Ég er svolítið einsog undin tuska og kenni samtímanum um. Það er sjálfsagt óverðskuldað en ég er nýbúinn að lesa tvær sænskar bækur sem eru fremur krítískar á samtímann – tæknina – og því leitar hugurinn þangað. Sú fyrri heitir Ingen Surf og er eftir kunningja minn Jonas Gren – sem er þekktari sem ljóðskáld (ég hef þýtt eftir hann ljóð sem birtust á Starafugli). Þetta er „bók almenns eðlis“ – einhvers konar debattrit sem stefnt er gegn snjallsímavæðingunni frekar en internetinu sem slíku. Jonas tekur þar saman það sem maður veit: þetta helvítis tæki hertekur stöðugt athygli fórnarlamba sinna með því að hneppa þau í dópamínþrældóm og rænir þau þannig sálarrónni, einbeitingunni, sköpunargleðinni og hamingjunni. Það sem kemur manni kannski mest á óvart er hversu lítið umdeilt þetta reynist – Jonas rekur ýmsar skoðanakannanir sem sýna að við viljum flest losna við snjallsímana, samfélagsmiðlana, sítenginguna. Við hötum þetta helvítis drasl. Við viljum vera frjáls en veljum að vera það ekki – af því að við fáum dópamín, völd, athygli* og ákveðna ofurkrafta í skiptum fyrir andlega ró, tíma til að melta og íhuga.
* Bara athygli annarra. Við missum okkar eigin. Það eru skiptin.
Ég er sem sagt að hugsa um að ganga í takkasímasamfélagið. Það krefst smá undirbúnings. Og felur ekki endilega í sér heldur að maður noti aldrei internetið eða samfélagsmiðla – heldur bara að maður skipi þeim út í horn og kenni þeim að hlýða sér en ekki öfugt.
Hin bókin heitir Allting Växer og er eftir Lyru Koli, sem ég þekki reyndar líka lítillega – hún og kona sem heitir Mikaela Blomquist eru með sænskt hlaðvarp og þær komu til Ísafjarðar í vor til þess að taka viðtal við mig. Þetta er vísindaskáldsaga sem gerist í óskilgreindri nærframtíð eftir loftslagshamfarir – í einhvers konar búbblu – þar sem allir eru sítengdir í gegnum ígræðslur, sem stýra líka hormónabúskap fólks svo það þarf enginn að vera leiður nema þegar hann vill það (sem er stundum – maður vill kannski geta farið að grenja í bíó og þá skrúfar maður bara frá). Fólk er reyndar líka í alls konar samtalsmeðferðum til þess að díla við tilvistarkreppur sínar. Manni fer fljótt að finnast einsog allt mannlegt sé í raun ónáttúrulegt.
En þar sem er dystopísk framtíð er líka andspyrnuhreyfing sem vill snúa aftur til „náttúrunnar“ en er ekki – frekar en við í dag – viss um það hvað náttúran sé, hvað sé náttúrulegt og hvað ónáttúrulegt. Þetta er fremur sínísk bók því þótt fólkið í henni sé fullt af von og vonbrigðum og jafnvel byltingaranda þá eru útleiðirnar alls ekki ljósar og gremjan sem það veldur kalla á öfgar og mannfyrirlitningu.
Mjög eftirtektarverð bók og umhugsunarverð. Eitt af því sem aðalsöguhetja bókarinnar, Jossi, gerir er að leita að textanum við Evert Taube lagið Sjösala vals, sem hún finnur og muldrar svo mikið blómanöfnin í textanum – gullviva, mandelblom, kattfot og blå viol. Hún skilur þau ekki af því í framtíðinni tala allir ensku, en þau segja henni eitthvað og hún veltir fyrir sér hvernig þau líti út. Hún fer svo líka á stúfana eftir laglínunni sem hún finnur ekki. Íslendingar þekkja fæstir þennan texta – en þeir kannast ágætlega við laglínuna og mín kynslóð sérstaklega við þessa útgáfu:
Einsog fram kom í umræðunni um Páfagaukagarðinn í vor tilheyri ég bókmenntaelítunni í þessu landi. Ég lánaði að vísu eintakið mitt og hef ekki séð það síðan og því ekki getað gert það sem mig hefur langað að gera – að athuga hvort að appelsínugula endurútgáfan sé sama bókin og sú bláa, en um það er ég alls ekki viss – en hún skilar sér sjálfsagt. Hins vegar fékk ég nú enn eina ferðina senda nýja bók og þessi var ekki merkt Akörn heldur Rögnu Sigurðardóttur, sem ég held talsvert uppá og þess vegna hef ég sennilega fengið svona „áhrifavaldaeintak“.
Bók Rögnu heitir Útreiðartúrinn og er einsog tvær til þrjár glæpasögur í einni – sögur sem er gert að spegla hver aðra.
Aðalsagan segir af sambandi feðga. Pabbinn/sögumaðurinn er miðaldra og sonurinn unglingur á erfiðu skeiði, afundinn og leiðist allt, sérstaklega ef það kemur frá pabba hans. Sonurinn lendir ásamt vini sínum í barsmíðum út af einhverri tik-tok áskorun – og eiginlega allt við það reynist föður hans frá fyrstu stundu óleysanleg ráðgáta, sem flækist svo bara og flækist eftir því sem líður á bókina, og raunverulegri ráðgáta skýtur upp kollinum. Um hana er víst best að segja sem minnst á meðan fólk hefur ekki haft ráðrúm til að lesa bókina sjálft.
Næsta saga segir af forföður þeirra feðga sem var sakaður um að hafa myrt mann í ölæði seint á nítjándu öldinni. Sá lýsir sig saklausan en viðurkennir samtímis að muna alls ekki hvað gerðist. Margir kaflar bókarinnar gerast á þeim tíma – en áherslan er ekki síst á ástarsamband hins meinta morðingja við konu sem hann hefur nýtrúlofast (og barnað í þeim sama útreiðartúr og morðið á sér stað). Eiginlega er hennar sjónarhorn mest ofaná.
Þriðja glæpasagan er sagan af einelti föðurins en löggan sem fylgir syni hans heim eftir barsmíðarnar reynist vera gamall „vinur“ – maður sem beitti hann einhvers konar andlegu ofbeldi þegar þeir voru börn með því að ýmist draga hann til sín eða ýta honum frá sér, virkar einsog einhvers konar sósíópati – og gaslýsir hann alltaf þegar hann reynir að taka það upp. En vegna þess að maður fær söguna bara frá pabbanum og hún er upprifjun á einhverju sem gerðist fyrir mörgum áratugum er maður heldur aldrei alveg viss sjálfur hvað snýr upp og hvað niður í þeim samskiptum.
Þessar fléttur eiga það sameiginlegt að fjalla um ofbeldisverk sem eru ekki alveg jafn klippt og skorin og maður gæti haldið í fyrstu og þar sem fórnarlömbin eru auk þess einhvers konar þátttakendur í eigin ofbeldisverkum (án þess að ég vilji fara út í einhverja fórnarlambssmánun hérna!)
Stígandinn í bókinni er hægur og Ragna skrifar sem fyrr af fágun og yfirvegun, flugeldalaust, svo það kemur manni sjálfum ekki minnst á óvart þegar maður er alltíeinu farinn að ofanda. Ég veit ekki hvort það er rétt að kalla þetta stúdíu á ofbeldismenningu – eiginlega finnst mér Ragna ekki vera að skrifa út úr þannig samhengi, ekki til þess að koma með einhverja risa yfirlýsingu um eðli ofbeldis, heldur sé hún frekar að segja okkur eitthvað um sársaukann og vonleysið og hvernig þau systkinin særa fram eyðileggingarkraftinn í fólki. En þetta er ekki einföld bók heldur og ég á áreiðanlega eftir að melta hana lengi – og svo lesa hana aftur.
Hnotskurn: Hræðileg bók (sérstaklega fyrir fólk sem á eða hefur átt eða ætlar að eiga unglinga) en framúrskarandi skáldsaga.
Eftir því sem ég kemst næst birtist Útreiðartúrinn í bókabúðum ekki á morgun heldur hinn. Ef ég væri þið myndi ég mæta strax við opnun.
Öll þessi ritlaunaumræða gerir ekkert annað en að triggera í mér frekjuna. Ég vil fá föst ritlaun sem ég þarf ekki að sækja um á hverju ári og ég vil að þau séu svona a.m.k. 40-50% hærri en þau eru – að lágmarki. Ég nýt bara talsverðrar velgengni – bý ódýrt, lifi sparlega – en ég er samt alltaf blankur. Kemur alltaf minna inn en fer út.
***
Það er búið að reka Davíð Smára. Þjálfara Vestra. Ég hef lítið fylgst með íslenskum fótbolta fyrren rétt svo síðustu misseri og skil þennan bransa ekki enn almennilega. Skil ekki hvernig trúnaðurinn virkar. Mér fannst frekar erfitt að horfa á Matta Villa – son Villa nágranna míns – spila með Víkingi á móti Vestra. Alveg fáránlegt eiginlega. Það er áreiðanlega enn skrítnara fyrir pabba, sem er Víkingsmaður frá fornri tíð. Mér finnst líka sem Spursari til svona tíu ára fáránlegt að Son sé að spila fyrir Los Angeles og Harry Kane sé með Bayern München. Og nú langar mig mest að fara bara að halda með næsta liði sem Davíð Smári þjálfar. En ég vil helst að allir sem leiki með Vestra leiki þá í því liði líka. Kannski þýðir þetta að ég skilji ekki fótbolta. Og sennilega er ég bara orðinn of gamall til að læra það.
***
Bókamessan í Gautaborg var skemmtileg. En ég er mjög lúinn á eftir. Mannþröng og fuglabjargshávaði er ekki alveg minn tebolli. Svo verða kvöldin stundum svolítið löng. En þau eru líka skemmtilegasti hlutinn af þessu og sá eini sem ég kann eitthvað á. Ég fór á silent disco (allir með heyrnartól) og söng Livin’ on a Prayer með útgefandanum mínum í karókí (ekki silent, því miður). Og í þrjá hátíðarkvöldverði með ólíkum höfundum og útgefendum og bókmenntadiplómötum. Hitti svona 300 kunningja í ólíkum mannhöfum – nikkaði, knúsaðist, tók í hendur, stutt spjall, óp í gegnum hávaðann á einhverjum bar. Tvö samtöl á sviði, tveir ljóðaupplestrar, mörg hot shots og talsvert af frönskum pylsum í 7-Eleven. Gautaborgarpósturinn tók á móti mér þegar ég kom í bæinn með fjarska fallegum dómi um Náttúrulögmálin. Öll eintökin sem útgefandinn tók með á messuna ruku út – Grimwalkerhjónin, sem einhverjir kannast kannski við, keyptu síðasta eintakið. Daginn sem ég kom heim birtist svo líka ægilega skemmtilegur dómur í Kyrkans Tidning – en guðfræðingar hafa auðvitað sérstakt sjónarhorn á þessa bók. Og gaman þegar þeir ná henni. Mér skilst það sé líka von á dómi í Expressen og svo verð ég bara að sjá hvernig fer með restina – söluna og athyglina. Það er mjög hátt til lofts í sænskum bókmenntaheimi.
***
Meðan ég var að spóka mig í útlöndum datt Aino og fótbrotnaði. Eða fékk sprungu í bein og var sett í gips. Það var hringt í okkur í morgun og við beðin að koma í aðgerð klukkan hálffimm. Sem er auðvitað ógerlegt af því aðgerðin er í Reykjavík. En við förum á morgun og þurfum að leggja út 160 þúsund krónur fyrir ferðum og gistingu. Og ég þarf að taka tveggja daga frí frá vinnu. Svo stendur í upplýsingapdfinu að greitt verði fyrir aðgerðina samkvæmt gjaldskrá. Sem ég veit ekki hver er. Ég held við fáum þetta allt endurgreitt á endanum en það verður kannski ekki fyrren eftir 12 vikur. En ég þarf samt að borga fyrir þetta núna og borga vextina af yfirdráttarláninu næstu 12 vikurnar. Konan mín er sænsk og ég skammast mín fyrir að vera íslenskur þegar svona kemur upp á.
Í gær fór líka Play á hausinn en sama barn átti miða til að fara að heimsækja ömmu sína og afa á Spáni. Það bjargaðist líka en það var ekki heldur ókeypis, þótt ég hafi ekki þurft að leggja út fyrir því sjálfur.
***
Ég er heima í tíu daga. Eða tæplega það ef talin er með þessi Reykjavíkurferð. Svo er það maraþon í Þýskalandi/Austurríki/Sviss (Drei-länderinn svokallaði). Tveggja vikna skriftafrí í bústað. Tveggja vikna kynningartúr um Svíþjóð og ein vika með Heimsku í Póllandi. Svo er bara farið að styttast í jól.
***
Í sænskum fjölmiðlum tekst fólk á um að hversu miklu leyti blaðamenn og orðræða þeirra um palestínumenn og stuðningsfólk palestínska málstaðarins afmennski það fólk. Vinstrimönnum finnst augljóst að orðræðan sé afmennskandi og þar með hættuleg en því hafna hægrimenn með öllu. Í bandarískum fjölmiðlum tekst fólk á um að hversu miklu leyti vinstrimenn (eða demókratar) og orðræða þeirra um repúblikana og stuðningsmenn MAGA-málstaðarins afmennski það fólk. Hægrimönnum finnst augljóst að orðræðan sé afmennskandi og þar með hættuleg en því hafna vinstrimenn með öllu.
Ég veit hvað mér finnst. Mér finnst alltílagi að kalla MAGA-fólk fasista af því mér sýnist það leggja stund á fasíska pólitík og ég held að þau séu alls ekki einlæg þegar kemur að því að óttast orðræðuna – þau eru bara að fella pólitískar keilur. Og mér finnst mikilvægt að rætt sé um fórnarlömb hamslauss hernaðar Ísraelsmanna af nærgætni og kærleika – að minnt sé á að þau eru ekki tölur á blaði heldur fólk – en að sama skapi má alveg reiðast sænskum kjallarahöfundum sem eiga það til að láta þetta allt snúast um sig og sína sýn á réttlætið. Eða sýn okkar hinna á þau sem fulltrúa réttlætisins.
***
Í dag er alþjóðadagur þýðenda. Það er orðið svo langt síðan ég þýddi nokkuð af viti sjálfur að ég get varla talið mig í þeim hópi. En ég á fjarska marga góða þýðendur sem ég er mjög þakkl´atur – John Swedenmark vann nýlega þrekvirki með þýðingu sinni á Náttúrulögmálunum á sænsku og margt hef ég líka heyrt gott um nýlega þýðingu Jaceks Godek á Heimsku þótt ég geti ekki lesið hana sjálfur. Svo eru allir hinir – Eric Boury, Jean-Christophe Salaün, Nanna Kalkar, Vicky Alyssandrakis, Anna Gunnarsdotter Grönberg, Enrique Bernárdez, Roula Georgakoupoulu, Betty Wahl, Tina Flecken, Alexander Sitzman, Jón Bjarni Atlason, Tapio Koivukari, Daria Lazic, Anna von Heynitz og Anita R¨ubberdt. Og svo allir hinir sem hafa þýtt stök ljóð eða greinar. Þýðendur eru hinar ókrýndu og ósýnilegu kempur bókmenntanna – án þeirra værum við öll bara eitthvað að garfa í naflanum á okkur.
Annars hef ég tekið eftir því upp á síðkastið að fólk er farið að forðast að tala um þýðendur og þýðingar og leitar í önnur orð. Einn segist „endursegja“ ljóð. Aðrir „útleggja á íslensku“. Og svo framvegis. Einu sinni var önnur hver bók ekki þýdd heldur „íslenzkuð“. Ég skil eiginlega ekki tilhneiginguna. Ætli fólki finnist það að þýða of hátíðlegt? Eða of hversdagslegt?
Ég þurfti að fara í margar búðir í Västerås áður en ég fann eintak af tímaritinu Vi Läser – sem var einu sinni til alls staðar. Hins vegar er það tímanna tákn að í öllum búðunum var tímaritið Skriva til. Vi läser er tímarit um lestur – fyrir þá sem elska að lesa bækur. Skriva er tímarit fyrir þá sem vilja skrifa sjálfir. Einhvern tíma var sagt um íslensk ljóðskáld að þau hefðu flest margfaldan áhuga á eigin ljóðum en ljóðum per se – og jafnvel alls engan áhuga á ljóðum annarra, þú fyndir hvergi færri ljóðabækur en í hillum þeirra sem ortu sjálf. Þetta voru auðvitað ýkjur og að svo miklu leyti sem sannleikskorn var í því að finna var það auðvitað líka misjafnt manna á millum. Mér sýnist hins vegar að á síðustu árum þá hafi áhuginn á því að skrifa prósa farið fram úr áhuganum á því að lesa prósa. Í Svíþjóð birtist þetta meðal annars í mikilli fjölgun hégómaforlaga – „vanity press“ heitir það á ensku,og nær yfir forlög sem borga ekki höfundum sínum ritlaun heldur þiggja sjálf greiðslu fyrir að gefa út bækur þeirra. Stundum er það „trygging“ – þannig að höfundurinn eigi að fá pening þegar hann slær í gegn. Á alvöru forlagi fær maður greiddar óafturkræfa fyrirframtryggingu – hún er í sjálfu sér skítur á priki og krónutalan hefur ekki hækkað á þeim 20 árum sem ég hef gefið út (sem að gefnu tilliti til verðlagsþróunar þýðir að fyrirframgreiðslur eru í dag um þriðjungur af því sem þær voru 2004). Einhver gæti sagt að þessi upphæð skipti engu máli en hún er allavega hvati fyrir forlögin að selja lágmarksfjölda eintaka – að ná upp í fyrirframgreiðsluna áður en bókmenntaverkið er afskrifað upp í gróðann af næsta reyfara.
En það þarf sem sagt að þræða verslanir til að finna Vi Läser. Ég man líka eftir því að fyrir mörgum árum var ritdeila í sænskum fjölmiðlum um nýja danska ljóðlist – og að hversu miklu leyti ný sænsk ljóðlist stæði henni að baki – altso ljóð ungra skálda. Tilefnið var útgáfa antológíu nýrra danskra ljóða á sænsku. Og þrátt fyrir að allir á menningarsíðunum hefðu á þessu skoðun var hægara sagt en gert að útvega sér eintak af bókinni – og var ég þá í Stokkhólmi og fór í stærstu bókaverslanir landsins. Og það var ekki vegna þess að bókin væri uppseld, hún hafði bara ekki verið pöntuð inn.
Bókamessan í Gautaborg er á helginni. Þangað fór ég fyrst fyrir 15 árum og hef áreiðanlega farið 5-6 sinnum síðan en það eru orðin nokkur ár síðan síðast – og þegar ´eg fór síðast var alls engin eiginlega bókamessa og ég f´ór ekki einu sinni til Gautaborgar heldur Malmö þar sem var streymi. Ég er pínu peppaður en líka ekki – bókamessur eru eiginlega líka hræðilegar. Þúsundir manns sem streyma í gegnum risastóra sali einsog uppvakningar í bókahafi – og á hverjum bás er einhver aumingjans rithöfundablók að tala á sviði sem er á stærð við lítið eldhúsborð fyrir framan fjóra tóma stóla og einn áhorfanda, sem er oftast einhver sem hann tók með sér, vinur eða elskhugi. Ég hangi yfirleitt mest í Rum för poesi sem er salur afsíðis þar sem eru bara ljóðaupplestrar.
Síðast þegar ég var á svæðinu var allt krökkt í nasistum líka – nasistatímarit á messugólfinu og Norræna mótstöðuhreyfingin [svo] með svona 40 manna kröfugöngu fyrir utan. Og fleiri þúsund manns að mótmæla nasistunum – og nokkur hundruð löggur að passa að mótmælendamótmælendurnir myndu ekki rífa nasistana á hol.
En þetta verður áreiðanlega mestmegnis gaman. Ég þyrfti bara helst að hvílast aðeins áður en ég fer – á fimmtudag. Helgin var mjög intensíf – Tom Waits tónleikar á laugardag og ferðadagur á sunnudag frá 8 og fram yfir miðnætti. Og ansi orkufrekt langhlaup í gær. Og ég svaf sem sagt illa í nótt og er dálítið einsog draugur.
***
Á dögunum birtist Q&A um haustbækur á Vísi – rætt var við tvær konur og tvo karla. Og sennilega var nú reynt að pólarísera kynjunum svolítið – í öllu falli voru konurnar báðar úr bókmenntaheiminum, María Elísabet Bragadóttir, rithöfundur, og Ingibjörg Iða Auðunnardóttir, gagnrýnandi í Kiljunni; en karlarnir voru Bergþór Másson bitcoin-trúboði og Hjörvar Hafliðason, hlaðverpill. Það eru svona dálkar líka í Vi Läser og ég var að lesa þá áðan og fór að hugsa hvort ég ætti að stela spurningunum og svara þeim sjálfur – en rek mig þá á að spurningarnar sem karlarnir fengu voru greinilega ekki alveg einsog þær sem konurnar fengu. Eiginlega virðist hlaðverpillinn ekki hafa fengið neinar spurningar – það er bara einsog einhver hafi kveikt á honum og hann svo bara blaðrað almennt um lestur sinn. Og trúboðinn fær stytta útgáfu af spurningalista kvennanna.
Annars sá ég að fólk var að fjargviðrast yfir bókum trúboðans – og þessum (vísvitandi) framkallaða mun á kynjunum – og kannski mest því að hann hefði valið Ayn Rand. Ég hef ekki lesið Fountainhead en ég þekki fullt af vinstrisinnuðu fólki sem hefur lofað hana – á tímabili var alltaf verið að mæla með henni við mig. Enda er þetta, eftir því sem ég kemst næst, eins konar listamanna-übermensch bók og vinstri-bóhem hafa alltaf verið ginnkeypt fyrir Nietszcheískum hugmyndum um snilligáfu. Ég hef alveg trú á að Fountainhead geti verið ágæt. Ég hef hins vegar lesið Atlas Shrugged og hún er í einu orði sagt vond. Í fleiri orðum sagt er hún hræðilega löng, allur hennar boðskapur, allt erindi hennar við lesanda, birtist strax á fyrstu síðu og er svo endurtekinn í þúsund síður þar á eftir – sögupersónurnar eru ekkert nema farartæki fyrir þessar frekar banal kaupsýslumannadýrkun, „flatari en pappírs-Pési“ – og ég fullyrði að það er ómögulegt að njóta hennar nema maður sé gersamlega dolfallinn yfir þessum boðskap.
Annað sem Bergþór nefnir er ágætt – „Nietzsche, Houellebecq, Knausgaard, Didion, Laxness og Pétur Gunnarsson.“
En spurningarnar voru sem sagt þessar (en svörin mín):
Er einhver go-to haustbók sem þú leitar í?
Nei. Ég þori ekki að sverja fyrir það en ég held að almennt þyki mér snemmhaustin alls ekki g´óður tími til lestrar – ég er alla jafna órólegur á þessum árstíma. Þetta skánar svo síðla hausts þegar nýju skáldsögurnar byrja að koma. Besti tíminn til að lesa er janúar-febrúar. Þá er ég í essinu mínu og einbeitingin í botni.
Hvað einkennir góða haustbók? Og hvað vill maður út úr haustlestrinum?
Þessu er auðvitað ekki auðsvarað (sjá svar 1). En ég gæti trúað að á haustin sé ég ginnkeyptari fyrir einfaldari bókum – og jafnvel þolinmóðari gagnvart væmni og þvíumlöguðu. Stórum og ofsafengnum tilfinningum.
Hvað er verið að lesa þessa dagana?
Ég er að lesa Ulysses og sitthvað henni tengt – sögu Írlands og handbækur. Auk þess er ég að lesa Dottern eftir Lenu Andersson og Doppelganger eftir Naomi W… nei ég meina Naomi Klein.
Er eitthvað sem þú mælir sérstaklega með fyrir fólk sem er að leita sér að einhverju að lesa?
Ég er mjög spenntur að fara fljótlega að lesa Rúmmálsreikning III eftir Solvej Balle – fyrstu tvær voru frábærar. Mæli með þeim.
Nú ætla ég að segja svolítið sem við fyrstu sýn virkar mótsagnakennt – og væri nú svo sem ekki mér ólíkt, ég elska mótsagnir – en er það ekki. Ég held að það hafi sjaldan verið jafn mikilvægt og nú að segja einfaldlega sannleikann án þess að ýkja – hafi yfirveguð orðræða einhvern tíma skipt máli er það nú. Og ég held að það sé allt að verða krökkt af pípandi fasistum.
Það að kalla einhvern fasista er eðlisólíkt því að kalla viðkomandi skrímsli að því leytinu til að skrímsli eru ekki til, en fasistar eru til og hafa alltaf verið til, í einhverri mynd. Að kalla einhvern fasista er ekki að segja þá færa um hvað sem er – færa um að réttlæta helförina eftirá, heldur færa um að réttlæta helförina fyrirfram, áður en það er komið í ljós að hún er helförin, meðan hún er enn bara skipulagðar „lausnir“ á vandamálum sem fasistarnir sjá ofsjónum yfir, ekki síst vandamálinu að samfélagið sé ekki nógu einsleitt, að innan þess séu ólíkir hópar. Nasistar Þýskalands 1935 hefðu aldrei gengist við því að vera nasistar 1955 – þeim hefði sárnað ásökunin. Og raunar könnuðust fæstir þeirra við að hafa verið nasistar 1935 og fannst mjög ómálefnalegt að vera alltaf að draga það upp, einsog það skipti einhverju máli árið 1955.
***
Ég hef aldrei svo ég muni eytt neinum af Facebook vegna skoðana þeirra. Mér hefur þótt fólk vera þreytandi vitleysingar – jafnvel þannig að ég hafi íhugað að slökkva á þeim bara, loka þau úti, á þeirri forsendu fyrst og fremst að það geri andlegri heilsu minni ekki gott að vera í stanslausu sambandi við dýpsta og reiðasta óöryggið í öðru fólki. Manni – a.m.k. mér – er það ekki eðlislægt yfir höfuð að vera í svona miklu sambandi við svona margt fólk, að vera á þessum stanslausa borgarafundi sem félags- og fréttamiðlar eru orðnir, og hvað þá þegar áróður sem maður hefur ímugust á er farinn að smjúga inn um allar glufur.
Ég á marga FB-vini sem ég veit ekkert hvernig ég eignaðist – sennilega er það fylgifiskur þess að vera hálfopinber persóna. Sumir skjóta aldrei upp kollinum en aðrir verða nöfn í hausnum á mér. Sigurður. Kristín. Njáll. Og svo framvegis. Og nú opna ég varla Facebook lengur án þess að glenna upp augun og klóra mér í kollinum og spyrja mig svo: Er Sigurður/Kristín/Njáll líka orðin(n) fasisti? Eða líka kominn út úr skápnum sem fasisti eða hvað maður á að kalla það – ég hallast að því að maður sé það sem maður gerir og sé maður í skápnum með pólitíska óbilgirni sína í garð hinna ýmsu þjóðfélagshópa þá sé maður ekki fasisti. Maður verður það þegar maður byrjar að beita henni – þegar maður veifar henni stoltur. En það eru heimspekilegar spurningar sem ég skal geyma til betri tíma.
Og allt hangir þetta saman við þróunina vestanhafs. Sem er orðin þróunin beggja vegna hafsins og í því miðju. Hvernig sem maður svo hanterar það.
Eftir að Odysseifur sleppur frá Lestrygónum, mannætunum sem kostuðu hann öll sín meðreiðarskip, ellefu talsins, kemur hann að eyju þar sem gyðjan Kirka á heima. Þar skýtur Odysseifur hjört á ströndinni og heldur mikla veislu. Síðan vill hann fara að kanna eyjuna og ákveður að skipta sínum „fagurbrynhosuðu förunautum“ í tvær sveitir. Fer hann fyrir annarri en Evrýlokkus fyrir hinni. Skemmst er frá því að segja að Evrýlokkus og menn hans hitta fyrir Kirku sem lokkar þá til sín með söng og fara allir til hennar nema Evrýlokkus. Kirka gefur þeim hræring úr osti, byggmjöli, bleiku hunangi og pramnísku víni og bætir í hann göldrum svo þeir gleymi með öllu föðurlandi sínu. Þegar þeir hafa drukkið og gleymt bætir hún um betur og breytir þeim öllum í svín („en héldu þeir þó óskertu viti sínu jafnt sem áður hafði verið“). Evrýlokkus sér þetta og hleypur til baka til Odysseifs sem ákveður að fara einn að bjarga hinum. Á leiðinni þangað rekst hann á Hermes Gullinsprota sem veit hvað klukkan slær og gefur Odysseifi náttúrugras – „rót þess var svört en blómið hvítt sem mjólk, kalla guðirnir það Mólý“ – sem ver hann gegn „allri ógæfu“.
Odysseifur kemur til Kirku sem reynir að galdra hann en gengur ekkert. Hann dregur fram sverðið og ógnar henni. Hún skilur ekki neitt í neinu, kemst í mikið uppnám en áttar sig svo á því hvernig hljóti að vera í pottinn búið, hann sé Odysseifur, upplyfjaður af mólý, og stingur upp á málamiðlun. „Nú vil ég biðja að þú slíðrir verði þitt, og stígum við bæði á beð minn, að við njótum þar samlags og yndis, og bindum trúnað hvort við annað.“ Odysseifur samþykkir þetta ef hún lofi að gera sér aldrei mein. Svo eru bornar fyrir hann alls kyns lystisemdir en hann gleðst ekki og þegar Kirka spyr hverju það sæti segist hann ekki geta etið og drukkið nema menn hans verði aftur að mönnum, en ekki svínum. Það verður úr – og rúmlega það, því þeir verða allir „unglegri en áður, og miklu fríðar og stærri á velli“. Svo er sent eftir mönnum hans á ströndinni. Næsta árið lifa þeir í vellystingum og Odysseifur liggur með Kirku hverja nótt. Þá loks man einhver Íþöku, föðurlandið, og minnir Odysseif á það. Odysseifur tekur þetta upp eftir beðmál um kvöldið og Kirka lofar honum að fara en segir að áður en hann komist aftur heim muni hann þurfa að fara til Hadesar og Persefónu til að leita frétta hjá Tíresíusi.
Við skildum við Bloom og Stephen og félaga þar sem þeir voru að yfirgefa fæðingarheimilið í lok Oxen of the Sun. Þegar við hittum þá aftur í Kirku hafa leiðir skilist. Buck Mulligan og Haines tóku síðustu lestina aftur til Sandycove, þar sem þeir búa í Martelloturni með Stephen – sem vel að merkja er ekki farinn neitt. Við vitum ekki hvað gerðist, hugsanlega fóru Buck og Stephen að rífast – Stephen er augljóslega kominn með feykinóg af Buck og því að búa í turninum (og sennilega hugnast honum ekki Haines heldur). Stephen er í fylgd með Lynch og þeir eru á leiðinni á hóruhús í rauða hverfi bæjarins – Nighttown – þar sem Stephen ætlar að finna vændiskonu sem hann hefur sofið hjá áður. Bloom hefur af óútskýrðum ástæðum dregist aftur úr og er að drífa sig til að ná þeim. Klukkan er í kringum miðnætti.
Kirkukaflinn er langlengsti kafli bókarinnar – nærri því 40 þúsund orð, jafn langur og fyrstu sex kaflarnir. Hann er hins vegar frekar fljótlesinn – a.m.k. miðað við lengd og miðað við kafla einsog Oxen eða Proteus – og skrifaður einsog leikrit. Textinn er heldur ekkert sérstaklega flókinn. Það sem gerir hann þungan aflestrar er annars vegar hvað gerist margt í honum og hins vegar hvað hann flakkar um milli raunverulegra atburða og einhvers konar ofsjóna, línan þar á milli verður óskýr vegna þess að stundum eru lýsingarnar ansi vel kryddaðar, og stundum eru þær það ekki en manni finnst samt einsog það sem er að gerast sé ósennilegt. Annað er augljóslega súrreal – t.d. þegar hlutir og jafnvel hugmyndir byrja að tala. Kaflinn er einhvers konar portrett af undirmeðvitund manns – sérstaklega Blooms – og það sem sprettur upp eru „lágkúrulegu“ kenndirnar, skömm, gredda, hégómi, ótti, sjálfselska og svo framvegis. Í kaflanum birtast líka allar persónur sem hafa birst í bókinni hingað til, annað hvort í holdinu eða sem ímyndanir.
Mér er sagt að í gamalli útgáfu af Britannicu hafi Nighttown í Dyflinni verið útnefnt versta slömm gervallrar Evrópu. Dyflinni var allavega hræðilegur staður alla nítjándu öldina og vel fram á þá 20. – það er ekki nóg með að Írland hafi verið fátækt land heldur var ástandið verst í Dyflinni og t.d. barnadauði margfaldur á við annars staðar í landinu. Nighttown var versti hluti Dyflinnar og það er ekkert rómantískt við lýsingar Joyce – þetta er illþefjandi martröð sem erótíkin kannski trompar, en það er alveg með naumindum stundum, og erótíkin er öll hlaðin skömm og eftirsjá.
Ég ætla að byrja á að lýsa fyrsta hlutanum – en fara svo mjög gróflega yfir restina. Það er ágætt að fá smá yfirlit yfir það sem gerist og hvernig textinn virkar – en það væri brjálæði að fara að endursegja þetta allt.
Í upphafi kaflans rekast Stephen og Lynch á Cissy Caffrey (sem er ein af stúlkunum á ströndinni í Násiku) sem er þarna að dandalast með tveimur breskum dátum, Carr og Compton. Þeir gera gys að Stephen og kalla hann „parson“ (prest) út af barðastóra hattinum sem hann gengur með. Svo sjá þeir Edy Boardman (líka úr Násiku) og fljótlega eftir það tvíburana óstýrilátu – það er í sjálfu sér langsótt að virðulegar stúlkur einsog Cissy og Edy séu að hanga í Nighttown seint um kvöld og enn langsóttara að tvíburarnir séu þarna í raun – að klifra upp ljósastaur.
Stephen og Lynch halda áleiðis og nú birtist Bloom andstuttur. Hann fer fyrst inn til slátrara og kaupir sér grísalappir, en er líka það hræddur um að hann sé að missa af félögum sínum að í ofboðinu við að ná þeim verður hann nærri því fyrir bíl. Hann rekst síðan á tvíburana og óttast af einhverjum orsökum að þeir séu vasaþjófar (á la Dickens?) og aðgætir eigur sínar á eftir. Þá birtist alltíeinu faðir hans, Rudolph, og tekur að skamma hann fyrir að vera að þvælast þetta í óvirðulegum hverfum um miðjar nætur og fyrir að hafa yfirgefið gyðingdóminn – en það var Rudolph sem lét skírast til mótmælendatrúar í írsku þjóðkirkjuna, Bloom er fæddur í hana – svo kemur mamma hans líka og skammar hann fyrir siðspillingu.
Næst birtist Molly og krefst þess að hann kalli sig frú Marion – Molly er gælunafn fyrir Marion, en þegar Blazes skrifaði henni merkti hann bréfið „frú Marion“ (en ekki frú Bloom). Hún er klædd í tyrkneskan búning, með kameldýr í eftirdragi sem týnir fyrir hana mangó. Hún virðist gefa í skyn að hún sé ólétt og Bloom segist hafa gleymt að sækja áburðinn í Swenys – og þá stekkur sápan sem hann keypti þar fram og kveður.
We’re a capital couple are Bloom and I He brightens the earth, I polish the sky
Síðan birtist andlit sölumannsins Swenys í sápunni og biður um greiðsluna sem hann á enn eftir að fá.
Molly raular lag úr Don Giovanni og hverfur á braut – á meðan Bloom spyr hvort hún sé að bera orðin rétt fram („voglio“ – ég vil). Kvenkyns melludólgur birtist og bíður honum fimmtán ára hreina mey sem enginn hefur snert nema faðir hennar.
Næst birtist Gerty McDowell – sem hann fróaði sér yfir í Násiku – og lýsir til skiptis yfir viðbjóði og dálæti á Bloom. Frú Breen kemur líka – fyrrverandi kærasta Blooms, gift herra Breen sem er að reyna að komast að því hver svívirti hann með því að senda honum U.P:UP miðann – og skilur ekkert hvað Bloom sé að gera í svona hræðilegu hverfi. Bloom biður hana að hafa ekki hátt – Breen segist munu segja Molly – Bloom segir að hún myndi gjarna vilja koma líka, þau vilji prófa að slömma. „The exotic, you see. Negro servants too in livery if she had money.“
Tveir negrar, Tom og Sam, með banjó birtast og setja upp minstrel-sjó. Breen skammast svolítið meira og svo rifja þau upp gamla góða daga þegar Bloom var kvennaljómi. Þau daðra og Denis, maðurinn hennar, kemur gangandi framhjá muldrandi reiðilega við sjálfan sig – og Alf Bergan, af barnum í Kýklópakaflanum, hlær sig máttlausan og segir „U.P.:UP“ (sem gefur kannski í skyn að hann hafi sent miðann). Bloom rifjar upp þegar þau fóru á hestreiðarnar fyrir fjórtán árum með Molly – það virðist eitthvað hafa gerst á milli þeirra þá – hún endar á að segja „já“ sjö sinnum („já“ er líka lokaorð bókarinnar – þrítekið með litlu millibili – úr huga Mollyar) og hverfur. Eða dofnar, réttara sagt.
Kannski erum við aftur í raunveruleikanum núna. Bloom sér konu í bogagöngum sem stendur gleið og mígur á götuna. Landeyður og vændiskonur ráfa um í myrkrinu, þarna eru líka dátarnir aftur. Bloom óttast að þetta sé til einskis, hann finni aldrei Stephen. Tveir vaktarar grípa í Bloom og saka hann um að spilla friðnum – en Bloom segist á góðgerða vegum. Signor Maffei birtist, Bob Doran birtist, og verðirnir segjast ætla að taka hann til að koma í veg fyrir dýraníð. Krefja hann nafns – hann segist fyrst hafa gleymt því en man svo eftir tannlækninum nafna sínum og segist vera hann, og bætir við að hann sé af ægilega ríku fólki kominn. Þeir biðja um sannanir og þá dettur nafnspjaldið innan úr hatti Blooms á jörðina – það sem hann notar til að sækja póstinn frá Mörthu og þar sem stendur að hann heiti Henry Flower. Martha birtist og biður hann örvæntingarfull um að hreinsa nafn sitt. Vaktararnir biðja Henry Flower að koma á stöðina. Martha segist heita Peggy Griffin og Bloom segir að hún sé full og vaktararnir segja honum að skammast sín.
Nú vendir Bloom kvæði sínu í kross – „gentlemen of the jury, let me explain“ – og segist misskilinn maður, blóraböggull, hann sé tengdasonur virðulegs herforingja, Brian Tweedy – eða eiginlega segir hann „my wife, I am the daughter of …“ sem er einhvers konar fyrirboði um frekar kynskipti Blooms síðar í kaflanum. Svo segir hann að pabbi hans sé dómari og hann sé breskari en allt sem breskt er sjálfur. Þegar þeir spyrja hvað hann starfi við segist hann vera bókmenntamaður, rithöfundur – Myles Crawford úr Eólusi og Philip Beaufoy (sá sem skrifaði smásöguna sem hann skeindi sér með) birtast sem vitni og gefa lítið fyrir það. „A soapy sneak masquerading as a literateur“, segir Beaufoy.
Hér held ég að ég láti staðar numið í þessu blow-by-blow (og vel að merkja hoppaði ég yfir helling hér að ofan – þetta eru fyrstu 20 síðurnar af um 120). Ef ég ætlaði að ráðleggja einhverjum að fara styttri leið að því að kynna sér (eða rifja upp) efni annarra kafla Ulysses myndi ég sennilega alltaf vísa á The Guide to James Joyce’s Ulysses eftir Patrick Hastings eða The New Bloomsday Book eftir Harry Blamires – en í tilfelli Circe myndi ég bara ráðleggja fólki að lesa kaflann sjálfan. Það er eiginlega minnst ruglandi að plægja sig bara í gegnum hann – í þessum samantektum (þessari líka) verður tempóið of kaotískt.
En það verður að klára þetta, þótt á enn meira hundavaði verði.
Í grófum dráttum gerist þetta. Eftir að Martha sakar Bloom um ósiðlegt daður breytist umgjörðin í réttarhöld. J.J. O’Molloy er verjandi og fyrir réttinn koma ótal vitni sem flest bera Bloom illa söguna. Ásakanirnar snúast mest um alls konar dónaskap – gláp og káf og ósiðleg tilboð og þess háttar (þetta minnir mjög á internetið í kjölfar metoo-bylgjunnar og kemur mest frá konum sem hann hefur umgengist. O’Molloy segir Bloom vera einfeldning og hann reynir að koma fyrir sem slíkur.
Á endanum snúum við aftur til raunveruleikans – vaktararnir halda að grísalappirnar séu sprengja og hann segist hafa verið í jarðarför, sem verður til þess að líkið af Paddy Dignam birtist til að staðfesta það. Svo heyrir Bloom píanómúsík og grunar að hann hafi fundið Stephen – sem reynist rétt. Hann er kominn á hóruhúsið og þar hittir hann fyrst vændiskonuna Zoe Higgins. Hún káfar á honum, finnur gömlu kartöfluna sem hann gengur með í vasanum – sem er einhvers konar minjagripur um mömmu hans – fær að hirða hana (Bloom mótmælir ekki), biður hann um sígarettu og Bloom segir að munninn megi betur nota.
The mouth can be better engaged than with a cylinder of rank weed
Zoe spyr hvort hann vilji ekki halda um þetta ræðu („stump speech“ – ég er ekki með SAM við höndina) og Bloom lætur vaða og skammast yfir tóbaksreykingum og almennri ósiðsemi. Sá kafli leysist næst upp í lýsingu á stórkostlegum stjórnmálaferli Blooms, sem verður borgarstjóri og loks „Leopold fyrsti“. Allir elska hann og dá. Einhver kemur með stytturnar af safninu svo hann geti skoðað þær almennilega – en hann hafði mikinn áhuga á að vita hvort þær væru „anatómískt réttar“, einsog við munum öll. Smám saman fara svo efasemdarraddir um mannkosti Blooms að heyrast og upphefst loks mikið rifrildi þar sem margar sögupersónur láta í sér heyra og „sýnist sitt hverjum“. Nú er textinn aftur einsog réttarhöld og Buck Mulligan kemur og segir að Bloom sé „bisexually abnormal“. Bloom reynist vera óléttur og fæðir áttbura sem allir verða virðulegir og myndarlegir borgarar. Fólkið krefst þess að hann fremji kraftaverk, sem hann gerir – ellefu talsins (það síðasta er að láta sólina hverfa á bakvið fingur sér – en það gerði hann fyrr í bókinni, einfaldlega með því að bregða fingri á loft við auga sér). Hann er hylltur sem Messías en svo hafnað sem fölskum Messíasi og loks er kveikt í honum.
Raunveruleikinn snýr aftur og Bloom fer inn á vændishúsið. Þar sitja Lynch og Stephen að sumbli, meðan Stephen leikur á píanóið. Þeir rífast og fíflast.
Í næstu fantasíu birtist Lipoti Virag, afi Blooms, og fer að leggja mat á vændiskonurnar – sem passa ekki fyrir Bloom, ýmist ófagrar eða ekki rétt til fara (ein er t.d. ekki ´í nærfötum, en Bloom er með blæti fyrir nærfötum). Virag hvetur Bloom samt til þess að fá sér snúning og skammar hann fyrir almennt auðnuleysi í lífinu. Kaflinn s´ónar aðeins inn og út úr fantasíum – Stephen og Lynch og vændiskonurnar tala saman, daðrandi og ögrandi og stríðandi, og öll áreiðanlega (mis) full.
Þá birtist hórumamman, Bella Cohen.
The door opens. Bella Cohen, a massive whoremistress, enters. She is dressed in a threequarter ivory gown, fringed round the hem with tasselled selvedge, and cools herself flirting a black horn fan like Minnie Hauck in Carmen. On her left hand are wedding and keeper rings. Her eyes are deeply carboned. She has a sprouting moustache. Her olive face is heavy, slightly sweated and fullnosed with orangetainted nostrils. She has large pendant beryl eardrops.
Nú taka alls konar hlutir einsog viftur og hófar að mæla – og Bella verður fljótt Bello og Bloom skiptir um fornafn, verður hún, og upphefst mikil sadómasókísk fantasía milli þeirra. Bello situr á henni og reykir vindil og pínir á alla mögulega vegu, andlega og líkamlega. Svo fer Bloom að játa á sig syndir – að hafa klætt sig í nærföt Mollyar og fróað sér úti í náttúrunni þegar hann/hún var unglingur eftir að hafa gægst á konu á baðherbergi. Og svo framvegis. Hann/hún rifjar líka upp daginn sem hann/h´ún bað Mollyar í Howth.
Þegar fantasíunni lýkur er Bloom allur áræðnari og biður Zoe um að skila sér gömlu kartöflunni. Bella er aftur Bella og fer að rukka fyrir viðskipti kumpánanna – Stephen er blindfullur og borgar henni fyrst of lítið og síðan of mikið og áttar sig ekki á því, heldur að hann hafi undirborgað og borgar henni ennþá meira og er þá búinn að láta hana fá eiginlega öll mánaðarlaunin sín frá því um morguninn. Bloom kemur og réttir þetta allt saman af og stingur upp á því við Stephen að hann passi upp á peningana fyrir hann. Þeir hangsa eitthvað og tala saman.
Næsta fantasía snýst um Blazes Boylan – manninn sem svaf hjá Molly fyrr um daginn. Hann birtist ásamt Lenehan og þeir fara mikinn við Bloom, niðurlægja hann og svo ætlar Blazes að serða Molly að nýju (hún er orðin ein af vændiskonunum) og býður Bloom að fylgjast með í gegnum skráargatið og fróa sér á meðan. Sem Bloom þiggur auðvitað með þökkum. Þeirri fantasíu lýkur á því að Stephen og Bloom horfa í spegil og í speglinum birtist William Shakespeare, sem ávarpar samkomuna.
Stephen er fullur og ruglaður – pabbi hans birtist, fljúgandi á vængjum – Carr og Compton birtast syngjandi fyrir utan gluggann með Cissy Caffrey; Zoe setur lag á sjálfspilandi píanóið og þau dansa og Stephen tekur m.a.s. danssóló. Svo sér hann móður sína heitna sem biður hann að iðrast synda sinna – Stephen verður fyrst fölur og svo reiður og rekur á endanum stafinn sinn upp í loft og mölvar ljósakrónuna. Í kjölfar þess hleypur hann út. Bella heimtar háa greiðslu fyrir ljósakrónuna en Bloom – sem komst að því frá Zoe að sonur Bellu er við nám í Oxford – hótar að láta alla þar vita að mamma hans sé hórumamma og nær greiðslunni þannig niður. Á leiðinni út rekst hann á nokkra menn sem eru á innleið – hugsanlega er einn þeirra hinn raunverulegi Blazes Boylan – og þar sem hann hleypur á eftir Stephen ímyndar hann sér að á eftir honum komi alls kyns fólk úr fortíð hans, sem vill honum illt.
Þegar Bloom finnur Stephen er hann lentur í rifrildi við Carr og Compton sem halda því fram að Stephen hafi verið dónalegur við Cissy á meðan þeir brugðu sér frá til að pissa. Rifrildinu fylgja ýmsar ofsjónir og læti og æsingurinn verður meiri og meiri – og á endanum slær Carr Stephen í rot. Þá birtast vaktararnir aftur. Þeir ætla að fara að handtaka Stephen og Carr þegar Corny Kelleher birtist. Kelleher er einsog áður sagði uppljóstrari fyrir bresku lögguna. Hann róar þá niður og sendir þá áleiðis. Kelleher er líka með vagn og er ´a heimleið og býðst til að skutla Stephen þar til hann uppgötvar að hann á heima í Sandycove – sem er of langt í burtu.
Þegar Kelleher er farinn reynir Bloom að vekja Stephen sem muldrar brot úr ljóðum. Þá birtist síðasta fantasían – ungur drengur í Etongalla sem Bloom þekkir strax sem Rudy, soninn sem dó 11 daga gamall.
Og þá er það búið.
Einsog þetta er nú allt ruglingslegt þá er það sennilega Kirkukaflinn sem kallar fram þá hugmynd, sem ég hef oft heyrt yrta en veit ekki hver yrti fyrstur, að þegar maður hafi lesið Ulysses skilji maður Bloom betur en jafnvel sjálfan sig. Í sjálfu sér er það ekki vegna þess að hér sjái maður stærri hluta af Bloom en í öðrum köflum, en maður sér aðra og meira óflatterandi hluti – hluti sem Bloom gengst ekki endilega við í sjálfum sér nema á þessu hysteríska fantasíuleveli (og hluti sem við og hann vitum ekki endilega alveg hvort eða að hversu miklu leyti eru sannir). Og hvort sem við getum dregið þá upp eða ekki held ég að við upplifum flest – eða allavega mörg – einhver svona djúp innra með okkur, einhverja skömm sem við kunnum ekki að fást við. Maður fær það samt á tilfinninguna að þetta geri Bloom gott og að hann sitji eftir sem maður með minni skömm, dálítið hreinsaður – og lokakaflinn með Rudy er sár en fallegur.
Ef við berum þetta saman við kviðu Hómers þá eru Stephen og Lynch menn Evrýlokkusar en Bloom er sem fyrr Odysseifur. Mólýið sem Odysseifur fær frá Hermesi er upplýsingarnar um Oxfordsoninn sem Bloom fær frá Zoe. Vændið (eða bara lostinn eða lostinn plús áfengi) er galdurinn sem breytir mönnunum í svín. Beðmálin með Kirku eru … kannski bara þessi skammarprósess Blooms, frá réttarhöldunum yfir að mikilmennskuórunum yfir að sadómasóinu með Bello yfir að kokkkálun Boylans. Það er veruleikinn sem Bloom þreyir alveg þar til Stephen brýtur ljósakrónuna og þeir sleppa út.
Kirka var í öllu falli kafli ofgnóttarinnar.
* * *
Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar.
Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.
Stundum eru þessar færslur mínar hérna alveg frámunalega leiðinlegar. Ekki veit ég hvað veldur. Það er ekkert samhengi milli þess að það sem ég hafi verið að skrifa um daginn hafi verið leiðinlegt – það er einsog þetta gangi á einhverjum allt öðrum mótor. Af og til hvarflar að mér að hætta að blogga og fara frekar að skrifa vandaðri pistla – eitthvað með byrjun, miðju og endi, eitthvað með samfelldri röksemdafærslu – og stundum meira að segja heiti ég sjálfum mér að byrja á því. Í sjálfu sér snýst það ekki um vettvanginn – þessir pistlar gætu allt eins birst hér – en það skiptir engu máli af því ég fell alltaf frá þessum áformum hvort eð er.
Það sem er leiðinlegt er ekki endilega leiðinlegt fyrir mig samt. Náttúrulögmálin hafa fengið mjög lofsamlega umfjöllun í Svíþjóð og voru „boktips“ frá Mariu Maunsbach í Babel – sænsku kiljunni – á helginni. Það er gaman fyrir mig. En mjög takmarkað gaman fyrir aðra, sérstaklega ef þeir eru ekki einu sinni Svíar og vita ekki hvað Babel er, hafa aldrei heyrt minnst á Mariu Maunsbach. Svo hljóp ég líka 30 km í gær, með Nödju, sem var ekki gaman fyrir mig og enn minna gaman fyrir ykkur. En samt gaman fyrir mig. Samt ekki gaman fyrir ykkur.
Á laugardaginn verða Tom Waits heiðurstónleikarnir endurteknir. Það er gaman fyrir mig og verður gaman fyrir ykkur – ef þið mætið – en er áreiðanlega ekkert gaman að heyra mig tala svona mikið um. Plögg er leiðinlegt. Samt er eiginlega allur samtíminn plögg, það af honum sem er ekki grobb (30km! Babel!).
***
Ég las pistil Sifjar Sigmarsdóttur um bækur sem vörur á markaði – Sérvitringar, afætur og „sellát“ – og varð hugsi um margt. Það er þarna ákveðin mótsögn í afstöðu minni til þessara spurninga. Jafnvel margar mótsagnir.
Bækur eru vara en bókmenntir eru það ekki, sögur eru það ekki, hugsanir eru ekki vara. Að minnsta kosti ekki vara einsog hver önnur vara. Ekki einsog smjörlíki. Og línan sem skilur bókina frá bókmenntunum er augljóslega ekki skýr.
Það er samt absúrd að ríkið geti ákveðið einhliða hvað það greiðir fyrir afnot af bókum – útlán á bókasöfnum. Sem ríkið sem sagt gerir. Á hverju ári kemur ný tala – þetta er það sem fæst fyrir útlán. Svona virka ekki heldur aðrir menningarstyrkir – ekki t.d. endurgreiðsla kvikmyndaiðnaðarins. Eðlilegast væri að samið væri við RSÍ um tiltekna tölu og hún svo bundin einhverri vísitölu.
Sellát-ásakanir minna mig alltaf á níunda áratuginn. Þá var mikið ákall um hreinleika, og stigveldi – Offspring voru selláts og póserar, Green Day ekki, Green Day voru selláts og póserar, Nirvana ekki, Nirvana voru selláts og póserar, Pavement ekki, Pavement voru selláts og póserar nema þarna einn meðlimurinn (ekki Malkmus, hann er ofmetinn) og kannski eitt lag, sem var live og bara til á bootleg, og þú hefur ekki heyrt, bara ég, það er mjög vanmetið. Og svo framvegis.
En ég sakna þess líka að listamenn hafi ákveðin heilindi. Sé eftir öllu samneyti Nýhils við Landsbankann, það var glatað og illa launað. Og það voru líka allar hinar bankaauglýsingarnar með listamönnum á fyrirhrunsárunum. Og allt #samstarfið á instagram í dag. Og öll skemmtilegu lögin í bílaauglýsingunum. Af því það er líka eitthvað heilagt við þær tilfinningar sem maður bindur listaverkum (og by association listamönnum) sem vanhelgast þegar tilfinningatengingin er víruð föst í eitthvað drasl. Eitthvað smjörlíki. Einhvern bílstuðara sem rýkur með mann af stað. Ég lagði ekki ást mína á lagið til þess að láta það lokka mig til að eyða pening í dót sem mig langaði ekki í.
Og samt er sennilega betra að selja lag í auglýsingu en að eiga ekki fyrir leigunni. Að ég tali ekki um að eiga ekki fyrir mat. Og þótt það væri bara eitthvað af þeim minniháttar lúxus sem við köllum að geta notið þess að vera til – skór sem halda vatni, námskeið fyrir börnin, útaðborða á brúðkaupsafmælinu. Það er ekkert rómantískt við að vera fátækur, ekkert gaman.
Og endurtökum það samt. Bókmenntir eru ekki vara. Listamenn eiga að heiðra heilindi sín – en þau mega vera þeirra heilindi, maður skilgreinir það sjálfur, og aðdáendur þeirra mega verða fyrir vonbrigðum með hetjurnar sínar, listamennirnir mega verða fyrir vonbrigðum með sjálfa sig og hetjurnar sínar.
Það eru í mér jólabókaflóðsónot og þó er ég ekki með í jólabókaflóðinu. Ég gaf út bók í vor og þótt það sé „í ár“ þá á ég ekki von á því að vera dreginn neitt inn í jólabókastemninguna og það er ekki hennar vegna heldur. Það er ekki heldur vegna útgáfu Heimsku – Głupota – í Póllandi. Ég les ekki pólsku og hef ekki hugmynd um hvers konar viðbrögðum ég á von á – fá bækur marga dóma? Nýjar bækur eftir erlenda höfunda sem enginn hefur heyrt minnst á? Ég hef heilmikið lesið upp í Póllandi í gegnum tíðina en alltaf ljóð og aldrei komið út á bókarformi fyrren nú. Hins vegar er Náttúrulögmálin að koma út í Svíþjóð og Svíþjóð er það næsta sem ég kemst því að eiga mér vara-fósturjörð – konan mín er sænsk, börnin mín hálfsænsk, ég hef gefið út sjö bækur í Svíþjóð og tekið þátt í óteljandi viðburðum þar í landi, þekki álíka marga sænska höfunda og ég þekki íslenska (það eru kannski ýkjur, en ekki miklar), og ég veit hvaða heimasíðum ég á að endurhlaða viðstöðulaust í bið eftir umfjöllun. Já og ég er fluglæs á málið. Og ég mun fara heilmikið til Svíþjóðar í haust í tengslum við útgáfu bókarinnar – sem er alls ekki alltaf raunin, það er alveg upp og ofan, stundum gefur maður út bók í útlöndum og heyrir aldrei nokkurn skapaðan hlut af henni. Ég fer reyndar líka til Póllands og les upp bæði í Gdansk og Varsjá.
***
Ég er búinn með Circe. Kláraði kaflann einhvern tíma í síðustu viku og hlustaði svo á megnið af honum í bílnum líka – ég var að lesa upp á Stokkseyri í fyrradag, fór í road trip. Ég veit ekki hvaða tökum er best að taka hann. Hann er ekki erfiður í sama skilningi og Proteus eða Oxen of the sun. Hann er bara langur og fullur af smáatriðum sem hægt er að staldra við. Hversdagslegasta útlegging á honum gæti hæglega orðið lengri en bókin öll. Og svo tefur mig líka letin.
***
Annað sem ég hlustaði á í bílferðinni minni var How to be alone eftir Jonathan Franzen – ritgerðasafn, dálítið köflótt, sumt mjög gott og annað síðra, líður fyrir viðbúinn samanburð við David Foster Wallace, sem var betri í þessum sömu þemum, sömu þankabönum (þeir voru miklir vinir). Í henni talar hann á einum stað um „Bloomsday“ og á við dag sem er fullkomlega dokumenteraður niður í minnstu smáatriði. Það er ekki nýtt fyrir mér að fólk tali þannig um Ulysses, að hún sé þessi dagur – 16. júní, 1904 – dokumenteraður í drep. Og Joyce sagði sjálfur að Dublin mætti endurbyggja frá grunni út frá síðum Ulysses. Til að gera langa sögu stutta þá er brandarinn fyndinn en bæði auðvitað þvæla. Það er af og frá að við vitum allt sem gerist í lífum (eða hugum) Leopolds Bloom og Stephen Dedalus þennan dag – við vitum ekki einu sinni allt sem á daga þeirra drífur. Bæði eru eyður – kaflarnir byrja ekki allir þar sem síðasta lauk, og tímasetningin er stundum svolítið á reiki – og svo er gjarnan bara fylgst með öðrum þeirra. Við vitum kannski hvar hinn er á meðan en ekki endilega hvað hann er að gera eða segja. Aukinheldur eru kaflar þar sem skilningarvit þeirra eru brengluð og aðrir þar sem lýsingarnar á því sem þeir eru að gera eru með slíkum stíllegum heljarstökkum að sá sem segist hundrað prósent viss um hvað hafi átt sér stað – í jarðbundnasta skilningi dokumentasjónar – er að ljúga.
Joyce sækir á djúpið – hann er ekki að kortleggja einn dag eða einn mann eða eina borg. Hann er að kortleggja hræringarnar í innra lífi tveggja manna – og meira að segja sú kortlagning er gloppótt þótt hún sé impónerandi í umfangi sínu.
***
11 dagar í Tom Waits endurtekt. 12 dagar í fyrsta Svíþjóðartúr – með bókamessunni í Gautaborg. Einn mánuður og þrír dagar í maraþon. Eftir það fer ég í tveggja vikna útlegð til þess að einbeita mér að næstu bók. Og svo aftur á flakk. Einhvern tíma verður svo allt rólegt.
Einsog það er nú rómantískt að vera sveltandi listamaður þá er satt best að segja óþolandi að vera blankur. Og óþolandi að horfa á tekjustofna sína þorna upp og óþolandi að þurfa að nota ömurleg orð einsog „tekjustofnar“ til þess að tjá gremju sína. Óþolandi að hugsa um tekjustofna.
Ég fæ greitt fyrir bóksölu – sem er hverfandi, einsog allir vita, það les andskotans enginn neitt lengur. Og til þess að einhverju muni um tekjur af bóksölu þarf eiginlega að gefa út metsölubók á hverju einasta ári. Á 25 árum hef ég gefið út tvær slíkar og kannski gef ég aldrei út aðra.
Ég fæ greitt fyrir lán af bókasöfnum – bókasafnssjóður (og þar með tekjur mínar af þessum útlánum) hefur dregist saman um 45% frá 2021. Nú næ ég ekki 100 kalli fyrir hvert útlán – sem þýðir að „díllinn“ er næstum verri en Storytel-díllinn. En díllinn við bókasafnssjóð er enginn díll – fjármálaráðherra ákveður bara með pennastriki hvað hann nennir að borga okkur á hverju ári.
Ég fæ (stundum) greitt fyrir upplestur. En oftast ekki og oftast þegar ég fæ greitt er það langt undir taxta. Og ég fæ gjarnan líka að borga ferðalög og gistingu úr eigin vasa – a.m.k. ef það er innanlands og 100% ef það er til höfuðborgarinnar sem ég þarf að fara.
Greiðslur fyrir greinarskrif eru svo til ALLTAF langt, langt, langt, langt, langt undir taxta – sama gildir um greiðslur fyrir smásögur eða ljóð.
Ég fæ listamannalaun – sem voru víst einhvern tíma miðuð við lektorslaun en eru nú, eftir kostnað, lægri en lágmarksnámslán. (Já, lágmarks-námslán). Og restin – sem á að bólstra þetta upp í bærilegar tekjur fyrir mann sem langar að láta einsog hann tilheyri millistéttinni – er eiginlega ekki að verða að neinu. Listamannalaun eru svo ákveðin einu sinni á ári – og ef maður fær þau ekki er þetta ekki gerlegt nema maður eigi hátekjumaka eða einhvern annan að sem getur gert mann út. Sem ég á ekki.
Nú hljómar þetta kannski einsog mér gangi illa. En það er nú það sem er svo undarlegt við þetta allt saman. Í samanburði við langflesta kollega mína gengur mér nefnilega VEL.
***
Ég bið alla nema valdið velvirðingar á þessu ranti. Það er kalt og ég er þreyttur og gramur.
Ætli það sé ekki aldurstengt hversu oft hugsanir mínar þessa vikuna hafa hvarflað til móður Jeppes og Patricks Pedersena. Annar skoraði sögulega fallegt mark og varð bikarmeistari með Vestra á meðan hinn sleit hásin með Vali. Og mamma þeirra hefur þurft að hringja í þá báða eftir leikinn. Ekki veit ég hvað það segir um innlærða kynjatvíhyggjuna að ég hafi ekki sömu áhyggjur af pabba þeirra. Eða hinni mömmu þeirra?! Pöbbum þeirra? Fósturstjúpum þeirra og framkvæmdastjórum danskra munaðarleysingjahæla? Ekki veit ég neitt um fjölskylduaðstæður þeirra annað en bróðernið – ég dreg mínar ályktanir af einhverjum tölfræðilegum líkindum. En þetta hlýtur að vera sárt og sætt. Og sárt og sætt. Og svo aftur sárt og svo aftur sætt.
Ég sá stutt brot með Snorra Mássyni á einhverjum samfélagsmiðlana á dögunum þar sem hann sagðist vera eðlishyggjumaður en dró svo í land með það – sagði eitthvað í þá veru að orðið væri í sjálfu sér fáránlegt, eðlishyggja, af því það fæli í sér efa á tilvist eðlisins. Og einsog við vitum öll er eðlið sjálfsagður sannleikur. Þetta hlægði mig svolítið. Ekki af því það sé enginn hluti tilvistar okkar bundinn við eðli – það er eðli okkar að þurfa öryggi og hamingju til dæmis. Og svo höfum við persónubundið eðli sem við látum stundum einsog sé almennt. Einsog að það sé eðli okkar að leita ástar og elska. Það á við um okkur langflest en ekki öll – það er eðli en það er ekki sammannlegt eðli. En það sem Snorri var að tala um, hafi ég ekki misskilið – þessi síbyljandi áróður internetsins er aldrei skýr og yfirleitt horfinn um leið og hann birtist – var kynhegðun. Að karlar séu stórir og sterkir vöðvaverndarar og konur séu hlýjir og kærleiksríkir umönnunarverndarar. Karlar kýla illmenni, konur setja plástra á börn. Því jafnvel þótt maður samþykki að tilhneigingar hópanna séu í þá átt og hafi verið á liðnum öldum þá er hlægilega vitlaust að halda að það í sjálfu sér sýni að það sé ekki lært. Alveg svona ég-féll-þrisvar-í-félagsfræði-103-vitlaust. Og þótt sanna mætti að fræið að tiltekinni hegðun – við erum að tala um hluti einsog að varalita sig og finnast gaman í byssó – væri „eðli“ (í merkingunni eitthvað sem allir fæðast með) og það væri ekki lært frá grunni þá gæti það verið lærdómur sem ýtir undir og nærir vissar tilhneigingar svo þær vaxi umfram það sem þær myndu gera annars – og það er ekkert sem segir að allt sem er í eðli okkar sé eitthvað sem við viljum næra. Við erum skepnur – hugsandi og elskandi – en við erum samt skepnur. Það sem hefur okkur yfir aðrar skepnur, á góðum degi, er hæfileikinn til þess að beisla það versta í eðli okkar – ekki hæfileikinn til þess að láta það stýra okkur.
Auk þess ætti að vera augljóst að að því marki sem við fæðumst með eðli þá er það ívið fjölbreyttara en að karlar vilji fara í byssó og konur varalita sig. Þegar ég var lítill voru áreiðanlega margir sem ályktuðu sem svo að það væri ekki í „eðli“ kvenna að spila knattspyrnu – þær hefðu einfaldlega ekki áhuga á því. Þær stelpur sem það gerðu voru kallaðar strákastelpur og töldust áreiðanlega vera að stríða gegn eðli sínu. Sem er fáránlegt konsept. Því það sem strákastelpurnar voru að gera var að fylgja eðli sínu – fótboltinn kallaði á þær og þær hlýddu kallinu – rétt einsog strákarnir sem varalita sig heyrðu snyrtidótið hvísla. Og hvorugt segir neitt um að það sé meðfætt eða lært eða að hluta meðfætt og að hluta lært – það er bara alls konar og skiptir engu andskotans máli. Maður fær það frá ömmu sinni heitinni og maður fær það frá vinum sínum og maður fær það úr útvarpinu og með móðurmjólkinni og á síðkvöldum úti í skúr með afa. Byltingin sem hefur orðið á síðustu árum – og er enn að verða – er að mörgu leyti mjög sjálfhverf og einstaklingsmiðuð, sem hefur kosti og galla sem við getum alveg rætt, en hún snýst um að hver manneskja fái að fylgja sínu eigin eðli frekar en að neyðast til að troða sér í eðlis-boxin sem menn einsog Snorri Másson vilja sníða þeim (og jájá, ég heyrði líka „mér er alveg sama þótt fólk sé trans heima hjá sér rökin“ – þau eru ekki sannfærandi).
Einu sinni fannst mér hv´ítt pasta betra en heilhveitipasta. Svo fannst mér heilhveitipasta betra. En nú finnst mér hvítt pasta aftur betra en heilhveitipasta. Ekki veit ég hvað veldur. Annars er heilhveitibransinn hálfgert svindl. Það er oft ekki nema 10% heilhveiti í heilhveitivörum – restin er bara hvítt hveiti.
Ég ætla að gera salsiccia-pasta í kvöldmat. Bara inni samt. Ég er einn heima – stelpurnar eru að fara í sumarbústað. Svo ætla ég að horfa á úrslitaleik Mjólkurbikarsins á risaskjá á Silfurtorgi. Vestri-Valur. Og þaðan hleyp ég beint á djasstónleika í Edinborg – Osgood/Blak/Poulsen tríó. Á morgun í sama húsi verður svo black metal með Chögma og rokk með ísfirsku sveitinni Paranoid. Svissneska djasssveitin Quiet Tree verður á miðvikudag. Og á laugardag verður Pavement fögnuður – bíómynd um þessa frægu indísveit (sem ég sá á Hróarskeldu fyrir 15 árum) sýnd í Ísafjarðarbíó með Q&A við Bob Nastanovich úr sveitinni og svo tónleikar með Reykjavík! (og vinum) um kvöldið sem lýkur með dj-setti frá Nastanovich. Svo fer nú áreiðanlega að róast um eftir frekar rosalegt tónlistarsumar.
Heimska kom út í Póllandi í vikunni og Náttúrulögmálin er komin úr prentun í Svíþjóð – en kemur ekki út formlega fyrren 1. september. Mér gengur aldrei þessu vant ágætlega að skrifa – er bæði að skrifa nýja(r) skáldsögu(r) og reyna að búa til leikrit úr Náttúrulögmálunum. Það er sólskin dag eftir dag – ég elda mat á pallinum við borðið sem ég smíðaði í sumar. Spila á kontrabassann minn og hef það bara mjög gott, takk fyrir.