Á sama tíma og fjölmiðlun verður grynnri, einfaldari og ótrúverðugari – vegna þess að blaðamenn bera ekki meiri virðingu fyrir lesendum sínum en svo að þeim finnst alltílagi að matreiða bara ofan í þá grímulausan áróður fyrir eigin skoðunum – verður sagnalistin meiri skemmtun, hlátur, snappíheit, grátur og kaþarsis, og minni list, minni óþægindi og furðulegheit. Þetta er ekki allt hreint Hollywood – ekki allt vondir læra villu síns vegar eða góðir verða fyrir illsku heimsins. Sem er sósíalrealíska módelið.   Eins konar bylting-í-krafti-meðlíðunar – trú fyrir sakir passíu Krists. Margt af þessu er fyrst og fremst nógu kunnuglegt að byggingu til að valda okkur ekki nema passlegum óróleika – eitthvað svona voðalega eru allir breyskir og áhugaverðir, en samt á máta sem er þægilega fyrirsjáanlegur. Sögupersónur eru „samkvæmar sjálfum sér“ og koma aldrei á óvart, ekki í raun og veru.

Það er alltaf verið að fróa okkur. (Og sennilega er ástæðan ekki sú að við lifum öll svo skelfilegum lífum, með fullri virðingu fyrir þeim sem eiga um sárt að binda).

Verk einsog t.d. Three Billboards verða fyrir þessari lesblindu – eru sökuð um að „skorta hjarta“, einsog einn íslenskur rithöfundur orðaði það (á svona 20 ólíkum facebookþráðum). (Jói Heiðdal tók verkið og sagnamódel þess fyrir á Starafugli á dögunum.) Vegna þess að þessar sögur einfalda ekki heiminn niður í eina af sirka fimm mögulegum sögum. Eða tíu. Í mesta lagi tólf. Reyndar var Three Billboards innan þess mengis, ein af þessum tólf, það vildi bara til að við höfðum ekki heyrt hana um hríð og héldum að hún væri þar með ófyrirgefanlegt sorp.

Föstudagsmyndin, sem í dag var á laugardegi, var kvikmyndin Barnyard – Bondegården, heitir hún á sænsku, sem er tungumálið sem við horfðum á hana á (börnin mín eru tvítyngd). Aðalsöguhetjan í Bondegården er beljan Otis. Otis er ekki kvenbelja – hann er karlbelja. En samt ekki naut. Einsog sjá má á myndinni er hann með júgur. Þetta varð okkur Aram að tilefni til þess að ræða stuttlega – en þó – hvað það sé að vera intersex.

Ein þeirra athugasemda sem stundum eru gerðar við sögur sem sagðar eru af minnihlutahópum – eða jafnvel meirihlutahópum, ef þeir eru ekki í kastljósinu og ekki jafn „hreinn strigi“ og við „hvítu fullfæru heilsuhraustu vesturlensku sísheterókarlmennirnir í efri-millistétt eða ofar, á miðjum aldri eða neðar“ – er að sögurnar um einstaklinga sem tilheyra þeim hópum snúist bara um þau ídentítet. Þið fattið – saga af homma er bara hommasaga, saga af konu er konusaga o.s.frv. Saga af pípara er saga af hvítum síshet […] eða neðar sem auk þess er pípari. Ef maður er sögupersóna fær maður bara eitt ídentítet sem maður getur svo smurt ofan á grunnformið, sem er þessi þarna svokallaði hreini strigi. Hvers vegna, spyrja sumir, er ekki bara sögð saga af homma/konu/innflytjanda þar sem ídentítetið er aukaatriði – kemur ekki einu sinni upp. Ég sá þessu fagnað í umsögn um einhverja sci-fi bók nýlega – þar kemur í ljós um miðja bók að einhver „kona“ pissar standandi og sá sem tekur eftir því bara ypptir öxlum og segir „já einmitt“ og svo kemur það ekki frekar við sögu.

En sagan af Otis – sem er raunar arfaslæm, þetta var mjög leiðinleg mynd og ef Aino væri ekki bara fjögurra ára hefði ég átt erfiðara með að fyrirgefa henni fyrir að láta mig sitja undir henni – er einmitt saga þar sem þetta intersex eða kynsegin ídentítet er (nærri því) algerlega látið vera. Sagan af Otis fjallar um allt annað en það hvers vegna hann (og fósturpabbi hans, og raunar sonur líka í lokin) er með júgur eða hvað það þýði í félagslegu samhengi bóndabæjarins.

Höfundurinn hefur látið hafa eftir sér að þetta sé merkingarlaust. Honum hafi bara fundist júgur fyndin – börn þekkja beljur, þær eru með júgur, fyrir börnum eru naut önnur dýrategund, segir hann. En á einum stað sitja þeir nú samt saman Otis og Ben, pabbi hans, og horfa á stjörnur. Ben rifjar upp við Otis að einu sinni hafi hann oft setið þarna með systur hans og horft á þessar sömu stjörnur. „En ég á enga systur“, segir Otis. „Nú, þá hlýtur það að hafa verið þú“, segir pabbinn. Og þeir hlæja dátt.

Svona getur nú sköpunarverkið oft verið gáfaðra en höfundur þess. (Það var fyrst og fremst allt annað við þessa mynd sem var leiðinlegt, nema kannski 90’s retróið, og kannski var ég bara illa upplagður, ég tek þetta allt til baka þetta var áreiðanlega fín mynd).

Í gærkvöldi horfði ég á In Einem Jahr mit 13 Monden eftir Rainer Werner Fassbinder. Kvikmyndagagnrýnandi New York Times sagði að fyrir óinnvígða Fassbinderáhorfendur væri þetta sennilega einsog að horfa á „martröð um martröð“ – og það má til sanns vegar færa, að minnsta kosti um hluta af myndinni, sem er bæði fýsískt og andlega brútal.

Myndin fjallar um Elviru / Erwin. Ég veit ekki hvernig væri best að kynja Elviru / Erwin – öll fornöfn eru hugsanlega röng, en hér nota ég hán í krafti þess að það geti líka verið meira hlutlaust fornafn en þriðjakyns.

Í opnunarsenunni er hán í karlmannsfötum að reyna að kaupa kynlífi af vændiskarli. Þau fara í hörkusleik en þegar vændiskarlinn uppgötvar að hán er ekki með typpi verður hann reiður og hann og vinir hans í hórbransanum berja Elviru/Erwin, sem hrökklast heim til sín þar sem háni mætir kærastinn. Sá hefur verið fjarverandi síðustu sex vikurnar og verður reiður að sjá hán í karlmannsfötum, þau rífast og hann kallar hána aumingja og viðurstyggð og feita og ljóta, pakkar svo saman og fer. Elvira/Erwin eltir hann út í örvæntingu, endar uppi á húddi bílsins, kastast af og er svo hughreyst af vændiskonunni Rote Zore.

Þau fara að spjalla saman og kemur upp úr kafinu að hán hefur áður starfað sem slátrari. Það finnst Zore vera dauðabransi, en Elvira/Erwin mótmælir, og býðst til að fara með hana í sláturhús. Sláturhússenan er fáránlega brútal – kýrnar fara lifandi í vél, eru hengdar dauðar upp og skornar á háls svo blóðið fossar út úr þeim, og svo eru þær húðflettar og verkaðar. Það er ekkert gert til að hlífa áhorfandanum – og allan tímann flytur Elvira/Erwin ljóð eftir Goethe yfir konsert eftir Händel.

Næst fara þær að mig minnir í klaustur þar sem Elvira/Erwin var sem ungur drengur og ræða við nunnuna. Nema að senan þar sem barnsmóðir Elviru/Erwins kemur hafi verið næst. Þá kastar hún blaði með viðtali við hán í hán – þar sem hán hefur sagt alls konar hluti um einhvern valdamikinn mann, sem hán lofar að fara að tala við og lempa svo dóttir þeirra þurfi ekki að óttast („hefur hún ekki mátt þjást nóg!“ æpir móðirin).

Á endanum kemst hán til þessa valdamikla manns, sem reynist vera samstarfsfélagi háns úr slátrarabransanum. Dag einn, í gamladaga, hafði hán játað ást sína á honum og hann svarað: Ef þú bara værir stelpa. Þá tók hán sig til og fór til Casablanca og lét breyta sér.

Ég ætti kannski ekki að segja allan söguþráðinn? Þetta endar í öllu falli ekki vel og það er erfitt að henda reiður á öllu, ekki endilega vegna þess að söguþráðurinn sé svo flókinn heldur vegna þess að senurnar eru oft svo skrítnar og ógurlega hlaðnar – maður veit aldrei með hverju maður á að vera að fylgjast.

Kvikmyndagagnrýnandi New York Times, sem ég vitnaði í áðan, skrifaði dóm 1979 sem var áhugaverður að mér þótti – ekki bara vegna þess að hann sé að mörgu leyti skynugur og ástríðufullur, heldur líka vegna þess hve sjónarhornið er gamalt. Þannig eyðir hann púðri í að tala um að Elvira/Erwin sé vaxið einsog „quarterback“ og því geti engir hormónar breytt, sem er í senn auðvitað transfóbískt en líka bara líffræðilegur misskilningur. Þótt Hollywood stjörnur árið 1978 hafi verið næstum jafn grannar og fitt og þær eru í dag (en samt ekki alveg – einsog sjá má á muninum á leikurunum í Rocky Horror 1975 og 2016, meira að segja hinn fimmtugi Páll Óskar er ábyggilega í betra formi en hinn 29 ára Tim Curry) þá voru konur samt alveg jafn alls konar í laginu þá og nú, og þótt karlar séu heilt yfir sennilega kubbslegri, þá hef ég líka þekkt fullt af kubbslegum konum í gegnum tíðina.

Hitt sem sló mig er að gagnrýnandinn kallar Elviru/Erwin alveg umbúðalaust skrímsli. Það sló mig vegna þess að ég hafði velt því fyrir mér sérstaklega á meðan ég horfði á myndina hvort hán væri presenterað sem slíkt og komist að öndverðri niðurstöðu. Hán er vissulega kaos og jafnvel úrhrak – en úrhrak er maður fyrir sakir þess að aðrir sjá mann sem skrímsli, ekki vegna þess að maður sé skrímsli í eðli sínu eða ákvörðunum. Hán er fórnarlamb nær óskiljanlegrar hvatvísi, sennilega ástsjúkt og bælt og guð veit ekki hvað – en hán er samt ekki skrímsli og (að mínu afar faglega mati) ekki heldur geðsjúklingur af neinu tagi, heldur bara þjáð. Þá verður skrímslaeinkunnin enn óskiljanlegri þegar tekið er tillit til þess að kvikmyndin er viðbragð við sjálfsmorði eins af elskhugum Fassbinders, Armins Meiers, sem mun hafa drepið sig eftir að honum var ekki boðið í 33 ára afmæli meistarans.

Myndin er meistaraverk og sympatísk – en ég veit ekki hvort það er hægt að tala um að hún fjalli beinlínis um trans eða kyn, nema sem aukabúgrein sorgarinnar og líkamans. Elvira/Erwin er fyrst og fremst samkynhneigður karlmaður – hán kaupir sér kynlíf klætt einsog karl vegna þess að þá skammast hán sín síður, háni finnst það eðlilegra – sem tók mjög afdrifaríka og örvæntingarfulla ákvörðun. „One way ticket“ sagði alltaf læknirinn heimildamyndinni Made in Bangkok, sem ég horfði á um daginn – það er að vísu ekki alveg satt, en það er sama. Kynskipti – og þetta hljóta að teljast kynskipti frekar en nokkur „leiðrétting“ – eru ekki fullkomlega óafturkræf en maður snýr aldrei aftur í sama líkama og maður yfirgaf. Þá er erfiðara að búa til limi en píkur, skilst mér.

Hún spyr samt auðvitað að kyni. Ég t.d. veit ekkert hvað ég á að segja um kyn háns. Það kemur heldur hvergi beinlínis fram að hán vilji ekki vera kona – ekki frá hán að minnsta kosti, þótt aðrar sögupersónur ræði það. Rote Zore neitar t.d. þeirri kenningu vinar síns að Elvira/Erwin hafi alltaf verið kona innra með sér. Verður maður kona bara fyrir að vera með píku? Verður maður trans bara fyrir það að skipta um líkamskyn? Ég bara veit það ekki. En það þarf svo sem ekki að vera hægt að svara öllum spurningum heldur.

En myndin fjallar fyrst og fremst um örvæntingu og sorg og einmanaleik – og, einsog margir hafa sosum bent á, fjallar hún líka um sálarlífið í eftirstríðs Þýskalandi (einsog næstum allt sem gerðist þar í fimmtíu ár). Um eftirköst helfararinnar í lífi gerendanna, að vera úrhrak meðal þjóða, um klofna þjóð, um frið og stríð og kaos og kreppta hnefa, grátur og gnístran tanna.

Hans Blær fjallar kannski, einsog ég hef hugsanlega sagt einhvers staðar, alls ekki um að vera intersex eða trans – en það er þó mikilvægur faktor í bókinni. Hans Blær fjallar um ídentítet og sjálfsmynd, hvernig hún verður til og hvernig maður bregst við því að láta þvinga henni upp á sig – hvernig maður streitist á móti og hvernig maður spilar með, spriklar, djöflast. Öllum sjálfsmyndum fylgja fordómar og öllum sjálfsmyndum fylgja jákvæðar og neikvæðar steríótýpur – bæði sem koma að utan og aðrar sem maður internalíserar. Einu sinni hefðu allir verið vissir um að svartir transmenn ætu börn – nú skiptist heimurinn meira í þá sem telja að svartir transmenn séu móralskt rangir og þá sem telja að svartir transmenn hljóti allir að vera frjálslyndir vinstrimenn.

***

Nema hvað. Ég er svolítið fókuseraður á intersex hlutann þessa dagana vegna nokkurra bóka sem ég er að lesa.

***

Ef ég skil rétt það sem ég hef lesið í Bodies in Doubt: An American History of Intersex, sem fjallar um sögu intersex í Bandaríkjunum, þá mætti skipta  þeirri sögu niður í þrjú skeið (eða fjögur, ef við viljum skilgreina samtímann líka).

Fyrsta skeiðið lýsir sér í yfirnáttúrulegri eða trúarlegri sýn á líkamann. Líkaminn kemur frá guði og á sér þannig fullkomna mynd – karl eða kona, sköpuð í guðs mynd – og allt sem liggur þar á milli er einfaldlega óskapnaður. Óskapnað læknar maður ekki eða bætir en maður getur varað við honum eða undirstrikað hann og gert hann útlægan (borið hann út eða brennt hann á báli). Hér mætti nefna líka meðferðina á Thomas/ine Hall sem var intersex manneskja sem hafði lifað sem bæði kona og karl og skipti reglulega. Þegar upp um hán komst, árið 1629, var hán beinlínis dæmt til þess að ganga í karlmannsfötum en með skuplu og svuntu. Í einhverjum skilningi er verið að banna hán að „villa á sér heimildir“ þarna og ætlaðar afleiðingarnar voru áreiðanlega félagsleg útskúfun (eða það þótti í það minnsta fullkomlega eðlilegur fórnarkostnaður). Hán er svipt réttinum til þess að skilgreina kyngervi sitt sjálft – sem raunar allir voru sviptir á þessum tíma, konur gengu ekki í buxum og karlar ekki í kjólum. Það er ekki vitað hvort hán var í raun útskúfað því það spyrst ekkert til háns frekar. Afdrif háns eru auðvitað getgátur, en það má ímynda sér að hán hafi bara látið sig hverfa og lifað lífinu undir öðru nafni annars staðar.

Annað skeiðið er náttúrulegt eða lífvísindalegt. Þá leitast vísindamenn við að finna hið „rétta“ líffræðilega kyn intersex fólks út frá náttúrulegri eða vísindalegri aðferð. Í mörgum tilvikum var hægt að velja einhver einkenni til að ganga út frá og draga svo bara línu – en það hafa alltaf komið upp tilvik þar sem jafnvel ströngustu skilgreiningar hafa ekki dugað læknum til að skipa fólki í boxin sín, og þau eru algengari en margir ímynda sér (intersex fólk er um 1,7% mannfjöldans, álíka margir og eru rauðhærðir, og um einn af hverjum tvö þúsund er með óljós eða margræð ytri kynfæri). Læknarnir tókust á um skilgreiningar algerlega án tillits til félagslegs samhengis eða vilja skjólstæðinga sinna. Lengst af er (merkilegt nokk, þótti mér) ekki miðað við ytri kynfæri heldur kynkirtla – eggjastokka eða eistu. Þannig var fólki með píkur og eistu (innanísér) gert að vera „karlmenn“, alveg sama hvort það var vant því að lifa sem karlar eða konur. Að einhverju leyti voru gerðar tilraunir til þess að láta líkamann „samræmast“ sjálfum sér með uppskurði en það var líka afar umdeilt, ekki síst vegna þess að á fyrirhluta þessa tímabils (sem er kannski frá 1800 og fram að seinna stríði) lifði ekkert æðislega mikið af fólki af sína uppskurði.

Þriðja skeiðið er þá súpranáttúrulegt eða sálfræðilegt. Þráhyggjur líflækna eru lagðar til hliðar eftir því sem félagsvísindin og sálfræðin verða sterkari. Nú skiptir innra byrði líkamans – hinn duldi sannleikur líflækninganna – minna máli og hið ytra byrði, það hvernig líkaminn hefur litið út og hvernig skjólstæðingurinn og þeir sem nærri honum standa hafa upplifað hann, meira máli. Einstaklingur með píku og eistu er þá miklu frekar kona en karl. Meira að segja vilji skjólstæðingsins fer að skipta miklu máli, sérstaklega eftir því sem líður á 20. öldina. Hið félagslega dómínerar hins vegar með áherslu sinni á normalítetið – og á sama tíma fer líflæknum mjög fram í skurðtækni. Líffærum einstaklinga – oftar og oftar barna – er breytt í samræmi við það sem læknar (og/eða foreldrar) meta vera næst lagi. Það er námundað að næsta kyni, svo að segja, út frá útliti kynfæra og möguleikum til breytinga í aðra hvora áttina.

***

Upp úr 1950 fer sálfræðingurinn John Money á John Hopkins að láta til sín taka í þessum heimi, með alls konar kenningar, meðal annars um sveigjanleika kyngervis barna fram að átján mánaða aldri. Hugmyndir hans urðu frekar fljótt að grunnafstöðu heilbrigðiskerfisins í Bandaríkjunum, með einhverjum (misgáfulegum) tilbrigðum. Sennilega hefur hann unnið alls kyns kraftaverk þegar kemur að hugmyndum okkar um kyngervis í dag – að það gæti yfir höfuð verið sveigjanlegt var alveg nýtt. Hann skrifaði líka margt mótsagnakennt um tvíhyggju kynjakerfisins – ég hef ekki pælt mig í gegnum frumritin en mér sýnist fljótt á litið hann hafa litið svo á að þótt kynin þyrftu í „prinsippinu“ ekki að vera bara tvö (heldur gætu verið á rófi) þá væri félagslegur veruleiki skjólstæðinga hans langt í frá tilbúinn fyrir slíkt, þeir yrðu áreiðanlega fyrir aðkasti og svo framvegis (sem var svo engan veginn í samræmi við hans eigin gögn eða einu sinni túlkun hans á þeim gögnum). Og þar með væri best að stefna bara að hreinum línum.

Þá var Money líka vinsæll meðal femínista enda þóttu kenningar hans ýta stoðum undir þær hugmyndir að uppfóstrun væri sterkari en líffræðin – að, einsog Simone de Beauvoir orðaði það, maður fæddist ekki kona heldur yrði maður kona. (Eða, þú veist, kona yrði kona, eða nei, því hán var ekki orði … gleymiðessu).

Money varð frægastur fyrir aðgerð sem hann vann á átta mánaða gömlum dreng sem hafði orðið fyrir óhappi (trigger warning!) við umskurð svo hann missti liminn. Hann sannfærði foreldra drengsins um að best væri að breyta honum bara í stelpu og gerði það. Brenda, einsog hann hét, átti hins vegar ekki sjö dagana sæla, og eftir að foreldrar hans sögðu honum frá öllu saman fór hann í (aðra) kynskiptiaðgerð og gerðist karl. Hann tók svo saman höndum við einhvern óvinaprófessor Moneys seint á tíunda áratugnum, þeir birtu ritgerð til að afsanna kenningarnar. David Reimer, einsog hann hét á fullorðinsárum, framdi svo sjálfsmorð árið 2004.

Money er sá sem ábyrgastur er fyrir öllum þeim kynfæralimlestingum – einsog við köllum þær nú – sem framdar eru á intersex ungabörnum, með þeim rökum að þau muni upplifa sig í samræmi við kyn sitt ef gripið er í taumana fyrir 18 mánaða aldur (en annars verða fyrir fordómum samfélagsins og þjást af geðsjúkdómum – sem, bara svo ég endurtaki það einu sinni enn, er alls ekki raunin skv. rannsóknum). En Money er líka sá sem ber einna mesta ábyrgð á uppgangi trans-lækninga á seinni hluta 20. aldarinnar – sá sem bjó til flest hugtökin og barðist fyrir stofnun The Gender Idenity Clinic á Hopkins spítala árið 1966. Ein af mótsögnunum í kenningum hans hefur þá með það að gera hversu mikla virðingu hann bar fyrir fullorðnu fólki sem kaus að leiðrétta kyn sitt eða skipta (á meðan hann trúði því samtímis að slík leiðrétting eða skipti hjá börnum eldri en 18 mánaða myndi gera börnin vansæl og/eða klikkuð). Hann er hálfgert illmenni í intersexheiminum en hetja í transheiminum.

Money er líka mikill óvinur femínistans Janice Raymond, sem skrifaði The Transsexual Empire og kemur nokkuð fyrir í Hans Blævi. Raymond fagnar því í formála endurútgáfu bókarinnar 1994 að upprunaleg útkoma hennar, 1979, hafi orðið til þess að John Hopkins hafi lokað The Gender Identity Clinic. Og sennilega var það rétt, bókin var gríðaráhrifamikil og Raymond fagnað sem femíniskri hetju alveg fram yfir aldamót. Hún nefnir reyndar líka að skrif Moneys um pedófílíu hafi sett blett á stofnunina og það var áreiðanlega líka rétt. Hann var sem sagt ekki alfarið mótfallinn kynferðislegu samneyti fullorðinna við börn – þetta er þá önnur bókin sem ég les í röð þar sem slíkar hugmyndir koma fram (hin var Gaga Feminism eftir transmanninn J. Jack Halberstam).

Svona er nú fólk margbrotið.

***

Fjórða skeiðið væri þá núna. Kannski mætti kalla það félagslega skeiðið, félagsnáttúrulega skeiðið. Og gengur þá (loksins, loksins, segja að minnsta kosti flestir nútímamenn, en ætli framtíðinni finnist við ekki samt skökk og rugluð) út á að lækna fremur samfélagið af fordómum sínum en intersex fólkið af kynfærum sínum eða kynkirtlum.

Því er stundum haldið fram að sögur af kynsegin persónum séu ævinlega af sama slagi – þetta séu sögur af vondu fólki sem er fullt af perversjónum og sem hlýtur makleg málagjöld (les: það deyr) – einhvers konar hliðarpródúkt af veruleika sem er (og var enn meira) fordómafullur og óttasleginn.

Ég held það sé nokkuð til í þessu á meðan verið er að tala um litlar hliðarpersónur eða einhliða antagónista í eldri bókmenntum – sennilega mestmegnis fyrir sjöunda áratuginn – eða ódýrum sjoppureyfurum. Og raunar líka úr sannsögubókmenntum, til dæmis læknalitteratúr frá nítjándu öld, þar sem kynsegineinstaklingum er oft lýst sem pervertum eða fólki sem gæti orðið perversjónum að bráð verði kyn þeirra ekki sæmilega ákvarðað eða lagfært. Því ef maður gat bara verið kona eða karl, og það var viðurstyggð að stunda samkynhneigð, var mjög mikilvægt að komast að því hvort maður væri svo maður færi nú ekki óvart að ríða í óþökk drottins almáttugs – eða konur færu að kjósa eða gera eitthvað annað sturlað.

***

[Þetta er alger hliðarfrásögn og ekki í samhengi við restina, en áhugavert samt, eins konar neðanmálsgrein sem hangir í brotinu á undan: sagan af intersexmanneskjunni Levi Suydam sem ætlaði að kjósa árið 1843 í Connecticut, en var stoppað af og sakað um kvenmennsku. Læknir framkvæmdi skoðun á háni sem leiddi í ljós að hán var með lim svo hán fékk að kjósa. Þegar stóð svo á einu atkvæði milli Whigs og Tories var hán rannsakað betur og þá kom í ljós að hán fór á túr og hafði alls kyns „kvenlega“ eiginleika; og þá var atkvæði háns dæmt ógilt.]

***

Hins vegar held ég að aðalsöguhetjur geti aldrei verið þetta einfaldar – aðalsöguhetjur hljóta að vera margbrotnar (í margræðum skilningi þess orðs) og sumar þeirra sem eru kynsegin hljóta að leika sér með ótta annarra við kyngervi þeirra eða annarleika, og njóta þess að ógna þröngsýnum smáborgurum, af háði og heift – bæði í von um að fá einn daginn að vera með og í von um að fá einn daginn að mölva kerfið (eftir því hvern þú spyrð). Og stundum sennilega bæði og allt í senn. Meira að segja kynsegin aðalsöguhetjur í eldri bókum passa ekki endilega svo vel við klisjuna, þegar þær eru í forgrunni – a.m.k. ekki einsog klisjan hefur verið presenteruð fyrir mér.

***

Nema hvað. Ég fór eitthvað að skoða sagnasafnið mitt og reyna að flokka kynsegin/intersex/trans sögupersónur eftir því hvort þær legðu sig fram um að vera ógnandi á þennan máta eða hvort þær væru jafn vel frekar saklausar eða miðjusæknar í hegðun sinni og atferli. Og fann bara fjögur ógnandi „skrímsli“ í þremur bókum (Cock and Bull er tvær nóvellur í sömu bók). Fyrir utan þá auðvitað Hans Blævi.

„Skrímsli“: 

 • Myra Breckinridge í samnefndri bók Gores Vidal (ég fjallaði um bíómyndina hérna)
 • Frank-N-Furter í Rocky Horror Picture Show
 • Hann og hún í Cock and Bull eftir Will Self.

Hlutlausir eða góðmenni: 

 • Orlando í samnefndri bók Virginiu Woolfe
 • Auður Ögn í Sögu af stúlku eftir Mikael Torfason
 • Abel í Móðurhug eftir Kára Tulinius
 • Cal Stephanides í Middlesex eftir Jeffrey Eugenides
 • Brandon Teena í Boys Don’t Cry í leikstjórn Kimberly Peirce
 • Glen/Glenda í Glen or Glenda í leikstjórn Eds Wood
 • Dil í The Crying Game í leikstjórn Neils Jordan
 • Roberta Muldoon í The World According to Garp eftir John Irving
 • Barþjónninn / móðirin í All You Zombies eftir Philip K. Dick (eða bíómyndinni
 • Predestination í leikstjórn Michaels og Peter Spierig)
 • Bree í Transamerica í leikstjórn Duncans Tucker
 • Maura Pfefferman í Transparent eftir Jill Soloway
 • Denise Bryson í Twin Peaks eftir David Lynch
 • Taylor Mason í Billions (þrátt fyrir að vera sálarlaus kapítalisti er hán óvenju viðkunnanlegt og fellur því hérna megin) eftir Koppelman, Levian og Sorkin

Svo má nefna Gethenbúa í The Left Hand of Darkness eftir Ursulu K. Le Guin eða Merkúrbúa í 2312 eftir Kim Stanley Robinson, þar sem heilar plánetur (af góðmennum og illmennum og alls þar á milli) eru á rófinu.

Einhverjar sögupersónur veit ég ekki hvernig maður ætti að flokka (og auðvitað er svona tvíhyggjuflokkun alltaf próblematísk – þ m.t. flokkun í sís og trans – það eru engar hreinar línur). Til dæmis hermafródítan sem kemur út úr skáldsögu Michael Moorcocks, The Final Programme, sem er eins konar samruni konu og karls sem á að skapa fullkomna veru. Útkoman er í einum skilningi skrímsli eða (blóðþyrstur) neanderdalsmaður, en í öðrum einmitt þá fullkominn – nýr maður, nýtt upphaf. Spurningin sem sú annars flippaða bók spyr er ótrúlega mikið hvað sé fullkomnun.

Ég veit heldur ekki hvernig ég á að flokka Tintomara úr Drottningens Juvelsmycke – sem var áreiðanlega mjög sensasjónalísk þegar hún kom út (1834) en er samt, í krafti þess að vera vel skrifuð aðalsöguhetja, mjög rúnnaður karakter með margar hliðar og ótal ástæður fyrir gjörðum sínum. Svo eru auðvitað „sannsögulegar“ sögupersónur – í bókum sem eru samt einhvern veginn „skáldverk“ – t.d. Harry í Argonauts, Ég-ið í Intersex (for lack of a better word) eða ljóðmælandi í Intersex: A Memoir eftir Aaron Apps, Ikon eftir Yolöndu Auroru Bohm Ramirez eða Tjugofemtusen kilometer nervtrådar eftir Nino Mick. Þar er það ekki endilega spurning um hvernig sögupersónurnar eru – þær eru ekki illmenni eða skrímsli – heldur hvort maður flokkar þær yfir höfuð með „sögupersónum“.

Svo er ýmislegt á listanum/náttborðinu sem ég á einfaldlega eftir að lesa og horfa á. Mig grunar t.d. að transkonurnar í Ticked Off Trannies With Knives falli að þessari gefnu staðalmynd en ég held að Hedwig geri það ekki, þótt hún sé pönkari (ég sá að vísu Hedwig fyrir hundrað árum en það var ábyggilega í einhverjum svefnrofum og ég man ekkert eftir henni). In einem Jahr mit 13 Monden eftir Fassbinder sýnist mér karakterinn vera góðmenni/hlutlaus og hið sama gildir um Una Mujer Fantastica, sem var nýlega fjallað um á Hugrás. Ég veit ekkert við hverju ég á að búast af Annabel, The Hermaphrodite, Sphinx eða Paul Takes the Form of a Girl. Og svo framvegis og svo framvegis.

Síðast en ekki síst eru „skrímslin“ á þessum lista alls ekki bara skrímsli og hin miðjusæknari alls ekki bara miðjusækin. Enda væri það hvorki gaman né áhugavert.

***

Það væri áhugavert – en flókið túlkunaratriði – að skoða hvenær sé verið að fjalla um kynseginveruleikann sem slíkan og hvenær hann sé farartæki til þess að fjalla um annað og hvenær hann sé hreinlega bara myndlíking. Eðlilega er það alltaf sitt lítið af hvoru (og fleira til).

***

Engar áhugaverðar sögupersónur eru fullkomnar, engar eru „normal“ og flestar eru í senn fórnarlömb og níðingar, stundum gerendur (óvart og viljandi), stundum þolendur (óvart og jafnvel viljandi, með sjálfseyðingarhvöt). Þær eiga sér hvatir og útskýringar en ekki slíkar hvatir og útskýringar sem leysa þversagnir lífs þeirra – við finnum til samlíðunar með þeim en við skiljum þær ekki til fulls (frekar en fólkið í kringum okkur). Þær eru í senn fyrirsjáanlegar og algerlega ófyrirsjáanlegar. Þetta á líka við um Myru, Frank og Hann og Hana í Cock and Bull. Þau eru ekki bara „vond“.

***

Það væri gaman að fá tillögur að verkum til að skoða, bókum til að lesa og myndum til að horfa á – með kynseginillmennum eða kynsegingóðmennum. Hér að neðan er kommentakerfi sem er alltof lítið notað.

Ég er eirðarlaus að reyna að láta handritið vera í smá stund. Maður þarf að geta látið hlutina í friði stundum. Leyft þeim að gerjast eilítið, meltast eilítið, og kannski ekki síst þegar veruleikinn er viðstöðulaust að skipta sér af, hella sér yfir handritið, flæða innum glufurnar og krefjast breytinga. Þetta þarf nokkra daga, helst viku – og ég þarf nokkra daga þar sem ég er ekki að farast úr einhverjum vinnualkamóral. Ég má taka því rólega. Það mun hvorki kosta mig lífið né ferilinn og athugasemdakórinn í listamannalaunaumræðunni heldur hvort eð er að ég sé aumingi sem mæti aldrei í vinnuna.

***

Ég er enn að lesa bækur, enn að horfa, enn að gúgla svo það er viðstöðulaust áreiti úr þeirri áttinni – sem má ekki fara ómelt inn í viðkvæmt handrit – og svo eru það bara fréttirnar, veruleiki samfélagsmiðla, hamslaus narsissisminn, allar réttlætiskenndirnar, öll þórðargleðin og fordæmingasirkusinn á víxl.

***

Og þá er ágætt að halda bara vinnudagbókinni gangandi þótt það sé ekki mánudagur. Þótt ekki væri nema bara til að hreinsa aðeins til í huganum. Mér finnst einsog afstaða mín til margra hluta – sérílagi til PC kúltúrs – verði alltaf mótsagnakenndari og mótsagnakenndari og ég kann ekkert að leysa úr því. Öðruvísi en að skrifa, það er að segja, til þess er ég kannski að skrifa – allar síðustu bækur, sennilega frá Gæsku, að ljóðabókunum meðtöldum, að Plokkfiskbókinni meðtaldri – eru einhvers konar tilraun til þess að leyfa mótsögnunum að þrífast í von um að þær þá kannski leysi úr sér sjálfar, eða samræmist einhvern veginn.

***

Höfuðmótsögnin, alveg frá Gæsku, snýst um átökin við pólitíska skáldverkið sem slíkt. Og þá staðreynd að einhvers staðar finn ég fyrir gríðarmikilli þörf til þess að skrifa um pólitíska viðburði eða veruleika, um samtímann einsog hann er að gerast fyrir augunum á mér, á meðan ég bókstaflega þoli ekki predikanir og finnst nær engin pólitísk list komast upp úr þeim hjólförum. Þar að auki er vonlaust að ætla að sjá samtímann – það er einsog að horfa út um hliðarrúðuna á bíl, það fer allt of hratt framhjá.

***

Mér finnst rosalega gaman reyndar að skrifa senur þar sem ekkert gerist nema hreyfingar. Þar sem fólk hreyfir sig um í tiltölulega merkingarsnauðu rými. Hellir upp á kaffi. Vökvar blóm. Sýður egg á meðan vindurinn gnauðar í gluggarifum. Og þær eru þarna líka. Ég er sennilega frekar eftirlátssamur höfundur.

***

Önnur mótsögn er hvað mér finnst þetta allt stundum stjórnlaust fyndið. Og hvað ég get tekið því ofsalega alvarlega, svo liggur við að ég komist ekki á fætur á morgnana.

***

Ein erfiðasta mótsögnin við Hans Blævi, fyrir höfundinn a.m.k., er hvað sagan er í senn mórölsk og ómórölsk, rétt og röng; ég má ekki segja hana og mér bar skylda til að segja hana. Bæði er sennilega alveg rétt og ég verð bara að taka afleiðingunum af því. Í þessu er einhvers staðar líka hornmótsögn sem segir að hvorugt hafi í raun skipt máli – þetta sé alls ekki móralskt eða ómóralskt heldur sé ég bara sjálfur (einsog stór hluti samfélagsins) fastur í einhverjum skylduboðsvefnaði þar sem allt skal vegið á þessum vogarskálum. Það gæti jafnvel verið einn af hornsteinum sögunnar sjálfrar.

***

Og hvar stendur maður þá? Það veit ekki nokkur maður.

Ég þreytist ekki á að fullyrða, minna á, hrútskýra, hvað sem maður vill kalla það að merking orða verður ekki til hjá þeim sem talar eða þeim sem hlustar heldur í samkomulagi beggja. Stundum rofnar það samkomulag og þá þarf að ræða hlutina betur – og þá ættu allir að hafa í huga að þeir hafa ekki sjálfdæmi um merkingu orða. Ef ég segi eitthvað ruddalegt en meina það ekki ruddalega verð ég að taka tillit til þess að þú firrtist við en þú að taka tillit til þess að ég meinti ekkert illt. (Svo geta verið aðstæður þar sem maður ætlar að vera dónalegur – það er alltílagi líka, það er bara önnur ella). Reki maður sig á og móðgar einhvern ætti að vera sjálfsagt að biðjast afsökunar – bara rétt einsog ef maður rekst utan í einhvern í búðinni af því maður var að stara á innkaupalistann, en að sama marki ætti að vera óeðlilegt að trompast eða erfa það við mann nema fleira komi til.

***

Mest skitsó bókasafnið mitt. Hans Blævar lesturinn. Á myndina vantar að vísu nokkrar bækur – t.d. Born Both, sem var á hljóðbók, og Middlesex sem er á náttborðinu heima, og slatta af rafbókum. Efst má sjá útprent af The Transsexual Empire eftir femínistann Janice Raymond, sem kemur fyrir í bókinni og leikritinu.

Mánudagur. Annar í páskum. Ég er lasinn í rúminu (nei, ekki bara þunnur).

***

Ég er enn að fiffa í bókinni, eðli málsins samkvæmt, fikta og dútla, og lesa mikið. Á dögunum las ég – eða hlustaði, þetta var í bílferð fram og til baka til Keflavíkur – á bókina Born Both eftir Hidu Viloria, sem er intersex aktífisti í Bandaríkjunum. Hida er í áhugaverðri orðaklemmu vegna þess að hún er nógu gömul (fimmtug í ár) til þess að hafa tengt jákvætt við orðið hermafródíta og séð það síðan missa flugið og verða flokkað sem hatursorðræða. Í bókinni talar hún lengi um þetta – að intersex sé lýsingarorð en hana langi í nafnorð sem nái utan um tilveru hennar, og helst eitthvað sem sé ekki nýjung (og gefi þar með til kynna að ástandið sé nýjung, frekar en að það hafi verið bælt og falið). Hún notar að vísu hugtakið „intersex fólk“ um aðra en það er augljóst á orðum hennar að hún vildi að orðið hermafródíta – eða styttingin „herm“ eða jafnvel, nánar tiltekið, í hennar tilviki „hermafrodyke“, hermafrólessa – væri hið sameiginlega og sjálfsagða hugtak frekar en óþægilegur anakrónismi.

