjúklingar, það best ég þekki til og hef upplifað, hækka tempóið og kraftinn í lygunum svo hratt að það kemst yfirleitt upp um þá fyrir hádegi á fyrsta degi – þeir ráða bókstaflega ekkert við sig. Marco virðist ráða við sig og stjórna þessu nokkuð vel en þjást af óstjórnlegri þörf fyrir að vera miðpunktur athyglinnar – það er margoft undirstrikað í þessari bók að fortíðin, einsog Faulkner sagði, er alls ekki dauð, eða einu sinni liðin, heldur er hún vídd í samtímanum, og Marco þarf ekki bara að vera miðpunktur hvers samtíma, hvers samkvæmis (sem hann gerir leikandi, verandi sjarmerandi sögumaður) heldur þarf hann að vera miðpunktur fortíðarinnar líka – og með því dómínerar hann yfir samtíma sínum, dómínerar yfir samkvæminu, og sögurnar verða allar magnaðri og ungu stúlkurnar allar æstari í hann (hann nefnir þetta nokkrum sinnum með ungu stúlkurnar – þetta virðist byrja upp úr einhvers konar miðaldurskrísu).

Bókin er svo glíma Cercasar við að skrifa hana ekki – stór hluti hennar eru yfirlýsingar um að hann ætli aldrei og geti ekki skrifað þessa bók – og svo glíma hans við sögu Enrics og loks Enric sjálfan. Hún er ekki alveg jafn einæðisleg í staðreynda- og kenningaflutningi og Anatomy of a Moment en næstum því – kaflarnir þar sem hann er að rekja helstu lygarnar á óljósustu æviskeiðunum eru í leiðinlegra lagi en án þeirra hefði maður sennilega ekki komist. Hún er ljóðrænni og meiri „bókmenntir“ að mínu mati – Anatómían fellur nær blaðamennsku, þótt báðar séu á grensunni. Þótt það sé ofsalega mikil frásögn í anatómíunni þá er miklu meiri skáldskapur í Impostor – þótt ekki væri nema bara vegna þess að Enric er svo mikill skáldskapur sjálfur.

Mér fannst hann oft minna mig á Rachel Dolezal – sem ég skrifaði um hérna. Rachel gerðist svört – african american – og telur sig það best ég veit enn vera blökkumann þótt hún gangist við því að hún sé ekki komin af neinum blökkumönnum, foreldrar hennar hafi verið snjóhvítir. Einsog Dolezal skapar Enric Marco sögu um sjálfan sig sem verður á endanum miklu stærri og meiri en hann sjálfur – svo stór að hann getur varla tekið hana til baka nema í hænuskrefum, tilneyddur, með sönnunargögnin á borðinu fyrir framan sig. Í öllum lygavefnaðinum verður kjarninn – karakterinn, eða hið skapaða ídentítet – það eina sem viðkomandi upplifir sem fullkomlega satt. Og engu að síður er það lygin sem liggur til grundvallar öllu hinu.

***

Ég missti af föstudagskvikmyndaklúbbinum með krökkunum (og veit ekki hvað þau horfðu á) og við frestuðum kvikmyndaklúbbi fullorðna fólksins en ég horfði samt á Hamingjuna, Le Bonheur, eftir Agnesi Varda í hótelherbergiskytrunni minni við Hlemm í gærkvöldi. Henni tekst einhvern veginn að gera myndavélarlinsuna svo látlausa að manni finnst næstum að myndin hafi ekkert perspektíf – að hún sé ekki að „meina neitt“. Á sama tíma og söguþráðurinn er ótrúlega merkingarþrunginn.

Sagan er svona (höskuldarviðvörun). Ung hjón eiga tvö börn og eru mjög hamingjusöm og elska hvort annað mikið. Karlinn kynnist konu sem vinnur hjá Pósti & síma og þau hefja ástarsamband og eru mjög hamingjusöm og elska hvert annað mjög mikið. Karlinn er opinn með að hann elski konu sína og ætli ekki að fara frá henni en þau geti samt haldið áfram að hittast af og til og hann elski hana líka og það sé engin ástæða til þess að þau geti ekki bara öll verið hamingjusöm. Seinna, í lautartúr með fjölskyldunni – eftir að börnin eru lögst til síðdegishvílu – segir karlinn konu sinni frá ástkonunni, og hvort þau geti ekki bara öll verið hamingjusöm, hann elski þær báðar, en auðvitað muni hann hætta að hitta ástkonuna ef eiginkonan vill það. Stemningin er látlaus, ekki trámatísk – engin grátur, engin öskur, engin læti. Eiginkonan er efins en virðist svo taka þetta í sátt, fyllist hamingju og þau elskast og sofna. Þegar karlinn vaknar við að börnin eru vöknuð er konan horfin. Þau leita hennar lengi í skóginum og finna hana loks drukknaða í stöðuvatni. Allir verða mjög leiðir í svolítinn tíma en svo kemur ástkonan og gengur börnunum í móðurstað og allir eru mjög hamingjusamir.

Þetta býður upp á alls konar lestur. Mín fyrsta tilfinning var að Varda væri að gagnrýna kjarnafjölskylduna og smáborgaralega hamingjuna með póliamorískum hugmyndum – eða hugmyndum um frjálsar ástir. Í upphafi myndarinnar rak ég augu í þennan ramma – þetta birtist bara örsnöggt í sjónvarpi fjölskyldunnar, ég veit ekkert hvaðan það kemur annars:

Uppruni hins skipulagða lífs – það er spurningin!

En svo hefst ekkert af póliamorískum hugmyndum karlsins annað en harmur og dauði. Póliamoríska fólkið myndi segja að hann hafi farið að þessu mjög illa – en í þessu samhengi er það samt sennilega óþarfa aðfinnsla, hann veður myrkrið og gerir sitt besta til að sætta langanir sínar við samfélagsramma kjarnafjölskyldunnar, eða réttara sagt láta bæði ganga upp.

En þá langar mig líka að lesa í þetta sögu um tillitsleysi þeirra sem festast í eigin hamingjuleit – hvernig harmur annarra verður þeim nánast ósýnilegur, af því þeir finna svo sárt til þess sem skortir í eigin lífi. Það er auðvitað svo fráleitur punktur á þessari öld egósins – þar sem allt sem hindrar okkur hið minnsta í að ná 110% sjálfsuppfyllingu er stækasti fasismi – og sérstaklega virkar undarlega á mann að „listamaður“, að ég tali nú ekki um kona eða franskur listamaður eða hugsandi listamaður, búi til verk sem þá sé vörn fyrir kjarnafjölskylduna.

Það er líka þarna bara saga um einhvern franskan bastarð sem er að ríða kellingunni á pósthúsinu, þótt hann eigi góða konu og falleg börn heima. Eitthvað svona „týpískt fyrir karl“ dæmi. Sagan styður það – ef þetta væri norrænt sósíal-drama myndi það steinliggja. En stemningin er bara ekki þar. Fagurfræðin er að segja eitthvað annað.

Og kannski þarf manni ekki að finnast neitt. Myndin er meistaraverk – alger gullmoli – og hún ýtir við ýmsu innra með manni. Hún þarf ekki að predika neitt.

***

Síðast en ekki síst er ég búinn að vera að hlusta á nýjustu plötu Vampire Weekend, Father of the Bride. Ég er bara búinn að renna henni einu og hálfu sinni í gegn og ætti kannski að geyma að segja neitt sérstakt um hana í bili. Allt sem mér dettur í hug enn sem komið er – preppy, vandað, ljóðrænt, mikið pródúserað, mikið útsett menntamannapopp – mætti líka segja um allar hinar plötur sveitarinnar. Og hefur verið sagt. Já, frestum þessu fram í næstu viku, nema ég hafi bara engu við þetta að bæta. Ég ætla líka að lesa dóminn hans Davíðs Roach á RÚV-vefnum. En sjáum til – ef hún lifir vikuna af, ef ég held áfram að hlusta, þá reyni ég að stýra hugsunum mínum í gegnum hana og ef ekki þá ekki.

***

Gítarleikari vikunnar er Mary Ford, eiginkona hins fræga (og lipra) gítarleikara og gítarsmiðs Les Paul. Mary mátti svolítið standa í skugga manns síns en var engu síðri gítarleikari nema síður væri, einsog sjá má á þessu myndbandi hér fyrir neðan. Það sem er skemmtilegt við gítarinn sem hljóðfæri er að hann er svo gott performansverkfæri – léttur og meðfærilegur og fallegur og býður upp á svo margs konar sniðugheit. Þetta nýta þau Les og Mary sér í botn.

NOR-tríó, Húsið á sléttunni og Hable con ella

Menningarneyslan var í lágmarki í síðustu viku. Það helgaðist af ýmsu. Lestur var fyrst og fremst endurlestur – annars vegar blaðaði ég meira í Meira eftir Günday og hins vegar blaðaði ég í Eitur fyrir byrjendur og nýju bókinni minni (þær eru skyldar). Ég byrjaði að vísu líka á Impostor eftir Javier Cercas en er ekki kominn nema þriðjung í gegnum hana.

Þá var Fossavatnsgangan á helginni og börnin fóru í pössun svo það varð ekkert úr föstudagsbíóklúbbnum. Við Nadja horfðum á eitthvað slangur af sjónvarpsþáttum – Bardagann um Winterfell, Billions og svo reyndum við að finna nýja seríu, gáfumst upp í miðjum þætti af Lucifer en horfðum á heilan Dead to Me, sem mér finnst nú samt viðbúið að sé að fara að klúðrast.

Ég las eitthvað af ljóðum en bara stök og enga bók. Ég hef verið að birta „ljóð dagsins“ á samfélagsmiðlum, ekki síst einmitt til að „þvinga“ mig til þess að róta í ljóðabókaskápnum daglega (virka daga – hann er á skrifstofunni).

***

Á miðvikudaginn fór ég á djasstónleika. Richard Anderson NOR lék fyrir laumudillandi bjórþambi í Rögnvaldarsal Edinborgarhússins. Auk Richards, á bassa, eru í sveitinni þeir Matthías Hemstock, trymbill, og Óskar Guðjónsson á saxafón. Lögin voru flest af síðustu plötu sveitarinnar, The Six of Us. Platan er þannig lögð upp að hvert lag er tileinkað einhverjum úr fjölskyldu Richards – In it for the long haul var fyrir móður og eiginkonu, Miss Weightless fyrir dóttur, Mr. Contra fyrir íslenska afann o.s.frv. Inn á milli var svo hent í standarda, sem var dálítið vandræðalegt því við Gylfi nágranni röltum niðreftir með Villa Valla og Gylfi fullvissaði Villa um að það yrðu nú engir standardar á þessum tónleikum – bara einhver tilraunamennska. Sem er nú í sjálfu sér ósanngjörn lýsing á tónlist NOR, líklega er þetta nú bara frekar íhaldssöm djasstónlist núorðið – ég meina það ekki sveitinni til hnjóðs – „bara bípopp“. Ekki að ég hafi mikið vit á því, reyndar, ég er enginn sérstakur djasshaus. Ég á nokkrar plötur sem fara á fóninn í matarboðum og set stundum á Charlie Parker eða Wes Montgomery á Spotify þegar ég er að skrifa – en þar fyrir utan er „nýjasta“ djassplatan mín Far með hinum sama Óskari Guðjónssyni (og hún er í kassa með þúsund öðrum geisladiskum úti í bílskúr).

En það er eiginlega aldrei leiðinlegt á djasstónleikum. Tónlistarmennirnir í NOR eru líka af þannig kaliberi að ég yrði sennilega agndofa bara af því að sjá þá reima skóna eða fá sér pulsu. Músíkin á The Six of Us er líka falleg og þessir tilteknu djasstónleikar hreinn unaður.

***

Annar tónlistarviðburður vikunnar var Fossavatnsballið. Húsið á sléttunni lék fyrir dansi – Valdi og Biggi Olgeirs, Kristinn Gauti og gítarleikari sem ég þekki ekki. Þetta er frekar solid ballsveit. Biggi er þekktur fyrir að vita ekki hvað feilnótur eru – Valdi er bara einn af betri bassaleikurum á landinu, og Kristinn Gauti og gítarleikarinn gáfu þeim bræðrum ekkert eftir. Valdi nefndi það við mig eftir ballið að þeir væru frekar illa æfðir en fyrir svona týpum er það eitthvað allt annað en fyrir dauðlegum hljóðfæraleikurum – ég varð einu sinni var við það, milli danskasta, að Kristinn Gauti var eitthvað að flissa yfir trommusettið og blikka hljómsveitarfélaga sína með látbragði sem gaf til kynna að nú hefði nú eitthvað farið verulega úrskeiðis, en það fór alveg framhjá mér hvað það var. Prógramið var „klassískt ball“ með áherslu á diskó og eitístónlist.

