Ég byrjaði aftur á Ulysses í vikunni. Í þriðja sinn. Og þriðju útgáfu. Fyrst – fyrir rúmu ári – las ég Cambridge Centenary útgáfuna með löngum ritgerðum um hvern kafla og alls konar glósum. Það er stærsta bók sem ég á. Hún er hálfgert húsgagn. Svo las ég þýðingu SAM – eða eiginlega samtímis, meðfram. Nú er ég að lesa Wordsworth Classics útgáfuna sem er ívið þægilegri ferðafélagi en Cambridge-mublan og sem ég keypti í svona setti – af því mig vantaði Finnegans Wake og Dubliners og það var ódýrara að kaupa settið með Ulysses og Portrait en þessar tvær stakar. Ég er búinn með formálann eftir Cedric Watts – sem var ágætis upprifjun en kannski engin uppljómun – og fyrstu þrjá þættina, Telemakkus, Nestor og Proteus. Sirka 50 síður – tveir fyrstu þættirnir eru til þess að gera venjulegur texti en sá þriðji er fyrsta vitundarflæði bókarinnar.
Hvað gerist í þessum þáttum? Eiginlega eru fræ að öllum helstu þemum og tæpt á því sem skiptir Stephen Dedalus mestu máli. Móðir hans er dáinn og það kemur fram að hann neitaði að biðja með henni á dánarbeðinu – af því hann hefur látið af trúnni. Þeir sambýlingarnir Buck Mulligan ræða þetta í Martello-turni og Buck álasar Stephen fyrir. Stephen virðist líka með samviskubit og í öllu falli neitar hann að klæðast öðru en svörtu – sem Buck finnst fyndið í ljósi hins.
Hjá Buck og Stephen gistir englendingurinn Haines. Sá er í Dyflinni til að nema gelísk mál og menningu og Buck og Stephen (eða kannski bara Buck?) siga honum á mjólkupóstinn, fullorðna konu, af því hún sé sérdeilis gott eintak af þvottekta Íra. Hún reynist auðvitað ekkert vita og ekki heldur kunna neina írsku. Í þessu kristallast eitthvað um samband hins imperíalíska við nýlenduna – heimsveldið hefur þurrkað út tungu heimamanna og svo snúið aftur til þess að hafa á henni lærðan áhuga, jafnvel ákveðið blæti, en þá er svo komið að heimamaðurinn er orðinn eitthvað annað, eitthvað sem vekur ekki sama áhuga lengur. Um þessa kúgun hefur Haines líka hin fleygu orð: „It seems history is to blame“ (sem ríma við orð Stephens síðar í kaflanum, þegar hann segir við hr. Deasy, yfirmann sinn í barnaskólanum: „History is a nightmare from which I’m trying to awake“). Skömmu áður hefur Stephen líka sagt við Buck að írsk list sé einsog brotinn spegill – „the cracked lookingglass of a servant“. Og það er í þann spegil kannski sem Haines horfir.
Annað við Haines er að hann þolir ekki gyðinga – þetta stef kemur aftur og aftur upp í bókinni. Allt versta fólkið í henni reynist vera gyðingahatarar. Og Leopold Bloom – sem er aðalhetjan í flestum köflunum – er auðvitað af gyðingaættum þótt hann praktíseri ekki.
Annar þátturinn gerist í skólanum þar sem Stephen kennir. Hann lætur skóladrengina fara með ljóð og leggur síðan fyrir þá gátu:
The cock crew
The sky was blue:
The bells in heaven
Were striking eleven.
Tis time for this poor soulto go to heaven.
Svarið, einsog þið hafið sjálfsagt getið ykkur til, er „the fox burying his grandmother under a holly bush“. Djók. Þetta er óleysanlegt rugl – og kannski fyrsta óleysanlega ruglið í bókinni (það verður nóg af því seinna). Fyrsta hreina ljóðræna upplausnin, skulum við segja, það er kurteislegra en „rugl“.
Svo fer hann að hitta skólastjórann til að fá laun og láta messa yfir sér um sparnað. Hr. Deasy er líka gyðingahatari sem endar sína innkomu í bókina á því að spyrja Stephen hvers vegna Írar hafi aldrei ofsótt gyðinga, og svarar gátunni sjálfur: Af því þeir hleyptu þeim aldrei inn til að byrja með. Í Ódysseifsskemanu er hr. Deasy Nestor – vitringurinn sem sonur Ódysseifs heimsækir og vonast til að geti sagt sér hvar faðir hans sé staddur. Hr. Deasy er skólastjóri í skólanum þar sem Stephen kennir og ætti að geta verið hinum unga Dedalusi einhvers konar mentor – en líkt og Nestor stendur hann á gati, veitir engin svör, bara meira tóm.
Þriðji þáttur fyrsta kafla segir frá gönguferð Stephens um Sandymount strand. Hér blandast saman það sem hann sér, það sem hann upplifir, það sem hann heyrir og svo framvegis. Hugsanir hans birtast manni einsog hugsanir gera – samhengislaust, vaða úr einu í annað, hugsa um fortíðina og skömmina og framtíðina og væntingarnar og allt sem fyrir augu ber jafn óðum og í einni bendu. Meðal annars hugsar Stephen um skáldsögur sem hann langar að skrifa og eiga allar að heita eftir bókstöfum – X og Q og svo framvegis – en Stephen er auðvitað staðgengill höfundar (og staðgengill Hamlets og Jesú Krists og fleiri). Hann sér dauðan hund, fólk sem er að tína skelfisk, konu sem hefur fest upp um sig pilsið og virðist vekja með honum einhverjar tilfinningar (þetta rímar við uppljómunina sem Stephen verður fyrir þegar hann sér konu við svipaðar aðstæður í lokin á A Portrait of the Artist as a Young Man og líka við glápið í Leopold Bloom síðar í Nausicaa kaflanum – og allt gerist á þessari sömu Sandymount Strand). Hann hugsar talsvert um drukknun og eðli drukknunar – hvað hún geri við líkama og sál – og að lokum borar hann í nefið og klínir horinu á stein. Og einhvern tíma um svipað leyti tekur hann ákvörðun um að snúa ekki aftur í Martello-turn um kvöldið – hann þolir hvorki Buck né Haines.
Mér finnst einsog þessi lestur hafi verið meiri glíma í fyrra. Mér var hins vegar talsverð nautn að stíga aftur inn í þennan heim og þetta rann allt mjög vel – meira að segja Proteus. Og ég hlakka mikið til að byrja á næsta kafla, Calypso, sem var minn eftirlætis í fyrra – sérstaklega upphafið. Þá birtist líka Leopold Bloom og með honum ný og æsileg þemu – skömm og hömluleysi. Bloom er heldur ekki jafn mikill intellektúal og hinn ungi Dedalus – hann er í sjálfu sér alveg jafn fastur í hausnum á sér, fastur í hugsunum sínum, en hann er ekki stanslaust að reyna að skilja þær eða setja þær í samhengi við heimsbókmenntirnar. Ætli maður að skilja innri mónólóg Dedalusar að einhverju marki þarf maður helst að vera með fimm doktorspróf í klassískum bókmenntum og tungumálum. Ekki þar fyrir að það er ýmislegt óskiljanlegt sem gerist í kollinum á Bloom líka – það er bara annars eðlis.