Fyrirmyndarfjörður

Í fyrsta skipti sem ég kom til Ísafjarðar, steig út úr flugvélinni og horfði í kringum mig, lömdu fjöllin mig í hausinn og spurðu: Hvar í helvítinu hefurðu eiginlega verið? Ég áttaði mig strax á því að ég yrði einhvern tímann að skrifa um þennan stað 

– Jón Kalman Stefánsson, Fréttablaðinu, 15. desember, 2007. 

* * *

Einu sinni fyrir margt löngu síðan hét Ísafjarðardjúp bara Ísafjörður – Ísafjarðardjúpin voru firðirnir inn af honum, Skötufjörður, Hestfjörður, og svo framvegis. Á endanum sneru örnefnavilltir kortagerðarmenn þessu á haus og Ísafjörður varð Ísafjarðardjúp en Ísafjörður innsti fjörður þessa djúps. Þegar danskir kaupmenn tóku síðan að stunda verslun frá Eyri í Skutulsfirði, ysta firðinum, kenndu þeir verslun sína við djúpið þar sem viðskiptavinir þeirra bjuggu, og kölluðu Ísafjarðarverslun. Í fyrstu var byggðin sem myndaðist í kringum þessa verslun kölluð Eyri í Skutulsfirði en á endanum hafði „Ísafjörður“ yfirhöndina. Ísafjarðarnafnið breiddi sig næst – einsog vírus – yfir nágrannasveitirnar til vesturs þegar Ísafjarðarsýsla var mynduð, sem síðar var skipt upp í Norður-Ísafjarðarsýslu og Vestur-Ísafjarðarsýslu. Sú síðarnefnda innihélt engan Ísafjörð – hvorki kaupstaðinn né fjörðinn og lá ekki heldur við Ísafjarðardjúp. Síðar varð svo Ísafjarðarbær til við sameiningu sumra sveitarfélaganna úr Ísafjarðarsýslum. Í dag er enginn staður frá innanverðu Ísafjarðardjúpi norður að Reykjarfirði á Hornströndum, vestur að Lokinhömrum og inn að Dynjanda, sem hefur ekki verið kenndur við þetta nafn. 

* * *

Arnrún frá Felli kallar bæinn Sandfjörð. Rúnar Helgi Vignisson kallar hann Pláss og Jón Kalman Stefánsson Plássið með greini. Böðvar frá Hnífsdal talar um Eyrarkaupstað í Eyrarfirði í sínum drengjabókum. Sögur Guðmundar G. Hagalín gerast í og í kringum Tangakaupstað. Hansdætur eftir Benný Sif Ísleifsdóttur gerist í Arnarfirði. Kvóteyri Reynis Traustasonar er á svæðinu. Sviðinsvík og Óseyri Halldórs Laxness eru í senn kunnuglegar og langt undan. En í Grísafirði eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttir heitir bærinn samt bara Ísafjörður.

Fjölmörg skáldverk sem eiga stór-Ísafjarðarsvæðið að sögusviði gerast síðan bara í ótilteknu „þorpi á Vestfjörðum“ eða „bæ fyrir vestan“ – sem minnir oft á einhvern tiltekinn stað og stundum tvo-þrjá. Gróflega talið er skipt um heiti í þriðja hverju skáldverki og mikilvægustu örnefni látin ónefnd í öðrum þriðjungi – í síðasta þriðjungi eru kaupstaðir nefndir sínum réttu nöfnum. 

* * *

Hér köllum við hann Fyrirmyndarfjörð. Þær sögur sem gerast í Fyrirmyndarfirði eru sögur af samspili kyrrðar og ógnar. Eina stundina er ekkert að gera og þá næstu aftakaveður, það fellur snjóflóð og ferst skip. 

Svo er aftur ekkert að gera, eins langt og augað eygir. 

Og þannig koll af kolli.

* * *

Fyrirmyndarfjörður tilheyrir fortíðinni, ekki síður þegar sagan gerist í samtímanum. Þar skoðum við hver við vorum. Fólk slúðrar um framhjáhöld og smákóngapólitík, þiggur uppáhellt kaffi frá móðurlegri konu sem gengur um með svuntu og skenkir í fanta. Kaffið keypti það í til þess gerðu kaupfélagi, þangað sem það gekk í gúmmístígvélum í lopapeysu og gamalli úlpu. Á leiðinni fór það framhjá frystihúsi og svo stóru einbýlishúsi sem tilheyrir eldri manni sem á bókstaflega allt í bænum, líka fólkið. Næst mætti það manni sem var að verka hákarl og að síðustu átti það orðaskipti við lífsleiða unglingsstúlku sem afgreiddi það um kaffið (Braga). Stúlkan er ólétt og það er eitthvað vesen með pabbann – kannski á hann kærustu, kannski er hann giftur, kannski er hann farinn, kannski eru þau skyld og kannski var barnið ekki getið með samþykki. Annað foreldri stúlkunnar er meðvirkt og hitt er fyllibytta. Þau eru bæði bæld. Allir vinna í slorinu eða einhverri grunnþjónustu nema einn aðkomumaður sem á samt ættir að rekja til bæjarins. Hann er kominn til að reyna að finna sig. 

* * *

Stundum er þetta fábreytileg veröld sem þolir illa eðlilegan fjölbreytileika mannlífsins; og stundum fjölskrúðugt athvarf undan einsleitni borgarinnar. Kynsegin fólk hrekst á brott undan fordómum í Sterk eftir Margréti Tryggvadóttur á meðan allir heimsins kynlegu kvistir virðast koma saman í Stjórnlausri lukku Auðar Jónsdóttur. Fólk hýsir ókunnuga strandaglópa umyrðalaust í Góðum Íslendingum Huldars Breiðfjörð, veröldin er endalaust ævintýri ástar og orða – einsog í 1983 eftir Eirík Guðmundsson – en að sama skapi er þetta veröld þar sem allir sem á annað borð teljast málsmetandi geta ekki þrifist nema í huganum. Allir með vængi stefna burt. Fólkið í Fyrirmyndarfirði er leiksoppar tragískra örlaga sinna og undir slorkóngana sett – frá Grjóti og gróðri Óskars Aðalsteins að Engu slori Rúnars Helga að Brimhólum Guðna Elíssonar. Í þeim tveim fyrstnefndu missa verkakonur fóstur í kjölfar mikillar vinnu – í þeirri síðustu hrekur kvótaslektið verkakonu til sjálfsvígs. Byggðin verður líka eins konar metafóra fyrir krísur einstaklingana sem með henni dvelja, einsog í Djúpinu eftir Bennýju Sif Ísleifsdóttur, Stjórnlausri lukku Auðar Jónsdóttur eða Eftirbát Rúnars Helga Vignissonar. Veðrið er gjarnan óblítt – ef það er ekki beinlínis að murka úr fólkinu líftóruna einsog í Vestfjarðaþríleik Jóns Kalmans Stefánssonar þá má í öllu falli búast við því að fólk verði veðurteppt, einsog kærasti aðalsöguhetjunnar í Vetrarsól Auðar Jónsdóttur, það verði innlyksa í óbyggðum einsog í Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur, það berjist yfir ómokaðar heiðar á Chevrolet Chevelle einsog Hörður Stefáns Mána í Feigð – sem hefur bæði lifað af sjávarháska og snjóflóð – eða það sitji fast í brekku í vetrarhálku á ónegldum Volvo Lapplander einsog Huldar Breiðfjörð í sínum Góðu Íslendingum. Fyrsta nútímalega skáldverkið sem fjallar um svæðið – sem reyndar gerist að mestu nær Lokinhömrum, heimkynnum skáldsins Guðmundar G. Hagalín – er frá árinu 1925 og heitir einmitt Veður öll válynd. Og á 100 árum hefur veðrið ekkert skánað. Hvorki í fjörðunum, sálunum eða bókunum.  

* * *

Aðspurð hvers vegna þau skipti út örnefnum svara skáldin gjarnan eitthvað á þá leið að þótt þau sæki sér innblástur í þorp og bæi, fjöll, fólk og fjörur, vilji þau líka vera frjáls undan aðfinnslum heimamanna eða annarra sem kunnugir eru staðháttum – svo að lesendur festist ekki í samanburði raunveruleika og skáldskapar, sem geri varla annað en að trufla söguna. Þá er alkunna að skáldskapurinn kviknar helst á einhverjum undarlegum stað mitt á milli hins sanna og hins logna – er alltaf hvorugt og bæði í senn – og þar geta þorp sem eru til en á sama tíma ekki-til komið í góðar þarfir. 

 Í viðtali í DV árið 1999 segir Jón Kalman Stefánsson (um söguheim sinn í Dölunum): „[Hann] á sér auðvitað ákveðna fyrirmynd og kallast á við ýmislegt í fortíð minni en því er sem betur fer oft þannig farið að þegar maður horfir til fortíðar getur verið erfitt að greina á milli raunverulegra atburða og ímyndaðra. Ætli óvissan þarna á milli sé ekki oft uppspretta skáldskapar.“

* * *

Skáldaðir kaupstaðir eru (augljóslega) ekki séríslenskt fyrirbæri og það er heldur engin regla að þetta séu smábæir. Gotham, Springfield, Hogsmeade, Castle Rock, Andabær, Cabot Cove og Middlemarch – listinn er endalaus og stundum tilheyra þeir skálduðum löndum í skálduðum heimsálfum á skálduðum plánetum í skálduðum sólkerfum. 

Á Wikipediu er eftirtöldu haldið fram um tilgang skáldaðra borga:

Skáldaðar borgir líkja oft af ásettu ráði eftir raunverulegum stöðum, skopstæla þá eða standa sem tákn fyrir þá, eða sýna af þeim útópíska eða dystópíska mynd sem innlegg í samræðu. Nöfn þessara borga sýna stundum skýrt hvaða borg er höfð að fyrirmynd, til dæmis er Las Venturas, úr tölvuleiknum Grand Theft Auto, byggð á Las Vegas, og í leiknum má sjá mörg þekkt kennileiti borgarinnar, þar með talin spilavíti. Með því að nota skáldaða kaupstaði í stað raunverulegra auka höfundar umtalsvert frelsið sem þeir hafa til þess að beita sköpunargáfu sinni á sögupersónur, atburði og umhverfi á meðan þeir njóta þess á sama tíma að geta farið með lesendur á kunnuglega staði sem þeir bera kennsl á. Skálduð borg frelsar höfundinn undan klyfjum raunverulegrar mannkynssögu, stjórnmála og menningar, og gefur söguþræðinum meira svigrúm, auk þess sem hún kemur í veg fyrir að í textanum felist ófræging á raunverulegu fólki eða þjóðfélagshópum.