***

Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á Hable con ella eftir Almodóvar frá 2002. Nadja valdi. [Ath. Hér að neðan eru höskuldar]. Við vorum ekki alveg viss hvort við hefðum séð hana og í ljós kom að Nadja hafði séð hana en ég ekki. Og kemur eiginlega ekki á óvart, eftir á að hyggja. Á þessum árum vann Nadja svo mikið í bíói – meðal annars fyrir kvikmyndahátíðina Rakautta ja Anarkiaa í Helsinki – að hún hefur áreiðanlega séð alla helstu kvikmyndahátíðartitla 2001-2006.

Myndin fjallar um tvo menn, Benigno og Marco, sem vaka yfir tveimur konum í dái, Aliciu og Lydiu. Benigno vakir yfir Aliciu, dansara sem hann fékk á heilann og var byrjaður að stalka létt áður en hún varð fyrir bíl. Hann er sjúkraþjálfi og hefur séð um hana árum saman og þarf enginn að efast um að tilfinningar hans í hennar garð eru allt annað en eðlilegar. Marco kynnist kvenkyns nautabana, Lydiu, og hefur við hana einhvers konar samband skömmu áður en hún slasast í ati. Hann veit ekki að hún ætlaði að hætta með honum og fara aftur til síns fyrrverandi.

Afstaða Marcos til nautabanans er þveröfug við afstöðu Benignos til dansarans – hann álítur hana í raun og veru látna, hugsunarlaust kjötflykki, vill ekki tala við hana, getur ekki snert hana og svo framvegis. Benigno vill aldrei yfirgefa Aliciu, tekur aukavaktir um nætur, talar við hana einsog þau séu gömul hjón og sinnir líkama hennar einsog – kannski einsog brjálaður bílaáhugamaður sinnir eldgömlum kadilják. Hann er alltaf að dytta að henni og meðvitaður um minnstu breytingar. Benigno er mjög hneykslaður á Marco og reynir að hjálpa honum, sem gengur lítið, en þeir þróa samt með sér nána vináttu. Allt fer svo í loft upp þegar í ljós kemur að Benigno hefur barnað Aliciu.

Samúð verksins – sjónarhornið – er mestöll hjá Benigno og þar á eftir Marco. Alicia birtist manni ekki að neinu marki fyrren í lokin þegar hún vaknar úr dáinu og Lydia gerir það eiginlega alls ekki – nema að svo miklu leyti sem hún virkar lokuð, hörð, við komumst ekki inn fyrir þann múr frekar en neinn annar. Þetta er saga Benignos og narratífan fylgir honum – hans sorgir verða okkar sorgir. Javier Carama leikur hann ótrúlega afslappað og óþvingað. Maður gleymir því ítrekað að hann er fyrst og fremst mikið veikur á geði ef ekki hreinlega illmenni og er stöðugt dreginn inn í ást hans – Benigno er mjúkur maður, í tengslum við tilfinningar sínar, hann er ljúfur og hugulsamur fram í fingurgóma, fullur af ást, en hann býr líka í sinni eigin búbblu og áttar sig sennilega ekki nema að mjög litlu leyti á sjónarhorni eða afstöðum annarra. Og þess vegna sér hann ekki að það sem hann gerir er rangt, að hann er ofbeldismaður. Hann er bara að elska – og ástin getur ekki verið röng.

Almodóvar passar sig líka á að láta okkur aldrei sjá Benigno brjóta á Aliciu – hann er oft á mörkunum, nuddar á henni innra lærið, en alltaf þannig að það virkar lögmætt, innan marka sjúkraþjálfunar.

Hvað er meginþemað í bíómyndum Almodóvars? Er það yfirráðin yfir líkamanum? Alicia er kjötflykki bróðurpartinn af þessari mynd – og þótt við sjáum hana aðeins áður en hún lendir í dáinu kynnumst við henni ekki fyrren eftir að hún vaknar. Þau kynni verða sárari fyrir meðlíðan okkar með Benigno.

Marco og hans saga – ég náði minni kontakt við hana og kannski var það aldrei ætlunin að maður færi að kynnast honum, þannig. Kannski er hann bara ekki nógu áhugaverður. Hann er linsan sem maður sér Benigno í gegnum. Í upphafi myndar, áður en Benigno og Marco kynnast, lenda þeir hlið við hlið á danssýningu hjá Pinu Bausch – Marco grætur á sýningunni og Benigno tekur eftir því, finnst það mjög áhugavert. Kannski var það þar sem maður átti að byrja að skilja að Benigno væri sósíópati, að gráta ekki frammi fyrir Pinu Bausch – kannski er það samt of einfalt, of banalt.

En það er líka áhugavert að skoða hvernig þeir vinna ólíkt með tilfinningar sínar, þessir karlmenn – Marco sem grætur á danssýningum en getur ekki snert ástkonu sína þegar hún lendir í dái, eða einu sinni talað við hana; og Benigno sem grætur aldrei, er alltaf afslappaður, meira að segja frammi fyrir dauðanum, en fórnar sér og sjálfu velsæminu fyrir stjórnlausa ást (hér verða sjálfsagt margir til að segja að þetta sé alls ekki ást – en jú, sennilega er sjúk ást einhvers konar ást líka). Ég er ekki hrifinn af hugtökum einsog „toxískri karlmennsku“ og ég er alls ekki viss um að þeir séu að reyna að vera nein karlmenni – þótt ídeológían að baki ást þeirra sé sannarlega í takt við hin klassísku ástarsagnagildi, fórn og rómantík og uns-dauðinn-aðskilur og bitið-á-jaxlinn – en viðbrögð þeirra og gjörðir, eins ólíkar og þær eru, eru samt karllægar, held ég.

Meira, HKL/McEwan, The Square, Bensínið er búið, Endgame, Cornhole, Elías, Rise of the Guardians og Kona fer í stríð

Bók vikunnar var Meira eftir Hakan Gunday. Ég ætla að skrifa um hana fyrir Starafugl svo ég segi ekkert um hana sérstaklega hér, annað en að hún meðmælist hart. Hún hafði af mér hin stóru Prix Medici verðlaun í Frakklandi – ég var tilnefndur fyrir Illsku – og ég get bara eiginlega ekkert verið beiskur yfir því, þetta var bara mjög verðskuldað hjá Gunday. „Mikilvæg bók“, einsog maður segir. Allir ættu að lesa hana.

***

Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness voru veitt í fyrsta sinn í síðustu viku. Reyndar voru önnur verðlaun sem hétu þessu sama nafni fyrir svona 15-20 árum. Þau voru veitt kannski tíu sinnum fyrir nafnlaus innsend handrit og ráku sig í strand. Bæði voru þau veitt höfundum sem voru ekki í in-crowdinu, sem var vandræðalegt – Eyvindur P. Eiríksson fékk þau eitt árið en fékk svo ekki einu sinni listamannalaun til að klára framhaldið – og svo spurðist út að einhver handrit sem unnu hefðu alls ekki verið send inn í keppnina heldur verið dregin upp úr skúffum útgefenda og höfundunum bara boðin verðlaunin. Af því innsendu handritin voru ekki nógu góð. Svo sögðu sumir að bækurnar væru bara alls ekki nógu góðar – eða að gæði þeirra væru almennt ekki nógu góð, þótt það væru góðar þarna á milli. Þau enduðu einhvern veginn alveg án nokkurs trúverðugleika.

En þessi nýju HKL-verðlaun eru alþjóðleg og fyrsti verðlaunahafinn er Ian McEwan. Ég hef verið mishrifinn af bókum hans – ég var hrifinn af Saturday og Hnotskurn en minna af öðrum. Margir hafa orðið til að segja að það sé hálftilgangslaust að veita svona frægum höfundi enn ein verðlaunin. Þá hefur verið fundið að því að hann sé hvítur karl (classic aðfinnsla), að hann skrifi á ensku og hafi ekkert við peningana að gera. Aðrir hafa sagt að það sé taktískt að veita McEwan verðlaunin fyrstum svo þau hafi ákveðna þyngd, svo megi taka vogaðri ákvarðanir síðar.

En þetta fer auðvitað allt eftir því hvaða tilgang verðlaunin eiga að hafa. Hvaða  prófíl maður vill handa þeim. Ég held það fari illa að veita McEwan verðlaunin ef maður ætlar ekki bara að hafa þetta einhvers konar heimsmeistarakeppni í sagnamennsku – að veita þau bara McEwan týpunum. Það þýðir ekki að verðlaunahafar þurfi allt að vera hvítir karlar frá Vesturlöndum en það þýðir að maður svíkur ekki ákveðna meinstrím fagurbókmenntir sem njóta metsölu, hafa fengist samþykktar af markaðnum – Margaret Atwood getur fengið þau, Chimamanda Ngozi Adichie, Hanif Kureishi, Junot Diaz eða Hilary Mantel kæmu öll til greina. En það myndi gerast sjaldan ef nokkurn tíma að höfundurinn væri manni óþekktur eða viðkomandi væri lítið sem ekkert þýddur eða að bókmenntirnar væru fagurfræðilega erfiðari – Jelinek-týpurnar gætu ekki fengið þetta.

Verðlaun geta verið einföld meistarakeppni – þá er ekkert skrítið að sama fólkið vinni aftur og aftur. Öll slík hugsun er afleiðing elítisma og þá eru í alvöru ekki nema svona 10 verðugir höfundar í heiminum á hverjum gefnum tíma – ekki að það séu bara 10 höfundar sem skrifa frábærar bækur heldur eru bara 10 sem sameina að skrifa frábærar bækur og vera miðlægir í kastljósinu.

Verðlaun geta líka verið hugsuð til þess að ýta fólki/verkum inn í þetta kastljós – það er oft hugsunin á bakvið nóbelsverðlaunin og þess vegna er svo mikil fýla þegar einhver einsog Bob Dylan fær þau, ekki vegna þess að hann sé ekki frábær heldur vegna þess að virkni verðlaunanna er þá ekki sú sem fólk býst við af þeim. Halldór Laxness fékk þetta bömp og með því fylgdi sæti í eilífðinni.

Svo geta verðlaun verið menningarpólitísk í þeim skilningi að þau hampi ákveðinni fagurfræði umfram aðra. Þau gætu t.d. hampað einfaldri sagnalist eða margbrotinni, hampað ljóðrænum sögum eða raunsæjum stíl, hampað vísindaskáldskap, skáldskap kvenna, skáldskap minnihlutahópa, pólitískum skáldsögum eða framúrstefnuljóðum. Bókmenntaverðlaun HKL eiga að veitast höfundi sem stuðlar að endurnýjun sagnalistarinnar – en fyrir það fékk HKL nóbelinn á sínum tíma.

Að velja Ian McEwan er að ryðja sér rúms á Bookersvæðinu. Metsölubókasvæðinu. Svo getur vel verið að það verði rokkað á milli popúlískari ákvarðana og vogaðri og þá er maður meira á Nóbelsverðlaunasvæðinu – en þótt þau séu löskuð er ansi mikið af plássinu á því svæði þegar tekið. Verðlaunaupphæðin – 2 milljónir – gefur nú líka til kynna að það eigi að taka þessu mátulega alvarlega. Sennilega er þetta vikukaup fyrir mann einsog McEwan. Dugar ekki til að kaupa sér nýjan bíl.

Aðallega finnst mér þessi bestsellerismi leiðinlegur. Færri og færri titlar rata út úr bókabúðum – ekki bara færri og færri bækur, heldur taka metsölubækurnar yfir stærri og stærri hluta markaðarins, og þær gera það í krafti áherslu bókmenntaheimsins á að búa til hype í kringum sömu hlutina aftur og aftur. Hér er ekki bara við forlögin að sakast – þótt þau hafi meira vald til að spyrna á móti en flestir – heldur er þetta meinsemd sem nær miklu víðar. Verðlaun sem varpa ljósi á eitthvað nýtt frekar en að fagna því sama þúsundasta skiptið í röð væru viðnám við þessari þróun.

