
Þegar Ódysseifur kemur heim til sín á Íþöku mæta honum „vonbiðlarnir“ sem hafa breytt heimili hans í svallhýsi og níðst á eiginkonu hans, ambáttum, þrælum og öðrum heimilismönnum um árabil. Ódysseifur er þá dulbúinn sem betlari og vonbiðlarnir gera fátt annað en að gera grín að honum – kasta t.d. í hann húsgögnum þegar þeir eru orðnir vel fullir. Penelópa, sem hefur haldið vonbiðlunum í skefjum allan þennan tíma og neitað að samþykkja að giftast neinum þeirra, ákveður að halda keppni – sá sem getur dregið upp boga Ódysseifs og skotið ör í gegnum röð af axaraugum fær hönd hennar (hún veit sennilega vel að þetta getur enginn nema Ódysseifur sjálfur – eitthvað er gefið í skyn að Aþena hafi komið þessari hugmynd að hjá henni, frekar en að Penelópa átti sig sjálf á því að betlarinn sé eiginmaður hennar). Á sama tíma hafa Ódysseifur og Telemakkus sonur hans – sem veit hver betlarinn er í raun og veru – falið öll vopn í húsinu. Vonbiðlunum mistekst fyrirsjáanlega að draga upp bogann en Telemakkus og Penelópa krefjast þess að betlarinn fái líka að prófa – og auðvitað tekst honum það.
Bandaríska kvikmyndafyrirtækið TSG Entertainment notar þetta augnablik í lógói sínu, sem sýnt er á undan öllum þeirra kvikmyndum og margir ættu að kannast við:
Nú kastar Ódysseifur af sér dulbúningnum.
Þér hugsuðuð, hundarnir, að eg mundi eigi framar heim aftur koma frá Trójulandi, og þess vegna eydduð þér búi mínu, nauðguðuð ambáttunum til samlags við yður, og báðuð konu minnar, að mér sjálfum lifanda, án þess þér óttuðuzt guðina, þá er byggja hinn víða himin, eða skeyttuð hið minnsta um að þetta mundi á síðan mælast illa fyrir af mönnum. Nú er yður öllum einnegin bráður bani búin.
Svo slátrar hann bæði vonbiðlunum og öllum sem þeim hafa þjónað og hlýðir ekki á neinar afsakanir – en vægir þó Medon, kallaranum, fyrir orð sonar síns og söngmanninum Femíusi sem kastar sér um fætur hans, því hann metur svo að báðir hafi verið þvingaðir til að þjóna vonbiðlunum. Sá hluti ambáttanna sem hefur legið með vonbiðlunum – verið nauðgað til samlags, einsog Ódysseifur orðar það sjálfur – nýtur ekki sömu miskunnar.
Gangist nú fyrir því, að valurinn sé út borinn, og segið ambáttunum að gera það. Þar næst skuluð þér láta þvo hina fögru hástóla og borðin úr vatni með gljúpum njarðarvöttum. En þá er þér hafið látið koma öllu í lag innan hallar, þá skuluð þér leiða ambáttirnar út úr hinni gólfföstu stofu, og út í sundið milli hvolfklefans og hinnar traustu forgarðsgirðingar, og höggva þær þar með langeggjuðum sverðum, þar til þér hafið tekið þær allar af lífi, og þær hafa gleymt þeim ástarhótum, er þær nutu af launmökum sínum við biðlana.
Þær tólf sem eru sekar um þessi launmök eru svo látnar taka til og þrífa eftir blóðbaðið – Ódysseifur hefur drepið eitthvað á annað hundrað manns. Svo fer Telemakkus með þær út í forgarð en í stað þess að höggva þær með langeggjuðum sverðum, sem honum þykir „heiðarlegur dauðdagi“ nær hann í kaðal.
Það fór fyrir þessum ambáttum, líkt og fer fyrir vængjalöngum þröstum eða skógardúfum, sem ætla í hreiður sitt, en lenda þá í einhverri snörunni, sem lögð hefir verið í viðarrunninn, og mega svo gista þar, þó illt þyki. Allteins héngu ambáttuirnar uppi við kaðalinn með höfuðin í röð, en um háls þeim voru snörur, til þess þær skyldu deyja aumkvunarlegum dauðdaga; þær sprikluðu fótunum litla stund, en þau fótalæti voru ekki lengi.