***

Svo birtist alltíeinu hugtakið DSD – disorders of sexual development (síðar differences of sexual development) – og fær, merkilegt nokk, stuðning frá Intersexsamtökum Norður Ameríku, ISNA. Hida tryllist og skrifar greinar og reynir að stoppa þetta – að intersex verði skilgreint sem kvilli eða truflun í kynferði manneskju. Um þetta er svo tekist á í samfélaginu, vegna þess að þar er líka að finna fólk sem vill alls ekki skilgreina kyn sitt sem intersex heldur lítur á sig sem karla eða konur með ákveðið „ástand“ – bara svona einsog maður er með valbrá eða héravör. En líka fólk einsog Hida sem vill ekki skilgreina líkama sína sem sjúka eða afbrigðilega á nokkurn hátt og samþykkir þar með alls ekki að kyn þeirra sé skilgreint með tilvísan til þess (ég verð að viðurkenna að ég þoli ekki valdgreiningu sem smættar sjúka hegðun eða kapítalismann eða yfirgang í kyn mitt; ekki „eitraða karlmennsku“ eða „hrútskýringar“ eða einu sinni „feðraveldi“ – orð hafa merkingu og það er eðlilegt að vera viðkvæmur þegar kyn manns er notað sem neikvæð einkunn).

***

DSD er vel að merkja minna og minna notað – en ef eitthvað er að marka Hidu (sem það er) þá var það að taka yfir á tímabili. Og hermafródíta heyrist nær aldrei.

***

Ég rak mig á það nýlega, sem ég hafði ekki tekið eftir, að á Íslandi er – skv. ágætum orðalista Trans Ísland – ekki talið við hæfi að skrifa trans- sem forskeyti, vegna þess að það sé lýsingarorð. Altso, maður á að skrifa „trans kona“ bara einsog maður skrifar „falleg kona“, en ekki „fallegkona“ eða „transkona“. Fyrir þessari afstöðu til orðsins – að það sé lýsingarorð og geti ekki verið forskeyti – er fyrst og fremst hefð í enskumælandi löndum sýnist mér. Á öllum norðurlandamálunum er talað um transkvinnor og transmænd og transpersoner og sömuleiðis á þýsku – ég held það sé óumdeilt að þau mál séu skyldust íslensku, en sennilega er hugmyndaheimur okkar núorðið meira í ætt við þann enskumælandi. Íslenskan er þess utan óvenju góð í skella saman orðum – maður getur t.d. skrifað hérumbil, þótt það séu þrjú orð. Bil milli orða eru þess utan sértækt vandamál skriftar – þau heyrast ekki nærri, nærri alltaf.

***

Þessi þumalputtaregla s.s. truflar máltilfinningu mína. Ef það skyldi ekki hafa komið berlega fram. Hins vegar er mér það alveg að meinalausu að skrifa þetta einsog fólkið í samfélaginu vill. En að því sögðu þá held ég að eltist maður of hart við smáatriðin sé það ekki til þess að efla samræðuna eða auka skilning á einu eða neinu. Ég þekki fólk sem einfaldlega óttast samræðuna – kasúal eða annars lags, bara þú veist, ræða um daginn og veginn eða fara á harðkjarna ráðstefnu um trans kynfæri, hvað sem er – vegna þess að það óttast afleiðingar þess að mismæla sig. Sem er alveg áreiðanlega ekki gott fyrir samræðuna.

***

Þetta er auðvitað ekkert sem hefur sérstaklega að gera með trans samfélagið heldur er þetta almennt stemningin – og ein af afleiðingum þesss að við erum öll í viðstöðulausu samtali hvert við annað með aðstoð félagsmiðla, og enn fremur öll viðstöðulaust að hlusta og dæma (læka, reiðilæka, rantkommenta og það sem verst er: læka ekki) hvert annað. Við vinstra megin við miðjuna, eða sem köllum okkur frjálslynd, erum þess utan líka afar dugleg að sanna gæsku okkar með því að hneykslast, fárast og fordæma fólk fyrir minnstu yfirsjónir. Það, í sjálfu sér, er ekki hluti af nýju stemningunni eða internetinu – er sennilega mjög gamalt og þekktasta birtingarmynd þess á Vesturlöndum er sennilega meðal síðhippískra kommúnista á áttunda áratugnum sem voru á endanum svo réttlátir í kenningunni og ástríðufullir í baráttu sinni fyrir betri heimi að þeir gátu ekki unnið saman í hópum sem töldu fleiri en svona fimm (því annars var hætt við að einhver færi að ráfa frá hjörðinni).

***

Í tengslum við Hans Blævi, leikrit og skáldsögu, er svo ágætt að hafa í huga að þótt verkið temji sér ekki neina slíka kurteisi er það ekki heldur skrifað með það í huga að hneyksla, en það er ekki heldur skrifað til þess að hneyksla ekki – enda hefðu slíkar tilslakanir verið svik við sögupersónuna (og höfundur má svíkja allt – samfélagið, móður sína*, börnin sín, hina þjáðu og kúguðu – en aldrei sögupersónur sínar). Verkið Hans Blær hlýðir sínum eigin lögum og fylgist með tilteknum aðstæðum verða til og springa út – hneykslan kemur því ekki við – persónan Hans Blær hins vegar lifir fyrir að hneyksla (ekki síst vegna þess að hánum er fremur illa við heiminn, stundum af góðum og gildum ástæðum, og stundum ekki). Ef það væri ekki fyrir viðbrögð heimsins, ef það væri ekki fyrir fólkið sem deilir bókstaflega öllu því heimskulegasta og hatursfyllsta sem það finnur á internetinu, til þess að benda öðrum á hvað einhver moggabloggari er vondur og heimskur og dreifir þar með illskunni víðar og málar mynd af heiminum sem illri en hann er, með því að afla heimskunni athygli, þá gæti hán Hans Blær sem nú er á fjölum Tjarnarbíós eða hán sem birtist í skáldsögu með haustinu alls ekki þrifist. Ég veit ekki hver hán hefði orðið, en eitthvert annað.

***

Ég hef nú alveg skrifað skýrari bloggfærslur. Jæja.

***

* Einu sinni spurði mig fullorðin kona á fylleríi hvernig ég gæti skrifað svona „með móður á lífi“. Það var sennilega eftir Hugsjónadrusluna. Móður minni þótti það mjög fyndið.

Ég var of lúinn til að færa dagbók síðasta mánudag. Of önnum kafinn. Og á ferðalagi frá Umeå. Og of mikil læti í kringum leikritið. En mér tókst að klára skáldsöguna og senda hana frá mér í fyrradag. Nema það hafi verið í hittifyrradag. Vikan og helgin hafa verið svo sturluð að ég er hreint ekki alveg viss. En ég ætla að fagna verklokum í kvöld. Það er að vísu ýmislegt eftir og sennilega margar breytingar í áframhaldandi ritstjórn – en þetta er samt einhvers konar endir, verkið hefur tekið á sig mynd.

***

Leikritið var frumsýnt fyrir tæpum tveimur vikum. Það hafði þegar vakið einhverja athygli – Ugla Stefanía var ósátt við forsendur þess og tjáði sig um það, fyrst á Facebook og svo í viðtali við Gay Iceland vefinn. Fyrirsögnina þar mátti svo skilja að gervallt hinsegin samfélagið væri „furious“ (tryllt, hamslaust, ofsareitt) vegna leikritsins. Sem var sannarlega ónákvæmt. Ósáttin hafði meira að gera með viðtal sem við Vignir leikstjóri fórum í hjá RÚV þar sem ég komst að einhverju leyti óheppilega að orði – og svo afstöðu gagnvart leikritinu, sem ég get ekki skilið og get ekki skilið að neinn sem ekki hefur séð það geti leyft sér. Auk þess hef ég heyrt í nógu mörgum vinum og kunningjum í hinsegin og kynsegin samfélaginu til þess að vita að „samfélagið“ er langt í frá búið að afskrifa mig sem bandamann, þótt Ugla hafi gert það.

***

Ég svaraði Uglu líka á sama vettvangi og baðst afsökunar á óheppilegu orðavali og reyndi að útskýra afstöðu mína til skáldskaparins. Ég hafði ákveðið að gefa mér alltaf að minnsta kosti viku til þess að svara nokkrum mögulegum uppákomum vegna verksins – og þá helst alltaf skriflega. Ég sveik þetta með tímann strax í fyrsta skrefi og réttlæti það með því að kynseginsamfélagið ætti annars konar tilkall til þess að ég stæði fyrir máli mínu en t.d. bara Vísir eða DV. Ég hef hins vegar talsvert velt því fyrir mér þessa síðustu daga hvort ég eigi ekki bara að leyfa leikritinu og skáldsögunni að tala eigin máli. Mig langar að bera hönd fyrir höfuð mér vegna þess að ég kæri mig ekki um að vera útmálaður sem óvinur trans fólks – en ég vil ekki að verkið verði smættað niður í sósíalrealískt verk um trans, vil ekki taka þátt í að setja allan fókus á þessa einu hlið þess. Nú hljómar það einsog mótsögn, og sennilega er það mótsögn þótt ég geti ekki alveg útskýrt hvers vegna hún truflar mig ekki, en þótt ég haldi þessa dagbók langar mig í raun ekki nema takmarkað að tjá mig um verkið. Mér finnst einsog ef ég ráði ekki alveg ferðinni sjálfur, þá stígi ég svo auðveldlega í veg fyrir það. Þetta er hugsanlega vitleysa og hugsanlega ber ég ábyrgð á því að fylgja verkinu úr hlaði, reyna að tryggja að viðtökur þess séu í samræmi við vilja minn og metnað. Og gagnvart sjálfum mér – mínum eigin heilindum. Að ég láti ekki troða mér í einhvern kassa.

***

En það voru fleiri ósáttir við innslagið í Kastljósi. Nettröllið Lord Pepe hélt um þetta lítinn fyrirlestur á YouTube-rás sinni – kallaði mig „uppstrílaða listaspíru“ og hvaðeina. Hann var sem sagt einna helst óánægður með að ég skyldi kalla Milo Yiannopoulus diet-fasista og segja að það væri þægilegt fyrir íslamófóbana að eiga Ayan Hirsi Ali að, til þess að úthúða múslimunum. Þetta hefst þegar sirka 1 mínúta og 45 sekúndur eru liðnar af myndbandinu.

***

Sigríður Jónsdóttir á Fréttablaðinu er eina manneskjan, so far, sem hefur séð verkið og verið ósátt við það. Henni fannst Illska líka hundleiðinleg – þótt hún hefði fengið heilli stjörnu meira á sínum tíma – en sennilega nær fagurfræði okkar Óskabarnanna og hennar ekki vel saman. Hvað um það. Hún skrifaði frekar reiðilegan og – leyfist mér að segja – hneykslaðan pistil um forsendur verksins og hvað hún hefði hneykslast lítið (af langri reynslu er það jafnan bara fólkið sem hneykslast mest sem þarf að hafa orð á því hvað það hafi hneykslast lítið). Eða, svo það sé leyst úr flækjunni, þá hneykslaðist hún ekki á persónunni Hans Blævi en hún hneykslaðist mjög á forsendum leikritsins. Ég er henni augljóslega ósammála um forsendurnar og finnst hún harðbrjósta að svitna ekki smá yfir ólátunum í Hans – en það er aukaatriði.

***

Það sem truflaði mig mest (og nú er ég að fara að stíga í veg fyrir eigið verk) var sú hugmynd hennar að sögupersónur væru „ósnertar af feðraveldinu“. Hans Blær er intersex manneskja hvers kyn var bælt af samfélaginu í kringum hána; hán er bæði fórnarlamb og gerandi í nauðgunarmálum (og rekur meðferðarheimili fyrir fórnarlömb nauðgana); móðir hánar er gift skipstjóra sem í krafti tekna sinna kemur fram við hana einsog hún sé ekki til o.s.frv. o.s.frv. Ég gæti haldið áfram að telja þetta upp í allan dag. Það er bókstaflega varla einn einasti punktur í öllu leikritinu, handriti, dansi, bendingum, grettum o.s.frv. sem er ekki í beinni snertingu við feðraveldið – og mörg blæðandi sár á eftir. Það liggur við að ég haldi að hún hafi verið á einhverju öðru verki.

***

Önnur gagnrýni var jákvæðari. María Kristjáns í Víðsjá, Snæbjörn og Bryndís í Kastljósinu og Silja á TMM voru öll í skýjunum. Sérstaklega fannst mér Maríu takast vel að hugsa með verkinu, frekar en gegn því (þótt slíkur lestur geti stundum líka verið frjór) – en hún hafði líka mestan tíma (gagnrýni í Kastljósi var 3 mínútur – Vignir trompaðist – og Silja birti sína strax daginn eftir). En ég vil þó koma því að – í tengslum við gagnrýni Maríu – að orðið gálkn, sem Hans Blær notar yfir kynfæri sín, er ekki sama og trans píka. Gálkn er í fyrsta lagi uppnefni komið frá móður hánar – ekki ósvipað og sumum konum hefur verið kennt að kalla píkuna á sér „skömm“ eða „ónefna“ eða „tuðra“ – og í öðru lagi alls ekki píka, hvorki trans né sís, heldur millibilskynfæri intersex manneskju. Þetta er ekki útskýrt í þaula í leikritinu þótt það komi fram. Svona hlutir verða samt alltaf skýrari í bók en á sviði, einfaldlega vegna þess að það er hægt að fara dýpra í þá og lesandi getur endurlesið þá.

***

Þá hefur eitthvað borið á misskilningi á því hvað Hans Blær er – og skal engan undra – því hán er í senn kynsegin, trans og intersex. Hán er kynsegin vegna þess að hán upplifir sig á rófinu – mismikið karl, kona og allt þar á milli – trans vegna þess að hán upplifir kyngervi sitt (mismikið) á skjön við líkama sinn og intersex vegna þess að hán er með klitoromegali (ofvaxinn sníp) af óþekktum ástæðum (hán er s.s. ekki greint með neitt annað ástand og klitoromegali getur átt sér margar mismunandi orsakir).

Ég man ekki hvenær ég var síðast svona hressilega lasinn. Ég fann fyrir þessu koma yfir mig alla síðustu viku – hamaðist í ræktinni til þess að koma henni í gang (ég veit ekkert leiðinlegra en að vera hálflasinn í þrjár vikur, betra að ljúka þessu bara af) en gekk ekkert fyrren ég datt frekar kyrfilega í það með Steinari á föstudaginn. Laugardagur fór í að sjá rennsli á Hans Blævi og lifa af. Nú er ég rúmliggjandi annan daginn í röð.

***

Það útskýrir sem sagt heilaþokuna.

***

Eðli málsins samkvæmt – eða í samræmi við ráðandi móral augnabliksins, in situ 2018 – hefur komið upp spurningin um hver megi segja hvað, hver megi skrifa um hvern, hvaða „hóp“ og hvernig og svo framvegis. Nánar tiltekið má sísheterókarlmaður (að svo miklu leyti sem fullkomið slíkt eintak er einu sinni til) skrifa um intersex-transa á borð við Hans Blævi – og enn fremur, má skrifa um slíkan einstakling út frá einhverju öðru en kyngervi hánar einvörðungu? Það er að segja: að hversu miklu leyti má Hans Blær vera eitthvað fleira en kynseginmanneskja og að hversu miklu leyti má saga um hána (verandi obsessífur einstaklingshyggjumaður beygir hán nafn sitt og persónufornafn eftir eigin duttlungum) snúast um annað eða fleira en útkomu- eða tilurðarsögu. Hér er auðvitað ekki síst spurt um vald en líka um staðalmyndir og svo leyfi skáldskaparins – eða jafnvel leyfisleysi, og þá nauðsyn. Nauðsyn skáldskaparins má skilja tvíþætt – annars vegar þá þá verður skáldskapurinn að fást við það sem hann verður að fást við (enda list unnin instinktíft, maður bara eltir á sér halann). Þar er engin afsökun fyrir því að skrifa ekki það sem maður vill/þarf að skrifa – engin afsökun fyrir því að hætta að elta á sér halann. Hins vegar má skilja nauðsyn skáldskaparins sem hálfgerðan tilvistarvanda. Þá gæti maður sagt: Það skiptir kannski engu þótt ég skrifi þetta ekki – en bara að svo miklu leyti sem það skiptir engu máli að við eigum heiðarlegan literatúr. Eða literatúr yfir höfuð. Ég held vel að merkja að list einkennist einmitt oft af tilgangsleysi – fallegu, ögrandi, ljótu, ómerkilegu tilgangsleysi, einhvers konar poti í myrkrinu.

***

Það eru til ótal dæmi um bókmenntir og listaverk sem brjóta á siðferðishugmyndum samfélagsins. Klassískust og þau sem flestir eru einfaldlega sammála um að séu „yfir strikið“ eru verk þar sem einhver meiðist líkamlega – Guillermo Vargas svelti hund í galleríi, Teemu Mäki drap kött og fróaði sér yfir skrokkinn. Aðeins nær strikinu eru verk þar sem einhvers konar „val“ á sér stað – einsog þegar Santiago Serra borgar vændiskonum fyrir að mega tattúvera þær. Í þessum tilvikum nær listaverkið inn fyrir hold einhvers annars og flestum ofbýður.

***

En listaverk geta auðvitað meitt án þess að rista í holdið og er oft talið það til tekna – ef bók grætir gagnrýnanda er því skellt á bókarkápuna sem hæstu mögulegu meðmælum. Aðrar bækur stefna t.d. að hreinsun fyrir sakir ógeðs – de Sade er eitt, Saga augans eftir Bataille (eftirlætis bók Hans Blævar) er annað. Bókum og listaverkum af því tagi er ætlað að koma manninum í samband við skepnuna sem býr innra með honum, ekki til þess að hún taki yfir vel að merkja – eða í það minnsta ekki endilega, það má jafnvel sjá það sem aflausn eða útrás, leið til að losna við skepnuna úr sínu daglega lífi – en fyrst og fremst til að afhjúpa þann sannleika að við séum fyrst og fremst skepnur og ekki yfir það hafin. Og bækur geta ætlað sér kaþarsis fyrir sakir fegurðar, samstöðu með hinu valdlausu, gáfnaþunga o.s.frv. o.s.frv.

***

Mögulegar transgressjónir í frásögnum geta líka snúið að raunverulegum persónum. Þar er satíran samþykktust – þótt hún geti oft verið grimmileg, skemmst er að minnast skrifa Steinars Braga um Jón Kalman í Kötu, þar sem höfundareinkenni JK eru höfð að athlægi og ein sögupersónan endar á að klæða sig í eins konar húðklæði úr líkama Jóns Kalmans. Vægari dæmi er að finna í hverju einasta áramótaskaupi. En transgressjónir inn á „raunverulega persónu“ einhvers annars þurfa ekki að vera settar fram í neinu gríni – Hallgrímur Helgason hefur oft gengið freklega, að mörgum þykir, á líf raunverulegra manneskja, bæði undir eigin nafni og nafni endurskírðra skáldsagnapersóna. Laxness þótti oft ganga hart að sínum fyrirmyndum. Í hvað-ef bókum á borð við Örninn og fálkann eftir Val Gunnarsson er delerað heil lifandis býsn um hvað raunverulegt fólk hefði gert við aðstæður sem aldrei komu upp – og þar hlýtur það fólk ekki alltaf fallegan dóm, eðli málsins samkvæmt.

***

Oft er viðmiðið hérna að það megi skrifa satíru um „opinbera persónu“ – en annað viðmið væri að það mætti skrifa um opinbera persónu sem nyti valds. Þannig mætti t.d. segja að fórnarlömb glæpa væru opinberar persónu, hafi mál þeirra verið í fjölmiðlum, en það mætti samt ekki nota þau í satírur – og að einhverju leyti gildi sama um glæpamenn, sem séu oft sjúklingar (ótal dæmi um brot af þessu tagi má finna á fyrstu plötu Rottweiler hundana). Aðrir myndu telja með fólk í mannréttindabaráttu – í raun væri hægt að halda áfram ansi lengi. Segja að grínið verði að vera góðlegt, og því góðlegra sem manneskjan er valdaminni (þarf t.d. grín um Trump að vera góðlegt?) Og hvað gerum við þá við Múhameð – sem er auðvitað valdmikill, og á meðan sumir fylgjenda hans eru augljóslega meðal valdamesta fólks heimsins þá eru aðrir meðal þeirra allra valdaminnstu. Valdagreining er aldrei neitt sérstaklega einföld.

***

Hermann Stefánsson notaði Ólaf Jóhann í einni af sínum bókum – og bað að sögn einfaldlega um leyfi og fékk það. En þá var heldur ekkert sérstaklega særandi í gangi þar – og stundum geta bókmenntir þurft að fara á særandi slóðir. Bókmenntir eru ekki bara til fróunar og huggunar, ekki bara skemmtiatriði. Hvað hefði Hermann gert ef bókin hefði leitt hann þangað – og ef Ólafur hefði orðið hvekktur? Hætt við að gefa út bókina? Skrifað plástur á bágtið? Ólafur er náttúrulega rosalega ríkur maður. Getur bara keypt sér sína eigins plástra.

***

Önnur transgressjón bókmennta snýr einfaldlega að sanngildi. Þar getur verið um að ræða verk á borð við helfararminningar Mishu DeFonseca, sem sagðist hafa flúið úr Auschwitz og lifað með úlfum, eða dópistasöguna A Million Little Pieces eftir James Frey – sem gabbaði m.a.s. Opruh og var orðinn solítt bókmenntastjarna þegar í ljós kom að þetta var allt lygi. Eða, það er að segja, þetta var allt skáldskapur. Önnur tegund sanngildis er svo nær mörkunum – einsog í skáldsögum JT Leroy, sem voru skilgreindar nær skáldsögunni, en samt gefið í skyn að höfundur byggði á eigin reynslu (af því að vera HIV-smitaður samkynhneigður dópisti í New York) – sem var svo einfaldlega af og frá. Höfundur var amerísk úthverfakona úr efri millistétt sem hafði í besta falli fengið sér advil og hvítvín af og til.

***

Sanngildistransgressjóninni lýkur samt ekki þarna. Það er hægt að fara ansi langt. Þannig náði rithöfundurinn Forrest Carter talsverðum tökum á hippakynslóðinni með bók sinni Uppvöxtur Litla Trés – sem til er í þýðingu Gyrðis Elíassonar. Bókin fjallar um dreng sem er að fjórðungi, minnir mig, Cherokee og elst upp hjá afa sínum sem kennir honum um mikilvægi arfleiðarinnar, að bera virðingu fyrir náttúrunni og svo framvegis. Aftur var því haldið fram að hún byggði á reynslu höfundar. Nokkru eftir að bókin kom út kom hins vegar í ljós að höfundurinn, Forrest, átti sér enga greinanlega barnæsku – það voru engar heimildir. Kom upp úr kafinu að hann hafði skipt um nafn og áður heitið Asa Carter, verið útvarpsmaður og ræðuskrifari, háttsettur í Ku Klux Klan og meðal annars skrifað hina fleygu og frægu ræðu George Wallace, þar sem hann lofar því að aðskilnaðarstefnan verði aldrei afnumin:

***

Við þetta má svo bæta að það hefur aldrei almennilega fengist úr því skorið hvort að Forrest var að hluta Cherokee eða ekki – en það er ekki endilega neitt í heimspeki bókarinnar sem er í andstöðu við heimspeki KKK. Hann hélt því fram að hann væri Cherokee en Forrest neitaði því einfaldlega alla tíð að hann væri eða hefði verið Asa – en það eru hins vegar til heimildir um að Asa hafi sagst vera Cherokee og það var alls ekkert óalgengt í klaninu að menn teldu sig hafa rætur til innfæddra (rætur á landinu – það gerist auðvitað ekki betra). En gamall vinur Asa úr KKK sagðist hafa komið að hitta hann einu sinni eftir að hann var orðinn frægur og dottið í það með honum og Forrest hefði þá játað því að hafa skrifað bókina til að afhjúpa hvað hipparnir væru grunnhyggnir og vitlausir. Þeir gleypa við hverju sem er, sagði hann.

***

Enn eitt dæmi eru ljóðasvindl á borð við Ern Malley – þar sem tveir náungar tóku sig til, bjuggu til módernískt ljóðskáld og ortu bók í hans stað, á einni kvöldstund, til þess að sýna fram á að módernísk ljóðlist væri bara rugl og kræfist hvorki kunnáttu, vinnu né þekkingar.

***

Spurningin sem sprettur oftast upp er þá eitthvað á þessa leið: Væri þetta verk annað verk ef höfundurinn væri önnur manneskja? Ef að Crosby, Stills og/eða Nash hefðu skrifað Uppvöxt Litla Trés, væri það þá önnur bók? Ef að ljóð Erns Malleys hefðu verið ort af einlægni og natni – en væru samt alveg eins – væru þau þá „betri“ (gagnrýnendum þótti bókin alltílagi – og ljóðin eru satt að segja fín)? Ef að Forrest væri Asa en væri líka Cherokee – hvað þá?

***

Nú vill til að flest listaverk sem gerð eru um transfólk sögupersónur eru ekki skrifaðar, leiknar, framleiddar, leikstýrt o.s.frv. af transfólki og þær sögur sem hafa verið sagðar um transfólk eru eins misjafnar og þær eru margar, bæði að gæðum og innihaldi. Auk þess vill til að flestar sögur sem sagðar eru fjalla um fjöldann allan af fólki sem allt á sér sinn eigin bakgrunn, sína eigin sögu, tilheyrir sinni eigin demógrafíu, hefur sín eigin völd, dílar við sitt eigið valdleysi, er fast í sínum eigin mótsögnum – enda eru bækur, líka karakterstúdíur á borð við Hans Blævi, ekki síst um heil samfélög.

***

Það er mjög mikið af mér í flestum mínum sögupersónum, sérstaklega þeim sem eru í forgrunni, en samt eru þessar persónur yfirleitt alls ekki ég – og kannski síst af öllu ísfirsku rithöfundarnir í Heimsku og miklu frekar hin litháíska Agnes í Illsku, tranströllið Hans Blær eða Lotta mamma hans, nú eða nasíski sagnfræðineminn Arnór.

***

Að því sögðu hef ég heldur aldrei skrifað sögupersónu sem er jafn mikill einstaklingur og einstaklingshyggjumaður og Hans Blævi – öll hánar tilvist snýst beinlínis um það að tilheyra ekki neinum hópi. Hán er mótþróaröskunin holdi klætt. Og þar með engu líkt.

***

Leikverkið verður frumsýnt á miðvikudag. Mér finnst það auðvitað óttalega lítið miðað við bókina – fjögur hundruð blaðsíðna bók soðin niður í 40 síðna leikrit. Textinn er skorinn við nögl. En svo bætir leiklistin auðvitað heilmiklu við (þau ætla ekki bara að leiklesa þessar 40 síður – og hafa raunar líka kokkað þær mikið sjálf, blandað saman senum o.s.frv.). Það var að mörgu leyti auðveldara að stytta Illsku vegna þess að hún innihélt svo margar sögur sem mátti hoppa yfir eða sleppa. Hans Blær er meiri karakterstúdía og núansarnir mikilvægari – einmitt kannski vegna þess að hún er á brúninni. Ég er mjög spenntur að sjá hvernig til tekst á miðvikudag.

***

Það vill til að ég er að klára bókina á alveg sama tíma. Ef ég kemst úr rúminu á morgun ætti ég að geta náð að klára leiðréttingar og fix annað kvöld – tek þá með mér útprentið suður og út og færi inn krotið á hótelinu.

***

Á fimmtudag flýg ég sem sagt til Umeå í Svíþjóð, þar sem ég átti að vera lesa upp með nóbelsverðlaunakandídatinum Ko Un – sem er einmitt aftur dæmi sem mætti taka í umræðunni um hvort höfundurinn skipti máli. Ég skrifaði helling um Ko Un fyrir Starafugl í vetur í tilefni af þýðingum Gyrðis. Í sem skemmstu máli er hann gamall andófsmaður sem sat lengi í fangelsi og var pyntaður vegna mótmæla gegn suður kóresku ríkisstjórninni og hefur ort mikið af fallegustu ljóðum síðustu aldar. Hann er fjörgamall og var metooaður á dögunum – kemur í ljós að sennilega hefur hann verið dónakall, að því er ég kemst næst svona sirkabát af Dustin Hoffman alvarleika (þ.e.a.s. berar sig, klæmist, káfar og vill hluti, frekar en að hann nauðgi og berji og kúgi) – og suður kóreska ríkið gerði sér lítið fyrir og fjarlægði hann bara úr kennslubókum. Enda, sagði talsmaður ríkisins, hefðu ljóð hans aðra siðferðislega merkingu nú þegar í ljós er komið að hann var ekki góð manneskja heldur vond (einsog ríkið hélt náttúrulega fram, árum saman, með réttu). Og þá er best að ljóðin hans séu ekki til lengur. Hann aflýsti öllum evróputúrnum sínum af heilsufarsástæðum (hann hefur líka verið í uppskurði, að sögn). En ég verð nú samt sem betur fer ekki einn í Svíþjóð.

