Heimferðardagbók: Dagur 8

Við smöluðum krökkunum hálfsofandi út í bíl rétt fyrir sjö í morgun og keyrðum sem leið lá til Gautaborgar. Við höfðum góðan tíma fyrir okkur og vorum komin upp úr ellefu. Byrjuðum á að fá okkur hádegismat á Víetnömskum skyndibitastað, sem reyndist óvenju fínn – Vietnamhaket, ef einhver á leið hér hjá. Þá komum við bílnum fyrir við hótelið og röltum niður í bæ. Aram beit í sig að listasöfn væru viðbjóður og eftir að ég var búinn að móralísera fyrir honum einsog Móses með steintöflurnar um að þetta væri vonlaus afstaða fékk hann samt að hanga á borgarbókasafninu á meðan við hin fórum á listasafn. Safnið er frekar mikilfenglegt – mikið af gömlum meisturum og alls kons skemmtilegt nýtt. Það er líka passlega stórt svo manni líður ekki einsog það sé búið að keyra yfir skilningarvitin á manni á valtara þegar maður kemur út.

Ég fór í test klukkan 14.20. Ég gekk frá listasafninu efst við Avenyn í nokkra hringi að leita að Elite Hotel þar sem Vaccina átti að vera búið að koma sér fyrir með sinn covidbúnað. Elite Hotel reyndist vera sama bygging og sami inngangur og kráin At Park – þar sem dreggjarnar af bókamessunni í Gautaborg koma saman á kvöldin og troðast svo hressilega að þar fá allir undantekningalaust sömu flensurnar. Í þetta sinn var fámennara – engin Herta Müller við innganginn að rífast við agentinn sinn í síma, einsog ég sá einu sinni, enginn Dolph Lundgren að drekka Mai Tais með Ninu Hagen, Desmond Tutu og lífverðirnir allir einhvers staðar langt í burtu – og ég staulaðist í gegnum mannfæðina upp á aðra hæð. Þar beið ég í augnablik í biðstofu og var svo kallaður inn.

Það var auðvitað vesen á bókuninni af því ég er ekki með sænska kennitölu – það er eiginlega alltaf vesen. Sænsk skriffinnska er ferkantaðasta skriffinnska á jörðinni. Sjálf sýnatakan var ofbeldisfyllri en ég hef lent í áður. Hann rak pinnann afar djúpt í kokið á mér og það var eiginlega einsog hann væri að leita að ógleðitriggernum – þessum litla bletti þar sem maður kúgast mest – og þyrfti svo að krukka þar í dágóða stund. Þar væri Covidið og hvergi annars staðar. Þegar maður fer í venjulega sýnatöku í Svíþjóð – út af einkennum – fær maður bara að gera þetta sjálfur. Stingur smá í nef, smá í kok og hrækir svo á helvítið. Fyrir vestan stungu þeir smá í kok en frekar djúpt í nef. En þetta var bara kok og ég táraðist mikið og við þurftum að stoppa fjórum-fimm sinnum. Sennilega er þetta nú áreiðanlegra en hitt.

Niðurstöðuna fæ ég svo stafrænt í kvöld. Mér líður fremur undarlega – ég hef neikvæða tilfinningu gagnvart þessu en ég er svo sem oft neikvæður að óþörfu. En þetta er undarlegur staður, alltaf, mitt á milli afneitunar og ofsóknaræðis. Maður er næmur á líðan sína en ímyndar sér líka eitt og annað – og svo er svo erfitt að átta sig á því hvað er eðlilegt. Ég er 43 ára maður sem fór á tvö fyllerí í vikunni og það væri mjög óeðlilegt ef ég væri ekki svolítið sloj. Nadja og Aino fengu flensu í síðustu viku og voru testaðar og það var ekki covid og einhvern smotterís kverkaskít og þannig höfum við öll verið með síðan. En ég hef líka verið úti að hlaupa og hefur ekkert liðið verr en gengur og gerist. Stundum hress, stundum sloj, einsog miðaldra manni sæmir.

Það er stundum sagt að það sé gott að eiga von á því versta því þá gleðjist maður þegar ástandið reynist skárra en maður hafði átt von á. Þetta held ég að sé misreiknað. Það er alveg handónýtt að hafa áhyggjur af hlutum sem maður hefur ekkert um að segja.

En þetta er líka versti þröskuldurinn. Það er eitt að sitja mögulega fastur í sóttkví á Íslandi og annað að gera það hér og missa af bátnum og öllu saman.

Ég skrifaði annars stjórnvöldum í gegnum covid.is til að spyrja hvað í ósköpunum ég ætti að gera þegar ég kem til Seyðisfjarðar – hvort ég mætti hugsanlega þiggja far með fjölskyldunni minni suður og fara í sóttkví þar eða hvort það þýddi þá að þau þyrftu líka að fara í sóttkví (en það legg ég ekki á þau nema tilneyddur)? En hef ekkert svar fengið.

Heimferðardagbók: Dagur 7

Nýja hindrun dagsins – sem er að verða fastur liður – er að ríkið ætlar að hætta að hleypa okkur óbólusettu ferðamönnunum í farsóttarhúsin. Rökin eru væntanlega þau að óbólusettir túristar geti sjálfum sér um kennt að vera að dandalast þetta um heiminn á meðan pestin geisar. Og eigi þar með að borga sína gistingu sjálfir. Þeim er stillt upp gegn heiðvirðum veikum Íslendingum og látið einsog einn hópurinn þjáist á kostnað hins – sem er auðvitað klassískur popúlismi. Það er engin ástæða til þess að þjónusta ekki báða hópana (önnur en sparnaður sem sagt). Ef það var einhvern tíma réttlátt að bjóða upp á þessa gistingu þá er það það enn.

Mér skilst það sé laus gisting á höfuðborgarsvæðinu. Það gagnast mér lítið, sem kem í land á Austurlandi. Ég hefði heldur kosið að gista á gistiheimili eða hóteli og er löngu búinn að skrifa öllum gististöðunum á svæðinu í leit að húsnæði til að sitja af mér mínar þrjár nætur. Það er, einsog áður hefur komið fram hér á síðunni, ekkert laust – ef frá er talin ein nótt sem kostaði 30 þúsund (og hefði ekki gert mér gagn af því maður má augljóslega ekki fara á milli gististaða). En það er augljóslega ákveðnum vandkvæðum bundið að neyða mig til að kaupa gistingu sem ég er búinn að reyna að kaupa en reyndist ekki í boði.

Annars var hvíldardagur hér í Rejmyre. Á morgun keyrum við til Gautaborgar þar sem ég fer í PCR-test og ég er farinn að taka öllu sem líkami minn gerir sem ótvíræðu teikni um að ég sé með covid. Ef ég slepp í gegnum það test kemst ég samt um borð í bátinn og þá til Íslands. En við vitum ekki með Nödju fyrren í Danmörku. Ef ég slepp ekki skiptir þessi sóttkví á Íslandi sennilega engu máli en ég verð þá ekki kominn heim heldur fyrren í september.

Ég fór út að hlaupa og tók upp Blús mánaðarins. En ég gerði engan jóga, einsog þó stóð til. Börnin eru að spila Matador. Farangurinn er kominn út í bíl. Mér skilst að þau sem tóku við íbúðinni á Karlsgötu séu flutt inn og allt sé í lagi þar. Allt fer þetta svo einhvern veginn.

Heimferðardagbók: Dagar 5 og 6

Ferðalagið er hafið og það bætist sífellt á listann yfir allt sem getur farið úrskeiðis. Nú er farið að rigna svo mikið í Bohuslän – þar sem Gautaborg liggur – að fólk er varað við því að vera á ferðinni. Sem betur fer á það enn sem komið er helst við minni vegi og við ætlum bara að halda okkur á hraðbrautinni. Í gær missti ég líka af símtali frá Smyril Line – og fékk auðvitað hálfgert taugaáfall, var handviss um að eitthvað hefði farið úrskeiðis og við kæmumst ekki heim. Þau reyndust þá bara að hringja til að minna alla á að mæta með PCR vottorð. Það er áreiðanlega ekki gaman að þurfa að vísa fólki frá.

Það gekk mjög vel í Gautaborg og Åmål. Sérstaklega var gaman að vera í Åmål með John Swedenmark, þýðandanum, sem hafði umtalsvert gáfulegri hluti að segja en ég. Ég verð gjarna óðamála og óöruggur í viðtölum – ég ætla sosum ekki að gera meira úr því en efni standa til, ég held ég komi ekkert fyrir einsog fábjáni, en ég er sjaldnast ofsaglaður með frammistöðu mína. Ég er rithöfundur af því mér finnst þægilegt að hugsa á lyklaborð – ekki að tala upphátt. En ég nýt þess þá að vera umkringdur alls konar snillingum sem þess utan gera alltaf sitt besta til að láta mig líta vel út. Hér á myndinni fyrir neðan má t.d. sjá Yukiko Duke – sem er þekktur gagnrýnandi í Svíþjóð, og gaf mér minn fyrsta dóm, fyrir Eitur fyrir byrjendur, fjórar stjörnur í Go’morgon Sverige fyrir hundrað árum. Við hliðina á henni er svo Per Bergström, útgefandinn minn og góðvinur – sem er varla kynntur öðruvísi í dag en tekið sé fram að hann gefur út nóbelsverðlaunahöfundinn Louise Glück (auk mín, sem sagt) – ég og svo áðurnefndur John, sem er mikill sendiherra alls sem íslenskt er og annálað gáfnatröll – og svo loks Victor Estby, framkvæmdastjóri Bókadagana í Dalslandi, sem „sleppir“ Brúnni yfir Tangagötuna (að gefa út bók á sænsku heitir að sleppa bók – þetta er hið formlega útgáfuhóf og var ekki síst skemmtilegt vegna þess að ég náði aldrei að halda neitt útgáfuhóf þegar hún kom út á Íslandi (út af covid). Í dag er ég sem sagt þunnur.

Nú er ég í lestinni frá Karlstad til Hallsberg. Þar skipti ég yfir í lestina til Norrköping. Hér er allt fullt og ég fæ áreiðanlega covid á leiðinni. Á morgun er hvíldardagur. Ég ætla að fara út að hlaupa, gera jóga og taka upp blús mánaðarins – sem verður sænskur að þessu sinni. Og á sunnudag keyrum við til Gautaborgar í rauða býtið.

