Jæja. Mánudagur. Það er úr mér mestur hrollur. Þetta er allt að smella saman, held ég. Ég er allavega að skrifa eitthvað og mér líst yfirleitt best á þetta þegar ég er að skrifa. Frekar en þegar ég er bara að lesa og vorkenna mér fyrir að vera heilalaust fífl.

***

Nú er að vísu mikill lestur framundan. Ég komst út á enda í bókinni í Færeyjum (sem þýðir ekki að ég sé búinn, vel að merkja, hvergi nærri) og er búinn að lesa mig einu sinni í gegn, prenta handritið út og nú liggur það á púltinu sem Valur bróðir smíðaði handa mér – og ég er búinn að stilla bókastandinum sem Haukur Már gaf mér upp fyrir ofan, þar sem ég get raðað lesnum síðum jafn óðum.

***

En ég hef verið að skrifa aðeins í leikritið, sem sagt. Sem er auðvitað löngu, löngu, löngu tilbúið (ég komst út á enda á því í október).

***

Leikritið Hans Blær verður frumsýnt 10. mars. Ég leit við í Tjarnarbíó á mánudaginn fyrir viku og sýnist þetta allt vera á bærilegri leið. Handritið hefur tekið talsverðum breytingum – textinn er enn næstum allur minn en það er búið að afbyggja hann hér og þar, búa til ramma sem henta sýningunni, salnum, leikarahópnum, sviðsmyndinni og svo framvegis. Ég er enn að skrifa styttri texta til að stoppa í göt og lesa í gegnum breytingartillögur. Ég kann auðvitað ekkert að skrifa leikrit, einsog ég hef margoft sagt – sennilega oftast við Vigga, leikstjórann. Ég fer aldrei í leikhús. Hef ekkert vit á þessu. Besta senan sem ég skrifaði í leikritið hefði sennilega tekið 40 mínútur í flutningi – ef leikararnir hefðu drifið sig – og hún hefði verið frábær þannig. En það hefði eiginlega ekki verið pláss fyrir neitt annað. Nú er hún – tja, fimm mínútur, giska ég. Það er passlegt. En þið trúið ekki hvað ég var sniðugur í 40 mínútna útgáfunni. Leikhúsið hreinlega hrundi um sjálft sig í eilífum snúningum. Var næstum jafn gott og bók. Ég verð eiginlega að láta að setja bara upp þessa senu einhvern tíma.

***

Ég reikna ekki með því að það fari nema svona þriðjungur af þeim texta sem ég skrifaði á svið. Án þess að ég hafi góða yfirsjón yfir það.

***

Í leikhúsi er líka alltaf verið að einfalda hlutina. Ef maður missir þráðinn í bók les maður bara setninguna/síðuna/kaflann aftur. Ef maður missir þráðinn í leikhúsi er maður bara búinn að vera restina af sýningunni. Skilur ekki neitt. Þetta hentar mér mjög illa því bókmenntir mínar ganga allar meira og minna út á að flækja hlutina og rugla í hinu smávægilega (sem vekur talsvert minni eftirtekt á leiksviði). Ég sker að vísu grimmt niður texta sem ég skrifa en hvergi nærri eins grimmt og í leikhúsinu. Stundum er textinn í leikverki líka ekkert nema beinagrind – aukmerkingalaus – sem sýningin er svo byggð utan á. Sérstaklega þar sem leikhópurinn hefur fengið að fitla við verkið (einsog er sannarlega raunin með Óskabörn ógæfunnar, sem eru fiktsjúk). Þar með verður öll aukmerking á forræði leikhópsins sem setur verkið upp. Í stað þess að setningarnar bíti sig í rassinn og snúist í hringi bíta augngoturnar bendingarnar í rassinn og rassarnir snúast í hringi um sviðsmyndina. Í sjálfu sér meikar það sens. Þetta er leikhús.

***

Samband bókmennta og leikhúss er annars mjög infekterað, held ég. Mjög óheilbrigt á báða bóga. Best væri ef leikverk væru bara lesinn upphátt og leikarar færu bara allir að mæma.

***

En svo finnst mér líka bara gaman að ranta. Rantið er vanmetið listform.

***

Ég er að lesa frekar skemmtilega bók. Næstum búinn. Cock and Bull eftir Will Self. Tvær nóvellur. Önnur um konu sem fær skyndilega lim og hin um mann sem fær skyndilega kuntu. Í hnésbótina! (Konan fær liminn bara á kuntuna). Ég hef kannski einhver orð um hana hérna í næstu viku. Eða einhverja aðra úr Hans Blævar hillunni. Ég er líka búinn að gera mér ansi drjúgan lista af kvik- og heimildamyndum til þess að horfa á á næstu vikum og mánuðum. Og margt eftir í hillunni líka og eitthvað enn hreinlega í körfunni á Amazon.

I am Myra Breckinridge, whom no man will ever possess. The new woman whose astonishing history started with a surgeon’s scalpel, and will end… who-knows-where. Just as Eve was born from Adam’s rib, so Myron died to give birth to Myra.

Á dögunum horfði ég á bíómyndina Myra Breckinridge, með Raquel Welch, John Huston og fjörgamalli Mae West (og fleirum auðvitað). Myndin er gerð árið 1970 eftir rómaðri og samnefndri skáldsögu Gore Vidals – sem ég pantaði fyrir nokkru og er að bíða eftir. Eða hugsanlega er hún að bíða eftir mér, á pósthúsinu á Ísafirði (ég er á heimleið frá vikudvöl við kennslu og skriftir í Færeyjum). Bókin fékk frábærar krítískar viðtökur en var umdeild, vegna innihalds – hún var kölluð siðlaust klám og viðbjóður – en Harold Bloom hafði hana með í frægri „kanónu“ sinni.

Kvikmyndin fjallar einsog bókin um samnefndan transa, Myru/Myron Breckinridge, sem fer í aðgerð meðal annars til þess að koma til leiðar „the destruction of the American male in all its particulars“. Aðeins minna abstrakt fjallar hún um tilraun Myru til þess að fá í hendurnar arf, sem tilheyrir Myron, frá ríkum frænda sínum. Myra læst vera eiginkona Myrons, sem sé látin, en frændinn vill ekki heyra á þetta minnst, setur allt í lögfræðing, en leyfir henni að starfa sem kennari í leiklistarskóla sínum – til hálfgerðrar málamyndunar. Þar kynnist hún ungu pari sem hún reynir að forfæra og gengur bróðurpartur myndarinnar út á þann plottpunkt.

American women are eager for men to rape them. And vice versa.

Myra lætur svo heldur betur til sín taka í nauðgunardeildinni í einhverri epískustu pegging senu vestrænnar kvikmyndasögu. Það er rosalegt til þess að hugsa að Raquel hafi leikið í henni – og gert það stórkostlega – því á þessum tíma var alveg áreiðanlega ekki mjög fínt fyrir kynbombu að leika transa. Mae West sagði víst, strax og hún hitti Raquel, að „svona hlutverk“ léki engin „alvöru kona“ og neitaði að birtast í ramma með henni (þær eru saman í senum, en aldrei báðar á skjánum samtímis). Raquel tók þessum ummælum ekki vel og tökur einkenndust af miklum erjum þeirra á millum – og gríðarlegri marijúananotkun annarra leikara og starfsmanna.

Skemmst er frá því að segja að Myra er einn af nánustu ættingjum Hans Blævar sem ég hef fundið hingað til, og bíómyndin er frábær, snargeðveik snilld – og floppaði svo fullkomlega og algerlega að flestir sem að henni komu eyddu ævinni í að sverja fyrir hana. Meira að segja Gore Vidal reyndi að fá nafn sitt fjarlægt af henni („næstversta mynd sem ég hef séð“). Handritið var umskrifað þúsund sinnum og þegar leikararnir hváðu sagði leikstjórinn bara að myndin yrði „very visual“ (sem hún er). Já og Janis Joplin dissaði hana í Dick Cavett Show, þar sem hún var í viðtali MEÐ Raquel við hliðina á sér („It’s so choppy, I just didn’t understand it, it kept changing“ sagði Janis, „Well, it’s about change“ svaraði Raquel snúðug).

4,3 í einkunn á IMDB (The Room er með 3,6). Leikstjórinn fékk aldrei neitt meira að gera (fyrren hann söðlaði um og gerðist leikari).

Ég er viss um að ég verð ekki síður ánægður með skáldsöguna.

Þriðjudagur: Vikan byrjaði ekki vel. Stundum er álagið bara svo mikið. Ekki bara bókin – og ég er í fríi frá leikritinu á meðan Óskabörnin kalla ekki – en hún er plássfrekust. Mig langaði að brjóta allt sem ég komst í snertingu við og fannst einsog hver einasta mínúta – hvort heldur var við eða frá vinnu – væri glötuð mínúta. Þetta er ekki gott. Það er undarlegt hvað maður getur kastast á milli þess að finnast maður vera snillingur, fáviti, stjarna og þræll.

***

Næst ætla ég að skrifa bók sem fjallar um vonina. Og hvað vonin sé góð. Og um ástina og hvað sé gott að elska. Það verður frábært.

***

Miðvikudagur: Það stóð ekki til að fyrsta dagbókarvikan yrði einhver þunglyndisefi. Þetta átti að vera einn viðstöðulaus sigur út í gegn. Ég ætlaði að fara svolítið í gegnum bækurnar sem ég hef verið að lesa og tengjast efninu. En nei. Svo lendi ég bara í einhverri tilvistarkrísu. Einmitt þegar ég hélt ég væri seif.

***

Eitt sinn fannst mér auðvelt að skrifa skáldsögu, tilhugsunin hlægileg (nei djók), en svo finnst mér það ekki lengur. Ég fékk mjög fínan lestur frá traustum yfirlesara sem var mjög hrifinn en benti líka á misbresti sem urðu til þess að nú liggur helvítis skepnan úrbeinuð og í milljón bitum úti um allt og ég veit ekkert – EKKERT – hvernig ég á að púsla henni saman þannig að allt gangi upp.

***

Fimmtudagur: Efi leystur. Ég er séní. Byrjaður að raða saman þessum bútum og þetta gengur áreiðanlega upp.

***

Föstudagur: Keyrði suður. Átti fund með ritstjóra og bókmenntasinnuðum maka hennar á Kaffi Laugalæk. Við erum á sömu blaðsíðu með hvað þarf að gera og hvort það sé eitthvað varið í þetta.

***

Laugardagur. Júróvisjón og fyllerí með leikstjóra. Við erum líka á sömu blaðsíðu. Það eru allir á sömu blaðsíðu. Feillinn blasir við. En þetta er allt að koma. Vantar bara að blása lífi í gólemið. Starta vélinni, hreinsa og skrúbba, fara á rúntinn.

***

Sunnudagur. Held áfram að raða í mig bókum í þemanu. Var bent á Sigurvegarann – sem verk um narsissisma. Það er auðvitað eitt af vandamálum þessara bókar – sem verður próblematísk jafnvel þó, og kannski einna helst, ef allt gengur upp – að bækur sem eru í grunninn rant úr sjálfhverfum skíthælum eru alltaf … já rant úr sjálfhverfum skíthælum. Og hver nennir að lesa slíkt? Nógu eru þeir leiðinlegir bara svona á kránni (þeir blómstra svolítið á kránni). Ég ætla að reyna að taka einn mánudag á mánuði í einhverja af þessum bókum – sem eru fæstar skáldsögur, vel að merkja.

***

Mánudagur: Farinn til Færeyja. Hlustaði á viðtal við Öldu Villiljós á leiðinni til Keflavíkur – það var mjög fínt.

Næstu fjóra sólarhringa get ég einbeitt mér að engu nema Hans Blævi. Ég er, einsog ég nefndi, byrjaður að raða bútunum aftur saman, en í sjálfu sér er ég ekki búinn að raða miklu saman – bara rétt blábyrjuninni (eða kafla sem verður a.m.k. frekar framarlega). Ef vel gengur ætti ég að geta púslað hálfri bókinni saman fyrir fimmtudagskvöld – svo kenni ég á námskeiði yfir helgina (en hef kvöldin fyrir mig).

Næstu 30-40 mánudaga ætla ég að helga vinnudagbók Hans Blævar. Bókin er auðvitað næstum búin og það sama gildir um leikritið, en það er líka fífldirfska að ræða bækur (eða leikrit) mikið áður en þau eru fokheld. Því maður veit ekkert hvert þær ætla (og veit það raunar aldrei).

***

Í september 2014 dvaldist ég mánaðarlangt einn á litlum herragarði skammt utan við þorpið Jonsered, sem sjálft er skammt utan við Gautaborg. Ég hafði hlotið Villa Martinson styrkinn og bjó í samnefndu húsi, á æskuslóðum nóbelsskáldsins Harry Martinson. Þar skokkaði ég um holt og hæðir, gerði jóga í dagrenningu á tíu metra háu stökkbretti við stöðuvatnið og fylgdist með kuldanum læsa fingrum sínum í villuna, eftir því sem leið á mánuðinn, heita vatninu bresta, húsinu kólna, netinu deyja og músunum naga sér leið gegnum bitana í innveggjunum. Síðustu dögunum eyddi ég á hóteli inni í Gautaborg enda orðið ólíft í húsinu, og nýlega var mér tjáð að ég hefði verið síðasti styrkþeginn þarna – því húsið hefði ekki þótt duga. Það var samt fínt að vera þarna þar til fór að kólna. Friður og ró.

***

Lengst af þótti mér sem ég hefði engu komið í verk þarna. Að vísu skrifaði ég heila bók – 150-200 síður, sennilega – en bókin reyndist, þegar á hólminn var komið, alls ekki mönnum bjóðandi. Þannig er því yfirleitt farið um það sem er fljótskrifað. Þetta var reyfari, stefnulaus (viljandi) og alveg án nokkurrar fullnægju – morðið sem bókin hófst á var öllu óviðkomandi. Og raunar var það helsti galli bókarinnar að hún var eiginlega ekki um neitt annað heldur. Og hennar helsti kostur, svona þegar ég hugsa út í það.

***

Ég veit aldrei hvað mér finnst um að skrifa fyrir ruslafötuna. Það þarf augljóslega líka. En það er þungt að þurfa að henda heilu og hálfu bókunum.

***

Morðið var klassískt. Það var framið á herragarði (ekki Villa Martinson) í miðju matarboði. Enginn var viðstaddur og þegar viðkomandi lést sátu allir aðrir gestir í borðstofunni. Einn af gestunum hét Hans Blær og var transkynja strætóbílstjóri. Aðalsöguhetjan í þessari ómögulegu skáldsögu var hins vegar leynilögreglumaður og samskipti hans við Hans Blævi eru fram úr hófi asnaleg og hann kemst eiginlega aldrei að kjarna málsins (frekar en bókin sjálf), getur ekki yfirheyrt Hans Blævi fyrir vandræðagangi.

***

Hans Blær var ljóshærð(ur) með hálfsítt hár hægra megin, rétt niður fyrir eyra, en sléttrakað vinstra megin. Hán var hávaxin(n), líklega rétt undir 190 cm, klædd(ur) í litríka og snyrtilega (dýra) mussu sem náði rétt niður fyrir rass, hvítar terlínbuxur og brúna leðursandala. Hán var með gleraugu með svörtum, þykkum, kassalaga ramma, stutta og tilklippta barta – góða skeggrót – og barmmerki sem á stóð „Yoga kills“.

[…]

„Ég vil byrja á því að forvitnast – þú fyrirgefur, þér mun sjálfsagt finnast þessar spurningar heimskulegar …“

„Það eru engar heimskulegar spurningar, einungis heimskuleg svör“ sagði Hans Blær og krosslagði fæturna í sófanum. Hippi hugsaði ég en meinti krútt eða póstkrútt, knúskrútt, og fann hvernig fordómarnir blossuðu upp. Hann hugsar um Coelho til að fá það, hugsaði ég.

„Í fyrsta lagi: hvernig viltu að ég ávarpi þig?“

„Meinarðu í hvaða kyni?“

„Já.“

„Ef þú vilt virða mig heldurðu þig við hvorugkyn. Annars er þetta víst frjálst land.“

„Og nafnið? Hvernig beygi ég það?“

„Hans í karlkyni – Hans um Hans frá Hans til Hans – og Blær í kvenkyni. Blær um Blæ frá Blævi til Blævar.“

Mig langaði að segja eitthvað um blæbrigði en náði að stoppa mig á síðustu stundu. „Hvaðan ertu?“

„Frá stelpu í strák.“

„Ha?“

„Var það ekki það sem þú varst að spyrja?“

„Ég átti við, hvaðan á landinu.“

„Bíldudal, upprunalega.“

„Upprunalega?“

„Ég flutti þegar ég var tvítugt.“

„Hvað ertu … gamalt … núna?“

„Tuttuguogþriggja.“

„Og þú keyrir strætó?“

„Frá því í febrúar. Ég vann í þörungaverksmiðjunni fyrir vestan og þau borguðu fyrir mig meiraprófið. Betur borgað en að vera á sambýli. Þessar aðgerðir eru ekki ókeypis.“

„Heitirðu Hans Blær í þjóðskrá?“

„Nei.“

„Hvað heitirðu í þjóðskrá?“

„Skiptir það máli?“

„Já.“

„Er ekki nóg að þú fáir kennitöluna mína? Þú getur svo flett þessari lygi upp sjálfur.“

„Nei, þú verður líka að segja mér hvað þú heitir. Þetta styður allt hvert annað. Ég ber saman nafn og kennitölu til að vita við hvern ég hef verið að tala. Ef nafnið passar ekki við kennitöluna eða öfugt hef ég augljóslega tekið annað hvort ranglega niður.“

***

Og svo framvegis og svo framvegis. Ég kláraði bókina og Hans Blær kom í sjálfu sér ekkert mikið meira við sögu – ég ákvað að skrifa hana ekki heldur henda henni í ruslið og snúa mér aftur að Heimsku sem ég hafði verið að vandræðast með misserin á undan (og þessi bók var í raun hugsuð sem einhvers konar útgáfa af Heimsku, en það er pínu langsótt samt).

***

Ég kláraði Heimsku hálfu ári síðar og byrjaði fljótlega upp úr því að vinna í Hans Blævi. Síðan þá hefur mikið blóð runnið til sjávar. Sviti, tár og aðrir líkamsvessar. Hans Blær er ekki lengur strætóbílstjóri heldur fjölmiðlastjarna. Hán er eldra (f. 1984) og hán er ekki PC-vinstrimanneskja – raunar því síður, hán er tröll, ekki minna transgressíft en transgender. Ég veit ekki hvort hægrisinnað er hugtak sem á við – það er hálfgerður anakrónismi þegar hán er annars vegar, enda er hán bæði eitthvað miklu eldra og eitthvað alveg nýtt. En að því sögðu er hán allavega ekki vinstrisinnað. Þá er kyngervi hánar ansi miklu flóknara núorðið en að hán sé bara „frá stelpu í strák“.

 

***

En það er víst best að ég verði ekki of langorður. Þótt það sé margt að segja. Meira síðar.

Fyrsti vinnudagur eftir jólafrí. Ég kann vel við að vera í vinnunni en suma daga þegar ég les það sem ég hef verið að skrifa hata ég það. Ég er alltof sínískur og stundum röfla ég bara viðstöðulaust og stundum einkennast frásagnir mínar af þindarlausri deyfð. Það er nú eitthvað annað en hjá honum Jónasi Reyni, sem ég hef verið að lesa í kvöld og er næstum búinn með – dæmalaust fljótlesið og fínt og uppáfyndingarsamt, einsog fleiri hafa bent á. Ég held ég hafi verið þessi María árum saman. Allt mjög kunnuglegt. Fór í reglulegar sólarhringsferðir til Reykjavíkur á þrítugsaldrinum – að vísu meira frá Ísafirði en Brighton, hvert ég hef aldrei komið, og ég átti sjaldan pening til að vera að drekka á börum og svona, eða spila í spilakössum, en það er sama.

***

Ég kláraði ævisögu Önnu Kristjáns í gær og veit nú meira um skipsvélar en ég hélt að ég myndi nokkru sinni gera, og verð þó sennilega búinn að gleyma því öllu fyrir áramót. Hún segir frá ótrúlega mörgum samferðamönnum sínum en lítið frá fjölskyldu sinni – kannski er það sjómannstrámað, að kynnast skipsfélögum betur en börnunum sínum, og kannski eru persónulegar ástæður að baki – og það er furðu lítið líka um kynama hennar, sérstaklega framan af. Ég held að það hafi fáir gaman af vélasögunum, en það er kannski misskilningur. Skemmtilegust er bókin þegar húmor Önnu skín í gegn, en hún er bráðfyndin einsog allir vita sem hafa lesið bloggið hennar – en það er alltof mikill annálabragur á bókinni.

***

***

Sá hluti sem snýr að kynama Önnu og baráttunnar fyrir kynleiðréttingu er langáhugaverðasti hluti bókarinnar, fyrir þá sem hafa aldrei lært vélstjórn, og hann er vel úr garði gerður þótt hann mætti vera miklu lengri.

***

Ég er byrjaður að skipuleggja mikið meinlætisátak í janúar. Ætla að láta af öllum hobbíreykingum og áfengissulli, hætta að sofa fram eftir öllu og reyna að einbeita mér að vinnunni af meiri krafti. Mér gengur illa að ná utan um ákveðna hluta skáldsögunnar – leikritið (um sama efni) er auðvitað „nánast“ tilbúið, það er að fara í æfingar og þeim fylgir sennilega talsverð vinna við að stagbæta og kasta og endurskrifa.

***

Það er líka svolítið mikið myrkur og ég hef ekki verið nógu mikið utandyra.

***

Pantaði mér hægindastól á skrifstofuna og er að leggja á ráðin um að hækka skrifborðið um tíu sentimetra, svo það henti mér betur. Pantaði líka bækur aðallega í tveimur kategóríum: 1) Trönsur og 2) (Alt-right)-Tröll. Í einhverjum skilningi eru þetta ósamrýmanlegar kategóríur, sem koma þó saman í Hans Blævi, sem er transatröll, tröllatransa. Trönsur þola annars ekki tröll, og tröll þola ekki trönsur. En tröll elska kaos og trönsur valda kaosi í heimi sem frelsi þeirra og hugrekki ógnar. Í upphafi hélt ég að Hans Blær væri ekki transa „í alvörunni“ en nú þegar ég hef kynnst hánum betur veit ég að hán er jafn mikil transa og hán er tröll; hlutverkin bánsa hvort af öðru, blása hvort annað upp og tortíma hvort öðru, þetta er kjarninn í hvirfilbylnum, hlýja loftið sem mætir kalda loftinu og sendir strókinn af stað.

***

Þetta er það sem ég er að fást við. Leikverkið verður frumsýnt í mars en sagan mun fylgja mér lengur – þetta verður líka skáldsaga og hugsanlega kemur hún ekki fyrren 2019. Í öllu falli ekki fyrren í fyrsta lagi haustið 2018.

***

„Eiríkur, er ekki stafsetningarvilla í tilkynningunni?“, spurði vinur minn í gær. Og átti við orðið „hán“. Hans Blær er hán – ekki hún, ekki hann, heldur hán. Það beygi ég svona:

Hán
Hána
Hánum
Hánar.

***

Hans Blævi beygi ég svona:

Hans Blær
Hans Blæ
Hans Blævi
Hans Blævar

***

Einhvern tímann var hán byggt á Milo Yiannopolous – en það er ansi langt síðan. Og það eru fleiri einstaklingar skyldleikaræktaðir við Hans Blævi núorðið – hán raðar á sig ættingjum, bæði úr röðum góða fólksins og vonda fólksins, og á sennilega eftir að bæta á sig nokkrum til viðbótar.

***

Ég er búinn að skrifa fyrsta handrit að leikritinu en er að endurskrifa það (hættan er auðvitað sú að ég breyti einhverju drastísku og allur kynningartextinn fari á hliðina, en það verður þá bara að hafa það – það skiptir meira máli að verkið verði rétt en að kynningartextinn verði það). Þetta er móralskt jarðsprengjusvæði og ég hef ekki nokkurn rétt til að vera þar. En rithöfundurinn er í sjálfu sér alls staðar í óleyfi – við þetta vinnur maður, tilfinningalegt, siðferðislegt og pólitískt trespassing.

***

Ég er að reyna að gæta mín á að verða ekki of sínískur samt. Maður vinnur líka við að elska, láta sér þykja vænt um fólk og bera virðingu fyrir því. Sem er erfitt þegar aðalsöguhetjan – sú sem maður elskar meira en allar hinar – er viðundur og illmenni. Hán er ekki viðundur eða illmenni fyrir að vera trans – það er hánum sennilega ekkert nema siðferðisleg fjarvistarsönnun, átylla til þess að geta leyft sér að níða skóinn af gapandi réttlætisriddurum, hluti af tröllalátunum. Og þar með alls ekki víst að hán sé trans – í eiginlegum skilningi þess hugtaks, að hán hafi leiðrétt kyn sitt frekar en bara skipt vegna þess að það hentaði.

***

Það hentar hánum að vera transi því það eitt og sér gerir íhaldsbullurnar vitlausar. Og það hentar hánum að vera transi því að vinstraliðið kann ekki að hantera í hánum fasismann.

***

Hans Blær er fyrst og fremst tröll. Allt annað í persónu hánar tekur mið af því af því að hán vill gera fólk vitlaust.

***

Þetta er fréttatilkynningin:

Hafið þið nokkurn tíma spurt ykkur hvaða eiginleika manneskja þyrfti að hafa til þess að þið gætuð verið þess fullviss að viðkomandi væri að öllu leyti, innra sem ytra, óferjandi skíthæll og viðundur?
Og ef ekki – Hvers vegna í ósköpunum ekki?

Hans Blær Viggósbur er gjálífiströll með uppleysta sjálfsmynd, ofvirka tískuvitund og egó í hjartastað. Hán er glundroðamaskína í fjölkynja líkama sem lifir fyrir það eitt að storka heiminum og trekkja upp hina viðkvæmu.

Allt frá því hán komst fyrst í tæri við hamstrahjól fjöl- og félagsmiðlunar hefur Hans Blær verið á milli tannanna á þjóðinni, sem sýpur hveljur og skríkir til skiptis, en skemmtir sér alltaf vel.

Þegar upp kemst að Hans Blær hefur notað nauðgunarmeðferðarheimilið Samastað til þess að svala afbrigðilegum fýsnum sínum er hugsanlegt – rétt svo hugsanlegt – að samfélagið hafi loks fengið nægju sína og þjóðin sé hætt að flissa.

Óskabörn ógæfunnar og Eiríkur Örn Norðdahl unnu síðast saman að leiksýningunni Illska sem hlaut sex tilnefningar til Grímunar, þar á meðal sýning ársins og leikrit ársins.

Nú matreiða þau ískalt lík tröllasamfélagsins ofan í gapandi vandláta skolta ofurmeðvitaðra hipsterkúreka og réttlætisriddara – á besta stað í borginni – og bera það fram snyrtilega niðursneitt á nýuppþvegnu silfurfati.

Skemmtið ykkur í guðanna bænum vel.

Þetta verður tótal hatefest.