***

Ég tók mig til og horfði á Square eftir Ruben Östlund í vikunni. Hún var mögnuð þótt hún hafi ekki verið jafn óþægileg og Play eða Turist (Force Majeure). Kannski var of miklu hrúgað í hana til þess – Play og Turist voru ísmeygilegri, hentu fram einni forsendu og létu mann svo dvelja í henni og kveljast lengi án þess að það gerðist neitt mikið meira. Square er meira tårta på tårta, einsog Svíarnir mínir segja, ofhlaðin – ástandið getur alltaf orðið aðeins skrítnara, aðeins óþægilegra. Mér finnst það ekki endilega verra en það skapar allt annað andrúmsloft og maður tekur hana öðruvísi inn þótt stíllinn og tónninn séu kunnugleg úr fyrri myndum Östlunds.

Áhugaverðasti búturinn – eða einn af þeim áhugaverðari – sem hefði getað borið heila mynd í raun, er hlutinn með auglýsinguna sem listasafnið gerir.

Listasafnið fær auglýsingastofu til að gera fyrir sig auglýsingu til að vekja athygli á myndlistarverki sem heitir The Square. The Square er einfaldlega ferningur á gólfi sem maður getur stigið inn í og þar eiga allir að njóta sömu réttinda og hafa sömu skyldur gagnvart hvert öðru. Auglýsingastofugosunum finnst þetta augljóslega frekar glötuð og tilgerðarleg hugmynd og segja erfitt að gera fólk spennt fyrir henni. Þeir búa svo til auglýsingu þar sem ung hvít ljóshærð stúlka, betlari, er sprengd í loft upp í miðjum reitnum. Stjórninni finnst þetta svolítið pólitískt vandræðalegt og „mycket problematiskt“ – en svo kemur stjórinn inn, aðalsöguhetja myndarinnar, og hann hefur eiginlega of mikið að gera og nennir ekki að láta stressa sig með þessu, lítur í fimm sekúndur á tillöguna og segir svo bara „jájá, frábært, einmitt það sem við vorum að spá“ og gengur á dyr. Svo auglýsingin er framleidd með samþykki stjórans, sem enginn þorir að andmæla.

Einhverjum tíma síðar verður auglýsingin svo viral og stjórinn þarf að svara fyrir þessi ósköp. Á blaðamannafundi stendur upp brún kona með hreim og spyr hvort hann hafi enga samlíðan með betlurum, hvort hann sé bara samviskulaus, og hann umlar eitthvað, biðst afsökunar, þetta sé auðvitað ekki gott, hann ætli að segja af sér. Næst stendur upp blaðamaður – hvítur karl – og spyr hvort hann ætli bara að segja af sér, hvað hafi orðið um tjáningarfrelsið, skyldu safna til að standa með hinu erfiða þegar eitthvað svona smotterí getur orðið til þess að setja fólk alveg af sporinu. Og hann bara umlar og segir ekki neitt.

Það sem slær mann er sannferðugleikinn á bakvið þennan skort á núönsum. Að maður geti ekki gengist við að eitthvað hafi verið mistök, maður hafi slegið feiltón, án þess að feiltónninn sé ófyrirgefanleg katastrófa. Öll svör verði vandræðalegt uml. Það er ekkert í stöðunni nema að segja af sér og hverfa inn í skuggana eða rísa á fætur með hnefa á lofti til að berja á … betlurum … og góða fólkinu í nafni málfrelsisins. Eða einmitt bara umla og deyja.

Ég festist kannski líka í þessari senu vegna þess að ég var nýbúinn að rekast á nokkurra vikna gamalt mál femínistans Camille Paglia. Paglia – sem hefur á stundum talað um sig sem trans – var í viðtali neikvæð á það sem hún kallar trans-bylgju samtímans:

I am highly skeptical about the current transgender wave, which I think has been produced by far more complicated psychological and sociological factors than current gender discourse allows.

Þá hefur hún líka „talað niður“ metoo hreyfinguna og fleira. Afleiðing þessa var ákall um að hún yrði rekin úr stöðu sinni sem háskólaprófessor sem fleiri þúsund manns skrifuðu undir.

Nú er ég ekki endilega sammála Paglia og raunar ekki alltaf alveg viss hvað hún er að fara. Hún er broddfluga í vestrænni menningu – hefur verið talin meðal stærstu menntamanna samtímans – og hefur gert sér far um að hafa óþægilegar, ögrandi skoðanir. Mörgum finnst það sennilega bara vera eitthvað edgelord-dæmi sem gangi út á að fá athygli – það er yfirleitt svarið – en ég held að samfélag sem á ekki fólk einsog Paglia, sem setur spurningarmerki jafnvel á viðkvæmustu stöðum, óttast ekki alltaf að hafa (sögulega?) á röngu að standa og skirrist ekki við að nefna nöfn eða gagnrýna þá sem standa henni annars nærri í fræðunum (það er erfitt að finna frægan femínista sem hún hefur ekki einhvern tíma gagnrýnt), ég held að þannig samfélag úrkynjist og verði einfeldningslegt og sannast sagna bara dálítið fasískt. Krafan um að fá að svara þessum spurningamerkjum – að fá að takast á við þau, fá plattform til þess að takast á við þau o.s.frv. er mjög eðlileg. Samfélag þar sem allir eru einsog Paglia er ekki heldur samfélag neinna hugmyndafræðilegra átaka heldur samfélag sams konar átomatona og þar sem enginn spyr neins. Það verður að vera díalógur og hann þarf að geta átt sér stað án þess að það sé krafa um að allir séu sammála.

Þetta er það sem krakkarnir á twitter kalla cancel culture – sem er hugtak sem maður sér næstum jafn oft í neitunarstaðhæfingum („það er ekki til neitt cancel culture“) og maður sér góða fólkið („there’s no such thing as PC and if there is it’s only correctly applied to nazis“).  Og sem betur fer tekst þetta ekki alltaf – þótt krafan um brottrekstur sé ekki gáfulegri fyrir vikið – Paglia hélt vinnunni, en það munaði litlu.

***

Ég keypti mér stuttskífuna Bensínið er búið með Langa Sela og Skuggunum á vínyl. Þetta er auðvitað klassa rokkabillí og búgí og ekkert verið að finna upp hjólið – en þetta hittir mig alveg í hjartastað. Hingað til hef ég verið ákafastur yfir síðasta laginu, Salt & Pipar. „Ég nota salt og pipar  / (salt og pipar) / því þú ert bara alltof sæt“.

Myndmálið í þessu er áhugavert. Hann notar salt og pipar því hún er alltof sæt. Þetta er auðvitað heterónormatíft – rokkabillí er það eiginlega alltaf,  ekki síst þegar það er drag einsog hjá John Waters. Ég hef einhvern tíma látið hafa eftir mér að ef ég er með ofurkraft sé það að geta getið mér til um hvar fólk staðsetur sig á kynjarófinu út frá því hvað það setur á diskinn sinn á morgunverðarhlaðborði. Þar koma salt og sæta einmitt mjög sterk til leiks – það er (alla jafna) maskúlín að taka beikon og pulsur, feminín að taka jógúrt, ávexti og sætabrauð. En líkt og í kynjakerfinu eru áhugaverðar undantekningar – það er t.d. maskúlín að hrúga á diskinn sinn bökuðum baunum í dísætri tómatsósu og það er feminín að taka þykkar sneiðar af söltum camembert. (Óþarfi er að taka fram að maskúlín/feminín eiginleikar dreifast svo ójafnt á fólk og eru ekki endilega í samræmi við önnur kyneinkenni, kyngervi eða kynvitund – og engir tveir bera sig eins að við hótelmorgunverðarhlaðborð).

Karlmaður í leðurjakka með gel í hárinu notar salt og pipar og lokkaprúður kvenmaður í sixtískjól er augljóslega alltof sæt. Myndmálið er líka áhugavert út frá því að bæði sætan og seltan eru bragðbætir – að baki þeim er annar kjarni, hvort sem það er kjöt eða fiskur eða brauð eða annað. Manneskjan að baki er ekki endilega skrautið sem hún stráir yfir sig – en án þessa skrauts væri hún kannski bragðdauf.

***

Kvöldið fyrir sumardaginn fyrsta fórum við Aram Nói á Avengers: End Game. Það var stappfullt út úr dyrum í Ísafjarðarbíó, sem gerist nú ekki alveg nógu oft núorðið, og stemningin var æðisleg. Aram og besti vinur hans, Hálfdán, höfðu eytt deginum í að tússa hver á annan – hann var með „Marvel“ á bringunni, minnir að það hafi staðið „Power Stone“ á bakinu á honum, „Thor“ á annarri kinn og „Thanos“ á hinni og „VS.“ á enninu. Og svo fór hann bara ber að ofan í bíó. Ég píndi hann að vísu til að fara í jakka á leiðinni, sem kom sér vel því þótt það sé stutt ganga fyrir okkur þurftum við að standa úti í biðröð í svolítinn tíma. Inni í salnum lagði hann svo jakkann á hnén á sér og þá leit eiginlega út einsog hann væri bara alls ber með jakkann yfir því allra heilagasta.

Myndin var sirka einsog við mátti búast. Ég hef sennilega séð megnið af þessum Marvelmyndum og þar af auðvitað undanfara þessarar, Infinity War. Þetta er svona öllu-tjaldað-til-dæmi og formúlan nánast svo grjóthörð og skriðþunginn í hinum myndunum nógu mikill til að þetta hefði aldrei getað klúðrast illa – eða verið neitt öðruvísi en nákvæmlega einsog það var. Hún var þrír tímar að lengd og það voru sprengingar og rómantík og þunglyndi og síendurtekinn sigur við ólíklegar aðstæður, kryddað með örlitlum vonbrigðum og svona hálftíma löngum ljúfsárum en hamingjusömum endalokum. Við feðgar fórum mjög glaðir heim.

***

Sumardagurinn fyrsti var svo eins konar menningarreisa. Við fórum fjölskyldan inn í Holtahverfi í svimandi rjómablíðu til að spila cornhole og borða corn dogs hjá amerískri vinafjölskyldu okkar – ásamt fleiri vinum. Það var líka boðið upp á kryddaða kjúklingavængi, doglausar corn dogs með súrum gúrkum í staðinn, hummus og grænmeti og búrbon-límonaði og bjór. Þetta var eins konar æfingar-„tailgate“ fyrir aðra vinafjölskyldu sem er að fara að flytja til Bandaríkjanna í maí.

***

Við börnin kláruðum að lesa Elías eftir Auði Haralds og Valdísi Óskarsdóttur. Hún fjallar um samnefndan dreng sem er að fara að flytja með fjölskyldu sinni til Kanada í tvö ár, svo pabbi hans geti smíðað brýr. Fjölskyldan sem ég nefndi hér að ofan, sem er að flytja til Arlington í Bandaríkjunum, er einmitt fjölskylda besta vinar Arams – Hálfdáns Ingólfs, sem tússaði sig með honum fyrir bíóið – og hún er að flytja í tvö ár svo mamma hans Hálfdáns geti búið til sárabindi úr fiskroði fyrir bandaríska hermenn. Og alla sem gætu þurft á slíku sárabindi að halda. Svo þetta var viðeigandi lestur fyrir okkur.

Það er mjög gaman að lesa svona fjölskyldusögur með krökkunum. Bæði til að sjá það sem hefur breyst og það sem hefur alls ekki breyst. Fólkið í Sitji-guðs-þríleik Guðrúnar Helgadóttur er okkur mjög fjarri í tíma og aðbúnaði, með barnaskarann og peningaleysið og fjarverandi pabbann og sambúð með ömmu og afa, og fyllibyttum á öðru hverju heimili. En fólkið í Elías er allt í einhverju nútímastressi sem er kunnuglegt. Foreldrarnir gera alls konar plön og eiga í flóknum samskiptum við aðra – aðallega Möggu móðursystur í þessu tilviki, sem vill öllu ráða en er líka mjög hjálpleg – og Elías finnst bæði gaman að vera hluti af veröld fullorðna fólksins og að sleppa úr henni. Ég spurði Aram og Aino hvað væri mest ólíkt samtímanum í Elíasi og Aino sagði að foreldrarnir væru svo ruglaðir – sem mér fannst hughreystandi – og Aram bætti við að Elías þyrfti að passa foreldra sína svo mikið. Við Nadja hljótum að vera svona ofsalega stabíl eða góð í að fela hvað við erum klikkuð.

