Sóttkvíar, Gæska og Peps

Það er búið að aflétta hömlum á bólusetta að mestu leyti – bæði á landamærum Svíþjóðar og Danmerkur og ytri landamærum Íslands. Sem þýðir að Nadja og börnin komast vandræðalítið með ferjunni frá Gautaborg til Fredrikshavn og inn í Ísland. Ég aftur á móti fæ ekki bólusetningu í þessu jävla satans rassgati – aðallega af því íslenska og sænska kerfið tala ekkert saman, þetta er eins konar samstarf í því að vera ósammála og sýna enga samstöðu – og þarf að bóka (dýrt) PCR-próf í Gautaborg fyrir brottför úr landi, sem ætti svo að duga mér til að komast um borð í Norrænu í Hirtshals. Þar verð ég aftur prófaður strax og ég kem um borð – af einhverjum orsökum þarf maður að borga fyrir það próf, þótt PCR-próf séu annars ókeypis í Danmörku (skilst mér). Það er nokkur bót í máli að sóttkví hefst í raun strax og ég kem um borð – og ég er frjáls til að fara um allt og sleikja allt og alla einsog mér sýnist meðan ég er ebb í bátnum. Sem er tvær nætur. Ég þarf svo væntanlega að sitja í þrjár aukanætur á hóteli á Egilsstöðum og þá má ég ekki svo mikið sem anda á aðra. Og Nadja og krakkarnir verða þá annað hvort að bíða eftir mér eða halda áfram án mín.

Þessu fylgir nokkur existensíalískur leiði. Það eru allir svo glaðir og kátir að vera sloppnir úr þessum covid-höfuðverk. Nema ég! Mér líður svolítið einsog ég hafi verið valinn síðastur í liðið eftir að hafa eytt ári í að bíða eftir leiknum. Geggjað spenntur og er svo sagt að vegna ytri aðstæðna þurfi ég að sitja á bekknum allan tímann. En ég fái að vera í búning á meðan. Þetta er svolítið antíklímax.

Til þess að PCR-testið mitt dugi mér bæði yfir dönsku landamærin og upp í ferjuna sólarhring síðar þarf ég að taka það sennilega 31. júlí – af því við komum seint til Gautaborgar 1. ágúst (ekki tími til að taka prófið þar og bíða) og förum svo yfir til Danmerkur morguninn eftir. Morguninn 3. ágúst er ég þá á mörkunum með að PCR-testið sé enn gilt. Annar möguleiki er að keyra eldsnemma til Gautaborgar og taka rándýrt (50 þúsund vs. 25-30 þúsund) PCR-test og fá niðurstöðurnar á fjórum tímum. Nei, sennilega myndi mér duga 12 tíma opsjón.

Ég efast um að þessu verði aflétt áður en ég fer heim (3. ágúst) – þótt það gæti svo sem gerst. Það eru svo fáir sem þurfa (eða velja) að ferðast óbólusettir – og hreinlega verða sennilega mjög fáir evrópubúar óbólusettir í ágúst. Sem aftur þýðir að þrýstingurinn er enginn – óþægindin lenda á svo fáum. Og taugaveiklunin er og verður í yfirgír næstu misserin. Þess utan hefur þetta þau (að sumum finnst æskilegu) aukaverkun að hefta för þriðja heims skrílsins – mörkin milli „okkar“ og „þeirra“ verða skarpari. Ég tala nú ekki um ef bólusetningarleysið þar fer að verða til þess að önnur og verri afbrigði vírussins dúkki upp hjá „okkur“ næstu misserin.

En ég er líka nógu svartsýnn til að hluti af mér telur að það sé allt eins líklegt að það verði öllu skellt aftur í lás áður en við komumst heim. Smá Delta, smá Gamma, smá Epsilon – ruggi báturinn verður sennilega ekkert hikað. Það myndi nú varla duga til að halda okkur úti en það gæti gert heimferðina erfiðari og dýrari. En það er nú ekki líklegt. Held ég. Vona ég. Það er það áreiðanlega ekki.

Svo þarf ég náttúrulega ekki annað en að mælast jákvæður til að vera fastur í nokkrar vikur í viðbót.

En herregud hvað ég hlakka til að koma heim. Ég er alltof heimakær á fullorðinsárum fyrir svona langa útvist. Þegar ég var yngri vildi ég helst alltaf vera á ferðalagi – og svo sem kann ég ágætlega við það ennþá. En það er annar móður líka, að vera einn og ábyrgðarlaus, annar handleggur.

***

Ég er búinn að lesa inn alla Gæsku fyrir Storytel. Nú erum við að ræða næstu skref. Hugsjónadruslan er líklegust. Annars er Studio Västerås liðið komið í sumarfrí og ég verð farinn þegar þeir koma aftur. En Gæska ætti sem sagt að detta inn einhvern tíma fljótlega.

***

Peps Persson lést í gærmorgun. Ég hef fjallað um hann á blúsblogginu. Af því tilefni er Blues på Svenska plata vikunnar.

Skipulag, skógarmítlar og andsetnar konur

Ég er að reyna að koma einhverju skipulagi á líf mitt aftur. Það er sosum ekki mikið að gerast akkúrat í augnablikinu – fyrir utan flutninga, sem eru reyndar flóknir – en ég þarf skyndilega að setja hluti aftur upp í dagatal svo ég tvíbóki mig áreiðanlega ekki í haust. Ég þarf líka að sjá út haustið af því ég er með bók. Nýja skáldsögu – ekki nema átján mánuðum eftir þá síðustu. Að vísu var hún tilbúin fyrir tveimur árum en þetta var nú frekar stutt meðganga (getur maður talað um meðgöngur án þess að eiga við meðgöngu barns – maður gengur allavega með skáldsögur, finnst mér, a.m.k. jafn mikið og maður gengur með meðgöngukaffi og áreiðanlega meira en maður gengur með meðgönguljóð).

Mér finnst heillandi tilhugsun að ferðast eitthvað. Ég hef ekki komið upp í flugvél síðan í febrúar 2020. Þá fór ég til Jönköping, einsog í fyrradag – en nú fórum við bara keyrandi. Tókum nokkra daga í bústað við Hällingssjö og fórum svo til Jönköping á hótel og tókum næsta dag á Visingsö og í Gränna (þar sem polkagrísinn er upprunninn). Ég fékk fjögur skógarmítlabit – fæ ábyggilega TBE og dey. En svo hlakka ég líka til að vera heima og rækta ræturnar mínar í haust. Sinna húsinu, hitta vini mína og fjölskyldu, elda mat í eldhúsinu mínu, leika mér með gítarana mína. Og að vinna í nýrri bók sem ég hef verið að kortleggja síðustu vikur og verður ábyggilega frekar stór. Ég nenni eiginlega ekki að skrifa meira í hana hér því maður þarf nokkrar lítt truflaðar vikur til að komast á skrið – annars skrifar maður bara einhverja vitleysu sem maður endar á að henda (af því þegar maður er ekki að skrifa breytast hugmyndirnar og eru óþekkjanlegar þegar maður sest aftur niður – maður þarf svolítinn massa af texta til að hann haldi, sé fokheldur).

En maður getur augljóslega ekki bæði verið heima og ferðast – eða einbeitt sér að öllu í einu. Mig langar líka að halda áfram í tónlistinni. Og gera súrdeig og súrsa grænmeti og halda matarboð og koma mér í form og það allt saman.

***

Plata vikunnar er King of the Delta Blues Singers með Skip James. Það er til fræg samnefnd plata með lögum eftir Robert Johnson en þetta er sem sagt ekki hún, heldur Skip James plata sem inniheldur upptökur af lögum hans frá 1931. Skip tók þá upp nokkur lög og hugðist verða heimsfrægur – varð svo mjög hissa þegar það gerðist ekki og gaf tónlistina upp á bátinn, að miklu leyti. Um þrjátíu árum síðar datt hann svo inn á radar blúsáhugamanna sem sáu hann sem einhvers konar forvera Roberts Johnson – sem er einmitt annars álitinn ókrýndur kóngur deltablússöngvaranna – og má sannarlega til sanns vegar færa. Að minnsta kosti er hafið yfir allan vafa að Robert hefur átt eina eða tvær af þessum fáu 78 snúninga plötum Skips sem seldust við útgáfu. Þegar blúsnördin voru búin að finna Skip var honum auðvitað ruslað inn í stúdíó og látinn taka upp lög sín að nýju, í betri gæðum – en þá var gítarleikurinn ryðgaður og lögin hægari. Hins vegar er söngröddin á nýrri lögunum dýpri og sterkari – eða kannski eru það bara upptökugæðin.

Ég fór annars nánar í ævi Skips á blúsblogginu fyrir rúmu ári – það má lesa hér. Ofsalegur maður.

Lagið sem ég ætla að velja af þessari plötu er Devil Got My Woman.

Aflýsing tónlistarmanna, helvítis bólusetningin og besta djammsessjón sögunnar

Yasin heitir sænskur rappari, fæddur undir lok síðustu aldar. Hann er uppalinn í Rinkeby-hverfi Stokkhólms en af sómölsku bergi brotinn, og raunar skyldur nokkrum frægum tónlistarmönnum (á norðurlöndunum). Hann hefur verið að gera tónlist frá því hann var um 16 ára gamall en sló fyrst í gegn 21 árs, fyrir tveimur árum, með laginu DSGIS (sem stendur fyrir Det som göms i snö – „það sem snjórinn hylur“ er fyrri hluti máltækis sem endar „birtist í þíðunni“). Síðan þá hefur hann undantekningalítið raðað lögum sínum í efstu sæti Spotify-listanna.

