Meira, HKL/McEwan, The Square, Bensínið er búið, Endgame, Cornhole, Elías, Rise of the Guardians og Kona fer í stríð

Bók vikunnar var Meira eftir Hakan Gunday. Ég ætla að skrifa um hana fyrir Starafugl svo ég segi ekkert um hana sérstaklega hér, annað en að hún meðmælist hart. Hún hafði af mér hin stóru Prix Medici verðlaun í Frakklandi – ég var tilnefndur fyrir Illsku – og ég get bara eiginlega ekkert verið beiskur yfir því, þetta var bara mjög verðskuldað hjá Gunday. „Mikilvæg bók“, einsog maður segir. Allir ættu að lesa hana.

***

Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness voru veitt í fyrsta sinn í síðustu viku. Reyndar voru önnur verðlaun sem hétu þessu sama nafni fyrir svona 15-20 árum. Þau voru veitt kannski tíu sinnum fyrir nafnlaus innsend handrit og ráku sig í strand. Bæði voru þau veitt höfundum sem voru ekki í in-crowdinu, sem var vandræðalegt – Eyvindur P. Eiríksson fékk þau eitt árið en fékk svo ekki einu sinni listamannalaun til að klára framhaldið – og svo spurðist út að einhver handrit sem unnu hefðu alls ekki verið send inn í keppnina heldur verið dregin upp úr skúffum útgefenda og höfundunum bara boðin verðlaunin. Af því innsendu handritin voru ekki nógu góð. Svo sögðu sumir að bækurnar væru bara alls ekki nógu góðar – eða að gæði þeirra væru almennt ekki nógu góð, þótt það væru góðar þarna á milli. Þau enduðu einhvern veginn alveg án nokkurs trúverðugleika.

En þessi nýju HKL-verðlaun eru alþjóðleg og fyrsti verðlaunahafinn er Ian McEwan. Ég hef verið mishrifinn af bókum hans – ég var hrifinn af Saturday og Hnotskurn en minna af öðrum. Margir hafa orðið til að segja að það sé hálftilgangslaust að veita svona frægum höfundi enn ein verðlaunin. Þá hefur verið fundið að því að hann sé hvítur karl (classic aðfinnsla), að hann skrifi á ensku og hafi ekkert við peningana að gera. Aðrir hafa sagt að það sé taktískt að veita McEwan verðlaunin fyrstum svo þau hafi ákveðna þyngd, svo megi taka vogaðri ákvarðanir síðar.

En þetta fer auðvitað allt eftir því hvaða tilgang verðlaunin eiga að hafa. Hvaða  prófíl maður vill handa þeim. Ég held það fari illa að veita McEwan verðlaunin ef maður ætlar ekki bara að hafa þetta einhvers konar heimsmeistarakeppni í sagnamennsku – að veita þau bara McEwan týpunum. Það þýðir ekki að verðlaunahafar þurfi allt að vera hvítir karlar frá Vesturlöndum en það þýðir að maður svíkur ekki ákveðna meinstrím fagurbókmenntir sem njóta metsölu, hafa fengist samþykktar af markaðnum – Margaret Atwood getur fengið þau, Chimamanda Ngozi Adichie, Hanif Kureishi, Junot Diaz eða Hilary Mantel kæmu öll til greina. En það myndi gerast sjaldan ef nokkurn tíma að höfundurinn væri manni óþekktur eða viðkomandi væri lítið sem ekkert þýddur eða að bókmenntirnar væru fagurfræðilega erfiðari – Jelinek-týpurnar gætu ekki fengið þetta.

Verðlaun geta verið einföld meistarakeppni – þá er ekkert skrítið að sama fólkið vinni aftur og aftur. Öll slík hugsun er afleiðing elítisma og þá eru í alvöru ekki nema svona 10 verðugir höfundar í heiminum á hverjum gefnum tíma – ekki að það séu bara 10 höfundar sem skrifa frábærar bækur heldur eru bara 10 sem sameina að skrifa frábærar bækur og vera miðlægir í kastljósinu.