Fyrst og fremst er Elías auðvitað sprenghlægileg bók, bæði fyrir börn og fullorðna.

Lestrarfyrirkomulagið með börnunum á heimilinu er þannig að ég og Nadja lesum fyrir þau til skiptis og við lesum ólíkar bækur – Nadja á sænsku og ég á íslensku. Nadja les alltaf sitthvora bókina fyrir þau en hjá mér skiptumst við á að velja bækur og lesum eina í einu. Ég valdi Elías og ætla að halda áfram að velja Elías þegar kemur aftur að mér – það eru a.m.k. tvær bækur til viðbótar í flokknum. Aram valdi Flóttann mikla eftir Indriða Úlfsson, sem við fundum hjá ömmu og afa, og erum nýbyrjuð á. Aino, sem á að velja næst ætlar að taka myndskreyttar sögur úr Þúsund og einni nótt, sem hún fékk í afmælisgjöf. Þar sem við lesum ekki nema annað hvert kvöld – og tæplega það, það fellur alltaf eitthvað úr, stundum er annað þeirra að gista hjá vini og þá lesum við eitthvað annað en kaflabókina, og stundum er ég ekki heima o.s.frv. – þá tekur stundum sinn tíma að komast heilan hring.

***

Föstudagsfjölskyldumyndin var Rise of the Guardians. Aino valdi að þessu sinni. Myndin fjallar um Jack Frost sem er eirðar- og tilgangslaus ofurvera í heimi þar sem börn trúa bara á Jólasveininn, Páskahérann, Herra Sandmann og Tannálfinn. Jack færir fólki vetur og stuð. Ljótikallinn sækir að þessum barnaguðum og ætlar að kreista gleðina úr hjörtum þeirra og eina von þeirra er hjá Jack Frost, sem kallinn í tunglinu útnefnir „varðmann“ ásamt áðurnefndum ofurverum (þótt enginn trúi á hann).

Hún fór svolítið mikið innum eitt augað og útum hitt. Kannski var það vegna þess að ég var að byrja að verða lasinn – þá rennur allt saman fyrir mér. Ég get t.d. ekkert lesið þegar ég er með hita. Það var áhugavert að þótt ljótikallinn yrði aumkunarverður í endann þá var samt lífið murkað gersamlega úr honum – það var engin siðbót, engin fyrirgefning. Meira að segja Thanos fékk smá samúð – var tragískur. Ljótikallinn var bara vondur. Og ætti kannski ekki að koma á óvart.

***

Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði í gær á Kona fer í stríð. Það var mitt val að þessu sinni og við vorum hvorugt búin að sjá hana. Kona fer í stríð var góð þegar hún var góð, sem var oft, en vandræðaleg þegar hún var það ekki og heilt yfir var myndmálið svolítið hingað og þangað fyrir mig. Annað en Square fannst mér hún ekki bera ofhleðslu – einsog hún vildi segja manni allegoríu en væri svo alltaf að berjast út úr henni líka. Svona einsog ef það væri hliðarsaga í Animal Farm að Snækollur væri líka að reyna að ættleiða.

Það er einsog hún vilji vera of margar aðrar myndir í einu og nái ekki að sætta áhrifavalda sína. Eina stundina er það Kusturica en þá næstu er maður að horfa á Amelie og svo er maður að horfa á skandinavískt persónudrama um barnlausa konu sem vantar lífsfyllingu (barn!) og síðan pólitíska allegóríu. Einhvern veginn fannst mér vanta að hún blómstraði almennilega í eina áttina – sennilega hefði það bara getað verið í Kusturica áttina, það er eina formið sem getur borið hitt líka, að hún yrði sannanlega absúrdísk en daðraði ekki bara við það.

Stundum var líka einsog það væri verið að löðrunga mann með myndmáli sem ég náði einhvern veginn aldrei að púsla saman. Halla (nafnið!) er á flótta undan lögreglunni, eftir að hafa fellt rafmagnsstaur (sem ég held reyndar að geri ekkert gagn) að álveri og felur sig fyrst undir álteppi fyrir hitamyndavélum og svo undir íslensku sauðskinni fyrir drónamyndavél. Þegar hún er á leiðinni til að gefa sig fram stoppar hún leigubílinn og fer út í hraun og gubbar á íslenska náttúru (skömmu áður blæðir henni líka í íslenska náttúru – einum dropa). Þar á eftir tekur hún myndina af stelpunni sem hún ætlar að ættleiða, rífur upp mosa (!!!) og treður ljósmyndinni – sem er kemískt sorp, vel að merkja, og brotnar ekki auðveldlega niður í náttúrunni – inn í mosann. Svo kallar hún sig „Fjallkonuna“ – og ég bara get ekki neitt sem heitir fjallkona. Í bandarísku endurgerðinni yrði hún þá skallaörninn. Það er bara ekki hægt. Forsætisráðherrann heitir Jón Hreggviðsson, hundurinn heitir Kona – og það er bara svo margt svona, verður algerlega ómeltanlegt í pólitískri allegoríu, en hefði verið áhugavert í Roy Anderson mynd eða hjá Buñuel, þar sem ekki er krafist sams konar stöðugrar rökmiðju. Í allegoríunni gerir maður ráð fyrir að púslið eigi að ganga upp – hér eru symbolísku púsluspilin meira einsog þau hafi orðið til á thinktank-fundi á auglýsingastofu eftir aðeins of marga kaffibolla.

Mér fannst samt mjög gott touch að láta alla sem leika löggur í myndinni vera grínista – Ari Eldjárn, Helga Braga, Þorsteinn Guðmundsson og Dóri DNA leika löggurnar í myndinni. Svo er Jón Gnarr forsetinn og ég var ekki viss hvort það ætti að vera tenging við hina grínistana og hans hlutverk er öðruvísi en þeirra – það er meira grín í því.

Kjarnapersónur myndarinnar – sérstaklega Halla og meintur frændi hennar, Halldóra Geirharðs og Jóhann Sigurðarson – voru annars mjög trúverðugar persónur, þótt þau væru problematísk, og afar vel leikin, einsog við er að búast. Grunnsagan er góð og breyskleikar aðalsöguhetjunnar eru áhugaverðir – að hún rjúki út í reiðikasti til að taka eitt tilgangslaust lokaáhlaup á stóriðjuna, og rammi það nánast einsog hún sé þá að fórna lífsfyllingu sinni (ættleiðingardótturinni sem býr í Úkraínu) án þess að taka nokkuð tillit til örlaga þeirrar væntanlegu dóttur eða systur sinnar eða annarra meðreiðarsveina. Hún er rosa merkileg hugsjónakona á sama tíma og hún virkar algerlega vafin upp í eigið egó – allt við þessa ættleiðingu rammast inn af hennar eigin þörfum.

Stemningin í myndinni er á köflum mögnuð, það er flott tempó og hin tekníska leikstjórn er upp á tíu. Einsog venjulega á íslensk náttúra stórleik. Tónlistin er frábær – ég er enn að gera upp við mig hvort ég sé sammála Nödju um að hljómsveitin, sem birtist í mörgum senunum, hafi verið ofnotuð. Ég hefði sennilega ekki hugsað út í það ef hún hefði ekki nefnt það. En mér finnst líka mjög gaman að horfa á fólk spila á hljóðfæri.

Ég spurði mig svolítið út í þessi úkraínsku þjóðlög – ég geri ráð fyrir að þetta séu úkraínsk þjóðlög. Einhvern tíma skrifaði ég eitthvað um útlendinga frá stórþjóðum sem koma til Íslands til þess að fá útrás fyrir þjóðrembu sem þeir geta ekki leyft sér heima fyrir. Vinstrisinnaður Bandaríkjamaður sem getur ekki heilsað fánanum kemur til Íslands til þess að falla í stafi frammi fyrir fjalli og fyllast Wagnerískum ofsa; sama gildir um Þjóðverja og Kanadamenn og fleiri. Þetta er svona nationalism by proxy. Mér fannst úkraínsku þjóðlögin – sungin af þremur „fjallkonum“ – vera svolítið þannig, einsog stand-in fyrir íslensk þjóðlög sem hefði verið tabú að hafa þarna.

Aukapersónur myndarinnar – forsætisráðherra, konan á ættleiðingarskrifstofunni, spunameistarar í sjónvarpinu, leigubílstjóri í Keflavík og aðrir fulltrúar „samfélagsins“ voru hins vegar ótrúverðugar klisjur. Þegar leigubílstjórinn fór að tala um lattelepjandi listaspírur frussaði ég af kjánahrolli. Þegar forsætisráðherra er spurður um loftslagsáætlun ríkisstjórnarinnar og snýr sér út úr spurningunni með því að tala um alvarleika ofbeldis var ég mest hissa – það eru allir forsætisráðherrar með staðlað svar um „metnaðarfulla loftslagsáætlun sína“ og „mikilvægi þess að standa vörð um jörðina“, alveg burtséð frá því hversu mikil alvara er á bakvið slík svör. Forsætisráðherrar eru ekki svona lélegir í augljósasta spuna. Ræða forseta á Þingvöllum sló mig líka undarlega – var hann að bera saman aftökur á Þingvöllum forðum daga og aftökur kínverska ríkisins? Slíkt hefði verið diplomatískt stórslys – leikurinn snýst um að láta, einsog Vigdís gerði og var frægt, sem mannréttindi séu afstæð og kínverska stjórnin í raun mannúðleg. Að konfronta kínversk stjórnvöld svona, þótt það sé gert í rænuleysi, er miklu líkara þeim mótmælum sem Jón Gnarr – sem leikur hér forseta – gerði í raun og veru sem borgarstjóri, og í alls engu rænuleysi.

Ég „lendi“ oft í því þegar ég hugsa og skrifa um íslenskar myndir að hljóma einsog mér hafi þótt þær verri en mér þótti þær. Þegar kreditlistinn rúllaði í gær og Nadja spurði mig hvað mér hefði þótt sagði ég „já, þetta var bara nokkuð gott“. Og þrátt fyrir allar þessar aðfinnslur þá var þetta bara nokkuð gott – setti heilasellurnar af stað og fékk mann til að hugsa.

***

Gítarleikari vikunnar er enginn annar en Langi Seli sjálfur.

Keisaramörgæsir, Klæði gegn konum, Brosandi maður, Aldrei, Zizek og Peterson, Self og BBE

Fyrsta bók vikunnar var Keisaramörgæsir eftir Þórdísi Helgadóttur. Frábær bók – aðeins köflótt einsog flest smásagnasöfn en heilt í gegn príma dæmi. Ég las hana í tveimur lotum og ég man að ég hugsaði í fyrri lotunni að stystu sögurnar væru bestar – að Þórdís nyti sín best í hinu … mig langar að segja gisna en það er ekki alveg rétt lýsing, eða hún hljómar allavega ekki nógu vel. Ég er að meina svona hemingwayískar eyður – samtöl þar sem maður er ekki alveg viss hvað er í gangi af því maður sér aldrei nema brot af heiminum. Skáldskapur sem hleranir í ókunnar veraldir. En í seinni lotunni snerist þetta við og lengsta sagan í bókinni – Leg – er besta sagan. Hún fjallar um sérstakan og sturlaðan matarklúbb, nú langar mig að líkja stemningunni við eitthvað hjá Brett Easton-Ellis, en kannski er það bara vegna þess að ég var að hugsa til hans áðan út af öðru – en það er einhver svona gegndarlaus firring í bland við kátínuþrungna heimsendastemningu.

Seinni bók vikunnar var ljóðabókin/endurminningabókin Garments Against Women eftir Anne Boyer. Anne var einu sinni í flarf-hópnum en er komin langt þaðan í dag. Ég hef þýtt lítillega eftir hana úr bókinni Romance of the Happy Workers og verið í aðdáendaklúbbnum í sennilega 15-16 ár. Ég náði því miður ekki að hitta hana á flarf-hátíðinni í New York, sem ég fór á sumarið 2008 – hún þurfti að afbóka á síðustu stundu minnir mig – en við skrifuðumst örlítið á fyrir löngu. Garments Against Women er grafalvarleg og brútal bók en það er samt einhver húmor þarna – eitthvað sem ég kann ekki alveg að skilgreina. Bókin fjallar um margt og fer víða – kapítalisminn og líkami manneskjunnar í kapítalismanum, í fötunum, í kvenfatnaðinum, og líkami manneskjunnar í sjúkdómum er í forgrunni. Anne Boyer hefur þennan hæfileika að geta starað heiminn niður án þess að blikna – og samt er hún líka að skrifa mikið um hvað hún bliknar, án þess að blikna. Skrifa um að vera uppgefin án þess að gefast upp.

