Þetta er forseti lýðveldisins að horfa á mig lesa upp úr Hans Blævi á Flateyri nú á laugardag. Þetta var epískt rugl. Ef ég hefði ekki verið að gera þetta launalaust (sem er í sjálfu sér skandall) þá hefði ég gefið öllum endurgreiðslu og sennilega forsetanum tvöfalda.

Svona var þetta.

Bókabúðin Bræðurnir Eyjólfsson. Bókmenntadagskrá í tilefni af stofnun Lýðháskólans. Húslestur í sparistofunni sem var full af fyrirmennum – meðalaldur sennilega um sextugt. Guðmundur Andri og Auður Jóns höfðu verið auglýst – en forfölluðust bæði og í staðinn kom Annska vinkona mín og las afskaplega fallega sögu úr fortíðinni, vel stílaða og fulla af ljúfsárri nostalgíu. Svo var komið að mér.

Þetta var í annað skiptið sem ég les úr Hans Blævi. Það fyrra var í Gallerí Úthverfu á maraþonlestri Lomma og Brynjars Jóhannessonar. Þá las ég í fjörutíu mínútur fyrir hóp sem auk Lomma, Brynjars og Ólafs Guðsteins íslenskukennara samanstóð af 10-15 íslenskunemum sem voru mjög góðir í málinu miðað við að hafa byrjað að læra það nokkrum dögum fyrr.  Ég hugsa að þeir hafi ekki hugsað mér jafn þegjandi þörfina og spariliðið á stofnun Lýðháskólans á Flateyri. Enda skildu þeir blessunarlega mest lítið af viðbjóðinum sem ég lét út úr mér.

Ég las sama kafla á Flateyri og í Úthverfu – kafla sem lýsir því hvernig Hans Blær er orðið þreytt á að trolla daginn inn og út og vill fara að gera eitthvað gagn í lífinu. Þetta verður til þess að hán stofnar Samastað – nietzscheískt heimili fyrir nauðgunarfórnarlömb – og kaflinn endar á kokteilveislu við opnun þessa heimilis, innanum alls kyns pólitísk fínimenni. Ég skar talsvert innan úr kaflanum á Flateyri enda las ég helmingi skemur en í Úthverfu – en það voru engu að síður eftir alls konar lýsingar á mótorhjólaköppum að lesta hver annan í endaþarminn og Hans Blævi að skrá Bryndísi Schram á Tinder í leit að „sígröðum satýrikon“, ofan í annað álíka troll, strákapör og subbulegan húmor. Forsetinn hló að vísu aðeins á einum stað, eða ég held það hafi verið hann, en annars heyrðist ekki múkk í fólki. Mér leið einsog ég stæði nakinn á sviðinu að maka mig í skít – án þess að hafa áttað mig á því fyrren í miðju kafi að þetta væri alls ekki viðeigandi.

Ég átti vinalegt spjall við forsetann fyrir þetta – ég þekki dóttur hans, hef kennt henni ritlist á tveimur ólíkum vettvöngum – og stakk sosum ekki af strax og þetta var búið, heldur vandræðaðist eitthvað fram og til baka um rýmið, fallegu bókabúðina hans Eyþórs á Flateyri sem einsog undirstrikaði hvað þetta væri mikið rugl í mér, vitlaus texti á vitlausum stað úr vitlausum manni fyrir vitlaust fólk, ég hugsaði ekki um neitt nema að horfa aldrei í augun á neinum. Og svo hrökklaðist ég bara út. Það vantaði bara að ég bæði alla að fyrirgefa mér.

Ég man eftir því að hafa lent í svipuðum aðstæðum fyrir um 14 árum síðan. Þá vorum við Steinar Bragi og Hildur Lilliendahl að þvælast um á norðanverðum Vestfjörðum og lesa ljóð fyrir fólk. Á fyrsta upplestri, í félagsheimilinu í Súðavík, áttuðum við okkur á því að ljóðin okkar voru öll meira og minna ósæmileg í orðavali og umfjöllunarefni (þetta var á öld „vessapóesíunnar“). Ég var með Nihil Obstat sem var einhvers konar æfing í transgressjón, reiði og klámi, Hildur með óútgefið efni og Steinar sennilega með Gosa (þar sem forsetanum er einmitt „riðið í skítgatið“ – en það var annar forseti).

Við gerðum með okkur samkomulag um að bara eitt okkar mætti hvert kvöld ganga fram af áheyrendum – það væri of mikið að við gerðum það öll – og skárum úr um hver það yrði með því að keppa í Skrafli, sem Hildur svo vann alltaf. Það var hægara sagt en gert að sneiða hjá dónaskapnum í Nihil Obstat en það hafðist samt meira og minna. Og ef það var hægt þá er hægt að finna kafla í Hans Blævi sem er viðeigandi í virðulegum félagsskap.

***

PS. Það er kominn formlegur útgáfudagur. Eða tveir mögulegir. Annað hvort kemur bókin í búðir 25. október eða 30 október. Allavega á meðan það klikkar ekki að hún komi með skipinu frá Þýskalandi þann 22.