Þegar þessu er lokið er geitahirðirinn Melanþíus, sem hefur verið vonbiðlunum innan handar og svívirt Ódysseif, leiddur út, skornar af honum nasir og eyru „með hörðu járni“, þá slitið undan honum og því kastað fyrir hunda, auk þess sem hendur og fætur eru hoggnar af honum í „heiftarhug“.
Þótt þetta sé nú allt að sönnu Ódysseifslegt er Penelópa enn ekki viss um að Ódysseifur sé Ódysseifur og leggur fyrir hann eitt lokapróf. Hún biður ambátt sína að færa rúmið þeirra hjóna – og Ódysseifur bregst strax við og bendir á að húsið allt er byggt utan um þetta rúm, sem er hluti af „langlaufguðu viðsmjörstré“ sem var fullvaxið og „digurt sem máttsúla“. Það er ekki hægt að færa þannig rúm. Hleypur Penelópa þá grátandi í fang manns síns.
***
Kannski dvaldi ég óvenju lengi við Hómer í dag vegna þess að þýðing Emily Wilson var til umræðu á FB í vikunni – og einhver AI-skrifuð samantekt á gagnrýni þar sem því var haldið fram að eldri þýðendur Ódysseifskviðu hefðu allir breitt yfir þessar nauðganir og hrottaskap með því að velja „snyrtilegri“ orð en „ambátt“ og „nauðgun“ í sínum þýðingum. Sveinbjörn snyrtir þetta allavega ekki mikið og mér er raunar til efs að það sé hægt með því einu að hnika til fáeinum orðum – allavega væri það talsvert afrek að láta þetta líta vel út. Hrottaskapurinn er ekki bara í einu og einu orði.
En að Joyce. Kaflinn sem kallaður er Íþaka – en er nafnlaus líkt og aðrir kaflar Ulysses – er í katekísku formi. Katekisminn í kristinni kirkju vísar til fræðslukvera þar sem sagt er frá fyrirbærum og sögum með spurningum og svörum. Og þannig er kaflinn uppsettur og ferðum og samtölum Dedalusar og Blooms lýst:
Did Bloom discover common factors of similarity between their respective like and unlike reactions to experience?
Both were sensitive to artistic impressions, musical in preference to plastic or pictorial. Both preferred a continental to an insular manner of life, a cisatlantic to a transatlantic place of residence. Both indurated by early domestic training and an inherited tenacity of heterodox resistance professed their disbelief in many orthodox religious, national, social and ethical doctrines. Both admitted the alternately stimulating and obtunding influence of heterosexual magnetism.
Klukkan er eitthvað rúmlega tvö. „Feðgarnir“ eru á leiðinni heim til Blooms – á Ecclesstræti 7 – þar sem mig minnti þangað til í gær að Dedalus hefði gist, en hann afþakkar gistinguna í lok kaflans og fer eitthvert, enginn veit. Á þessu ætti maður ekki að vera að flaska svona síðla leiks.
Einsog hefur verið nefnt nokkrum sinnum eru þeir báðir lyklalausir menn – Stephen lét Buck Mulligan fá sinn lykil en Bloom, sem fór í spariföt vegna jarðarfarar Dignams um morguninn, gleymdi sínum lykli í hinum buxunum. Hann er auðvitað enn með böggum hildar út af framhjáhaldi Mollyar fyrr um daginn – þess vegna, meðal annars, er hann með Stephen í eftirdragi, sem eins konar tilfinningalegan böffer – og vill ekki vekja hana. Og honum kemur ráð í hug. Hann klifrar yfir grindverk og lætur sig síga niður á kjallaralevel hússins – það er eitthvað niðurgrafið útisvæði þar – og kemst inn um opnar þvottahúsdyrnar. Og fer svo og opnar fyrir Stephen.
