Hver er heimspekilegur, fagurfræðilegur og pólitískur munur þess að vilja uppræta klámfengna brandara úr umhverfi sínu – og/eða skilgreina þá sem kynferðislega áreitni, jafnvel ólöglega (er ekki öll kynferðisleg áreitni ólögleg?) – og þess að vilja uppræta klámfengna texta úr t.d. fagurbókmenntum, sjónvarpsþáttum, tónlist o.s.frv.? Hvað ef við skiptum einfaldlega út orðinu „klámfengið“ fyrir „óþægilegt“ – eitthvað sem triggerar?

***

Bjarni Randver ber sig illa að hafa verið kallaður „kaunfúll barmabrundull“ – Bragi Valdimar yrkir um tíu litla kynvillinga og fær bágt fyrir – iðnaðarmenn segjast ekki vilja fara niður á það plan að „sætta sig við kynferðislega brandara“ – Hannes Hólmsteinn tekur dæmi um nauðgun og nytjahyggju (ef nauðgunin er X góð fyrir nauðgarann en bara Y vond fyrir þann sem er nauðgað, og X er meira en Y, er þá nauðgunin réttlætanleg því hún auki „heildarhamingju“ samfélagsins). Und so weiter.

***

Augljósasti munurinn er að bókin er rými sem maður velur að ganga inn í. Brandari sem manni er sagður í vinnunni krefur mann ekki um þátttöku – með segir ekki „Heyrðu, Gvendur, þú ert alltaf svo fyndinn, segðu mér brandara“, Gvendur bara segir manni brandarann. Kúrs Hannesar er skyldukúrs. Maður þarf að ýta á play á Braga Valdimar. Að vísu veit maður aldrei hvað stendur í bókinni, hún getur alveg komið manni í opna skjöldu, og margir gera raunar þær kröfur til bóka að þær geri það. Og stundum les maður hluti af fúsum og frjálsum vilja sem ofbjóða manni samt – einsog Bjarni Randver virðist hafa tekið skrifum Þórðar Ingvarssonar illa, en bloggið las hann samt sjálfviljugur, hann fór inn í þetta rými og vissi sennilega hvers væri að vænta.

***

Ég svitna alveg svolítið á efri vörinni yfir öllum svona kröfum. Ég skal alveg viðurkenna það. Mér finnst þær fýsískt óþægilegar. Ekki bara fyrir mína hönd – en líka mína hönd – heldur fyrir hönd óþægileikans, fyrir hönd þess sem finnst tilhugsunin um sótthreinsað samfélag þar sem maður rekur sig aldrei utan í óþægileg.

***

Sem þýðir augljóslega ekki að manni eigi ekki að finnast hlutir óþægilegir og þaðan af síður að maður eigi ekki að æmta. Æmtið er frumforsenda hins próblematíska og dýnamíska samfélags. Frumæmtið.

***

En bannið er bannað. Brottreksturinn er lúseramúv. Stigmu eru glötuð.

***

Og rýmið já, svo ég klári þá pælingu. Listrýmið, rýmið þar sem eitthvað vafasamt MÁ gerast, þar sem við erum undir það búin, er auðvitað einhvers konar gelding á hinu vafasama. Ögrun í rými sem er hannað fyrir ögrun og þangað sem fólk kemur bara til að leika ögrunarleiki er auðvitað ekki rými fyrir raunverulega list – það er sín eigin tegund af safe space-i, köntríklúbbur fyrir fólk í dúkkulísuleik, eins konar listlíkisverksmiðja. List sem ætlar að ögra verður að eiga sér stað annars staðar. Í mötuneyti Reykjavíkurborgar. Í kaffistofum iðnaðarmanna. Í upplestri frekar en í bók. Maður býður ekki sjálfum sér í ögrunina, hún verður að sækja mann heim óboðin og trufla. Ef maður er ekki að minnsta kosti pínulítið ofsóttur fyrir hana var maður ekki að ögra neinum.

3 svör við “”

  1. Bjarni Randver Sigurvinsson bregst við á Facebook síðu sinni:

    > Eiríkur Örn Norðdahl rithöfundur brást nýverið við þessari Hugrásargrein minni á bloggi sínu Fjallabaksleiðinni og er bersýnilega ósáttur við skrif mín og tekur gagnrýni sem kröfu um bann. Hann virðist telja það mikilvægt að staðið verði vörð um rétt manna að fá að áreita aðra kynferðislega í netheimum og á prenti og segist svitna og hreinlega finna fyrir líkamlegum óþægindum af tilhugsuninni að samfélagið verið sótthreinsað af slíku. Hann lítur svo á að sá sem verði fyrir kynferðislegri smánun eigi einfaldlega að láta hana fram hjá sér fara og geti sjálfum sér um kennt ef hann leiti uppi efni á opinberum vettvangi þar sem hann sé niðurlægður með þeim hætti. Ég hefði t.d. að hans mati hæglega getað látið það ógert að lesa það sem vantrúarforystumaðurinn Þórður Ingvarsson skrifaði um mig á þeim tíma þegar sá einstaklingur lét kærunum rigna yfir mig ásamt félögum sínum í Vantrú og beitti mig margþættum þrýstiaðgerðum.

    > Spyrja má hvort þessi afstaða Eiríks Arnars sé kynbundin og einskorðist við karlmenn eða hvort hún nái einnig til þeirra kvenna sem sæta kynferðislegri smánun á opinberum vettvangi? Lítur Eiríkur Örn svo á að sumar konur verði að sætta sig við það að vera smánaðar kynferðislega í netheimum og á prenti? Telur Eiríkur Örn að sú kona geti aðeins sjálfri sér um kennt sem finnist óþægilegt að sjá sig smánaða kynferðislega á slíkum vettvangi því að hún hefði einfaldlega átt að sleppa því að lesa það sem skrifað hafi verið um hana? Er það sjónarmið Eiríks Arnars að standa beri vörð um þann „rétt‟ ofbeldismanna að fá að smána hverja þá konu kynferðislega sem þeim þóknast í því rými sem þeir afmarka sér opinberlega? Hvað svo sem sagt verður um skrif Eiríks Arnars um þessi efni þá er athyglisvert að margir þeir sem verja tilvist kynferðislegra níðskrifa af ýmsu tagi á netinu og á prenti sjá sjaldnast ástæðu til að gagnrýna þau efnislega.

  2. Þess má geta að umrædd færsla Þórðar, eins ósmekkleg og hún nú var, var viðbrögð við fúkyrðalista Bjarna Randvers sem hefur safnað ummælum vantrúarsinna í möppur sínar afskaplega lengi – og oft tekið gróflega úr samhengi.

    Þórður var semsagt að ögra og eins og fram kemur í næstu bloggfærslu Þórðar, þá trúði hann því ekki að Bjarni Randver myndi taka þessi skrif alvarlega og bæta fúkyrðunum á listann sinn.

  3. Haha. Þetta er nú ljóta ruglið. Ég var alls ekkert að „bregðast við“ þessari grein, ég tók þetta mál bara sem eitt af nokkrum dæmum, í fremur ábyrgðarlausri deleringu, til að leggja áherslu á að það væri munur á fúkyrðum sem væri fleygt í mann óspurðan og hinum sem maður þyrfti að leita uppi. Það væri munur á etíkettum eftir ólíkum rýmum – maður gæti t.d. ekki búist við sama talsmáta við óformlegt spjall í beitingaskúr og við formlegar samræður í banka vegna húsnæðisláns. Ég lít ekki beinlínis svo á að maður eigi að láta allt yfir sig ganga, en ef maður skilur ekki muninn á því að fara á kórtónleika á mánudagseftirmiðdegi og að fara í eftirpartí með Mötley Crüe þá er best að maður haldi sig bara heima.

Lokað er fyrir athugasemdir.