Verðlaun geta líka verið hugsuð til þess að ýta fólki/verkum inn í þetta kastljós – það er oft hugsunin á bakvið nóbelsverðlaunin og þess vegna er svo mikil fýla þegar einhver einsog Bob Dylan fær þau, ekki vegna þess að hann sé ekki frábær heldur vegna þess að virkni verðlaunanna er þá ekki sú sem fólk býst við af þeim. Halldór Laxness fékk þetta bömp og með því fylgdi sæti í eilífðinni.

Svo geta verðlaun verið menningarpólitísk í þeim skilningi að þau hampi ákveðinni fagurfræði umfram aðra. Þau gætu t.d. hampað einfaldri sagnalist eða margbrotinni, hampað ljóðrænum sögum eða raunsæjum stíl, hampað vísindaskáldskap, skáldskap kvenna, skáldskap minnihlutahópa, pólitískum skáldsögum eða framúrstefnuljóðum. Bókmenntaverðlaun HKL eiga að veitast höfundi sem stuðlar að endurnýjun sagnalistarinnar – en fyrir það fékk HKL nóbelinn á sínum tíma.

Að velja Ian McEwan er að ryðja sér rúms á Bookersvæðinu. Metsölubókasvæðinu. Svo getur vel verið að það verði rokkað á milli popúlískari ákvarðana og vogaðri og þá er maður meira á Nóbelsverðlaunasvæðinu – en þótt þau séu löskuð er ansi mikið af plássinu á því svæði þegar tekið. Verðlaunaupphæðin – 2 milljónir – gefur nú líka til kynna að það eigi að taka þessu mátulega alvarlega. Sennilega er þetta vikukaup fyrir mann einsog McEwan. Dugar ekki til að kaupa sér nýjan bíl.

Aðallega finnst mér þessi bestsellerismi leiðinlegur. Færri og færri titlar rata út úr bókabúðum – ekki bara færri og færri bækur, heldur taka metsölubækurnar yfir stærri og stærri hluta markaðarins, og þær gera það í krafti áherslu bókmenntaheimsins á að búa til hype í kringum sömu hlutina aftur og aftur. Hér er ekki bara við forlögin að sakast – þótt þau hafi meira vald til að spyrna á móti en flestir – heldur er þetta meinsemd sem nær miklu víðar. Verðlaun sem varpa ljósi á eitthvað nýtt frekar en að fagna því sama þúsundasta skiptið í röð væru viðnám við þessari þróun.

***

Ég tók mig til og horfði á Square eftir Ruben Östlund í vikunni. Hún var mögnuð þótt hún hafi ekki verið jafn óþægileg og Play eða Turist (Force Majeure). Kannski var of miklu hrúgað í hana til þess – Play og Turist voru ísmeygilegri, hentu fram einni forsendu og létu mann svo dvelja í henni og kveljast lengi án þess að það gerðist neitt mikið meira. Square er meira tårta på tårta, einsog Svíarnir mínir segja, ofhlaðin – ástandið getur alltaf orðið aðeins skrítnara, aðeins óþægilegra. Mér finnst það ekki endilega verra en það skapar allt annað andrúmsloft og maður tekur hana öðruvísi inn þótt stíllinn og tónninn séu kunnugleg úr fyrri myndum Östlunds.

Áhugaverðasti búturinn – eða einn af þeim áhugaverðari – sem hefði getað borið heila mynd í raun, er hlutinn með auglýsinguna sem listasafnið gerir.

Listasafnið fær auglýsingastofu til að gera fyrir sig auglýsingu til að vekja athygli á myndlistarverki sem heitir The Square. The Square er einfaldlega ferningur á gólfi sem maður getur stigið inn í og þar eiga allir að njóta sömu réttinda og hafa sömu skyldur gagnvart hvert öðru. Auglýsingastofugosunum finnst þetta augljóslega frekar glötuð og tilgerðarleg hugmynd og segja erfitt að gera fólk spennt fyrir henni. Þeir búa svo til auglýsingu þar sem ung hvít ljóshærð stúlka, betlari, er sprengd í loft upp í miðjum reitnum. Stjórninni finnst þetta svolítið pólitískt vandræðalegt og „mycket problematiskt“ – en svo kemur stjórinn inn, aðalsöguhetja myndarinnar, og hann hefur eiginlega of mikið að gera og nennir ekki að láta stressa sig með þessu, lítur í fimm sekúndur á tillöguna og segir svo bara „jájá, frábært, einmitt það sem við vorum að spá“ og gengur á dyr. Svo auglýsingin er framleidd með samþykki stjórans, sem enginn þorir að andmæla.

Einhverjum tíma síðar verður auglýsingin svo viral og stjórinn þarf að svara fyrir þessi ósköp. Á blaðamannafundi stendur upp brún kona með hreim og spyr hvort hann hafi enga samlíðan með betlurum, hvort hann sé bara samviskulaus, og hann umlar eitthvað, biðst afsökunar, þetta sé auðvitað ekki gott, hann ætli að segja af sér. Næst stendur upp blaðamaður – hvítur karl – og spyr hvort hann ætli bara að segja af sér, hvað hafi orðið um tjáningarfrelsið, skyldu safna til að standa með hinu erfiða þegar eitthvað svona smotterí getur orðið til þess að setja fólk alveg af sporinu. Og hann bara umlar og segir ekki neitt.

Það sem slær mann er sannferðugleikinn á bakvið þennan skort á núönsum. Að maður geti ekki gengist við að eitthvað hafi verið mistök, maður hafi slegið feiltón, án þess að feiltónninn sé ófyrirgefanleg katastrófa. Öll svör verði vandræðalegt uml. Það er ekkert í stöðunni nema að segja af sér og hverfa inn í skuggana eða rísa á fætur með hnefa á lofti til að berja á … betlurum … og góða fólkinu í nafni málfrelsisins. Eða einmitt bara umla og deyja.

Ég festist kannski líka í þessari senu vegna þess að ég var nýbúinn að rekast á nokkurra vikna gamalt mál femínistans Camille Paglia. Paglia – sem hefur á stundum talað um sig sem trans – var í viðtali neikvæð á það sem hún kallar trans-bylgju samtímans:

I am highly skeptical about the current transgender wave, which I think has been produced by far more complicated psychological and sociological factors than current gender discourse allows.

Þá hefur hún líka „talað niður“ metoo hreyfinguna og fleira. Afleiðing þessa var ákall um að hún yrði rekin úr stöðu sinni sem háskólaprófessor sem fleiri þúsund manns skrifuðu undir.

Nú er ég ekki endilega sammála Paglia og raunar ekki alltaf alveg viss hvað hún er að fara. Hún er broddfluga í vestrænni menningu – hefur verið talin meðal stærstu menntamanna samtímans – og hefur gert sér far um að hafa óþægilegar, ögrandi skoðanir. Mörgum finnst það sennilega bara vera eitthvað edgelord-dæmi sem gangi út á að fá athygli – það er yfirleitt svarið – en ég held að samfélag sem á ekki fólk einsog Paglia, sem setur spurningarmerki jafnvel á viðkvæmustu stöðum, óttast ekki alltaf að hafa (sögulega?) á röngu að standa og skirrist ekki við að nefna nöfn eða gagnrýna þá sem standa henni annars nærri í fræðunum (það er erfitt að finna frægan femínista sem hún hefur ekki einhvern tíma gagnrýnt), ég held að þannig samfélag úrkynjist og verði einfeldningslegt og sannast sagna bara dálítið fasískt. Krafan um að fá að svara þessum spurningamerkjum – að fá að takast á við þau, fá plattform til þess að takast á við þau o.s.frv. er mjög eðlileg. Samfélag þar sem allir eru einsog Paglia er ekki heldur samfélag neinna hugmyndafræðilegra átaka heldur samfélag sams konar átomatona og þar sem enginn spyr neins. Það verður að vera díalógur og hann þarf að geta átt sér stað án þess að það sé krafa um að allir séu sammála.

Þetta er það sem krakkarnir á twitter kalla cancel culture – sem er hugtak sem maður sér næstum jafn oft í neitunarstaðhæfingum („það er ekki til neitt cancel culture“) og maður sér góða fólkið („there’s no such thing as PC and if there is it’s only correctly applied to nazis“).  Og sem betur fer tekst þetta ekki alltaf – þótt krafan um brottrekstur sé ekki gáfulegri fyrir vikið – Paglia hélt vinnunni, en það munaði litlu.