Þegar DSGIS kom út var hann nýstiginn út úr fangelsi en hann hafði rúmu ári áður verið dæmdur í 27 mánaða fangelsi fyrir gróft brot á vopnalögum en var sleppt snemma (reyndar var lausn hans frestað einu sinni um mánuð vegna slæmrar hegðunar í fangelsinu). Hann hefur löngum verið talinn háttsettur í glæpaklíkunni Shottaz sem hefur orð á sér fyrir að vera sú ofbeldisfyllsta í Stokkhólmi – og það er nú alveg svolítið, klíkuheimurinn í Svíþjóð er bara frekar harður í seinni tíð, mikið um skotárásir, sérstaklega undanfarið.

Viku eftir að DSGIS kom út var hann handtekinn grunaður um morð – í nýárspartíi sem hann hélt á hæð í hóteli sem hann leigði í Stokkhólmi – og haldið í varðhaldi í rúma tvo mánuði áður en honum var sleppt (og málinu ekki fylgt frekar eftir).

Í apríl í fyrra var síðan sautján ára gömlum sænskum rappara rænt. Hann er víst frægur en er hvergi nefndur á nafn í blöðum og ég hef ekki haft fyrir því að gúgla mig fram um það hver hann er (og myndi sennilega ekki þekkja hann hvort eð er). Rapparinn ungi var niðurlægður í myndböndum á samfélagsmiðlum, látinn skríða um á fjórum fótum með hundaól, hann stunginn, barinn, klæddur í kjóla og kvenmannsnærföt og látinn bera hárkollur o.s.frv. Á endanum var honum síðan sleppt en hann – sem er líka tengdur klíkuheiminum, þó ekki Shottaz – neitaði að vinna með lögreglu eða leggja fram nokkurs konar kæru. Yasin lá víst undir grun strax í fyrra en var ekki handtekinn fyrren í upphafi árs og þá á grundvelli sönnunargagna sem lögregla hefur úr Encrochat-spjallforritinu – og fær frá frönsku lögreglunni sem krakkaði forritið síðasta sumar.

Yasin gaf út tvær plötur í fyrra – þá fyrri í maí og þá síðari í október. Sú fyrri var í fjórða sæti á plötulistanum eftir 21 viku og öll þrettán lögin af þeirri síðari fóru á topp-50 listann í Svíþjóð vikuna sem platan kom út. Hann var svo tilnefndur og vann bæði „hipphopplistamaður ársins“ og „nýgræðingur ársins“ á P3-verðlaunahátíðinni nú í mars (P3 er ein af ríkisútvarpsrásunum).

P3 ákvað að taka hann ekki úr spilun – enda ætti að meta hann út frá listrænum eiginleikum frekar en glæpsamlegum gerðum í einkalífinu – en dró þó úr spilun laga hans, á þeim forsendum að fólki gæti þótt óþægilegt að heyra þau og það þyrfti að fara einhvern milliveg. Þá reyndi Yasin að senda bréf úr fangelsinu til þekkts klíkumeðlims í Stokkhólms þar sem hann stakk upp á því að einhverjum á P3 yrði hótað eða þeim rænt ef lög hans væru ekki meira spiluð (einu sinni á tveggja tíma fresti var nefnt sem lágmark). Bréfið var stoppað af eftirlitinu í fangelsinu en komst í fréttirnar – og P3 sagði að þetta skipti engu til eða frá um hversu mikið hann yrði spilaður.

Í byrjun mánaðarins var svo haldin sænsk Grammy-verðlaunahátíð, sem Yasin komst ekki á frekar en á P3-hátíðina, og þar vann hann aftur „hipphoppari ársins“ fyrir plötuna 98.01.11 – en var auk þess tilnefndur fyrir plötu ársins, sem textahöfundur ársins og sem listamaður ársins. Vinur Yasins, rapparinn Haval – sem situr einnig fangelsaður fyrir sama brot – var tilnefndur sem nýgræðingur ársins en laut í lægra haldi fyrir Monu Masrour.

Nokkur umræða spannst um þetta allt saman, einsog gefur að skilja, og hvort eðlilegt sé að horfa framhjá glæpum tónlistarmanna við spilun, umfjöllun eða verðlaunatilnefningar – hvort verkin standi sjálfstæð og hvort það sé ábyrgðarhlutur að hampa ofbeldismönnum. Yasin hefur stundum sagt að hann sé hættur í glæpalífinu. En hann hefur verið dæmdur og kærður og þykir sennilegt að hann verði dæmdur aftur – ef það er borið saman við t.d. glæpi Auðs, sem hefur verið tekinn úr spilun á Íslandi, hefur lítt birst um það nema óljósar ásakanir á samfélagsmiðlum og engar kærur eða ákærur og þaðan af síður dómar.

Þá hefur fólk nefnt að ef aðstæðurnar væru aðrar hefði fólk tekið þessu alvarlegar. Pistlahöfundurinn Hanne Kjöller bar málið saman við mál Paolo Roberto sem er fyrrverandi boxari sem starfaði við sjónvarp og var þess utan orðinn hálfgert vörumerki fyrir pasta, ólífuolíu og þess háttar – nokkurs konar Jamie Oliver Svía. Paolo er vel að merkja afturhaldsseggur í skoðunum – barðist gegn hjónabandi samkynhneigðra og hefur sagt sig mikinn andstæðing femínismans (en ákafan stuðningsmann „jafnréttis“). Nema hvað – ekkert af því kostaði hann æruna. Hann var hins vegar handtekinn í fyrra fyrir að kaupa sér þjónustu vændiskonu og í kjölfarið var hann rekinn úr sjónvarpsþáttum sínum á TV4 og vörumerkið Paolos var lagt niður. Honum var sem sagt aflýst og hefur lítið til hans sést frá miðju ári í fyrra – fyrir það sem Hanna segir að sé augljóslega miklu minna brot en það sem Yasin hefur verið sakaður um. Hún ber þetta líka saman við dóma og kærur sem Cornelis Vreeswijk mátti þola – en hann sat nokkrum sinnum inni fyrir minni brot (meðal annars fyrir fylleríisakstur, slagsmál á krám og fyrir að hóta og skera – lítillega – eina af tveimur transkonum sem höfðu fylgt honum heim til ástarleikja – um þetta samdi hann meðal annars lag). Hanna tekur reyndar fram að henni þyki aflýsingarmenningin hroðbjóður – en gangsteragælurnar séu engu skárri.

Þá hafa aðrir nefnt að ef fórnarlamb Yasins – hinn ónefndi, barnungi rappari – hefði verið barn úr millistéttinni, einhver saklaus 17 ára pólópeysustrákur frá Östermalm, hefðu viðbrögðin verið önnur. Það sé gengisfelling á lífum hinna jaðarsettu að láta einsog þau séu ekki nægilega mikils virði til að taka andköf yfir – og jafnvel einhvers konar Wire-hugsunarháttur, að af því strákurinn sé „in the game“ (altso meðlimur í klíku) þá sé ofbeldið sem hann verður fyrir bara eitthvað bíó (sem færi gerandanum street cred sem megi jafnvel verðlauna sem dramatíska list).

Einnig hefur verið nefnt að tekið hefði verið harðar á þessu ef rapparinn ungi hefði verið kona og hún áreitt kynferðislega (margt af því sem gert var við strákinn – t.d. að berhátta hann og klæða hann í efnislítinn nærfatnað og mynda það – hefði verið kallað kynferðislegt ofbeldi í umræðunni ef hann væri stúlka). Það sé litið mun alvarlegri augum en niðurlæging litaðs unglingsstráks úr gettóinu.

Af þeirri umræðu að dæma má ímynda sér að mál Auðs hefði ekki endilega verið hanterað neitt öðruvísi í Svíþjóð. Og væri kannski nær að bera það saman við mál grínistans Sorans Ismail sem var þó kærður fyrir eitt og annað – kynferðisofbeldi, vændiskaup o.s.frv. – en ekki ákærður fyrir nema eitt málanna og held ég ekki sakfelldur fyrir neitt. En missti þó ferilinn (ef frá er talin heimildamynd sem var gerð um hann – Persona Non Grata – og hans mál, hefur ekkert sést til hans í nokkur ár). Var hann þó, annað en Paolo Roberto, mjög afgerandi hluti af „góða fólkinu“ sjálfur – meðal annars beitt sér mikið gegn Svíþjóðardemókrötunum.

***

Ég verð ekki bólusettur í Svíþjóð. Ég hef staðið síðustu vikur og endurhlaðið síðuna og fylgst með ártalinu færast nær og nær fæðingarári mínu – hér er maður ekki boðaður í bólusetningu heldur fær maður að bóka sér tíma þegar kemur að ártalinu manns. Þegar kom loks að mér hringdi ég umsvifalaust – símsvarinn lofaði að hringja í mig til baka og þuldi upp númerið mitt en svo var ekkert hringt. Sjálfsagt af því númerið er ekki sænskt. Ég beið því eftir að Nadja kæmi heim með sænskan síma og hringdi aftur. Þá var hringt til baka stuttu síðar. Fyrst var mér sagt að ég yrði að snúa mér til hælisleitendaþjónustunnar, hún sæi um alla sem væru ekki skráðir í landið, og svo spurði konan í símanum hvenær ég færi úr landinu (3. ágúst) og þá sagði hún að ég gæti ekki látið bólusetja mig fyrir þann tíma. Það væri enginn tími laus fyrr en 22. júní og ég þyrfti svo að bíða a.m.k. í sjö vikur á milli sprauta og þá væri kominn 9. ágúst. Það yrði enginn sprautaður með fyrri sprautunni sem gæti ekki lofað að vera til staðar til að þiggja þá seinni.

