Skylla og Karybdís: Je est une autre

Það vill til að bókasafnið er nú næstum komið. Það er þarna ofan við risastóra gula sápustykkið, neðarlega fyrir miðri mynd. Stephen stendur og baðar út höndunum en á þakinu situr sj´álft skáldið frá Avonbökkum.

Ódysseifur er nýkominn úr heimi hinna dauðu en Stephen Dedalus var að koma af kránni. Við skildum við hann í 7. þætti, Eólusi, þar sem hann arkaði út af ritstjórnarskrifstofum The Freeman’s Journal, með hálfri ritstjórninni. Hann er búinn að drekka þrjá stóra bjóra – er ölhreifur en þyrstir í meira, þótt ýmislegt bendi til þess að hann vilji helst ekki að það sjáist á sér hvað hann er drukkinn. Á meðan Ódysseifur sest niður með gyðjunni Kirku sem ræður henni heilt er Stephen kominn í Safnahús Dyflinnar, nánar tiltekið á skrifstofu bókavarðar í bókasafnsbyggingunni (The National Museum og The National Library eru tvö aðskilin hús sem deila garði). Ódysseifur hlustar en Stephen heldur miklar ræður og rökræðir grimmt.

Einsog við munum lauk síðasta kafla á því að Leopold Bloom skaut sér inn á bókasafnið, eftir að hafa rekið augun í Blazes Boylan fyrir utan, þar sem hann á það erindi að finna auglýsingu fyrir vínsalann Keyes í gömlu dagblaði. Klukkan er 14 og það eru tveir tímar í að Blazes eigi stefnumót við konu Blooms, Molly. Við sjáum hins vegar lítið til Bloom í þessum kafla þótt hann sé á bókasafninu og skjóti tvisvar upp kollinum – fyrst birtist hann í bakgrunni rökræðanna sem einhver maður sem er að spyrja um tölublað af The Kilkenny People, og svo í lokin.

Kirka varar Ódysseif við þeim hættum sem muni verða á leið hans. Meðal þeirra er siglingin milli Skyllu og Karybdísar. Skylla er skrímsli með „ekki færri en tólf ólögulegar lappir og sex afarlanga hálsa, en á hverjum hálsi er ógurlegur haus, og í margar og þéttar tennur þrísettar, fullar dimmum dauða.“ Framhjá henni verður ekki siglt án þess að hún hirði a.m.k. eitt mannslíf per haus (þ.e. sex). Karybdís er annað eins skrímsli nema hún „sogar í sig sæinn“ og „jafnvel Jarðarskelfir mundi þá ekki fá forðað þér við fjörtjóni.“ Mælir Kirka heldur með því að Ódysseifur sigli hjá Skyllu „því miklu er betra, að missa einna sex manna af skipi sínu, en allra saman.“ Þiggur hann þau ráð en segir ekki mönnum sínum að sex þeirra muni þá farast „svo félagar mínir skyldu ei æðrast, hætta róðri og hneppa sig niður í skip.“

Bókasafnið mun vel að merkja hafa verið dálítið átakarými Dyflinni – þar réðu engil-írskir mótmælendur ríkjum en þar var líka hjarta írsk-kaþólskrar bókmenningar. Ævintýri Stephens á bókasafninu eru ævintýri gáfumannsins – rökræður. Skylla er (m.a.) hin aristótelíska staðreyndahyggja en Karybdís er (m.a.) fulltrúi platónsks ídealisma. Og má halda því fram að Stephen sé fremur fulltrúi Skyllu hérna en Ódysseifs, og ódysseifska hetjan hérna sé einfaldlega sannleikurinn, sem megi velja milli þess að komast laskaður til skila eða alls ekki (og ef hann er bundinn í karakter, þá væri það líklega Bloom, sem kemur lítið fyrir – en siglir milli skers og báru í restina). En svo er þetta sérstaklega vandasamur kafli þegar kemur að því að púsla því saman hver sé hver, ef ekki varasamur og vafasamur líka, því ræða Stephens botnar í þeim ómögulegu möguleikum öllum saman.

Textinn er líka í stóru hlutverki þótt enn sé Joyce ekki búinn að sprengja skáldsöguna í tætlur – sem hann gerir síðar. Fyrir utan að vera bæði þriðju persónu þátíðar frásögn og fyrstu persónu nútíðar hugsanir – einsog hefur mestmegnis verið modus operandi hingað til í bókinni – þá er hann bæði prósi og ljóð, bæði bundin og frjáls, á einum stað verður hann leiktexti og á öðrum söngtexti með nótum og hann er svo stappfullur af tilvitnunum (réttum og röngum) og vísunum í önnur bókmenntaverk – aðallega Shakespeare en líka samtímamenn Shakespeares, ýmsa heimspekinga og skáld, að ótöldum skrifum Joyce sjálfs – að í Ulysses: Annotated er yfirferðin 66 síður og athugasemdirnar ríflega tólfhundruð. Kaflinn sjálfur er bara 29 síður.

En við skulum ekki drolla heldur drífa okkur inn á bókasafnið. Stephen hefur notað lesendabréfið frá hr. Deasy – sem hann fór með á The Freeman’s Journal – sem til þess að komast inn í þennan selskap, undir því yfirskini að hann sé að hugsa um að fá það birt í The Irish Homestead (sem hann var ekki beðinn að gera og hann afhendir aldrei bréfið – hann er sennilega ekki einu sinni með afrit, enda kom hann því til skila á Freeman’s Journal). Með honum á skrifstofunni eru skáldið A.E. (George Russel, sem vann á The Irish Homestead), bókavörðurinn Richard Best, aðstoðarbókavörðurinn Thomas William Lyster, bókmenntagagnrýnandinn John Eglinton og svo birtist Buck Mulligan um miðjan kafla. Að Stephen og Buck undanskildum er þetta allt raunverulegt fólk. Eftir því sem ég kemst næst eru allir hérna engil-írskir og mótmælendatrúar að uppruna nema Stephen – sem er vantrúa/hálftrúa/ringlaður kaþólikki – og Bloom sem er gyðingur að uppruna en skírður til mótmælendatrúar.

Þegar kaflinn hefst eru þeir að ræða Wilhelm Meister eftir Goethe og þá sérstaklega þann hluta þeirrar bókar sem fjallar um Hamlet. Ég hef ekki lesið Wilhelm Meister en hef eftir „Giffordinum“ – Ulysses: Annotated, sem er stór og mikil biblía um vísanirnar í Ulysses, eftir Don nokkurn Gifford, en þá bók hef ég nýverið eignast – að í þeim allstóra hluta (frá 13. kafla í fjórðu bók að 12. kafla í fimmtu bók) þýði Wilhelm og endurskapi Hamlet og taki svo þátt í sviðsetningu þeirrar útgáfu. Þá segir Gifford að Lyster (sem hefur máls á þessu) og félagar hafi almennt litið svo á að þessi hluti Wilhelms Meister sé mestmegnis „lítt duldar persónulegar athugasemdir og viðbrögð Goethes við Hamlet.“

A great poet on a great brother poet. A hesitating soul taking arms against a sea of troubles, torn by conflicting doubts, as one sees in real life.

Og augnabliki síðar:

One always feels that Goethe’s judgments are so true. True in the large analysis.

Að þessu hæðist Stephen – finnst þetta of augljós sannindi til að hafa á þeim orð.

Einsog áður segir eru átökin í þessum rökræðum helst á milli Platónista, sem telja að listin eigi að vera hrein upplifun – með orðum A.E.:

Art has to reveal to us ideas, formless spiritual essences. The supreme question about a work of art is out of how deep a life does it spring. The painting of Gustave Moreau is the painting of ideas. The deepest poetry of Shelley, the words of Hamlet bring our minds into contact with the eternal wisdom, Plato’s world of ideas. All the rest is the speculation of schoolboys for schoolboys.

Og Aristótelista sem sjá í listinni beinni tengingu við raunveruleikann, hún sé umorðun á tiltekinni mannlegri reynslu sem megi para við tiltekið fólk, annað hvort listamennina sjálfa eða fólkið sem þeir eiga samneyti við. Stephen tekur sér stöðu með hinu aristótelíska viðhorfi – en það er alls ekki víst að hann aðhyllist það af öllu hjarta.

Best nefnir að Haines – enski fræðimaðurinn sem gistir hjá Stephen og Buck í Martello turni, sá sem er svo æstur í írska menningu – hafi skotist í bókabúð til þess að kaupa bók.

I was showing him Jubainville’s book. He’s quite enthusiastic, don’t you know, about Hyde’s Lovesongs of Connacht. I couldn’t bring him in to hear the discussion. He’s gone to Gill’s to buy it.

Flestir virðast ganga út frá því að Haines hafi farið til að kaupa ljóðabókina Lovesongs of Connacht – sem eru enskar þýðingar Douglas Hyde (sem síðar varð fyrsti forseti Íra) úr írskum kvæðum. Ég las þetta hins vegar þannig að það væri eitthvað í bók Jubainville’s – Best þýddi sjálfur frægustu bók hans, sem fjallaði um írskar goðsagnir – sem varpaði ljósi á yrkisefnin í Lovesongs of Connacht (sem Haines hefur dálæti á og hlýtur að eiga) og hann hafi farið til þess að útvega sér hana – og mér hefur ekki alveg tekist að hafa sjálfan mig ofan af þeirri sannfæringu þótt ég sjái líka hinn möguleikann. Jubainville var vel að merkja helsti fræðimaður Frakka um írska menningu. Þannig er enskur fræðimaður með vandræðalegt írlandsblæti kannski að fara af bókasafni í bókabúð til þess að kaupa sér bók eftir franskan fræðimann til þess að skilja ljóð sem hafa verið þýdd úr gelísku. Í ofanálag er það þá þýðandi bókarinnar sem hefur sent hann út í búð. Þetta finnst mér mjög Joyceísk flækja. Haines fæst ekki til þess að koma á fundinn og missir þar af leiðandi af einhverju sem við gætum kallað „lifandi írska menningu“: umræðum írskra menntamanna um enska skáldið Shakespeare.

En Haines getur ekkert rétt gert á Írlandi, frekar en aðrir Englendingar.

Stephen fer að ræða Hamlet og þá kenningu sem Buck Mulligan umorðaði svo í fyrsta þætti:

It’s quite simple. He proves by algebra that Hamlet’s grandson is Shakespeare’s grandfather and that he himself is the ghost of his own father.

Mulligan var auðvitað að gera gys að Stephen, sem hann gerir svo gjarnan að maður fer á endanum að fyrirgefa Stephen fyrir að vera dálítið húmorslaus. En kenningin er líka skrítin þótt Stephen flytji hana af miklum þrótti. Í grunninn gengur hún út á að hafna þeirri afstöðu, sem mun hafa verið algeng, að í prinsinum Hamlet hafi Shakespeare endurskapað sjálfan sig og sína angist – eða í öllu falli benda á að nærtækara væri að sjá Shakespeare í föður Hamlets, kónginum og draugnum, sem mæli til sonar síns, Hamlets einsog William mæli með leikritinu til sonar síns, Hamnets (já, Shakespeare átti son sem hét Hamnet með n-i). Hamnet lést 11 ára gamall, 1596, fáeinum árum áður en Shakespeare skrifaði Hamlet.

Annar hluti kenningar Stephens gengur út á að í Hamlet sé fólgin ásökun á hendur Anne Hathaway, eiginkonu Shakespeares – sem var eldri, flekaði Shakespeare ung, en var svo skilin eftir blönk í Stratford á meðan Shakespeare lagði undir sig leikhúsheiminn – um að hún hafi haldið framhjá honum. Hann sé vofan, hún sé Geirþrúður og Hamnet sé Hamlet.

Þriðji hluti kenningarinnar gengur svo út á að framhjáhaldið hafi verið við bróður Williams, Richard (en nafn hans – og Edmunds – notar William oft á illmenni sín, en aldrei nafn þriðja bróður síns, Gilberts). Sem sé flón. Þessa ásökun getur Shakespeare augljóslega ekki flutt látnum syni sínum nema í gegnum listina (ekkert talar inn í eilífðina, þar sem dauðinn býr, nema listin).

Dáinn sonur, dáið foreldri og ótrú eiginkona – þetta eru mest áberandi stefin í allri bókinni. Móðir Stephens er nýlátin, Bloom missti son og á föður sem framdi sjálfsmorð, auk konu sem liggur og bíður ástarfundar við annan mann. Og þetta eru líka stefin sem tengja Ulysses, Ódysseifskviðu og Hamlet.

Þessar ræður Stephens eru nærri því hálfur kaflinn – og sækja þeir Stephen/Joyce víst mikið af upplýsingum sínum um líf Shakespeares til Georgs Brandesar. Og þegar Stephen er svo spurður að þeim loknum hvort hann leggi trúnað á þetta sjálfur svarar hann einfaldlega: „Nei.“ Hann er að skylmast, hann er að leika sér – en hann er líka að hugsa um heiminn sem slíkan og nota Shakespeare/Hamlet til þess. Og heimur Stephens er bókmenntir James Joyce.

En ýmislegt gerist líka þarna á meðan hann er að tala – aðallega í höfðinu á Stephen. Á einum tímapunkti fer hann til dæmis að íhuga það hvenær maður sé maður sjálfur og hvenær maður verði annar. Þetta gerist fyrst þegar hann man alltíeinu að hann skuldar A.E. pening en kemst að þeirri kímlegu niðurstöðu að kannski hafi það verið annar maður sem fékk þessa peninga lánaða – önnur mólekúl sem kölluðu sig líka Stephen Dedalus, en þau mólekúl sem hann sé núna skuldi þá engum neitt. Sú hugleiðing endar á fleygum orðum:

I, I and I. I.

Það er að segja égið sem komma í setningu, einfalt hik, eða sem punktur og nýtt upphaf. Ef það er komma skuldar hann kannski enn, ef það var punktur tilheyrir skuldin öðru sjálfi. Þetta rímar við hugleiðingu Blooms úr síðasta kafla þar sem hann rankar við sér upp úr blautlegri minningu um stefnumót þeirra Mollyar í Howth og hugsar:

Me. And me now.

Orð Blooms og Stephens ríma gjarnan svona – til dæmis er það Bloom sem fyrst vitnar í vofukónginn í Hamlet („ég er andi föður þíns“) í síðasta kafla, áður en Stephen gerir það í þessum kafla.

Enn fremur kemur Stephen inn á síbreytilegt eðli listamannsins í verkum sínum þegar Eglinton hefur sagt meira þurfa til að hann falli frá þeirri trú að Shakespeare sé Hamlet.

As we, or mother Dana*, weave and unweave our bodies, Stephen said, from day to day, their molecules shuttled to and fro, so does the artist weave and unweave his image. And as the mole on my right breast is where it was when I was born, though all my body has been woven of new stuff time after time, so through the ghost of the unquiet father the image of the unliving son looks forth. In the intense instant of imagination, when the mind, Shelley says, is a fading coal, that which I was is that which I am and that which in possibility I may come to be. So in the future, the sister of the past, I may see myself as I sit here now but by reflection from that which then I shall be.

* Dana er bókmenntatímarit og hef ekkert með dani – þjóð Hamlets – að gera. Þetta verður eðlilega pínu truflandi í íslensku þýðingunni – en annað áhugavert þar er að fæðingarblettinn þýðir SAM sem „móðurmerki“. Sem setur auðvitað hugann á heilmikið flug.

Á eftir Guði skapaði Shakespeare flesta – vitna þeir félagar líka í Alexandre Dumas. Og ef Shakespeare er þannig allt í senn „faðir“ (skapari) kóngsins og líka kóngurinn og líka Hamlet er hann orðinn afi sinn. Og erum við þá farin að nálgast útúrsnúning hins stríðna Bucks.

Í þessu öllu saman er Joyce auðvitað að bjóða okkur upp í dans, bjóða okkur að velta því fyrir okkur hvort hann sé Dedalus eða Bloom eða báðir; og hvort hann sé þeir á einhverjum tilteknum tíma, hvort Ulysses-Dedalus sé sami Dedalus og í Æskumynd listamannsins eða nýr Dedalus. Hvort hann sé „Dedalus, Dedalus“ eða „Dedalus. Dedalus“. Eða jafnvel „Dedalus. Bloom“ – eða einhver önnur samsetning úr þessum feðrum og sonum. Og það er ekki alveg tilviljun að augnabliki síðar hugsar Stephen líka: „He is in my father. I am in his son.“ Eða biblíuvísunin þegar Stephen hefur fyrirlestur sinn – og ímyndar sér Shakespeare sjálfan að leika vofuna (sem hann gæti hafa gert) þar sem hún ákallar son sinn („Ég er andi föður þíns):

To a son he speaks, the son of his soul, the prince, young Hamlet and to the son of his body, Hamnet Shakespeare, who has died in Stratford that his namesake may live for ever.

Því svo elskaði guð heiminn að hann gaf son sinn …

Í ofanálag verður maður svo að hafa í huga að Joyce er með augljósan sonarkomplex gagnvart Shakespeare – og kannski að írskar bókmenntir/írar hafi verið með sonarkomplex gagnvart enskum bókmenntum/englendingum sem gegna á þessum tíma eins konar föðurhlutverki í landinu. Og skildu líka erfðaefnið sitt hressilega eftir í landinu með tungumálinu – ef Írar hefðu ekki misst tungumálið hefði Shakespeare ekki verið jafn augljós forfaðir Joyce (og vegna þess að þeir misstu það fannst skjólstæðingi Joyce, Samuel Beckett, alveg jafn eðlilegt að skrifa á frönsku).

Þá er líka skemmtilegur díteill – í kafla sem fjallar svona mikið um samræmi milli manna, sjálfa og persóna í riti – að tvær af þeim sögulegu persónum sem birtast í kaflanum gegna öðru nafni í riti. George Russell skrifaði undir nafninu A.E. og John Eglinton hét réttu nafni William Magee. Þeir eru kallaðir þessum nöfnum til skiptis – en Russell þó oftar kallaður sínu rétta nafni en Eglinton sínu höfundarnafni.

Að síðustu þarf að hafa í huga að Stephen er jafn meðvitaður um að ræðan er performans og Joyce er meðvitaður um að kaflinn er performans – báðir eru að segja sögu (og báðir að segja sögu um listina að segja sögur). Stephen hugsar:

Local colour. Work in all you know. Make them accomplices.

Þegar hann er að segja þeim frá leikhúsinu í London – hann vill mála upp smáatriðin og gera þá þátttakendur í frásögninni. Sem er auðvitað nákvæmlega það sem Joyce gerir – með því að tala annars vegar til hjartans, um hluti sem skipta máli, og hins vegar til heilans og þarfar hans til þess að leika sér við mynstur. Og sviðsetja sig grimmt. Þannig gera þeir okkur samsek.

Kaflanum lýkur á því að Stephen og Buck fara út af bókasafninu. Stephen finnur fyrir einhverjum nálgast að baki sér. „My will: his will that fronts me. Seas between.“ (Will er í þessum kafla aldrei bara viljinn heldur líka Will Shakespeare). Maður stingur sér á milli þeirra Bucks og Stephens, hneigir sig og heilsar. „The wandering Jew“ hvíslar Buck að Stephen „með trúðslegri lotningu“ þegar hann sér hver þetta var (Bloom). „He looked upon you to lust after you.“ Og svo lýkur kaflanum með línum úr Cymbeline:

Laud we the gods
And let our crooked smokes climb to their nostrils
From our bless’d altars

Það er reyndar heilmikið enn órætt (ég hef ekkert rætt erfðamálin – næstbesta rúm Shakespeares, sem hann eftirlét Anne í erfðaskránni, og hvers vegna hún fékk ekki besta rúmið; eða að Buck birtist vegna þess að Stephen var að skrópa á stefnumót með honum á krá, þar sem hann hafði lofað að borga umgang; að Buck sá Bloom gægjast undir styttuna af Afródítu – einsog hann íhugaði að gera í síðasta kafla – og segir hann „grískari en allir grikkir“; eða ádeiluna á blóðsúthellingar). En heilinn í mér þolir ekki mikið meira í bili. Það bíður allt næsta lesturs.

Ég er búinn að fara yfir níu þætti og það eru níu þættir eftir af þessum þriðja endurlestri. Og segja má að bókin sé þar með hálfnuð. En næstu kaflar eru lengri og sumir þeirra talsvert brjálaðri – ég er á síðu 209 af 732.

* * *

Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar. 

Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.

* * * 

Yfirferðin 2025:

Ulysses: Lestrardagbók, 1. hluti 
(Telemakkos, Nestor og Próteus á hundavaði – verður gert betur síðar).

Ulysses: Kalypsó

Lótusæturnar

Hades: Undirheimarnir

Eólus: M´ótvindar frelsis

Lestrygónar: Að éta á sig gat

* * * 

Eldri bloggfærslur um Ulysses:

Gerty MacDowell, Silvía Nótt og list paródíunnar

Hið samhengislega líf

Torlestur

Völundarhús Rorschachs

Að feðra föður sinn

Svartsýni og blinda

Hvítur reykur

Það er kominn hvítur reykur. Þegar þetta er skrifað er samt ekki vitað hver verður nýr páfi. Svíar þykjast líklegir til sigurs – og gætu þar með unnið bæði Páfagarð og Eurovision sömu vikuna. Eurovisionlagið – Bara bada bastu – er samt eiginlega næstum finnskt. Ég hef ekki heyrt það – hef varla heyrt Væblagið.

Ekki langar mig í kreddur kaþólsku kirkjunnar. En það er ekki laust við að ég öfundi fólki af andlegri sannfæringu. Og að traustar stofnanir vekji með manni aðdáun á upplausnaröld – a.m.k. þegar upplausnin er mestanpartinn fasísk.

* * *

Fagurbókmenntir eru að víkja fyrir léttmeti. Lestur er að víkja fyrir hlustun. Íslenskan er að víkja fyrir ensku. Skáldsagan að víkja fyrir sjónvarpinu. Ritlistin að víkja fyrir gervigreindinni. Og það er allt útlit fyrir að lærdómi verði útvistað til hennar líka – á svipaðan hátt og upplýsingum var útvistað til internetsins. Það er að segja, lærdómur hættir ekki að vera til frekar en upplýsingar eða upplýsingamiðlun, heldur leysist hann upp og við firrumst honum – í marxíska skilningnum – einsog maður firrist öllu verki við að beita stórtæku verkfæri, einsog það er ekki það sama að smíða borð með höndum og smíða borð með mannlausri verksmiðju. Að ýta á takka og fá borð. Að ýta á takka og fá ritgerð. Ýta á takka og fá skáldsögu.

Hvaða tilgangi þjóna þá listrænar bókmenntir? Eru þær einhvers konar viðnám? Rými þar sem annars konar veruleiki, lærdómur, upplifun getur átt sér stað? Eða eru þær bara lútuleikur á öld tölvunnar? Eða bæði?

Á öld sjálfsins og representasjónarinnar – fulltrúunar – er kannski ekkert eðlilegra en að við fáum öll klæðskerasniðnar sögur um okkar eigin sjálf. Mamma mín hefur skrifað þannig sögur fyrir barnabörnin sín öll – með myndum, þar sem þau geta séð sig sjálf í bókum. Það er fjarska fallegur gjörningur. Ég er ekki viss um að það verði jafn fallegt á stórum skala.

Annars væri áhugaverð spurning – fyrir Black Mirror höfunda, ef engan annan – hvort fólk myndi heldur vilja skáldsögur um sig og sín vandamál eða fantasíur? „Skrifaðu 300 blaðsíðna sögu um hálffimmtugan tveggja barna föður á Ísafirði sem er að æfa fyrir maraþon og er alltaf að slíta á sér kálfavöðvana“ vs „Skrifaðu 300 blaðsíðna sögu um hálffimmtugan geimriddara í fjarlægu sólkerfi sem sigrast á geimfasískum öflum“. Hefðbundið hlutverk sagna er að gera þetta tvennt – stundum bæði í einu. Að veita einhvers konar fulltrúun – sem getur verið að segja sögur þeirra sem fá annars ekki sagðar um sig sögur, en líka að greina og ræða vandamál einstaklinga og hópa í tilteknum (sögulegum) aðstæðum – og hjálpa okkur að stíga út úr kvíðvænlegum raunveruleika. Sem er ekki bara að veita skemmtun, en er líka að veita skemmtun (listrænar skáldsögur eiga líka að veita skemmtun; léttmeti þarf ekki að veita neitt umfram skemmtun).

En svo stendur sagnamennska ekki og fellur með bókmenntum. Þörfin til þess að segja og heyra sögur er ´óháð miðli og gæti reynst óháð því hvort sögurnar eru sagðar af mönnum eða vélum. Það á eftir að koma í ljós.

Það sem helst kemur í veg fyrir að klæðskerasniðnar og persónulegar sögur taki yfir „bókamarkaðinn“ er þörf okkar til þess að upplifa sameiginlegan veruleika – til þess að ræða Dallasþáttinn frá því í gær eða bókina efst á vinsældalistanum. Og það sem ver höfundinn fyrir gervigreindinni er einfaldlega seleb-kúltúr – enda eiga frægustu höfundar samtímans það allir sameiginlegt að vera á einn veg eða annan fjölmiðlavænir. M.a.s. þeir sem spila Pynchonleikinn vekja áhuga fyrir að vera dularfullir og lítt gefnir fyrir að fara í viðtöl. Það er líka múv – þótt það sé áreiðanlega útgefandans/agentsins að gera það áhugavert. En við viljum að höfundurinn sé „persóna“.

Annars er alveg líka spurning hversu mikið maður eigi að vera að velta þessum dauða fyrir sér – því er eins farið um dauða bókmenntanna og dauða manns sjálfs að hann kemur þegar hann kemur og ef maður eyðir tíma sínum í að hafa áhyggjur af honum er allt eins líklegt að maður missi af því sem skipti máli: lífinu.

* * *

Nýr páfi er: Robert Prevost. Leó fjórtándi.

Þú last það fyrst hér.

Lestrygónar: Að éta á sig gat

Hvað hefur breyst frá því síðast? Þarna í vinstra horninu niðri má allavega lesa miðann sem Denis Breen fékk og gerði hann vitlausan: „U.P.: Up“. Þá er þarna líka Elijah is coming dreifiritið – flýtur í Liffey vinstra megin undir hestvagninum. Ýmislegt er eðlilega skýrara en kannski hefur fátt nýtt bæst við.

Við skildum við Ódysseif Hómers þar sem áhöfn hans hafði sleppt mótvindum Eólusar lausum og þeir blásið öllum skipunum aftur til baka – þegar þeir voru svo gott sem komnir heim til Íþöku. Halda þeir áfram förinni (róandi, því vindarnir vilja ekki þýðast þá lengur) og koma til Telepýlsborgar í Lestrygónalandi. Þar sendir Ódysseifur menn í land til að forvitnast um hvað þar búi „mennskra manna“. Njósnarar Ódysseifs finna þar fyrst „hina sköruglegu“ dóttur Antífatesar, sem beinir þeim að fara heim til foreldra sinna, þar sem þeir finna eiginkonu Antífatesar. Hún „var mikil að vexti, sem fjallshnúkur væri, og stóð þeim mikill geigur af henni.“ Eiginkonan (sem einsog dóttirin er auðvitað nafnlaus) kallar á Antifates sjálfan sem gerir sér lítið fyrir og grípur einn njósnarann og „býr sér til matar“ (það er orðalag Sveinbjörns; ég sé fyrir mér að hann hafi verið snöggsteiktur á báðum hliðum með smjöri og estragoni, aðallega af því það hljómar einsog lestrygóni). Hinir stökkva á flótta. Nú birtast gígantar úr öllum áttum og byrja að grýta björgum og éta menn – „stungu þeir skipverja í gegn, eins og fiska, og höfðu á burt með sér, var það ófagur veizlukostur“. Ódysseifur sker á landfestar og siglir í burtu – en öll önnur skip hans, ellefu talsins, farast.

Hin hversdagslega hliðstæða Ódysseifs í Ulysses, Leopold Bloom, lét í síðasta kafla, Eólusi, feykja sér um ritstjórnarskrifstofur The Evening Telegraph og nágrennis, sem lýkur þegar „alvöru karlarnir“, að Stephen meðtöldum, fara á krána til þess að væta kverkarnar.

Það er komið hádegi. Bloom hefur ekki gefið auglýsinguna upp á bátinn og þarf að fara á bókasafnið til þess að finna eldri útgáfu hennar í blaðinu The Kilkenny People. Hann er líka svangur en virðist ekki alveg meðvitaður um það sjálfur í fyrstu. Kaflinn hefst fyrir utan nammibúð – „Sykurkámug stúlkan eys ausufylli eftir ausufylli af rjómakaramellum fyrir félaga úr kristbræðrareglunni“ og á leið sinni um borgina leitar hugurinn stöðugt til matar og hungurs sem birtist í öllu myndmáli – lögreglan gengur „gæsagang“ með andlit „heit af áti“ og John Howard Parnell er lýst þannig að hann hljóti að hafa „étið úldið egg“ og svo framvegis og svo framvegis. Þegar hann kemur að ánni Liffey sér hann bruggpramma fara hjá og fer að hugsa um geyma af porteröli, sem honum þykja dásamlegir í fyrstu, en er svo fljótlega farinn að hugsa að rotturnar komist áreiðanlega þá. „Drekka svo stíft að þær tútna út einsog vatnsdauðir hundar.“ Og svo drekkum við ölið sem rotturnar hafa drepist í. Þannig er allt þetta át sem hann hugsar um bæði dásamlegt og nærandi og viðbjóðslegt. Kannski einsog mannát gígantana hefur verið eðlilegur hádegisverður fyrir þeim en viðbjóðslegur hryllingur fyrir Ódysseifi.

Við Liffey fylgist Bloom líka með mávunum. Hann kaupir kökubita, mylur hana niður og kastar ofan í ána og horfir ´a mávana steypa sér gráðugir á eftir þeim. Hann hugsar líka til sonar Reubens J. – þess sem sagt var frá í Hades og reyndi að drekkja sér – að hann hafi „svelgt góða magafylli af þessu skolpi“. Ég held það sé alveg óhætt að fullyrða að meiripartur þessara matarvísana sé fremur ólystugur – en tilvist þeirra undirstrikar engu að síður sívaxandi svengd Blooms.

Á göngunni sinni hugsar hann um eitt og annað. Til dæmis hvort Molly sé gáfuð eða ekki og hvort Boylan sé með kynsjúkdóm. Hann rifjar líka upp einu sinni þegar þau voru að ganga saman þrjú og Boylan og Molly létu hendur snertast á gangi einsog hikandi elskendur. Svo hugsar hann hvort hann geti farið heim klukkan 18 – sem hann telur óhætt (fundur Blazes og Molly er kl. 16). Hann sér líka margar auglýsingar sem hann hugsar um og þá ber helst að nefna fimm menn sem ganga hver um sig með einn stóran bókstaf sem myndar H E L Y S, en það er ritfangaverslun þar sem Bloom vann einu sinni. Nema mennirnir eru í vitlausri röð af því Y-ið hefur dregist aftur úr, er að maula brauð. Verður þetta til þess að hann rifjar upp hugmynd sem hann hafði að betri auglýsingu en þessari þar sem snotrar stúlkur væru í gagnsæjum sýningarvagni að skrifa sendibréf. Hann rifjar líka almennt upp þessa tíma þegar hann vann hjá Hely’s og Millý var lítil (og Rudy þar með hvorki fæddur né látinn) og kemst að þeirri niðurstöðu að þá hafi hann og þau verið hamingjusamari. Hugsanir hans verða fljótt blautlegar og hann rifjar upp hvernig Mollý losar af sér lífstykkið – áður en hann er truflaður.

Það eru ekki margar persónur sem birtast í þessum kafla og ekki mikill eiginlegur söguþráður. En nú rekst Bloom á fyrrverandi kærustu, frú Josie Breen, og þau taka hvort annað tali. Josie segir frá því að maðurinn sinn sé á barmi þess að missa vitið. Hann hafi fengið ómerkt póstkort með stöfunum „U.P.“ (eða hugsanlega stóð „U.P.: UP“) og tekið því sem einhvers konar hræðilegri móðgun. Hann sé nú á fundi með lögfræðingnum Menton – þeim sem birtist í Hadesarkaflanum og þolir ekki Bloom, finnst hann óverðugur Mollyar og er sennilega gyðingahatari – til þess að sjá hvort hann geti ekki kært þessar ofsóknir.

Breen og Bloom tala líka um Minu Purefoy, sem er á fæðingardeildinni og gengur heldur illa að klára þar sín mál – Bloom kallar hana reyndar óvart Beaufoy og nefnir hana bara til þess að skipta um umræðuefni (sem var UP-póstkortið). Beaufoy er vel að merkja nafnið á manninum sem skrifaði söguna sem Bloom skeinir sér á í Kalypsó. (Í næsta kafla, þar sem Stephen Dedalus er í fókus og Hamlet er umræðuefnið, segir Stephen vel að merkja: „Snillingi verða ekki á mistök. Yfirsjónir hans eru að yfirlögðu ráði og eru dyrnar að uppgötvunum.“ Þetta má líka spegla í því að á fáeinum stöðum í Ulysses eru „mistök“ – t.d. stafsetningarvillur – sem Joyce neitaði að láta leiðrétta og má því geta sér til að hafi einhvers konar merkingu, þótt hún sé ekki alltaf ljós).

Einsog ég kom inn á í Lótusætuyfirferðinni þá er þetta „up“-stef einhver standpínuvísun en líka tengt vergirni kvenna (þeir ná honum upp – eða ekki – og þær halda pilsunum uppi – eða ekki). Af bræði Denis Breen að merkja er einhver annað hvort að gefa í skyn að hann nái honum ekki upp eða að frú Breen sé að sleppa einhverjum upp um pilsið á sér.

Ég held okkur sé alveg óhætt að spegla Breen-hjónin í bæði Antifatesarhjónum Hómers og í Leopold og Molly sjálfum (og þar með föður Hamlets og Geirþrúði, auðvitað; Ódysseifi og Penelópu; og Joyce og Noru). Leopold er ófær um að elska sína konu sem hleypir (hugsanlega) öðrum upp um sig. Og þá mætti túlka afstöðu Joyce hérna sem póliamóríska – í öllu falli er viðbragð Denis Breen augljóslega hið ósívilíseraða mannætuviðbragð, en (dálítið nevrótísk) yfirvegun Blooms það viðbragð sem siðmenningin er reist á. Sjálfsstjórnin. Ef við svo speglum það í Ódysseifi þá hjó hann alla vonbiðla Penelópu í miklu blóðbaði; faðir Hamlets lét hins vegar vonbiðilinn myrða sig; og ólátabelgurinn Joyce hvatti Noru sína til að halda framhjá sér svo hann gæti betur skilið afbrýðissemi. Sem hún lét víst ekki eftir honum.

Bloom gengur líka framhjá skrifstofum Irish Times. Þar auglýsti hann eftir vélritunarstúlku fyrir bókmenntalega sinnaðan mann – sem var yfirvarp til að finna sér pennavin. Hann fékk 44 svör og valdi Mörthu Clifford, og skrifa þau hvort öðru fremur hófstillt en vandlega blautleg bréf (einsog kom fram í Lótusætunum). Hann íhugar að líta inn og athuga hvort það hafi borist fleiri svör en gerir það ekki.

Bloom rekst á þrjár frægar manneskjur á gangi. Rétt eftir að hann hugsar til hans sér hann John Howard Parnell, sem er bróðir frelsishetjunnar Charles Parnell (nefndur í Hades). Og rétt eftir að hann hugsar um hann líka sér hann skáldið A.E. (nefndur í Eólus) og kollega hans Lizzy Twigg. Tilviljun á tilviljun ofan. Skáldin eru á reiðhjólum og að koma af einhverjum grænmetisveitingastað („Coming from the vegetarian“ þýðir SAM reyndar sem „Þau eru að koma úr náttúrulækningum“).

„Ekkert nema grasmeti og góðaldin“, skrifar Joyce. „Ekki neyta nautasteikur. Ef þú gerir það munu augu bolans leggja þig í einelti um alla tíð.“ Hann vill auðvitað alls ekki segja manni hvað textinn sé – hverjum hann tilheyri, hvort hann sé rödd sögupersóna, bókarinnar sjálfrar eða hvað. En hér erum við líklega komin einu lagi neðar – og þetta sem sagt Joyce að skrifa texta (plús-X) sem lýsir hugsunum Blooms sem ímyndar sér hugsanir A.E. og Lizzie Twigg. Sem honum finnst svolítið (óþægilega) heilög. „Þetta bókmenntafólk er allt svo loftkennt. Draumlynt, óljóst, þrungið táknsæi. Eintómir fagurkerar. Það kæmi mér ekki á óvart þó það væri einmitt þessháttar fæði sem framleiðir heilabylgjur fyrir skáldlegar hugsanir.“

Siðleysið birtist svo aftur þegar Bloom kemur ´a áfangastað, veitingastað Burtons, og ofbýður smjattið.

Karlmenn, karlmenn, karlmenn.

Þeir tróna á háum stólum við barinn með hattana afturá hnakka, hrópa frá borðunum eftir meira ókeypis brauði, svolgra, háma í sig stóra gutlandi diska af subbulegum mat, augun standa á stilkum, þurrkandi á sér vott yfirskeggið. Fölur og skænislegur ungur maður þurrkaði glasið hnífinn gaffalinn og skeiðina með munnþurrkunni. Ný samstæða af sýklum. Maður með sósublettaðan smekk um hálsinn mokaði skvampandi súpu niðrí kokið á sér. Maður skyrpti aftur á diskinn sinn: hálftuggið brjósk: gómar: engar tennur til að tyggjatyggjatyggja það. Feit rifjasneið úr grillinu. Gleypir hana ótuggna til að ljúka sér af. Döpur drykkjumannsaugu. Hefur bitið stærra stykki en hann fær tuggið. Er ég svona?

Svona heldur þetta áfram í rúma síðu áður en Bloom lætur einsog hann hafi verið að leita að einhverjum þarna inni, sem sé ekki þar – „Augu hans sögðu: Ekki hér. Sé hann ekki“ – og gengur út. Hann fer yfir götuna á siðsamari krá Davys Byrne og fær sér vegetaríska samloku eftir hugleiðingu sem hefst svona:

Dósakjöt. Hvað er dugleg húsfreyja án dósakjöts frá Plumtree? Stygg og stúrin af því. Þvílík dómadags auglýsing! Og hafa sett hana undir dánarfregnirnar. Útí hött. Dósakjöt Dignams. Gott handa mannætum með sítrónu og hrísgrjónum. Hvítur kristniboði of saltur. Einsog súrsað svínakjöt. Býst við að höfðinginn éti tignustu líkamspartana. Hljóta að vera seigir vegna brúkunar.

Og endar svona:

Fastan á Jom Kippúr, innvortis vorhreingerning. Stríð og friður velta á meltingu einhvers einstaklings. Trúarbrögðin. Jólakalkúnar og gæsir. Slátrun sakleysingja. Et, drekk og ver glaður. Slysavarðstofurnar fullar á eftir. Höfuð vafin sárabindum. Ostur meltir allt nema sjálfan sig. Sníklaostur.

–Eruð þið með ostasamloku?

Við munum að þessi Plumtree auglýsing undir dánartilkynningu Paddy Dignams er líka vísun í yfirvofandi ástarfund Mollyar með Boylan, einsog kom fram í Lótusætunum og hjá Joyce er ekki húsfreyjan stygg og stúrin heldur heimilið „incomplete“ – dósakjöt Boylans uppfyllir einfaldlega þörf á heimilinu, hversu óþægileg sem hún má vera fyrir suma heimilismenn (stygg og stúrin lýsir engan veginn Molly Bloom, einsog við eigum eftir að kynnast betur síðar).

Samlokan sem Bloom pantar sér er með gorgonzola og sinnepi og er enn þann dag í dag það sem Ulyssesferðalangar fá sér á Davy Byrne, sem er enn í rekstri og hafði þá verið í rúm hundrað ár. Og búrgúndarvín með. Ef bókin gerðist í dag hefði Bloom áreiðanlega fengið sér veganost. Ef ekki bara avokadó-toast.

Hér er vert að hafa í huga að nú hefur Bloom misboðið bæði hamslaust kjötátið á Burton og loftkennt grænmetisát fagurkeranna. Maðurinn sem hóf innkomu sína í bókina á að lýsa dálæti sínu á innmat, steikti sér nýra í morgunmat, en fékk sér sjálfur kjötlaust í hádeginu. Bloom er ekki með neinum í liði, hann er sinn eigin maður. Og kannski birtist þarna einhver kjarni sem er dæmigerður fyrir það það hvernig Joyce nálgast heiminn – bókmenntin sem tilraun til þess að fá panoptíska sýn á heiminn. Að umfaðma allt. Þetta má allavega spegla í mörgu fleiru, ekki síst því hvernig sjálfstæðisbarátta Íra birtist bæði sem sjálfsagt og fallegt ídeal, sem söguleg nauðsyn þjakaðrar þjóðar og sem ógurleg og eyðileggjandi þjóðremba. Og svo er Bloom auðvitað graðasti getuleysingi í gervallri klámbókmenntasögunni, ekkert nema kurteisi, mýkt, nærgætni og viðstöðulaust glápandi pervert.

En hér má líka hafa í hug að eitt af því fyrsta sem gerist í kaflanum er að Bloom tekur við kristilegu dreifiriti þar sem koma Elía er boðuð. Hann les textann og heldur fyrst að hann sé að lesa sitt eigið nafn. „Bloo“ hugsar hann en áttar sig svo á að þarna stendur ekki Bloom heldur „Blood of the lamb“. Ekki blómi Leopolds – grasmeti – heldur blóð lambsins. Og blómi Leopolds er auðvitað líka kyngetan – og blóð lambsins fórnin (svo tignar Bloom ástina að hann fórnar henni heiðri sínum, svo hún megi hljóta eilífan unað).

Þetta „Elía kemur“ birtist síðan af og til aftur í bókinni – en dreifiritinu kastar Bloom í Liffey um svipað leyti og kökubitunum. Það svo að segja flýtur í gegnum bókina.

Dreifiritið er kristið en Bloom er gyðingur (að ætt fremur en uppeldi). Margir kristnir túlka það sem svo að Elía hafi þegar snúið aftur, hann hafi verið Jóhannes skírari (þótt Jóhannes hafi neitað því sjálfur). En gyðingar bíða hans enn. Þá er markvert að koma hans er boðuð í síðustu bók gamla testamentisins sem heitir Malakí – en „Buck“ Mulligan, vinur Stephens Dedalusar, heitir réttu nafni Malachi Mulligan. Ekki það ég viti hvernig eigi að leggja út af því og kannski gerði Joyce það ekki heldur.

Sjá, ég sendi Elía spámann til ykkar áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur. 

Malakí 3: 23.

Og hver er það sem er að koma þennan ógurlega dag? Blazes fokkings Boylan. Það segir líka að Elía muni sætta feður við syni og syni við feður – og Ulysses er auðvitað mjög mikið um feður og syni, Stephen sem á reiða liðleskju fyrir föður, Bloom sem á dáinn son og dáinn föður, og þá tvo sem rekja sig að endingu saman. Í Ulysses er þó ekki víst að það hafi mikið með Blazes að gera – að minnsta kosti hef ég ekki komið auga á tenginguna.

Á Davy Byrne spallar Bloom við Nosey Flynn (sem statisti í „Counterparts“ úr Dubliners), meðal annars um Molly og söngferðalagið. Nosey – sem er frekar glötuð týpa – er augljóslega að fiska eftir einhverju slúðri um Boylan. Svo borðar Bloom og verandi í senn fullkominn sveimhugi og fullkominn núvitundarmaður fylgir því löng hugleiðing um mat – hvað sé eitrað og hvað ekki, að kínverjar éti 30 ára gömul egg, hvernig ostrur orki á kynhvötina o.s.frv. – sem leiðir hann að endurminningu um stefnumót þeirra Mollyar á Howth Head (Howth er skandinavíska – Howth Head væri rétt þýtt sem Höfðahöfði) – sem virðist hafa verið í meira lagi heitt.

Hamslaus lá ég yfir henni, kyssti hana: augun, varirnar, þaninn og titrandi hálsinn, stælt brjóstin í fínofinni kasmírpeysu, útstæðar brjóstvörturnar stinnar. Heitur lét ég tunguna leika um hana. Hún kyssti mig. Ég var kysstur. Hún gaf sig alla og ýfði á mér hárið. Kysst, kyssti hún mig.

Kurteislegri mynd af þessu stefnum´óti á Höfðahöfða má sjá á púslin uppi í hægra horninu.

Bloom hugsar líka um stytturnar á National Library Museum – safnahúsinu sem hann ætlar að heimsækja í næsta kafla.

[S]tanda í hringlaga salnum, naktar gyðjur. Örva meltinguna. Þær kæra sig kollóttar hvaða karl horfir á þær. Allt sést. […] Ódauðlega fagrar. Og við troðum mat í eitt gat og kemur út að aftan: matur, iðramjólk, blóð, tað, mold, matur: verður að fóðra hann einsog þegar kynt er undir vél. Þær hafa ekkert. Hef aldrei athugað það. Ætla að athuga það. Vörðurinn sér það ekki. Beygja mig, láta eitthvað detta. Athuga hvort hún.

Akkúrat á þessari stundu þar sem hann er að íhuga að líta undir stytturnar á safninu verður honum mál að míga og fer á klósettið. Nosey Flynn og Davy Byrne nota tækifærið til að baktala vin sinn, sem þeir segja meðal annars að sé frímúrari og frímúrarnir hugsi um sína. „Þeir hlaupa undir bagga þegar hallar á hestinum.“ Það er stef í bókinni að fólk virðist almennt halda að gyðingurinn Bloom eigi meira fé en raunin er – á meðan okkur sem þekkjum hann betur er ljóst að þótt hann sé nægjusamur er líf hans talsvert basl. Segja þeir líka að hann skrifi ekki undir samninga af því hann sé gyðingur. En þeir tala ekki bara illa um hann – þeir segja líka að hann sé háttprúður og hæglátur og bæta svo við að „sjálfur Guð almáttugur gæti ekki hellt hann fullan“ (sem er ekki endilega hrós). Mest bulla þeir bara og þekkja hann greinilega lítið þótt þeim þyki létt að fullyrða alls konar um hann.

Nú koma Paddy Leonard og Bantam Lyons inn og fara að tala um veðhlaupin – Gullbikarinn – einsog við munum úr Lótusætunum lánaði Bloom Lyons blaðið og Lyons misskildi athugasemd hans um að hann ætlaði hvort eð er bara að henda blaðinu („throw it away“) þannig að Bloom væri að gefa sér tips um að hrossið Throwaway myndi vinna veðhlaupin. Þessu ráði deilir Lyons með hinum sem taka það mistrúanlegt.

Þegar Bloom kemur af klósettinu yfirgefur hann krána. Það fyrsta sem hann sér úti á götu er „gráðugur terríer“ sem ælir „viðbjóðslegri kjúkutuggu á götugrjótið og sleikti hana af ferskum ákafa. Ofsaðning.“

Í lok kaflans sér hann síðan ungan sjónlausan mann. Hann fylgist með honum og veltir því fyrir sér hvernig hann fari að því að spjara sig og eðli skilningarvitanna almennt. Skömmu síðar hjálpar Bloom honum yfir götu – það er ekki alveg víst að sá blindi vilji neina hjálp, en hann er henni ekki mjög mótfallinn og þakkar fyrir sig. (Joyce var vel að merkja sjálfur mjög sjóndapur vegna veikinda og stundum nær blindur). Þá sér hann Sir Frederick Falkiner fara inn í Frímúrarahöllina. „Eftir góðan málsverð í Earlsfort Terrace. […] Þeir vilja fá rétta árganga af víni með ártalið skráð á rykfallna flöskuna.“

Að allra síðustu, rétt við bókasafnið, gengur Bloom svo næstum í flasið á kunnuglegum manni.

Stráhattur í sólskini. Brúnir skór. Uppbrot á buxum. Það er. Það er.

Blazes Boylan. Blazes sér ekki Bloom og Bloom lætur ekki vita af sér. Þreifar í ofboði í vasa sér eftir sápunni sem hann keypti fyrir Molly – einsog einhvers konar akkeri – og lætur sig svo hverfa inn fyrir hlið safnsins.

* * *

Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar. 

Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.

* * * 

Yfirferðin 2025:

Ulysses: Lestrardagbók, 1. hluti (Telemakkos, Nestor og Próteus á hundavaði – verður gert betur síðar).

Ulysses: Kalypsó

Lótusæturnar

Hades: Undirheimarnir

Eólus: M´ótvindar frelsis

* * * 

Eldri bloggfærslur um Ulysses:

Gerty MacDowell, Silvía Nótt og list paródíunnar

Hið samhengislega líf

Torlestur

Völundarhús Rorschachs

Að feðra föður sinn

Svartsýni og blinda

Hey, hey; maí, maí

Það er fyrsti maí. Apríl búinn. Svo ég tíðfæri frægt ljóð eftir Andra Snæ. Svona fer tíminn með bókmenntirnar. Það ætti kannski einhver að skrifa bók um það.

Ég stend mig stundum að því að íhuga hvort ég meini vel. Ég veit ekki hvers vegna það blasir ekki við. Kannski vegna þess að ég tel að maður sé alltaf að einhverju leyti líka fórnarlamb fleiri hvata. Eða fýsna. Ég finn alveg að það er eitthvað innra með mér sem glennir upp augun af spenningi þegar allt fer til andskotans. Sem hrópar jei! þegar Trump er kosinn forseti. Af hreinum og klárum leiða, býst ég við. Megirðu lifa áhugaverða tíma – var ekki kjaftæði að það sé kínversk bölvun? Las ég það ekki einhvers staðar? En það er allavega áhugaverð spurning hvort maður vilji eða vilji ekki lifa áhugaverða tíma. Og hvort áhugaverðir tímar séu nokkurn tíma trámalausir. Ég er að horfa á Say Nothing og stend mig að því að halda stundum með IRA. Eða allavega Dolours. Og þegar einhver er á flótta undan löggunni vona ég að viðkomandi komist undan. Samt veit ég að þau hafa kannski verið að sprengja fullt af saklausu fólki í loft upp. Myndi nokkur hugsa svona, sem meinti vel? Kannski er það þess vegna sem ég efast.

En sennilega vill maður nú samt bara lifa svona mátulega áhugaverða tíma. Það er gaman í rússíbönum alveg þar til vagnarnir fara að þeytast af teinunum á fullri ferð.

Svo er spurning hvað það er sem gildir. Að meina vel við enda dags. Þegar er allt kemur til alls. Eða hvort maður þurfi að meina vel í hverju skrefi, hverja sekúndu, hverri hugsun. Og hvort maður eigi að refsa sér – með skömm, ef ekki öðru – fyrir allar ljótar hugsanir. Sekúndubrotin sem maður brýtur af sér.

En kannski er það líka vegna þess að ég kæri mig illa um að láta segja mér hvað mér eigi að finnast um hitt og þetta. Eða að ég megi ekki efast um hitt og þetta. Megi ekki einlæglega krefjast þess að ég sé sannfærður með rökum frekar en siðferðislegu skylduboði. Ég held ég hafi nú samt mannúð og jöfnuð og virðingu að leiðarljósi og niðurstöðurnar séu eftir því.

Ætli það sé til fólk sem hugsar aldrei ljótt? Það er víst stutt frá hugsun að gjörðum líka svo maður ætti i sj´álfu sér að gæta sín að því hvað maður hugsar. Jafnvel þótt það sé smátt.

Annars hugsaði ég ekkert lj´ótt í dag. Ég veit ekki hvers vegna ég er að spá í þessu. Ég fór í ræktina og vinnuna og kröfugöngu og horfði á son minn spila með lúðrasveitinni og konuna mína syngja í kvennakórnum og hlustaði á ræður og skemmtiatriði og borðaði kökur í Guðmundarbúð og spjallaði við kanadískan rithöfund um sköpunargáfuna og gerði tómatsúpu í kvöldmat og æfði mig á kontrabassann og á eftir ætla ég í ókeypis bíó í boði verkalýðsfélagsins. Þetta var góður dagur, fullur af fallegum hugsunum.

Bamm

Ráðherra vill að leigubílstjórar tali íslensku. Er fyrirsögn í einhverju blaðanna sem ég sá áðan. Mér finnst svo sem ástæða til þess að fólk sem stundar þjónustustörf á Íslandi geri það á íslensku, einsog það ræður við. Mér finnst ekkert óeðlilegt að gerð sé krafa um það. En er ekki dálítið skrítið að setja lög um það?

Síðast þegar ég var í Reykjavík þurfti ég sjálfur að stimpla götuheitið inn í google maps leigubílstjórans af því hann skildi ekki hvað ég var að segja – altso götuheitið. Og rataði auðvitað ekkert sjálfur. Mér varð hugsað til skáldsögunnar The Book of Dave eftir Will Self sem fjallar um leigubílstjóra í London fyrir tilkomu gps-tækja (a.m.k. í hverjum vasa). Og prófsins sem allir leigubílstjórar þurftu að taka. The Knowledge, var það kallað, Þekkingin – og var nánast guðleg að stærð. Að rata um London. Hugsa sér. En þeir þurftu auðvitað ekki að gera það á íslensku.

Vill ráðherra að rithöfundar tali íslensku? Ég hjó eftir því að dagskrá Bókmenntahátíðar var sem fyrr öll á ensku. Meira að segja pöbbkvissið. Þó gat ég ekki séð að þar væru neinir íslenskir rithöfundar að tala hver við annan á ensku einsog hefur gerst og er mjög lúðalegt. Í ár voru einfaldlega engir viðburðir nema með erlendum gestum. Upplestrar fóru reyndar fram á móðurmáli höfunda. Þetta er held ég af því að Bókmenntahátíð í Reykjavík er í raun eins konar sölumessa. Stór hluti gesta eru erlendir útgefendur. Erlendu höfundarnir presentera sig fyrir íslenskum lesendum – sumir með bók á málinu, aðrir ekki – og íslensku höfundarnir presentera sig fyrir erlendum útgefendum. Það skýtur þannig skökku við að á meðan mér finnst lúðalegt að hátíðin fari fram á ensku þá saknaði ég þess líka að vera ekki boðinn – ég vildi líka fá að kynna mig fyrir erlendum útgefendum. Meðal annars vegna þess að mér gengur bölvanlega að koma Náttúrulögmálunum út á öðrum málum. Ég átti erindi í ár. Hefði getað selt mig! Að vísu myndi bókmenntahátíð kannski ekki hjálpa þar mikið til af því staðreyndin er einfaldlega sú að útgefendur eru mjög hikandi gagnvart löngum bókum. Og hún verður ekkert styttri við að ég fái að tala um hana á ensku í Iðnó. Og ég er líka hræðilegur networker – er feiminn og kem illa fyrir og segi bara vitlausa hluti eða ekkert (ég skrifa af því ég kann ekki að tala). En af því það var ekki í boði að koma og kynna sig þá finnst mér endilega einsog það hefði auðvitað gert herslumuninn.

Er dagskrá Iceland Noir öll á ensku líka? Það er eina hátíðin (í heiminum) sem ég hef beðið um að fá að taka þátt í – og eina sem hefur synjað mér. Að minnsta kosti persónulega. Bókmenntahátíð á Flateyri, sem skartaði þónokkrum erlendum höfundum, var á íslensku alls staðar þar sem það gekk – sem var langoftast. Um aðrar alþjóðlegar bókmenntahátíðir á þessu landi er víst ekki að ræða. Svo ég viti.

Stundum hugsa ég að það væri ágætt að hafa einhvern vettvang þar sem íslenskir rithöfundar gætu mæst án þess að vera í jólabókaflóðsgírnum eða réttindasölugírnum. Kannski er það bókaballið? Ég hef bara einu sinni farið á það – 2011 var mér boðið að lesa ljóð á hátíðinni. Man eftir útlenskum höfundi sem öllum fannst voða fyndið að væri að klípa í allar konurnar á dansgólfinu. Þetta var fyrir metoo og ég man ekki hver höfundurinn var og sá þetta ekki – stóð úti og reykti bróðurpartinn af kvöldinu og fylgdist með konunum koma út, krossa sig og segja „hann er rosalegur þessi maður!“ Og svo var hlegið. Fílingurinn var svolítið einsog á góðu sveitaballi.

Mér var reyndar – svo því sé haldið til haga – boðið að spila í bókabandinu. Sem hefði verið geðveikt. En ég hefði þurft að koma í bæinn á þriðjudag eftir páska til að æfa og það bara gekk ekki.

Kannski finnst mér bara svolítið billegt að ætlast til þess að leigubílstjórar tali íslensku og hía á forsetann fyrir að segja „pope Francis“ ef maður getur svona auðveldlega gert hana að aukaatriði sjálfur. Og kannski myndi það gera heilmikið fyrir tungumálið ef við myndum temja okkur að nota túlka meira – einsog er gert mjög víða. Okkur vantar fagstétt af túlkum – og hún verður ekki til nema einhver skapi störfin.

p.s. Það kemur áreiðanlega ekkert um Lestrygónakaflann í Ulysses fyrren í næstu viku.

Varðturninn

Woke er ekki hugmyndafræði heldur heiti á tilhneigingu. Hnjóðsyrði, fyrst og fremst, til þess að hafa um hina skinhelgu. Þá sem eru stöðugt að leita að misfellum í hegðun náungans. Þá sem eru með prótókol og siðferðislega fágun á heilanum. Hnjóðsyrðið þjónar þeim tilgangi að tjá gremju yfir því að við sem þjóðfélag séum of æst í að dæma rangstæðu hvert á annað. Réttlætanlega gremju, finnst mér, því þótt ég myndi áreiðanlega sjálfur mælast frekar hátt á wokeskalanum í hvaða skoðanakönnun sem er, þá finnst mér þetta oft verða óþolandi lögguleikur.

