Woke er ekki hugmyndafræði heldur heiti á tilhneigingu. Hnjóðsyrði, fyrst og fremst, til þess að hafa um hina skinhelgu. Þá sem eru stöðugt að leita að misfellum í hegðun náungans. Þá sem eru með prótókol og siðferðislega fágun á heilanum. Hnjóðsyrðið þjónar þeim tilgangi að tjá gremju yfir því að við sem þjóðfélag séum of æst í að dæma rangstæðu hvert á annað. Réttlætanlega gremju, finnst mér, því þótt ég myndi áreiðanlega sjálfur mælast frekar hátt á wokeskalanum í hvaða skoðanakönnun sem er, þá finnst mér þetta oft verða óþolandi lögguleikur.
Mörgum finnst að þeir geti ekki „verið þeir sjálfir“ innanum hina skinhelgu – ekki vegna þess að þeir þurfi stöðugt að vera að segja einhverja rasistabrandara heldur vegna þess að maður verður (eðlilega) svo sjálfsmeðvitaður þegar manni finnst að fólkið í kringum mann sé í lögguleik, verður hræddur um að stíga á línur sem einhver annar hefur teiknað, sem maður veit ekki nákvæmlega hvar liggja fyrren það er búið að flauta (og einsog gildir um rangstæðuregluna færist línan líka stöðugt til í leiknum eftir því hvar hinir leikmennirnir eru staddir). Maður veit að það hefur enga þýðingu að „hafa meint vel“ og það skiptir engu máli hver bakgrunnur manns er – hversu læs maður er á þessa prótokolla, hversu vanur maður er. Það er brot í sjálfu sér að kunna þá ekki.
Skinhelgin er síðan líka óþægileg vegna þess að við vitum öll að hin skinhelgu eru ekki syndlaus sjálf (engin er syndlaus; en þau eru heldur ekki syndlausari en aðrir). Hin skinhelgustu reynast meira að segja stundum vera svona upptekin af eigin skinhelgi einmitt vegna þess að þau eru að breiða yfir eitthvað ljótt í eigin fari. Þau eru að tryggja stöðu sína í hjörðinni – markera sér stað með „góða fólkinu“ vegna þess að þau óttast að verða útlæg ger. Og stundum eru þau að vinna yfirbót – svona einsog manni gæti dottið í hug að ganga í klaustur af því maður gerði eitthvað ljótt, og endað svo í heiftúðugu og fanatísku stríði við syndina í fari annarra. Með reyr og belti.
Þetta er að mörgu leyti skiljanleg og jafnvel nauðsynleg hegðun í hjörð. Að hjörðin setji sér reglur um rétta framkomu og einstaklingarnir framfylgi þeim með skömm og jafnvel útskúfun. En dómharka og fyrirgefningarleysi á samt ekki að vera dyggð og skömm er ekki gagnlegt stjórntæki til lengdar. Ekki heldur þegar hún birtist okkur í nafni kærleikans.
Að því sögðu finnst mér rétt að taka fram að mannréttindabarátta sem er ekki líka transréttindabarátta er ekki neitt sem maður ætti að taka mark á. Og mannréttindabarátta sem gerir í því að skilja transréttindi – eða önnur réttindi minnihlutahópa – útundan er belgingsleg minnimáttarkennd sem á heima á bekkjum sálfræðinga en ekki pistladálkum dagblaðanna.
Því má svo líka alveg halda því til haga að mannréttindabarátta getur verið frekari á athygli en hin efnahagslega barátta og það getur alveg verið ástæða til þess að markera henni tiltekið pláss innan t.d. verkalýðshreyfingarinnar, svo hún taki ekki yfir þá mikilvægu baráttu heldur styðji hana frekar. Við sjáum að fjölmiðlar veita mannréttindabaráttu meiri athygli en stéttabaráttu – það er meira krassandi að skrifa um einhvern sem var laminn fyrir það hver hann er en allt það fólk sem þarf að lifa af smánarlaunum eða bótum. Bæði er allrar athygli vert, bæði eru systemísk vandamál sem þarf að leysa – en annað er frétt vegna þess að það brýtur á velsæmishugmyndum okkar flestra og hitt er veruleiki sem við virðumst hafa sætt okkur við. Það er hægt að halda hundrað ráðstefnur um launamun kynjanna – sem er mannréttindamál – en það eru engar ráðstefnur haldnar um launamun stéttanna. Fyrirtæki, smá og stór, eyða peningum í að vera (og sýnast) græn og feminísk og hossa sér fyrir að veita fólki af ólíkum bakgrunni tækifæri – en það þætti hálfgert brjálæði að reyna að jafna laun skúringakonunnar og forstjórans (og reyndar ímynda ég mér að mörg þeirra fyrirtækja sem hafa jafnlaunavottað sig hafi meðal annars gert það með því að „útvista“ skúringunum – skítadjobbin, sem eru oft kvennastörf, tilheyra öðrum fyrirtækjum).
Við þær aðstæður skil ég að hin frjálslynda skinhelgi fari í taugarnar á þeim sem standa í því stappi að reyna að hífa upp laun skúringakvenna. Afsakið, skúringastarfsfólks.
Hér er ýmislegt að gerast. Það glittir í kýklóp. Sítrónusápan hvílir í lundi. Fólkið við vitann er Molly og Leopold á sínu fyrsta stefnumóti löngu áður. Samuel Beckett stendur uppi á húsi. Þar beint fyrir ofan eru skrifstofur Freeman’s Journal og Evening Telegraph. Molly hvílir í rúmi sínu og Bloom tekur til morgunmatinn. Séra Conmee er á stjái. Bókin The Sweets of Sin stendur opin. Í vinstra horninu niðri eru Flann O’Brien og fleiri rithöfundar á frægri ferð um söguslóðir Ulysses sem endaði á einhverjum afar viskílegnum villigötum. Þá er þetta Bloom þarna undir blóminu stóra með bréfið frá Mörthu í höndunum.
Ég segi ekki að það erfiðasta við Aeolus sé að stafsetja heitið á kaflanum rétt en það er allavega á topp fimm listanum. Ef marka má árangur minn (ég kíki alltaf og leiðrétti en virðist ekki geta gert þetta rétt í fyrsta skipti). Enda hefur Sveinbjörn ákveðið að kalla manninn bara Eólus. Hippótesson. Ástvin hinna ódauðlegu guða.
Í kviðu Hómers segir frá því er Ódysseifur hittir vindguðinn Eólus. Eólus gefur Ódysseifi poka fullan af mótvindi sem þá hindrar hann ekki á heimleiðinni – og sendir góðan vestanvind á eftir honum. Þetta er vel að merkja fljótlega eftir að Trójustríðinu l´ýkur, rétt eftir að Ódysseifur sleppur frá kýklópnum Pólyfemusi. Með hjálp hagstæðra vinda sækist ferðin vel og þegar Íþaka er í sjónmáli ákveður Ódysseifur – illu heilli fyrir sig en góðu heilli fyrir sadíska lesendur ævintýra – að fá sér bara ogguponsu lúr. Á meðan lúrnum stendur kíkja skipverjar í pokann, af því þeir telja að þar megi finna fjársjóð, með þeim afleiðingum að mótvindarnir sleppa út og skipið feykist alla leið aftur til baka. Eólus finnst þetta ekki fyndið – „goðagremi veldur því, að þú ert hingað kominn“ – og neitar að hjálpa Ódysseifi frekar. Enn eru sjö ár í að Ódysseifur komist heim.
Sögusvið Eólusarkafla Joyce eru skrifstofur The Freeman’s Journal og The Evening Telegraph – morgunblaðið og síðdegisblaðið deila kontór. Vindur er aðalhreyfiafl og höfuðmyndlíking kaflans. Vindurinn feykir fólki inn og út úr herbergjum. Það er stanslaus umgangur og erfitt að fylgjast með hverjir eru inni á sviðinu. Fólkið sem þeytist fram og til baka blæs líka út úr sér heilum ósköpum af heitu lofti og gaspri og það eru gjarnan fleiri en ein samræða að eiga sér stað samtímis.
Bloom er hins vegar blásið áfram af launaþörfinni – auglýsingasalan er greinilega illa launað skítadjobb og hann ræður litlu og enginn ber minnstu virðingu fyrir honum. En það eru þannig störf sem feykja manni af mestum krafti, störfin sem maður hefur ekki efni á að missa.
Ulysses er í eina af sínum fjölmörgu röndum saga um framfarir og nútíma. Og það hvernig nútíminn tekur við af fortíðinni, breytir venjum og hefðum og hugsunarhætti. Og hún boðar framtíðina sem mun gera það sama við nútímann og hann gerði við fortíðina. Valta yfir hann. Það eru fáir höfundar á þessum tíma – 1914-1922 – sem skrifa af sama áhuga fyrir tækninýjungum og Joyce. Einsog við sáum í síðasta kafla er aðalsöguhetjan, Leopold Bloom, t.d. áhugamaður um vélvæðingu dauðans – og sennilega einlægur í þeim áhuga þótt Joyce sé kannski pínu að gera gys líka. Hér örlar hins vegar fyrir því að Bloom dáist ekki bara að tækninni heldur fyrirlíti eða óttist hana líka. Í prentsmiðjunni kemur til dæmis þessi kafli:
Machines. Smash a man to atoms if they got him caught. Rule the world today.
Örskömmu síðar bætir hann við þessari lýsingu á vélunum:
The machines clanked in threefour time. Thump, thump, thump. Now if he got paralysed there and no one knew how to stop them they’d clank on and on the same, print it over and over and up and back.
Tveimur blaðsíðum síðar koma prentvélarnar enn eina ferðina inn og þá er einsog Bloom sé farinn að skilja þær.
Sllt. Almost human the way it sllt call to attention. Doing its level best to speak. That door too sllt creaking, asking to be shut. Everything speaks in its own way. Sllt.
Ég held að þetta „sllt“ hljóð hljóti að vera skurðarvél. Hvað um það. Í fjórða kafla bókarinnar, þegar við hittum Bloom, á hann í samskiptum fyrst við köttinn sinn sem mjálmar og svo við Molly, sem muldrar orðaleysur – og alltaf skilur Bloom það sem við hann er sagt þótt orðin sé ekki að finna í orðabókum. Hér er undirstrikuð mennska Blooms og þörf hans fyrir tengsl, fyrir að skilja heiminn – en líka lýst ákveðinni kenningu um lestur: Kannski er ekki hægt að lesa (Ulysses/neitt) nema maður treysti eigin innsæi til að túlka upplýsingarnar sem maður fær.
Yfirgengilegur textaveruleiki aldamótanna 1900 tröllríður auðvitað bókinni. Það var ekki að dagblöð og auglýsingar væru nýmæli, þótt ekki væru þau mjög gömul heldur, heldur að það stóð stöðugt fleirum til boða að skrifa, lesa og auglýsa. Út um allt er texti. Á öllum veggjum eru tilkynningar og auglýsingar og skilti og Bloom les það allt. Bloom er svo auðvitað sjálfur auglýsingasali (milligöngumaður milli auglýsenda og Freeman’s Journal, sem gefur út The Evening Telegraph – hleypur á milli og semur um birtingu og vinnur fyrir prósentur). Og sem slíkur hefur hann einlægan áhuga á texta og framsetningu. Hann gengur auk þess um með upprúllað dagblað undir hendinni alla bókina – og það er yfirleitt kallað „newspaper baton“ og á einum stað „freeman baton“ og það er áreiðanlega ekki óviljandi – baton er bæði tónsproti, sá sem í hann heldur s´týrir verkinu, og barefli eða kylfa. Textinn leiðbeinir, stýrir og meiðir jafnvel.
Stephen – sem snýr aftur í Eólus – er menntamaður og skáld og sem slíkur upptekinn af annars konar textagreiningu. Hann íhugar Aristóteles og Boehme og Shakespeare – og raunar er hann í hinum frægu upphafsorðum Próteusar um „the ineluctable modality of the visible“ – („óumflýjanlegan hátt þess sem er sýnilegt“) – að reyna að komast handan hins sjáanlega út í einhvers konar „hreina hugsun“ – hugsun um hugsun, hugsun um heimspeki og listir. Eða í það minnsta að sjá sýnileikann í hinu sýnilega – sjá sig sjá. Það er öfugt við Bloom sem baðar sig í hinu sjáanlega – starir jafn hispurslaust á auglýsingar sem kvenmannsleggi – og er alltaf með hugann við það sem er fyrir framan nefið á honum.
Erindi Stephens í Eólus er að koma til skila aðsendri grein frá yfirmanni sínum, hr. Deasy, um gin- og klaufaveiki. Ekki sínum eigin skrifum, sem þó er gengið eftir. Hins vegar reif skáldið smá rifrildi af pappírnum sem greinin er skrifuð á – í Próteusarkaflanum – og orti á það ljóð sem hann rifjar upp hér þegar ritstjórinn spyr hvers vegna bréfið sé rifið.
On swift sail flaming From storm and south He comes, pale vampire, Mouth to my mouth.
Bókin sjálf vekur líka sífellt meiri athygli á sjálfri sér eftir því sem líður á hana. Fyrst með því að beita óvenjulegum frásagnaraðferðum sem leyfa Joyce að dvelja við og stökkva inn í jafnvel smávægilegustu hugsanir sögupersóna sinna – sem verða þar með texti – og svo síðar með augljósari aðferðum. Þetta verður fyrst dagljóst jafnvel fimm ára börnum í Eólus þar sem frásögninni er skipt upp í fréttir með fyrirsögnum á borð við „Lost Causes Noble Marquess Mentioned“ og „Only Once More That Soap“ sem standa reyndar í misaugljósu samhengi við textann. Textann gæti maður alveg lesið án þeirra einsog hvern annan kafla í þessari bók – og raunar bætti Joyce fyrirsögnunum bara við í próförk til þess að undirstrika textúalítetið og búa mann undir næstu stökk í þá átt. Og auðvitað vegna þess að það er viðeigandi fyrir sögusviðið. Dagblaðaheiminn. Heim framtíðarinnar: auglýsinga og prentlista. Blaðaskrif og auglýsingar eru stöðugt rædd, hávaðinn í prentsmiðjunni og gasprið í blaðamönnunum eru alltumlykjandi. Og á einum stað dáist Bloom líka að því hvernig setjararnir geta raðað upp stöfunum aftur á bak – mangiD kcirtaP – ef bókin hefði verið prentuð í dag hefði Joyce sennilega látið spegla stafina líka.
Félagar Blooms úr jarðarförinni eru farnir á pöbbinn en Bloom hefur ekki efni á að slæpast, hann þarf að sinna vinnunni. Hann er með hugmynd að auglýsingu fyrir te- og vínsalann Alexander Keyes sem felur í sér að endurnýta gamla auglýsingu úr öðru blaði, tvo lykla í kross innan í hring. Sams konar merki mun hafa verið notað af þeim sem studdu írska heimastjórn. Og Bloom segir við yfirmann sinn, Nannetti, að þetta sé daður við slíka pólitík – sem er þeim greinilega öllum að skapi. En heimastjórn þýðir áreiðanlega eitthvað fleira fyrir kokkálnum og ástarbréfaskrifaranum en bara sjálfstjórn þjóðarinnar. Og tveir lyklar í bók um tvo lyklalausa menn – Stephen og Bloom fara báðir að heiman lyklalausir – er nú kannski ekki flóknasta táknið í ljóðráðningabókinni. Nannetti samþykkir auglýsinguna ef Keyes fæst til að kaupa þriggja mánaða endurnýjun. Bloom rýkur af stað til að athuga með það.
Augnabliki síðar tekur Bloom upp vasaklútinn og finnur lykt af sítrónusápunni sem hann keypti fyrir Molly – rifjar upp spurningu Mörthu um hvaða ilmvatn kona hans notar – íhugar í örskotsstund að gera sér upp afsökun fyrir að líta við heima, þar sem Molly bíður Boylans, en hættir jafn harðan við.
Hjá Hómer ferðast Ódysseifur og félagar um langa leið – fram og til baka. Það fer hins vegar enginn mjög langt í Joyce því enda þótt litlu megi muna að Bloom fari til Ballsbridge (sem er dálítið ferðalag) til þess að semja við Alexander Keyes hjá House of Keyes þá ákveður hann á síðustu stundu að hringja og kemst að því að því að Keyes er staddur handan við hornið á uppboðshúsi. Hann rýkur þangað en við erum skilin eftir á skrifstofunni á meðan. Hinir horfa á eftir honum út um gluggann þar sem strákastóð gerir gys að honum og hermir eftir göngulaginu.
– Lítið bara á strákskrípið þarna sem æpir og skrækir fyrir aftan hann, sagði Lenehan, og þér fáið hláturskrampa. Æ hamingjan sanna, hermir meiraðsegja eftir ilsignu göngulaginu og öllu heila klabbinu. Sá kann loddarabrögðin.
Á skrifstofunum er einsog áður segir stöðugur umgangur. Simon Dedalus er þarna en fer fljótlega á barinn. Lenehan – fremur vonlaus týpa sem er í aðalhlutverki í Two Gallants úr Dubliners – reynir að segja orðagrín en gengur illa að koma því til skila og svo reynist það ekkert mjög fyndið. Hynes er að skila af sér greininni um jarðarför Paddys Dignam. Ritstjórinn, Myles Crawford (sem á eftir að þurfa að staðfesta auglýsingasölu Blooms) er þarna, sem og lögfræðingurinn J. J. O’Molloy. Og fleiri og fleiri. Það er rifist um Írland og Róm („Salerna- og holræsasmiðir verða aldrei andlegir feður okkar“) og Grikkland og Egyptaland og Ísrael – og allt má lesa sem komment um Írland og Bretland – og mikið gaman hent að ræðunni hans Dans Dawson sem var nefnd í Hadesarkaflanum. Ætli þetta sé ekki það óþolandi stílbragð sem Þórbergur kallaði „uppskafningu“? Eða var það eitthvað sértækara – í öllu falli mætti það alveg heita uppskafning mín vegna:
Eða virðið aftur fyrir ykkur bugður niðandi lækjarsprænu þarsem hún hjalar álengdar, þótt hún deili við grýtta þvergirðinga, á leið sinni til hinna úfnu vatna í bláu ríki Pósídons, hlykkjast milli mosavaxinna bakka, kæld af mildum andvara, og er lýst upp af dýrlegu sólskini eða líður undir skugga sem varpað er yfir djúphugulan barm hennar hvelfdu laufskrúði skógarrisanna.
Fleiri textar eru ræddir – meðal annars blaðagreinar eftir mann sem heitir Ignatius Gallaher (úr Little Cloud í Dubliners) sem menn eru afar ánægðir með og A.E. (þeósófistann sem hét réttu nafni George William Russell), sem hefur nefnt Stephen í einhverju viðtali, J. J. O’Molloy vitnar í Seymour Bushe („einhver hnökralausasta málsgrein sem ég held ég hafi nokkurn tímann hlustað á“) og Stephen kemst við og roðnar („þareð blóð hans heillaðist af þokka máls og látbragðs“) og MacHugh vitnar í John F. Taylor, texta sem fær Stephen til að velta því fyrir sér í augnablik hvort hann ætti að gerast blaðamaður – en hafnar því svo. Man þá að hann á pening (hann fékk útborgað hjá hr. Deasy í Nestorkaflanum) og spyr hvort það sé ekki ástæða til þess að færa fundarhöldin út á næsta pöbb. Þeirri uppástungu er tekið með afbrigðum vel.
Stephen segir síðan undarlega dæmisögu um tvær írskar vestumeyjar sem klifra upp í Nelsonsúluna og éta þar plómur og skyrpa steinunum yfir grindverkið. Aðspurður segist hann kalla dæmisöguna „Palestína séð frá Pisgah eða Dæmisagan um plómurnar“. Söguna má sennilega túlka í ljósi textabrotsins eftir Taylor þar sem Írum var líkt við Ísraelsmenn sem neituðu að gangast undir stjórn Egypta. Nelson, sem stendur á súlunni, er breski flotaforinginn Horatio Nelson. Þessi mikilfenglega og risastóra súla var mjög umdeild meðal Íra og var á endanum sprengd af IRA árið 1966 – og ákveðið að gera enga tilraun til þess að laga hana eða endurreisa.
– En dömur mínar og herrar, hefði Móse hinn ungi lagt eyrun við og fallist á þessa lífssýn, hefði hann beygt höfuð sitt og beygt vilja sinn og beygt anda sinn fyrir þessari drambsömu áminningu, þá hefði hann aldrei leitt útvalda þjóð sína burt úr húsi ánauðarinnar né fylgt skýstólpanum á daginn. Hann hefði aldrei talað við hinn Eilífa meðal eldinga á Sínaífjalli né nokkurntíma komið niður með birtu innblásturs geislandi af ásjónu sinni og töflur lögmálsins í fangi sér, meitlaðar á tungu útlagans.
Því má svo halda til haga að þótt Joyce sé í þessum kafla frekar hallur undir sjálfstæðisbaráttu Íra þá gerir hann mjög hressilega upp sakirnar við þjóðrembuna sem henni fylgir síðar í bókinni.
Á leiðinni út rekast félagarnir á Bloom sem er að koma aftur af fundi sínum með Keyes. Bloom segir Crawford að Keyes sé til í tveggja mánaða endurnýjun á auglýsingunni og hvort það sé nóg – en Crawford segir honum að Keyes megi sleikja á sér rassinn. Bloom fattar að Crawford er að fara á barinn og það verði kannski ekki auðvelt að hindra þá för til þess að klára auglýsingasöluna.
Allir á leið í sollinn. Leiða hver annan. Lenehan með siglingakaskeitið þarna fyrir handan að sníkja. Alltaf sama smjaðrið. Ætli Dedalusdrengurinn eigi upptökin að þessu. […] Hirðulaus piltungur.
Bloom býðst til að halda áfram að vinna í auglýsingunni en Crawford endurtekur bara skilaboðin um rassinn á sér.
Ætli blaðamannatýpurnar á leiðinni á barinn séu þá ekki skipverjarnir að opna pokann og Bloom Ódysseifur sem tekst ekki að komast á áfangastað, sem að þessu sinni var að selja þessa auglýsingu. Og hvað var auglýsingin? Tveir lyklar í kross innan í hring: merki fyrir sjálfstætt Írland. Og drykkjuskapurinn í kjaftöskunum var mótvindurinn í pokanum – ég held það sé alveg ljóst að þótt Joyce hafi sjálfur verið frekar góðglaður maður leit hann á áfengisbölið sem mikinn dragbít á Írum. En lyklarnir eru líka lyklarnir sem Dedalus og Bloom vantar – þeir eru báðir bókstaflega lyklalausir og metafórískt heimilislausir menn, annar landlaus gyðingur sem er hafnað af þjóð sinni Írum (og sennilega gyðingum líka), hinn skáld á leiðinni að yfirgefa þjóð sína, halda út í heim – og heimastjórn einsog áður segir eitthvað fleira fyrir kokkálnum Bloom en bara sjálfstjórn þjóðarinnar. Eða fyrir Stephen, sem býr með hinum yfirgangssama Mulligan og er með hinn yfirlátssama Haines sem gest. Dedalus og Bloom eru heimastjórnarlausir menn í fleiri skilningi en einum (eða tveimur).
* * *
Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar.
Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.
Þreytan er raunveruleg og þreytan er djúp. Síðasta vika var rosaleg.
Aino kom heim á miðvikudag. Hún hafði verið á sundm´óti í Ungverjalandi og orðið 12 ára í ferðinni. Á pálmasunnudag. Fyrsta mál á dagskrá var að fagna því með pompi og prakt. Út að borða og svo morgunmatur og gjafir að morgni skírdags.
Sama dag lék Aram á tónleikum við setningu Skíðavikunnar. Fyrst sem trommari Lúðrasveitar tónlistarskólans og síðan sem trommari og söngvari í bílskúrsbandinu Ulla (ekki nefnd eftir sænskum konum, heldur sögninni – sem mér skilst að sé bara til á íslensku). Þau eru botnlausir snillingar, með skemmtilegra fólkið og hafa leikið nokkrum sinnum áður koverlög en voru nú í fyrsta sinn með eitt frumsamið á prógraminu. Og stóðu sig ótrúlega vel – þótt það hafi verið afar kalt í veðri (sem kallaði á stillingarvesen) og hljóðkerfið hafi verið með ákveðin leiðindi. Og sérstaklega var frumsamda lagið gott.
Á skírdag var generalprufa hjá Gosa. Vinkona Arams kom líka í heimsókn að sunnan og við fengum af því tilefni unglingastóð í kvöldmat. Já og samdægurs birtust vinir mínir Jóel og Michael (sem ég var reyndar að kynnast þar) óvænt í kaffi.
Á föstudaginn langa byrjaði Aldrei fór ég suður. Þar naut ég þeirra forréttinda að fá að spila á bassa með Gosa og gosalýðnum – sem var óvenju stór í þetta skiptið, auk okkar Andra og Baldurs voru Ásta Kristín á víólu og röddum, Sara Hrund á lykla og röddum, Valgeir Venna á slagverk og Marta í röddum. Við lékum sjö lög, mest af væntanlegri plötu, Á floti, sem kemur á vínyl og stafrænu í maí (það verða rosalegir útgáfutónleikar, sennilega í júní). Og stóðum okkur bara mjög vel, þótt ég segi sjálfur frá. Ég var frekar rólegur á sviðinu eftir að hafa fengið hálfgert spennufall á sándtestinu um daginn – í tveggja hljóma byrjunarlaginu varð hugurinn á mér svo heiður að ég mundi aldrei hvaða hljómur átti að koma næsta (sem var þá alltaf bara hljómurinn sem ég var ekki að spila, hinn hljómurinn í laginu). Og eftir sándtestið fór ég heim, lagðist í rúmið dauðuppgefinn – klukkan 15 um daginn – og steinsvaf í 90 mínútur. En var þá bara búinn með stressið um kvöldið, sem var ágætt.
Um kvöldið buðu himinhvolfin upp á stærstu og fallegustu norðurljós sem ég hef séð síðan 1994.
Á laugardeginum byrjaði ég á því að drífa mig upp í netagerð að þeyta skífum fyrir Skúla frænda minn mennska sem var þar með plötumarkað. Svo f´ór ég að róta trommusetti með Aram – sem var aftur að spila með lúðrasveitinni en nú á Dokkunni. Þaðan lá leiðin upp í Oddfellowhús þar sem við Ingi Björn söxuðum grænmeti af miklum móð, til þess að preppa fyrir hádegisverð á poppstefnu AFÉS daginn eftir. Svo beint á lúðrasveitartónleika og að róta settinu aftur til baka með trommuprinsinum.
Um kvöldið las ég ljóð með hljómsveitinni Reykjavík! Við erum vinir frá því á menntaskólaárunum og gerðum þetta oft í gamladaga, bæði þannig að þeir komu á ljóðahátíð með mér og drógu mig á svið á tónleikum hjá sér. Ég skrifaði líka „liner notes“ fyrir allar plöturnar þeirra. Ég átti meira að segja að gera þetta á Aldrei 2005 eða 2006 en gleymdi mér eitthvað og var bara á Langa Manga (hellaður) þegar ég var kallaður á svið – og varð auðvitað ekkert úr neinu. Það var því sérstaklega ánægjulegt að fá loksins að bæta upp fyrir það lúðalega klúður. Og alveg burtséð frá minni eigin þátttöku í gigginu var brjálæðislega gaman að sjá hljómsveitina aftur – sem ég hef líklega síðast séð spila á Norræna bókasafninu í Helsinki 2007 (Aino finnst mjög fyndið að Reykjavík! hafi spilað á bókasafni, og það er rétt, það er mjög fyndin tilhugsun).
Eftir ofsalegt lokaatriði kvöldsins – FM Belfast – fór ég heim að klára krossgátuna mína á meðan Nadja fór út á lífið. Ég er í seinni tíð undir áhrifum einhverrar bölvunar sem veldur því að ég sofna aldrei fyrren hún kemur heim – bara einhver algerlega óþörf óró (Nadja er ekki týpan sem fer sér að voða). Og af því ég er miðaldra karl vakna ég samt klukkan sjö. Ég sem sagt svaf alveg fáránlega lítið.
Það var samt meira að gera á sunnudaginn. Það byrjaði á því að við Ingi og Geiri kláruðum að gera matinn. Svo var poppstefna þar sem við Kristján Freyr – hinn ótrúlega ötuli rokkstjóri – reyndum að hafa smá fororð og stýra samræðum við tónlistarmennina. Ég gekk út frá pistli sem ég flutti fyrir mörgum árum en tókst ekki að finna – reyndi bara að muna pælingarnar. Eftir matinn fórum við Smári Karls svo með hersinguna í sögugöngu um Ísafjörð – ég sagði frá árinu 1925 (sem er árið sem Náttúrulögmálin gerast) en Smári tók að sér að fjalla um „gasasvæðið“, sem er staðurinn á milli Krúsarinnar og Sjallans þar sem Jet Black Joe voru gasaðir á sínum tíma.
Eftir göngu var farið í siglingu. Í svona klukkustund húktum við úti á þilfari úti á miðju djúpi og horfðum á hnúfubaka skemmta okkur. Og fallegustu raddir landsins sungu saman lagið um hann Jörund hundadagakonung. Í blíðskaparveðri. Um þetta væri áreiðanlega hægt að kveða mörg falleg ljóð og sannarlega var ég hrærður en þetta er þess konar fegurð sem þarf aðra fagurfræði til að miðla en þá sem ég kann – ég verð bara vandræðalegur þegar ég byrja að tvinna saman nógu mikið af lýsingarorðum til að ná utan um þetta. En þetta verður í minnum haft og maður verður áreiðanlega alltaf svolítið mjúkur inni í sér af tilefninu.
Næst var áð við Vébjarnarnúp til að dást að fjallinu. Svo var sangría á Verbúðinni í Bolungarvík og Pálmi Gests hélt tölu um bæinn og sýndi svo fólki húsið sitt. Fordrykkur var drukkinn á Skarfaskeri – í blíðskaparveðri, það var alltaf blíðskaparveður, lognið sinnti sínu lögheimili alla helgina. Og kvöldmatur og partí í Félagsheimilinu í Hnífsdal. Þar var mikið sungið og dansað og meira að segja samin lög og stofnaðar hljómsveitir og einsog það hafi ekki verið nóg var farið á Pallaball í Edinborgarhúsinu og ég leit meira að segja við í eftirpartí með eftirlætis tónlistargagnrýnandanum mínum.
Einsog gefur að skilja gerði ég ekki margt annan í páskum. En nú, á þeim þriðja, er ég allur að skríða saman. Næstu páska verð ég áreiðanlega orðinn svo gott sem nýr.
Það eru komnir páskar. Skírdagur. Þá er hefð fyrir því að láta mannkynsfrelsarana skrúbba á manni fæturna áður en maður svíkur þá í hendur auðvaldinu.
Ætli Jesús sé ekki annars með betri týpum? Svona ef maður ætlar að fara að leyfa sér að gera upp á milli góða fólksins þá held ég að ég kunni best við hann. Sennilega mest vegna þess að hann útdeildi dómhörku sinni fyrst og fremst til valdsmanna en bað almúgann að vera ekki að gr´ýta steinum innbyrðis – nema að vera handvissir um eigið syndleysi, sagði hann, sem er trikk question því það er enginn syndlaus og sá sem heldur að hann sé það er augljóslega fyrst og fremst sósíópati. En líka af því hann átti sjálfur misgóða daga. Hreytti jafnvel ónotum í fólk. Honum til afsökunar þá átti hann mjög erfiðan föður. En fyrst og fremst þetta með fyrirgefninguna. Við lifum á tímum þar sem valdið á mjög auðvelt með að etja smælingjunum saman og telja þeim trú um að hagsmunir þeirra séu ósamræmanlegir – incels séu frá mars en wokesters frá venus. Allir eru syndlausir og allir grýta steinum og allir eru sannfærðir um að ef þeir hættu að grýta steinum muni siðmenningin „einsog við þekkjum hana“ líða undir lok – síðasta vígið sé grjótkast smælingja. Þar sem ég sit og skrifa þetta á ég meira að segja bágt með að trúa því ekki sjálfur. Bágt með að rifja það upp að málsvörum incel/white trash/íhaldsins á valdastólum er drullusama um skjólstæðinga sína. Að þetta snýst ekki um að stoppa fjölbreytileikann. Snýst ekki um „the woke mind virus“. Snýst ekki einu sinni um frjálslyndið. Þetta snýst um peninga og völd. Óreiðan er bara verkfæri til þess að sölsa undir sig peninga og völd. Ef það borgaði sig að styðja transfólk og málfrelsi og jafnrétti til náms myndu þeir allir snúa við á punktinum. En það borgar sig fyrir þá að kynda bálið og því skíðlogar.
Annars er orðið langt síðan ég las guðspjöllin í gegn. Styttra síðan ég sá Jesus Christ Superstar. Eða las Passíusálmana (og eru þó sjálfsagt að verða 20 ár síðan ég gerði það). Ég held að þar sé ekkert um syndlaust fólk og grjótkast. Jesús veltir þar borðum víxlaranna – en ekki man ég til þess að sá Jesus hafi velt við „stólum dúfnasalanna“. Kannski eru dúfnasalar ekki lengur jafn umdeildir.
Ég ætti að rifja þetta allt upp í tilefni af páskum. Það verður þó kannski ekki mikið af því – ég er að spila með Gosa á Aldrei fór ég suður annað kvöld og svo er bara lífið svo sósíalt á páskum á Ísafirði. Enginn tími fyrir guðdóminn eða fyrirgefninguna. Bara tími fyrir stuð.
Þorvaldur S. Helgason skrifar um Fimm ljóð fyrir Bókmenntavef Borgarbókasafnsins:
Fimm ljóð er óvenjuleg bók í höfundarverki Eiríks Arnar Norðdahl, ívið átakaminni og ópólitískari en fyrri ljóðabækur höfundar en þeim mun hófstilltari, fagurfræðilegri og kjarnyrtari. Þeim sem hrifust af Óratorreki og koma með þær væntingar til verksins gæti þótt Fimm ljóð daufleg við fyrstu sýn. En eitt af því sem síðari bókin hefur umfram þá fyrri er að hún ber meira traust til lesenda sinna. Með því að forðast fyrirframgefna merkingu gefur höfundur lesendum rými til að nálgast verkið á eigin forsendum og túlka ljóðin eftir eigin höfði. Fimm ljóð er bók semstækkar með hverjum lestri og ljóðin fimm sem við fyrstu sýn virðast hversdagsleg eru þegar nánar er að gáð bæði margræð og útpæld.
Í gær var helst í menningarfréttum – heimsins – að bandarískur sjónvarpsþáttur hafði gert grín að tönnunum í breskri leikkonu. Sú kona er fjarska fögur en með mjög áberandi tennur sem eru almennt ekki taldar til bóta – jafnvel þannig að það er alls ekkert ósennilegt að það hafi verið erfitt að bera þær á vissum skeiðum æskunnar. Eru tennurnar þó vel að merkja mjög sjarmerandi á henni í dag og óaðskiljanlegur hluti af hennar „star quality“. Konan tók þetta grín eðlilega aðeins inn á sig þótt ekki væri að heyra að hún væri neitt eyðilögð – „svolítið glatað“ væri líklega réttust þýðing á viðbrögðunum, og þau áreiðanlega m.a. tilkomin af því konan hefur tekið sér stöðu með þjáðum tannsystkinum sínum um víða veröld sem njóta þess fæst að vera brjálæðislega aðlaðandi Hollywood-stjörnur. Og eru sum unglingar á viðkvæmu skeiði. Hún tjáði sig um þetta á sínum persónulega fjölmiðli – þar snýst allt um hana, einsog hér snýst allt um mig – og fylgdi því svo skömmu síðar eftir með fréttum um að hún hefði fengið afsökunarbeiðni frá fólkinu sem stendur að sjónvarpsþættinum.
Ég er í fréttabindindi sem gengur út á að fara bara inn á f´réttasíður-skástrik-menning. Skástrik-kultur. Skástrik-books. Til þess að fá frið fyrir rorrandi síbyljunni sem segir mér ekkert. En þegar ég fer inn á þessar menningarfréttasíður spyr ég mig stundum hvers vegna ég sé alltíeinu byrjaður að lesa fréttir um instagramyfirlýsingar fræga fólksins. Hvers vegna er þetta frétt á Vísi á Íslandi? Í sænska ríkissjónvarpinu? Dagens Nyheter? Hvers vegna fer þessi frétt hringinn í kringum heiminn og hvers vegna heitir hún „menningarfrétt“? Kannski vegna þess að menning snýst svo mikið núorðið um það sem bandaríkjamenn kalla „representation“? Það er fréttapunkturinn.
Aðrar „menningarfréttir“ í gær voru til dæmis að einhver … fyrirgefið orðbragðið … óstabíl rasistakelling í Reykjavík hefði tapað máli gagnvart Icelandair – sem hafði bannað henni eitthvað, hún hafði komið með of stóra tösku, vildi ekki vera með grímu í covid, ég man þetta ekki og neita að smella aftur á þetta athyglisbilaða rugl – en þetta var sem sagt menningarfrétt af því konan hélt því fram að ferðin sem var ekki farin hefði átt að vera farin til að gera heimildarmynd sem ekkert varð úr. (Það er áreiðanlega einhver góður brandari hérna um kött Schrödingers en ég er bara ekki búinn að drekka nóg kaffi í dag til að finna upp á honum). Og að nefið á Hilmi Snæ hafi gengið aftur. Snúið heim.
Ég er ekki að reyna að vera hneykslaður (kannski bara smá; það er default hjá okkur öllum, við kunnum ekkert nema það); ég er allavega að einbeita mér að því að reyna að skilja. Og átta mig á einhverjum breytingum. Þegar ég … nei, nú segi ég bara „í mínu ungdæmi“, ég er kominn á þann aldur að það er viðeigandi. Í mínu ungdæmi var skemmtanabransinn/slúðrið og menningarsíðurnar á ólíkum stöðum í dagblöðunum. Samliggjandi oft en á ólíkum opnum. Þá var Hilmir þegar orðinn frægur og nefið á Hilmi var slúðurfrétt; Hilmir í Hamlet var menning. (Sama lögmál gilti um tennur og nef og flesta líkamshluta; sennilega hét það „Dægurmál“ eða eitthvað álíka). Og rasistakellingar-fara-í-mál-við-flugfélög var „moli“ einhvers staðar annars staðar í blaðinu. Ef efnið var of intellektúalt fór það í Lesbókina – sem var ekki sama og menningarsíðurnar. Ef það var póststrúktúralísk greining á viðtökum almennings gagnvart endurkomu nefs Hilmis Snæs var það greinaflokkur. Með heimildaskrá. Þótt það væri í raun bara um nefið á frægum manni. Sem væri snúið heim.
17 ára ég las allar dægurmálafréttirnar en fannst þær samt furðu plássfrekar og skildi ekki þá frekar en nú hvers vegna ég var að lesa þetta. Svona einsog maður skilur ekki alltaf hvernig nammiskálin fer að því að tæmast eða hvers vegna manni líði einsog maður hafi ekkert étið nema sykur svo dögum skipti.
Munurinn er ekki endilega fólginn í lág- og hámenningu þótt þetta snúist um fræga fólkið og sé auðvitað alltaf svolítil lágkúra – ekki málefnin sem slík, hvorki nefin né tennurnar, heldur botnlaus áhugi okkar á nefum og tönnum. Þannig var umfjöllun um sjónvarpsþátt oftast menningarumfjöllun en umfjöllun um ástarlíf leikarana í sama sjónvarpsþætti almennt ekki menningarumfjöllun – þótt hún ætti snertiflöt við menningarlífið.
Reyndar hvarflar að mér að tengingin þarna á milli sé trúarleg – ef við trúum á kvikmyndastjörnur einsog við trúum á guði og gyðjur, sem ég held að við gerum, þá eru dægurmálaskáldin Hómerar samtímans. Um þetta mætti áreiðanlega skrifa safaríka grein í Lesbókina ef hún væri ennþá til. Og þegar ég hugsa út í það var hún áreiðanlega skrifuð einhvern tíma.
Þá er ótalin önnur tegund af menningarumfjöllun sem er menningarpólitík. Nú standa til dæmis yfir deilur um framtíð Kvikmyndaskóla Íslands sem eru mjög plássfrekar í menningardálkum fréttasíðna. Þær eru mikilvægar og þær eru mikilvægar fyrir menninguna en þær eru annars eðlis en umfjöllun um menningarafurðir.
Ég veit að einstaka blaðamanni er uppsigað við menningarumfjöllun sem er ekkert nema pöff-pís – kynning/upphafning á verki/listamanni – og vilja finna á hana fréttavinkilinn. Sem er t.d. augljós í nefmálinu – þar er ósátt, deila, hot topic (líkamssmánun) og meira að segja lausn. „Nýr sjónvarpsþáttur í sjónvarpinu“ er ekki jafn augljós frétt og þótt slíkar fréttir séu stundum sagðar þá eru þær líka í grunninn óréttlátar – hvers vegna fá ekki allir sjónvarpsþættir þannig umfjöllun? Það er helst að þeir sjónvarpsþættir sem taki einmitt fyrir eitthvað hot topic – Adolescence er nýjasta dæmið – geti fengið þess lags aukaumfjöllun sem er þó ekki endilega vegna þess að þeir séu góðir heldur vegna þess að efni þeirra á einhverja beinni snertifleti við „ytri heiminn“ eða þær áhyggjur sem drífa áfram fréttalestur („er allt að fara til andskotans?“) Það er hægt að ræða við sérfræðinga um það hvort ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af raunverulegum börnum, það er hægt að rifja upp sambærileg mál úr raunveruleikanum o.s.frv. Sem er ekki jafn auðvelt með … segjum bara Hamlet. Þótt hann fjalli reyndar líka um þjáð ungmenni með minnimáttarkennd sem kostar aðra lífið.
Þá er líklega mjög eðlilegt fyrir listamenn sem vilja athygli að leita uppi kastaraljósið – finna hvað það er sem vekur á þeim athygli. Maður verður ekki frægur nema maður kunni það og vilji það (a.m.k. innst inni – slagsmál fræga fólksins við frægðina eru víst ekki einföld).
Einn munur á sænskri og íslenskri menningarumfjöllun er að af og til er reynt að koma af stað uppnámi í s´ænska menningarheiminum – á meðan sá íslenski er meira í því að lægja öldurnar svo allir í skóginum séu vinir og viðheldur þannig ráðandi fagurfræði og valdastrúktúr („öldur í skóginum?“ ég ber fyrir mig að ég sé áhugamaður um góða nykrun). Um daginn stakk t.d. einn af stóru menningarritstjórunum upp á því að allar bókmenntahátíðir væru blásnar af enda væru þær hundleiðinlegar. Það kallaði á fjaðrafok – og gáfulegar varnir. Tvær hlaðvarpskonur tóku upp á því að verðlauna „slátrun ársins“ í bókmenntagagnrýni – það hefur verið mjög hress debatt, m.a. um það til hvers gagnrýni sé. Einhver tók saman „bækur vikunnar“ hjá Dagens Nyheter og komst að þeirri niðurstöðu að auðveldasta leiðin til þess að koma skáldsögunni sinni á þann lista væri að vinna fyrir Dagens Nyheter eða þekkja fólkið sem stendur að listanum. Það þarf að hafa auga með nepótismanum (nú er reyndar nepó-hugtakið orðið alveg máttlaust í sænska menningarheiminum – enginn slagkraftur). Af og til snýst þetta líka um fagurfræðilegan ágreining – t.d. um orðalag í þýðingum eða að það sé of mikið af hinu og þessu í tísku (allir að skrifa um mömmu sína, allir að skrifa óskýrt og dreymandi, allir að skrifa krimma). En þetta er alltaf einhver að leita að fæting. Íslendingar eru átakafælnari – ekki endilega blaðamennirnir en menningarfólkið. Kannski vegna þess að við erum færri og nándin er meiri. Um daginn kastaði Hermann Stefánsson t.d. hanskanum – grýtti honum vígreifur í gólfið – í langri grein sem allir lásu en enginn deildi, allir hvísluðu um en enginn ræddi. Enginn tók upp hanskann, sem liggur þarna enn. Og það virðist enginn vita hvað eigi að gera við hann.
Sjálfsagt er nálægðin ekki eina skýringin. Sænskur menningarheimur er ekki svo miklu stærri en íslenskur og fólkið sem tekst þar á er oft í sams konar nálægð. Þetta er líka spurning um menningarmun. Íslendingar sjá sig oft sem skoðana- og átakaglaða en ég er ekki viss um að það sé raunsætt mat. Við erum mjög fljót að þagna þegar umræðan kemur að einhverju sem er hið minnsta viðkvæmt. Þar sem einhver gæti orðið sár. Og ef einhver snertir við hinu viðkvæma garga annað hvort allir saman í kór (eða tveimur gagnstæðum kórum) í fáein augnablik án þess að maður í raun greini orðaskil – og raunar mikið til þess að afvegaleiða umræðuna, til þess að tala um sárindin sem slík – eða að allir bara þegja og stara út í loftið.
Og kannski er munurinn sá að sænsk menning er ekki alveg mónókúltúr. Maður gerir ekki út af við sig á sama hátt þótt maður lendi upp á kant við einhvern. Það er ekkert voða mikið af fólki sem stýrir t.d. íslenskum bókmenntaheimi – að hverju kastljósið leitar – og það er allt meira og minna úr sömu klíkunni. Ef hún afskrifar mann fyrir vandræði er maður sjálfsagt bara doldið fucked.
Annars vil ég bara óska Hilmi til hamingju með nýja nefið. Flott nef.
Þarna í vinstra horni uppi er Glasnevin kirkjugarður. Bloom stendur einn.
En er eg hafði beðizt fyrir og heitið á draugasæginn, tók eg kindurnar og skar þær á háls ofan í gröfina svo dökkur dreyrinn rann; flykktust þá að vofur hinna dauðu drauga neðan úr Myrkheimi: ógefnar meyjar og frumvaxta sveinar, raunamædd gamalmenni, og ungar stúlkur, hugsárar af nýfengnum harmi: margir vopnbitnir menn, vegnir með eirslegnum spjótum, og báru blóðstorkin vopn; þeir komu flokkum saman úr sinni átt hverr, og flykktust að gröfinni með geysimiklum gný; greip mig þá bleikur ótti.
Úr 11. þætti Ódysseifskviðu
Í kviðu Hómers fer Ódysseifur til undirheima – eða særir þá eiginlega fram – og fær þar að vita hvernig sé best að komast heim til Íþöku og að ástæðan fyrir óförum hans hingað til sé sú að Póseidon sé að refsa honum fyrir að hafa blindað son hans, kýklópann Pólyfemus.
Þemað í kaflanum hjá Joyce er einsog gefur að skilja dauðinn. Við höfum vitað frá því í fyrsta kafla að Leopold Bloom er á leiðinni í jarðarför Paddys Dignam klukkan 11. Kaflinn hefst á því að Bloom – sem er nýkominn úr tyrkneska baðhúsinu – og vinir hans, Jack Power, Martin Cunningham og Simon Dedalus, stíga upp í hestvagn sem mun flytja þá þvert yfir bæinn upp í Glasnevin kirkjugarð, þar sem Dignam verður jarðsunginn.
Lesendur Joyce þekkja alla þessa menn. Simon er auðvitað pabbi Stephens – sterkgáfaður, íronískur, skemmtilegur en dómharður og hræðileg fyllibytta sem er flestum í lífi sínu til óþurftar. Hann hefur verið nefndur fyrr í bókinni og kemur líka fyrir í Portrait of the Artist as a Young Man. Power og Cunningham koma fyrir í smásögunni Grace úr Dubliners. Þar reyna þeir, ásamt M’Coy úr síðasta kafla, að fá Tom Kernan til þess hætta að drekka. Við vitum af frásögu M’Coy í síðasta kafla að Tom Kernan er á bender – svo þetta plan hefur ekki tekist sem skyldi.
Okkur verður síðan fljótt ljóst á tóni samræðanna í vagninum að þótt mennirnir fjórir séu vinir þá er Bloom utanveltu. Hinir þrír eru meiri vinir – Bloom er bara „með“.
Vagninn ferðast yfir fjórar ár – eða tvær ár og tvö síki – einsog það eru fjórar ár í Hades.
Eitt af því fyrsta sem gerist er að gömul kona gægist út um gluggatjöld á þá sorgarklæddu félagana í vagninum – „Nefið hvítflatt á rúðunni“ – og Bloom hugsar að þær (konur, væntanlega) séu líklega „glad to see us go we give them such trouble coming“.
Á leiðinni sjá þeir Stephen sem er á leiðinni niður á Sandymount strand – þar sem hann dólar í þriðja kafla (á þessum stað í bókinni renna sögur þeirra saman í tíma). Klukkan er rétt tæplega ellefu að morgni. Bloom kemur auga á Stephen og nefnir það við félaga sína og Simon spyr hvort „lubbinn hann Mulligan“ hafi verið með syni hans í för – og rantar síðan yfir því hvað Stephen umgangist mikinn „trantaralýð“ og kallar Mulligan samansaumaðan falskan djöfuls fant. „I’ll tickle his catastrophe, believe you me“ þýðir SAM skemmtilega sem „Sanniði til, ég skal dusta á honum drundinn.“ Þetta eru bæði svívirðingar sem ég ætla að hafa á hraðbergi héðan í frá.
Annað þema í kaflanum er vel að merkja hræsni – Simon er alger lubbi og landeyða sjálfur og á lítið með að dæma aðra.
Stephen er vel að merkja líka svartklæddur – klæddur sorginni – einsog mennirnir á leiðinni í jarðarförina. En Stephen er svartklæddur til lengri tíma – í ár minnir mig – því hann syrgir móður sína. Stephen og Bloom eru sem sagt báðir í sorgarklæðnaði alla bókina og báðir lyklalausir.
Reiðikast Simons verður til þess að Bloom fer að hugsa um sinn eigin son og hvernig það væri að eiga hann 11 ára gamlan í Etonbúningi. „My son. Me in his eyes. Strange feeling it would be.“ Og svo fer hann að hugsa um það hvernig hann kom undir. Þá hafði Molly staðið við gluggann og fylgst með hundum eðla sig og kallað á Leopold. „Give us a touch, Poldy. God I’m dying for it.“ Það er alveg ljóst að Bloom telur þetta ekki hafa verið fyrirmyndargetnað og hann tekur það samt alfarið á sig að sonur þeirra hafi dáið („If it’s healthy it’s from the mother. If not from the man.“)
Þeir spjalla um hverjir komi í jarðarförina. Martin Cunningham spyr hvort þeir hafi lesið ræðu Dan Dawson’s í blaðinu – Bloom segir nei og tekur upp blaðið en er sagt að líta á þetta síðar (ræðan kemur aftur upp í næsta kafla). Hann skannar þess í stað dánartilkynningarnar. Svo lætur hann hugann reika og augnabliki eftir að honum verður hugsað til Mollyar og Blaze Boylan („He’s coming in the afternoon. Her songs.“) sér Cunningham Boylan og reynir að heilsa honum en fær ekkert svar. („Just that moment I was thinking.}
Herra Bloom skoðaði neglurnar á vinstri hendi sér, síðan þeirri hægri. Neglurnar, já. Er eitthvað meira í hann spunnið sem þeir hún sér? Hrifning. Versti maður í Dyflinni.
Bloom dvelur aldrei lengi við þessar hugsanir um Boylan og Molly. Ekki einu sinni þótt félagar hans fari í framhaldinu að spyrja hann út í söngferðalagið.
Um leið og þeir aka framhjá styttunni af þjóðernissinnanum sir John Gray sjá þeir mann sem er lýst svo: „Hávaxinn svartskeggjaður maður hökti kengboginn við staf sinn.“ Okkur skilst fljótt að þetta sé gyðingur og okurlánari að nafni Reuben J. Dodd og hafa félagarnir um hann ljót orð en segja líka að þeir hafi allir einhvern tíma þurft að snúa sér til hans eða „Well, nearly all of us“, segir Martin Cunningham. Bloom er auðvitað gyðingur og þeir telja greinilega að það þýði að hann sé ekki líklegur til að verða fórnarlömb félaga sinna. Þarna undirstrika þeir hressilega að Bloom er ekki einn þeirra. Kaldhæðnin er svo reyndar líka að Reuben J. Dodd var raunverulegur maður og alls ekki gyðingur þótt margir héldu það. Bloom byrjar ákafur að segja slúðursögu um Reuben og son hans – sem hafi verið í kvennavandræðum og hafi átt að flytja til Manar – en hinir eru alltaf að grípa fram í og á endanum tekur Martin Cunningham að sér að klára söguna, sem er þannig að strákurinn reyndi að drekkja sér á leiðinni en bátsmaðurinn bjargaði honum og fékk eina flórínu að launum (sem þykir smánarlegt).
Jack Power notar tækifærið til þess að fordæma sjálfsmorð – engin smán sé meiri. Cunningham maldar í móinn og talar um tímabundna geðbilun og maður verði að líta á þetta af samúð. Bloom ætlar að segja eitthvað en hættir við. Hann hugsar vel til Cunninghams og nefnir að hann eigi í svolítið erfiðu hjónabandi – konan hans er áfengissjúklingur sem hefur í sexgang selt undan þeim húsgögnin til þess að fjármagna drykkju sína, en alltaf kaupir hann ný „Það gæti fengið steinhjarta til að bráðna.“
Í síðasta kafla komumst við að því að pabbi Blooms er dáinn og það var voðalegt og „kannski honum fyrir bestu“. Nú áttum við okkur á því – í hugsunum Blooms – að hann framdi sjálfsmorð – drakk eitur á hótelherbergi. Og skildi eftir bréf til sonar síns.
Vagninn tefst dálítið þegar þeir mæta nautgripahjörð sem er á leið til slátrunar. Bloom spyr hvers vegna borgin sé ekki með sporvagna til þess að flytja svona nautgripi niður að höfn. Cunningham tekur undir. Þá bætir Bloom um betur og stingur upp á útfararsporvögnum til að flytja syrgjendur í kirkjugarðinn (og nefnir að þannig sé í Mílanó). Power lýst ekkert á það en hinir eru heldur jákvæðari og Cunningham segir að þá myndu ekki gerast atvik einsog einu sinni þegar líkvagni hvolfdi og kistan „skopraði“ út á götuna.
Nú byrjar Bloom aftur að hugsa. Ímyndar sér að vagninn með Dignam velti. Spyr sig hvort líkum geti blætt. Íhugar að fara að heimsækja Millý í Mullingar. En afræður svo að láta það vera: „She mightn’t like me to come that way without letting her know. Must be careful about women. Catch them once with their pants down. Never forgive you after. Fifteen.“ Millikaflinn þarna um konur með buxurnar á hælunum á augljóslega líka við um Molly.
Næst koma þeir að stað þar sem framið var morð og ræða það – morðinginn var sekur en sýknaður. Bloom veltir fyrir sér hrifningu fólks á svona löguðu. „Menn eru sólgnir í að lesa um það. Mannshöfuð finnst í garð. Hún var klædd í. Hvernig hún varð við dauða sínum. Síðasti glæpurinn. Vopnið sem beitt var. Morðinginn gengur enn laus. Vísbendingar.“
Eitt sem er vert að nefna: Bloom er alltaf með sápuna sem hann keypti handa Molly í vasanum. Stundum truflar hún hann – hann hefur setið á henni alla ferðina. Nú koma þeir í kirkjugarðinn og hann notar tækifærið til þess að flytja hana í brjóstvasann.
Bloom finnst jarðarförin lítil. Martin Cunningham segir Power frá því að sér hafi dauðbrugðið þegar hann fór að tala um sjálfsmorð fyrir framan Bloom – það kemur í ljós að Power hafði ekki hugmynd um sjálfsmorð föður hans.
Næst fara þeir að ræða líftryggingu Dignams og barnafjöldann sem hann skilur eftir sig. Cunningham ætlar að safna peningum fyrir börnin og Bloom gefur duglega í sjóðinn. John Henry Menton, vinnuveitandi Dignams, hefur skráð sig fyrir pundi.
Séra Coffey les yfir líkinu („I knew his name was like a coffin. Domine-namine.“ Bloom veltir því fyrir sér hvers vegna presturinn sé svona þaninn, einsog hann sé fullur af gasi, og að það hljóti að vera allt fullt af gasi og eiturgufum á svona stað. „Down in the vaults of saint Werburgh’s lovely old organ hundred and fifty they have to bore a hole in the coffins sometimes to let out the bad gas and burn it it. Out it rushes: blue. One whiff of that and you’re a goner.“ Dauðinn: Bráðdrepandi.
Bloom finnst annars lítið til Coffey koma. Finnst þetta allt frekar andlaust og leiðinlegt og virðist ekki alveg skilja hvernig nokkur maður nennir þessu eilífa kirkjuhjakki.
Á einum stað nefnir Simon að „hún“ sé grafin þarna – konan hans, heitin, móðir Stephens – og á öðrum nefnir Bloom að hann eigi reit þarna, þar sem foreldrar hans hvíla, og sonurinn Rudy sem dó ellefu daga gamall.
John Henry Menton spyr hver Bloom sé og Ned Lambert svarar því og þeir virðast sammála um að Molly sé alltof „finelooking woman“ fyrir hann. Menton segist hafa lent upp á kant við Bloom einu sinni í keiluspili. Bætir svo um betur gagnvart Bloom og kallar hann „halanegra“.
Blaðamaðurinn Hynes segir brandara um mann sem kom fullur í kirkjugarðinn að leita að leiði vinar síns og kvartaði svo undan því að jesúlíkneskið við leiðið væri alls ekkert líkt honum.
Bloom hugsar málin einsog honum er vant – hingað og þangað. Hugsar um auglýsinguna fyrir Keyes sem hann þarf að selja. Molly virðist hafa truflað hann þegar hann var að skrifa heimilisfangið á svarbréfið til Mörthu. Hvort það væri hægt að ná sér í „unga ekkju“ á þessum stað. „Ástir innanum legsteina“. „In the midst of death we are in life.“ Svo fer hann að íhuga hvort ekki væri hægt að spara pláss með því að grafa fólk upprétt. Og hvort líkin séu ekki góður áburður – grasagarður borgarinnar er rétt hjá. Einhver hefur sagt honum að valmúi vaxi vel í kínverskum grafreitum og sá valmúi verði besta ópíumið. En það sé auðvitað mikið af möðkum í jörðinni. Hugsar um grafarana í Hamlet (það ku vera stytta af frægum írskum leikara í garðinum, klæddum upp einsog Hamlet).
Og þá er komið að kallinum í Macintosh frakkanum. Regnfrakka hefur SAM það í fyrstu – sem það kannski er – en allavega hefur nafnið þýðingu. Bloom sér hann álengdar og veltir því fyrir sér hver þetta sé. Hann kemur svo aftur og aftur fyrir í bókinni án þess að því sé nokkurn tíma svarað hver hann sé eða neinn eigi (eftir því sem ég man best) nokkur samskipti við hann. Sumir segja að þetta eigi að vera vofan af föður Bloom – einsog vofa föður Hamlets ofsækir hann – aðrir að þetta sé Joyce sjálfur (hann var á kreiki í Dublin þennan dag, 16. júní, 1904, þetta er dagurinn sem hann fór á fyrsta stefnumótið með eiginkonu sinni Noru Barnacle). Því verður aldrei svarað en gátan er þarna. Og Bloom telur „bera hausana“ (karlana) og kemst að því að þeir eru tólf, þrettán með Macintosh-manninum: „Tala dauðans.“
Ofan í gripasporvagna fyrir naut til slátrunar og útfararsporvagna til að flytja líkin í kirkjugarðinn þar sem þau ætti helst að grafa upprétt veltir Bloom því nú fyrir sér hvort ekki sé hægt að straumlínulaga þetta ferli enn frekar:
Aumingja Dignam! Hinsta hvíla hans í jörðinni í þessum kassa. Þegar hugsað er til þeirra allra virðist það vera hreinasta sóun á tré. Allt sundurnagað. Það mætti finna upp fallegar líkbörur með rennibraut og fellihurð svo hægt væri að skurra þeim niður. Já, en þá kynnu menn að heimta hver sína eigin rennihurð. Þeir eru svo smámunasamir.
Í smástund hefur hann svo áhyggjur af því að verið sé að grafa Dignam lifandi. Og stingur upp á lausn á því líka:
Það ættu að vera lög um að hjartað sé gegnumstungið til öryggis eða höfð sé rafmagnsbjalla eða sími í kistunni og einhvers konar loftrenna úr segldúk.
Blaðamaðurinn Hynes kemur og man greinilega ekki hvað Bloom heitir – en spyr bara um fornafnið til að fá bæði. Bloom biður hann að skrifa líka niður nafn M’Coys, einsog hann var beðinn um í síðasta kafla. Hynes spyr hvort hann viti hver þetta sé þarna maðurinn í … „the Macintosh?“ spyr Bloom og Hynes, viðutan, svarar: „M’Intosh. Ég veit ekki hver hann er. Heitir hann það?“ Þegar Bloom svarar er Hynes horfinn á braut.
Það er mokað í gröfina. Syrgjendur halda sinn veg. Félagarnir rölta yfir að gröf „Leiðtogans“ – Charles Stewart Parnell. Sá kemur ítrekað fyrir í Ulysses og raunar hinum ´bókunum líka. Hann var eins konar frelsishetja sem miklar vonir voru bundnar við áður en hann lenti í slaufun fyrir að vera í tygjum við gifta konu (í strangkaþólsku landi). Hann missti æruna en gafst ekki alveg upp en lagði svo hart að sér í næstu kosningabaráttu að hann veiktist – stóð úti í rigningunni of lengi – fékk lungnabólgu og drapst. Hann er einhvern veginn í senn píslarvottur frelsisbyltingarinnar og allar hennar brostnu vonir.
Herra Power segir:
„Sumir segja að hann sé alls ekki í gröfinni. Að kistan hafi verið fyllt grjóti. Að hann birtist aftur einn góðan veðurdag.“
Hynes segir að svo verði ekki. „Friður sé með dufti hans.“
Bloom byrjar aftur að velta vöngum. Hugsar meðal annars um að það þyrfti að taka upp raddir hinna látnu svo maður gleymi þeim ekki.
Eftir mat á sunnudögum. Leggja veslings gamla langafa á fóninn. Kraahraark! Hallóhallóhall, enhvaðþaðergaman kraark virkilegaman hallóhalló égeróg kopþsj. Minnir mann á röddina einsog ljósmyndin minnir mann á andlitið.
Í lok kaflans snýr Bloom sér að Menton til þess að segja honum að hann sé með beyglu í hattinum. „John Henry Menton starði á hann stutta stund án þess að hræra legg eða lið.“ Það er ekki fyrren Martin Cunningham bendir honum á beygluna að hann réttir hana og þakkar (Martin) fyrir.
„Herra Bloom var daufur í dálkinn og dróst nokkur skref afturúr til að heyra ekki um hvað þeir voru að tala.“
Svo ganga þeir að hliðinu og yfirgefa Hades.
Af öllum köflum Ulysses er Hades sá sem á sér flestar beinar samsvaranir í kviðu Hómers. Og þetta er líka fyrsti kaflinn sem Joyce byrjaði að plotta – upprunalega átti þetta að vera smásaga um kokkálaðan gyðing sem fer í jarðarför og þaðan með vinum sínum á krá þar sem gert er lítið úr því að hann sé alvöru Íri (seinni hlutinn kemur síðar). Og hefði þá líklega endað í Dubliners.
Dignam er Elpinor, stríðsmaður Ódysseifs sem datt fullur í sjóinn og drukknaði (það er talað um að hjartað hafi drepið Dignam en af ítrekuðum vísbendingum í gegnum bókina má fullyrða að það sem hafi drepið hjartað hafi verið brennivínsdrykkja).
Cunningham er Sýsifos – sá sem veltir steininum ítrekað upp fjallið til þess að endurtaka leikinn síðar. Konan hans, fyllibyttan, er brekkan og húsgögnin eru steinninn.
Árnar eru fjórar, einsog áður segir.
Reuben, sem gaf bátsmanninum flórínu – bátsmaðurinn er Karon (sem þiggur mynt til að flytja menn yfir Styx – sú mynt er gjarnan lögð á augu hinna látnu).
Séra Coffey er hundurinn Cerberus – honum er lýst sem hundslegum. Og það er bara fyrir hans orð/blessun sem maður fær að fara yfir í ríki hinna dauðu.
John O’Connell – raunverulegur maður – er umsjónarmaður kirkjugarðsins og sjálfur Hades, undirheimakóngur. Hades er giftur frjósemisgyðju og kona O’Connells hefur borið honum átta börn.
Parnell er Agamemnon – hjúskaparbrot kostuðu hann lífið (Agamemnon er reyndar myrtur af eiginkonu sinni og elskhuga hennar).
Menton er Ajax sem neitaði að tala við Ódysseif út af einhverjum gömlum smámunum.
Og svo framvegis.
Við færumst sífellt nær Bloom, sem er einhvern veginn alltaf í senn þjakaður en samt að axla byrðina. Hann er ægilega breyskur og mannlegur og það er alveg lífsins ómögulegt annað en að finna til með honum. Honum finnst að hann hafi stuðlað að dauða sonar síns. Konan hans er að fara að halda framhjá honum. Dóttir hans, sem hann er náinn, er að fjarlægjast og fullorðnast. Vinir hans eru lélegir vinir. Hann er gyðingur og Írar hafa upp til hópa fordóma gagnvart gyðingum. Og hann er gyðingur en samt kaþólikki og á ekkert samneyti við aðra gyðinga (í sláturhúsinu um morguninn ætlar hann eitthvað að fara að tala við slátrarann, sem er gyðingur, en lætur það svo vera á síðustu stundu). Og finnst trúarbrögð öll hálfgert húmbúkk – en samt stundum vinalegt húmbúkk. Borgin í kringum hann er þjökuð af áfengissýki og fátækt en hann hefur ekki einu sinni vit á að drekka það frá sér. Og einsog honum finnst þetta allt erfitt sligar það hann ekki – það sigrar hann ekki – það er einsog hann andvarpi svolítið, sjái ljósu hliðarnar, dökku hliðarnar, skrítnu hliðarnar, og taki svo annað skref, haldi áfram. Honum þykir augljóslega vænna um fólkið í kringum hann en fólkinu þykir um hann og kannski líður honum betur þess vegna – það fyllir hann a.m.k. ekki beiskju. Hann nýtur kærleikans og sennilega er það kærleikinn sem bjargar honum.
Bloom fær hins vegar engar vísbendingar um það í heimi hinna dauðu um það hvernig hann eigi að komast heim, né heldur fær hann neinar upplýsingar um það hvers vegna allt gangi á afturfótunum hjá honum. Það er ekkert samsæri, enginn Póseidon sem hefur lagt á hann bölvun. Ég held ég taki samt undir með bloggaranum „Kelly“ á Blooms&Barnacles sem skilur kaflann svona:
The rituals on offer to soothe the grief of losing a friend are of no use to Bloom because he doesn’t believe in their power – they’re simply a bunch of nominedomines. He doesn’t have intimate connections with his fellow mourners to lean on for support. Even poor Paddy seems like an acquaintance at best. Odysseus traveled to the underworld to learn his fate from the seer Tiresias, but Bloom leaves Glasnevin with no such illumination. He re-emerges, instead, with the knowledge of pain of the living world and his place within it. He is not engulfed in supernatural horror or a fear of hell. He does the most life-affirming thing that he can: he goes on living.
* * *
Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar.
Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.
Að gefa út ljóðabók og bíða eftir viðbragði er einsog að sleppa grjóti ofan í brunn og bíða eftir skvampi, bergmáli, myrkrinu sjálfu. Óratorrek fékk á sínum tíma ekki umfjöllun fyrren það var búið að þýða hana á sænsku.
Annars á ég líka smásögu í nýjasta TMM. Það er enn lengra síðan ég hef gefið út smásögu en síðan ég gaf út ljóðabók. Talið í áratugum, ekki árum.
Kannski segir það eitthvað um ástandið á mér. Ég sagði upp áskriftinni minni að Snöru og veit því ekki hvernig maður segir regression á móðurmálinu. Ég geng í barndóm. Slít fullorðinsskónum. Stíg aftur í gömul fljót. Klappandi með annarri.
Annars er ég alltíeinu að vinna að þremur verkefnum eftir að hafa verið villuráfandi um skeið.
Í bænum er að bresta á með Fossavatnsgöngu. Mjög mikið af skrítnum íþróttatýpum á ferli. Ég held að svona gönguskíðafólk sé miklu furðulegra en listamenn. Að minnsta kosti álengdar. Í gær birtust öldruð hjón í líkamsræktarstöðinni og gengu milli tækja horfandi á allt og alla. Hann var með bláa lambhúshettu – inni. Lét hökuna standa út. Og í morgun sá ég mann um sextugt sem hoppaði til skiptis á hvorum fæti – fimm hopp á einum, fimm hopp á hinum – niður alla götuna. Sjálfsagt verið að hita sig upp. En gangan er ekki fyrren á laugardag. Þá verður hann orðinn sjóðheitur.
Sjálfur fór ég út að hlaupa og meiddi mig í hásininni. Ekki mikið en nóg til þess að taka því allavega rólega fram yfir helgi.
Púslið. Þarna hægra megin má sjá Stephen horfa út á hafið á Sandymount Strand og fyrir ofan hann er Bloom að horfa upp pilsið hennar Gerty McDowell, þar fyrir ofan er flugeldasýningin og svo þessir elskendur undir vitanum sem ég er ekki alveg viss hvað sé – Blazes Boylan er reyndar með svona hatt – en mér finnst ég eigi að vita þetta og það rifjast ábyggilega upp.
Þótt kaflarnir í Ulysses eigi sér samsvaranir í köflum Ódysseifskviðu þá birtast þeir ekki í sömu röð. Hins vegar byrja sögurnar og enda á svipuðum stað. Segja má að atburðarásin sé í réttri (eða réttari) röð hjá Joyce af því stór hluti Ódysseifskviðu er Ódysseifur að rekja raunir sínar fyrir Alkinóa í endurliti. Því má svo halda til haga að Joyce skrifaði ekki nein kaflaheiti inn í bókina, þeir eru bara kallaðir þetta (Próteus, Kalypsó, Lótusæturnar o.s.frv.), út frá skema sem Joyce sannarlega gerði – og þetta eru lausar vísanir en ekki harðar, Ulysses er ekkert paint-by-numbers og það er ekki víst að allir lyklar í Hómer opni neitt hjá Joyce.
Hvað sem því líður er fimmti þáttur Ulysses Lótusæturnar.
Í kviðu sinni segir H´ómer frá því er Ódysseifur kom að eyju „Lótófaga“. Þar tók hann land og sendi menn sína að athuga með heimamenn, sem reyndust meinlausir en gáfu mönnunum lótus að éta. Lótusinn gerði þá svo værukæra að þá langaði ekki lengur að sigla heim. Ódysseifur dró þá aftur út í skip („svo nauðugt, að þeir grétu“) með hörðu og hreinlega batt þá við árarnar.
Joyce notar þessa sögu sem stökkpall að því að skrifa um vímu og það sem kalla mætti sjálflækningar – ópíum fólksins í víðustu skilgreiningu: lótusinn sem slævandi meðal við óförum hins mennska ævintýris. Og sendir sinn Ódysseif – Leopold Bloom – edrú af stað:
By lorries along sir John Rogerson’s quay Mr Bloom walked soberly, past Windmill lane, Leask’s the linseed crusher, the postal telegraph office.
Þýðing SAM – sem er að mestu leyti frábær, fyrir utan að vera þrekvirki – hefur þetta „rölti ráðsettur“ sem mér finnst alls ekki nógu gott. Það er kannski ekki auðvelt að þýða „soberly“ en það þyrfti samt að hafa vísun í að vera allsgáður – og rölti er allavega of kæruleysislegt. En þetta er auðvitað hálfóþýðanleg bók og þótt ég hnýti hér af og til í lausnir SAM þá er það úr óþægilega þægilegri stöðu manns sem þurfti ekki að gera þetta sjálfur, hefði aldrei getað það og aldrei einu sinni þorað.
Það fyrsta sem Bloom sér er reykjandi smástrákur með fötu af görnum (það er óljóst hvort hann er kyrr, t.d. að hreinsa garnirnar, eða hvort hann er að flytja þær eða hvað – en margir lesa í þetta eitthvað, af einhverjum orsökum, og fullyrða í allar áttir hvað hann hafi verið að gera). Bloom íhugar að segja honum að ef hann hætti ekki að reykja hætti hann að vaxa en ákveður að láta það vera – l´ífið sé víst nógu erfitt án þess að fullorðnir karlar séu nöldrandi yfir smámunum (les: leyf fólkinu að njóta sinna lótusblóma). Svo gengur hann áfram og fer framhjá The Belfast and Oriental Tea Company – sem hefur augljósar tengingar við lótusinn. Þá dagdreymir hann um te og ilmolíur og um ljúfa lífið í austrinu þar sem allt sé betra en heima í eymdinni.
Í kaflanum á undan fengum við að vita að Bloom væri með eitthvað í hattinum. Nú kemur hann á pósthús, tekur fram hlutinn – nafnspjald – réttir afgreiðslumanninum. Nafnið á nafnspjaldinu reynist vera dulnefni Blooms – Henry Flower. Henry fær greinilega ekki sín bréf heim einsog Leopold heldur á pósthúsið. Áður en Bloom er afhent bréfið óttast hann að hann hafi kannski gengið of langt í síðasta bréfi og það verði ekkert svar. En það reynast sem sagt óþarfa áhyggjur.
Hann stingur bréfinu á sig og áður en hann fer skoðar hann auglýsingaskilti frá hernum á veggnum. Bloom, sem selur auglýsingar, er alltaf að skoða auglýsingar og lesa texta (þetta er eitt af því sem ég tengi mest við – ég er meira að segja gjarn á að lesa upphátt á skilti þegar ég er á gangi, samferðamönnum mínum til undantekningalausrar ánægju og upplýsingar). Þar lýsir hann hermönnunum meðal annars svona: „Half-baked they look: hypnotised-like.“ Altso, þeir hafa greinilega komist í lótusinn.
Næst rekst Bloom á kunningja sinn, M’Coy að nafni. Sá kom meðal annars fyrir í smásögunni Grace í Dubliners þar sem hann fékk það hlutverk að reyna að fá Tom Kernan nokkurn til að hætta að drekka. Bloom virðist ekki mikið um hann gefið og það er sterklega gefið í skyn að hann sé þjófóttur (og steli skjalatöskum, hvað sem það á að þýða). M’Coy segist hafa rekist á tvo aðra menn sem við þekkjum líka úr Dubliners – Bob Doran, sem þar sængaði hjá konu og lét svo móður hennar neyða sig til að giftast henni og hefur síðan hrunið mjög hressilega í það einu sinni á ári og drekkt þannig sorgum sínum; og Bantam Lyons, sem birtist þar mest í framhjáhlaupi. Þetta er í sögunni The Boarding House. M’Coy færir Bloom þær fréttir að Bob Doran sé á rassgatinu. Hann blaðrar og blaðrar og á meðan er Bloom að reyna að girnast með glyrnunum óþekkta konu handan götunnar.
High brown boots with laces dangling. Well turned foot. […] He moved a little to the side of M’Coy’s talking head. Getting up in a minute.
„Getting up in a minute“ á auðvitað líka við Bloom og hans … ástríður, skulum við segja … en það á aðallega við að konan er að stíga upp í hestvagn (og þá missir hann sjónar á henni).
Svo spyr M’Coy hvað sé að frétta af Molly og þá fer Bloom (enn eina ferðina) að hugsa um auglýsingu – í þetta sinn slagorð:
What is home without Plumtree’s Potted Meat? Incomplete. With it an abode of bliss.
Það þarf vonandi ekki mikið ímyndunarafl til þess að skilja hvað þetta dósakjöt á að fyrirstilla. Og einsog við vitum verður Molly innan skamms alsæl. Alsæluð. Og við vitum að það er ekki Bloom sem alsælar hana og er sennilega ekki einu sinni fær um það.
SAM þýðir slagorðið þannig að það sé „dugleg húsfreyja“ sem sé „stygg og stúrin“ án dósakjötsins – og sú þýðingaskekkja verður kannski til þess að vekja athygli mína á því sem þarna stendur aðeins nákvæmlegar: Það er ekki bara húsfreyjan heldur heimilið sem er ekki fullkomnað án „dósakjötsins“. Og á þessu heimili á Leopold líka heima og raunar Milly einnig – það er heimilisfriðurinn sem er í húfi, ekki bara nautn húsfreyjunnar. Og sennilega er það þess vegna sem Bloom gerir ekkert í því þótt hann viti að Molly eigi von á Blazes Boylan.
Bloom svarar M’Coy og segir að hún sé að fara í söngferðalag og M’Coy – sem greinilega veit allt, Dublin Joyce er slúðurtunna – spyr: „Who’s getting it up?“ Aftur er hér standpínulíking – og þetta „up“ er gegnumgangandi í bókinni uppfrá þessu, shorthand fyrir standpínu, a.m.k. í minni sóðalegu túlkun (Joyce er oft með góðar fjarvistarsannanir fyrir sínum dónaskap, þótt það sé alls ekki alltaf þannig) – en í bókstaflegri merkingu er M’Coy auðvitað bara að spyrja um skipuleggjandann. Sem vill til að er sami maður og væntanlegi elskhuginn, flagarabeinið hann Blazes Boylan.
M’Coy nefnir að konan hans sé líka söngkona og það er augljóst á hugsunum Blooms (eftir að M’Coy er farinn) að honum þykir sá samanburður ekki alveg eðlilegur – enda séu þær fullkomlega ósambærilegar konur og enn ósambærilegri söngkonur (Bloom-hjónunum í hag – Leopold metur sína konu mjög hátt og elskar hana heitt).
Loks ræða þeir jarðarför Dignams og M’Coy biður Bloom að láta skrá sig „á samúðarlistann“ („put down my name at the funeral“ er það í orginalnum – blaðamaðurinn Hynes tekur niður nöfn fyrir grein í blaðinu, þar sem þuldir eru upp viðstaddir). M’Coy segist ætla að reyna að koma en það er greinilegt að hann ætlar alls ekki að reyna.
Bloom gengur áfram. Sér auglýsingu (!) fyrir leikhús. Frú Bandman Palmer leikur Leu í kvöld en lék Hamlet í gærkvöldi.
Male impersonator? Perhaps he was a woman. Why Ophelia committed suicide?
Það er dálítið um kynskipti síðar í bókinni – en þetta er áhugaverðast fyrir þær sakir að seinna mun Stephen líka eiga í löngum samræðum um eðli Hamlets (sú kenning var að vísu viðruð stuttlega minnir mig í upphafsköflunum í Martello-turni). Sú kenning snýst eiginlega um að Hamlet sé afi sinn – og á meta-levelinu um það hver sé staðgengill Joyce í Ulysses. Og ef Hamlet getur verið kona þá geta aðrir í feðgatvennum Joyce líka verið það – Dedalus/Íkarus, Bloom/Rudy, Bloom/Stephen, Hamlet/kóngurinn, Ódysseifur/Telemakkos, Stephen/Simon og svo framvegis.
Upp úr þessu verður Bloom hugsað til pabba síns og það er ljóst að pabbi hans er dáinn og það hefur bæði verið voðalegt og „kannski var það honum fyrir bestu“.
Tvisvar á göngutúrnum fer Bloom að raula lögin sem hann veit að Molly er að fara að syngja – flagarasönginn úr Don Giovanni og Love’s Old Sweet Song. Þannig – og á fleiri vegu – sjáum við að ástarfundur hennar með Blazes Boylan er honum alltaf ofarlega í huga án þess að hann hafi beint orð á honum.
Bloom stoppar afsíðis við lestarstöðina og dregur upp bréfið til Henry Flower. Það reynist frá konu sem kallast Martha Gifford (sem er kannski ekki áreiðanlegra nafn en Henry Flower – hún svaraði víst upprunalega kalli eftir ritara í smáauglýsingu). Martha segist mjög reið og sér þyki leitt að honum hafi ekki líkað síðasta bréf frá henni. Svo talar hún um að refsa honum, kallar hann „naughty boy“, spyr hvenær þau geti hist, biður um lengra bréf (og endurtekur að hún muni refsa honum ef hann hlýði ekki). Í ps.inu biður hún hann að segja sér hvers konar ilmvatn konan hans noti.
Sennilega er þetta eini staðurinn í kaflanum þar sem segja má að Bloom ölvist. Martha er hans lótus – eða kannski perversjónin sem slík, að gera það sem er bannað. Við sjáum það auðvitað ekki utanfrá, af því við erum í hausnum á Bloom, en það má gera sér það í hugarlund útfrá textanum (það var blóm fast við bréfið, hann heitir Bloom, kallar sig Flower, svo er l´ótusinn auðvitað blóm):
Angry tulips with you darling manflower punish your cactus if you don’t please poor forgetmenow how I long violets to dear roses when we soon anemone meet all naughty nightstalk wife Martha’s perfume.
Hins vegar íhugar hann hvort hann eigi að hitta hana og ákveður að gera það ekki. „Thank you: not having any.“ Heilindi Blooms eru lykilatriði í persónuleika hans – hann vill gjarnan stíga á ´línuna en aldrei yfir hana.
Í kjölfarið rifjar hann upp dónavísu um tvær drósir sem týndu títuprjóni úr nærbuxunum sínum og gátu ekki haldið þeim uppi („keep it up“). Aftur, þetta up, en nú líka tengt vergirni kvenna.
Næst hugsar hann aðeins um kapítalismann og ekki síst gróðann af ölgerð. Þá sér hann auglýsta messu hjá séra John Conmee og ráfar þar inn. Séra Conmee var raunverulegur maður og birtist undir sínu eigin nafni bæði hér og í A Portrait of the Artist as a Young Man – Stephen leitar til hans eftir að séra Dolan hýðir hann (og fer frá honum sáttur við að séra Dolan verði áminntur). Nema hvað. Bloom hlýðir á messuna, veltir fyrir sér guðdómnum – sem reynist vera enn einn lótusinn (nema hvað). Ekki bara messuvínið (sem hann segir „aristókratískara“ en hefðbundnari drykkir, svo sem Guinnes) heldur líka skriftirnar og allt hitt:
Confession. Everyone wants to. Then I will tell you all. Penance. Punish me, please. Great weapon in their hand.
Eftir messuna þarf hann að drífa sig. Hann hefur lofað að láta útbúa smyrsli fyrir Molly og fer í apótek – þar er allt fullt af lótus, auðvitað, lyfjum og jurtum og allra handa smyrslum. Bloom reynist ekki muna uppskriftina að smyrslinu en reynir að rifja hana upp og kemur einhverju upp úr sér. Hann er ekki með flösku undir smyrslið en ætlar að koma aftur síðar – hann gleymir því þegar þar að kemur – tekur með sér sápu líka og lyfsalinn segir best að hann borgi bara bæði þegar hann komi til að sækja smyrslið. Lótusinn veldur vel að merkja gleymsku hjá Hómer – smyrslið (sem tengist kannski ilmvatninu sem Martha spurði út í – er allavega vellyktandi) hverfur ofan í óminnishegrann.
Fyrir utan rekst hann á Bantam Lyons. Sá fær lánað dagblað sem Bloom er búinn að vera með í höndunum frá því hann fór að heiman. Bantam vill skoða veðhlaupasíðuna og athuga með eitthvað franskt hross. Bloom svarar að hann hafi ætlað að henda blaðinu – „throw it away“ – Bantam hváir hressilega – og Bloom endurtekur að hann hafi ætlað að henda því. „Ég tek áhættuna“segir Bantam og rýkur í burtu. (Síðar kemur í ljós að það er hross sem heitir Throwaway í keppninni – og Bantam heldur að Bloom hafi verið að gefa honum heitt tipp um hver vinni veðhlaupin – sem eru enn annar lótusinn – og koma ítrekað upp í bókinni).
Bloom dregur engan með sér aftur út á sjó, bindur engan við árarnar og enginn fer að gráta. Allir halda bara áfram að taka sinn lótus og slævast. Hann ákveður hins vegar að fara í tyrkneska baðhúsið og þrífa sig fyrir jarðarförina og kaflinn endar á þessum sjálfsástarorðum, þar sem hann sér sjálfan sig fyrir sér í baðinu (sem er kannski einhvers konar brottsiglingarlíking):
He saw his trunk and limbs riprippled over and sustained, buoyed lightly upward, lemon-yellow: his navel, bud of flesh: and saw the dark tangled curls of his bush floating, floating hair of the stream around the limp father of thousands, a languid floating flower.
* * *
Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar.
Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.
Ég hef nefnt að Kalypsó væri eftirlætiskaflinn minn í Ulysses. Frásagnaraðferðin er passlega brjáluð og talsverður léttir eftir erfiðan Proteus, þar sem intellekt hins unga Stephens fær að skríða í yfirgír. Og það sem meira er, í Kalypsó kynnumst við líka fyrst aðalsöguhetju bókarinnar, auglýsingasölumanninum Leopold Bloom, sem og eiginkonu hans, söngkonunni Molly – sem er einhvers konar nöf í bókinni, eða hjarta hreinlega, viðfang lengst af en fær svo að vera innilegasta og kannski byltingarkenndasta persónan fyrir rest. En það er þessi rólegi, hlýi, snjalli og passlega pervertíski hugur hans Leopold Blooms sem birtist hér – og það er af honum sem ég hrífst. Frásagnaraðferð Joyce – að skjóta inn hugsunum hér og þar, oft án þess að útskýra við hvað þær eigi, og taka þær svo aftur upp aftur af og til í skeytastíl – gerir tvennt. Annars vegar birtist heildarmyndin af sögunni hægt sem veldur því líka að þegar hún er kominn á skrið er skriðþunginn mikill. Hins vegar þá performerar hún miklu eðlilegri upplifun af heiminum en gerist í hefðbundnum skáldsögum og því fylgir alveg furðulega mikil nánd – þegar maður er kominn inn. Manni finnst ekki bara að maður þekki Leopold Bloom þegar maður er búinn með Ulysses, eða að maður hafi leikið hann – manni finnst pínulítið einsog maður hafi verið hann. Það eru töfrar.
Leopold og Molly búa á Eccles stræti nr. 7. Leopold er nývaknaður, stendur í eldhúsinu, hugsar til morgunverðar og sinnir kettinum – og fílósóferar um ketti einsog hann fílósóferar um allt, hversdagslega og mótsagnakennt og vinalega en án þess að ritskoða sig. Fyrst segir hann ótrúlegt að fólk telji ketti vitlausa, hún sem skynjar allt, hugsar hann, en í næstu setningu segir hann köttinn alveg hræðilega vitlausan. Og sér enga ástæðu til þess að hafa orð um mótsagnakenndar hugsanir sínar.
Molly liggur í rúminu – og sést raunar lítið annars staðar alla bókina. Leopold spyr hvort hún vilji eitthvað í morgunmat og hún svarar með einhverju muldri „mn“ og raunar má halda því til haga að kötturinn svarar honum með álíka mjálmi svo enginn talar við Leopold með orðum fyrstu síðurnar, þótt hann tali og aðrir svari með sínum hætti. Og þótt Molly og kötturinn muldri bara og mjálmi þá skilur Leopold alltaf hvað þau eru að reyna að segja. Hans helsta karaktereinkenni – ofan í lágværa skömm og greddu – er samlíðan, þolinmæði og skilningur gagnvart verum heimsins og þeirra mjálmi.
Muldur Mollyar þýðir nei, hún vill ekkert (mjálm kattarins var já, ég er svangur). En Leopold, sem hefur kaflann á að lýsa dálæti sínu á innyflamat, ákveður að fara til slátrarans til að kaupa sér svínsnýra sem hann hyggst steikja með smjöri og pipar. Slátrarinn er, vel að merkja sennilega gyðingur – og selur samt svínsnýru – og Leopold er sjálfur af gyðingaættum í föðurætt og á það eftir að skipta máli í sögunni.
Hjá slátraranum kynnumst við fyrst holdlegum fýsnum Leopolds sem horfir á konuna fyrir framan sig í röðinni með sinni sérstöku tegund af greddu, sem er einhvern veginn alltaf í senn kurteisleg og ruddaleg (Woods er nafnið á vinnuveitanda stúlkunnar, sem hann virðist kannast við – en það er líka standpína, hér og síðar).
His eyes rested on her vigorous hips. Woods his name is. Wonder what he does. Wife is oldfish. New blood. No followers allowed. Strong pair of arms. Whacking a carpet on the clothesline. She does whack it, by George. The way her crooked skirt swings at each whack.
The ferreteyed porkbutcher folded the sausages he had snipped off with blotchy fingers, sausagepink. Sound meat there like a stallfed heifer.
Þetta er mjög holdlegt allt án þess að Leopold sé mikið að tala um hana beint. Viðurinn. Nýtt blóð. Flengingarnar. Pylsur og pylsulitir fingur. „Beinlaust hold þarna, einsog á stríðaldri kvígu“ (einsog það er´ í þýðingu SAM). Örlitlu síðar beinir hann orðum sínum beint að henni – þegar hann langar að drífa sig og elta hana út til að geta horft á eftir henni – „behind her moving hams. Pleasant thing to see first thing in the morning.“
Leopold er dálítið með kynlíf á heilanum. Það skýrist að hluta af því að þau Molly hafa ekki átt holdlegt samneyti frá því þau misstu nýfæddan son sinn, Rudy, ellefu árum fyrr, og sorgin sem því fylgir veldur því að Leopold óttast að eignast annað barn. Það er gefið í skyn að hið sama gildi um Molly en hún virðist ekki láta óttann stoppa sig (og raunar er ekki ólíklegt að Leopold finni ekki til sama ótta gagnvart öðrum konum – en hann er engu að síður uppteknari af að horfa og að eiga í fjarsamböndum).
Það er einhvers konar masókisti líka í Leopold – ekki bara í mottuflengingarfantasíunum. Þegar stúlkan hjá slátraranum er horfin án þess að gefa honum auga til baka hugsar hann: „The sting of disregard glowed to weak pleasure within his breast.“ Og í upphafi kaflans þegar hann er að tala um hvað hann elski innyflamat endar hann málsgreinina á orðunum: „Most of all he liked mutton kidneys which gave to his palate a fine tang of faintly scented urine.“ Þráin og nautnin í Leopold eru alltaf blönduð einhverju létt pervertísku – einhverju blæti – og það er alltaf dálítil bæling með líka. Á leiðinni heim þráir hann líka að komast aftur í návígi við hold Mollyar – sem hann mun samt ekki snerta. Hann langar að langa og langar að neita sér um úrlausn sinna fýsna.
Þegar Leopold kemur aftur heim bíða tvö bréf og eitt póstkort í anddyrinu. Annað bréfið og póstkortið eru frá Milly, dóttur Leopolds og Molly – bréfið til pabba en póstkortið til mömmu. Hitt bréfið er frá Blazes Boylan sem er kaupsýslumaður og umboðsmaður og verðandi elskhugi Mollyar. Það er margoft gefið í skyn að Leopold geri sér grein fyrir að þau séu að draga sig saman og hann er af einhverjum orsökum ekki beinlínis mótfallinn því, þótt hann sé kannski ekki heldur hrifinn af því. Hugsanlega er það vegna væntumþykju fyrir Molly, hugsanlega vegna þess að hann hafi haldið framhjá sjálfur og sé með samviskubit, hugsanlega vegna þess að þetta framhjáhald sé bara allt orðið normalíserað, hugsanlega bara af því hann er masókisti. Í bréfinu kemur fram að Blazes sé væntanlegur klukkan 16 (þessi kafli gerist sirka milli 8 og 9 að morgni).
Molly er vel að merkja minniháttar stjarna. Hún er söngkona á leiðinni á túr með Blazes. Það virðast allir í bókinni þekkja til hennar og margir dást að henni og hugsanlega þrá hana og einhverjir telja sig kannski vita að Leopold sé kokkáll – það er reglulega gefið í skyn. Hún þykir enn afar fögur – hún er 33 ára (en Leopold 38).
Leopold spyr hvað hún eigi að syngja og hún nefnir La Ci Darem – sem er tælingarsöngur úr Don Giovanni – og Love’s Old Sweet Song sem er lag um að jafnvel hin þreyttu og öldnu þurfi að elska.
Molly er búin að lesa bók sem heitir Ruby, Pride of the Ring – sem er ekki raunveruleg en mun eiga sér fyrirmynd í sögu um stúlku sem er misnotuð í sirkus – og biður Leopold að útskýra fyrir sér orð sem hún rakst á í bókinni – metempsychosis – sálflutning þann sem á sér stað við endurholdgun. Leopold útskýrir það en man ekki orðið „reincarnation“ fyrren seinna. Svo biður hún hann að útvega sér nýja bók eftir sama höfund.
Molly biður svo Leopold að útvega sér „aðra bók“ eftir mann sem heitir Paul de Kock („nice name“ segir hún, sem er talsvert óbældari en maður hennar). Sá var franskur metsöluhöfundur sem skrifaði bókmenntir sem þóttu heldur ómerkilegar – þunnildisleg afþreying – en vakti sennilega öfund meðal kollega sinna því bæði Dostójevskí og Thackeray sáu sér ástæðu til þess að hreyta í hann ónotum (ein af söguhetjum Dostó í Fátæku fólki segir meira að segja að bækur Paul de Kocks séu ekki „við hæfi kvenna“ – sem gerir hann auðvitað að viðeigandi höfundi fyrir Molly).
Bæði Ruby og de Kock eiga eftir að skjóta upp kollinum í hugsunum Leopolds yfir daginn.
Nýrað er farið að brenna á pönnunni þegar Leopold stekkur aftur niður í eldhús. Þar tekur hann til morgunverðinn og les bréfið frá dóttur sinni. Milly, 15 ára, er í Mulligar á ljósmyndanámskeiði. Hún hefur það gott á námskeiðinu, hefur kynnst dreng og Leopold veltir því fyrir sér hvort hún sé byrjuð að gera dodo með strákum.
Í lok kaflans tekur Leopold með sér tímarit á kamarinn. Þar kúkar hann „í hægðum sínum“, fremur grafískt, og les smásögu í blaðinu. Hann öfundar höfundinn af höfundalaununum og lætur sig dreyma um að skrifa sjálfur í blaðið – jafnvel með Molly. Þannig á hann, einsog Stephen, sína eigin skáldadrauma.
Quietly he read, restraining himself, the first column and, yielding but resisting, he began the second. Midway, his last resistance yielding, he allowed his bowels to ease themselves quietly as he read, reading still patiently that slight constipation of yesterday quote gone. Hope it’s not too big bring on piles again.
Þeir draumar botna þó í því að Leopold rífur söguna úr blaðinu og skeinir sér með henni. Ef það er ekki táknrænt fyrir eitthvað þá er ekkert táknrænt fyrir neitt.
Kaflinn endar á orðunum „Poor Dignam“ – sá hefur verið nefndur tvisvar á hlaupum – klukkan 11 ætlar Leopold að fara í jarðarför þessa kunningja síns. Af þeim sökum endar Leopold lyklalaus – lyklarnir eru í hversdagsbuxunum – einsog Stephen (sem lætur Buck Mulligan fá sinn lykil).
Í Kalypsó hluta Ódysseifskviðu lendir Ódysseifur – sem er að reyna að komast heim til Íþöku – hjá dísinni Kalypsó sem heldur honum föstum og býður honum eilíft líf í skiptum fyrir að vera hjá sér. Hún heldur honum föngnum í heil sjö ár og neyðir hann til að sofa hjá sér. Það er ýmislegt sem rímar í þessum frásögum þótt allt krefjist það dálítilla túlkunarfimleika. Maður upplifir Leopold ekki beinlínis fastan í hjónabandi sínu – nema að svo miklu leyti sem allir eru fastir í hjónabandi kaþólskunnar á þessum tíma – og ekki neyðir Molly hann til samræðis. Auk þess er Eccles stræti augljóslega ekki bara eyja Kalypsó heldur líka Íþaka – þangað stefnir hann aftur. Ódysseifur er að koma heim úr Trójustríðinu en Leopold hefur ferðalag sitt á sama stað og það endar. En kannski sér Joyce hjónabandið sem kalypsóskt ástand og Leopold sem mann sem er meðvirkur með örlögum sínum – ófær um að sjá kvöl sína öðruvísi en sem nautn. Í Ódysseifskviðu grípa guðirnir inn í og láta Kalypsó sleppa Ódysseifi en í Ulysses fer Leopold einfaldlega af stað til að sinna erindum dagsins – ekki síst þessari jarðarför hans Dignams. Kannski er það dauðinn að frelsa hann. Dauðinn sem vili guðanna.