Þetta er auðvitað mjög bagalegt. Sennilega teldist ég ekki fullbólusettur fyrir heimferðina nema ég hefði náð seinni sprautunni um miðjan júlí – eða fengið Janssen (sem Svíar eru einmitt að lána Íslendingum 24 þúsund skammta af). En það er enginn sveigjanleiki um þetta frekar en annað. Ég held ég hafi aldrei kynnst annarri eins bjúrókratískri þvermóðsku og í þessu landi. Ég hef sosum nefnt það áður – en ég get t.d. ekki pantað pizzu með appi af því til að borga þarf maður Swish og til að fá Swish þarf maður sænskan bankareikning. Ég get ekki borgað fyrir strætó með appi af því appið er bara í boði í sænska appstore. Alls konar opinbera þjónustu get ég ekki nýtt mér af því ég er ekki með sænsku rafrænu skilríkin – Bank-ID. Ég gat ekki pantað blóm til Nödju fyrren hún fékk sænskan síma af því blómasalinn gat ekki sent sms í útlenskt númer. Get ekki fengið póst til barnanna minna afhentan á pósthúsi nema vera með þau og passann þeirra með mér (fyrir utan að ég stend alltaf í korter meðan póststarfsmenn eru að reyna að hantera passann minn – sem passar ekki inn í kerfið af því hann er ekki esb-passi og ekki ekki-esb-passi og alls ekki sænskt nafnskírteini). Þetta er land ferhyrningsins og allt sem er ekki ferhyrnt verður að gerast ferhyrnt eða fokka sér.

En ég þarf þá áreiðanlega að fara í sóttkví þegar ég kem heim. Hugsanlega börnin líka af því þau teljast ferðast með mér – geta ekki valið um að vera bara í för með bólusettri móður sinni. Og þarf sennilega tvö dýr PCR-próf – eitt til að komast inn í Danmörku og annað til að komast um borð í Norrænu og frá borði á Seyðisfirði. Fyrir utan auðvitað að ég þarf að ferðast óbólusettur – sem er nú ekki bara áhætta fyrir mig. Ég verð þá heldur ekki fullbólusettur þegar ég þarf að snúa aftur mánaðamótin ágúst-september til þess að taka þátt í bókmenntahátíð – ætli ég aflýsi því ekki bara, kemur í ljós. Ég fer allavega ekki í sóttkví á leiðinni heim því Aram á afmæli daginn eftir að ég kem til baka.

Jæja.

***

Plata vikunnar er Super Session með Mike Bloomfield, Al Kooper og Stephen Stills. Al Kooper var nýbúinn að fá djobb sem plötupródúsent og vissi ekkert hvað hann ætti að gera – og ákvað að gera bara djammsessjón plötu. Upprunalega pælingin var að fá bara Mike Bloomfield, sem var þá nýhættur í Electric Flag eftir að fyrsta platan þeirra floppaði (en hafði stungið af úr Paul Butterfields Blues Band til að stofna Electric Flag). En Bloomfield var hálfgert hrak. Hann hafði alltaf verið þjakaður af ofsalegri minnimáttarkennd og alvarlegu svefnleysi – við það bættist almenn tilvistarkrísa og dálítil heróínfíkn. Hann mætti samt, spilaði fyrsta daginn – var ofsa hress og kátur, einsog hann átti vanda til, lék á als oddi og spilaði músík einsog hann væri andsetinn. Þegar upptökunum lauk fór hann upp á hótel og hrundi bara – þunglyndið helltist yfir hann og hann lagðist aldrei til svefns heldur læddist út og náði fyrsta flugi heim til sín (og eyddi næstu árum í að reyna að gera eins lítið og hann komst upp með – en var stundum þvingaður úr húsi til þess að gera upp skuldir við útgáfufyrirtækið vegna Electric Flag floppsins).

Al Kooper vaknaði við að aðstoðarmaður hans hringdi og spurði hvort Mike hefði náð fluginu. Hann vissi auðvitað ekkert hvaða flug hann væri að tala um – Mike væri sofandi í næsta herbergi. Hann reyndist auðvitað ekki vera þar – bara miði þar sem hann baðst afsökunar, hann gæti þetta bara ekki. Góð ráð voru dýr – Kooper mátti ekki við því að klúðra fyrstu plötunni sinni sem pródúsent – og hann fann Stephen Stills sem kom og kláraði seinni daginn með honum. Þá tóku þeir meðal annars upp hittara plötunnar, Season of the Witch – sem Donovan hafði gefið út árið áður. Fyrsta lagið var hins It Takes a Lot to Laugh, It Takes a Train to Cry, sem Mike Bloomfield hafði einmitt leikið á með Dylan á Highway 61 Revisited.

Það var svo einhver kaldhæðni örlaganna að hafandi eytt óhemju af tíma og peningum í frumraun Electric Flag, sem var sannarlega ofsapródúseruð og ofhugsuð, skyldi Bloomfield fyrst ná almennilegri metsölu með þessum fimm lögum sem voru tekin upp óæfð í einni beit á einum afslöppuðum eftirmiðdegi korteri fyrir einhvers konar taugaáfall.

Þetta er uppáhaldslagið mitt af plötunni. Stop var upprunalega leikið af The James Gang en útgáfan á Super Session er svolítið öðruvísi. Sveitin hafði ekki tíma til að læra allt lagið og allar skiptingarnar svo þeir tóku bara eitt grúv úr laginu og endurtóku það – slepptu öllum söng – og Kooper og Bloomfield skiptast á að sólóa yfir grúvið. Það er eiginlega alveg ótrúlegt að sólóin séu ekki samin heldur spunnin.

Bókaslátranir, höfundakjöldrættir og regnbogafólk

Það er hellings umræða um bókmenntakrítík í sænskum miðlum í vikunni eftir að Linda Skugge – sem er sennilega þekktust á Íslandi sem einn höfunda Píkutorfunnar – birti gagnrýni um nýja bók eftir Kristinu Sandberg, margverðlaunaðan metsöluhöfund hinnar svonefndu Maj-trílógíu (sem hefur ekki komið út á íslensku – en er til á ótal öðrum málum). Bókin er sjálfsævisöguleg og fjallar um viðbrögð Kristinu sjálfrar við því að vera greind með krabbamein. Í sem stystu máli er dómur Lindu Skugge sá að bókin sé algert drasl – og hún fer ekki beinlínis fínt í það.

Titillinn á gagnrýninni er „Verður ekki list bara fyrir að fjalla um krabbamein“. Skugge segir bókina þungaða af sensasjónalisma – og telur það afleiðingu af Storytel-væðingu forlagsins, Norstedt (sem Storytel á) – og bera þess merki að höfundur sé (illa) ritlistarmenntaður. Ekki kemur fram hvort Skugge er þar að gagnrýna rithöfundaskólann á Biskops-Arnö eða Litterär Gestaltning í Gautaborg, en Sandberg er með diplómu frá báðum. Skugge segir bókina ekki hafa neitt að segja. „Vilji hún skrifa um sína persónulegu einkahagi, sem eiga nákvæmlega ekkert erindi við okkur hin, ætti hún ekki í það minnsta að reyna að vera svolítið skemmtileg? Með smá heppni geta þá orðið úr því bókmenntir.“ Og bætir svo við:

„Einsog t.d. þegar ég skrifa fljótlega um það þegar ég las nýlega upp pistil í útvarpið með WeVibe í píkunni á mér.“

Þá segir hún afstöðu Sandbergs til dauðans – sem er kjarni bókarinnar – hversdagslega og áhyggjur hennar af að krabbameinið taki sig aftur upp ómerkilegar.

„Tja, velkominn til lífsins. Lífið er allt ein áhætta. Maður getur alltaf orðið fyrir strætó. Eða lent í öndunarvél vegna covid-19 og smám saman kafnað í hel. Þess utan held ég að það sé skárra að deyja sjálfur en að missa einhvern sem maður elskar.“

Þá bætir hún við að titill bókarinnar – Einmanalegur staður – sé út í hött. 65 þúsund manns greinist með krabbamein árlega. Sjálf sé hún með Addisons og í hvert sinn sem hún fái niðurgang eða uppköst standi hún frammi fyrir dauðanum. Sandberg sé því alls ekki á „einmanalegum stað“. Svo klykkir hún út með að ef Sandberg og maður hennar eigi í vandræðum með kynhvötina (sem virðist koma fram í bókinni) þá ættu þau að prófa svona WeVibe, það sé engu líkt.

Einsog gefur að skilja hefur þetta vakið talsvert umtal. Flestir eru á því að dómurinn sé of grimmdarlegur – en einhverjir benda líka á að hann sé góður, taki upp sértækar spurningar og laus við hið almenna orðalag sem annars plagi flesta gagnrýni – „vel skrifað“ og „mikilvægt verk“ og „ákveðinn byrjendabragur“ eða „skortir heildarsýn“ og það allt saman, sem segi mest lítið um bæði verk og afstöðu gagnrýnanda, feli hana í svona „faglegum“ og „hlutlausum“ og fullyrðingarögum menntaskólastíl. Þá hafi Skugge fagurfræðilega afstöðu – gegn metnaðarlausum sensasjónalisma – og taki skýr dæmi um hvað sé vont í bókinni. Einhverjir nefna WeVibe-ið sem dæmi um bæði afturbeygða metakrítík – að byggja inn svona sensasjónalískt element í textann – og aðrir nefna að með því afhjúpi Skugge sjálfa sig og beri sig, svipti sig hulu hins ósnertanlega og ógagnrýnanlega gagnrýnanda, gefi viljandi höggstað á sér, hafandi slegið frá sér lyfti hún upp handleggjunum og bjóði fólki að slá á móti.

Þá eru nú kannski flestir á því líka að dómurinn sé skemmtilegur. Sem er auðvitað ljótt að segja, af því hann er líka kvikindislegur.

Umræðan er í öllu falli áhugaverð og áhugavert líka að það hefur enginn krafist þess að dónaskapurinn „hafi afleiðingar“ eða höfundurinn fái afsökunarbeiðni – þótt Åsa Linderborg segi reyndar að Linda muni á endanum fá samviskubit og biðjast afsökunar. Raunar hafa tilfinningar höfundar lítt verið ræddar og blaðamenn alls ekki falast eftir neinum viðbrögðum.

Svíar eru almennt frekar uppteknir af því að reyna að viðhalda stórþjóðastandard – þeir ná því svona „næstum því oftast“ – og hann er auðvitað í ofsalegum kontrast við smáþjóðarblaðamennskuna á Íslandi. Ég man t.d. ekki eftir því að hafa nokkurn tíma séð sænsk dagblað skrifa frétt upp úr Facebook- eða Twitter-umræðum – og hvað þá þeir stundi svona „sniðugast af Twitter á helginni“ eða „Instagram vikunnar“ bílífi. Íslenskir fjölmiðlar eru miklu persónulegri en sænskir og ekki nærri jafn vandir að virðingu sinni. Það er líka óhugsandi í Svíþjóð að gerð væri uppsláttarfrétt um skoðun einhverrar manneskju á einhverju fyrirbæri nema manneskjan væri vottaður sérfræðingur í málefninu. Á Íslandi eru reglulega gerðar fréttir um að einhverjum sem er með eitthvað poddkast eða skrifar stundum á Twitter finnist eitthvað. Væntanlega af því að viðkomandi kann að gera sig breiðan.

Þó eru einmitt dæmi einsog nefndur texti Skugge, sem má kalla lærðan sensasjónalisma eða álíka – það eru persónur (oft konur, a.m.k. í seinni tíð – Kajsa Ekis Ekman, Ebba Witt-Brattström, Åsa Linderborg, Cissi Wallin o.fl. o.fl.) sem skrifa skoðanagreinar sem verða mjög umtalaðar og allir þurfa að lesa og taka afstöðu til. Umdeildar. En það þarf venjulega að vera einhver intelektúal-vinkill á þeim. Og það er óhugsandi að fjölmiðlar myndu gera „best-of viðbrögðin á samfélagsmiðlum“ frétt upp úr því – en hins vegar fremur líklegt fastir pistlahöfundar, þekktir menningarkrítíkerar/álitsgjafar og ritstjórar blaða skrifi um það næstu daga og þar er talsvert algengara að „sitt sýnist hverjum“. Það þykir til marks um sjálfstæða hugsun að skila séráliti – og þykir að einhverju leyti óþarfi að leggja fram sama vinkilinn mörgum sinnum. Íslendingar sýnist mér gjarnan taka einhvern einn pól í hæðina, sérstaklega í erfiðum málefnum, og hamra svo bara á honum einsog einhver sé að rífast við þá (sem einhver gerir kannski í hálfum hljóðum og þarf svo að biðjast afsökunar á eftir).

***

Annars er fátt að frétta. Ég er of meiddur til að halda maraþonáformunum til streitu en ætti að geta verið í styttri hlaupum. Þarf að gera meira langtímaplan – kannski fyrir næsta vor. Nenni varla að vera í heilsusamlegu líferni í haust, nýkominn heim. Langar að drekka bjór með vinum mínum og grilla óhollan mat.

Það er sól og blíða. Ég hef verið duglegur að kaupa plötur upp á síðkastið. Plata vikunnar er Rainbow People með Eric Bibb. Hann er giftur finnski/sænskri konu, einsog ég, og býr í Stokkhólmi og hefur gert áratugum saman (fyrir utan nokkur ár í Kirkkonummi í Finnlandi). Hann er fæddur 1951 og alinn upp innanum alls kyns stórstjörnur í tónlistarheiminum – Pete Seeger og Paul Robeson voru fjölskylduvinir. Hann byrjaði að spila á gítar sjö ára og fékk meðal annars tilsögn frá Bob Dylan 11 ára („hafðu það einfalt – gleymdu öllu prjáli“). 19 ára yfirgaf hann Bandaríkin og hefur lítið búið þar síðan.

Rainbow People er önnur platan hans og kom út 1977, þegar Bibb var 26 ára. Hún er tekin upp í Svíþjóð og er lágstemmd blús-„heimstónlistar“-folk-djass-plata. Hljómar ekki endilega vel en er gott. Fyrir utan klassísk blúsáhrif var hann víst undir áhrifum frá Milton Nascimento, Antonio Carlos Jobim (sem samdi Stúlkuna frá Ipanema) og George Gershwin.

Platan er öll falleg en þetta er uppáhaldslagið mitt af henni:

Þriðjudagur

Ég er með höfuðverk. Sennilega er það svarti dauði. Ef ekki eitthvað þaðan af verra.

Það er ekki alveg jafn sumarlegt og var hérna á helginni. Skýjað en hlýtt.

Ég er að ýta á undan mér að senda frá mér stóran reikning. Af því þegar ég hef gert það þarf ég að snúa mér að skáldsögunni minni. Þeirri sem kemur sennilega ekki út fyrren í fyrsta lagi 2023 eða 2024 jafnvel. Þá hef ég enga afsökun lengur og er bara byrjaður að fresta út í loftið. Það tekur ekki nema tíu mínútur í mesta lagi að ganga frá reikningnum. En meðan ég á það ógert er það hann sem ég er að fresta og ekki bókin.

***

Eiríkur nafniminn Guðmundsson bað Hallgrím Helgason afsökunar í útvarpinu í gær. Það var þá þriðja afsökunarbeiðnin, skilst mér – sú fyrsta var prívat fyrir sex árum. Önnur var á Facebook og þriðja núna í útvarpinu. Eftir því sem mér best skilst tók Hallgrímur fyrstu afsökunarbeiðninni og síðan þeirri annarri og nú hefur hann tekið þeirri þriðju – sem hann kallar samt snautlega og nefnir Eirík í sömu mund og Samherja. Eiríkur gerði sem sagt atlögu að Hallgrími, alveg einsog Samherji, með því að skrifa pistil fyrir sex árum hvers innihald var harðorð gagnrýni á sjálfhverfu rithöfunda (sem höfðu hver á fætur öðrum stokkið til og skrifað skáldævisögu sömu jólin – beint í kjölfar sigurgöngu Knausgaards á ensku). Hallgrímur talar um að hann hafi ekki beðið um þriðju afsökunarbeiðnina heldur viljað að Víðsjá brygðist „mannalega“ við – sem maður hlýtur að skilja svo að það hafi átt að reka Eirík. Eða kannski gera sérþátt um það hvers vegna mætti ekki fjalla um bókmenntaverk í menningarþætti nema af ítrustu nærgætni?

Þetta er eiginlega sprenghlægilegt. Og minnir mig reyndar á það sem gerðist þegar Ebba Witt-Brattström skrifaði pistil í sænskt dagblað þar sem hún vitnaði í ritgerð kollega síns við Helsinkiháskóla um barnagirnd í verkum Karls Ove Knausgaard (eða unglingagirnd – girnd miðaldra karls í unglingsstúlkur – sem Knausgaard hefur bæði fjallað um í illa dulbúnum skáldsögum og ódulbúið í skáldævisögum). Karl Ove, sem öðlaðist heimsfrægð meðal annars fyrir að berhátta alla í kringum sig og delera um eðli þeirra (við miklar skammir), varð feykireiður og spurði hvort Ebba gerði sér ekki grein fyrir því að hann ætti börn sem væru að komast á þann aldur að þau gætu séð blöðin og ættu ekki að þurfa að lesa svona um pabba sinn?

Það held ég reyndar fólkið sem Hallgrímur hefur sært með skrifum sínum í gegnum tíðina standi í röðum og bíði eftir afsökunarbeiðni frá manninum sem eitt sinn varð á orði að valið stæði milli þess að vera „góð manneskja“ og „góður rithöfundur“, þegar hann þurfti að réttlæta það fyrir sér að hafa orðið minningu látinnar konu til skammar. Ég varði hann í því máli og stend enn við það – skáldskapurinn verður að leyfa sér ýmislegt. En það gilda ekki sérreglur um Hallgrím Helgason og það sem maður ber á torg í verkum sínum verður maður að þola að sé rætt á torgum og staðreyndin er sú að þótt Eiríkur Guðmundsson hafi vitnað í ruddalegan texta í sinni umfjöllun þá skrifaði hann ekki umræddan texta og tók ekki undir þann gildisdóm sem í honum fólst heldur fordæmdi. Það sem hann hins vegar gerði – og fellur undir heiðarlega menningarkrítík – var að spyrja hvort þessi sjálfhverfa (í Hallgrími og fleirum) væri afurð þess sensasjonalíska samfélags sem þarf alltaf stærra og meira kikk. Ég held að svarið við þeirri spurningu sé tvímælalaust já.

***

Ég hljóp aðeins í gær. Bara örlítið. Kálfinn þoldi það alveg en ég tók líka ekkert á. Svo veit ég ekkert hvort ég á að kalla þetta „verk“ eða „sársauka“. Mér skilst það sé alveg eðlilegt að maður finni aðeins til – bara á meðan það sé ekki „sársauki“, þá eigi maður að hætta strax.