Þeir fá sér sæti í eldhúsinu. Bloom þvær sér með sítrónusápunni sem hann keypti (en greiddi aldrei fyrir) fyrrum daginn. Stephen, sem er vatnshræddur og hefur ekki þvegið sér svo mánuðum skiptir, afþakkar sápuna og Bloom stillir sig um að predika yfir honum um hreinlæti. Hér og þar eru ummerki um Boylan í eldhúsinu, meðal annars veðreiðaseðil frá kapphlaupinu þar sem Throwaway vann. Þeir fá sér kakó og þegja dálitla stund. Bókin rifjar upp fyrsta fund þeirra þegar Stephen var fimm ára og neitaði að heilsa sem og annan fund þeirra þegar Stephen var tíu ára og þeir náðu betur saman – og Stephen bauð honum meðal annars í mat (og pabbi hans tók undir) en Bloom afþakkaði. Síðan hafa þeir lítil samskipti átt. Það kemur líka fram að Stephen er 22 ára og Bloom 38 ára.
Svo eru alls kyns þankar um tengsl þeirra tveggja, líkindi og ólíkindi í atferli, uppeldi og menntun og við komumst meðal annars að því að þeir voru skírðir af sama manninum. Reyndar hefur Bloom, sem er ungverskur gyðingur að ætterni, verið skírður alls þrisvar sinnum. Fyrst til lútersku, í írsku þjóðkirkjuna, svo við einhverja aðra athöfn sem sennilega var á vegum sömu kirkju, og svo loks til kaþólsku þegar hann giftist Molly. Þeir eru báðir vel að merkja trúlausir.
Þeir syngja hvor fyrir annan – Simon á gelísku en Bloom á hebresku – skrifa upp bókstafi (á næstöftustu síðu Sweets of Sin) og ræða muninn á ættbálkum íra og gyðinga. Bloom biður Stephen að syngja meira og hann tekur upp á því að syngja lag með sterkum andsemitískum undirtónum um mann sem er krossfestur af gyðingum (maðurinn heitir ekki Jesús samt, hann heitir Hugh). Það hefur samt farið vel á með þeim og það breytist ekki mikið við þetta – en Stephen er kannski eitthvað að spyrna á móti væntumþykju Blooms (hvað er þessi miðaldra karl líka að draga hann heim til sín um miðja nótt?).
Eftir smá vangaveltur um Millý – sem spretta af tali um dóttur gyðingsins í laginu – kemur að því að Bloom býður Stephen að gista.
Was the proposal of asylum accepted?
Promptly, inexplicably, with amicability, gratefully it was declined.
Þá tekur Bloom upp peningana sem hann var að geyma fyrir hinn ofurölvi Stephen frá því í Nighttown og greiðir honum allt til baka – einsog hann sé að leika staðalmyndina af hinum gráðuga gyðing á röngunni. Þeir ræða framtíðarsamskipti og maður fær það á tilfinninguna að úr þeim verði lítið – hér skilji leiðir með Bloom og Stephen, sem verði aldrei faðir og sonur, þótt þeir séu sonarlausir og föðurlausir.
Svo fara þeir saman út að pissa.
What spectacle confronted them when they, first the host, then the guest, emerged silently, doubly dark, from obscurity by a passage from the rere of the house into the penumbra of the garden?
The heaventree of stars hung with humid nightblue fruit.
Næst koma einhver ósköp af vísindalegum upplýsingum um himinhvolfin áður en þeir snúa sér að sjálfum þvaglátunum. Stephen mígur hærra en Bloom mígur lengra. Bloom ku hafa verið mikill afreksmaður í þessari íþrótt á sínum yngri árum.
Að lokum kveðjast þeir og sjást aldrei aftur, svo við vitum til.

Bloom læðist inn í hús og rekur sig í húsgögnin, sem hafa verið færð vegna píanóæfinga samhliða mökum dagsins (vonbiðlarnir grýttu húsgögnum í Ódysseif, en Bloom gengur á þau sjálfur í myrkrinu). Bloom brennir reykelsi og hreinsar heimilið. Hann býr sig undir að fara í háttinn – tekur eftir brúðkaupsgjöfum á arinhillunni, íhugar bækurnar í hillunni sinni, við fáum lista yfir þær allar, hann sér mynt og við fáum bókhald yfir útgjöld dagsins (en það vantar víst ýmislegt inn í bókhaldið, hvað sem það á að þýða). Bloom fer úr stígvélunum og rífur bút af tánögl stóru táar, fer að hugsa um draumaheimilið sitt og hvernig hann gæti haft efni á því. Næst er listað fyrir okkur allt innihaldið í skúffum hans – þar kennir ýmissa grasa, þar eru t.d. grófar kristilegar klámmyndir („anal violation by male religious (fully clothed, eyes abject) of female religious (partly clothed, eyes direct“) og bréf frá Josie Breen og smokkar og alls konar opinber skjöl. Þar á meðal eru hlutabréf sem sýna að Bloom hefur nokkrar aukatekjur – hann fagnar þessu og íhugar hlutskipti sitt glaður. Textinn þylur upp alls konar fólk sem hefur það ekki jafn gott. Bloom rifjar upp daginn stuttlega með sjálfum sér og heldur svo upp til Molly.

Bloom skríður upp í hjá Molly og finnur þar meðal annars fyrir formi Boylans – einsog dýnan hafi sigið – og svo „flakes of potted meat, recooked“ sem hann fjarlægir. Þau hjónin sofa til fóta hvort hjá öðru. Bloom veltir því fyrir sér hverjir komi fyrstir og hverjir svo – á metafýsískan hátt, enginn kemur fyrst, enginn kemur svo – og hugsar svo um alla elskhuga Mollyar í gegnum tíðina (listinn er sennilega meira hans eigin ímyndun en eitthvað annað) og víkur loks illum hugsunum að Boylan. Hann er afbrýðissamur og öfundar hann af því að hafa notið ásta með Molly – sem hann er ófær um að gera sjálfur – en finnur líka til ákveðinnar róar yfir því sem honum þykir þrátt fyrir allt eðlilegur gangur náttúrunnar (að leita sér fróunar). Hann beygir sig fram og kyssir Molly á „melónurnar“ – rassinn – og hún rumskar. Hann segir henni frá deginum sínum – nefnir ekki Gerty McDowell eða Borgarann eða Josie Breen eða eitt og annað fleira. Hér kemur fram að þau hafa ekki stundað kynmök árum saman – sennilega ekki frá því áður en sonur þeirra (sem lést 11 daga gamall) fæddist.
Svo endar þetta svona (hlustandinn er Molly; Bloom er sögumaður):
What moved visibly above the listener’s and the narrator’s invisible thoughts?
The upcast reflection of a lamp and shade, an inconstant series of concentric circles of varying gradations of light and shadow.In what directions did listener and narrator lie?
Listener, S. E. by E.: Narrator, N. W. by W.: on the 53rd parallel of latitude, N., and 6th meridian of longitude, W.: at an angle of 45° to the terrestrial equator.In what state of rest or motion?
At rest relatively to themselves and to each other. In motion being each and both carried westward, forward and rereward respectively, by the proper perpetual motion of the earth through everchanging tracks of neverchanging space.In what posture?
Listener: reclined semilaterally, left, left hand under head, right leg extended in a straight line and resting on left leg, flexed, in the attitude of Gea-Tellus, fulfilled, recumbent, big with seed. Narrator: reclined laterally, left, with right and left legs flexed, the index finger and thumb of the right hand resting on the bridge of the nose, in the attitude depicted in a snapshot photograph made by Percy Apjohn, the childman weary, the manchild in the womb.Womb? Weary?
He rests. He has travelled.With?
Sinbad the Sailor and Tinbad the Tailor and Jinbad the Jailer and Whinbad the Whaler and Ninbad the Nailer and Finbad the Failer and Binbad the Bailer and Pinbad the Pailer and Minbad the Mailer and Hinbad the Hailer and Rinbad the Railer and Dinbad the Kailer and Vinbad the Quailer and Linbad the Yailer and Xinbad the Phthailer.When?
Going to dark bed there was a square round Sinbad the Sailor roc’s auk’s egg in the night of the bed of all the auks of the rocs of Darkinbad the Brightdayler.Where?
•
Þessi stóri punktur er viljandi en hann vantar víst í sumar prentanir. Hann er svarið við Hvert? augljóslega – en hvað það svar þýðir, nú, því er ósvarað. Þetta er punkturinn fyrir aftan Bloomsdag í einhverjum skilningi – nú sofnar hann, blessaður. En bókin er ekki búin því í síðasta kafla bókarinnar – Penelópu – liggur Molly andvaka.
Íþaka mun hafa verið uppáhalds kafli Joyce. Þetta er kaflinn þar sem við ættum skv. öllum eðlilegum lögmálum frásagnartækninnar að fá svör við öllum þeim spurningum sem hafa plagað okkur í gegnum bókina. Ná Bloom og Stephen saman? Hver er maðurinn í Macintoshfrakkanum? Verður uppgjör milli Bloom og Mollly? En spurningunum er öllum annað hvort svarað „já og nei, gæti verið, hvað finnst þér?“ eða alls ekki. Og það þrátt fyrir að kaflinn sé bókstaflega byggður upp sem spurningar og svör – og þótt alls þess sem er spurt sé sannarlega svarað og það jafnvel mjög nákvæmlega.
Það má spegla þetta í átökum Ódysseifs heima hjá sér. Bloom er auðvitað friðarins maður, annað en Ódysseifur, og drepur engan – hans vonbiðill er löngu farinn og fékk allt sem hann æsktist. Penelópa og Mollý sofa báðar af sér átökin (Aþena svæfir Penelópu). Þær vakna báðar og bera kennsl á menn sína. Penelópa hótar því að láta færa ófæranlegt rúmið þeirra – en Bloom gengur á húsgögn sem hafa verið færð og kemur í rúm sitt saurgað, ekki búið að skipta um rúmfötin, það er far eftir Blazes Boylan í því og einhverjar kjöttægjur að auki. Og í stað þess að vera glæsismíð er það svo lítið að þau þurfa að sofa í því með andlitin ofan í tánum hvort á öðru. Telemakkus er föður sínum innanhandar við slátrunina en Stephen gerir fátt nema spjalla og fara svo fyrir rest – ráfa út í nóttina og óvissuna.
Kannski er það sjálft formið – spurningar sem er svarað, fræðakversformið – sem er heimkynni þeirra allra þriggja, Stephens, Blooms og Joyce. Þessi allt að því pervertíska áfergja í útskýringar og staðreyndir – sem virðist jafnvel verða meiri eftir því sem svörin veita minni eiginlega svarafró, þrátt fyrir að vera beinskeytt og rétt svör, þegar svörin afhjúpa bara meiri spurn, meiri furðu, stærri heim.
Ég hef ekki gert upp við mig hvort ég skrifa næst um Penelópukaflann eða hvort ég fer fyrst og skrifa betur um fyrstu þrjá kaflana, einsog ég var búinn að lofa. Það er eitthvað fullnægjandi við að ljúka þessu á því að skrifa um lokakaflann. Og ég óttast að ef ég skrifi um Penelópu næst þá verði mín freistað að klára aldrei að skrifa um fyrstu þrjá kaflana (sem ég skrifaði um í einni beit þegar ég byrjaði á þessu – og var áreiðanlega mest um fyrsta kaflann en minna um hina tvo, þetta er meira spurning um að editera þá færslu svo hún sé bara um fyrsta kaflann og skrifa svo um hina tvo almennilega).
Við sjáum til.
* * *
Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar.
Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.
* * *
Yfirferðin 2025:
Ulysses: Lestrardagbók, 1. hluti
(Telemakkos, Nestor og Próteus á hundavaði).
Skylla og Karybdís: Je est une autre
Sírenur, væl og reykur: Dyflinni syngur
Auga sjáandans: Þjóðremba og heift
Nekt og fró: Násika á ströndinni
* * *
Eldri bloggfærslur um Ulysses:





