Paella á grillinu

Ég er að verða meiri og meiri uppskriftadólgur í ellinni og fer ekki nema að hálfu leyti eftir einni uppskrift og hálfu leyti að annarri og geri svo einhver ósköp frá eigin brjósti og allt verður þetta erfitt að muna þegar maður ætlar að endurtaka snilldina. Þá er ágætt að glósa hjá sér þegar vel tekst til.

500 ml arboriohrísgrjón
1500 ml grænmetissoð
1/2 bolli hvítvín
einhver grömm af saffrani
3/4 bolli grænar ertur
200 grömm rækjur
15-20 kræklingar
6-10 stk stór skelfiskur
1 msk reykt paprika
2 hnífsoddar af cayennepipar
2 laukar
2 sætar paprikur (svona langar)
1 knippi af steinselju
2 stórir kínahvítlaukar
1 msk af tómatpúrru
1 sítróna

Ég geri paellu á grilli í 45 cm breiðri paellupönnu sem ég keypti af Steina í Muurikku í gær (þegar verið er að rýma iðnaðarsvæði vegna snjóflóðahættu á Ísafirði er það alltaf Steini sem þarf að fara heim). Þess vegna kveiki ég fyrst undir grillinu, sker svo allt og mæli og fer síðan út. Með bjór í hönd.

 

  1. Fyrst gerir maður sofrito. Sker niður lauk, papriku og 4/5 hluta af steinseljunni. Saxar hvítlaukinn. Sýður grænmetissoðið. Mælir allt annað og fer með út í garð.
  2. Saffranið er mulið ofan í hvítvínið þar sem það fær að liggja í bili.
  3. Paprika, laukur og 3/4 af steinseljunni steikt á heitri pönnu með nóg af ólífuolíu þar til orðið mjúkt og vellyktandi. Í restina setur maður hvítlaukinn og kannski helminginn af reyktu paprikunni (sem var blönduð við cayenne hjá mér, en ég sneiddi hjá því svona með puttunum bara).
  4. Þá fara hrísgrjónin út í og tómatpúrran og það fær svona aðeins að blandast og ristast og karamelíserast og guð veit hvað annað þetta er að gera þarna í pönnunni.
  5. Eftir smástund helli ég fyrst hvítvínssaffranblöndinu út í, svo soðinu og loks restinni af kryddinu og nú gildir að hreyfa ekki pönnuna heldur láta hana bara í friði. Botninn á að ristast – þar á að myndast svokallað socarrat.
  6. Eftir 20 mínútur sem eru kannski korter raðar maður fiskmetinu fallega á diskinn og setur lokið á grillið. Mitt fiskmeti var enn pínu frosið og ég er ekkert viss um að það hafi komið að sök – hugsanlega hjálpaði vökvinn eitthvað til. Svo bíður maður í 5-10 mínútur, eftir því hvað maður er þolinmóður.
  7. Næst tekur maður pönnuna af grillinu og fer með inn í húsið. Stráir restinni af steinseljunni yfir, raðar sítrónubátum með jöfnu millibili allan hringinn og ber fram. Þetta átti að vera með góðu brauði en ég gleymdi að setja það í ofninn. En við höfðum Tinto de verano (barna og fullorðinsútgáfu) og grilluðum svo sykurpúða á eftirhitanum og nutum síðustu sólargeislanna.

Þetta var ofsa gott.