
Söguþráðurinn í Násikukafla Joyce er áreiðanlega einn sá einfaldasti af kaflaþráðum Joyce. Hann skiptist í tvo hluta – sem Joyce kallaði „bólgu“ og „hjöðnun“ (e. tumescence og detumescence). Í þeim fyrri er sjónarhornið hjá Gerty MacDowell, ungri konu sem er komin á Sandymount Strand – þar sem Stephen velti vöngum um „the inulectable modility of the visible“ í Próteusi – ásamt tveimur vinkonum sínum, Cissy og Edy, sem eru með tvo róstursama drengi í pössun (tvíbura, yngri bræður Cissyar) og ungabarn í kerru.
Gerty situr afsíðis og nýtur sólarlagsins meðan hinar sinna börnunum. Þá tekur hún eftir því að nálægur karlmaður er farinn að sýna henni athygli – stara – og æsist hún mjög af áhuga hans. Hún veltir fyrir sér hver hann gæti verið á sama tíma og hún rifjar upp ástarsorgina sem hún er í – hún er ástfangin af „drengnum á reiðhjólinu“, Reggy Wylie, en þau geta ekki átt hvort annað því hann er mótmælandi en hún kaþólikki. Maðurinn sem starir á Gerty er augljóslega byrjaður að rúnka sér undir fötunum og Gerty hagræðir sér svo hann sjái betur upp pilsið hennar.
Á einhverjum tímapunkti missa tvíburarnir – sem hafa rifist af ofsa og frekju – frá sér bolta sem maðurinn reynir að sparka til baka en drífur ekki upp brekkuna, og á öðrum tímapunkti fer Cissy til hans til þess að forvitnast hvort hann viti hvað klukkan sé, en klukkan hans reynist hafa stoppað. Hann giskar að hún sé eitthvað yfir átta. Niðri í bæ hefst flugeldasýning og stúlkurnar með börnin vilja gjarnan færa sig upp ströndina til þess að sjá betur en Gerty segist sjá ágætlega þar sem hún situr – og vill ekki færa sig úr sjónmáli mannsins, hún er sjálf til sýnis, notar tækifærið til þess að bera fótleggina almennilega, með þessum afleiðingum:
And she saw a long Roman candle going up over the trees, up, up, and, in the tense hush, they were all breathless with excitement as it went higher and higher and she had to lean back more and more to look up after it, high, high, almost out of sight, and her face was suffused with a divine, an entrancing blush from straining back and he could see her other things too, nainsook knickers, the fabric that caresses the skin, better than those other pettiwidth, the green, four and eleven, on account of being white and she let him and she saw that he saw and then it went so high it went out of sight a moment and she was trembling in every limb from being bent so far back that he had a full view high up above her knee where no-one ever not even on the swing or wading and she wasn’t ashamed and he wasn’t either to look in that immodest way like that because he couldn’t resist the sight of the wondrous revealment half offered like those skirtdancers behaving so immodest before gentlemen looking and he kept on looking, looking. She would fain have cried to him chokingly, held out her snowy slender arms to him to come, to feel his lips laid on her white brow, the cry of a young girl’s love, a little strangled cry, wrung from her, that cry that has rung through the ages. And then a rocket sprang and bang shot blind blank and O! then the Roman candle burst and it was like a sigh of O! and everyone cried O! O! in raptures and it gushed out of it a stream of rain gold hair threads and they shed and ah! they were all greeny dewy stars falling with golden, O so lovely, O, soft, sweet, soft!
Then all melted away dewily in the grey air: all was silent. Ah! She glanced at him as she bent forward quickly, a pathetic little glance of piteous protest, of shy reproach under which he coloured like a girl. He was leaning back against the rock behind. Leopold Bloom (for it is he) stands silent, with bowed head before those young guileless eyes. What a brute he had been!
Hefst þá seinnihluti kaflans, þar sem fókusinn er aftur hjá Bloom – og í fyrsta skipti af einhverju viti frá því í Lestrýgónum (þegar Bloom leitar sér að einhverju að éta – gorgonzola samloku með búrgúndarvíni – Bloom er mikið í frumlöngununum). Í Kýklópakaflanum er það auðvitað nafnleysinginn sem hefur orðið og við lok hans er Bloom á flótta undan Borgaranum – æstum rasista. Síðan þá hafa þeir Martin Cunningham farið og hitt ekkju Dignams til þess að ræða líftrygginguna og afkomu fjölskyldunnar, en Bloom er nú aftur einn. Hann fer úr lífsháska í dauðasorg og er mættur hingað í lostann.
Þessi Bloomshluti er líka ólíkur öðrum Bloomshlutum í því að það gerist eiginlega ekki neitt – venjulega er Bloom á þeytingi, að sinna einhverju erindi, selja auglýsingu, útbúa morgunverð, kaupa sápu, en hér situr hann bara á ströndinni og lætur hugann reika. Það er að segja, að afloknu hinu kynferðislega erindi.
Og um hvað hugsar hann? Hann hugsar auðvitað um Gerty – íhugar dreyminn hvort hún geti verið konan á bakvið pennavinkonunafnið „Mörthu Clifford“. Hann hagræðir fötunum eitthvað til þess að afgreiða subbuskapinn innanklæða. En það fyrsta sem gerist er reyndar að hann horfir á Gerty ganga í burtu og sér að hún er hölt – sem honum finnst ægilegt en þakkar fyrir að hafa ekki vitað það „á meðan“. Hann hugsar um hvernig hann líti sjálfur út – þakkar fyrir að hafa snúið framhliðinni að Gerty (annað hvort af því hann sé ljótur í prófíl eða af því þá hefði hún hugsanlega séð á nefinu að hann væri af gyðingaættum). Hugsar um tíðir kvenna og falska vinsemd þeirra hverja við aðra. Hann hugsar um skordýr og minnist þess að hafa verið illa stunginn af býflugu. Hann hugsar um dóttur sína og manninn sem hún er að gera sér dælt við. Um Minu Purefoy sem er á fæðingardeildinni og ákveður að líta þar við. Hvort hann eigi að skrifa sögu í Tit Bits (einsog hann íhugaði í Kalypsó). Hann hugsar um söngferðalag Mollýar með Boylan. Hann finnur blaðsnifsi en getur ekki ráðið í skriftina. Og hann byrjar að skrifa skilaboð til Gertyar í sandinn með priki – ef hún skyldi koma aftur – en klárar þau ekki, kemst ekki lengra en: I AM A. En það er ekkert pláss til að halda áfram (á ströndinni?) svo hann svarar aldrei spurningunni, segir okkur aldrei hvað hann sé.
Inn á milli allan kaflann höfum við séð og heyrt í góðtemplaramessu í kirkju st. Mary’s Star of the Sea. Góðtemplaramessur munu hafa verið eitthvað mitt á milli venjulegrar messu og AA-fundar. Í lokin kemur kafli þar sem við heyrum í gauksklukkunni í prestshúsinu – fyrst rétt eftir að Bloom hefur séð leðurblöku.
Cuckoo
Cuckoo
Cuckoo
Næst kemur stutt lýsing á prestunum sem sitja yfir kótelettunum sínum og tala um
Cuckoo
Cuckoo
Cuckoo
Og loks á litlum kanarífugli sem hafi komið út úr húsi sínu til þess að tilkynna Gerty MacDowell hvað tímanum liði og að maðurinn sem sæti þarna væri augljóslega
Cuckoo
Cuckoo
Cuckoo
Og lýkur þar kaflanum.
Þetta var reyndar meiri söguþráður en mig minnti þegar ég byrjaði að rifja hann upp.
Hér úir og grúir af öskjum til að opna, einsog þeir segja í ameríku. Táknin, sérstaklega í Gertyarhluta, bjóða upp á augljóst samhengi (sem getur verið villandi) og textinn er frekar beint áfram – stíllinn er létt kitsaður ástarsögutexti, án þess þó að vera háð, og næstum allt sem gerist er einhvers konar athugasemd um „stöðu konunnar“ og „feðraveldið“. Gerty er kona sem fær ekki notið síns heittelskaða vegna samfélagslegra regla; sjónarhornið er hjá henni en púðrið fer mikið í að lýsa henni sjálfri, hárinu, húðinni og svo framvegis – hún er kona til sýnis, en hún er það ekki bara fyrir aðra, hún nýtur þess sjálf og þessi pilsgjörningur sem hún fremur fyrir Bloom virðist mjög „valdeflandi“. Þegar hún heyrir í messunni fáum við að heyra af því hvað pabbi hennar mikill alki og hvað hún þarf að sinna honum mikið. Vinkonur hennar eru mestmegnis að snúast í kringum tvo strákasna sem eru alveg eins – tvíburar – og að drepast úr frekju og fyrirferð, auk barnsins sem þær þagga niðri með því að leyfa því að sjúga tóman pela (sem er v´íst ekki sniðugt). Konurnar eru sem sagt allar í umönnun á meðan þær eru ekki í erótík. Það eru valkostirnir sem þeim bjóðast.
Bloom, sem rúnkar sér undir buxunum, er óforskammaður – ekki bara á meðan, það er alveg ljóst eftir losun að hann skammast sín ekkert, honum líður bara betur – en hann er líka getulaus. Ekki ætla ég að mæla því bót að menn dragi hann út þegar þeir rúnka sér fyrir framan fólk á ströndum úti en það er samt eitthvað enn getulausara við að gera það innanklæða. En auk þess ræður hann ekki við að sparka boltanum til baka og veit ekki hvað tímanum líður – það kemur í ljós að klukkan stoppaði akkúrat klukkan hálffimm, og hann hugsar að það sé kannski einmitt augnablikið sem hann var kokkkálaður af Boylan („cuckoo, cuckoo, cuckoo“).
Þá er ótalin góðtemplaramessan – ég held að manni sé óhætt að reikna með því að slík samkoma, 1904, hafi fyrst og fremst verið skipuð karlmönnum, og í þessu tilviki uppgjafabyttum og prestum, í kirkju hinnar helgu jómfrúar, sem stendur vörð um endurreisn þeirra.
Str´uktúr kaflans er dæmigerður samfarastrúktur. Hann hefst á áhuga sem fer stigvaxandi, verður að þreifingum sem ná hápunkti sínum í flugeldasýningu og leysist síðan upp í þreytulegt kæruleysi – sem er yfirleitt skautað yfir í bókum og bíó, eftirleikurinn er jafn óaðskiljanlegur hluti kynlífs og forleikurinn.
Eitt af því sem er gjarnan tekið upp þegar Násikukaflinn er annars vegar er hvort sjónarhorn Gertyar sé ímyndun Blooms og kaflinn allur í höfðinu á honum eða hvort það séu skipti – hugsanir Gertyar séu hennar eigin og svo taki hugsanir Blooms við. Ég held mér hafi einhvern tíma þ´ótt það áhugaverð pæling en hún nær mér ekki núna, hvorki til að hafna henni né halda með.
Gertyarhluti er kannski líka áhugaverðari ef við gröfum ekki þetta aukalag undan honum heldur leyfum henni að vera „konan sem lætur aðra sjá sig“ og „konan sem sér sig séða“. Ég kaupi það kannski heldur ekki að Bloom væri fær um að sjá það feminíska meta-level, þrátt fyrir sína ýmsu kosti, né heldur að honum væri neinn sérstakur akkur í því að firra sig þannig eigin glápandi greddu – honum þætti held ég alltílagi að glápa bara og hugsa „hold, hold, hold“ – auk þess sem fantasíur hans reynast síðar vera af grófara tagi en hér eru bornar á borð. Gerty sér þetta allt í rósrauðu ljósi – hún er ung og í ástarsorg og hana langar meira að vera erótísk viðfang eldri manns en umönnunaraðili frekra krakka, einsog vinkonur hennar, eða einsog hún þarf sjálf að vera heima hjá sér gagnvart áfengissjúkum föður.
Mér var einhvern tíma tjáð af manni sem þekkti til að á fundum hjá SLAA (Sex and Love Addicts Anonymous) að það væri nánast kómískt fyrirsjáanlegt að karlarnir þarna væru allir háðir tilfinningalausum ríðingum og konurnar með ástarfíkn. Mér varð oft hugsað til þeirra orða meðan ég las þennan kafla. Og kannski þess líka að þetta væru ekki endilega mjög fjarskyldar fíknir og það væri áreiðanlega góð og gild ástæða fyrir því að kynlífsfíklarnir og ástarfíklarnir væru allir í sama pottinum – þetta er birtingarmynd vöntunar, þar sem þörfin fyrir hlýju breytist í svarthol sem gleypir allt.
