16. apríl

Líklega eru komnir tveir sólarhringar síðan ég gaf síðast skýrslu. Allt er við það sama. Það er heitt en ekki of heitt. Ég er með frekar lítið af stigum (svindlaði á jóga; reykti). Las upp í íslömskum stúlknaskóla í gær. Það var frekar skrítið að horfa á allar þessar skuplur. Ekki þar fyrir að þær voru voða venjulegir unglingar – flissuðu mikið og kennararnir áttu í eilífri baráttu við skvaldur. Þær spurðu líka fínna spurninga – ekkert um trúmál en talsvert um fegurðina. Ein spurði hvort það væru til ljóð sem við vildum að væru ekki til. Önnur spurði hvort það væru til ljóð sem stæðu okkur of nærri til að við sýndum neinum þau.

Eftir upplesturinn tók ég bátinn yfir bospórussund og skoðaði evrópska hlutann. Skrefamælirinn í símanum segir að ég hafi gengið 30 þúsund skref – tæpa 26 kílómetra. Það er það mesta sem ég hef gengið á einum degi síðan ég fékk símann. Það er mesta furða hvað hverfin eru ólík og hvað umhverfið breytist hratt. Á einum stað líður manni einsog á miðöldum í þröngum, skítugum götum þar sem hver smábasarinn tekur við af öðrum; svo sams konar nema hreinni og túristavænni; á þeim næsta eru ekkert nema risavaxin vöruhús; svo kemur túristahverfi með hótelum; þá hippsterahverfi fyrir lókala; fátækleg íbúðarhverfi; hverfi þar sem allar búðir selja veiðarfæri, mótora og akkeri; o.s.frv. o.s.frv.

Ég fór meðal annars í tvær moskur. Suleiman-moskuna og „nýju“ moskuna (hún var ekkert nýlegri að sjá). Þar var mjög friðsælt en það kom mér á óvart – eins lógískt og það nú annars er – hvað er mikil táfýla þarna inni. Kannski er það ekkert skrítið í ljósi þess að líklega koma þúsundir túrista þarna á dag og allir hafa þeir þrammað um í hitanum og þurfa svo að fara úr skónum áður en þeir koma inn. Það var að minnsta kosti mjög mikil táfýla af mér.

Svo fór ég á nútímalistasafnið Istanbul Modern. Þar var bara einhver sú áhugaverðasta sýning sem ég hef séð á nútímalistasafni. Meðal annars verk þar sem maður gróf í sig í gegnum kaðladyr til þess að koma inn í myrkvað herbergi þar sem héngu tvö stór upplýst hnattlíkön úr loftinu. Annað þeirra var ómerkt og hitt, sem var merkt, var á hvolfi (en merkingarnar á réttunni). Það var líka myndbands/dansverk af fólki að dansa í vatnstanki. Og lítil dúkka sem sat á sandhóli og starði inn í risastóran megafón (sem minnti mann auðvitað á bænaköllin hérna – sem vinir mínir, múslimar frá Dúbaí, Albaníu og Marokkó, eru sammála um að séu umtalsvert fallegar sungin en heima hjá sér). Safnið er ekki mjög stórt en það tekur talsverðan tíma að sjá það, einfaldlega vegna þess að maður staldrar alls staðar við. Ég náði ekki að klára fyrir lokun (eða svona; hljóp í gegnum restina).

Svo var minjagripaverslunin glötuð. Það voru ekki einu sinni almennileg póstkort. Sem var í sjálfu sér hressandi (þótt ég hefði viljað kaupa póstkort af verkunum eða jafnvel bækling til minningar).

Á tímabili villtist ég líka – um það leyti sem sólin settist – og stóð á tímabili alls ekki á sama þar sem ég þræddi yfirgefnar, hljóðlátar og illa upplýstar þröngar göturnar í myrkrinu. Ekki það ég viti neitt hvernig glæpatíðnin er hérna. Mér finnst sennilegt að það sé tekið mjög hart á glæpum. En óttinn er yfirleitt ekki heldur upplýstur (ég fatta það núna að auðvitað hefði ég bara átt að fara afsíðis og gúggla glæpatíðninni í Istanbul!)

Í morgun fór ég á fætur, fékk mér morgunmat og fór svo aftur að sofa. Gekk um í hverfinu og keypti alls kyns delikatess til að taka með mér heim. Það er aldrei jafn erfitt að koma ekki við hendur trúaðra kvenna og þegar maður þarf að fá afgang í búð – þá beinlínis gneistar á milli og maður rekst alltaf aðeins utan í. Tómt vesen.

Át köfte akindir í dürüm og drakk með því ayran. Svo gerði ég jóga heima á hóteli og nú ætla ég niður í spaið að hlaupa á brettinu. Í kvöld er síðan aðalupplesturinn – ég ætla að lesa Ljóð um bókmenntir sem ég held að hafi enn hvergi birst, gott ef það var ekki samið fyrir fyrirlestur í Biskops-Arnö. Flugið heim er klukkan 6.50 – ég millilendi í París og er kominn til Íslands upp úr tvö. Ef veðurspáin skánar eitthvað flýg ég svo heim úr Vatnsmýrinni – þar sem hjartað slær – klukkan fimm. Ef ekki, er ég veðurtepptur fram á mánudag.

14. apríl

Það er lítið að gerast. Í gær munaði minnstu að ég næði fyrstu 10/10 í sjálfsbótatilraun minni en svo nennti ég ekki að blogga fyrir háttinn og fékk því bara 9. Eyddi bróðurpartinum af deginum við tölvuna á hótelveitingastaðnum að skrifa ritgerð fyrir ráðstefnu í Lyon í maí. Hún er næstum því tilbúin.

