Skólalíf

Það er enginn skóli hjá börnunum þessa vikuna. Man ekki alveg hvað veldur í þetta skiptið – ekki Covid, held ég. En þau eru samt með heimanám með sér enda hefur verið svo lítill skóli í vetur að án þess gengi þetta líklega ekki upp. Svo eru bæði að æfa sig fyrir tónleika í tónlistarskólanum. Aino þarf að læra fjögur lög af því það eru svo fáir bassaleikarar í tónlistarskólanum.

Það er undarlegt til þess að hugsa að Aino hefur langstærstan hluta sinnar skólagöngu verið í Covid-gír – með lokunum og alltaf heima við minnsta nefrennsli. Þá hefur hún líka tvisvar gengið í fyrsta bekk – í Svíþjóð byrjar maður í skóla sjö ára. Við erum að reyna að gera átak í lestri svo hún verði ekki langt á eftir bekkjarfélögum sínum á Ísafirði í haust.

Við lifum að mörgu leyti frekar einangruðu lífi hérna, finnst mér. Það er ekkert eitt sem veldur þótt Covid hafi auðvitað átt stóran þátt í því. Og það er langt að fara og við þekkjum hvað sem öllu líður miklu færra fólk í Västerås en á Ísafirði. En ofan á það bætist að krakkarnir eru í Waldorf-skóla langt í burtu og þekkja engin börn í hverfinu okkar. Ég held að bekkjarfélagar þeirra eigi ekki heldur margir heima nálægt skólanum, þetta er skóli sem fólk sækir í af öðrum ástæðum. Og raunar er sífellt algengara í Svíþjóð að krakkar gangi ekki í næsta skóla heldur einhvern skóla sem hentar lífssýn foreldranna.

Það var grein um þetta í Dagens Nyheter á dögunum, skrifuð af vini mínum Philip Teir – finnlandssænskum blaðamanni og rithöfundi – þar sem hann bar saman sænska og finnska kerfið. Í Finnlandi er mikið lagt upp úr því að maður fari í hverfisskólann en hægt að fiffa með það – t.d. með því að hafa börnin í tónlistarnámi sem þá tengist tilteknum skólum og talsvert um að efstu stéttirnar geri það, til þess að koma börnunum í fínni skóla. Svo eru hverfi einfaldlega misjöfn – í ríkum hverfum eru betri skólar. Skólarnir eiga allir að hafa sömu fjárráð og aðstöðu en þegar til kastanna kemur er einfaldlega dýrara að sinna vissum nemendum – t.d. þeim sem eiga ekki foreldra sem geta setið yfir þeim og fylgst með náminu. Í skólum meðvituðu efri-millistéttarinnar geta kennarar einbeitt sér að fjölbreyttari verkefnum, einfaldlega vegna þess að minna álag er af hverjum og einum nemanda.

Finnska kerfið er byggt á sænsku módeli, merkilegt nokk, sem gengur út á að reyna að skapa eins mikinn jöfnuð í skólunum og hægt er – að það skipti ekki máli í hvaða skóla þú farir, þú eigir að fá sömu grunnmenntun. Svíar hafa fyrir löngu gefið þetta kerfi upp á bátinn og það var hafður um það harður áróður árum saman – kallað austur-evrópskt og gott ef ekki bara fasískt, frelsislaust og þar fram eftir götunum. Nú hefur það svolítið verið endurskoðað – og fullorðið fólk kannast ekki við þessa mynd af grunnskólunum sem það gekk í sjálft, þótt þeir hafi ekki verið fullkomnir.

Svíar held ég að hafi lent í einhverri sjálfsmyndarkreppu á níunda og tíunda áratugnum og ekki viljað vera hallærislegir sossar lengur – og voru mjög ginkeyptir fyrir alls kyns afregluvæðingu og einkavæðingu (eitt sem breyttist er reyndar að hætt var að tala um „einkaskóla“ og farið að tala um „frískóla“ í staðinn – eða frjálsan skóla – sem hljómar ólíkt betur). Í Finnlandi var kreppa þegar þessi þróun átti sér stað – í byrjun tíunda áratugarins þegar Sovétríkin féllu fór það mjög illan með finnskan efnahag. Sérfræðingar í dag segja að á krepputímum sé fólk mjög lítið gefið fyrir kenningar nýfrjálshyggjunnar og því hafi finnar haldið fast við sína jafnaðarskóla á sama tíma og Svíar markaðsvæddu allt sem ekki var neglt niður.

Ég kannast ekki við að Íslendingar setjist mikið yfir það hvar börnin þeirra fari í grunnskóla – átta mig raunar ekki á því hvernig því er farið. Á Ísafirði er bara grunnskóli. Reyndar er eitthvað um það að fólkið í nágrannabæjunum sendi börnin sín í skóla á Ísafirði frekar en á staðnum. En það eru aðrir þættir sem ráða því, held ég, en þetta neyslumynstur hins meðvitaða foreldris sem fer út að sjoppa besta skólann fyrir börnin sín. Það ber meira á því að fólk sæki í tiltekna leikskóla með börnin sín. Hjallastefnan ehf. er sennilega stærst. Og einhverja grunnskóla er Hjallastefnan líka með. Ég yrði ekki hissa þótt hlutfall einkaskóla færi vaxandi og viðbúið að opnist góð glufa verði sprenging – markaðurinn leitar þangað sem hann kemst.

En það væri gaman að sjá úttekt um þetta einhvern daginn.

Mánudagur í maí – Ísnálgun Collins

Ég hef verið að taka upp hljóðbók síðustu vikur. Illsku – loksins. Það kom til tals að gera það á sínum tíma, eða fljótlega eftir að hún kom út, en þá féllust mér hendur að dvelja lengur í þessum heimi. Hún er alveg ægilega löng líka. Mér sýnist hljóðbókin ætla að verða 25 tímar. Upptökur fara fram í Studio Västerås hjá afskaplega fínu fólki. Þetta er stórt og fallegt tónlistarstúdíó sem eigendurnir tóku yfir þegar Sænska Ríkisútvarpið flutti sig um set fyrir einhverjum árum. Ég sit í trommuklefanum og les. Hljóðmaðurinn Stephan situr svo í mixerherberginu og dundar sér á meðan – hann editerar ekki neitt af því hann skilur ekki tungumálið, sú vinna fer öll fram á Íslandi, hlustar bara með öðru eyranu og svo fáum við okkur kaffi í pásunni.

Ég les í kannski þrjár klukkustundir á dag. Þetta er svolítið spes. Ég er nýbúinn að vera að lesa yfir sænska þýðingu á Brúnni yfir Tangagötuna og er að fara að lesa yfir athugasemdir við nýja skáldsögu sem kemur í haust. Þannig að það hefur fátt verið á dagskránni annað hérna en að lesa eigin bækur. Ég er nú óvenju skemmtilegur, einsog mér verður tíðrætt um, en maður getur nú samt fengið leið á þessu – þetta er svolítið solipsískt, að vera svona fastur í sjálfum sér.

Stephan og Vladi spurðu mig líka í gríni hvort ég myndi ekki vilja gera breytingar á bókinni. Og það er nú ekki svo – mig klæjar ekki að breyta neinu. Einhvern veginn á ég meira að segja erfitt með tilhugsunina um smávægilegar breytingar þegar ég hef lokið við bók – þegar ég hef gengið frá henni. Ég hef auðvitað gert leiðréttingar á málfari og þannig – frá einni prentun til annarrar og ef það hafa komið upp villur við þýðingar og í sjálfu sér er eitthvað smotterí þannig núna líka. Það er alveg óhemja af smá-skyssum sem er hægt að finna í einni bók. En það kemur alls konar upp þegar maður fer yfir bók sem kom út fyrir rúmum átta árum (og ég byrjaði að skrifa fyrir tæpum þrettán). Til dæmis er í tvígang talað um „kynskiptiaðgerð“ – sem er ekkert gert lengur (heldur kynleiðréttingu) og í einu tilfelli er nefnd manneskja sem hefur síðan skipt um nafn og komið út sem trans. Afstaða mín til þess er bara sú að þetta séu ekki endurskriftir heldur upplestur á bók sem kom út tiltekið ár þegar veruleikinn var sá sem hann var þá og þar með geri ég engar slíkar breytingar. En ef það stendur óksöp þar sem á að standa ósköp segi ég ekki óksöp.

Þegar Óskabörnin settu leikritið á svið þurfti að uppdatera verkið – ekki síst til þess að koma Sigmundi Davíð að. Enda hefði verið undarlegt að leikverkið kommenteraði ekki á hann. Það var 2016 og ég man að við hugsuðum öll þá hvað væri skrítið að hann hefði nánast ekki verið til – ekki sem þessi fígúra – 2012. Og núna 2021 er fáránlegt að hugsa til þess að Trump hafi ekki einu sinni náð að vera með í leikritinu. Ég man ekki hvort hann kom eitthvað við sögu á endanum – verkið var margsinnis uppfært á sýningartímanum – en ég held hreinlega ekki. Ef ég ætlaði að endurskrifa Illsku – færa hana tíu ár fram í tímann – væri Trump fyrsta viðbótin. Agnes hefur auðvitað áhyggjur af því alla bókina að ritgerðin hennar – um popúlisma í samtímanum – sé að verða úreld vegna þess að allir hafi misst áhugann á útlendingahatri í kjölfar hrunsins.

Svo er auðvitað kórónaveiran og orðræðan í kringum hana önnur eins gullkista af þjóðrembingi – hvort sem það eru hetjurnar sem slá sér á brjóst fyrir einstakan árangur og samstöðu þjóðarinnar eða illmennin sem atast að Pólverjum úti á götu.

En þetta segir líka sitthvað um mismuninn á bókmenntaverki og leikverki. Leikverkið á sér stað aftur og aftur – en bókmenntaverkið á sér bara stað einu sinni og er eftir það dokúment. Leikverkið hættir að vera til – gufar upp. Og samtímabókmennt – alveg sama hvað hún er körrent – verður að eins konar sagnfræði. Þannig er Illska ekki lengur samtímabókmennt af því samtími hennar er liðinn – eða að minnsta kosti smám saman að líða – en það segir vel að merkja ekkert um hversu vel hún á við. Hún getur þess vegna átt betur við. Eða verr.

***

Plata vikunnar í blúshluta bloggsins er Ice Pickin’ með Albert Collins. Þetta er ein af fyrstu plötunum í blússafninu mínu – ég man ekkert hvenær ég keypti hana eða hvar en sennilega keypti ég hana fljótlega eftir að ég keypti mér aftur plötuspilara fyrir svona fimm árum. Ég heyrði fyrst í Albert Collins á einhverjum svona „gítartónleikum“ sem voru sýndir á Stöð í byrjun tíunda áratugarins. Ég var eitthvað að reyna að gúggla þessu en finn það ekki. Það eina sem ég man var að Joe Walsh var líka og þetta er ekki Jazzvisions þáttur sem var á dagskrá 1988 – heldur eitthvað stærra dæmi, seinna, sennilega nær dauða Collins (1993). En það gengur sem sagt ekkert að gúggla því. Kannski ég gæti fundið VHS spóluna á heimili foreldra minna ef ég legðist í rannsóknir en þetta skiptir sennilega ekki öllu máli.

Ice Pickin’ kom út árið 1978 – árið sem ég fæddist – og er svokölluð gegnumbrotsplata fyrir tónlistarmann sem hafði lengi verið á sjónarsviðinu, orðinn 46 ára gamall, en fyrsta breiðskífan hans kom út 1965. Hann hafði ekki fullt lifibrauð af tónlist – þrátt fyrir aðdáun blúsnörda á borð við Canned Heat – og vann mest sem iðnaðarmaður þar til Ice Pickin’ kom út. Platan var tilnefnd til Grammy verðlauna – í flokki sem þá hét „ethnic or traditional“ – en tapaði fyrir Muddy Waters, sem var með live plötu (sem er alltílagi en ekkert meistaraverk á borð við Ice Pickin’ – þetta var þriðja árið í röð sem Muddy vann, en fyrsta árið fékk hann fyrir Hard Again, sem er ein af hans bestu).

Albert Collins er með mjög sérstaka rödd á gítarnum – og raunar í munninum líka. Hann lætur telecaster gítarinn nísta hærra en aðrir megna – og því er þessi ísnálslíking ekki alveg úr lausu lofti gripin og fylgdi honum lengi. Lagið sem ég heyrði hann spila á þessum tónleikum sem ég nefndi er af síðustu breiðskífunni hans og heitir einmitt Iceman. En lagið sem við ætlum að heyra hér í dag heitir Master Charge og fjallar um mann sem hefur gert þau hrapalegu mistök að leyfa konunni sinni að fara út að versla með nýja kreditkortið sitt. Textinn er einsog hann er – en tilfinningin er sönn, lagið stendur fyrir sínu, þetta band sem er með honum er æði og kúlið svoleiðis drýpur af mínum manni.

Fréttir frá Svíþjóð: Skitið upp á bak

Í allan vetur hef ég verið að segja að allt sé um það bil við hið sama. Svíum gengur alveg jafn vel að eiga við farsóttina nú og þeim gekk í ágúst í fyrra, þegar við komum. Það er mikið álag á heilbrigðiskerfinu en bólusetningarnar eru eitthvað að hjálpa til. Annars ber nú kannski mest á svívirðilega mikilli þreytu gagnvart viðfangsefninu – svona prívat og persónulega. Ekki flensunni sem slíkri heldur umræðunni um hana. Sem er ekki alltaf sérstaklega málefnaleg (a.m.k. ekki þegar ýtt er á viðkvæma punkta, einsog er samt mikilvægt).

Í menningarfréttum er það annars helst að menningarritstjóri Västerbotten-Kuriren, Sara Meidell, hefur hafið á loft stríðsöxina gegn „kúk“ í barnabókum. Það er langtum skemmtilegra umfjöllunarefni.

Nýlega hafa komið út bækur með titla á borð við „Allir kúka“, „Ofur-Kalli og kúkasprengingin“, „Kúkaveislan“, „Þegar Doris ætlaði að kúka“ og „Hæ, lortur“. Sara segir að þetta sé niðurlægjandi fyrir börnin, sem séu flóknari manneskjur en þetta, og ekki ætlað til annars en að vinna sér inn ódýrar vinsældir. Þá bætir hún við að kannski sé kúkurinn sem slíkur ekki stærsta vandamálið heldur að hann skuli koma í staðinn fyrir bókmenntalegt gildi – þannig séu til góðar bækur um kúk. Þar nefnir hún meðal annars bókina Moldvarpan sem vildi vita hver skeit á höfuðið á henni – sem er í sjálfu sér áhugavert dæmi.

Upprunalegi titillinn er: „Um litlu moldvörpuna sem vildi vita hver hefði gert það á hausinn á henni.“

Sú bók heitir á sænsku „Det var det fräckaste“ – eða „Heyrðu nú mig góði“ eða eitthvað svoleiðis. Við áttum hana á báðum málunum og það vakti athygli mína á sínum tíma, fyrir hartnær tíu árum, að titlarnir væru svona ólíkir svo ég skoðaði þýska orginalinn og bar saman við sænsku og íslensku útgáfuna. Niðurstaðan var sú að í íslensku þýðingunni hefði verið valin „grófari“ leiðin alltaf þegar tvær voru í boði – við gætum líka kallað hana „litríkari“ leiðina, það er Þórarinn Eldjárn sem þýðir með sínu margrómaða nefi – en í sænskunni hefði frekar verið dregið úr. Ef ég man rétt var nú íslenska líkari þýskunni en sú sænska.

Ég tók þessu þannig að Svíar væru viðkvæmir fyrir kúkatalinu og sennilega var það rétt. Hins vegar varð þessi bók mjög vinsæl í Svíþjóð einsog annars staðar og kannski brustu flóðgáttirnar einfaldlega – og Svíar komust á hið alræmda „þermistig“ sem er lýst svo í kennsluglósum sem ég fann á quizlet:

Annað stigið af þroskastigunum fimm eftir Freud. 2-4 ára. Örvunarsvæðið færist niður í þarmana. Ánægja barnsins felst nú í því að halda inni hægðum eða losa sig við þær, jafnvel rannsaka. Viðbrögð foreldra skipta miklu máli.

Í samhengi bókmenntana eru menningarritstjórarnir sennilega foreldrarnir en höfundarnir og foreldrarnir börnin (börnin sem lesa bækurnar eru hugsanlega einhver Hinn, eitthvert guðlegt afl, hvers vegir eru órannsakanlegir). Ég er ekki freudisti og hef litla sálfræði lært síðan í menntaskóla en ég gæti samt best trúað að viðbrögð Söru séu röng og til þess ætluð að innræta skrifandi höfundum og lesandi foreldrum skömm og hindra þau frá því að komast upp á næsta stig, hið svonefnda völsastig, þegar „orkan færist yfir á kynfærin sjálf“.

***

Ég þarf núna að drífa mig í stúdíó að taka upp hljóðbók og aftur mætir blúshluti þessa bloggs afgangi (ég minni samt á lagið sem ég söng hér á dögunum). Ég skal taka mig á og skrifa fljótlega um einhverja heila plötu. En í millitíðinni er hér Screamin’ Jay Hawkins með Constipation Blues – hægðatregðublús. Hafi nokkur efast um þau listrænu heilindi sem fólki er unnt að sýna á þermistiginu þá ættu þær efasemdir að vera foknar út í veður og vind, strax að lokinni hlustun.

Blús mánaðarins

Það var ekkert blúsblogg í síðustu færslu – fyrst og fremst vegna þess að „tíminn hljóp frá mér“ einsog skáldin orða það. Í dag syng ég blúsinn sjálfur (eða eiginlega tók ég þetta upp í gær). Lagið er eftir Blind Gary Davis og heitir Death Don’t Have No Mercy. Umfjöllunarefnið er ekki endilega víðs fjarri færslunni sem lagið hefði átt að fylgja. Dauðinn eirir engum í þessu landi.

Fleiri lög er að finna á blúsrásinni minni.

 

Froðufellt í farsóttinni

Við setjumst gjarnan niður fjölskyldan á kvöldin og horfum saman á sænsku og íslensku Krakkafréttirnar. Ég hef gert grín að því að á meðan sænsku krakkafréttirnar segi ótæpilega margar fréttir af skíðaíþróttum – ekki síst skíðaskotfimi – þá séu krakkafréttirnar helst til mikið í upptalningum á því hvaða breytingar hafi orðið á samkomubanni. 20 manns mega nú koma saman í bíó, séu þrír metrar á milli þeirra, en 14 geta farið í sund, þó bara einn á hverri braut og bólusettir mega nú fara á ljóðaupplestra ef þeir eru með vottorð. Í stuttum fréttatíma virkar þetta einsog uppfyllingarefni.

En þetta eru auðvitað ýkjur. Ég held meira að segja stundum að þessar tíu sænsku mínútur og fimm íslensku séu besta fréttaefnið sem maður fær. Íslensku krakkafréttirnar segja manni svona það sem helst er á baugi og sænsku krakkafréttirnar, Lilla aktuellt, eru meira í fréttaskýringum. Þar eru oft skelfilegir hlutir ræddir af fullri alvöru – t.d. var á dögunum sagt frá flóttamannavandanum á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó (með myndefni af einsömlum börnum sem sváfu í kös í bandarísku landamærafangelsi) og fylgst hefur verið með máli Georges Floyd frá upphafi.

Maður fær það líka á tilfinninguna að uppsetningin sé úthugsuð til þess að vekja mann til umhugsunar. Formið hvetur mann til þess að velta vöngum og efast um hið sjálfsagða. Þannig byrjaði einn þáttur á dögunum á því að krakkar voru spurðir hvað þeim þætti um mótmæli – hver afstaða þeirra væri til þess að alþýða manna mótmælti? Þótt nær engin þeirra sem spurð voru hefðu mótmælt neinu sjálf voru þau undantekningalaust hlynnt mótmælum sem slíkum.

Næst var fjallað um mótmæli gegn sóttvörnum í Stokkhólmi, þar sem stór hópur fólks hafði komið saman til þess að berjast gegn lokunum, grímum og jafnvel bóluefnum. Voru mótmæli þá alltaf góð?

Og svo sagt frá því að lögreglan hefði leyst upp mótmælin (vegna þess að þau brutu í bága við lögin sem þeim var ætlað að mótmæla – það mega ekki koma saman fleiri en átta). Ef mótmæli eru ekki alltaf góð, má þá stoppa þau?

Þar á eftir var rætt við ritstjóra Sydsvenskan sem gagnrýndi þessar aðgerðir lögreglunnar og benti á að það vildi enginn búa í landi þar sem hið opinbera hefði sjálfdæmi um hvenær mætti mótmæla stefnu þess og hvenær ekki. Við yrðum þess utan að standa vörð um borgaraleg réttindi okkar, jafnvel á neyðartímum. Fyrir þeim hefði verið barist og þau væru ekki sjálfsögð þótt mörg okkar þekktu ekkert annað.

Að síðustu var svo frétt um fólk sem trúir samsæriskenningum – einsog að bóluefni sé eitur. Einsog til að minna mann á að láta ekki vitleysuna glepja sig.

***

Þegar maður er orðinn vanur að fá sitt fréttaefni úr fullorðinsmiðlunum virkar þetta furðu þroskað. Sérstaklega – ef ég má gerast svo djarfur – ef maður hefur mikið verið að lesa íslenska miðla upp á síðkastið. Það leggur stækan nashyrningafnyk af þjóðinni.

Vinsælasti rappari landsins hefur boðað til mótmæla á sunnudag og ætlar að leggja bílnum sínum – sem ég reikna með að sé Range Rover á gullfelgum – þvert yfir Reykjanesbrautina til að mótmæla komu fólks til landsins. Fólks sem sennilega er margt hvert pólskt verkafólk sem hefur átt erindi til gamla landsins – sennilega brýnt, fæstir ferðast nema þeir þurfi þess, jarðarfarir og annað eins – og þeim verður hörkulega mætt af manni í hvítum bol með gullkeðju, sem hefur barasta fengið nóg af græðgi annarra.

Fyrrverandi þingmaður skrifaði langloku á Facebook nýlega þar sem hann sagði allt nýtt smit mega rekja til ónefndrar pólskrar verkakonu á Landspítalanum. Það vantaði einmitt bara að hann nafngreindi hana. Þetta var vel að merkja fyrir Jörfamálið.

Ítrekað er hamrað á því í fjölmiðlum að smitin „megi rekja til fólks af erlendum uppruna sem búsett er á Íslandi“ (af því maður segir ekki „eru helvítis pólverjunum að kenna“ upphátt – en það heyra allir sem vilja heyra). Þar með er ekki bara búið að sakfella innflytjendur á landinu – á nákvæmlega sama máta og Trump gerði við Kínverja þegar hann fór að tala um „Kínavírusinn“ – heldur  þess utan búið að sýkna sanna Íslendinga og túrista.

Ríkisstjórnin gerði síðan heiðarlega tilraun þess að fangelsa stóran hóp fólks við komuna til landsins en gleymdi að setja það í lög. Frumvarpið sem var svo samþykkt, þegar dómstólar höfðu gert þau afturreka með erindið lagalaust, heitir því skemmtilega gegnsæja nafni „Frumvarp heilbrigðisráðherra um sóttvarnalög og lög um útlendinga“. Ég veit það segir ekki neitt og sennilega er þetta bara „rétta“ heitið – en það er eitthvað nánast kjánalega lýsandi við þetta samt.

Á sama tíma hefur Útlendingastofnun ákveðið að faraldurinn sé ekki ástæða til þess að fresta eða sleppa brottvísunum hælisleitenda. Það er sem sagt bara farsótt í heiminum þegar það hentar.

Kári Stefánsson hefur verið duglegur að tala um að Pólverjarnir valdi smitunum – en tekst gjarnan á sama tíma að tala um þá einsog hálfgerða aumingja, sem okkur hafi ekki tekist almennilega að siða. Það hafi „mistekist að byggja brú til pólska samfélagsins“. Hann var meira að segja með einhverjar kenningar – sem væntanlega eru algerlega úr lausu lofti gripnar, ég held það sé ekki haldið utan um svona tölur – um að stór hluti þeirra væri að þvælast milli landa til þess að sækja sér atvinnuleysisbætur. Að það sem sagt borgi sig að fljúga reglulega fram og til baka til Íslands, gista á hótelum og borga fyrir (rándýr) PCR próf – væntanlega af því íslenskar atvinnuleysisbætur eru svo háar. Þetta vildi hann takast á við „án þess að benda á þetta fólk sérstaklega“ – en gerði auðvitað ekkert sjálfur annað en að standa upp á kassanum sínum og benda, mjög áhyggjufullur og landsföðurlegur (hún er mjög hörð samkeppnin þessa dagana um hver sé áhyggjufyllsti landsfaðirinn).

Svo birtist hann í blöðunum í dag og sýtir mjög að hið nýja frumvarp um útlendinga flytji valdheimildir um of frá sóttvarnarlækni til ríkisstjórnarinnar. Lætur einsog það sé verið að hrækja í andlit vísindanna. Og ég spyr mig alveg einlæglega hvort fólk heyri í sjálfu sér tala? Það fer ábyggilega ágætlega á því að sóttvarnarlæknir hafi takmarkaðar heimildir – að hann þurfi ekki að spyrja Svandísi alltaf þegar hann skýst á klósettið – en hann er samt ekki lýðræðislega kjörið yfirvald og allar stærri ákvarðanir ætti að taka í ráðuneytinu.
Þetta segir sig sjálft í lýðræðissamfélagi og á ekki að þurfa að endurtaka ofan í fullorðið fólk. Þess utan má nefna að þetta samband þjóðarinnar við sóttvarnarlækni – sem birtist í fjölmiðlum á hverjum morgni og gerir sig líklegan til að gefa þumal upp eða niður, meðan þjóðin nagar neglurnar og bíður upplýsingafundar, verður leikskóli, verður sund, þarf ég að vinna heima, kemst ég í jarðarför mömmu í Kraká – er að verða mjög óheilbrigt.

Það kom upp smit á leikskólanum Jörfa sem sóttvarnaryfirvöld röktu fljótt til eins manns – pólsks verkamanns – sem hafði rofið sóttkví. Það fór beint í blöðin. Ekki undir nafni en svo gott sem – ég reikna ekki með að það tæki meðalslúðurkellingu nema 15 mínútur að hafa upp á honum. Maðurinn er núna sekur um að hafa komið af stað nýju smiti – hið pólska poster boy veirunnar – og ef einhver deyr þarf ekkert að spyrja að því hverjum popúlistarnir kenna um (þótt Svandís fái ábyggilega sinn skerf líka). Þar vantaði ekkert nema Þórólfur tæki að sér að tendra í kyndlunum fyrir fólk.

Sósíalistaflokkurinn – sem ég sagði mig úr rétt í þessu – hefur boðað nýja stefnu undir heitinu „Varið land“, enda sé „sóttkví við landamæri ekki mannréttindabrot“ einsog það er orðað (en átt er við frelsissviptingu saklauss fólks fyrir glæp sem það hefur ekki framið: að rjúfa sóttkví – það fá allir aðrir, hvort sem þeir eru útsettir fyrir smiti eður ei, að fara í sjálfviljuga sóttkví heima hjá sér, og enginn hefur t.d. farið fram á að börnin af Jörfa eða foreldrar þeirra eða kennarar séu læst inni á hótelherbergjum þótt augljóslega sé líklegra að þau beri smit en einhver random ferðalangur á leið um Leifsstöð – enda væri það massíft mannréttindabrot að fangelsa alla sem gætu verið smitaðir). Þá er orðræðan meðal forystufólks flokksins alveg á hæsta snúningi popúlismans þessa dagana. Yfirleitt bíða flokkar með að komast til valda áður en þeir valda mér svo miklum vonbrigðum.

Allt er þetta vel að merkja að gerast í landi sem er svo gott sem veirufrítt. Og þessara róttæku aðgerða þótti ekki þörf þegar nýgengi smita á landamærunum var hærra.

Ég á ekki við að ástandið geti ekki versnað – enn getur fólk veikst og dáið, það eru raunverulegar afleiðingar og þær ber að taka af fullri alvöru, þótt verið sé að bólusetja á fullu. En það er líka eitthvað sjúkt við þessa ofsafengnu öryggisþrá sem er vaxandi einkenni millistéttarinnar síðustu 15-20 árin. Við setjum á okkur öryggisbelti, hjólum með hjálm, bönnum reykingar inni og við innganga og jafnvel á útiborðum veitingahúsa o.s.frv. – við erum kvíðin með dauðann á heilanum allar vökustundir. Og þá er kannski ekki skrítið að við förum offari í faraldri – en ég þakka guði fyrir að sama fólki sé ekki ætlað að halda haus í heimsstyrjöld eða einhverjum verri hamförum en þessum.

Ég veit að það hljómar þannig, í heimi sem er bara læs á pólaríseringar, en ég vil sannarlega ekki gera lítið úr mikilvægi sóttvarna – eða því hvað lokanir og aðrar lýðræðislegri aðgerðir (les: sem bitna jafnar á öllum) geta íþyngt fólki. Áfram grímur, áfram prófanir, áfram spritt og áfram sóttkví og einangrun og takmarkanir. En ég segi einsog ritstjóri Sydsvenskan sagði við börnin í sænsku krakkafréttunum: aðgerðirnar mega ekki kosta hvað sem er. Neyðarástand kallar sannarlega á neyðaraðgerðir – en þau kalla líka á að við hugum að prinsippunum okkar frekar heldur en bara sjálfselskunni.

Í það minnsta mættum við fara að spyrja okkur af fullri alvöru hvað draumurinn um 100% veirufrítt land og „stuð innanlands í sumar“ megi kosta. Því skríllinn er að verða afar æstur, einsog má til dæmis sjá í athugasemdum við frétt um afstöðu Pawels Bartoszek til mótmæla Herra Hnetusmjörs (og þá má alveg hafa í huga að Pawel er ekki bara frjálshyggjumaður heldur líka eini stóri stjórnmálamaðurinn á Íslandi með almennilega innsýn í samfélag Pólverja – hann stendur á brúnni sem Kári talaði um). Ég tek undir með þeim sem segja að samlíkingin við að mótmæla komu hælisleitenda sé ekki smekkleg – en það gerir bara ekki aðgerðir Herra Hnetusmjörs (fáránlegar þessar setningar) ekkert minna ógeðfelldar.

Ef svarið er bara að allra aðgerða megi beita til þess að veiran drepi engan – einsog skilja má á sumum – þá verðum við líka að geta horfst í augu við þann harm, þann skaða og já, þann dauða, sem slíkar aðgerðir hafa í för með sér.  Það er hægt að halda í sér andanum til að verða ekki fyrir óbeinum reykingum og drepast úr krabbameini – en það er hætt við að það drepi mann eitthvað annað ef maður dregur ekki andann annað veifið.

Við lifum ekki enn í þjóðfélagi sem hefur afskrifað dauðann – við höfum ekki bannað reykingar með öllu (eða gert óbeinar reykingar ólöglegar). Við höfum ekki bannað bílaumferð. Við höfum verið að íhuga lögleiðingu eiturlyfja – ekki vegna þess að þau séu skaðlaus, heldur vegna þess að skaðinn sem bannið veldur er sennilega meiri en skaði neyslunnar sem slíkrar. Við vegum alltaf og metum kosti og galla – og í göllunum er oft fólgið ákveðið mannfall. Meira að segja við byggingu húsa og mannvirkja er formúla til þess að reikna út hversu margir muni látast. Ég veit þetta hljómar ískalt – við tölum ekki mikið um þetta upphátt, og ég myndi áreiðanlega þaga þunnu hljóði ef pestin hefði hitt mig illa heima fyrir sjálfan, það er eðlilegt – en við höfum (þegjandi) sammælst um að lífinu fylgi ákveðin dauði og að við látum hann ekki hamla öllum okkar gjörðum; á sama tíma og við gerum allt sem eðlilegt getur talist til þess að draga úr skaðanum (vinnulöggjöfin hefur t.d. stórlega dregið úr mannfalli við byggingastörf; umferðarreglur fækka dauðsföllum í umferðinni – vel að merkja alveg án þess að við séum öll með lögreglumann í bílnum til að fylgja þeim eftir).

Þetta er heldur vel að merkja ekki spurning um að hafa annað hvort opið í sund eða opið á landamærunum. Hvorutveggja er pólitísk ákvörðun – ekki vísindi. Það hljómar sennilega einsog einhver framúrstefnukenning, árið 2021 á Íslandi, en það er hægt að hafa bæði opið í sund og leyfa fólki að taka sóttkví heima hjá sér án frelsissviptingar. Það er jafnvel hægt að hafa opið í sund með takmörkunum. Og það er sannarlega hægt að gera allt þetta án þess að benda áhyggjufullur á tiltekna þjóðfélagshópa eða tiltekna einstaklinga í miðjum heimsfaraldri og gera þá ábyrga fyrir öllu saman – hvort sem maður gerir það froðufellandi eða yfirvegaður (og lætur aðra um að froðufella fyrir sig).

Hin framlengda sóttkví – Denomination Blues

Páskalaugardagur. Ég tek umræðuna á Íslandi nærri mér. Og stöðuna.

Ég hafði oft á orði síðasta vor að við þyrftum að gæta okkar – það væri mjög stutt í að við færum að líta á útlendinga (eða aðra hópa) sem skítuga smitbera, og dýrka hið hreina Ísland (eða hugmyndina um hið hreina Ísland). Það er ekki ný saga heldur gömul – og sama hvort það eru gyðingar eða sígaunar eða bara utanbæjarmenn. Akureyringar kunna að þvo sér um hendurnar og smita ekki en það gildir auðvitað ekki um Húsvíkinga sem skíta þar sem þeir éta og hósta í lófann áður en þeir heilsa fólki með handabandi.

Og svo er það auðvitað niðurstaðan – gerðist ekki á einni nóttu en við erum búin að tala okkur upp í það. Og satt að segja held ég að fólk óttist orðið meira að einhver af „hinum“ komi af stað smiti svo sundlaugarnar loki, frekar en að það óttist að einhver deyi – ástandið er farið að fæða sjálft sig, einn óttinn drífur annan. Þeir sem vilja komast í ræktina vilja að fólk fari ekki á barinn og þeir sem vilja fara á barinn vilja að fólk sleppi ræktinni. Og tortryggnin er alger. Næg til að yfirvöld læsi fólk inni svo það brjóti ekki lög.

Harðar aðgerðir, einsog þeir sem eru í framkvæmd núna með þessi sóttkvíarhótel – og mér þykir brjóta í bága við þau grundvallarmannréttindi að manni sé ekki refsað fyrir þá glæpi sem maður gæti framið heldur þá sem maður sannarlega hefur framið – gera auðvitað gagn. Það er ekki vandamálið. Hvort þær gera nógu mikið gagn – það er enn mikið af fólki að koma frá öruggum löndum og þess utan er möguleiki að komast í gegnum skimanir og sóttkví og smita samt, það eru áreiðanlega einstaklingar á undanþágu frá sóttkví (t.d. vegna annarra veikinda – eða börn ein á ferð) og þegar einn einasti er kominn inn getur hann hóstað á heilan fótboltavöll og sett samfélagið á hliðina – er svo önnur spurning. Og ef maður treystir ekki fólki til að fara sjálft í sóttkví hvers vegna treystir maður því þá fyrir að vera koma beint frá einhverju öruggu landi? Lögreglan gaf í skyn að hún léti fólk sýna sér myndir úr símanum til að sjá hvar það hefði verið. Sem er auðvitað líka snargalið.

Svo er aftur spurning hvaða kostnað hinar hörðu aðgerðir hafa í för með sér umfram það gagn sem þær gera.

Óttinn er hungruð skepna og hún verður aldrei mett svo vel sé. Það er ábyrgðarhluti að leyfa henni að leiða samfélagið.

En sem sagt.

Þegar ég var að hugsa þetta síðasta vor hafði ég ekki alveg gert mér grein fyrir því að þetta gæti náð til mín, svona prívat og persónulega. Samt var löngu ákveðið að við tækjum ár í Svíþjóð. Ég hafði bara ekki hugsað út í það.

Ég var og er hlynntur sóttkvíarreglum og hefði ekki talið eftir mér að sitja tvær vikur í sóttkví – hef tekið það upp stoltur í samræðum að á Íslandi sé bara fimm daga sóttkví og fólk testað tvisvar. Hið fullkomna fyrirkomulag í erfiðum aðstæðum.

En ég vona að ég muni ekki láta það yfir mig ganga að vera læstur inni fyrir að geta hugsanlega orðið sekur um glæp. Það er undarleg tilfinning því raunmunurinn er auðvitað ekkert ofsalegur – ég hafði séð fyrir mér að leigja sumarbústað og hanga þar. Og hugsanlega jafnvel fara á hótel – sérstaklega ef ég þyrfti einn í sóttkví. Nadja er bólusett og ég veit ekki hvort hún eða börnin þurfa að fara í sóttkví. Ég veit ekki hvað það þýðir fyrir okkur, sem þó munum ferðast saman ef þess er nokkur kostur. Eða hvað það muni þýða. Ég hef hins vegar ekki nema takmarkaða trú á því að reglur verði rýmkaðar eða hysterían minnka á næstu mánuðum – mér finnst þvert á móti að nú þegar loksins birtir til sé fólk farið að æsa sig upp sem aldrei fyrr, og krefjist harðari og harðari aðgerða. Það hafa aldrei verið jafn strangar reglur á Íslandi og núna. Sem meikar bara ekkert sens.

En ég sem sagt tel það ekki eftir mér að sitja á gluggalausu hótelherbergi í fimm daga sjálfur – ég er mjög góður í þannig hangsi og hef litla þörf fyrir útivist. Been there, done that. En það þyrfti sennilega eitthvað meira til þess að ég legði það á börnin mín. Hins vegar geri ég það ekki undir neinum kringumstæðum ef ég fæ ekki að gera það sjálfviljugur. Ef það er ekki glæpur að ferðast er óásættanlegt að fólki sé refsað fyrir það. Það er bara ekki flóknara en það.

Þórólfur segir í viðtali að „ekki komi til greina að breyta þessu fyrirkomulagi“ – og í sjálfu sér áhugavert að hann talar einsog hann ráði þessu sjálfur, frekar en að hann sé ráðgjafi stjórnvalda sem þurfa þess utan að halda stjórnarskrá og alþjóðasáttmála, sem er alls ekkert víst að bakki upp svona aðgerðir.

En ef í ljós kemur að fyrirkomulagið er löglegt og því verður ekki breytt finnst mér líklegra en ekki að ég reyna að finna út úr því hvort ég geti ekki verið áfram í Svíþjóð a.m.k. þar til íslenska ríkið fer aftur að virða lágmarks mannréttindi. Svíar hafa verið kolgeggjaðir í sínum covid-viðbrögðum – en þeir eru kannski búnir að taka út mestu klikkunina. Það hlýtur líka að koma að því þessu neyðarástandi verði aflýst á Íslandi – ef það er ekki komið með haustinu þá næsta vetur. En ég lít sennilega svo á að hið klosslokaða Ísland sem fólk kallar eftir sé þá klosslokað fyrir mér líka. Ég hef engan áhuga á neinum undanþágum í því.

Mér finnst þetta bölvanleg tilhugsun – ég hef verið með mikla heimþrá alveg síðan við komum. Ég er mjög heimakær maður, sakna vina minna og fjölskyldu og er elskur að dótinu mínu sem varð eftir.  En kannski maður hugsi þá bara um Svíþjóðardvölina sem framlengda sóttkví – og líti svo á að það sé bara alls ekki eðlilegt að maður ferðist á milli landa, jafnt þótt maður eigi rætur og heimili annars staðar. Sennilega telja flestir sem sitja í sóttkvíarfangelsinu í Þórunnartúni að þeir hafi ekki minna réttmætar ástæður til þess að ferðast á milli landa en ég.

***

Ég er hjá tengdafólki mínu í Rejmyre en plötusafnið á Ísafirði, svo það verður ekki eiginleg plata vikunnar. Hins vegar er hérna lag sem var gefið út á 78 snúninga hljómplötu árið 1927 (sem ég á ekki í mínu safni). Lagið er hálft á hvorri hlið enda tæplega sex mínútur og bara pláss fyrir þrjár á hverri hlið. Það er Washington Philips sem leikur á einhvers konar sítar og syngur – gospel-blúsinn Denomination Blues. Þetta er töfrandi sánd – og nístandi krítík á kirkjuna.

Gamla Stan og Memphis Minnie

Auk þess að vera á þremur samfélagsmiðlum og skrifa blogg held ég fýsíska dagbók. Svo er ég auðvitað með nokkrar bækur í smíðum á hverjum gefnum tíma – svo ég geti gripið í þá sem ég er best stemmdur fyrir. Stundum líður mér í þessum skrifofsa öllum saman einsog manni sem hrapar til jarðar og baðar út öngunum í von um að fljúga. Baðar út öngunum á sex-sjö vígstöðvum samtímis. Með því á ég ekki við að mér finnist ég ekki kunna að skrifa – mér finnst ég satt að segja kunna fátt annað – en það er ekki víst það geri mikið gagn þegar maður er í frjálsu falli. En stundum flýgur maður samt. Og ekki hef ég skollið á jörðinni enn.

En það var ekki það sem ég ætlaði að segja. Yfirleitt skrifa ég mjög stutt í fýsísku dagbókina – á löngu tímabili voru þetta bara hraðritaðir listar yfir það sem ég ætlaði að gera, óskiljanlegar glósur og alls kyns hrat, innkaupalistar, þyngdartölur, hlaupnir kílómetrar, hvað var í matinn o.s.frv. Eitthvað til að markera tímann og tilvist mína. Á enn lengri tímabilum hef ég enga dagbók haldið.

Fyrir fáeinum vikum síðan tók ég mig taki og ákvað að sýna dagbókinni meiri virðingu. Að skrifa til dæmis þannig að ég skilji það sjálfur viku síðar. Rithöndin mín getur orðið alveg hrikaleg og þegar ég hraðrita fyrir sjálfan mig skrifa ég alltaf „færri og færri orð“ – því hver hefur nokkuð við persónufornöfn að gera? Hvað þá sérnöfn? Setning þarf ekki bæði sagnir og nafnorð – það er bara bruðl. Ef eitthvað er óþolandi og maður þarf að létta á sér er best að henda bara í eitt vel valið „andskotinn“ – ef maður man ekki hvað það var sem kallaði fram viðbrögðin var það sennilega ekkert merkilegt hvort eð var.

En nú skrifa ég sem sagt eitthvað aðeins meðvitaðra og jafnvel úthugsaðra í þessa bók. Það er ekki endilega að þetta sé efni sem „eigi ekki erindi“ við neinn annan – þótt það komi fyrir – og sömuleiðis er dagbókin ekki full af efni sem „gæti misboðið“ einhverjum, þótt það komi líka fyrir og manni sé hollt að eiga stað fyrir þær hugsanir sínar sem eru óþægilegar. Ef maður kemur þeim hugsunum hvergi fyrir er hætt við að það komi drep í þær og fyrr en varir situr maður uppi með þær einsog rotnandi lík í stofunni.

Ég nenni nú samt sjaldnast að röfla við sjálfan mig þannig. Ég er ekki alltaf glaður í dagbókina mína en ég er sjaldan beiskur. Mest eru þetta einhverjir heimspekilegir þankar – stundum eitthvað sem mér finnst of sjálfsagt eða banalt til að segja við aðra, stundum eitthvað sem ég veit ekki alveg hvert er að fara með en þarf að orða.

En nú á laugardaginn lýsti ég deginum áður. Þetta var mjög góður dagur. Við Nadja fórum til Stokkhólms og gistum í svítu á Hotel Gamla Stan í boði foreldra minna, sem gáfu okkur þetta í jólagjöf. Við fórum líka út að borða á asískan veitingastað sem heitir MoonCake (og fær okkar bestu meðmæli) og eyddum morðfé. Spjölluðum meira að segja við fólkið á næsta borði – einsog það væri hreint enginn faraldur.

Þegar máltíðinni lauk var allt lokað – í Svíþjóð lokar allt 20.30 – og Nadja vildi fara í göngutúr en mig langaði að fara að horfa á sjónvarpið. Ég veit ekki hvers vegna ég beit þetta í mig. Við eigum sjónvarp en það er ekki tengt línulegri dagskrá – bara notað í tölvuleiki og Netflix – og mig langaði svo að horfa á línulegt föstudagssjónvarp. Svo var mér líka mál á klósettið svo við frestuðum göngutúrnum fram á morgun og fórum upp á hótel (þar sem okkar beið líka kampavínsflaska).

Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom inn var að finna fjarstýringuna – hlut sem þrátt fyrir miklar hótellegur síðustu ár ég snerti afar sjaldan – og kveikja á sjónvarpinu. Það var stillt á einhverja útlenska sjónvarpsstöð svo ég smellti bara þar til ríkissjónvarpið birtist – man ekki hvort það var rás 1 eða 2.

Við okkur blasti spjallþáttur – tveir karlmenn á skjánum, annar bakvið „spyrilsborð“ og hinn í sófa. Veckans Ord med Kristian Luuk. Þáttarstjórnandinn spyr gest sinn, sem ku „sérfræðingur“, hver sé skítugasti hluturinn í hverju hótelherbergi. „Það er ekki spurning“, svarar gesturinn. „Það er sjónvarpsfjarstýringin. Hún er viðbjóðsleg gerlagildra. Ég myndi heldur drekka úr klósettskálinni en snerta fjarstýringuna.“

Orð vikunnar var „hótel“ og þátturinn var mjög skemmtilegur. Þar kom meðal annars fram að elsta hótel í heimi var standsett árið 705 í Japan og hefur verið í rekstri sömu fjölskyldunnar í 52 kynslóðir.

Þetta skrifaði ég í dagbókina mína og væri svo sem ekki í frásögur færandi nema vegna þess að næstu klukkustundirnar greip mig kunnugleg tilfinning sem ég skildi samt ekki alveg. Mig langaði að kíkja í dagbókina, líta aftur á þessa sögu. Fyrst hélt ég að ég hefði gleymt að skrifa eitthvað eða gert einhver mistök sem ég áttaði mig ekki alveg á. En svo rann það upp fyrir mér. Mér fannst þessi saga um fjarstýringuna svo sniðug sjálfum að ég var að athuga hvort ég hefði ekki fengið einhver læk. En það var alveg sama hvað ég kíkti oft – ég fékk engin læk. Ekki einu sinni komment.

***

Plata vikunnar er I Ain’t No Bad Gal með Memphis Minnie, sem er án nokkurs vafa frægust þeirra blúskvenna sem léku á gítar á fyrri hluta 20. aldar – nær allar stórstjörnur blússins af kvenkyni voru fyrst og fremst söngkonur, en Minnie var líka frumkvöðull í gítarleik. Á þessari plötu er hún á tindinum – þroskaður listamaður, ennþá grittý, en með alla færnina og þokkann og öryggið.

Minnie fæddist árið 1894* og hét þá Lizzie Douglas – var kölluð „Kid“ af fjölskyldunni. Hún var reyndar alls ekki frá Memphis en flutti þangað þegar hún flúði að heiman 13 ára gömul, tveimur árum eftir að hún eignaðist sinn fyrsta gítar. Þar lék hún á götunum og á einhverju tímabili – vonandi aðeins síðar – hafði hún aukatekjur af vændi.

Fyrsti eiginmaður hennar var Casey Bill Weldon úr Memphis Jug Band og þótt hann komi lítið við sögu í ferli hennar annars er talið að hann hafi verið hennar helsti kennari á fyrri hluta þrítugsaldurs – þegar Minnie var að verða Minnie.

Nafnið fékk hún eftir að hún tók saman við Kansas Joe McCoy – einsog ég las söguna einhvers staðar var það plötuútgefandi sem fannst það hljóma vel saman, Kansas Joe og Memphis Minnie. Joe söng mörg af lögunum sem þau léku saman en hún sá um flóknari hluta undirspilsins. Þau slógu í gegn með Bumble Bee árið 1929, þegar Minnie var 33 ára, og áttu marga slagara á næstu 6 árum áður en þau skildu 1935. Að því er segir á plötuumslagi þessu – í ágætri ritgerð Petes Welding – átti Kansas Joe erfitt með að þola hversu miklu meiri vinsælda og virðingar Minnie naut.

Sama ár kynntist hún öðrum Joe – Ernest „Little Son Joe“ Lawler – sem varð þriðji eiginmaður hennar og skráður höfundur allra laganna á I Ain’t No Bad Gal (það er þó talið nokkuð víst að hún hafi samið megnið af þessu sjálf). Platan er tekin upp í maí og desember 1941 – Minnie er fíníseraðri en hún var áður, upptökurnar eru betri, en hún er ekki orðin alveg jafn „borgarleg“ og hún varð seinna. Það er enn í þessu passlega mikill sveitabragur. Í seinni upptökunni leikur Minnie á rafmagnsgítar – að ég held í fyrsta skipti á upptöku.

Platan er fyrst gefin út 1988 en ríflega helmingur laganna hafði komið út í einhverri mynd áður. Allra frægast þar á meðal er Me and My Chauffeur Blues.

Won’t you be my chauffeur
Won’t you be my chauffeur
I wants him to drive me
I wants him to drive me downtown
Yes he drives so easy, I can’t turn him down
But I don’t want him
But I don’t want him
To be ridin’ these girls
To be ridin’ these girls around
So I’m gonna steal me a pistol, shoot my chauffeur down

Þetta er af kassagítarhliðinni – en það er hin hliðin sem ég held meira upp á. Þar leikur Lawler enn á kassagítar en Minnie er með rafmagnsgítarinn og tekur þátt í að leggja grunninn að Chicago-blúsnum. Hún plokkar og hendir í sólólínur en Lawler tekur bassalínur og strömmar. Svo tekur hún ofsalega fínt sóló – og hrópar og æpir á meðan „Play it! Play it for me, boy!“ og er væntanlega að tala við Joe í undirspilinu (eða gítarinn sinn?) Hann á allavega ekki þetta sóló – en hann á sólóið í næsta lagi á plötunni, titillaginu, sem er reyndar líka mjög gott (en allt öðruvísi).

***

* Mikið af þessum ártölum orka tvímælis – fer eftir því hvaða heimild maður treystir. Ég leyfi mér að fara bara eftir upplýsingunum á plötuumslaginu þar sem þær eru til staðar. Wikipedia segir t.d. að þau Lawlers hafi ekki byrjað saman fyrren 1938. Ég á líka einhvers staðar hérna ævisögu hennar í bókarformi en hún er bara hálflesin af því hún var svo leiðinleg – og um svo margt annað en hana, endalausar upptalningar á fólki. Minnir mig. Ég kannski lít á hana aftur – það er alveg hugsanlegt að ég hafi bara verið þreyttur og gramur þegar ég las hana.

Fréttir frá Svíþjóð – og Final Sessions: Sonny Boy

Per vinur minn spurði mig á dögunum hvort ég væri enn að skrifa „fréttir frá Svíþjóð“. Ég sagði að botninn væri kannski svolítið að detta úr þessu. Þegar við komum fyrst í vor vorum við til þess að gera nýbúin með fyrstu bylgju á Íslandi og það var forvitnilegt að setja sig inn í það hvernig Svíar hafa hugsað (og ekki hugsað) sín covid-viðbrögð í upphafi annarrar bylgju og bera það saman við það hvernig Íslendingar hafa hugsað (og ekki hugsað) sín covid-viðbrögð. En maður heldur ekki áfram að bera saman sömu hlutina endalaust, samanburðinum hlýtur einhvern tíma að þurfa að ljúka?

Mér þykja viðbrögð Svía skiljanlegri eftir ríflega hálfs árs veru hérna. Þeir hafa gætt sín á því að búa ekki svo um hnútana að hér ríki ógnarástand. Akkúrat í augnablikinu virkar óeðlið í hina áttina – ofsafengin viðbrögð við nokkrum smitum á Íslandi og ofsafengin reiðin sem blossar upp í kjölfarið. Helvítis skítar út um allt, fólk sem þvoði sér ekki um hendur, gekk ekki með grímu, útlendingar sem sáu sér hag í því að kaupa dýra flugmiða, dýra hótelgistingu og dýr PCR-próf til að sækja sér atvinnuleysisbætur á Íslandi, helst oft í viku – í sem stystu máli: drulluháleistar út um allt. Maður getur kallað það skiljanleg vonbrigði og eðlilega gremju og holla gagnrýni og hvað sem maður vill – en þetta er samt svolítið stjórnlaus hræðsla stundum og fólk slær frá sér í allar áttir.

Ég sá meira að segja fyrrverandi þingmann halda því fram fullum fetum að búið væri að rekja öll smit til einnar verkakonu af pólskum uppruna sem átti að hafa farið í (fullkomlega óþarfa) helgarferð til heimalandsins, með þarlendu flugfélagi sem væri miskunnarlaust að bjóða þangað niðurgreiddar ferðir (sennilega í þeim tilgangi einum að dreifa smiti). Það vantaði bara að hann útvegaði heimilisfang konunnar og kveikti í kyndlunum fyrir skrílinn.

Mér finnst líka og hefur alltaf fundist að hugmyndir um að loka landamærunum meira og minna um ófyrirsjáanlega framtíð séu álíka nötts og lockdown til langtíma. Kannski vegna þess að ég tilheyri einni af þessum fjölskyldum sem eru með fót í fleiru en einu landi. Ég skil vel að það sé mikilvægt að komast í sund og ræktina og þurfa ekki að vinna heima – en það er líka mikilvægt fyrir ex-pata/innflytjendur að geta hitt fjölskylduna sína, hitt menninguna sína, talað tungumálið sitt o.s.frv. Ef ástandið væri ekki einsog það er væri ég áreiðanlega búinn að taka skottúr til Íslands. Ég veit að það var þungt fyrir Nödju að geta ekki skotist til Svíþjóðar í vor – því það er einmitt svona ástand sem kallar fram langanir eftir því að vera með sínum „nærustu og kærustu“, ef maður mögulega getur.

Ég veit annars ekki hvort Svíar eru almennt léttari en Íslendingar í þessu. Stundum finnst mér þeir bara almennt kærulausari. Ég talaði nýlega við mann (ekki Per, vel að merkja) sem sagðist vera að íhuga að sleppa því að bólusetja sig. Hraustur maður, ekkert að honum – hann langaði bara ekki að þurfa að díla við mögulegar afleiðingar eða beiskjuna. EF það skyldi reynast eitthvað að. Þetta snerist ekki um Astra Zeneca eða eitthvað annað. Sennilega bergmálar hérna narkólepsían sem kom upp hjá fáeinum einstaklingum eftir svínaflensubólusetninguna 2009. Okkur er mjög gjarnt að upplifa stakar sögur einsog þær væru lýsandi fyrir veruleika allra. Að hafi einhver lent í einhverju hljóti allir að vera í hættu. Sem er auðvitað satt – maður er t.d. alltaf í einhverri hættu með að vera rændur úti á götu, tölfræðilegu líkindin eru til staðar. En ef maður ætlar að vera hræddur við það er maður farinn að hræðast allt – maður getur líka orðið fyrir eldingu, dottið í bað, fengið heilablóðfall.

Það er mjög hættulegt á internetöld þar sem maður getur í einu vetfangi lesið sögur um 400 manns sem urðu fyrir eldingu bara í vikunni og ályktað að hér sé um faraldur að ræða – eldingastríð – án þess að taka tillit til þess hvað jörðin er stór og fólkið margt. Fyrir utan svo hitt að tölfræðilegu líkindin af því að fara illa út covid – jafnvel fyrir hraustan ungan mann – eru talsvert meiri en að maður fari illa út úr bólusetningu.

En það þarf ekki að vera í ökkla eða eyra. Manni er hollast að vera ekki værukær gagnvart vírusnum – en maður má ekki heldur láta hann gersamlega taka sig á tauginni.

Ég átti minn fyrsta vinafund í marga mánuði á dögunum – við áðurnefndan Per – annars hef ég ekki hitt fólk (í eigin persónu) nema fjölskyldu Nödju síðan í október. Þetta Svíþjóðarár hefur farið að mörgu leyti öðruvísi en það átti að fara. Ég hafði séð ýmsa kosti við að vera hérna og eitthvað af því hefur staðist þótt flest hafi látið á sér standa vegna aðstæðnanna. Ég hef t.d. haft bærilegan vinnufrið, virðist mér, í öllu falli kláraði ég tvær bækur og hef sinnt alls konar öðru. Svo einhver eru afköstin og ég lofa að ég kastaði ekkert til hendinni.

Kostirnir – það sem ég hlakkaði til – var hins vegar t.d. að geta farið á tónleika. Það eru blúsklúbbar í Stokkhólmi og stórar hljómsveitir spila þar mikið. Eric Bibb á sænska konu og á heima þar. Við gáfum Aram Iron Maiden miða í afmælisgjöf – þeir tónleikar eiga að vera í júlí en verða varla. Mér tókst að fara á eina skítsæmilega blústónleika í september en annars hefur náttúrulega ekkert gerst – því þótt hér sé ekki lockdown þá er ekki einsog fólk vaði bara um villt og hósti hvert á annað. Það eru takmarkanir inn í búðir og allt lokað á kvöldin og leikhúsin og bíóin og allt það lokað.

Annað var nálægð við alþjóðaflugvöll. Einn stærsti gallinn við að búa á Ísafirði er að þurfa alltaf að keyra til Keflavíkur (eða Seyðisfjarðar) til að komast úr landi. Á venjulegu ári ferðast ég mikið og það er umtalsvert auðveldara að skjótast héðan á Arlanda – varla klukkustundarakstur. Það er meira að segja alþjóðaflugvöllur hérna í bænum – umdeildur aðallega vegna þess að það er taprekstur á honum, getur ekki keppt við Arlanda, sennilega verður honum lokað – og hann er litla tíu mínútna strætóferð í burtu.