Heimferðardagbók: Dagur 4

Það var átakalaust þegar vörubíllinn kom að sækja brettin í gærkvöldi. Þau eru þá farin. Og tollurinn og Samskip hafa fullvissað mig um að við eigum ekki að lenda í neinu tollarugli. Í dag losuðum við okkur við hluti til Stadsmissionen og komum öðru í kjallarann. Mágur minn kemur svo og sækir eitthvað – aðallega til að koma á haugana. Börnin fóru með lestinni til Rejmyre. Nadja er heima að sinna einhverju smotteríi en ég færði mig á kaffihús – aðallega til þess að undirbúa mig fyrir næstu tvo daga, sem verða rithöfundadagar. Ég fer til Gautaborgar með lest á morgun og svo á Bokdagarna í Dalslandi. Næstu tvo daga verð ég sem sagt að haga mér einsog andans maður en ekki efnisins. Ég er hér á kaffihúsinu til að endurfæðast.

Ég veit ekki hvort maður er nokkurs bættur með að gera lista yfir allt sem gæti farið úrskeiðis næstu daga en það hvarflar alltaf að mér af og til – maður gæti þá andað léttar í hvert sinn sem maður fer yfir einhvern þröskuld. Fyrir utan þetta venjulega, einsog að geta misst af lestum eða að það springi dekk á bílnum eða hótelbókanir reynist hafa verið vitlausa nótt eða að maður týni passanum sínum, eru það fyrst og fremst covidreglur sem gætu breyst hratt – og maður gæti orðið útsettur fyrir smiti. Það er ekki endilega gáfulegt að taka þátt í tveimur viðburðum svona rétt fyrir brottför – eða sitja á kaffihúsi – en þetta gerir maður samt. Annað er vinnan mín og á kaffihúsinu sit ég afsíðis.

Annars er þetta líka svolítið skitsó – það er ekki sami æsingur í Svíum og heima. Að lesa til skiptis SVT og Vísi er einhvers konar æfing í mótsögnum. En auðvitað snýst það allt um hvaðan maður er að koma og hvert maður er að fara og hvaða viðhorf maður hefur til lífsins (og dauðans).

Eitt sem ég veitti athygli í gær er að þegar talað er um smit á landamærunum í Svíþjóð er alltaf talað um „utlandsresorna“ – það er að segja ferðir Svía út úr landinu og heim – en á Íslandi er öll áhersla á túrismann. Svíar líta svo á að hinir óábyrgu fari út og sæki veiruna heim en Íslendingar líta svo á að það séu útlendingarnir sem komi með veiruna til sín. Ég reikna með að í raunveruleikanum sé það bæði og – en það er áhugavert að velta því fyrir sér hvort sjónarhornið fjölmiðlar og félagsmiðlavitringar velja sér.

Ætli þetta endi ekki samt með ofurdreifaraviðburði í Norrænu? Allir gubbandi fram af rekkverkinu í covidsvita. Fáum ekki að koma í land. Reikum um heimshöfin á fársjúku flónaskipi fram yfir gröf og dauða og ofsækjum þá fáu sem lifa af. Þá verður nú gaman að vera til.

Heimferðardagbók: Dagur 3

Vörubíllinn átti að koma á morgun til að sækja búslóðina en til stóð að bílstjórinn myndi hringja í dag til að segja nánar klukkan hvað hann væri á ferðinni. Hann hringdi í hádeginu og stakk upp á að mæta hingað klukkan 7 í fyrramálið. Þá hefðum við þurft að vakna klukkan fjögur til að byrja að raða á brettin. Það þurfti ekki miklar samningaviðræður til þess að fá hann til að koma frekar í kvöld. Sem varð til þess reyndar að við misstum af kvöldverðarboði hjá tengdapabba en af tvennu illu þá var þetta nú skárri valkosturinn. Og börnin fengu samt að fara í kvöldverðinn. Í sjálfu sér erum við laus – en það verður einhver að vera heima til að gæta brettana sem standa undir eldhúsglugganum okkar. Bílstjórinn kemur í fyrsta lagi átta, segir hann, og sennilega ekki síðar en níu.

Dagurinn byrjaði annars á því að við Aram fórum út að hlaupa. Hann hefur komið með mér út alla mánudaga í nærri tvo mánuði. Við förum 3,5 km í rólegheitunum og hlustum á tónlist. Það er ennþá steikjandi hiti en skárra þegar maður kemst af stað í morgunsvalanum.

Á meðan við bíðum eftir bílstjóranum ætlum við Nadja að borða indverskan mat – sem verður sóttur og étinn hér við skrifborðið mitt. Það fáum við ekki á næstunni, nema heima hjá okkur. Ég fór meira að segja í ríkið og keypti mér nokkra bjóra. Ég litaðist líka um eftir flösku af þýska hvítvíninu „Hans Baer“ – sem ég uppgötvaði nýverið á heimasíðu Systembolaget og veit að er til í ríkinu í Hälla – en fann ekki í Systembolaget-City. Líklega fæ ég ekkert Hans Baer vín á Íslandi heldur – það er að minnsta kosti ekki til í ríkinu.

Á morgun göngum við svo frá íbúðinni og sendum krakkana með lest til frænku sinnar. Nadja eltir þau á bílnum á miðvikudag og ég fer með lestinni til Gautaborgar í útgáfuhóf fyrir Bron över Tangagata sem er að koma út hjá Rámus. Hingað komum við ekki aftur í þetta skiptið.

Nema auðvitað ef landinu verður lokað. Það er svolítil stemning fyrir einöngruðum þjóðríkjum þessa dagana. Ekki síst eyríkjum. Og ekki alveg laust við að maður skammist sín – þótt það sé ekki alveg ljóst hvort maður eigi frekar að skammast sín fyrir að hafa farið eða fyrir að koma aftur. En mér þætti raunar alveg grínlaust áhugavert að vita – í allri þessari umræðu um að bjarga ferðaþjónustunni og vera ekki að hlaða undir rassgatið á heimsreisudillum hvítvínskellinga og djammferðir unglinga – hversu margar fjölskyldur eru í svipuðum sporum og við. Að vera með fætur og rætur í fleiri en einu landi er ekki alveg auðvelt (eða ódýrt) á covid-tímum. Allir Íslendingar sem eru giftir útlendingum – hvort sem þeir eru með fasta búsetu á Íslandi eða erlendis – allir innflytjendurnir, allir Íslendingar erlendis. Og fleiri. Ég held þetta sé fremur stór hópur.

Heimferðardagbók: Dagur 2

Í dag losnuðum við við dálítið af húsmunum úr íbúðinni hér við Karlsgötu. Svo hef ég verið að garfa í pappírum.

Ég hef líka verið að skoða hvort það sé skynsamlegra að Nadja og börnin fljúgi suður og skilji bílinn eftir fyrir austan hjá mér eða hvort það sé skynsamlegra að ég fljúgi á eftir þeim þegar ég losna. Mér finnst bara ekki svo auðvelt að sjá út úr því hvenær ég losna. Það er talað um 2-3 daga á heimasíðu Norrænu – af því að bátsferðin telst líka vera sóttkví.

Annars fór ég út að hlaupa í 30 gráðu glampandi sólskini og gerði næstum út af við mig. Það var gert til þess að viðhalda geðheilsu minni. Eða það var hin opinbera útskýring. Þegar ég segi þetta svona finnst mér það alls ekki meika sens. Þetta getur ekki verið gott fyrir geðheilsuna. En það er kannski mikilvægt líka að leggja rækt við geðveilurnar sínar.

Ég hlakka mikið til að koma heim. Eiginlega svo mikið að ég hugsa að heimkoman geti varla annað en valdið mér vonbrigðum. Vinir mínir og fjölskylda geta varla verið jafn skemmtileg og mig minnir. Veðrið – ég er enn ekki orðinn svo firrtur að halda að veðrið verði „gott“, en það verður kannski þægilegra skokkveður. Fjöllin – eru þau blá? Eldhúsið mitt – gítararnir mínir – nýi kebabstaðurinn sem ég hef aldrei prófað. Steikarlokur í Hamraborg með Smára. Bjór á Húsinu. Búrbon og Límonaði hjá Cat og Dan. Lagavullin hjá Inga Birni. Sána hjá Hála. Að heyra í Hauki Magg tala í símann fyrir fjögur horn í kyrrlátum firðinum. Grill hjá pabba og mömmu. Kaffikortið mitt á Heimabyggð – var ég ekki nærri kominn á næsta fríbolla? Skrifstofan mín. Spjall „á förnum vegi“. Matarboð og veislur. Pizzurnar á Mömmu Ninu bíða sennilega, af því mig langar að baka pizzur sjálfur – og Dóra systir er að hóta því að bjóða mér í pizzu líka og maður getur ekki borðað pizzu á hverjum degi. Svo á ég von á litlu frændsystkini – Dagný Vals bróður er kominn á steypirinn – það gæti þess vegna komið á undan mér.

Heimferðardagbók – Dagur 1

Það er alltaf hausverkur að flytja en það er ansi margfaldur hausverkur að flytja á Covid-tímum. Ekki síst þegar maður hefur ekki fengið sprautuna góðu – sem ég hef ekki fengið vegna þess að sænska og íslenska kerfið kunna ekki að tala saman og maður lendir iðulega á milli þilja í kerfum.

Nema hvað. Til stendur, ef guð og haugur af rándýrum PCR-prófum lofa, að við komum til Íslands með Norrænu þann 5. ágúst næstkomandi. Nadja er bólusett og börnin eru börn svo þau þurfa ekki að fara í sóttkví en ég er frávik og þarf að vera einhvers staðar í 2-3 nætur. Nadja og krakkarnir þurfa að taka bílinn suður svo ég kemst ekki mjög langt. Það er urmull af gistihúsum og hótelum sem gefa sig út fyrir að taka á móti fólki í sóttkví en viti menn – þau eru öll uppbókuð (nema eitt, sem bauð mér nóttina áður en ég kem fyrir litlar 30 þúsund krónur – næturnar í bátnum teljast líka til sóttkvíar en ég má sennilega samt ekki umgangast fólkið sem ég deili káetu með eftir að í land kemur).