A photo posted by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on

Svo átti þessi dama þriggja ára afmæli. Ég sakna hennar alveg hræðilega.

Netið er svo lélegt á hótelinu að ég neyddist til að skæpa við hana í gegnum 3G og er kominn með magasár af peningaáhyggjum. En það var samt alveg þess virði. Anna vinkona hennar gaf henni þetta hjól sem hún er hætt að nota. Aino var annars ánægðust með bláa blöðru með gullborða – sem svo sprakk á meðan við vorum að skæpa, með frekar dramatískum afleiðingum.

 Um morguninn fór ég og las upp í menntaskóla ásamt tveimur öðrum ljóðskáldum – ungri tyrkneskri konu sem heitir Tuba Kaplan og suður-afríska skáldinu Lebo Mashile. Við Lebo töluðum helling í bílnum – mest um börn, litla afmælisbarnið mitt og barnið sem Lebo er með í maganum og á að fæðast í júlí. Á bakaleiðinni töluðum við síðan um uppgang fasismans.

 Krakkarnir í skólanum kunnu flest ensku sem einfaldaði alla samræðu. Þau spurðu hvernig við hefðum byrjað að skrifa, hvaða merkingu ljóðlistin hefði, hvernig maður vissi hvort maður hefði hæfileika o.s.frv. Tuba Kaplan talaði hins vegar litla ensku – ég veit ekki að hverju þau spurðu hana. Hún spurði mig hins vegar eftir á með aðstoð túlks hvort ég skrifaði pólitísk ljóð (ég las Ljóð um kebab, sem birtist á ensku í Grapevine í fyrra, og það var á tyrknesku í bókinni sem er gefin út af hátíðinni). Ég sagðist stundum gera það og þá brosti hún út að eyrum og sagðist sjálf skrifa mjög pólitísk ljóð.

Við yfirgáfum svo svæðið í tveimur bílum og kvöddumst á skólalóðinni. Lebo og Tuba tókust í hendur en þegar ég ætlaði að kveðja á sama hátt dró hún að sér höndina. Ég veit ekki hvers vegna það kom mér á óvart. Hún gengur með skuplu og er augljóslega trúuð. En hún er líka 27 ára, pólitískt ljóðskáld.

Ég spurði einn af skipuleggjendum um hvað hún skrifaði og var sagt að hún skrifaði um reynslu ungs fólks. Þegar ég nefndi að hún hefði ekki viljað taka í höndina á mér sagði hann fyrst bara get used to it og bætti síðan við að hann legði sig alltaf fram um að vera ýtinn við svona aðstæður. Ég held það sé í sjálfu sér sjálfsagt að hver og einn ákveði hvernig og hvort hann eða hún vill vera snert/ur. En þetta er samt óþægilegt. Manni finnst einsog í því felist einhver áfellisdómur – sem það kannski gerir. En kannski eru óþægindin bara í því fólgin að hafa verið staðinn að einhverju faux-pas – í því að vera fávís. Í Frakklandi er maður stanslaust hlæjandi að því hvort eigi að kyssa á eina, tvær, þrjár eða fjórar kinnar og það tekur því enginn illa þótt maður rétti bara fram höndina. Ég hitti þar konu sem þýðir úr sænsku og þegar við kvöddumst bað hún um skandinavíska kveðju – það er að segja faðmlag, knús, kram. Kannski snerust óþægindin um að þarna hefði „minn heimur“ verið rofinn, mín kreðsa, ung kona sem skrifar pólitísk ljóð á – í mínum heimi – að vera einhvers konar líberal sósíalisti.

Það kom reyndar fram í samræðu við einn skipuleggjandann að tyrkneska dagskráin væri íhaldssamari en þau kærðu sig um vegna þess að hátíðin er styrkt af ríkinu. Það þýðir annars vegar að þau gæta sín – það er ekkert hægt að bjóða hverjum sem er – og hins vegar að mörg róttækari skálda vilji einfaldlega ekki leggja nafn sitt við hana.

Ástandið hérna er náttúrulega ekki alveg normalt. Samkvæmt RÚV hafa nærri því tvö þúsund manns verið handteknir fyrir að tala illa um forsetann frá því hann tók við völdum 2014 – þar af fimm manns í gær.

Eftir skólaheimsóknina fór ég bara að vinna, borðaði kvöldmat á hótelinu (sem er ókeypis), vann meira og svaf.

Ég vaknaði of seint fyrir morgunmatinn – eða í þá mund sem hann var að klárast. Ætlaði fyrst að fara að leita uppi morgunverðarstað sem hafði verið mælt með við mig en internetið sagði að það væri búið að loka honum. Þá ætlaði ég að rjúka upp í leigubíl og fara að skoða nútímalistasafnið en var tjáð í móttökunni að það væri ómögulegt að ná í leigubíl á þessum tíma (klukkan hálfellefu á fimmtudagsmorgni). Ég fékk mér kaffi og börek á kaffihúsi í nágrenninu, skoðaði möguleika á að taka metró – en stöðvarnar virðast meira og minna vera lokaðar, búið að rífa upp allt kerfið. Á endanum rölti ég bara hér um í hverfinu, kom svo aftur upp á hótel og vann svolítið meira.

Á eftir fer ég að selja boli með ljóðaáletrunum. Þetta er eitthvað góðgerðardæmi. Í kvöld er svo skipulagt hangs með hinum skáldunum sem ég hef hingað til mest hitt í hótelkvöldmatnum.

12. apríl

Það er eiginlega kominn þrettándi í Istanbul og þrettándi apríl í ár er þriggja ára afmælisdagur dóttur minnar, Ainoar Magneu. Ég heyrði í henni í síma og á skype áðan; hún er með eyrnabólgu og hefur ekki mjög gaman af lífinu og fór að hágráta þegar ég þurfti að fara.

Ég eyddi deginum í leit að afmælisgjöf handa henni. Keypti á endanum tréhendi með hreyfanlegum liðum. Alveg pínu skrítið.

Ekki segja henni. Þetta er leyndarmál fram á sunnudag (hún les ekki bloggið mitt).

Á ráfi mínu um í miðbæ Uskudar – sem er svona hverfisborg í Istanbul, þar sem ég bý á meðan á hátíðinni stendur – gerðist þetta:

„Take a picture of that instead“ the boatman at the harbor said to a pair of tourists posing, pointing up into the air at the seagulls. „Take a picture of what?“ they asked. And I looked up and saw him. I watched him on the ledge for what seemed to be forever. He fell, grabbed a hold, climbed back up, threatened to jump again and again – at one point he took up his wallet and seemed to want to bribe the police to leave him alone. Then he fell again, grabbed a hold, swung his legs around and climbed back up. Every once in awhile he’d bang his head on the window so hard you could hear it – or him – crack, six stories down on the pavement. At times he seemed drunk out of his mind and at times as if he were spiderman. And I thought: Should I keep walking? Do something? Will I ever again get the chance to see a man die? Will I be more or less jaded and deluded if I stay or if I leave? Is there humanity in watching, and if not whom am I debasing? Me? Him? Society? My heart was racing and I really needed to pee. I never looked away, not for a single moment. I took up the phone and took a photo for Instagram, and thought: this is nuts, I am not a person, I am a machine. Something must happen – my gaze must be broken before I urinate myself in public. And then suddenly he gave up and decided to go on. He took somebody’s outstretched hand and climbed in the window which promptly was shut behind him, sealing him within the house, within humanity, stuck with the living. I clapped.
A photo posted by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on

Ég var miður mín en svo tók eðlileikinn strax aftur við. Hann lifði líka af, þessi blessaði maður – nema hann hafi ráfað aftur út á silluna seinna, en í borg af þessari stærðargráðu deyja sjálfsagt margir á dag þótt þeir deyi ekki beint fyrir framan mann.

Og einhvern veginn var maður bara aftur kominn inn í mannhafið strax og þessu lauk. Hálftíma síðar var maður byrjaður að gleyma þessu.

Höfnin er mikið verslunarhverfi en mér sýndust flestir þarna samt vera heimamenn, frekar en túristar, þótt búðirnar séu tiltölulega túristalegar. Enda skilst mér að túristarnir séu flestir hinumegin við ána í Evrópu, en ekki hér Asíumegin. Ég á eftir að líta á það, ef færi gefst.

Ég var mjög lúinn þegar ég kom heim. Byrjaði daginn á 5 kílómetra hlaupatúr á bretti í hótelspainu – fyrsta skipti sem ég hleyp á bretti. Það var alltof heitt og þungt loft þarna inni og mjög lágt til lofts, svo ég rak mig nokkrum sinnum uppundir. En annars frekar mikill lúxus þetta spa einsog spö almennt.

Eftir hlaupin fór ég í sturtu og svo niður í bæ – það er ríflega klukkustundargangur yfir nokkuð bratta hæð – gekk þar um í 4-5 tíma og svo aftur heim. Fékk mér kebab sem var minni en Berlínarkebabið – svona 1/3 af stærðinni – og alls ekki jafn bragðmikill og hressandi. Döner kebab er líka Berlínartyrkneskt fyrirbæri, en ekki tyrklandstyrkneskt.

Og listinn? Ég er búinn að missa úr þrjá jógadaga, enn ekkert skrifað, alltaf lesið smá og missti úr einn hlaupadag. Hvorki reykt né drukkið. Einn dag kunni ég ekkert gott að meta. Hef verið of mikið á netinu, of mikið að glápa og of mikið að gera krossgátur. Ætli ég sé ekki með á bilinu 6-8/10 eftir því hvernig maður leggur mat á dagana? Hvar einn byrjar og öðrum lýkur, meina ég – eru þetta sólarhringar frá einhverri tiltekinni klukkustund, dagar frá því ég vakna þar til ég sofna eða bara tíminn sem líður á milli bloggfærslna?

11. apríl

Maðurinn sem afgreiðir á 428 Bar í Terminal 1 á Charles de Gaulle flugstöðinni heitir Benhur. Ben Húr. Mér finnst það alveg magnað en ég er líka enn að vakna. Þegar ég opnaði augun í morgun – á stofugólfinu hjá Snæbirni Brynjarssyni og hans ektakonu, í Porte de Clignancourt – var ég viss um að ég hefði sofið yfir mig. Sem betur fer var það misskilningur. En kannski til marks um að ég sé farinn að taka ferðalaginu alvarlega, frekar en með þeirri stóísku ró sem hefur leitt mig í ógöngur á síðustu dögum. Það er ágætt, ekki síst í ljósi þess að nú er ferðalöngum ráðlagt frá því að ferðast til Istanbul vegna hryðjuverkahættu.

Mér hefur í tvígang verið bent á að kannski sé ekki góð hugmynd að ganga um með hattinn í Tyrklandi því róttækir múslimar gætu talið mig vera Ísraelsmann. Ég veit samt ekki hvort ég ætla að fara að taka því alvarlega. Ég er þrátt fyrir allt líka í rauðum buxum og einhvern veginn alltaf meira einsog fífl en rabbíni til fara. Þegar ég var að skrifa Illsku hins vegar var ég á tímabili að breytast í litháískan 20. aldar gyðing, með barðastóran svartan hatt og skegg niður á bringu. Í Póllandi hræktu (fullir) menn á eftir okkur Lomma Lomm og görguðu eitthvað um Ísrael.

Í gær var mér vísað úr metróinu – ásamt öllum sem þar voru – og línunni lokað á kafla vegna þess að það hafði fundist „grunsamlegur pakki“ einhvers staðar. Mér skilst að þetta sé daglegt brauð í París.

Annars eru í dag 30 ár frá því Primo Levi lést. Hann henti sér fyrir lest. Nóbelsverðlaunahafinn Elie Wiesel, sem var líka í Auschwitz, sagði um Primo að hann hefði í raun drepist í útrýmingarbúðum nasista, fjörutíu árum after the fact.

En ég sem sagt fékk flugmiða í dag, annað en í gær, og er kominn inn fyrir öryggishliðið og þá fær mig fátt stoppað. Mikligarður bíður mín.  Maðurinn sem afgreiddi mig um miðann hjá Turkish Airlines, og var áreiðanlega af tyrkneskum ættum, bauð „góðan dag“ á íslensku þegar hann sá passann minn, spurði síðan hvort ég væri með „en bagage“ og kvaddi loks með „takk“. Mér fannst það impónerandi og skemmtilegt en náði ekki að spyrja að því hvort hann hefði einhver tengsl við landið – líklegast hefur hann lært einhvers konar norræn fræði einhvers staðar, fyrst hann ruglaði líka skandinavískunni inn í þetta, frekar en að hann hafi búið á Íslandi. Ég ímynda mér ýmislegt um þennan mann. Hann heitir ábyggilega líka Ben Húr.

Sendiráðið var opnað fyrir mig í gær og mér reddað. Það var ekki lítið sem ég var þakklátur fyrir það. Þau rukkuðu mig ekki einu sinni (frekar en ræðismaðurinn í Caen, reyndar). Úr sendiráðinu fór ég upp í 18. hverfi þar sem við Snæbjörn höfðum mælt okkur mót á kantínunni Recyclerie, sem er gamalt uppgert reiðhjólaverkstæði. Þar gekk ég í flasið á konu sem hafði lesið bókina mína og var mjög hissa að sjá höfundinn bara spranga þarna um. Það var einhver norræn listahátíð í húsinu sem var því fullt af friðlum norðurlanda.

Ég bauð Snæbirni út að borða fyrir gistinguna – og Plokkfiskbók – og svo fórum við og fengum okkur nokkra bjóra. Við ræddum eitt og annað – bókahark, fagurfræði, menningarfjölmiðlun – og rifumst um það hvort Andri Snær myndi bjóða sig fram, ég sagði já og hann sagði nei, og í þeim töluðu orðum hefur Andri verið að boða til blaðamannafundar. Ég frétti það hins vegar ekki fyrren ég var að leggjast til svefns og þá munaði minnstu að ég ryddist bara inn á Snæbjörn og frú til að taka eitt gott told you so fyrir svefninn. En ég er of vel upp alinn svo ég lét það vera.

Ég er ekki alveg viss með stigagjöfina. Skrifaði ekki, reykti ekki, gerði engan jóga, drakk aðeins meira en væri tilvalið . 7 af 10? Segjum það.

10. apríl: Listin að klúðra ferðalögum

Ég veit ekki hvort það telst sem ég hafi misst úr bloggdag þegar það er bara rúmur dagur af vökustundum sem fellur úr. Hvað um það. Í gær fór ég og reddaði neyðarvegabréfi hjá ræðismanninum í Caen; síðan settumst við Eric Boury niður heima hjá honum í Herouville og fórum yfir þýðinguna á Heimsku sem kemur út hjá Metailie á næsta ári. Konan hans, Claude, gerði dásamlegan hádegismat og svo fórum við öll aftur til Le Havre.

Um kvöldið var maraþonupplestur úr Illsku – þau töluðu um 50 mínútur en samkvæmt minni klukku þá var lesturinn nær einum og hálfum tíma. Sem var fínt, eða það fannst a.m.k. þeim sem tala frönsku (ég var að verða svolítið þreyttur). Eftir upplesturinn var samtal á sviði í svona 40 mínútur og svo – klukkan 23 – var farið út að borða kvöldmat. Ég var kominn á hótelið klukkan 02 og vaknaður aftur klukkan 06 til að ná bílnum til Parísar, þar sem til stóð að ég færi áfram til Istanbul.

Jamm. Til stóð. Þetta er að verða einsog kafli í bók. Ég hrekst um heiminn á óheppninni (og ekki í fyrsta skiptið – nægir að nefna þegar ég svaf yfir mig í Norrænu og missti af Færeyjum). Þegar ræðismaðurinn spurði mig í gær hvort ég þyrfti þriggja mánaða eða sex mánaða neyðarvegabréf sagði ég að þrír mánuðir væru feykinóg, ég væri að fara heim eftir viku. En svo var mér snúið við á deskinum áðan – enda þarf maður að hafa vegabréf sem gildir í a.m.k. sex mánuði eftir að maður kemur og mér hefði aldrei verið hleypt inn í Tyrkland.

Ég breytti miðanum – missi ekki af neinum viðburðum ef ég kem á sama tíma á morgun (en missi af túristatíma – og lúrnum í flugvélinni, sem ég var farinn að hlakka til). En það var dýrt, og einsog mér er tíðrætt um er ég svimandi blankur. Nú er ég búinn að ræsa út utanríkisráðuneytið til að opna sendiráðið á sunnudegi – og þá er að sjá hvort óbilandi stuðningur minn við Framsóknarflokkinn í gegnum tíðina skilar sér ekki í einhverri forgangsmeðferð.

Ég á eftir að redda mér gistingu í París í nótt. Allar tillögur vel þegnar. Og bíða þess að utanríkisráðuneytið hafi samband aftur, upp á að fá nýtt vegabréf. Og redda mér nýjum passamyndum, reikna ég með.

Og hvernig var með stigagjöfina? Ég fór út að hlaupa, las, gerði jóga, reykti (en bara lítið). Hvað er það þá? 7 af 10?

Ég þyrfti eiginlega að bæta á þennan lista ellefta atriðinu: ekki klúðra ferðalögum.

8. apríl (Lestrardagbók)

Ég kláraði Listgildi samtímans í morgun. Frábær bók og hefði mátt vera miklu lengri og með fleiri dæmum – bæði myndum og frásögnum. En þótt hún sé lítil og nett er hún falleg – fallegt í henni letrið og kápan. Hefði samt mátt jafna letrið. Eða hvernig segir maður það, jústífíera? Ég vil að það sé regla á blaðsíðunum.

Ransu skiptir listinni gróflega í þrjá þætti; hugmyndafræðina, markaðsfræðina og fagurfræðina (sem er skipt niður í hið fagra, hið háleita og hið gróteska). Síðan rekur hann hvernig þessir þræðir samtvinnast í íslenskum og alheimskum listaheimum. Í eftirmála talar hann um að fagurfræðin og hugmyndafræðin geti ekki án hvor annarrar verið og að markaðsfræðin hafi óneitanlega mótandi áhrif á bæði fagurfræðina og hugmyndafræðina.

Mér fannst kannski fullmikið bara tæpt á markaðsfræðipælingunum – þar hefði verið áhugavert að fá ítarlegri og krítískari greiningu. Hvað eru vinsældir, hvað er velgengni, hver er munurinn á tímabundnum vinsældum og velgengni (hæpi) og hinu að lista fyrir eilífðina – kannski eru það klisjur en það má setja þær í nýtt samhengi og spurningarnar skipta ekki minna máli (fyrir listina) en hvað er fegurð og hvað er list.

Það er ekki heldur endilega gefið að markaðsfræðin stefni bara að afþreyingarvæðingu listarinnar – það er þvert á móti oft nánast einsog listaheimurinn hafni því að verða alþýðleg afþreying einmitt í krafti markaðarins, með því að gera hið yfirdrifna og súblíma „eintak“ (eða takmarkað upplag) að grunnpunkti. Og eintakið er alger andstæða afþreyingarmarkaðarins. Afþreyingarmarkaðurinn er nýríkir plebbar; eintakslistamarkaðurinn er old money Europe.

En sem sagt, frábær bók og ekki minna frábær fyrir að ég rífist við hana. Fleiri svona bækur.

Hvar var ég í plönunum mínum? Ég horfði á netflix og #cashljós fram eftir öllu í gær. Vaknaði í morgunmat, gerði jóga, hringdi út af passanum mínum (fæ neyðarpassa í Caen á morgun) og las svolítið. Síðan fór ég í hádegismat með Eric Boury, þýðandanum mínum, rithöfundinum Agnes Desarthe, skipuleggjandanum Marianne og rússnesku leikkonunni … Taia, heitir hún líklega. Ég kann ekki að stafa það. Tæ-a.

Eftir krækling, franskar og hvítvín fórum við á bókasafnið og áttum samtal um þær þrjár bækur sem við myndum taka með okkur á eyðieyju. Eða – ég hélt þær ættu að vera þrjár og leyfði mér að velja fjórar (#manspreading) en svo áttu þær að vera tvær. Og ég samt með fjórar. Það náðist ekki að hafa uppi á tveimur þeirra á frönsku – eða eiginlega bara einni þeirra – og ég talaði ekkert lengur en ég átti að gera svo þetta var alltílagi.

Ég valdi: Ulysses eftir Joyce vegna þess að ég reiknaði ekki með því að láta bjarga mér neitt fljótlega og mér skilst að Joyce hafi sagt, þegar bókin kom út, að þetta myndu duga þúsund bókmenntafræðingum í þúsund ár. Og vegna þess að ég hef aldrei lesið hana.

Ég valdi: My Vocabulary Did This To Me, valin ljóð eftir Jack Spicer. Þessi bók er einsog gamall vinur. Ég á engin uppáhaldsljóð í henni, það eru engir hittarar – ekkert Howl eða Une Saison en Enfer – heldur er hún jafngóð alla leið í gegn, 350 síður, og einhvern veginn traust. Svona bók sem ég gæti treyst mér til að lesa aftur og aftur og aftur og aftur og hef lesið aftur og aftur og aftur. Og treysti því að ég fái ekki leið á henni. Ég veit reyndar ekki einu sinni hvort ég hef lesið öll ljóðin í henni, því ég bara opna hana einhvers staðar og les.

Í Bandaríkjunum kjósa menn oft forseta á þeirri forsendu hvort þeir gætu hugsað sér að fá sér bjór með honum. Jack Spicer er minn forseti; ég gæti hugsað mér að fá mér bjór með honum. Sem er auðvitað afleit hugmynd því hann drakk sig í hel – aðeins 2-3 árum eldri en ég er núna.

Ég valdi: Sjálfstætt fólk. Vegna þess að ég hef ekki lesið hana og enga aðra bók veit ég íslenska sem er jafn mikil skyldulesning. Sjálfstætt fólk getur auðvitað ekki lesið Sjálfstætt fólk og haldið sjálfstæði sínu, það segir sig eiginlega sjálft. Sjálfstætt fólk – a.m.k. Íslendingar – hlýtur að þurfa að geyma hana. Þar til á eyðieyjunni. Sjálfstæði hefur nefnilega ekkert að segja nema í félagslegu samhengi. Og þá gæti ég loksins látið af því verða.

Ég valdi: The Selected Writings of Gertrude Stein. Að lesa Stein er einsog að falla í trans. Hún skrifar á einhvern ótrúlega næfan en fallegan máta – setningar sem eru í senn svo ótrúlega einfaldar og ótrúlega margbrotnar. Maður þarf ekkert að hugsa á meðan maður les Gertrude Stein, maður bara lætur sig falla.

Bókin sem þau fundu á frönsku og Taia las úr voru Ulysses og svo var lesið úr The World is Round eftir Stein – sem heitir Willie est Willie á frönsku. Það er svo magnað með Stein að eiginlega þurfti ég ekkert að skilja hvað hún var að lesa til að hafa gaman af því, til þess að njóta þess á svipaðan hátt og ég nýt þess að lesa hana á ensku – og til þess að sýna áhorfendum hvað ég væri að meina las ég brot úr þýðingu minni á Ef ég segði honum (If I Told Him). Sem féll í góðan jarðveg.

Aðrir sem voru nefndir þarna voru Isaac Bashevis Singer og La Fountaine (Agnes), og Litli Prinsinn og Stig Dagerman (Eric). Það var sérstaklega gaman þegar Taia las La Fountaine á barokkska vísu – hún var dásamleg.

Hvernig var þetta með listann? Aftur hefur mér tekist að gera allt nema skrifa nokkuð. Nema bloggið, það er. Níu af tíu. En auðvitað ekkert hlaupið því það er bara annan hvern dag og ég fór í gær.

7. apríl

Bon jour, Charles.

A video posted by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on

Ég fór á fætur klukkan 02.30 og tók þrjú-rútuna til Keflavíkur. Í rútunni var ég með grímu fyrir augunum og svaf. Þegar ég tók hana af mér í Keflavík og leit á sessunaut minn – sem ég hafði ekki séð áður – fannst mér hann eitthvað kunnuglegur en hristi það svo af mér. Það var of dimmt og of snemmt og hann gat ekkert verið kunnuglegur.

Inni í flugstöð heilsaði ég síðan upp á hann. Snorra Pál, ljóðskáld og myndlistarmann, sem var á leiðinni til Berlínar. Við ræddum byltinguna og einlægnina og vonleysið og grúskið og hvað sé hætt við að maður verði bara skrítinn karl. (Ég er kannski löngu orðinn skrítinn karl).

Ég hitti líka myndlistarmanninn Leif Ými sem var að fara að setja á svið íslenskt verkfall í Palais de Tokyo.

Ég lenti á Charles de Gaulle, þar sótti mig bílstjóri sem keyrði mig til Le Havre þar sem ég uppgötvaði að passinn minn var týndur. Upphófst vesen, símhringingar, tölvupóstar. Þetta er í annað sinn sem ég er passalaus í Frakklandi á innan við ári (síðast týndi ég honum í Reykjavík en komst til Parísar á ökuskírteininu). Líklega endar þetta með neyðarpassa svo ég komist til Istanbul á sunnudaginn. Wow air eru eitthvað minna en hjálpfús – það er svolítið einsog þjónustuverið þeirra svari bara í mjög fyrirfram ákveðnum frösum. Mig vantar bara að einhver líti milli sætanna í vélinni en það hefur a.m.k. enn ekki gerst. Á morgun hringi ég aftur á CDG – til að fá öppdeit á hvort hann hafi fundist – síðan á Leifsstöð og loks í sendiráðið. Það er bara spurning hvernig ég kemst til Parísar til að sinna þessu á sama tíma og ég á að vera að sinna þessari bókmenntahátíð. Ég held það sé alveg fullur vinnudagur.

Svo fékk ég mér lúr. Fór út og hljóp fimm kílómetra. Fór í sturtu og fékk mér pho á víetnömskum veitingastað í næstu götu, þar sem ég las hálfa Listgildi samtímans eftir Jón B.K. Ransu. Þetta er handhæg bók fyrir leikmann – margt kunnuglegt auðvitað en gott að það sé ekki gert ráð fyrir að ég viti allt (einsog oft er). Ég klára hana sjálfsagt í kvöld eða á morgun, hún er mjög stutt og pen.

Jóga og blogg. Nú er það Netflix, #cashljós og chill.

Mér sýnist að samkvæmt markmiðalistanum sem ég setti mér í gær sé ég með 9/10. Hef ekkert skrifað í dag (en aðeins átt samskipti við ritstjóra vegna verks). Og kannski verið pínu fúll en glaðari en ég átti inni fyrir að vera út af þessu passarugli sem hefði auðveldlega getað gert mig grátandi vitlausan af sturlun.

Ég á það kannski bara inni.