Svo höfðum við á prjónunum að kynnast fólki og svona, einsog maður gerir. Vorum meira að segja með fólk í sigtinu til að bjóða í mat. En í þessu ástandi er fólk lítið að hittast og svo til enginn er að opna á ný samskipti. Ef fólk hittir einhvern þá hittir það aldavini sína, eðlilega, og nýfluttir – sem þess utan eru ekki komnir til að vera – mæta mjög miklum afgangi.

Og þannig mætti halda áfram. Ég hafði hugsað mér að komast á gítarnámskeið eða gítarsmíðanámskeið eða jafnvel söngnámskeið – og þótt ýmislegt af þessu hefði verið tæknilega mögulegt var ekkert af því æskilegt og þar við sat og situr.

Við hjónin erum hins vegar að fara til Stokkhólms í dag. Fengum hótelgistingu í jólagjöf og ætlum að nýta okkur gjafakortið. Búin að bóka borð á veitingahúsi – þau eru opin til hálfníu – og ætlum að gera okkur glaðan dag. Og veitir ekki af – ég hef verið afar þungur síðustu vikur, þótt ég sé bærilegur í dag og í gær.

***

Plata vikunnar er Final Sessions 1963-4 með Sonny Boy Williamson.

Sonny Boy var munnhörpuleikari, fæddur 1912, og lést ári eftir að þessum upptökum lauk, 52 ára – en leit út einsog hann væri áttræður að minnsta kosti og hafði gert lengi.  Hann hét Aleck „Rice“ Miller þegar hann fæddist og tók upp þetta nafn eftir öðrum blúsmunnhörpuleikara, John Lee Curtis Williamson, sem var tveimur árum yngri en reis til frægðar á undan Rice. Eru þeir stundum kallaðir Sonny Boy Williamson I (John Lee) og Sonny Boy Williamson II (Rice Miller) til aðgreiningar. Sá fyrrnefndi er aðeins minni fígúra í munnhörpuheiminum en sá síðarnefndi – en það munar ekki mjög miklu og þeir þykja báðir miklir frumkvöðlar í stíl og tækni án þess að ég þekki mikið hvernig munnharpan virkar. Sjálfur sagði Rice að hann hefði tekið upp þetta nafn á undan John Lee – sem virkar undarlega í ljósi þess að Rice hét alls ekki Williamson að eftirnafni – og flestum þótti þetta víst frekar lélegt af honum. En hann var tónlistarséní fyrir því.

Platan er tekin upp í tvennu lagi. Fyrra sessjónið er tekið upp „in Europe“ einsog stendur aftan á umslaginu, síðla árs 1963, en það síðara í Chicago í ágúst 1964. Svo virðist sem í Evrópu hafi hvorki verið lönd, borgir né dagatal. Í Chicago var hins vegar ekkert manntal og því veit enginn hver lék á trommur og bassa á þeirri hlið plötunnar. Annars er þetta ofsalegur mannskapur. Í Evrópu er Matt Guitar Murphy á gítar – sem margir kannast sennilega við úr Blues Brothers myndinni,  en lék líka með Howlin Wolf, Memphis Slim og fleirum, og er næstfrægasti blúsgítarleikari Chicago-blússins á eftir Buddy Guy, sem leikur einmitt í Ameríkulögunum. Lafaeytte Leake leikur á píanó í Ameríku – en sennilega er enginn honum fremri nema ef vera skyldi þá Otis Spann sem leikur í Evrópulögunum. Þar er svo Willie Dixon sjálfur á bassa og Billy Stepney á trommur.

Öll lögin eru frábær og flutningurinn óaðfinnanlegur. Þetta er einfaldlega meistaraverk. Það eru tvær útgáfur af Mattie is My Wife, ótrúlega flott og einföld útgáfa af Robert Johnson laginu Kind-Hearted Woman – en eftirlætið mitt er sennilega langdregin útgáfa af gospelslagaranum Milky White Way.

Ég vissi það ekki þegar ég byrjaði að skrifa þetta en platan er ekki á Spotify og ekkert laganna af henni er á YouTube. Så det så, einsog maður segir – ég hef ekkert upp á að bjóða. Nema kannski þetta live-myndband af Sonny Boy að spila allt önnur lög með allt annarri hljómsveit í sænska sjónvarpinu.

Littfest, lyndið og einmana sálir

Ég er í lest á leiðinni á Littfest í Umeå. Einsog í gamla daga. Raunar eru bara þrjú ár síðan ég fór síðast og tæknilega séð á maður held ég alltaf að þurfa að bíða fimm ár milli heimsókna en af einhverjum orsökum er skortur á útlenskum rithöfundum í landinu. Hátíðin verður með „breyttu sniði“ – ég átta mig ekki á því hvað það verða margir á svæðinu þegar ég les en þeir verða ekki margir. Síðasta haust fór ég í svona ferð til Malmö og las upp fyrir kvikmyndatökumann, hljóðmann, kynninn og tvö önnur ljóðskáld. Það er ekki alveg það sama. Fyrir Covid mætti yfirleitt aldrei neinn – mjög yfirþyrmandi að hafa allt þetta fólk standandi yfir sér. Svo eru víst enn fleiri að horfa á eitthvað streymi.

Ég ætlaði að vera með tvær bækur um jólin – af ólíku slagi – en það er búið að fresta annarri þeirra fram á jól 2022. Ég er enn undir feldi að hugsa um hvað mér finnst um það. Covid hefur farið einhvern veginn þannig með mig að mér finnst einsog ég sé að þrauka allt – lífið sé bara spurning um að halda í sér andanum og bíða þangað til það er búið. Eða a.m.k. þangað til Covid er búið. Þetta er alveg áreiðanlega ekki besti tíminn heldur fyrir mann sem vinnur einn að flytja til annars lands. Í kvöld hitti ég Per vin minn og það verður í fyrsta sinn síðan ég hitti nokkurn sem er ekki í tengdafjölskyldunni minni síðan í október. A.m.k. sósíalt – og í meira en þrjár mínútur.

En ég er ekki kaupsýslumaður og ætla ekki að láta einsog ég sé það. Hef ekkert vit á þessu. Mér finnst bara leiðinlegt að bíða. Finnst ég bíða svo mikið.

***

Blúsplata vikunnar er Lonely Soul með sveitinni GA-20 frá 2019. Það er ekki alltaf hægt að vera í klassíkerunum og þótt þetta sé ekki tía þá er platan mjög skemmtileg og ég hafði aldrei heyrt á sveitina minnst. Kannski verð ég kominn með leið á þessu eftir viku en í dag er hún að gera sitt. Þá kemur heldur ekki að sök að ég uppgötvaði hana „analóg“ – las viðtal við einn meðlim sveitarinnar í norska tímaritinu „Blues News“ og leitaði hana svo uppi á Spotify (og vínyllinn er í Discogs-innkaupakörfunni minni).

Aðalmennirnir í GA-20 eru gítarleikararnir og ofsahipsterarnir Pat Faherty og Matthew Stubbs, en sá síðarnefndi hefur meðal annars getið sér gott orð sem aðalgítarleikarinn í sveit Charlie Musselwhite síðasta áratuginn eða svo. Báðir eru mjög mikið með sólgleraugu og í gallaefni, sem er auðvitað stór plús.

Lonely Soul er mjög rokkuð plata í hinum forna skilningi þess orðs – það er fiftís í þessu, sving og búggí – og gítarsólóin eru flest stutt og öll hnitmiðuð og ekonómísk, sándið passlega drullugt, bjagaðir magnarar, mikið tremolo og mikið reverb, talsvert attitúd en aldrei neitt drama, lagasmíðarnar einfaldar og beint að efninu. Hér er ekki verið að finna upp hjólið. Nokkur laganna eru kover – þarna er Crackin’ up eftir Bo Diddley, I feel so good eftir JB Lenoir, Got Love if You Want it eftir Slim Harpo og My Soul eftir zydeco-blúsarann Clifton Chenier. Áhrifin í lagasmíðum þeirra hipsterbræðra eru síðan augljós – það er talsverður Musselwhite fílingur í One Night Man t.d. og þeir hljóma oft einsog aðeins meira old school Black Keys (ekki síst af því einsog Black Keys eru þeir ekki með bassaleikara – svo heitir líka eitt frægasta lag BK Lonely Boy).

Þetta eru live útgáfur bara af því það er skemmtilegra í „myndmiðli“.

Vetur, veira og Leadbelly

Hið daglega

Veturinn hefur smám saman verið að smokra sér aftur inn í líf okkar. Í Västerås var komið vor. Ekki þar fyrir að snjófölin sem þekur göturnar þætti ekki merkileg á Ísafirði – klukkan er orðin níu að morgni og hún er varla sjáanleg lengur. En það er skítakuldi og hefur verið í nokkra daga. Þetta er allt öðruvísi kuldi líka, svona sléttukuldi – og þurr. Hér er varla nema 20% raki í húsum, hef ég séð á rakamælinum í gítartöskunni minni. Ég geri varla annað en að klóra af mér skorpna húðina.

Við erum með gest næstu vikurnar. Besti vinur Arams, Halli Golli Hála Halla Goll (Ingólfur gat Hálfdán sem gat Hálfdán sem gat Hálfdán Ingólf) er kominn í heimsókn frá Íslandi. Þeir tala viðstöðulaust. Mikið af því er á ensku, af því að tíðin er þannig, og vegna þess að Halli Golli átti heima í Bandaríkjunum í eitt og hálft ár – og þangað heimsótti Aram hann rétt áður en kórónaveiran brast á. En stærstur hluti af því sem þeim fer á milli er samt sérnöfn á pokémonum.

* * *

Hálfdán: „Siri – how do you pronounce „seismic toss“?“

Siri: „Here’s what I found.“

Aram: „Pabbi – hvernig pronánsar maður „seismic toss“?“

Pabbi: „Maður pronánsar það „hvernig ber maður fram““

Aram: „Ha?“

* * *

Fréttir frá Svíþjóð

Kórónaveiran geisar bara og geisar í Svíþjóð. Annarri bylgju var varla lokið þegar þriðju var lýst yfir. Eða þannig – ég veit ekki hvort það er búið að lýsa neinu yfir formlega, en það er búið að segja að hún sé í startholunum. Og Tegnell hefur sagt að hún verði hugsanlega verri en fyrstu tvær.