***

Maður verður svolítið óðamála af að liggja svona í rúminu með sótthita. Svona hlýtur Raskolnikov að hafa liðið.

Ein af bókunum sem ég las í síðustu viku, og tengist þessum bókaskrifum – sem og leikritinu (sem er – plöggviðvörun – frumsýnt á laugardag í Tjarnarbíó) – heitir Free Speech on Campus og er rituð af tveimur amerískum lögfræðingum. Einsog titillinn gefur til kynna fjallar bókin um málfrelsi og mörk þess í háskólasamfélaginu. Grundvallarkenning bókarinnar er sú að málfrelsi verði að vera rýmra í háskólum en annars staðar því því annars geti þeir ekki sinnt hlutverki sínu (sem er meðal annars að takast á við ögrandi hugmyndir, en líka að fella vitlausar hugmyndir úr gildi – til þess þarf að vera hægt að ræða þær, á eigin forsendum en líka að skoða þær forsendur.

Þá flytja höfundar ýmis rök gegn því að málfrelsi séu settar hömlur – eða réttara sagt, þá benda þeir á hvernig margar aðferðir (svo sem safe space-sköpun í kennslustofum eða skyldubundnar triggerviðvaranir) geti annars vegar haft neikvæð áhrif – t.d. þannig að hamlanirnar valdi nemendum sem heild alls kyns kvíðavandamálum, enda vaki þar nemendur hver yfir öðrum og refsi og skammi hver annan, samfélagið verður púrítanískt – og hins vegar sé ekki hægt að banna A (sem er skaðlegt) án þess að banna líka B (sem er nauðsynlegt frjálsri samræðu). Afleiðingar hertra reglna um tjáningu séu einfaldlega of neikvæðar, þótt hvatinn til þess að herða reglurnar sé skiljanlegur.

Ekki er þar með sagt að allt mál sé einfaldlega varið og öll tjáning lögmæt. Þeir gera t.d. greinarmun á tjáningu sem er beinlínis hótandi í garð tiltekins fólks. Þannig væri innan marka að brenna kross en ekki innan mark að brenna hann á lóð svartrar fjölskyldu; innan marka að segja konur heimskari en karlmenn (enda standist það enga skoðun og falli strax dautt í samfélagi sem leyfir sér að vera krítískt) en ekki innan marka að hóta að nauðga konu (enda sé það ekki „hugmynd“ sem hægt er að takast á um heldur einfaldlega hótun).

Þegar ég segi „innan marka“ á ég líka fyrst og fremst við „löglegt“ – og „ætti ekki að banna“, þótt það sé vissulega glatað. Ekki að manni eigi að finnast það frábært.

Lögfræðingarnir, sem hafa kennt málfrelsislög, eru báðir á því að triggerviðvaranir geti þjónað alls konar tilgangi og hafa báðir notað þær frá því löngu áður en hugtakið var til. Þannig hafi þeir oft fjallað um mónólóg Georges Carlin Seven Dirty Words og alltaf varað nemendur sína við að þeim gæti þótt þetta ljótt. Það þýðir vel að merkja ekki endilega að það sé afleiðingalaust að ganga út – en það gefur manni tækifæri til að búa sig undir það. Ég stóð mig að því sjálfur á laugardagskvöldið, þegar vinkona mín spurði mig hvort ég væri „viðkvæmur fyrir myndum“ að svara „ekki ef þú varar mig við“ – sem er einmitt málið. Það er ágætt að láta vara sig við. (Það er svo viðeigandi að nefna í þessu vinnudagbókarbloggi að vinkonan, sem er trans, sýndi mér svo mynd af transpíku – ekki sinni, vel að merkja, heldur bara af netinu – og ég trámatíseraðist sama og ekki neitt).

Hins vegar geti verið alls konar ástæður fyrir því að kennarar vilji og þurfi að sýna nemendum sínum efni án þess að vara þá fyrst við – það sé einfaldlega ákvörðun sem kennarinn verði að taka sjálfur, miðað við efni og aðstæður, en ekki eitthvað sem eigi að gerast á skrifstofu skólastjóra og miðast við öll efni og allar aðstæður.

Þá sé líka í fínu lagi að búa til safe spaces – en það megi ekki nota hugtakið sem skjöld gegn öllum óþægindum. Kennslustofan geti verið staður til þess að ögra og það sé einfaldlega margt sem ómögulegt sé að læra án þess að verða fyrir óþægindum. Maður verður ekki læknir án þess að þola að sjá blóð. En það þýðir kannski ekki að það megi sturta yfir mann blóði óforvarendis inni á klósetti bara af því maður er í læknanámi.

Þeir skilgreina síðan stórt svæði utan kennslustofunnar – sjálfan kampusinn – sem málfrelsissvæði. Þar eigi að gilda rúmari reglur um tjáningu en annars staðar í samfélaginu og raunar líka rúmari reglur um truflun – en truflunartjáningu er eðli málsins samkvæmt sniðinn þröngur stakkur í kennslustofu, þar sem fólk á að bera virðingu fyrir hugmyndunum sem verið er að ræða. Sé maður ósammála fyrirlesara er ekki nóg að segja honum bara að fokka sér – þótt það sé nóg á kampusnum annars – í kennslustofunni ber manni skylda til þess að kljást við hugmyndir fyrirlesarans. Ég hef séð alveg fáránleg myndbönd af fólki að garga niður fyrirlesara – t.d. karlréttindasinna – bæði inni í kennslustofu og svo í stórum hópum fyrir utan þær, með þeim afleiðingum að ekki heyrðist orð innandyra. Höfundar eru alveg klárir á að það sé utan marka.

Þeir leggja líka áherslu á það lögfræðingarnir að skólarnir geti gert ýmislegt til þess að vinna gegn hatri í skólanum án þess að grípa til þess að banna illyrmislegar hugmyndir.

En þeir eru líka alveg harðir á því að tilvikum þar sem kennurum og nemendum sé refsað að ósekju – eða réttara sagt fyrir tittlingaskít eða „réttmætan hugmyndaflutning“ eða hvað maður vill kalla það – fari mjög fjölgandi og það sé full ástæða til þess að hafa áhyggjur, bæði af andrúmsloftinu í kennslustofunni en líka í kringum háskólann – einn kennari var sem dæmi rekinn fyrir að fara með blackface málningu á grímuball, ótengt háskólanum, þótt sannað þætti að hún hefði fyrst og fremst ætlað að „ögra til umræðu“. Þótt manni finnist slík hegðun ósæmileg sé hún engan veginn réttlætanleg brottrekstrarsök.

***

Hans Blær – verandi tröll – starfar við hið transgressífa, að ganga yfir þessa línu, helst þannig að hán komist upp með það. Þar er ekki endilega spurt hvort hán brjóti lögin, sem hán gerir stundum lítillega (og stundum meira), heldur hvort og hvernig hán brýtur á siðferðislögmálum. Hán þarf að brjóta nóg á þeim til þess að þjóðfélagið taki andköf en ekki svo mikið að fólk hætti að horfa eða hlusta – þetta er línudans þess sem vill hámarka athyglina. Og verandi fjölmiðlastjarna lýtur hán augljóslega öðrum reglum en t.d. háskólaprófessorar.

Í kampussamhenginu er hér hægast að vísa enn eina ferðina til Milo Yiannapoulus sem túraði milli kampusa í Bandaríkjunum í fyrra og baðaði sig í athyglinni, bæði jákvæðri og neikvæðri. Sums staðar fór hann á svið og gerði óskunda og sums staðar – t.d. í Berkeley, en þar eru báðir höfundar Free Speech on Campus starfandi – var honum ekki hleypt á svið af reiðum múg og gerði þannig enn meiri óskunda og vakti enn meiri athygli.

Það eru til þrjú stig af þessari transgressjón. Í fyrsta lagi transgressjón sem gengur ekki nógu langt – sjokkerar engan (eða sjokkerar nógu lítið að fólk eigi auðvelt með að hafna því að það hafi sjokkerast). Síðan transgressjón sem fúnkerar – þar sem hinir þórðarglöðu hlæja og hinir viðkvæmu reiðast. Tröllið – ekki ósvipað og transgressífi listamaðurinn – þrífst á átökum þessara tveggja hópa, þetta er kraftaverkaaugnablikið. Loks er það transgressjón sem einfaldlega gengur of langt – þegar það slær þögn á hópinn og þetta „er ekki fyndið lengur“. Það getur verið tímabundið – einsog gerðist fyrir Milo þegar hann gerði lítið úr samböndum unglingsbarna (13-14 ára) við fullorðna karlmenn – eða stærra, verra og ófyrirgefanlegra.

Í síðara tilvikinu nær þá transgressjónin yfirleitt út fyrir heim orðanna – þá eru það gjörðir. Hitler – svo ég taki nærtækt dæmi! – var húsum hæfur þrátt fyrir Mein Kampf. Það þurfti helförina til þess að Morgunblaðið hætti að verja hann.