Plokkfiskur fyrir meira en 100 manneskjur en minna en 40.000 krónur

Hráefni:

20 kíló af þorski úr Sjávarfangi (á ríflegum afslætti)
12 kíló af kartöflum
8-10 lítrar af Örnumjólk (gefins!)
40 gulir laukar
5 smjörstykki
6-7 bollar af hveiti
Helvítis hellingur af karríi, massaman, aromat, nýmöluðum svörtum pipar, salti og bearnaise-essens

Aðferð:

1. Fyrst finnur maður stærsta pottinn í húsinu – þennan sem maður keypti í Góða hirðinum af því það var svo gott rúmmetraverðið á honum en maður hefur aldrei séð sér ástæðu til að nota. Svo leggur maður hann til hliðar og finnur einhvern annan sem er að minnsta kosti tíu sinnum stærri.
2. Í þessum ótrúlega potti a) sýður maður sturlað magn af fiski b) og eitthvað aðeins minna af kartöflum.
3. Í þessum ótrúlega potti – á jafnvel enn ótrúlegri eldavél – bræðir maður smjörið og steikir laukinn þar til hann er mjúkur. Ofan í ósköpin malar maður önnur eins ósköp af svörtum pipar áður en maður hrærir hveitinu saman við og bakar út sósuna með mjólkinni.
4. Þá skóflar maður þorskinum – með skóflu, vel að merkja, helst stórri snjóskóflu – út í þennan hyldýpispott allra eilífða og hrærir vel með skóflunni. Saltar með skóflunni.
5. Að síðustu skiptir maður matnum niður í minni potta og bragðbætir ýmist með engu (au naturel), karríi (gulur), massaman (rauður) eða bearnaise (súr).

Þetta ber maður maður fram á plastdiskum með plastgöfflum einsog rýmist innan fjárhagsáætlunar og hefur með því Örnumjólk í plastglösum og sælkerarúgbrauð úr Gamla bakaríinu á Ísafirði – á afslætti og fer með því um það bil 1.300 krónur fram úr fjárhagsáætluninni.

6. apríl, 2016

Það munaði minnstu að ég púllaði Gunnar Wærness* og færi af stað til Frakklands einum degi of seint. Í gær hélt ég að flugið suður væri á fimmtudag og flugið út á föstudag. En svo rak ég augun í að flugið frá París til Istanbul (#humblebrag #heimshornaflakk) er á sunnudag og fannst þetta eitthvað furðu stutt stopp. Og kíkti á flugmiðann minn. Flugið suður er á eftir, fer út í fyrramálið.

Mér finnst vera orðið ansi langt síðan ég átti rólegan dag í vinnunni. Núna í #cashljós ruglinu hef ég verið að berja saman pistil/ljóð fyrir þáttinn OBS í Sveriges Radio (sem fjallar vel að merkja ekki um íslenska pólitík), ganga frá upplýsingum fyrir endurskoðandann minn, svara milljón tölvupóstum og skrifa ritgerð um illsku (fyrirbærið) fyrir bókmenntahátíð í Lyon í vor. Dóttir mín var veik, já og konan mín á tímabili líka.

Ég vinn hægar en ég gerði einhvern tíma, það hjálpar ekki til; ég rusla mér ekkert í gegnum neitt lengur á viljastyrknum einum saman. Eða svona, sumt, ekki allt. Ég lagði t.d. af stað keyrandi vestur þegar flugið mitt frá Berlín lenti í Keflavík fyrir tveimur vikum, á miðnætti, til að mæta í tæka tíð fyrir afmæli konunnar minnar.

OBS-pistillinn var átta dögum á eftir deddlæn en verður ekki tekinn upp fyrren ég kem heim aftur, svo það kemur ekki of mikið að sök.

Og nú flýg ég s.s. suður á eftir og út klukkan sex í fyrramálið, illa sofinn, til þess að sitja síðan í bíl frá París til Le Havre þegar ég lendi. Bróðurpartinn af næstu viku verð ég í Istanbul. Þangað hef ég ekki komið áður. Ég er að reyna að stilla mig jákvæðar af gagnvart þessum ferðalögum öllum saman, ég hef tamið mér svolítið að kvarta undan þessu – þegar maður ferðast svona eru flestir dagar annað hvort dagurinn sem maður kemur sveittur og lúinn á hótelið eða dagurinn sem maður druslar sér á fætur skítþunnur fyrir allar aldir til að fara heim. Þetta eru að jafnaði leiðinlegustu dagar allra ferðalaga.

En ég er tæpa viku í Istanbul og get vonandi skoðað eitthvað. Bláu moskuna. Torg og stræti. Nadja var þarna fyrir 17 árum og sá mann kveikja í sér. Það var uppnám en einhvern veginn ekki einsog þetta væri eitthvað brjálæðislega spes. Bara nokkrar löggur og svo búið.

Þegar ég fór til Frakklands í haust fékk ég sérstakan póst frá bókmenntahátíðinni um að ég gæti hætt við, ef ég væri hræddur við hryðjuverk. Þetta var í kjölfar árásanna á Bataclan. Samt var hátíðin ekki einu sinni í París heldur Caen. Ég hef ekkert slíkt fengið frá Istanbul þar sem hafa verið gerðar tvær stórar hryðjuverkaárásir frá áramótum. Þar eru allir sultuslakir.

Ég er reyndar ægilega kvartgjarn út af öllu síðustu misserin. Ekki síst peningamálum (blankur), vinnuálagi – ég kemst aldrei í frjáls skrif; ýmist vegna launaharks eða veikinda eða húsavesens eða starfsdögum kennara eða einhvers annars; finnst einsog það sitji alltof margt á hakanum, sem ég myndi vilja sinna í rólegheitunum – svefnleysi, slæmu líkamlegu ásigkomulagi (helvítis djammreykingar) og fréttafíkn. Já og svo er það þetta með lesturinn. Ég les alltof lítið. Hef litið í nokkrar smásögur í síðustu viku – nú man ég ekki hvað hann hét, pólverji sem … jú, Bruno Schulz, Krókódílastrætið heitir bókin. Þetta þýddi Hannes Sigfússon. Sturlað orðskrúð sem er skemmtilegt í svona fimm-sex blaðsíður en nær síðan engum tökum á mér – hrynur undan eigin skrauti, einsog skraut er nú annars mikilvægt. Eiginlega er textinn bara kjánalegur. Ég skil alveg tilraunina einsog hún er kynnt í textum um bókina, að skrifa einsog einhvers konar impressjónískur málari – og fíla aðrar slíkar tilraunir (t.d. Gertrude Stein), en þá vegna þess líklega að þær ganga alla leið. Þetta er of mikið hálfkák. Eða eitthvað.

Ég er sem sagt eiginlega ekki ánægður með neitt sem ég les. Las líka nokkrar smásögur í íslensku 20. aldar safni og þar var að vísu eitt og annað ánægjulegra en ég átti von á. En það var fyrir rúmri viku og ég er auðvitað löngu búinn að grafa það undir stressfjalli og #cashljósi. Og svo hef ég verið að fletta í Jack Spicer ljóðum.

Ég fylli mest upp í lestrartíma með krossgáturáðningum, sem er að verða alger djöfuls ósiður.

Ég þarf að lesa meira og blogga meira. Eiginlega þyrfti ég að setja það í forgang. Ferðablogg? Dagbókarblogg? Lestrarblogg? Ég var líka búinn að hálfskrifa inn hérna nýja plokkfiskuppskrift sem er ekki í bókinni.

Eigum við að segja að markmiðin séu 10:

1) Ná að skrifa eitthvað á hverjum degi.
2) Éta ekki yfir mig.
3) Reykja ekki.
4) Drekka ekki yfir mig.
5) Ná að lesa á hverjum degi.
6) Gera jóga á hverjum degi.
7) Fara út að hlaupa annan hvern dag.
8) Blogga daglega.
9) Lesa ekki gat á internetið.
10) Njóta dagsins (og kvarta lítið út af tittlingaskít/kunna gott að meta).

Síðasta sólarhringinn er staðan þá þannig að ég át yfir mig í hádeginu, fór út að hlaupa, gerði tvisvar jóga, las ekki rassgat, kláraði OBS-pistilinn, las gat á internetið og hef mestmegnis verið í fýlu. Sem gerir sex stig af tíu mögulegum.

* Norska ljóðskáldið Gunnar Wærness var gestur ljóðahátíðar Nýhils fyrir áratug; hann ruglaðist á dögum og missti af fluginu sínu. Kannski væri samt nær að tala um að púlla Bjarna Ben, í ljósi #panamaskjalanna.

Upp, upp!

Heilinn á mér er alls staðar í einu þessa dagana. Páskarnir tóku á. Plokkfiskveislan var átök. Ég er næstum því orðinn lasinn – Nadja náði að leggjast á undan mér en ég stefni að því að verða veikur strax og hún er orðin skárri.

Og ég hef ekkert verið að svíkjast um með lestrardagbókina. Ég hef bara ekki verið að lesa neitt – nema ég hef gluggað aðeins í bók um matreiðslumanifestó fútúrista – sem inniheldur bæði sjálft manifestóið og ýmis skrif því tengd (mikið til snýst það um stóran debatt um það hvort það sé framtíðarmanninum sæmandi að éta pasta – Marinetti sagði það af og frá, lýsingarnar eru eiginlega einsog hann hljóti að hafa verið með heiftarlegt glútenóþol).

Ég fór á bókamessuna í Leipzig og hékk síðan með Hauki og Bryndísi í Berlín – flaug heim og lenti í Keflavík á miðnætti daginn fyrir afmælisdag Nödju. Planið hafði verið að taka fyrri vélina morguninn eftir en vegna ófærðar höfðum við keyrt suður og bíllinn því í Reykjavík. Ég tók á honum stóra mínum og keyrði bara vestur um nóttina, mætti klukkan sjö og vakti hana með afmælissöngnum.

Síðan tók við undirbúningur fyrir Plokkfiskveisluna – varð mér úti um stuðning frá Forlaginu, AFÉS, Sjávarfangi, Gamla bakaríinu og Örnumjólk. Magga frænka og fjölskylda mættu á Skíðaviku, Aldrei fór ég suður og fjölskylduhangs. Þá var það Rokkfundur alþýðunnar (og erindið mitt). Síðan kom veislan. Daginn eftir það var boðhlaup milli kaffiboða í fjölskyldunni og svo fylltist húsið af rjómanum af íslensku popparaliði sem fékk impromptu ljóða- og uppskriftarupplestur.

Í gær var rólegheitadagur. Pizzadagur. Úti að hangsa á leikvelli dagur. Nadja féll í mók um miðjan dag og hefur varla litið upp síðan. Ég svona hjari. Ég þarf eiginlega að fara að finna mér rólegri en fastari takt í tilveruna. Ekki að ég átti mig á því hvernig það eigi að ganga upp. Í næstu viku fer ég til Normandí og þaðan til Istanbul. Á bókmenntahátíðir. Svo þarf ég líka að finna mér hærri tekjur.

Ég féll líka á einum deddlæn í gær. Ritgerð fyrir sænska ríkisútvarpið sem verður ekki skilað fyrren á morgun. Kei sera.