***

Ég hef fengið tvö boð í bólusetningu á Íslandi en gengur ekkert að fá tíma hér úti í Svíþjóð. Sem er bölvanlegt. Ef það eru sex vikur á milli sprauta þarf ég að fara að fá þetta í gegn ef ég á að vera fullbólusettur þegar við förum heim – sem myndi auðvelda allt (sök sér að fara í sóttkví heima – verra ef ég þarf að sitja í tíu daga sóttkví í Danmörku á leiðinni, því við eigum miða með Norrænu).

***

Ég las Snöru eftir Jakobínu Sigurðardóttur. Eða reyndar las Arnar Jónsson hana. Ég hlustaði. Merkileg bók. Bæði frásagnaraðferðin (allur textinn er annar hlutinn af samræðu – allt sem einn maður segir, en ekkert af því sem hinn segir á móti) og textinn – Jakobína hafði næmt eyra fyrir talmáli og það má furðum sæta að textinn gangi upp í þessu formi, sem virkar svo brothætt.

***

Plata vikunnar er tvenna einsog síðast, en nú tveir karlar. Tommy Johnson, jóðlarablúsarinn – og Sleepy John Estes, vælarablúsarinn.

Frægustu lög Tommys eru Canned Heat Blues (sem hljómsveitin er nefnd eftir) og Cool Drink of Water Blues, með hinni frægu og síendurómandi línu „I asked for water but she gave me gasoline“ (sem Howlin’ Wolf gerði að sinni). Það var alls ekkert óvenjulegt að blúsarar jóðluðu á þessum tíma. Þótt það hefði verið eitthvað um jóðl í vaudeville-sýningum áratugum saman voru það fyrst og fremst vinsældir köntrísöngvarans Jimmy Rodgers sem varð mönnum einsog Tommy Johnson innblástur að sínu jóðli.

Sleepy John Estes var einsog Tommy fæddur upp úr aldamótum. Hann var blindur á öðru auga. Á sínum yngri árum vann hann allan daginn og djammaði og spilaði blús allar nætur og átti það til að sofna á sviði og fékk þess vegna viðurnefnið Sleepy John. Hans langfrægasta lag er Diving Duck Blues, sem meðal annars Taj Mahal og Johnny Winter koveruðu – og Keb’ Mo og Taj Mahal tóku líka saman í kassagítarsútgáfu á nýlegri plötu.

Tommy Johnson er sá sem djöflamýtan var fyrst sögð um – að hann hefði selt sálu sína á krossgötunum – sem var síðar færð yfir á Robert Johnson. Hann kemur líka fyrir í bíómyndinni O, Brother Where Art Thou (leikinn af Chris Thomas King). Hann tók ekkert upp eftir 1930 og lést 1956 (eftir tónleika) en Sleepy John lifði til 1977 og náði þar með að vera með í blúsendurreisnarstemningu sjöunda áratugarins og tók þá upp nokkrar plötur til viðbótar.

Sumarið, Gæska, maraþonið og ömmurnar

Ég er farinn að halda að sumarið sé loksins komið til Svíþjóðar. Það hefur að vísu látið sjá sig nokkrum sinnum áður, en óðar flúið aftur til heitu landanna – en nú er það áreiðanlega komið til að vera. Það eru 23 gráður og sól og blíða. Á fimmtudag voru 6 gráður og rok og rigning og alveg svívirðilega kalt á alla mælikvarða. Þann dag kláruðu krakkarnir veturinn í tónlistarskólanum og léku á mannlausum lokatónleikum – við erum enn að bíða eftir að fá að sjá upptökurnar. Þau voru bæði búin að vera mjög dugleg að æfa sig – ekki síst Aino sem kom seint inn í tónlistarskólann eftir að þau sendu út boð um að það vantaði bassaleikara. Hún þurfti auk þess – af sömu sökum – að leika í tveimur hljómsveitum, alls fjögur lög, sem við höfum æft stíft hérna heima síðustu vikur. Í tilefni af því fórum við út að borða á veitingastað að þeirra vali og þau fengu smá gjafir, sem töldust líka síðbúnar sumargjafir (Aram fékk bók um Iron Maiden og burstakjuða; Aino fékk Grease-plötu og stilli-fetil fyrir bassann).

Ég var með plön um að hlaupa maraþon í lok júlí. En síðasta sunnudag tókst mér að meiða á mér kálfann og nú veit ég ekki hvernig fer. Hef ekkert hlaupið alla vikuna en er að verða góður í kálfanum held ég. Sem er skjótari bati en ég mátti reikna með. Upprunalega planið var reyndar að hlaupa hálf-maraþon og kannski sný ég mér bara aftur til þess – en það er hálf súrt samt.

Ég lék við að taka upp hljóðbókina að Illsku um daginn og hún er komin inn á Storytel. Nú er ég að lesa Gæsku – sem ég hef ekki lesið síðan hún kom út 2009. Ég hef ekki haft ástæðu til að endurlesa bækur mínar nema þegar þær séu að koma út í þýðingu á tungumáli sem ég skil – Gæska hefur bara komið út á frönsku og það hefur lítið upp á sig að ég lesi hana á því máli. En þetta er nú samt gaman. Skemmtilega framandi einhvern veginn – ég skrifaði hana mestmegnis 2006-2008. Þegar ég byrjaði á henni var ég einhleypur blaðamaður á Ísafirði og þegar hún kom út var ég giftur, átti barn og búinn að segja upp dagvinnunni. Fékk einhver smá listamannalaun en var líka bara ofsalega blankur. Gæska fékk mjög góða dóma víðast hvar – en auðvitað situr fastast í mér neikvæði dómurinn í Kiljunni og annað sem misfórst í tengslum við útgáfuna. Dómurinn var líka alveg voðalegur, a.m.k. í minningunni – hún var dæmd í kippu með Paradísarborginni eftir Óttar Martin Norðfjörð og einsog ég man þetta sátu þau Kolbrún, Páll og Egill bara í hring og hlógu að því hvað þetta væri allt ótrúlega lélegt.

Á tímabili var bókin líka „uppseld hjá útgefanda“ – vegna þess að upplagið hafði allt verið sent á einu bretti upp í Smáralind í misgripum fyrir einhvern Arnald. Ég bjó úti í Finnlandi en kom heim yfir jólin. Aram var nýfæddur og ég hafði einhvern veginn engan tíma til að sinna þessu – man varla til þess að hafa lesið upp úr henni. Forlagið skipulagði einhvers konar útgáfuhóf í Bókabúð Máls og menningar á Laugavegi 18. Ég held við höfum verið svona fjögur í því boði, að Nödju og Aram meðtöldum. Þegar ég kom vestur komu þrír ólíkir bóksalar að mér – og hafa aldrei verið fleiri bóksalar á Ísafirði – til þess að kvarta undan því að það hefði ekkert gengið að panta bókina. Ég man ekki hvort hún var þá enn „uppseld hjá útgefanda“ – minnir að það hafi verið einhverjar aðrar ástæður í það skiptið. Til að bæta gráu ofan á svart fannst sumum vinum mínum hún heldur alls ekki góð – eða allavega að það væru of mikil læti í henni (það eru mjög mikil læti í henni) og hún væri kannski svolítið sínísk (hún er svolítið sínísk).

Hún seldist ekki neitt og vakti enga sérstaka athygli þótt hún fengi margar stjörnur í öllum dagblöðunum. Hún hefur samt eitthvað mallast út í gegnum árin og fékk líka fullt af stjörnum í Frakklandi og á nokkra eldheita aðdáendur sem láta vita af sér – en hún fer líka ægilega í taugarnar á þeim sem ekki fíla hana. Sem klagar sosum ekkert upp á mig þegar það er ekki í sjónvarpinu. Mér finnst það eiginlega bara mjög skiljanlegt. En hún á samt að vera svona.

***

Plata vikunnar er Gran’ mas I’ve Never Had með þeim Precious Bryant og Algia Mae Hinton. Ég heyrði í Precious Bryant í blúsþætti Cerys Matthews á BBC og pantaði plötuna eiginlega strax – fékk Algiu Mae í kaupbæti.

Precious er fædd 1942 í Georgíu í Bandaríkjunum og leikur Piedmont blús. Hún tók upp fyrstu lögin sín 1967 en náði ekki máli að neinu marki fyrren um 20 árum seinna – og lék þá meðal annars á Newport Folk festivalinu og túraði eitthvað um Evrópu.

Algia Mae Hinton er nokkuð eldri, fædd 1929 í Norður-Karolínu. Hún lærði á gítar 9 ára gömul – Piedmont blús, af móður sinni – en tók ekki upp tónlist fyrren seint á fullorðinsaldri – sennilega ekki fyrren upp úr fimmtugu, ef mér skjátlast ekki.

Platan er gefin út af Moi J’Connais Records, sem er að ég held svissneskt plötufyrirtæki, og ég held að platan hafi verið gefin út 2012 – í öllu falli er Precious enn á lífi þegar hún kemur út, en hún dó 2013. Algia lifði til 2018. Annað eiginlega veit ég ekki um hana – nema að hún heillar mig.

Einsog venjulega set ég frekar inn tónleikaupptökur – en það ætti að vera hægt að finna þetta á Spotify (eða panta sér plötuna einhvers staðar – ég fann mína í gegnum discogs).

Ég finn enga góða tónleikaupptöku með Algiu lagi sem er á plötunni – en þetta er fyrsta lagið og ansi gott.

Hér er svo einhver random blús – úr einhverju partíi. Alan Lomax tók þetta upp 1983. Það eru líka myndbönd af Algiu Mae úr þessu partíi að dansa buck dance með gítarinn og spila á hann fyrir aftan bak og með alls konar stæla. Mjög skemmtilegt.

Skáldæviharmsagan og viðtökur hennar

Einhvern tíma fyrir langa löngu var ég að hlusta á bókmenntaþátt á BBC þar sem höfundur – sem ég man ekkert hver er lengur, kona í fagurbókmenntum fyrir fullorðna – fór að tala um „óverðskulduð tár“ og hvernig þau væru stærsta synd hvers rithöfundar. Með því var hún að segja að maður ætti fyrst að setja upp sögusviðið og leyfa lesandanum að kynnast sögupersónunum áður en maður færi að láta ósköpin dynja á þeim – því auðvitað er það það sem fagurbókmenntir fyrir fullorðna eru, rithöfundar að láta ósköp dynja á saklausu fólki. Hún vildi meina að ósköpin þyrftu að gerast „náttúrulega“ – á sínu eigin tempói – og freistingin til þess að troða þeim inn væri frekja af hálfu rithöfundarins. Hann væri í raun að æpa á lesandann að nú yrði hann að tengjast sögupersónunum og gráta – án þess að nenna að vinna fyrir því. Því auðvitað slær harmur okkur, jafnvel þótt við höfum ekki náð að kynnast sögupersónum. En að sama skapi getum við einmitt fyrst við í skáldsögu þegar okkur finnst höfundurinn vera orðinn fullmelódramatískur, við getum hreinlega misst samúðina og lent í Birtingssýslu, þar sem harmurinn verður kjánalegur og einhvers konar myndlíking fyrir eitthvað annað. Við grátum ekki beinlínis yfir teikningum Hugleiks, þótt þær séu gjarnan um grátverðar upplifanir.

Ég er í ekki endilega sammála þessari konu þótt mér þyki kenningin allrar athygli verð og rétt að maður sé meðvitaður um þetta þegar maður situr við skriftir – þörfina til þess að kalla á djúpar tilfinningar í brjósti lesandans. Hún er sennilega ein af ástæðunum fyrir því að maður skrifar yfir höfuð, en hún er líka frekur húsbóndi. Það getur alveg verið ástæða til þess að leyfa lesanda að kynnast sögupersónu fyrst og fremst í gegnum einhvern harm – bókin fer þá væntanlega í að skoða harminn, skræla utan af honum, rýna í hann, hann sogar að sér athyglina. En ég held að maður mæti líka slíkri bók alltaf svolítið sigghlaðinn, svolítið varkár.

Merkilegt nokk kemur þetta viðtal síðan alltaf upp í hugann þegar ég velti fyrir mér muninum á skáldsögu- og ævisögu- og skáldævisöguforminu. Hvernig harmur virki í sannsögu. Maður getur nefnilega ekki álasað sögupersónu fyrir að verða fyrir harmi of snemma í ævisögunni sinni, til dæmis, eða gagnrýnt trúverðugleika sögunnar (án þess að segja höfundinn beinlínis vera að ljúga – sem er samt annað) – alveg sama þótt ævisagan eða skáldævisagan sé búin einsog skáldsaga og jafnvel byggð þannig að hún hafi stærri/aðra merkingu en hver önnur játning, sé metafóra um tilveruna eða heimspekileg kenning. Maður réttir ekki manni sem úthellir úr hjarta sínu gula spjaldið fyrir það hvernig hann leggur upp söguna, að minnsta kosti ekki ef sagan inniheldur nokkra ástæðu til þess að tárast. Ein algeng – feminísk – gagnrýni er síðan að rithöfundar séu full gjarnir á að henda inn nauðgun þegar þá rekur í vörðurnar og vantar púður til að halda sögunni uppi. Gagnrýni af slíku tagi er augljóslega bullandi rangstæð þegar sagan er sannsaga.

En hvað er þá skáldævisaga og hvaða hlutverki þjónar hún á tímum sem einkennast öðru fremur af opinberum játningum og reynslusögum? Heyrir hún til bókmenntunum eða facebook-statusunum? Er hún fyrir eilífðina eða augnablikið? Er hún dokument eða listaverk? Var Hallgrímur Helgason, þegar hann skrifaði Sjóveikur í Munchen á sínum tíma, að úthella úr hjarta sínu – að díla við harm sinn í samstöðu hópsins, með hasstagginu, taka þátt í þeirri samfélagsbyltingu sem var forveri #metoo – eða var hann að skrifa listaverk, sem mátti mæla og meta sem slíkt? Því þetta eru tveir ólíkir hlutir og kalla á ólík viðbrögð og þótt það megi blanda þeim þá er ekki endilega sjálfsagt hver prótókoll viðbragðanna er eða á að vera. Hvað sem líður mismuni skáldverka og ævisagna – og þess svæðis þar sem þau mætast, og gneistað getur úr – er ævisaga ekki það sama og einlægt forsíðuviðtal eða reynslusaga á samfélagsmiðlum. Meira að segja jarðbundnasta ævisaga er ekki hafin yfir gagnrýni á sama hátt og hin hreina reynslusaga – enda inniheldur ævisagan jafnan margt fleira en harmsöguna, hún á sér sitt eigið samhengi, og verður hluti af bæði höfundarverki og bókmenntasögu. Það er margt fleira í Sjóveikur í Munchen en hin fræga nauðgun – og allt hitt er líka Hallgrímur að beina kastljósinu að sjálfum sér og sinni sköpunarsögu, einsog fleiri rithöfundar gerðu þessi misseri (og var sennilega í það skiptið bergmál af vinsældum Knausgaards) og hafa gert í gegnum aldirnar.

Hallgrímur kallaði Sjóveikan í Munchen skáldævisögu í viðtali – og þótt hann segði hana sanna, sagði hann líka að „flest“ í henni væri satt frekar en „allt“, hún væri „ýkt“ og ekkert í henni „hreinn skáldskapur“ nema uppköstin – og þá ætti í sjálfu sér sannleikurinn og trúverðugleikinn líka að vera undir í mati og mælingum. Þess utan má halda því til haga að hann stillir sér upp sem sögupersónu í bókinni og kallar sig ekki Hallgrím heldur Ungan Mann. Í viðtalinu talar hann merkilegt nokk líka um að hann hafi áhyggjur af því að markaður fyrir endurminningar miðaldra karla sé svolítið mettur þessi jólin, sem bergmálar síðan í gagnrýni Eiríks Guðmundssonar, sem verður komið að síðar (þótt Eiríkur hafi minni áhyggjur af kyni ævisagnaritara og meiri bara af því að ævin sé að taka við af skáldskapnum af því hún sé smellvænni).

En að tröllinu í herberginu. Guðbergur Bergsson skrifaði hrottalegan pistil um þessa bók á sínum tíma og hlaut vægast sagt bágt fyrir. Í þessum pistli, sem ég skal láta vera að vitna í, veltir Guðbergur því meðal annars upp hvort Hallgrímur hafi logið upp á sig nauðgun til þess að fæða eigin athyglissýki. Það er í sjálfu sér merkilegt að Guðbergur – sem annars vílar nú varla neitt fyrir sér – virðist meira að segja vita það sjálfur að hann er að fara út fyrir allan þjófabálk og orðar það einhvern veginn þannig að nú sé hann að „leika kvikindi“. Sem er svona heiðin íslenskun á því að spila málsvara myrkrahöfðingjans (advocatus diaboli, devil’s advocate – en hefð er fyrir því að þegar kaþólska kirkjan leggur mat á hvort taka eigi mann í dýrlingatölu fái einhver það hlutverk að mæla gegn því í nafni andskotans). Þegar Guðbergur Bergsson telur sig hugsanlega vera að ganga of langt, þá er mjög langt gengið.

Látum það vera. Guðbergur vill og hefur alltaf viljað hafa alla upp á móti sér – ef hann á sér einhverjar málsbætur í huga mér þá felast þær í sálgreiningu sem er ósanngjörn gagnvart bæði Hallgrími og Guðbergi sjálfum: að hann hafi sjálfur sem samkynhneigður maður mátt þola það stærstan hluta ævi sinnar að vera saklaus grunaður alls staðar sem hann fór um að vera predator-ódó sem nauðgar/tælir/spillir ungum saklausum (gagnkynhneigðum og hreinlífum) drengjum. Og bregðist við sögum af þannig hommum með ósjálfráðum kvikindisskap.

Hins vegar var meira varið í pistil nafna míns Guðmundssonar sem tók upp orð Guðbergs – gekkst fyllilega við því að þau væru ósanngjarn hrottaskapur – en vildi engu að síður fá rými til þess að skoða hvort nokkurt korn af sannleika væri í því að finna að bókmenntirnar væru (einsog allt annað) að verða klikkbeitunni að bráð. Eiríkur er ekki vitleysingur eða kvikindi – þótt hann bergmáli síðan orð Guðbergs um kvikindið í eigin nafni – og ég samþykki ekki þá túlkun að þótt hann leyfi sér umbúðalausa umfjöllun um skáldævisögu Hallgríms og merkingu hennar í samhengi annarra sams konar bóka og samtímans sem hún birtist í þá sé hann að þolendasmána Hallgrím, einsog Hallgrímur vill meina, og þaðan af síður að Hermann Stefánsson sé að gaslýsa Hallgrím þegar hann rifjar upp að pistill Eiríks var alls ekki einsog Hallgrímur lýsti honum, sem því að Eiríkur hefði lesið allan pistil Guðbergs og smjattað á orðunum – það er einfaldlega ósatt, hann las tvö stutt dæmi úr pistli Guðbergs og setti þau í samhengi við fleiri bækur sem voru að koma út þessi jól, ákveðinn játningatendens í bókmenntum þess tíma og fagurfræði kvikindisins Guðbergs í gegnum tíðina – pistilinn má lesa hér – að benda á það er einfaldlega ekki gaslýsing.

Guðbergur þolendasmánaði Hallgrím. Um það er engum blöðum og að fletta og hann mátti og má þola alls kyns svívirðingar fyrir (og á þær skilið og er sennilega alveg sama – ég veit ekki hvað maður gerir í því). En það er allrækilega undir beltis stað að kenna Eiríki Guðmundssyni um glæpi Guðbergs – kannski bara af því hann liggur betur við höggi, hann tekur það sennilega nærri sér og á minna undir sér en Guðbergur – það er ekki „secondary victimization“ einsog Hallgrímur kallar það að skrifa af óþægilega mikilli dirfsku um bókmenntir samtímans, sem eru lagðar fram til dóms og umfjöllunar, alveg jafnt þótt Hallgrími svíði undan. Það er þvert á móti mikilvæg en hverfandi list, sem er skyld hinni sem Hallgrímur er að reyna að gera hátt undir höfði, að tala upphátt. Það var ekki Eiríkur sem gerði ævi Hallgríms að umfjöllunarefni heldur Hallgrímur sjálfur – hann verður að geta tekið því að bækur hans og eðli þeirra séu settar í samhengi. Þær spurningar sem Eiríkur velti upp eru ekki óeðlilegar eða kvikindisskapur. Og sú krafa að Eiríki verði vikið úr starfi – sem ég hef ekki séð frá Hallgrími, og vona að hann myndi setja sig upp á móti sjálfur, en frá öðru málsmetandi fólki – er beinlínis gróf atlaga að málfrelsi Eiríks og öllum til skammar sem hafa hana eftir.

Skólalíf

Það er enginn skóli hjá börnunum þessa vikuna. Man ekki alveg hvað veldur í þetta skiptið – ekki Covid, held ég. En þau eru samt með heimanám með sér enda hefur verið svo lítill skóli í vetur að án þess gengi þetta líklega ekki upp. Svo eru bæði að æfa sig fyrir tónleika í tónlistarskólanum. Aino þarf að læra fjögur lög af því það eru svo fáir bassaleikarar í tónlistarskólanum.

Það er undarlegt til þess að hugsa að Aino hefur langstærstan hluta sinnar skólagöngu verið í Covid-gír – með lokunum og alltaf heima við minnsta nefrennsli. Þá hefur hún líka tvisvar gengið í fyrsta bekk – í Svíþjóð byrjar maður í skóla sjö ára. Við erum að reyna að gera átak í lestri svo hún verði ekki langt á eftir bekkjarfélögum sínum á Ísafirði í haust.

Við lifum að mörgu leyti frekar einangruðu lífi hérna, finnst mér. Það er ekkert eitt sem veldur þótt Covid hafi auðvitað átt stóran þátt í því. Og það er langt að fara og við þekkjum hvað sem öllu líður miklu færra fólk í Västerås en á Ísafirði. En ofan á það bætist að krakkarnir eru í Waldorf-skóla langt í burtu og þekkja engin börn í hverfinu okkar. Ég held að bekkjarfélagar þeirra eigi ekki heldur margir heima nálægt skólanum, þetta er skóli sem fólk sækir í af öðrum ástæðum. Og raunar er sífellt algengara í Svíþjóð að krakkar gangi ekki í næsta skóla heldur einhvern skóla sem hentar lífssýn foreldranna.

Það var grein um þetta í Dagens Nyheter á dögunum, skrifuð af vini mínum Philip Teir – finnlandssænskum blaðamanni og rithöfundi – þar sem hann bar saman sænska og finnska kerfið. Í Finnlandi er mikið lagt upp úr því að maður fari í hverfisskólann en hægt að fiffa með það – t.d. með því að hafa börnin í tónlistarnámi sem þá tengist tilteknum skólum og talsvert um að efstu stéttirnar geri það, til þess að koma börnunum í fínni skóla. Svo eru hverfi einfaldlega misjöfn – í ríkum hverfum eru betri skólar. Skólarnir eiga allir að hafa sömu fjárráð og aðstöðu en þegar til kastanna kemur er einfaldlega dýrara að sinna vissum nemendum – t.d. þeim sem eiga ekki foreldra sem geta setið yfir þeim og fylgst með náminu. Í skólum meðvituðu efri-millistéttarinnar geta kennarar einbeitt sér að fjölbreyttari verkefnum, einfaldlega vegna þess að minna álag er af hverjum og einum nemanda.

Finnska kerfið er byggt á sænsku módeli, merkilegt nokk, sem gengur út á að reyna að skapa eins mikinn jöfnuð í skólunum og hægt er – að það skipti ekki máli í hvaða skóla þú farir, þú eigir að fá sömu grunnmenntun. Svíar hafa fyrir löngu gefið þetta kerfi upp á bátinn og það var hafður um það harður áróður árum saman – kallað austur-evrópskt og gott ef ekki bara fasískt, frelsislaust og þar fram eftir götunum. Nú hefur það svolítið verið endurskoðað – og fullorðið fólk kannast ekki við þessa mynd af grunnskólunum sem það gekk í sjálft, þótt þeir hafi ekki verið fullkomnir.

Svíar held ég að hafi lent í einhverri sjálfsmyndarkreppu á níunda og tíunda áratugnum og ekki viljað vera hallærislegir sossar lengur – og voru mjög ginkeyptir fyrir alls kyns afregluvæðingu og einkavæðingu (eitt sem breyttist er reyndar að hætt var að tala um „einkaskóla“ og farið að tala um „frískóla“ í staðinn – eða frjálsan skóla – sem hljómar ólíkt betur). Í Finnlandi var kreppa þegar þessi þróun átti sér stað – í byrjun tíunda áratugarins þegar Sovétríkin féllu fór það mjög illan með finnskan efnahag. Sérfræðingar í dag segja að á krepputímum sé fólk mjög lítið gefið fyrir kenningar nýfrjálshyggjunnar og því hafi finnar haldið fast við sína jafnaðarskóla á sama tíma og Svíar markaðsvæddu allt sem ekki var neglt niður.

Ég kannast ekki við að Íslendingar setjist mikið yfir það hvar börnin þeirra fari í grunnskóla – átta mig raunar ekki á því hvernig því er farið. Á Ísafirði er bara grunnskóli. Reyndar er eitthvað um það að fólkið í nágrannabæjunum sendi börnin sín í skóla á Ísafirði frekar en á staðnum. En það eru aðrir þættir sem ráða því, held ég, en þetta neyslumynstur hins meðvitaða foreldris sem fer út að sjoppa besta skólann fyrir börnin sín. Það ber meira á því að fólk sæki í tiltekna leikskóla með börnin sín. Hjallastefnan ehf. er sennilega stærst. Og einhverja grunnskóla er Hjallastefnan líka með. Ég yrði ekki hissa þótt hlutfall einkaskóla færi vaxandi og viðbúið að opnist góð glufa verði sprenging – markaðurinn leitar þangað sem hann kemst.

En það væri gaman að sjá úttekt um þetta einhvern daginn.

Mánudagur í maí – Ísnálgun Collins

Ég hef verið að taka upp hljóðbók síðustu vikur. Illsku – loksins. Það kom til tals að gera það á sínum tíma, eða fljótlega eftir að hún kom út, en þá féllust mér hendur að dvelja lengur í þessum heimi. Hún er alveg ægilega löng líka. Mér sýnist hljóðbókin ætla að verða 25 tímar. Upptökur fara fram í Studio Västerås hjá afskaplega fínu fólki. Þetta er stórt og fallegt tónlistarstúdíó sem eigendurnir tóku yfir þegar Sænska Ríkisútvarpið flutti sig um set fyrir einhverjum árum. Ég sit í trommuklefanum og les. Hljóðmaðurinn Stephan situr svo í mixerherberginu og dundar sér á meðan – hann editerar ekki neitt af því hann skilur ekki tungumálið, sú vinna fer öll fram á Íslandi, hlustar bara með öðru eyranu og svo fáum við okkur kaffi í pásunni.

Ég les í kannski þrjár klukkustundir á dag. Þetta er svolítið spes. Ég er nýbúinn að vera að lesa yfir sænska þýðingu á Brúnni yfir Tangagötuna og er að fara að lesa yfir athugasemdir við nýja skáldsögu sem kemur í haust. Þannig að það hefur fátt verið á dagskránni annað hérna en að lesa eigin bækur. Ég er nú óvenju skemmtilegur, einsog mér verður tíðrætt um, en maður getur nú samt fengið leið á þessu – þetta er svolítið solipsískt, að vera svona fastur í sjálfum sér.

Stephan og Vladi spurðu mig líka í gríni hvort ég myndi ekki vilja gera breytingar á bókinni. Og það er nú ekki svo – mig klæjar ekki að breyta neinu. Einhvern veginn á ég meira að segja erfitt með tilhugsunina um smávægilegar breytingar þegar ég hef lokið við bók – þegar ég hef gengið frá henni. Ég hef auðvitað gert leiðréttingar á málfari og þannig – frá einni prentun til annarrar og ef það hafa komið upp villur við þýðingar og í sjálfu sér er eitthvað smotterí þannig núna líka. Það er alveg óhemja af smá-skyssum sem er hægt að finna í einni bók. En það kemur alls konar upp þegar maður fer yfir bók sem kom út fyrir rúmum átta árum (og ég byrjaði að skrifa fyrir tæpum þrettán). Til dæmis er í tvígang talað um „kynskiptiaðgerð“ – sem er ekkert gert lengur (heldur kynleiðréttingu) og í einu tilfelli er nefnd manneskja sem hefur síðan skipt um nafn og komið út sem trans. Afstaða mín til þess er bara sú að þetta séu ekki endurskriftir heldur upplestur á bók sem kom út tiltekið ár þegar veruleikinn var sá sem hann var þá og þar með geri ég engar slíkar breytingar. En ef það stendur óksöp þar sem á að standa ósköp segi ég ekki óksöp.

Þegar Óskabörnin settu leikritið á svið þurfti að uppdatera verkið – ekki síst til þess að koma Sigmundi Davíð að. Enda hefði verið undarlegt að leikverkið kommenteraði ekki á hann. Það var 2016 og ég man að við hugsuðum öll þá hvað væri skrítið að hann hefði nánast ekki verið til – ekki sem þessi fígúra – 2012. Og núna 2021 er fáránlegt að hugsa til þess að Trump hafi ekki einu sinni náð að vera með í leikritinu. Ég man ekki hvort hann kom eitthvað við sögu á endanum – verkið var margsinnis uppfært á sýningartímanum – en ég held hreinlega ekki. Ef ég ætlaði að endurskrifa Illsku – færa hana tíu ár fram í tímann – væri Trump fyrsta viðbótin. Agnes hefur auðvitað áhyggjur af því alla bókina að ritgerðin hennar – um popúlisma í samtímanum – sé að verða úreld vegna þess að allir hafi misst áhugann á útlendingahatri í kjölfar hrunsins.

Svo er auðvitað kórónaveiran og orðræðan í kringum hana önnur eins gullkista af þjóðrembingi – hvort sem það eru hetjurnar sem slá sér á brjóst fyrir einstakan árangur og samstöðu þjóðarinnar eða illmennin sem atast að Pólverjum úti á götu.

En þetta segir líka sitthvað um mismuninn á bókmenntaverki og leikverki. Leikverkið á sér stað aftur og aftur – en bókmenntaverkið á sér bara stað einu sinni og er eftir það dokúment. Leikverkið hættir að vera til – gufar upp. Og samtímabókmennt – alveg sama hvað hún er körrent – verður að eins konar sagnfræði. Þannig er Illska ekki lengur samtímabókmennt af því samtími hennar er liðinn – eða að minnsta kosti smám saman að líða – en það segir vel að merkja ekkert um hversu vel hún á við. Hún getur þess vegna átt betur við. Eða verr.

***

Plata vikunnar í blúshluta bloggsins er Ice Pickin’ með Albert Collins. Þetta er ein af fyrstu plötunum í blússafninu mínu – ég man ekkert hvenær ég keypti hana eða hvar en sennilega keypti ég hana fljótlega eftir að ég keypti mér aftur plötuspilara fyrir svona fimm árum. Ég heyrði fyrst í Albert Collins á einhverjum svona „gítartónleikum“ sem voru sýndir á Stöð í byrjun tíunda áratugarins. Ég var eitthvað að reyna að gúggla þessu en finn það ekki. Það eina sem ég man var að Joe Walsh var líka og þetta er ekki Jazzvisions þáttur sem var á dagskrá 1988 – heldur eitthvað stærra dæmi, seinna, sennilega nær dauða Collins (1993). En það gengur sem sagt ekkert að gúggla því. Kannski ég gæti fundið VHS spóluna á heimili foreldra minna ef ég legðist í rannsóknir en þetta skiptir sennilega ekki öllu máli.

Ice Pickin’ kom út árið 1978 – árið sem ég fæddist – og er svokölluð gegnumbrotsplata fyrir tónlistarmann sem hafði lengi verið á sjónarsviðinu, orðinn 46 ára gamall, en fyrsta breiðskífan hans kom út 1965. Hann hafði ekki fullt lifibrauð af tónlist – þrátt fyrir aðdáun blúsnörda á borð við Canned Heat – og vann mest sem iðnaðarmaður þar til Ice Pickin’ kom út. Platan var tilnefnd til Grammy verðlauna – í flokki sem þá hét „ethnic or traditional“ – en tapaði fyrir Muddy Waters, sem var með live plötu (sem er alltílagi en ekkert meistaraverk á borð við Ice Pickin’ – þetta var þriðja árið í röð sem Muddy vann, en fyrsta árið fékk hann fyrir Hard Again, sem er ein af hans bestu).

Albert Collins er með mjög sérstaka rödd á gítarnum – og raunar í munninum líka. Hann lætur telecaster gítarinn nísta hærra en aðrir megna – og því er þessi ísnálslíking ekki alveg úr lausu lofti gripin og fylgdi honum lengi. Lagið sem ég heyrði hann spila á þessum tónleikum sem ég nefndi er af síðustu breiðskífunni hans og heitir einmitt Iceman. En lagið sem við ætlum að heyra hér í dag heitir Master Charge og fjallar um mann sem hefur gert þau hrapalegu mistök að leyfa konunni sinni að fara út að versla með nýja kreditkortið sitt. Textinn er einsog hann er – en tilfinningin er sönn, lagið stendur fyrir sínu, þetta band sem er með honum er æði og kúlið svoleiðis drýpur af mínum manni.

Fréttir frá Svíþjóð: Skitið upp á bak

Í allan vetur hef ég verið að segja að allt sé um það bil við hið sama. Svíum gengur alveg jafn vel að eiga við farsóttina nú og þeim gekk í ágúst í fyrra, þegar við komum. Það er mikið álag á heilbrigðiskerfinu en bólusetningarnar eru eitthvað að hjálpa til. Annars ber nú kannski mest á svívirðilega mikilli þreytu gagnvart viðfangsefninu – svona prívat og persónulega. Ekki flensunni sem slíkri heldur umræðunni um hana. Sem er ekki alltaf sérstaklega málefnaleg (a.m.k. ekki þegar ýtt er á viðkvæma punkta, einsog er samt mikilvægt).

Í menningarfréttum er það annars helst að menningarritstjóri Västerbotten-Kuriren, Sara Meidell, hefur hafið á loft stríðsöxina gegn „kúk“ í barnabókum. Það er langtum skemmtilegra umfjöllunarefni.

Nýlega hafa komið út bækur með titla á borð við „Allir kúka“, „Ofur-Kalli og kúkasprengingin“, „Kúkaveislan“, „Þegar Doris ætlaði að kúka“ og „Hæ, lortur“. Sara segir að þetta sé niðurlægjandi fyrir börnin, sem séu flóknari manneskjur en þetta, og ekki ætlað til annars en að vinna sér inn ódýrar vinsældir. Þá bætir hún við að kannski sé kúkurinn sem slíkur ekki stærsta vandamálið heldur að hann skuli koma í staðinn fyrir bókmenntalegt gildi – þannig séu til góðar bækur um kúk. Þar nefnir hún meðal annars bókina Moldvarpan sem vildi vita hver skeit á höfuðið á henni – sem er í sjálfu sér áhugavert dæmi.

Upprunalegi titillinn er: „Um litlu moldvörpuna sem vildi vita hver hefði gert það á hausinn á henni.“

Sú bók heitir á sænsku „Det var det fräckaste“ – eða „Heyrðu nú mig góði“ eða eitthvað svoleiðis. Við áttum hana á báðum málunum og það vakti athygli mína á sínum tíma, fyrir hartnær tíu árum, að titlarnir væru svona ólíkir svo ég skoðaði þýska orginalinn og bar saman við sænsku og íslensku útgáfuna. Niðurstaðan var sú að í íslensku þýðingunni hefði verið valin „grófari“ leiðin alltaf þegar tvær voru í boði – við gætum líka kallað hana „litríkari“ leiðina, það er Þórarinn Eldjárn sem þýðir með sínu margrómaða nefi – en í sænskunni hefði frekar verið dregið úr. Ef ég man rétt var nú íslenska líkari þýskunni en sú sænska.

Ég tók þessu þannig að Svíar væru viðkvæmir fyrir kúkatalinu og sennilega var það rétt. Hins vegar varð þessi bók mjög vinsæl í Svíþjóð einsog annars staðar og kannski brustu flóðgáttirnar einfaldlega – og Svíar komust á hið alræmda „þermistig“ sem er lýst svo í kennsluglósum sem ég fann á quizlet:

Annað stigið af þroskastigunum fimm eftir Freud. 2-4 ára. Örvunarsvæðið færist niður í þarmana. Ánægja barnsins felst nú í því að halda inni hægðum eða losa sig við þær, jafnvel rannsaka. Viðbrögð foreldra skipta miklu máli.

Í samhengi bókmenntana eru menningarritstjórarnir sennilega foreldrarnir en höfundarnir og foreldrarnir börnin (börnin sem lesa bækurnar eru hugsanlega einhver Hinn, eitthvert guðlegt afl, hvers vegir eru órannsakanlegir). Ég er ekki freudisti og hef litla sálfræði lært síðan í menntaskóla en ég gæti samt best trúað að viðbrögð Söru séu röng og til þess ætluð að innræta skrifandi höfundum og lesandi foreldrum skömm og hindra þau frá því að komast upp á næsta stig, hið svonefnda völsastig, þegar „orkan færist yfir á kynfærin sjálf“.

***

Ég þarf núna að drífa mig í stúdíó að taka upp hljóðbók og aftur mætir blúshluti þessa bloggs afgangi (ég minni samt á lagið sem ég söng hér á dögunum). Ég skal taka mig á og skrifa fljótlega um einhverja heila plötu. En í millitíðinni er hér Screamin’ Jay Hawkins með Constipation Blues – hægðatregðublús. Hafi nokkur efast um þau listrænu heilindi sem fólki er unnt að sýna á þermistiginu þá ættu þær efasemdir að vera foknar út í veður og vind, strax að lokinni hlustun.