Ég er eirðarlaus að reyna að láta handritið vera í smá stund. Maður þarf að geta látið hlutina í friði stundum. Leyft þeim að gerjast eilítið, meltast eilítið, og kannski ekki síst þegar veruleikinn er viðstöðulaust að skipta sér af, hella sér yfir handritið, flæða innum glufurnar og krefjast breytinga. Þetta þarf nokkra daga, helst viku – og ég þarf nokkra daga þar sem ég er ekki að farast úr einhverjum vinnualkamóral. Ég má taka því rólega. Það mun hvorki kosta mig lífið né ferilinn og athugasemdakórinn í listamannalaunaumræðunni heldur hvort eð er að ég sé aumingi sem mæti aldrei í vinnuna.

***

Ég er enn að lesa bækur, enn að horfa, enn að gúgla svo það er viðstöðulaust áreiti úr þeirri áttinni – sem má ekki fara ómelt inn í viðkvæmt handrit – og svo eru það bara fréttirnar, veruleiki samfélagsmiðla, hamslaus narsissisminn, allar réttlætiskenndirnar, öll þórðargleðin og fordæmingasirkusinn á víxl.

***

Og þá er ágætt að halda bara vinnudagbókinni gangandi þótt það sé ekki mánudagur. Þótt ekki væri nema bara til að hreinsa aðeins til í huganum. Mér finnst einsog afstaða mín til margra hluta – sérílagi til PC kúltúrs – verði alltaf mótsagnakenndari og mótsagnakenndari og ég kann ekkert að leysa úr því. Öðruvísi en að skrifa, það er að segja, til þess er ég kannski að skrifa – allar síðustu bækur, sennilega frá Gæsku, að ljóðabókunum meðtöldum, að Plokkfiskbókinni meðtaldri – eru einhvers konar tilraun til þess að leyfa mótsögnunum að þrífast í von um að þær þá kannski leysi úr sér sjálfar, eða samræmist einhvern veginn.

***

Höfuðmótsögnin, alveg frá Gæsku, snýst um átökin við pólitíska skáldverkið sem slíkt. Og þá staðreynd að einhvers staðar finn ég fyrir gríðarmikilli þörf til þess að skrifa um pólitíska viðburði eða veruleika, um samtímann einsog hann er að gerast fyrir augunum á mér, á meðan ég bókstaflega þoli ekki predikanir og finnst nær engin pólitísk list komast upp úr þeim hjólförum. Þar að auki er vonlaust að ætla að sjá samtímann – það er einsog að horfa út um hliðarrúðuna á bíl, það fer allt of hratt framhjá.

***

Mér finnst rosalega gaman reyndar að skrifa senur þar sem ekkert gerist nema hreyfingar. Þar sem fólk hreyfir sig um í tiltölulega merkingarsnauðu rými. Hellir upp á kaffi. Vökvar blóm. Sýður egg á meðan vindurinn gnauðar í gluggarifum. Og þær eru þarna líka. Ég er sennilega frekar eftirlátssamur höfundur.

***

Önnur mótsögn er hvað mér finnst þetta allt stundum stjórnlaust fyndið. Og hvað ég get tekið því ofsalega alvarlega, svo liggur við að ég komist ekki á fætur á morgnana.

***

Ein erfiðasta mótsögnin við Hans Blævi, fyrir höfundinn a.m.k., er hvað sagan er í senn mórölsk og ómórölsk, rétt og röng; ég má ekki segja hana og mér bar skylda til að segja hana. Bæði er sennilega alveg rétt og ég verð bara að taka afleiðingunum af því. Í þessu er einhvers staðar líka hornmótsögn sem segir að hvorugt hafi í raun skipt máli – þetta sé alls ekki móralskt eða ómóralskt heldur sé ég bara sjálfur (einsog stór hluti samfélagsins) fastur í einhverjum skylduboðsvefnaði þar sem allt skal vegið á þessum vogarskálum. Það gæti jafnvel verið einn af hornsteinum sögunnar sjálfrar.

***

Og hvar stendur maður þá? Það veit ekki nokkur maður.