Black Ice kom út árið 2008 og fékk blíðar móttökur víðast hvar – sumir sögðu hana aðeins of langa (hún er lengsta plata AC/DC) en flestir voru sammála um að þetta væri besta plata sveitarinnar frá Razors Edge – og í Guardian, minnir mig, fór hann hreinlega aftur til Back in Black. Besta platan í 28 ár. Það er ekkert annað.

***

Skemmst er frá því að segja að þetta er húmbúkk og vitleysa. Black Ice er alls ekki góð plata. Það eru á henni 4-5 fín lög, sérstaklega á seinni helmingnum – Big Jack, Stormy May Day, Black Ice, Decibel og það er eitthvað áhugavert við Rock’n’Roll dream – það er næstum powerballaða og slíkt er ekki daglegt brauð hjá AC/DC – en það vantar allan skít í sándið, alla elektríska viðkvæmni, óróann, og lagasmíðarnar eru of fyrirsjáanlegar, meira að segja fyrir bandið sem hefur það helst að markmiði að fokkast aldrei í formúlunni. Og lag einsog Anything Goes – sem fór á tónleikaprógramið og fær óskiljanlegt hól frá tónlistarpressunni – er nafna sínum af Appetite for Destruction til mikillar skammar.

***

***

***

Riffin eru almennt fín – það eru sönglaglínurnar hérna sem eru bara ekki að gera sig.

***

Wheels er líka skammarlegt drasl.

***

Þetta er síðasta platan sem Malcolm heitinn spilar inn á. Hann samdi með bróður sínum lögin á næstu – Rock or Bust – en það var Stevie frændi sem spilaði í hans fjarveru.

***

Í einni rýninni sem ég las – hugsanlega í Rolling Stone – var því haldið fram að Phil Rudd ætti svo bágt með að tromma skraut að hann fengi Charlie Watts til að hljóma einsog Dave Grohl. Það fannst mér fyndið.

***

Annars staðar stóð að loksins hefðu drengirnir látið kynferðislega vafasama/barnalega texta vera. Það fannst rýninum voða góðar fréttir en ekki mér. Að vísu voru þeir textar ekki alltaf frábærir, en það voru gítarriffin ekkert heldur, en hvorutveggja er samt kjarnaatriði í músík sveitarinnar.

***

Það má hins vegar hafa í huga að War Machine er sennilega einhvers konar reðurlíking, þótt hún sé dulbúin. Sem gerir það strax bærilegra.

***

***

On the Black Ice tour, he was just amazing, even though he had to relearn some of the songs. That was the dementia kicking in; the evil silent thing. You can’t see it with an X-ray machine or anything like that. It is just nasty. It wasn’t so bad during the making of the album. He was still pretty good. He had some great riffs on that one as well. But as the tour went on, it started to dig in. But I will never forget the last night. Malcolm had a fire in his eyes you could spot a mile away.

– Brian Johnson um Malcolm.

***

Síðasta lagið. Á síðustu tónleikum Malcolms. Við hyllum þig, kæri!

***

***

Besta hægrihöndin í bransanum, sögðu krakkarnir í Stereophonics á Twitter í dag. Malcolm Young, sem dó í dag, var oft kallaður hjartað í AC/DC. Ekki nóg með að hann hefði samið – ásamt litla bróður sínum – hvert einasta lag sem sveitin gaf út, heldur var hann rytma- og riffstjórinn í þessu öllu saman og púlsaði þess utan á sviði – einsog hjarta – á meðan Angus þaut út um allt og baðaði sig í sviðsljósinu (einsog hvað … limur?). Malcolm hélt skrokknum gangandi. Angus skapaði kaos en Malcolm viðhélt kosmósinu. En utan sviðsins var því öfugt farið – Malcolm hætti í sveitinni um stutt skeið árið 1988 til þess að díla við alkohólisma sem var löngu farinn úr böndunum, á meðan Angus drakk aldrei og er mesta séntilmenni nema þegar hann er í skólabúningnum. Vitglöpin sem tortímdu Malcolm að lokum mátti rekja til óheilbrigðra lífshátta. Hann var ekki nema 64 ára.

***

Malcolm sagði einhvern tíma að það væru bara tvær rokk-og-ról-sveitir eftir í heiminum. Stones og AC/DC. Allir aðrir spiluðu bara rokk en hefðu ekkert ról. Að það vantaði svíngið – spilamennskan væri stíf, lokuð. Það eru nokkur ár frá því hann greindist með vitglöp og hann hefur setið á elliheimili frá því hann hætti í sveitinni – tilneyddur, síðasta túrinn lærði hann ÖLL lögin upp á nýtt fyrir hverja einustu tónleika, hann gat ekki munað þau öðruvísi. Undir það síðasta mun hann hafa verið hættur að bera kennsl á nokkurn mann. Nema Chuck Berry. Það var það eina sem var eftir – hann þekkti tónlistina og ekkert annað.

***

Í gær fórum við að pöbb og drukkum eitthvað fram á nótt. Þegar við stóðum fyrir utan og reyktum síðustu sígarettu kvöldsins sneri ég mér að Lise og Marie og sagði: Það er verið að spila lagið mitt.

***

Hann gat fengið tvo hljóma til að virka einsog fjóra, fjóra til að hljóma einsog átta, og hafði einhvern undarlegan talent til þess að næstum einsog umbreytast í hægri höndina á sjálfum sér. Dóri vinur minn kenndi mér einu sinni að lykillinn að aikido snerist um að færa vitund sína út í þá útlimi sem maður væri að hreyfa – þannig gæti maður beitt meiri styrk ef maður hefði hugann í höndinni á sér á meðan maður lyfti, frekar en ef einbeitingin og fókusinn væri öll upp í haus. Að hausinn stoppaði mann, drægi úr manni máttinn, og því flytti maður vitundina þangað sem hún ætti að vera. Malcolm var alltaf með vitundina í hægri höndinni – þar var stjórnstöðin, nöfin í líkama hans og sálu.

***

Fólk heyrir oft ekki í Malcolm fyrir Angus. En ef það hlustar þá skilur það hvers vegna margir helstu rokkgítarleikarar síðustu 30 ára tilbiðja manninn (Scott Ian, Dave Mustaine og James Hetfield eru bara þrjú dæmi). Thunderstruck er sennilega eitthvert fallegasta samspil sem þeir bræður áttu – ég hef nefnt það áður, að svona fallegur einshljóms rytmi hafði ekki verið sleginn síðan Bo Diddley samdi lagið um sjálfan sig. Og hefur ekki verið sleginn síðan.

***

***

Malcolm er annar Youngbróðirinn til þess að deyja á meðan þessu AC/DC skrifaskeiði mínu stendur. George Young, sem pródúseraði margar plötur sveitarinnar, og var heimsfrægur með Easybeats áður en AC/DC var einu sinni stofnuð, dó fyrir tæpum mánuði. Áður létust Stephen (1989) og Alex (1997) – og nú er Angus einn eftir. Angus skrifaði tilkynningu á heimasíðu sveitarinnar í dag og lauk henni svona:

As his brother it is hard to express in words what he has meant to me during my life, the bond we had was unique and very special.

He leaves behind an enormous legacy that will live on forever.

Malcolm, job well done.

***

Ferill AC/DC spannar eitthvert mesta siðspillingartímabil 20. aldarinnar. Þegar hann hefst árið 1974 er til þess að gera nýbúið að opna flóðgáttir kynlífs, eiturlyfja, áfengis og myrkra húsasunda og þær standa einfaldlega galopnar út öldina – utangarðsmenningin ryður sér rúms í öllum hverfum. Unglingar eru fullari en áður, fólkið lauslátara og fríkin markera sér svæði miðsvæðis í tilverunni. Með Stiff Upper Lip kveðja AC/DC þessa gullöld og allan hennar harm og hefja aðlögunargönguna löngu inn í öryggiskröfur 21. aldarinnar – safe space andans og holdsins, með sínum reykingabönnum, öryggisbeltum og kúltíveruðum kraftbjórum. Það er ekkert að óttast lengur.

***

Stiff Upper Lip er líka síðasta verulega góða plata sveitarinnar. Að minnsta kosti fram til þessa (það hefur enn ekkert verið gefið upp um hvort þeir séu hættir, þótt sveitin sé að sönnu löskuð). Það er rosalega mikil sing-along stemning í þessu, viðlögin eru endurtekin ad deliriam og platan þéttsetin mögulegum smáskífulögum. Þrjú voru gefin út, en auk titillagsins voru það Safe in New York City og Satelite Blues (sem er alls ekki eitt af mínum eftirlætis – ég hefði miklu frekar hent í lírukassarokksmellinn Can’t Stand Still, sem fékk ekki einu sinni að vera með í liveprógraminu – eða Damned).

***

I warn you ladies, I shoot from the hip, I was born with a stiff … stiff upper lip syngur Brian út um glottið á sér í titillaginu á meðan Angus hristir mjaðmirnar og kinkar kolli svo þessi sperrtasta efrivör í bransanum dúar undan. Dónaskapurinn ríður húsum, röftum og öðru sem verður á vegi hans – einsog fyrr.

***

Kannski er Stiff Upper Lip Bonaðasta Brianplatan.

***

Ári eftir að platan kom út var Safe in New York City sett á lista Clear Channel yfir lög sem innihéldu „vafasaman texta“. Þetta var i kjölfar árásanna á Tvíburaturnanna (en sveitin átti fyrir sex önnur lög á listanum sem höfðu ekkert með New York að gera). Sem er auðvitað skrítið. Ætli New York búar hefðu ekki einmitt haft gott af því að láta peppa í sig dálitlu trausti?

***

All over the city and down to the dives
Don’t mess with this place it’ll eat you alive
Got lip smackin’ honey to soak up the jam
On top of the world ma’ ready to slam

I feel safe in New York City
I feel safe in New York City

***

Annars meintu Youngbræður þetta víst allavega að hálfu kaldhæðið. Þeim hafði alltaf þótt New York vera fremur kaotísk borg og ótrygg en nú voru allir stanslaust að tala um hvað hún væri „örugg“ – í kjölfar borgarstjóratíðar Rudys Giuliani og no tolerance stefnunnar. Í einhverjum skilningi fjallar lagið um árekstrana þarna á milli líka – hvernig maður getur átt heimkynni sín í siðspillingunni og fundist maður óöruggur utan hennar. Þannig má a.m.k. lesa ljóðið fyrir mína parta. Stærstan hluta 20. aldarinnar áttu fríkin og utangarðsmennirnir ekkert annað athvarf – en svo er sjálfur utangarðurinn gentrífieraður, hreinsaður upp og illgresin fjarlægð.

***

„I feel safe in a cage in New York City“. Myndbandið nær kjarna þessa ágætlega. Fimm atvinnuutangarðsmenn fastir í umferðargöngum með fimmtán þúsund löggum í viðbragðsstöðu og löggubílum með sírenurnar á. Loksins seif.

***

Damned er á svipuðum slóðum – þetta er Veröld sem var nýrrar aldar. Það er verið að binda endi á siðspillinguna og þeir sem tilheyrðu henni eru á leiðinni á sorphauga mannkynssögunnar, ef ekki hreinlega bannfærðir til helvítis.

Don’t smoke don’t fight don’t light no cigarettes
Or else you’ll wind up in the can
No jokes no rights sit tight don’t fool around
You are a guest of Uncle Sam
Stand up look right don’t slouch and stand at ease
Allow no sex above the knees
When I snap you jump into the master plan
I’ll be damned
Well I’ll be damned

***

Stiff Upper Lip kemur út sama ár og fyrsta alvöru vestræna reykingabannið er sett á – í Kaliforníu árið 2000 en er að mestu samin 2-3 árum fyrr.  Stemningin vafrar inn á þetta svæði en textarnir eru þó flestir fyrst og fremst klassískir rokktextar – og kannski aldrei jafn klassískir og einmitt hérna. Can’t Stand Still gæti verið fiftísrokk – og takið eftir gítarsólóinu, þetta er Malcolm!

***

Lagasmíðarnar eru enn blúsaðri en áður en það er líka helvíti mikið Nashville í mörgu hérna og alls kyns spes trix – teknískt nákvæmlega endurtekin riffin verða stundum einsog þau séu lúppuð og minna þá á lírukassa (Can’t Stand Still og Hold Me Back) eða hreinlega nikku (viðlagið í Meltdown). Sándið er frekar hreint – AC/DC spilar miklu hreinna sánd en margir halda – og það er stóri bróðir, George Young, sem snýr tökkunum einsog í gamla daga, en í þetta sinn án félaga síns, Harry Vanda.

***

Ég hef stundum haldið því fram að lög verði betri og rokkaðri við það eitt að heita eitthvað með „rock“ í titlinum – og með þeim rökum að þetta geri enginn nema hann geti staðið við það, þetta sé ekkert sem maður blöffi – en það kom mér nokkuð á óvart að uppgötva að „jazz“ í titli virðist hafa svo til sömu áhrif. Það gerir lagið vel að merkja ekki neitt djassaðra, heldur bara rokkaðra, eða jafnvel aðeins blúsaðra.

Það er farið að hægja svolítið á framleiðslunni og drengirnir – sem eru orðnir gráhærðir karlar þegar hér er komið sögu (a.m.k. Cliff) – farnir að túra lengur. Á áttunda áratugnum komu út 8 plötur frá 1974 – að vísu eitthvað útgefið á fleiri en einni plötu (fyrst í Ástralíu, svo í breyttri mynd alþjóðlega), en manni reiknast varla færri en ein á ári. Á níunda áratugnum eru plöturnar fjórar og á þeim tíunda bara tvær – og Ballbreaker er sú fyrsta, 1995 (Razors Edge er ’90 og reiknast sem síðust á níunda áratugnum). Síðan er það bara ein á áratug (hingað til).

***

Á Ballbreaker er Malcolm alveg steinhættur að drekka og sennilega búinn að taka öll tólf sporin a.m.k. tvisvar. Og spilar frekar dannað – laust og fallega en í úthugsuðum, fullorðnum blús- (Chicago og Delta), köntrí-, diskó-, western- og rokkriffum – meira að segja smá metall í Caught With Your Pants Down. Og þetta er miklu meiri Malcolmplata en Angusar, en litli bróðir er þó byrjaður að vinna í nokkrum trixum sem blómstra ekki að fullu fyrren á næstu plötu. Þeim liggur ekkert á að þroskast frekar en fyrri daginn.

***

Rétt einsog Razors Edge hófst á vísun í Hells Bells – „like rolling thunder“ varð að kyrjuðu „thunder“ –  hefst Ballbreaker á veltunni: „a rolling rock / electric shock“. AC/DC er, einsog fram hefur komið, ekki hljómsveit sem krukkar of mikið í formúlunni. Það er engin ástæða til þess að ætla að það sem virkar á Rakhnífsegginni virki ekki líka á Knattbrjótnum.

***

Textarnir eru aldrei áhugaverðari. Einn vandræðalegur – Cover You in Oil er tilraun til þess að taka í sátt eða vinna með þá staðreynd að frá og með Back in Black er hljómsveitin mjög vinsæl á sviðum fatafellna. Í dag er alveg fáránlega mikið af YouTube myndböndum af fáklæddum konum í alls kyns „pole fitness“ við undirleik sveitarinnar, fyrir þá sem hafa gaman af slíku.

***

Í opinbera myndbandinu er dansarinn reyndar að maka sig í smurolíu.

***

Hail Caesar er einn af skemmtilegustu textunum. Og myndbandið er ekkert minna en stórkostlegt!

***

***

Down at the epicenter
Things started heatin’ up
Rockin’ up the richter scale
Swingin’ in the chariot
Around and around we go
The senators rehearse the tale

Watch out Caesar

I said hail

Hail! hail!

All hail Caesar
Hail! hail!

***

Þetta er auðvitað líka vísun í For Those About to Rock – viðlagið þar er fengið frá sama Sesari: Ave, Caesar, morituri te salutant – Heill þér Sesar, við sem brátt vöðum í dauðann hyllum þig.

***

Svo er það lagið Furor.

***

Kick the dust, wipe the crime from the main street
Await the coming of the lord
Hangin’ round with them low down and dirty
Bringing order from the boss
What’s the furor ’bout it all
Leave you pantin’, bust your balls
Kicked around, messed about, get your hands dirty
On the killin’ floor

I’m your furor
I’m your furor, baby

***

Það þarf ekki brjálæðislega mikið ímyndunarafl – ímynda ég mér – til þess að heyra „I’m your Führer, baby“ og að ímynda sér að lagið fjalli hreinlega um helförina. Sem er auðvitað sikk, en samt eitthvað fallega heiðarlegt við það – og betra en öll svarthvíta rómantíkin að ég tali nú ekki um nýlegar tilraunir á borð við Lesarann eða Strákinn í röndóttu náttfötunum eða aðrar slíkar rómantískar fegranir. En svo er auðvitað alltaf stemning í AC/DC lögum, lífsháski sem skapar spennu og óþægindi hjá okkur sem tengjum stemmarann kannski ekki alveg við helförina – og ef ég væri formaður Flokks fólksins, og hefði smá snert af húmor fyrir sjálfum mér, þá myndi ég gera þetta að þemalaginu mínu og hafa það á rípít á kosningavökum. Nasistar hafa samt aldrei húmor fyrir nasisma sínum.

***

Það hefði nánast mátt endurnýta myndbandið fyrir Hail Caesar óbreytt. Það var ekki gert og aldrei gefið út myndband, en auðvitað er einhver sniðugur (nasisti?) á YouTube búinn að klippa lagið saman við myndskeið úr Triumph des Willens:

***

***

Þetta myndband er eiginlega hilaríus. Svipurinn á Hitler þegar Brian syngur „I’m Your Furor, Baby“ í fyrsta viðlagi er óborganlegur.

***

Þess má geta að The Furor spilar hljómsveitin ALDREI live. Sennilega væri það bara of óþægilegt – og eitthvað við það útskýrir líka muninn á tónleikum og upptöku. Upptakan er kompóneruð, þar eru karakterar og stellingar og sagðar sögur – á sviðinu er tengingin milli performers og áhorfanda of bein, þar skortir alla íroníska fjarlægð, sjálfan skáldskapinn.

***

Á eftir Sesar og Hitler er farið beint í ljótakallinn. Eða þannig. Í stað Bogeyman er það „boogie man“ – búggímaðurinn. Bandaríkjamenn bera orðin (næstum) eins fram – bretar segja meira bógí en búggí, kanar búgí, ég veit hreinlega ekki hvað ástralir gera en þetta er augljóslega leikur að hugtökunum tveimur.

I like fine suits, smoke the best cigars
Like talking sex to women, girls in fast cars
I might be under the bed, ready to bite
So little girl, be careful, when you’re on your own tonight

I’m your boogie man, your boogie man

And I hope, that you don’t misunderstand your boogie man

***

***

Takið eftir því hvað Phil er flottur bakvið settið – með rettuna – og Angus tekur tryllinginn í þessari extended útgáfu, sleppir skepnunni af básnum, sýnir svo fagmannlegt stripp og kastar sér loks í gólfið með gítarinn. A plús.

***

Annars eru þeir – enn harðgiftir og bláedrú – bara mest að syngja um píkur og vín. Platan er frekar gegnheil án þess að eiga marga hápunkta. Það er ekkert lag á plötunni sem er augljós singull en heldur ekkert sem gæti ekki sloppið sem singull. Þeir hafa ekki gert jafn „jafngóða“ plötu frá Back in Black.

***

Já og Rudd er kominn aftur. Sem er auðvitað gaman en Chris Slade er líka saknað. Rudd er orginal trommarinn, og djöfulli harður, og á þar með einhvers konar forgang – en hann er líka skíthæll og hafði lent harkalega saman við Malcolm út af óreglu og fantaskap. Slade var víst svo miður sín að vera rekinn (þremur árum eftir að Rudd fór að reyna að væla sig aftur inn) að hann snerti ekki trommusettið sitt árum saman. Þegar Rudd lenti síðan í „bobba“ fyrir nokkrum árum kom Slade sem betur fer aftur. En einhvern veginn glatað að vera samt svona understudy.

***

Það er engin annar en Rick Rubin sem pródúserar og tekur við af Bruce Fairbarn – og sándið er skemmtilegt en langt í frá það besta, það er hreinlega of næntís (sem er kannski ósanngjörn aðfinnsla, platan kom út ’95). Hann fetar líka full mikið í slóða Fairbarns, sem endurlífgaði sándið í bandinu – sem hafði verið á algerum villigötum frá For Those About to Rock. Sándið er aðeins blúsaðra – sem gladdi orginalistana í aðdáendahópnum – en langt frá áttunda áratugnum þótt Rubin hafi ruslað saman einhverjum gömlum Marshallmögnurum til að taka þetta upp. Það er aðallega leiðinlegt af því maður býst við meiru af Rick Rubin – en þetta er sem sagt allt vel gert.

***

Textinn í Burnin’ Alive er líka skemmtilegur – eða „skemmtilegur“ hann er auðvitað ægilegur, ég sé fyrir mér að þetta sé byggt á martröð sem annan hvorn (eða báða) Young bræðra hefur dreymt, en þetta er falleg ljóðlist:

No firewater, or novacaine,
No thunderstorm, and no John Wayne
No kids to rock, nowhere to run
So watch out, cause this place is gonna burn

Burnin’ alive, burnin’ alive
Burnin’ alive, burnin’ alive

***

Nei, ég sló þessu upp. Burnin’ Alive fjallar um Waco, Texas. Ég var samt ansi nálægt því.

***

En hér kemur svo titillagið að lokum.

***

Þetta eru nokkrir dyggir félagar í Norður Kóreska landhernum. Fáir dátar eru jafn agaðir eða búa yfir jafn tígulegri og fágaðri göngutækni. Margir þeirra eru vel að merkja ekki þeir heldur þær. Þau, þeir, þær handleika líka talsverðan sprengikraft, einsog sjá má á myndinni.

***

Þetta er hins vegar tasmaníudjöfullinn. Hann er óagaður og býr yfir litlum þokka (en dálitlum sjarma samt) – hann er miklu nær því að vera einhvers konar náttúruafl. Það er hægt að nota hann sem vopn – einsog hermennina hér að ofan – en það er ekki hægt að ætlast til þess að hann þrammi í takt.

***

Angus Young er í senn norður kóreskur hermaður og tasmaníudjöfull. Hann er fær um brjálæðislega agaðan og teknískt fullkominn gítarleik – en stundum er honum einfaldlega sigað á tónlistina með ekkert nema botnlaust kaosið sér til handargagns. Lykilriffið í Thunderstruck, opnunarlagi Razors Edge, er dæmi um hið fyrrnefnda. Þar má segja að hann krosspikki á einum streng (sem er mótsögn, vel að merkja) af dæmalausri fingrafimi. Hann plokkar hverja nótu – engin pull-off og engin hammer-ons. Laglínan er eitt af mörgum dæmum um kántríáhrif í lagasmíðum sveitarinnar. Undir þessu leikur Malcolm bróðir hans einhvern fallegasta einshljómsrytma frá því Bo Diddley samdi lagið um sjálfan sig um árið.

***

Það er ótrúlega gaman að horfa bara á þá hreyfa sig. Malcolm dúar allur, Cliff púlsar, Angus snýst í hringi og þýtur um einsog það sé kviknað í honum og Brian belgir sig á meðan hinn nýráðni Chris Slade hamrar trommurnar af miklum móð. Þegar lagið er búið er Cliff líka alveg móður. Það eru fáar sveitir sem jafn rækilega breytast í tónlistina sem hún spilar – renna saman við hana.

***

Chris trommar reyndar aftur fyrir hljómsveitina í dag – tók við af fyllibyttunni og dópistanum Phil Rudd þegar hann í annað sinn lagði líf sitt í rúst í hittifyrra. Og Chris er ekkert síðri en Phil (annað en Simon Wright sem spilaði megnið af níunda áratugnum og gat ekki trommað rokk frekar en Mathías Hemstock, einsog þeir eru nú ágætir í annað).

***

Razors Edge er augljóst kombakk fyrir sveitina sem hefur ekki haldið tempói – ekki náð að kjarna sig sem skyldi – frá Back in Black. Líkt og fyrir Back in Black hefur hér orðið stór breyting í söngmálum – þótt ekki hafi verið skipt um söngvara er þetta í annað sinn í sögu sveitarinnar sem skipt er um textahöfund. Fyrst tók Brian auðvitað við af Bon en hér taka bræðurnir við af Brian – sem er hreinlega settur af. Þetta kom bæði til af því að hann er ekki góður textasmiður, oft hreinlega mjög vandræðalega lélegur, en líka af því Brian stóð í miðjum skilnaði – og raunar fær maður á tilfinninguna að sá skilnaður sé kjarninn í textanum við Moneytalks.

The claim is on you
The sights are on me
So what do you do
That’s guaranteed
Hey little girl, you want it all
The furs, the diamonds, the painting on the wall

Come on, come on, love me for the money
Come on, come on, listen to the moneytalk

***

Hann kærði sig víst heldur ekkert um að taka aftur við textakeflinu. Sagðist guðs lifandi feginn að vera hættur að þurfa að gera sig að fífli.

***

Hvað sem því líður er áhugavert að veita því athygli að líkt og Back in Black hefst á vísun í þrumuveðrið – „I’m rolling thunder, pouring rain/  I’m coming on like a hurricane“ – sem myndlíking fyrir endurfæðinguna, rafurmagnið sem blæs þrótti í þennan Frankenstein riðstraums og jafnstraums, sjálfan lífgjafann – þá byrjar Thunderstruck (augljóslega) á sama máta, þar sem þruman er ákölluð í taktföstum og þungum regndansi. Thunder! Thunder!

***

Það er líka áhugavert að harðgiftu gítarleikararnir Young & Young – sem nú eru þess utan báðir skrjáfaþurrir, eftir að Malcolm kom úr meðferð – semja eiginlega bara texta um fyllerí og uppáferðir. Sem er sennilega það sem áheyrendur þeirra vildu heyra.

***

Angus er ekki alltaf besti sólógítarleikarinn – sólóin á plötunum er flest kompóneruð en hann eltir þau aldrei nema að hluta á tónleikum, sleppir sér frekar lausum og gerir … bara eitthvað, sýnist mér. Það er ekkert orð sem lýsir þessu betur en dýrslegt, eins klisjulegt og það nú er (sérstaklega þegar ég er búinn að segja það svona tuttugu sinnum). En auðvitað fer þetta líka eftir því hvað maður kallar „besti“ – hvað er best. Það er enginn gítarleikari, fyrr eða síðar, sem hefur spilað af jafn miklum sprengikrafti – og það eru fáir sem hitta mig jafn rækilega í hjartastað. Eða þú veist, hittir mig í loðinn og ljótan punginn.  Hér er eitt besta dæmið af Razors Edge (allra, allra bestu dæmin eru samt af live upptökum frá áttunda áratugnum – nánast hverri sem er – og sólóið í titillaginu er líka helsturlað, það er hér aðeins neðar).

***

There’s fightin’ on the left
And marching on the right
Don’t look up in the sky
You’re gonna die of fright
Here comes the razor’s edge

You’re livin’ on the edge
Don’t know wrong from right
They’re breathin’ down you’re neck
You’re runnin’ out of lives
Here comes the razor’s edge

***

Razors Edge er einn af bestu textum AC/DC frá upphafi – sem er ekki lítið sagt, því þótt Brian hafi ekki samið góðan texta í heilan áratug þegar hér er komið sögu þá er Back in Black mikið ljóðverk og sjöundi áratugurinn með Bon í fararbroddi náttúrulega dásemd. En það er eitthvað við þessa myndlíkingu hér – um rakvélarblaðið sem ég sé fyrir mér að maður eigi von á af himnum ofan, einsog guð ætli að sléttraka jarðkringluna. Lagið er líka með einhverjum austrænum áhrifum – það er talsvert mikið af svona smá snerti af hinu og þessu í lögum AC/DC, eiginlega alveg frá upphafi (t.d. sekkjapípurnar í It’s a Long Way to the Top) og verður meira á næstu plötum – köntrí, búgí, blús og rokk segir sig sjálft, en lírukassamúsík, þjóðlög og alls kyns heimstónlist koma meira á óvart.

***

„Versti“ texti plötunnar kemur svo strax á eftir Razors Edge, einsog til að kolefnisjafna ljóðrænuna í Razors Edge (þeim finnst ekkert mjög auðvelt að taka sig alvarlega). Lagið Mistress for Christmas fjallar um núverandi forseta Bandaríkjanna og kvensemi hans. Í einhverjum skilningi er hann auðvitað alveg frábær, og lýsandi fyrir Donald, en líður líka fyrir hvað lagið sjálft er mikið jingle.

I like female form, in minimum dress
Money to spend with a capital „S“
Get a date with the woman in red
Wanna be in heaven with three in a bed
He got it, I want it
They got it, I can’t have it
But I want it, but it don’t matter
She got it and I can’t get it
I want a mistress for Christmas

***

Við fyrstu hlustun þótti mér sem seinni hluti plötunnar – b-hliðin – væri of latur, lögin hefðu mætt afgangi. En eftir því sem að ég rifjaði hann betur upp því betri finnst mér hann. Are You Ready, auðvitað, Got You By the Balls, Good Bye and Good Riddance to Bad Luck – þetta eru allt massalög þótt þau séu ekki Thunderstruck eða Razors Edge. Og boðar helvíti gott fyrir gjöfulan tíunda áratuginn.

***

Og svo er hún kláruð á þessum strangheiðarlega blússrokkslagara – þetta gæti verið Mugisonlag.

Blow Up Your Video er ellefta hljóðversplata AC/DC og kemur í kjölfar 3,9 platna niðurlægingarskeiðs í sögu bandsins og sú síðasta áður en Guns N’ Roses endurreisa list gítarrokksins og færa hana í nýjar hæðir með frumraun sinni, Appetite for Destruction.

***

Eftir því sem maður kynnist hljómsveit betur þeim mun betur sér maður mismuninn – þú veist, blús er ekki bara eitt lag, frekar en dauðarokk eða djass eða ópera, einsog mörgum finnst sem heyra bara ávæninginn annað veifið og finnst hann kunnuglegur. Ég hef verið manna fyrstur til þess að taka undir með Angus Young, sem játaði því að þeir hefðu nú eiginlega bara alltaf gefið út sömu plötuna. Það verður hins vegar minna og minna satt eftir því sem maður sökkvir sér ofan í þetta.

***

Í fyrsta lagi er ég farinn að heyra Geordie áhrifin. Þessar diskórokklaglínur voru að vísu þarna á Bon-árunum líka (t.d. í Touch too much) en þær skerpast mikið með Brian – hann er einfaldlega miklu meira clean cut en Bon og skotnari í poppmelódíum. Hugsið ykkur You Shook Me All Night Long og Mistress for Christmas (af næstu plötu, Razors Edge) versus Highway to Hell eða Riff Raff. Hér er Nick of Time augljósa Geordie lagið.

***

***

Í öðru lagi er ég farinn að taka eftir þróunum hjá Angusi. Hann fær dellur fyrir tilteknum trixum og fullkomnar þær á nokkrum árum og snýr svo að einhverju öðru. Ég hef áður nefnt þetta hvernig hann hálfvegis krosspikkar sóló riff (krosspikkar er auðvitað rangt, því hann fer oft ekkert á milli strengja – en hann er að stökkva milli áttunda á sama hátt), hvernig hann fer skyndilega að demp-plokka þriggja strengja hljóma neðarlega á hálsinum. Á þessu niðurlægingarskeiði á hann sínu bestu kafla þegar hann stillir allt gain svoleiðis í botn að gítarinn vælir við minnstu snertingu og svona hálfpartinn titrar svo yfir strengina – slengir fingrunum til og frá svo það koma flaututónar og alls kyns óhljóð ofan í sjálfar nóturnar. Tónninn verður einmitt lýsandi fyrir þetta grunnelement í konseptinu AC/DC – mann finnst einsog hann sé að leiða rafmagn úr gítarnum í hlustirnar á manni.

***

Í þriðja lagi er ég farinn að taka miklu meira eftir því hver er að tromma. Hér spilar Simon Wright – einsog á síðustu tveimur – og hann er bara hálfvonlaus. Vantar allan kraft og attitúd í hann – Phil Rudd er vandræðafígúra, augljóslega, en hann er samt fantatrommari. Með sterka upphandleggsvöðva og kann að tromma fast. Það er mikill kostur í svona bandi. Simon Wright vantar bara allt úmf – hann meinar þetta ekki nógu hart.

***

Í fjórða lagi eru þessar plötur bara svo misgóðar. Frá algerlega óeftirminnilegum klisjum yfir í sturlað og ógleymanlegt rokk. Og stutt á milli samt – samt er næstum einsog þetta sé allt sama lagið. Þetta er eilíft stríð við herslumuninn.

***

Blow Up Your Video er ekki sérstök, þannig lagað. Ég var að hlusta á Highway to Hell á vínyl áður en ég setti hana aftur á í gegnum Spotify til að skrifa þetta og það er rosalega langt á milli þeirra í gæðum. Sándið í græjunum skiptir máli, en það er líka mixið, líka að Brian er ekki að standa sig, lagasmíðarnar eru upp og ofan (Malcolm er þarna á barmi þess að fara í meðferð) og svo er bara mid eighties og það var ekki góður tími fyrir þessa músík, var enginn að uppskera mikið á gítarekrunum.

***

Brian er sterkari á þessari en síðustu þremur. Einsog hann sé að ná vopnum sínum aftur. Gítarinn er veikari en á köflum mjög fínn samt (þetta er náttúrulega alltaf sterkasta vopn sveitarinnar – þessir bræður eru dýrðlegir á sínum versta degi).

***

Það er líka augljóst að þeir eru á uppleið. Það er búið að snúa skútunni við – og styttist auðvitað í Razors Edge. Auðvitað voru þeir löngu búnir að sanna sig – maður gefur ekki út plötur einsog Highway to Hell og Back in Black og gleymist neitt í bráð – en þetta var búið að vera ansi þunnt í nokkur ár og fer nú loks að þykkna. Lög einsog This Means War, That’s the Way I Wanna Rock and Roll og Meanstreak eru einfaldlega frábær lög og hefðu sómt sér vel á hvaða Acca Dacca plötu sem er – þótt þau hefðu kannski aldrei orðið singlar.

***

Who made Who er náttúrulega ekki nein venjuleg breiðskífa – heldur að hálfu leyti best-of, 20% instrumental, 20% endurreisn tveggja laga af hinni misheppnuðu Fly on the Wall og svo titillagið, Who made Who – sem vill til að er besta lag sveitarinnar í 2,9 plötur, frá fyrsta lagi For Those About to Rock (en slær þó ekki út nema eitt og eitt lag af þeim sem AC/DC gaf út fyrir þann tíma).

***

Platan var gefin út sem soundtrack fyrir bíómyndina Maximum Overdrive sem Stephen King skrifaði og leikstýrði sjálfur – gersamlega útúrkókaður. Ég hef ekki séð myndina og King kallar hana sjálfur „moron movie“ en hann sem sagt hélt og heldur sennilega enn mikið upp á AC/DC (sennilega verið of kókaður til að heyra mikið hvað var að gerast á þessu niðurlægjandi tímabili í ferli sveitarinnar). Myndin er einhvers konar sci-fi dystópía þar sem alls konar tæki lifna við í kjölfar þess að einhver halastjarna fer of nálægt jörðinni (eða álíka, söguþráðurinn er svo mikil steypa að mér sortnaði fyrir augum þegar ég reyndi að lesa hann).

***

En platan þá. Mér heyrist vera búið að poppa svolítið upp mixið á Hells Bells og For Those About to Rock en ég myndi ekki hengja mig upp á það. You Shook Me All Night Long var alltaf poppað. Ride On er eina lagið hérna sem Bon Scott syngur. Sennilega þurfti kontrast fyrir myndina og þetta er eini kontrastinn, sirkabát, sem AC/DC eiga í handraðanum.

***

Gítarlögin tvö – D.T. og Chase the Ace eru bæði príma, enda leysir það ansi mörg vandamál hjá bandinu að þurfa ekki að eltast við söngmelódíur og þess lags hégóma. Sérstaklega er Chase the Ace flott – rosalegt gítarsóló. Hér að neðan má líka sjá brot úr bíómyndinni.

***

***

Lögin tvö af Fly on the Wall – Nervous Shakedown og Sink the Pink – eru skömminni skárri í rímixinu. En ég veit ekki hvort það er eitthvað meira. Sennilega er Sink the Pink alltílagi lag og Nervous Shakedown undir meðallagi.

