
Ódysseifur er nýkominn úr heimi hinna dauðu en Stephen Dedalus var að koma af kránni. Við skildum við hann í 7. þætti, Eólusi, þar sem hann arkaði út af ritstjórnarskrifstofum The Freeman’s Journal, með hálfri ritstjórninni. Hann er búinn að drekka þrjá stóra bjóra – er ölhreifur en þyrstir í meira, þótt ýmislegt bendi til þess að hann vilji helst ekki að það sjáist á sér hvað hann er drukkinn. Á meðan Ódysseifur sest niður með gyðjunni Kirku sem ræður henni heilt er Stephen kominn í Safnahús Dyflinnar, nánar tiltekið á skrifstofu bókavarðar í bókasafnsbyggingunni (The National Museum og The National Library eru tvö aðskilin hús sem deila garði). Ódysseifur hlustar en Stephen heldur miklar ræður og rökræðir grimmt.
Einsog við munum lauk síðasta kafla á því að Leopold Bloom skaut sér inn á bókasafnið, eftir að hafa rekið augun í Blazes Boylan fyrir utan, þar sem hann á það erindi að finna auglýsingu fyrir vínsalann Keyes í gömlu dagblaði. Klukkan er 14 og það eru tveir tímar í að Blazes eigi stefnumót við konu Blooms, Molly. Við sjáum hins vegar lítið til Bloom í þessum kafla þótt hann sé á bókasafninu og skjóti tvisvar upp kollinum – fyrst birtist hann í bakgrunni rökræðanna sem einhver maður sem er að spyrja um tölublað af The Kilkenny People, og svo í lokin.
Kirka varar Ódysseif við þeim hættum sem muni verða á leið hans. Meðal þeirra er siglingin milli Skyllu og Karybdísar. Skylla er skrímsli með „ekki færri en tólf ólögulegar lappir og sex afarlanga hálsa, en á hverjum hálsi er ógurlegur haus, og í margar og þéttar tennur þrísettar, fullar dimmum dauða.“ Framhjá henni verður ekki siglt án þess að hún hirði a.m.k. eitt mannslíf per haus (þ.e. sex). Karybdís er annað eins skrímsli nema hún „sogar í sig sæinn“ og „jafnvel Jarðarskelfir mundi þá ekki fá forðað þér við fjörtjóni.“ Mælir Kirka heldur með því að Ódysseifur sigli hjá Skyllu „því miklu er betra, að missa einna sex manna af skipi sínu, en allra saman.“ Þiggur hann þau ráð en segir ekki mönnum sínum að sex þeirra muni þá farast „svo félagar mínir skyldu ei æðrast, hætta róðri og hneppa sig niður í skip.“
Bókasafnið mun vel að merkja hafa verið dálítið átakarými Dyflinni – þar réðu engil-írskir mótmælendur ríkjum en þar var líka hjarta írsk-kaþólskrar bókmenningar. Ævintýri Stephens á bókasafninu eru ævintýri gáfumannsins – rökræður. Skylla er (m.a.) hin aristótelíska staðreyndahyggja en Karybdís er (m.a.) fulltrúi platónsks ídealisma. Og má halda því fram að Stephen sé fremur fulltrúi Skyllu hérna en Ódysseifs, og ódysseifska hetjan hérna sé einfaldlega sannleikurinn, sem megi velja milli þess að komast laskaður til skila eða alls ekki (og ef hann er bundinn í karakter, þá væri það líklega Bloom, sem kemur lítið fyrir – en siglir milli skers og báru í restina). En svo er þetta sérstaklega vandasamur kafli þegar kemur að því að púsla því saman hver sé hver, ef ekki varasamur og vafasamur líka, því ræða Stephens botnar í þeim ómögulegu möguleikum öllum saman.
Textinn er líka í stóru hlutverki þótt enn sé Joyce ekki búinn að sprengja skáldsöguna í tætlur – sem hann gerir síðar. Fyrir utan að vera bæði þriðju persónu þátíðar frásögn og fyrstu persónu nútíðar hugsanir – einsog hefur mestmegnis verið modus operandi hingað til í bókinni – þá er hann bæði prósi og ljóð, bæði bundin og frjáls, á einum stað verður hann leiktexti og á öðrum söngtexti með nótum og hann er svo stappfullur af tilvitnunum (réttum og röngum) og vísunum í önnur bókmenntaverk – aðallega Shakespeare en líka samtímamenn Shakespeares, ýmsa heimspekinga og skáld, að ótöldum skrifum Joyce sjálfs – að í Ulysses: Annotated er yfirferðin 66 síður og athugasemdirnar ríflega tólfhundruð. Kaflinn sjálfur er bara 29 síður.
En við skulum ekki drolla heldur drífa okkur inn á bókasafnið. Stephen hefur notað lesendabréfið frá hr. Deasy – sem hann fór með á The Freeman’s Journal – sem til þess að komast inn í þennan selskap, undir því yfirskini að hann sé að hugsa um að fá það birt í The Irish Homestead (sem hann var ekki beðinn að gera og hann afhendir aldrei bréfið – hann er sennilega ekki einu sinni með afrit, enda kom hann því til skila á Freeman’s Journal). Með honum á skrifstofunni eru skáldið A.E. (George Russel, sem vann á The Irish Homestead), bókavörðurinn Richard Best, aðstoðarbókavörðurinn Thomas William Lyster, bókmenntagagnrýnandinn John Eglinton og svo birtist Buck Mulligan um miðjan kafla. Að Stephen og Buck undanskildum er þetta allt raunverulegt fólk. Eftir því sem ég kemst næst eru allir hérna engil-írskir og mótmælendatrúar að uppruna nema Stephen – sem er vantrúa/hálftrúa/ringlaður kaþólikki – og Bloom sem er gyðingur að uppruna en skírður til mótmælendatrúar.
Þegar kaflinn hefst eru þeir að ræða Wilhelm Meister eftir Goethe og þá sérstaklega þann hluta þeirrar bókar sem fjallar um Hamlet. Ég hef ekki lesið Wilhelm Meister en hef eftir „Giffordinum“ – Ulysses: Annotated, sem er stór og mikil biblía um vísanirnar í Ulysses, eftir Don nokkurn Gifford, en þá bók hef ég nýverið eignast – að í þeim allstóra hluta (frá 13. kafla í fjórðu bók að 12. kafla í fimmtu bók) þýði Wilhelm og endurskapi Hamlet og taki svo þátt í sviðsetningu þeirrar útgáfu. Þá segir Gifford að Lyster (sem hefur máls á þessu) og félagar hafi almennt litið svo á að þessi hluti Wilhelms Meister sé mestmegnis „lítt duldar persónulegar athugasemdir og viðbrögð Goethes við Hamlet.“
A great poet on a great brother poet. A hesitating soul taking arms against a sea of troubles, torn by conflicting doubts, as one sees in real life.
Og augnabliki síðar:
One always feels that Goethe’s judgments are so true. True in the large analysis.
Að þessu hæðist Stephen – finnst þetta of augljós sannindi til að hafa á þeim orð.
Einsog áður segir eru átökin í þessum rökræðum helst á milli Platónista, sem telja að listin eigi að vera hrein upplifun – með orðum A.E.:
Art has to reveal to us ideas, formless spiritual essences. The supreme question about a work of art is out of how deep a life does it spring. The painting of Gustave Moreau is the painting of ideas. The deepest poetry of Shelley, the words of Hamlet bring our minds into contact with the eternal wisdom, Plato’s world of ideas. All the rest is the speculation of schoolboys for schoolboys.
Og Aristótelista sem sjá í listinni beinni tengingu við raunveruleikann, hún sé umorðun á tiltekinni mannlegri reynslu sem megi para við tiltekið fólk, annað hvort listamennina sjálfa eða fólkið sem þeir eiga samneyti við. Stephen tekur sér stöðu með hinu aristótelíska viðhorfi – en það er alls ekki víst að hann aðhyllist það af öllu hjarta.
Best nefnir að Haines – enski fræðimaðurinn sem gistir hjá Stephen og Buck í Martello turni, sá sem er svo æstur í írska menningu – hafi skotist í bókabúð til þess að kaupa bók.
I was showing him Jubainville’s book. He’s quite enthusiastic, don’t you know, about Hyde’s Lovesongs of Connacht. I couldn’t bring him in to hear the discussion. He’s gone to Gill’s to buy it.
Flestir virðast ganga út frá því að Haines hafi farið til að kaupa ljóðabókina Lovesongs of Connacht – sem eru enskar þýðingar Douglas Hyde (sem síðar varð fyrsti forseti Íra) úr írskum kvæðum. Ég las þetta hins vegar þannig að það væri eitthvað í bók Jubainville’s – Best þýddi sjálfur frægustu bók hans, sem fjallaði um írskar goðsagnir – sem varpaði ljósi á yrkisefnin í Lovesongs of Connacht (sem Haines hefur dálæti á og hlýtur að eiga) og hann hafi farið til þess að útvega sér hana – og mér hefur ekki alveg tekist að hafa sjálfan mig ofan af þeirri sannfæringu þótt ég sjái líka hinn möguleikann. Jubainville var vel að merkja helsti fræðimaður Frakka um írska menningu. Þannig er enskur fræðimaður með vandræðalegt írlandsblæti kannski að fara af bókasafni í bókabúð til þess að kaupa sér bók eftir franskan fræðimann til þess að skilja ljóð sem hafa verið þýdd úr gelísku. Í ofanálag er það þá þýðandi bókarinnar sem hefur sent hann út í búð. Þetta finnst mér mjög Joyceísk flækja. Haines fæst ekki til þess að koma á fundinn og missir þar af leiðandi af einhverju sem við gætum kallað „lifandi írska menningu“: umræðum írskra menntamanna um enska skáldið Shakespeare.
En Haines getur ekkert rétt gert á Írlandi, frekar en aðrir Englendingar.
Stephen fer að ræða Hamlet og þá kenningu sem Buck Mulligan umorðaði svo í fyrsta þætti:
It’s quite simple. He proves by algebra that Hamlet’s grandson is Shakespeare’s grandfather and that he himself is the ghost of his own father.
Mulligan var auðvitað að gera gys að Stephen, sem hann gerir svo gjarnan að maður fer á endanum að fyrirgefa Stephen fyrir að vera dálítið húmorslaus. En kenningin er líka skrítin þótt Stephen flytji hana af miklum þrótti. Í grunninn gengur hún út á að hafna þeirri afstöðu, sem mun hafa verið algeng, að í prinsinum Hamlet hafi Shakespeare endurskapað sjálfan sig og sína angist – eða í öllu falli benda á að nærtækara væri að sjá Shakespeare í föður Hamlets, kónginum og draugnum, sem mæli til sonar síns, Hamlets einsog William mæli með leikritinu til sonar síns, Hamnets (já, Shakespeare átti son sem hét Hamnet með n-i). Hamnet lést 11 ára gamall, 1596, fáeinum árum áður en Shakespeare skrifaði Hamlet.
Annar hluti kenningar Stephens gengur út á að í Hamlet sé fólgin ásökun á hendur Anne Hathaway, eiginkonu Shakespeares – sem var eldri, flekaði Shakespeare ung, en var svo skilin eftir blönk í Stratford á meðan Shakespeare lagði undir sig leikhúsheiminn – um að hún hafi haldið framhjá honum. Hann sé vofan, hún sé Geirþrúður og Hamnet sé Hamlet.
Þriðji hluti kenningarinnar gengur svo út á að framhjáhaldið hafi verið við bróður Williams, Richard (en nafn hans – og Edmunds – notar William oft á illmenni sín, en aldrei nafn þriðja bróður síns, Gilberts). Sem sé flón. Þessa ásökun getur Shakespeare augljóslega ekki flutt látnum syni sínum nema í gegnum listina (ekkert talar inn í eilífðina, þar sem dauðinn býr, nema listin).
Dáinn sonur, dáið foreldri og ótrú eiginkona – þetta eru mest áberandi stefin í allri bókinni. Móðir Stephens er nýlátin, Bloom missti son og á föður sem framdi sjálfsmorð, auk konu sem liggur og bíður ástarfundar við annan mann. Og þetta eru líka stefin sem tengja Ulysses, Ódysseifskviðu og Hamlet.
Þessar ræður Stephens eru nærri því hálfur kaflinn – og sækja þeir Stephen/Joyce víst mikið af upplýsingum sínum um líf Shakespeares til Georgs Brandesar. Og þegar Stephen er svo spurður að þeim loknum hvort hann leggi trúnað á þetta sjálfur svarar hann einfaldlega: „Nei.“ Hann er að skylmast, hann er að leika sér – en hann er líka að hugsa um heiminn sem slíkan og nota Shakespeare/Hamlet til þess. Og heimur Stephens er bókmenntir James Joyce.
En ýmislegt gerist líka þarna á meðan hann er að tala – aðallega í höfðinu á Stephen. Á einum tímapunkti fer hann til dæmis að íhuga það hvenær maður sé maður sjálfur og hvenær maður verði annar. Þetta gerist fyrst þegar hann man alltíeinu að hann skuldar A.E. pening en kemst að þeirri kímlegu niðurstöðu að kannski hafi það verið annar maður sem fékk þessa peninga lánaða – önnur mólekúl sem kölluðu sig líka Stephen Dedalus, en þau mólekúl sem hann sé núna skuldi þá engum neitt. Sú hugleiðing endar á fleygum orðum:
I, I and I. I.
Það er að segja égið sem komma í setningu, einfalt hik, eða sem punktur og nýtt upphaf. Ef það er komma skuldar hann kannski enn, ef það var punktur tilheyrir skuldin öðru sjálfi. Þetta rímar við hugleiðingu Blooms úr síðasta kafla þar sem hann rankar við sér upp úr blautlegri minningu um stefnumót þeirra Mollyar í Howth og hugsar:
Me. And me now.
Orð Blooms og Stephens ríma gjarnan svona – til dæmis er það Bloom sem fyrst vitnar í vofukónginn í Hamlet („ég er andi föður þíns“) í síðasta kafla, áður en Stephen gerir það í þessum kafla.
Enn fremur kemur Stephen inn á síbreytilegt eðli listamannsins í verkum sínum þegar Eglinton hefur sagt meira þurfa til að hann falli frá þeirri trú að Shakespeare sé Hamlet.
As we, or mother Dana*, weave and unweave our bodies, Stephen said, from day to day, their molecules shuttled to and fro, so does the artist weave and unweave his image. And as the mole on my right breast is where it was when I was born, though all my body has been woven of new stuff time after time, so through the ghost of the unquiet father the image of the unliving son looks forth. In the intense instant of imagination, when the mind, Shelley says, is a fading coal, that which I was is that which I am and that which in possibility I may come to be. So in the future, the sister of the past, I may see myself as I sit here now but by reflection from that which then I shall be.
* Dana er bókmenntatímarit og hef ekkert með dani – þjóð Hamlets – að gera. Þetta verður eðlilega pínu truflandi í íslensku þýðingunni – en annað áhugavert þar er að fæðingarblettinn þýðir SAM sem „móðurmerki“. Sem setur auðvitað hugann á heilmikið flug.
Á eftir Guði skapaði Shakespeare flesta – vitna þeir félagar líka í Alexandre Dumas. Og ef Shakespeare er þannig allt í senn „faðir“ (skapari) kóngsins og líka kóngurinn og líka Hamlet er hann orðinn afi sinn. Og erum við þá farin að nálgast útúrsnúning hins stríðna Bucks.
Í þessu öllu saman er Joyce auðvitað að bjóða okkur upp í dans, bjóða okkur að velta því fyrir okkur hvort hann sé Dedalus eða Bloom eða báðir; og hvort hann sé þeir á einhverjum tilteknum tíma, hvort Ulysses-Dedalus sé sami Dedalus og í Æskumynd listamannsins eða nýr Dedalus. Hvort hann sé „Dedalus, Dedalus“ eða „Dedalus. Dedalus“. Eða jafnvel „Dedalus. Bloom“ – eða einhver önnur samsetning úr þessum feðrum og sonum. Og það er ekki alveg tilviljun að augnabliki síðar hugsar Stephen líka: „He is in my father. I am in his son.“ Eða biblíuvísunin þegar Stephen hefur fyrirlestur sinn – og ímyndar sér Shakespeare sjálfan að leika vofuna (sem hann gæti hafa gert) þar sem hún ákallar son sinn („Ég er andi föður þíns):
To a son he speaks, the son of his soul, the prince, young Hamlet and to the son of his body, Hamnet Shakespeare, who has died in Stratford that his namesake may live for ever.