***

Ég keypti mér stuttskífuna Bensínið er búið með Langa Sela og Skuggunum á vínyl. Þetta er auðvitað klassa rokkabillí og búgí og ekkert verið að finna upp hjólið – en þetta hittir mig alveg í hjartastað. Hingað til hef ég verið ákafastur yfir síðasta laginu, Salt & Pipar. „Ég nota salt og pipar  / (salt og pipar) / því þú ert bara alltof sæt“.

Myndmálið í þessu er áhugavert. Hann notar salt og pipar því hún er alltof sæt. Þetta er auðvitað heterónormatíft – rokkabillí er það eiginlega alltaf,  ekki síst þegar það er drag einsog hjá John Waters. Ég hef einhvern tíma látið hafa eftir mér að ef ég er með ofurkraft sé það að geta getið mér til um hvar fólk staðsetur sig á kynjarófinu út frá því hvað það setur á diskinn sinn á morgunverðarhlaðborði. Þar koma salt og sæta einmitt mjög sterk til leiks – það er (alla jafna) maskúlín að taka beikon og pulsur, feminín að taka jógúrt, ávexti og sætabrauð. En líkt og í kynjakerfinu eru áhugaverðar undantekningar – það er t.d. maskúlín að hrúga á diskinn sinn bökuðum baunum í dísætri tómatsósu og það er feminín að taka þykkar sneiðar af söltum camembert. (Óþarfi er að taka fram að maskúlín/feminín eiginleikar dreifast svo ójafnt á fólk og eru ekki endilega í samræmi við önnur kyneinkenni, kyngervi eða kynvitund – og engir tveir bera sig eins að við hótelmorgunverðarhlaðborð).

Karlmaður í leðurjakka með gel í hárinu notar salt og pipar og lokkaprúður kvenmaður í sixtískjól er augljóslega alltof sæt. Myndmálið er líka áhugavert út frá því að bæði sætan og seltan eru bragðbætir – að baki þeim er annar kjarni, hvort sem það er kjöt eða fiskur eða brauð eða annað. Manneskjan að baki er ekki endilega skrautið sem hún stráir yfir sig – en án þessa skrauts væri hún kannski bragðdauf.

***

Kvöldið fyrir sumardaginn fyrsta fórum við Aram Nói á Avengers: End Game. Það var stappfullt út úr dyrum í Ísafjarðarbíó, sem gerist nú ekki alveg nógu oft núorðið, og stemningin var æðisleg. Aram og besti vinur hans, Hálfdán, höfðu eytt deginum í að tússa hver á annan – hann var með „Marvel“ á bringunni, minnir að það hafi staðið „Power Stone“ á bakinu á honum, „Thor“ á annarri kinn og „Thanos“ á hinni og „VS.“ á enninu. Og svo fór hann bara ber að ofan í bíó. Ég píndi hann að vísu til að fara í jakka á leiðinni, sem kom sér vel því þótt það sé stutt ganga fyrir okkur þurftum við að standa úti í biðröð í svolítinn tíma. Inni í salnum lagði hann svo jakkann á hnén á sér og þá leit eiginlega út einsog hann væri bara alls ber með jakkann yfir því allra heilagasta.

Myndin var sirka einsog við mátti búast. Ég hef sennilega séð megnið af þessum Marvelmyndum og þar af auðvitað undanfara þessarar, Infinity War. Þetta er svona öllu-tjaldað-til-dæmi og formúlan nánast svo grjóthörð og skriðþunginn í hinum myndunum nógu mikill til að þetta hefði aldrei getað klúðrast illa – eða verið neitt öðruvísi en nákvæmlega einsog það var. Hún var þrír tímar að lengd og það voru sprengingar og rómantík og þunglyndi og síendurtekinn sigur við ólíklegar aðstæður, kryddað með örlitlum vonbrigðum og svona hálftíma löngum ljúfsárum en hamingjusömum endalokum. Við feðgar fórum mjög glaðir heim.

***

Sumardagurinn fyrsti var svo eins konar menningarreisa. Við fórum fjölskyldan inn í Holtahverfi í svimandi rjómablíðu til að spila cornhole og borða corn dogs hjá amerískri vinafjölskyldu okkar – ásamt fleiri vinum. Það var líka boðið upp á kryddaða kjúklingavængi, doglausar corn dogs með súrum gúrkum í staðinn, hummus og grænmeti og búrbon-límonaði og bjór. Þetta var eins konar æfingar-„tailgate“ fyrir aðra vinafjölskyldu sem er að fara að flytja til Bandaríkjanna í maí.

***

Við börnin kláruðum að lesa Elías eftir Auði Haralds og Valdísi Óskarsdóttur. Hún fjallar um samnefndan dreng sem er að fara að flytja með fjölskyldu sinni til Kanada í tvö ár, svo pabbi hans geti smíðað brýr. Fjölskyldan sem ég nefndi hér að ofan, sem er að flytja til Arlington í Bandaríkjunum, er einmitt fjölskylda besta vinar Arams – Hálfdáns Ingólfs, sem tússaði sig með honum fyrir bíóið – og hún er að flytja í tvö ár svo mamma hans Hálfdáns geti búið til sárabindi úr fiskroði fyrir bandaríska hermenn. Og alla sem gætu þurft á slíku sárabindi að halda. Svo þetta var viðeigandi lestur fyrir okkur.

Það er mjög gaman að lesa svona fjölskyldusögur með krökkunum. Bæði til að sjá það sem hefur breyst og það sem hefur alls ekki breyst. Fólkið í Sitji-guðs-þríleik Guðrúnar Helgadóttur er okkur mjög fjarri í tíma og aðbúnaði, með barnaskarann og peningaleysið og fjarverandi pabbann og sambúð með ömmu og afa, og fyllibyttum á öðru hverju heimili. En fólkið í Elías er allt í einhverju nútímastressi sem er kunnuglegt. Foreldrarnir gera alls konar plön og eiga í flóknum samskiptum við aðra – aðallega Möggu móðursystur í þessu tilviki, sem vill öllu ráða en er líka mjög hjálpleg – og Elías finnst bæði gaman að vera hluti af veröld fullorðna fólksins og að sleppa úr henni. Ég spurði Aram og Aino hvað væri mest ólíkt samtímanum í Elíasi og Aino sagði að foreldrarnir væru svo ruglaðir – sem mér fannst hughreystandi – og Aram bætti við að Elías þyrfti að passa foreldra sína svo mikið. Við Nadja hljótum að vera svona ofsalega stabíl eða góð í að fela hvað við erum klikkuð.

Fyrst og fremst er Elías auðvitað sprenghlægileg bók, bæði fyrir börn og fullorðna.

Lestrarfyrirkomulagið með börnunum á heimilinu er þannig að ég og Nadja lesum fyrir þau til skiptis og við lesum ólíkar bækur – Nadja á sænsku og ég á íslensku. Nadja les alltaf sitthvora bókina fyrir þau en hjá mér skiptumst við á að velja bækur og lesum eina í einu. Ég valdi Elías og ætla að halda áfram að velja Elías þegar kemur aftur að mér – það eru a.m.k. tvær bækur til viðbótar í flokknum. Aram valdi Flóttann mikla eftir Indriða Úlfsson, sem við fundum hjá ömmu og afa, og erum nýbyrjuð á. Aino, sem á að velja næst ætlar að taka myndskreyttar sögur úr Þúsund og einni nótt, sem hún fékk í afmælisgjöf. Þar sem við lesum ekki nema annað hvert kvöld – og tæplega það, það fellur alltaf eitthvað úr, stundum er annað þeirra að gista hjá vini og þá lesum við eitthvað annað en kaflabókina, og stundum er ég ekki heima o.s.frv. – þá tekur stundum sinn tíma að komast heilan hring.

***

Föstudagsfjölskyldumyndin var Rise of the Guardians. Aino valdi að þessu sinni. Myndin fjallar um Jack Frost sem er eirðar- og tilgangslaus ofurvera í heimi þar sem börn trúa bara á Jólasveininn, Páskahérann, Herra Sandmann og Tannálfinn. Jack færir fólki vetur og stuð. Ljótikallinn sækir að þessum barnaguðum og ætlar að kreista gleðina úr hjörtum þeirra og eina von þeirra er hjá Jack Frost, sem kallinn í tunglinu útnefnir „varðmann“ ásamt áðurnefndum ofurverum (þótt enginn trúi á hann).

Hún fór svolítið mikið innum eitt augað og útum hitt. Kannski var það vegna þess að ég var að byrja að verða lasinn – þá rennur allt saman fyrir mér. Ég get t.d. ekkert lesið þegar ég er með hita. Það var áhugavert að þótt ljótikallinn yrði aumkunarverður í endann þá var samt lífið murkað gersamlega úr honum – það var engin siðbót, engin fyrirgefning. Meira að segja Thanos fékk smá samúð – var tragískur. Ljótikallinn var bara vondur. Og ætti kannski ekki að koma á óvart.

***

Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði í gær á Kona fer í stríð. Það var mitt val að þessu sinni og við vorum hvorugt búin að sjá hana. Kona fer í stríð var góð þegar hún var góð, sem var oft, en vandræðaleg þegar hún var það ekki og heilt yfir var myndmálið svolítið hingað og þangað fyrir mig. Annað en Square fannst mér hún ekki bera ofhleðslu – einsog hún vildi segja manni allegoríu en væri svo alltaf að berjast út úr henni líka. Svona einsog ef það væri hliðarsaga í Animal Farm að Snækollur væri líka að reyna að ættleiða.

Það er einsog hún vilji vera of margar aðrar myndir í einu og nái ekki að sætta áhrifavalda sína. Eina stundina er það Kusturica en þá næstu er maður að horfa á Amelie og svo er maður að horfa á skandinavískt persónudrama um barnlausa konu sem vantar lífsfyllingu (barn!) og síðan pólitíska allegóríu. Einhvern veginn fannst mér vanta að hún blómstraði almennilega í eina áttina – sennilega hefði það bara getað verið í Kusturica áttina, það er eina formið sem getur borið hitt líka, að hún yrði sannanlega absúrdísk en daðraði ekki bara við það.

Stundum var líka einsog það væri verið að löðrunga mann með myndmáli sem ég náði einhvern veginn aldrei að púsla saman. Halla (nafnið!) er á flótta undan lögreglunni, eftir að hafa fellt rafmagnsstaur (sem ég held reyndar að geri ekkert gagn) að álveri og felur sig fyrst undir álteppi fyrir hitamyndavélum og svo undir íslensku sauðskinni fyrir drónamyndavél. Þegar hún er á leiðinni til að gefa sig fram stoppar hún leigubílinn og fer út í hraun og gubbar á íslenska náttúru (skömmu áður blæðir henni líka í íslenska náttúru – einum dropa). Þar á eftir tekur hún myndina af stelpunni sem hún ætlar að ættleiða, rífur upp mosa (!!!) og treður ljósmyndinni – sem er kemískt sorp, vel að merkja, og brotnar ekki auðveldlega niður í náttúrunni – inn í mosann. Svo kallar hún sig „Fjallkonuna“ – og ég bara get ekki neitt sem heitir fjallkona. Í bandarísku endurgerðinni yrði hún þá skallaörninn. Það er bara ekki hægt. Forsætisráðherrann heitir Jón Hreggviðsson, hundurinn heitir Kona – og það er bara svo margt svona, verður algerlega ómeltanlegt í pólitískri allegoríu, en hefði verið áhugavert í Roy Anderson mynd eða hjá Buñuel, þar sem ekki er krafist sams konar stöðugrar rökmiðju. Í allegoríunni gerir maður ráð fyrir að púslið eigi að ganga upp – hér eru symbolísku púsluspilin meira einsog þau hafi orðið til á thinktank-fundi á auglýsingastofu eftir aðeins of marga kaffibolla.

Mér fannst samt mjög gott touch að láta alla sem leika löggur í myndinni vera grínista – Ari Eldjárn, Helga Braga, Þorsteinn Guðmundsson og Dóri DNA leika löggurnar í myndinni. Svo er Jón Gnarr forsetinn og ég var ekki viss hvort það ætti að vera tenging við hina grínistana og hans hlutverk er öðruvísi en þeirra – það er meira grín í því.

Kjarnapersónur myndarinnar – sérstaklega Halla og meintur frændi hennar, Halldóra Geirharðs og Jóhann Sigurðarson – voru annars mjög trúverðugar persónur, þótt þau væru problematísk, og afar vel leikin, einsog við er að búast. Grunnsagan er góð og breyskleikar aðalsöguhetjunnar eru áhugaverðir – að hún rjúki út í reiðikasti til að taka eitt tilgangslaust lokaáhlaup á stóriðjuna, og rammi það nánast einsog hún sé þá að fórna lífsfyllingu sinni (ættleiðingardótturinni sem býr í Úkraínu) án þess að taka nokkuð tillit til örlaga þeirrar væntanlegu dóttur eða systur sinnar eða annarra meðreiðarsveina. Hún er rosa merkileg hugsjónakona á sama tíma og hún virkar algerlega vafin upp í eigið egó – allt við þessa ættleiðingu rammast inn af hennar eigin þörfum.

Stemningin í myndinni er á köflum mögnuð, það er flott tempó og hin tekníska leikstjórn er upp á tíu. Einsog venjulega á íslensk náttúra stórleik. Tónlistin er frábær – ég er enn að gera upp við mig hvort ég sé sammála Nödju um að hljómsveitin, sem birtist í mörgum senunum, hafi verið ofnotuð. Ég hefði sennilega ekki hugsað út í það ef hún hefði ekki nefnt það. En mér finnst líka mjög gaman að horfa á fólk spila á hljóðfæri.

Ég spurði mig svolítið út í þessi úkraínsku þjóðlög – ég geri ráð fyrir að þetta séu úkraínsk þjóðlög. Einhvern tíma skrifaði ég eitthvað um útlendinga frá stórþjóðum sem koma til Íslands til þess að fá útrás fyrir þjóðrembu sem þeir geta ekki leyft sér heima fyrir. Vinstrisinnaður Bandaríkjamaður sem getur ekki heilsað fánanum kemur til Íslands til þess að falla í stafi frammi fyrir fjalli og fyllast Wagnerískum ofsa; sama gildir um Þjóðverja og Kanadamenn og fleiri. Þetta er svona nationalism by proxy. Mér fannst úkraínsku þjóðlögin – sungin af þremur „fjallkonum“ – vera svolítið þannig, einsog stand-in fyrir íslensk þjóðlög sem hefði verið tabú að hafa þarna.

Aukapersónur myndarinnar – forsætisráðherra, konan á ættleiðingarskrifstofunni, spunameistarar í sjónvarpinu, leigubílstjóri í Keflavík og aðrir fulltrúar „samfélagsins“ voru hins vegar ótrúverðugar klisjur. Þegar leigubílstjórinn fór að tala um lattelepjandi listaspírur frussaði ég af kjánahrolli. Þegar forsætisráðherra er spurður um loftslagsáætlun ríkisstjórnarinnar og snýr sér út úr spurningunni með því að tala um alvarleika ofbeldis var ég mest hissa – það eru allir forsætisráðherrar með staðlað svar um „metnaðarfulla loftslagsáætlun sína“ og „mikilvægi þess að standa vörð um jörðina“, alveg burtséð frá því hversu mikil alvara er á bakvið slík svör. Forsætisráðherrar eru ekki svona lélegir í augljósasta spuna. Ræða forseta á Þingvöllum sló mig líka undarlega – var hann að bera saman aftökur á Þingvöllum forðum daga og aftökur kínverska ríkisins? Slíkt hefði verið diplomatískt stórslys – leikurinn snýst um að láta, einsog Vigdís gerði og var frægt, sem mannréttindi séu afstæð og kínverska stjórnin í raun mannúðleg. Að konfronta kínversk stjórnvöld svona, þótt það sé gert í rænuleysi, er miklu líkara þeim mótmælum sem Jón Gnarr – sem leikur hér forseta – gerði í raun og veru sem borgarstjóri, og í alls engu rænuleysi.

Ég „lendi“ oft í því þegar ég hugsa og skrifa um íslenskar myndir að hljóma einsog mér hafi þótt þær verri en mér þótti þær. Þegar kreditlistinn rúllaði í gær og Nadja spurði mig hvað mér hefði þótt sagði ég „já, þetta var bara nokkuð gott“. Og þrátt fyrir allar þessar aðfinnslur þá var þetta bara nokkuð gott – setti heilasellurnar af stað og fékk mann til að hugsa.

***

Gítarleikari vikunnar er enginn annar en Langi Seli sjálfur.