Ég má víst ekki stíma einn upp á öræfi með tjald af því það er ekki aðskilinn salernisaðstaða í tjaldinu og enginn til að spritta öræfin þegar ég fer. Það er einhvers konar neyðarhótel á Neskaupsstað (þangað sem ég verð líklega að taka 35 þúsund króna leigubíl) en ef það fyllist verð ég vísast að vera undir það búinn að taka leigubíl til Reykjavíkur.

Ofan í allt saman má ég eiginlega heldur ekki vera að því að hafa áhyggjur af þessu – ég er upptekinn af því að hafa áhyggjur af því að dóttir mín sé með hita (blessunarlega ekki covid, það hefði sett okkur á hliðina á þessum tímamótum – en sólarhringurinn meðan við biðum eftir niðurstöðunum var dálítið óþægilegur); ég er upptekinn af því að sjá til þess að búslóðin okkar verði ekki tolluð (það gæti skeikað dögum á því hvort við höfum búið erlendis í ár – sem er víst skilyrði – en fer eftir við hvaða daga er miðað); upptekinn af því að bóka ferjur og hótel og PCR-próf á réttum tímum svo við komumst í gegnum Danmörku og upp í Norrænu, og pakka öllu auðvitað og merkja það og sjá til þess að það brotni ekki í flutningunum og svo þarf að losa sig við haug af dóti.

Svo á ég að vera að gefa út bók í Svíþjóð – það var önnur að koma út í Frakklandi og þriðja, sem kemur út á Íslandi í haust, er að fara í prentun. Það kostar sinn skerf af athygli manns.

Svo veit ég reyndar ekkert hvernig ég kemst áfram þegar sóttkví lýkur heldur.

Hamingjan og Billy Childish

Ég las fyrirsögn í vikunni, sem spurði hinnar kunnuglegu spurningar hvort peningar gætu skapað hamingjuna. Þetta var sennilega í DN – og niðurstaðan, sýndist mér á undirfyrirsögn (ég las ekki greinina), var að þeir hefðu sannarlega eitthvað með hamingjuna að gera en sambandið þarna á milli væri samt flókið. Það sem kom upp í huga mér, og sosum ekki í fyrsta sinn en í fyrsta sinn í svolítinn tíma, var hvort að hamingjan væri markmið í sjálfri sér. Og hvort það væri þá í framhaldinu hugsanlegt að maður vildi heldur vera ríkur en hamingjusamur, ef valið stæði á milli þessara tveggja valkosta? Gæti maður heldur viljað vera grannur en hamingjusamur, hraustur en hamingjusamur – eða, einsog sænski tónlistarmaðurinn Kjell Höglund – heldur vera fullur en hamingjusamur? Af hverju einblína svona margir á hamingjuna sem sitt æðsta markmið?

Ég er að lesa (trigger warning!) Harry Potter fyrir börnin. Aino var of lítil til að skilja þegar Nadja las þetta á sænsku fyrir þau, og Aram hefur ekkert á móti því að heyra þetta aftur, og þess vegna les ég bækurnar nú á íslensku. Ég las á sínum tíma tvær og hálfa – þegar ég bjó heima hjá vinkonu minni Söru Riel í nokkra daga 2003, hún átti þær bækur sem þá voru komnar, en þegar ég þurfti að fara var ég ekki lengur með neinar Harry Potter bækur og saknaði þeirra í sjálfu sér engin ósköp þótt það hafi verið rúllandi fart á söguþræðinum. En þetta er gaman núna, gaman með börnunum.

En það var ekki það sem ég ætlaði að tala um heldur hitt að í fyrstu bókinni er spegill sem sýnir manni það sem maður þráir innst inni. Harry Potter sér t.d. foreldra sína og stórfjölskyldu – það sem hann á ekki í lífinu. Ron sér sjálfan sig sem fyrirliða Quidditchliðs. Dumbledore skólameistari orðar það svo að ef fullkomlega hamingjusamur maður liti í spegilinn sæi hann ekkert nema sjálfan sig. Af því hann skortir ekkert – eða hefur í öllu falli sigrast á löngunum sínum og þrám. En langar mann að vera þannig maður? Langar mann að þrá ekkert? Fyrir hvað – hugarró? Er það öll hamingjan?

Burroughs hafði miklar áhyggjur af því þegar Ginsberg og Kerouac voru að dufla við búddismann á sínum tíma. Hann sagði enga andlega geldingu verri en hið búddíska jafnvægi. Og þá er ágætt að hafa í huga að Burroughs var langt leiddur heróínsjúklingur sem gat setið allan daginn og starað á skóinn sinn meðan hann beið þess að langa aftur í heróín. En hann langaði þó í eitthvað …

Óhamingja getur sannarlega verið lamandi. En mér finnst einhvern veginn einsog ef maður sigraðist á henni fyrir fullt og allt gæti maður allt eins bara hengt sig. Til hvers að spila leik sem maður er búinn að vinna?