Og þá spyr maður sig hvort sögurnar sem sagðar eru um slíka fyrirmyndarstaði séu ekki bundnar sömu lögmálum og annar skáldskapur – eru þær ekki raunsæisbókmenntir, jafnvel þegar þær eru það að öðru leyti? Er „þorpið“ bara myndlíking fyrir stærra samfélag og þar með ekki lengur marktækt sem lýsing á sjálfu sér – ekki lengur þorp sem þarf að vera þorpi líkt? Hvers eðlis eru þær myndir sem málaðar eru upp af íbúum og aðstæðum? Hvaða máli skipta „mistök“ og „rangfærslur“ þegar þorpið er ekki lengur það sjálft? Er hugsanlegt að nýju nöfnin og nafnleysið séu – eða geti verið – fjarvistarsönnun fyrir fullyrðingum um íbúa sem enginn kærir sig um að standa skil á? Ber höfundinum að gæta sín að nota ekki skáldskapinn til þess að einfalda, reka áróður, exótísera eða mála upp fordóma sína sem heilagan sannleik – eða er skáldaða borgin einmitt verkfæri til þess að varpa slíkum alhæfingum fram svo þær megi grannskoða, ískalt og án tilfinningasemi? Verkfæri til þess að segja óþægilega hluti upphátt – með því að rista upp pakkninguna, henda henni og snúa sér beint að innihaldinu? Er yfir höfuð hægt að segja ævintýri eða epíska sögu – eða nokkra sögu – án þess að ýkja hið góða og hið vonda?

Kannski er líka ástæða til þess að spyrja sig hvort höfundar vilji með þessu í senn éta kökuna og eiga hana til góða.

* * *

En ef okkur er þá að einhverju marki ljós tilgangurinn með því að nota raunverulegan stað sem fyrirmynd að ímynduðum stað – hið rótfasta frelsi, hið stabíla flug, kraftur þversagnarinnar – hver er þá tilgangurinn með því að fela örnefnin? Hann skarast augljóslega að einhverju leyti við tilganginn með því að búa til nýtt nafn en hefur á sér annan blæ. 

Þegar sögupersónur eru annars vegar er nafnleysi til marks um einhvers konar sjálfsmyndarkrísu viðkomandi karakters og þykir skapa dystópíska og/eða ljóðræna stemningu. Þá ber að geta þess að þótt nafnlausa sögupersónan sé eðli málsins samkvæmt „dularfull“ þegar hún er í fókus – þegar hún er aðalatriði – þá hefur hún fyrst og fremst praktískan tilgang þegar hún er aukaatriði. Sá sem kemur með póstinn getur vel bara heitið „pósturinn“, sá sem setur fólk í gips „læknirinn“ og svo framvegis, en nafnleysi þess sem ferðast um í kastljósi sögunnar er merkingarbærara. Það að hán heiti ekkert getur verið til marks um að hán vilji dyljast, að hán viti ekki hver hán er eða vilji vera, að hán lifi í heimi sem ber ekki kennsl á hán eða sé svo mikill sveimhugi – einsog börn oft eru – að hán gleymi einfaldlega að kynna sig. 

Staðir í bókmenntum eru oftast nær bæði í og úr fókus – þeir umlykja sögupersónur sínar öllum stundum en eru ekki endilega gerendur eða söguhetjur (þótt þeir geti verið það). Þannig eru nafnlausir staðir bæði hlutlausir og merkingarþrungnir, og ekki síður þótt fyrirmyndin (eða fyrirmyndirnar) sé augljós. Í þeim tilvikum fylgir staðnum líka ákveðin saga – hann verður stað-gengill fyrir annan stað, hvers saga verður þá almenn og í einhverjum skilningi sameiginleg öðrum álíka stöðum. Í íslenskum bókmenntum er þetta fyrst og fremst „sjávarþorpið“ – enda fáum öðrum bæjartegundum til að dreifa, bæir af öðru tagi verandi of fáir til að mynda mengi. 

* * *

Og kannski er nafnlausi smábærinn einmitt gjarnan allt í senn:

Dystópískur 

Hvað sem líður þróun systurbæja hans í raunveruleikanum er Fyrirmyndarfjörður yfirleitt á hverfandi hveli – ef ekki hreinlega feigur. Fyrirtækin fara á hausinn og önnur koma ekki í staðinn. Fólkið flytur burt en enginn kemur í staðinn. Stundum þurrkast hann einfaldlega út í náttúruhamförum og þótt það sé aldrei sagt berum orðum veit lesandinn að þessi bær verður aldrei endurreistur. Ef aðalsöguhetjan sker á  tengslin við bæinn (og þar með þrúgandi fortíð sína), sem hún gerir gjarnan, losnar hún þar með undan þeim örlögum að hverfa með honum. Hún eignast framtíð. The end

Dularfullur

Í Fyrirmyndarfirði eru fréttir sagðar með hvískri yfir kaffibollum því Fyrirmyndarfjörður brimar af leyndarmálum. Undan gluggatjöldunum gægjast forvitnar kellingar. 

Ljóðrænn 

Fyrirmyndarfjörður er umlukinn stórbrotinni náttúru og náttúruöflum. Þeir sem eru ekki ómálga af leiðindum eru talandi skáld. 

Þrunginn sögu 

Í míkrókosmos Fyrirmyndarfjarðar speglum við öfl, uppbyggingu og krísur kapítalískra afla og stéttabaráttu – kvótakerfið er undir, útgerðin er undir, atgervisflótti 20. aldarinnar er undir, sjálfsmyndarkrísur þjóðarinnar eru undir. 

Og praktískur

Fyrirmyndarfjörður er passlega stór og passlega fjölbreyttur. Við eina og sömu götuna geturðu fundið stórgrósserinn og bæjarrónann, erlenda verkamenn og útlenska draumóramenn, kjarnafjölskyldur og bóhem. Það er stutt á pósthúsið, stutt á bæjarskrifstofuna, stutt upp á fjall og út í sjó. „Smábærinn er viðráðanlegur söguheimur“, sagði Sindri Freysson einu sinni í viðtali (um Augun í bænum). „Og það er hægt að gera ákveðna stúdíu á honum sem hefur miklu víðari skírskotun út í stærra þjóðfélag.“

* * *

Þrátt fyrir allar þessar klisjur og endurtekningar er ágætt að halda því til haga að þau skáldverk sem gerast í Fyrirmyndarfirði (og nágrenni) eru að öðru leyti býsna fjölbreytt að efni og formi. Frá drengjasögum Böðvars frá Hnífsdal að togarasögum Eyvindar P. Eiríkssonar og Njarðar P. Njarðvík, frá krimmum Árna Þórarinssonar, Yrsu Sigurðardóttur og Stefáns Mána að kómískum smásögum Arnrúnar frá Felli, frá feminískum frásagnarbókmenntum Bennýjar Sifjar Ísleifsdóttur að allegóríum Guðna Elíssonar og Reynis Traustasonar, frá trans þroskasögu Margrétar Tryggvadóttur að sósíalrealisma Óskars Aðalsteins, líkt og frá kvenskörungamyndum Guðmundar G. Hagalín að póstmódernískri auto-fiksjón Huldars Breiðfjörð er hvað sem öðru líður langur vegur. Þá er því heldur alls ekki svo farið að „utanbæjarmenn“ skrifi á einn veg um svæðið og „heimamenn“ á annan – þótt kannski séu kunnuglegu smáatriðin fleiri hjá þeim sem þekkja betur til. 

* * *

Fyrirmyndarfjörður er rannsóknastofa fyrir drauma landsmanna, óuppfyllta og/eða uppleysta. Í honum eru særðar fram ljúfsárar fortíðir sem virðast til góðs og ills hafa verið einfaldari og kraftmeiri en samtíminn, einfaldari og kraftmeiri en nafnlaust fjölmennið, einfaldari og kraftmeiri en umferðarteppur á slabbsósa hraðbrautum á leiðinni frá einu neyslumusteri til þess næsta, en líka grimmari og þröngsýnni, forneskjulegri og veiklundaðri. Fyrirmyndarfirðingurinn gegnir hlutverki „hins“ – líka fyrir okkur sem höldum stundum að við búum þar, að við „séum hann“, en það er ekki þannig – enginn er hann. Fyrirmyndarfjörður undirstrikar bara það sem við erum ekki. Hann er það sem við vorum til þess að getum verið – hann er ljótur þegar við viljum segjast orðin falleg, og fallegur þegar við viljum segjast orðin ljót. Ef líf okkar eru óspennandi eru lífin í Fyrirmyndarfirði æsileg; ef líf okkar eru yfirþyrmandi eru lífin í Fyrirmyndarfirði huggandi. Bældu karlarnir og ófullnægðu konurnar eru dormandi eldfjöllin sem við vonum að við séum, kjaftforar slordísirnar og upprennandi athafnaskáldin eru kraumandi eldfjöllin sem okkur dreymir um að verða, kvótakóngarnir frekjuleg sprengigosin sem við viljum geta kveðið niður. Hvort sem það tekst eða ekki verður lífið í Fyrirmyndarfirði aldrei leiðinlegt – nema inn á milli og þá verður það háskalega drepleiðinlegt. Og hvað sem því líður verður alltaf slegist á næsta balli, við vitum þetta, það verður riðið á bak við hús, kannski til skiptis en sennilega bæði í einu. Og síðan gerir aftakaveður. Það verður ekki næs en það verður allavega eitthvað. 

Minn stærsti galli

Ég gerði þau mistök í vikunni að pikka fæting á Facebook. Sjálfsagt var það ekki alveg óþarft en ég nennti því samt ekki fyrir rest. Þetta formatt er eiginlega hannað til þess að maður endi einn á móti öllum – nema maður sé að segja eitthvað svo fullkomlega sjálfsagt að það er óþarfi að hafa orð á því (sem er mjög mikið gert auðvitað, enda vinsælt). En maður leiðréttir ekki internetið. Og eiginlega sannfærir maður heldur ekki fólk um neitt – fólk mætir í svona rifrildi með sína afstöðu og það er alveg sama hvað hún er út úr kú (einsog að það sé eðlileg niðurstaða að 90% listamannalauna endi á höfuðborgarsvæðinu þar sem 60% fólks á heima), það bara ver hana. Einu sinni las ég um rannsókn sem sýndi því meira sem rökrætt var við fólk sem trúði ekki á gagnsemi bólusetninga og því meira sem þeim voru sýndar niðurstöður rannsókna, því ólíklegri voru þau til að láta af skoðunum sínum. Þetta gildir um margt fleira.

Hér eru líka hagsmunir í húfi, og forréttindi. Höfuðborgin er mikil menningarborg vegna þess að að því er hlúð. Fólk óttast að verði hlúð að öðru missi það sjálft spón úr aski sínum – að stærð þess sé einungis til í samhengi við smæð annarra. Það er gömul saga og ný.

En ég er þreyttur á rifrildum. Nenni ekki að vera „fávitinn“ í samræðum annarra. Ég hef nefnt það áður, að mér fannst þetta einu sinni gaman. Kannski trúði ég því þá að það gerði meira gagn. En fyrst og fremst er óþolið meira. Ég var að reyna að orða þetta fyrir sjálfum mér og fannst þá einsog þetta snerist líka um óþol fyrir ósamræmi milli þess sem ég býst við af fólki og það sem ég fæ að heyra. Að ég hreinlega trúi því varla að fólk sé að segja hlutina sem það segir. Að það standi við eigin niðurstöður. Og gremjan snýst þá um að standa þarna og endurtaka: skilurðu ekki hvað þú ert að segja? Aftur og aftur. Einsog maður búist við því að fólk fatti það – og segi eitthvað á borð við: „Ó, nei, það er ekki það sem ég var að meina“ eða „ah, ég mislas upplýsingarnar, nú skil ég betur“. En fólk skilur alveg hvað það er að segja. Og meinar það.

Vandi minn er þá fólginn í því að læra að viðurkenna fyrir sjálfum mér að stundum sé fólk bara hálfvitar. Að það meini sennilega ekki vel. Sem er auðvitað ekki eitthvað sem er gott að segja í samræðum samt. Því væri ekki „vel tekið“.

Það versta við mig er sem sagt óbilandi og óverðskulduð trú mín á öðru fólki. Ég væri frábær ef ég væri ekki svona hógvær.

***

Er eitthvað annað að frétta? Ég sef illa. Eru það fréttir? Ég hef verið duglegur að halda dagbók sem aftur dregur úr bloggþrótti mínum. Er maður grafóman ef maður vinnur við að skrifa? Ég skrifa allan daginn frá morgni til kvölds, nema ég sé að lesa. Eða geispa. En það þýðir ekki að ég skrifi neitt af viti. Á morgun verða skorin laufabrauð. Í næstu viku verður Shining sýnd í Ísafjarðarbíói. Þegar ég er búinn að kaupa allar jólagjafirnar verða haldin jól.

Góðar stundir.

Evmeus: Heim af djamminu

Hefst þá heimferðin – nostos – og tekur yfir þrjá síðustu kaflana.

Í Ódysseifskviðu er Evmeus svínahirðir Ódysseifs/Penelópu á Íþöku og fyrsti maðurinn sem Ódysseifur hittir þegar hann snýr aftur. Þá er Ódysseifur dulbúinn sem betlari – hann er að kanna stöðuna – svo hvorki Evmeus né Telemakkos átta sig á því að Ódysseifur er snúinn aftur. Telemakkos kemur vel að merkja líka heim í þessum kafla – hann hefur verið að leita upplýsinga um föður sinn á Spörtu og Pýlos. Telemakkos og Evmeus hjálpa svo Ódysseifi við slátrunina miklu í lok bókarinnar, þegar Ódysseifur gerir loks út af við vonbiðla Penelópu.

En snúum okkur að Joyce. Klukkan er að ganga tvö að nóttu, aðfararnótt 17. júní, 1904. Svallinu er lokið og hefst þá heimferðin. Stephen Dedalus og Leopold Bloom yfirgáfu rauða hverfið Nighttown í síðasta kafla. Þeir eru þreyttir og slæptir og Stephen enn nokkuð drukkinn, þótt hann sé ekki jafn frávita af drykkju og í síðasta kafla. Þeir ráfa inn í skýli ætlað hestvagnaeklum – „a cabman’s shelter“, kúskaskýli, kallar SAM það, en kúskur er gamalt orð fyrir ekil – og hitta þar fyrir sjómann sem raupar mikið (og er sennilega að villa á sér heimildir – segist heita eitt en svo er annað nafn á póstkorti sem honum var sent) og gamlan kúsk sem rekur skýlið, og sem þeir hafa grunaðan um að vera kannski „Skin-the-goat“ („Fláðu-geitina“), frægur flóttabílstjóri sem tók þátt í því sem kallað var Phoenix Park-morðin (og var raunveruleg persóna – ræddur í Eólusarkafla). Allra handa minni karakterum er hér einnig reglulega ruglað saman – menn heita sama nafninu – og það er almennt mikill hringlandi á ídenítetum.

Mikið meira gerist ekki í raun, ekki á yfirborðinu, en það eru sagðar sögur og bollalagt – sem allt er þó því marki brennt að vera fram úr hófi óáreiðanlegt. Sögurnar sem eru sagðar eru langsóttar – sjómaðurinn segir t.d. sögu af Simoni Dedalusi (föður Stephens), að hann hafi séð Simon með ferðasirkus í Stokkhólmi og hann hafi verið ótrúleg skytta – kenningar Blooms og Dedalusar sömuleiðis, meira að segja tungumálið í kaflanum er langsótt. Í upphafi kaflans er Bloom t.d. sagður vera „an orthodox samaritan“ – en samverjar voru auðvitað ekki orþódox, ef maður er samverji er maður skilgreiningunni samkvæmt einmitt alls ekki orþodox. (Þessu nær SAM ekki að snúa og hefur það „ósvikinn samverji“ – sem er auðvitað það sem var meint svona „bókstaflegast“). Það úir og grúir af svona „villum“ í kaflanum – snobbuðustu Ulysses-áhangendur þola hann ekki, af því textinn er „lélegur“, myndlíkingarnar nykraðar, staðreyndirnar rangar og svo framvegis, og skiptir engu máli þótt það sé allt augljóslega með vilja gert.

„Feðgarnir“ tengjast fyrst almennilega í þessum kafla – nú þegar Stephen er ekki lengur ofurölvi – og maður finnur enn meira fyrir löngun Blooms til þess að sjá um unga manninn. Hér verður mín freistað að ítreka að þeir eru báðir útgáfa af Joyce – og umhyggjan og áhyggjurnar sem Bloom sýnir Dedalus eru kannski einhvers konar sjálfsást fullorðins manns á sjálfum sér ungum, sem er ekki minna fögur fyrir það. Á einum tímapunkti jaðrar líka við að Bloom bjóði Stephen sína Penelópu, Molly – sem kallar á skyldan lestur en segir líka eitthvað um Ödipusarduldir almennt sem og hin sértæku pervertísku djúp sem búa innra með Bloom.

Í þessum kafla fáum við enn fremur dálitlar útskýringar á því hvers vegna það skildu leiðir með Stephen annars vegar og Buck Mulligan og Haines hins vegar – en svo virðist sem þeir hafi lent í rifrildi, jafnvel átökum, og Bloom fullyrðir að jafnvel þótt Dedalus fyndi nú far út í Martello-turn þá myndu þeir ólíklegir til að hleypa honum inn. Það kemur fram að Stephen hefur ekkert borðað frá því í gær – sem er þá ekki 16. júní (fyrir miðnætti) einsog Bloom heldur fyrst, heldur 15. júní. Bloom étur mikið á Bloomsdegi en Dedalus drekkur bara (Bloom drekkur mjög hóflega en eitthvað þó). Í ljósi alls þessa ákveður Bloom að bjóða Stephen gistingu – eftir að hafa sýnt honum átta ára gamla mynd af Molly (og myndin er sögð líkjast henni „þá“).

Svo halda þeir áleiðis. Og ef við rímum þetta við Hómer þá er ekki bara faðirinn/Bloom/Ódysseifur að fara heim heldur líka sonurinn/Dedalus/Telemakkos.

Þetta er ekki uppáhalds kaflinn minn í bókinni og það hefur ekkert að gera með „vitleysurnar“ – sem eru eiginlega það skemmtilegasta í honum, þegar maður kemur auga á þær (en margar þeirra fara framhjá manni – þetta er oft mjög „lært“). Það er bara eitthvað lágt á honum risið, kannski vegna þess að þreyta og doði þeirra fósturfeðga endurspeglast í textanum – kannski vegna þess að hann er til þess að gera „skýr“ þrátt fyrir ruglinginn, en án þess þó að verða „tær“ einsog t.d. í Dubliners (ef það meikar eitthvað sens). Hann er hálfgerður millikafli. En það er meira stuð í næstu tveimur.

* * *

Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar. 

Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.

* * * 

Yfirferðin 2025:

Ulysses: Lestrardagbók, 1. hluti 
(Telemakkos, Nestor og Próteus á hundavaði).

Ulysses: Kalypsó

Lótusæturnar

Hades: Undirheimarnir

Eólus: M´ótvindar frelsis

Lestrygónar: Að éta á sig gat

Skylla og Karybdís: Je est une autre

Villhamrar og Skellibjörg

Sírenur, væl og reykur: Dyflinni syngur

Auga sjáandans: Þjóðremba og heift

Nekt og fró: Násika á ströndinni

Sáðlát á Sikiley: Uxi 1904

Kirkuböllur klingir

* * * 

Eldri bloggfærslur um Ulysses:

Gerty MacDowell, Silvía Nótt og list paródíunnar

Hið samhengislega líf

Torlestur

Völundarhús Rorschachs

Að feðra föður sinn

Svartsýni og blinda

Á laun

Ég byrjaði daginn á því að blása af Dyflinnarferðina. Ég mun samt klára endurlesturinn á Ulysses og koma hérna inn umfjöllun um síðustu kaflana. En árlega listamannalaunabréfið barst í dag og ég lækka víst í launum um 25% á næsta ári – og var ég fyrir að reka mig með tapi, standandi ofan í sístækkandi holu. Ég veit ekki alveg hvernig maður lifir af 400 þúsund kalli á mánuði – í verktakalaun – með tvö börn og húsnæðislán. Þetta gerir samt fólk. En þá fer það áreiðanlega ekki í óþarfa utanlandsferðir.

Það tók Joyce sjö ár að klára Ulysses. Mér fannst það einhvern tíma langur tími en hafandi lesið bókina – og sjálfur eytt fjórum í Illsku, þremur í Náttúrulögmálin og þremur í Hans Blæ – finnst mér það eiginlega bara frekar stutt. Hann hefur áreiðanlega ekki verið á Facebook. Ekki bloggað.

Þetta er leiðindadagur. Ég hef heyrt í fleirum sem hafa lækkað í launum. Haukur Már fékk n´úll mánuði – sem er sturlað. Alveg kengruglað.

En sem sagt. Joyce var sjö ár með Ulysses. Það tók Ódysseif 20 ár að komast heim. Ég kemst áreiðanlega til Dyflinnar einhvern tíma (við frestuðum vel að merkja líka síðasta vor).

***

Ég er að lesa Marx. Eða hlusta á Marx. Ekki Karl samt heldur W. David Marx. Davíð Marx! Einn af sænsku menningarritstjórunum mælti með bókinni Blank Space: A Cultural History of the 21st Century. Bókin er sögð vera hörð gagnrýni á fyrsta aldarfjórðung nýrrar aldar, þar sem popptimismi (sú hugmynd að það sem er vinsælt hljóti að vera gott), omnivorismi (öll genre eru góð genre) og sjálfhverfa eru sögð grafa undan eðlilegri framþróun í listum – nýtt tekur aldrei við af gömlu, listamenn endurnýja sig ekki að ráði (nema kannski lúkkið), hlutir detta ekki úr tísku o.s.frv. Listamenn eru pikkaðir upp út frá samfélagsmiðlavinsældum og samfélagsmiðlavinsældir gera út á hið kunnuglega og ófrumlega annars vegar, og ósjálfbær hortugheit hins vegar (hinir hortugu þurfa að ganga langt til að vekja athygli, verða vinsælir og svo fer einhver að skoða hvað þeir sögðu til að vekja athygli og upp úr því er þeim slaufað).

Að mörgu leyti er þetta áhugaverð bók. Það er gaman að rifja upp þessi ár – þetta eru sirkabát fullorðinsár mín hingað til. En hún einblínir rosalega mikið á kúltúr sem frægðarfyrirbæri og segir þar með afar takmarkaða „menningarsögu“ – þeir sem eru teknir til skoðunar eru eiginlega undantekningalítið tónlistarmenn og það sem er fjallað um meðfram ferli þeirra er tíska, stjórnmál og tækninýjungar. Ég á tvo tíma eftir af bókinni (af 12 minnir mig) og það hefur enn ekki verið nefndur einn einasti rithöfundur, enginn myndlistarmaður – m.a.s. lítið verið fjallað um Hollywood og þá bara til að nefna Marvel eða Avatar. Tónlistarmennirnir eru allir súpersúperstjörnur – Taylor Swift og Kanye. Og svo eyðir hún talsverðu púðri í fólk einsog Paris Hilton og Kardashian-fjölskylduna. Bókin gengur með öðrum orðum út á að gagnrýna samfélag sem er með þráhyggju fyrir frægð og athygli, þar sem popptimisminn trónir, en er nákvæmlega sama marki brennd sjálf – sýnir ekki minnsta áhuga á neinu nema því sem er sensasjónalt eða viral. Nú má vel vera að þessi hluti menningarinnar hafi verið meira áberandi síðustu 25 árin en 25 árin þar á undan – en það þýðir hvorki að þannig selebkúltúr hafi ekki verið til á árunum 1975-2000 né að það hafi ekki verið gerð eftirminnileg list á síðustu 25 árum, sem vert sé að minnast (og sem verður minnst þegar rykið er fallið).

***

Annars langar mig ekki að skrifa í dag.

Jólabókaflóðið: Pardusdýr

Ég er varla búinn að skrifa jó þegar autocomplete bætir við labókaflóðið.

Ég er ekkert búinn að lesa nema frábærar bækur. Staðreyndirnar hans Hauks Más, til dæmis, Fyrir vísindin eftir Önnu Rós – sem ég vona að sé lesin í Kurt Schwitters – Hvalbak eftir Maó Alheimsdóttur, Mara kemur í heimsókn eftir Natösju S, Gakk eftir Guðrúnu Brjánsdóttur og Tími til neins eftir Elínu Eddu. Ég er með einhver tilskrif um ljóðalandslagið í bígerð (fyrir sænskt tímarit) og hef ekki fleiri orð um þessar bækur í bili – mæli bara með þeim! – og kærleikar okkar Hauks Más gera mig ómarktækan, þótt ég standi við að bókin finnist mér frábær, segi kannski það eitt annað að hún er alls ekki um vitvélar eða hvað þær eru vitlausar (eða líklegar til að gera okkur vitlaus) heldur um það hvernig við bregðumst við staðreyndum sem við kunnum ekki að meðtaka – þegar það birtist alltíeinu einhver sem „kann ekki að lesa herbergið“ heldur dælir bara úr sér upplýsingum um eitthvað sem sannanlega gerðist og dregur af þeim rétt svo augljósustu ályktanir. Hún fjallar um vandræðasvipinn á okkur. Og mætti kannski lesa hana saman við kvikmyndina Festen.

***

Bjarni mundi ekki nákvæmlega hvað það var sem hafði fyrst leitt hann inn í veröld síðari heimsstyrjaldar þar sem hann dvaldi mestöll unglingsárin en mundi augnablikið þegar hann áttaði sig á því að stríðið var ekki bara atburðurinn sjálfur heldur líka sagan af honum.

Í fyrrakvöld las ég Bláa Pardusinn: Hljóðbók eftir Sigrúnu Pálsdóttur. Þetta er bók um þrjá hljóðbókahlustendur sem eru allir að hlusta á samnefnda bók á einhverri streymisveitu. Hljóðbókin er „söguleg skáldsaga“ um íslenska konu sem hefur lifað ævintýralegu lífi – meðal annars kennt dóttur Mussolinis ensku! – sem einhvern veginn í huga mínum rímaði við raupsögur íslenskra sjómanna, en það er bókmenntagrein sem hefur lítið farið fyrir síðustu 30 árin eða svo. Það er svolítill rómantískur sjoppustíll á hljóðbókinni sjálfri, hún er vel skrifuð en á sama tíma sensasjónalísk – og einhvern veginn skrifuð einsog á táberginu, einsog það sé eitthvað rosalegt að fara að gerast (sem það og er).

Unnur Andersen Jones hlustar á bókina af því hún óttast að hún fjalli um það sem hún hugsanlega fjallar um – ég get varla sagt meira án þess að skemma endann – en hún hlustar líka til þess einfaldlega að sofna (og gerir það á 45 sekúndum).

Bjarni Borg er skipreka sagnfræðingur og erfingi að súkkulaðiverksmiðju sem hlustar á söguna af ástríðu fyrir því að finna á henni sagnfræðilegu veikleikana – enda hafði skipbrot hans í námi sannfært hann um að „það væru hinar hráu skjalföstu staðreyndir, og tengsl þeirra við ótal smáatriði fortíðar, sem gerðu söguna í skýrri framsetningu að lyklinum að þeirri lausn sem samtíminn þurfti á að halda. Nú þegar þessi skelfilega saga gerði sig líklega til að endurtaka sig.“

Elín Helena Lacroix les hins vegar bókina – eða hlustar – af ástríðu fyrir einhverjum innri sannleika skáldskaparins og finnst jafnt smávægileg söguleg atriði bókarinnar sem og stórvægilegur búningur hennar litlu skipta – seinni heimsstyrjöldin og allt hitt er bara rammi til þess að segja eitthvað um mennskuna og þar hlýtur „sagnfræðin“ að lúta í lægra haldi fyrir „sögunni“.

Þessir þrír lesendur eru auðvitað á „collision course“ einsog það heitir – þeir hljóta að lenda í árekstri, allir að keyra í sitthvora áttina á sömu akreininni (?). Þetta er stutt bók og snörp og einhvern veginn rúmar hún samt alls konar útúrdúra – en fjallar í kjarnann um muninn á því að segja satt og því að segja satt eða segja satt. Hún er með alvarlegt heimspekilegt hjarta en líka sprenghlægileg í gegn.

***

p.s.

(Og svo ég haldi áfram að vera ósammála túlkunum annarra – án þess að vísa til þeirra – þá er Blái Pardusinn alls ekki melódrama um persónur – og við verðum að fara að hvíla þessar endalausu klisjur um að tengja eða tengja-ekki við persónur – þær eiga alls ekki við um jafn margar bækur og þeim er beitt á, það eru ekki allar bækur um persónur, og stundum – þegar persónurnar eru ógeðfelldar, til dæmis – þá snýst þetta meira um lesandann en bókina, sumir hafa enga samúð með syndurum. Það eru persónur í Bláa pardusnum, alls ekki ógeðfelldar, og við dveljum ekki lengi hjá þeim – fáum af þeim snappsjott – en heildin, rímið/speglunin, í mis-passífri hlustun þeirra þriggja og aktífum ævintýrum Guðrúnar, er það sem krefst lesturs. Yfir og út.)

Hamlet

Þegar ég var í menntaskóla. Svona ættu allar bloggfærslur miðaldra manna að hefjast. Þegar ég var ungur maður. Fullur af æskuþrótti. Kynorku! Þegar ég var framsækinn og stæltur. Þegar ég var á þeim aldri að ég hefði getað leyst upp veröldina með því einu að einbeita mér svolítið. Þá fór ég ásamt bekknum mínum í svokallaða „menningarreisu“ til Reykjavíkur. Tilgangur þessa ferðalags var að líta við á því sem hét áreiðanlega „háskóladagar“ eða eitthvað álíka – að kynna sér starf þeirrar menntastofnunar – og að sjúga í sig borgarmenninguna. Eftirminnilegasta augnablik þessarar helgar er þegar við stóðum saman fjórir-fimm góðir vinir fyrir utan veitingastað sem hét einhverju ítölsku nafni í einni af hliðargötum Laugavegs, biðum eftir leigubíl í slabbi og regni að lokinni veglegri máltíð. Þetta var lokakvöldið. Kannski höfðum við verið afgreiddir um bjór á barnum. Svona höfðum við áreiðanlega fram til þessa aðallega staðið í útlöndum – á Benidorm í þriðjubekkjarferðalagi eða í Kaupmannahöfn á einhverri Hróarskeldureisu – en aldrei í höfuðborginni. Og einn vina minna dæsti þunglega, en á sama tíma saddur og glaður, og sagði: Reykjavík. Heimsborg smáborgaranna. Og við hinir kinkuðum kolli. Mér fannst þetta gáfulega mælt – sennilega aðallega af því ég var Ísfirðingur og það er rígur, en líka af því þetta var einhvern veginn bæði í senn einsog að vera í útlöndum og alls ekki. Þetta var ekki alveg nógu framandi en samt ekki heima.

Það sem ég man ekki alveg nógu vel eftir er Hamlet Baltasars Kormáks sem við sáum í Þjóðleikhúsinu. En hann rifjast nú samt aðeins upp fyrir mér núna í umræðunni um Hamlet Kolfinnu Nikulásdóttur (af hverju finnst mér þessi nöfn svona skyld – Kolfinna Nikulás og Baltasar Kormákur – það er einhverjir ljóðstafir í þessu)? Af því að í minningunni eru umræðurnar um þær svo svipaðar. Að það þurfi að færa hverri kynslóð sinn Hamlet. Að það þurfi að ögra hefðinni (eða ekki). Þurfi pönk og læti (eða ekki). Samtíma. Það viti engin hver hin „Shakespearska“ hefð sé, viti enginn hvernig hann setti upp þessi verk – og að hefðin eigi sér líf sjálfstætt frá William sjálfum og hans uppsetningum og það skipti engu máli fyrir hefðina hvernig hann gerði það. Und so weiter.

Það sem slær mig núna, miðaldra mann án lífsþróttar og kynorku, er að svona uppfærslur skuli alltaf gerðar á sömu forsendum og með svipaðar hugmyndir um æskuna eða almenning að vopni. Einsog æskan sé fasti. Eitthvað fyrirbæri sem gegni pönkhlutverki – og þá felast í því hlutverki væntingar um að vaxa úr grasi, hætta að vera pönkari (mér er sagt það sé ekkert hallærislegra en fimmtugur pönkari – enda eru allir pönkararnir hættir að vera pönkarar, eða réttara sagt búnir að rebranda pönkið sem eitthvað sem hentar betur fimmtugum – eða réttara sagt sextugum – körlum og konum).

Spurningin sem ég spyr mig er einfaldlega hvort þetta sé í samræmi við veruleikann eða hvort þetta sé leikur með einhverjar persónugerðir sem eru ekki til lengur. Við lifum ekki á tímum agressífrar ögrunar – ekki listavinstramegin við miðju, í dag er það fyrst og fremst afturhaldshægrið sem ögrar vísvitandi, rekur upp vísifingur og segir fólki að fokka sér. Og kannski einhverjir inselar, þá sjaldan þeir manna sig upp. Fyrir þessu eru ýmsar ástæður – ekki síst bara sú að viðstöðulaust áreitið sem fylgir tækjabúnaðinum okkar, galdrastöfunum, gerir þögnina að stærstu mögulegu byltingunni. Rónna.

Ég upplifi æskuna og nútímann sem mjúk – ekki transgressíf heldur tillitssöm og stundum taugaveikluð og stundum low-key reið og stundum lost. Það er þessi lostleiki sem gerir Hamlet tímalausan – það er hann sem við eigum alltaf sameiginlegan og hann sem bergmálar í öllu frá Ulysses til 101 Reykjavík. Og þennan lostleika – þessi týndheit – þarf áreiðanlega að finna og orða upp á nýtt fyrir hverja kynslóð. En kannski er hættan alltaf sú að maður detti inní einhverja Shakespearska hefð – skrúfi bara Prodigy í botn, vísi í klám og pólitík og láti alla fá nútímavopn, af því það sé þannig sem æskuþróttur og týndleikinn birtist (öllum kynslóðum).

Ég ætlaði að fara suður og sjá Hamlet Kolfinnu. Það var á haustplaninu. En svo er ég bæði úrvinda eftir ferðalög haustsins og í svo djúpri skuld við bankann og skattinn og lífeyrissjóðina að mér finnst ósennilegt að ég splæsi á mig svo mikið sem notaðri bók fyrren einhvern tíma í vor. Það er líka eiginlega alveg sama hvað hún hefur gert við hann, mig hefði samt langað að sjá það, og hefði alltaf notið þess – og ég hef fulla trú á að mjög margt af því sé líka mjög gott, ég hef lesið bæði sóknardóma og varnardóma og fundist það skemmtilegur fagurfræðilegur debatt, og það hefði verið gaman að fá að máta sínar Hamlethugmyndir við niðurstöðuna á sviðinu. Og sennilega er ég bara að skrifa þetta til þess að syrgja glatað tækifæri.

Frammistöðukarlar

Einhvern tíma í fortíðinni var verið að tala um „performative masculinity“ í Lestinni. Sem var í þessu tilviki ekki að flexa vöðvana eða spila rafmagnsgítarsóló eða setja brilljantín í hárið eða manspreada eða mansplaina eða neitt af því heldur að lesa bækur á opinberum stað í þeim tilgangi að komast yfir konur. Ekki hvaða bækur sem er, held ég, heldur fyrst og fremst eitthvað sem konur gætu talið karla ólíklega til að lesa – Jane Austen, Simone de Beauvoir, eitthvað þannig. Lestur sem páfuglastarfsemi. Mökunardans. Ég ætla ekki að þykjast muna hvað var sagt og hvað var ekki sagt – kannski er ég bara að endurtaka það sem var sagt, þetta var fyrir áreiðanlega mánuði síðan – en mig minnir að það hafi verið gerð frekar skörp skil milli þess sem er annars vegar einlægt og hins vegar þess sem er performatíft. Óþarflega skörp.

Skömmu eftir að ég heyrði þennan útvarpsþátt var ég staddur á kaffihúsi í Zurich. Í fanginu var ég með þverhandarþykkt smásagnarsafn Flannery O’Connor en á borðinu voru Illness as Metaphor eftir Susan Sontag og White Album eftir Joan Didion. Það sem konurnar á kaffihúsinu, sem dáðust að mér, vissu ekki er að ég var að lesa formálann að smásagnasafninu. Sem var eftir karl.

En sem sagt. Einlægni og performans. Auðvitað getur einlægni verið bæði fölsk og performatív, og sönn og performatív. Þegar ég var um tvítugt las ég The Beauty Myth eftir Naomi Wolf (sem er í dag þekkt fyrir að vera hægritröll en var þá helsti hot shot femínistinn). Ég hafði á henni einlægan áhuga, ekki bara til þess að skilja eitthvað um „stöðu kvenna“ heldur líka til þess að skilja eitthvað um eigin hégóma (allt fólk sem gengur með hatt er í eðli sínu páfuglar) – hvað það þýðir þegar maður reynir að vera fallegur, hvað maður er að gera, hverjum maður er að hlýða og hvern maður er að reyna að heilla (maður hlýðir mest heiminum til þess að ganga í augun á sjálfum sér, en það er líka flóknara og fer í hringi, einsog öll sjálfsmyndarlógík). Ég man ekki til þess að hafa lesið Beauty Myth þar sem til mín sást, en í svona tvö ár á eftir nefndi ég hana áreiðanlega við allar sætar stelpur sem ég hitti. Til þess að vinna inn stig. En það breytir engu um hitt, að mér fannst líka bókin áhugaverð, að ég las hana fyrir sjálfan mig – og hún þjónaði líka þeim tilgangi að sía út vitleysingana.

Hið performatíva gerir það nefnilega – það er í senn fagurfræðileg og heimspekileg yfirlýsing til heimsins og ákall á fólkið sem maður deilir lífssýn með. Sá sem sest á kaffihús með Emmu í þeirri von að laða að sér konu, hlýtur að vilja finna konu sem fílar Jane Austen – að finna einhvers konar sálufélaga – ef hann vildi bara stunda kynlíf með einhverjum eru til umtalsvert markvissari leiðir að því markmiði. Sem svo aftur breytir ekki hinu að ungt fólk er yfirleitt enn að finna sig og sá sem heldur eina vikuna að hann fíli Emmu og vilji elska konur með Austenblæti getur verið farinn að lesa Ayn Rand og dagdreyma um Dagny Taggart hálfu ári síðar. Eða hálfum mánuði þess vegna. Einlægni er líka mótsagnarkennd ef hún fær smá tíma.

Þessa dagana er ég auðvitað að lesa Ulysses mjög performatíft. Hún er bók af því tagi sem maður á erfitt með að þegja um – hún leggur mann undir sig. En ég hef alla tíð lesið svona – haft þörf fyrir að nefna það við fólk hvað ég er að lesa. Segja hvað mér fannst. Finnst. Stundum er það bara til að grobba. Svona einsog maður kemur því að í samræðum hvað maður tekur í bekk. Var ég annars búinn að segja ykkur að ég hljóp maraþon í síðasta mánuði?

Hvað um það. Ég er í liði með fólki sem les á kaffihúsum. Og í lestum. Og á bekkjum. Sá sem hefur ekki gengið á ljósastaur niðursokkinn í bók – og vakið með því athygli umheimsins, ef ekki aðdáun – hefur ekki lifað. Og ég er líka í liði með þeim sem eru að leita sér að sálufélaga. Bólfélaga. Einhverjum til að tala við.

***

Annars er ég í lest. Sem var að renna inn í Höör. Á leiðinni til Karlskrona. Sænski bókatúrinn er búinn og nú bíður mín Pólland. Ég á káetu í skipi til Gdynia í kvöld og verð kominn þangað í fyrramálið. Mér finnst það klassi – í síðustu viku gengum við forleggjarinn minn fram á unga, dálítið drukkna konu í Stokkhólmi sem var að leita sér að eldi til að kveikja í sígarettu, og hún hafði á orði að við litum út einsog „20. aldar rithöfundar“ (s. nittonhundratalsförfattare). Að fara með skipi til næsta lands til þess að fylgja eftir annarri bók er einmitt eitthvað sem 20. aldar rithöfundur gæti tekið upp á að gera.

Litla tussudeilan

Takkasímamynd, tekin með takkasímaslinsu, í óásættanlegum gæðum.

Ég er búinn að skrifa svo mikið í dagbókina mína síðustu tvær vikur að ég veit ekki hvort ég get litið á sjálfan mig sem bloggara lengur. Það hefur verið talsverður fortíðarfílingur í lífinu þessa daga í Bláskógabyggð – Rás 1 í gangi allan sólarhringinn, takkasími, aldrei neitt opið í tölvunni nema ritvinnsluforritið. Ég skrifaði meira að segja svolítið af bréfum, fór með þau niður á Selfoss og póstlagði. Fyrstu póstferðina fór ég sama dag og kvennaverkfallið var haldið og það kom í ljós að það vinna sennilega bara konur hjá póstinum á Selfossi – nema karlarnir hafi bara ekki treyst sér til að halda opnu, því það var allavega lokað. En ég gat farið í Pennann handan götunnar og látið tvær ungar konur afgreiða mig um frímerki og umslag, póstlagt bréfin í póstkassa, og látið svo fimm (fimm!) ungar konur afgreiða mig um hræðilegan mat á KFC áður en ég hélt aftur í karlavinnuna mína í bústaðnum. Prósaverksmiðjuna.

Ég ætti kannski að stoppa hér og útskýra titilinn á bloggfærslunni áður en lengra er haldið. Fyrst kvennaverkfallið barst í tal. Það er sem sagt ekki „litla tussudeilan“. Ég tengdist netinu aftur í gær eftir tveggja vikna hlé og fór að kíkja á fréttamiðlana og það fyrsta sem ég rak mig á var sænskur bókmenntadebatt – Svíar eru mjög duglegir við að varpa menningarbombum og starta fæting, sérstaklega miðað við Íslendinga sem eru alltaf að þrátta bara um sömu hlutina (aðallega listamannalaun – við erum með, einhver nettröll eru á móti). Mikið af þessum bombum hafa fallið í útgefnum dagbókum skálda sem hafa verið della frá því Lars Norén byrjaði á þessu fyrir nærri tveimur áratugum – í fimm bókum og sex þúsund blaðsíðum.

Ein af þeim sem hafa gengið í þessi dagbókarbjörg er sænski súrrealistinn Aase Berg – frábært ljóðskáld, algerlega einstök, róttækur femínisti, fædd 1967 – sem gaf út sitt fyrsta bindi fyrir nokkrum árum. Aase Berg skrifar talsvert fyrir Dagens Nyheter, stærsta dagblað Svía, bæði pistla og gagnrýni, og þegar þannig stendur á – að mikilvægt skáld er líka starfsmaður blaðsins (þótt viðkomandi sé ekki inni á ritstjórn) – er hefð fyrir því í sænskum miðlum að ráðinn sé utanaðkomandi gagnrýnandi til þess að rýna í verk þeirra. Þegar dagbókin kom út var fengin yngri kona, Selma Brodrej, fædd 1996, til þess að rýna í bókina. Ég veit ekki margt um hana annað en að hún hefur gefið út feminískt debattrit, Testosteron, sem fjallar aðallega um karlmenn.

Allavegana, Selma var ekkert ægilega ánægð með dagbókarbókina hennar Aase – þótti hún mest bara ómerkileg, fljúga lágt. Það er auðvitað einkenni á venjulegum dagbókarskrifum – stundum eru þær bara um hvað maður át í morgunmat – en þessar útgefnu bækur hafa þótt þurfa einhverja meiri réttlætingu. Fólk talar um prósann hjá Norén, sem hafi verið alveg einstakur, skerandi. Og Selma Brodrej fann ekki neitt þvílíkt hjá Aase Berg. So what, shit happens. En svona dagbækur eru aldrei bara ein og ein – þetta er alltaf spurning um fjölda binda – og nú var Aase Berg að gefa út annað bindi. Og þar er heilmikið talað um Selmu Brodrej og hún aldrei kölluð annað en „lill-fittan“ – eða litla tussan. Og þess vegna logar bókmenntasvíþjóð. Eða logaði – svona gengur hratt yfir. Í gær eða fyrradag skrifaði menningarritstjóri Expressen (eða var það Aftonbladet) að svo til allar sænskar barnabækur sem hafa komið út síðustu 40 árin séu drasl (hér er ég að endursegja grein sem ég hef ekki lesið – en bara séð viðbrögðin við á Facebook). Og það best ég get séð eru allir hættir að tala um fittur og farnir að verja barnabókahöfunda.

Ég át annars egg og ostaslaufu í morgunmat. Það er ekki dæmigert. Ég er að reyna að klára matinn sem ég tók með mér í bústaðinn – sem mun ekki takast. Ég átti von á manni að sunnan með flugi í dag sem ætlaði að keyra bílinn vestur fyrir mig – ég er að fara til Svíþjóðar og Póllands og Nadja er bíllaus – en veðrið bíður sennilega ekki upp á flug. Ég þarf því að huga að því hvað ég geri við bílinn.

Það birtust afar jákvæðir dómar um Naturlagarna í Expressen og Kult Magasin. Engin ástæða til að uppnefna þá gagnrýnendur. Þegar ég var yngri átti ég einhverja gagnrýnendur sem ég sá sem hálfgerða óvini – og gat hreinlega glaðst ef þeim mislíkaði það sem ég skrifaði. En það er langt síðan. Kannski er ég bara ekki nógu edgy lengur. Eða bara ´oþægilega vinsæll. Kannski ætti ég að gefa út dagbækurnar mínar.

Ég komst út á enda í bók. Stuttri skáldsögu. Því fylgja blendnar tilfinningar. Það er hrikalega margt enn óunnið. Þetta er sem sagt ekki góð bók sem stendur, þótt það „standi til bóta“. Og ég er ekki vanur því að vinna svona, að eiga svona mikið óunnið þegar ég kem út á enda. Svona er sjálfsagt tilfinningin að eiga fokhelt hús. Ég hef gjarnan klárað veggina bara alveg áður en ég sný mér að næsta vegg. Er búinn að hengja upp myndir á vesturveggnum áður en ég byrja á suðurveggnum. Flyt inn í hvert horn fyrir sig. Þetta er alveg nýtt. En það er samt gott að vera kominn hingað. Þetta var mjög pródúktíf dvöl.

Mér hefur mikið verið hugsað til nútímans og þeirra ofurkrafta sem hann veitir manni. Gervigreindin er auðvitað augljóst dæmið, en líka bara að geta gúglað, geta komist inn á timarit.is og flett upp í orðabókum á netinu, að hafa ótal sérfræðinga á fb-vinalistanum, bara við fingurgómana. Að geta lesið fréttir í rauntíma af því sem er að gerast bókstaflega út um allan heim. Og þetta nær lengra – það eru ofurkraftar í útvarpstækjum líka, í bílum (og vetrardekkjum) og lestum og flugvélum og skipum. Það eru ofurkraftar í bókasöfnum og hver einasta prentaða bók er saga sem maður þarf ekki að hafa lært utanbókar. Nútíminn gengur út á meiri og meiri ofurkrafta. Við dáumst stundum að því hvernig fólk gat bara lært Hómerskviður og farið með þær – og hugsum hvað minni mannsins hafi hrakað síðan þá. En gleymum því auðvitað að menn kunnu kannski ekki mjög margar bækur. Sami maðurinn kunni ekki heilt bókasafn – sennilega hefur þótt ágætt lífsverk að kunna fjórar-fimm bækur.

Það eru líka ofurkraftar að muna eina langa bók. Að muna eina Ódysseifskviðu. Eða þekkja einhvern sem man hana. Ég las um daginn The Odyssey eftir fjölfræðinginn Stephen Fry (sem ég þekki ekki) og stóð mig að því hvað eftir annað að dást að því hvað hann væri fróður. Ég veit ekki hvers vegna ég trúi því að hann muni svona margt af þessu, kannski af því honum tekst að draga svo margt saman. Hann túlkar kannski ekkert voðalega margt og er takmarkaður að mörgu öðru leyti. Það sem hann hugsar um merkingu Ódysseifskviðu er aldrei byltingarkennt. En hann dregur hana og ýmsan fróðleik henni tengdan mjög vel saman. Og þá er voða gott, fyrir okkur sem þekkjum ekki Stephen Fry, að geta fengið þetta í ódýrri og afar læsilegri flugvallarkilju.

En það sem sagt hvarflaði líka að mér hérna í pródúktífu fortíðinni að það að vera án alls þess erils sem fylgir gervigreindum, símalandi álitsgjöfum, pípandi snjallsímum og viðstöðulausum fréttaflutningi er líka ofurkraftur. Það er ofurkraftur að vera aldrei fastur í umferðinni. En af einhverjum orsökum eru þessir ofurkraftar ekki jafn lokkandi og hinir. Nú er ég ekki bara að tala um mig – þótt ég sé oft illa haldinn af ofurkrafta-FOMO – því ég er líka sannfærður um að það skipti ekki nokkru máli hvort gervigreindin reynist svo orkufrek að hún beinlínis svelti mannkyn og geri út af við líf á jörðinni, hún fær það sem hún krefst.

Þrjú lönd, tveir fætur, fjörutíuogtveir kílómetrar

Á þrítugasta kílómetra hætti hlauparinn á undan mér að hlaupa, gekk út í kant, beygði sig yfir ræsi og ældi rúmmáli sínu í orkudrykkjum og gelum. Fram að því hafði ég aldrei á mínum þrettán ára hlaupaferli upplifað að vera ómótt á hlaupum, sem er víst algeng hliðarverkun langhlaupa – jafnvel þannig að elítuhlauparar telji það að hafa aldrei staðið í áreynsluuppköstum vera til marks um að þeir séu í raun ekki að reyna nógu mikið á sig. Skömmu síðar hlupum við í gegnum einhvern bæ þar sem var talsverð skítafýla – og myndin af unga manninum að gubba í ræsið spilaðist ítrekað í höfðinu á mér. Sjálfsagt er það sumum lesenda minna vonbrigði en öðrum léttir að ég gubbaði aldrei sjálfur og komst í mark á 4 tímum og 42 mínútum. Nadja var litlum tólf mínútum á eftir mér.

Við vorum mætt til Zurich á föstudeginum fyrir hlaup. 3-länder maraþonið – No borders, no limits – hefst í Lindau í Þýskalandi og fer inn í Austurríki, þaðan inn í Sviss og aftur til Austurríkis þar sem því lýkur á íþróttaleikvanginum í Bregenz. En fyrstu nóttina gistum við sem sagt í gömlu heimaborg James Joyce – þar sem Ulysses var að miklu leyti skrifuð. Eftir að við höfðum tékkað okkur inn á hótel röltum við um bæinn og lituðumst um. Nadja keypti sér takkasíma – við erum bæði á þeim buxunum en ég er aðeins skemmra á veg kominn. Átum víetnamskan kvöldmat og fórum snemma að sofa. Ég hafði verið með lágan hita af og til alla vikuna og kvef/nefrennsli. Þetta var afleiðing af bókamessunni sem ég var á fyrir tveimur vikum – bæði umgengni við alla þessa óhemju af fólki og óheilbrigðu líferninu sem fylgir jafnan för minni til Gautaborgar (það er mjög gaman úti á l´ífinu með mínum sænska útgefanda og vini).

Daginn eftir átum við kolvetnaríkan morgunverð og tókum lestina til Lindau. Ég stóð enn í þeirri meiningu að ég hefði bókað hótel fyrir okkur á eyjunni – Lindau Insel –þar sem hlaupið átti að hefjast og þar sem eru sjarmerandi gamlir götusteinsstígar og allt morandi í veitingastöðum. Við vorum komin alla leið lestarstöðina þegar það rifjaðist upp fyrir mér að þegar ég loksins bókaði reisuna hafði allt nema það allra dýrasta verið uppbókað – og ég endaði á að bóka verksmiðjuhótel í einhverju mjög leiðinlegu iðnaðarúthverfi. Ég virðist hreinlega hafa bælt þessi vonbrigði og var í alvöru búinn að steingleyma því þegar við komum á staðinn.

Þegar við höfðum hent inn töskunum okkar á Premier Inn – þar sem var ekkert nema risastórt Tesla stæði, bensínstöð og McDonalds – komum við okkur til Bregenz í Austurríki – 8 kílómetra í burtu, handan landamæranna – þar sem við sóttum númerin okkar, keyptum einhver aukagel (með koffíni) og fórum í pastaveislu með öðrum hlaupurum. Við höfðum ætlað að einfalda okkur hlutina með því að taka leigubíl þangað en umferðin var sturluð svo við sátum heila eilífð í bílnum – svo kom í ljós að bílstjórinn (sem rataði ekki) komst ekki inn á netið í Austurríki og gat þar með ekki tekið á móti kortagreiðslu. Við vorum evrulaus og umferðin var þannig að það var óhugsandi að fara að rúnta eitthvað eftir hraðbanka. Það endaði eftir japl, jaml og fuður með því að við fengum hjá honum símanúmer og bankaupplýsingar og lofuðum að leggja inn á hann – svo fórum við frá borði og skildum kreditkortið hennar Nödju (óvart) eftir í sætinu. Sem var kannski sérstaklega fyndið í ljósi þess að þar með gat hún ekki lengur skilið snjallsímann sinn eftir neins staðar – það er ekki hægt að borga með takkasímum.

Þegar við komum aftur til Lindau reyndum við að hringja í bílstjórann en hann hlýtur að hafa skrifað númerið sitt eitthvað vitlaust niður því við náðum engu sambandi. Við hringdum í fyrirtækið, skildum eftir skilaboð og fórum út að hlaupa – 2 kílómetra, bara rétt til að liðka fæturna. Eftir það ætluðum við að fá okkur kvöldmat á hótelinu en þá kom í ljós að eldhúsið lokaði klukkan átta og við vorum 20 mín´útum of sein.

Ég verð að viðurkenna að nú var ég farinn að halda að það hvíldi einhver bölvun á þessum hlaupaplönum okkar. Það munaði minnstu að við kæmumst aldrei af stað – Aino, sem átti að fá að fara í lúxuspössun hjá ömmu sinni og afa á Spáni – fótbrotnaði fyrir tveimur vikum og það virtist frekar ólíklegt á tímabili að hún gæti verið án okkar. Hún er þó mjög sjálfstæð og var farinn að bjarga sér vel áður en við fórum – og endaði glöð í pössun hjá vinkonum sínum, hverra foreldrum við erum afar þakklát (plús að við mútuðum henni með nýjum fataskáp).

Hvað um það. Það skiptir sem sagt miklu máli, er mér sagt, að maður borði góða máltíð kvöldið fyrir langt hlaup. En það skiptir líka máli að fara snemma að sofa og það var ljóst að við gætum ekki gert bæði. Við létum okkur því hafa það að borða á bensínstöðinni – samlokur og brezel. Vöknuðum svo snemma og fengum okkur stóran morgunmat.

Við lentum vel að merkja í svipuðu veseni í 10km hlaupinu í Bangkok í desember – þar var ég búinn að finna ítalskan veitingastað nálægt hótelinu okkar en þegar til kastanna kom reyndist hann lokaður og við átum eitthvað lélegt tacos. Næst hringi ég og bóka borð og hef allt á hreinu.

Ég var áreiðanlega með hita áður en ég fór að sofa. Ég er ekki viss um að ég hafi nokkurn tíma íhugað að leggja ekki af stað – ekki af neinni alvöru – en ég var mjög meðvitaður um að það gæti allt eins verið að ég myndi örmagnast eða fá háan hita/hjartslátt í sjálfu hlaupinu og þurfa að hætta. Ég margsló því upp og eina ráðið sem internetið gaf mér var að ef ég væri með hita ætti ég alls ekki að hlaupa. Í ofanálag glaðvaknaði ég eftir þriggja tíma svefn og lá svo meira milli svefns og vöku en beinlínis svaf síðustu fjórar klukkustundirnar.

Þegar ég fór á fætur vissi ég samt ekki hvernig mér leið – ég veit það aldrei þegar ég er nývaknaður, það tekur mig alltaf a.m.k. hálftíma að fá stöðuna á hreint. Við átum stóran morgunverð – aðallega brauð – og ég beið þess að finna sótthitann renna yfir mig en hann kom aldrei. Mér leið satt að segja bara ágætlega, sérstaklega miðað við hvað ég hafði lítið sofið. Ég var samt óþægilega stressaður í strætónum að upphafslínunni – með úrið á handleggnum var ég auk þess mjög meðvitaður um að hjartslátturinn var óþarflega hraður. En þegar við vorum komin á staðinn lækkaði hann aftur og mér fór að líða vel.

Ég man ekki hvað hún heitir hljómsveitin sem spilar við startið en hún hefur víst spilað þar í ein átján ár – gamaldags forbítlarokk – og byrjaði þremur korterum áður en allt fór í gang. Við notuðum tímann til að losa okkur við fatapokann okkar og gera okkur almennilega klár. Einsog vænta má var rafmögnuð eftirvænting í loftinu.

Þegar við tókum af stað ætlaði ég að kveikja á strava í úrinu mínu til að geta fylgst með tíma og vegalengd og hjartslætti en af því ég hef verið að fikta í alls konar „ekki-vera-alltaf-á-netinu-stillingum“ fór það ekki í gang – það var víst einhvers konar hvíldartími sem ég kunni ekki að slökkva á – og ég byrjaði hlaupið bölvandi þessu í sót og ösku. Sem er kannski ekki til fyrirmyndar. Kveikti svo á strava í símanum í staðinn og svo stuttu síðar spurði úrið hvort ég væri að hreyfa mig og hvort ég vildi að Apple Health mónitoraði það fyrir mig – sem ég þáði og var þá farinn að taka upp hlaupið á tveimur vígstöðvum. Sem var alltílagi en þýddi líka að þegar ég kom í mark voru bæði tækin svo gott sem batteríislaus. Það er víst líka ástæða fyrir því að svo fáir hlauparana voru með Apple Watch – líftími rafhlöðunnar við þessar aðstæður er ekki nema um fimm tímar. Langhlauparar eru með alvöru dedikerað íþróttaúr.

Og hvernig lýsir maður síðan svona hlaupi? Maður hleypur. Setur einn fótinn fram fyrir hinn í fimm tíma – það er létt í byrjun og verður síðan erfiðara. Leiðir okkar Nödju skildu mjög snemma og eiginlega óvart – ég þvingaðist aðeins út í kant og þurfti að stökkva fram úr nokkrum og fann hana svo ekki þegar ég ætlaði að komast aftur til hennar. Við ætluðum aldrei að hlaupa hlið við hlið svo það kom ekki að sök en ég hefði þó viljað kveðja. Mér leið vel og byrjaði hraðar en ég hafði ætlað mér, sem mér er sagt að sé óráð, maður eigi alltaf að fylgja planinu. En ég veit ekki hvort það hefði breytt miklu. Veðrið var til fyrirmyndar – skýjað, rúmlega tíu gráður, dálítill andvari – og hlaupið er til þess að gera flatt. Við hlupum fljótlega út úr Þýskalandi og inn í Austurríki – það kvarnaðist úr hópnum fyrst þegar 10 og 15K fólkið beygði af og svo síðar þegar hálfmaraþon fólkið sneri við en við hin héldum áfram inn í Sviss. Þar var frekar stuttur rúntur – kannski 3-4 kílómetrar, á að giska – og allur í slaufum og brekkum. Það var líklega einmitt eftir slaufurnar og brekkurnar sem fór að draga svolítið af mér en þá var ég kominn um 30k, sem er líka það lengsta sem ég hef hlaupið áður – og hljóp þá talsvert hægar (7.19 minnir mig – mínútur á km – vs. 6.25 sirka fyrir þennan kafla).

Margt bar fyrir augu og leiðin var afar falleg. Við hlupum meðfram Bodensee og í gegnum Bregenz og þaðan áfram til bæjar sem heitir því viðeigandi nafni, Hard, og þaðan til bæjar sem heitir því enn meira viðeigandi nafni Fußach, til Höchst (allt mjög viðeigandi) – í Sviss fórum við í gegnum St. Margrethen, sem er bara venjulegt bæjarnafn, það best ég veit. Hlauparar voru af öllum stærðum og gerðum – einn tók fram úr mér sem var áreiðanlega ekki nema svona átta ára (og hefur væntanlega verið í 10k – en það er sama, 10k er fáránlega langt fyrir átta ára barn) og það var talsvert af ellilífeyrisþegum. Af og til tók líka fram úr manni einhver epískur elítuhlaupari – þeir hlaupa á sirka tvöföldum hraða við alla aðra og voru margir með mótor- eða reiðhjólafylgd. Ég átta mig ekki á því hvers vegna þeir fóru ekki allir af stað fremstir í fylkingu (einsog þó flestir þeirra gerðu).

Á einum stað hljópum við framhjá hóruhúsi. Á öðrum í gegnum timburlager. Á þeim þriðja útileikhús. Víða voru litlar kirkjur og við eina þeirra var stór trékross með „hangandi spýtukarli“ alveg við veginn – þá vorum við öll tekin að þjást til kunna verulega að meta samstöðu karlsins. Á kafla var skógarbrunalykt í loftinu – eða einhvers konar trébruni. Við hlupum yfir Rín. Alls staðar var fólk úti í kanti að hvetja mann áfram – og fólk með alls konar skemmtiatriði. Sums staðar var bara gettóblaster og plakat úti á götu. Annars staðar heil lúðrasveit að spila Beyoncélög. Í St. Margrethen hljóp ég einn í fangið á svona þrjátíu uppstríluðum klappstýrum sem blöstuðu tónlist og dönsuðu sem mest þær máttu til að hvetja mig áfram. Svo voru rapparar að rappa. Fleiri hljómsveitir. Ferðadiskó. Gamlar konur sem hristu kúabjöllur. Og hrópandi fólk með alls konar skilti með innilegum kveðjum og allra handa hótfyndni.

Ég hef alla jafna ekki treyst á gel í langhlaupum – bara troðið banönum í vestið – en gerði það núna. Hafði keypt nokkur í Nettó á Ísafirði áður en ég fór en ákvað að bæta á mig a.m.k. tveimur með koffíni til að eiga smá aukaorku –  þegar Feidippides hljóp upprunalega maraþonið á sínum var hann einsog frægt er hvorki með gel né banana og féll þess vegna niður örendur um leið og hann kom í mark. Það er skemmst frá því að segja að þessi koffíngel sem ég keypti eru einhver mesti viðbjóður sem ég hef innbyrt um ævina – einsog að drekka þriggja daga gamalt kaffi upp úr klósettstól, sem hefur ekki verið þrifinn lengi. En koffínið hjálpaði ábyggilega til. Eftir 33km sett ég líka upp heddfóna og kveikti á músík – shuffle á gömlum hlaupaplaylista sem skilaði mér þessu fyrst af öllu:

Með tónlistinni græddi ég áreiðanlega tvo-þrjá ókeypis kílómetra bara upp á stemninguna, áður en fór að hægja á mér aftur. Síðustu fimm kílómetrana hljóp ég bara frekar bugaður. Stoppaði á öllum drykkjarstöðvum og gekk meðan ég hellti ofan í mig vatni. En þetta er undarleg tilfinning – að halda bara áfram. Og að átta sig á því að maður sé í alvöru að komast í mark. Eftirvænting eftir því að „fá“ að hætta að hlaupa og stolt yfir því að hafa gert þetta – áður en maður er einu sinni kominn í mark. Ég hef lengi hlaupið þótt ég hafi ekki „tekið þátt í hlaupum“ en fyrir fjórtán mánuðum var ég kominn í frekar slæmt form – fór út að hlaupa í Svíþjóð, hljóp tæpa 3k í sól og brekkum og var gersamlega búinn á því á eftir, og skildi ekki hvernig mér hefði tekist að glopra svona niður ágætis hlaupaformi. Og þá ákvað ég að finna mér einhverja áskorun – og spurði Nödju (sem er miklu meiri íþróttamaður en ég) hvort hún vildi ekki koma með mér í maraþon að ári. Sem hún samþykkti dálítið treglega, enda hlaup ekki hennar eftirlætis íþrótt. Og fjórtán mánuðum síðar var maður bara að koma í mark.

Síðustu fimm hundruð metrana gaf ég aðeins í, tók það síðasta sem ég átti – og hljóp inn á íþróttaleikvanginn í Bregenz. Ég fór yfir marklínuna. Staulaðist í fangið á einhverjum strák sem hengdi á mig medalíu – ég fékk enga medalíu í Vesturgötuhlaupinu í sumar, sem mér fannst svolítið fúlt, mest sennilega af því ég var ekki íþróttabarn og á ekki haug af medalíum einsog t.d. Nadja (þær eru reyndar allar týndar en það er önnur saga). Ég fékk eina fyrir 60m hlaup sjö ára drengja árið 1985 – brons. Silfur fyrir að veiða minnsta fiskinn í veiðikeppni 9 ára (gull fékk sá sem veiddi stærsta fiskinn og brons sá sem veiddi flesta – ég samdi ekki reglurnar). Og svo ekkert fyrren ég fékk þátttökumedalíu fyrir 10km í Bangkok nú um jólin og nú þessa, sem mér þykir mjög vænt um.

Tíminn minn var 4 klukkustundir og 42 mínútur. Sem mér finnst bara harla gott. Ég hafði hugsað að við bestu aðstæður myndi ég ná þessu á fjórum og hálfum en verstu eitthvað rúmlega fimm.

Kominn í mark gekk ég bara um í dálitla stund einsog höfuðlaus – og fótalaus – hæna. Nadja var enn að hlaupa og ég einhvern veginn bara frekar lost. Ég vissi ekki alveg hverju ég átti að búast við. Í Bangkok voru ekki bara steinefnadrykkir í boði heldur líka alvöru máltíðir – þá fékk ég mér risa pad thai, enda verð ég oft feykilega svangur af langhlaupum. Eftir Vesturgötuna voru próteindrykkir og steinefnadrykkir og áreiðanlega snakk og eitthvað. Ég gekk í átt að tjöldunum og þar var eiginlega ekkert nema kók og saltstangir. Svo beið ég eftir Nödju sem kom í mark 12 mínútum á eftir mér. Við vorum bæði frekar ringluð af þreytu og fæturnir alveg búnir. Fórum út af leikvanginum og gengum í gegnum veitingatjöldin og leituðum að trukkunum með fatapokana. Þegar þeir fundust – eftir talsverða leit – fór Nadja í sturtu en ég lét duga að skipta í þurran bol og fór og settist í eitt veitingatjaldið. Þar var ekki hollustunni fyrir að fara – og eitthvað mjög þýskt við þetta allt saman, sveitta feitabollukarla í maraþongallanum að troða í sig kartöflumjölsborgurum og pommes með bjór og bregða sér af og til út í sígó.

Nadja var furðulegt nokk ekkert svöng svo við ákváðum að halda bara aftur heim á hótel. Við rákumst á tvær sænskar vinkonur, eldriborgara, sem höfðu hlaupið mörg maraþon – meðal annars uppstrílaðar sem strumpar í Liège – og spjölluðum við þær á leiðinni út á brautarstöð. Þær voru mjög skemmtilegar.

Á hótelinu þreif ég mig loks og svo fórum við og fundum okkur pizzeriu í gamla bænum – leigubíllinn fór fyrst með okkur á hótel þar sem yfirmaður leigubílafyrirtækisins hafði skilið eftir kortið hennar Nödju. Mann langaði eiginlega að vera með medalíuna á sér, ekki bara til að grobba sig heldur líka svo að fólk skildi hvers vegna maður gekk einsog maður væri með glerbrot í skónum.

Mánudagurinn var líka erfiður fyrir fæturna. Ég fann vel að merkja ekki mikið fyrir 30k hlaupinu í sumar daginn eftir og hef ekki fengið svona miklar harðsperrur áður. Þetta er stærra stökk en maður heldur – önnur skepna. En það er ekki mælt með að maður æfi lengri vegalengdir en 30k vegna meiðslahættu.

Þennan dag þurftum við líka að koma okkur til Zurich og að gamalli venju var ég ekki með tösku heldur stóra bakpokann. Sem var kannski ekkert mjög skemmtilegt á þreyttum fótum. Í Zurich fórum við síðan í nudd, sem var mjög næs. Þriðjudagurinn var svo talsvert skárri og nú er ég orðinn frekar eðlilegur – fyrir utan að ég þurfti skyndilega langan lúr um miðjan dag. Bara krassaði algerlega. Kannski finnst einhverjum það skrítið en mér finnst gaman að taka svona eftir líkama mínum – og hugsa um það hvernig hann bregst við bæði álaginu og því hvernig er farið með hann fyrir og eftir. Og ég fer áreiðanlega aftur í maraþon einhvern daginn – þótt Nadja segist ekki ætla í meira en hálft þá á ég vini sem eru spenntir fyrir heilu, t.d. fyrir vínsmökkunarmaraþoninu í Médoc. Sjálfum finnst mér líka Loch Ness maraþonið spennandi og Berlínarmaraþonið og mér finnst spennandi tilhugsun að fara í eitthvert amerískt hlaup líka.

En þær pælingar bíða betri tíma. Nú er ég aðeins að ráfa um sögusl´óðir James Joyce í Zurich – það verður líka skýrsla um það – fer heim á föstudag og við tekur intensíf skriftörn í bústað. Svo eru meiri bókakynningar í útlöndum. En ég verð svo sem með skóna með mér.

Nóbell

Ég veit ekki hvort mér finnst nóbelsverðlaunahafar sérstaklega skemmtilegir. Það er allavega eitthvað upp og ofan hvað ég næ sambandi við verk þeirra – Coetzee og Saramago eru kannski þeir sem ég hef helst aðdáun á. Og Dylan en það voru samt fáránleg verðlaun, einhvern veginn. Ég er enginn sérstakur HKL maður en átti svo sem tímabil þar sem ég hélt upp á Heimsljós og Gerplu. East of Eden var einu sinni uppáhalds bókin mín.

Nú renni ég yfir listann og sé að þetta eru nú ekki beinlínis höfundar sem mér hafa þótt leiðinlegir heldur. Orhan Pamuk fíla ég. Af þeim sem hafa fengið þetta í minni lífstíð eru ekki nema 4-5 sem ég hef ekkert lesið. Og kannski bara einn – Modiano – sem ég náði alls engu sambandi við.

Af þeim sem taldir eru líklegir held ég mest upp á Don DeLillo en það er samt eitthvað í mér sem vill hvorki að risastór höfundur né ameríkani fái þetta. Um Pynchon gildir sama – þar er ég reyndar mest Crying of Lot 49 maður, hitt hef ég hreinlega ekki haft tíma eða heilasellur til að skilja enn (ég hef samt plægt mig í gegnum Gravity’s Rainbow).

Af ´Íslendingum væri það helst Sjón – að öðrum ólöstuðum, þetta er ekki bara spurning um gæði heldur líka bókmenntategund, nóbelsverðlaun eru ekki fyrir hvernig bækur sem er, Sjón skrifar þessa bókmenntategund og hann er að mínu mati „nógu góður“. Reyndar er Anne Carson líka Íslendingur. Ef annað hvort þeirra fengi þetta þá væru Íslendingar búnir að rústa höfðatölumetinu næstu 200 árin a.m.k.

Af höfundum sem aldrei eru nefndir myndi ég nefna Will Self. Ali Smith – er hún ekki stundum nefnd? Mér þætti það líka skemmtilegt. En svo segir það eitthvað um sýn manns á bókmenntirnar að það sem manni dettur í hug er helst enskumælandi höfundar. Arnon Grunberg er hollenskur höfundur sem ég fékk dellu fyrir en eiginlega er það mest ein bók – The Jewish Messiah – sem ég náði svona góðu sambandi við.

Kraznahorkai hef ég ekki lesið nógu mikið – bara eina stutta bók – en ég hef trú á honum. Ko Un er aftur á lista sé ég – eftir nokkur ár af kansli – og ég held mikið upp á ljóðin hans. En það er kannski ekki gott fyrir kvennabaráttuna að hann vinni. Cesar Aira er frábær – mjög sérstakur, auðlesnar bækur sem eru allar um 100 síður og leysast allar upp í vitleysu. Mér finnst Murakami fínn – þótt hann sé, einsog einn vinur minn sagði um Ishiguro, „middle of the road höfundur“. Og einsog með Dylan þá er hann bara svo stór að það er kjánalegt að vera að hengja á hann orður. Sama gildir um Isabel Allende. Yoko Tawada er á listanum og Colm Toibin og Carl Frode Tiller – allt fínir höfundar. Og fleiri! Það er víst nóg til af góðum höfundum. Vonandi fær einhver þeirra verðlaunin á morgun.