Þá er líka mikilvægt að halda því til haga að það er ekki bara Bloom sem er óforskammaður – þau eru bæði óforskömmuð, bæði þátttakendur þótt það sé Bloom sem svo að segja „bjóði upp í dans“ – fólk í kynferðislega þrúgandi samfélagi að öskra á erótíska björgun.
Bloom og Gerty eru að díla hvort við sinn pakkann. Hún er kaþólsk stúlka sem er föst heima, hjá ofbeldisfullri fyllibyttu sem hindrar hana í að giftast góðum manni – þær hvatir leita útrásar í almennri sýnihvöt (kona sem vill ganga út, komast af þessu heimili, þarf að sýna sig – kalla á athygli, laða að sér bjargvætt) sem fær hér útrás gagnvart eldri manni (föðurfígúru) sem vill horfa á hana. Bloom er kokkkálaður maður sem getur ekki sofið hjá konu sinni sökum kvíða – eftir dauða sonar þeirra – en daðrar við að gera einsog hún og stunda framhjáhald sjálfur en kemst aldrei lengra en að skrifa dónabréf til ókunnra kvenna og fróa sér undir fötunum á ströndinni.
Násika hjá Hómer er dóttir Alkinóusar konungs. Ódysseifur hefur strandað á Skerju, heimili þeirra, og heldur til skógar. Násika og þernur hennar koma á ströndina til þess að þvo föt í ánni. Meðan þvotturinn hangir til þerris leika þær knattleik – þegar knötturinn fer í ána við djúpan hyl æpa þernurnar upp yfir sig. Ódysseifur heyrir í þeim. Hann er nakinn en brýtur grein og hylur „skapnað sinn“ með henni og arkar út úr skógarþykkninu. Vinkonurnar hræðast og hlaupa í burtu en Aþena (sem stendur á bakvið þetta allt) hefur fjarlægt óttann úr brjósti hennar svo hún bíður kyrr og róleg. Ódysseifur íhugar að standa bara álengdar og biðja hana um hjálp eða hvort hann eigi heldur að grípa um hné hennar – og afræður að standa álengdar þar sem hann heldur mikla ræðu, dásamar Násiku og segist óttast að taka um hné hennar, biður um fæði og klæði. Segir Násika hann augljóslega hvorki vera „ógöfugan“ né „heimskan“ og býður honum aðstoð sína og fer með hann til hallar föður síns.
Megnið af ævintýrum Ódysseifs eru endursögn sem á sér stað í þeirri höll – þegar Ódysseifur segir Alkinóusi af ferðum sínum. Þó ekki væri annað staðsetur það Násikukafla Joyce nálægt tilfinningalegri miðju verksins – og kannski er það hér sem við sjáum þá best saman, óafsakanlega perra-Bloom og ljúfa, saklausa Bloom, manninn frá toppi til táar í ódulinni og gallaðri fegurð sinni.
Ýmislegt annað speglast hérna. Knattleikurinn auðvitað og knötturinn sem fer annað en hann á að fara. Að Bloom (og Gerty) standi álengdar en nálgist ekki. Að vinkonurnar færi sig fjær. Nektin – þótt það sé karlinn sem reyni að hylja sig hjá Hómer, en konan sem reynir að sýna sig hjá Joyce. Ég veit ekki hvort Bloom er strand á þessari strönd – þetta er heimili hans þótt hann þurfi að standa á því fastar en fótunum við suma (einsog Borgarann í síðasta kafla).
Hvað sem því líður er deginum lokið og nóttin að taka við. En það er ennþá heilmikið eftir af bókinni.
* * *
Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar.
Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.
* * *
Yfirferðin 2025:
Ulysses: Lestrardagbók, 1. hluti (Telemakkos, Nestor og Próteus á hundavaði – verður gert betur síðar).
Skylla og Karybdís: Je est une autre
Sírenur, væl og reykur: Dyflinni syngur
Auga sjáandans: Þjóðremba og heift
* * *
Eldri bloggfærslur um Ulysses: