
Mark me now. In woman’s womb word is made flesh but in the spirit of the maker all flesh that passes becomes the word that shall not pass away. This is the postcreation.
Stephen Dedalus í Oxen of the Sun
Oxen of the Sun er sá kafli Ulysses sem almennt er álitinn erfiðastur aflestrar. Hann gerist á ellefta tímanum þennan sögufræga dag – 16. júní, 1904 – á fæðingarheimilinu við Holles stræti. Í Hómerskviðu koma Ódysseifur og menn hans að eyju sólguðsins Helíosar, Þrínaksey, sem mér er sagt að sé sama og Sikiley. Kirka og Tíresius hafa þá bæði varað Ódysseif við því að eiga nokkuð við búpeninginn á eyjunni, sama hversu mikil svengd sæki að þeim, og alls ekki uxana, sem séu helg frjósemistákn. Best sé raunar að forðast eyjuna með öllu. Þeir enda nú þar samt og Ódysseifur tekur orð af sínum mönnum að þeir láti skepnurnar í friði áður en hann fer sjálfur í leiðangur lengra upp á land og sofnar þar. Ef það er einhver regla í svona mýtólógískum skáldskap ófrávíkjanlegri en allar hinar ófrávíkjanlegu reglurnar þá er það reglan um að sé búið að vara við einhverju verði það augljóslega að eiga sér stað. Mennirnir éta uxana – saurga frjósemistáknin. Ódysseifur vaknar, kemur aftur, trompast, þeir reyna að flýja en Seifur skellir í svo hressilega brælu, þrumur og eldingar, að Ódysseifur kemst einn lífs af, líkt og Kirka hefur spáð fyrir um. En hún sagði líka, sem rætist, að verði nautin ekki látin í friði verði heimför hans erfið og tímafrek. Hómer rekur næst á land hjá Kalypsó sem heldur honum föngnum í sjö ár.
Af og til í gegnum söguna hingað til höfum við fengið fréttir af Minu Purefoy sem er á fæðingarheimilinu að eiga sitt tólfta barn og hefur verið ´i hríðum í þrjá sólarhringa. Hún er fjölskylduvinur Bloom hjónanna og þangað hefur Leopold Bloom ákveðið að halda til þess að líta til með henni – þótt það sé hvergi sagt berum orðum má samt geta sér þess til að hann sé nú aðallega að fara þangað af því hann kvíðir því að fara heim (þar sem Molly hefur nýlega legið með Blazes Boylan). Þegar þangað kemur hittir hann fyrst hjúkrunarkonu, fyrrum nágranna sinn, sem heitir Callan. Hún segir honum að fæðing frú Purefoy sé að reynast sú allra erfiðasta sem hún hefur orðið vitni að. Þá kemur líka fram að kunningi þeirra, læknir einn, hafi látist úr magakrabba (bókstaflega „bellycrab“), að síðast þegar þau Bloom hafi hist hafi Bloom láðst að heilsa og að á biðstofunni sé talsvert af mönnum við skál. Þar reynast vera komnir þeir Stephen Dedalus og Lenehan auk hóps læknanema, Dixon, Madden, Lynch, Crotthers og Punch Costello. Buck Mulligan mun vera á leiðinni.
Nú spyr maður sig hvers vegna menn séu á fylleríi á fæðingarheimili. Svarið er auðvitað: af því það er bannað. Af því það er jafn bannað og að borða helga uxa. Stephen, Lenehan og læknanemarnir eru þarna til þess að saurga helgi frjóseminnar. Og tekst það ágætlega – þeir eru orðnir vel við skál og hafa enda drukkið lengi, þegar hér er komið sögu, og eru þess utan síns tíma Írar, yfirlýsingaglaðir og hrokafullir og erfiðir og oft mjög skemmtilegir líka. Bloom hins vegar, einsog sá vitri Odysseifur sem hann er, laumar alltaf bjórnum sem honum er skenkt yfir í næsta glas.
Megnið af kaflanum er síðan lýsing á samræðum þessara manna, þar sem margt ber á góma en ekki síst frjósemismál – getnaðarvarnir og siðferðisspurningar tengdar barnsfæðingum, einsog hvort eigi að bjarga móður eða barni ef ekki er hægt að bjarga báðum (reglan í kaþólsku Írlandi er að bjarga barninu en piltarnir eru sammála um að það sé rangt og heldur ætti að bjarga móður), um vanhelgun lífsins með sóun sæðis (sjálfsfróun, kippingum eða öðru), hvernig megi uppfylla jörðina (Buck býðst til þess að setja á fót sérstaka stofnun sem hafi þann eina tilgang að styðja hann í að sæða konur). Og svo framvegis.
Ekkert af þessu gerir kaflann sérstaklega erfiðan. Það er annað. Honum er skipt upp í þrjátíuogtvo paródíska þætti – í níu skeiðum – sem hver hefur sinn eigin stíl – og er ferðast í gegnum tímann úr rómverskum bænaköllum í gegnum enska bókmenntasögu fram til Ulysses og leysist svo upp í kaotískt fylleríssröfl. Þessir þættir eru miserfiðir aflestrar en allir snúnir. Sá fyrsti er bara stutt kall: Deshil Holles Eamus – í þrígang. Fyrsta orðið er úr gelísku, annað úr ensku og þriðja latínu – höldum nú réttleiðis á Holles (fæðingarheimilið). Þá kemur aftur þríkall – ákall til fæðingarlæknisins (sem heitir Horne): Send us bright one, light one, Horhorne, quickening and wombfruit. Og loks þriðja þríkallið – svo kallað „gender reveal“ eða kynjaveisla: Hoopsa, boyaboy, hoopsa.
Þar á eftir taka við tveir kaflar sem mér skilst á mér fróðari mönnum að beri þess merki að hafa verið samdir á latínu og svo hráþýddir á ensku án tillits til beyginga – svona lékum við okkur stundum með þegar fyrstu þýðingarvélarnar voru að birtast upp úr aldamótum, að afmynda texta með því að færa hann vélrænt frá einu tungumáli yfir á annað. Það er ekki hlaupið að því að fá merkingu í þessar tvær löngu málsgreinar en innihaldið er eitthvað á þá leið að vísindin séu stórfengleg og ekki síst gelísk vísindi og þau auðgi þjóðlífið og fæðingar séu frábærar og vísindin hafi gert þær auðveldari og standi vörð um lífið. Áfram Írland, áfram vísindi, áfram barneignir.
Á þriðju síðu birtist okkur svo skiljanlegri texti en svolítið ofstuðlaður – „Before born babe bliss had“ og fljótlega sjálfur Bloom:
Some man that wayfaring was stood by housedoor at night’s oncoming. Of Israel’s folk was that man that on earth wandering far had fared. Stark ruth of man his errand that him lone led till that house.
Þetta mun vera í anda enska rithöfundarins Elfríks frá 11. öld. Þessi stíll fylgir okkur í gegnum fundinn við Callan hjúkrunarkonu sem er nefndur hér að ofan. Þá er skipt yfir í miðensku (middle english) og svo ferðasögustíl miðalda, artúrskan ævintýrastíl, sagnakrónikustíl Elísabetartímans, miltónsku, Bunyan, 17. aldar dagbókarstíl, Defoe og Swift og svo gamlan dagblaðastíl – og svo framvegis, de Quincy og Dickens, Edmund Burke, Charles Lamb og fleiri koma við sögu sem stílfyrirmyndir. Hverjum nýjum stíl fylgja ekki bara ný orð, orðaröð og myndmál heldur sveiflast raunveruleikinn líka til að einhverju leyti. Í miðenskunni verður spítalinn til dæmis kastali og læknanemarnir „learning knights“ (sem er hugtak sem SAM þýðir einfaldlega sem „knapi“ – Erik Anderson í nýlegri sænskri þýðingu hefur það „lärosven“) – og þegar Bloom og Dixon hittast rifjar Bloom upp þegar hann þurfti nýlega að leita sér aðstoðar við illvígri býflugnastungu, sem hefur komið fram áður. En af því þetta er þá í ferðasögustíl miðalda verður býflugnastungan að holundarsári eftir ægilegan dreka. Og þessi riddari lærdómsins, Dixon, reddaði honum sem sagt góðu smyrsli við drekastungum.
Mér finnst frekar erfitt að fara að telja upp allt sem kemur við sögu í kaflanum – ekki beinlínis vegna torlæsisins, ég er líka með handbækur sem þylja þetta allt upp, heldur vegna þess að ég veit ekki alveg hvaða tilgangi það myndi þjóna og það yrði fljótt jafn langt og kaflinn sjálfur. Oxen of the Sun er allur skrifaður af feykimikilli íþrótt – það er svona sem rithöfundar flexa í speglum, og ekkert flex hef ég lesið sem stenst samanburð við þetta – og hann er ekki leiðinlegur aflestrar þótt hann sé erfiður, eiginlega þveröfugt, ég er ekki viss um að hann væri mjög skemmtilegur ef hann væri ekki svona erfiður. Maður á í allt öðruvísi sambandi við erfiðan texta – eitt af því sem gerir hann erfiðan eru reyndar stílskiptin sjálf, maður týnir alltaf þræðinum strax og tónninn breytist (og oft án þess að átta sig á því að það er það sem hefur gerst). Það er einsog maður sé að reyna að túlka textann með verkfærum sem úreltust fyrir fimm setningum síðan. Svo setur maður sig í nýjar stellingar og byrjar aftur þar sem þráðurinn slitnaði.
En hvað er það sem verður að taka fram? Feðrunarþemað er ítrekað en verður líka mæðrunarþema þegar frelsarinn kemur til tals – því þótt María hafi augljóslega vitað að hún fæddi Jesú þá er mikilvægt að spyrja (segir Stephen) hvort hún hafi vitað að hann væri Kristur, af því ef hann er Kristur er hann líka hluti þríeins Guðs og þar með einnig skapari himins og jarðar og þar með hefur María afrekað að skapa það sem skapaði hana (Stephan sagði eitthvað svipað um Shakespeare, að hann væri „father of all his race“).
Talsverðu púðri er eytt í frjósemisumræður, uppáferðasögur og þvíumlíkt og misjafnt eftir stílnum hvar áherslan liggur því með stílunum birtist líka ákveðin dýnamík í siðferði. Sumum stílum fylgir grófur húmor en öðrum siðferðisleg viðkvæmni og harka – eða jafnvel svona helg viðkvæmni, að það megi ekki spilla sæði og svo framvegis. Þannig fylgir stílskiptunum rof sem hentar illa svona línulegri frásögn af kvöldsumbli – sögupersónur skipta um ham – en lýsa kannski díalektískum breytingum í hinni sögunni sem er verið að segja, sem er saga enskrar tungu fram á daga Joyce (og þar með saga þess sem skrifað er, sem hlýtur að markerast af því siðferði sem maður vill framfylgja).
En ég tek þetta líka a.m.k. hálfvegis til baka – kannski hentar þessi stílóróleiki líka ágætlega línulegu frásögninni – hún lýsir þá algerum og ístöðulausum rugludöllum vel við skál. Sem þeir eru.
Í hinu hómerska samhengi má halda því til haga að þótt Stephen og félögum sé hér uppstillt sem hinum bersyndugu og vanhelgandi meðreiðarsveinum Odysseifs og Bloom sem hinum vitra og heiðvirða manni, þá er okkar góði Bloom auðvitað nýbúinn að rúnka sér í buxurnar fyrir framan stálpaðan ungling (sjá síðasta kafla – Gerty er 18 ára, Bloom 38). En hann hagar sér vel á fæðingarheimilinu.
Þegar Buck Mulligan birtist hefur hann með með sér mann sem heitir Bannon. Sá fer strax að segja sögur af Milly (dóttur Bloom-hjónanna) og inn í þær blandast ráðleggingar um hvernig sé best að útvega sér verjur og það má ímynda sér af þeim að Bannon ætli sér eitthvað með Milly (hann veit – sennilega – ekki að Bloom er pabbi hennar eða að Milly er, einsog við vitum, að gera sér dælt við annan mann). Rudy, sonur þeirra hjóna, kemur líka við sögu þegar Bloom hugsar um jarðarför hans og sorg Mollyar. Ég held ég fari með rétt mál þegar ég segi að það sé lítið eða hreinlega ekkert um Blazes Boylan og Molly í þessum kafla. Sem er ekki einsdæmi en sjaldgæft í þeim köflum þar sem á annað borð er dvalið við hugsanir Blooms (í þessum kafla er samt ekkert vitundarflæði, þótt kaflinn sé kaotískur, og því kannski ekki sama aðgengi að dýpstu hugsunum Blooms eða annarra).
Fljótlega eftir að Callan hjúkrunarkona kemur og sækir Dixon og þeir fá að vita að frú Purefoy sé búin að eiga verður Bloom skyndilega mjög dómharður – sérstaklega í garð Punch Costello, en þær lýsingar gætu allt eins átt við hina, ekki síst Stephen (og kannski rímar þetta við áhyggjur Simons Dedalusar, eiginlegs föðurs Stephens, af félagsskapnum við Buck, sem sé að spilla Stephen). Svo kemur kafli þar sem Buck gerir stólpagrín að Haines (enska írlandsfetisjistanum sem býr hjá þeim í Martello-turni).
Listin kemur af og til upp – hér sjáum við skýrast aftur þann Stephen sem við þekkjum úr The Portrait of the Artist as a Young Man, ofsafengna hugsjónamanninn. Listin er öllu æðri – líkamleg frjósemi mannsins er bara til þess að viðhalda andlegri frjósemi hans. Hér verður manni hugsað til þess óþols sem sumir (sumar?) hafa fyrir því að listamenn eða rithöfundar noti fæðingar- og meðgöngulíkingar yfir sköpunarferli sitt – Stephen myndi kannski taka undir úr hinni áttinni, fæðingar og meðgöngur séu hreinlega ekki nógu merkilegar til samanburðar við það að skapa raunverulegt listaverk.
Stephen og Bloom byrja hér að draga sig saman og munu fylgjast að í næstu köflum, föðurlaus sonur og sonarlaus faðir verða andlegir feðgar, að minnsta kosti það sem eftir lifir nætur. Bloom rifjar upp að hafa séð Stephen í veislu þegar hann var 4-5 ára gamall og speglar hann í Rudy.
Þegar Bloom birtist í upphafi kaflans er þrumuveður í aðsigi. Þegar það svo brestur á – með miklum miðaldabravúr í textanum – verður Stephen dauðskelfdur og Bloom reynir að hughreysta hann, án árangurs. Það er vel að merkja vitað að Joyce óttaðist fátt einsog þrumuveður. Og þrumuveður er líka það sem grandaði mönnum Odysseifs.
Við lok kaflans hrópar Stephen að þeir skuli drífa sig á Burke’s – sem er pöbb (nema hvað). Þangað koma þeir (með Bloom með sér) tíu mínútum fyrir lokun, panta tvo umganga og er svo sparkað út. Það kemur ekki fram hvort þeir hafi náð að klára drykkina, tekið þá með sér eða hvort áfengið á fæðingarheimilinu hafi klárast en það gæti líka verið að þeir hafi farið á pöbbinn í makaleit – ungt fólk drekkur (eða drakk) gjarnan í „heimahúsi“ eins lengi og það kemst upp með, af því það er dýrt í samanburði að drekka á börum, og stímir svo á síðustu stundu beint í korter-í-þrjú stemninguna til þess að eiga í það minnsta örlítinn séns. Eitt sem styður þá kenningu mína að áfengið hafi runnið í klofið á ungviðinu er að það fyrsta sem þeir gera þegar búið er að henda þeim út á götu er að ákveða að halda í rauða hverfið. Nighttown. Þar gerist næsti kafli – Kirka – sem er laaaaaanglengsti kafli bókarinnar og ekki endilega auðlesinn heldur (en ef minnið bregst mér ekki er þetta eitthvað viðráðanlegra eftir það).
Ég man mjög vel þegar Leevi Lehto heitinn, vinur minn, var að þýða Oxen of the Sun á finnsku og reyna að útskýra fyrir mér hvað það væri hellað að ætla að þýða eitthvað á finnsku í stíl sem ætti að eiga sér samsvörun í t.d. 11. aldar ensku – og hvernig Leevi væri þess í stað að gera það eina sem honum fannst meika sens og láta söguna á bakvið söguna í finnsku þýðingunni snúast um sögu finnskrar tungu en ekki enskrar, og þýða þá „aðferðina“ sem slíka og leita dæma í gamalli finnsku, til þess að hafa til hliðsjónar í stað ensku dæmanna. Ég man ekki hvaða dæmi hann tók, þótt hann hafi sagt mér það, og gæti ekki flett því upp því ég kann ekki finnsku – en sá stóri munur er á ensku og finnsku að finnskt ritmál á sér enga eiginlega sögu fyrir 16. öld.
Til gamans er hér að lokum smá samanburður á frumtexta, þýðingu SAM og þýðingu Eriks Andersonar. Þetta er lýsing á sardínum í dós (sem eru þarna á borðinu hjá piltunum sem partínasl).
And there was a vat of silver that was moved by craft to open in the which lay strange fishes withouten heads though misbelieving men nie that this be possible thing without they see it natheless they are so. And these fishes lie in an oily water brought there from Portugal land because of the fatness that therein is like to the juices of the olivepress.
JJ
Og þar var skrín af silfri sem með töfrum opnað varð og í lágu fágætir fiskar hauslausir þósvo efunargjarnir menn neiti að trúa að orðið geti fyrren þeir eigin augum sjá að svo er því farið. Og fiskar þessir liggja í olíubornum legi sem fluttur var þangað úr landi Portúgala og er svo feitur að honum má jafna til smjörsins sem úr ólífupressum kemur.
SAM
Och ett silverne kar fanns som blott kunde öppnas med förslagenhet i vilket där lågo märkeliga fiskar utan huvuden så att tvivlande män förneka att detta är möjligt om de ej få se det men icke desto mindre är det så. Och dessa fiskar ligga i ett oljigt vatten hitfört från Portugallien för den fettnad som finns däri liksom olivpressens safter.
EA
* * *
Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar.
Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.
* * *
Yfirferðin 2025:
Ulysses: Lestrardagbók, 1. hluti (Telemakkos, Nestor og Próteus á hundavaði – verður gert betur síðar).
Skylla og Karybdís: Je est une autre
Sírenur, væl og reykur: Dyflinni syngur
Auga sjáandans: Þjóðremba og heift
Nekt og fró: Násika á ströndinni
* * *
Eldri bloggfærslur um Ulysses: