
Á þrítugasta kílómetra hætti hlauparinn á undan mér að hlaupa, gekk út í kant, beygði sig yfir ræsi og ældi rúmmáli sínu í orkudrykkjum og gelum. Fram að því hafði ég aldrei á mínum þrettán ára hlaupaferli upplifað að vera ómótt á hlaupum, sem er víst algeng hliðarverkun langhlaupa – jafnvel þannig að elítuhlauparar telji það að hafa aldrei staðið í áreynsluuppköstum vera til marks um að þeir séu í raun ekki að reyna nógu mikið á sig. Skömmu síðar hlupum við í gegnum einhvern bæ þar sem var talsverð skítafýla – og myndin af unga manninum að gubba í ræsið spilaðist ítrekað í höfðinu á mér. Sjálfsagt er það sumum lesenda minna vonbrigði en öðrum léttir að ég gubbaði aldrei sjálfur og komst í mark á 4 tímum og 42 mínútum. Nadja var litlum tólf mínútum á eftir mér.
Við vorum mætt til Zurich á föstudeginum fyrir hlaup. 3-länder maraþonið – No borders, no limits – hefst í Lindau í Þýskalandi og fer inn í Austurríki, þaðan inn í Sviss og aftur til Austurríkis þar sem því lýkur á íþróttaleikvanginum í Bregenz. En fyrstu nóttina gistum við sem sagt í gömlu heimaborg James Joyce – þar sem Ulysses var að miklu leyti skrifuð. Eftir að við höfðum tékkað okkur inn á hótel röltum við um bæinn og lituðumst um. Nadja keypti sér takkasíma – við erum bæði á þeim buxunum en ég er aðeins skemmra á veg kominn. Átum víetnamskan kvöldmat og fórum snemma að sofa. Ég hafði verið með lágan hita af og til alla vikuna og kvef/nefrennsli. Þetta var afleiðing af bókamessunni sem ég var á fyrir tveimur vikum – bæði umgengni við alla þessa óhemju af fólki og óheilbrigðu líferninu sem fylgir jafnan för minni til Gautaborgar (það er mjög gaman úti á l´ífinu með mínum sænska útgefanda og vini).
Daginn eftir átum við kolvetnaríkan morgunverð og tókum lestina til Lindau. Ég stóð enn í þeirri meiningu að ég hefði bókað hótel fyrir okkur á eyjunni – Lindau Insel –þar sem hlaupið átti að hefjast og þar sem eru sjarmerandi gamlir götusteinsstígar og allt morandi í veitingastöðum. Við vorum komin alla leið lestarstöðina þegar það rifjaðist upp fyrir mér að þegar ég loksins bókaði reisuna hafði allt nema það allra dýrasta verið uppbókað – og ég endaði á að bóka verksmiðjuhótel í einhverju mjög leiðinlegu iðnaðarúthverfi. Ég virðist hreinlega hafa bælt þessi vonbrigði og var í alvöru búinn að steingleyma því þegar við komum á staðinn.
Þegar við höfðum hent inn töskunum okkar á Premier Inn – þar sem var ekkert nema risastórt Tesla stæði, bensínstöð og McDonalds – komum við okkur til Bregenz í Austurríki – 8 kílómetra í burtu, handan landamæranna – þar sem við sóttum númerin okkar, keyptum einhver aukagel (með koffíni) og fórum í pastaveislu með öðrum hlaupurum. Við höfðum ætlað að einfalda okkur hlutina með því að taka leigubíl þangað en umferðin var sturluð svo við sátum heila eilífð í bílnum – svo kom í ljós að bílstjórinn (sem rataði ekki) komst ekki inn á netið í Austurríki og gat þar með ekki tekið á móti kortagreiðslu. Við vorum evrulaus og umferðin var þannig að það var óhugsandi að fara að rúnta eitthvað eftir hraðbanka. Það endaði eftir japl, jaml og fuður með því að við fengum hjá honum símanúmer og bankaupplýsingar og lofuðum að leggja inn á hann – svo fórum við frá borði og skildum kreditkortið hennar Nödju (óvart) eftir í sætinu. Sem var kannski sérstaklega fyndið í ljósi þess að þar með gat hún ekki lengur skilið snjallsímann sinn eftir neins staðar – það er ekki hægt að borga með takkasímum.
Þegar við komum aftur til Lindau reyndum við að hringja í bílstjórann en hann hlýtur að hafa skrifað númerið sitt eitthvað vitlaust niður því við náðum engu sambandi. Við hringdum í fyrirtækið, skildum eftir skilaboð og fórum út að hlaupa – 2 kílómetra, bara rétt til að liðka fæturna. Eftir það ætluðum við að fá okkur kvöldmat á hótelinu en þá kom í ljós að eldhúsið lokaði klukkan átta og við vorum 20 mín´útum of sein.
Ég verð að viðurkenna að nú var ég farinn að halda að það hvíldi einhver bölvun á þessum hlaupaplönum okkar. Það munaði minnstu að við kæmumst aldrei af stað – Aino, sem átti að fá að fara í lúxuspössun hjá ömmu sinni og afa á Spáni – fótbrotnaði fyrir tveimur vikum og það virtist frekar ólíklegt á tímabili að hún gæti verið án okkar. Hún er þó mjög sjálfstæð og var farinn að bjarga sér vel áður en við fórum – og endaði glöð í pössun hjá vinkonum sínum, hverra foreldrum við erum afar þakklát (plús að við mútuðum henni með nýjum fataskáp).
Hvað um það. Það skiptir sem sagt miklu máli, er mér sagt, að maður borði góða máltíð kvöldið fyrir langt hlaup. En það skiptir líka máli að fara snemma að sofa og það var ljóst að við gætum ekki gert bæði. Við létum okkur því hafa það að borða á bensínstöðinni – samlokur og brezel. Vöknuðum svo snemma og fengum okkur stóran morgunmat.
Við lentum vel að merkja í svipuðu veseni í 10km hlaupinu í Bangkok í desember – þar var ég búinn að finna ítalskan veitingastað nálægt hótelinu okkar en þegar til kastanna kom reyndist hann lokaður og við átum eitthvað lélegt tacos. Næst hringi ég og bóka borð og hef allt á hreinu.
Ég var áreiðanlega með hita áður en ég fór að sofa. Ég er ekki viss um að ég hafi nokkurn tíma íhugað að leggja ekki af stað – ekki af neinni alvöru – en ég var mjög meðvitaður um að það gæti allt eins verið að ég myndi örmagnast eða fá háan hita/hjartslátt í sjálfu hlaupinu og þurfa að hætta. Ég margsló því upp og eina ráðið sem internetið gaf mér var að ef ég væri með hita ætti ég alls ekki að hlaupa. Í ofanálag glaðvaknaði ég eftir þriggja tíma svefn og lá svo meira milli svefns og vöku en beinlínis svaf síðustu fjórar klukkustundirnar.
Þegar ég fór á fætur vissi ég samt ekki hvernig mér leið – ég veit það aldrei þegar ég er nývaknaður, það tekur mig alltaf a.m.k. hálftíma að fá stöðuna á hreint. Við átum stóran morgunverð – aðallega brauð – og ég beið þess að finna sótthitann renna yfir mig en hann kom aldrei. Mér leið satt að segja bara ágætlega, sérstaklega miðað við hvað ég hafði lítið sofið. Ég var samt óþægilega stressaður í strætónum að upphafslínunni – með úrið á handleggnum var ég auk þess mjög meðvitaður um að hjartslátturinn var óþarflega hraður. En þegar við vorum komin á staðinn lækkaði hann aftur og mér fór að líða vel.

Ég man ekki hvað hún heitir hljómsveitin sem spilar við startið en hún hefur víst spilað þar í ein átján ár – gamaldags forbítlarokk – og byrjaði þremur korterum áður en allt fór í gang. Við notuðum tímann til að losa okkur við fatapokann okkar og gera okkur almennilega klár. Einsog vænta má var rafmögnuð eftirvænting í loftinu.
