Bodil Malmsten (1944-2015)

Ég kynntist Bodil Malmsten ekki fyrren á lokametrunum – hún kallaði mig „Íslendinginn sinn“ – en ég náði aldrei að hitta hana þótt við skrifuðumst á. Bodil er einhver fyndnasta og skemmtilegasta og grimmasta og beittasta manneskja sem ég hef kynnst á lífsleiðinni, einsog sást vel í verkum hennar bæði í bókum og ekki síður á Twitter. Kannski er hún eina manneskjan sem ég hef kynnst sem mér hefur fundist vera virkilega vitur.

Það voru engar fréttir að hún væri mikið veik – öll síðasta bókin hennar fjallar um það og hún hafði farið og rætt það í fjölmiðlum – og kom því ekki mikið á óvart þegar ég fékk skilaboðin í morgun, frá sænska útgefandanum mínum og vini, Per Bergström, að hún væri dáin. En við erum afskaplega sorgmædd samt. Hún dó í gær, á 100 ára afmæli Cabaret Voltaire – hún hefði lesið eitthvað í það. Ég hafði ekkert heyrt frá henni síðan fyrir jól og leit reglulega við á Twitter til að athuga hvort enn væri lífsmark með henni.

Það er eitthvað lýsandi við að hún elti engan sjálf á Twitter – „No profile, no social interactivity, following nobody, leading only, jag skickar vidare, det är min verksamhet. Att skicka vidare information“ – og undir það síðasta þegar ég kom við á flæðinu hjá henni var ég ekki sjálfur með reikning, heldur var að skolka. Síðasta tístið er 17. janúar – en hún hvarf stundum í nokkrar vikur þegar mikið var að gerast í spítalamálum.

Í fyrra þýddi ég nokkur ljóð eftir hana og birti í ljóðagalleríinu 2015 er gildra – þar hverfur allt, einsog Bodil er horfin, en við komum því að hérna og leyfum því að standa. Því þetta er víst allt sem við eigum núna, leifarnar.

Hennar skál.

—-

Úr Þetta er hjartað (2015)

Mér er svo illt
Hversu illt?
Á skalanum einn til tíu
Hversu illt?
Hvers illt er þér
núna?
Það er sorgarþjálfinn í Ropsten
alla óhelga miðvikudaga
fyrir 15 þúsund kall á tímann
Maður tekur leið 55 á
lokastoppistöðina
Ropsten
Hjarta mitt brestur
Mér er svo illt

Sársaukinn situr í heilanum
segir sorgarþjálfinn
Ekki í hjartanu
Sársauki er bara
tilfinningin
Hugsaðu um eitthvað annað
Andaðu
Einbeittu þér að einhverju utan við sjálfa þig
Sæstu við ástandið
Manneskjan mín er dauð
Ég vil vera dauð

 —

Settu það í orð
segir sorgarþjálfinn
í Ropsten
í Ropsten
í Ropsten
Gráttu!
Láttu það vaða
Talaðu um það
og þá líður þér betur
Mér líður verr
Ég vil fara heim