Annað sem ég hugsaði um í vikunni og tengist þessu er að það rann upp fyrir mér að sennilega höfum „við“ (hvítir miðstéttarvesturlandabúar) aldrei í mannkynssögunni verið betri í að leysa og koma í veg fyrir tráma. Aldrei verið jafn meðvituð um lausnirnar. Við höfum aldrei fylgst jafn vel með skúmaskotum samfélagsins, aldrei gert jafn margar varúðarráðstafanir – frá öryggisbeltum til covid-gríma til reykingabanna (sums staðar er jafnvel farið að svipta bari áfengisleyfinu ef þeir afgreiða „sjáanlega drukkið fólk“). Aldrei talað jafn mikið um tilfinningar okkar, hvert við annað og við sérfræðinga, aldrei knúsað hvert annað jafn mikið, aldrei verið jafn lítið meðvirk (jafn mótvirk?), aldrei lifað jafn heilbrigðu lífi, aldrei átt jafn margar lausnir við því sem hrjáð getur nokkurn mann, aldrei átt jafn hægt með aðgang að hátækni-geðlyfjum eða annars lags fantastískum lækningameðulum. Aldrei átt jafn auðvelt með að „uppfylla pótensjalið“ okkar – láta drauma okkar rætast. Aldrei unnið jafn lítið, eða jafn gefandi starf (þeim störfum sem við nennum ekki að vinna hefur að mestu verið útvistað). Aldrei þurft að leiðast jafn sjaldan. Og samt – skilst mér – líður fólki mælanlega verr, ef það er spurt. Fólk metur andlega líðan sína verr núna en það gerði fyrir 20-30-40 árum síðan. Það upplifir meiri kvíða, meiri vanlíðan – það er bugaðra.

Svo maður þarf kannski ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu með að maður verði svo hamingjusamur að maður neyðist til að hengja sig.

Ég velti því reyndar fyrir mér hvort svona geti verið relatíft.

Dæmisaga: Einu sinni fyrir langalöngu var ég á tapas-bar með vinum mínum – Nýhilistum, aðallega – og einhverju liði sem einn okkar vann með og hafði dregið okkur þangað. Einn okkar var á kafi í ananda marga og hinu andlega – settist mörgum sinnum á dag til að hugleiða – og var á mjög ströngu mataræði, borðaði hvorki kjöt né fisk auðvitað, en ekki heldur lauk eða sveppi og eitt og annað sem sagt var að væri í raun „lyf“ en ekki „matur“ – of pótent til þess að neytast á daglegum basis. Við hin sturtuðum öllu sem við gátum ofan í kokið á okkur, og fögnuðum því ef það var pótent – og fannst það yfirleitt ekki nógu pótent bara. Allavega og nema hvað. Jóginn okkar var hungurmorða þegar hann kom og hitti okkur og hafði ekki efni á mat þarna (frekar en við hin, að frátöldum vinnufélögunum) en fékk sér teskeið af tapenaði á brauð, sem stóð á borðinu, til að seðja sárasta hungrið. Skömmu síðar fór hann heim og við hin fórum á haugafyllerí, sennilega það fjórða eða fimmta þessa vikuna, á einhverjum talsvert ódýrari stað en þessum tapasbar.

Daginn eftir heyrði ég í þessum vini mínum sem lá þá flatur út af. Honum hafði byrjað að líða illa um það leyti sem hann fór heim og var nú veikur. Hann hafði hringt á veitingastaðinn og fengið að vita að það voru ansjósur í tapenaðinu. Brimsalt eitur úr dýraríkinu. Og nú gat hann ekki staðið á fætur af ógleði. Hann var vel að merkja sá eini í hópnum sem var sjáanlega timbraður eftir þetta kvöld.

Á endanum verður fólk auðvitað háð hinu pótenta eitri og verður ekki veikt af því heldur veikt af því að fá það ekki. Svona einsog maður fær höfuðverk af kaffi. Ég veit reyndar ekki hvort það á við um ansjósur líka.

Kannski höfum við hingað til verið háð harmi og tráma og erum í fráhvörfum. Eða kannski erum við bara vælin og full af sjálfsvorkunn til þess að hafa eitthvað til að breiða yfir sektarkenndina yfir vellystingunum sem við lifum í á meðan ógæfusamara fólk saumar skóna okkar og skrúbbar almenningsklósettin. Eða bæði.

***

Blúsplata vikunnar er Juju Claudius með The Chatham Singers. Platan er frá 2009 og á bakvið nafnið er enginn annar en Nýhilvinurinn, ljóðskáldið og tónlistarmaðurinn Billy Childish, sem kom til Íslands á fyrstu ljóðahátíð Nýhils, 2005. Á styrk frá Seglagerðinni Ægi (mig minnir reyndar að það hafi verið hluti af samkomulaginu að ekki yrði gefið upp hver styrkti komu Childish – ég lít svo á að samkomulagið hafi fyrnst). Þetta er blús með pönkívafi – hrátt og skemmtilegt. Lagið sem ég ætla að velja er fyrsta lag á hlið tvö – Evil Thing.

Stjórnarkreppa, hakkarar, glæpamenn og ofbeldisblús

Í Svíþjóð er allt í hers höndum. Þannig lagað. Það er stjórnarkreppa, ein stærsta matvörukeðja landsins hefur neyðst til að loka flestum búðum sínum vegna árása nethakkara og gengjastríðin geisa sem aldrei fyrr.