***

Í titillaginu byrjar svo að móta fyrir gítarstefinu fræga í Thunderstruck. Angus er svolítið gjarn á að endurtaka sig og fullkomna það smám saman – þannig mótar líka fyrir For Those About to Rock stefinu í Shoot to Thrill, einsog ég nefndi áður. Þetta er ekki endilega spurning um sömu nótur heldur svipaða tækni og stemningu. Lagið er annars einsog ég segi mjög fínt, þótt þeir megi fara að hrista af sér eitísið sem fór þeim aldrei vel, og textinn aldrei þessu vant ekki vandræðalegur.

who made who, who made you
who made who
ain’t nobody told you
who made who, who made you
if you made them and they made you
who pick up the bill and who made who

Og myndbandið er frábært (Stephen King leikstýrði því ekki).

***

Illu er best aflokið. Fly on the Wall er ekki eftirlætis AC/DC platan mín. Og ég er orðinn langeygur eftir verulega góðu lagi. Það hefur ekki heyrst síðan í titillagi For Those About to Rock. Lagasmíðarnar á þeirri plötu voru annars slappar, Flick of the Switch náði sér aldrei almennilega í gang – alltílagi plata, en vantar herslumuninn, og geldur fyrir samanburð við Back in Black og Highway to Hell. Annað er ekki hægt. Og Fly on the Wall er einsog Flick of the Switch með aðeins betra gítarsándi og miklu verra söngsándi.

***

Gítarvinnan er á köflum góð. Og gítarsándið er fínt – einsog það hafi verið eina áherslan. Flick of the Switch var fyrsta og síðasta platan sem hljómsveitin pródúseraði sjálf – en Fly on the Wall var pródúseruð bara af gítarleikurunum. Og vissulega eru þeir Angus og Malcolm gæddir einhvers konar snilligáfu. En þetta er bara rugl. Strákarnir eru í ruglinu. Lagasmíðarnar eru metnaðarlaus meðalmennska. Þetta er ekki hægt.

***

Og textarnir eru líka rugl. Og styttist í að Brian verði bara bannað að semja texta. Sink the Pink er að vísu fínt, s.s. titillinn – ansi miklu betra en „this guns for hire / I’ll shoot you with desire“ af Flick the Switch. En heilt yfir litið er þetta bara alls ekki nógu gott. Eiginlega bara alveg kolómögulegt.

***

Ég veit ekki hvað ég á að segja ykkur. Ég vil ekki einu sinni setja inn tóndæmi hérna. Ég er bara miður mín.

Highway to Hell, Back in Black og For Those About to Rock eru allt mjög grand plötur með stóru sándi og miklu flugeldum. Eða réttara sagt miklum fallbyssuskotum og þungbærum bjölluhljómi. Þetta eru þær þrjár plötur sem Mutt Lange pródúseraði og eftir þær þrjár voru AC/DC komnir með nóg. Þá langaði ekki að dútla sér í stúdíói mánuðum saman. Þá langaði að gera eitthvað beisik. Og pródúseruðu Flick of the Switch því sjálfir.

Þegar ég var í menntaskóla keypti Teddi vinur minn sér Camaro Trans Am (leiðrétt). Ísfirskir unglingar áttu (margir, ekki allir) alltaf fáránlega mikla peninga – það var næg vinna, við bjuggum hjá foreldrum okkar, og Teddi var alltof reglusamur til að drekka þá alla einsog við hinir (ég átti bara Mitsubishi Colt). CamaroTransAminn drakk samt dálítið mikið af peningunum hans. Nema hvað – þegar maður fór á rúntinn með Tedda þurfti maður alltaf að sitja kyrr í bílnum í svona tíu mínútur eftir að hann startaði honum og áður en maður keyrði af stað. Annars drap hann bara á sér. Þetta var rosalegt tryllitæki og það var alveg svolítið kikk að sitja bara í honum, finna allan þennan kraft streyma í gegnum sig og keyra svo varlega af stað þegar bíllinn var tilbúinn. Þetta lag er svolítið einsog að fara á rúntinn með Tedda sumarið 1997. No bullshit, en samt einhvern veginn svo mikið bullshit. Og ég meina það mjög vel.

Sumarið 1995 fór ég á Mitsubishi Coltinum mínum upp á Breiðadalsheiði (þessa sem er yfir Vestfjarðagöngunum). Þar var malarvegur og frekar skuggalegur á köflum en efst á þessum hæsta fjallvegi landsins var líka langur beinn spotti. Þar keyrðum við Skarpi vinur minn einu sinni – eða ég keyrði, ég get ekki kennt neinum um nema sjálfum mér – og ég kreisti dolluna upp í 140 kílómetra hraða áður en ég missti stjórn á bílnum á mölinni, svo hann flaut bara stjórnlaust áfram út í eilífðina. Ég vissi betur en að nauðhemla og bað bara bænirnar upp á að við færum ekki út af. Sem við gerðum ekki (ég átti eftir að fara út af á þessari heiði síðar sama sumar, en það var bara á 40). Landslide er doldið einsog að fara á rúntinn yfir Breiðadalsheiðina með Skarpa.

Veturinn 2004 gaf ég út fyrstu skáldsöguna mína og keypti mér bíl fyrir fyrirframgreiðsluna. Vegna þess að ég er ekki Camilla Läckberg var fyrirframgreiðslan mín bara rétt svo temmileg og dugði fyrir 1989 módeli af Nissan Pulsar, sem gerði mér þann greiða reglulega að bila, aðallega þegar ég keyrði í gegnum Hólmavík – sem ég gerði ansi oft. Ég endaði sennilega á að gefa öllum bifvélavirkjum í Hólmavík eintak af Hugsjónadruslunni fyrir aðstoðina – sem var alla jafna mjög lipur og ódýr. En einu sinni komst ég í gegnum Hólmavík og upp á Steingrímsfjarðarheiðina – sem gegnir hlutverki erkióvinar í lífi mínu í dag, en ég hafði enn ekki lent neitt sérstaklega illa í henni þá. Ég slapp líka yfir hana þrautalaust í þetta sinn, þótt það væri snjóþungt. Í Ísafjarðardjúpi var hins vegar flughált – það var hnausþykkt skautasvell yfir öllu og svo snögghlýnaði og fór að rigna. Ég keyrði allt djúpið í fyrsta gír – fór sennilega aldrei hraðar en 20 km á klukkustund. Á einum tímapunkti ætlaði ég að fara út að pissa en áttaði mig á því að ég gat ekki stöðvað bílinn – ef ég stöðvaði hann þá rann hann bara í burtu, hvort sem var á jafnsléttu eða annars staðar. Og þá ekkert að gera nema bara að halda honum á yfirvegaðri siglingu og vona að maður kæmist þetta á þolinmæðinni. Það skall svo á vetrarnótt – þetta var í desember og ég var að koma úr því að túra landið sem upphitunaratriði fyrir Ödda Mugison – og tunglið lýsti upp djúpið og það var enga aðra bíla að sjá. Deep in the Hole er svolítið svona, einsog að rúnta einn um djúpið á 20 km hraða undir tunglinu og nóttinni.

Einu sinni húkkaði ég mér far á þýskri bensínstöð. Eða – ég húkkaði mér alls ekkert far. Ég steig út úr bílfari – það var mjög fínn Benz og bílstjórinn var að koma frá Amsterdam, útúrkókaður og hafði æpt á mig yfir brjálæðislega hátt stillta Lenny Kravitz rokkið sitt að það væri alveg frábært dóp í Amsterdam aftur og aftur í tvo-þrjá tíma. Þegar hann setti mig úr á þessari bensínstöð, sem ég man ekkert hvar var – nálægt Hamborg allavega – stoppaði mig Marokkómaður sem sat á gangstéttinni með kaffibolla og sagðist ánægður með gítarinn minn, kassagítarinn Héðinn, eða nánar tiltekið límmiða á honum sem á stóð „Alle Menschen sind Ausländer – fast überall“ (allt fólk er útlendingar, næstum alls staðar) og spurði hvort ég (og kærastan mín) værum að leita að fari. Ég jánkaði því og hann sagðist mjög þreyttur – hefði keyrt í meira en sólarhring – og spurði hvort við værum nokkuð með bílpróf. Sem við vorum með (kærastan meira að segja með meirapróf). Hann sagðist ætla að keyra aðeins lengra en svo væri gott ef við gætum tekið við stýrinu.

Hann var ekkert að grínast með að hann væri þreyttur – hann dottaði við stýrið á Mazdadruslunni sinni á fimm mínútna fresti, hrökk við á 150 km hraða og sló sig utan undir, teygði sig í kaffibollann, og alltaf spurðum við hvort við ættum ekki að taka við, þetta væri ekki nógu gott, hann gæti hvílt sig. Hann sagði jájá, jájá, skiptum á næstu bensínstöð – og brunaði svo framhjá henni (kannski sofandi). Eftir nokkrar klukkustundir af þessu ákvað hann einfaldlega að stoppa og sofa í bílnum, enda komið kvöld, og við kærastan fórum inn í eitthvað rjóður til að sofa sjálf. Badlands er svolítið einsog að keyra eftir Autobahn með syfjuðum Marokkómanni – furðu spennandi – og Brainshake er einsog að keyra eftir Autobahn með útúrkókuðum Þjóðverja.

Ég vaknaði í morgun, leit inn á internetið og fannst alltíeinu einsog ég væri lentur í ritdeilu við Spaugstofuna. Íhugaði að segja eitthvað um „fýldardaga“ og að láta teflonhúða á sig fiðrildaduftið (ég er að lesa Bláa hnöttinn fyrir Aram í þriðja eða fjórða sinn – hann veit ekki að Andri skráði mig í Framsóknarflokkinn) og svo hugsaði ég: Á ég kannski bara að snúa mér aftur að AC/DC maraþoninu? Er það ekki bara best fyrir alla?

***

Highway to Hell var besta plata AC/DC þegar hún kom út. Back in Black kom næst og var besta plata AC/DC þegar hún kom út. For Those About to Rock var besta plata AC/DC alveg þangað til fyrsta lagið – titillagið – var búið. Því restin af henni er bara alls ekki nógu góð. Það er einsog pródúsentinn Mutt Lange – sem sat við stjórnborðið á þessum þremur plötum – hafi verið farinn að ganga of langt á bandið. Á Highway eru þeir enn hráir og grófir, á Back in Black eru þeir passlegir, og á Those er búið að fínísera þá of mikið – og lagasmíðarnar orðnar of trixí. Angus ofnotar dempplokkið, útsetningarnar ganga of mikið út á að láta rytmasveitina elta sönglaglínuna, og það er alltof mikið hangið í bakraddakórnum. Svo eru laglínurnar bara ekkert spes.

***

Night of the Long Knives er til dæmis bara lélegt. Samt hafa strákarnir í Poison stolið einu riffi úr því og gert Unskinny Bop. Ekki að þeir hafi verið miklir smekkmenn.

***

Nokkur lög eru ágæt. Inject the Venom (aðallega viðlagið), Let’s Get it Up (þar sem Brian reynir að máta sig við Bonska tvíræðni með slökum árangri), Evil Walks, Spellbound … en heilt yfir er platan svolítið einsog Huey Lewis með rafmagnsgítar. Það hefur verið svolítið rætt um skort á lífsháska í skáldskap upp á síðkastið. Og það er einmitt það sem vantar hérna – lífsháskann, allt-í-botnið, samanherpta hringvöðvann – og er auðvitað sérlega vandræðalegt í ljósi þess að það er einmitt lífsháski sem AC/DC sérhæfir sig í.

***

En það er undantekning. Til að sanna regluna. Einsog ég hef áreiðanlega nefnt eru AC/DC sérfræðingar í að opna plötur, byrja þær – slá tóninn. Titillagið á For Those About to Rock er eitt af allra rosalegustu lögum sveitarinnar og gullstandard á tónleikum. Back in Black hófst á einu fallegasta og yfirgengilegasta proppsi hljómsveitarsögunnar – sérsmíðaðri 2000 punda steyptri bronsbjöllu sem hefur fylgt þeim á túr um heiminn í nærri fjóra áratugi. Og hvað gerir maður þegar maður vill toppa sig eftir svoleiðis – ef manni finnst einsog kirkjubjallan sé ekki nóg? Þá fjárfestir maður í fallbyssum.

***