Hin framlengda sóttkví – Denomination Blues

Páskalaugardagur. Ég tek umræðuna á Íslandi nærri mér. Og stöðuna.

Ég hafði oft á orði síðasta vor að við þyrftum að gæta okkar – það væri mjög stutt í að við færum að líta á útlendinga (eða aðra hópa) sem skítuga smitbera, og dýrka hið hreina Ísland (eða hugmyndina um hið hreina Ísland). Það er ekki ný saga heldur gömul – og sama hvort það eru gyðingar eða sígaunar eða bara utanbæjarmenn. Akureyringar kunna að þvo sér um hendurnar og smita ekki en það gildir auðvitað ekki um Húsvíkinga sem skíta þar sem þeir éta og hósta í lófann áður en þeir heilsa fólki með handabandi.

Og svo er það auðvitað niðurstaðan – gerðist ekki á einni nóttu en við erum búin að tala okkur upp í það. Og satt að segja held ég að fólk óttist orðið meira að einhver af „hinum“ komi af stað smiti svo sundlaugarnar loki, frekar en að það óttist að einhver deyi – ástandið er farið að fæða sjálft sig, einn óttinn drífur annan. Þeir sem vilja komast í ræktina vilja að fólk fari ekki á barinn og þeir sem vilja fara á barinn vilja að fólk sleppi ræktinni. Og tortryggnin er alger. Næg til að yfirvöld læsi fólk inni svo það brjóti ekki lög.

Harðar aðgerðir, einsog þeir sem eru í framkvæmd núna með þessi sóttkvíarhótel – og mér þykir brjóta í bága við þau grundvallarmannréttindi að manni sé ekki refsað fyrir þá glæpi sem maður gæti framið heldur þá sem maður sannarlega hefur framið – gera auðvitað gagn. Það er ekki vandamálið. Hvort þær gera nógu mikið gagn – það er enn mikið af fólki að koma frá öruggum löndum og þess utan er möguleiki að komast í gegnum skimanir og sóttkví og smita samt, það eru áreiðanlega einstaklingar á undanþágu frá sóttkví (t.d. vegna annarra veikinda – eða börn ein á ferð) og þegar einn einasti er kominn inn getur hann hóstað á heilan fótboltavöll og sett samfélagið á hliðina – er svo önnur spurning. Og ef maður treystir ekki fólki til að fara sjálft í sóttkví hvers vegna treystir maður því þá fyrir að vera koma beint frá einhverju öruggu landi? Lögreglan gaf í skyn að hún léti fólk sýna sér myndir úr símanum til að sjá hvar það hefði verið. Sem er auðvitað líka snargalið.

Svo er aftur spurning hvaða kostnað hinar hörðu aðgerðir hafa í för með sér umfram það gagn sem þær gera.

Óttinn er hungruð skepna og hún verður aldrei mett svo vel sé. Það er ábyrgðarhluti að leyfa henni að leiða samfélagið.

En sem sagt.

Þegar ég var að hugsa þetta síðasta vor hafði ég ekki alveg gert mér grein fyrir því að þetta gæti náð til mín, svona prívat og persónulega. Samt var löngu ákveðið að við tækjum ár í Svíþjóð. Ég hafði bara ekki hugsað út í það.

Ég var og er hlynntur sóttkvíarreglum og hefði ekki talið eftir mér að sitja tvær vikur í sóttkví – hef tekið það upp stoltur í samræðum að á Íslandi sé bara fimm daga sóttkví og fólk testað tvisvar. Hið fullkomna fyrirkomulag í erfiðum aðstæðum.

En ég vona að ég muni ekki láta það yfir mig ganga að vera læstur inni fyrir að geta hugsanlega orðið sekur um glæp. Það er undarleg tilfinning því raunmunurinn er auðvitað ekkert ofsalegur – ég hafði séð fyrir mér að leigja sumarbústað og hanga þar. Og hugsanlega jafnvel fara á hótel – sérstaklega ef ég þyrfti einn í sóttkví. Nadja er bólusett og ég veit ekki hvort hún eða börnin þurfa að fara í sóttkví. Ég veit ekki hvað það þýðir fyrir okkur, sem þó munum ferðast saman ef þess er nokkur kostur. Eða hvað það muni þýða. Ég hef hins vegar ekki nema takmarkaða trú á því að reglur verði rýmkaðar eða hysterían minnka á næstu mánuðum – mér finnst þvert á móti að nú þegar loksins birtir til sé fólk farið að æsa sig upp sem aldrei fyrr, og krefjist harðari og harðari aðgerða. Það hafa aldrei verið jafn strangar reglur á Íslandi og núna. Sem meikar bara ekkert sens.

En ég sem sagt tel það ekki eftir mér að sitja á gluggalausu hótelherbergi í fimm daga sjálfur – ég er mjög góður í þannig hangsi og hef litla þörf fyrir útivist. Been there, done that. En það þyrfti sennilega eitthvað meira til þess að ég legði það á börnin mín. Hins vegar geri ég það ekki undir neinum kringumstæðum ef ég fæ ekki að gera það sjálfviljugur. Ef það er ekki glæpur að ferðast er óásættanlegt að fólki sé refsað fyrir það. Það er bara ekki flóknara en það.

Þórólfur segir í viðtali að „ekki komi til greina að breyta þessu fyrirkomulagi“ – og í sjálfu sér áhugavert að hann talar einsog hann ráði þessu sjálfur, frekar en að hann sé ráðgjafi stjórnvalda sem þurfa þess utan að halda stjórnarskrá og alþjóðasáttmála, sem er alls ekkert víst að bakki upp svona aðgerðir.

En ef í ljós kemur að fyrirkomulagið er löglegt og því verður ekki breytt finnst mér líklegra en ekki að ég reyna að finna út úr því hvort ég geti ekki verið áfram í Svíþjóð a.m.k. þar til íslenska ríkið fer aftur að virða lágmarks mannréttindi. Svíar hafa verið kolgeggjaðir í sínum covid-viðbrögðum – en þeir eru kannski búnir að taka út mestu klikkunina. Það hlýtur líka að koma að því þessu neyðarástandi verði aflýst á Íslandi – ef það er ekki komið með haustinu þá næsta vetur. En ég lít sennilega svo á að hið klosslokaða Ísland sem fólk kallar eftir sé þá klosslokað fyrir mér líka. Ég hef engan áhuga á neinum undanþágum í því.

Mér finnst þetta bölvanleg tilhugsun – ég hef verið með mikla heimþrá alveg síðan við komum. Ég er mjög heimakær maður, sakna vina minna og fjölskyldu og er elskur að dótinu mínu sem varð eftir.  En kannski maður hugsi þá bara um Svíþjóðardvölina sem framlengda sóttkví – og líti svo á að það sé bara alls ekki eðlilegt að maður ferðist á milli landa, jafnt þótt maður eigi rætur og heimili annars staðar. Sennilega telja flestir sem sitja í sóttkvíarfangelsinu í Þórunnartúni að þeir hafi ekki minna réttmætar ástæður til þess að ferðast á milli landa en ég.

***

Ég er hjá tengdafólki mínu í Rejmyre en plötusafnið á Ísafirði, svo það verður ekki eiginleg plata vikunnar. Hins vegar er hérna lag sem var gefið út á 78 snúninga hljómplötu árið 1927 (sem ég á ekki í mínu safni). Lagið er hálft á hvorri hlið enda tæplega sex mínútur og bara pláss fyrir þrjár á hverri hlið. Það er Washington Philips sem leikur á einhvers konar sítar og syngur – gospel-blúsinn Denomination Blues. Þetta er töfrandi sánd – og nístandi krítík á kirkjuna.

Gamla Stan og Memphis Minnie

Auk þess að vera á þremur samfélagsmiðlum og skrifa blogg held ég fýsíska dagbók. Svo er ég auðvitað með nokkrar bækur í smíðum á hverjum gefnum tíma – svo ég geti gripið í þá sem ég er best stemmdur fyrir. Stundum líður mér í þessum skrifofsa öllum saman einsog manni sem hrapar til jarðar og baðar út öngunum í von um að fljúga. Baðar út öngunum á sex-sjö vígstöðvum samtímis. Með því á ég ekki við að mér finnist ég ekki kunna að skrifa – mér finnst ég satt að segja kunna fátt annað – en það er ekki víst það geri mikið gagn þegar maður er í frjálsu falli. En stundum flýgur maður samt. Og ekki hef ég skollið á jörðinni enn.

En það var ekki það sem ég ætlaði að segja. Yfirleitt skrifa ég mjög stutt í fýsísku dagbókina – á löngu tímabili voru þetta bara hraðritaðir listar yfir það sem ég ætlaði að gera, óskiljanlegar glósur og alls kyns hrat, innkaupalistar, þyngdartölur, hlaupnir kílómetrar, hvað var í matinn o.s.frv. Eitthvað til að markera tímann og tilvist mína. Á enn lengri tímabilum hef ég enga dagbók haldið.

Fyrir fáeinum vikum síðan tók ég mig taki og ákvað að sýna dagbókinni meiri virðingu. Að skrifa til dæmis þannig að ég skilji það sjálfur viku síðar. Rithöndin mín getur orðið alveg hrikaleg og þegar ég hraðrita fyrir sjálfan mig skrifa ég alltaf „færri og færri orð“ – því hver hefur nokkuð við persónufornöfn að gera? Hvað þá sérnöfn? Setning þarf ekki bæði sagnir og nafnorð – það er bara bruðl. Ef eitthvað er óþolandi og maður þarf að létta á sér er best að henda bara í eitt vel valið „andskotinn“ – ef maður man ekki hvað það var sem kallaði fram viðbrögðin var það sennilega ekkert merkilegt hvort eð var.

En nú skrifa ég sem sagt eitthvað aðeins meðvitaðra og jafnvel úthugsaðra í þessa bók. Það er ekki endilega að þetta sé efni sem „eigi ekki erindi“ við neinn annan – þótt það komi fyrir – og sömuleiðis er dagbókin ekki full af efni sem „gæti misboðið“ einhverjum, þótt það komi líka fyrir og manni sé hollt að eiga stað fyrir þær hugsanir sínar sem eru óþægilegar. Ef maður kemur þeim hugsunum hvergi fyrir er hætt við að það komi drep í þær og fyrr en varir situr maður uppi með þær einsog rotnandi lík í stofunni.

Ég nenni nú samt sjaldnast að röfla við sjálfan mig þannig. Ég er ekki alltaf glaður í dagbókina mína en ég er sjaldan beiskur. Mest eru þetta einhverjir heimspekilegir þankar – stundum eitthvað sem mér finnst of sjálfsagt eða banalt til að segja við aðra, stundum eitthvað sem ég veit ekki alveg hvert er að fara með en þarf að orða.

En nú á laugardaginn lýsti ég deginum áður. Þetta var mjög góður dagur. Við Nadja fórum til Stokkhólms og gistum í svítu á Hotel Gamla Stan í boði foreldra minna, sem gáfu okkur þetta í jólagjöf. Við fórum líka út að borða á asískan veitingastað sem heitir MoonCake (og fær okkar bestu meðmæli) og eyddum morðfé. Spjölluðum meira að segja við fólkið á næsta borði – einsog það væri hreint enginn faraldur.

Þegar máltíðinni lauk var allt lokað – í Svíþjóð lokar allt 20.30 – og Nadja vildi fara í göngutúr en mig langaði að fara að horfa á sjónvarpið. Ég veit ekki hvers vegna ég beit þetta í mig. Við eigum sjónvarp en það er ekki tengt línulegri dagskrá – bara notað í tölvuleiki og Netflix – og mig langaði svo að horfa á línulegt föstudagssjónvarp. Svo var mér líka mál á klósettið svo við frestuðum göngutúrnum fram á morgun og fórum upp á hótel (þar sem okkar beið líka kampavínsflaska).

Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom inn var að finna fjarstýringuna – hlut sem þrátt fyrir miklar hótellegur síðustu ár ég snerti afar sjaldan – og kveikja á sjónvarpinu. Það var stillt á einhverja útlenska sjónvarpsstöð svo ég smellti bara þar til ríkissjónvarpið birtist – man ekki hvort það var rás 1 eða 2.

Við okkur blasti spjallþáttur – tveir karlmenn á skjánum, annar bakvið „spyrilsborð“ og hinn í sófa. Veckans Ord med Kristian Luuk. Þáttarstjórnandinn spyr gest sinn, sem ku „sérfræðingur“, hver sé skítugasti hluturinn í hverju hótelherbergi. „Það er ekki spurning“, svarar gesturinn. „Það er sjónvarpsfjarstýringin. Hún er viðbjóðsleg gerlagildra. Ég myndi heldur drekka úr klósettskálinni en snerta fjarstýringuna.“

Orð vikunnar var „hótel“ og þátturinn var mjög skemmtilegur. Þar kom meðal annars fram að elsta hótel í heimi var standsett árið 705 í Japan og hefur verið í rekstri sömu fjölskyldunnar í 52 kynslóðir.

Þetta skrifaði ég í dagbókina mína og væri svo sem ekki í frásögur færandi nema vegna þess að næstu klukkustundirnar greip mig kunnugleg tilfinning sem ég skildi samt ekki alveg. Mig langaði að kíkja í dagbókina, líta aftur á þessa sögu. Fyrst hélt ég að ég hefði gleymt að skrifa eitthvað eða gert einhver mistök sem ég áttaði mig ekki alveg á. En svo rann það upp fyrir mér. Mér fannst þessi saga um fjarstýringuna svo sniðug sjálfum að ég var að athuga hvort ég hefði ekki fengið einhver læk. En það var alveg sama hvað ég kíkti oft – ég fékk engin læk. Ekki einu sinni komment.

***

Plata vikunnar er I Ain’t No Bad Gal með Memphis Minnie, sem er án nokkurs vafa frægust þeirra blúskvenna sem léku á gítar á fyrri hluta 20. aldar – nær allar stórstjörnur blússins af kvenkyni voru fyrst og fremst söngkonur, en Minnie var líka frumkvöðull í gítarleik. Á þessari plötu er hún á tindinum – þroskaður listamaður, ennþá grittý, en með alla færnina og þokkann og öryggið.

Minnie fæddist árið 1894* og hét þá Lizzie Douglas – var kölluð „Kid“ af fjölskyldunni. Hún var reyndar alls ekki frá Memphis en flutti þangað þegar hún flúði að heiman 13 ára gömul, tveimur árum eftir að hún eignaðist sinn fyrsta gítar. Þar lék hún á götunum og á einhverju tímabili – vonandi aðeins síðar – hafði hún aukatekjur af vændi.

Fyrsti eiginmaður hennar var Casey Bill Weldon úr Memphis Jug Band og þótt hann komi lítið við sögu í ferli hennar annars er talið að hann hafi verið hennar helsti kennari á fyrri hluta þrítugsaldurs – þegar Minnie var að verða Minnie.

Nafnið fékk hún eftir að hún tók saman við Kansas Joe McCoy – einsog ég las söguna einhvers staðar var það plötuútgefandi sem fannst það hljóma vel saman, Kansas Joe og Memphis Minnie. Joe söng mörg af lögunum sem þau léku saman en hún sá um flóknari hluta undirspilsins. Þau slógu í gegn með Bumble Bee árið 1929, þegar Minnie var 33 ára, og áttu marga slagara á næstu 6 árum áður en þau skildu 1935. Að því er segir á plötuumslagi þessu – í ágætri ritgerð Petes Welding – átti Kansas Joe erfitt með að þola hversu miklu meiri vinsælda og virðingar Minnie naut.

Sama ár kynntist hún öðrum Joe – Ernest „Little Son Joe“ Lawler – sem varð þriðji eiginmaður hennar og skráður höfundur allra laganna á I Ain’t No Bad Gal (það er þó talið nokkuð víst að hún hafi samið megnið af þessu sjálf). Platan er tekin upp í maí og desember 1941 – Minnie er fíníseraðri en hún var áður, upptökurnar eru betri, en hún er ekki orðin alveg jafn „borgarleg“ og hún varð seinna. Það er enn í þessu passlega mikill sveitabragur. Í seinni upptökunni leikur Minnie á rafmagnsgítar – að ég held í fyrsta skipti á upptöku.

Platan er fyrst gefin út 1988 en ríflega helmingur laganna hafði komið út í einhverri mynd áður. Allra frægast þar á meðal er Me and My Chauffeur Blues.

Won’t you be my chauffeur
Won’t you be my chauffeur
I wants him to drive me
I wants him to drive me downtown
Yes he drives so easy, I can’t turn him down
But I don’t want him
But I don’t want him
To be ridin’ these girls
To be ridin’ these girls around
So I’m gonna steal me a pistol, shoot my chauffeur down

Þetta er af kassagítarhliðinni – en það er hin hliðin sem ég held meira upp á. Þar leikur Lawler enn á kassagítar en Minnie er með rafmagnsgítarinn og tekur þátt í að leggja grunninn að Chicago-blúsnum. Hún plokkar og hendir í sólólínur en Lawler tekur bassalínur og strömmar. Svo tekur hún ofsalega fínt sóló – og hrópar og æpir á meðan „Play it! Play it for me, boy!“ og er væntanlega að tala við Joe í undirspilinu (eða gítarinn sinn?) Hann á allavega ekki þetta sóló – en hann á sólóið í næsta lagi á plötunni, titillaginu, sem er reyndar líka mjög gott (en allt öðruvísi).

***

* Mikið af þessum ártölum orka tvímælis – fer eftir því hvaða heimild maður treystir. Ég leyfi mér að fara bara eftir upplýsingunum á plötuumslaginu þar sem þær eru til staðar. Wikipedia segir t.d. að þau Lawlers hafi ekki byrjað saman fyrren 1938. Ég á líka einhvers staðar hérna ævisögu hennar í bókarformi en hún er bara hálflesin af því hún var svo leiðinleg – og um svo margt annað en hana, endalausar upptalningar á fólki. Minnir mig. Ég kannski lít á hana aftur – það er alveg hugsanlegt að ég hafi bara verið þreyttur og gramur þegar ég las hana.

Fréttir frá Svíþjóð – og Final Sessions: Sonny Boy

Per vinur minn spurði mig á dögunum hvort ég væri enn að skrifa „fréttir frá Svíþjóð“. Ég sagði að botninn væri kannski svolítið að detta úr þessu. Þegar við komum fyrst í vor vorum við til þess að gera nýbúin með fyrstu bylgju á Íslandi og það var forvitnilegt að setja sig inn í það hvernig Svíar hafa hugsað (og ekki hugsað) sín covid-viðbrögð í upphafi annarrar bylgju og bera það saman við það hvernig Íslendingar hafa hugsað (og ekki hugsað) sín covid-viðbrögð. En maður heldur ekki áfram að bera saman sömu hlutina endalaust, samanburðinum hlýtur einhvern tíma að þurfa að ljúka?

Mér þykja viðbrögð Svía skiljanlegri eftir ríflega hálfs árs veru hérna. Þeir hafa gætt sín á því að búa ekki svo um hnútana að hér ríki ógnarástand. Akkúrat í augnablikinu virkar óeðlið í hina áttina – ofsafengin viðbrögð við nokkrum smitum á Íslandi og ofsafengin reiðin sem blossar upp í kjölfarið. Helvítis skítar út um allt, fólk sem þvoði sér ekki um hendur, gekk ekki með grímu, útlendingar sem sáu sér hag í því að kaupa dýra flugmiða, dýra hótelgistingu og dýr PCR-próf til að sækja sér atvinnuleysisbætur á Íslandi, helst oft í viku – í sem stystu máli: drulluháleistar út um allt. Maður getur kallað það skiljanleg vonbrigði og eðlilega gremju og holla gagnrýni og hvað sem maður vill – en þetta er samt svolítið stjórnlaus hræðsla stundum og fólk slær frá sér í allar áttir.

Ég sá meira að segja fyrrverandi þingmann halda því fram fullum fetum að búið væri að rekja öll smit til einnar verkakonu af pólskum uppruna sem átti að hafa farið í (fullkomlega óþarfa) helgarferð til heimalandsins, með þarlendu flugfélagi sem væri miskunnarlaust að bjóða þangað niðurgreiddar ferðir (sennilega í þeim tilgangi einum að dreifa smiti). Það vantaði bara að hann útvegaði heimilisfang konunnar og kveikti í kyndlunum fyrir skrílinn.

Mér finnst líka og hefur alltaf fundist að hugmyndir um að loka landamærunum meira og minna um ófyrirsjáanlega framtíð séu álíka nötts og lockdown til langtíma. Kannski vegna þess að ég tilheyri einni af þessum fjölskyldum sem eru með fót í fleiru en einu landi. Ég skil vel að það sé mikilvægt að komast í sund og ræktina og þurfa ekki að vinna heima – en það er líka mikilvægt fyrir ex-pata/innflytjendur að geta hitt fjölskylduna sína, hitt menninguna sína, talað tungumálið sitt o.s.frv. Ef ástandið væri ekki einsog það er væri ég áreiðanlega búinn að taka skottúr til Íslands. Ég veit að það var þungt fyrir Nödju að geta ekki skotist til Svíþjóðar í vor – því það er einmitt svona ástand sem kallar fram langanir eftir því að vera með sínum „nærustu og kærustu“, ef maður mögulega getur.

Ég veit annars ekki hvort Svíar eru almennt léttari en Íslendingar í þessu. Stundum finnst mér þeir bara almennt kærulausari. Ég talaði nýlega við mann (ekki Per, vel að merkja) sem sagðist vera að íhuga að sleppa því að bólusetja sig. Hraustur maður, ekkert að honum – hann langaði bara ekki að þurfa að díla við mögulegar afleiðingar eða beiskjuna. EF það skyldi reynast eitthvað að. Þetta snerist ekki um Astra Zeneca eða eitthvað annað. Sennilega bergmálar hérna narkólepsían sem kom upp hjá fáeinum einstaklingum eftir svínaflensubólusetninguna 2009. Okkur er mjög gjarnt að upplifa stakar sögur einsog þær væru lýsandi fyrir veruleika allra. Að hafi einhver lent í einhverju hljóti allir að vera í hættu. Sem er auðvitað satt – maður er t.d. alltaf í einhverri hættu með að vera rændur úti á götu, tölfræðilegu líkindin eru til staðar. En ef maður ætlar að vera hræddur við það er maður farinn að hræðast allt – maður getur líka orðið fyrir eldingu, dottið í bað, fengið heilablóðfall.

Það er mjög hættulegt á internetöld þar sem maður getur í einu vetfangi lesið sögur um 400 manns sem urðu fyrir eldingu bara í vikunni og ályktað að hér sé um faraldur að ræða – eldingastríð – án þess að taka tillit til þess hvað jörðin er stór og fólkið margt. Fyrir utan svo hitt að tölfræðilegu líkindin af því að fara illa út covid – jafnvel fyrir hraustan ungan mann – eru talsvert meiri en að maður fari illa út úr bólusetningu.

En það þarf ekki að vera í ökkla eða eyra. Manni er hollast að vera ekki værukær gagnvart vírusnum – en maður má ekki heldur láta hann gersamlega taka sig á tauginni.

Ég átti minn fyrsta vinafund í marga mánuði á dögunum – við áðurnefndan Per – annars hef ég ekki hitt fólk (í eigin persónu) nema fjölskyldu Nödju síðan í október. Þetta Svíþjóðarár hefur farið að mörgu leyti öðruvísi en það átti að fara. Ég hafði séð ýmsa kosti við að vera hérna og eitthvað af því hefur staðist þótt flest hafi látið á sér standa vegna aðstæðnanna. Ég hef t.d. haft bærilegan vinnufrið, virðist mér, í öllu falli kláraði ég tvær bækur og hef sinnt alls konar öðru. Svo einhver eru afköstin og ég lofa að ég kastaði ekkert til hendinni.

Kostirnir – það sem ég hlakkaði til – var hins vegar t.d. að geta farið á tónleika. Það eru blúsklúbbar í Stokkhólmi og stórar hljómsveitir spila þar mikið. Eric Bibb á sænska konu og á heima þar. Við gáfum Aram Iron Maiden miða í afmælisgjöf – þeir tónleikar eiga að vera í júlí en verða varla. Mér tókst að fara á eina skítsæmilega blústónleika í september en annars hefur náttúrulega ekkert gerst – því þótt hér sé ekki lockdown þá er ekki einsog fólk vaði bara um villt og hósti hvert á annað. Það eru takmarkanir inn í búðir og allt lokað á kvöldin og leikhúsin og bíóin og allt það lokað.

Annað var nálægð við alþjóðaflugvöll. Einn stærsti gallinn við að búa á Ísafirði er að þurfa alltaf að keyra til Keflavíkur (eða Seyðisfjarðar) til að komast úr landi. Á venjulegu ári ferðast ég mikið og það er umtalsvert auðveldara að skjótast héðan á Arlanda – varla klukkustundarakstur. Það er meira að segja alþjóðaflugvöllur hérna í bænum – umdeildur aðallega vegna þess að það er taprekstur á honum, getur ekki keppt við Arlanda, sennilega verður honum lokað – og hann er litla tíu mínútna strætóferð í burtu.

Svo höfðum við á prjónunum að kynnast fólki og svona, einsog maður gerir. Vorum meira að segja með fólk í sigtinu til að bjóða í mat. En í þessu ástandi er fólk lítið að hittast og svo til enginn er að opna á ný samskipti. Ef fólk hittir einhvern þá hittir það aldavini sína, eðlilega, og nýfluttir – sem þess utan eru ekki komnir til að vera – mæta mjög miklum afgangi.

Og þannig mætti halda áfram. Ég hafði hugsað mér að komast á gítarnámskeið eða gítarsmíðanámskeið eða jafnvel söngnámskeið – og þótt ýmislegt af þessu hefði verið tæknilega mögulegt var ekkert af því æskilegt og þar við sat og situr.

Við hjónin erum hins vegar að fara til Stokkhólms í dag. Fengum hótelgistingu í jólagjöf og ætlum að nýta okkur gjafakortið. Búin að bóka borð á veitingahúsi – þau eru opin til hálfníu – og ætlum að gera okkur glaðan dag. Og veitir ekki af – ég hef verið afar þungur síðustu vikur, þótt ég sé bærilegur í dag og í gær.

***

Plata vikunnar er Final Sessions 1963-4 með Sonny Boy Williamson.

Sonny Boy var munnhörpuleikari, fæddur 1912, og lést ári eftir að þessum upptökum lauk, 52 ára – en leit út einsog hann væri áttræður að minnsta kosti og hafði gert lengi.  Hann hét Aleck „Rice“ Miller þegar hann fæddist og tók upp þetta nafn eftir öðrum blúsmunnhörpuleikara, John Lee Curtis Williamson, sem var tveimur árum yngri en reis til frægðar á undan Rice. Eru þeir stundum kallaðir Sonny Boy Williamson I (John Lee) og Sonny Boy Williamson II (Rice Miller) til aðgreiningar. Sá fyrrnefndi er aðeins minni fígúra í munnhörpuheiminum en sá síðarnefndi – en það munar ekki mjög miklu og þeir þykja báðir miklir frumkvöðlar í stíl og tækni án þess að ég þekki mikið hvernig munnharpan virkar. Sjálfur sagði Rice að hann hefði tekið upp þetta nafn á undan John Lee – sem virkar undarlega í ljósi þess að Rice hét alls ekki Williamson að eftirnafni – og flestum þótti þetta víst frekar lélegt af honum. En hann var tónlistarséní fyrir því.

Platan er tekin upp í tvennu lagi. Fyrra sessjónið er tekið upp „in Europe“ einsog stendur aftan á umslaginu, síðla árs 1963, en það síðara í Chicago í ágúst 1964. Svo virðist sem í Evrópu hafi hvorki verið lönd, borgir né dagatal. Í Chicago var hins vegar ekkert manntal og því veit enginn hver lék á trommur og bassa á þeirri hlið plötunnar. Annars er þetta ofsalegur mannskapur. Í Evrópu er Matt Guitar Murphy á gítar – sem margir kannast sennilega við úr Blues Brothers myndinni,  en lék líka með Howlin Wolf, Memphis Slim og fleirum, og er næstfrægasti blúsgítarleikari Chicago-blússins á eftir Buddy Guy, sem leikur einmitt í Ameríkulögunum. Lafaeytte Leake leikur á píanó í Ameríku – en sennilega er enginn honum fremri nema ef vera skyldi þá Otis Spann sem leikur í Evrópulögunum. Þar er svo Willie Dixon sjálfur á bassa og Billy Stepney á trommur.

Öll lögin eru frábær og flutningurinn óaðfinnanlegur. Þetta er einfaldlega meistaraverk. Það eru tvær útgáfur af Mattie is My Wife, ótrúlega flott og einföld útgáfa af Robert Johnson laginu Kind-Hearted Woman – en eftirlætið mitt er sennilega langdregin útgáfa af gospelslagaranum Milky White Way.

Ég vissi það ekki þegar ég byrjaði að skrifa þetta en platan er ekki á Spotify og ekkert laganna af henni er á YouTube. Så det så, einsog maður segir – ég hef ekkert upp á að bjóða. Nema kannski þetta live-myndband af Sonny Boy að spila allt önnur lög með allt annarri hljómsveit í sænska sjónvarpinu.

Littfest, lyndið og einmana sálir

Ég er í lest á leiðinni á Littfest í Umeå. Einsog í gamla daga. Raunar eru bara þrjú ár síðan ég fór síðast og tæknilega séð á maður held ég alltaf að þurfa að bíða fimm ár milli heimsókna en af einhverjum orsökum er skortur á útlenskum rithöfundum í landinu. Hátíðin verður með „breyttu sniði“ – ég átta mig ekki á því hvað það verða margir á svæðinu þegar ég les en þeir verða ekki margir. Síðasta haust fór ég í svona ferð til Malmö og las upp fyrir kvikmyndatökumann, hljóðmann, kynninn og tvö önnur ljóðskáld. Það er ekki alveg það sama. Fyrir Covid mætti yfirleitt aldrei neinn – mjög yfirþyrmandi að hafa allt þetta fólk standandi yfir sér. Svo eru víst enn fleiri að horfa á eitthvað streymi.

Ég ætlaði að vera með tvær bækur um jólin – af ólíku slagi – en það er búið að fresta annarri þeirra fram á jól 2022. Ég er enn undir feldi að hugsa um hvað mér finnst um það. Covid hefur farið einhvern veginn þannig með mig að mér finnst einsog ég sé að þrauka allt – lífið sé bara spurning um að halda í sér andanum og bíða þangað til það er búið. Eða a.m.k. þangað til Covid er búið. Þetta er alveg áreiðanlega ekki besti tíminn heldur fyrir mann sem vinnur einn að flytja til annars lands. Í kvöld hitti ég Per vin minn og það verður í fyrsta sinn síðan ég hitti nokkurn sem er ekki í tengdafjölskyldunni minni síðan í október. A.m.k. sósíalt – og í meira en þrjár mínútur.

En ég er ekki kaupsýslumaður og ætla ekki að láta einsog ég sé það. Hef ekkert vit á þessu. Mér finnst bara leiðinlegt að bíða. Finnst ég bíða svo mikið.

***

Blúsplata vikunnar er Lonely Soul með sveitinni GA-20 frá 2019. Það er ekki alltaf hægt að vera í klassíkerunum og þótt þetta sé ekki tía þá er platan mjög skemmtileg og ég hafði aldrei heyrt á sveitina minnst. Kannski verð ég kominn með leið á þessu eftir viku en í dag er hún að gera sitt. Þá kemur heldur ekki að sök að ég uppgötvaði hana „analóg“ – las viðtal við einn meðlim sveitarinnar í norska tímaritinu „Blues News“ og leitaði hana svo uppi á Spotify (og vínyllinn er í Discogs-innkaupakörfunni minni).

Aðalmennirnir í GA-20 eru gítarleikararnir og ofsahipsterarnir Pat Faherty og Matthew Stubbs, en sá síðarnefndi hefur meðal annars getið sér gott orð sem aðalgítarleikarinn í sveit Charlie Musselwhite síðasta áratuginn eða svo. Báðir eru mjög mikið með sólgleraugu og í gallaefni, sem er auðvitað stór plús.

Lonely Soul er mjög rokkuð plata í hinum forna skilningi þess orðs – það er fiftís í þessu, sving og búggí – og gítarsólóin eru flest stutt og öll hnitmiðuð og ekonómísk, sándið passlega drullugt, bjagaðir magnarar, mikið tremolo og mikið reverb, talsvert attitúd en aldrei neitt drama, lagasmíðarnar einfaldar og beint að efninu. Hér er ekki verið að finna upp hjólið. Nokkur laganna eru kover – þarna er Crackin’ up eftir Bo Diddley, I feel so good eftir JB Lenoir, Got Love if You Want it eftir Slim Harpo og My Soul eftir zydeco-blúsarann Clifton Chenier. Áhrifin í lagasmíðum þeirra hipsterbræðra eru síðan augljós – það er talsverður Musselwhite fílingur í One Night Man t.d. og þeir hljóma oft einsog aðeins meira old school Black Keys (ekki síst af því einsog Black Keys eru þeir ekki með bassaleikara – svo heitir líka eitt frægasta lag BK Lonely Boy).

Þetta eru live útgáfur bara af því það er skemmtilegra í „myndmiðli“.

Vetur, veira og Leadbelly

Hið daglega

Veturinn hefur smám saman verið að smokra sér aftur inn í líf okkar. Í Västerås var komið vor. Ekki þar fyrir að snjófölin sem þekur göturnar þætti ekki merkileg á Ísafirði – klukkan er orðin níu að morgni og hún er varla sjáanleg lengur. En það er skítakuldi og hefur verið í nokkra daga. Þetta er allt öðruvísi kuldi líka, svona sléttukuldi – og þurr. Hér er varla nema 20% raki í húsum, hef ég séð á rakamælinum í gítartöskunni minni. Ég geri varla annað en að klóra af mér skorpna húðina.

Við erum með gest næstu vikurnar. Besti vinur Arams, Halli Golli Hála Halla Goll (Ingólfur gat Hálfdán sem gat Hálfdán sem gat Hálfdán Ingólf) er kominn í heimsókn frá Íslandi. Þeir tala viðstöðulaust. Mikið af því er á ensku, af því að tíðin er þannig, og vegna þess að Halli Golli átti heima í Bandaríkjunum í eitt og hálft ár – og þangað heimsótti Aram hann rétt áður en kórónaveiran brast á. En stærstur hluti af því sem þeim fer á milli er samt sérnöfn á pokémonum.

* * *

Hálfdán: „Siri – how do you pronounce „seismic toss“?“

Siri: „Here’s what I found.“

Aram: „Pabbi – hvernig pronánsar maður „seismic toss“?“

Pabbi: „Maður pronánsar það „hvernig ber maður fram““

Aram: „Ha?“

* * *

Fréttir frá Svíþjóð

Kórónaveiran geisar bara og geisar í Svíþjóð. Annarri bylgju var varla lokið þegar þriðju var lýst yfir. Eða þannig – ég veit ekki hvort það er búið að lýsa neinu yfir formlega, en það er búið að segja að hún sé í startholunum. Og Tegnell hefur sagt að hún verði hugsanlega verri en fyrstu tvær.

Ríkisstjórnin var að lýsa yfir vilja til að tvöfalda það fjármagn sem lagt er í kaup á bóluefni – dýrt, segja þau, en ekki jafn dýrt og veiran er fyrir þjóðfélagið. Stundum er ég bara hissa á fréttunum og finnst einsog forsendurnar sem var búið að gefa upp séu bara kjaftæði. Ég hélt til dæmis að það væru bara allir að kaupa jafn mikið af bóluefni og þeir fengju afgreitt – verksmiðjurnar væru allar á fullu. Og svo væru einstaka djúspokar að yfirbjóða til að fá meira fyrr. En Evrópusambandsþjóðirnar væru saman í sínu yfirboði. Kannski eru Svíar þá að hugsa um að fara að yfirbjóða sjálfir.

Það var í fréttum líka á dögunum – og gagnrýnt – að Svíar hafa staðið gegn því að patent verði gefin frjáls svo þriðja heims þjóðir eigi hægara með að útvega sér bóluefni.

Frá áramótum hafa gilt harðari reglur í Svíþjóð en fyrr. Fyrst mátti ekki afgreiða áfengi eftir klukkan átta á kvöldin og svo urðu allir veitingastaðir að loka hálfníu. Það eru líka takmarkanir á fjölda fólks inni í verslunum. Ég átta mig illa á hlutföllunum í því – sérstaklega í minni búðum, sem mega sumar vera með 15 viðskiptavini og aðrar bara 2, án þess að ég sjái mikinn stærðarmun. En þetta er einhver hlutfallsreikningur – þannig getur ein matvöruverslun leyft 97 kúnna en önnur 94 kúnna. Ekki þar fyrir að ég hef bara einu sinni séð einhvern telja inn í búð – fyrir utan Systembolaget, þar er alltaf einhver að telja (nema þegar það er bókstaflega ekkert að gera).

Það er búið að sprauta milljón sprautum í landinu. Miðað við að hver þurfi tvær sprautur og það séu tíu milljón manns í landinu þarf þá að sprauta 19 milljón sinnum í viðbót. Mínus börn og unglingar reyndar, sem er ábyggilega slatti.

Meghan og Harry hafa verið mikið í fréttum hér einsog annars staðar. Mér sýnist Svíar heldur skeptískari á parið en Íslendingar. Ekki að þeir taki afstöðu með krúnunni – sem royalistarnir í landinu gera þó áreiðanlega, en ég er meira að hugsa um krítíska vinstrimenn – heldur virðast þeir einfaldlega sínískari gagnvart ameríska sensasjónalismanum en Íslendingar. Mér finnst þetta allt áhugavert einsog manni getur bara gert þegar manni stendur eiginlega alveg á sama. Það er eitthvað í þessari baráttu hinna grátklökku ameríkana og hinna samanbitnu breta sem kjarnar og undirstrikar (stórveldis)eðli beggja. Oprah er auðvitað drottning í Bandaríkjunum, Meghan afkvæmi hennar samkvæmt einhverri frægðarlógík, og Archie er þá erfinginn sem mun með tíð og tíma sameina konungsveldin tvö.

En ég ætlaði ekki að segja fréttir frá Bretlandi. Afsakið.

Næstkomandi laugardag velja Svíar framlag sitt í Eurovision eftir ótal undanúrslitakvöld. Það er reyndar mjög fyndið að í hverjum þætti voru sjö lög – af þeim komust tvö beint áfram og tvö fóru á „andra chans“. Sem þýðir að minna en helmingur var dæmdur úr leik í hverri umferð. Það voru fjögur þannig kvöld þar sem hópurinn var skorinn niður úr 28 í 16 lög. Þá var komið að „andra chansen“ – sem var síðasta laugardag – og það er einvígiskvöld þar sem þessi átta lög sem komust á séns eru pöruð saman og látin mætast. Fjögur eru úr leik og fjögur fara áfram.

Eftir fimm kvöld er þá búið að fækka lögunum úr 28 í 12 – en á laugardag er bara einn sigurvegari. Þetta er mikil pródúksjón og margt skemmtilegra í dagskránni en lögin sjálf – mér skilst líka að forkeppnin hérna sé umtalsvert vinsælli en keppnin úti.

Ég get ekki sagt að ég sé yfir mig heillaður af neinu framlagi. Aram hélt grjótharður með þungarokkssveitinni Lilla syster sem var send heim úr andra chansen – hann trylltist fyrir framan sjónvarpið. Og raunar skiljanlega því sá sem vann einvígið var alveg framúrskarandi glataður – þótt textinn væri svolítið skemmtilega lélegur („Viva la forever / you and me together / when the sun goes down we keep on bailá bailá“).

Það er helst að Dotter heilli mig. Sá sem er sigurstranglegastur er samt maður sem heitir því óheppilega nafni „Tusse“ – ég reikna með að það verði 20 sekúndna töf á Gísla Marteini ef hann þarf að kynna hann í aðalkeppninni.

***

Blúsplata vikunnar

Blúsplata vikunnar er safnplatan Black Betty með Leadbelly.

Huddie Ledbetter – þekktur sem Leadbelly – fæddist 1888 og er sennilega sá fyrsti af köntríblúsurunum til þess að slá í gegn þegar sú stefna var að öðlast uppreisn æru á árunum í kringum seinna stríð. Hann hafði leikið með Blind Lemon á þriðja áratugnum en ekki náð áheyrn svo heitið gæti – sérstaklega ekki í samanburði við Blind Lemon – en svo döluðu vinsældir þessarar tónlistar og það hallaði heldur undan fæti hjá okkar manni, sem leiddist á glapstigu og drap á endanum mann.

Þjóðlagasafnarinn John Lomax fann hann í fangelsi þegar hann var að safna vinnusöngvum í byrjun fjórða áratugarins – fangelsin voru víst langbesti staðurinn til að taka upp vinnusöngva blökkumanna vegna þess að yfirmenn á plantekrum voru ekki par hrifnir af því að það væri verið að trufla mennina við vinnu. Hann vakti strax nokkra athygli og þegar hann var laus úr grjótinu fór hann að spila fyrir fína fólkið í New York á vegum Lomax. Svo kom upp eitthvað ósætti milli þeirra vegna peningamála – Leadbelly kærði Lomax og vann – og þá var konan hans umboðsmaðurinn hans í einhvern tíma. Það er á þeim tíma, 1937, sem það birtist fræg grein í Life Magazine – sem vakti þannig athygli á honum að varla varð aftursnúið. „Bad Nigger Makes Good Minstrel“ var fyrirsögnin – þar birtist mynd af konunni hans og svo nærmynd af höndum Leadbelly að spila á tólf strengja gítar, með myndatextanum: „These hands have killed a man“.

Leadbelly átti nokkur lög sem gerðu það gott meðan hann var á lífi en var kannski oft meira „fyrirbærið“ – blökkumaðurinn og morðinginn sem syngur einsog engill – hann kom oft fram í fangabúning og gerði talsvert úr bakgrunni sínum. Hann átti ekki miklum vinsældum að fagna meðal almennra blökkumanna í Harlem en hins vegar talsverðum í kreðsum tónlistaráhugamanna – hvítra og svartra – og eftir að sonur Johns Lomax, Alan Lomax, tók við umboðsmennskunni lék hann mikið með Josh White, Sonny og Terry, Woody Guthrie og Pete Seeger og fleirum í þeirri kreðsu folk-tónlistarmanna og róttæklinga.

Skömmu eftir að hann lést árið 1949 tóku The Weavers upp lag hans Goodnight, Irene og áttu ofsa-smell sem vakti almennari athygli á honum og verkum hans. Á næstu áratugum voru svo ótal laga hans leikin af hvítum, vinsælum tónlistarmönnum – t.d. varð breska skiffle-tónlistin bókstaflega til upp úr útgáfu Lonnie Donegans af Rock Island Line. Black Betty varð þekkt með Ram Jam. Cotton Fields þekkja allir Íslendingar í útgáfu Árna Johnsen – Kartöflugarðarnir heima – og mín kynslóð táraðist yfir Where Did You Sleep Last Night sem Nirvana spiluðu á MTV-Unplugged tónleikum sínum (og raunar tárast dóttir mín yfir því líka – það er í miklu uppáhaldi). Mikið af lögum hans voru reyndar þjóðlög sem enginn veit hver samdi – og meðal þeirra laga sem hann átti þátt í að koma á kortið voru Pick a Bale of Cotton, House of the Rising Sun, Bottle Up and Go og Take This Hammer.

Plata vikunnar inniheldur öll þessi lög og fleiri til á tveimur 180 gramma vinylskífum. Ég keypti hana á dögunum og hún kom í póstinum í gær frá Stokkhólmi. Ég átti fyrir eina gamla Leadbelly plötu – Leadbelly Sings Ballads of Beautiful Women and Bad Men / With the Satin Strings – þar sem er að finna eitt eða tvö lög sem eru líka hér, en er talsvert lúnari plata sem ég fann á einhverjum skranmarkaði. Það er unun að hlusta á þessa – þótt plötuspilarinn minn hérna sé reyndar óttalegt drasl (sérstaklega er hann lélegur ef tónlistin er mjög dýnamísk – kannski er eitthvað að honum, en ég veit ekki hvað það er, og ég keypti hann bara til að hafa eitthvað – ég er með mjög hógværar græjur heima reyndar, en þær eru ekki svona, ég geri engar sturlaðar hi-fi kröfur).

Lagið sem ég vel til sýnis af þessari plötu er samt ekki eitt af þeim frægari heldur lag sem ég hafði ekki heyrt áður og heillaði mig mjög þegar ég heyrði það nú.

Ferkantað land fyrir kantlausan slúbbert

Það er ekki auðvelt fyrir vísitöludreifarann að búa í landi einsog Svíþjóð. Þegar maður er vanur því að allt reddist af því að allir þekkjast og reglur séu sveigðar austur og vestur til þess að skapa ekki „óþarfa vesen“ er erfitt að læra að sætta sig við þvera og ferkantaða lífssýn vísitölu-svensons. Þessa eilífu þrá eftir því að gera hlutina „rétt“. Íslendingar eru sannarlega ekki umburðarlyndir á alla vísu og einsog dæmin sanna er auðvelt fyrir utanaðkomandi að flækja sig svo í kerfinu að lífið verði hálfgerð martröð – egypska fjölskyldan sem var rétt í þessu að fá úrlausn sinna mála, fyrir kraft samstöðu gegn hinni kerfislægu frekju, er gott dæmi um slíkt – en það er samt talið til dyggða að láta hlutina reddast. Og mál einsog egypsku fjölskyldunnar eru vel að merkja mýmörg í Svíþjóð líka – hér er alltaf talsvert um hælisleitendur sem fara huldu höfði.

Það hefur líka oft hvarflað að mér þar sem ég missi góða skapið eftir samskipti mín við ferkantaða bjúrókrasíu út af einhverjum smámunum hvað maður eigi samt gott að afleiðingarnar skuli vera svona minniháttar. Þannig man ég að þegar Aram fæddist hér fyrir 11 árum hafði ég samband við sendiráðið upp á réttu leiðina til að fá ð-ið skráð í eftirnafnið hans og var sagt að það væri ekkert mál – það væru margundirritaðir norrænir sáttmálar um þetta allt saman, en vandamálið væri að starfsfólkið í kerfinu hefði ekki hugmynd um þessa sáttmála og myndi því ekki hjálpa mér. Það sem ég þyrfti að gera væri að skrá barnið, kæra svo skráninguna og fá nafnið rétt skráð fyrir dómstólum. Ég man ekki hvað það átti að kosta en það voru einhverjir hundraðþúsund kallar, give or take.

Um svipað leyti lenti ég líka milli skips og bryggju gagnvart þjóðskrá. Ég var alltaf skráður til heimilis á Íslandi, af því ég vinn og skatta þar, hvar svo sem rassgatið á mér er statt hverju sinni. Þegar við fórum til Íslands yfir jól og ætluðum að skrá Aram í kerfið kom í ljós að við hjónin vorum ekki skráð gift – af því að þeim pappírum þarf maður víst að skila inn sjálfur (við giftum okkur í Finnlandi og reiknuðum bara með að þessi kerfi töluðu saman). Þegar við skráðum okkur gift, til þess að skrá Aram í þjóðskrá, kom í ljós að við máttum alls ekki hafa sitthvort lögheimilið. Ég bölvaði þessu í sand og ösku, meðal annars því við ætluðum til Finnlands aftur um sumarið, og vegna þess að ég var enn skráður á Íslandi myndi ég þurfa að skatta í þremur löndum. Janúar á Íslandi, febrúar-júní í Svíþjóð og svo rest í Finnlandi. Og það er nú ekki það skemmtilegasta sem ég geri að fylla út í skattskýrslur. En þegar ég fór á þjóðskrá hér og fyllti út í pappírinn um lögheimilisflutninga, þar sem fram kom að ég ætlaði að fara til Finnlands um sumarið, var mér tjáð að þetta gæti ég ekki – því það mætti ekki flytja lögheimili sitt til skemmri tíma en sex mánaða og þetta væru bara fimm. Ég mátti því hvorki hafa lögheimilið áfram á Íslandi, né flytja það til Svíþjóðar þar sem ég bjó.

Og nú er ég sem sagt kominn aftur út og byrjaður að reka mig á aftur.

Það eru til tvö öpp til að panta heim mat. Við getum hvorugt notað af því við erum ekki með sænskt símanúmer – reiturinn fyrir símanúmerin er einu stafabili of þröngur til að ég komi íslensku númeri fyrir. Ég hef áður lent í því að geta ekki pantað mat af því ég var ekki með Swish – sem er svona Aur eða Kass app, sem allir hér nota, en Swish fær maður ekki nema maður sé með sænskan bankareikning. Nú er Nadja reyndar með Swish svo ég get beðið hana að redda þessu. Maður gæti haldið að það væri ástæða til þess að tengja Swish við kreditkortaþjónustu – en svo hef ég svo sem rekið mig á það líka að geta ekki notað íslenskt kreditkort á sænskri síðu. Samt er þetta ekkert íslenskt – bara mastercard.

Í dag ætlaði ég að ná í póst. Ég hef áður lent í vandræðum með það. Ein sending var af einhverjum orsökum tollskyld (í henni var úreldur snjallsími, sem hefur mest verið notaður sem svona þykjustusími). Það var rúmur þúsundkall. En verst var að við vorum aldrei látin vita af því. Fengum enga tilkynningu – hann bara sat þarna á pósthúsinu þangað til við fórum að spyrjast fyrir og borguðum tollgjaldið. Svo fékk ég hann ekki afhendan af því hann var merktur Aram og ég var ekki með passann hans. Í dag taldi ég að pósturinn væri merktur mér, en það reyndist misskilningur, svo ég þurfti að fara heim að sækja passa beggja barnanna – af því pakkinn var merktur báðum (og skiptir engu að ég sé forráðamaður þeirra). Þegar við Aram komum svo með passana ætlaði konan að gera okkur afturreka aftur á þeirri forsendu að passinn hennar Ainoar væri útrunninn (ég tók vitlausan). Þegar ég maldaði í móinn var náð í annan starfsmann sem ákvað að það dygði í þetta sinn að við værum með passa þess sem er fyrr tiltekinn á bréfinu – sem var Aram – öfugt hefði ekki gengið.

Um daginn vantaði mig líka svona lítinn þráðlausan gaur til að tengja við plötuspilarann svo ég geti notað hann með heddfónum. Ég fann hann á netinu hjá Clas Ohlsson, festi mér hann og greiddi – en af því að ég var nýbúinn að eiga í svipuðum viðskiptum þar sem ég strandaði á að vera ekki með sænska kennitölu, skráði ég Nödju sem kaupanda (ef ske kynni að kennitöluvesenið kæmi upp). En svo fékk ég hann auðvitað ekki afhentan þótt ég væri augljóslega greiðandi (sjálfum þætti mér eðlilegra að það væri öfugt – það myndi a.m.k. vera betra til að lágmarka svindl).

Síðasta umkvörtun dagsins – nei, næstsíðasta (ef mér dettur ekkert fleira í hug) – er að maður kemst ekki inn í fjölbýlishúsið okkar nema með sérstöku blippi, svona tölvulykli. Og það er engin dyrabjalla. Hér er sem sagt ekki hægt að banka uppá – hvorki sölumenn, trúboðar, börn á hrekkjavöku eða vinir og kunningjar.

Síðasta umkvörtunin – last dagsins – fær síðan nágranninn á ská fyrir ofan okkur. Þegar við fluttum inn fór Nadja og spurði fólkið fyrir ofan okkur hvort það væri í lagi að Aram væri að tromma á rafmagnstrommusettið sitt. Þau sögðust ekki geta sagt um það, þau yrðu að heyra það fyrst – en þá hafði hann einmitt verið að tromma og enginn heyrt neitt. Fólkið á ská fyrir ofan – sem ætti að heyra verr, enda hinumegin við stigaganginn – kom hins vegar í fyrrakvöld og sagði að nú væri öllum trommuleik í þessu húsi lokið. Ég er svo mikill trékall – og vanur því að fólk bregðist frekar illa við mér, ég veit ekki hvort það er hæðin eða skeggið eða röddin eða bara fasið, en Nödju gengur allavega miklu betur en mér að lempa svona fólk og hún var ekki heima – að ég jánkaði bara eitthvað og baðst velvirðingar. En svo sýður auðvitað á mér. Ég er með kategórískt ofnæmi fyrir því sem á ensku er kallað „entitlement“ – að finnast maður stöðugt geta krafist þess að veröldin trufli ekki viðkvæma tilvist manns. Auðvitað eru takmörk fyrir öllu – en ef maður má ekki heyra í nágrönnum sínum, finna lykt þegar þeir laga mat o.s.frv. þá þarf maður bara að búa einhvers staðar þar sem eru ekki nágrannar. Því fólki fylgir visst ónæði. Svo finnst mér líka að það eigi að vera tónlist á heimilum.

Nú er á planinu að kaupa betri mottu undir settið og færa það í annað herbergi og tala svo við fólkið og fá uppgefinn einhvern tíma sem hentar betur en annar – þetta var eitthvað rúmlega sjö.

Eitt af því sem er áhugavert í þessu öllu saman, a.m.k. nú í dag frekar en þarna um árið, er að megnið af vandræðunum eru ekki á vegum hins opinbera (enn sem komið er) heldur einkafyrirtækja. Það er pósturinn, öppin, pizzeriurnar, fyrirtekið sem rekur húsið, Clas Ohlson o.s.frv. sem eru með mesta vesenið.

 

Paella á grillinu

Ég er að verða meiri og meiri uppskriftadólgur í ellinni og fer ekki nema að hálfu leyti eftir einni uppskrift og hálfu leyti að annarri og geri svo einhver ósköp frá eigin brjósti og allt verður þetta erfitt að muna þegar maður ætlar að endurtaka snilldina. Þá er ágætt að glósa hjá sér þegar vel tekst til.

500 ml arboriohrísgrjón
1500 ml grænmetissoð
1/2 bolli hvítvín
einhver grömm af saffrani
3/4 bolli grænar ertur
200 grömm rækjur
15-20 kræklingar
6-10 stk stór skelfiskur
1 msk reykt paprika
2 hnífsoddar af cayennepipar
2 laukar
2 sætar paprikur (svona langar)
1 knippi af steinselju
2 stórir kínahvítlaukar
1 msk af tómatpúrru
1 sítróna

Ég geri paellu á grilli í 45 cm breiðri paellupönnu sem ég keypti af Steina í Muurikku í gær (þegar verið er að rýma iðnaðarsvæði vegna snjóflóðahættu á Ísafirði er það alltaf Steini sem þarf að fara heim). Þess vegna kveiki ég fyrst undir grillinu, sker svo allt og mæli og fer síðan út. Með bjór í hönd.

 

  1. Fyrst gerir maður sofrito. Sker niður lauk, papriku og 4/5 hluta af steinseljunni. Saxar hvítlaukinn. Sýður grænmetissoðið. Mælir allt annað og fer með út í garð.
  2. Saffranið er mulið ofan í hvítvínið þar sem það fær að liggja í bili.
  3. Paprika, laukur og 3/4 af steinseljunni steikt á heitri pönnu með nóg af ólífuolíu þar til orðið mjúkt og vellyktandi. Í restina setur maður hvítlaukinn og kannski helminginn af reyktu paprikunni (sem var blönduð við cayenne hjá mér, en ég sneiddi hjá því svona með puttunum bara).
  4. Þá fara hrísgrjónin út í og tómatpúrran og það fær svona aðeins að blandast og ristast og karamelíserast og guð veit hvað annað þetta er að gera þarna í pönnunni.
  5. Eftir smástund helli ég fyrst hvítvínssaffranblöndinu út í, svo soðinu og loks restinni af kryddinu og nú gildir að hreyfa ekki pönnuna heldur láta hana bara í friði. Botninn á að ristast – þar á að myndast svokallað socarrat.
  6. Eftir 20 mínútur sem eru kannski korter raðar maður fiskmetinu fallega á diskinn og setur lokið á grillið. Mitt fiskmeti var enn pínu frosið og ég er ekkert viss um að það hafi komið að sök – hugsanlega hjálpaði vökvinn eitthvað til. Svo bíður maður í 5-10 mínútur, eftir því hvað maður er þolinmóður.
  7. Næst tekur maður pönnuna af grillinu og fer með inn í húsið. Stráir restinni af steinseljunni yfir, raðar sítrónubátum með jöfnu millibili allan hringinn og ber fram. Þetta átti að vera með góðu brauði en ég gleymdi að setja það í ofninn. En við höfðum Tinto de verano (barna og fullorðinsútgáfu) og grilluðum svo sykurpúða á eftirhitanum og nutum síðustu sólargeislanna.

Þetta var ofsa gott.

Megas, Steinar, músagangur og Sonatorrek

Ég er að hlusta á Arnar Jónsson flytja Sonatorrek. Blús allra blúsa. Þetta  er voðalegt.

Í gær urðum við vör við músagang þegar við vorum að fara að sofa. Eða eitthvað krafs – við fundum aldrei músina og ekki heldur músafelluna sem við fórum á stúfana eftir. Þetta er ekki beinlínis músasíson svo ég veit ekki hvort maður á að trúa því að þetta hafi verið mús. Þær koma venjulega inn á haustin þegar kólnar. Og komu engar í haust. Eitt árið hérna voru þær svolítil plága en annars höfum við bara aðeins orðið vör við þær eða alls ekkert.

Eða, þú veist. Plága. Þær voru fyrir. En héldu sig reyndar mest í kjallaranum.

Megas er 75 ára í dag. Hann fær ábyggilega fáa gesti í ljósi ástandsins. Þegar hann varð sextugur fylgdi hann mér og fleiri íslenskum skáldum í frægðarför til Kaupmannahafnar. Ef ég man rétt þá átti hann ekkert erindi – var ekki að spila – heldur vildi bara ekki vera í sextugsafmælinu sínu. Þetta var einmitt beint í kjölfar fyrstu Aldrei fór ég suður hátíðarinnar. Páskafylleríinu fylgdi þá bókmenntahátíðafyllerí með millilendingu í hitta-vini-sína-í-Reykjavík-og-fara-á-Sirkus-fyllerí. Og gott ef þetta var ekki einmitt fyrsta þannig ferðin mín. Og sennilega eina skiptið á ævi minni sem ég hef tekið almennilegan „túr“ – þetta voru sennilega alveg heilar tvær vikur – og var svo draugþunnur á eftir að ég vissi varla hvað ég hét. Í Kaupmannahöfn ráfaði ég um með Steinari Braga og át pulsur og drakk bjór á gangi – borgin var alsett sporum sem áttu að markera för HC Andersen um borgina en hann átti eitthvað stórafmæli, en á sama tíma gekk laus morðingi sem hafði skilið eftir líkamshluti fólks í ruslafötum og auðvitað minntu sporin meira bara á hann. Eða hana. Ég man ekki hvort viðkomandi náðist nokkru sinni. Um nætur svaf ég til fóta hjá Steinari og Öglu, þáverandi kærustu hans, sem var ekki með okkur Steinari á þessu vægðarlitla fylleríi. Samt var búið um mig heima hjá Auði Jóns og Tóta Leifs – það var bara eitthvað langt í burtu og óþarfi að skilja við Steinar ef við ætluðum hvort eð er að byrja aftur að drekka þegar við vöknuðum. Einn af síðustu dögunum í borginni lásum við svo loksins upp og hittum þá dönsku skáldin sem áttu að lesa með okkur og ég held okkur hafi aldrei litist jafn illa á neinn hóp af fólki – þetta var svo hreint og strokið og kurteist að okkur hreinlega ofbauð. Síðar hef ég séð til nokkurra þessara dönsku höfunda og orðið var við að á meðan íslenskir höfundar eru svolítið í ógæfunni þarna milli tvítugs og þrítugs þá blómstra danskir höfundar síðar og hefja sína óreglu nær fertugu, þegar íslenskir höfundar eru orðnir settlegt barnafólk í úthverfunum. Svona fólk sem hefði gengið í samstæðum jogginggöllum þegar ég var lítill. En dönsku höfundarnir eru allir drykkfelldir, illa lyktandi besefar.

En ekkert af þessu var Megasi að kenna – það var varla að ég sæi hann í þessari ferð. En hann átti sem sagt líka afmæli þá, hann var bara yngri.

Hin órómantíska angist

Þetta eru erfiðir dagar. Það er bara þannig. Maður ber sig vel og stundum líður manni vel en svo hellist þetta allt yfir mann inn á milli og þá getur maður ekki annað en viðurkennt að þetta er samt allt erfitt. Það er ýmislegt þarna sem er fallegt og gott – meiri tími með börnunum, minni radíus í lífinu þýðir meiri jarðtenging. Það er furðuleg sálarró í einum hugarkima á meðan það logar allt í öðrum.

Meiri tími í símanum fer illa með sálarlífið. Meiri tími á covid-síðunum. Við erum kannski öll almannavarnir en við erum ekki einn aðili og fáum ekki ein meðmæli og það er ómögulegt að vita hvort það sé rétt að vera með appið eða vera með grímu eða vera í algerri einangrun – eða applaus, grímulaus og hanga á kaffihúsum (en „fara varlega“) einsog í Svíþjóð. Það er ekki bara þannig að allar ákvarðanir hins opinbera orki tvímælis – og hin opinberu (bæði rannsóknastofnanir og ríkisvald) séu með alls konar skoðanir og niðurstöður sem allar stangast á – heldur orka allar manns persónulegu ákvarðanir tvímælis. Ég get keypt brauð í Heimabyggð og séð til þess að staðurinn verði ekki orðinn að lundabúð (eða bara lokaður) þegar þessu lýkur eða ég get sleppt því að fara þangað svo það deyi enginn. Lokað mig niðri í kjallara svo það deyi enginn. Bakað mitt eigið helvítis brauð.

Og einhvern veginn finnst mér samt einsog þetta myndi virka best ef við hefðum bara einn mauraheila. Um stundar sakir. Einn sovét-skipulagðan heila – einn fyrir alla og allir fyrir einn-heila. Það getur vel verið að ekkert sé hættulegra – þetta orkar tvímælis einsog allt annað. Og kannski drepur okkur bara tvímælið.

Helst vildi ég bara að það væri app sem segði mér hvort það sé góð hugmynd að fara niður á skrifstofu að ná í ljóðabækur og prenta út eitt skjal sem ég þarf. Eða hvort það deyi þá einhver. Hvort það sé betra að fara á morgun. Eða í nótt.

Og stundum líður manni samt vel. Alveg í svolítinn tíma jafnvel – en einhvern veginn skellur maður alltaf aftur á vegg. Svo líður manni vel. Svo ekki. Og þannig hring eftir hring þar til maður verður geðbilaður.

Líf kontóristans

Á skrifstofunni minni eru einstaka sinnum fleiri en sex. Oftast erum við fjögur og stöku sinnum fimm. En starfsmenn á svæðinu geta orðið átta, held ég, ef setið er við allar vinnustöðvar. Mér fannst einfaldast – í ljósi samkomubanns á Vestfjörðum sem nú bannar fleirum en fimm að hittast – að vera þá bara heima.

Hér erum við líka fjögur – það er enginn skóli – og ekki von á neinum. Aino gæti fengið undanþágu og farið, menntaskólakennarar eru á listanum yfir þá sem sótt geta um undanþágu, en til hvers? Í gær hittum við vini á Zoom og drukkum áfenga drykki. Ég get ekki sagt að þetta ýti mikið undir minn persónulega alkóhólisma. Ég hefði drukkið miklu meira ef þau hefðu verið hér í eigin persónu (fékk mér tvo frekar veika kokteila). Eiginlega finnst mér það næstum sorglegt. Það var allavega áreiðanlega sorgin sem veldur því að ég fékk mér ekki þriðja og fjórða.

Nadja er búin að setja upp menntaskólastofu bakvið læstar dyr í svefnherberginu. Börnin ganga laus um allt hús og raða böngsum í glugga. Þau eiga mjög marga bangsa. Ljóðaþýðingaverkstæðið er í borðstofunni, þar sit ég og hlusta á Son House á vínyl einsog hipsterinn sem ég er og sinni fyrirspurnum þeirra – milli 14 og 16 fæ ég svo meiri vinnufrið. Klukkan 11 verður tónlistartími – Aino á bassa og Aram á trommur. Þau eru að læra Babe, I’m Gonna Leave You og Zombie. Algerir snillingar. Og ekki leiðinlegt fyrir mig að vera loksins kominn í hljómsveit.