Stjórnarkreppan kom upp vegna þess að sósíaldemókratarnir ætluðu að þvinga vinstri-flokkinn til þess að samþykkja frjálst leiguverð – húsnæðismarkaðurinn í Svíþjóð er mér svo óskiljanlegur að ég hef eiginlega enga skoðun á þessu máli en finnst þó leigustjórnun instinktíft sympatískari en hitt. Það sem mælir gegn leigustjórnuninni – fyrir mína parta – er kannski mest hvernig hún er framkvæmd. Fólk stillir sér í biðröð og safnar stigum, sem hljómar í grunninn sanngjarnt, en lýsir sér síðan þannig að meðvitaða millistéttin stillir sér í biðröð út um allt upp á von og óvon (það eru engar hömlur á því hvað maður getur verið í biðröð í mörgum ólíkum kaupstöðum eða hjá ólíkum fyrirtækjum) og fyllir allt og flytur svo kannski eða kannski ekki. Þeir sem hafa ekki tíma eða kraft eða skipulag í sams konar fyrirsjón og framtíðarbúskap eru svo bara shit out of luck, einsog maður segir. Þetta viðheldur þannig ákveðinni stéttarskiptingu sem þeir græða mest á sem kunna á kerfið og þekkja það – útlendingar, innflytjendur, kærulausir, vonlausir o.s.frv. reyna kannski að reisa sig við en það tekur bara 25 ár á einhverjum biðlista að komast jafnfætis hinum, sem áttu foreldra sem settu þá á lista strax við fæðingu.

Frjálst leiguverð myndi nú sennilega ekki samt verða til mikilla úrbóta. Ég treysti alla vega vinstriflokknum ágætlega til að hafa hagsmuni verkafólks að leiðarljósi og það eru nú ekki síst þeir hagsmunir sem þarf að verja á þingi. Frjálslyndir – sem eiga líka aðild að ríkisstjórninni – heimtuðu þetta og Löfven veðjaði á að vinstriflokkurinn myndi gefa sig frekar en að sprengja ríkisstjórnina. Það gerðist ekki og Nooshi Dadgostar, nýr formaður vinstriflokksins, hefur uppskorið mikið lof fyrir staðfestu – það vill til að Svíar eru langflestir á móti þessum „umbótum“ frjálslyndra. Það sem gæti kannski helst bitið þau í framhaldinu er ef þetta verður einhvern veginn til þess að hægrimenn – með Svíþjóðardemókrata ofarlega á blaði – komist til valda. Þá gæti vinstriflokkurinn fengið það í andlitið að hafa komið því til leiðar með þrjósku sinni.

Eitt sem truflar núna er líka að það er ekki nema ár til kosninga og hvaða stjórn sem tekur við mun stjórna í mjög skamman tíma. Og það er hætt við að þeir flokkar sem eigi aðild að henni græði lítið á því – að taka í stjórnartaumana akkúrat þegar viðbúið er að margar afleiðingar Covid-lokana síðustu 18 mánaða fari að kikka inn, er varla líklegt til vinsælda. Og ár er enginn tími til að koma raunverulegum breytingum til leiðar, alveg sama hver fer með völdin.

***

Matvörukeðjan Coop lokaði held ég öllum búðum sínum í fyrradag eftir árásir hakkara á tölvukerfið sem keðjan nýtir sér til að sjá um sína verslun. Ég held þær séu flestar enn lokaðar. Að minnsta kosti sú sem ég fer alltaf í. Ég gleymdi þessu í sakleysi mínu áðan þegar við Aino ætluðum að panta dósir, en við þurftum frá að hverfa með dósirnar á annan stað í bænum. Mér skilst að hakkararnir vilji 600 sænskar milljónir. Sem eru þá um 9.000 íslenskar milljónir. Það er ekki ekki neitt. Ég veit samt ekki hvort Coop getur opnað án þess að borga. Skil þetta satt að segja ekki mjög vel.

***

Ég nefndi það eitthvað um daginn að sænska lögreglan hefði verið að vinna úr gögnum frá frönsku lögreglunni, sem þeirri áskotnaðist þegar henni tókst að brjótast inn í Encrochat – dulkóðað spjallkerfi sem glæpamenn höfðu nýtt sér um nokkurt skeið. Þetta hefur orðið til þess að fjölga handtökum í glæpaheiminum sem aftur skapar tómarúm í alls konar valdastöðum þar innan og hafa átök ólíkra gengja sennilega aldrei verið harðari í landinu. Enda hverfur markaðurinn fyrir eiturlyf eða aðrar glæpsamlegar nautnir ekkert þótt maður stingi einum og einum fanti í fangelsi. Það losnar bara forstjórastaða í einu fyrirtæki og annað fyrirtæki missir fótstöðuna á markaði svo það þriðja fer að sækja í sig veðrið. Ég held það verði eftir sem áður selt jafn mikið kókaín í Svíþjóð og efri millistéttin vill snorta á diskótekunum sínum. Mér skilst að umræðan lögleiðingu eiturlyfja hafi komið hér upp fyrir einhverju síðan en svo dalað og sé nú svo gott sem gleymd.

***

Plata vikunnar er Chess-ára plata Little Walter. Ég ætla ekkert að flækja þetta og velja bara Boom, boom, out go the lights. Boðskapurinn er kannski í það harðasta, en lagið er klassík.

Sóttkvíar, Gæska og Peps

Það er búið að aflétta hömlum á bólusetta að mestu leyti – bæði á landamærum Svíþjóðar og Danmerkur og ytri landamærum Íslands. Sem þýðir að Nadja og börnin komast vandræðalítið með ferjunni frá Gautaborg til Fredrikshavn og inn í Ísland. Ég aftur á móti fæ ekki bólusetningu í þessu jävla satans rassgati – aðallega af því íslenska og sænska kerfið tala ekkert saman, þetta er eins konar samstarf í því að vera ósammála og sýna enga samstöðu – og þarf að bóka (dýrt) PCR-próf í Gautaborg fyrir brottför úr landi, sem ætti svo að duga mér til að komast um borð í Norrænu í Hirtshals. Þar verð ég aftur prófaður strax og ég kem um borð – af einhverjum orsökum þarf maður að borga fyrir það próf, þótt PCR-próf séu annars ókeypis í Danmörku (skilst mér). Það er nokkur bót í máli að sóttkví hefst í raun strax og ég kem um borð – og ég er frjáls til að fara um allt og sleikja allt og alla einsog mér sýnist meðan ég er ebb í bátnum. Sem er tvær nætur. Ég þarf svo væntanlega að sitja í þrjár aukanætur á hóteli á Egilsstöðum og þá má ég ekki svo mikið sem anda á aðra. Og Nadja og krakkarnir verða þá annað hvort að bíða eftir mér eða halda áfram án mín.

Þessu fylgir nokkur existensíalískur leiði. Það eru allir svo glaðir og kátir að vera sloppnir úr þessum covid-höfuðverk. Nema ég! Mér líður svolítið einsog ég hafi verið valinn síðastur í liðið eftir að hafa eytt ári í að bíða eftir leiknum. Geggjað spenntur og er svo sagt að vegna ytri aðstæðna þurfi ég að sitja á bekknum allan tímann. En ég fái að vera í búning á meðan. Þetta er svolítið antíklímax.

Til þess að PCR-testið mitt dugi mér bæði yfir dönsku landamærin og upp í ferjuna sólarhring síðar þarf ég að taka það sennilega 31. júlí – af því við komum seint til Gautaborgar 1. ágúst (ekki tími til að taka prófið þar og bíða) og förum svo yfir til Danmerkur morguninn eftir. Morguninn 3. ágúst er ég þá á mörkunum með að PCR-testið sé enn gilt. Annar möguleiki er að keyra eldsnemma til Gautaborgar og taka rándýrt (50 þúsund vs. 25-30 þúsund) PCR-test og fá niðurstöðurnar á fjórum tímum. Nei, sennilega myndi mér duga 12 tíma opsjón.

Ég efast um að þessu verði aflétt áður en ég fer heim (3. ágúst) – þótt það gæti svo sem gerst. Það eru svo fáir sem þurfa (eða velja) að ferðast óbólusettir – og hreinlega verða sennilega mjög fáir evrópubúar óbólusettir í ágúst. Sem aftur þýðir að þrýstingurinn er enginn – óþægindin lenda á svo fáum. Og taugaveiklunin er og verður í yfirgír næstu misserin. Þess utan hefur þetta þau (að sumum finnst æskilegu) aukaverkun að hefta för þriðja heims skrílsins – mörkin milli „okkar“ og „þeirra“ verða skarpari. Ég tala nú ekki um ef bólusetningarleysið þar fer að verða til þess að önnur og verri afbrigði vírussins dúkki upp hjá „okkur“ næstu misserin.

En ég er líka nógu svartsýnn til að hluti af mér telur að það sé allt eins líklegt að það verði öllu skellt aftur í lás áður en við komumst heim. Smá Delta, smá Gamma, smá Epsilon – ruggi báturinn verður sennilega ekkert hikað. Það myndi nú varla duga til að halda okkur úti en það gæti gert heimferðina erfiðari og dýrari. En það er nú ekki líklegt. Held ég. Vona ég. Það er það áreiðanlega ekki.

Svo þarf ég náttúrulega ekki annað en að mælast jákvæður til að vera fastur í nokkrar vikur í viðbót.

En herregud hvað ég hlakka til að koma heim. Ég er alltof heimakær á fullorðinsárum fyrir svona langa útvist. Þegar ég var yngri vildi ég helst alltaf vera á ferðalagi – og svo sem kann ég ágætlega við það ennþá. En það er annar móður líka, að vera einn og ábyrgðarlaus, annar handleggur.

***

Ég er búinn að lesa inn alla Gæsku fyrir Storytel. Nú erum við að ræða næstu skref. Hugsjónadruslan er líklegust. Annars er Studio Västerås liðið komið í sumarfrí og ég verð farinn þegar þeir koma aftur. En Gæska ætti sem sagt að detta inn einhvern tíma fljótlega.

***

Peps Persson lést í gærmorgun. Ég hef fjallað um hann á blúsblogginu. Af því tilefni er Blues på Svenska plata vikunnar.