Þegar við tókum af stað ætlaði ég að kveikja á strava í úrinu mínu til að geta fylgst með tíma og vegalengd og hjartslætti en af því ég hef verið að fikta í alls konar „ekki-vera-alltaf-á-netinu-stillingum“ fór það ekki í gang – það var víst einhvers konar hvíldartími sem ég kunni ekki að slökkva á – og ég byrjaði hlaupið bölvandi þessu í sót og ösku. Sem er kannski ekki til fyrirmyndar. Kveikti svo á strava í símanum í staðinn og svo stuttu síðar spurði úrið hvort ég væri að hreyfa mig og hvort ég vildi að Apple Health mónitoraði það fyrir mig – sem ég þáði og var þá farinn að taka upp hlaupið á tveimur vígstöðvum. Sem var alltílagi en þýddi líka að þegar ég kom í mark voru bæði tækin svo gott sem batteríislaus. Það er víst líka ástæða fyrir því að svo fáir hlauparana voru með Apple Watch – líftími rafhlöðunnar við þessar aðstæður er ekki nema um fimm tímar. Langhlauparar eru með alvöru dedikerað íþróttaúr.
Og hvernig lýsir maður síðan svona hlaupi? Maður hleypur. Setur einn fótinn fram fyrir hinn í fimm tíma – það er létt í byrjun og verður síðan erfiðara. Leiðir okkar Nödju skildu mjög snemma og eiginlega óvart – ég þvingaðist aðeins út í kant og þurfti að stökkva fram úr nokkrum og fann hana svo ekki þegar ég ætlaði að komast aftur til hennar. Við ætluðum aldrei að hlaupa hlið við hlið svo það kom ekki að sök en ég hefði þó viljað kveðja. Mér leið vel og byrjaði hraðar en ég hafði ætlað mér, sem mér er sagt að sé óráð, maður eigi alltaf að fylgja planinu. En ég veit ekki hvort það hefði breytt miklu. Veðrið var til fyrirmyndar – skýjað, rúmlega tíu gráður, dálítill andvari – og hlaupið er til þess að gera flatt. Við hlupum fljótlega út úr Þýskalandi og inn í Austurríki – það kvarnaðist úr hópnum fyrst þegar 10 og 15K fólkið beygði af og svo síðar þegar hálfmaraþon fólkið sneri við en við hin héldum áfram inn í Sviss. Þar var frekar stuttur rúntur – kannski 3-4 kílómetrar, á að giska – og allur í slaufum og brekkum. Það var líklega einmitt eftir slaufurnar og brekkurnar sem fór að draga svolítið af mér en þá var ég kominn um 30k, sem er líka það lengsta sem ég hef hlaupið áður – og hljóp þá talsvert hægar (7.19 minnir mig – mínútur á km – vs. 6.25 sirka fyrir þennan kafla).
Margt bar fyrir augu og leiðin var afar falleg. Við hlupum meðfram Bodensee og í gegnum Bregenz og þaðan áfram til bæjar sem heitir því viðeigandi nafni, Hard, og þaðan til bæjar sem heitir því enn meira viðeigandi nafni Fußach, til Höchst (allt mjög viðeigandi) – í Sviss fórum við í gegnum St. Margrethen, sem er bara venjulegt bæjarnafn, það best ég veit. Hlauparar voru af öllum stærðum og gerðum – einn tók fram úr mér sem var áreiðanlega ekki nema svona átta ára (og hefur væntanlega verið í 10k – en það er sama, 10k er fáránlega langt fyrir átta ára barn) og það var talsvert af ellilífeyrisþegum. Af og til tók líka fram úr manni einhver epískur elítuhlaupari – þeir hlaupa á sirka tvöföldum hraða við alla aðra og voru margir með mótor- eða reiðhjólafylgd. Ég átta mig ekki á því hvers vegna þeir fóru ekki allir af stað fremstir í fylkingu (einsog þó flestir þeirra gerðu).
Á einum stað hljópum við framhjá hóruhúsi. Á öðrum í gegnum timburlager. Á þeim þriðja útileikhús. Víða voru litlar kirkjur og við eina þeirra var stór trékross með „hangandi spýtukarli“ alveg við veginn – þá vorum við öll tekin að þjást til kunna verulega að meta samstöðu karlsins. Á kafla var skógarbrunalykt í loftinu – eða einhvers konar trébruni. Við hlupum yfir Rín. Alls staðar var fólk úti í kanti að hvetja mann áfram – og fólk með alls konar skemmtiatriði. Sums staðar var bara gettóblaster og plakat úti á götu. Annars staðar heil lúðrasveit að spila Beyoncélög. Í St. Margrethen hljóp ég einn í fangið á svona þrjátíu uppstríluðum klappstýrum sem blöstuðu tónlist og dönsuðu sem mest þær máttu til að hvetja mig áfram. Svo voru rapparar að rappa. Fleiri hljómsveitir. Ferðadiskó. Gamlar konur sem hristu kúabjöllur. Og hrópandi fólk með alls konar skilti með innilegum kveðjum og allra handa hótfyndni.
Ég hef alla jafna ekki treyst á gel í langhlaupum – bara troðið banönum í vestið – en gerði það núna. Hafði keypt nokkur í Nettó á Ísafirði áður en ég fór en ákvað að bæta á mig a.m.k. tveimur með koffíni til að eiga smá aukaorku – þegar Feidippides hljóp upprunalega maraþonið á sínum var hann einsog frægt er hvorki með gel né banana og féll þess vegna niður örendur um leið og hann kom í mark. Það er skemmst frá því að segja að þessi koffíngel sem ég keypti eru einhver mesti viðbjóður sem ég hef innbyrt um ævina – einsog að drekka þriggja daga gamalt kaffi upp úr klósettstól, sem hefur ekki verið þrifinn lengi. En koffínið hjálpaði ábyggilega til. Eftir 33km sett ég líka upp heddfóna og kveikti á músík – shuffle á gömlum hlaupaplaylista sem skilaði mér þessu fyrst af öllu:
Með tónlistinni græddi ég áreiðanlega tvo-þrjá ókeypis kílómetra bara upp á stemninguna, áður en fór að hægja á mér aftur. Síðustu fimm kílómetrana hljóp ég bara frekar bugaður. Stoppaði á öllum drykkjarstöðvum og gekk meðan ég hellti ofan í mig vatni. En þetta er undarleg tilfinning – að halda bara áfram. Og að átta sig á því að maður sé í alvöru að komast í mark. Eftirvænting eftir því að „fá“ að hætta að hlaupa og stolt yfir því að hafa gert þetta – áður en maður er einu sinni kominn í mark. Ég hef lengi hlaupið þótt ég hafi ekki „tekið þátt í hlaupum“ en fyrir fjórtán mánuðum var ég kominn í frekar slæmt form – fór út að hlaupa í Svíþjóð, hljóp tæpa 3k í sól og brekkum og var gersamlega búinn á því á eftir, og skildi ekki hvernig mér hefði tekist að glopra svona niður ágætis hlaupaformi. Og þá ákvað ég að finna mér einhverja áskorun – og spurði Nödju (sem er miklu meiri íþróttamaður en ég) hvort hún vildi ekki koma með mér í maraþon að ári. Sem hún samþykkti dálítið treglega, enda hlaup ekki hennar eftirlætis íþrótt. Og fjórtán mánuðum síðar var maður bara að koma í mark.

Síðustu fimm hundruð metrana gaf ég aðeins í, tók það síðasta sem ég átti – og hljóp inn á íþróttaleikvanginn í Bregenz. Ég fór yfir marklínuna. Staulaðist í fangið á einhverjum strák sem hengdi á mig medalíu – ég fékk enga medalíu í Vesturgötuhlaupinu í sumar, sem mér fannst svolítið fúlt, mest sennilega af því ég var ekki íþróttabarn og á ekki haug af medalíum einsog t.d. Nadja (þær eru reyndar allar týndar en það er önnur saga). Ég fékk eina fyrir 60m hlaup sjö ára drengja árið 1985 – brons. Silfur fyrir að veiða minnsta fiskinn í veiðikeppni 9 ára (gull fékk sá sem veiddi stærsta fiskinn og brons sá sem veiddi flesta – ég samdi ekki reglurnar). Og svo ekkert fyrren ég fékk þátttökumedalíu fyrir 10km í Bangkok nú um jólin og nú þessa, sem mér þykir mjög vænt um.
Tíminn minn var 4 klukkustundir og 42 mínútur. Sem mér finnst bara harla gott. Ég hafði hugsað að við bestu aðstæður myndi ég ná þessu á fjórum og hálfum en verstu eitthvað rúmlega fimm.
Kominn í mark gekk ég bara um í dálitla stund einsog höfuðlaus – og fótalaus – hæna. Nadja var enn að hlaupa og ég einhvern veginn bara frekar lost. Ég vissi ekki alveg hverju ég átti að búast við. Í Bangkok voru ekki bara steinefnadrykkir í boði heldur líka alvöru máltíðir – þá fékk ég mér risa pad thai, enda verð ég oft feykilega svangur af langhlaupum. Eftir Vesturgötuna voru próteindrykkir og steinefnadrykkir og áreiðanlega snakk og eitthvað. Ég gekk í átt að tjöldunum og þar var eiginlega ekkert nema kók og saltstangir. Svo beið ég eftir Nödju sem kom í mark 12 mínútum á eftir mér. Við vorum bæði frekar ringluð af þreytu og fæturnir alveg búnir. Fórum út af leikvanginum og gengum í gegnum veitingatjöldin og leituðum að trukkunum með fatapokana. Þegar þeir fundust – eftir talsverða leit – fór Nadja í sturtu en ég lét duga að skipta í þurran bol og fór og settist í eitt veitingatjaldið. Þar var ekki hollustunni fyrir að fara – og eitthvað mjög þýskt við þetta allt saman, sveitta feitabollukarla í maraþongallanum að troða í sig kartöflumjölsborgurum og pommes með bjór og bregða sér af og til út í sígó.
Nadja var furðulegt nokk ekkert svöng svo við ákváðum að halda bara aftur heim á hótel. Við rákumst á tvær sænskar vinkonur, eldriborgara, sem höfðu hlaupið mörg maraþon – meðal annars uppstrílaðar sem strumpar í Liège – og spjölluðum við þær á leiðinni út á brautarstöð. Þær voru mjög skemmtilegar.
Á hótelinu þreif ég mig loks og svo fórum við og fundum okkur pizzeriu í gamla bænum – leigubíllinn fór fyrst með okkur á hótel þar sem yfirmaður leigubílafyrirtækisins hafði skilið eftir kortið hennar Nödju. Mann langaði eiginlega að vera með medalíuna á sér, ekki bara til að grobba sig heldur líka svo að fólk skildi hvers vegna maður gekk einsog maður væri með glerbrot í skónum.
Mánudagurinn var líka erfiður fyrir fæturna. Ég fann vel að merkja ekki mikið fyrir 30k hlaupinu í sumar daginn eftir og hef ekki fengið svona miklar harðsperrur áður. Þetta er stærra stökk en maður heldur – önnur skepna. En það er ekki mælt með að maður æfi lengri vegalengdir en 30k vegna meiðslahættu.
Þennan dag þurftum við líka að koma okkur til Zurich og að gamalli venju var ég ekki með tösku heldur stóra bakpokann. Sem var kannski ekkert mjög skemmtilegt á þreyttum fótum. Í Zurich fórum við síðan í nudd, sem var mjög næs. Þriðjudagurinn var svo talsvert skárri og nú er ég orðinn frekar eðlilegur – fyrir utan að ég þurfti skyndilega langan lúr um miðjan dag. Bara krassaði algerlega. Kannski finnst einhverjum það skrítið en mér finnst gaman að taka svona eftir líkama mínum – og hugsa um það hvernig hann bregst við bæði álaginu og því hvernig er farið með hann fyrir og eftir. Og ég fer áreiðanlega aftur í maraþon einhvern daginn – þótt Nadja segist ekki ætla í meira en hálft þá á ég vini sem eru spenntir fyrir heilu, t.d. fyrir vínsmökkunarmaraþoninu í Médoc. Sjálfum finnst mér líka Loch Ness maraþonið spennandi og Berlínarmaraþonið og mér finnst spennandi tilhugsun að fara í eitthvert amerískt hlaup líka.
En þær pælingar bíða betri tíma. Nú er ég aðeins að ráfa um sögusl´óðir James Joyce í Zurich – það verður líka skýrsla um það – fer heim á föstudag og við tekur intensíf skriftörn í bústað. Svo eru meiri bókakynningar í útlöndum. En ég verð svo sem með skóna með mér.