Mörgum finnst að þeir geti ekki „verið þeir sjálfir“ innanum hina skinhelgu – ekki vegna þess að þeir þurfi stöðugt að vera að segja einhverja rasistabrandara heldur vegna þess að maður verður (eðlilega) svo sjálfsmeðvitaður þegar manni finnst að fólkið í kringum mann sé í lögguleik, verður hræddur um að stíga á línur sem einhver annar hefur teiknað, sem maður veit ekki nákvæmlega hvar liggja fyrren það er búið að flauta (og einsog gildir um rangstæðuregluna færist línan líka stöðugt til í leiknum eftir því hvar hinir leikmennirnir eru staddir). Maður veit að það hefur enga þýðingu að „hafa meint vel“ og það skiptir engu máli hver bakgrunnur manns er – hversu læs maður er á þessa prótokolla, hversu vanur maður er. Það er brot í sjálfu sér að kunna þá ekki.

Skinhelgin er síðan líka óþægileg vegna þess að við vitum öll að hin skinhelgu eru ekki syndlaus sjálf (engin er syndlaus; en þau eru heldur ekki syndlausari en aðrir). Hin skinhelgustu reynast meira að segja stundum vera svona upptekin af eigin skinhelgi einmitt vegna þess að þau eru að breiða yfir eitthvað ljótt í eigin fari. Þau eru að tryggja stöðu sína í hjörðinni – markera sér stað með „góða fólkinu“ vegna þess að þau óttast að verða útlæg ger. Og stundum eru þau að vinna yfirbót – svona einsog manni gæti dottið í hug að ganga í klaustur af því maður gerði eitthvað ljótt, og endað svo í heiftúðugu og fanatísku stríði við syndina í fari annarra. Með reyr og belti.

Þetta er að mörgu leyti skiljanleg og jafnvel nauðsynleg hegðun í hjörð. Að hjörðin setji sér reglur um rétta framkomu og einstaklingarnir framfylgi þeim með skömm og jafnvel útskúfun. En dómharka og fyrirgefningarleysi á samt ekki að vera dyggð og skömm er ekki gagnlegt stjórntæki til lengdar. Ekki heldur þegar hún birtist okkur í nafni kærleikans.

Að því sögðu finnst mér rétt að taka fram að mannréttindabarátta sem er ekki líka transréttindabarátta er ekki neitt sem maður ætti að taka mark á. Og mannréttindabarátta sem gerir í því að skilja transréttindi – eða önnur réttindi minnihlutahópa – útundan er belgingsleg minnimáttarkennd sem á heima á bekkjum sálfræðinga en ekki pistladálkum dagblaðanna.

Því má svo líka alveg halda því til haga að mannréttindabarátta getur verið frekari á athygli en hin efnahagslega barátta og það getur alveg verið ástæða til þess að markera henni tiltekið pláss innan t.d. verkalýðshreyfingarinnar, svo hún taki ekki yfir þá mikilvægu baráttu heldur styðji hana frekar. Við sjáum að fjölmiðlar veita mannréttindabaráttu meiri athygli en stéttabaráttu – það er meira krassandi að skrifa um einhvern sem var laminn fyrir það hver hann er en allt það fólk sem þarf að lifa af smánarlaunum eða bótum. Bæði er allrar athygli vert, bæði eru systemísk vandamál sem þarf að leysa – en annað er frétt vegna þess að það brýtur á velsæmishugmyndum okkar flestra og hitt er veruleiki sem við virðumst hafa sætt okkur við. Það er hægt að halda hundrað ráðstefnur um launamun kynjanna – sem er mannréttindamál – en það eru engar ráðstefnur haldnar um launamun stéttanna. Fyrirtæki, smá og stór, eyða peningum í að vera (og sýnast) græn og feminísk og hossa sér fyrir að veita fólki af ólíkum bakgrunni tækifæri – en það þætti hálfgert brjálæði að reyna að jafna laun skúringakonunnar og forstjórans (og reyndar ímynda ég mér að mörg þeirra fyrirtækja sem hafa jafnlaunavottað sig hafi meðal annars gert það með því að „útvista“ skúringunum – skítadjobbin, sem eru oft kvennastörf, tilheyra öðrum fyrirtækjum).

Við þær aðstæður skil ég að hin frjálslynda skinhelgi fari í taugarnar á þeim sem standa í því stappi að reyna að hífa upp laun skúringakvenna. Afsakið, skúringastarfsfólks.

Eólus: Mótvindar frelsis

Hér er ýmislegt að gerast. Það glittir í kýklóp. Sítrónusápan hvílir í lundi. Fólkið við vitann er Molly og Leopold á sínu fyrsta stefnumóti löngu áður. Samuel Beckett stendur uppi á húsi. Þar beint fyrir ofan eru skrifstofur Freeman’s Journal og Evening Telegraph. Molly hvílir í rúmi sínu og Bloom tekur til morgunmatinn. Séra Conmee er á stjái. Bókin The Sweets of Sin stendur opin. Í vinstra horninu niðri eru Flann O’Brien og fleiri rithöfundar á frægri ferð um söguslóðir Ulysses sem endaði á einhverjum afar viskílegnum villigötum. Þá er þetta Bloom þarna undir blóminu stóra með bréfið frá Mörthu í höndunum.

Ég segi ekki að það erfiðasta við Aeolus sé að stafsetja heitið á kaflanum rétt en það er allavega á topp fimm listanum. Ef marka má árangur minn (ég kíki alltaf og leiðrétti en virðist ekki geta gert þetta rétt í fyrsta skipti). Enda hefur Sveinbjörn ákveðið að kalla manninn bara Eólus. Hippótesson. Ástvin hinna ódauðlegu guða.

Í kviðu Hómers segir frá því er Ódysseifur hittir vindguðinn Eólus. Eólus gefur Ódysseifi poka fullan af mótvindi sem þá hindrar hann ekki á heimleiðinni – og sendir góðan vestanvind á eftir honum. Þetta er vel að merkja fljótlega eftir að Trójustríðinu l´ýkur, rétt eftir að Ódysseifur sleppur frá kýklópnum Pólyfemusi. Með hjálp hagstæðra vinda sækist ferðin vel og þegar Íþaka er í sjónmáli ákveður Ódysseifur – illu heilli fyrir sig en góðu heilli fyrir sadíska lesendur ævintýra – að fá sér bara ogguponsu lúr. Á meðan lúrnum stendur kíkja skipverjar í pokann, af því þeir telja að þar megi finna fjársjóð, með þeim afleiðingum að mótvindarnir sleppa út og skipið feykist alla leið aftur til baka. Eólus finnst þetta ekki fyndið – „goðagremi veldur því, að þú ert hingað kominn“ – og neitar að hjálpa Ódysseifi frekar. Enn eru sjö ár í að Ódysseifur komist heim.

Sögusvið Eólusarkafla Joyce eru skrifstofur The Freeman’s Journal og The Evening Telegraph – morgunblaðið og síðdegisblaðið deila kontór. Vindur er aðalhreyfiafl og höfuðmyndlíking kaflans. Vindurinn feykir fólki inn og út úr herbergjum. Það er stanslaus umgangur og erfitt að fylgjast með hverjir eru inni á sviðinu. Fólkið sem þeytist fram og til baka blæs líka út úr sér heilum ósköpum af heitu lofti og gaspri og það eru gjarnan fleiri en ein samræða að eiga sér stað samtímis.

Bloom er hins vegar blásið áfram af launaþörfinni – auglýsingasalan er greinilega illa launað skítadjobb og hann ræður litlu og enginn ber minnstu virðingu fyrir honum. En það eru þannig störf sem feykja manni af mestum krafti, störfin sem maður hefur ekki efni á að missa.

Ulysses er í eina af sínum fjölmörgu röndum saga um framfarir og nútíma. Og það hvernig nútíminn tekur við af fortíðinni, breytir venjum og hefðum og hugsunarhætti. Og hún boðar framtíðina sem mun gera það sama við nútímann og hann gerði við fortíðina. Valta yfir hann. Það eru fáir höfundar á þessum tíma – 1914-1922 – sem skrifa af sama áhuga fyrir tækninýjungum og Joyce. Einsog við sáum í síðasta kafla er aðalsöguhetjan, Leopold Bloom, t.d. áhugamaður um vélvæðingu dauðans – og sennilega einlægur í þeim áhuga þótt Joyce sé kannski pínu að gera gys líka. Hér örlar hins vegar fyrir því að Bloom dáist ekki bara að tækninni heldur fyrirlíti eða óttist hana líka. Í prentsmiðjunni kemur til dæmis þessi kafli:

Machines. Smash a man to atoms if they got him caught. Rule the world today.

Örskömmu síðar bætir hann við þessari lýsingu á vélunum:

The machines clanked in threefour time. Thump, thump, thump. Now if he got paralysed there and no one knew how to stop them they’d clank on and on the same, print it over and over and up and back.

Tveimur blaðsíðum síðar koma prentvélarnar enn eina ferðina inn og þá er einsog Bloom sé farinn að skilja þær.

Sllt. Almost human the way it sllt call to attention. Doing its level best to speak. That door too sllt creaking, asking to be shut. Everything speaks in its own way. Sllt.

Ég held að þetta „sllt“ hljóð hljóti að vera skurðarvél. Hvað um það. Í fjórða kafla bókarinnar, þegar við hittum Bloom, á hann í samskiptum fyrst við köttinn sinn sem mjálmar og svo við Molly, sem muldrar orðaleysur – og alltaf skilur Bloom það sem við hann er sagt þótt orðin sé ekki að finna í orðabókum. Hér er undirstrikuð mennska Blooms og þörf hans fyrir tengsl, fyrir að skilja heiminn – en líka lýst ákveðinni kenningu um lestur: Kannski er ekki hægt að lesa (Ulysses/neitt) nema maður treysti eigin innsæi til að túlka upplýsingarnar sem maður fær.

Yfirgengilegur textaveruleiki aldamótanna 1900 tröllríður auðvitað bókinni. Það var ekki að dagblöð og auglýsingar væru nýmæli, þótt ekki væru þau mjög gömul heldur, heldur að það stóð stöðugt fleirum til boða að skrifa, lesa og auglýsa. Út um allt er texti. Á öllum veggjum eru tilkynningar og auglýsingar og skilti og Bloom les það allt. Bloom er svo auðvitað sjálfur auglýsingasali (milligöngumaður milli auglýsenda og Freeman’s Journal, sem gefur út The Evening Telegraph – hleypur á milli og semur um birtingu og vinnur fyrir prósentur). Og sem slíkur hefur hann einlægan áhuga á texta og framsetningu. Hann gengur auk þess um með upprúllað dagblað undir hendinni alla bókina – og það er yfirleitt kallað „newspaper baton“ og á einum stað „freeman baton“ og það er áreiðanlega ekki óviljandi – baton er bæði tónsproti, sá sem í hann heldur s´týrir verkinu, og barefli eða kylfa. Textinn leiðbeinir, stýrir og meiðir jafnvel.

Stephen – sem snýr aftur í Eólus – er menntamaður og skáld og sem slíkur upptekinn af annars konar textagreiningu. Hann íhugar Aristóteles og Boehme og Shakespeare – og raunar er hann í hinum frægu upphafsorðum Próteusar um „the ineluctable modality of the visible“ – („óumflýjanlegan hátt þess sem er sýnilegt“) – að reyna að komast handan hins sjáanlega út í einhvers konar „hreina hugsun“ – hugsun um hugsun, hugsun um heimspeki og listir. Eða í það minnsta að sjá sýnileikann í hinu sýnilega – sjá sig sjá. Það er öfugt við Bloom sem baðar sig í hinu sjáanlega – starir jafn hispurslaust á auglýsingar sem kvenmannsleggi – og er alltaf með hugann við það sem er fyrir framan nefið á honum.

Erindi Stephens í Eólus er að koma til skila aðsendri grein frá yfirmanni sínum, hr. Deasy, um gin- og klaufaveiki. Ekki sínum eigin skrifum, sem þó er gengið eftir. Hins vegar reif skáldið smá rifrildi af pappírnum sem greinin er skrifuð á – í Próteusarkaflanum – og orti á það ljóð sem hann rifjar upp hér þegar ritstjórinn spyr hvers vegna bréfið sé rifið.

On swift sail flaming
From storm and south
He comes, pale vampire,
Mouth to my mouth.

Bókin sjálf vekur líka sífellt meiri athygli á sjálfri sér eftir því sem líður á hana. Fyrst með því að beita óvenjulegum frásagnaraðferðum sem leyfa Joyce að dvelja við og stökkva inn í jafnvel smávægilegustu hugsanir sögupersóna sinna – sem verða þar með texti – og svo síðar með augljósari aðferðum. Þetta verður fyrst dagljóst jafnvel fimm ára börnum í Eólus þar sem frásögninni er skipt upp í fréttir með fyrirsögnum á borð við „Lost Causes Noble Marquess Mentioned“ og „Only Once More That Soap“ sem standa reyndar í misaugljósu samhengi við textann. Textann gæti maður alveg lesið án þeirra einsog hvern annan kafla í þessari bók – og raunar bætti Joyce fyrirsögnunum bara við í próförk til þess að undirstrika textúalítetið og búa mann undir næstu stökk í þá átt. Og auðvitað vegna þess að það er viðeigandi fyrir sögusviðið. Dagblaðaheiminn. Heim framtíðarinnar: auglýsinga og prentlista. Blaðaskrif og auglýsingar eru stöðugt rædd, hávaðinn í prentsmiðjunni og gasprið í blaðamönnunum eru alltumlykjandi. Og á einum stað dáist Bloom líka að því hvernig setjararnir geta raðað upp stöfunum aftur á bak – mangiD kcirtaP – ef bókin hefði verið prentuð í dag hefði Joyce sennilega látið spegla stafina líka.

Félagar Blooms úr jarðarförinni eru farnir á pöbbinn en Bloom hefur ekki efni á að slæpast, hann þarf að sinna vinnunni. Hann er með hugmynd að auglýsingu fyrir te- og vínsalann Alexander Keyes sem felur í sér að endurnýta gamla auglýsingu úr öðru blaði, tvo lykla í kross innan í hring. Sams konar merki mun hafa verið notað af þeim sem studdu írska heimastjórn. Og Bloom segir við yfirmann sinn, Nannetti, að þetta sé daður við slíka pólitík – sem er þeim greinilega öllum að skapi. En heimastjórn þýðir áreiðanlega eitthvað fleira fyrir kokkálnum og ástarbréfaskrifaranum en bara sjálfstjórn þjóðarinnar. Og tveir lyklar í bók um tvo lyklalausa menn – Stephen og Bloom fara báðir að heiman lyklalausir – er nú kannski ekki flóknasta táknið í ljóðráðningabókinni. Nannetti samþykkir auglýsinguna ef Keyes fæst til að kaupa þriggja mánaða endurnýjun. Bloom rýkur af stað til að athuga með það.

Augnabliki síðar tekur Bloom upp vasaklútinn og finnur lykt af sítrónusápunni sem hann keypti fyrir Molly – rifjar upp spurningu Mörthu um hvaða ilmvatn kona hans notar – íhugar í örskotsstund að gera sér upp afsökun fyrir að líta við heima, þar sem Molly bíður Boylans, en hættir jafn harðan við.

Hjá Hómer ferðast Ódysseifur og félagar um langa leið – fram og til baka. Það fer hins vegar enginn mjög langt í Joyce því enda þótt litlu megi muna að Bloom fari til Ballsbridge (sem er dálítið ferðalag) til þess að semja við Alexander Keyes hjá House of Keyes þá ákveður hann á síðustu stundu að hringja og kemst að því að því að Keyes er staddur handan við hornið á uppboðshúsi. Hann rýkur þangað en við erum skilin eftir á skrifstofunni á meðan. Hinir horfa á eftir honum út um gluggann þar sem strákastóð gerir gys að honum og hermir eftir göngulaginu.

– Lítið bara á strákskrípið þarna sem æpir og skrækir fyrir aftan hann, sagði Lenehan, og þér fáið hláturskrampa. Æ hamingjan sanna, hermir meiraðsegja eftir ilsignu göngulaginu og öllu heila klabbinu. Sá kann loddarabrögðin.

Á skrifstofunum er einsog áður segir stöðugur umgangur. Simon Dedalus er þarna en fer fljótlega á barinn. Lenehan – fremur vonlaus týpa sem er í aðalhlutverki í Two Gallants úr Dubliners – reynir að segja orðagrín en gengur illa að koma því til skila og svo reynist það ekkert mjög fyndið. Hynes er að skila af sér greininni um jarðarför Paddys Dignam. Ritstjórinn, Myles Crawford (sem á eftir að þurfa að staðfesta auglýsingasölu Blooms) er þarna, sem og lögfræðingurinn J. J. O’Molloy. Og fleiri og fleiri. Það er rifist um Írland og Róm („Salerna- og holræsasmiðir verða aldrei andlegir feður okkar“) og Grikkland og Egyptaland og Ísrael – og allt má lesa sem komment um Írland og Bretland – og mikið gaman hent að ræðunni hans Dans Dawson sem var nefnd í Hadesarkaflanum. Ætli þetta sé ekki það óþolandi stílbragð sem Þórbergur kallaði „uppskafningu“? Eða var það eitthvað sértækara – í öllu falli mætti það alveg heita uppskafning mín vegna:

Eða virðið aftur fyrir ykkur bugður niðandi lækjarsprænu þarsem hún hjalar álengdar, þótt hún deili við grýtta þvergirðinga, á leið sinni til hinna úfnu vatna í bláu ríki Pósídons, hlykkjast milli mosavaxinna bakka, kæld af mildum andvara, og er lýst upp af dýrlegu sólskini eða líður undir skugga sem varpað er yfir djúphugulan barm hennar hvelfdu laufskrúði skógarrisanna.

Fleiri textar eru ræddir – meðal annars blaðagreinar eftir mann sem heitir Ignatius Gallaher (úr Little Cloud í Dubliners) sem menn eru afar ánægðir með og A.E. (þeósófistann sem hét réttu nafni George William Russell), sem hefur nefnt Stephen í einhverju viðtali, J. J. O’Molloy vitnar í Seymour Bushe („einhver hnökralausasta málsgrein sem ég held ég hafi nokkurn tímann hlustað á“) og Stephen kemst við og roðnar („þareð blóð hans heillaðist af þokka máls og látbragðs“) og MacHugh vitnar í John F. Taylor, texta sem fær Stephen til að velta því fyrir sér í augnablik hvort hann ætti að gerast blaðamaður – en hafnar því svo. Man þá að hann á pening (hann fékk útborgað hjá hr. Deasy í Nestorkaflanum) og spyr hvort það sé ekki ástæða til þess að færa fundarhöldin út á næsta pöbb. Þeirri uppástungu er tekið með afbrigðum vel.

Stephen segir síðan undarlega dæmisögu um tvær írskar vestumeyjar sem klifra upp í Nelsonsúluna og éta þar plómur og skyrpa steinunum yfir grindverkið. Aðspurður segist hann kalla dæmisöguna „Palestína séð frá Pisgah eða Dæmisagan um plómurnar“. Söguna má sennilega túlka í ljósi textabrotsins eftir Taylor þar sem Írum var líkt við Ísraelsmenn sem neituðu að gangast undir stjórn Egypta. Nelson, sem stendur á súlunni, er breski flotaforinginn Horatio Nelson. Þessi mikilfenglega og risastóra súla var mjög umdeild meðal Íra og var á endanum sprengd af IRA árið 1966 – og ákveðið að gera enga tilraun til þess að laga hana eða endurreisa.

– En dömur mínar og herrar, hefði Móse hinn ungi lagt eyrun við og fallist á þessa lífssýn, hefði hann beygt höfuð sitt og beygt vilja sinn og beygt anda sinn fyrir þessari drambsömu áminningu, þá hefði hann aldrei leitt útvalda þjóð sína burt úr húsi ánauðarinnar né fylgt skýstólpanum á daginn. Hann hefði aldrei talað við hinn Eilífa meðal eldinga á Sínaífjalli né nokkurntíma komið niður með birtu innblásturs geislandi af ásjónu sinni og töflur lögmálsins í fangi sér, meitlaðar á tungu útlagans.

Því má svo halda til haga að þótt Joyce sé í þessum kafla frekar hallur undir sjálfstæðisbaráttu Íra þá gerir hann mjög hressilega upp sakirnar við þjóðrembuna sem henni fylgir síðar í bókinni.

Á leiðinni út rekast félagarnir á Bloom sem er að koma aftur af fundi sínum með Keyes. Bloom segir Crawford að Keyes sé til í tveggja mánaða endurnýjun á auglýsingunni og hvort það sé nóg – en Crawford segir honum að Keyes megi sleikja á sér rassinn. Bloom fattar að Crawford er að fara á barinn og það verði kannski ekki auðvelt að hindra þá för til þess að klára auglýsingasöluna.

Allir á leið í sollinn. Leiða hver annan. Lenehan með siglingakaskeitið þarna fyrir handan að sníkja. Alltaf sama smjaðrið. Ætli Dedalusdrengurinn eigi upptökin að þessu. […] Hirðulaus piltungur.

Bloom býðst til að halda áfram að vinna í auglýsingunni en Crawford endurtekur bara skilaboðin um rassinn á sér.

Ætli blaðamannatýpurnar á leiðinni á barinn séu þá ekki skipverjarnir að opna pokann og Bloom Ódysseifur sem tekst ekki að komast á áfangastað, sem að þessu sinni var að selja þessa auglýsingu. Og hvað var auglýsingin? Tveir lyklar í kross innan í hring: merki fyrir sjálfstætt Írland. Og drykkjuskapurinn í kjaftöskunum var mótvindurinn í pokanum – ég held það sé alveg ljóst að þótt Joyce hafi sjálfur verið frekar góðglaður maður leit hann á áfengisbölið sem mikinn dragbít á Írum. En lyklarnir eru líka lyklarnir sem Dedalus og Bloom vantar – þeir eru báðir bókstaflega lyklalausir og metafórískt heimilislausir menn, annar landlaus gyðingur sem er hafnað af þjóð sinni Írum (og sennilega gyðingum líka), hinn skáld á leiðinni að yfirgefa þjóð sína, halda út í heim – og heimastjórn einsog áður segir eitthvað fleira fyrir kokkálnum Bloom en bara sjálfstjórn þjóðarinnar. Eða fyrir Stephen, sem býr með hinum yfirgangssama Mulligan og er með hinn yfirlátssama Haines sem gest. Dedalus og Bloom eru heimastjórnarlausir menn í fleiri skilningi en einum (eða tveimur).

* * *

Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar. 

Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.

* * *

Yfirferðin 2025:

Ulysses: Lestrardagbók, 1. hluti (Telemakkos, Nestor og Próteus á hundavaði – verður gert betur síðar).

Ulysses: Kalypsó

Lótusæturnar

Hades: Undirheimarnir

Eldri bloggfærslur um Ulysses:

Gerty MacDowell, Silvía Nótt og list paródíunnar

Hið samhengislega líf

Torlestur

Völundarhús Rorschachs

Að feðra föður sinn

Svartsýni og blinda

Þreytan er raunveruleg

Þreytan er raunveruleg og þreytan er djúp. Síðasta vika var rosaleg.

Aino kom heim á miðvikudag. Hún hafði verið á sundm´óti í Ungverjalandi og orðið 12 ára í ferðinni. Á pálmasunnudag. Fyrsta mál á dagskrá var að fagna því með pompi og prakt. Út að borða og svo morgunmatur og gjafir að morgni skírdags.

Sama dag lék Aram á tónleikum við setningu Skíðavikunnar. Fyrst sem trommari Lúðrasveitar tónlistarskólans og síðan sem trommari og söngvari í bílskúrsbandinu Ulla (ekki nefnd eftir sænskum konum, heldur sögninni – sem mér skilst að sé bara til á íslensku). Þau eru botnlausir snillingar, með skemmtilegra fólkið og hafa leikið nokkrum sinnum áður koverlög en voru nú í fyrsta sinn með eitt frumsamið á prógraminu. Og stóðu sig ótrúlega vel – þótt það hafi verið afar kalt í veðri (sem kallaði á stillingarvesen) og hljóðkerfið hafi verið með ákveðin leiðindi. Og sérstaklega var frumsamda lagið gott.

Á skírdag var generalprufa hjá Gosa. Vinkona Arams kom líka í heimsókn að sunnan og við fengum af því tilefni unglingastóð í kvöldmat. Já og samdægurs birtust vinir mínir Jóel og Michael (sem ég var reyndar að kynnast þar) óvænt í kaffi.

Á föstudaginn langa byrjaði Aldrei fór ég suður. Þar naut ég þeirra forréttinda að fá að spila á bassa með Gosa og gosalýðnum – sem var óvenju stór í þetta skiptið, auk okkar Andra og Baldurs voru Ásta Kristín á víólu og röddum, Sara Hrund á lykla og röddum, Valgeir Venna á slagverk og Marta í röddum. Við lékum sjö lög, mest af væntanlegri plötu, Á floti, sem kemur á vínyl og stafrænu í maí (það verða rosalegir útgáfutónleikar, sennilega í júní). Og stóðum okkur bara mjög vel, þótt ég segi sjálfur frá. Ég var frekar rólegur á sviðinu eftir að hafa fengið hálfgert spennufall á sándtestinu um daginn – í tveggja hljóma byrjunarlaginu varð hugurinn á mér svo heiður að ég mundi aldrei hvaða hljómur átti að koma næsta (sem var þá alltaf bara hljómurinn sem ég var ekki að spila, hinn hljómurinn í laginu). Og eftir sándtestið fór ég heim, lagðist í rúmið dauðuppgefinn – klukkan 15 um daginn – og steinsvaf í 90 mínútur. En var þá bara búinn með stressið um kvöldið, sem var ágætt.

Um kvöldið buðu himinhvolfin upp á stærstu og fallegustu norðurljós sem ég hef séð síðan 1994.

Á laugardeginum byrjaði ég á því að drífa mig upp í netagerð að þeyta skífum fyrir Skúla frænda minn mennska sem var þar með plötumarkað. Svo f´ór ég að róta trommusetti með Aram – sem var aftur að spila með lúðrasveitinni en nú á Dokkunni. Þaðan lá leiðin upp í Oddfellowhús þar sem við Ingi Björn söxuðum grænmeti af miklum móð, til þess að preppa fyrir hádegisverð á poppstefnu AFÉS daginn eftir. Svo beint á lúðrasveitartónleika og að róta settinu aftur til baka með trommuprinsinum.

Um kvöldið las ég ljóð með hljómsveitinni Reykjavík! Við erum vinir frá því á menntaskólaárunum og gerðum þetta oft í gamladaga, bæði þannig að þeir komu á ljóðahátíð með mér og drógu mig á svið á tónleikum hjá sér. Ég skrifaði líka „liner notes“ fyrir allar plöturnar þeirra. Ég átti meira að segja að gera þetta á Aldrei 2005 eða 2006 en gleymdi mér eitthvað og var bara á Langa Manga (hellaður) þegar ég var kallaður á svið – og varð auðvitað ekkert úr neinu. Það var því sérstaklega ánægjulegt að fá loksins að bæta upp fyrir það lúðalega klúður. Og alveg burtséð frá minni eigin þátttöku í gigginu var brjálæðislega gaman að sjá hljómsveitina aftur – sem ég hef líklega síðast séð spila á Norræna bókasafninu í Helsinki 2007 (Aino finnst mjög fyndið að Reykjavík! hafi spilað á bókasafni, og það er rétt, það er mjög fyndin tilhugsun).

Eftir ofsalegt lokaatriði kvöldsins – FM Belfast – fór ég heim að klára krossgátuna mína á meðan Nadja fór út á lífið. Ég er í seinni tíð undir áhrifum einhverrar bölvunar sem veldur því að ég sofna aldrei fyrren hún kemur heim – bara einhver algerlega óþörf óró (Nadja er ekki týpan sem fer sér að voða). Og af því ég er miðaldra karl vakna ég samt klukkan sjö. Ég sem sagt svaf alveg fáránlega lítið.

Það var samt meira að gera á sunnudaginn. Það byrjaði á því að við Ingi og Geiri kláruðum að gera matinn. Svo var poppstefna þar sem við Kristján Freyr – hinn ótrúlega ötuli rokkstjóri – reyndum að hafa smá fororð og stýra samræðum við tónlistarmennina. Ég gekk út frá pistli sem ég flutti fyrir mörgum árum en tókst ekki að finna – reyndi bara að muna pælingarnar. Eftir matinn fórum við Smári Karls svo með hersinguna í sögugöngu um Ísafjörð – ég sagði frá árinu 1925 (sem er árið sem Náttúrulögmálin gerast) en Smári tók að sér að fjalla um „gasasvæðið“, sem er staðurinn á milli Krúsarinnar og Sjallans þar sem Jet Black Joe voru gasaðir á sínum tíma.

Eftir göngu var farið í siglingu. Í svona klukkustund húktum við úti á þilfari úti á miðju djúpi og horfðum á hnúfubaka skemmta okkur. Og fallegustu raddir landsins sungu saman lagið um hann Jörund hundadagakonung. Í blíðskaparveðri. Um þetta væri áreiðanlega hægt að kveða mörg falleg ljóð og sannarlega var ég hrærður en þetta er þess konar fegurð sem þarf aðra fagurfræði til að miðla en þá sem ég kann – ég verð bara vandræðalegur þegar ég byrja að tvinna saman nógu mikið af lýsingarorðum til að ná utan um þetta. En þetta verður í minnum haft og maður verður áreiðanlega alltaf svolítið mjúkur inni í sér af tilefninu.

Næst var áð við Vébjarnarnúp til að dást að fjallinu. Svo var sangría á Verbúðinni í Bolungarvík og Pálmi Gests hélt tölu um bæinn og sýndi svo fólki húsið sitt. Fordrykkur var drukkinn á Skarfaskeri – í blíðskaparveðri, það var alltaf blíðskaparveður, lognið sinnti sínu lögheimili alla helgina. Og kvöldmatur og partí í Félagsheimilinu í Hnífsdal. Þar var mikið sungið og dansað og meira að segja samin lög og stofnaðar hljómsveitir og einsog það hafi ekki verið nóg var farið á Pallaball í Edinborgarhúsinu og ég leit meira að segja við í eftirpartí með eftirlætis tónlistargagnrýnandanum mínum.

Einsog gefur að skilja gerði ég ekki margt annan í páskum. En nú, á þeim þriðja, er ég allur að skríða saman. Næstu páska verð ég áreiðanlega orðinn svo gott sem nýr.

Aldrei

Það eru komnir páskar. Skírdagur. Þá er hefð fyrir því að láta mannkynsfrelsarana skrúbba á manni fæturna áður en maður svíkur þá í hendur auðvaldinu.

Ætli Jesús sé ekki annars með betri týpum? Svona ef maður ætlar að fara að leyfa sér að gera upp á milli góða fólksins þá held ég að ég kunni best við hann. Sennilega mest vegna þess að hann útdeildi dómhörku sinni fyrst og fremst til valdsmanna en bað almúgann að vera ekki að gr´ýta steinum innbyrðis – nema að vera handvissir um eigið syndleysi, sagði hann, sem er trikk question því það er enginn syndlaus og sá sem heldur að hann sé það er augljóslega fyrst og fremst sósíópati. En líka af því hann átti sjálfur misgóða daga. Hreytti jafnvel ónotum í fólk. Honum til afsökunar þá átti hann mjög erfiðan föður. En fyrst og fremst þetta með fyrirgefninguna. Við lifum á tímum þar sem valdið á mjög auðvelt með að etja smælingjunum saman og telja þeim trú um að hagsmunir þeirra séu ósamræmanlegir – incels séu frá mars en wokesters frá venus. Allir eru syndlausir og allir grýta steinum og allir eru sannfærðir um að ef þeir hættu að grýta steinum muni siðmenningin „einsog við þekkjum hana“ líða undir lok – síðasta vígið sé grjótkast smælingja. Þar sem ég sit og skrifa þetta á ég meira að segja bágt með að trúa því ekki sjálfur. Bágt með að rifja það upp að málsvörum incel/white trash/íhaldsins á valdastólum er drullusama um skjólstæðinga sína. Að þetta snýst ekki um að stoppa fjölbreytileikann. Snýst ekki um „the woke mind virus“. Snýst ekki einu sinni um frjálslyndið. Þetta snýst um peninga og völd. Óreiðan er bara verkfæri til þess að sölsa undir sig peninga og völd. Ef það borgaði sig að styðja transfólk og málfrelsi og jafnrétti til náms myndu þeir allir snúa við á punktinum. En það borgar sig fyrir þá að kynda bálið og því skíðlogar.

Annars er orðið langt síðan ég las guðspjöllin í gegn. Styttra síðan ég sá Jesus Christ Superstar. Eða las Passíusálmana (og eru þó sjálfsagt að verða 20 ár síðan ég gerði það). Ég held að þar sé ekkert um syndlaust fólk og grjótkast. Jesús veltir þar borðum víxlaranna – en ekki man ég til þess að sá Jesus hafi velt við „stólum dúfnasalanna“. Kannski eru dúfnasalar ekki lengur jafn umdeildir.

Ég ætti að rifja þetta allt upp í tilefni af páskum. Það verður þó kannski ekki mikið af því – ég er að spila með Gosa á Aldrei fór ég suður annað kvöld og svo er bara lífið svo sósíalt á páskum á Ísafirði. Enginn tími fyrir guðdóminn eða fyrirgefninguna. Bara tími fyrir stuð.

Þorvaldur um Fimm ljóð

Þorvaldur S. Helgason skrifar um Fimm ljóð fyrir Bókmenntavef Borgarbókasafnsins:

Fimm ljóð er óvenjuleg bók í höfundarverki Eiríks Arnar Norðdahl, ívið átakaminni og ópólitískari en fyrri ljóðabækur höfundar en þeim mun hófstilltari, fagurfræðilegri og kjarnyrtari. Þeim sem hrifust af Óratorreki og koma með þær væntingar til verksins gæti þótt Fimm ljóð daufleg við fyrstu sýn. En eitt af því sem síðari bókin hefur umfram þá fyrri er að hún ber meira traust til lesenda sinna. Með því að forðast fyrirframgefna merkingu gefur höfundur lesendum rými til að nálgast verkið á eigin forsendum og túlka ljóðin eftir eigin höfði. Fimm ljóð er bók sem stækkar með hverjum lestri og ljóðin fimm sem við fyrstu sýn virðast hversdagsleg eru þegar nánar er að gáð bæði margræð og útpæld.

Meira hér.