Úr Snúið aftur úr stríði

Fyrir utan hermannaskálanna
bíður fólkið kvíðafullt
líkt og þegar trompetið kalli
sé stríðinu lokið
Eftirlifendurnir snúa aftur
Í fjarlægð má sjá glitta í hertrukkana,
byssurnar eru hífðar upp langsum
yfir höfuð hermannanna,
líkt og þær fljóti upp að hálsum þeirra
Þetta eru leifar þeirra sem enn eru í fullu fjöri
Axlir eru án axlaskúfa
búningar án hnappa,
handleggir þeirra eins og árar í uppþornuðum árfarvegi
væla Nói, Nói, Nói
Leifar þeirra sem enn eru í fullu fjöri.
Á samkomu sem þessari
grætur enginn tapaða útlimi.
Minnstu manneskjutætlur eru nóg.
Það sem skiptir mestu er að vera á lífi,
tapaðir útlimir skipta engu.

Hver einasti kjaftur á hertrukkunum
er talinn lifandi og dauður – bæði í senn
Lifandi og dauður bæði í senn
Óvissa og vissa,
líf og dauði,
eru nú samofin.
Eftir augnablik verður sannleikurinn ljós,
hinir dauðu verða að eilífu dauðir,
og hinir lifandi lifa að hluta.
Krítísku augnablikin tvístra, þykist ég vita,
þau geta frelsað, eða drepið, tafarlaust
í þrumandi skyndingu, grípa þig óforvarendis
eins og flóð, þú færð engan fyrirvara
til að safna saman eigum þínum
eða klæða þig.
Á samkomu sem þessari
verða gleði og harmur fljótt sitthvor hluturinn
og sjálfselskan sýnir sig
vera öflugasti þáttur mannlegs eðlis.

Hún er eins og bátur sem tekur á sig brot
kona sem leitar að syni sínum
er eins og bátur sem tekur á sig brot.
Skammt undan, faðmlag
svo þétt að
það verður aldrei rofið.
Veislur og útfarir
eru nágrannatré
Fingur þeirra fléttast saman,
en mikið eru þau ólík.

Salah Niazi
Þýðing: EÖN úr enskri þýðingu höfundar.