Því svo elskaði guð heiminn að hann gaf son sinn …
Í ofanálag verður maður svo að hafa í huga að Joyce er með augljósan sonarkomplex gagnvart Shakespeare – og kannski að írskar bókmenntir/írar hafi verið með sonarkomplex gagnvart enskum bókmenntum/englendingum sem gegna á þessum tíma eins konar föðurhlutverki í landinu. Og skildu líka erfðaefnið sitt hressilega eftir í landinu með tungumálinu – ef Írar hefðu ekki misst tungumálið hefði Shakespeare ekki verið jafn augljós forfaðir Joyce (og vegna þess að þeir misstu það fannst skjólstæðingi Joyce, Samuel Beckett, alveg jafn eðlilegt að skrifa á frönsku).
Þá er líka skemmtilegur díteill – í kafla sem fjallar svona mikið um samræmi milli manna, sjálfa og persóna í riti – að tvær af þeim sögulegu persónum sem birtast í kaflanum gegna öðru nafni í riti. George Russell skrifaði undir nafninu A.E. og John Eglinton hét réttu nafni William Magee. Þeir eru kallaðir þessum nöfnum til skiptis – en Russell þó oftar kallaður sínu rétta nafni en Eglinton sínu höfundarnafni.
Að síðustu þarf að hafa í huga að Stephen er jafn meðvitaður um að ræðan er performans og Joyce er meðvitaður um að kaflinn er performans – báðir eru að segja sögu (og báðir að segja sögu um listina að segja sögur). Stephen hugsar:
Local colour. Work in all you know. Make them accomplices.
Þegar hann er að segja þeim frá leikhúsinu í London – hann vill mála upp smáatriðin og gera þá þátttakendur í frásögninni. Sem er auðvitað nákvæmlega það sem Joyce gerir – með því að tala annars vegar til hjartans, um hluti sem skipta máli, og hins vegar til heilans og þarfar hans til þess að leika sér við mynstur. Og sviðsetja sig grimmt. Þannig gera þeir okkur samsek.
Kaflanum lýkur á því að Stephen og Buck fara út af bókasafninu. Stephen finnur fyrir einhverjum nálgast að baki sér. „My will: his will that fronts me. Seas between.“ (Will er í þessum kafla aldrei bara viljinn heldur líka Will Shakespeare). Maður stingur sér á milli þeirra Bucks og Stephens, hneigir sig og heilsar. „The wandering Jew“ hvíslar Buck að Stephen „með trúðslegri lotningu“ þegar hann sér hver þetta var (Bloom). „He looked upon you to lust after you.“ Og svo lýkur kaflanum með línum úr Cymbeline:
Laud we the gods
And let our crooked smokes climb to their nostrils
From our bless’d altars
Það er reyndar heilmikið enn órætt (ég hef ekkert rætt erfðamálin – næstbesta rúm Shakespeares, sem hann eftirlét Anne í erfðaskránni, og hvers vegna hún fékk ekki besta rúmið; eða að Buck birtist vegna þess að Stephen var að skrópa á stefnumót með honum á krá, þar sem hann hafði lofað að borga umgang; að Buck sá Bloom gægjast undir styttuna af Afródítu – einsog hann íhugaði að gera í síðasta kafla – og segir hann „grískari en allir grikkir“; eða ádeiluna á blóðsúthellingar). En heilinn í mér þolir ekki mikið meira í bili. Það bíður allt næsta lesturs.
Ég er búinn að fara yfir níu þætti og það eru níu þættir eftir af þessum þriðja endurlestri. Og segja má að bókin sé þar með hálfnuð. En næstu kaflar eru lengri og sumir þeirra talsvert brjálaðri – ég er á síðu 209 af 732.
* * *
Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar.
Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.
* * *
Yfirferðin 2025:
Ulysses: Lestrardagbók, 1. hluti
(Telemakkos, Nestor og Próteus á hundavaði – verður gert betur síðar).
* * *
Eldri bloggfærslur um Ulysses: