Ég ætlaði að fara að skrifa að það væri ekki á hverju ári sem íslensk leikhús sviðsettu leikverk nóbelsverðlaunaskálda en svo mundi ég að það var áreiðanlega bara í fyrra sem ég sá Hassið hennar mömmu eftir Dario Fo á Flateyri. Og í gærkvöldi fór ég í Haukadal og sá Þannig var það eftir Jon Fosse. Svo kannski er þetta bara árlegt fyrirbrigði.
Nei, sló þessu upp. Það var í hittifyrra. Verk nóbelsleikskálda eru sett upp annað hvert ár. Á Vestfjörðum – ekki veit ég hvernig þessu er háttað í öðrum landsfjórðungum. Mér er sagt að þar sé allt miklu verra en hér en ég reyni að kanna það helst aldrei.
Sá er þó munurinn á þessum tveimur uppsetningum að Elfar Logi er að frumsýna verkið á Íslandi, sem kom út á bók hjá Espolín útgáfunni í þýðingu Kristrúnar Guðmundsdóttur 2019, en Dario Fo var þýddur fyrir löngu og var held ég á tímabili mjög vinsæll, ekki síst hjá áhugaleikhúsum einsog því á Flateyri. Hassið hennar mömmu hefur margsinnis verið sviðsett. Annar munur er jú að Kómedíuleikhúsið er atvinnuleikhús.
Annars hefur Dimma verið ötul í útgáfu verka Fosse síðustu ár og þá held ég alltaf í þýðingu Hjalta Rögnvaldssonar. Það er líka merkilegt í því samhengi að flestar þessar bækur komu út áður en Fosse hlaut Nóbelsverðlaunin – útgáfan er sem sagt ekki afleiðing af þeim. Ég hef aðeins litið í þær en ekki alveg náð sambandi – sem segir áreiðanlega jafn mikið um mig og þær.
Hvað um það. Þannig var það er stutt verk sem fjallar um gamlan listmálara sem býr einn en á bágt með að sjá um sig sjálfur. Þegar verkið hefst liggur hann í rúminu og á leiktímanum tekst honum að setjast upp, skrönglast upp á staf, færa sig yfir í göngugrind, þaðan í hjólastól og enda svo á gólfinu eftir að hafa reynt að leggjast aftur, úrvinda eftir hamaganginn. Hann veltir fyrir sér merkingu lífs síns og ber sig illa – hann þolir ekki konuna sem kemur til að líta til með honum, en hún er samt greinilega eini félagsskapurinn sem hann nýtur, því börnin hans nenna honum ekki og konurnar hans þrjár gáfust allar upp á honum – að sögn af því hann gaf sig allan málverkinu, var hvergi til annars staðar. Hann er trúaður en hefur meira að segja gefist upp á að fara með faðirvorið – það sé tilgangslaust, einsog allt annað.
Textinn er endurtekningasamur og sveiflast milli röfls og galdraþulu, ljóðs og heimspeki – hann er ekki beinlínis á leiðinni neitt og þótt myndin af manninum skýrist smám saman þá fáum við aldrei neinar greinargóðar útskýringar ´á því hvernig er fyrir honum komið. Kannski er þetta í aðra röndina verk bara um það hvernig „hlutirnir geta farið“ – án þess þó að höfundur, eða raunar sögupersóna, reyni að bera neitt blak af sér eða hafna eigin sök. Hann er hundfúll yfir aðstæðum sínum – að vera einn, að deyja einn, dáður út í bæ en fyrirlitinn heima, af sjálfum sér og öðrum – en fljótur að koma auga á hvernig hann kom sér í þær – þótt það sé auðvitað gott að vera vitur eftirá. Og svo bara syngur hann eða þylur eða röflar eða ljóðar og fyrtist og bölvar eða hvað það er sem hann er að gera.
Uppfærsla Kómedíuleikhússins er stórkostleg. Leikmyndin er einföld – rúmið og göngugrindin og stafurinn og hjólastóllinn á litlu sviði leikhússins í Haukadal (sem gefur sýningunni alveg áreiðanlega aukinn kraft – þetta er göldrótt hús). Stutt fiðlustef Unnar Birnu Björnsdóttur, falleg og passlega sársaukafull, styrktu tilfinningar verksins án þess að bæta við þær upphrópunarmerki, einsog oft vill annars verða raunin. Náttföt listamannsins voru við það að gera sjóveikan – niðri var einsog þau væru vitlaust hneppt en uppi rétt, sennilega voru þau bara hönnuð skökk – skemmtilegur og metafórískur díteill.
En mestu munaði um Elfar Loga sem átti stórleik – svona verk stendur og fellur með (ein)leikaranum á sviði – hann sveiflaðist inn og út úr harmi og húmor, beiskju og hlýju í einhverjum galdri sem gerði það að verkum, sem ég hef annars varla upplifað í leikhúsi áður, að í stað þess að áhorfendur væru alltaf í „sömu“ tilfinningunni, hlæjandi saman og grátandi saman, voru þeir augljóslega oft hlæjandi og grátandi á víxl að sömu senunum. Eina mínútuna hló ég að geiflandi beiskju gamalmennisins meðan maðurinn fyrir framan mig tók andköf af meðlíðan, en þá næstu tók ég andköf meðan hann hló. Það var einsog hvert augnablik hefði jafnsterka kómíska og tragíska vídd og tilviljun ein réði því hvorumegin maður lenti (og fékk mig til að hugsa um söguna um að Chekhov hefði gengið út af frumsýningu Kirsuberjagarðsins, sem hann skrifaði sem kómedíu, en leikhópurinn ákvað að sviðsetja sem tragedíu, eftir að hafa farið að hágrenja við fyrsta leiklestur – það er ekki alltaf langt þarna á milli og stundum er þetta bara sami bletturinn).
Kómedíuleikhúsið, sem á tvö ár í þrítugt, hefur vaxið mikið á síðustu árum – ekki síst með uppsetningunni á Ariasman og nú Fosse. Það er í sjálfu sér kraftaverk að reka svona „fyrirtæki“ – atvinnuleikhús í Haukadal, með kannski 20 sæti – og væri það áfram þótt sýningarnar væru ekki í þokkabót jafn listrænt metnaðarfullar og verið hefur upp á síðkastið. Að ég segi nú ekkert um hliðarbarnið Act Alone. Ég tek hatt minn ofan.
Ég reiknaði fyrirfram með því að verkið myndi skila sér til Reykjavíkur fyrir rest – en það stendur víst á heimasíðu leikhússins að það verði bara sýnt í Haukadal í sumar. Ég ímynda mér að það sé eitthvert leyfisspursmál. Það eru þrjár sýningar eftir – 17. 24. og 31. júlí. Ég myndi ekki missa af þeim.
***
Þannig var það – Kómedíuleikhúsið
Leikari: Elfar Logi Hannesson Höfundur: Jon Fosse Þýðing: Kristrún Guðmundsdóttir Tónlist: Unnur Birna Björnsdóttir Búningar: Þ. Sunnefa Elfarsdóttir Ljósameistari: Siguvald Ívar Helgason Leikmynd og leikstjórn: Marsibil G. Kristjánsdóttir
Ég held að heilinn á mér sé enn í sumarfríi. Í gærmorgun tók ég eftir öri eftir nýlegt sár á kinninni á mér – ég mundi eftir sárinu, það er varla nema tveggja-þriggja vikna gamalt, en ég mundi ekkert hvar ég hefði fengið það. Af hverju var ég með sár á kinninni? Ekki var þetta uppklórað skordýrabit? Hafði ég dottið? Rekið mig í hillu? Einhvern veginn klaufað eldhúshníf upp í andlitið á mér (ekki að ég hafi eldað mikið í sumarfríinu)? Þetta olli mér „talsverðum heilabrotum“ einsog maður segir – hvað sem það nú þýðir, heilabrot – ég sem sagt hugsaði um þetta og var farinn að hafa alvarlegar áhyggjur af heilsu minni (sérstaklega eftir að ég ætlaði að taka íbúfen við höfuðverk og mundi ekki hvort ég hefði fengið mér íbúfen eða hvort ég hefði bara fengið mér vatnsglas og gleymt íbúfeninu – ég fékk mér allavega aðra nema það hafi verið fyrsta). Síðan kom kvöld. Og þ´á mundi ég hvað hafði gerst. Ég skar mig við rakstur. Er það ekki svolítið einsog að uppgötva eftir langa rannsókn að það var brytinn sem framdi glæpinn? Hefði það, altso, ekki átt að blasa við? Sár í andliti karlmanns = rakstur? Ég er að vísu ekki vanur að skera mig við rakstur en ég keypti einhvern plastpoka fullan af einnota rakhnífum í Coop Konsum í Rejmyre, Östra Götaland (mitt á milli Finspång og Norrköping) og þeir voru bara alls ekki brúklegir miðað við þá lúxushnífa sem ég á að venjast. Og því fór sem fór. Ráðgátan leyst.
***
700 síður búnar í Books of Jacob. Einu sinni skrifaði ég alltaf jafn ´óðum um þær bækur sem ég var að lesa en var skammaður fyrir að vera að skrifa um bækur sem ég væri ekki búinn að lesa – þótt ég væri bara að skrifa um þær síður sem ég væri þá búinn með. Það eru enn 300 blaðsíður eftir af Books of Jacob og um þær get ég ekki tjáð mig, eðli málsins samkvæmt.
Ég veit ekki hvort ég á neitt að vera að leggja mat á hvað mér „finnst“ – enn sem komið er – það kemur í ljós bara á næstu mánuðum og árum. Þegar rykið sest. Þetta er augljóslega stórvirki og miklu „módernískari“ bók en ég átti von á eftir Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu. Einsog margar – flestar? – svona langar bækur er hún að reyna að vera einhvern veginn komplett og alltumlykjandi, ná utan um bæði augnablikin og aldirnar.
Hún fjallar einsog áður segir um spámanninn/messíasinn Jakob Frank – sem var til – og hana má augljóslega lesa frá mörgum sjónarhornum en eitt sem blasir við mér er að spegla hana í guðspjöllunum. Sem eru auðvitað líka módernísk, á sinn hátt – ef við tökum þeim sem einu verki – þar sem sama sagan er sögð fjórum sinnum með tilbrigðum, en á þveröfugan hátt við Jakobsbækurnar. Hvert guðspjall er frekar stutt og lítið dvalið við hversdagslega hluti heldur vaðið milli kraftaverka, dæmisagna og sögulegra stórviðburða. Jakobsbækurnar eru fimm og þær sem ég hef komist í gegnum fjalla allar um sögulegan tíma ´Jakobs Frank – þótt ég þykist vita að bókin fari nær okkur í tíma í restina.
Saga Jakobs er í grunninn bara saga hvers messíasar – stundum finnst manni hann vera djúpvitur frelsari, jafnvel kraftaverkamaður, og stundum kynóður megalóman og stundum allt í senn – fólkið í kringum hann er ýmist blindað af trú á hann eða í baráttu við efann; þeir sem fjær standa óttast hann eða eru forvitnir. Hann safnar um sig lærisveinum og endar ofsóttur. Þar sem ég er staddur í bókinni er búið að fangelsa hann og lýsa því formlega yfir í dómi að það verði að „eilífu og þeirri ákvörðun aldrei snúið“. Ég þekki ekki sögu Franks nema úr þessari bók og veit ekki hvort hann verður drepinn eða honum sleppt eða hvað. Ég veit það samt af reynslunni að það þarf ekkert mjög margt að gerast á þessum 300 síðum sem eru eftir – en samt allt!
Sjónarhornið er á sinn hátt alsjáandi án þess að vera alviturt – sögumaður er öldruð kona sem liggur fyrir dauðanum og öðlast alsjón – hún svífur beinlínis yfir sögusviðinu. Við fáum litla innsýn í hugarheima fólks nema það sem maður gæti giskað sig upp á út frá svipbrigðum og málrómi og þvíumlöguðu. Hins vegar leitar þessi alsjón uppi allt sem gæti nokkru máli skipti – fer um í tíma og rúmi, alls lags aukapersónur detta inn og út úr fókus, rýmum og hlutum og náttúru og veðri og göngulagi og fatnaði og svo framvegis er lýst í smáatriðum, guðfræðilegar og fagurfræðilegar og heimspekilegar deilur eiga sér stað í samræðum og bréfum. Engar endurtekningar, sem sagt, og í stað þess að söguþráðurinn birtist manni á þrjátíu síðum á hröðu tempói – einsog í þeim guðspjöllum sem maður á að venjast – er hann á þúsund síðum.
Það er mjög hægt.
***
Danirnir koma til mín á morgun. Ég hef ekkert lesið neina danska bók einsog ég ætlaði að gera. Kíkti aðeins á danska duolingo og ætli ég lesi ekki fréttirnar í kvöld á dönsku vefmiðlunum. Og svo bjarga ég mér ábyggilega á sænsku með dönskum hreim og les eitthvað fyrir þá úr þýðingum Nönnu Kalkar.
Það rifjast upp fyrir mér að Melli vinur minn sagði á sínum tíma að það væri ekkert mál að tala sænsku – maður talaði bara dönsku og gerði svona skrítin hljóð á eftir, hann hermdi þau bara – å o å o – svona einsog maður gæti ímyndað sér að selur myndi breima, kannski. En fyrsta setningin sem duolingo kenndi mér á dönsku eftir stöðupróf var „Svenskeren kan ikke førstå danskeren når de taler sammen“.
Ég hef einu sinni talað sænsku í sjónvarpsviðtali í Danmörku. Það gekk alveg en ég veit auðvitað ekkert hvort sjónvarpsáhorfendur skildu mig (það er líka alltílagi þótt fólk skilji ekki alveg rithöfunda). Mestar áhyggjur hef ég haft af fordómum dana og svía gagnvart hvor öðrum – það fylgir því ákveðinn farangur ef danir telja mann sænskan (eða hliðhollan svíum) og öfugt. Að vísu var mér sagt í vor að menningarsvíar væru að verða mjög danskir og menningardanir að verða mjög sænskir – og ef maður veit ekki hvað það þýðir væri kannski gott að rifja upp debattinn í kringum danska höfundinn Yahya Hassan, sem orti fjálglega um ofbeldi í innflytjendasamfélögum og lýsti föður sínum sem „loðnum apa“, og var skammaður fyrir af svíum með áþekkan bakgrunn sem sögðu hann beinlínis vera að hlaða byssur rasistana fyrir þá. Og hafi danir verið beinskeyttir en svíar viðkvæmir hefur það þá snúist við – er mér sagt og sel ekki dýrara en ég keypti það.
***
Ég hef annars veitt því athygli að ég hef ákveðna tilhneigingu síðustu misserin til þess að forðast pólitískar yfirlýsingar. Sennilega er það bara innbyggður mótþrói gagnvart ofsanum sem umlykur mann alla daga – frá Gaza til Washington inn á Alþingi og upp í Bolholt. Ég er orðinn mjög þreyttur á froðufellandi jarðýtum. Ég er líka orðinn furðu mikill both-sider í samræðu – finnst ekki þægilegt að tala í alhæfingum eða of mikilli vissu og hvað þá kraftmikilli hneykslan. Sérstaklega ekki um litlu málin. Þegar kemur að stóru málunum – Gaza er stærst – fyllist ég bara vonleysi og líður einsog húðin ætli að leka utan af mér og ég sökkva ofan í jörðina. Ég man eftir að hafa lesið sannfærandi rök Amosar Oz um að Evrópumenn – sem hefðu barist á banaspjótum árhundruðum saman, í átökum sem hefðu endað með seinni heimsstyrjöldinni – ættu lítið með að lýsa því yfir að það væri „ómögulegt“ að sjá fyrir sér endalok átakanna í Palestínu. En ég er samt svolítið þar. Ég hef ekki ímyndunarafl í að sjá fyrir mér neinn frið eftir atburði síðustu tveggja ára.
Stundum hvarflar að manni að valdið í heiminum – eða á Íslandi, Reykjavík, Ísafirði, í húsfélögum, stökum fjölskyldum – sé valdið vegna þess að það kann að skipuleggja sig. Og það segir sig eiginlega sjálft að skipulag virkar best með valdi – það er hægt að ræða hvert eigi að keyra bílnum en ef allir ætla að keyra hann í einu er ekki líklegt að vel fari. En svo ég haldi þessari vafasömu líkingu til streitu þá vill sá sem heldur í stýrið oft bara ráða þessu sjálfur (oft var það þannig sem hann valdist til að stýra í upphafi). Og ráða meiru. Keyra fleiri bíla á fleiri vegum. Fljúga bílunum til stjarnanna. Alveg sama þótt farþegana vanti bara að komast í skólann. Eða til læknis. Bíllinn skal til Mars. Það er framtíðin, segir metnaðarfullur bílstjórinn. Og þá verður að gera byltingu. Sameinast í aftursætinu og skjóta bílstjórann. En bíllinn er á fullri ferð til Mars og nú erum við þrjú í aftursætinu að kljást við fjórða mann í farþegasætinu fram í – allir með eina hönd á stýrinu og aðra upp á móti hinum – rúðan er sprungin, allt í blóði alls staðar, við reynum að snúa við, komast í skólann og til læknis, helst bæði í einu, á meðan bíllinn brennur upp á leiðinni inn í lofthjúpinn aftur.
Er þetta góður tími til að vera sósíalisti? Það er allavega umbreytingarskeið. Ef mann langaði að verða sósíalistaleiðtogi væri kannski ráð að grípa til aðgerða núna. Fylgið vantar heimili. VG er í molum. Sósíalistaflokkurinn varla nema mylsna. Héðan af væri sennilega mestur missir af Samstöðinni – hún er mikill afbragðsfjölmiðill, ekki síst þessi löngu og ítarlegu viðtöl við alls konar fólk, og væri synd ef hún breyttist í málfundafélag skinhelgra sósíalista eða eitthvað þaðan af verra. Ég er ekki sannfærður um að VG eigi eftir neina upprisu – þótt það sé ekki útilokað – en yrði enn meira hissa ef Sósíalistaflokkurinn nær sér eftir þetta epíska rugl síðustu vikna, og skiptir þá litlu hver „vinnur“ þessar húsfélagsþrætur núna.
***
Sumarfríið er að verða búið. Við Aram höldum heim á föstudag. Ég er varla nema rétt rúmlega hálfnaður með sumarfrísbókina – 500 síður búnar af Books of Jacob en 500 enn eftir. Keypti að vísu líka Ulysses þýðingu Eriks Andersson, sem ég hef heyrt mjög vel af látið, og byrjaði að glugga í Násikukaflann, sem er næstur á dagskrá, og endaði á að klára hann bara. Var bara furðu þjált. Sinni þessu betur í næstu viku. Nema það verði mjög gott málningarveður – þá fer kannski allur frítíminn í það. Svo ætlaði ég reyndar að lesa líka eitthvað á dönsku til að hreyfa við dönskuhluta heilans í mér áður en ég hitti nokkra danska menningartúrista á Ísafirði – annars tala ég bara sænsku. Og ég á víst enn 500 síður eftir af Tokarczuk. Og er að æfa fyrir maraþon. Heima bíður mín kontrabassi sem vill að ég spili á sig. Það er enginn tími, verður enginn tími, en það verður gaman.
The further north you go, the more people concentrate on themselves, and in some sort of northern madness (no doubt due to the lack of sun) they ascribe themselves too much. They make themselves responsible for their actions. Fatum is punctured by raindrops, then farther on, snowflakes making a final incursion, and soon it disappears altogether. What remains is the conviction that destroyes every person, supported by the Ruler of the North, the Church, and its ubiquitous functionaries, that all evil is in man yet can’t be fixed by man. It can only be forgiven. But can it be forgiven? Hence comes that tiring, destructive feeling that one is always guilty, from birth, that one is stuck in sin and that everything is sin – doing something, not doing it, love, hate, words, and even thoughts. Knowledge is a sin, and ignorance is a sin.
Ég held ég hafi aldrei lesið greinarbetri lýsingu á norrænu hugarfari en þessa, sem kemur úr The Books of Jacob eftir Olgu Tokarczuk í þýðingu Jennifer Croft. Hún nær einhvern veginn utan um þessa undarlegu blöndu af botnlausri sjálfhverfu og umhyggju fyrir heiminum – og útskýrir hvernig sjálfhverfan verður að umhyggju og umhyggjan að sjálfhverfu og allt saman verður alltaf á endanum að samviskubiti, einmitt af því við sjáum okkur sjálf sem trónandi fólk, blöndu af yfirmennum og hálfgerðum skyldufyrirmyndum. Við fyrirgefum í orði kveðnu en í raun fyrirgefum við aldrei neitt og allra síst okkur sjálfum. Á norðurlöndum sjá sig allir í Atlas – sem er óforskammað mikilmennskubrjálæði – og fullyrðinguna „allir eiga að skipta máli“ má alltaf sjóða niður í: „Ég á að skipta máli“ eða „Ég skipti máli“ og jafnvel „Ég skipti víst máli!“. Og ekkert gæti verið verra fyrir hinn norræna mann en að skipta ekki máli.
Ég er kominn fjórðung inn í þennan þúsundblaðsíðna hnullung um 18. aldar spámanninn Jakob – sem er kannski Messías – og hafi manni ekki þótt skrítið fyrir að Tokarczuk hafi hlotið nóbelinn við lestur annarra bóka hennar þá finnst manni það enn minna skrítið þegar maður stendur í miðju svona verki. Stærðin er einhvern veginn ógurleg. Maður stendur uppi á fjalli í norður Póllandi og sér niður að Bosporussundi, ef ekki lengra. Og sannarlega er ég oft villtur. En samt ratar ég einhvern veginn áfram. Þetta er að mörgu leyti trúarheimspekileg bók – og andleg slík, ekki jafn greinandi og hún er trúandi og þreifandi. En hún átti að vera hvíld frá Ulysses – sumarfríslesturinn – og er nú eiginlega ekki mikill hvíldarlestur. Næst tek ég bara með mér Andrés.
Og nei, hún fjallar nú ekki mikið um „hinn norræna mann“. Minna en til dæmis Andrés.
***
Ég er í sænskri sveit. Gulu viðvaranirnar eltu mig hingað. Það eru þrumur og eldingar og stefnir í ógurlega rigningu innan skamms. Búið að taka öll tæki á heimilinu úr sambandi. Allir með svona loftþrýstingshausverk sem mér skilst að hafi verið vísindalega afsannaður en það eru allir með hann samt. Þetta er áreiðanlega einhvern veginn mér að kenna. Bæði veðrið og hausverkurinn og gula viðvörunin.
Kýklópaþáttur Ulysses er langpólitískasti kaflinn og sá fyrsti af þremur í röð þar sem Joyce fer hamförum í paródíuæfingum og almennri stílfimi. Við fáum í fyrsta lagi alveg nýjan sögumann – sem gengur jafnan undir nafninu „nafnleysinginn“ – og í öðru lagi eru reglulegir útúrdúrar í hinum ýmsu stílum sem eru þó allir á einhverju hetjurófi. Eru þar undir riddarasögur, dýralífslýsingar, epísk ævintýri, kristin trúarrit og nýaldarlegri og svo framvegis.
Nafnleysinginn sem segir söguna er líka fyrsti fyrstupersónu sögumaður bókarinnar sem er ekki í neinu vitundarflæði. Það er að segja, hann er ekki að hugsa, hann er að tala, að segja einhverjum frá þessu, en við vitum aldrei hverjum eða af hvaða ástæðum. Og hann er til þess að gera venjulegur fyrstupersónu sögumaður – í bók sem hefur hingað til verið í þriðjupersónu plús innsýn í hugsanir sumra sögupersóna.
Nafnleysinginn er vel að merkja gjarn á að segja „ay, says I“ eða eitthvað álíka og fyrsta orðið í kaflanum er „I“ og bæði „ay“ og „I“ eru auðvitað borin fram einsog „eye“. Sem er einmitt það sem kýklópar eru með í höfðinu. Joyce missir heldur ekki af neinu tækifæri til þess að nefna augu í kaflanum og koma þau fyrir bæði bókstaflega og í orðatiltækjum og myndlíkingum.
Það segja líka allir „ay“ í þessum kafla og held ég aldrei „yes“ – en „yes“ er auðvitað aðalorðið í bókinni, einsog maður fattar í lokakaflanum.
Hómer segir frá því er Ódysseifur og félagar koma á eyju kýklópans Pólyfemusar (nafnið þýðir: margradda eða margumtalaður). Þar finna þeir helli fullan af vistum og þykjast hafa komist í feitt. Þegar Pólýfemus kemur heim tekur hann þá til fanga og étur tvo þeirra. Hyggst hann svo éta tvo á dag þar til allir eru uppétnir. Kvöld eitt eftir að Ódysseifur hefur gefið honum af sterku víni sem hann átti í fórum sínum spyr Pólyfemus Ódysseif að nafni og segist hann heita „Enginn“. Pólyfemus sofnar síðan – eða drepst áfengisdauða – og Ódysseifur stingur úr honum augað eina og blindar hann. Þegar hann vaknar er hann mjög reiður og öskrar á hina kýklópana á eyjunni að „Enginn“ sé að reyna að drepa sig – og fær auðvitað enga hjálp. Ódysseifur og eftirlifandi menn hans binda sig fasta undir kindur Pólyfemusar um morguninn og smygla sér þannig framhjá honum út úr hellinum. Þegar Ódysseifur er að sigla á brott kallar hann til risans sitt rétta nafn og risinn reiðist mjög og grýtir á eftir skipinu miklu bjargi en missir marks.
Hjá Joyce hefst kaflinn á því að nafnleysinginn, sem er einhvers konar handrukkari, hittir Joe Hynes – blaðamanninn sem tók niður nafn Blooms í Hadesarkaflanum, og sem skuldar Bloom pening – og segir honum að götusópari nokkur hafi nærri tekið úr sér augað með óvarlegri meðferð á sínu atvinnuverkfæri. Svo segir hann Hynes frá manni sem hann er að reyna að rukka – við fáum paródíu af lagamáli sem segir frá því máli – og Hynes býður honum að fylgja sér á pöbbinn Barney Kiernan þar sem þeir muni hitta mann sem þeir kalla „borgarann“, því Hynes vilji ræða við hann um gin- og klaufaveiki (bréfið sem hr. Deasy bað Stephen að koma í blaðið fjallaði líka um gin- og klaufaveiki – og hr. Deasy var líka, einsog flestir í þessum kafla, rasisti).
Næst kemur ógurlega rómantísk lýsing af borginni og leið þeirra á pöbbinn.
In Inisfail the fair there lies a land, the land of holy Michan. There rises a watchtower beheld of men afar. There sleep the mighty dead as in life they slept, warriors and princes of high renown. A pleasant land it is in sooth of murmuring waters, fishful streams where sport the gurnard, the plaice, the roach, the halibut, the gibbed haddock, the grilse, the dab, the brill, the flounder, the pollock, the mixed coarse fish generally and other denizens of the aqueous kingdom too numerous to be enumerated.
Og svo framvegis.
Á Barney Kiernan finna þeir borgarann ásamt illvígum hundi sínum, GarryOwen. Sá bíður þess að einhver bjóði sér í glas. Svo kemur mikil og ógurleg lýsing á honum.
The figure seated on a large boulder at the foot of a round tower was that of a broadshouldered deepchested stronglimbed frankeyed redhaired freelyfreckled shaggybearded widemouthed largenosed longheaded deepvoiced barekneed brawnyhanded hairylegged ruddyfaced sinewyarmed hero. From shoulder to shoulder he measured several ells and his rocklike mountainous knees were covered, as was likewise the rest of his body wherever visible, with a strong growth of tawny prickly hair in hue and toughness similar to the mountain gorse (Ulex Europeus).
Þessi lýsing verður svo dýralífslegri og endar loks í löngum lista yfir „írskar hetjur“ sem sjá megi á mynd á sjávargrjóti sem hangi á belti hans – margar þeirra eru sannarlega írskar hetjur en listinn verður æði skrautlegur fyrir rest (upptalningar Joyce verða það oft) þegar Dante og Beethoven og „the man who broke the bank“ og ótal fleiri skjóta upp kollinum. Skömmu síðar kemur Alf Bergan og fer að tala um Denis Breen – sem æðir brjálaður um borgina með konuna í eftirdragi og reynir að kæra mann og annan fyrir meiðyrði af því hann fékk sendan miða sem á stóð „U.P: UP“. Á sama tíma kemur nafnleysinginn auga á Bob Doran – sem er á sínum árlega bender – þar sem hann liggur og hrýtur úti í horni. Hann vaknar þó fljótlega en er eiginlega of drukkinn til þess að taka almennilega þátt í samræðunum – þrátt fyrir góðan vilja.
Alf þykist líka hafa nýverið séð Paddy Dignam og er mjög hissa þegar í ljós kemur að hann er látinn – og við fáum paródíu af miðilsfundi þar sem Dignam er vakinn til lífsins.
Ég gat þess ekki í yfirferðinni um Eólus en þar bendir Bloom Hynes á að gjaldkeri The Freeman’s Journal sé við – og vonast þá til þess að það verði til þess að hann fái greidda skuld sína. Hynes fór og fékk greitt en er ekki búinn að borga Bloom. Hann á hins vegar fyrir umferð af drykkjum. Þessi drykkjahringekja og siðvenjur í kringum hana eru fyrirferðarmiklar í Kýklópaþætti. Næstu umferð býður Alf Bergan og þegar Bloom kemur inn er hann spurður hvort hann vilji ekki eitthvað að drekka – sem þýðir hvort hann vilji ekki vera með í hringekjunni og skiptast á að kaupa drykki.
Í bókinni The Economy of Ulysses eftir Mark Osteen er þessi skemmtilega lýsing (en hana tek ég sjálfur upp úr The Guide to James Joyce’s Ulysses eftir Patrick Hastings – hagfræðina á ég ólesna en finnst mjög spennandi):
Power and prestige accrue not through investing, saving money or acquiring goods, as in bourgeois economies, but through expenditures and loss of goods. But the gifts in a potlatch only seem voluntary; actually there are three intersecting obligations – to give, to receive, and to reciprocate. To fail in any of the three is to suffer social humiliation and loss of honor. The potlatch constructs the boundaries of the social group and solidifies its hierarchies: those who give or destroy wealth are included, and those who do not are cast out; those who cannot reciprocate by giving back a larger gift than the one they have received lose social status. The greater the loss, the greater the prestige.
Það vita það líka allir sem hafa eitthvað setið á börum að öruggasta leiðin til að verða blankur og fullur er að byrja að skiptast á að splæsa. Það endar alltaf með ósköpum.
Borgarinn kemur auga á Bloom sem er að slæpast fyrir utan í von um að koma auga á Martin Cunningham, sem hann ætlar að hitta til þess að ræða fjármál fjölskyldu Dignams heitins. Þessi slæpingur fer í taugarnar á borgaranum. Á endanum kemur Bloom inn og er spurður hvort hann ætli ekki að drekka en svarar því að hann þiggi kannski vindil bara. Þannig móðgar hann engan með því að hafna drykk en lendir ekki heldur í skuld við neinn (af því menn eru ekki að skiptast á að kaupa vindla). Það er allavega planið – en auðvitað eru mennirnir draugfúlir að hann skuli ekki taka þátt.
Á sama tíma fær Bob Doran hálfgert grátkast yfir því að Dignam sé dáinn. Umræðan fer að snúast um dauðarefsingar og Alf heldur því fram að hengingar hafi engin áhrif á risgetu karlmanna – Bloom segir þetta allt útskýranlegt með vísindum og við fáum paródíu af læknatexta þar sem „herr professor Luitpold Blumenduft“ leggur fram kenningar sínar um limlega upprisu dauðra. Þegar því er lokið er Bob Doran hættur að væla og farinn að leika við hund borgarans.
Bloom og borgarinn eru farnir að þrátta. Enda varla hægt að ímynda sér ólíkari menn. Borgarinn er æsingamaður og þjóðremba – einhver sagði að hann væri sjálfselskan sem pólitísk yfirlýsing og sennilega er það ansi nærri lagi. Og Bloom er tillitssemin sem lífsstíll. Borgaranum finnst Írar ekki nógu írskir, þeir kunni ekki málið og viti ekkert um neitt – en Bloom finnst kannski helst að Írar drekki of mikið. Þetta verður til þess að nafnleysinginn fer að hugsa um að Bloom tími ekki að borga drykki – og augnabliki síðar spyr Joe Hynes Bloom aftur hvort hann vilji ekki drykk en Bloom afþakkar í annað sinn og segist bara vera að bíða eftir Cunningham. Hinir virðast telja víst að Bloom sé fjáður og nískur (enda gyðingur).
Hér fáum við líka paródíu af dagblaðatexta um hengingu.
Bloom og borgarinn þrátta áfram. Bob Doran byrjar aftur að væla út af Dignam – og sá texti er endurtekinn sem paródía af yfirdrifinni kurteisissamúð.
Let me, said he, so far presume upon our acquaintance which, however slight it may appear if judged by the standard of mere time, is founded, as I hope and believe, on a sentiment of mutual esteem as to request of you this favour. But, should I have overstepped the limits of reserve let the sincerity of my feelings be the excuse for my boldness.
Joe byrjar að segja borgaranum frá gin- og klaufaveikinni og endar á að nefna að Nannetti – ritstjórinn sem Bloom þarf að fá til að samþykkja auglýsinguna sem hann er að reyna að selja – sé á leiðinni til Lundúna til þess að ræða málið fyrir þinginu. Þetta er auðvitað bagalegt (síðar í kaflanum lofar Hynes að koma honum á fund með öðrum yfirmanni eftir að Bloom segir að þetta með skuldina megi bíða fram í næsta mánuð).
Nú fara þeir að tala um gelískar íþróttir – sem munu hafa verið ólöglegar á Írlandi um hríð. Kemur í ljós að borgarinn er einn helsti baráttumaður fyrir upprisu gelískra íþróttaleikja og mikill kempa sjálfur (þetta er eina skiptið sem borgarinn sýnir nokkra auðmýkt en hinir fullyrða þetta og Bloom tekur undir). Við fáum paródíu – einhvers konar formlega fundarlýsingu á umræðunni.
Blazes Boylan kemur til tals og fé sem hann mun hafa unnið á því að veðja á boxkappleik og einhverjir spyrja út í túrinn sem hann er að skipuleggja með Molly og það er alveg ljóst að þeim finnst eitthvað líklegt að hann sé að fara að dilla hana.
Nú birtast Ned Lambert og J.J. O’Molloy sem við sáum síðast í Skellibjörgum. Denis Breen og U.P.:UP miðinn berast aftur í tal – Hynes spyr Alf hvort hann hafi skrifað hann – og þeir eru sammála um að Denis Breen sé bilaður – og einmitt í því gengur Breen framhjá með frúna í eftirdragi.
Borgarinn verður heiftúðugri eftir því sem hann drekkur meira og fer að tala um að Englendingar fylli landið af pöddum – pöddurnar eru hugsanlega gyðingar – og vitnar í söguna: „The adulteress and her paramour brought the Saxon robbers here.“ Hér er átt við sögu af kónginum af Leinster, MacMurrough, sem rændi Dervorgillu, konu kóngsins af Breifne, O’Rourke. Erjur þeirra urðu svo slæmar í kjölfarið að MacMurrough þurfti að sækja sér aðstoð til Englands – með þeim afleiðingum að 1904, þegar sagan gerist, réðu þeir enn yfir eyjunni allri.
Þeir lesa líka amerísku gulu pressuna – sögu um verktaka í Chicago sem fann eiginkonu sína í faðmi annars manns. Sá birtist á síðustu stundu en samt of seint og er vopnaður en ekki kemur fram hvort hann hafi skotið þau.
Ástarþríhyrningar og afleiðingar þeirra, altso.
Enn fjölgar á barnum þegar John Wyse Nolan og Lenehan mæta á svæðið. Þeir eru að fara að drekkja sorgum sínum eftir að hafa tapað á veðreiðunum – sigurvegarinn var Throwaway, sem enginn reiknaði með og var á stuðlinum 20 á móti 1. Vegna misskilnings milli Bantam Lyons og Blooms í Lótusætukaflanum heldur fólk að Bloom hafi haft einhverjar innherjaupplýsingar og vitað að Throwaway myndi vinna. En þeir veðjuðu á aðra líklegri hesta.
Og enn eykst heift borgarans sem er nú farinn að beina tali sínu að Bloom. Borgarinn minnir mjög mikið á fólkið sem þessa dagana safnast saman á Austurvelli – sömu rökin, sama bjargarleysið gagnvart heimi sem breytist, sami óttinn við ókunnuga, sami hiklausi hrokinn, sama hispurslausa tjáningin, hranaskapurinn, sjálfumgleðin. Sumir hinna fara nú að taka aðeins undir og John Wyse spyr Bloom hvort hann geti skilgreint „þjóð“ og Bloom segir að það sé „þegar sama fólk býr á sama stað“. Ned segir að þá hljóti hann að vera þjóð því hann hafi ekki flutt í fimm ár. „Eða þegar það b´ýr á ýmsum stöðum“ segir þá Bloom og Hynes kannast við að það eigi við um sig (af því hann flytur oft, reikna ég með). Borgarinn spyr hverrar þjóðar Bloom sé og hann segist írskur – borgarinn ræskir sig og hrækir út í horn. Þá segir Bloom að hann tilheyri líka kynþætti „sem er hataður og ofsóttur. Líka núna. Á þessu andartaki. Í þessari sömu andrá.“ Og heldur þannig áfram í smá stund – lyftir meira að segja knýttum hnefa.
Borgarinn spyr hvort hann sé að tala um nýju Jerúsalem og Bloom segist vera að tala um réttlætið. Borgarinn spyr hvers vegna þeir láti ekki hart mæta hörðu og Bloom segir eiginlega að ekkert skipti máli nema ástin – hart sé andstæða lífsins og það viti það allir. Síðan segist hann þurfa að skjótast út á horn til að líta eftir Martin Cunningham og lætur sig hverfa.
Hinir ræða ástina – og borgarinn segist litla trú hafa á ást Blooms. Svo kemur hálfgerð barnasöguparódía um alla sem elska einhvern.
Þeir ræða heimsókn Zuluhöfðingja til Englands og borgarinn les um það uppúr einhverju blaði. Þeir ræða höfund greinarinnar og svo segir Lenehan að þetta með að Bloom hafi farið að finna Cunningham sé fyrirsláttur – hann hafi farið að sækja peningana sem hann vann á veðreiðunum, hann hafi veðjað á „dark horse“ og Joe segir að hann sé sjálfur „dark horse“ (þetta þýðir SAM sem „utangarðshross“ annars vegar og „utangarðsbesefi“ hins vegar – sem er misskilningur, hrossið dökka er bara sá sem kemur á óvart, sigrar óvænt).
Nú fer nafnleysinginn út að pissa – sem er undarleg sena í ljósi þess að hann er að segja söguna, af því það kemur heilmikil lýsing á þessu, sem blandast hugsunum hans, svo úr verður annars konar vitundarflæði en við höfum séð hingað til.
Goodbye Ireland I’m going to Gort. So I just went round the back of the yard to pumpship and begob (hundred shillings to five) while I was letting off my (Throwawaytwenty to) letting off my load gob says I to myself I knew he was uneasy in his (two pints off of Joe and one in Slattery’s off) in his mind to get off the mark to (hundred shillings is five quid) and when they were in the (dark horse) pisser Burke was telling me card party and letting on the child was sick (gob, must have done about a gallon) flabbyarse of a wife speaking down the tube she’s better or she’s (ow!) all a plan so he could vamoose with the pool if he won or (Jesus, full up I was) trading without a licence (ow!) Ireland my nation says he (hoik! phthook!) never be up to those bloody (there’s the last of it) Jerusalem (ah!) cuckoos.
Og það er auðvitað svolítið skrítið að fá vitundarflæði inn í miðja fyrstupersónufrásögn. En þetta er svo sem engin venjuleg bók heldur.
Næst birtist Martin Cunningham og spyr eftir Bloom. Lenehan segir að hann sé að svíkja fé út úr ekkjum og munaðarleysingjum (sem er raunar þveröfugt við erindi hans í þessum kafla). Og svo kemur þessi yndislegi aulabrandari:
—Who made those allegations? says Alf. —I, says Joe. I’m the alligator.
Svo þrátta þeir um hvort gyðingar geti elskað land sitt og blaðra eitt og annað um Bloom – t.d. hvort hann sé skyldur tannlækninum Bloom. Borgarinn segir kaldhæðinn að hann sé nýi messías Íra. „Well, they’re still waiting for their redeemer“ segir Martin. „For that matter so are we.“ Bæði Írar og Gyðingar bíða frelsara.
Borgarinn verður enn reiðari – þetta sé nú varla maður, úlfur í sauðagæru, maður sem hafi skipt um nafn (Bloom er af ungverskum ættum, pabbi hans var fæddur Virag en breytti því í Bloom). Joe Hynes spyr hvort hann hafi nokkurn tíma gert dodo („I wonder did he ever put it out of sight“) , Jack Power nefnir börnin tvö en borgarinn spyr bara „hvern hann gruni“ (um að hafa getið þau). Nafnleysinginn gengur lengst í hugsunum sínum og veltir því upp hvort það væri ekki réttlætanlegt hreinlega að drepa hann. Og skammast enn eina ferðina yfir því að Bloom kaupi enga drykki. Martin minnir menn á að elska náungann.
Nú kemur langur millikafli sem er einhvers konar ganga til messu – megnið af textanum er upptalning á þeim sem eru þarna, sem eru mest alls kyns spámenn og dýrlingar.
Þegar millikaflanum lýkur birtist Bloom á ný. Borgarinn hvæsir og hundurinn hans urrar og Martin byrjar að draga Bloom út. Það kemur millikafli um bát sem er að sigla burt en er umkringdur alls kyns syndandi þokkadísum sem grípa í síður bátsins. Borgarinn rís á fætur og „kallar bölvun Cromwells“ yfir Bloom, sem segir honum að láta sig í friði, en borgarinn öskrar í kaldhæðni: „Þrefalt húrra fyrir ´Ísrael!“ Nú finnst nafnleysingjanum eiginlega nóg komið „there’s always some bloody clown or other kicking up a bloody murder about bloody nothing“.
Einhver bendir borgaranum á að hann sé með opna búð. Bloom segir að Mendelsohn og Marx og Mercadante og Spinoza hafi verið gyðingar – og að sjálfur Guð kristna mannsins, Jesús, hafi verið gyðingur. Nú sturlast borgarinn og fer og nær í kökudós. Joe æpir á hann að hætta. Það kemur millikafli um stóran og þakklátan hóp vina sem séu samankomnir til að kveðja „Nagyaságos uram Lipóti Virag“ (Bloom). Borgarinn fleygir dósinni. Það kemur annar millikafli sem lýsir afleiðingunum einsog miklum jarðskjálfta „there is no record extant of similar seismic disturbance in our island since the earthquake of 1534, the year of the rebellion of Silken Thomas.“
Borgarinn sigar hundinum á eftir honum – en Cunningham og Bloom komast upp í vagn og hverfa fyrir horn með hundinn á hælunum. Kaflanum lýkur svo á lýsingu sem er svo í þýðingu SAM:
Og sjá, yfir þá alla kom mikil birta og þeir sáu vagninn sem Hann stóð í fara til himins. Og þeir sáu Hann í vagninum, sveipaðan dýrð birtunnar, búinn klæðnaði sem af sólarljósi væri, fagran einsog mánann og svo óttalegan á að líta að þeir áræddu ekki að leiða Hann augum. Og af himnum hljómaði raust og kallaði: Elía! Elía! Og hann upphóf rödd sína í máttugu hrópi: Abba! Adonai! og þeir sáu Hann sjálfan. Hann, Ben Bloom Elía, stíga í skýþykkni engla uppí dýrð birtunnar í fjörtíuogfimm gráðu vinkil yfir krá Donohoes í Litla Grænastræti sem væri honum varpað af skóflu.
* * *
Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar.
Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.
En um hvað er Páfagaukagarðurinn eftir Akörn (Braga Pál / Steinar Braga / Guðna Elísson / Hauk Ingvarsson / Hermann Stefánsson / Kviksögukrakkana / Jón Örn Loðmfjörð / Skólastjóra Grunnskóla Reyðarfjarðar / Mengellu / Jóhannes frá Kötlum)?
Bókin hefst einsog allar glæpasögur á morði. Fíll treður niður auðkýfing að fjórum vitnum ásjáandi. Næst hittum við hóp ofbeldismanna sem vinna fyrir albönsku mafíuna á Blönduósi – þar eru meðal annars parið Jenna og Róbert. Jenna er dóttir manns sem heitir Baba O’Riley (eftir laginu) – sá rekur fyrirtæki sem tekur að sér að myrða fólk. Þetta er dýr þjónusta og fyrirtækið myrðir auk þess bara þá sem eiga það raunverulega skilið, þá sem eru heiminum til óþurftar og hvers dauði bætir heiminn. Venjuleg illmenni – nauðgarar og ofbeldismenn – koma til greina en eru vandræðakeis af ýmsum orsökum. Stórkostleg illmenni í stjórnmálum koma til greina en hætt er að þau verði að píslarvottum og því hætta verkkaupendur yfirleitt við. Algengustu fórnarlömbin eru alls kyns kaupsýslumenn sem stuðla að hlýnun jarðar – olíubarónar og þess lags fólk. Fyrir Baba vinnur maður að nafni Bogi – siðfræðingur sem sér um að kanna hvort tilvist fórnarlambanna sé veröldinni til nægs ama að þeim megi stúta.
Jennu og Róbert er rænt (frá albönsku mafíunni, eiginlega) af Baba – sem er faðir Jennu. Bogi er faðir Róberts. Baba vill að þau komi að vinna fyrir fjölskyldufyrirtækið.
En málið rannsaka lögreglumaður að nafni Ægir og Bergþóra aðstoðarkona hans. Ægir er með skemmtilegri sögupersónum sem ég man eftir í dálítinn tíma. Hann er þeim ósköpum búinn að vera svo ólíkur á innra og ytra byrði. Að innan er hann mjúkur og tillitssamur en alltaf þegar hann opnar munninn kemur það út einsog tómur fantaskapur og alfa-karlmennska. Þetta er dásamleg togstreita.
Meiru spilli ég ekki – af þessari bók sem mér skilst að enginn nema við í bókmenntaelítunni fái að lesa.
Bókin er krimmi en hún er líka – og sennilega meira – farsi. Þótt undir liggi auðvitað tortíming veraldarinnar allar og þessi grundvallarspurning – sem kemur alltaf upp í bókmenntum af og til, var til dæmis í fókus í Kötu – að hversu miklu leyti það sé réttlætanlegt að nota ofbeldi til þess að leysa heimsins vandamál.
Mín afstaða í því efni er fengin að láni hjá Leopold Bloom í Ulysses sem sagði, aðspurður um það hvort Gyðingar ættu ekki að mæta hörðu með hörðu:
But it’s no use [..]. Force, hatred, history, all that. That’s not life for men and women, insult and hatred. And everybody knows that it’s the very opposite of that that is really life.
Hvað varðar höfundinn þá þekkti ég handbragðið einfaldlega. Ég las bókina tvisvar og í fyrra skiptið hugsaði ég mikið um það hver það væri – ég held að annað sé varla hægt en það þvælist fyrir. Í seinna skiptið, þegar ég taldi mig hafa leyst gátuna, var það minna atriði. Þetta er virkilega góð bók – létt og frjáls og stingandi og sprenghlægileg – og auðvitað á það að vera í forgrunni.
Ég ætla ekki að koma upp um neinn.
***
Annars hringdi útvarpið í mig áðan til að ræða þessa bók. Það verður einhver rannsókn í Bara bókum á morgun þar sem ég og fleiri skoða þetta mál.
***
Ég hef verið að reyna að rifja upp svona mál. Hvað maður kallar það. Bókmenntahrekki. Bókmenntagöbb.
Síðasta ljóðabók Sjóns eftir Celidonius – þá gáfu Lommi og Arngrímur Vídalín sig fram.
Lausnin eftir Evu Magnúsdóttur – þar var stóri skandallinn að „Eva“ fór í blaðaviðtal og þóttist vera til. Druslubækur og doðrantar feðruðu þá bók og eignuðu Steinari Braga.
Ljósgildran var auglýst vikum saman án þess að höfundarnafnið kæmi fram – stóð bara eitthvað um að hún myndi skekja íslenskan bókmenntaheim. Það var Guðni Elísson og kom í ljós áður en bókin kom út – en það var samt augljóslega tilgangurinn að fólk myndi byrja að giska.
Ég man aldrei hvað hann hét ljóðskáldið sem tveir blaðamenn Mannlífs bjuggu til – það var dæmi einsog Ernst Malley, tveir menn ortu ljóðabók á kvöldstund og fóru svo og báðust álits á henni. Höfundar Ernst Malley gáfu reyndar bókina út en blaðamenn Mannlífs fóru bara og spurðu eldri höfunda – eða sendu ungan mann með handritið. Þeir sögðu þetta allir efnilegt og voru „afhjúpaðir“ í blaðinu.
Stella Blómkvist er höfundanafn sem enginn hefur afhjúpað þrátt fyrir ótal bækur.
Jóhannes úr Kötlum gaf út bækur undir nafninu Anonymus.
Fyrir rúmum áratug birtist bók á Borgarbókasafninu sem heitir Riddarinn sem var ekki eftir Italo Calvino. Sem sagt ekki Riddarinn sem var ekki til eftir Italo Calvino heldur Riddarinn sem var ekki eftir Italo Calvino eftir einhvern annan. Ég á líka eintak af þeirri bók (ég hef verið í bókmenntaelítunni lengi) og hún er frábær en mér vitanlega hefur hulunni aldrei verið flett af þeim höfundi.
Ég man ekki fleiri dæmi svona í fljótheitum en það má endilega rifja þau upp fyrir mér sem ég hef gleymt.
Ég fékk senda bók í síðustu viku. Hún heitir Páfagaukagarðurinn og er eftir höfund sem kallar sig „Akörn“. Hún virðist hafa verið send eitthvað aðeins hingað og þangað og svo sá ég á Facebook að bókabúðin Skálda hefur fengið eitt eintak sem á að selja á 30 þúsund krónur – hún birtist bara þar og þetta var sett sem skilyrði. Ágóðinn fer til búðarinnar. Ég er búinn að lesa þessa bók – hún er ekki nema 100 síður – og hún er mikið afbragð. Svolítið einsog ef Cesar Aira myndi vinna með Yrsu að James Bond mynd. Eða ef Yrsa myndi skrifa handrit að James Bond mynd sem Cesar Aira væri látinn skrifa upp eftir minni. Eða jafnvel án þess að hafa séð myndina. Honum væri bara gert að ímynda sér þetta: Hvernig myndi James Bond mynd vera ef Yrsa skrifaði hana. Með cli-fi þema.
Mitt eintak er ekki til sölu.
***
Skólastjóri fyrir austan notaði gervigreindina til að skrifa fyrir sig útskriftarræðuna. Gervigreindin fann fyrir hana ljóð – greip sennilega það sem hendi var næst, sem var nafn digitalskáldsins Jóns Arnar Loðmfjarðar og einhver random lína um að vera næs. Þetta minnti mig á þegar forsetinn vitnaði í lokalínur Sumardagsins eftir Mary Oliver og sneri eiginlega merkingu þeirra á hvolf – sem fólk gerir reyndar, þessar línur eru í tilvitnanabókum – „Segðu mér, hvað ætlar þú að gera / við þitt eina, villta og verðmæta líf“ – og fólk tekur þeim sem „hvatningu“ þótt þær séu það augljóslega ekki í samhenginu. Í stað þess að fara í tilvitnanabækurnar fer fólk núna bara til gervigreindarinnar. Ég veit ekki hvort það er neitt verra. En mér finnst mjög fyndið að skólastjóri viðhafi vinnubrögð sem myndu kosta nemendur fall (sem er ekki að „nota“ gervigreindina – heldur að treysta henni blint og láta hana gabba sig).
Annars verður þetta vonandi til þess að fólk lesi ljóðin hans Lomma.
***
Það er Náttúrulögmálavika. Í dag er 11. júní, síðasti dagur Náttúrulögmálanna – dagur 7. Það er lengsti dagurinn í bókinni – honum er meira að segja skipt í tvennt. Í ár eru liðin akkúrat 100 ár frá sumrinu 1925. Af því tilefni fór ég upp á Gleiðarhjalla í gær. Sennilega í fjórða skiptið á ævinni – í eitt skiptið fór ég reyndar ekki alveg alla leið upp, lenti í ógöngum í ís og skrönglaðist aftur niður. Það er líka í eina skiptið sem ég hef ekki farið einn. Þá var ég í menntaskóla. Í næsta skipti þar á eftir fór ég á strigaskónum beint eftir vinnu í grunnskólanum – það var líka í snjó en í það skiptið komst ég upp og settist niður í klakann og skrifaði bréf. Og gekk svo aftur niður. Næst var líklega 2013, að sumri til, loksins. Ég ætlaði að fara meðan ég var að skrifa Náttúrulögmálin en fyrst sleit ég í mér krossband og svo eyddi ég heilu sumri með slæman hælspora og svo var bókin bara komin út.
Ég hef alltaf lent í ógöngum á leiðinni þarna upp, ef mig misminnir ekki. Í gær var ég kominn hálfa leiðina upp bratt moldarbarð/grjóturð þegar ég uppgötvaði að ég var hvorki með fótstöðu né grip neinsstaðar. Ég ofandaði svolítið þegar ég áttaði mig á því að ef ég færi að renna af stað myndi ég sennilega ekki stoppa neitt strax – og minnti mig svo á að það vitlausasta sem ég gæti gert væri að panikka. Stikaði síðan varlega niður aftur og fór upp í stórgrýtinu – sem er langskynsamlegast. Ég hafði dálitlar áhyggjur af niðurleiðinni en rataði miklu betri leið þá. Svo sér maður líka betur til þegar maður fer niður. Einhvern veginn er maður alltaf hálfblindur að klöngrast upp svona brattar brekkur. Í eitt skiptið fór ég upp vitlausa urð sem leiðir að ókleifu bjargi.
En þetta var gaman og fólk sem fer oftar en ég ratar léttari leiðir. Ég las aðeins úr bókinni og setti á samfélagsmiðla en aðaltilgangurinn var að taka upp smá kynningarmyndband fyrir sænska bókasafnsverði. Útgefandinn bað mig um þetta. Hann er mikill vinur minn og ég geri allt sem hann biður mig um.
***
Ég hef lítið lesið í vikunni. Annað en Páfagaukagarðinn. Nadja fór til Frakklands í síðustu viku og ég hef verið að vesenast alls konar. Í dag bar ég á pallinn og garðhúsgögnin. Á helginni reif ég upp ógurlegt hlass af kerfli, felldi eitt tré og hjó þriðjung af greinum annars. Garðurinn er allur annar á eftir. Svo hef ég verið að reyna að vinna en það er svolítið erfitt. Ég fer í sumarfrí í næstu viku og ég veit ég næ ekki að klára það sem ég er að reyna að gera og einhvern veginn verður það alveg til að stoppa mig af. Ég sest samt niður og reyni.
Eitthvað hef ég þó verið að líta í Kýklópinn – sem er næsti kafli Ulysses. Og horfa á bíómyndir. Fór á nýju Wes Anderson myndina í fyrrakvöld – The Phoenician Scheme – einsog með síðustu, Asteroid City, þá hefur henni víst ekkert verið alltof vel tekið en báðar þóttu mér afbragð. Ekki veit ég hvað það er sem fólk er ekki að sjá. En eitthvað er það. Kannski finnst fólki bara að það þurfi að skilja alla hluti – það finnst mér ekki. Mér getur alveg þótt gaman að lesa aftur og horfa aftur og skilja meira. En það truflar mig ekki neitt þótt eitthvað sé bara óskiljanlegt. Þannig er það líka í lífinu. Það er mjög margt sem ég skil ekki.
Í gærkvöldi horfði ég á American Beauty og spurði sjálfan mig hvort Kevin Spacey hefði verið svona góður í öllu sem hann gerði. Eða hvort mér þætti hann bara svona svakalegur af því það er auka-spenna í kringum hann út af skandölum einkalífsins. Einsog eitthvað undarlegt krydd. Hann er allavega alveg rosalegur í þessari mynd. Maður hefur í senn enga og alla samúð með honum – allt í botni og allt á botninum, dásamlegi aumingi, frjálsi sjálfhverfusjúklingur, hvataþræll úr böndum, skemmtilegasti og leiðinlegasti maðurinn í öllum samkvæmum.
Og svo af því ég var ekki kominn með nóg af miðaldra körlum sem þrá menntaskólastelpur sem þrá þá á móti horfði ég 25th hour. Þar er sá þráður reyndar ekki í fókus – Anna Paquin að reyna við ó-til-misviljugan Philip Seymour Hoffmann bara hliðarspor í sögunni um eiturlyfjasalann sem er á leiðinni í fangelsi. Það eru til margar kvikmyndir sem fjalla um eiturlyfjasala sem enda á því að eiturlyfjasalinn næst. Og það er til hellingur af myndum sem gerast í fangelsi. En það eru fáar sem gerast í bilinu þarna á milli – frá því hann næst og er dæmdur og þar til hann fer inn. Þetta er svona kveðjumynd – maður að yfirgefa líf sitt. Og kannski er hliðarsporið með Önnu og PSH önnur leið til þess að sýna okkur hversu lítið skilur að feigan og ófeigan – ef hann lætur freistast gæti hann glatað öllu einsog vinur hans. Þriðji vinurinn er svo hlutabréfasali sem manni finnst eiginlega alveg jafn mikið eyðileggingarafl – en hann er líka sá sem dæmir eiturlyfjasalann harðast. Þar er líka áhugaverð speglun.
***
Ég fór á frábæra djasstónleika í Hömrum á sunnudag. Bassaleikarinn Sigmar Þór Matthíasson fór þar fyrir sveit sem innihélt Inga Bjarna Skúlason á píanó, Hauk Gröndal á klarinett, Magnús Tryggvason Eliasen á trommur og Ásgeir Ásgeirsson á oud. Ég keypti plötu og sá eftir því einu að hafa ekki keypt tvær en ég var búinn að bjóða tveimur með mér og þetta var að verða svolítið dýrt.
***
Enn eitt árið missti ég af Skjaldborg. Sennilega hefði ég farið a.m.k. einn dag ef Nadja hefði farið fyrir helgi – en hún fór á laugardag og hefði ekki komist með mér og það hefði verið glatað að fara frá henni. Hvernig ætli fari annars fyrir Blús milli fjalls og fjöru – það er hátíð sem ég hef heldur aldrei komist á. Maðurinn á bakvið hana hét Palli – Spursari sem ég fór í nokkrar fótboltaferðir með, á meðan við pabbi vorum enn að láta sjá okkur í London af og til – og hann varð bráðkvaddur um daginn.
***
Orri Harðar er líka látinn. Orri var mikill öðlingur einsog ég held að allir sem hann þekktu geti borið vitni um. Og hafi gert, bæði síðustu daga og þennan tíma sem hann hefur verið veikur. Ég þekkti Orra mest úr fjarlægð. Hann bað mig að lesa yfir fyrir sig bækur – fyrst Alkasamfélagið og svo skáldsögurnar tvær, Stundarfró og Endurfundi. Mér fannst hann alltaðþví roskinn þá – eldri maður að söðla um. Hann var 36 ára þegar Alkasamfélagið kom út, ekki nema 6 árum eldri en ég.
Svo hitti ég hann stundum á förnum vegi. Fyrst fullan og svo edrú og svo aftur fullan og loks bara edrú í mörg ár. Þegar ég gaf út lag í tengslum við Frankensleiki fékk ég hann til að mastera það fyrir mig – sem hann gerði án þess að rukka krónu fyrir, vel að merkja, bara vessgú góði vin, takk fyrir og gúdd lökk.
***
Í sömu viku fóru Sly Stone og Brian Wilson. Þeir voru svo sem komnir á tíma – þrjátíu árum eldri en Orri. En það má minnast þeirra fyrir því.
Af og til er Nadja* sérstaklega ánægð með matinn og þá reyni ég að nótera hjá mér hvað ég hafi gert. Stundum er það jafn einfalt og að vista einhvern hlekk á uppskrift en ef ég var að kokka upp úr sjálfum mér er allt eins víst að ég gleymi hvað ég gerði. Pastað í kvöld var sérstaklega gott og þess vegna verður uppskriftinni haldið hér til haga – til viðmiðunar í framtíðinni.
250 grömm ferskt tagliatelle 2 stórir hvítlauksgeirar 1-2 msk ólífuolía 1-2 msk smjör 8 íslenskir „tropical“ tómatar (sirka kirsuberjatómatar) Hálf geitaostalengja (svona með húð er betri) Sirka hálfur desilítri af hvítvíni Lítil lúkufylli af ferskri basiliku Tvö stór egg Salt og pipar (vel af pipar)
Ég byrjaði á að sneiða hvítlaukinn og steikja í góðri ólífuolíu á lágum hita.
Pipraði vel og saltaði.
Þegar þetta var farið að ilma skar ég tómatana í fernt og setti þá út í – hækkaði hitann smá en gætti þess að brenna ekki hvítlaukinn.
Eftir smástund setti ég smjörið út í og leyfði þessu að malla þar til það var orðið svolítið sósað.
Þá brytjaði ég geitaostinn niður og bætti honum við – lækkaði hitann aftur.
Eftir 2-3 mínútur setti ég hvítvínið út í og hækkaði hitann í augnablik en lækkaði svo aftur.
Hrærði eggin í skál.
Sauð pastað í vel söltu vatni og geymdi líklega hátt í tvo desilítra af vatninu.
Hellti restinni af vatninu af og setti pastað aftur í heitan pottinn.
Bætti eggjunum út í og hrærði vel svo eggið myndi eldast án þess að steikjast og húða pastað.
Setti svo gumsið af pönnunni út í pottinn og saxaða basilikuna þar á eftir.
Vatnið notaði ég til að þynna sósuna. Ég hélt ég myndi í mesta lagi nota 1 dl en ég endaði á að nota það allt. Hún var ekki þurr en næst geymi ég meira.
Með þessu bar ég fram hvítlauksbrauð og aspas sem var jafn lengi í ofninum – kannski 10-15 mínútur. Aspasinn með ólífuolíu, pipar, sítrónu og parmesan.
* Börnin voru sem sagt ekki heima. Annars hefðu þau fengið að borða líka.
Ellefti kafli Ulysses er kenndur við sírenurnar. Söguþráðurinn hjá Hómer er sirka þannig að gyðjan Kirka, sem ráðleggur Ódysseifi á ferðum sínum, biður hann að gæta sín þegar hann siglir hjá eyjunni þar sem sírenurnar búa. Viðvörun þessi hljómar svo í fornyrðislagsþýðingu Sveinbjarnar (sem verður stundum að fá að vera með):
Fyrst muntu, frægr fylkir, koma sætrómaðra Sírena til. Unaðsfullum þær ómi seiða fíra hvern, er þeirra fund sækir.
Ef einhverr óvörum at þeim kemr, ok róm Sírena sætan heyrir, honum heim komnum hvorki munu börn né beðja á bæ fagna.
Því Sírenur sitja í grasi og seggi seiða saungva hreimi; ok há hrúga hjá þeim liggr skinna skorpinna, beina skinnina, seggja, er seiddir saungvi snjöllum á foldu þar fúnat hafa.
Kirka mælist til þess að Ódysseifur bræði hunang og hafi í eyrum sér meðan hann siglir hjá eyjunni. Ódysseifur er hins vegar forvitinn og lífsþyrstur maður og vill heyra þennan fagra söng svo hann bregður á það ráð að bræða hunang í eyru manna sinna og láta þá sjá um siglinguna – og binda sig við siglutréð svo hann geti ekki skipt sér af.
Hjá Joyce erum við nýsloppinn frá Skellibjörgum, sem fólust í siglingu um Dyflinni alla, stukkum milli hausa hinna ólíku persóna og fylgdum einhverjum þeirra á ferðalagi um borgina – ekki síst landstjórunum sem fara um borgina í hestvagni og sjá allar persónurnar aftur á leið sinni. Nú gerist dálítið óvenjulegt í bókinni: Næsti kafli hefst þar sem þeim síðasta lauk og á sama stað. Það er ekkert hopp í tíma eða rúmi. Í lokabroti Skellibjarga sáum við fröken Douce og fröken Kennedy (sem ég kallaði áreiðanlega báðar „frú“ í yfirferð síðasta kafla og mun sjálfsagt laga) sem stóðu úti í glugga á Ormondhótelinu og fylgdust með fylkingunni aka hjá.
Fröken Lydia Douce er líka stundum kölluð „brons“ og fröken Mina Kennedy er líka stundum kölluð „gull“ – þetta er áreiðanlega líka vísun í hárlit þeirra en fröken Kennedy er þess utan nýkomin úr sumarfrí í strandbæ 100 km norður af Dyflinni og verður tíðrætt um að hún sé svolítið sólbrennd.
Þær stöllur eru augljós sírenulíking – aðlaðandi konur sem knæpugestir heillast af og daðra við – en í forgrunni er samt hljómur og tónlist. Bæði er prósinn dýrt ortur og fullur af hljóðleik og svo er einhver óhemja af vísunum í alls kyns óperur og sönglög – auk þess sem leikið er á píanó og sungið. Þá er líka aðeins étið (Bloom er aftur kominn í innyflin) og drukkið – enda er Ormondhótelið knæpa og fyrir flestar persónur bókarinnar er 16. júní mikill fylleríisdagur og sennilega verður talsvert drukkið í flestum þeim köflum sem eftir eru af bókinni. Líklega er það samt hér sem menn verða fyrst fullir fyrir alvöru og einsog það tengist er það líka hér sem prósi Joyce verður tilraunakenndur fyrir alvöru. Altso, sírenurnar eru ekki eitthvað eitt, þær eru næstum allt.
Ormondhótelið er sem sagt bæði bar og veitingastaður og rýmið tví- ef ekki þrískipt – það eru víst engar heimildir um innanstokksmuni á þessum tíma aðrar en Ulysses, vegna þess hve tíðar og miklar endurbætur fóru fram á þessum tíma (og mætti hér því augljóslega láta reyna á kenningu Joyce um að Dyflinni mætti endurbyggja upp af síðum bókarinnar – hótelið er reyndar í einhvers konar endurbyggingu líka í dag, það er búið að rífa mikið af því en lítið endurbyggja og gengur víst ekkert ægilega vel).
Bróðurpart kaflans situr Bloom í einum hluta staðarins og heyrir mest það sem gerist í hinum hlutanum – en sér líka eitthvað af því í gegnum dyr sem skilja rýmin að. Það er líka píanó sem er kannski í þriðja rýminu og kannski á barnum. Svona teiknar YouTubarinn Adam Savage upp rýmið í yfirferð sinni yfir kaflann (B og G eru Bloom og Goulding).
Kaflinn hefst á tveimur fullkomlega óskiljanlegum síðum.
Bronze by gold heard the hoofirons, steelyringing. Imperthnthn thnthnthn. Chips, picking chips off rocky thumbnail, chips. Horrid! And gold flushed more. A husky fifenote blew. Blew. Blue bloom is on the. Goldpinnacled hair. A jumping rose on satiny breast of satin, rose of Castile. Trilling, trilling: Idolores. Peep! Who’s in the… peepofgold?
O.s.frv. Hvert einasta brot reynist síðan tekið úr öðrum stað annars staðar í kaflanum – um daginn heyrði ég mjög skemmtilega ræðu frá ljóðskáldinu Heiðrúnu Ólafsdóttur, sem var að kynna Kvennakór Ísafjarðar til leiks með þessari aðferð, og hrærði svona saman línum úr hinum ólíku lögum kórsins. Þessu hefur verið líkt við forspil að óperu þar sem stefin hljóma mörg í fyrsta sinn eða hreinlega við fyrstu augnablik sinfoníutónleika á meðan sveitin er enn að stilla – eða renna í gegnum einhverjar trillur og erfið stef – og áhorfendur sitja í miðri kakófóníunni (sem hefur ekkert með kakóseremónóníur að gera) og bíða þess að sjálft verkið hefjist. Þessum skrítna kafla lýkur síðan á orðinu: „Begin!“ – sem maður gæti þá ímyndað sér að sé hljómsveitarstjórinn að lyfta sprotanum. Og hefst þá havaríið.
Bronze by gold, miss Douce’s head by miss Kennedy’s head, over the crossblind of the Ormond bar heard the viceregal hoofs go by, ringing steel.
Hér fáum við sem sagt strax enduróm af upphafsorðum kaflans. Brons og Gull horfa út um gluggann og einhver maður með pípuhatt horfir á þær til baka. Þær fíflast. „Aren’t men frightful idiots?“ – snúa upp á hárið á sér, hér er dæmi um músíkina í málinu:
Miss Kennedy sauntered sadly from bright light, twining a loose hair behind an ear. Sauntering sadly, gold no more, she twisted twined a hair. Sadly she twined in sauntering gold hair behind a curving ear.
Þetta er nú eiginlega meiri djass en klassík – spunnin tilbrigði við stef – og var djassinn samt varla til þegar þetta var skrifað. Fröken Kennedy (Gull) bætir við: „It’s them has the fine times.“
Við sjáum Bloom ganga hjá með Sweets of Sin í brjóstvasanum. Vikapiltur kemur með te fyrir dömurnar og spyr hvort þær séu að gægjast út um gluggann eftir kærastanum sínum. Þær skammast í honum:
A haughty bronze replied: —I’ll complain to Mrs de Massey on you if I hear any more of your impertinent insolence. —Imperthnthn thnthnthn, bootssnout sniffed rudely, as he retreated as she threatened as he had come.
Og þá vitum við hvað hin óskiljanlega önnur lína kaflans þýðir. Hún er vikapilturinn að herma eftir Brons („Óskammmmmm ffff“ er þetta í þýðingu SAM – fyrir „óskammfeilna frekju“).
Þær skammast meira yfir körlum og ræða sólbruna og sumarfrí og svo er Bloom skotið aftur inn þar sem hann gægist í búðarglugga (sem eru auðvitað sírenur) og rifjar upp tilraun sína til þess að sjá upp um stytturnar á Þjóðarsafninu, hvort þær væru anatómískt rétt samansettar, og nú vitum við að hann varð einskis vísari („I could not see“). En hann sá Buck Mulligan líka – sem sagðist hafa séð Bloom gægjast á stytturnar – og veit að hann er vinur sonar Dedalusar.
Brons og Gull halda áfram að f´íflast og ræða hversu hræðilegt það væri að vera giftar einhverjum lyfsala sem seldi Brons sólkrem. Simon Dedalus kemur inn og spyr hvort ekki hafi verið gaman í strandbænum – hann er augljóslega fastakúnni – Brons segist hafa legið á ströndinni allan daginn og Simon svarar: „That was exceedingly naughty of you […] Tempting poor simple males.“ Brons segir honum að hætta þessari vitleysu og hann pantar sér viskí og vatn og spyr hvort George Lidwell hafi komið við – og hann mun hafa verið þarna í hádeginu.
Þá kemur Lenehan og spyr hvort Boylan hafi komið að leita sín (einsog hljóðfæraleikari að endurtaka stef). Í síðasta kafla hringdi Boylan í ritarann sinn sem sagði Lenehan hafa komið við og að hann yrði á Ormondhótelinu klukkan 16. En það er einmitt klukkan 16 – núna – sem Boyle á að mæta á ástarfund með Molly, eiginkonu Bloom. Og hann hefur ekki komið á Ormondhótelið, segja Brons og Gull.
Fröken Kennedy les mikið í kaflanum og hunsar Lenehan sem er að stríða henni („reyna við hana“).
Lenehan heilsar Simon: „Greetings from the famous son of a famous father.“ Simon spyr hver það sé og Lenehan útskýrir að það sé auðvitað Stephen og þeir hafi verið saman á kránni fyrr um daginn (með hópnum sem fór af skrifstofum The Freeman’s Journal). Nema hann drakk ekki bara bjór – þetta er Joyce og þetta eru sírenurnar svo hann „quaffed a nectarbowl“.
Simon tekur eftir því að búið er að flytja píanóið og Brons svarar að píanóstillingamaðurinn hafi komið í dag – og okkur skilst smám saman í þessum kafla að það er blindi maðurinn sem Bloom hjálpaði yfir götu og Boylan gekk næstum um koll. Þær eru sammála um það Brons og Gull að hann hafi verið stórkostlegur píanóleikari að auki, varla tvítugur að aldri.
Þjónninn Pat birtist – hann þvælist fram og aftur í kaflanum og afgreiðir fólk í sal – nær í bjór og fer aftur.
Við sjáum Bloom á ný. Hann er í ritfangaverslun og er að kaupa bréfsefni til þess að geta svarað sínum erótíska pennavini, Mörthu, á einmitt þeirri stundu sem Molly á að vera að hitta Boylan. Hann er mjög vandræðalegur í búðinni, kurteis og vinalegur – allt sem Boylan var ekki í blómabúðinni þar sem hann daðraði við afgreiðslukonuna.
Píanóstillingamaðurinn virðist hafa gleymt tónkvíslinni sinni, sem einhver slær tón á, og Simon Dedalus tekur að syngja ástarsöng og spila undir á nýstillt píanóið. Lenehan heldur áfram að reyna við Gull með engum árangri, hún klárar bókina. Og svo birtist Boylan. Lenehan heilsar honum: „See the conquering hero comes.“
Fyrir utan gengur Bloom – „the unconquered hero“ – og sér vagninn sem Boylan er nýstiginn út úr („jaunting car“ – tveggja sæta hestvagnataxi). Bloom veit að Boylan á að vera við það að skríða upp á konuna hans og veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið – að grípa elskhuga hennar við þetta óhugsandi athæfi, in flagrante delicto, að fara einn inn á bar. Hann rekst á Richie Goulding, frænda Dedalusar, sem er svangur einsog Bloom. Bloom ákveður að fylgja honum inn á Ormond hótelið, fá sér að borða og njósna um Boylan í leiðinni. Þeir fá sér sæti í matsalnum.
Gull brosir breitt til Boylans (eftir að hafa hunsað Lenehan) en Brons brosir enn breiðar og fær alla athyglina. Lenehan og Boylan ræða veðreiðarnar – úrslitin eiga að berast klukkan 16, það er allt að gerast núna. Bloom hlerar og skilur ekkert hvað Boylan er að gera. Þegar Gull hverfur í augnablik grátbiður Lenehan Brons um að gera trikkið sitt, með orðunum „sonnez la cloche“ – látið klukkuna glymja (og klukkan er einmitt að glymja 16). Brons lyftir pilsinu upp fyrir hné, dregur í sokkabandið og lætur það smella á lærinu. „La cloche“ æpir Lenehan – en Brons brosir til Boylans. „You’re the essence of vulgarity“ segir hún við Lenehan á meðan Boylan virðir hana lostafullur fyrir sér:
Boylan, eyed, eyed. Tossed to fat lips his chalice, drank off his chalice tiny, sucking the last fat violet syrupy drops. His spellbound eyes went after, after her gliding head as it went down the bar by mirrors, gilded arch for ginger ale, hock and claret glasses shimmering, a spiky shell, where it concerted, mirrored, bronze with sunnier bronze.
Og svo kveður Boyle – sigrast á einni sírenu til þess að fara að hitta aðra. Lenehan fylgir honum út og þar mæta þeir Ben Dollard og föður Cowley – Ben Dollard er nýbúinn að bjarga Cowley frá eignaupptöku, einsog við sáum í síðasta kafla, og þeir eru væntanlega komnir til að fagna.
Dollard sest við píanóið og þeir rifja upp þegar hann átti að koma fram á tónleikum og var buxnalaus og kom við hjá Molly Bloom – sem seldi notuð föt undir slagorðinu „Mrs. Marion Bloom has left off clothes of all descriptions“. Þar fékk hann alltof litlar og þröngar buxur (af Bloom?) sem „skildu lítið eftir fyrir ímyndunaraflið“ einsog sagt er í dag.
Bloom fær sér lifur og beikon, Goulding steik og nýru. Þeir borða þegjandi. Ben Dollard spilar og syngur. George Lidwell kemur inn og er sendur inn til vina sinna (sem gæti bent til þess að píanóið sé ekki við barinn – þótt það hljóti að vera í sjónmáli við barinn).
Af og til heyrum við orðið jingle – gling gló hjá SAM – sem er hljóðið í vagni Boylans sem nú nálgast Eccles stræti 7, heimili Bloom hjónanna.
Simon Dedalus er beðinn um að syngja M’appari úr óperunni Martha eftir Flotow – og Bloom gefur þjóninum Pat merki að hafa hurðina inn að barnum opna svo þeir geti heyrt. Bloom er snortinn af laginu og finnst Simon hafa fagran tón – að hann hefði getað grætt mikið á henni. Og einsog gerist svo gjarnan í þessum kafla verður textinn að hreinni tónlist:
Tenderness it welled: slow, swelling, full it throbbed. That’s the chat. Ha, give! Take! Throb, a throb, a pulsing proud erect. Words? Music? No: it’s what’s behind. Bloom looped, unlooped, noded, disnoded. Bloom. Flood of warm jimjam lickitup secretness flowed to flow in music out, in desire, dark to lick flow invading. Tipping her tepping her tapping her topping her. Tup. Pores to dilate dilating. Tup. The joy the feel the warm the. Tup. To pour o’er sluices pouring gushes. Flood, gush, flow, joygush, tupthrob. Now! Language of love.
Þetta er ölvandi.
Þarna rétt fyrir ofan gerist líka eitt áhugavert sem setur nördinn í manni alveg á hliðina. Í ljósprentuninni af orginal textanum frá Shakespeare & Company – sem er að finna í Cambridge Centenary útgáfunni, stærstu bókinni sem ég á – er bókstafur á hvolfi. Þetta er errata-útgáfa – með athugasemdum Joyce um allar breytingar sem átti að gera fyrir aðra prentun – og hann gerði enga athugasemd við þetta. Svo ég hlýt að gera ráð fyrir að þetta hafi a.m.k. verið viljandi látið vera, hvort sem „mistökin“ eru prentarans eða ekki (ég minni á skemmtilegu söguna af því þegar Beckett tók upp eftir honum „kom inn“ þegar hann var að diktera Finnegans Wake). Þetta er vel að merkja ekki svona í neinni annarri útgáfu sem ég á og ég hef ekkert fundið skrifað um þetta heldur.
Ein áhrifin af því að lesa Ulysses – og það hefur með orðsporið að gera, sannarlega, Rorschach heilkennið, en magnast eftir því sem maður áttar sig á því hvað Joyce hefur raunverulega smurt þessa brauðsneið mörgum lögum – er að maður fyllist bæði spurn og uppljómun af svonalöguðu, auk þess að verða mjög vandræðalegur og sjálfsmeðvitaður um að nú haldi kannski allir að maður sé orðinn geðveikur (af því stundum finnst manni kannski sjálfum svona kenningar annarra hljóma dálítið sturlaðar). En fyrirgefið mér þetta „iʇ“ er auðvitað svolítið einsog haus og það er svolítið einsog hann sé að snúast. Og minnir síðan á hið fræga myndljóð Steve’s McCaffery, William Tell: A Novel.
En aftur að óperunni. Bloom áttar sig á tilviljuninni að Lionel – persónan í óperunni – er að syngja um sína Mörthu akkúrat þegar Bloom er að fara að skrifa sinni Mörthu. Bloom hugsar um Mörthu og um Molly og fyrsta fund þeirra (það var heima hjá Mat [svo] Dillon [svo]; þau fóru í stólaleik). Lagið nær hápunkti sínum og nöfn Leopolds og söngvarans Simon renna saman: Siopold! Og allir klappa.
Leopold og Simon eru líka hvor á sinn hátt hinn týndi og ófundni faðir hins föðurlausa Stephens – þeir eru báðir vofa konungsins.
Á sama tíma nálgast Blazes Boylan enn frekar heimili Bloom hjónanna.
Allan þennan tíma er Richie Goulding að láta móðan mása um músíkina og fleira en Bloom virðist lítið hlusta á hann. Karlarnir halda áfram að spila og syngja en Bloom biður Pat um blað og penna og ákveður að byrja bréfið til Mörthu – Goulding er samt ekki farinn, svo Bloom þykist vera að semja auglýsingu. Í bréfinu daðrar hann og talar um refsingar og segist vera leiður og er búinn að innsigla bréfið þegar honum fer að finnast það of ljóðrænt að hafa sagst vera leiður. „Music did that. Music hath charm, Shakespeare said.“ Annars fær maður á tilfinninguna að hann sé ekki bara leiður þegar hann skrifar Mörthu heldur að honum beinlínis leiðist það – það veitir honum ekki þá fró eða ró sem hann hefur líklega verið að vona.
Þá hugsar hann sér til hreyfings – hugsar að hann ætli að hitta einhvern á annarri krá, Barney Kiernans (það reynist síðar vera Martin Cunningham, til að ræða fjársöfnunina fyrir ekkju Paddy Dignams).
Brons sýnir körlunum skel sem hún fann á ströndinni og þeir bera hana upp að eyrum sér til að hlusta á sjávarniðinn. Þetta sér Bloom, vel að merkja – svo eitthvað sér hann inn á barinn. Á sama tíma og karlarnir biðja Ben Dollard að syngja Croppy Boy segist Bloom þurfa að fara en staldrar svo aðeins við til þess að heyra lagið – þar er meðal annars sungið um mann sem hefur misst föður sína og bræður í stríði og er síðastur síns nafns og kyns. Bloom hugsar að hann sé það líka (Milly er stúlka og heldur ekki nafni föður síns; og Rudy er dáinn). Hér byrjum við að heyra „tap“ – sem er „bank“ hjá SAM – og vegna þess að Boylan er kominn að Eccles-stræti grunar mann að hann sé að banka á dyrnar hjá Molly, og kannski er það einhver þessara sífjölgandi banka, en að endingu reynist það þá líka vera hljóðið í blindrastaf píanóstillingarmannsins sem færist nær og er að koma til að sækja tónkvíslina sem hann gleymdi.
Bloom fer og áttar sig á að sápan sem hann er í vasanum er orðinn klístruð og ályktar að líklega hafi hann svitnað svona. Hann minnir sig á að fara og sækja kremið til lyfsalans (en gleymir því strax aftur). Úti á götu mætir hann píanóstillingarmanninum með bæði bréfið til Mörthu og Sweets of Sin fyrir Molly í vasanum.
Karlarnir, sem tóku eftir Bloom þegar hann fór, ræða hann aðeins. Simon segist hafa verið með honum í jarðarförinni. Þeir segja Molly syngja vel.
Very, Mr. Dedalus said, staring hard at a headless sardine. Under the sandwichbell lay on a bier of bread one last, one lonely, last sardine of summer. Bloom alone. – Very, he stared. The lower register, for choice. Tap. Tap. Tap. Tap. Tap. Tap. Tap. Tap. Tap.
Píanóstillingarmaðurinn fer framhjá ritfangaversluninni. Bloom lætur hugann reika. Svo rekst hann á vændiskonu – „a frowsy whore“ – sem hann virðist kannast við en það er ekki ljóst á samhenginu nákvæmlega hvað fór þeim á milli. „The appointment we made. Knowing we’d never, well hardly ever. Too dear too near to home sweet home.“ Hann snýr sér undan og horfir í búðarglugga á forngripaverslun svo hún sjái hann ekki. Þar sér hann einhvers konar harmonikku sem SAM segir vera með „ormétnum belgjum“ en orðrétt hjá Joyce er það svona:
Leopold Bloom envisaged battered candlesticks melodeon oozing maggoty blowbags.
Sem í mínum huga er martraðarkenndari sýn – og kallast kannski á við komandi ofsjónir í Kirkukaflanum (sem gerist í rauða hverfinu).
Píanóstillingarmaðurinn mætir á Ormond hótelið.
An unseeing stripling stood in the door. He saw not bronze. He saw not gold. Nor Ben nor Bob nor Tom nor Si nor George nor tanks nor Richie nor Pat. Hee hee hee hee. He did not see.
Hér er Joyce meira að segja farinn að flissa að sínum eigin aulabröndurum. Og ekki lái ég honum.
Bloom er að verða illt í maganum, sennilega af sídernum sem hann fékk sér með matnum en hann kennir sjálfur um búrgúndarvíninu sem hann fékk sér með hádegismatnum. Hann sér líka í glugganum mynd af frelsishetjunni Robert Emmet og hugsar um fræg lokaorð hans: „When my country takes her place among the nations of the earth, then and not until then let my epitaph be written. I have done.“
Nations of the earth. No-one behind. She’s passed. Then and not till then. Tram kran kran kran. Good oppor. Coming. Krandlkrankran. I’m sure it’s the burgund. Yes. One, two. Let my epitaph be. Kraaaaaa. Written. I have.
Pprrpffrrppffff.
Done.
Þetta Pprrpffrrppffff er Bloom að reka við. Og lokaorðið „Done“ kallast á við lokaorð forspilsins „Begin!“ – aftur sér maður hljómsveitarstjórann fyrir sér sveifla sprotanum.
* * *
Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar.
Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.
Biskup Íslands er að koma til Ísafjarðar. Í næstu viku verða liðin hundrað ár frá atburðum Náttúrulögmálanna. Ég reikna með að það sé þess vegna. Og kem ekki nálægt fjallinu fyrren hún er farin.
***
Ég er enginn flokksmaður. Gekk úr vinstri-grænum út af meðferð stjórnvalda – í skjóli flokksins – á hælisleitendum og gekk í sósíalistaflokkinn eftir að hafa lýst því yfir að ég myndi aldrei aftur ganga í stjórnmálaflokk. Gekk svo úr sósíalistaflokknum þegar hæsthafendur þar voru farnir að mæla með nauðungarvistun fólks í sóttkví. En samúð mín er augljóslega vinstramegin í tilverunni – þar sem hjartað slær – og ég vildi helst að hér væri starfhæfur flokkur vinstramegin við Samfylkinguna. Sem er ekki. VG fór til andskotans vegna þess að hún sinnti ekki grasrótinni og var of dugleg við að „axla ábyrgð“ í borgaralegu stjórnmálalandslagi en sósíalistaflokkurinn implóderaði vegna innri átaka. Og mikilmennskubrjálæðis sjálfskipaðra leiðtoga sem virtust farnir að máta sig við styttur framtíðar. Báðir flokkarnir eru „ennþá til“ en varla samt. Þeir eru í senn autt spjald og vel útfyllt – það veit enginn hvernig þeir koma til með að líta út eða fyrir hvað þeir munu standa næst en þeir dragnast með fáránlega fortíð og illafmáanlega stimpla.
***
Tilfinning mín er sú að þegar hallarbyltingar eru framdar í stöndugri stjórnmálaflokkum þá sé oftast talsverð orka lögð í að halda mönnum góðum þegar átökin eru yfirstaðin. Að bera vopn á klæðin. Finna hinum sigruðu hlutverk – þeir sem fá ekki að vera skipstjórar verði stýrimenn. Af því að hverjum frontmanni fylgja margir kjósendur sem fara í burtu. Fylgjendur. Og fylgjendurnir eru flokksstarfið.
Þá hefur flokkurinn sem slíkur líka ábyrgst þá sem hafa verið í forsvari og trúverðugleiki flokksins í framtíð stýrist af trúverðugleika hans í fortíð. Það er meira að segja þannig að trúverðugleiki nýrra hreyfinga róttækra sósíalista er átomatískt í hættu strax frá byrjun – út af öllum hinum róttæku sósíalistahreyfingunum sem hafa klofnað í heift og frekju. Ef stjórnmálaflokkur lýsir því alltíeinu yfir að margir frambjóðendur úr nýafstöðnum kosningum séu í raun og veru algerir afglapar – og alls ekki þær byltingarhetjur sem flokkurinn kallaði þá þá, þá* er kjósandi úti í bæ ólíklegur til að leggja traust sitt á næsta holl af andlitum.
(Þrjú „þá“ í röð. Það er fyrir svona tilþrif sem maður fær listamannalaun).
Þá er heldur ekki gott fyrir trúverðugleika nýrra valdhafa að þeir frambjóðendur sem er boðið að halda áfram – jafnvel kallaðir óskoraðir leiðtogar – ranghvolfi bara augunum og gangi í burtu. Það lítur svolítið út einsog fólk tali ekkert saman og hafi enga tilfinningu hvert fyrir öðru.
Einhvers staðar kemur líka að því að n´ógu margir séu flognir í veg til þess að vafasamt sé að kalla þetta sama flokkinn. Ef 400 heimdellingar ganga í sósíalistaflokkinn og bola nýju valdhöfunum út samkvæmt reglum lýðræðisins á næsta aðalfundi – til þess að hirða styrkinn – er það þá ennþá sósíalistaflokkurinn? Það er allavega ekki það sem fólk kaus – og það eru atkvæðin sem skila þessum styrk.
Það er heldur ekki gott fyrir trúverðugleika fólks sem hefur „betri vinnubrögð“ að slagorði að helmingur þeirra sem hafi unnið með þeim finnist vinnubrögð þeirra bera mark ofríkis og frekju. Og er þá alveg sama hvort maður heitir Gunnar Smári eða Karl Héðinn eða Sólveig Anna (eða hvort manni finnst allir aðrir geðveikir að sjá ekki réttlætið í vinnubrögðunum). Góð og lýðræðisleg vinnubrögð fela í sér ákveðna virðingu fyrir skoðunum þeirra sem maður vinnur með, líka þegar þær fara ekki alveg saman við manns eigin skoðanir – ef nýjum valdhöfum sósíalistaflokksins væri annt um að sýna slíka virðingu hefðu þau gert það frekar en að stefna að hreinni valdatöku og eyða svo næstu dögum í áframhaldandi skærur og brigsl. Sök sér að þeir sem bolað var burt tali beiskum rómi – en eiginlega er beiskjan og frekjan verri hinumegin. Það er mjög undarlegt að fá frekjukast yfir því að hafa fengið allt sem maður óskaði sér.
Og svo er ágætt að hafa það í huga líka að ef maður ætlar að kljúfa stjórnmálaflokk er betra að bitinn sé nógu stór til þess að þola að fara í tvennt. Það getur alveg verið ástæða til þess að fremja hallarbyltingar – þær eru áreiðanlega oft bráðnauðsynlegar – en það verður að vera einhver höll eftir þegar þær eru afstaðnar. Að kljúfa 3% flokk í herðar niður út af reglum um það hvernig er kosið í nefndir og áherslum um það hvort betra sé að eyða sjóðum flokksins í fjölmiðlun eða félagsfundi – no es bueno.
***
Kanadíska ljóðskáldið Paul Dutton lést í morgun – ríflega áttræður. Dutton er goðsögn í framúrstefnuljóðaheiminum. Hann var meðal annars meðlimur í hljóðljóðasveitinni The Four Horsemen, ásamt bpNichol, Steve McCaffery og Rafael Barreto-Rivera. Og gaf út fjöldann allan af tilraunabókmenntum, bæði prósa og ljóðum. Hann var líka einn af þessum mönnum sem inspíreruðu margar kynsl´óðir með (kvabbgjarnri) hlýju sinni, húmor og einurð.
Einsog einhverjir kannski muna átti ég mér einu sinni svolítinn feril sem hljóðljóðaskáld og ferðaðist mikið til þess að koma fram hér og þar. Þegar Aram Nói var lítill og spurður við hvað pabbi hans ynni sagði hann „pabbi öskrar á fólk“ og það var ekki alveg úr lausu lofti gripið.
Nema hvað. Árið 2007 var mér boðið á Scream-hátíðina í Toronto – þar sem var nú almennt ekkert mikið öskrað, þetta var bara ljóðahátíð þótt hún héti þessu nafni – á viðburð sem Angela Rawlings skipulagði. Þar var hefð fyrir því að para fólk saman í upplestrum og Angela paraði mig saman við Paul og við komum þar saman fram. Sá viðburður tókst svo vel að okkur var boðið að koma aftur árið eftir og endurtaka leikinn á stóra sviðinu – en lokadagur Scream fór alltaf fram á Shakespeare sviðinu í High Park fyrir framan ríflega þúsund gesti sem sátu og hlustuðu á ljóð og drukku vín frá því um eftirmiðdaginn og langt fram í myrkur. Það var mjög gaman og ótrúlegur heiður – Paul var ein af hetjunum mínum, að fá að lesa með honum var feykinóg en að við næðum svona vel saman og það gengi upp var hreinlega ölvandi.
Sterkasta minningin frá þessu er samt ekki frá uppákomunum heldur þegar við eyddum hálfum degi í að æfa saman í íbúð Angelu, þar sem ég gisti, í Kensington Market. Kensington Market er rosalega líflegt hverfi og það var stanslaust reggea-dub á blasti hjá rakaranum á neðri hæðinni – kryddmarkaðir og grillstaðir fyrir utan með tilheyrandi ilmum og steikjandi hiti – við þarna inni fyrir framan risastóra og háværa loftkælingu að garga ljóð hver á annan og drekka vatn í lítravís svo það liði ekki yfir okkur.