Fullorðinskvikmyndaklúbbur Sjökvist horfir ekki á klámmyndir, einsog einhver gæti kannski ályktað af nafninu, heldur á fullorðinsbíómyndir með áherslu á allt utan Hollywood (hér í húsinu Sjökvist eru reknir tveir aðrir kvikmyndaklúbbar sem sérhæfa sig í barnamyndum). Fjórði fundur var haldinn í gær – fyrstu þrjár myndirnar voru Vagabond eftir Agnesi Varda, Unmarried Woman eftir Paul Mazursky, Le Fantôme de la liberté eftir Luis Buñuel og í gærkvöldi horfðum við á Hymyileva Mies eftir Juho Kuosmanen með vini okkar Jarkko Lahti í aðalhlutverki. Jarkko á hús á Flateyri – eða ég held hann hafi ekki selt það enn – ásamt fyrrverandi konu sinni. Hann var hér á síðustu páskum en við rákumst á hana á Aldrei á helginni. Myndin fjallar um boxarann Olli Mäki og tækifæri hans til að verða heimsmeistari í boxi á sama tíma og hann verður ástfanginn. Þetta er sannsöguleg og afskaplega falleg og mikil feel-good mynd. Ég veit ekki hvort það er miklu meira um hana að segja samt. Hún lýsir tíma sínum, 1962 minnir mig að hún gerist, og fjallar kannski ekki síst um óþolið fyrir athyglinni, fyrir sirkusnum – og er fyndið auðvitað í ljósi þess sirkus sem við lifum við í dag. Olli Mäki kemur frá Kokkola til Helsinki og lendir beint í heimspressunni og stöðugum myndatökum og veseni – á sama tíma og hann er einmitt hvínandi ástfanginn og getur vart um annað hugsað.

Aldrei fór ég suður var haldin um helgina. Hápunkturinn hjá mér var þegar Salóme Katrín flutti Wuthering Heights – það var ofsalegt. Hápunkturinn hjá Aram var að sjá Bagdad Brothers – hann fór heim og náði í trommukjuðana sína og leitaði uppi trommuleikarann og fékk hjá honum eiginhandaráritun. Annars sá ég talsvert minna en ég hefði viljað – missti t.d. af Hórmónum, sem var mjög leiðinlegt, og Ayia með Ástu vinkonu minni. Ég var með matarboð á föstudeginum og við sein af stað og svo var ég á barnavaktinni og fór heim með krakkana upp úr tíu. Þá sáum við eiginlega bara Þormóð systurson minn – hann er eiginlega sigurvegari hátíðarinnar, það hefur hreinlega aldrei verið jafn fullt í húsinu og þegar hann var á sviðinu. Var ekki nokkur séns að komast inn – nema fyrir börnin sem gátu smogið sér milli lappa fólks. Á laugardeginum var ég svo að vinna á aldreibarnum og þar heyrði maður lítið sem ekkert.

Þegar ég var búinn að lesa fyrir krakkana á föstudaginn (Elías, fyrstu bókina) horfði ég á nýjasta þáttinn af Star Trek og síðan svona hálftíma á Zizek-Jordan Peterson debattinum. Ég er eiginlega ósammála öllum um það tiltæki og finnst hreinlega til fyrirmyndar að debatt sé gerð umgjörð sem hentar sjónvarpstækjum um veröld alla. UFC fyrir heilann. Svo eru hugmyndir vondar eða góðar en öll umræða um hugmyndir er góð. Peterson er eins langt frá mér í pólitík og heimspeki og nokkur maður getur orðið, og ekki finnst mér hann sérlega gáfaður, en mér finnst ekki fullkomlega gagnslaust að hlusta á hann. Kannski bara vegna þess að ég er kominn með svo mikla leið á því að hlusta á langar keðjur af stuttum hugsunum – að fá heiminn í tístum og statusum, sem hverfa jafn óðum – og ég sakna þess hreinlega að fá þannig umræðu, lifandi umræðu frekar en bókfasta, í lengri og ítarlegri skömmtum. Þegar maður er svangur er allur matur góður.

Ég hef aldrei skilið hvers vegna Zizek féll af stalli og fór að þykja hallærislegur – eiginlega finnst mér að fyrst vinsældir hans og svo óvinsældir hjá cool kids liðinu séu bæði til marks um sauðshátt samfélagsins, hvað við erum gjörn á að stökkva á eftir einhverjum bendingum um hvað sé hot og hvað sé not og finnast svo það sama og síðasta manni. Í sjálfu sér er Zizek þekktari stærð í dag en fyrir 10 árum og kannski er það bara þess vegna. En hugsun hans er aldrei óáhugaverð – ekki einu sinni þegar hann er að endurtaka gamlar lummur frá sjálfum sér, sem hann gerði mikið í þessum debatt (eða því sem ég sá af honum). Kannski var hann í þessum best off gír vegna þess að hann taldi sig hafa mikið af nýjum áheyrendum – og það gæti verið rétt.

Það sló mig reyndar líka að líberal-fólkið – GíslaMarteinarnir, sem dómínera svolítið á samfélagsmiðlum – geti ekki ímyndað sér neitt verra en að samfélagsumræðan eigi sér stað á ásinum milli svartsýnnar íhaldssemi og svartsýnnar byltingarstefnu. Líberalisminn hvílir á hamslausri bjartsýni og framfaratrú – sem felur reyndar í sér að allir sem eru ósammála þeim séu smám saman að deyja út (fun fact: nei), sem er auðvitað dálítið sínískt.

Helstu viðbrögðin sem ég sá við þessum debatt voru eins konar and-debatt – hvað gæti maður kallað það, frávísun? Twitter fylltist af fólki sem stakk puttunum í eyrun og sagði BLABLABLABLABLA LÚSERAR. Það gerði mig furðu leiðan, jafnt þótt ég gæti tekið undir að annar þeirra sé svolítill lúser – af því mér finnst þetta vera orðið viðbragðið við óttalega mörgu. Svona grobbin idíókrasía – einsog fólkið sem montar sig nánast af því að lesa ekki bækur. Maður á að lesa bækur og maður á að takast á við þær hugmyndir sem eru sentral í menningu manns á hverjum gefnum tíma.

Brett Easton-Ellis var annars að skrifa einhverja bók um hvað þúsaldarkynslóðin sé miklir aumingjar. Einhver skemmtilegasti útvarpsþáttur sem ég hef hlustað á var þegar BEE bauð til sín Ezra Koenig, gítarleikaranum í Vampire Weekend, til að debatera einmitt þetta. BEE kann að þrátta og gera það skemmtilega og – líkt og t.d. Zizek – þá segir hann frekar eitthvað heimskulegt en eitthvað óáhugavert, sem mér finnst alltaf kostur (vegna þess að hið heimskulega anímerar mann en hið óáhugaverða svæfir mann). Svo fór hann í viðtal við Sunday Times og sagði að þúsaldarkynslóðin læsi ekki bækur og þetta tók Twitter nærri sér – bara af því þau læsu hann ekki þá þýddi það ekki að þau læsu ekki bækur. Will Self var einhvern veginn dreginn inn í þetta líka – sem er í talsvert meiru uppáhaldi hjá mér en BEE.

Það sló mig að þegar þeir Self og BEE voru um tvítugt, í byrjun níunda áratugarins, var ábyggilega miklu, miklu, miklu meira lesið en í dag. Og kannski miklu, miklu, miklu, miklu meira. Í öllu falli er alveg ljóst að bókamarkaðurinn hefur hrunið á síðustu 20 árum – ekki bara kaupir fólk færri bækur og les færri bækur heldur les það færri og færri titla, lesturinn dreifist minna. Heilt yfir er það ungt fólk sem les minna – þótt t.d. í Bandaríkjunum skiljist mér að fólk lesi fleiri ljóðabækur en áður (og þær eru vel að merkja styttri og metsöluljóðlist síðustu tíu ára er umtalsvert auðveldari aflestrar en ljóðlistin tíu árin þar á undan). Ég ræddi nýlega við menntaskólakennara sem vildi meina að margir unglingar væru beinlínis stoltir af því að lesa ekki neitt – á meðan að unglingar af okkar kynslóð hefðu verið líklegri til þess að ljúga því að þeir hefðu lesið eitthvað sem þeir lásu ekki, þá lægi við að sumir unglingar í dag ýktu stöðuna í hina áttina og segðust ekki hafa lesið bækur sem þeir hefðu þó lesið.

En svo er þetta líka einhver viðhorfsbreyting. Svartsýnin á undir högg að sækja. Self og BEE finnst kannski æskan glötuð í dag en þeim fannst æskan líka glötuð árið 1985, þegar þeir tilheyrðu henni. Þeir koma báðir upp úr pönkinu, inn í kókaínbrjálæði tíunda áratugarins, í restina af einhverju tímabili sem ég sé alltaf fyrir mér sem gullöld intelektúalismans – frá svona 1970 til 1985. Það er auðvitað vel hugsanlegt að þetta sé kolrangt hjá mér. Ég var sjö ára árið 1985. Þeir líta á hlutverk sitt í heiminum – einsog margir intelektúalar hafa gert í gegnum tíðina – sem það að segja fólki til syndanna, bókstaflega, frekar en að fagna því hvað allir séu frábærir.

Ég er að spá í að lesa þessa bók hans BEE – hún er áreiðanlega ekki hálft eins leiðinleg og fólkið sem henni er stefnt gegn heldur fram.

***

Gítarleikarar vikunnar eru tveir – Adrian Smith og Dave Murray.

Great Apes og Le Fantôme de la liberté

Ég kláraði Great Apes eftir Will Self í gær. Bókin, sem er frá 1997, fjallar um myndlistarmanninn Simon Dykes, sem vaknar dag einn eftir mikið og kunnuglegt eiturlyfjarús við þá skelfingu að kærastan hans er ekki lengur manneskja heldur simpansi. Og ekki bara hún reyndar, heldur hann líka, og allir sem hann þekkir – veröldin einsog hún leggur sig, í stíl við Planet of the Apes. Í stað þess að menn hafi þróast og orðið ráðandi tegund jarðarinnar voru það simpansar – órangútanar og górillur heyra hins vegar til dýraríkinu, líkt og menn. Simon lendir síðan í meðferð hjá hinum „mikilsvirta náttúruspekingi“ (einsog hann kallar sig ítrekað sjálfur), Zack Busner, sem fylgir honum í gegnum veröld simpansana, heimilislíf þeirra beggja og loks til Afríku í leit að týndum syni Simons, sem sennilega er enn maður og býr þar á verndarsvæði.

Ég hef aldrei lesið bók þar sem er jafn hressilega mikið riðið og slegist. Simpansarnir hafa ekki verið antrópómorfíseraðir svo mikið að þeir glati þeim eiginleikum sem þeir hafa í náttúrunni – þvert á móti finnst þeim mjög sætt eða sjúkt eftir atvikum hvað mannskepnan er spéhrædd og kynlaus og það hversu langan tíma það tekur hana að fá fullnægingu er talið til marks um lífsleiða. Simpansarnir hins vegar raða sér upp eftir hírarkískum tiktúrum í röð við næsta bólgna kvenskaut og fá það á fáeinum sekúndum. Konurnar hleypa bara körlunum að þegar þær eru á lóðaríi en karlarnir serða allt – líka náskylda ættingja sína og það þykir gróf misnotkun að sinna ekki serðingu dætra sinna.

Ofbeldi er þá daglegt brauð. Fari einhver fram úr sér við sér hátt settari apa – sjúklingur við lækni, t.d., einsog gerist af og til milli Simons og Busner – tekur sá háttsettari sig til og snuprar smælingjann með því að berja hann hressilega og ítrekað í nefið, hendurnir einsog þyrluspaðar.

Annað er eins – „sumt breytist aldrei“, er sagt nokkrum sinnum í gegnum bókina – og konur eru undirsettar körlum og bónóbóar (af afrískum uppruna) undirsettir simpönsum.

