Sáðlát á Sikiley: Uxi 1904

Þessir frjósemisuxar áttu sér einskis ills von. Brot úr mynd eftir Palazzo Poggi (1556).

Mark me now. In woman’s womb word is made flesh but in the spirit of the maker all flesh that passes becomes the word that shall not pass away. This is the postcreation.

Stephen Dedalus í Oxen of the Sun

Oxen of the Sun er sá kafli Ulysses sem almennt er álitinn erfiðastur aflestrar. Hann gerist á ellefta tímanum þennan sögufræga dag – 16. júní, 1904 – á fæðingarheimilinu við Holles stræti. Í Hómerskviðu koma Ódysseifur og menn hans að eyju sólguðsins Helíosar, Þrínaksey, sem mér er sagt að sé sama og Sikiley. Kirka og Tíresius hafa þá bæði varað Ódysseif við því að eiga nokkuð við búpeninginn á eyjunni, sama hversu mikil svengd sæki að þeim, og alls ekki uxana, sem séu helg frjósemistákn. Best sé raunar að forðast eyjuna með öllu. Þeir enda nú þar samt og Ódysseifur tekur orð af sínum mönnum að þeir láti skepnurnar í friði áður en hann fer sjálfur í leiðangur lengra upp á land og sofnar þar. Ef það er einhver regla í svona mýtólógískum skáldskap ófrávíkjanlegri en allar hinar ófrávíkjanlegu reglurnar þá er það reglan um að sé búið að vara við einhverju verði það augljóslega að eiga sér stað. Mennirnir éta uxana – saurga frjósemistáknin. Ódysseifur vaknar, kemur aftur, trompast, þeir reyna að flýja en Seifur skellir í svo hressilega brælu, þrumur og eldingar, að Ódysseifur kemst einn lífs af, líkt og Kirka hefur spáð fyrir um. En hún sagði líka, sem rætist, að verði nautin ekki látin í friði verði heimför hans erfið og tímafrek. Hómer rekur næst á land hjá Kalypsó sem heldur honum föngnum í sjö ár.

Af og til í gegnum söguna hingað til höfum við fengið fréttir af Minu Purefoy sem er á fæðingarheimilinu að eiga sitt tólfta barn og hefur verið ´i hríðum í þrjá sólarhringa. Hún er fjölskylduvinur Bloom hjónanna og þangað hefur Leopold Bloom ákveðið að halda til þess að líta til með henni – þótt það sé hvergi sagt berum orðum má samt geta sér þess til að hann sé nú aðallega að fara þangað af því hann kvíðir því að fara heim (þar sem Molly hefur nýlega legið með Blazes Boylan). Þegar þangað kemur hittir hann fyrst hjúkrunarkonu, fyrrum nágranna sinn, sem heitir Callan. Hún segir honum að fæðing frú Purefoy sé að reynast sú allra erfiðasta sem hún hefur orðið vitni að. Þá kemur líka fram að kunningi þeirra, læknir einn, hafi látist úr magakrabba (bókstaflega „bellycrab“), að síðast þegar þau Bloom hafi hist hafi Bloom láðst að heilsa og að á biðstofunni sé talsvert af mönnum við skál. Þar reynast vera komnir þeir Stephen Dedalus og Lenehan auk hóps læknanema, Dixon, Madden, Lynch, Crotthers og Punch Costello. Buck Mulligan mun vera á leiðinni.

Nú spyr maður sig hvers vegna menn séu á fylleríi á fæðingarheimili. Svarið er auðvitað: af því það er bannað. Af því það er jafn bannað og að borða helga uxa. Stephen, Lenehan og læknanemarnir eru þarna til þess að saurga helgi frjóseminnar. Og tekst það ágætlega – þeir eru orðnir vel við skál og hafa enda drukkið lengi, þegar hér er komið sögu, og eru þess utan síns tíma Írar, yfirlýsingaglaðir og hrokafullir og erfiðir og oft mjög skemmtilegir líka. Bloom hins vegar, einsog sá vitri Odysseifur sem hann er, laumar alltaf bjórnum sem honum er skenkt yfir í næsta glas.

Megnið af kaflanum er síðan lýsing á samræðum þessara manna, þar sem margt ber á góma en ekki síst frjósemismál – getnaðarvarnir og siðferðisspurningar tengdar barnsfæðingum, einsog hvort eigi að bjarga móður eða barni ef ekki er hægt að bjarga báðum (reglan í kaþólsku Írlandi er að bjarga barninu en piltarnir eru sammála um að það sé rangt og heldur ætti að bjarga móður), um vanhelgun lífsins með sóun sæðis (sjálfsfróun, kippingum eða öðru), hvernig megi uppfylla jörðina (Buck býðst til þess að setja á fót sérstaka stofnun sem hafi þann eina tilgang að styðja hann í að sæða konur). Og svo framvegis.

Ekkert af þessu gerir kaflann sérstaklega erfiðan. Það er annað. Honum er skipt upp í þrjátíuogtvo paródíska þætti – í níu skeiðum – sem hver hefur sinn eigin stíl – og er ferðast í gegnum tímann úr rómverskum bænaköllum í gegnum enska bókmenntasögu fram til Ulysses og leysist svo upp í kaotískt fylleríssröfl. Þessir þættir eru miserfiðir aflestrar en allir snúnir. Sá fyrsti er bara stutt kall: Deshil Holles Eamus – í þrígang. Fyrsta orðið er úr gelísku, annað úr ensku og þriðja latínu – höldum nú réttleiðis á Holles (fæðingarheimilið). Þá kemur aftur þríkall – ákall til fæðingarlæknisins (sem heitir Horne): Send us bright one, light one, Horhorne, quickening and wombfruit. Og loks þriðja þríkallið – svo kallað „gender reveal“ eða kynjaveisla: Hoopsa, boyaboy, hoopsa.

Þar á eftir taka við tveir kaflar sem mér skilst á mér fróðari mönnum að beri þess merki að hafa verið samdir á latínu og svo hráþýddir á ensku án tillits til beyginga – svona lékum við okkur stundum með þegar fyrstu þýðingarvélarnar voru að birtast upp úr aldamótum, að afmynda texta með því að færa hann vélrænt frá einu tungumáli yfir á annað. Það er ekki hlaupið að því að fá merkingu í þessar tvær löngu málsgreinar en innihaldið er eitthvað á þá leið að vísindin séu stórfengleg og ekki síst gelísk vísindi og þau auðgi þjóðlífið og fæðingar séu frábærar og vísindin hafi gert þær auðveldari og standi vörð um lífið. Áfram Írland, áfram vísindi, áfram barneignir.

Á þriðju síðu birtist okkur svo skiljanlegri texti en svolítið ofstuðlaður – „Before born babe bliss had“ og fljótlega sjálfur Bloom:

Some man that wayfaring was stood by housedoor at night’s oncoming. Of Israel’s folk was that man that on earth wandering far had fared. Stark ruth of man his errand that him lone led till that house.

Þetta mun vera í anda enska rithöfundarins Elfríks frá 11. öld. Þessi stíll fylgir okkur í gegnum fundinn við Callan hjúkrunarkonu sem er nefndur hér að ofan. Þá er skipt yfir í miðensku (middle english) og svo ferðasögustíl miðalda, artúrskan ævintýrastíl, sagnakrónikustíl Elísabetartímans, miltónsku, Bunyan, 17. aldar dagbókarstíl, Defoe og Swift og svo gamlan dagblaðastíl – og svo framvegis, de Quincy og Dickens, Edmund Burke, Charles Lamb og fleiri koma við sögu sem stílfyrirmyndir. Hverjum nýjum stíl fylgja ekki bara ný orð, orðaröð og myndmál heldur sveiflast raunveruleikinn líka til að einhverju leyti. Í miðenskunni verður spítalinn til dæmis kastali og læknanemarnir „learning knights“ (sem er hugtak sem SAM þýðir einfaldlega sem „knapi“ – Erik Anderson í nýlegri sænskri þýðingu hefur það „lärosven“) – og þegar Bloom og Dixon hittast rifjar Bloom upp þegar hann þurfti nýlega að leita sér aðstoðar við illvígri býflugnastungu, sem hefur komið fram áður. En af því þetta er þá í ferðasögustíl miðalda verður býflugnastungan að holundarsári eftir ægilegan dreka. Og þessi riddari lærdómsins, Dixon, reddaði honum sem sagt góðu smyrsli við drekastungum.

Mér finnst frekar erfitt að fara að telja upp allt sem kemur við sögu í kaflanum – ekki beinlínis vegna torlæsisins, ég er líka með handbækur sem þylja þetta allt upp, heldur vegna þess að ég veit ekki alveg hvaða tilgangi það myndi þjóna og það yrði fljótt jafn langt og kaflinn sjálfur. Oxen of the Sun er allur skrifaður af feykimikilli íþrótt – það er svona sem rithöfundar flexa í speglum, og ekkert flex hef ég lesið sem stenst samanburð við þetta – og hann er ekki leiðinlegur aflestrar þótt hann sé erfiður, eiginlega þveröfugt, ég er ekki viss um að hann væri mjög skemmtilegur ef hann væri ekki svona erfiður. Maður á í allt öðruvísi sambandi við erfiðan texta – eitt af því sem gerir hann erfiðan eru reyndar stílskiptin sjálf, maður týnir alltaf þræðinum strax og tónninn breytist (og oft án þess að átta sig á því að það er það sem hefur gerst). Það er einsog maður sé að reyna að túlka textann með verkfærum sem úreltust fyrir fimm setningum síðan. Svo setur maður sig í nýjar stellingar og byrjar aftur þar sem þráðurinn slitnaði.

En hvað er það sem verður að taka fram? Feðrunarþemað er ítrekað en verður líka mæðrunarþema þegar frelsarinn kemur til tals – því þótt María hafi augljóslega vitað að hún fæddi Jesú þá er mikilvægt að spyrja (segir Stephen) hvort hún hafi vitað að hann væri Kristur, af því ef hann er Kristur er hann líka hluti þríeins Guðs og þar með einnig skapari himins og jarðar og þar með hefur María afrekað að skapa það sem skapaði hana (Stephan sagði eitthvað svipað um Shakespeare, að hann væri „father of all his race“).

Talsverðu púðri er eytt í frjósemisumræður, uppáferðasögur og þvíumlíkt og misjafnt eftir stílnum hvar áherslan liggur því með stílunum birtist líka ákveðin dýnamík í siðferði. Sumum stílum fylgir grófur húmor en öðrum siðferðisleg viðkvæmni og harka – eða jafnvel svona helg viðkvæmni, að það megi ekki spilla sæði og svo framvegis. Þannig fylgir stílskiptunum rof sem hentar illa svona línulegri frásögn af kvöldsumbli – sögupersónur skipta um ham – en lýsa kannski díalektískum breytingum í hinni sögunni sem er verið að segja, sem er saga enskrar tungu fram á daga Joyce (og þar með saga þess sem skrifað er, sem hlýtur að markerast af því siðferði sem maður vill framfylgja).

En ég tek þetta líka a.m.k. hálfvegis til baka – kannski hentar þessi stílóróleiki líka ágætlega línulegu frásögninni – hún lýsir þá algerum og ístöðulausum rugludöllum vel við skál. Sem þeir eru.

Í hinu hómerska samhengi má halda því til haga að þótt Stephen og félögum sé hér uppstillt sem hinum bersyndugu og vanhelgandi meðreiðarsveinum Odysseifs og Bloom sem hinum vitra og heiðvirða manni, þá er okkar góði Bloom auðvitað nýbúinn að rúnka sér í buxurnar fyrir framan stálpaðan ungling (sjá síðasta kafla – Gerty er 18 ára, Bloom 38). En hann hagar sér vel á fæðingarheimilinu.

Þegar Buck Mulligan birtist hefur hann með með sér mann sem heitir Bannon. Sá fer strax að segja sögur af Milly (dóttur Bloom-hjónanna) og inn í þær blandast ráðleggingar um hvernig sé best að útvega sér verjur og það má ímynda sér af þeim að Bannon ætli sér eitthvað með Milly (hann veit – sennilega – ekki að Bloom er pabbi hennar eða að Milly er, einsog við vitum, að gera sér dælt við annan mann). Rudy, sonur þeirra hjóna, kemur líka við sögu þegar Bloom hugsar um jarðarför hans og sorg Mollyar. Ég held ég fari með rétt mál þegar ég segi að það sé lítið eða hreinlega ekkert um Blazes Boylan og Molly í þessum kafla. Sem er ekki einsdæmi en sjaldgæft í þeim köflum þar sem á annað borð er dvalið við hugsanir Blooms (í þessum kafla er samt ekkert vitundarflæði, þótt kaflinn sé kaotískur, og því kannski ekki sama aðgengi að dýpstu hugsunum Blooms eða annarra).

Fljótlega eftir að Callan hjúkrunarkona kemur og sækir Dixon og þeir fá að vita að frú Purefoy sé búin að eiga verður Bloom skyndilega mjög dómharður – sérstaklega í garð Punch Costello, en þær lýsingar gætu allt eins átt við hina, ekki síst Stephen (og kannski rímar þetta við áhyggjur Simons Dedalusar, eiginlegs föðurs Stephens, af félagsskapnum við Buck, sem sé að spilla Stephen). Svo kemur kafli þar sem Buck gerir stólpagrín að Haines (enska írlandsfetisjistanum sem býr hjá þeim í Martello-turni).

Listin kemur af og til upp – hér sjáum við skýrast aftur þann Stephen sem við þekkjum úr The Portrait of the Artist as a Young Man, ofsafengna hugsjónamanninn. Listin er öllu æðri – líkamleg frjósemi mannsins er bara til þess að viðhalda andlegri frjósemi hans. Hér verður manni hugsað til þess óþols sem sumir (sumar?) hafa fyrir því að listamenn eða rithöfundar noti fæðingar- og meðgöngulíkingar yfir sköpunarferli sitt – Stephen myndi kannski taka undir úr hinni áttinni, fæðingar og meðgöngur séu hreinlega ekki nógu merkilegar til samanburðar við það að skapa raunverulegt listaverk.

Stephen og Bloom byrja hér að draga sig saman og munu fylgjast að í næstu köflum, föðurlaus sonur og sonarlaus faðir verða andlegir feðgar, að minnsta kosti það sem eftir lifir nætur. Bloom rifjar upp að hafa séð Stephen í veislu þegar hann var 4-5 ára gamall og speglar hann í Rudy.

Þegar Bloom birtist í upphafi kaflans er þrumuveður í aðsigi. Þegar það svo brestur á – með miklum miðaldabravúr í textanum – verður Stephen dauðskelfdur og Bloom reynir að hughreysta hann, án árangurs. Það er vel að merkja vitað að Joyce óttaðist fátt einsog þrumuveður. Og þrumuveður er líka það sem grandaði mönnum Odysseifs.

Við lok kaflans hrópar Stephen að þeir skuli drífa sig á Burke’s – sem er pöbb (nema hvað). Þangað koma þeir (með Bloom með sér) tíu mínútum fyrir lokun, panta tvo umganga og er svo sparkað út. Það kemur ekki fram hvort þeir hafi náð að klára drykkina, tekið þá með sér eða hvort áfengið á fæðingarheimilinu hafi klárast en það gæti líka verið að þeir hafi farið á pöbbinn í makaleit – ungt fólk drekkur (eða drakk) gjarnan í „heimahúsi“ eins lengi og það kemst upp með, af því það er dýrt í samanburði að drekka á börum, og stímir svo á síðustu stundu beint í korter-í-þrjú stemninguna til þess að eiga í það minnsta örlítinn séns. Eitt sem styður þá kenningu mína að áfengið hafi runnið í klofið á ungviðinu er að það fyrsta sem þeir gera þegar búið er að henda þeim út á götu er að ákveða að halda í rauða hverfið. Nighttown. Þar gerist næsti kafli – Kirka – sem er laaaaaanglengsti kafli bókarinnar og ekki endilega auðlesinn heldur (en ef minnið bregst mér ekki er þetta eitthvað viðráðanlegra eftir það).

Ég man mjög vel þegar Leevi Lehto heitinn, vinur minn, var að þýða Oxen of the Sun á finnsku og reyna að útskýra fyrir mér hvað það væri hellað að ætla að þýða eitthvað á finnsku í stíl sem ætti að eiga sér samsvörun í t.d. 11. aldar ensku – og hvernig Leevi væri þess í stað að gera það eina sem honum fannst meika sens og láta söguna á bakvið söguna í finnsku þýðingunni snúast um sögu finnskrar tungu en ekki enskrar, og þýða þá „aðferðina“ sem slíka og leita dæma í gamalli finnsku, til þess að hafa til hliðsjónar í stað ensku dæmanna. Ég man ekki hvaða dæmi hann tók, þótt hann hafi sagt mér það, og gæti ekki flett því upp því ég kann ekki finnsku – en sá stóri munur er á ensku og finnsku að finnskt ritmál á sér enga eiginlega sögu fyrir 16. öld.

Til gamans er hér að lokum smá samanburður á frumtexta, þýðingu SAM og þýðingu Eriks Andersonar. Þetta er lýsing á sardínum í dós (sem eru þarna á borðinu hjá piltunum sem partínasl).

And there was a vat of silver that was moved by craft to open in the which lay strange fishes withouten heads though misbelieving men nie that this be possible thing without they see it natheless they are so. And these fishes lie in an oily water brought there from Portugal land because of the fatness that therein is like to the juices of the olivepress.

JJ

Og þar var skrín af silfri sem með töfrum opnað varð og í lágu fágætir fiskar hauslausir þósvo efunargjarnir menn neiti að trúa að orðið geti fyrren þeir eigin augum sjá að svo er því farið. Og fiskar þessir liggja í olíubornum legi sem fluttur var þangað úr landi Portúgala og er svo feitur að honum má jafna til smjörsins sem úr ólífupressum kemur.

SAM

Och ett silverne kar fanns som blott kunde öppnas med förslagenhet i vilket där lågo märkeliga fiskar utan huvuden så att tvivlande män förneka att detta är möjligt om de ej få se det men icke desto mindre är det så. Och dessa fiskar ligga i ett oljigt vatten hitfört från Portugallien för den fettnad som finns däri liksom olivpressens safter.

EA

* * *

Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar. 

Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.

* * * 

Yfirferðin 2025:

Ulysses: Lestrardagbók, 1. hluti (Telemakkos, Nestor og Próteus á hundavaði – verður gert betur síðar).

Ulysses: Kalypsó

Lótusæturnar

Hades: Undirheimarnir

Eólus: M´ótvindar frelsis

Lestrygónar: Að éta á sig gat

Skylla og Karybdís: Je est une autre

Villhamrar og Skellibjörg

Sírenur, væl og reykur: Dyflinni syngur

Auga sjáandans: Þjóðremba og heift

Nekt og fró: Násika á ströndinni

* * * 

Eldri bloggfærslur um Ulysses:

Gerty MacDowell, Silvía Nótt og list paródíunnar

Hið samhengislega líf

Torlestur

Völundarhús Rorschachs

Að feðra föður sinn

Svartsýni og blinda

Nautn í flagi

Það er endurtekið efni að fólk játi á sig að finnast eitthvað ekki skemmtilegt sem öðrum finnst skemmtilegt, sérstaklega í tónlist. Ég hef nú aldrei þolað Bítlana/Bob Dylan er sjálfsagt algengasta formið af þessari íþrótt. Ég rakst á tvær svona sennur í vikunni, annars vegar sagðist rithöfundurinn (bankamaðurinn?) Sverrir Norland ekki fíla Tom Waits og einhverja fleiri tónlistarmenn – ég er svo sjúkur Tom Waits aðdáandi að mér sortnaði bara fyrir augum og missti alveg af því hverja aðra hann fílar ekki. Hitt var grínistinn Bill Burr ásamt einhverjum vini sínum á YouTube að tala um vinsæl en óþolandi lög – þar sárnaði mér líka eitt og annað, Blister in the Sun er kannski ekki besta lag Violent Femmes og áreiðanlega ofspilað, en það eru nú margir sem verðskulda svona spark meira en þeir (þær?).

Jú og svo sat ég í gömlum vinahóp fyrir nokkrum vikum þar sem fór mikið púður í að ræða hvað hitt og þetta væri leiðinlegt og ofmetið – bíómyndir og tónlistarmenn aðallega.

Hvað um það. Ég er ekki illa haldinn af neinu svona óþoli sem er ekki nánast úniversal – getur einhver hlustað a Lemon Tree lengur? Mmm mmm mmm? Don’t Speak? Kannski er það persónubundnara en ég hef talið hingað til – ég veit það ekki. En svo hljóta svona „ofspiluð“ lög líka að hverfa með annarri útvarpshlustun. Hvað er yngsta raunverulega „ofspilaða“ lagið? Shake it off? Eurovision lögin? Raunar segir það talsverða sögu að fari maður á ball með til þess gerðu ballbandi eru litlar líkur á því að bandið spili lag sem er yngra en 10-15 ára. Kannski eitt (Shake it off? Það er 11 ára). Á gullöld ballbandanna – segjum 1987 til 1997 – voru áreiðanlega sjaldan spiluð lög sem voru eldri en 15 ára. Og sveitaballaböndin spiluðu bara líka Rage Against the Machine ef þeir skriðu upp vinsældalistana (sem er ástæðan fyrir því að Eyþór Arnalds getur sungið það á valdeflingarsamkomum Sjálfstæðisflokksins, einsog það væri Piano Man með Billy Joel (sem er frábært lag!)).

Altso – við eigum enga sameiginlega poppupplifun lengur og þar með hverfa bæði súperhittararnir sem lifa af og þeir sem hverfa í mók vandræðaleikans og heiftarský óþolsins. Eftir sitja einhverjar svona opnar spurningar – hefur þú heyrt í Viagra Boys? Wet Leg? Hvað er þetta Benson Boone?

Það eru svo sem til gamlar vinsælar hljómsveitir sem ég hef ekki náð sambandi við. Oasis til dæmis. En það er alls ekki þannig að mér standi ekki á sama þótt öðrum finnist hún skemmtileg – og ekki heldur þannig að ég skipti um rás ef hún kemur í útvarpinu. Fínt band. Svo er alls konar dót sem ég hef reynt að hlusta á í gegnum börnin mín. Það var þarna Imagine Dragons tímabil sem var dálítið erfitt. Og tónlist sem er samin fyrir börn – það er furðu mikið af því metnaðarlaus leiðindi. Alls ekki allt auðvitað – en það er hægt að ná athygli barna með því að keyra froðuna bara í botn. En það er svo blessunarlega músík sem þau gleyma hratt sjálf (einsog við gleymum megninu af öllum poppkúltúr – þess vegna finnst okkur horfnir áratugir svona glimrandi fínir, við munum bara gullin en ekki innanhola síbyljuna).

Annars er ég líka viðkvæmur fyrir þessu. Þegar fólk segist ekki fatta mína eftirlætis tónlist – hvort sem það eru Guns eða Waits eða Son House eða Art Blakey. Ég þarf meira að segja að verja – sjúgandi upp í nefið – tónlist sem er augljóslega búið að útjaska. Mér finnst nú Piano Man bara fínt lag. Ég fór á Green Day og Weezer tónleika í sumar með Aram og hef hálfskammast mín fyrir hvað mér fannst það gaman. Líka á Green Day segi ég þegar vinir mínir fitja upp á nefið. Sumum þeirra finnst svo alveg jafn ómögulegt af mér að finnast gaman á einhverjum tilraunadjassi. Ég er engin alæta á músík, ég laðast að því sem ég laðast að og held hinu frá mér, en ég hef frekar breiðan smekk og ég hef áhuga á tónlistarsögu og því að mennta sjálfan mig, skilja hvað það er sem ég fíla og hvernig tónlistarheimur minn getur stækkað – hvernig fagurfræðin hangir saman (þess vegna finnst mér allt með Tom Waits skemmtilegt – af því það hangir saman, hvert einasta lag segir eitthvað um hin – ég hef ekki þannig áhuga á öllum tónlistarmönnum en ég held að það ættu allir að eiga a.m.k. einn þannig eftirlætis listamann).

Á hinn bóginn hef ég getað verið mjög esóterískur og dómharður í málum ljóðsins – og finnst margt af því sem er haft í miklum metum vera mjög ómerkilegt. Þar er mikið leitað í lága samnefnara – að fella ódýrar keilur og predika fyrir kóra. Ég er hins vegar nær alveg hættur að tjá mig um það og kannski hreinlega hættur að spá í því. Á löngu tímabili las ég alveg óhemju af ljóðum – öllu sem ég komst í – einsog maður sem spænir sig í gegnum mykjuhaug í leit að gylltum tannstöngli. Og lét mykjuna fara í taugarnar á mér. Nú leita ég miklu minna – pirra mig minna en það er líka færra sem kemur mér á óvart. Les bara það sem ég veit að gleður mig.

Áður en ég leysist upp

Ég er enn í hægagangi. Hugsanlega var ég bara lasinn í dag. Aram Nói fór í morgun – hann ætlar að vera eitt ár í Svíþjóð, fyrsta árið í menntaskóla. Ég er ekki frá því maður verði lasinn af því að missa son sinn að heiman. Ég þurfti allavega að fá mér langan lúr eftir hádegið. Einsog tappinn hefði verið tekinn úr mér. Þetta heitir víst að verða fyrir geðvefrænum áhrifum. Ég segi síkósómatískt áfall en það er talmál og þetta er ritmiðill og því heitir það geðvefræn áhrif.

Helgin var á hlaupum. Act Alone á Suðureyri en ég þurfti að spila – með ánægju, þetta „þurfti“ er ekki alveg heiðarlegt, þetta var ekki herskylda – í djassbandi í fertugsafmæli Lísbetar vinkonu minnar. Ég náði fimmtudeginum á Actinu – þar sem Bernd Ogrodnik kom m.a. fram og var hreint ótrúlegur – æfði með djassbandinu allt föstudagskvöldið og renndi svo yfir í skáldastund með Óskari Árna á laugardeginum en þurfti að fara snemma til að verða ekki seinn á giggið sem stóð með hléum frá 18 til 23.

Ég get með góðri samvisku sagt að ég hafi kunnað annað hvert lag. Þriðja hvert mátti svo svinga en fjórða hvert fór út í skurð – en þá voru færari menn en ég í þessu bandi sem héldu lögunum á floti. Og svo var þetta afmæli og fólk að syngja mest fyrir gamanið – eiginlega var það bakgrunnsmúsíkin sem var mest æfð og sem rann ljúfast. Visa från Utanmyra, Blue Bossa, Fly me to the moon, Norðurljósablús og fleira þesslegt. Ég þarf að bæta svolítið lagalistann hjá mér, læra fleiri lög og æfa mig í að lesa s.k. lead sheet – ég spjara mig alltaf nokkra takta en villist svo gjarnan, stundum af því ég kann ekki fingrum mínum forráð og vil spila flóknari hluti en ég ræð við.

Úr fertugsafmælinu fórum við hjónin á tónleika hjá Aram Nóa og Axel vini hans – sem kalla sig Ulla. Það var í Tjöruhúsinu, hart rokk – trommur og bassi, þeir skiptust á að syngja en fengu líka gestasöngvara. Og ferfalt uppklapp. Enduðu á hópsöng í Gúanóstelpunni, sem var viðeigandi af því Mugison og Rúna – sem sömdu lagið með Ragnari Kjartanssyni, og áttu heima í næsta húsi þar til fyrir skemmstu, voru að gifta sig þetta sama kvöld.

Á sunnudeginum var kveðjukvöldverður fyrir Aram. Í gær var slakað á en í kvöld fórum við Aino á nýjan farsa sem Ísleikhúsið setti upp í Edinborgarhúsinu – „Til hamingju, þú varst að eignast Ísfirðing“. Það var stórskemmtilegt. Á morgun ætlum við að horfa á fyrstu Hungurleikamyndina – Aino er að klára að lesa þriðju bókina og hefur beðið í ofvæni eftir að fá að horfa á myndirnar. Á fimmtudag ætla ég á ADHD – en Ásta vinkona mín er líka með spilunarpartí, einhvers konar hjólaferð um bæinn sem endar með diskói bakvið slökkvistöðina, og svo er uppistand í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal. En ég ætla að skrópa á því báðu og fara á ADHD af því maður getur ekki gert allt og verður að velja. Á föstudag fer ég að hjálpa vini mínum að tyrfa eftir vinnu og fram á kvöld, vænti ég. Veit ekki með laugardag – allavega kvöldið, ég ætla í 26 km langhlaup yfir daginn – en á sunnudag ætla ég á Ástin sem eftir er, nýju myndina hans Hlyns Pálmasonar.

Annars þarf ég að finna einhvern tíma fljótlega til að kjarna mig, einsog þeir segja í sjálfshjálparbókunum. Áður en ég leysist upp.

Vegaleysur

Ég hef aldrei áttað mig alveg á kallinu eftir því að innflytjendur eða hælisleitendur eða flóttamenn sem brjóti af sér missi dvalarleyfið – hvað þá að fólk sem hefur hlotið ríkisborgararétt missi hann við tiltekin brot. Ég átta mig bara ekki á því hvernig þetta tvennt hangir saman. Og finnst svona almennt að eitt eigi yfir alla að ganga – og sömu reglur að gilda. Að ef ég, sem íslenskur gangster, lendi í ofbeldisfullum útistöðum við erlendan gangster – þá meiki lítið sens að hann verði „sendur heim til sín“ en ég fái bara að halda áfram að terrórísera nágranna mína í Tangagötunni. Og reyndar skil ég ekki hvers fólkið, sem býr „heima hjá“ þessum erlenda gangster – eða hvert hann er sendur – á að gjalda að fá einhvern fávita aftur í hausinn, sem vill ekki einu sinni vera þar. Hvað hefur það til saka unnið? Hvers vegna er betra að einhver nauðgari búi á götunni í Aþenu eða í flóttamannabúðum í Sýrlandi en að hann búi í Kópavogi? Eða bara á Hrauninu.

Ríkisborgararéttur er líka undarlegt fyrirbæri. Erich afi minn fæddist í Þýskalandi sonur ´ísfirskrar konu og súdeta-Þjóðverja – sem var sem sagt tékkóslóvakískur ríkisborgari, af því þegar langafi fæddist voru súdetahéruð í Austurríki-Ungverjalandi, og þótt hann væri fluttur til Þýskalands varð hann tékkóslóvakískur ríkisborgari 1918. Á árunum eftir stríð gilti að ríkisborgararéttur fylgdi fæðingarlandi – af því það voru allir út um allt og allt komið í rugl – svo afi var þýskur. Þegar mamma fæddist á Íslandi 29 árum síðar voru lögin á Íslandi þannig að ríkisborgararéttur fylgdi föður. Svo mamma var þýsk. Þegar Dóra systir fæddist 19 árum eftir það var búið að breyta lögunum þannig að ríkisborgararéttur fylgdi móður. Svo Dóra systir var líka þýsk. Þær fengu ríkisborgararétt í maí 1978 með samþykkt frá alþingi – nokkrum mánuðum áður en ég fæddist, sem hefði annars líka verið þýskur ríkisborgari. Af því að langafi minn var fæddur í Austurríki-Ungverjalandi á nítjándu öldinni. Var kannski bóhem, einsog ég, án þess ég viti það.

Þegar við fjölskyldan vorum í Hondúras heyrðum við mikið af fólki sem var verið að vísa frá Bandaríkjunum – mágur minn vann við flóttamannaaðstoð – og mikið af því fólki hafði aldrei til Hondúras komið frá því það fæddist, átti þar enga fjölskyldu eða tengsl, talaði jafnvel ekki einu sinni spænsku. Neyðin sem hefur skapast víðs vegar í veröldinni vegna þess að það er verið að vísa fólki í burtu af öllum mögulegum tylliástæðum – af því „innflytjendamálin“ eru í svo miklum „ólestri“ og það má ekki taka þau „neinum vettlingatökum“ – er afar raunveruleg og ekki til þess að vel meinandi fólk fari að bæta á hana. En það segir eitthvað um súra – eða réttara sagt brúna – stemninguna í vestrænum þjóðfélögum að þegar ráðherra stígur fram með þessar hugmyndir sínar um að „fækka innflytjendum“ (eða „velja betur“ – fá bara menntaða efri millistétt en halda láglaunafólkinu úti) þá réttir fyrst formaður Sjálfstæðisflokksins upp hönd til þess segjast nú eiginlega eiga höfundarrétt á þessum hugmyndum, og svo lýsir formaður stærsta verkalýðsfélagsins, sem jafnan er álitin róttækur sósíalisti, því yfir að gagnrýni á þessa stefnu – sem er ekki bara útlendingafjandsamleg, heldur fyrst og fremst stéttfjandsamleg – sé eitthvað „woke gone mad“.

Trump er altso víða. Og allir vildu Lilju kveðið hafa.

Það er ágætt að halda því til haga að fjölgun innflytjenda á Íslandi er alls ekki vegna dvalarleyfa frá fólki utan EES svæðisins, hvorki innflytjenda, flóttamanna eða hælisleitenda – enda er algert hell fyrir það fólk að flytja hingað, einsog allir sem þekkja einhvern sem það hefur reynt geta borið vitni um – heldur vegna frjálsrar farar verkafólks innan EES. Og það er enginn að tala um að ganga úr EES – það er ekki hluti af neinum tillögum. Opnu samfélagi fylgja augljóslega alls konar áskoranir. En maður þarf að vera minnislaus fáviti – eða illa innrættur – til þess að vilja hækka aftur múranna milli Evrópulanda eða flækja þessi kerfi og gera þau dýrari.

Fréttir úr feluleiknum

Heimska er gefin út af Marpress í Póllandi og þýdd af Jacek Godek.

Það varð kaldara í gær. Sjötti ágúst er fullsnemmt fyrir haustið til þess að ganga í garð – en það er farið að minna á sig. Ég veit ekki hvort ég er undir það búinn. Ég er hættur að vera í sumarfríi – hættur að frílysta mig og hættur að sinna húsinu – og farinn að hanga á skrifstofunni, einsog virðulegum rithöfundi sæmir. En mig langar í fleiri sumardaga. Langar að grilla á pallinum. Það gæti reyndar sloppið í dag. Svo er Act Alone að byrja. Ég kemst sennilega lítið á morgun og hinn og ætla því að reyna að ná öllu í kvöld.

Maður er líka farinn að íhuga haustið. Plönin. Ég verð svolítið á ferð og flugi frá miðjum september og fram undir lok nóvember. Heimska kemur út í Póllandi 21. ágúst og Náttúrulögmálin í Svíþjóð 1. september. Það eru fjögur ár frá því það kom síðast út bók eftir mig á öðru tungumáli en íslensku – þegar Hans Blær kom á frönsku og spænsku og Brúin á sænsku – og því gleður þetta mig mjög. Það var líka von á Óratorrek á finnsku í ár en forlagið þar virðist hafa lent í einhverjum ógöngum. Sem er auðvitað verra, en þetta er þannig bransi. Bókin er þýdd – það gerði Tapio Koivukari – og kannski finnur hún sér heimili einhvers staðar fyrir rest.

Ég finn það samt að heilinn á mér er ekki alveg kominn í stellingar. Sköpunargleðin er í felum. Ég er með tvö verkefni á borðinu, annað liggur beinna við en hitt – það er að segja það kallar meira á útfærslur en nýjar hugmyndir og ég potaði aðeins í það í gær. Hitt bíður þess að allar vélar verði komnar á fullt.

Nekt og fró: Násika á ströndinni

Násikukaflinn breiðir úr sér á púslinu. Gerty situr á steininum, Bloom horfir upp pilsið hennar. Cissy og Edy standa ásamt tvíburunum og ungbarninu og horfa á flugeldana. Niðri í vinstra horninu er kirkja St. Mary’s Star of the Sea.

Söguþráðurinn í Násikukafla Joyce er áreiðanlega einn sá einfaldasti af kaflaþráðum Joyce. Hann skiptist í tvo hluta – sem Joyce kallaði „bólgu“ og „hjöðnun“ (e. tumescence og detumescence). Í þeim fyrri er sjónarhornið hjá Gerty MacDowell, ungri konu sem er komin á Sandymount Strand – þar sem Stephen velti vöngum um „the inulectable modility of the visible“ í Próteusi – ásamt tveimur vinkonum sínum, Cissy og Edy, sem eru með tvo róstursama drengi í pössun (tvíbura, yngri bræður Cissyar) og ungabarn í kerru.

Gerty situr afsíðis og nýtur sólarlagsins meðan hinar sinna börnunum. Þá tekur hún eftir því að nálægur karlmaður er farinn að sýna henni athygli – stara – og æsist hún mjög af áhuga hans. Hún veltir fyrir sér hver hann gæti verið á sama tíma og hún rifjar upp ástarsorgina sem hún er í – hún er ástfangin af „drengnum á reiðhjólinu“, Reggy Wylie, en þau geta ekki átt hvort annað því hann er mótmælandi en hún kaþólikki. Maðurinn sem starir á Gerty er augljóslega byrjaður að rúnka sér undir fötunum og Gerty hagræðir sér svo hann sjái betur upp pilsið hennar.

Á einhverjum tímapunkti missa tvíburarnir – sem hafa rifist af ofsa og frekju – frá sér bolta sem maðurinn reynir að sparka til baka en drífur ekki upp brekkuna, og á öðrum tímapunkti fer Cissy til hans til þess að forvitnast hvort hann viti hvað klukkan sé, en klukkan hans reynist hafa stoppað. Hann giskar að hún sé eitthvað yfir átta. Niðri í bæ hefst flugeldasýning og stúlkurnar með börnin vilja gjarnan færa sig upp ströndina til þess að sjá betur en Gerty segist sjá ágætlega þar sem hún situr – og vill ekki færa sig úr sjónmáli mannsins, hún er sjálf til sýnis, notar tækifærið til þess að bera fótleggina almennilega, með þessum afleiðingum:

And she saw a long Roman candle going up over the trees, up, up, and, in the tense hush, they were all breathless with excitement as it went higher and higher and she had to lean back more and more to look up after it, high, high, almost out of sight, and her face was suffused with a divine, an entrancing blush from straining back and he could see her other things too, nainsook knickers, the fabric that caresses the skin, better than those other pettiwidth, the green, four and eleven, on account of being white and she let him and she saw that he saw and then it went so high it went out of sight a moment and she was trembling in every limb from being bent so far back that he had a full view high up above her knee where no-one ever not even on the swing or wading and she wasn’t ashamed and he wasn’t either to look in that immodest way like that because he couldn’t resist the sight of the wondrous revealment half offered like those skirtdancers behaving so immodest before gentlemen looking and he kept on looking, looking. She would fain have cried to him chokingly, held out her snowy slender arms to him to come, to feel his lips laid on her white brow, the cry of a young girl’s love, a little strangled cry, wrung from her, that cry that has rung through the ages. And then a rocket sprang and bang shot blind blank and O! then the Roman candle burst and it was like a sigh of O! and everyone cried O! O! in raptures and it gushed out of it a stream of rain gold hair threads and they shed and ah! they were all greeny dewy stars falling with golden, O so lovely, O, soft, sweet, soft!

Then all melted away dewily in the grey air: all was silent. Ah! She glanced at him as she bent forward quickly, a pathetic little glance of piteous protest, of shy reproach under which he coloured like a girl. He was leaning back against the rock behind. Leopold Bloom (for it is he) stands silent, with bowed head before those young guileless eyes. What a brute he had been!

Hefst þá seinnihluti kaflans, þar sem fókusinn er aftur hjá Bloom – og í fyrsta skipti af einhverju viti frá því í Lestrýgónum (þegar Bloom leitar sér að einhverju að éta – gorgonzola samloku með búrgúndarvíni – Bloom er mikið í frumlöngununum). Í Kýklópakaflanum er það auðvitað nafnleysinginn sem hefur orðið og við lok hans er Bloom á flótta undan Borgaranum – æstum rasista. Síðan þá hafa þeir Martin Cunningham farið og hitt ekkju Dignams til þess að ræða líftrygginguna og afkomu fjölskyldunnar, en Bloom er nú aftur einn. Hann fer úr lífsháska í dauðasorg og er mættur hingað í lostann.

Þessi Bloomshluti er líka ólíkur öðrum Bloomshlutum í því að það gerist eiginlega ekki neitt – venjulega er Bloom á þeytingi, að sinna einhverju erindi, selja auglýsingu, útbúa morgunverð, kaupa sápu, en hér situr hann bara á ströndinni og lætur hugann reika. Það er að segja, að afloknu hinu kynferðislega erindi.

Og um hvað hugsar hann? Hann hugsar auðvitað um Gerty – íhugar dreyminn hvort hún geti verið konan á bakvið pennavinkonunafnið „Mörthu Clifford“. Hann hagræðir fötunum eitthvað til þess að afgreiða subbuskapinn innanklæða. En það fyrsta sem gerist er reyndar að hann horfir á Gerty ganga í burtu og sér að hún er hölt – sem honum finnst ægilegt en þakkar fyrir að hafa ekki vitað það „á meðan“. Hann hugsar um hvernig hann líti sjálfur út – þakkar fyrir að hafa snúið framhliðinni að Gerty (annað hvort af því hann sé ljótur í prófíl eða af því þá hefði hún hugsanlega séð á nefinu að hann væri af gyðingaættum). Hugsar um tíðir kvenna og falska vinsemd þeirra hverja við aðra. Hann hugsar um skordýr og minnist þess að hafa verið illa stunginn af býflugu. Hann hugsar um dóttur sína og manninn sem hún er að gera sér dælt við. Um Minu Purefoy sem er á fæðingardeildinni og ákveður að líta þar við. Hvort hann eigi að skrifa sögu í Tit Bits (einsog hann íhugaði í Kalypsó). Hann hugsar um söngferðalag Mollýar með Boylan. Hann finnur blaðsnifsi en getur ekki ráðið í skriftina. Og hann byrjar að skrifa skilaboð til Gertyar í sandinn með priki – ef hún skyldi koma aftur – en klárar þau ekki, kemst ekki lengra en: I AM A. En það er ekkert pláss til að halda áfram (á ströndinni?) svo hann svarar aldrei spurningunni, segir okkur aldrei hvað hann sé.

Inn á milli allan kaflann höfum við séð og heyrt í góðtemplaramessu í kirkju st. Mary’s Star of the Sea. Góðtemplaramessur munu hafa verið eitthvað mitt á milli venjulegrar messu og AA-fundar. Í lokin kemur kafli þar sem við heyrum í gauksklukkunni í prestshúsinu – fyrst rétt eftir að Bloom hefur séð leðurblöku.

Cuckoo
Cuckoo
Cuckoo

Næst kemur stutt lýsing á prestunum sem sitja yfir kótelettunum sínum og tala um

Cuckoo
Cuckoo
Cuckoo

Og loks á litlum kanarífugli sem hafi komið út úr húsi sínu til þess að tilkynna Gerty MacDowell hvað tímanum liði og að maðurinn sem sæti þarna væri augljóslega

Cuckoo
Cuckoo
Cuckoo

Og lýkur þar kaflanum.

Þetta var reyndar meiri söguþráður en mig minnti þegar ég byrjaði að rifja hann upp.

Hér úir og grúir af öskjum til að opna, einsog þeir segja í ameríku. Táknin, sérstaklega í Gertyarhluta, bjóða upp á augljóst samhengi (sem getur verið villandi) og textinn er frekar beint áfram – stíllinn er létt kitsaður ástarsögutexti, án þess þó að vera háð, og næstum allt sem gerist er einhvers konar athugasemd um „stöðu konunnar“ og „feðraveldið“. Gerty er kona sem fær ekki notið síns heittelskaða vegna samfélagslegra regla; sjónarhornið er hjá henni en púðrið fer mikið í að lýsa henni sjálfri, hárinu, húðinni og svo framvegis – hún er kona til sýnis, en hún er það ekki bara fyrir aðra, hún nýtur þess sjálf og þessi pilsgjörningur sem hún fremur fyrir Bloom virðist mjög „valdeflandi“. Þegar hún heyrir í messunni fáum við að heyra af því hvað pabbi hennar mikill alki og hvað hún þarf að sinna honum mikið. Vinkonur hennar eru mestmegnis að snúast í kringum tvo strákasna sem eru alveg eins – tvíburar – og að drepast úr frekju og fyrirferð, auk barnsins sem þær þagga niðri með því að leyfa því að sjúga tóman pela (sem er v´íst ekki sniðugt). Konurnar eru sem sagt allar í umönnun á meðan þær eru ekki í erótík. Það eru valkostirnir sem þeim bjóðast.

Bloom, sem rúnkar sér undir buxunum, er óforskammaður – ekki bara á meðan, það er alveg ljóst eftir losun að hann skammast sín ekkert, honum líður bara betur – en hann er líka getulaus. Ekki ætla ég að mæla því bót að menn dragi hann út þegar þeir rúnka sér fyrir framan fólk á ströndum úti en það er samt eitthvað enn getulausara við að gera það innanklæða. En auk þess ræður hann ekki við að sparka boltanum til baka og veit ekki hvað tímanum líður – það kemur í ljós að klukkan stoppaði akkúrat klukkan hálffimm, og hann hugsar að það sé kannski einmitt augnablikið sem hann var kokkkálaður af Boylan („cuckoo, cuckoo, cuckoo“).

Þá er ótalin góðtemplaramessan – ég held að manni sé óhætt að reikna með því að slík samkoma, 1904, hafi fyrst og fremst verið skipuð karlmönnum, og í þessu tilviki uppgjafabyttum og prestum, í kirkju hinnar helgu jómfrúar, sem stendur vörð um endurreisn þeirra.

Str´uktúr kaflans er dæmigerður samfarastrúktur. Hann hefst á áhuga sem fer stigvaxandi, verður að þreifingum sem ná hápunkti sínum í flugeldasýningu og leysist síðan upp í þreytulegt kæruleysi – sem er yfirleitt skautað yfir í bókum og bíó, eftirleikurinn er jafn óaðskiljanlegur hluti kynlífs og forleikurinn.

Eitt af því sem er gjarnan tekið upp þegar Násikukaflinn er annars vegar er hvort sjónarhorn Gertyar sé ímyndun Blooms og kaflinn allur í höfðinu á honum eða hvort það séu skipti – hugsanir Gertyar séu hennar eigin og svo taki hugsanir Blooms við. Ég held mér hafi einhvern tíma þ´ótt það áhugaverð pæling en hún nær mér ekki núna, hvorki til að hafna henni né halda með.

