Erindi flutt á Rokkfundi alþýðunnar

Spurt er um staðsetningu. Hún er mælanleg á korti í breiddar- og lengdargráðum; 64 gráður eða 66, það er kalt úti, mínusgráður og okkur dreymir um hitann, en líklega kemur það út á eitt hvort manni er kalt á Lækjartorgi eða Silfurtorgi.

* * *

Einu sinni fyrir langa löngu þekkti ég hóp af frjóu og skemmtilegu ungu fólki sem átti það sameiginlegt að vera alltaf á leiðinni til Indlands en enda alltaf í Svíþjóð. Hugmyndin var sú að kæmist maður til Indlands myndi maður uppljómast – fá svonefnt menningarsjokk – og sjá í kjölfarið heiminn í gersamlega nýju ljósi.

En það er dýrt að fara til Indlands og því fylgir umtalsvert meira vesen en að flytja til Lundar. Maður þarf til dæmis að útvega sér vegabréfsáritun og láta sprauta sig fyrir allra handa pestum. Síðan er ábyggilega líka skítugt í Indlandi og þröngt og þegar til kastanna kemur er maður alltof víðsýnn til meika hindúismann eða hugmyndir heimamanna um stöðu kynjanna, stéttanna og hlutverk kýrinnar í samfélaginu, eða sína eigin stöðu í þriðja heiminum – þar sem maður er alltaf nýlenduherra, sama hvað maður gerir, og við sem héldum að við værum bóhem.

Og þá fer maður náttúrulega bara til Svíþjóðar. Þar er hreint og fínt, auðvelt að fá vinnu og/eða bætur, en allt er aðeins öðruvísi – þeir eru pínulítið víðsýnni en við, pínulítið klárari, aðeins krítískari, veðrið örlítið skárra – og þar er þess utan hægt að fá ódýrt falafel, ef maður vill. Hugsanlega er meira að segja hægt að fá í Lundi bærilegt tandoori framreitt af manneskju sem var alin upp í Indlandi. Það gerist ekki meira ekta.

Ef maður kemst ekki einu sinni til Svíþjóðar er síðan alltaf hægt að fara til Reykjavíkur.

* * *

Efniviður listamannsins eru fyrst og fremst upplifanir hans – í víðtækum skilningi þess orðs – upplifanir sem takmarkast eðlilega af aðgengi hans eða hennar að heiminum. Það aðgengi stýrist ekki bara af landfræðilegri stöðu listamannsins – í hvaða firði hann eða hún stendur – heldur ekki síður af tilviljunarkenndum gæðum stofnana samfélagsins – er bókasafnið gott? vídjóleigan frambærileg? veit Kristján í Hljómum eitthvað um tónlist? – og þar á ofan af getu listamannsins til að innbyrða. Hversu heitt getum við elskað, hversu margt getum við munað í einu, hversu margar mótsagnakenndar hugmyndir erum við fær um að hantera? Og svo framvegis.

Nú er auðvitað búið að loka vídjóleigunum og Kristján Freyr er löngu hættur að vinna í Hljómum – ég frétti síðast af honum á leiðinni til Indlands – en bókasafnið er ennþá gott og við höfum fengið annars konar aðgengi að heiminum í krafti sítengingar við netið. Þar þarf auðvitað að díla við ýmis konar landfræðilega lása og tiktúrur en það breytir því þó ekki að aðgengi að hlutum einsog tónlist, bókum og bíómyndum – að ónefndum skrifum um tónlist, bækur og bíómyndir, allri menningarsamræðunni – er allt annað en það var þegar t.d. ég var að alast upp. Ekki ótakmarkað, en ansi nærri því.

Í heimi þar sem maður getur orðið sér úti um hvaða lag sem er á innan við tíu sekúndum, fundið öll málverk heimsins í fullkominni upplausn, lesið sér til um allar heimsins heimspekilegu dellur og pantað sér bækur í kindilinn á augnabliki; þar sem maður getur grafið uppi fjarlægasta fólk og sent þeim skilaboð samstundis; þar sem er jafnvel erfiðara að fela sig fyrir upplifununum en að festast í þeim – í heimi þar sem aðgengið er algert og þar sem heimurinn rennur þess utan meira og meira saman í eitt – borgum svipar saman, hegðunarmynstur íbúanna verða líkari og líkari, tabúin alls staðar þau sömu og kurteisisvenjurnar meira og meira krefjandi, enginn ofbýður öðrum, þar sem við eigum endalausa kröfu á að ekkert trufli okkur – í heimi af því tagi fær litli mismunurinn í lífum listamanna óendanlega mikið vægi, hver einstök upplifun sem listamaðurinn deilir ekki með öðrum – hvorki í holdinu eða á netinu – að uppistöðunni í því sem gera á list hans einstaka.

* * *

Öll sköpun er afleiðing þess sem maður hefur upplifað – listamaðurinn innbyrðir og skilar af sér, svo að segja.

Það skítur auðvitað enginn nákvæmlega því sem hann át, heldur einhverju skyldu því – hafi ég ekki misskilið eitthvað illilega í menntaskólalíffræðinni er í öllu falli fullkomlega ómögulegt að skíta einhverju sem maður hefur ekki étið. Það fer ekkert út sem ekki kom fyrst inn einhvers staðar.  Í einfölduðum skilningi mætti síðan halda því fram að við sem leggjum stund á íþrótt listarinnar keppum því um hvert okkar hafi öflugustu meltingarfærin og skíti þar með árennilegustu afurðunum.

Heilinn og hjartað – líffærin sem búa til listina – reka auðvitað ekki að öllu leyti sams konar búskap og maginn, nýrun og þarmarnir. Við bestu skilyrði skila þau til dæmis því sem þau hafa innbyrt frá sér í betra ásigkomulagi en þau tóku við því, á meðan maginn gerir jafnvel mestu sælkeramáltíðir ólystugar. Þá fara heilinn og hjartað stundum ólíklegri leiðir að meltingu upplifana, lærdóms og kærleika, á meðan maginn bara malar sitt í sama takti dag eftir dag.

* * *

Ég óttast að búa í Reykjavík. Ekki bara vegna þess að mér hefur leiðst það þegar ég hef gert það, ekki bara vegna þess að ég var alltaf blankur og blautur í fæturna á vappi um miðbæinn í þeirri fullvissu að ég væri að missa af einhverju stórkostlegu – sem var ýmist alltaf eða aldrei raunin, eftir því hvernig er á það litið, í það minnsta fann ég aldrei hið stórkostlega sem ég taldi mig vera að missa af. Heldur vegna þess að ég vil standa vörð um sérviskuna í sjálfum mér og ég vil rækta hana og það er ekki svo auðveldlega gert í kraftmiklu fjölmenni. Ég er afskaplega áhrifagjarn – og vil vera það, vil vera viðkvæmur og móttækilegur, án þess að fórna hörkunni eða mótstöðunni. Og þá er fjarlægðin kannski mikilvægust alls.

* * *

Líklega er best að gangast bara við því. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að orða þetta. En ég sé fyrir mér að samfélag – sérstaklega samfélag einsog Ísland, sem á sér bara eina raunverulega miðju, bara Róm og enga Mílanó, bara Stokkhólm og enga Gautaborg, bara París og enga Marseille – þar sem stærstur hluti listamanna af sömu kynslóð eiga dag frá degi sömu upplifanir, þramma gegnum sama veðrið í sams konar skóm til að sækja sömu leiksýningarnar, sömu tónleikana og kaupa sömu bækurnar í sömu búðunum til þess að ræða þær á sömu kaffihúsunum og komast að samræmdri niðurstöðu um merkingu þeirra og gæði – slíkt samfélag fær fjölbreytnina ekki beinlínis ókeypis.

* * *

Ég á ekki við að það sé alltaf frábært að vera listamaður á Ísafirði – eða einu sinni bara manneskja á Ísafirði. Návígið er alveg þrúgandi stundum – fjörðurinn er í senn hlýr barmur og fantatak –þegar ég fór héðan fyrst þá var það vegna þess að ég gat ekki meira. Og mikið djöfull sem ég hef bölvað fjarlægðinni frá heiminum þegar ég þarf að ferðast úr landi, sem er alltof oft – að fara til Færeyja frá Ísafirði er álíka átak og að fara frá Kaupmannahöfn til Sydney. Mikið andskoti sem ég hef bölvað Steingrímsfjarðarheiðinni – fastur í blindhríð eða búinn að velta – eða keyrt vantrúaður í gegnum hvert flóðið á fætur öðru á Súðavíkurhlíðinni. Að nokkur skuli ennþá búa hérna.

* * *

Spurt er um staðsetningu. Hún er mælanleg í kílómetrum og millibörum, hæðum og lægðum, flóði og fjöru – það er hægt að benda á hana á korti, gúgla hana – sunnanlands eða fyrir vestan,  það er alltaf rok í miðjunni og það nær út á jaðarinn nema rétt á meðan maður er að búa sig út í veðrið og þegar til kastanna kemur verðum við sennilega aldrei nægilega vel klædd, alveg sama hvar við erum.

Lestrardagbók: Algleymi, seinni hluti

Ég lauk við Algleymi í gærkvöldi (og byrjaði á Stefnuljósum). Guðjón og Helena eru horfin inn í ljósið.

Bókin hefst á fæðingarlíkingu þar sem Guðjón vaknar minnislaus einsog hvítvoðungur og endar á þessu þarna með að hverfa inn í ljósið – Guðjón og Helena gufa upp – því auðvitað sver sig Hermann líka í ætt metafiksjónar og byrjar á því að fæða bókina en endar á því að drepa hana, vísa sögupersónunum sínum með vopnavaldi út í tómið.

Er hægt að koma með spoilera á átta ára gamla bók? Já, auðvitað, ef þið hafið ekki lesið hana (en af hverju hafið þið ekki lesið hana, þið hafið haft átta ár til þess?). En ég veit ekki hvort það skiptir neinu máli. Og þetta er ekki þesslags dauði að hann þurfi að vera endanlegur – Guðjón og Helena gætu verið hvar sem er. Og sló mig reyndar [SPOILER ALERT! SPOILER ALERT!] að Guðjón hefði komið beint úr Leiðinni út í heim, sem endaði á sams konar algleymisfæðingu. Fæðst úr einni bók í aðra. Nýr maður.

Andstæðuparið sem drífur söguna áfram – og er grunnurinn að öllum harmi hennar – er að muna ekki neitt og að muna allt. Aukaverkan af deiktínmeðferðinni sem þau Guðjón og Helena (og Kristmundur og fleiri) gangast undir – eða aðalverkanir – er að sjá inn í fortíðina allt aftur til Miklahvells og virðist Guðjón hafa jafn greiðan aðgang að mannkynsminninu og sínu eigin minni.

Hinum minnislausa manni er mikil vorkunn að þurfa að læra sinn eigin tíma upp á nýtt. Að læra hvað ástvinir hans heita, hvar hann gekk í skóla og svo framvegis. Og einhvern veginn er harmurinn meiri eftir því sem maður ímyndar sér að þessi tiltekni maður hafi vitað meira. Það er verra fyrir doktor í heimspeki að missa minnið en þrettán ára tossa. Er það ekki? Þeir fara báðir á byrjunarreit en annar var kominn svo miklu lengra.

Fyrir rithöfund að missa minnið? Kannski orkar bókin svona sterkt á mig vegna þess að ég er svo minnislaus sjálfur. Ég þori aldrei að treysta því að ég muni neitt rétt. Ég man ekki hvað fólk heitir eða hvort ég hef talað við það, hvaða ár hlutir gerðust eða hvort ég var á staðnum. Þetta var vel að merkja ekki alltaf svona; einu sinni mundi ég allt, alla barnæskuna og öll svívirðilegu skammarlegu fylleríin (ég var kominn nokkuð yfir þrítugt þegar ég upplifði fyrst þá miklu guðsgjöf sem heitir blakkát).

En hvað um hinn minnislausa mann sem öðlast í kjölfarið möguleikann á að rifja upp ekki bara eigið líf heldur gervalla mannkynssöguna? Einn mann sinnum 107 milljarða og alla hina mannlausu sögu. Að rifja upp eigið líf er áreiðanlega alltaf einsog að fá fjall í höfuðið. En að þurfa að sortera úr öllu sem hefur gerst – þótt ekki væri nema bara til að finna eigið líf – það gerir allar líkingar um nálar í heystökkum hlægilegar. Nálar í stjörnuþokum væru nær lagi. Og trámað og ringlandin í samræmi við það.

Kannski skiptir það samt minnstu fyrir rithöfund að verða minnislaus. Rithöfundar lifa í heimi hins mögulega frekar en heimi hins verulega; ef ég segi að fyrri heimsstyrjöldin hafi hafist á sautjándu öld og staðið milli júpiterunga og súgfirðinga, þá er það bara þannig. Rithöfundar krafsa í myrkri alls sem er mögulegt eftir einhverju sem hljómar satt frekar en bara sennilega.

Ekki þar fyrir að samband rithöfunda við staðreyndir er flóknara en svo að það sé alveg frjálst – þannig mætti ég alveg láta geimverur lenda á Ísafirði á fjórða áratugnum en ég yrði að gæta þess að snúa ekki akstursátt í einstefnugötu við. Þá myndi ég glata trúverðugleika mínum.

Lestrardagbók: Algleymi

Ég var fyrir nokkru beðinn að nefna fáeinar „vanmetnar“ bækur fyrir fyrirbæri sem heitir Finnegan’s List og skrifa um þær fáein orð. Bækurnar sem ég valdi voru Borg eftir Rögnu Sigurðardóttur, Hvítfeld eftir Kristínu Eiríksdóttur og Algleymi eftir Hermann Stefánsson. Það er auðvitað talsvert matsatriði hvað maður kallar vanmetna bók – Hvítfeld fékk til dæmis glimrandi dóma og viðtökur á Íslandi, en hefur ekkert verið þýdd. Borg var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna en það varð nú mest til þess að hún fékk alls kyns skítafýludóma – höfundurinn var ung kona ótengd bókmenntaheiminum, bókin óvenjuleg. En svo hefur ýmislegt gáfulegt verið skrifað um hana síðan og hún nýtur einhvers konar virðingar.

[Það sem ég skrifaði fyrir Finnegan’s List má finna hér].

Hermann var hins vegar uppnefndur póstmódernisti – varð bitbein í átökum sem komu honum líklega ekki mikið við. Hann lá bara vel við höggi, einsog heitir. Hermann er miklu minni trickster en honum er stundum legið á hálsi fyrir – þótt í bókum hans gæti vissulega áhrifa frá Calvino og Borges og þeim kumpánum öllum saman er miklu meiri undirliggjandi húmanismi í bókum hans en bókum margra annarra skósveina póstmódernismans. Bækur Hermanns fjalla um manninn, ekki trixin, um harminn og hugsun manns í harmi.

Þannig er Algleymi fyrst og fremst bók um mann sem missir algerlega stjórn á eigin tilveru án þess að hafa neitt unnið fyrir því – mann sem missir minnið og feykist síðan af stað út í eitthvert svimandi havarí og rugl í ámátlegri en ofsafenginni tilraun til þess að ná tökum á sjálfum sér aftur. Honum þykir mikið til þess koma sem okkur finnst lítið og lítið til þess koma sem okkur finnst mikið og einhvern veginn er allt hans tilfinningaregistur í svolitlum ólestri – sem setur okkar tilfinningaregistur auðvitað af sporinu líka. Guðjón Ólafsson verður einsog gestur í mannheimum, býr yfir hinu fræga glögga auga.

Algleymi hefur verið legið á hálsi fyrir að vera ruglandi en það er hún alls ekki. Hún er bara frekar pen formlega þótt línan milli ljóðrænu og raunsæis sé ekki alltaf skýr – maður þarf bara að gera ráð fyrir því að sá sem hugsi (Guðjón Ólafsson) sé í senn glaðvakandi og meðvitundarlaus.

Meira á morgun, eða hugsanlega á mánudag (það á eftir að koma í ljós hversu mikinn tíma ég hef til að blogga á helgum). Ég er búinn með 100 síður (en er að endurlesa sumsé – því mér var boðið til Leipzig til að fjalla um bókina, sem hefur komið út á þýsku – ég er að fara að þykjast vera Hermann, við erum eiginlega alveg eins ef ég beygi mig aðeins í hnjánum).

Lestrardagbók: Öræfi (frh)

Nú finnst mér einsog ég ætti að byrja á að tíunda hitastig og veðurfar. Ég er sjálfur 37 gráður og þar með eilítið lasinn (einsog fastir lesendur mínir vita er ég að jafnaði á bilinu 36,1-36,5 gráður). Úti er rétt við frostmark, held ég, bjart og fínt og ég óttast það eitt að snjó taki að leysa og ekki verði hægt að fara á skíði. Jú og svo óttast ég líka hugsanlega myglu í skúrinni minni, og til vara óttast ég að ég sé að verða paranojd vegna allrar umfjöllunar um myglu í fjölmiðlum. Ég er að minnsta kosti lasinn.

Skepnurnar hafa það ágætt. Hundar bróður míns í næsta húsi eignuðust hvolpa á dögunum en kanínurnar hafa enn ekki eignast afkvæmi sem þær sinna (eitthvað hefur fæðst og endað í hundunum). Bróðir minn hótar að bæta við hænum í búskapinn – ég held hann sé smám saman að breyta hverfinu í sveitabæ. Hænunum hans pabba í næstu götu heilsast vel, þær eru að vísu orðnar aðeins gamlar og verpa minna en þær gerðu og eggin lítil, en ég hugsa að sá búskapur sé nú meira gæludýrabúskapur en til þess að fæða sig. Svo eru þeir báðir með ketti, pabbi meira að segja bengalkött – sem er kannski í ætt við að rækta lúpínu (það er ægileg og vitleysisleg en skemmtileg ræða um lúpínurækt og útlenskar plöntur aftarlega í Öræfum).

Ég á engin dýr. Öfugt við Val bróður fékk ég nóg af dýrum sem barn – eftir hunda, ketti, fugla, fiska, hamstra og kanínur. Svo ferðumst við fjölskyldan líka of mikið til þess að geta átt dýr – stefnum að því að vera 2-3 mánuði á ári í Svíþjóð og Finnlandi. Ég á þrjá burkna í bílskúrnum sem ég gef að drekka þegar ég man það.

Í blálokin á Öræfum breytist hún í framtíðardystópíu. Sem er áhugavert. Þar hefur „náttúruleg“ eyðilegging tekið völdin af „ónáttúrulegri“ (mannlegri) eyðileggingu – og Öræfi breytast að endingu aftur í Hérað. Veröldin öðlast að nýju jafnvægi (eða nýja fegurð) í krafti eyðileggingar, fátæktar, hörmunga, dauða og styrjalda. Það er eitthvað MadMaxlegt við þá heimssýn.

Næst ætla ég að endurlesa Algleymi eftir Hermann Stefánsson.

Hvimleiður dauði og annarra brauð

Nú fer hinn skrúðbúni Ásmundur Friðriksson fram á það við alþingi að skjalfest verði að harmur útlendinga sé ómerkilegri en okkar sem getum jafnvel rakið ættir okkar út í sveit. Gott og vel. Hin borgaralega hægristefna sem Ásmundur er fulltrúi fyrir á þingi hefur alltaf verið á þessari línu. Það er rétt og satt að mæta henni – það gera allir sem telja lífsgildi manna jafnt hvort sem þeir eru Íslendingar, Danir, Ítalir, Sýrlendingar, Albanir eða af öðru kvikindaslekti. En hún á ekki að koma neinum á óvart, þótt hún sé að vísu dálítið gamaldags.

Það sem mér finnst sýnu ógeðfelldara, ef satt skal segja, er þegar fólk úr forystu íslenskra vinstrimanna – fólk sem jafnvel sat í svonefndri vinstristjórn, sem gerði nákvæmlega ekkert í málefnum hælisleitenda eða flóttamanna, og hefur aldrei haft dug til að koma með neinar tillögur að nema smávægilegustu umbótum  – ætlar að slá sig til riddara með því að sparka í téðan Ásmund, einsog einhver röflandi jaðarbullukollur í Sjálfstæðisflokknum sé vandamálið en ekki kerfið sem slíkt, kerfið sem það sjálft hefur verið aðili að um langa hríð.

Einhvern veginn virðist mér nefnilega sem vandamálið – hér heima og í Evrópu – sé ekki síst fólgið í því að þrátt fyrir að í vinstrikreðsum megi finna ýmsan fagurgalann þá séu viðbrögðin þeim megin alls ekkert mikið mannúðlegri en viðbrögð hægrimanna. Hægrimenn segja að halda verði útlendingum úti, vinstrimenn segja að hleypa verði hælisleitendum inn, en enginn gerir neitt.  Öll hneykslunin yfir Ásmundum heimsins skiptir alls engu máli nema henni fylgi einhverjar athafnir.

Við erum alltaf að fást við því sem sagt er og einstaka sinnum því sem gert er en við fáumst alltof lítið við því sem hvorki er gert né sagt. Við hérna í lúxusnum getum alveg eytt vikunni í að rífast um hvort Ásmundur Friðriksson sé fasisti (sem hann er) eða hvort Hermenn Óðins sé lúserar (sem þeir eru); en á meðan deyr fólk vegna þess að við erum ekki að gera neitt. Og það er voða hvimleitt.

Lestrardagbók: Öræfi

Einu sinni hélt ég einfaldlega lestrardagbók og birti á bloggi. Lestrardagbók er frábrugðin öðrum skrifum um bækur að því leytinu til að hún er eiginlega birt án ábyrgðar – enda oft verið að skrifa um bækur áður en maður hefur einu sinni lokið við þær. Þá hafði ég sem útgangspunkt að skoða hvernig tilteknar bækur kæmu út úr „pólitískum“ lestri – hver virkni þeirra væri í heiminum og hvort pólitíkin stæðist hin andlegu próf eða hvort listaverkið félli um sjálft sig. Niðurstaðan var sirkabát sú að fæst listaverk lifi af pólitíska fimleika höfundarins – en það sé samt hægt, hafi höfundurinn tamið sér að setja ekki skoðanir sínar í fyrsta sæti og leyfa þeim að stýra skipinu.

Mig langar að byrja aftur að halda lestrardagbók en nú er markmiðið miklu loðnara. Mig langar auðvitað enn að átta mig á því hvað skáldverk séu og hver virkni þeirra sé – hvers ef þá nokkurs ég æski af þeim annars en að þau stytti mér stundir og hleypi andanum á tímabundið flug. Ég er satt að segja ekki enn alveg viss hver spurningin er sem mig langar að spyrja mig og þessar bækur (ég er ekkert nema efinn þessa dagana, um allt) en það er kannski einmitt þess vegna sem mig langar að lesa og spyrja, til þess að finna eitthvað handfast eða í það minnsta eitthvað til að fleyta sér á stutta stund. Ég er nýbyrjaður að skrifa bók, svo að segja – hún er í það minnsta nógu kaotísk ennþá í höfðinu á mér til að hún geti orðið nokkurn veginn hvað sem er – og mig langar að finna fyrir möguleikunum, hvert ég geti farið með hana.

Fyrsta bókin er Öræfi Ófeigs Sigurðssonar. Í lestrardagbókum er hugsanlega óþarfi að tíunda of mikið um söguþráðinn (enda er þetta ekki skrifað fyrir áhorfendur þótt það sé gert fyrir opnum tjöldum; þetta er blogg af gamla skólanum sem gæti allt eins farið í dagbók, ef ég væri ekki svona lengi að skrifa með penna).

Offi er gamall vinur minn þótt það sé orðið langt síðan ég sá hann síðast – ég gaf út fyrstu skáldsöguna hans, við höfum skipst á íbúðum, tekist á, skálað og glaðst og reiðst. Og einhvern veginn finnst mér alltaf þegar ég horfi á bókina út undan mér að hún heiti ekki ÖRÆFI heldur einfaldlega OFFI.

Hún er góð. Þá er það frá. Hún er meira að segja frábær, innblásin og fögur og sprenghlægileg.

Mér hefur alltaf þótt erfiðast að segja nokkuð um það sem mér líkar best. Það er erfiðast að setja fingur á það sem uppljómar mann en auðveldast að halda langar ræður um alls kyns meingallað drasl og bókmenntalíki. Það er helst að það kristallist fyrir manni hvað manni finnst gott við eitthvað þegar einhver annar ræðst að því – þegar maður þarf að fara að verja verkið. Ég hef enn ekki heyrt neinn eyða neinu púðri í að dissa Öræfi – en ég hef samt heyrt af mörgum sem gáfust upp á henni. Líklega má til sanns vegar færa að þetta sé ekki bók fyrir alla – en bækur sem njóta óvænt mikillar athygli rata oft inn á alls kyns heimili og eru ekki alltaf aufúsugestir (þetta þekki ég af eigin raun). Og þær bækur sem eru virkilega góðar eru aldrei allra – þær eru ekki lægsti samnefnari heldur hæsti. Og þá verður hver að eiga sér sína uppáhalds og vera ósammála öðrum um sínar. Flestar þær bækur sem fara í þúsundum eintaka í bókabúðum og öllum finnst ágætar eru yfirleitt alls ekki merkileg bókmenntaverk og oft ekki einu sinni hugsuð sem slík, þótt þær séu stundum haganlega gerðar, skemmtilegar og jafnvel passlega uppljómandi á köflum.

En Öræfi er bókmenntaverk. En hvað er þá í því fólgið (í ljósi ofangreindra yfirlýsinga um að ég skilji varla til hvers bækur séu)? Í fyrsta lagi tekur allt form þeirra mark af innihaldinu – bókmenntaverk hafa aldrei nema takmörkuð líkindi við önnur bókmenntaverk (stærstur hluti vinsælla fagurbókmennta eru vel skrifaðar formúlur um áhugaverð topik en móta form sitt og byggingu og texta eftir reglum um settlegheit og normalítet). Í öðru lagi þá liggur við að þær móti einhvers konar lífræna heild – maður verður aldrei var við að höfundur hafi tekið neinar ákvarðanir (þótt auðvitað bæði hafi hann og hafi ekki gert einmitt það). Sagan bara ryðst áfram á baki textans og svo til hvað sem er gæti gerst (a.m.k. í þessari bók) án þess að maður myndi glata hið minnsta trú á sögunni sem slíkri. Í þriðja lagi hangir bókmenntaverk ekki saman á neinum einum þræði – hvorki kjarnasaga, aukasögur, tungutak, bygging eða persónusköpun – og ekki á fáeinum þeirra heldur öllum.

Eitthvað þannig.

Ég á 100 síður eftir af Öræfum og ég hef engar áhyggjur af að hún fari út um þúfur úr þessu – það er nú þegar alltof mikil fart á henni, þótt sögupersónurnar sætu grafkyrrar og gerðu varla neitt fram að endalokum (sem er ekki ósennilegt, það hafa sumar þeirra gert hingað til) þá myndi skriðþunginn bera hana í mark.

Framhald á morgun!

Um yfirgengilegt orðaval og yfirfærða merkingu

Hefurðu einhvern tíma verið alveg að drepast í tánni? Hefurðu einhvern tíma rústað einhverjum í Olsen Olsen? Einhvern tíma verið kjöldregin(n) eða stungin(n) í bakið? Lesið bók sem var sannkallað pungspark? Hefurðu einhvern tíma lesið bók sem gerði það að verkum að þú morknaðir öll/allur að innan? Einhvern tíma heyrt einhvern syngja svo falskt að þú hreinlega dóst innra með þér? Einhver tíma dáið úr hlátri? Sprungið úr hlátri?

Ég þekki einn mann, frænda vinar míns sem á heima í Njarðvík, sem drapst í tánni eftir að hafa verið rústað í Olsen, kjöldreginn, stunginn í bakið svo hann morknaði að innan (af bóklestri) og drapst síðan og sprakk úr hlátri. Og ég er ekki viss um að honum finnist hið óvarlega orðaval sem alltof oft er haft um trámatískar upplifanir fólks – sérstaklega upplifanir sem maður hefur enga reynslu af sjálfur – sérstaklega sniðugt.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Uppgjöfin eða bloggið sem át sig sjálft

Það hellist reglulega yfir mig einhvers konar vantrú á tilgang tjáningar og yrðinga – þegar allt sem maður gæti haft um nokkuð að segja virðist falla í tvo flokka (sem skarast og skarast): 1) Einfaldanir.  2) Of almennar yrðingar.

Þannig gæti ég til dæmis haldið því fram að atriði Reykjavíkurdætra í Vikunni og útganga Ágústu Evu (svo gripið sé í handhægt málefni úr deiglunni) væri einhvers konar feminó-marxískur valdgjörningur – ég meina, að troða dildóinu á sér upp í lærling Hannesar Hólmsteins og fyrrum vonarpóst Sjálfstæðisflokksins og skipa honum að sjúga á sér snípinn – halló?! – og horft þá fram hjá því sem séra Hildur Eir benti á, að atriðið er í sjálfu sér ekki róttækara en hvert annað þorrablótsflipp. Þá myndi ég enn fremur horfa fram hjá því að í atriðinu fólst gróf kynferðisleg áreitni – ekkert djók ekki frekar en nýlegar ásakanir á hendur fyrrum ritstjóra Reykjavík Grapevine og gítarleikara í Reykjavík! (hverra dætur dæturnar væntanlega eru) heldur grafalvarlegur glæpur sem ætti helst að fara fyrir dómstóla. Ég meina, að troða dildóinu á sér óboðin og ber að neðan upp á fólk og garga á það að sjúga á sér snípinn? Halló bátar, halló skip. Ef það er ekki kynferðisleg áreitni veit ég ekki hvernig hún lítur út.

Þetta væru sem sagt einfaldanirnar. Nokkrar af mörgum sem hver um sig er í mótsögn við að minnsta kosti eina aðra. Á hina höndina gæti ég t.d. sagt að Reykjavíkurdætur væru feit pæling sem gengur eða gengur ekki upp, frábær músík en ömurlegt rapp, ömurlegt rapp en frábær músík, geðveik myndlist en glötuð tónlist, geðveik tónlist en glötuð myndlist, hópeflismeðalmennskan uppmáluð og fullkomið og algert uppbrot í íslenska menningu, stelpur að brjóta sér leið gegnum strákamúr eða stelpur að beygja sig fyrir heimsmynd drengja og svo framvegis og svo framvegis. Flest er svolítið satt og svolítið rangt.

Ég gæti einbeitt mér að Ágústu Evu. Kannski var hún bara með í ráðum til að auglýsa dæturnar, kannski er hún bara bitur að vera ekki lengur sjálf vaxtarbroddur gegnumbrotsins, sú sem afhjúpar borgarastéttina, heldur Lína Langsokkur og dómari í einhverjum Idolsirkus, kannski er hún síðasti varnarmaður íslenskrar siðmenningar sem hefði annars leyst upp í eina allsherjar orgíu og allir endað með fjölónæman lekanda og heilt leikskólaband af lausaleikskrógum, ef hún hefði ekki sagt nei, hingað og ekki lengra, það verður ekkert strappon í þessum fjölskylduþætti. Og kannski er hún bara geðveikt töff að standa með sjálfri sér eða alveg glötuð að fatta ekki #byltinguna.

Einhvern veginn er vandamálið við allar yrðingar um málefni deiglunnar meðal annars krafan um skýra og algera afstöðu. Í heimi þar sem hin opinbera samræða á sér stað með leifturhraða og allir byrja á að grafa sér skotgröf, ýmist til að skýla sér því þeir nenna ekki eða þora að taka afstöðu, eða til að búa sig undir áhlaup og loftárásir, er sá fyrstur til að tapa sem gefur á sér einhvern höggstað og gengst við því að líklega sé veröldin fyrst og fremst margslungin. Því í margslunginni veröld grípur okkur athafna- og afstöðuótti – hvernig á maður að þora að segja neitt nema hið allra almennasta ef veröldin er full af mótsögnum? Það væri ófyrirgefanlegur dólgsháttur. Við gætum þá ekkert fordæmt og engu fagnað nema vera tilbúin til þess að gera það hreint og skýrt – án þess að gefa mótsögnunum, sem við vitum að eru til staðar í öllu mati, allri skoðun, nokkurt pláss til að vaxa.

Einsog það sem er frábært þurfi að vera bara frábært og það sem er glatað sé bara glatað.

Stundum gæti líka verið ágætt að gangast við því að sumir gallar séu óaðskiljanlegir einhverju sem er frábært – þannig er t.d. óhjákvæmilegt að í samfélagi þar sem frjálsræði ríkir í kynferðismálum að þar verði einhverjir fyrir áreiti, þá stendur valið (í einfölduðum skilningi) milli bælingar og öryggis á aðra höndina og frjálsræðis og óöryggis á hina. Eða að okkur sem einstaklingum sé sálfræðilega illmögulegt að vera í senn siðferðislega réttlát og hvatvís og kraftmikil, í senn auðmjúk og grjóthörð. Og að það geti fylgt því bæði kostir og gallar að vera eitt frekar en hitt.

Ég veit ekki hvort þetta hefur með félagsmiðlana að gera – þennan starfsmáta hugsunar sem skilur ekki eftir neitt rými fyrir íhugun, þar sem eru bara afköst og ekkert tómarúm, ekkert olnbogarými. En mér sem sagt dettur það oft í hug.

En nú er ég auðvitað farinn að láta einsog það sé til nokkurs að tjá sig. Kannski er það bara úreldur lífsmáti. Ég þarf eiginlega að fara að lesa meiri Wittgenstein.

Úr leikskrá Illsku

 Sonur fyrsta forseta hins íslenska lýðveldis var meðlimur í SS og starfaði sem áróðursmeistari hjá nasistum. Afi minn – hálfþýskur/hálfísfirskur – var ekki orðinn sautján ára þegar hann var skráður í sama flokk, af taugaveiklaðri ísfirskri móður sinni sem hafði verið tjáð að ef hann gengi í SS yrði hann ekki sendur til Rússlands (hann var sendur til Rússlands). Faðir eins ástkærasta fótboltamanns þjóðarinnar – Evald Mikson – var hugsanlega gerandi í fjöldamorðum á gyðingum í Eistlandi, það fékkst aldrei rannsakað þrátt fyrir kröfur Simon Wiesenthal stofnunarinnar þar að lútandi. Ein fyrsta bókin sem rituð var um helförina var reynslusaga Íslendings. Stærstu innflytjendaþjóðir á Íslandi – Pólverjar og Litháar – eru meðal helstu fórnarlamba helfararinnar. Stóri bróðir fyrrverandi forsætisráðherra var meðal forystumanna íslenskra nasista og fjöldinn allur af öðrum valdamiklum stjórnmálamönnum frá því fyrir stríð og alveg fram á okkar daga hafa verið viðriðnir hreyfingar sem stefna leynt og ljóst að nokkurs konar kynþáttahreinsunum – og/eða hafa sjálfir haft uppi ummæli sem ætla má að spretti úr slíkum jarðvegi.
     Við erum eyland en engu að síður hluti af heiminum. Nazistan er alls staðar.
                   * * *
Ítalski gyðingurinn, rithöfundurinn og helfarareftirlifandinn Primo Levi sagði einhvern tíma að okkur – mannkyni – bæri helg skylda til þess að skilja ekki helförina, né gera til þess neina tilraun, því slíkum skilningi gæti fylgt nokkurs konar mennskunhryllingsins. Það sem er mennskt er eðlilegt og náttúrulegt, og það sem er eðlilegt og náttúrulegt er hugsanlega óhjákvæmilegt – en helfarir mega aldrei verða náttúrulega óhjákvæmilegar. Við megum aldrei sættast við tilvist þeirra.
                  * * *
Manninum finnst hann alltaf vera lítill og máttlaus. Angelu Merkel finnst hún lítil, Sigmundi Davíð finnst hann vera lítill, mér finnst ég vera lítill, meira að segja Kára Stefánssyni finnst hann vera lítill. Öllum finnst þeir vera litlir, nema kannski Aino, dóttur minni, sem finnst hún vera mjög stór – en það er misskilningur, hún er einmitt mjög lítil. En við hin, við erum ekki lítil, við erum stór og eigum okkur enga afsökun.
                  * * *
Það var góð stemning í kringum nasistaflokkinn. Og það voru dálítið sérstakar aðstæður þarna á þriðja og fjórða áratugnum. Upplausn og kreppa og það þurfti að taka í tauminn. Kannski ekki svona harkalega, þegar maður hugsar út í það, en það er gott að vera vitur eftirá og ekki nóg að vilja vel, maður þarf líka að vera reiðubúinn til þess að taka erfiðu ákvarðanirnar, díla við realpolitik. Veröldin er ekki bara mannúð og gotterí.
                  * * *
Eyjarskeggjum finnst þeir vera afskekktir. Ísland er grjót í hafinu og meira að segja okkur sem búum hérna finnst við stundum standa utan við mannkynssöguna, í ævintýralandinu sem við leikum ofan í túristana – álfar og huldufólk – frekar en í henni miðri. Pínulítil og ómerkileg.
                  * * *
Primo Levi lagði – hvað sem þessum orðum hans um skilninginn líður – bróðurpart ævi sinnar í að hugsa um helförina og hugsanlega var það hún sem reið honum á endanum að fullu. Eftir sjálfsmorðið 1987 sagði nóbelsverðlaunahafinn Elie Wiesel – sem einnig lifði af útrýmingarbúðir nasista – að Primo hefði dáið í Auschwitz, fjörutíu árum síðar.
                  * * *
Þórbergur var einsog frægt er ákærður fyrir að kalla Hitler sadista og blóðhund – árið 1934, átta árum áður en hin eiginlega helför var vottuð og stimpluð á Wannsee ráðstefnunni. Hitler var varla búinn að missa barnatennurnar þegar það var ljóst í hvað stefndi.
     Ári áður hafði Steinn Steinarr ásamt tveimur öðrum verið ákærður fyrir að rífa niður nasistafána á Siglufirði.
     Hingað komu Gyðingar sem sóttu um hæli – mættu sjálfsagt vegabréfslausir með skrítin höfuðföt, kunnu enga íslensku og neituðu að borða svínakjöt einsog almindelige mennesker – og voru „sendir heim til sín“, eða í það minnsta til Danmerkur (sem hefur hugsanlega, merkilegt nokk, verið skárra þá en nú), eftir úrskurð frá kærunefnd útlendingamála sem staðfestir þar með upprunalega ákvörðun Útlendingastofnunar … eða nei, annars, það ferli kom til síðar.
     Nazistan er nefnilega alls staðar. Og alltaf.
                  * * *
 Ef eitthvert „okkar“ var á sínum tíma nasisti þá er það jafnan útskýrt þannig – eftirá – að í raun og veru hefði viðkomandi bara verið svo mikið á móti kommúnistum, og lent þannig alveg óvart í skilyrðislausum stuðningi við Adolf Hitler, frekar en að hann eða hún hefði verið á þeirri yfirveguðu pólitísku skoðun að troða bæri milljónum manns í gasklefa til að hreinsa Evrópu af kynþáttaóværunni.
     Þetta er auðvitað tabú núna. Það myndi enginn bjóða sig fram með slíkt á stefnuskránni.  Það væri bilun! En þetta voru aðrir tímar.
     Djók.
                  * * *
Kannski vaknar maður einn daginn með burstaskegg í leðurstígvélum. En maður sér það ekki gerast, stígur ekki skyndilega yfir einhverja línu og búmm er orðinn nasisti. En það gerist samt. Daglega. Skref fyrir skref. Sumir verða miklir og einlægir nasistar, aðrir verða meiri diet-nasistar og enn aðrir – flestir – verða svona jamm-og-jæjandi nasistar. Svona það-er-því-miður-ekkert-við-þessu-að-geranasistar. Sorrí.
     Svo eru nokkrir sem verða sósíalistar. Þeir skiptast í tvo flokka, þá sem eru varla skömminni skárri og hina sem verða fljótlega skotnir.
                  * * *
En það er ekki sama að skrifa og skilja. Primo Levi gerði sjálfur greinarmun þar á og sagði að þótt við ættum að forðast að skilja bæri okkur skylda til að vita og hugsa um helförina, að mæta henni – einmitt vegna þess að hún gerðist og vegna þess að hún gæti gerst aftur (því mætti jafnvel halda fram að hún hafi gerst aftur, sé að gerast aftur, eða að gagnvart t.d. roma-fólki hafi henni aldrei beinlínis lokið).
                  * * *
Nasisminn er hugsaður í hreinum línum – þvers og kruss um samfélagið, þú ert annað hvort með túrbönuðum terroristum í liði eða þú ert hlynntur því að lyf verði niðurgreidd ofan í fársjúkar ömmur og öryrkja. Allt er hreint, skýrt og einfalt.
                  * * *
Og auðvitað erum við ekki síður mannkynssagan en aðrir.  Skriðþungi hennar. Og Hitler bauð sig ekki fram með því fororði að hann ætlaði að útrýma fólki – ekki frekar en Marine Le Pen eða Jimmie Åkesson – þótt við sjáum þá tendensa berlega hjá honum baksýnisspeglinum (og fleiri hefðu átt að koma auga á fyrr). Hann bauð sig fram með það að markmiði að gera samfélagið fallegra og betra – hann vildi bara að fólk hefði tækifæri til þess að lifa mannsæmandi lífi. Sumt fólk. Hans fólk. Heimamenn. Hvað sem það kostaði.
                  * * *
Þegar ég skrifaði bókina – sem tók fjögur ár – fannst mér ástandið stöðugt versna. Svíþjóðardemókratar komust á þing, Sannir Finnar stækkuðu, sem og Le Front National og Dansk Folkeparti, Fidesz náði völdum, Breivik slátraði fólki (og Norðmenn notuðu tækifærið til að minna heimsbyggðina viðstöðulaust á hvað þeir væru miklu betri en aðrir) og svo framvegis og svo framvegis. Ég sat við og skrifaði í mismiklu óráði og einhverri tilfinningu fyrir nauðsyn – fannst í senn að bókin yrði ólesanlegur haugur af sturluðu röfli og það myndi gera út af við mig að skrifa hann.
                  * * *
Ef við viljum standa gegn hinu fasíska valdi – og skriðþunga þess – verðum við að leyfa okkur að hafna skýrum dráttum. Við verðum að gera okkar fremsta til þess að hugsa ekki einsog nasistar. Að mæta ekki hinu fasíska valdi með öðru eins; ætla okkur ekki að reka út myrkrið með meira myrkri. Og það – það er miklu meiri vinna og fyrirhöfn en maður gæti ímyndað sér. Það krefst þess af okkur að við séum linnulaust fólk, með allri þeirri mannúð og íhugun sem í því felst.
                  * * *
Ég hafði þess utan og á hinn bóginn – í öllum mínum stjórnlausa hégóma – brennandi áhyggjur af því að von bráðar myndi bólan springa, nýjabrumið fara af nasismanum, og ég sitja eftir með úrelt verk. Sem væri auðvitað gott fyrir heiminn, en ekki jafn gott fyrir mig. Eftir fjögurra ára slítandi þrældóm.
                  * * *
Í ár eru liðin fjögur ár frá útgáfu – átta síðan ég byrjaði að skrifa. Grímuklæddir menn fara um Svíþjóð og lúskra á innflytjendum. Um alla Evrópu bera nasistar eld að flóttamannahælum. Fasistar skjóta blaðamenn, tónleikagesti. Við hin stöndum í eldlínunni milli hvítra fasista og salafískra, hvort sem er í París, Raqqa eða Rio, og deyjum upp í opið geðið á þeim á meðan stjórnmálamenn svipta okkur sífellt fleiri lýðréttindum og fyrirskipa frekari loftárásir, meira ofbeldi, sem gerir sitt (tilætlaða?) gagn og upp úr öskunni rísa enn fleiri fasistar.
     Einsog fönixar.
      Húrra.
                  * * *
Að skilja helförina er að því leytinu til sambærilegt því að leggjast með dýrum að það er einsog að nauðga hinu mannlega upp á hið dýrslega. Siðmenning skilningsins á ekkert erindi við barbarí hins óskiljanlega.
                 

 Birtist fyrst í leikskrá Illsku, sem er nú á sviðinu í Borgarleikhúsinu á vegum Óskabarna ógæfunnar. Örfáir miðar lausir

Europeana

Ég var að lesa Europeana eftir Patrik Ourednik – sem króatískt ljóðskáld, kunningi minn, benti mér á vegna þess að hlutar hennar minni á Illsku, sem ég sé alveg – og fór að velta þessu fyrir mér með ljóðrænuna sem er í því fólgin að segja einfalda og þekkta hluti hreint út. Það sem við segjum aldrei – það sem er ekki tátólógískt, ekki sokkaleisti, heldur næstum því. Einsog að segja að vatn sé blautt. Ljóðrænuna sem er fólgin í að einfaldlega nefna það. Mér finnst eitthvað ótrúlega fullnægjandi við að lesa þannig texta – ekki langar romsur, kannski, en málsgrein hér og þar. Einsog að klóra sér á stað sem maður vissi ekki að mann klæjaði í.

Europeana ber undirtitilinn A Brief History of the Twentieth Century og er einmitt það – einhvers konar evrópsk mannkynssaga tuttugustu aldarinnar. Hún hefst á því að tíunduð er meðallengd hermanna í seinni heimsstyrjöldinni (sem rímar við ákveðna hluta í byrjun Illsku) – fjallar mikið um helförina og heimsstyrjöldina, um kommúnisma og fasisma, en líka um allt frá tækniframförum til frjálslyndisbyltinga. Og hún veður úr einu í annað viðstöðulítið – en er líka stutt, kannski 100 síður.

Ég held að kraftur textans sé fyrst og fremst fólginn í því hvernig Ourednik tekst að blanda saman staðreyndum sem maður hafði ekki hugmynd um, þekktum staðreyndum á þennan nánast tátólógíska eða einhverfa máta (sirka „Hitler drap fullt af fólki og það gerði Stalín líka“ og þess háttar) og þekktum staðreyndum á óvenjulegan hátt (einsog að nálgast fjölda látinna hermanna tiltekinna þjóða í styrjöld út frá samanlagðri meðallengd hvers hóps fyrir sig).