Ég gleymdi bókinni heima (ég er á skrifstofunni) og það er ótrúlega lítið hægt að gúgla því en mig langaði að birta hérna tilvitnun til að sýna ykkur stílinn – sem er vægast sagt frábær. Vísindalegur, ljóðrænn, hilaríus – ég á auðvitað ekki ensku að móðurmáli og get ekki verið fullkomlega dómbær en mér finnst enginn komast í hálfkvisti við Will Self þegar kemur að unaðslega meðvituðuðum og orðríkum texta nema kannski Nabokov. Að minnsta kosti ekki fyndnu höfundarnir – Joyce kemur upp í hugann en hann skýtur bara of langt yfir markið.

Góður maður gæti gleymt sér dögum saman við að greina hvað er rangt við þessa bók. Viðlíkingar af þessu tagi og karnivalískir viðsnúningar geta aldrei þolað mikla snertingu við vitlausa bein hinna vel meinandi – hugtakið mutually assured destruction kemur upp í hugann. Karikatúrar eru eðli málsins samkvæmt særandi og vilji maður ekki algerlega skera burt alla viðkvæma þjóðfélagshópa – alla nema hinn dómínerandi gagnkynhneigða hvíta sís-karlmann – þá karíkatúrar maður þá líka, gollívoggar þá, og stillir upp viðstöðulaust dauðafærum fyrir félagsbókmenntafræðinga.

Það er skrítið og kannski er það ekkert skrítið hvað það situr djúpt í manni nútildags að byrja á slíku nittpikking og horfa meira og minna framhjá því um hvað verkin snúast og hvað þau eru að segja. Það er nánast ósjálfrátt viðbragð, einsog bergmál úr Twitterspherinu. („Svona var þetta ekki þegar ég var ungur, ég skal sko segja ykkur, á Ircinu var …“)

Great Apes fjallar um margt og verður ekki auðveldlega smættuð – en helsti og mikilvægasti þráðurinn, sá sem ég myndi toga í ef ég væri að skrifa bókmenntarýni, snýr að sambandi manns við eðli sitt og mörkin milli manns og náttúru hvort sem maður sér þau sem „eðlileg“ eða „tilbúin“. Hvað það þýði að álíta sig aðskilin frá skítnum, eitthvað „annað“ en náttúruna – hvort heldur maður gerir það einsog hippinn sem telur sig skilja hana, vill vernda hana, úr hásæti sínu og af óþolandi hroka, eða einsog borgarbúinn sem vill helst ekki sjá hana og heldur að hún sé ekki hluti af sér, heldur eitthvað utanaðkomandi.

Og þegar ég segi náttúra meina ég bæði grösin og gredduna – bæði náttúruna í fjallinu og náttúruna í manninum.

***

Í gær horfði ég líka á Vofu frelsisins – Le Fantôme de la liberté – eftir Luis Buñuel. Einsog gefur að skilja er þetta súrrealískt verk og þar eru nokkrir viðsnúningar sem eru blóðskyldir apaleikjum Self. Söguþráðurinn er bútasaumur – við fylgjum einni persónu að þeirri næstu og skiljum stundum við sögupersónur í miðri sögu, finnum þær stundum aftur síðar og stundum ekki. Þetta hljómar auðvitað hámódernískt og mjög leiðinlegt ef maður þekkir ekki Buñuel, sem er svívirðilega fyndinn höfundur.

Í þessari mynd er hin fræga matarboðssena. Þar gyrðir fólk niðrum sig og situr til borðs á klósettum og kúkar saman meðan það spjallar en bregður sér síðan afsíðis til að borða – confit de canard, sýndist mér það vera, og rauðvín með.

Myndin er frá árinu 1974 og færi sennilega sem því nemur enn verr út úr hinum viðkvæma samtímalestri en Great Apes. Það finnst angan af því kynferðislega frjálsræði sem hafði rutt sér rúms en hún birtist fyrst og fremst í nöktu kvenfólki – tveimur stykkjum – en þeim tíma og þeim móral virðist minna fagnað í dag, fyrir það siðferðislega drullufangelsi sem hann muldi, og meira bölvað fyrir (augljósan) ófullkomleika sinn. Í annarri af þessum kvennektarsenum, þar sem ungur maður reynir með talsverðri frekju að koma til við sig aldraðri ástkonu, birtist okkur líkami þeirrar gömlu sem ungur – þegar hann loks birtist. Sem er auðvitað í anda súrrealismans en einhverjum gæti þótt pólitískt eða móralskt óþægilegt – eða í það minnsta nóg til að við það væri staldrað.

Reyndar birtist þarna líka einn karlmannsrass, sem ég hafði gleymt, og er flengdur af konu í leðurbúning, í senu sem er mjög kómísk á kostnað hinna BDSM-ísku exhibisjónista. Sú sena er líka á einhvers konar hápunkti myndarinnar – að mínu mati – sem gerist á gistiheimili þar sem gestir flakka á milli herbergja og heilsa hver upp á annan í alls konar undarlegum kringumstæðum. Þetta er svona hurðafarsi fyrir súrrealista.

Senurnar eiga það flestar sameiginlegt að snúa upp á félagslega siði – sumar bara lítið, einsog hjá lögregluskólakennaranum þar sem fólk er stanslaust að koma og fara, aðrar meira einsog hjá bróðurnum sem hangir yfir naktri systur sinni þar sem hún spilar rapsódíu Brahms, og aðrar enn meira einsog þegar lögreglan ber ekki kennsl á sýslumann, handtekur hann, en þegar hann hittir þann sem þá er sýslumaður (fyrst hann var ekki sjálfur sýslumaður er einhver annar sýslumaður) verða þeir báðir sýslumenn. Hvert skref er í sjálfu sér rökrétt en algerlega án tengsla við þau rök sem réðu skrefinu á undan – siðirnir og hegðunin er rétt ef þau eru skoðuð einangruð.

Sama gildir um stúlkuna sem leitað er að um alla París svo vikum skiptir vegna þess (hafi ég skilið það rétt) að henni varð á að svara ekki nafnakalli í skólanum. Það skiptir ekki máli þótt hún svari síðar og aðstoði yfirvöld við að leita að sér – hafi hún ekki svarað nafnakalli er hún ekki til staðar og sé hún ekki staðar verður að leita hennar þar til hún finnst. Sem hún gerir á endanum, án þess að á því sé gefin nein sérstök skýring. Stundum finnast týnd börn og stundum ekki.

***

Gítarleikari vikunnar er Paul Kossoff í Free. Ekki sá teknískasti eða sá frumlegasti – en þvílíkur tónn, þvílíkt víbrató! Fyrir bassaleikarana er svo líka bassasóló.

Aino er búin að vera lasin síðustu daga. Það var pínu púsluspil fyrir foreldra hennar að láta það ganga upp, því við höfum mikið að gera, einsog gengur. Nadja lenti í tölvuvandræðum og þurfti að vinna upp alls konar vegna skjala sem hurfu og ég er að keppast út á endann í fyrsta handriti að nýrri skáldsögu til að geta séð hvort ég á séns að klára það fyrir haustið. Reyndar kitlar mig líka að gefa út næsta vor. Jólabókaflóðið hefur almennt vond áhrif á líðan mína og síðasta jólabókaflóð var óvenju slæmt.

Þegar Aino er lasin skiptist hún á að vera mjög, mjög þreytt og liggja fyrir framan sjónvarp og að vera mjög, mjög skrafhreifin. Í gær töluðum við saman viðstöðulaust í þrjá tíma um allt milli himins og jarðar. Svo lá hún bara flöt í þrjá tíma. Annars erum við meira týpurnar til að þegja saman – lesa bækur saman, kúra og teygja okkur.

Og talandi um vorbækur þá er Ó – um þegnrétt tegundanna í íslenskri náttúru, ný skáldsaga míns kæra Hauks Más, loksins komin út. Ég las hana í handriti fyrir rúmu ári síðan og hafði þá á orði hér einhvers staðar að íslenskar bókmenntir ættu von á góðu – þetta er einfaldlega ein allra áhugaverðasta skáldsaga sem skrifuð hefur verið á íslensku í langan tíma og ég er ógurlega stoltur af að geta kallað Hauk vin minn. Það gleður mig líka að sjá að fólk er spennt fyrir henni og þau sem hafa og eru að lesa hana virðast gríðarkát – það er ekki sjálfsagt að bækur rati í mark.

***

Ég sit á kaffihúsinu Heimabyggð. Hér sit ég oft núorðið. Ég hef verið að reyna að skipta vinnutíma mínum aðeins betur á milli ólíkra staða. Skrifstofa verður svo auðveldlega að einhverjum sjúkum bönker – þar sem maður ræktar ekkert nema sínar mest intróvert og paranojuðu tilfinningar. Úr því geta orðið ágætis bókmenntir, í sjálfu sér – ég skrifaði Hans Blævi mestmegnis á kontórnum í Aðalstræti, fyrir utan þann hluta hennar sem var skrifaður í residensíunni í Krems, handan götunnar frá öryggisfangelsi Josef Fritzl og ekki voru það aðstæður sem drógu úr noju eða sjúkleika. En ég er að reyna að skrifa eitthvað aðeins bjartara núna og þá þarf ég líka að geta loftað út úr heilanum á mér.

Mest skrifa ég þá heima, á skrifstofunni og hérna. En á þriðjudaginn fór ég og sat á bókasafninu í nokkra klukkutíma og geri það sennilega líka eftir hádegi í dag. Á leiðinni heim kom ég við hérna og fékk mér einn kaffibolla – ókostur bókasafnsins umfram hina staðina er að þar fæ ég ekkert kaffi. Það var lítið að gera. Eyjó – Sesar A – sat í einu horninu og vann að sínu einsog hann gerir oft. Og þá lenti ég í svolitlu merkilegu. Inn kom maður með heddfóna sem hann var augljóslega að tala í – frekar hátt. Þetta voru svona þráðlausir hljóðeyðandi heddfónar, alveg einsog ég á sjálfur, og þegar hann hafði lokið sér af með símtalið pantaði hann sér kaffibolla og settist niður við gluggann. Þar skók hann sér mikinn svo það ískraði og brakaði í stólnum í takt við tónlistina sem hann var að hlusta á – hann tók ekkert eftir þessu sjálfur, verandi með hljóðeyðandi heyrnartól, en það fór nokkuð fyrir þessu á annars hljóðlátu kaffihúsinu. Nema hvað, þetta truflaði mig engin ósköp, ég las í gegnum kaflann sem ég hafði ætlað að skoða, kláraði kaffibollann minn, fór í búðina og heim að elda kvöldmat fyrir gengið – eða sennilega fór ég út að hlaupa fyrst, skiptir ekki öllu.

Ég byrjaði aftur á Twitter um daginn, meðal annars til þess að geta fylgst með því hvenær birtast dómar um bækurnar mínar í útlöndum. Ég hef orðið var við að bókatímaritin í Suður-Evrópu – Frakklandi og Spáni, þar sem mér gengur ágætlega – nota Twitter meira en Facebook. Og þess vegna vakta ég nafnið mitt (þótt ég sé annars ekkert yfir það hafinn heldur að gúgla mig – ég er óttalegur lúði). Og þá sé ég að þessi náungi, þessi með heyrnartólin, er einhver fígúra á Twitter (ef maður gúglar nafninu kemur í ljós að hann er fastagestur í svona „fyndnustu tíst vikunnar“ pistlum) og hann hefur verið að tísta.

Ég er mjög óvanur þessu og finnst þetta svona fremur í dónalegri kantinum. Ég veit að maður er ekki heima hjá sér á kaffihúsi. Einhvern veginn er stærsti kostur góðs kaffihúss sá að manni finnist maður vera heima hjá sér – og mér líður svolítið einsog einhver hafi tekið mynd af mér innum gluggann heima á náttfötunum. Þú veist, ég skil alveg að það sé fyndið – mér meira að segja finnst það fyndið – en mér finnst það líka pínu dick move.

Ekki þar fyrir að það er mjög mikilvægt líka að standa vörð um rétt fólks til að vera fífl. Það má. En mig langaði sem sagt að koma þessu að, að mér þætti þetta fávitaleg hegðun.

Annars er Twitter líka mjög skrítið rými. Undarleg blanda af svona smánandi háði og PC vitundarvakningu og tilfinningasemi. Ég hef ekki orðið var við jafn mikinn in-crowd-isma síðan ég var í menntaskóla. Sem er reyndar líka fyndið í ljósi þess að síðustu daga hefur fólk á twitter mikið verið að bera íslenska menntaskóla saman við hitt og þetta (MR er Hufflepuff, MS er Ravenclaw eða MH er Glasgow Rangers, Versló er Liverpool o.s.frv.).