Ríkisstjórnin var að lýsa yfir vilja til að tvöfalda það fjármagn sem lagt er í kaup á bóluefni – dýrt, segja þau, en ekki jafn dýrt og veiran er fyrir þjóðfélagið. Stundum er ég bara hissa á fréttunum og finnst einsog forsendurnar sem var búið að gefa upp séu bara kjaftæði. Ég hélt til dæmis að það væru bara allir að kaupa jafn mikið af bóluefni og þeir fengju afgreitt – verksmiðjurnar væru allar á fullu. Og svo væru einstaka djúspokar að yfirbjóða til að fá meira fyrr. En Evrópusambandsþjóðirnar væru saman í sínu yfirboði. Kannski eru Svíar þá að hugsa um að fara að yfirbjóða sjálfir.

Það var í fréttum líka á dögunum – og gagnrýnt – að Svíar hafa staðið gegn því að patent verði gefin frjáls svo þriðja heims þjóðir eigi hægara með að útvega sér bóluefni.

Frá áramótum hafa gilt harðari reglur í Svíþjóð en fyrr. Fyrst mátti ekki afgreiða áfengi eftir klukkan átta á kvöldin og svo urðu allir veitingastaðir að loka hálfníu. Það eru líka takmarkanir á fjölda fólks inni í verslunum. Ég átta mig illa á hlutföllunum í því – sérstaklega í minni búðum, sem mega sumar vera með 15 viðskiptavini og aðrar bara 2, án þess að ég sjái mikinn stærðarmun. En þetta er einhver hlutfallsreikningur – þannig getur ein matvöruverslun leyft 97 kúnna en önnur 94 kúnna. Ekki þar fyrir að ég hef bara einu sinni séð einhvern telja inn í búð – fyrir utan Systembolaget, þar er alltaf einhver að telja (nema þegar það er bókstaflega ekkert að gera).

Það er búið að sprauta milljón sprautum í landinu. Miðað við að hver þurfi tvær sprautur og það séu tíu milljón manns í landinu þarf þá að sprauta 19 milljón sinnum í viðbót. Mínus börn og unglingar reyndar, sem er ábyggilega slatti.

Meghan og Harry hafa verið mikið í fréttum hér einsog annars staðar. Mér sýnist Svíar heldur skeptískari á parið en Íslendingar. Ekki að þeir taki afstöðu með krúnunni – sem royalistarnir í landinu gera þó áreiðanlega, en ég er meira að hugsa um krítíska vinstrimenn – heldur virðast þeir einfaldlega sínískari gagnvart ameríska sensasjónalismanum en Íslendingar. Mér finnst þetta allt áhugavert einsog manni getur bara gert þegar manni stendur eiginlega alveg á sama. Það er eitthvað í þessari baráttu hinna grátklökku ameríkana og hinna samanbitnu breta sem kjarnar og undirstrikar (stórveldis)eðli beggja. Oprah er auðvitað drottning í Bandaríkjunum, Meghan afkvæmi hennar samkvæmt einhverri frægðarlógík, og Archie er þá erfinginn sem mun með tíð og tíma sameina konungsveldin tvö.

En ég ætlaði ekki að segja fréttir frá Bretlandi. Afsakið.

Næstkomandi laugardag velja Svíar framlag sitt í Eurovision eftir ótal undanúrslitakvöld. Það er reyndar mjög fyndið að í hverjum þætti voru sjö lög – af þeim komust tvö beint áfram og tvö fóru á „andra chans“. Sem þýðir að minna en helmingur var dæmdur úr leik í hverri umferð. Það voru fjögur þannig kvöld þar sem hópurinn var skorinn niður úr 28 í 16 lög. Þá var komið að „andra chansen“ – sem var síðasta laugardag – og það er einvígiskvöld þar sem þessi átta lög sem komust á séns eru pöruð saman og látin mætast. Fjögur eru úr leik og fjögur fara áfram.

Eftir fimm kvöld er þá búið að fækka lögunum úr 28 í 12 – en á laugardag er bara einn sigurvegari. Þetta er mikil pródúksjón og margt skemmtilegra í dagskránni en lögin sjálf – mér skilst líka að forkeppnin hérna sé umtalsvert vinsælli en keppnin úti.

Ég get ekki sagt að ég sé yfir mig heillaður af neinu framlagi. Aram hélt grjótharður með þungarokkssveitinni Lilla syster sem var send heim úr andra chansen – hann trylltist fyrir framan sjónvarpið. Og raunar skiljanlega því sá sem vann einvígið var alveg framúrskarandi glataður – þótt textinn væri svolítið skemmtilega lélegur („Viva la forever / you and me together / when the sun goes down we keep on bailá bailá“).

Það er helst að Dotter heilli mig. Sá sem er sigurstranglegastur er samt maður sem heitir því óheppilega nafni „Tusse“ – ég reikna með að það verði 20 sekúndna töf á Gísla Marteini ef hann þarf að kynna hann í aðalkeppninni.

***

Blúsplata vikunnar

Blúsplata vikunnar er safnplatan Black Betty með Leadbelly.

Huddie Ledbetter – þekktur sem Leadbelly – fæddist 1888 og er sennilega sá fyrsti af köntríblúsurunum til þess að slá í gegn þegar sú stefna var að öðlast uppreisn æru á árunum í kringum seinna stríð. Hann hafði leikið með Blind Lemon á þriðja áratugnum en ekki náð áheyrn svo heitið gæti – sérstaklega ekki í samanburði við Blind Lemon – en svo döluðu vinsældir þessarar tónlistar og það hallaði heldur undan fæti hjá okkar manni, sem leiddist á glapstigu og drap á endanum mann.

Þjóðlagasafnarinn John Lomax fann hann í fangelsi þegar hann var að safna vinnusöngvum í byrjun fjórða áratugarins – fangelsin voru víst langbesti staðurinn til að taka upp vinnusöngva blökkumanna vegna þess að yfirmenn á plantekrum voru ekki par hrifnir af því að það væri verið að trufla mennina við vinnu. Hann vakti strax nokkra athygli og þegar hann var laus úr grjótinu fór hann að spila fyrir fína fólkið í New York á vegum Lomax. Svo kom upp eitthvað ósætti milli þeirra vegna peningamála – Leadbelly kærði Lomax og vann – og þá var konan hans umboðsmaðurinn hans í einhvern tíma. Það er á þeim tíma, 1937, sem það birtist fræg grein í Life Magazine – sem vakti þannig athygli á honum að varla varð aftursnúið. „Bad Nigger Makes Good Minstrel“ var fyrirsögnin – þar birtist mynd af konunni hans og svo nærmynd af höndum Leadbelly að spila á tólf strengja gítar, með myndatextanum: „These hands have killed a man“.

Leadbelly átti nokkur lög sem gerðu það gott meðan hann var á lífi en var kannski oft meira „fyrirbærið“ – blökkumaðurinn og morðinginn sem syngur einsog engill – hann kom oft fram í fangabúning og gerði talsvert úr bakgrunni sínum. Hann átti ekki miklum vinsældum að fagna meðal almennra blökkumanna í Harlem en hins vegar talsverðum í kreðsum tónlistaráhugamanna – hvítra og svartra – og eftir að sonur Johns Lomax, Alan Lomax, tók við umboðsmennskunni lék hann mikið með Josh White, Sonny og Terry, Woody Guthrie og Pete Seeger og fleirum í þeirri kreðsu folk-tónlistarmanna og róttæklinga.

Skömmu eftir að hann lést árið 1949 tóku The Weavers upp lag hans Goodnight, Irene og áttu ofsa-smell sem vakti almennari athygli á honum og verkum hans. Á næstu áratugum voru svo ótal laga hans leikin af hvítum, vinsælum tónlistarmönnum – t.d. varð breska skiffle-tónlistin bókstaflega til upp úr útgáfu Lonnie Donegans af Rock Island Line. Black Betty varð þekkt með Ram Jam. Cotton Fields þekkja allir Íslendingar í útgáfu Árna Johnsen – Kartöflugarðarnir heima – og mín kynslóð táraðist yfir Where Did You Sleep Last Night sem Nirvana spiluðu á MTV-Unplugged tónleikum sínum (og raunar tárast dóttir mín yfir því líka – það er í miklu uppáhaldi). Mikið af lögum hans voru reyndar þjóðlög sem enginn veit hver samdi – og meðal þeirra laga sem hann átti þátt í að koma á kortið voru Pick a Bale of Cotton, House of the Rising Sun, Bottle Up and Go og Take This Hammer.

Plata vikunnar inniheldur öll þessi lög og fleiri til á tveimur 180 gramma vinylskífum. Ég keypti hana á dögunum og hún kom í póstinum í gær frá Stokkhólmi. Ég átti fyrir eina gamla Leadbelly plötu – Leadbelly Sings Ballads of Beautiful Women and Bad Men / With the Satin Strings – þar sem er að finna eitt eða tvö lög sem eru líka hér, en er talsvert lúnari plata sem ég fann á einhverjum skranmarkaði. Það er unun að hlusta á þessa – þótt plötuspilarinn minn hérna sé reyndar óttalegt drasl (sérstaklega er hann lélegur ef tónlistin er mjög dýnamísk – kannski er eitthvað að honum, en ég veit ekki hvað það er, og ég keypti hann bara til að hafa eitthvað – ég er með mjög hógværar græjur heima reyndar, en þær eru ekki svona, ég geri engar sturlaðar hi-fi kröfur).

Lagið sem ég vel til sýnis af þessari plötu er samt ekki eitt af þeim frægari heldur lag sem ég hafði ekki heyrt áður og heillaði mig mjög þegar ég heyrði það nú.