Gertyarhluti er kannski líka áhugaverðari ef við gröfum ekki þetta aukalag undan honum heldur leyfum henni að vera „konan sem lætur aðra sjá sig“ og „konan sem sér sig séða“. Ég kaupi það kannski heldur ekki að Bloom væri fær um að sjá það feminíska meta-level, þrátt fyrir sína ýmsu kosti, né heldur að honum væri neinn sérstakur akkur í því að firra sig þannig eigin glápandi greddu – honum þætti held ég alltílagi að glápa bara og hugsa „hold, hold, hold“ – auk þess sem fantasíur hans reynast síðar vera af grófara tagi en hér eru bornar á borð. Gerty sér þetta allt í rósrauðu ljósi – hún er ung og í ástarsorg og hana langar meira að vera erótísk viðfang eldri manns en umönnunaraðili frekra krakka, einsog vinkonur hennar, eða einsog hún þarf sjálf að vera heima hjá sér gagnvart áfengissjúkum föður.

Mér var einhvern tíma tjáð af manni sem þekkti til að á fundum hjá SLAA (Sex and Love Addicts Anonymous) að það væri nánast kómískt fyrirsjáanlegt að karlarnir þarna væru allir háðir tilfinningalausum ríðingum og konurnar með ástarfíkn. Mér varð oft hugsað til þeirra orða meðan ég las þennan kafla. Og kannski þess líka að þetta væru ekki endilega mjög fjarskyldar fíknir og það væri áreiðanlega góð og gild ástæða fyrir því að kynlífsfíklarnir og ástarfíklarnir væru allir í sama pottinum – þetta er birtingarmynd vöntunar, þar sem þörfin fyrir hlýju breytist í svarthol sem gleypir allt.

Þá er líka mikilvægt að halda því til haga að það er ekki bara Bloom sem er óforskammaður – þau eru bæði óforskömmuð, bæði þátttakendur þótt það sé Bloom sem svo að segja „bjóði upp í dans“ – fólk í kynferðislega þrúgandi samfélagi að öskra á erótíska björgun.

Bloom og Gerty eru að díla hvort við sinn pakkann. Hún er kaþólsk stúlka sem er föst heima, hjá ofbeldisfullri fyllibyttu sem hindrar hana í að giftast góðum manni – þær hvatir leita útrásar í almennri sýnihvöt (kona sem vill ganga út, komast af þessu heimili, þarf að sýna sig – kalla á athygli, laða að sér bjargvætt) sem fær hér útrás gagnvart eldri manni (föðurfígúru) sem vill horfa á hana. Bloom er kokkkálaður maður sem getur ekki sofið hjá konu sinni sökum kvíða – eftir dauða sonar þeirra – en daðrar við að gera einsog hún og stunda framhjáhald sjálfur en kemst aldrei lengra en að skrifa dónabréf til ókunnra kvenna og fróa sér undir fötunum á ströndinni.

Násika hjá Hómer er dóttir Alkinóusar konungs. Ódysseifur hefur strandað á Skerju, heimili þeirra, og heldur til skógar. Násika og þernur hennar koma á ströndina til þess að þvo föt í ánni. Meðan þvotturinn hangir til þerris leika þær knattleik – þegar knötturinn fer í ána við djúpan hyl æpa þernurnar upp yfir sig. Ódysseifur heyrir í þeim. Hann er nakinn en brýtur grein og hylur „skapnað sinn“ með henni og arkar út úr skógarþykkninu. Vinkonurnar hræðast og hlaupa í burtu en Aþena (sem stendur á bakvið þetta allt) hefur fjarlægt óttann úr brjósti hennar svo hún bíður kyrr og róleg. Ódysseifur íhugar að standa bara álengdar og biðja hana um hjálp eða hvort hann eigi heldur að grípa um hné hennar – og afræður að standa álengdar þar sem hann heldur mikla ræðu, dásamar Násiku og segist óttast að taka um hné hennar, biður um fæði og klæði. Segir Násika hann augljóslega hvorki vera „ógöfugan“ né „heimskan“ og býður honum aðstoð sína og fer með hann til hallar föður síns.

Megnið af ævintýrum Ódysseifs eru endursögn sem á sér stað í þeirri höll – þegar Ódysseifur segir Alkinóusi af ferðum sínum. Þó ekki væri annað staðsetur það Násikukafla Joyce nálægt tilfinningalegri miðju verksins – og kannski er það hér sem við sjáum þá best saman, óafsakanlega perra-Bloom og ljúfa, saklausa Bloom, manninn frá toppi til táar í ódulinni og gallaðri fegurð sinni.

Ýmislegt annað speglast hérna. Knattleikurinn auðvitað og knötturinn sem fer annað en hann á að fara. Að Bloom (og Gerty) standi álengdar en nálgist ekki. Að vinkonurnar færi sig fjær. Nektin – þótt það sé karlinn sem reyni að hylja sig hjá Hómer, en konan sem reynir að sýna sig hjá Joyce. Ég veit ekki hvort Bloom er strand á þessari strönd – þetta er heimili hans þótt hann þurfi að standa á því fastar en fótunum við suma (einsog Borgarann í síðasta kafla).

Hvað sem því líður er deginum lokið og nóttin að taka við. En það er ennþá heilmikið eftir af bókinni.

* * *

Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar. 

Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.

* * * 

Yfirferðin 2025:

Ulysses: Lestrardagbók, 1. hluti (Telemakkos, Nestor og Próteus á hundavaði – verður gert betur síðar).

Ulysses: Kalypsó

Lótusæturnar

Hades: Undirheimarnir

Eólus: M´ótvindar frelsis

Lestrygónar: Að éta á sig gat

Skylla og Karybdís: Je est une autre

Villhamrar og Skellibjörg

Sírenur, væl og reykur: Dyflinni syngur

Auga sjáandans: Þjóðremba og heift

* * * 

Eldri bloggfærslur um Ulysses:

Gerty MacDowell, Silvía Nótt og list paródíunnar

Hið samhengislega líf

Torlestur

Völundarhús Rorschachs

Að feðra föður sinn

Svartsýni og blinda

Þannig var það – Jon Fosse – 10. júlí, 2025

Ég ætlaði að fara að skrifa að það væri ekki á hverju ári sem íslensk leikhús sviðsettu leikverk nóbelsverðlaunaskálda en svo mundi ég að það var áreiðanlega bara í fyrra sem ég sá Hassið hennar mömmu eftir Dario Fo á Flateyri. Og í gærkvöldi fór ég í Haukadal og sá Þannig var það eftir Jon Fosse. Svo kannski er þetta bara árlegt fyrirbrigði.

Nei, sló þessu upp. Það var í hittifyrra. Verk nóbelsleikskálda eru sett upp annað hvert ár. Á Vestfjörðum – ekki veit ég hvernig þessu er háttað í öðrum landsfjórðungum. Mér er sagt að þar sé allt miklu verra en hér en ég reyni að kanna það helst aldrei.

Sá er þó munurinn á þessum tveimur uppsetningum að Elfar Logi er að frumsýna verkið á Íslandi, sem kom út á bók hjá Espolín útgáfunni í þýðingu Kristrúnar Guðmundsdóttur 2019, en Dario Fo var þýddur fyrir löngu og var held ég á tímabili mjög vinsæll, ekki síst hjá áhugaleikhúsum einsog því á Flateyri. Hassið hennar mömmu hefur margsinnis verið sviðsett. Annar munur er jú að Kómedíuleikhúsið er atvinnuleikhús.

Annars hefur Dimma verið ötul í útgáfu verka Fosse síðustu ár og þá held ég alltaf í þýðingu Hjalta Rögnvaldssonar. Það er líka merkilegt í því samhengi að flestar þessar bækur komu út áður en Fosse hlaut Nóbelsverðlaunin – útgáfan er sem sagt ekki afleiðing af þeim. Ég hef aðeins litið í þær en ekki alveg náð sambandi – sem segir áreiðanlega jafn mikið um mig og þær.

Hvað um það. Þannig var það er stutt verk sem fjallar um gamlan listmálara sem býr einn en á bágt með að sjá um sig sjálfur. Þegar verkið hefst liggur hann í rúminu og á leiktímanum tekst honum að setjast upp, skrönglast upp á staf, færa sig yfir í göngugrind, þaðan í hjólastól og enda svo á gólfinu eftir að hafa reynt að leggjast aftur, úrvinda eftir hamaganginn. Hann veltir fyrir sér merkingu lífs síns og ber sig illa – hann þolir ekki konuna sem kemur til að líta til með honum, en hún er samt greinilega eini félagsskapurinn sem hann nýtur, því börnin hans nenna honum ekki og konurnar hans þrjár gáfust allar upp á honum – að sögn af því hann gaf sig allan málverkinu, var hvergi til annars staðar. Hann er trúaður en hefur meira að segja gefist upp á að fara með faðirvorið – það sé tilgangslaust, einsog allt annað.

Textinn er endurtekningasamur og sveiflast milli röfls og galdraþulu, ljóðs og heimspeki – hann er ekki beinlínis á leiðinni neitt og þótt myndin af manninum skýrist smám saman þá fáum við aldrei neinar greinargóðar útskýringar ´á því hvernig er fyrir honum komið. Kannski er þetta í aðra röndina verk bara um það hvernig „hlutirnir geta farið“ – án þess þó að höfundur, eða raunar sögupersóna, reyni að bera neitt blak af sér eða hafna eigin sök. Hann er hundfúll yfir aðstæðum sínum – að vera einn, að deyja einn, dáður út í bæ en fyrirlitinn heima, af sjálfum sér og öðrum – en fljótur að koma auga á hvernig hann kom sér í þær – þótt það sé auðvitað gott að vera vitur eftirá. Og svo bara syngur hann eða þylur eða röflar eða ljóðar og fyrtist og bölvar eða hvað það er sem hann er að gera.

Uppfærsla Kómedíuleikhússins er stórkostleg. Leikmyndin er einföld – rúmið og göngugrindin og stafurinn og hjólastóllinn á litlu sviði leikhússins í Haukadal (sem gefur sýningunni alveg áreiðanlega aukinn kraft – þetta er göldrótt hús). Stutt fiðlustef Unnar Birnu Björnsdóttur, falleg og passlega sársaukafull, styrktu tilfinningar verksins án þess að bæta við þær upphrópunarmerki, einsog oft vill annars verða raunin. Náttföt listamannsins voru við það að gera sjóveikan – niðri var einsog þau væru vitlaust hneppt en uppi rétt, sennilega voru þau bara hönnuð skökk – skemmtilegur og metafórískur díteill.

En mestu munaði um Elfar Loga sem átti stórleik –  svona verk stendur og fellur með (ein)leikaranum á sviði – hann sveiflaðist inn og út úr harmi og húmor, beiskju og hlýju í einhverjum galdri sem gerði það að verkum, sem ég hef annars varla upplifað í leikhúsi áður, að í stað þess að áhorfendur væru alltaf í „sömu“ tilfinningunni, hlæjandi saman og grátandi saman, voru þeir augljóslega oft hlæjandi og grátandi á víxl að sömu senunum. Eina mínútuna hló ég að geiflandi beiskju gamalmennisins meðan maðurinn fyrir framan mig tók andköf af meðlíðan, en þá næstu tók ég andköf meðan hann hló. Það var einsog hvert augnablik hefði jafnsterka kómíska og tragíska vídd og tilviljun ein réði því hvorumegin maður lenti (og fékk mig til að hugsa um söguna um að Chekhov hefði gengið út af frumsýningu Kirsuberjagarðsins, sem hann skrifaði sem kómedíu, en leikhópurinn ákvað að sviðsetja sem tragedíu, eftir að hafa farið að hágrenja við fyrsta leiklestur – það er ekki alltaf langt þarna á milli og stundum er þetta bara sami bletturinn).

Kómedíuleikhúsið, sem á tvö ár í þrítugt, hefur vaxið mikið á síðustu árum – ekki síst með uppsetningunni á Ariasman og nú Fosse. Það er í sjálfu sér kraftaverk að reka svona „fyrirtæki“ – atvinnuleikhús í Haukadal, með kannski 20 sæti – og væri það áfram þótt sýningarnar væru ekki í þokkabót jafn listrænt metnaðarfullar og verið hefur upp á síðkastið. Að ég segi nú ekkert um hliðarbarnið Act Alone. Ég tek hatt minn ofan.

Ég reiknaði fyrirfram með því að verkið myndi skila sér til Reykjavíkur fyrir rest – en það stendur víst á heimasíðu leikhússins að það verði bara sýnt í Haukadal í sumar. Ég ímynda mér að það sé eitthvert leyfisspursmál. Það eru þrjár sýningar eftir – 17. 24. og 31. júlí. Ég myndi ekki missa af þeim.

***

Þannig var það – Kómedíuleikhúsið

Leikari: Elfar Logi Hannesson
Höfundur: Jon Fosse
Þýðing: Kristrún Guðmundsdóttir
Tónlist: Unnur Birna Björnsdóttir
Búningar: Þ. Sunnefa Elfarsdóttir
Ljósameistari: Siguvald Ívar Helgason
Leikmynd og leikstjórn: Marsibil G. Kristjánsdóttir

Sumarfrí

Ég held að heilinn á mér sé enn í sumarfríi. Í gærmorgun tók ég eftir öri eftir nýlegt sár á kinninni á mér – ég mundi eftir sárinu, það er varla nema tveggja-þriggja vikna gamalt, en ég mundi ekkert hvar ég hefði fengið það. Af hverju var ég með sár á kinninni? Ekki var þetta uppklórað skordýrabit? Hafði ég dottið? Rekið mig í hillu? Einhvern veginn klaufað eldhúshníf upp í andlitið á mér (ekki að ég hafi eldað mikið í sumarfríinu)? Þetta olli mér „talsverðum heilabrotum“ einsog maður segir – hvað sem það nú þýðir, heilabrot – ég sem sagt hugsaði um þetta og var farinn að hafa alvarlegar áhyggjur af heilsu minni (sérstaklega eftir að ég ætlaði að taka íbúfen við höfuðverk og mundi ekki hvort ég hefði fengið mér íbúfen eða hvort ég hefði bara fengið mér vatnsglas og gleymt íbúfeninu – ég fékk mér allavega aðra nema það hafi verið fyrsta). Síðan kom kvöld. Og þ´á mundi ég hvað hafði gerst. Ég skar mig við rakstur. Er það ekki svolítið einsog að uppgötva eftir langa rannsókn að það var brytinn sem framdi glæpinn? Hefði það, altso, ekki átt að blasa við? Sár í andliti karlmanns = rakstur? Ég er að vísu ekki vanur að skera mig við rakstur en ég keypti einhvern plastpoka fullan af einnota rakhnífum í Coop Konsum í Rejmyre, Östra Götaland (mitt á milli Finspång og Norrköping) og þeir voru bara alls ekki brúklegir miðað við þá lúxushnífa sem ég á að venjast. Og því fór sem fór. Ráðgátan leyst.

***

700 síður búnar í Books of Jacob. Einu sinni skrifaði ég alltaf jafn ´óðum um þær bækur sem ég var að lesa en var skammaður fyrir að vera að skrifa um bækur sem ég væri ekki búinn að lesa – þótt ég væri bara að skrifa um þær síður sem ég væri þá búinn með. Það eru enn 300 blaðsíður eftir af Books of Jacob og um þær get ég ekki tjáð mig, eðli málsins samkvæmt.

Ég veit ekki hvort ég á neitt að vera að leggja mat á hvað mér „finnst“ – enn sem komið er – það kemur í ljós bara á næstu mánuðum og árum. Þegar rykið sest. Þetta er augljóslega stórvirki og miklu „módernískari“ bók en ég átti von á eftir Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu. Einsog margar – flestar? – svona langar bækur er hún að reyna að vera einhvern veginn komplett og alltumlykjandi, ná utan um bæði augnablikin og aldirnar.

Hún fjallar einsog áður segir um spámanninn/messíasinn Jakob Frank – sem var til – og hana má augljóslega lesa frá mörgum sjónarhornum en eitt sem blasir við mér er að spegla hana í guðspjöllunum. Sem eru auðvitað líka módernísk, á sinn hátt – ef við tökum þeim sem einu verki – þar sem sama sagan er sögð fjórum sinnum með tilbrigðum, en á þveröfugan hátt við Jakobsbækurnar. Hvert guðspjall er frekar stutt og lítið dvalið við hversdagslega hluti heldur vaðið milli kraftaverka, dæmisagna og sögulegra stórviðburða. Jakobsbækurnar eru fimm og þær sem ég hef komist í gegnum fjalla allar um sögulegan tíma ´Jakobs Frank – þótt ég þykist vita að bókin fari nær okkur í tíma í restina.

Saga Jakobs er í grunninn bara saga hvers messíasar – stundum finnst manni hann vera djúpvitur frelsari, jafnvel kraftaverkamaður, og stundum kynóður megalóman og stundum allt í senn – fólkið í kringum hann er ýmist blindað af trú á hann eða í baráttu við efann; þeir sem fjær standa óttast hann eða eru forvitnir. Hann safnar um sig lærisveinum og endar ofsóttur. Þar sem ég er staddur í bókinni er búið að fangelsa hann og lýsa því formlega yfir í dómi að það verði að „eilífu og þeirri ákvörðun aldrei snúið“. Ég þekki ekki sögu Franks nema úr þessari bók og veit ekki hvort hann verður drepinn eða honum sleppt eða hvað. Ég veit það samt af reynslunni að það þarf ekkert mjög margt að gerast á þessum 300 síðum sem eru eftir – en samt allt!

Sjónarhornið er á sinn hátt alsjáandi án þess að vera alviturt – sögumaður er öldruð kona sem liggur fyrir dauðanum og öðlast alsjón – hún svífur beinlínis yfir sögusviðinu. Við fáum litla innsýn í hugarheima fólks nema það sem maður gæti giskað sig upp á út frá svipbrigðum og málrómi og þvíumlöguðu. Hins vegar leitar þessi alsjón uppi allt sem gæti nokkru máli skipti – fer um í tíma og rúmi, alls lags aukapersónur detta inn og út úr fókus, rýmum og hlutum og náttúru og veðri og göngulagi og fatnaði og svo framvegis er lýst í smáatriðum, guðfræðilegar og fagurfræðilegar og heimspekilegar deilur eiga sér stað í samræðum og bréfum. Engar endurtekningar, sem sagt, og í stað þess að söguþráðurinn birtist manni á þrjátíu síðum á hröðu tempói – einsog í þeim guðspjöllum sem maður á að venjast – er hann á þúsund síðum.

Það er mjög hægt.

***

Danirnir koma til mín á morgun. Ég hef ekkert lesið neina danska bók einsog ég ætlaði að gera. Kíkti aðeins á danska duolingo og ætli ég lesi ekki fréttirnar í kvöld á dönsku vefmiðlunum. Og svo bjarga ég mér ábyggilega á sænsku með dönskum hreim og les eitthvað fyrir þá úr þýðingum Nönnu Kalkar.

Það rifjast upp fyrir mér að Melli vinur minn sagði á sínum tíma að það væri ekkert mál að tala sænsku – maður talaði bara dönsku og gerði svona skrítin hljóð á eftir, hann hermdi þau bara – å o å o – svona einsog maður gæti ímyndað sér að selur myndi breima, kannski. En fyrsta setningin sem duolingo kenndi mér á dönsku eftir stöðupróf var „Svenskeren kan ikke førstå danskeren når de taler sammen“.

Ég hef einu sinni talað sænsku í sjónvarpsviðtali í Danmörku. Það gekk alveg en ég veit auðvitað ekkert hvort sjónvarpsáhorfendur skildu mig (það er líka alltílagi þótt fólk skilji ekki alveg rithöfunda). Mestar áhyggjur hef ég haft af fordómum dana og svía gagnvart hvor öðrum – það fylgir því ákveðinn farangur ef danir telja mann sænskan (eða hliðhollan svíum) og öfugt. Að vísu var mér sagt í vor að menningarsvíar væru að verða mjög danskir og menningardanir að verða mjög sænskir – og ef maður veit ekki hvað það þýðir væri kannski gott að rifja upp debattinn í kringum danska höfundinn Yahya Hassan, sem orti fjálglega um ofbeldi í innflytjendasamfélögum og lýsti föður sínum sem „loðnum apa“, og var skammaður fyrir af svíum með áþekkan bakgrunn sem sögðu hann beinlínis vera að hlaða byssur rasistana fyrir þá. Og hafi danir verið beinskeyttir en svíar viðkvæmir hefur það þá snúist við – er mér sagt og sel ekki dýrara en ég keypti það.

***

Ég hef annars veitt því athygli að ég hef ákveðna tilhneigingu síðustu misserin til þess að forðast pólitískar yfirlýsingar. Sennilega er það bara innbyggður mótþrói gagnvart ofsanum sem umlykur mann alla daga – frá Gaza til Washington inn á Alþingi og upp í Bolholt. Ég er orðinn mjög þreyttur á froðufellandi jarðýtum. Ég er líka orðinn furðu mikill both-sider í samræðu – finnst ekki þægilegt að tala í alhæfingum eða of mikilli vissu og hvað þá kraftmikilli hneykslan. Sérstaklega ekki um litlu málin. Þegar kemur að stóru málunum – Gaza er stærst – fyllist ég bara vonleysi og líður einsog húðin ætli að leka utan af mér og ég sökkva ofan í jörðina. Ég man eftir að hafa lesið sannfærandi rök Amosar Oz um að Evrópumenn – sem hefðu barist á banaspjótum árhundruðum saman, í átökum sem hefðu endað með seinni heimsstyrjöldinni – ættu lítið með að lýsa því yfir að það væri „ómögulegt“ að sjá fyrir sér endalok átakanna í Palestínu. En ég er samt svolítið þar. Ég hef ekki ímyndunarafl í að sjá fyrir mér neinn frið eftir atburði síðustu tveggja ára.

Sósíalismi í einu húsfélagi

Stundum hvarflar að manni að valdið í heiminum – eða á Íslandi, Reykjavík, Ísafirði, í húsfélögum, stökum fjölskyldum – sé valdið vegna þess að það kann að skipuleggja sig. Og það segir sig eiginlega sjálft að skipulag virkar best með valdi – það er hægt að ræða hvert eigi að keyra bílnum en ef allir ætla að keyra hann í einu er ekki líklegt að vel fari. En svo ég haldi þessari vafasömu líkingu til streitu þá vill sá sem heldur í stýrið oft bara ráða þessu sjálfur (oft var það þannig sem hann valdist til að stýra í upphafi). Og ráða meiru. Keyra fleiri bíla á fleiri vegum. Fljúga bílunum til stjarnanna. Alveg sama þótt farþegana vanti bara að komast í skólann. Eða til læknis. Bíllinn skal til Mars. Það er framtíðin, segir metnaðarfullur bílstjórinn. Og þá verður að gera byltingu. Sameinast í aftursætinu og skjóta bílstjórann. En bíllinn er á fullri ferð til Mars og nú erum við þrjú í aftursætinu að kljást við fjórða mann í farþegasætinu fram í – allir með eina hönd á stýrinu og aðra upp á móti hinum – rúðan er sprungin, allt í blóði alls staðar, við reynum að snúa við, komast í skólann og til læknis, helst bæði í einu, á meðan bíllinn brennur upp á leiðinni inn í lofthjúpinn aftur.

Er þetta góður tími til að vera sósíalisti? Það er allavega umbreytingarskeið. Ef mann langaði að verða sósíalistaleiðtogi væri kannski ráð að grípa til aðgerða núna. Fylgið vantar heimili. VG er í molum. Sósíalistaflokkurinn varla nema mylsna. Héðan af væri sennilega mestur missir af Samstöðinni – hún er mikill afbragðsfjölmiðill, ekki síst þessi löngu og ítarlegu viðtöl við alls konar fólk, og væri synd ef hún breyttist í málfundafélag skinhelgra sósíalista eða eitthvað þaðan af verra. Ég er ekki sannfærður um að VG eigi eftir neina upprisu – þótt það sé ekki útilokað – en yrði enn meira hissa ef Sósíalistaflokkurinn nær sér eftir þetta epíska rugl síðustu vikna, og skiptir þá litlu hver „vinnur“ þessar húsfélagsþrætur núna.

***

Sumarfríið er að verða búið. Við Aram höldum heim á föstudag. Ég er varla nema rétt rúmlega hálfnaður með sumarfrísbókina – 500 síður búnar af Books of Jacob en 500 enn eftir. Keypti að vísu líka Ulysses þýðingu Eriks Andersson, sem ég hef heyrt mjög vel af látið, og byrjaði að glugga í Násikukaflann, sem er næstur á dagskrá, og endaði á að klára hann bara. Var bara furðu þjált. Sinni þessu betur í næstu viku. Nema það verði mjög gott málningarveður – þá fer kannski allur frítíminn í það. Svo ætlaði ég reyndar að lesa líka eitthvað á dönsku til að hreyfa við dönskuhluta heilans í mér áður en ég hitti nokkra danska menningartúrista á Ísafirði – annars tala ég bara sænsku. Og ég á víst enn 500 síður eftir af Tokarczuk. Og er að æfa fyrir maraþon. Heima bíður mín kontrabassi sem vill að ég spili á sig. Það er enginn tími, verður enginn tími, en það verður gaman.

Allt er synd

The further north you go, the more people concentrate on themselves, and in some sort of northern madness (no doubt due to the lack of sun) they ascribe themselves too much. They make themselves responsible for their actions. Fatum is punctured by raindrops, then farther on, snowflakes making a final incursion, and soon it disappears altogether. What remains is the conviction that destroyes every person, supported by the Ruler of the North, the Church, and its ubiquitous functionaries, that all evil is in man yet can’t be fixed by man. It can only be forgiven. But can it be forgiven? Hence comes that tiring, destructive feeling that one is always guilty, from birth, that one is stuck in sin and that everything is sin – doing something, not doing it, love, hate, words, and even thoughts. Knowledge is a sin, and ignorance is a sin.

Ég held ég hafi aldrei lesið greinarbetri lýsingu á norrænu hugarfari en þessa, sem kemur úr The Books of Jacob eftir Olgu Tokarczuk í þýðingu Jennifer Croft. Hún nær einhvern veginn utan um þessa undarlegu blöndu af botnlausri sjálfhverfu og umhyggju fyrir heiminum – og útskýrir hvernig sjálfhverfan verður að umhyggju og umhyggjan að sjálfhverfu og allt saman verður alltaf á endanum að samviskubiti, einmitt af því við sjáum okkur sjálf sem trónandi fólk, blöndu af yfirmennum og hálfgerðum skyldufyrirmyndum. Við fyrirgefum í orði kveðnu en í raun fyrirgefum við aldrei neitt og allra síst okkur sjálfum. Á norðurlöndum sjá sig allir í Atlas – sem er óforskammað mikilmennskubrjálæði – og fullyrðinguna „allir eiga að skipta máli“ má alltaf sjóða niður í: „Ég á að skipta máli“ eða „Ég skipti máli“ og jafnvel „Ég skipti víst máli!“. Og ekkert gæti verið verra fyrir hinn norræna mann en að skipta ekki máli.

Ég er kominn fjórðung inn í þennan þúsundblaðsíðna hnullung um 18. aldar spámanninn Jakob – sem er kannski Messías – og hafi manni ekki þótt skrítið fyrir að Tokarczuk hafi hlotið nóbelinn við lestur annarra bóka hennar þá finnst manni það enn minna skrítið þegar maður stendur í miðju svona verki. Stærðin er einhvern veginn ógurleg. Maður stendur uppi á fjalli í norður Póllandi og sér niður að Bosporussundi, ef ekki lengra. Og sannarlega er ég oft villtur. En samt ratar ég einhvern veginn áfram. Þetta er að mörgu leyti trúarheimspekileg bók – og andleg slík, ekki jafn greinandi og hún er trúandi og þreifandi. En hún átti að vera hvíld frá Ulysses – sumarfríslesturinn – og er nú eiginlega ekki mikill hvíldarlestur. Næst tek ég bara með mér Andrés.

Og nei, hún fjallar nú ekki mikið um „hinn norræna mann“. Minna en til dæmis Andrés.

***

Ég er í sænskri sveit. Gulu viðvaranirnar eltu mig hingað. Það eru þrumur og eldingar og stefnir í ógurlega rigningu innan skamms. Búið að taka öll tæki á heimilinu úr sambandi. Allir með svona loftþrýstingshausverk sem mér skilst að hafi verið vísindalega afsannaður en það eru allir með hann samt. Þetta er áreiðanlega einhvern veginn mér að kenna. Bæði veðrið og hausverkurinn og gula viðvörunin.