Þetta var furðu viðburðarík vika miðað við hvað ég er eitthvað rólegur. Á miðvikudag hófum við Örn Elías Mugison upptökur á hljóðbókinni Hans Blær, þar sem ég syng og geri eftirhermur, á fimmtudag kom Hans Blær í búðir, á föstudag var sjálfur Hans Blævar dagurinn – dagurinn sem bókin gerist – og á laugardag birtist langt drottningarviðtal við mig á Vísi þar sem kvenréttindaskelfirinn Jakob Bjarnar jós mig svoleiðis lofi að mér verður sennilega aldrei aftur boðið í nein femínistapartí meðan ég lifi. Viðtalið var annars held ég ágætt. Og með því fylgir fyrsti kafli Hans Blævar á hljóðbók.

***

Þessi vika fer í að undirbúa útgáfuhófið sem verður á laugardaginn næsta í nýopnuðu kaffi- og öldurhúsi vina minna Lísbetar og Gunnars. Það heitir Heimabyggð og er þar sem Langi Mangi og Bræðraborg voru áður. Og opnar raunar ekki sjálft fyrr en á fimmtudag. Þar verður boðið upp á ísfirskan Dokkubjór sem vill til að bróðir minn bruggar – þetta er dúndurglundur sem hefur hlotið mikið lof. Bókin verður á tilboði og ég ætla að árita bækur og spjalla um bókina og lesa upp úr henni. En aðallega ætla ég bara að reyna að skemmta mér og vera ekki taugaveiklað hrak.

Farið hingað og merkið ykkur komandi – og segið vinum ykkar frá þessu. Eða í það minnsta vinum mínum.

***

Annað sem gerðist í síðustu viku. Óratorrek kom út í Danmörku – Oratormonologer – og fór í prentun í Svíþjóð, þar sem hún heitir Oralorium. Nanna Kalkar og John Swedenmark þýða. Illska kom úr prentun á Spáni, Enrique Bernandez þýðir, og ætti að detta inn í búðir síðar í mánuðinum, einsog Króatíska útgáfan – sem ég veit hreinlega ekki hver þýðir. Svo fékk ég líka í hendurnar loksins DV Menningaverðlaunin mín, sem eru komin á grobbvegginn, það er nú ekkert eðlilegt hvað ég er mikill verðlaunagrís.

Tilvitnun vikunnar

Hans Blær reif síðustu þrjár arkirnar af klósettrúllunni, skeindi sig, sparkaði af sér nærbuxunum og stóð á fætur. Í augnablik stóð hán svo bara og dáðist að sér nöktu í speglinum – þessum líka líkama, blessun að vera þetta undur, hán blakaði nasavængjunum, þandi brjóstkassann svo fast að hán óttaðist að það kæmi sprunga í hann, lyfti upp brjóstunum með lófunum, stóð gleitt og gerði heiðarlega tilraun til þess að stara sína eigin spegilmynd í duftið – flýtti sér síðan í gallabuxurnar og hettupeysuna sem hán hafði kippt með sér að heiman. Hán var ekki í neinum nærbol, skildi skítugar naríurnar eftir á gólfinu ásamt náttsloppnum, og hán var berfætt í Birkenstock-klossunum þegar hán þrammaði út af bensínstöðinni. Klukkan var rétt að verða hálfátta að morgni 26. október, síðasta dags haustsins, og það spáði stórhríð með kvöldinu. Hán hóaði í leigubíl.

Hans Blær – Eiríkur Örn Norðdahl

Þegar ég byrjaði að skrifa Hans Blævi hafði ég fyrst og fremst áhuga á aðlögunarhæfni öfgahægrisins og því hvernig fasistar umfaðma mótsagnir sínar – einsog þegar fólk af afrískum uppruna gengur til liðs við Le Front National í Frakklandi; eða konur, oft sterkar og ákveðna konur, gerast sjálfviljugar talsmenn þess að konur séu fyrst og fremst eldabuskur og mellur.

En svo verða bækur alltaf að einhverju öðru á ferðalaginu – þær spyrja sinna eigin spurninga og Hans Blær er miklu ólíkari fyrirmyndum sínum en ég hélt að hán yrði. Sem er auðvitað gott, það er það sem maður sækist eftir sem höfundur, þá hefur eitthvað tekist vel. Hans Blær er sín eigin persóna og verður ekki einfaldlega smættað niður í myndlíkingu fyrir eitt eða annað – þótt bókin um hána varpi vonandi einhverju ljósi á samfélagið sem við lifum í. Hán er í sann miklu sárari, reiðari og sterkari – aðdáunarverðari og fyrirlitlegri í senn – og meira kaos. Fasistar eru yfirleitt alveg hnausþykkir fábjánar – en Hans Blær er vel gefið, vel lesið og snarpt.

Síðustu ár og áratugi höfum við skoðað sjálfsmyndir okkar í kjölinn – og allar bækur mínar fjalla í raun um það hver við séum, hver við fáum að vera, og hvernig við komum sjálfum okkur og öðrum fyrir sjónir – og þessari rannsókn, sem er stundum naflaskoðun og stundum valdagreining, fylgir sú meinloka að afstaða okkar til lífsins stýrist einfaldlega af „stöðu okkar í samfélaginu“ eða ídentíteti – einsog við værum hverjir aðrir taflmenn. En svo er það auðvitað ekki. Þeir sem tilheyra einum minnihlutahópi standa til dæmis ekki ósjálfrátt með öllum sem tilheyra öðrum minnihlutahópum.

Þegar við smættum pólitíkina svona niður í spurninguna um ídentítet breytum við ídentítetinu í vopn sem getur síðan hæglega snúist í höndunum á okkur. Marine Le Pen er kona, Kent Ekeroth er gyðingur af innflytjendaættum, Toni Iwobi er svartur innflytjandi, Blaire White er transkona, Milo Yiannapoulus er hommi af gyðingaættum og giftur svörtum manni – hvernig getur nokkuð af þessu fólki verið málsmetandi fasistar eða mótfallið mannréttindum minnihlutahópa? Fá þau afslátt á skoðunum sínum – kunnum við að hantera þetta, á tímum sem leggja minna upp úr því sem sagt er, en því hver segir það? Hvenær er afstaða Blaire White til réttinda transfólks rétthærri en mín – í öllum mínum hvíta sísheteróljóma – og hvenær er hún það ekki?

Hans Blær beitir ekki bara kyni sínu – eða kynjum, réttara sagt – heldur verður hánum öll viðkvæmni samfélagsins að vopni, öll hysterían. Hán veit að á þessu brjálaða tempói, þessum knee-jerk viðbragðsflýti og sjálfvirku hneykslun á öllum vígstöðvum, skiptir ekkert máli nema það hvar fókusinn liggur það og það augnablikið. Þá er þetta ekki lengur spurning hver hlær síðast, heldur hver sagði síðast eitthvað spennandi, fyndið, æsilegt, eitthvað sem maður bara verður að smella á – því það er engin samfella eftir í lífinu hvort eð er heldur hefur það breyst í hrauk af nánast ótengdum augnablikum.

Við byrjum hvern einasta dag svona, skrollum okkur í gegnum Facebook og finnum til samlíðunar, gleði, hryllings, reiði – við tárumst yfir vinum sem létust, fögnum nýfæddum börnum, skrifum undir undirskriftalista gegn flóttamannastefnunni, hlæjum að einhverri fyndni, hneykslumst að einhverri heimsku, lækum allt á ólíkum forsendum, afvinum gamla vini og vinum nýja – og allt þetta áður en við einu sinni kveikjum á kaffivélinni. Og á meðan hún er að laga kaffið gerum við þetta aftur. Aftur í strætó á leiðinni í vinnuna. Af og til allan vinnudaginn. Á leiðinni heim. Svo meðan pizzan er í ofninum. Þegar við förum á klósettið. Áður en við sofnum. Og aldrei dveljum við lengur en örfáar sekúndur í hverri hugsun eða tilfinningunni sem hún vekur. Það er ekkert skrítið þótt afstaða okkar til veruleikans sé skitsó eða að mörg okkar eigi við alvarleg kvíðavandamál að stríða – það er engin ráðgáta.

Þessum veruleika hefur Hans Blær lært að beita til þess að meiða samfélag sem hefur löngum meitt hána. Og sennilega er það það sem vakir fyrir hánum fyrst og fremst – miklu frekar en einhver afturhaldspólitík eða ídentítetspólitík, eitthvað hægri eða eitthvað vinstri. Hán vill bara skilja eftir sig sviðna jörð í heimi sem hefur komið fram við hána einsog skít.

Tilvitnun vikunnar

There are pimps and there are ho’s. There are rules to the game these players play, and one of the rules is cash at hand and sex on demand. There are rules to the game that prosecutes these players, and one of the rules is that what counts as consent gets to be determined courtside. An expert can testify that pimp-ho sex is noncensual by definition, thus turning every sexual transaction into a sex crime. Like Antoinette the partying girl and Zeina the late-night date, those who go pro lose their sexual autonomy – on both sides of the legal divide. For on this point, judge and pimp agree: only the uninebriated and the unpaid are allowed to freely choose to have sex.

The Guilt Project: Rape, Morality and the Law – Vanessa Place

Ég gaf mömmu eintakið mitt af Hans Blævi og hef ekkert hugsað um hána alla vikuna. Nú þarf ég bara að losna við bókafjöldann af skrifborðinu mínu og koma honum í einhvers konar hillu. En hvar á ég að hafa þessa hillu? Fyrir framan hinar hillurnar mínar?

***

Í næstu viku fer ég svo til Súðavíkur að taka upp hljóðbókina. Í millitíðinni skýst ég sem kennaramaki í kennaraferð til Lundúna. Þar ætla ég að sinna vistsporinu mínu og hafa áhyggjur af loftslagsmálum og sjá guadalúpísku blússveitina Delgrés spila. Ég ætla líka að kaupa mér heimskautahvítan Fender Telecaster smíðaðan í Mexíkó. Notaðan, sem ég fékk fyrir slikk, nokkurn veginn sama og ég fékk fyrir Epiphone SG-inn. Þá á ég tvo rafmagnsgítara – Gálknið, sem er biksvartur Gibson SG og þennan nýja, sem ég á eftir að nefna. Það má koma með tillögur í athugasemdum.

***

En þetta er ekki gítarblogg. Þetta er Hans Blævar- og samfélagsblogg. Kannski  ég breyti þessu samt í gítarblogg síðar. Það gæti verið gaman.

***

Heitir hann ekki Kristinn Sigurjónsson, kennarinn í HR sem var rekinn fyrir að segjast ekki vilja vinna með konum? Og það væri í raun ekki hægt að vinna með þeim – ef ég man rétt – þær væru óalandi og óferjandi. Mér finnst eina spurningin í því máli vera hvort maður eigi að hafa þolinmæði fyrir fíflum eða ekki. Og góð og gild rök fyrir báðu, finnst mér.

***

Framfylgi maður ekki ákveðnum stöðlum um lágmarkskurteisi er hætt við að maður endi í hálfgerðu barbarí. Þeir sem taka mjög djúpt í árinni – tala af ósanngirni, ljúga jafnvel, býsnast og andskotast – pólarísera umræðuna, ýta fólki út í horn og eitra þannig út frá sér. Ég er raunar alls ekkert viss um að þeir geri það með því afla skoðunum sínum vinsælda – þótt það verði alltaf smá stemning í kringum þá í fyrstu, þegar þeir lokka verstu rugludallana fram úr dagsljósinu – heldur með því að færa umræðuna yfir á hysterískt plan. Þetta endar einsog eitthvað smábarnarifrildi. „Það er ekki hægt að vinna með konum“ fær bara svarið „djöfull geta karlar verið ómerkilegir“ og svo framvegis. Ósannanlegar tilgátur um heiminn sem byggja ekki á öðru en gremju og beiskju gera ekki heiminn stærri, þær gera heiminn minni og fólkið sem verður fyrir þeim heimskara. Og skiptir engu máli hvaða „málstað“ þær tilgátur eiga að verja eða flytja.

***

Hins vegar held ég að manni sé bráðnauðsynlegt að eiga einhvers konar samneyti við fólk af öllu mögulegu sauðahúsi. Það er einhver stærsti hængur samtímans hversu erfitt við eigum með samlífi við fólk sem er á einhvern hátt öðruvísi en við eigum von á eða eigum að venjast. Vegna þess hreinlega að við höfum viðbjóð hvert á öðru – af öllum mögulegum ástæðum. Mér finnst ég reka mig á það æ ofan í æ. Kristinn Sigurjónsson, heiti þessi aumingjans maður þá það (ótrúlegt hvað maður getur látið eftir sér að fletta ekki hlutunum upp), er furðufugl, feyskinn karlpungur í útrýmingarhættu. Skoðanir hans á heiminum byggja ekki á samkennd, samstöðu eða kærleika – þær virðast aðallega byggjast á gremju og það vita það allir sem hafa þurft að fást við gremju, finna fyrir henni, að gremja sprettur af vanmáttarkennd og almennri vanlíðan.

***

Ég held við þurfum að horfast í augu við að þannig fólk – fólk sem ráfar um hugmyndaheim samtímans einsog smábörn í frekjukasti – er stór hluti af samfélaginu. Við tökum að vísu ekki jafn vel eftir því þegar það er nær okkur í skoðunum – og er það þó að mörgu leyti ekkert skárra, og sennilega kemur að því að tíðarandinn snýst gegn þeim líka þegar móralski pendúllinn sveiflast aftur til baka. Og þótt það sé alls ekki gott að fólki af þessu sé ekki mætt þá held ég það borgi sig hvorki að þrátta við það á þeirra eigin máli – með gremjuna að vopni – né heldur að gera það brottrækt. Þeim er miklu betur mætt með festu og kærleika – því, svo ég snúi upp á nýlegt húðflúr, þá eru karlar einmitt alls ekki rusl, heldur heilagir, einsog annað fólk.

Tilvitnun vikunnar

Over the past decade a new, and very revealing, locution has drifted from our universities into the media mainstream: Speaking as an X … This is not an anodyne phrase. It tells the listener that I am speaking from a privileged position on this matter. (One never says, Speaking as a gay Asian, I feel incompetent to judge this matter.) It sets up a wall against questions, which by definition come from a non-X perspective. And it turns the encounter into a power relation: the winner of the argument will be whoever invoked the morally superior identity and expressed the most outrage at being questioned.  […]

What replaces argument, then, is taboo. At times our more privileged campuses can seem stuck in the world of archaic religion. Only those with an aproved identity status are, like shamans, allowed to speak on certain matters.

[…]

Left identitarians who think of themselves as radical creatures, contesting this and transgressing that, have become like buttoned-up Protestant schoolmarms when it comes to the English language, parsing every conversation for immodest locutions and rapping the knuckles of those who inadvertently use them.

– The Once and Future Liberal – Mark Lilla

Bókin kom til landsins á fimmtudag í síðustu viku. Hún fór í flug og ég var að vona að ég fengi eintak í hendurnar á föstudag. Var mættur á pósthúsið strax við opnun – fékk að vita að jú, ég ætti þarna pakka samkvæmt tölvunni, svo kom einhver svipur á afgreiðslukonuna sem gekk í nokkra hringi og tilkynnti mér að þessi pakki, frá Hljóðfærahúsinu frá miðjum september, væri áreiðanlega kominn til skila. Ég kannaðist við það, fékk að kvitta fyrir honum, og gekk svo út bókarlaus.

Svo kom helgin. Ég las upp úr bókinni á bókmenntaráðstefnu á vegum Háskólasetursins í Edinborgarhúsinu – eða, ég las auðvitað bara úr einhverju útprenti – og gekk bara vel, „gerður var góður rómur að“ og það allt saman, og virtist engan trufla nema mig að þetta væri bara ómerkilegt útprent.

Hans Blær

Í morgun mætti ég svo aftur á pósthúsið við opnun og þar beið hún mín. Ég hélt ég yrði kannski minna viðþolslaus af að fá hana í hendurnar en svo er ekki, þetta er eiginlega bara verra, nú liggur hún þarna, þetta eina eintak (restin er enn í skipinu á leið frá Þýskalandi), og við störum hvert á annað, ég á hana og hún á mig. Það var ekki einu sinni vinnandi svo ég fór bara að taka til, raða bókunum í ljóðabókahillunni minni og taka utan af ólesnum TLS tölublöðum. Furðu erfiður dagur – í mér eru allar tilfinningarnar í einu og kannski er ég mest bara einhvern veginn lúinn.

Já og svo vann ég – eða Óratorrek, réttara sagt – Menningarverðlaun DV á föstudag. Mér skilst að ég fái sent viðurkenningarskjal og þarf þá að gera pláss á grobbveggnum mínum.