Biðfár

Það er óþolandi að sitja og bíða þess að bók, sem maður er búinn að skrifa, komi út. Ég hefði aldrei átt að klára hana fyrren á síðasta séns – hefði átt að skila handritinu í ágúst og fá hana út í byrjun september. Með klækjabrögðum og frekju.

Ég veit ekki af hverju ég hef áhyggjur. Mér var hossað nóg fyrir lífstíð vegna síðustu bókar – ég hugsa að ég myndi alveg lifa það af þótt allir hötuðu þessa (sem er ósennilegt, þetta er frábær bók!). Kannski leiðist mér bara; hef ekki alveg í mér eirð til að byrja á nýrri bók en ætli ég neyðist ekki samt til þess. Ég á líka hálfa ljóðabók hérna og hálfa plokkfiskbók, sem vilja báðar láta klára sig – en ég veit ekki hvort ég myndi lifa af að vera búinn að skrifa tvær bækur sem hvorug er komin út.

Reyndar bíða mín nokkrar greinar og fyrirlestrar; líklega er best að ég gangi frá því áður en lengra er haldið. Ég þarf líka að átta mig á því hvernig ég svara fyrir Heimsku – til þess, meðal annars, er þetta blogg. Það dugar víst ekki lengur að skrifa bækur maður þarf líka að geta lýst þeim. Spurningin ómar í höfðinu á mér, fyrsta spurningin sem allir spyrja: um hvað er bókin? Ég hef í raun ekki hugmynd, en það er heldur ekkert nýtt – ég hef ekki heldur hugmynd um hvað Illska er, eða Gæska eða nein hinna. Þaðan af síður ljóðabækurnar.

Mestu skiptir að drepa tímann. Framtíðin lætur ekki bíða eftir sér að eilífu.

Ath. Höfundur er ekki á Facebook og svarar því ekki athugasemdum.