***

Ég gleymdi gítarleikara vikunnar í síðustu viku. Lommi hefur verið að biðja mig um að hafa John 5 og það er alveg sjálfsagt.

***

Mér finnst sífellt stærri hluti listrýni fara fram á siðferðislegum forsendum. Ég var áreiðanlega búinn að nefna það einhvers staðar hérna. Listaverkum er talið það til lasts að þau séu óþægileg, jafnvel þótt þau eigi augljóslega að fjalla um eitthvað sem er óþægilegt og kanna óþægilega núansa. Annar hver dómur er annað hvort móralskt heilbrigðisvottorð eða fordæming. Þetta er mjög hversdagsleg sýn á listina og verði hún ofan á held ég hreinlega að listin, sem slík, sé dauð og tilgangslaus sem annað en skemmtun. Og þá verður nú gaman að vera til.

***

Jæja. Þetta varð alltof langt. Ég á eftir að skrifa mjög mikið í dag og þarf að koma mér að verki.

Í gær var ég kynnir í Norræna húsinu, þar sem Ásta Fanney, Lommi, Haukur I og Fríða Ísberg komu fram. Ég gisti svo hjá Hauki og eyddi deginum í að leita að Pokemonum í Reykjavík. Í þrjá tíma þrammaði ég um í rigningunni einn með frekar þráhyggjukenndum hugsunum mínum án þess að finna Pokemonana sem ég var að leita að. Svo skæpaði ég við son minn sem útskýrði fyrir mér hvaða Pokemon hann vildi þá fá í staðinn fyrst hinir voru ekki til. Hann verður sjálfsagt ekki síður glaður að vita að einn af þeim sem afgreiddu mig í Nexus var Jón Geir Jóhannsson, ísfirðingur og trymbill Skálmaldar, þótt mér verði kannski ekki fyrirgefið að hafa ekki fengið hjá honum eiginhandaráritun.

***

Kannski er ég hættur að gítarblogga. Ég gæti samt viljað gera einhvern pedalasamanburð hérna bráðum. Ég er svolítið farinn að spila meira aftur á hina gítarana mína. Það er mjög undarlegt hvernig einn gítar getur inspírerað mann mjög mikið einn daginn og verið í algeru uppáhaldi til þess eins að deyja í höndunum á manni þann næsta. Nú er ég mikið að taka í Telecasterinn – djásnið. Ég spila ábyggilega hátt í klukkutíma á dag – að meðaltali – og nýt þess mikið. Oftast er það bara glamur – ég að elta einhverja hljóma og æfa spuna, það er mjög hugleiðandi, róandi.

***

Gærkvöldið leystist upp í annars vegar einlægni vs. kaldhæðni ruglið og hins vegar stelpur vs. strákar ruglið. Hvorutveggja er lúið.

Ég meina samtalið á sviðinu í Norræna húsinu. Ég var eitthvað að reyna að spyrja þau hvernig þau teldu straumana í íslenskri ljóðlist hafa breyst síðustu 15 árin og vakti upp gamlan draug. Niðurstaðan er líka alltaf sú sama – kaldhæðni og einlægni eru alls engar mótsagnir og við erum að smætta sjálf okkur skáldskap hvers annars með því að láta einsog þau séu það.

Hins vegar virðist fólk lítið flækja fyrir sér kynjapælingarnar. Fólk talar alveg hindrunarlaust um „bækur eftir konur“ eða „bækur eftir karla“ einsog það séu skýr hugtök með skýra fagurfræði á bakvið sig og reynsla kvenna og karla tilheyri ólíkum heimum. Það finnst mér í besta falli mikið overstatement – en það er líka mjög algengt overstatement og sennilega þægilegur staður til að taka afstöðu út frá. Ég veit samt ekki hvort það er einhver slagur sem mig langar að taka.

Upplestrarnir voru frábærir.

***

Í vikunni var ég eitthvað að hugsa um muninn á bókmenningu á Íslandi og í Frakklandi – þar sem ég þekki ekki mikið til en samt pínu. Upplifun mín á bókafólki í Frakklandi er að það sé stöðugt að ýta að manni einhverjum obskúr bókum sem maður hefur aldrei heyrt minnst á – það sé beinlínis kúltúrkapítal í því að vera alltaf með eitthvað óþekkt á vörunum. Á meðan að íslenskt bókafólk spyr alltaf hvort maður sé búinn að lesa bókina sem allir eru búnir að lesa. Þannig verður til sameiginlegt samtal um nokkrar (vinsælar) bækur á Íslandi en í Frakklandi verður samræðan alltaf um eitthvað nýtt og óþekkt. Hvorutveggja hefur sína kosti.

***

Það slær mig annars að ein ástæða þess að við lendum svo oft í að ræða þessi óskýru box – nýhil og partus og einlægni og kaldhæðni og strákar og stelpur o.s.frv. – sé sú að það er ekkert skrifað um íslenska ljóðlist. Það eru bókstaflega engar ritgerðir til um Nýhil eða Partus eða fagurfræði í ljóðlist síðustu 20-30 árin – sem margir virðast engu að síður álíta mjög frjóan tíma í íslenskri ljóðagerð. Það er lítið skrifað af krítík – lítil afstaða, sérstaklega allra síðustu árin – en það er líka bara mjög lítið skrifað uppi í háskóla um nokkra einustu ljóðlist og alls ekki þessa. Það er svo lítið búið að flækja og greina málin – og allt endar í einföldun. Nýhil verður kaldhæðin andfeminísk pulsuveisla þrátt fyrir skáldskap Kristínar Eiríksdóttur eða Þórdísar Björnsdóttur og Meðgönguljóð verður feminín einlægniverksmiðja þrátt fyrir skáldskap Ástu Fanneyjar – nú eða Bergs Ebba.

Mér fannst samræðurnar samt skemmtilegar. Mér finnst samræður eiginlega alltaf skemmtilegar – og held að vandamál þeirra sé frekar að þær séu of sjaldséðar (og við öll of óvön því að setja okkur í þessar stellingar, svara fyrir okkur, skilgreina okkur inn og út úr hvert öðru, átakafeimin) frekar en að það sé of mikið af þeim. Og fjórmenningarnir þarna – og fólkið úti í sal, sem tók virkan þátt í þessu – eru ekki beinlínis neinir vitleysingar, þvert á móti. En ég kann ekkert að stýra umræðum – hef aldrei gert þetta áður og lætur það ekki vel.

***

Ég fékk uppgjör fyrir Hans Blævi. Hún seldist bókstaflega ekki rassgat. Helmingi minna en minnst selda skáldsagan mín til þessa. Ég skulda forlaginu pening, en ekki öfugt. Ég veit ekki alveg hvers vegna ég er að þessu.

***

Hluta af mér langar að skrifa tvær bækur á ári – fara í einhvern Cesar Aira pakka og bara skrifa og skrifa og skrifa – og annar hluti vill bara fara og læra bókfærslu eða eitthvað gagnlegt sem maður fær tryggar tekjur fyrir, lesa ljóð eftir vinnu og láta annars skeika að sköpuðu. Ég er langt kominn með nýja skáldsögu og gæti alveg skrifað tvær í ár ef ég bara sleppti því að líta upp. Og ég gæti bara hætt að skrifa á morgun.

***

Annars er ég líka bara ógeðslega þreyttur. Ég svaf mjög lítið í fyrrinótt – áður en ég kom suður – og ráfaði einhvern veginn bara um í dag, einsog draugur í borginni. Hausinn á mér er gatasigti. Þegar ég kem heim ætla ég í bað og ég ætla ekki upp úr því fyrren í fyrsta lagi á sunnudag.

***

Nú styttist í flugið.

Gítarblogg – færsla 12

Af öllu því sem mér finnst leiðinlegt – sem er auðvitað mismikið eftir því hvernig ég er stemmdur, helst vil ég finnast sem allra fæst leiðinlegt – þá þykja mér „smekklegir gítarleikarar“ einna leiðinlegastir. Smekklegur gítarleikur er bara ekki skemmtilegur. Gítarleikur er páfuglasport fyrir alvöru metnaðarfulla montrassa sem vilja hafa hátt. Ef mann langar að vera smekklegur getur maður bara lært að spila á lútu, franskt horn eða eitthvað. Það eru til hljóðfæri sem henta smekklegu fólki mjög vel. Rafmagnsgítar er ekki eitt þessara hljóðfæra.

Þetta verður stutt gítarblogg í dag. Ég er alltíeinu á kafi í nýrri bók og get varla hugsað um annað. Ég er í alvöru svo viðutan að ég gleymi að setja vatn í kaffikönnuna – tekst ekki að strengja saman fleiri en tvær hugsanir í samfellu utan bókarinnar.

En ég lofaði að sýna ykkur Endemi með dálitlu overdrive-i. Ég fór og heimsótti pedalasmiðinn Ásgeir Helga Þrastarson á dögunum og fékk hjá honum alls kyns góðgæti til að prófa. Þar á meðal eru tveir grænir bjögunarfetlar – annar er tubescreamer en ég veit ekkert hvað hinn er. Hann er málaður einsog turtleskarl og er algert yndi. Það er á honum líka boost en ég er minna hrifinn af því þótt það gæti ábyggilega gert eitthvað gagn í hljómsveit. Ég er með báða grænu pedalana í gangi og EP boostið mitt og eitthvað allt of flókið reverb sem Ásgeir lánaði mér líka – en smíðaði ekki – og EQ pedal sem hann smíðaði og er nokkuð lúmskur. Lagið er bara eitthvað sullumbull – ég man ekki á hverju var kveikt í undirspilinu. Sennilega bara eq-inu og kannski reverbinu.

A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on

 

Af Endemi er það annars að frétta að ég þurfti að gefa honum annað settöpp – laga truss rodið og lækka aksjónið og intónera hann upp á nýtt. Ég held að það sé eðlilegt með svona nýsamsettan gítar. Strengirnir hoppa sumir aðeins upp úr söðlunum ef ég djöflast á þeim og ég hlakka til að fá nýju stöngina í Bigsby-ið sem ætti að laga þetta.

***

Ég er mikið að spá í pedölum þessa dagana. Sem er ekki alveg nógu gott því ég er eins hvínandi blankur og maður verður. Ég seldi bæði reverbin mín og vantar nýtt – er með þetta flókna í láni frá Ásgeiri – og það er réttlætanlegt af því ég fékk auðvitað pening fyrir þau sem ég seldi. Sennilega kaupi ég Digitech Polara ef kreditkortið mitt þolir það. Annars langar mig líka í góðan klon pedal – kannski JHS Soul Food eða Mad Professor Sweet Honey. Mig langar í turtlespedalinn frá Ásgeiri og mig langar í Tubescreamer en ég er ekki alveg viss um að ég vilji þann sem Ásgeir gerði – hann er fantagóður en hann byrjar eiginlega á of mikilli bjögun fyrir mig. Þarf einhvern sem nær meiri low-gain blústónum. Ég á samt eftir að gera einhverjar tilraunir með hann, kannski er þetta í boði. Þá vantar mig líka einfaldan eq-pedal. Ásgeirs er frábær og ef ég ætti meiri pening myndi ég kaupa hann líka – en ég held að venjulegur Boss myndi gera mér meira gagn. Hreina rásin á Orange-magnaranum mínum er alveg eq-laus. Í bili er samt ósennilegt að ég hafi efni á öðru en reverbinu og kannski turtlespedalnum (ég hef ekki hugmynd um hvað hann kostar).

***

Dick Dale dó í fyrradag og er augljóslega gítarleikari vikunnar. Hann veit ekkert hvað það þýðir að vera smekklegur.

***

En vegna þess að ég gleymdi gítarleikara vikunnar í síðustu viku þá er tvöfaldur skammtur núna. Hún veit ekki heldur neitt um smekklegheit og er greinilega mjög grobbin (og má vera það, á að vera það).

Þetta varð nú lengra en ég hélt það yrði.

Gítarblogg – færsla 11

Guitar from start to finish.

A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on

 

Hér að ofan eru nokkrar myndir af Endemi – úr ferlinu Það gleður mig að tilkynna að eftir viku spilun er undan fáu að kvarta. Hann helst betur í stillingu en hann gerði í upphafi (og var aldrei nein skelfing) og þarf lítið að fikta í honum jafnvel þó maður noti stöngina til að hífa stakar nótur upp um heiltón – ég hef ekki tekið margar dýfur og engar bombur og sennilega myndi það setja hann af sporinu en bigsby-ið er heldur ekki gert fyrir eitthvert Van Halen spilerí. En hann dugar vel í hömlulítið rockabilly.

Spekkarnir eru þessir:

Búkur: Mahoní með hlyntopp
Háls: Warmoth – wenge með pau ferro fingraborði
Pikköppar: Seth Lover humbökkerar.
Túnerar: Grover með lásum.
Þyngd: 5,1 kg.
Sveif: Bigsby B50 (ég er að bíða eftir s.k. stabiliser, sem hækkar stöngina – nú eru allir strengirnir þræddir yfir hana nema e-strengurinn)
Brú: Hjólabrú (roller bridge)
Skali: 628 mm
Strengir: 10-48 Ernie Ball

Þegar ég tek hann í slipp næst, sem verður ábyggilega fljótlega, þá ætla ég að gera eitt og annað smálegt. Snúran undir outputinu er of löng, hana þarf að stytta og ég þarf að þrengja jack-tengið svo gítarsnúran sitji betur í.

Brúarpikköppinn situr dálítið vitlaust. Ég þarf að taka hann úr og fara með meitil neðan við hann og færa hann 2 mm nær klórplötunni.

Setja nýjar torx skrúfur í pikköppana – stjörnuskrúfurnar eyðileggjast strax. Óskiljanlegt að nokkur velji stjörnuskrúfur yfir torx-skrúfur (nema fyrir lúkkið, en þessar eru svo litlar).

Setja stabiliserinn í svo ég geti haft allan strengina undir bigsby-bilstönginni. Ef þeir fara undir núna helst hann ekki jafn vel í stillingu og ef þeir eru yfir, einsog þeir eru, geta þeir hrokkið upp úr söðlunum ef ég djöflast á honum (eiginlega samt bara ef ég er að snapp-toga í þá).

Hér er svo, einsog lofað hafði verið, tóndæmi. Ég biðst velvirðingar á söngnum, einsog venjulega. Sem betur fer heyrist illa í honum. Og ykkur að segja fannst mér erfiðast að muna textann (ég er með eitthvað Ragga Bjarna heilkenni). Ég dútlaði þetta alveg upp í 11 mínútur en klippti halann niður svo þetta endaði í rúmum 5.

Spilað er í Orange Rocker 15 Combo – hreinu rásina. Kveikt á TC Electronics Hall of Fame Reverb Mini (með spring reverb toneprinti) og EP Booster. Stillt á báða pikköppa – nema þarna þegar ég er að dútla þá skipti ég eitthvað fram og til baka. Tekið upp á iPhone – sennilega er sándið betra í raunveruleikanum!

Hugsanlega tek ég svo upp eitthvað skítugra næst.

Gítarblogg – færsla 10

Þá er gítarinn formlega tilbúinn. Ef ég væri að gera hann fyrir einhvern annan væri þetta augnablikið sem ég myndi afhenda hann. Tíu vikur virðist þetta hafa tekið – auk bollalegginga frá hausti og smá tilrauna, t.d. Mola (sem ég kannski segi aðeins frá hérna síðar þótt einhverjir hafi séð hann á Facebook).

Hann heitir Endemi. Áletraður „heyr á endemi“ að framan og aftan. Heyr og Endemi var eða er dúett sem við Haukur Már stofnuðum fyrir Menntstock árið … 1999. Tuttugu ára gamall dúett. Við komum fram í þetta eina skiptið, stóðum okkur fremur illa á tónleikum miðað við hvað við vorum æðisgengnir á æfingum og lögðumst í dvala. Þetta var einhvers konar leiðslupopp, held ég, impróvíserað. Við höfum aðeins sent á milli okkar lagabúta í vetur og það var gaman – en annars höfum við hvílt okkur sleitulaust frá því þarna á Menntstock (þar sem ég kom líka fram með Binna blús og búgíbandinu – íklæddur humarbúning, enda að dimmitera þetta kvöld – Binni blús, oftar þekktur sem Binni bassi, er bassaleikarinn í Beebee and the bluebirds, þið afsakið ofstuðlunina í þessum sviga).

Einhvern tíma var því logið að mér að endemi þýddi bara andskotinn.  Heyr á endemi = hlustaðu á andskotann. En það er ekki víst að það sé satt. Endemi er kannski bara útgáfa af einsdæmi. Ég held mig við að báðar útgáfurnar séu réttar.

En að smíðinni. Það voru ansi mörg skref tekin í vikunni og raunar fleiri en ég hefði átt að taka. Einsog venjulega bar óþolinmæðin mig ofurliði. Hann var ekki nógu vel þornaður þegar ég byrjaði að bera á hann tung olíuna – svo ég hætti og byrjaði aftur daginn aftur en það var sama sagan. Ég bar svolítið meira á hann samt, leyfði honum að þorna, pússaði niður og alltaf þegar ég setti meiri olíu kom bæs í klútinn (ég gerði þetta allt með klútum, ekki penslum). Þetta finnst hálfsænsku börnunum mínum mjög sniðugt af því að bæs þýðir auðvitað kúkur á sænsku.

Loksins kláraðist þetta nú samt og þá keypti ég bílabón og bónaði hann. Ég gætti mín að kaupa sem einfaldast bón – ekki eitthvað sem djúphreinsar og rústver og guð veit hvað annað. Þegar það var búið skrúfaði ég hann allan saman og fór að leika mér á hann – laga intóneringuna og skoða hvernig hann virkaði. Aksjónið var allt í lagi en mér tókst að ná því enn neðar með því að setja hallann á hálsinum alveg í 1,5 gráður (frekar en eina) og hækka brúna á móti.

Næst var rafmagnið. Og þá skrúfaði ég hann allan í sundur aftur. Mig vantaði 0.047 míkrórafata lágspennuþétti á tónpottinn – tékkaði á honum í Pólnum en það var eitthvað tæpt, „kannski“ í draslhaug einhvers staðar en hægt að panta. Háli sagði að Geiri ætti kannski og ég hafði samband við Geira sem reddaði þessu. Og svo fór ég bara að lóða.

Ég hafði aldrei lóðað neitt á ævinni áður en var með teikningu. Það voru tvö vandamál – annars vegar eru Seth Lover pikköpparnir með vintage-vírum, sem þýðir að í stað þess að vera með fjóra víra eru þeir með einn og skermurinn utan um þennan eina er jörð. Ég fann teikningar sem gerðu ráð fyrir svona vírum en engar sem voru með einum hljóðstyrkspotti og einum tónpotti – þær voru allar með tveimur hljóðstyrkspottum. Internetið fullyrti samt að hitt ætti að vera í lagi, ég gæti elt aðra teikningu með smá breytingum.

Hitt vandamálið var að pikköppaskiptirinn var fyrir misgáning í innkaupum „solderless“ EMG skiptir sem passar við EMG kerfi sem gerir ráð fyrir að maður geti bara stungið hlutunum í samband hverjum við annan. Í stað þess að á skiptinum væru fjórir eðlilegir pólar í samræmi við allar teikningar var eitt tengi og út úr því kom ein snúra og inn í henni voru fjórar snúrur sem samsvöruðu þessum pólum. Ég klippti tengið af öðrum endanum og sleppti vírunum út.

Mér tókst að tengja þetta einsog á teikningunni og þegar ég setti í samband í fyrsta sinn kom hljóð úr öðrum pikköppnum en ekkert úr hinum og ekkert þegar ég stillti á báða. Ég fór að laga það og það varð bara til þess að hljóðið úr hálspikköppnum, sem hafði virkað, hvarf. Ég hafði samband við Hála og hann mætti til mín í gær með tinsugu og fjölmæli og við reyndum að laga þetta en fundum ekkert út úr neinu. Það hjálpaði kannski ekki til að dóttir hans Laufey vildi ómögulega leyfa pabba sínum að sitja einum og þýddi ekki að bjóða henni teiknimyndir, leikföng eða góðgæti.

Þá var kallað í Geira, sem er menntaður í þessum fræðum, og hann kom og sat með mér í ábyggilega tvo tíma að reyna að finna út úr þessu. Á endanum tókum við allt í sundur og settum það saman upp á nýtt – ekki alveg einsog á teikningunni, en samt þannig að sama lógík gengi upp (það hefði ég aldrei getað séð, enda skil ég þetta ekki alveg). Og þá kom hljóð úr honum!

Pikköpparnir voru lausir og eitt og annað í rugli eftir að ég tók hann í sundur en það var kominn kvöldmatur (Aram og Aino elduðu núðlusúpu upp úr heimilisfræðibókinni hans Arams). Eftir matinn gekk ég frá í fljótheitum og fór svo að sinna Endemi aftur – rétt náði að skrúfa allt saman og spila nokkra tóna áður en Gylfi í næsta húsi kom að sækja okkur Nödju til að fara í bíó (Vice, fín).

Eftir bíó fór ég svo strax að leika mér aftur en byrjaði auðvitað á því að slíta streng. Í morgun keypti ég nýja strengi, setti blý í hnetuna svo strengirnir renni betur og hann verði síður falskur þegar ég tek í bigsby-tremoloið. Þá ákvað ég að prófa eitt ráð – til þess að minnka núning ákvað ég að rekja strengina yfir bigsby stöngina fremur en yfir. Þá fara þeir beinna yfir búkinn aftan við brúna og mér er sagt að það hjálpi til. Þetta gekk samt ekki með granna e-strenginn – sem stökk þá alltaf upp úr brúarslottinu, svo hann er strengdur á hefðbundinn máta.

Skýringarmynd! :

Með þessu fæst næg spenna á e-strenginn en hinir eru ólíklegri til að verða falskir. Ég gæti líka þurft að víkka slottin á hnetunni.

Ég vigtaði líka gítarinn og hann er 5,1 kg með öllum búnaði og ól. Miðað við SG-inn sem er 3,2 kg. Mér skilst að gömlu þungu Les Paularnir séu yfirleitt ríflega fjögur kíló. Ég finn engan sem er meira en 4,5. Svo þetta er níðþung skepna og þykkt boddí – þótt hann sé hálfur holur.

Aksjónið er 0.7 á háa e-strengnum og 0.95 á lága e-strengnum – sem er það sama og á SG-inum (Gálkninu) og lægra en á Telecasternum (Djásninu). Ég hef ekki reynt að lækka það meira en yrði ekkert hissa þótt það væri ekkert mál. En þetta er enginn shreddaragítar og tónninn skiptir meira máli en hraðinn.

Hér eru svo nokkrar nærmyndir fyrir þá sem vilja rýna í gallana.

Maður þarf tvennt til að geta gert eitthvað svona og það er þolinmæði, sem ég á lítið af, og góða að – maður gerir ekki rassgat einn. Sem betur fer er ég umkringdur góðu fólki. Geiri og Háli redduðu mér með rafmagnið, Óli Stef gullsmiður gróf í krómplötuna fyrir hálsinn, Valur bróðir lánaði mér verkfæri og veitti ómetanleg ráð, Haukur Már hjálpaði mér að ganga frá teikningum að bæði búknum og klórplötunni, Smári fór með mér margar ferðir að fræsa og hefla, Doddi í Fab Lab var afar rausnarlegur á tíma sinn þegar við vorum að fræsa útlínurnar á búknum og hlyntoppnum, Þröstur í trésmiðjunni leyfði mér að nota pressuna sína, Aram hjálpaði mér að nefna gripinn og Aino veitti aðstoð við litablöndun. Þá eru ótaldir allir þeir sem kommentuðu á Facebook eða sendu mér skilaboð og veittu stuðning og ráð (eða spurðu ráða og juku mér þannig sjálfstraust) og Nadja sem knúsaði mig þegar ég eyðilagði eitthvað og var miður mín.

Tengdur. Wired.

A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on

 

En einsog ég segi – ef ég ætlaði að afhenda þennan gítar myndi ég afhenda hann í dag. En vegna þess að ég er ekki að afhenda neinum hann er ævintýrinu auðvitað ekki alveg lokið. Ég henti inn fyrstu tónunum sem ég spilaði á hann á instagram en nú í vikunni ætla ég að leika mér aðeins að því að sjá hvað ég get kreist út úr honum og í næstu viku verða tóndæmi.

***

Gítarleikari vikunnar er meistari bigsbysins – Brian Setzer úr Stray Cats.